Fyrir Hafnarmúla

– Vatnsdalur og Kvígindisdalur –

 

Innan við Örlygshöfn gengur Hafnarmúli í sjó fram, svipmikið fjall með fjölda ókleifra hamrabelta, og er tæpir 300 metrar á hæð. Frá Kálfadal í Örlygshöfn má ganga á múlann en uppi á honum er slétt flöt um 40 hektarar að flatarmáli.[1] Akvegur var lagður fyrir Hafnarmúla um miðja 20. öld en áður var hér torleiði.

Ólafur Árnason sýslumaður segir árið 1746 að Hafnarmúli sé hræðilega hátt fjall og vegurinn fyrir múlann liggi hátt í hlíð, rétt undir klettunum.[2] Séra Gísli Ólafsson í Sauðlauksdal segir tæpri öld síðar að leiðin fyrir múlann sé lítt fær.[3] Pétur Jónsson frá Stökkum lýsir aðstæðum svo árið 1935:

 

Undir múlanum má ganga með sjó fram ef ekki er stórbrim eða stórstraumsflæðar, er þar um illfærar urðir að fara. Stundum er og farið í miðri hlíð og er þá hengiflug bæði fyrir ofan og neðan. Þar var áður farið með hesta en kringum 1860 voru tveir kvenmenn þar á ferð með reiðingshest og hrapaði hann fram af klettunum. Mun leiðin eftir það hafa lagst af sem hestavegur.[4]

 

Á hestum var upp frá því jafnan farið að baki múlans, úr Kálfadal yfir í Mosdal og öfugt ef komið var að innan. Er þar um mjóan háls að fara.

Undir Hafnarmúla strandaði breski togarinn Sargon frá Grimsby í ofsaveðri að kvöldi 1. desember 1948. Var sex skipverjum bjargað af björgunarsveitinni Bræðrabandi í Rauðasandshreppi en ellefu fórust.[5] Er Sargon strandaði var Óskar Gíslason kvikmyndatökumaður staddur í Kollsvík við gerð kvikmyndar um björgunarafrekið við Látrabjarg einu ári fyrr (sjá hér Látrabjarg). Fór hann með björgunarmönnum á strandstað og kvikmyndaði björgunina. Í kvikmynd Óskars um björgunarafrekið við Látrabjarg gefst áhorfendum því ekki aðeins kostur á að sjá leikna sviðsetningu atburða heldur heimildamyndir teknar á staðnum af björgun manna úr sjávarháska í fjöruurðinni undir Hafnarmúla.

Innan við Hafnarmúla er dalverpi sem Mosdalur heitir. Þar er engin byggð en vegurinn liggur um dalsmynnið og þaðan áfram með sjó fyrir Vatnsdalsnúp að eyðibýlinu Vatnsdal í samnefndum dal. Sé akvegurinn farinn eru um sex kílómetrar frá Hnjóti í Örlygshöfn að Vatnsdal.

Vatnsdalur dregur nafn af litlu stöðuvatni frammi í dalnum. Kotið var á fyrri tíð talin góð fjöru- og útigangsjörð og héðan var stunduð hrognkelsaveiði oft með góðum árangri.[6] Þorpið á Patreksfirði blasir við frá Vatnsdal, nær beint á móti handan fjarðarins.

Þann 13. júní 1960 varð það slys í Vatnsdal að liðlega tvítugur bóndasonur á bænum og piltur úr Reykjavík drukknuðu hér í blíðviðri upp við landsteina.[7] Fáum árum síðar fór jörðin í eyði.

Frá Vatnsdal að Kvígindisdal, næsta bæ inn með firðinum, eru um þrír kílómetrar. Leiðin liggur með sjó, fyrir Skalladalsfjall og um mynni Skalladals sem er lítil dalkvos. Aldrei var búið í Skalladal en fyrr á árum var stundum heyjað þar frá Kvígindisdal[8] þó að gróður sýnist lítill. Fyrir bílaöld lá leiðin hér um fjöruna ellegar brattar skriður hið efra. Í heimild frá 18. öld segir að vegurinn um Vatnsdals- og Kvígindisdalsfjörur skemmist jafnan af sjógangi og verði því ætíð að ryðja hann á hverju ári.[9] Snemma á tuttugustu öld var talinn sæmilegur hestavegur um Skriður inn frá Vatnsdal og lá reiðgatan í miðjum hlíðum.[10] Deildargil heitir utarlega í skriðunum. Þar fórst ungur maður í snjóflóði árið 1931 en annar, sem með honum var, bjargaðist naumlega.[11]

Bærinn Kvígindisdalur stendur neðarlega í grösugum dal, samnefndum. Jörðin var talin notagóð, allgott sauðland og fjörubeit. Sandurinn fyrir mynni Sauðlauksdals er hins vegar skammt undan. Í jarðabókarskýrslu Árna Magnússonar frá árinu 1703 segir að sandfok fordjarfi túnið til stórskemmda[12] og í sóknarlýsingunni frá 1840 er þess getið að jörðin sé sandfoki undirorpin.[13]

Ýmsir framtaksmenn hafa búið í Kvígindisdal á síðari öldum. Árið 1703 bjó hér Gunnlaugur Jónsson lögréttumaður og hundrað árum síðar,á fyrstu áratugum nítjándu aldar, bóndinn Guðbrandur Jónsson. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er Guðbrandur þessi sagður hafa verið mikill fyrir sér, bæði til sjós og lands. Ýmislegt er þar um hann ritað, ekki allt fallegt og því síður trúlegt, – til dæmis þetta:

 

Eitt er það talið sem dæmi um fégirni Guðbrands að hann seldi son sinn hollenskum fiskimönnum. Pilturinn var einkabarn Guðbrands, 10 eða 12 vetra og rauðleitur á hár. Sagt er að Hollendingar vildu fá blóð hans til lækninga og gæfu Guðbrandi því mikið fé fyrir hann. Margar eru og fleiri sagnir hér á landi um eftirsókn Hollendinga eftir rauðbirknum mönnum. Er sagt að jafnskjótt og Hollendingar komu út í fjarðarmynnið, þá hengdu þeir drenginn upp á fótunum og stingju hann síðan og töppuðu úr honum blóðið og áttu hljóð hans að hafa heyrst í land en Guðbrandur sagðist hafa komið honum fyrir hjá útlendingum til lærdóms.

 

Einhver dæmi munu finnanleg frá fyrri öldum um að fátækir menn hérlendis hafi komið börnum í erlend skip í von um að þeirra biði með framandi þjóðum skárri framtíð en hér var að vænta.[14] – Það furðulegasta við söguna hér að framan er hins vegar það að hún er ekki aftan úr grárri forneskju heldur úr samtíð skrásetjarans. Frá andláti Guðbrands í Kvígindisdal voru aðeins liðin 20-30 ár þegar fyrsta útgáfa af Þjóðsögum Jóns Árnasonar kom út á árunum 1862-1864 og þar er sagan prentuð. Í sögunni eru bæði Guðbrandur í Kvígindisdal og kona hans, Guðrún Þorgrímsdóttir, nefnd með nafni, svo og fleira samtíðarfólk þeirra sem flest er auðfundið í húsvitjunarbókum prestanna frá þessum árum.

Í manntalinu frá 1801 er Guðbrandur sagður vera 41 árs og hefur því verið fæddur um 1760. Samkvæmt manntalinu sem hér var nefnt áttu hjónin í Kvígindisdal aðeins einn son árið 1801.[15] Sá hét Jón og var þá 17 ára gamall. Sjö árum síðar var hann horfinn úr foreldrahúsum.[16]

Sá sem skráir söguna um barnssöluna er fræðimaðurinn Gísli Konráðsson sem átti heima í Flatey á Breiðafirði síðasta aldarfjórðunginn sem hann lifði en þangað fluttist hann norðan úr Skagafirði. Þegar Gísli settist að í Flatey árið 1852 voru aðeins liðin 14 ár frá því Guðbrandur í Kvígindisdal andaðist svo margir honum kunnugir hafa þá verið á lífi. Hvaðan Gísli fékk söguna um viðskipti Guðbrands við Hollendinga og meðferðina á drengnum veit nú enginn en ætla má að þar hafi óvildarmenn bóndans í Kvígindisdal verið að verki.

Aðra heimildir benda reyndar til þess að Jón Guðbrandsson frá Kvígindisdal hafi siglt til Hollands og búið þar um lengri eða skemmri tíma en þar sést líka að hann var orðinn fullorðinn þegar hann fluttist þangað og var því ekki seldur til slátrunar á barnsaldri. Skal nú nánar að þessu vikið.

Árið 1818 var fermdur að Stað í Grunnavík piltur að nafni Guðbrandur Jónsson. Í prestsþjónustubókinni er tekið fram að hann sé fæddur í Sauðlauksdal, sem er næsti bær við Kvígindisdal, og þess getið að faðir fermingardrengsins sé Jón Guðbrandsson í Hollandi.[17]

Óhætt mun að slá því föstu að þessi Jón Guðbrandsson í Hollandi sé sonur Guðbrands Jónssonar í Kvígindisdal, sem hér var áður frá sagt, því að í manntalinu frá 1801 finnst enginn annar Jón Guðbrandsson í allri Vestur-Barðastrandarsýslu sem verið gæti faðir þessa fermingardrengs.

Munurinn á þjóðsögunni og veruleikanum er því sá að bóndasonurinn frá Kvígindisdal sem lenti í slagtogi með Hollendingum var ekki 10 eða 12 ára barn heldur fulltíða maður sem kominn var um eða yfir tvítugt og skildi eftir son er síðar átti eftir að auka kyn sitt svo um munaði. Sagan um píslir Jóns Guðbrandssonar á útsiglingunni er auðvitað tilbúningur einn en vera kann að Guðbrandur í Kvígindisdal hafi átt hlut að ráðningu þessa sonar síns í skiprúm hjá Hollendingum.

Um Guðbrand yngri, sem bar nafn afa síns í Kvígindisdal en var fermdur norður í Grunnavík árið 1818, skal tekið fram að norður þangað mun hann hafa borist með séra Eyjólfi Kolbeinssyni sem um skeið var aðstoðarprestur í Sauðlauksdalsprestakalli en fór héðan að Stað í Grunnavík.

Daginn sem séra Eyjólfur fermdi piltinn skrifar hann þetta við nafn hans: Kann ei illa – brösóttur. Þessi yngri Guðbrandur var síðar nefndur Barna-Brandur, enda eignaðist hann börn með fimm konum (sjá hér Bær í Súgandafirði). Vel má vera að afi Barna-Brands, gamli Guðbrandur í Kvígindisdal, hafi líka verið brösóttur en ýmsu hefur þó verið á hann logið sem enginn skyldi trúa eins og sagan hér að framan sýnir best.

Um 1820 bjó í Kvígindisdal Árni Þóroddsson frá Vatneyri, föðurbróðir Jóns Thoroddsen, skálds og sýslumans. Árni var formaður á skipi sínu Hreggviði og fórst með því í hákarlalegu árið 1824, þá liðlega fimmtugur að aldri.[18] Með Árna drukknuðu allir átta hásetar hans. Fimm þeirra voru heimilismenn í Kvígindisdal en hinir þrír frá Vatnsdal. Einn þeirra sem drukknuðu á Hreggviði var Bjarni, sonur Bjarna á Sjöundá er dæmdur var til dauða og höggvinn í Noregi.[19] Sagt var að hákarlaskipið úr Kvígindisdal ræki í Trékyllisvík á Ströndum næsta haust.[20]

Kunnastur bænda í Kvígindisdal á síðari tímum er Snæbjörn J. Thoroddsen sem hér tók við búi af föður sínum árið 1921 og stóð fyrir búskap á jörðinni í nær hálfa öld. Hann var lengi oddviti og sýslunefndarmaður, einnig framkvæmdastjóri Sparisjóðs Rauðasandshrepps í yfir 60 ár en allan þann tíma var aðsetur sparisjóðsins í Kvígindisdal. Snæbjörn í Kvígindisdal náði háum aldri og naut á efri árum almennrar virðingar bæði innan sveitar og utan. Var það að verðleikum.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Pétur Jónsson 1942, 100 (Barðstrendingabók).

[2] Sýslulýsingar 1744-1749, 147 (gefnar út 1957).

[3] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 211.

[4] Pétur Jónsson 1942, 100.

[5] Þórður Jónsson 1949, 23-35 (Árbók Barð.).

[6] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 211.  Pétur Jónsson 1942, 101(Barðstrendingabók).

[7] Morgunblaðið15.6.1960.

[8] Pétur Jónsson 1942, 101.

[9] Sýslulýsingar 1744-1749, 147 (gefnar út 1957).

[10] Pétur Jónsson 1942, 101.

[11] Sama heimild.

[12] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 325.

[13] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 211.

[14] Helgi Þorláksson 1983 47-53 (Sagnir, 4. árg.).

[15] Manntal 1801.

[16] Sóknarmannatöl Sauðlauksdalsprestakalls.

[17] Prestsþj.bækur Staðar í Grunnavík.

[18] Gísli Konráðsson: Lbs. 4034to, bls. 132-134.

[19] Sama heimild.

[20] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »