Flateyjarhreppur

Mörgum mun kunnugt að eyjar og hólmar Breiðafjarðar eru eitt þeirra landfræðilegu fyrirbæra á Íslandi sem ekki hefur verið talið mögulegt að telja. Skýrist það einkum af því hversu breytilegur fjöldinn er eftir því hvernig á sjávarföllum stendur.

Um uppruna Breiðafjarðareyja hermir þjóðsagan að í fyrndinni hafi tröll ætlað sér að moka í sundur haftið sem tengir Vestfjarðakjálkann við aðra landshluta. Hart var gengið til verks og slettu þau mokstrinum út um allan Breiðafjörð svo og Húnaflóa. Urðu þá til hinar óteljandi eyjar Breiðafjarðar en í Húnaflóa var dýpið meira svo að þar sökk nær allt í sæ. Ekki gátu tröllin slitið sig frá þessu næturverki í tíma og urðu því að steini er dagur rann.

Eyjarnar á Breiðafirði skiptast milli þriggja sýslna, Barðastrandar-, Dala- og Snæfellsnessýslu. Í hinum forna Flateyjarhreppi voru allar byggðar eyjar í Barðastrandarsýslu nema Sauðeyjar sem eru í Barðastrandarhreppi. Vestureyjar er sameiginlegt nafn allra þessara eyja til aðgreiningar frá öðrum Breiðafjarðareyjum.

Frá því snemma á öldum og langt fram á 20. öld voru ýmist sex, sjö eða átta eyjar í byggð í Flateyjarhreppi. Hinum byggðu eyjum fylgir svo mikill fjöldi úteyja og er talið að alls séu í Flateyjarhreppi a.m.k. 600 eyjar og grashólmar. Skáleyjar, Sviðnur, Hvallátur, Svefneyjar, Flatey og Bjarneyjar koma allar snemma við sögur og má ætla að þar hafi haldist samfelld byggð. Í Stagley var einnig búið, a.m.k. nokkuð á aðra öld og líklega mun lengur, en byggð lagðist þar niður á fyrstu árum 19. aldar (sjá hér Bjarneyjar og Stagley). Í fornritum er getið byggðar í Hergilsey en fullvíst er að eyjan hafði öldum saman verið óbyggð er búskapur hófst þar á ný árið 1783. Þaðan í frá voru átta eyjar byggðar í Flateyjarhreppi uns Stagley fór í eyði snemma á 19. öld. Um miðja 20. öld féllu Hergilsey, Bjarneyjar og Sviðnur í eyði en byggð hefur haldist í hinum eyjunum allt til þessa (1988) þó að veturseta hafi verið stopul í Hvallátrum og Svefneyjum síðustu árin.

Árið 1703 voru íbúar Flateyjarhrepps 297, þar af 108 í Flatey, árið 1801 vour íbúar hreppsins 302, 1845 389, 1910 397, 1930 314, 1960 79 og 1986 27. Mannfjöldatölurnar sýna glöggt hversu mjög hefur hallað undan fæti.

Löngum var talið að í Breiðafjarðareyjum væru afkomuskilyrði betri en víðast annars staðar á landinu og þar þyrfti enginn að kvíða sulti. Í harðindum leitaði hingað bjargþrota fólk úr ýmsum áttum og átti hér sína lífsvon. Í eyjunum er örlæti náttúrunnar af margvíslegum toga. Sauðfjárbeit þvílík á haustin og fram eftir vetri að fé er vart léttara á fóðrum í öðrum sveitum. Breiðafjörður fullur af fiski og hvergi styttra á miðin en úr Bjarneyjum og Oddbjarnarskeri, enda kom hafís aldrei suður fyrir Látrabjarg. Hlunnindin skáru þó úr, bæði mikil og margvísleg, fugl, selur og hvers kyns fjörugæði óþrjótandi að kalla.

Að vísu urðu Eyjamenn að flytja mest af fé sínu á land upp yfir sumarið, m.a. vegna varpsins, og misstu þannig málnytuna. Var þetta nokkur bagi. Sumarhaga fyrir féð leigðu Vestureyingar jafnan í Múlasveit og Gufudalssveit. Séra Friðrik Eggerz, sem bjó í Akureyjum á Gilsfirði (Dalasýslu), upplýsti á sínum tíma að sumarið 1859 hefðu bændur í Flateyjarhreppi átt 444 ær og 550 geldfjár í hagagöngu í landhreppunum og goldið sem svaraði liðlega átta kúgildum fyrir sumarbeitina. Málnytumissi eyjabænda vegna fjarveru þessa fjár sumarlangt taldi prestur svara til liðlega 155 vætta á landsvísu eða um 26 kúgilda.[1] Tölurnar eru athyglisverðar og sýna m.a. hversu hátt sauðamjólkin var metin. Í Breiðafjarðareyjum voru náttúrugæði hins vegar slík að þrátt fyrir missi hennar þótti hvergi betra að búa.

Eggert Ólafsson, skáld og náttúrufræðingur, sem fæddur var í Svefneyjum árið 1726, er trúlega víðfrægastur Vestureyinga bæði fyrr og síðar. Hann ólst upp í Svefneyjum og þekkti eyjalífið út í hörgul. Lýsingu sína á lifnaðarháttum fólks í Vestureyjum birti hann í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar.[2] Þessi greinargerð Eggerts um mannlíf í eyjunum á liðnum öldum er sígild og skulu nokkrir kaflar úr henni teknir upp hér:

 

Gott þykir að búa í Breiðafjarðareyjum því að þar er mörg matarholan og margar leiðir til að framfleyta lífinu. Heyskapur og hagbeit er hvort tveggja gott. Útigangspeningur, fé og hestar, eru í jafngóðum holdum á vorin eins og þeim hefði verið gefið inni. Bændur róa ásamt vinnumönnum sínum á vertíðinni í Oddbjarnarskeri nema Bjarneyingar. Yfir þann tíma annast kvenfólkið heimilin, hirðir um túnin og einkum þó stundar það fuglaveiðar og tínir egg og dún. Sumar veiða seli í nætur, þar sem færi gefst. Mótekja er engin og nota menn því klíning til eldsneytis. Þurrkar kvenfólkið hann og flytur í hús. Hvergi á landinu starfa konur jafnmikið og hér. Til þess að sækja kýr og ær til mjöltunar tvisvar á dag verða þær að ganga langar leiðir milli eyja og hólma, þegar fjara er, eða fara á bátum á flóðinu. Við fjöru hafa þær einnig gát á því þegar svartbakurinn ber hrognkelsi upp á land. En mesta starfið er þó að tína fuglaegg og veiða lunda og aðra fugla.

 

Eggert getur um nokkrar fuglategundir, sem menn taki ungana frá til matar, – ritu, lunda teistu, svartbak og skarfa. Sumt af fuglakjötinu var étið nýtt, annað saltað, reykt eða vindþurrkað. Eggjum var safnað til matar frá æðarfuglinum, kríu, tjaldi, svartbak og ýmsum andategundum. Eggin voru lögð í þaraösku eða klíningsösku og þannig geymdust þau vel. Stundum voru þau soðin ný, skurnin tekin af og síðan lögð í súrt skyr til vetrarins.

Af skarfakáli segir Eggert eyjamenn hafa tekið heilu bátsfarmana og var það líka saltað til vetrarforða. Hann bætir við:

 

Söl eru víða tekin og fylltir af þeim bátar. Þegar heim kemur með þá eru þeir dregnir á land og ausið í þá ósöltu vatni og er það látið standa á sölunum í sólarhring. Síðan eru sölin breidd á jörð til þerris og þegar þau eru þurr eru þau látin í ílát.

 

Um viðskipti við kaupmenn og utansveitarfólk segir Eggert m.a.: Eyjamenn kaupa fjallagrös úr landi fyrir saltaðan fugl og aðrar vörur en kornmat, járn og færi kaupa þeir í Stykkishólmi fyrir harðfisk, æðardún og fjaðrir.

Eggert fjallar nánar um bjargræðisvegi eyjamanna, fiskveiðar, selveiðar og nytjar af kræklingi, hvölum og sjósniglum. Undir lok síns Eyjaþáttar hefur hann þetta að segja við lesendur:

 

Þeir [eyjamenn] hagnýta ýmsa hluti, sem ekki eru notaðir annars staðar á landinu, og aðra hluti nota þeir betur en aðrir landsbúar. Þeir eru ennfremur sparsamir og fara hreinlega bæði með mat og aðra hluti. Er slíkt sjaldgæft við sjávarsíðuna þar sem menn stunda sjó. Þeir eru gestrisnir við aðkomumenn, sem koma af landi ofan og ýmist leggja leið sína yfir Breiðafjörðinn eða koma til að eiga við þá verslun. Ferðamenn þessir geta oft, ef illa viðrar, orðið veðurtepptir 6-8 saman hjá einum bónda um vikutíma. Lætur hann þurrka vosklæði þeirra, fæðir þá og hýsir með fyllstu ánægju. Menn skemmta gestum með því að fá þeim fornar sögur til lestrar eða tefla við þá skák o.s.frv. en þetta er helsta dægradvöl manna hér í tómstundum þeirra. Þegar gestirnir loks fara er engin greiðsla þegin fyrir veittan beina en hins vegar taka eyjamenn hátt gjald fyrir að flytja ferðamenn milli lands og eyja, því að þeir reikna sér vinnutap það, sem af því leiðir … . Þess skal að lokum getið um eyjamenn að þar eð efni þeirra eru nær eingöngu framleiðsluvörur, sem þeir nota til viðurværis sér og þeim, sem þá heimsækja, þá er þar mjög fátt ríkra manna en flestir þeirra eru vel megandi og sárafáir fátæklingar. Drykkjuskapur og óhóf er þar ekki um hönd haft. Þess vegna eru þeir lausir við marga sjúkdóma, sem þjá þá menn, sem þjóna þessum löstum. Margir eyjamenn verða líka gamlir.

 

Hér verður ekki vitnað frekar í Eggert að sinni.

Frá upphafi einokunartímans árið 1602 og fram á síðari hluta 18. aldar var íbúum Flateyjarhrepps gert að sækja alla verslun til Stykkishólms og var þungt við að búa. Umskipti urðu í þessum efnum árið 1777 þegar veitt var heimild til siglingar vöruskipa til Flateyjar og verslun hófst þar á ný svo sem verið hafði fyrir daga einokunarinnar.

Hófst þá nokkru síðar mikið blómaskeið í sögu Flateyjar og Vestureyja, sem náði hámarki um miðja 19. öld. Segja má að Flateyingar og þeirra nágrannar hafi þá um skeið verið í fararbroddi í atvinnulegri, menningarlegri og félagslegri sókn landsmanna og einnig lagt drjúgan skerf til sjálfstæðisbaráttunnar. Með þilskipaútgerðinni á 19. öld óx vegur Flateyjar og þar myndaðist dálítið þorp sem náði að halda velli fram undir miðja tuttugustu öld.

Árið 1890 bjuggu 173 manneskjur í Flatey einni og var þar þá fjölmennasta þorpið í sýslum Vestfjarðakjálkans. Er þá kaupstaðurinn á Ísafirði undanskilinn með 839 íbúa. Á þessum tíma var Flatey fjórtándi fjölmennasti þéttbýlisstaðurinn á öllu landinu[3] og hefði byggðin þar náð að halda sínu hlutfalli í íbúafjölda landsins síðustu hundrað árin ættu nú (1988) að búa liðlega 600 manns í Flatey.

Árið 1920 var íbúafjöldinn í eynni 189 og þá bjuggu þar um 53% af öllum íbúum hreppsins. Árið 1950 áttu 117 manneskjur enn lögheimili í Flatey en á næstu tíu árum féll talan niður í 34.[4]

Hér verður nú staldrað við skamma hríð í hverri og einni þeirra eyja í Flateyjarhreppi sem í byggð eru eða hafa verið. Ætlunin er að minna á hverjum stað á þetta eða hitt frá fyrri tíð, allt þó í brotum.

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Friðrik Eggerz: Um jarðamat, fjárkláða og ýmislega tilhögun. Reykjavík 1865, 13-14.

[2] Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, Reykjavík 1975, I, 282-287.

[3] Tölfræðihandbók 1984.

[4] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »