Kirkjuból í Kirkjubólsdal

Kirkjuból í Kirkjubólsdal

Frá brúnni yfir Sandaá, rétt innan við Hóla, sjást húsþökin á Kirkjubóli og tekur aðeins hálfa klukkustund að rölta þangað heim. Leiðin liggur í suðurátt fram með Hólafjalli. Bæirnir Kirkjuból og Múli standa andspænis hvor öðrum í mynni Kirkjubólsdals, sá fyrrnefndi utan við ána en hinn innan við hana í um það bil þriggja kílómetra fjarlægð frá sjó. Frá Kirkjubóli er svo klukkutíma gangur fram í dalbotn. Neðst er dalurinn um það bil einn kílómetri á breidd en mjókkar þegar framar dregur. Allur er hann vel gróinn nema fremst þar sem þröngur og lítt gróinn fjalldalur tekur við. Yfir bænum á Kirkjubóli rís fjallið Þríhyrna og veitir skjól fyrir vestanátt en dálítið framar í sama fjalllendi er Torfahvilftarhorn og hæstu eggjar þess munu vera í 665 metra hæð yfir sjávarmáli. Innan við dalinn er Bakkhorn neðst, yfir bænum Múla, um 550 metrar á hæð. Framar er Hádegishorn, nær 600 metra hátt, og enn framar Breiðhorn sem er hæst þessara fjalla og nær yfir 800 metra hæð.

Selið frá Kirkjubóli var framan við miðjan dalinn, gegnt Breiðhorni, í mýrarjaðri niður við ána.[1] Þangað er rösklega hálftíma gangur heiman frá bæ. Að sögn séra Bjarna Gíslasonar, sem prestur var á Söndum frá 1836 til 1846, var seljabúskap hætt á Kirkjubóli árið 1823.[2] Í grennd við gamla Kirkjubólsselið eru Seljalágar og Seljamýrar og beint upp af því er Seljahvilft.[3]

Frá Kirkjubóli lá áður alfaraleið fram Kirkjubólsdal á Álftamýrarheiði og þaðan yfir í Fossdal í Arnarfirði (sjá hér Álftamýri). Er það góður reiðvegur á sumardegi. Dalinn prýðir Kirkjubólsá og heitir svo uns hún sameinast Brekkudalsá rétt við túnið á Söndum og úr verður Sandaá. Framarlega í dalnum er fallegur foss í ánni.[4] Annar foss enn hærri er í Göngudalsá[5] sem er lítil þverá er fellur í Kirkjubólsá úr suð-suðaustri um Göngudal sem er framan við Breiðhorn og í um það bil fjögurra kílómetra fjarlægð frá bænum á Kirkjubóli. Upp úr Göngudal er fært gangandi manni um Göngudalsskarð yfir í Tjaldanesdal í Arnarfirði.[6] Sú leið var þó sjaldan farin en um Álftamýrarheiði lá þjóðbraut. Þeir sem hana fóru áttu þess kost að hvílast við Ölstein sem enn stendur við hina gömlu þjóðgötu, efst í teignum undir heiðarskarðinu.[7]

Yfir háhrygginn milli Kirkjubólsdals í Dýrafirði og Fossdals í Arnarfirði voru tvær leiðir í boði sem lágu um sitt skarðið hvor, það er að segja alfaraleiðin yfir Álftamýrarheiði og önnur leið sem lá um Kvennaskarð þar mjög skammt frá.[8] Norðan við Kvennaskarð er Folaldahvilftarfjall og nær fram að skarðinu en neðan við fjall þetta er urðarhóll sem nefndur er Fornmannahaugur.[9] Efsta brekkan Dýrafjarðarmegin við Kvennaskarð er grasi gróin upp undir brún.[10] Yfir Kvennaskarð fór Reinald Kristjánsson, síðar póstur, veturinn 1882-1883 í norðanbyl og feikna frosti og segir hann að sjálft skarðið sé eins og hnífsegg og hallinn vestur af því mjög brattur.[11]

Mjög framarlega á Kirkjubólsdal er dálítill klettahnúður sem heitir Draugshorn og snýr í átt til heiðarinnar.[12] Yfir Draugshorninu rís fjallið Grjótskálarhorn[13] en milli þess og Seljahyrnu, sem liggur að háheiðinni, gengur dálítil skál eða hvilft til suðurs og þar á Kirkjubólsáin sín upptök.  Draugshornið lætur lítið yfir sér en þar er þó sagður hafa verið bústaður trölla á fyrri tíð,[14] enda örstutt úr Draugshorni í Tröllakika, fremst á Tjaldanesdal í Arnarfirði (sjá hér Tjaldanes), og fremst á Kirkjubólsdal heita Tröllárdalir.[15] Frá Draugshorni mátti þræða götuslóða heim allar Hofshvilftar og þaðan áfram að kletti í Sandafelli sem Steinkirkja heitir.[16] Þessir götuslóðar voru nefndir Tröllagötur og áttu tröllin í Draugshorni að hafa farið þá leið til messu í Steinkirkju.[17] Að sögn kunnugra er götubotninn í Tröllagötum svo harður að þar geta ríðandi menn hleypt hestum sínum á skeið[18] og enn mun hin forna slóð vera býsna glögg þar sem hún liggur á hvilftabörmum.[19]

Steinkirkjuna í Sandafelli nefndu sumir Tröllakirkju[20] en hún er hár og sérstæður klettur, austast í röð smákletta sem eru neðantil í fjallshlíðinni, vestanvert við mitt fjall.[21]

Þrír bæir voru löngum í Kirkjubólsdal, Kirkjuból, Múli og Hof en þeir tveir síðarnefndu voru handan ár, séð frá Kirkjubóli. Enn er búið góðu búi á Kirkjubóli (1998) og eyðijarðirnar Múli og Hof nytjaðar þaðan.

Í fornbréfum má sjá að eldra nafn á Kirkjubólsdal hefur verið Arnarbýlisdalur. Í bréfi frá árinu 1467 um skiptingu arfs eftir Björn Þorleifsson hirðstjóra er talað um jarðirnar Kirkjuból og Klof í Arnarbýlisdal.[22] Þar er greinilega átt við Kirkjuból í Dýrafirði og augljóst virðist að einhver afritari hafi gert Hof að Klofi en slíkt getur hent hina bestu menn. Að minnsta kosti er ekki kunnugt um neina jörð á þessum slóðum sem borið hefur nafnið Klof. Nafnið Arnarbýlisdalur virðist hins vegar hafa horfið úr málinu fyrir miðja 16. öld því í vitnisburði frá árinu 1564 er talað um Kirkjubólsdal.[23] Þó er hugsanlegt að bæði nöfnin hafi verið notuð samtímis um eitthvert skeið. Hið forna nafn bendir ótvírætt til þess að hér hafi konungur fuglanna átt sér bólstað á dögum Vésteins Végeirssonar landnámsmanns og Gísla Súrssonar. Tveir dalir á vesturströnd Dýrafjarðar og í næsta nágrenni hver við annan hafa því til forna verið kenndir við þá fugla himinsins sem hátignarlegastir þóttu, örn og hauk.

Að fornu mati var Kirkjuból talið 24 hundraða jörð.[24] Ætla má að jörðin hafi byggst áður en farið var að reisa kirkjur á Vestfjörðum og hefur því í fyrstu borið annað nafn sem nú er glatað. Hugsanlegt er að nafnið á jörðinni hafi verið Arnarbýli. Kirkjubóls er fyrst getið í varðveittum heimildum um miðja 15. öld en það var ein fjöldamargra jarða á Vestfjörðum sem árið 1446 voru teknar af Guðmundi ríka Arasyni og lagðar undir konung.[25] Engar heimildir eru nú til sem skýrt geti Kirkjubólsnafnið á jörðinni því ekki er kunnugt um að hér hafi staðið kirkja og heldur ekki til þess vitað að jörðin hafi nokkru sinni verið kirkjueign. Í rituðum heimildum er ekki einu sinni getið um bænhús á Kirkjubóli.[26] Engu að síður kynni bænhús að hafa staðið hér í kaþólskri tíð og tótt er reyndar í túninu sem Bænhústótt heitir og snýr frá austri til vesturs.[27] Við henni hefur aldrei verið hróflað þrátt fyrir miklar ræktunarframkvæmdir.[28] En þó gert sé ráð fyrir bænhúsi dugar það samt varla til að gefa jörðinni nýtt nafn því eins og víðar voru bænhús á öðrum eða þriðja hverjum bæ í Þingeyrarhreppi.[29] Vera má að jörðin hafi mjög snemma komist í eigu kirkjunnar og nafnið eigi sér þá skýringu en þá hefur  hún líka gengið aftur undan kirkjunni fyrir árið 1446. Á fyrri öldum var hins vegar harla fátítt að kirkjan léti af hendi jarðir sem hún hafði náð eignarhaldi á. Hér verður því til gamans sett fram sú tilgáta að fyrsta kirkjan við vestanverðan Dýrafjörð hafi verið reist á Kirkjubóli, máske um árið 1000, og jörðin þá fengið þetta nafn. Slík kirkja gæti hafa staðið þar í 100 ár eða lengur áður en kirkja var fyrst reist á Söndum. Slíkur tími hefði verið nægilegur til að festa Kirkjubólsnafnið í sessi. Fullkunnugt er hins vegar að í byrjun 13. aldar var komin kirkja hjá höfðingjunum á Söndum (sjá hér Sandar) og þá hefur þótt ástæðulaust að halda við annarri á Kirkjubóli en bænhús gæti hafa verið í notkun enn um sinn.

Eins og áður sagði var Kirkjuból í eigu Guðmundar ríka á Reykhólum á árunum kringum 1440 og úr hópi eigenda jarðarinnar á 16. öld má nefna Ögmund biskup Pálsson og Sigfús Brúnmannsson, lögréttumann í Hrauni í Keldudal.[30]

Líklegt er að skáldið góða, séra Ólafur Jónsson á Söndum, sem þjónaði Sandaprestakalli frá 1596 til 1627, hafi átt Kirkjuból því fullvíst er að Páll, sonur hans, átti jörðina um 1650 en hann seldi hana haustið 1655 séra Páli Björnssyni í Selárdal fyrir hálfa Suðureyri í Súgandafirði og tíu hundruð í Haukadal[31] (sjá einnig hér Suðureyri og Haukadalur). Um 1700 var Kirkjuból svo komið í eigu séra Sigurðar Jónssonar í Holti í Önundarfirði sem var tengdasonur séra Páls í Selárdal.[32] Fyrir mannfallið í stórubólu árið 1707 var landskuld af Kirkjubóli 6 vættir fiska,[33] sem svaraði til sex ærgilda, en lækkaði þá niður í fimm og hálfa vætt.[34] Tvíbýli var á jörðinni árið 1710 og innstæðukúgildi landeigenda hér sjö[35] en sex ær voru í hverju kúgildi. Leigur fyrir kúgildin voru borgaðar í smjöri sem bændunum á Kirkjubóli bar að færa prestinum í Holti.[36] Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er mikið gert úr skriðuföllum á Kirkjubóli. Þar segir að einn fjórði hluti túnsins sé eyðilagður af skriðum og  engjarnar líka að mestu, nema fram á dalnum, og einnig sé vatnsbólið komið undir skriðu.[37] Tekið er fram að sjálfur bærinn sé líka í greinilegri hættu frá öllu þessu grjóthruni.[38] Ekki hefur þetta tal verið alveg ástæðulaust því í sóknarlýsingunni frá því um 1840 segir að land Kirkjubóls sé árlega skriðum og snjóflóðum undirorpið.[39] Í Jarðabókinni frá 1710 er vetrarbeit sögð heldur slök á Kirkjubóli svo oft verði að taka útigangspening á gjöf hálfan veturinn.[40] Lyngrif til eldiviðar var þá talið bjarglegt og getið um lítilsháttar grasatekju.[41]

Árið 1801 bjuggu fjórir bændur á Kirkjubóli, allt fjölskyldumenn,[42] og hefur þá verið heldur þröngt um jarðnæði. Einn þeirra var Magnús Egilsson sem enn var bóndi á Kirkjubóli vorið 1813 er hann andaðist 69 ára gamall úr viðurværisskorti og þar af fylgjandi sjúkdómum, eins og segir í kirkjubókinni.[43] Um það leyti sem Magnús á Kirkjubóli dó úr ófeiti undir lok Napóleonsstyrjaldanna voru skipasiglingar til landsins í algjöru lágmarki og allur erlendur varningur í svo háu verði að fjöldi fólks var dæmdur til að líða skort. Á árunum 1811-1814 fækkaði landsfólkinu á hverju ári, mest 1813 þegar íbúafækkunin fór yfir 500 manns á einu ári.[44] Þá hefur margur fallið úr hor þó heldur gott væri víða í ári frá náttúrunnar hendi og engar sóttir á ferð venju fremur.[45]

Við hlið Magnúsar Egilssonar bjó árið 1801 á Kirkjubóli maður að nafni Torfi Snæbjörnsson[46] en hann drukknaði árið 1805 og var þá bóndi á Brekku í Þingeyrarhreppi.[47] Torfi var sonur Mála-Snæbjarnar, sem lengi var einn aðsópsmesti höfðingi á Vestfjörðum, en afi Torfa Halldórssonar er um langt skeið stóð fyrir miklum umsvifum í verslun og útgerð á Flateyri. Úr nær 200 ára fjarlægð getum við nú virt fyrir okkur þessa tvo sambýlismenn á Kirkjubóli við upphaf 19. aldar og kallað þá fram í óljósri mynd. Fyrst þann sem var í nánum ættartengslum við helstu fyrirmenn Vestfirðinga, hvort sem litið er aftur í tímann eða fram, og svo hinn sem máske hefur líka verið prýðilega ættaður en hlaut þó að falla úr hor. Ekki verður séð í manntalinu hvort nokkur verulegur munur var á efnahag þessara tveggja manna er 19. öldin gekk í garð og með öllu óvíst hvort svo hafi verið.

Um miðja 19. öld var Kirkjuból komið í sjálfsábúð. Árið 1847 bjuggu 10 af 27 bændum í Þingeyrarhreppi á sinni eigin jörð og einn þeirra var bóndinn á Kirkjubóli.[48] Árið 1845 voru Bjarni Ólafsson og Ástríður kona hans einu ábúendurnir á Kirkjubóli og höfðu alla jörðina undir nema hvað einn húsmaður kynni að hafa haft hér einhverja grasnyt.[49]

Á síðari hluta 19. aldar bjó Jóhannes Guðbrandsson alllengi á Kirkjubóli, sonur Guðbrands Guðmundssonar í Hólum sem hér var áður nefndur (sjá Hólar). Þó Kirkjuból eigi hvergi land að sjó mun Jóhannes oft hafa verið formaður í hákarlalegum og þá á Hólaskipinu.[50] Hann var talinn góður stjórnari í leguferðum.[51]

Frá Kirkjubóli röltum við okkur til skemmtunar dálítið fram í dalinn en vöðum síðan yfir ána og stöldrum næst við á Hofi.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Örnefnaskrá.

[2] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 59.

[3] Örn.skrá.

[4] Sóknalýs. Vestfj. II, 53.

[5] Sama heimild.

[6] Örn.skrá.

[7] Sama heimild.

[8] Örn.skrá.

[9] Sama heimild.

[10] Sama heimild.

[11] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 21.

[12] Knútur Bjarnason. – Viðtal K.Ó. við hann í júlí 1991.

[13] Örn.skrá.

[14] Knútur Bjarnason. – Viðtal K.Ó. við hann í júlí 1991.

[15] Bjarni Guðmundsson frá Kirkjubóli. – Viðtal K.Ó. við hann 14.10. 1998.

[16] Knútur Bjarnason. – Viðtal K.Ó. við hann í júlí 1991.

[17] Sama heimild.

[18] Örn.skrá.

[19] Sama heimild.

[20] Sama heimild.

[21] Sama heimild.

[22] D.I. V, 501-502 og XII, 48.

[23] D.I. XIV, 312.

[24] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 42.

[25] D.I. IV, 688.

[26] Lýður Björnsson 1970, 16 (Ársrit S.Í.).

[27] Örnefnaskrá. Knútur Bjarnason. – Viðtal K.Ó. við hann í júlí 1991.

[28] Knútur Bjarnason. – Viðtal K.Ó. við hann í júlí 1991.

[29] Lýður Björnsson 1970, 13-19.

[30] D.I. IX, 561-562 og X, 347.

[31] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir (Kph. 1993), 165.

[32] Jarðab. Á. og P. VII, 42 og sama heimild XIII, 253.  Ísl. æviskrár IV, 234-235.

[33] Jarðab. Á. og P. VII, 42.

[34] Sama heimild.

[35] Sama heimild.

[36] Sama heimild.

[37] Sama heimild, 42-43.

[38] Sama heimild.

[39] Sóknalýs. Vestfj. II, 57.

[40] Jarðab. Á. og P. VII, 42-43.

[41] Sama heimild.

[42] Manntal 1801.

[43] Sama heimild.  Prestsþjónustubækur Sandaprestakalls.

[44] Tölfræðihandbók 1984, bls. 9.

[45] Þorkell Jóhannesson 1950, 393.

[46] Manntal 1801.

[47] Vestfirskar ættir I, 396.

[48] Jarðatal Johnsens 1847, 191-192.

[49] Manntal 1845.

[50] Skútuöldin V, 118.

[51] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »