Rauðasandshreppur hinn forni

Rauðasandshreppur hinn forni

Rauðasandshreppur var vestasti hreppur á Íslandi. Á Bjargtöngum, sem teygja sig lengst vestur í Atlantshafið, eru menn staddir á 24°32’3” vestlægrar lengdar.

Hinn forni Rauðasandshreppur náði frá Stálhlein á mörkum Sigluneshlíða og Skorarhlíða og í ysta odda Tálkna, fjallsins sem skilur að Patreksfjörð og Tálknafjörð. Árið 1907 var hreppnum skipt í tvennt. Þorpið á Patreksfirði, sem byggst hafði upp í landi jarðanna Vatneyrar og Geirseyrar, norðan fjarðarins, var þá gert að sérstöku sveitarfélagi er fékk nafnið Patrekshreppur. Síðan þá hefur Rauðasandshreppur náð frá hinum fornu hreppamörkum við Stálhlein og að Altarisbergi á Raknadalshlíð, skammt innan við þorpið.

Meginhluti byggðarinnar í hinum forna Rauðasandshreppi fylgir strönd fjallaskagans er skilur að Breiðafjörð og Patreksfjörð en í hreppnum voru líka þrjár fornar bújarðir á norðurströnd Patreksfjarðar. Þrjár kirkjusóknir voru alllengi í Rauðasandshreppi, enda er byggðin þrískipt frá náttúrunnar hendi. Saurbæjarsókn náði yfir sjálfan Rauðasand, ystu sveit við norðanverðan Breiðafjörð. Breiðavíkursókn náði yfir Útvíkur, frá Bjargtöngum að Blakknesi, og líka yfir Keflavík austan Látrabjargs. Sauðlauksdalssókn tilheyrðu bæirnir beggja vegna Patreksfjarðar. Á Rauðasandi var byggðin þéttust en annars dreifð um víkur, dali, eyrar og nes meðfram ströndinni. Strandlengja hins forna Rauðasandshrepps mun vera milli 110 og 115 kílómetrar. Víða var ófært eða nær ófært með sjó og fjallvegir milli bæja innan hreppsins fleiri en í flestum öðrum sveitarfélögum. Fljótlegt væri að telja upp tólf slíka fjallvegi sem allir voru hestfærir. Eru þá ótaldar þær leiðir er lágu út úr hreppnum. Hér verður síðar sagt frá helstu leiðum frá hverjum bæ.

Atvinnulíf var fjölþættara í Rauðasandshreppi á fyrri tíð en víða annars staðar. Auk hefðbundins landbúnaðar var sjór sóttur af kappi, einkum frá verstöðvum í Útvíkum, og mikil búbót var að fugla- og eggjatöku í Látrabjargi. Garðrækt varð líka umtalsverður þáttur bjargræðis allvíða í Rauðasandshreppi, fyrr en víða annars staðar.

Í byrjun 18. aldar voru 40 byggðar jarðir í Rauðasandshreppi að hjáleigum meðtöldum[1] og var víða tvíbýlt eða margbýlt. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín má sjá að áður voru býlin ennþá fleiri.

Íbúafjöldi Rauðasandshrepps var sem hér segir samkvæmt manntölum: Árið 1703 492 íbúar, árið 1801 446 íbúar, árið 1845 394 íbúar, árið 1901 787 íbúar. Af þessum mannfjölda bjuggu í Patrekshreppi, er síðar varð, árið 1703 31, árið 1801 38, árið 1845 26, árið 1901 300.[2] Í Tölfræðihandbók frá árinu 1984 segir að íbúafjöldi þorpsins á Patreksfirði hafi verið 372 árið 1901. Sú tala er of há nema með séu taldir allir þeir mörgu aðkomumenn sem staddir voru á Patreksfirði þegar manntalið var tekið.

Verslun hófst snemma á Vatneyri við Patreksfjörð og sóttu allir íbúar hreppsins þangað til kaupstaðarviðskipta. Á síðari hluta 16. aldar versluðu einkum Lybikumenn á Patreksfirði[3] en síðan tók danska einokunarverslunin við. Um Jóhann Klein, er rak verslunina á Patreksfirði um aldamótin 1700 segir Árni Magnússon prófessor að hann hafi slegið öllum þönkum á að vinna peninga og komast yfir þá hvar hann kunni.[4] Árni segir á öðrum stað um verslunarástandið í Rauðasandshreppi kringum aldamótin 1700 að kaupmenn og verslunarþjónar skrái skuldir bænda hjá sér en neiti mönnum um reikning yfir skuldir viðkomandi þegar greitt sé inn á reikninga og gefi engar kvittanir.[5]

Vart þarf að efa að íbúar Rauðasandshrepps hafi stundað verulega launverslun við erlendar þjóðir á tímaskeiði dönsku einokunarinnar á 17. og 18. öld, enda aðstæður hentugar til slíkra viðskipta í Útvíkum. Í Ferðabók Eggerts og Bjarna, sem Eggert Ólafsson ritaði á árunum kringum 1760, segir hann að fram um 1700 hafi Frakkar og Bretar komið árlega til Vesturlands, Frakkar til hvalveiða en Bretar til fiskveiða. Báðar þessar þjóðir hafi rekið launverslun og ráðið Íslendinga á skip til sín yfir sumarið.[6] Eggert tekur fram að nú, það er um 1760, sé þetta orðið breytt og ekki komi aðrar erlendar þjóðir til Vesturlands en Hollendingar, sem helst leiti inn á Tálknafjörð og í Jökulfirði og svo sjómenn frá Dunkerque, nyrst á strönd Frakklands. Lætur Eggert illa af launverslun við Hollendinga, enda var annað tæplega við hæfi í opinberu riti. Segir hann þá ekkert hafa að selja nema gamlan fatnað og færi og verð á erlendum varningi sé hjá þeim mun hærra en hjá dönskum kaupmönnum.[7]

Þann 5. júní 1769 kvartar kaupmaðurinn á Patreksfirði yfir ágengni duggara í bréfi til amtmanns, sem víða geri sig mjög heimakomna þar í grenndinni. Telur hann guðs mildi að enn skuli þeir þó ekki hafa gert neitt verulega illt af sér.[8] Um verslunina verður ekki fjallað nánar hér að sinni en innlend verslun hófst fyrst á Patreksfirði um það leyti sem verslun var loks gefin frjáls við aðrar þjóðir en Dani upp úr miðri 19. öld.[9] Úr því fór þorpið að vaxa smátt og smátt, hægt þó í fyrstu.

Lítið var um gróin afréttarlönd í Rauðasandshreppi og segir í Jarðabók Árna og Páls frá byrjun 18. aldar að hér séu engar afréttir en lömbin gangi með ánum og séu kefld.[10] Í Jarðabókinni má finna sitt af hverju um búskapinn og lífskjör manna í Rauðasandshreppi á þeirri tíð. Þar stendur m.a. þetta:

 

Á Rauðasandi og í Norðurvíkum [kallast nú Útvíkur – innsk. K.Ó.] og í Patreksfirði gefa menn kúm og lömbum fiskabein og ugga. Lifir peningurinn þar af nærri að helmingi við heyið. Fjaran hjálpar því fullorðna sauðfé í Norðurvíkunum þá hafísinn ei bannar. Banni hann þá deyr það.[11]

 

Á sama stað segir Árni Magnússon frá því að sumir Rauðsendingar séu svo fátækir að þeir eigi engin eldsgögn og verði að leigja sér potta til að sjóða í frá Guðrúnu ríku Eggertsdóttur í Saurbæ fyrir hátt gjald.

Ugglaust hafa aðstæður fólks í Rauðasandshreppi verið orðnar mun skárri um 1840 heldur en var á dögum Guðrúnar ríku. Þann 24. júní 1840 undirritar séra Gísli Ólafsson í Sauðlauksdal lýsingu sína á sóknunum þremur í Rauðasandshreppi. Hann er fáorður en segir m.a.:

 

Á vetrum til skemmtunar eru lesnar fornaldarsögur og vísindabækur. Margir eru skrifandi af bændum og uppvaxandi unglingum og sumt kvenfólk, í allt 200. … Siðferði í þessum hreppi er sómasamlegt því hér er ráðvant fólk og trúrækni vex en gömul hjátrú fellur óðum með upplýsingunni. Læknarar eru hér engir og ekki heldur eiðsvarnar yfirsetukonur en sjúkdómar eru mest, Epidemie [landfarsótt – innsk. K.Ó.] og kvefþyngsli haust og vor. … Allar þær fornsögur, sem nú eru prentaðar og boðnar eru til kaups finnast hér og fleiri enn nú og mörg kvæði forn og ný og rímnadruslur.[12]

 

Orð séra Gísla benda til þess að menningarástand hafi hreint ekki verið svo slakt í hans sóknum fimm árum eftir að Fjölnir hóf göngu sína og einu ári áður en Jón forseti hóf útgáfu Nýrra félagsrita.

Hér verður nú hafin ferð um Rauðasandshrepp hinn forna og ekki úr vegi að minna í upphafi á gamla bæjaþulu sem Snæbjörn Thoroddsen í Kvígindisdal sagðist hafa heyrt eignaða Össuri Össurarsyni er lengi bjó á Hvallátrum fyrir og eftir miðja nítjándu öld:

 

Vatn- og Geirseyri gekk ég hjá,

gæða Raknadal með,

Hlaðseyri, Botn svo hitta má,

hérmeð Skápadal, Sker.

Að sendnum kom ég Sauðlauksdal,

svo dal Kvígindis til.

Vænan svo hitti ég Vatnsárdal,

veglegan Hnjót og Gil.

Tungu, Nes, Hænuvík þar var,

við Kollsvík stóðu Grundirnar,

Láganúp, Breiðavík, Látrar tvenn

lág Keflavík, Brekka há,

Lambavatn, Stakkar, Krókhús kennd

Krók, Gröf, Stekkadal þá,

Bæ, Bröttuhlíð, Kirkjuhvamm, Móberg með

Melanes, Skóg, Sjöundá.[13]

 

Hér verður farin öfug leið við þá sem kennd er í vísunni og byrjað á Rauðasandi.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 292-337.

[2] Manntöl 1703, 1801, 1845 og 1901.

[3] Jón J. Aðils 1971, 52.

[4] Sama heimild, 149.

[5] Jarðab. Á. og P. VI, 335-336.

[6] Eggert Ólafsson 1975, I, 365.

[7] Sama heimild.

[8] Jón J. Aðils 1971, 615.

[9] Guðjón Friðriksson 1973, 90 og 105 (Ársrit S.Í.).

[10] Jarðab. Á. og P. VI, 337.

[11] Jarðab. Á. og P. VI, 335.

[12] Sóknalýs. Vestfj. I, 214-215.

[13] Árbób Barðastrandarsýslu 1968-1974, XI, 248.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »