Grandi

Grandi í Brekkudal hefur nú legið í eyði frá árinu 1961 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 185) en var tólf hundraða jörð að fornu mati og mjög lengi í eigu Sandakirkju[1] (sjá einnig hér Múli). Margt bendir til þess að Grandi hafi byggst úr landi Brekku. Í handritinu af Jarðabók Árna og Páls er utanmáls að finna athugasemd þar sem rökin fyrir því að svo hafi verið eru orðuð á þessa leið:

 

Auðséð er að þessi jörð, Grandi, er partur af Brekku því túnin liggja saman og það að þessi jörð á landsteiga með ánni en ekkert til fjalls þeim megin. Eru og munnmæli að hún hafi í fyrndinni gefin verið Sandakirkju frá Brekku.

 

Allar líkur benda til þess að Sandakirkja hafi eignast Granda á 15. eða 16. öld (sjá hér Múlli) og fyrir 1397 var jörðin alls ekki komin í eigu kirkjunnar því þá átti Sandakirkja engar jarðeignir nema heimalandið og Galtardal.[2] Löngu fyrr var hins vegar byrjað að búa á Granda eins og sjá má í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar er talin er hafa verið rituð um miðja 13. öld. Þar segir frá því er Þorvaldur Snorrason í Vatnsfirði boðaði Hrafn til fundar við sig á Granda er Hrafn hafði skotið skjólshúsi yfir mann sem uppvís var að fjörráðum við Þorvald.[3]Eftir það sendir Þorvaldur Hrafni orð að hann skyldi koma til fundar við hann í Dýrafjörð á þann bæ er á Granda heitir, segir í sögunni.[4] Þau orð sýna svo ekki verður um villst að búið hefur verið á Granda á fyrri hluta 13. aldar.

Á Grandafundinum sem hér var nefndur var Þorvaldur þungbúinn mjög og talaði fátt[5] og má líta á framkomu hans þar sem tilkynningu um endanleg vinslit við Hrafn. Þessi fundur á Granda var reyndar sá síðasti sem þessir tveir vestfirsku héraðshöfðingjar áttu með sér áður en Þorvaldur hóf aðfarir að Hrafni í því skyni að ná lífi hans.[6]

Á Granda var vetrarbeit talin í skárra lagi[7] og nokkurn veginn heyskapur, eins og segir í sóknarlýsingunni frá því um 1840.[8] Tún og engjar lágu þó undir áföllum frá ánni sem bæði átti til að brjóta land og varpa grjóti yfir gróðurlendið á árbökkunum.[9]

Í Jarðabókinni frá 1710 segir að mjög sé landþröngt í heimalandinu á Granda en jörðin eigi hins vegar beitiland og selstöðu í múlanum á milli Galtardals og Brekkudals.[10] Múlinn sem þarna er nefndur er sá sami og heitir Grandahorn eða Grandhorn en ætla má að í undirhlíðum þess hafi víða verið góð beit. Land Granda á þessum slóðum nær nú frá Heimstu-GrófImbuhorni.[11] Selið frá Granda, sem á er minnst í Jarðabókinni, er auðvelt að finna því tóttir þess eru enn greinilegar norðan undir Grandahorni, það er í múlanum á milli Galtardals og Brekkudals eins og höfundar Jarðabókarinnar komast að orði. Seltóttirnar eru þarna í tungunni milli Langár og Þverár, örskammt frá síðarnefndu ánni. Þrjár þeirra eru samliggjandi og þar rétt hjá hefur staðið stök lítil kytra. Dálítið fjær sýnist móta fyrir tveimur öðrum tóttum og gæti önnur þeirra hafa verið kvíin. Á Grandaselið er ekki minnst í sóknarlýsingunni frá því um 1840[12] sem bendir til þess að það hafi verið aflagt alllöngu fyrr.

Er allsherjarmanntal var tekið á Íslandi í fyrsta sinn, árið 1703, bjuggu á Granda hjónin Jón Eiríksson og Guðný Indriðadóttir. Þar á bænum var þá sonur þeirra Pantaleon að nafni, sex ára gamall.[13] Um æviferil Pantaleons á Granda er fátt kunnugt nema það að hann eignaðist að minnsta kosti tvö börn sem ekki voru sammæðra. Er þá út frá því gengið að maður með svo sérstæðu nafni hafi ekki átt sér alnafna í næsta nágrenni á sínum ævidögum. Hið eldra þessara tveggja barna Pantaleons var Guðmundur sem fæddur var árið 1730.[14] Nafn móður hans er ekki þekkt en yngra barnið eignaðist Pantaleon með konu sem Ingveldur Jónsdóttir hét.[15] Ekki væri nú þetta í frásögur færandi nema vegna þess að tíu árum síðar, árið 1749, eignaðist Ingveldur annað barn og þá með Guðmundi Pantaleonssyni. Slík barneign með syni fyrri barnsföður síns flokkaðist samkvæmt stóradómi undir sifjaspell, enda var Erlendur Ólafsson sýslumaður, er þá bjó í Ögri en síðar á Hóli í Bolungavík, fljótur að stefna þeim Guðmundi og Ingveldi fyrir lög og dóm er honum bárust fréttir af þessu stórmæli. Þann 5. september 1749 var réttur settur í Meðaldal og þar dæmdi Erlendur þau bæði til dauða fyrir drýgða og meðkennda blóðskömm.[16] Átta meðdómsmenn undirrituðu dóminn með Erlendi. Guðmundur Pantaleonsson var aðeins nítján ára er hann var dæmdur til dauða en ætla má að barnsmóðir hans hafi verið komin um eða yfir þrítugt og gæti svo sem hafa verið þaðan af eldri. Líflátsdóminn varð að fá staðfestan á Öxarárþingi áður en aftaka færi fram og því hefur Erlendur orðið að taka þau Guðmund og Ingveldi í sína vörslu meðan beðið væri eftir endanlegri niðurstöðu í máli þeirra.

Sumarið 1750 flutti hann þau bæði suður að Þingvöllum við Öxará og þar var líflátsdómurinn staðfestur af Sveini Sölvasyni lögmanni sem lét færa til bókar dómsorð er svo hljóða:

 

Guðmundur Pantaleonsson og Ingveldur Jónsdóttir hafa sín á milli brotleg orðið að blóðskammar barneign þar eð sama Ingveldur hefur áður til forna barn alið við Pantaleon Jónssyni, föður þessa sama Guðmundar, hvörju þau bæði sameiginlega hafa fyrir nærverandi lögþingisrétti viðgöngu veitt. Því skal sýslumannsins Erlends Ólafssonar og hans meðdómsmanna dómur … standa við fullkomna magt og fyrrnefndar sakapersónur, Guðmundur og Ingveldur, á lífinu straffast eftir hans hljóðan.[17]

 

Í dómi lögmanns var þó tekið fram að dauðadómnum mætti ekki fullnægja fyrr en málið hefði verið lagt fyrir konung en meðan úrskurðar hans væri beðið skyldi sýslumaður annast fangana og halda þeim í tilbærilegu fangelsi. Erlendur sýslumaður átti því ekki annan kost en taka þau Guðmund og Ingveldi aftur með sér vestur að Ögri og segir fátt af því ferðalagi né heldur af fangavistinni á sýslumannssetrinu við Djúp.

Biðin eftir úrskurði konungs varð löng. Er Alþingi settist á rökstóla sumarið 1751 lágu engin konungsbréf fyrir um mál hinna dauðadæmdu fanga í Ögri en árið 1752 barst með vorskipum sú tilkynning frá kóngi að yfirréttur á Íslandi skyldi fjalla um þetta þriggja ára gamla barneignarmál úr Dýrafirði og dæma í því. Um miðja átjándu öld var yfirrétturinn æðsta innlenda dómsstigið en málin sem hann fékk til úrskurðar voru sjaldan mörg. Dómstóll þessi starfaði aðeins nokkra daga á ári og þá við Öxará yfir þingtímann. Þar sat amtmaður í forsæti en meðdómendur voru tólf, flestir eða allir úr röðum lögréttumanna eða sýslumanna.

Magnús Gíslason á Leirá var fyrst settur amtmaður vorið 1752 en fram að þeim tíma höfðu amtmenn hér verið danskir. Eitt fyrsta verk Magnúsar í amtmannsembætti var að dæma í blóðskammarmálinu úr Dýrafirði. Það var tekið fyrir í yfirrétti 18. júlí 1752 en þá höfðu þau umskipti orðið að konan sem átt hafið börnin með Pantaleon á Granda og Guðmundi syni hans hafði safnast til feðra sinna. Hana var því ekki lengur hægt að dæma undir öxi. Í yfirréttinum kynnti Magnús Gíslason meðdómsmönnum sínum bréf sem borist hafði frá séra Ásgeiri Bjarnasyni, sóknarpresti í Ögurþingum, þar sem tilkynnt var að sakakonan Ingveldur Jónsdóttir hefði látist á sóttarsæng þann 10. maí þá um vorið.[18] Við sem eigum ættir að rekja til Erlendar sýslumanns skulum vona að ill aðbúð í fangavistinni í Ögri hafi engan þátt átt í dauða hennar.

Guðmundur Pantaleonsson var hins vegar enn bærilega á sig kominn sumarið 1752 þó setið hefði dauðadæmdur í haldi hjá Erlendi í tæplega þrjú ár. Nú var hann dæmdur í þriðja sinn til að hálshöggvast fyrir drýgða blóðskömm með sinni framliðnu barnsmóður því yfirrétturinn komst að sömu niðurstöðu og hinir sem áður höfðu um málið fjallað,[19] enda var lagabókstafurinn skýr.

En skyldi þessi liðlega tvítugi strákur sem fylgt hafði slóð föður síns, Pantaleons á Granda, í samskiptum við kvenfólkið, þá hafa verið höggvinn við Öxará sumarið 1752 ?

Nei, svo fór reyndar ekki og þess vegna heldur sagan áfram og sker sig úr mörgum öðrum sögum af sifjaspellsmálum frá 18. öld. Magnús amtmaður og meðdómsmenn hans létu ekki nægja að dæma Guðmund til að missa höfuðið heldur má segja að þeir hafi líka með vissum hætti gefið honum líf. Í dómsniðurstöðum þeirra var nefnilega tekið fram að drenginn mætti ekki höggva fyrr en konungur hefði staðfest dóminn.[20]

Enn liðu þrjú ár uns Friðrik konungur V sagði sitt síðasta orð um dómana í máli Guðmundar Pantaleonssonar og allan þann tíma sat þessi ungi Dýrfirðingur í fangavistinni í Ögri. Er kóngur fékk yfirréttardóminn frá Magnúsi Gíslasyni í hendur ákvað hann að skjóta máli Guðmundar til hæstaréttar í Kaupmannahöfn og þar var sonur Pantaleons dæmdur til dauða í fjórða sinn og alltaf fyrir sama afbrot, barneign með barnsmóður föður síns. Hæstiréttur dæmdi í máli Guðmundar þann 8. mars 1755 en 18. apríl á sama ári gaf konungur út tilskipun um að þrátt fyrir alla dauðadómana skyldi fanginn í Ögri halda lífi. Í stað lífláts fyrirskipaði konungur ævilanga þrælkun í fangelsi[21] og haustið 1755 var Guðmundur fluttur utan til að afplána sína refsingu í kóngsins Kaupmannahöfn. Þá voru sex ár liðin frá því hann fyrst var dæmdur til dauða á héraðsþingi í Meðaldal og má ætla að allan þann tíma hafi hann verið fangi hjá Erlendi sýslumanni í Ögri eða máske á Hóli í Bolungavík síðasta árið hjá sama yfirvaldi.

Þann 17. október 1755 var nafn Guðmundar Pantaleonssonar fært inn í þrælarulluna í Stokkhúsinu[22] sem þá var eitt helsta fangelsi Kaupmannahafnar. Fangar sem þar dvöldu þræluðu flestir í járnum alla daga og urðu margir að þola hinar herfilegustu pyndingar fyrir smávægileg brot á fangelsisreglum.[23] Í þessari þrælakistu varð fáum langra lífdaga auðið. Í skrám Stokkhússins er Guðmundur sagður vera lútherskur slæpingi frá Íslandi, dæmdur fyrir sifjaspell til ævilangrar fangelsisvistar.[24] Við komu hans í Stokkhúsið er líka skráð að hann eigi eitt barn[25] og má því telja alllíklegt að afkvæmi þeirra Ingveldar hafi komist á legg, enda þótt fæðing þess kallaði dauðadóm yfir foreldrana.

Guðmundur Pantaleonsson dvaldist í Stokkhúsinu í tæplega átta ár en mun um skeið hafa átt þar betri vist en aðrir fangar áttu að venjast. Í sínu mikla og merkilega skáldverki, Haustskipum, sem út kom árið 1975 fræðir Björn Th. Björnsson okkur um líf fanganna í Stokkhúsinu um og eftir miðja 18. öld og dregur upp myndir af átakanlegum örlögum sumra Íslendinganna sem þar dvöldust. Margt er þar byggt á varðveittum gögnum og svo í haginn búið af hendi höfundarins að jafnan er auðvelt að greina á milli skáldskapar og skjallegra heimilda en þetta tvennt þó fléttað saman af snilld svo úr verður hvort tveggja í senn traust sagnfræði og heillandi skáldskapur.

Í Haustskipum er Guðmundur Pantaleonsson hafinn í hæðir skáldskapar en jafnframt vísað í merkilegar heimildir sem einar sér sýna svo ekki verður um villst að hann hefur ratað í furðuleg ævintýri á sínum Stokkhúsárum. Hér verða eingöngu kynntar fáeinar staðreyndir úr skjallegum gögnum en þeir sem njóta vilja skáldskaparins verða að snúa sér til Björns.

Haustið 1757 barst konungi bréf, dagsett 16. september á því ári og undirritað með nafni Guðmundar Pantaleonssonar en þar biður hann  auðmjúklega um náðun. Bréf þetta er enn varðveitt[26] en engum sem skyn ber á getur dulist að það er alls ekki skrifað af honum eða einhverjum almúgamanni af líkum toga heldur af þaulæfðum skrifara sem vel gæti verið úr efstu lögum þjóðfélagsins. Það er rithöndin sem sýnir þetta því um miðja 18. öld höfðu múgamenn enga aðstöðu til að temja sér lærðra manna skrift, síst dauðadæmdir fangar, þó margur kynni að klóra nafnið sitt og sumir gott betur.

Sú fullyrðing að Guðmundur hafi alls ekki skrifað bréfið styðst líka við þau rök að er tvær vikur voru liðnar frá því náðunarbeiðnin var send tekur sig til ekki minni maður en C. V. Ahlefeldt greifi í stríðskansellíinu og ritar konungi sérstakt meðmælabréf til stuðnings náðunarbeiðni stráksins frá Granda. Slíkt og þvílíkt mátti kallast fáheyrt, að svo háttsett persóna léti sig varða örlög múgamanns úr þrælakistunni. Hér hlaut einhver skýring að liggja að baki og kemur hún reyndar fram að nokkru leyti í bréfi greifans sem er á þessa leið í þýðingu Björns Th. Björnssonar:

 

Stríðsráðuneytinu hefur borist allraauðmjúkust umsókn frá þræli einum hér við Virkið, að nafni Gudmunder Pantlosen, um lausn frá frekari refsingu.

Bæði hans hágöfgi stríðsmarskálkurinn og kommandantinn von Numsen sjálfur og nú síðan ekkjufrú hans hafa oft sýnt áhuga sinn á Pantlosen þessum og því sótt um frelsi fyrir hann. Verði það veitt hyggst frú stríðsmarskálkinnan að taka hann í þjónustu sína. Fyrir því höfum vér ei getað undan vikist að mæla þénustusamlega með umsókn þessari til ráðuneytis hans konunglegu hátignar og beinum því til yfirvegunar velnefndrar stjórnardeildar hvort ekki sé unnt að veita umbeðna náðun þar sem þrællinn er ætíð sagður hafa hegðað sér vel.

  1. október Anno 1757,
  2. V. Ahlefeldt.[27]

 

Nú er frá því að segja að stríðsmarskálkurinn Michael von Numsen, sem á er minnst í bréfi greifans og var einn æðsti maður í Danaher, hafði andast á áttræðisaldri nokkrum vikum áður en Friðriki kóngi tóku að berast beiðnir um náðun Guðmundar Pantaleonssonar.[28] Ekkja hans sem hét Anne Sophie Margrethe Marie Thomasine von Numsen, fædd Ingenhaven, mun hins vegar hafa verið við góða heilsu, enda aðeins liðlega fimmtug að aldri.[29] Í bréfi sínu leggur Ahlefeldt greifi áherslu á að það sé hún sem vilji fá Guðmund lausan og ætli að taka hann í sína þjónustu. Hér vakna stórar spurningar. Hvernig mátti það vera að allt þetta hefðarfólk fengi slíkan áhuga á þeim arma syni Pantaleons á Granda? Athygli vekur að náðunarbeiðnir vegna Guðmundar taka ekki að berast konungi fyrr en marskálkurinn er dauður og bendir það, hvað sem öðru líður, eindregið til þess að það hafi verið frú hans sem vildi fá piltinn úr Dýrafirði leystan úr prísundinni og að hún hafi fengið Ahlefeldt greifa til liðs við sig. Einhver hafa kynni þeirra verið og geta í rauninni vart hafa orðið með öðrum hætti en þeim að marskálksfrúin hafi fengið þrælinn Guðmund léðan frá Stokkhúsinu til þjónustustarfa hjá sér og hann orðið henni með nokkrum hætti kær. Áleitnum spurningum um furðuleg tengsl þessara tveggja einstaklinga úr hæstu og lægstu tröppu þjóðfélagsstigans verður ekki svarað nema með hugarflugi. Í skáldverki Björns Th. Björnssonar fær marskálksfrúin girnd á ungum líkama fangans og býður honum í sæng sína með þeim afleiðingum að þaðan í frá má hún ekki til þess hugsa að missa hann úr sinni þjónustu. Strax eftir jarðarför eiginmannsins, hins aldna marskálks, hefst hún því handa við að fá sinn unga friðil leystan úr þrælakistunni. Þar skáldar Björn í eyðurnar en í rauninni er líklegast að einmitt svona hafi þetta verið því aðrar tilgátur sem nefna mætti eru allar mun ólíklegri.

Í dönskum alfræðiritum má lesa um frama marskálksfrúar þessarar við konungshirðina en þar var hún um skeið æðst allra hirðmeyja. Á gamalsaldri sinnti hún uppeldi Friðriks konungs VI og náði að vekja með honum kærleiksþel í sinn garð.[30]

Er Friðriki konungi V barst bréf Ahlefeldts greifa, þar sem mælt var með náðun Guðmundar, lét hann strax skrifa stiftamtmanninum yfir Íslandi og bað um álit hans á þessu máli.[31] Stiftamtmaður var þá O. M. Rantzau greifi en hann bjó reyndar ekki á Íslandi heldur suður í Lübeck í Þýskalandi. Þangað hefur armur marskálksekkjunnar með mörgu nöfnunum ekki náð því stiftamtmaðurinn treysti sér ekki til að mæla með náðunarbeiðninni.[32] Því má segja að sóknin mikla fyrir lausn Guðmundar Pantaleonssonar úr Stokkhúsinu hafi strandað í Lübeck. Án jákvæðrar umsagnar frá stiftamtmanni vildi konungur ekki gefa fangann lausan og hafnaði því náðunarbeiðninni 11. febrúar 1758.[33] Ætla má að úr því hafi ferðum Grandamanns til salarkynna marskálksekkjunnar tekið að fækka og hann mátt þola harðari kosti. Svo mikið er víst að vorið 1763 sat hann enn í dýflissum Stokkhússins, orðinn 33ja ára gamall, og hafði þá verið fangi í nær 14 ár, sex hjá sýslumanni Ísfirðinga og tæplega átta hér í grennd við Austurport Kaupmannahafnar. En nú tók enn að draga til tíðinda.

Snemma vors árið 1763 hófst á æðstu stöðum danska stjórnkerfisins umræða um að senda íslenska fanga úr Stokkhúsinu og Friðrikshafnarvirki til nyrstu endimarka Danaveldis austan Atlantshafs, það er að segja til Varangursskaga á Finnmörk[34] en skagi þessi liggur rétt við landamæri Noregs og Rússlands, norðan sjötugustu breiddargráðu.

Um miðjan maí á þessu vori sendi Rentukammerið í Kaupmannahöfn bréf til amtmannsins á Finnmörk þar sem tilkynnt var að tólf íslenskir fangar úr þessum tveimur fangelsum hefðu lýst sig fúsa til að láta flytja sig til Finnmerkur sem frjálsa menn en ekki þræla. Jafnframt var tekið fram í bréfinu að konungur hefði mælt svo fyrir að þeir skyldu leystir úr festingarþrældómi og sendir norður þangað til að fjölga mannfólkinu í þessum nyrstu byggðum.[35] Nöfn Íslendinganna tólf er senda átti norður á Varangursskaga eru nefnd í bréfinu til amtmanns og þar er Gudmunder Pantaleonsen númer fimm[36] svo hér er ekki um að villast. Tekið var fram  í bréfinu að þarna norður við Íshaf skyldi þessum fyrrverandi tugthúslimum gefinn kostur á að sjá sér farborða á löglegan hátt eins og aðrir almúgamenn annað hvort við fiskirí eða í vinnumennsku.[37]

Guðmundur Pantaleonsson var leystur úr fjötrum Stokkhússins 1. júní 1763 eins og sjá má í skránni sem þar var haldinn yfir komu- og brottfarardaga fanganna. – Nach Finnmarken transportiert, stendur þar, ritað á þýsku máli,[38] – fluttur til Finnmerkur. Sunnan við mynni Varangursfjarðar eru norsk/rússnesku landamærin en norðan til við fjarðarmynnið er þorpið Vardö og þar stóð á 18. öld nyrsti kastali í heimi, rösklega 400 kílómetrum fyrir norðan heimskautsbaug. Á þessum stað stigu sjö Íslendingar á land 23. júlí sumarið 1763 og höfðu með sér þann áttunda sem geispað hafði golunni í hafi[39] á hinni löngu siglingu frá Kaupmannahöfn norður fyrir Noreg. Allt voru þetta fangar úr Stokkhúsinu eða Friðrikshafnarvirki.[40] Fógetinn sem kvittar fyrir móttöku þeirra nefnir engin nöfn en fullvíst má telja að Guðmundur Pantaleonsson hafi verið í þessum hópi ellegar einn hinna fjögurra sem ætla má að sendir hafi verið norður þangað með öðru skipi á þessu sama sumri.

Nær óhugsandi má kalla að nokkur þeirra Íslendinga sem til Finnmerkur voru sendir hafi átt afturkvæmt út til Íslands því almúgafólk á nyrstu útskögum Danaveldis átti þá engan kost á löngum ferðalögum. Vafalaust hefði Pantaleon á Granda þótt það undarleg spásögn ef einhver hefði tjáð honum að barneign hans með Ingveldi Jónsdóttur myndi síðar leiða til þess að strákurinn Gvendur yrði sendur í útlegð norður á Finnmörk. En þannig varð þetta nú samt í raun því hefði karlinn Panti látið Ingveldi í friði gat sonurinn lagt lag sitt við hana án þess að verða dæmdur fyrir sifjaspell.

Er Guðmundur Pantaleonsson barst norður á íshafsströnd Finnmerkur var hann 33ja ára gamall eða því sem næst. Hann átti þá margbrotna og merkilega reynslu að baki og enn kynnu að hafa beðið hans undur og stórmerki þar handan við haf og land. Fólkinu sem hann þekkti ungur í Dýrafirði hefur hann þó aldrei gleymt eða þinghaldinu í Meðaldal þar sem hann var fyrst dæmdur til dauða. Við undirbúning þessa ritverks hefur ferill hans í norðursetunni á Finnmörk ekki verið kannaður en gaman væri ef einhver lesandi tæki sér það verk fyrir hendur og skilaði fréttunum heim að Granda. Ekki er piltur Pantaleons ólíklegur til að hafa getið af sér afkvæmi, máske í Lebesby eða Laxafirði og kynni einnig að hafa blandað blóði við meyjar af ættkvísl Finna eða Sama.

Á fyrri hluta 19. aldar hafa einhverjir heimamenn á bæjunum í Brekkudal enn kunnað að segja frá Pantaleon Jónssyni og Guðmundi syni hans. Þá bjó á Granda maður sem Bjarni hét og var Ólafsson, kallaður murra [41] Fimm átti hann börnin[42] og gætu reyndar hafa verið fleiri en líka hund sem Snigill hét. Máske hefur stundum látið nokkuð hátt í kór barna og hunda á Granda á þeim löngu liðnu dögum eða svo vill að minnsta kosti vera láta höfundur þessarar stöku:

 

Grandabörnin góla hér

gerir Snigill urra.

Allt eins láta ungarner

og hann Bjarni murra.

 

Þórður Þ. Grunnvíkingur, er svo nefndi sig og fæddur var árið 1878,[43] færði margt í letur og hefur sumt af því varðveist í handritum. Hann segir á einum stað að í tíð séra Bjarna Gíslasonar á Söndum, það er á árunum kringum 1840, hafi hjón ein á Kirkjubóli í Þingeyrarhreppi eignast stúlkubarn.[44] Á meðgöngutímanum dreymdi móðurina oft álfkonu er kvaðst heita Loðinkinna.[45] Í þessum draumum beiddi álfkonan hina verðandi móður jafnan um nafn og hét illu um ef eigi yrði hlýtt beiðni hennar.[46]

Þegar barnið var borið til skírnar fór móðirin þess á leit að því yrði gefið nafnið Loðinkinna en presturinn þvertók fyrir það og skírði stúlkuna Ólöfu.[47]

Skömmu síðar vitjaði Loðinkinna móður Ólafar enn í draumi og kvað hana illa hafa gert að láta barnið ekki heita nafni sínu.[48] Að sögn Þórðar Þ. Grunnvíkings þótti nýnefnd Ólöf ódæl mjög í uppvexti en þessi ærsl á henni voru talin stafa af ámælum álfkonunnar.[49] Stúlkan varð ei gömul og dó að sögn Þórðar í aumri vesöld.[50] Augljóst virðist að þarna hafi Þórður Grunnvíkingur ruglað saman húsfreyjunum Ástríði Tómasdóttur á Kirkjubóli og Sigríði Magnúsdóttur á Granda hér í Brekkudalnum en eiginmenn beggja hétu Bjarni og voru þeir báðir Ólafssynir. Á þeim árum sem séra Bjarni Gíslason var prestur á Söndum eignuðust hjónin á Granda dóttur sem skírð var Ólöf og var hún hér 7 ára gömul hjá foreldrum sínum haustið 1845.[51] Á Kirkjubóli fæddist hins vegar engin Ólöf í tíð séra Bjarna Gíslasonar, á árunum 1836-1846, a.m.k. ekki svo kunnugt sé.[52]

Kona Bjarna Ólafssonar murru á Granda hét eins og fyrr var nefnt Sigríður Magnúsdóttir og eitt barna þeirra var Ólöf, sem um fertugsaldur giftist Kristjáni Oddssyni er kallaði sig Dýrfjörð.[53] Það hjónaband mun ekki hafa staðið lengi.

Árið 1860 var tvíbýli á Granda og á annarri hálflendunni bjó þá kona sem gekk undir nafninu maddama Thomsen og er við hæfi að kynna hana hér lítið eitt nánar. Á fyrsta áratug 19. aldar var Lauritz Michael Knudsen verslunarstjóri við verslun sem Westy Petræus kaupmaður átti í Reykjavík. Árið 1809 veitti Jörundur hundadagakonungur honum leyfi til að kvænast Margréti Andreu, sem fædd var Hölter, en hafði verið gift Claus Mohr, verslunarstjóra í Reykjavík.[54] Frá hinum fyrri eiginmanni sínum hafði Margrét Andrea hlaupið eftir skamma sambúð, enda var hann langtum eldri en hún,[55] og með leyfi Jörundar gekk hún nú fús  í  hjónaband  með  L. M. Knudsen. Þá var hann þrítugur en hún tveimur árum yngri. Nokkru eftir að L. M. Knudsen gekk að eiga Margréti Andreu hóf hann sinn eigin verslunarrekstur og er sagður hafa verið einn athafnamesti kaupmaðurinn í Reykjavík á öðrum og þriðja áratug 19. aldar.[56] Með konu sinni, sem nú var orðin maddama Knudsen, eignaðist Lauritz Michael ellefu börn, fimm syni og sex dætur.[57] Ein dætranna var Christiane Dorothea Knudsen sem margt núlifandi fólk kann enn að nefna vegna tengsla við Jónas Hallgrímsson skáld sem á sínum tíma felldi til hennar brennandi ástarhug. Kristjana Knudsen varð reyndar nokkru síðar kaupmannsfrú á Þingeyri og kemur því einnig við sögu annars staðar á þessum blöðum (sjá hér Þingeyri).

Systir hennar, einu ári yngri, var Ane Margrethe Knudsen, fædd 28. desember 1815,[58] og það var hún sem á fimmtugsaldri fór að búa á hálfri jörðinni Granda í Brekkudal. Í rauninni er furðulegt að hugsa sér þessa rúmlega fertugu hálfdönsku kaupmannsdóttur úr Reykjavík í hlutverki búandi ekkju á kotbæ vestur í Dýrafirði en svona höguðu nú örlögin þessu samt.

Anna Margrét Knudsen var tólf ára þegar kaupmaðurinn, faðir hennar, andaðist árið 1828. Fjórum árum síðar var hún sextán ára hjá móður sinni í Landakoti í Reykjavík.[59] Það var haustið sem Kristjana systir hennar giftist Hans Edward Thomsen og Jónas Hallgrímsson lét loks verða af því að sigla til Kaupmannahafnar. Um tvítugsaldur dvaldist Anna Margrét um skeið vestur í Dýrafirði hjá Kristjönu systur sinni en eiginmaður Kristjönu var þá orðinn kaupmaður á Þingeyri (sjá hér Þingeyri). Þann 17. apríl 1837 er hún vottur við barnsskírn hér vestra[60] og hefur því að líkindum farið vestur með Kristjönu haustið 1836.

Haustið 1837 sest hún að á Patreksfirði, er þá sögð festarmær og tekið fram að hún komi norðan úr Dýrafirði.[61] Eins og vænta mátti var nú stutt í hjónaband en sumarið 1838 gekk hún að eiga Jess Nicolaj Knudtzon, ungan kaupmann á Patreksfirði er þangað hafði komið frá Reykjavík ári fyrr.[62] Brúðgumi þessi var reyndar sonur P. Chr. Knudtzons gróssera[63] í Kaupmannahöfn sem var með umsvifamikinn verslunarrekstur í Reykjavík í hálfa öld og álitinn ríkastur allra Íslandskaupmanna. Önnu Margréti Knudsen hafði grósserasonurinn kynnst í Klúbbnum í Reykjavík[64] en skemmtistaður sá stóð þar sem nú er hús Hjálpræðishersins á horni Túngötu og Aðalstrætis.

Hjónaband Önnu Margrétar og Jess Nicolaj stóð stutt því árið 1840 andaðist þessi ungi Patreksfjarðarkaupmaður í janúarmánuði, rétt um þrítugsaldur, en þá höfðu þau hjónin eignast einn son.[65] Að þessu sinni var Anna Margrét þó skamma hríð í ekkjustandi, aðeins í níu mánuði, því 16. október 1840 giftist hún William Thomsen[66] sem verið hafði starfandi við verslun fyrri manns hennar og tók nú við þeim rekstri. William þessi var reyndar bróðir Hans Edwards Thomsen, kaupmanns á Þingeyri, sem kvæntur var Kristjönu, systur Önnu Margrétar.[67]

Næstu sjö árin rak William Thomsen verslun sína á Patreksfirði og má ætla að Anna Margrét, kona hans, hafi átt þar góða daga en haustið 1846 seldi hann Þorsteini Thorsteinsson, síðar verslunarstjóra á Þingeyri, verslunina og tók Þorsteinn við rekstrinum árið eftir.[68] William Thomsen kaupmaður og fjölskylda hans hverfa þá frá Patreksfirði og hafa að líkindum flust til Danmerkur því þar fæddust tvær yngstu dætur þeirra hjóna sem sagðar eru 2ja og 3ja ára á sóknarmannatali frá haustinu 1852.[69] Svo virðist sem Thomsen kaupmaður eða máske kona hans hafi viljað komast aftur til Patreksfjarðar því 15. ágúst 1852 kaupir hann Vatneyrarverslun á ný[70] og þangað eru þau hjónin komin með öll sín börn þegar manntal var tekið um haustið.

Á sóknarmannatali prestsins í Sauðlauksdal frá haustinu 1852 fær Anna Margrét þá einkunn að hún sé siðprúð heiðurskona og rétt vel að sér en um hegðun eiginmanns hennar lætur prestur nægja að taka fram að hún sé sæmileg.[71] Þann 22. júní 1853 andaðist William kaupmaður Thomsen á Patreksfirði úr tærandi sjúkdómi[72] og stóð þá Anna Margrét Knudsen, sem nú hét maddama Thomsen, uppi sem ekkja í annað sinn og nú með átta börn á aldrinum þriggja til fimmtán ára.[73] Sjálf var hún 37 ára gömul. Til Patreksfjarðar hafði hún komið frá Dýrafirði sextán árum fyrr og nú fór hún aftur til Dýrafjarðar þar sem systir hennar og mágur héldu enn uppi verslunarrekstri þó sjálf byggju þau úti í Kaupmannahöfn nema rétt yfir hásumarið.

Haustið 1855 var ekkjan frá Patreksfirði orðin ráðskona hjá Þorsteini Thorsteinsson sem árið 1846 hafði keypt Vatneyrarverslun af manni hennar en tók sumarið 1855 við starfi verslunarstjóra á Þingeyri fyrir Hans Edward Thomsen kaupmann sem giftur var systur Önnu Margrétar. Er manntal var tekið 1. október 1855 hafði hún hjá sér á Þingeyri fimm af börnum sínum.[74] Þorstein Thorsteinsson og konu hans Hildi hefur hún þekkt frá Patreksfirði en þar hafði Þorsteinn verslað fyrst á Vatneyri og síðan frá 1853 á Geirseyri.[75] Ekki er alveg ljóst hversu lengi maddama Thomsen var hjá Þorsteini í kaupmannshúsinu á Þingeyri en gera má ráð fyrir að þar hafi þessari tvöföldu ekkju gefist kostur á að virða fyrir sér Napóleon prins og hans fríða föruneyti sem heimsótti Þingeyri sumarið 1856 (sjá hér Þingeyri).

Haustið 1858 var maddama A. M. Thomsen hins vegar farin að búa á Granda[76] og þar átti hún yfirleitt heima næstu tíu árin[77] en var þó einn vetur á Þingeyri er sonur hennar var þar verslunarstjóri (sjá hér Þingeyri). Allar dætur maddömunnar, sem voru fjórar, fluttust með henni að Granda og voru hér árið 1860, þá á aldrinum 9 til 17 ára.[78]  Aftur á móti virðast synirnir, sem líka voru fjórir, aldrei hafa sest hér að.[79] Fátt er nú vitað um húsakynni á Granda árið 1860 en líklegt verður að telja að þau hafi verið nokkuð ólík því sem dóttir Knudsens kaupmanns átti að venjast á uppvaxtarárum í Reykjavík eða síðar meðan allt lék í lyndi á Patreksfirði og úti í Danmörku. Ekkju þessari á Granda hefur líka vafalaust stundum orðið hugsað til systra sinna þriggja sem á lífi voru og allar giftar háembættismönnum í Reykjavík eða þar í grennd, dómstjóra, sýslumanni og dómorganista með fleiru. Þeirra kjör hafa verið ólík því sem í boði var á Granda. Árið 1858 var bústofn ekkjunnar á Granda ein kýr og ellefu mylkar ær.[80]

Athygli vekur að á árum sínum á Granda var maddama Thomsen aldrei með neina vinnumenn og þar var yfirleitt sáralítið um karlmenn á heimilinu. Hins vegar hélt hún jafnan eina eða tvær vinnukonur og þrjár dætranna bjuggu með henni á Granda allan tímann.[81] Elsta dóttirin Laura Williamine Margrethe giftist 30. apríl 1864 Brynjólfi Guðmundssyni á Mýrum, elsta syni Guðmundar Brynjólfssonar, hreppstjóra og dannebrogsmanns,[82] og fluttist þá yfir fjörðinn liðlega tvítug að aldri.

Hugsanlegt er að maddaman á Granda hafi notið einhvers styrks frá verslun mágs síns á Þingeyri en í þeim efnum er þó allt á huldu. Hans Edward Thomsen, mágur hennar, seldi reyndar verslun sína á Þingeyri árið 1866 (sjá hér Þingeyri) en ekkjan á Granda hélt áfram sínum búskap hér allt til ársins 1869 en þá fluttist hún, 53ja ára gömul, til sonar síns sem orðinn var verslunarstjóri á Skagaströnd.[83]

Kona þessi á Granda hafði á uppvaxtarárum vanist kaupstaðarlífi og nokkru fjölmenni og síðar verið búsett í Danmörku um skeið svo vel má vera að henni hafi stundum þótt einmanalegt á Granda þegar myrkur grúfði yfir og allt var á kafi í snjó. Hér í Brekkudalnum var hún þó við alfaraleið milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og ekki ólíklegt að ýmsir sem leið áttu um dalinn hafi gert vart við sig á Granda. Einn þeirra var séra Arngrímur Bjarnason á Álftamýri sem þjónaði Sandaprestakalli á árunum 1865-1871. – Gáfuð vel, einkar siðprúð, ritar hann árið 1867 í húsvitjanabók sína við nafn ekkjunnar á Granda.[84] Um samskipti hennar við nágranna er fátt kunnugt en við skulum vona að séra Jón Benediktsson á Söndum og Guðmundur norðlenski, sem á þessu skeiði hafðist löngum við í Skála sínum þar í grennd (sjá hér Sandar), hafi getað stytt henni stundir og glatt hjartað í ekkjunni.

Maddama Anna Margrét Thomsen, sem fædd var Knudsen og bjó á Granda, andaðist á Ísafirði árið 1884.[85] Þar var hún síðast í skjóli dóttur sinnar og eiginmanns hennar,[86] J. N. Falck, en hann hafði áður verið verslunarþjónn á Þingeyri.[87] Börn maddömu Thomsen ólu flest aldur sinn hérlendis og nú (1993) eru niðjar þessarar svolítið framandi ekkjufrúar á Granda orðnir ærið fjölmennir eða nokkuð á annað þúsund eins og lesendur þesssara orða geta séð í bók Mörtu Valgerðar Jónsdóttur sem ber heitið Knudsensætt.

Hér hverfum við nú frá Guðmundi Pantaleonssyni og maddömu Thomsen á Granda sem bæði hröktust fyrir sviptivindum tilverunnar út af alfaravegi sinna jafningja.

Frá árbakkanum á Granda göngum við næst þessi fáu skref upp að bæjarhólnum á Brekku, sem stendur hærra og fjær ánni, en tún jarðanna liggja saman.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] D.I. XV, 577.  Jarðab. Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 46-47.  Ný jarðabók fyrir Ísland 1861, 71.

[2] D.I. IV, 145.

[3] Sturlunga I, 350-354.

[4] Sama heimild.

[5] Sama heimild.

[6] Sama heimild, 354-359.

[7] Jarðab. Á. og P. VII, 47.

[8] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 56.

[9] Jarðab. Á. og P. VII, 47.  Sóknalýs. Vestfj. II, 56.

[10] Jarðab. Á. og P. VII, 47.

[11] Örnefnaskrá.

[12] Sbr. Sóknalýs. Vestfj. II, 58-59.

[13] Manntal 1703.

[14] Acta yfirréttarins, bls. 17.  Björn Th. Björnsson 1975, 332 (Haustskip).

[15] Acta yfirréttarins, bls. 15-18.

[16] Alþingisbækur Íslands XIII, 467-468.

[17] Alþingisbækur Íslands XIII, 467-468.

[18] Acta yfirréttarins, bls. 15-18.

[19] Sama heimild.

[20] Acta yfirréttarins, bls. 15-18.

[21] Björn Th. Björnsson 1975, 264.

[22] Sama heimild, 332-333.

[23] Sama heimild, 338-340.

[24] Sama heimild, 332-333.

[25] Sama heimild.

[26] Björn Th. Björnsson 1975, 214-215.

[27] Sama heimild, 217.

[28] Björn Th. Björnsson 1975, 211.

[29] Dansk Biografisk Leksikon X, 571-572 (Kph. 1982).

[30] Sama heimild.

[31] Björn Th. Björnsson 1975, 222-225.

[32] Sama heimild, 264.

[33] Björn Th. Björnsson 1975, 265.

[34] Sama heimild, 304-311.

[35] Sama heimild, 310-311 og 337.

[36] Sama heimild.

[37] Sama heimild.

[38] Sama heimild, 332-333.

[39] Sama heimild, 322.

[40] Sama heimild.

[41] Ársrit Sögufél. Ísfirðinga 1974, 55.  Manntal 1845.

[42] Manntal 1845.

[43] Vestf. ættir II, 558.

[44] Lbs. 47084to / Þórður Þ. Grunnvíkingur.

[45] Sama heimild.

[46] Sama heimild.

[47] Lbs. 47084to / Þórður Þ. Grunnvíkingur.

[48] Sama heimild.

[49] Sama heimild.

[50] Sama heimild.

[51] Manntal 1845, vesturamt, bls. 264.

[52] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Sandapr.kalls.  Manntal 1840.  Manntal 1845 og nafnalykill þess.

[53] Manntal 1845.  Lbs. 23744to, Dagbók Sighvats Grímssonar Borgfirðings 30.9.1879.

[54] Klemenz Jónsson 1944, I, 162-163.

[55] Sama heimild.

[56] Kaupstaður í hálfa öld 1786-1836, bls. 60 (Safn til sögu Reykjavíkur gefið út 1968).

[57] Knudsensætt I, 22-23.

[58] Prestsþj.b. Reykjavíkurpr.kalls.

[59] Sóknarm.tal Reykjavíkurpr.kalls 1832.

[60] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.

[61] Prestsþj.b. Sauðlauksdalspr.kalls.

[62] Sama heimild.

[63] Jón Helgason 1958, 28 (Íslenskt mannlíf I).

[64] Sama heimild.

[65] Prestsþj.b. Sauðlauksdalspr.kalls.

[66] Sama heimild.

[67] Knudsensætt I, 142.

[68] Ásgeir Jakobsson 1990, 51-52.

[69] Sóknarm.tal Sauðlauksdalspr.kalls 1852.

[70] Ásgeir Jakobsson 1990, 54.

[71] Sóknarm.tal Sauðlauksdalspr.kalls 1852.

[72] Prestsþj.b. Sauðlauksdalspr.kalls.

[73] Sóknarm.tal Sauðlauksdalspr.kalls 28.11.1852.

[74] Manntal 1855.

[75] Guðjón Friðriksson 1973, 105 (Ársrit Sögufél. Ísfirðinga).

[76] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 2. búnaðarskýrslur.

[77] Sóknarm.töl Sandapr. kalls 1860-1870.

[78] Sóknarm.töl Sandapr. kalls 1860-1870.

[79] Sama heimild.

[80] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Þingeyrarhreppur 3. Hreppsbók 1851-1873.

[81] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[82] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.  Guðm. G. Hagalín 1951, 27.

[83] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.  Manntal 1870.

[84] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[85] Knudsensætt I, 142.

[86] Knudsensætt I, 142.

[87] Sóknarm.tal Sandapr.kalls 1867.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »