Kotnúpur

Frá hlaðinu á Klukkulandi og yfir að Kotnúpi eru aðeins 400 metrar en Núpsá rennur á milli bæjanna. Hún skilur á milli gömlu kirkjusóknanna á norðurströnd Dýrafjarðar. Klukkuland er því í Mýrasókn en Kotnúpur í Núpssókn. Svo má heita að Kotnúpur sé nær beint á móti Klukkulandi, handan við ána, en fyrrnefnda jörðin er þó örlítið heimar á dalnum. Bærinn á Kotnúpi stóð spölkorn frá ánni og alveg upp undir hlíðinni. Túnið er í brekku sem hallar mót suðaustri. Þar hefur nú allt verið í eyði frá árinu 1947.

Kotnúpur er gömul hjáleiga frá Núpi sem ein sér átti aldrei neitt afmarkað beitiland. Hagar jarðarinnar eru saman við Núpshaga í óskiftu, segir í Jarðabókinni frá 1710,[1] og þannig mun þetta ætíð hafa verið. Tún og engjar hafði Kotnúpur hins vegar út af fyrir sig og voru engjarnar á bökkum Núpsár. Hjáleiga þessi var á fyrri tíð talin 10 hundruð að dýrleika og því einn sjötti úr öllu Núpslandi.[2]

Enda þótt Kotnúpur hafi verið hjáleiga frá Núpi fær jörðin hér sömu meðferð og sjálfstæðar bújarðir. Ástæðan fyrir því er sú að Kotnúpur er ekki í túni heimajarðarinnar eða rétt utan við það eins og almennt var á Vestfjörðum um þær hjáleigur sem aldrei urðu sjálfstæðar bújarðir. Frá Kotnúpi er hálfur annar kílómetri heim að Núpi og því má segja að býli þetta hafi staðið alveg sér þó að beitilandið væri sameiginlegt.

Frá Kotnúpi er styst að ganga upp undir hamravegg Núpsins sem hér gnæfir við himin og setur sinn sterka svip á allt umhverfið. Svolítið neðar í fjallinu yfir Kotnúpi er annar hnúkur sem ber heitið Gnípa en hátt í hlíðinni alllangur hjalli sem heitir Kolagröf.[3] Þar hefur forðum verið gert til kola meðan landið var enn viði vaxið.

Slægjuland var talið gott á Kotnúpi niður undan bænum ofan með ánni en votlent var á þessum engjum.[4] Af túni og engjum fengust í meðalári fjögur kýrfóður af heyi, segir í Jarðabók Árna og Páls.[5]

Enginn veit nú hvenær byggð hófst í þessari hjáleigu en í rituðum heimildum verður jarðarinnar fyrst vart árið 1446 í skrá yfir jarðeignir sem Guðmundur ríki Arason á Reykhólum hafði átt á Vestfjörðum.[6] Kotnúpur er þá metinn á 12 hundruð[7] en síðar var dýrleiki jarðarinnar yfirleitt talinn 10 hundruð.[8]

Á 15. öld var Kotnúpur lengi vel í eigu stóreignamanna sem áttu mikinn fjölda jarðeigna. Úr þeim hópi eru víðkunnastir þeir Guðmundur ríki á Reykhólum, sem áður var nefndur, og Björn hirðstjóri Þorleifsson, sem veginn var í Rifi árið 1467. Að Birni látnum kom Núpur í Dýrafirði í hlut Árna sonar hans og fylgdu með sjö aðrar jarðir í Mýrahreppi.[9] Ein þeirra var Kotnúpur.[10] Árni var hermaður og féll við Brunkaberg i Svíþjóð árið 1471.[11] Hundrað árum síðar var Kotnúpur kominn í eigu kirkjunnar á Núpi eins og sjá má í Gíslamáldaga sem ritaður var á árunum upp úr 1570.[12]

