Frá flugvellinum á Sandodda eru aðeins um þrír kílómetrar að Hvalskeri. Leiðin liggur með sjó undir Skershlíð sem er framhliðin á Skersfjalli. Neðantil er hlíðin grösug en klettabrúnir efra. Innan við Sandoddann er Skersbugur. Í bugnum var um skeið tekið mikið af kúfiski til beitu (sjá hér Kollsvík og Kollsvíkurver) en hér er mikið útfiri. Um kúfisktekjuna í Skersbug ritar Pétur frá Stökkum svo árið 1935:
Er kúfiskurinn tekinn með höndunum um stórstraumsfjörur. Er einkennilegt að sjá fjölda manns vaðandi út um allan sjó og kafa með höndunum til axla eftir kúfiskinum Var venjulega greidd ein króna fyrir hvern mann um fjöruna. Komið hefur það fyrir að fjórir menn hafi hlaðið fjögurra manna far á einni fjöru og er það mikill kúfiskafli. Síðustu árin [fyrir 1935] hefur Bugurinn ekkert verið notaður til beitutekju.[1]
Á lýsingu Péturs má m.a. sjá að bændur á Hvalskeri hafa haft svolitlar tekjur af sölu veiðileyfa til þeirra er sóttu sér beitu í Skersbug. Pétur minnist hér ekki á kúfiskplóginn en undir lok 19. aldar hófst notkun hans við kúfisktekju víða á Vestfjörðum (sjá hér Sellátur og verstöðvarnar í Stapavíkum).
Hallbjörn Oddsson var við kúfisktekju í Skersbug vorið 1901, þá við róðra í Láturdal (sjá hér Hænuvík og Sellátranes). Hann dregur upp skýra mynd af verklaginu og öllum aðstæðum við þessa iðju. Hallbjörn ritar:
Þegar komið var undir hálffallið út löbbuðum við með marga sekki tóma niður að sjó. Þar tók hver sinn poka úr sekkjahrúgunni og óð með hann út í sjóinn. Allir voru í brókum og skinnstökkum. Þegar menn höfðu vaðið svo langt fram að þeir voru komnir í kúfiskinn var hægri hendi stungið niður í sjóinn þar sem manni sýndist kúfiskurinn vera. Í logni og sléttum sjó er mjög gott að sjá hann en sé aftur á móti bára eða vindur er það mjög illt og tæpast annarra en æfðra manna meðfæri.
Fyrst er við byrjuðum urðum við að vaða með hendina upp að öxl ofan í sjóinn en þá stóð skelin hérumbil hálf upp úr sandinum. Var því mjög létt að ná henni en eftir því sem meira féll út gróf hún sig dýpra niður í sandinn. … Oft var munnur hennar opinn þegar hún stóð mikið upp úr sandinum og var þá betra að fara ekki með fingur upp í hana. Væri það gert klemmdi skelin sig strax saman og gat það valdið vondum meiðslum, ef um stórar skeljar var að ræða. …
Eftir því sem meira féll að varð að vaða dýpra og seilast dýpra eftir skelinni svo ekki var nokkur þurr þráður í fötum þeirra, sem við vinnu þessa voru. Eins og skiljanlegt er rann ofan í brækurnar, er menn réttu sig upp, þegar seilst var með hendinni niður í sjóinn upp að öxl. Þá rann sjórinn einnig yfir bak og brjóst manna. Það voru því margir sem hvorki notuðu brækur eða stígvél við vinnu þessa því eftir lítinn tíma var hvorutveggja fullt af sjó og jók mönnum aðeins erfiði og þreytu við starfið. Svipað má segja um skinnstakkinn. Hann var sjaldan notaður í logni og sólskini en þegar kalt var og hvasst fóru menn í hann til að verjast næðingi. Má nærri geta hve hugguleg hlíf hann hefur verið er hann var að slettast um menn hildablautur þegar mikill vindur var. Oft kom það fyrir að menn veiktust af lungnabólgu í Skersbug og sumir svo að þeir urðu aldrei jafngóðir.[2]
Hallbjörn tekur fram að alls staðar annars staðar en í Skersbug hafi kúfiskplógur verið notaður við kúfisktöku um aldamótin 1900.[3]
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá byrjun 18. aldar er minnst á skelfiskfjöru hjá Hvalskeri og sagt að hún sé stundum að nokkru gagni.[4] Á þeim tíma hefur kúfiskur þó tæplega verið notaður til beitu í verstöðvunum í Rauðasandshreppi því að í Jarðabókinni er þess jafnan getið hverju sé beitt í þessari eða hinni verstöð og þá nefndur maðkur, fiskur, brandkóð (þ.e. smásilungur), heilagfiski og steinbítur en á kúfisk er ekki minnst. Eggert Ólafsson segir í Ferðabók þeirra Bjarna Pálssonar að vestanlands éti menn kúfisk[5] og gera má ráð fyrir að sá kúfiskur sem aflað var í Skersbug á 18. öld hafi verið nýttur til manneldis. Ekki var farið að nota kúfisk til beitu að neinu marki fyrr en seint á 19. öld.[6]
Önnur hlunnindi sem nefnd eru á Hvalskeri í Jarðabókinni eru hrísrif í Patreksfjarðarbotni, sem leiguliði má brúka til kolagerðar en ekki ljá né selja.[7]
Tvíbýli var á Hvalskeri árið 1703 en jörðin í eigu Guðrúnar ríku Eggertsdóttur í Saurbæ. Á báðum bændunum hvíldi sú kvöð að róa um vertíð á bátum Guðrúnar frá Láturdal. Auk þess voru Hvalskersbændur skuldbundnir til að sjá um flutning fyrir Guðrúnu yfir Patreksfjörð. Um annan bændanna er tekið fram að fyrir þessar ferðir fái hann þó einhverja borgun. Hinn bóndinn á Hvalskeri fræddi Árna Magnússon á því að slíkar kaupstaðarferðir gæti tekið allt upp í viku og sjái Guðrún mönnum þá fyrir fæði.
Árið 1812 bjuggu á Hvalskeri Magnús Halldórsson hreppstjóri og kona hans, Kristín Jónsdóttir. Að kvöldi 26. október þá um haustið heyrði Magnús að kallað var utan af firðinum og taldi það hafa verið neyðaróp.[8] Aldimmt var orðið þegar ópið barst honum til eyrna svo að ekkert var að sjá þó að rýnt væri út á fjörðinn. Með aðstoð eiginkonunnar og aldraðs manns sem hjá þeim dvaldist náði Magnús að hrinda báti á flot og eftir nokkra leit tókst honum að finna bát hinna nauðstöddu sem þá maraði í hálfu kafi, fullur af sjó.[9] Um borð voru hjónin Ívar Bjarnason og Margrét Tómasdóttir, sem þá bjuggu á Hlaðseyri, bæði aðframkomin af kulda og vosbúð, konan orðin nær mállaus og bóndinn ei með fullu ráði.[10]
Síðdegis þennan sama dag höfðu þau lagt af stað frá Hlaðseyri og ætluðu að flytja kú yfir fjörðinn. Með í för var vinnumaður frá Hvalskeri, Bjarni Magnússon að nafni, og Sigríður Jónsdóttir, vinnukona í Saurbæ.[11] Á miðjum firði hljóp órói í kúna og hvolfdi þá bátnum.[12] Þau Bjarni og Sigríður urðu þá brátt viðskila við bátinn og drukknuðu bæði en Magnús, hreppstjórinn á Hvalskeri, náði að bjarga Ívari og Margréti þó að tæpt stæði.[13] Ívar hresstist fljótt eftir volk þetta en Margrét kona hans var lengi að ná sér og var hún að einum degi liðnum flutt frá Hvalskeri að Sauðlauksdal þar sem henni var hjúkrað af Daða Jónssyni, síðar aðstoðarpresti þar og enn síðar sóknarpresti á Söndum í Dýrafirði, og konu hans, Sigríði Þóroddsdóttur.[14] Fimm árum eftir slys þetta bjuggu þau Ívar og Margrét enn á Hlaðseyri en Magnús hreppstjóri og eiginkona hans voru þá komin að Melanesi á Rauðasandi með sín átta börn.[15]
Enn er búið á Hvalskeri (1988) og jörðin í þjóðbraut. Bærinn stendur alveg niður við sjó og fellur Skersá til sjávar innan við túnið. Rétt innan við Hvalsker eru vegamót og þaðan akvegur yfir Skersfjall á Rauðasand. Svo sem fyrr var ritað var bílvegur lagður yfir fjallið og niður á Rauðasand á árunum 1933 og 1934[16] (sjá hér Frá Sjöundá að Saurbæ). Aðeins einn fjallvegur á öllum Vestfjarðakjálkanum varð ökufær fyrir bíla heldur fyrr. Er það vegurinn yfir Steinadalsheiði, úr Gilsfirði í Kollafjörð, en sú leið varð ökufær í ágústmánuði árið 1933.[17]
Fyrrum var talinn þriggja stunda lestagangur yfir Skersfjall.[18] Í heimild frá árinu 1840 er getið um annan fjallveg frá Hvalskeri er lá um Hrossagötuskarð og Sandsheiði að Haukabergi á Barðaströnd.[19] Sú leið hefur verið a.m.k. sautján kílómetrar milli bæja og mun öldum saman hafa verið alfaravegur (sjá hér Frá Haga á Siglunes).
Þegar akfært varð yfir Skersfjall hófst verslunarstarfsemi á Hvalskeri á vegum Kaupfélags Rauðasands. Félagið var stofnað í ágúst 1933 og hafði aðsetur sitt frá upphafi á Hvalskeri en eldri pöntunarfélög og kaupfélög í hreppnum höfðu verið með sína vöruafgreiðslu í þorpinu á Patreksfirði.[20] Kaupfélag þetta var sameinað Kaupfélagi Patreksfjarðar árið 1975.[21]
Í um það bil fjóra áratugi voru þrjú kaupfélög starfrækt samtímis í hinum forna Rauðasandshreppi, hin tvö höfðu sínar bækistöðvar annað á Gjögrum í Örlygshöfn (sjá hér Örlygshöfn) og hitt í þorpinu á Patreksfirði. Um svipað leyti og Kaupfélag Rauðasands hóf sína verslunarstarfsemi var löggiltur verslunarstaður á Hvalskeri og stöku sinnum lögðu strandferðaskip leið sína hingað.[22]
Byggð mun snemma hafa hafist á Hvalskeri og er jarðarinnar getið í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar. Á dögum Hrafns bjó Ingi Magnússon hér er varð banamaður Markúsar Gíslasonar í Saurbæ á Rauðasandi (sjá hér Saurbær). Í Hrafns sögu er Inga á Hvalskeri borin illa sagan og sagt að hann hafi verið ljótur, grályndur og gárfenginn.[23] Í sögunni kemur líka fram að bænhús hafi verið á jörðinni fyrir daga Inga og reyndar hófust deilur þeirra Markúsar út af sérstökum tolli er gjalda átti til Saurbæjar af bænhústóttinni. Í Hrafns sögu segir svo:
En það var boð hins heilaga Þorláks biskups að hvergi skyldi bænahús niður falla, þar sem áður voru og ef bænahús hrörnaði eða félli niður þá skyldi af tóttinni gjalda sex aura til graftarkirkju þeirrar, er bænahúsið lá undir. Á þeim bæ, er Ingi bjó, féll bænahús ofan en það hús lét Ingi eigi upp gera og eigi vildi hann gjalda af tóttinni.[24]
Svo harðsnúinn bóndamann hlutu aðdáendur Þorláks helga að telja bæði ljótan og leiðan þó máske hafi hann verið smáfríður.
Sagnir eru um afarfornt eyðibýli innan við túnið á Hvalskeri og nefnt Karlsstaðir.[25] Brandarstaðir voru aftur á móti lítið grasbýli í Hvalskerslandi. Þar var búið frá því laust fyrir aldamótin 1900 og til 1930.[26]
– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –
[1] Pétur Jónsson 1942, 103 (Barðstrendingabók).
[2] Hallbjörn Oddsson 1964, 162-164 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).
[3] Sama heimild, 164.
[4] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 328.
[5] Eggert Ólafsson 1975, I, 40.
[6] Lúðvík Kristjánsson 1985, 56.
[7] Jarðab. Á. og P. VI, 328.
[8] Halldór Kristjánsson 1994, 113-115 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).
[9] Sama heimild.
[10] Sama heimild.
[11] Sama heimild.
[12] Sama heimild.
[13] Sama heimild.
[14] Sama heimild. Sbr. Ísl. æviskrár I, 302-303.
[15] Manntal 1816, bls. 663 og 664.
[16] Munnlegar upplýsingar frá Jakobi Hálfdánarsyni hjá Vegagerð ríkisins.Ari Ívarsson frá Melanesi 2002, 23-24 (Árbók Barðastrandarsýslu XIII).
[17] Munnlegar upplýsingar frá Jakobi Hálfdánarsyni hjá Vegagerð ríkisins.
[18] Magnús Jónsson frá Skógi 1974, 219 (Árbók Barðastrandarsýslu).
[19] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 213.
[20] Ívar Lárusson 1949, 40-45 (Árbók Barð.).
[21] Össur Guðbjartsson. – Viðtal K.Ó. við hann 10.8. 1988.
[22] Pétur Jónsson 1942, 103.
[23] Sturlunga saga I, 388.
[24] Sama heimild.
[25] Pétur Jónsson 1942, 103 (Barðstrendingabók).
[26] Sama heimild.