Í máldögum Núpskirkju frá 14. öld er jafnan tekið fram að kirkjan eigi þriðjung í heimalandi á Núpi.[13] Ekki er fyllilega ljóst hvort Kotnúpur sé talinn með þegar þarna er talað um heimaland á Núpi. Allt frá því á 16. öld mun hins vegar hafa verið litið svo á að kirkjan ætti þriðjung í allri Núpstorfunni að Kotnúpi meðtöldum og kirkjueignin væri því 20 hundruð. Í Gíslamáldaga segir að kirkjan eigi þriðjung í heimalandi á Núpi og þar er sérstaklega tekið fram að kirkjan eigi Kotnúp.[14] Orð Gíslamáldaga mætti ef til vill skilja á þann veg að kirkjan hafi átt þriðjung í heimalandi og Kotnúp að auk en í Jarðabókinni frá 1710 kemur skýrt fram að kirkjueignin er bara 20 hundruð.[15] Heimildir frá 19. öld sýna líka að kirkjan hefur átt Kotnúp, sem var talinn 10 hundruð, og svo önnur 10 hundruð í heimajörðinni á Núpi. Skýrast kemur þetta fram í þinglýstu skjali frá árinu 1857 er nýr eigandi að heimajörðinni á Núpi fékk umráð yfir eignum kirkjunnar þar og Kotnúpi með (sjá hér Núpur), en í sóknalýsingu frá árinu 1840 er líka tekið fram að Kotnúpur sé kirkjujörð frá Núpi.[16] Sú staðhæfing er efnislega samhljóða orðum Gíslamáldaga frá síðari hluta 16. aldar, sem hér var áður vitnað til, og því augljóst að Núpskirkja hefur átt Kotnúp í a.m.k. þrjár aldir og þrátíu árum betur.

Bændur á Kotnúpi voru sjaldan fleiri en einn en þó var þar tvíbýli árið 1703 og líka 1801.[17] Árið 1703 var líka einhleypur húsmaður á Kotnúpi sem hét Hallsteinn Jónsson og er í manntalinu frá því ári sagður nærast af sjóróðrum og alþingisreiðum.[18] Hallsteinn var þá 50 ára að aldrei og má ætla að skýringin á því að hann skuli í gamni eða alvöru vera sagður nærast á alþingisreiðum sé sú að Páll Torfason, sýslumaður á Núpi, hafi haft Hallstein með sér í ferðum á Öxarárþing sem einhvers konar aðstoðarmann. Líklegast er að Hallsteinn hafi þá séð um hestana og máske annan búnað í því skyni að gera yfirvaldinu langferðirnar sem þægilegastar. Fyrir þetta kynni hann að hafa fengið einhverja þóknun en fáir munu þeir múgamenn hafa verið í byrjun 18. aldar sem höfðu alþingisreiðar að bjargræðisvegi og máske enginn nema Hallsteinn á Kotnúpi.

Í Stórubólu, sem hér geisaði á árunum 1701-1709, fór Kotnúpur í eyði,[19] og hætt er við að Hallsteinn þingreiðamaður hafi mátt súpa hel í því fári. – Aftur kann þessi jörð byggjast, þá fólkið fjölgar í landinu, segir Árni Magnússon í Jarðabókinni frá 1710[20] og í reynd varð þess ekki langt að bíða. Ef til vill örfá ár en sannanlega var aftur farið að búa á Konúpi árið 1735.[21]

Fyrir bóluna var árleg landskuld af Kotnúpi 4 vættir (tveir þriðju hlutar úr kýrverði) og leigukúgildi sem jörðinni fylgdu voru fjögur.[22] Í byrjun 18. aldar hermdu sagnir að löngu fyrr hefðu leigukúgildin á Kotnúpi verið sex (þ.e. 36 ær)[23] og má ætla að eigin bústofn leiguliðans þar hafi þá verið harla smár. Fyrir bóluna var bændum á Kotnúpi gert að leggja landeiganda til mann í skiprúm á hverri vorvertíð[24] og líklegt má telja að sú kvöð hafi haldist eitthvað lengur.

Árið 1845 bjuggu á Kotnúpi hjónin Jón Jónsson og Ólöf Þórarinsdóttir. Bæði voru þau þá komin nokkuð til ára sinna, hann 67 ára en hún 75 ára.[25] Árið 1822 höfðu þau búið í Glóru og þá um vorið var Sacharías sonur þeirra fermdur. Við það tækifæri var hann sagður vera merkilega vel að sér (sjá hér Neðri-Hjarðardalur). Þegar manntal var tekið árið 1845 var Sacharías orðinn 38 ára. Hann var þá vinnumaður hjá foreldrum sínum á Kotnúpi, kvæntur Sigrúnu Bjarnadóttur, og þar var líka sonur þeirra Sigrúnar, Ólafur að nafni, talinn ellefu ára.[26] Fáum árum síðar tók Sacharías við búi á Kotnúpi og bjó þar árið 1850 með 3 kýr, 15 ær, 10 sauði, 8 gemlinga, 15 lömb og 2 hross.[27] Ekki var búið stærra hjá þessum bóndamanni sem á ungum aldri hafði verið talinn svo merkilega vel að sér. Báturinn sem hann átti var líka aðeins tveggja eða þriggja manna far.[28] Niðjar Sacharíasar áttu hins vegar eftir að spjara sig bæði við nám og störf og má úr þeim hópi nefna sonarsyni hans tvo, þá Kristján J. Ólafsson, bónda og skútuskipstjóra í Meira-Garði (sjá hér Meiri-Garður) og Rögnvald Ólafsson sem árið 1900 tók stúdentspróf utanskóla frá lærða skólanum í Reykjavík og fékk þá ágætiseinkunn.[29] Hann stundaði síðar nám í húsagerðarlist við Kaupmannahafnarháskóla, einna fyrstur Íslendinga, og varð afreksmaður á því sviði (sjá hér Núpur, Ytri-hús þar).

Ekki er ætlunin að tefja lengi á Kotnúpi því senn er mál að halda í hlað á Núpi. Við lítum samt á gamla kvíabólið, rétt fyrir framan túnið,  þar sem ærnar voru mjólkaðar á fyrri tíð og Stöðulinn, sem er litlu framar, en þangað voru kýrnar reknar til mjalta.[30]

Þuríðarstein skulum við líka skoða en hann stendur í dæld hjá bæjarlæknum rétt ofantil við götuna sem liggur ofan við túnið á Kotnúpi.[31] Sagnir herma að steinninn sé kenndur við vinnukonu sem Þuríður hét og hafi hún orðið úti hér við steininn, örstutt frá bænum á Kotnúpi.[32] Þetta er stór steinn og sýnist hingað kominn ofan úr klettum fyrir ekki ýkja löngu en í honum er brotið berg.

Frá Þuríðarsteini höldum við áleiðis að Núpi en milli bæjanna er um það bil 20 mínútna gangur. Hér liggur leiðin fyrst í suðvesturátt uns komið er út í mynni dalsins og á þjóðveginn sem liggur til norðvesturs heim að Núpi. Á Kotnúpsholtunum, skammt utan við túnið á Kotnúpi, er Landdísarsteinn, einn allmargra slíkra steina í Dýrafirði. Þetta er stór steinn, nær flatur að ofan og stendur efst í holtunum, alveg upp við götuna.[33] Um trú manna á landdísirnar er margt á huldu en í Dýrafirði er kunnugt um slíka steina á a.m.k. fimm bæjum.[34]

Í skýrslu um fornleifar í Dýrafjarðarþingum sem séra Jón Sigurðsson, þá prestur í Meira-Garði, sendi frá sér sumarið 1818 kemst hann svo að orði:

 

Allvíða hér í sóknum eru svokallaðir Landdísasteinar, af Landdísum sem almúgafólk meinar í þeim búi. Þess vegna er börnum bannað að leika sér í kringum þá og öllum raunar að hafa þar nálægt glens eða gaman. Ekki má reita af þeim gras eða slá þar í grennd við, ella er því fast trúað að fólki verði eitthvað um sök.[35]

 

Freisting væri að eiga lengri dvöl hér við Landdísarstein eða í garðinum Skrúð sem blasir við augum göngufólks rétt áður en komið er að Núpi. Samt skundum við strax heim á höfuðbólið og komum okkar þar fyrir í kirkjugarðinum.

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 74-75.

[2] Sama heimild.

[3] Örnefnaskrá.

[4] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 75.

[5] Jarðab. Á. og P. VII, 74.

[6] D.I. IV, 688.

[7] Sama heimild.

[8] Jarðab. Á. og P. VII, 74-75; J.Johnsen 1847, 193.

[9] D.I. V, 502.

[10] Sama heimild.

[11] Íslenskar æviskrár I, 257.

[12] D.I. XV, 575.

[13] D.I. III, 197, 228 og 330; D.I. IV, 142-143.

[14] D.I. XV, 575.

[15] Jarðab. Á. og P. VII, 74-75.

[16] Sóknalýs. Vestfj. II, 75.

[17] Manntöl frá 18. og 19. öld og Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[18] Manntal 1703.

[19] Jarðab. Á. og P. VII, 74-75.

[20] Sama heimild.

[21] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, Ísafj.sýsla um 1753, eftirrit.

[22] Jarðab. Á. og P. VII, 74.

[23] Sama heimild.

[24] Sama heimild.

[25] Manntal 1845.

[26] Sama heimild.

[27] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 2., búnaðarskýrsla.

[28] Sama heimild.

[29] Óðinn XII, 89-90, mars 1917.

[30] Örn.skrá.

[31] Örn.skrá; Vestfirskar sagnir II, 387; Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[32] Sömu heimildir.

[33] Örn.skrá; Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[34] Lýður Björnsson 1974, 34-35 (Ársrit. S.Í.).

[35] Frásögur um fornaldarleifar II, 1983, 418.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »