Múli

Eins og fyrr var getið stendur bærinn Múli í mynni Kirkjubólsdals, beint á móti Kirkjubóli. Lítið eitt framar eru tóttir í Múlalandi, kallaðar Kot, og er álitið að þar hafi þurrabúðarfólk hafst við.[1] Ekki er þess þó getið í Jarðabókinni frá 1710 og gæti verið yngra. Að fornu mati taldist Múli vera 6 hundraða jörð[2] og var löngum í eigu kirkjunnar á Söndum. Í heimildum frá því fyrir 1500 finnst Múla hvergi getið og því er hugsanlegt að hér hafi búskapur ekki hafist fyrr en á 15. eða 16. öld en gera má ráð fyrir að Múli hafi byggst úr landi staðarins á Söndum. Í byrjun 18. aldar átti Sandakirkja tvær jarðir í Dýrafirði, Múla og Granda.[3] Í Gíslamáldaga frá því um 1570 má sjá að þá voru líka tvær jarðir í eigu kirkjunnar.[4] Þær voru að vísu ekki nefndar með nafni í máldaganum en mjög líklegt verður að telja að um sömu jarðir sé að ræða. Sú tilgáta styðst m.a. við þau rök að í máldaganum er tekið fram að af annarri þessara kirkjujarða séu fimm aurar goldnir í landskuld en tíu aurar af hinni.[5] Af því má álykta að dýrleiki annarrar jarðarinnar hafi verið tvöfalt meiri en hinnar en þannig háttaði einmitt til með Múla og Granda því Múli taldist 6 hundraða jörð en Grandi var metinn á 12 hundruð.[6] Landskuldin hefur þá verið einn eyrir fyrir hverjar 144 álnir í jörð. Seinna var matið á jörðinni hækkað upp í 8 hundruð.[7]

Með hliðsjón af því sem hér hefur verið sagt má telja mjög líklegt að Múli hafi verið orðinn sjálfstæð bújörð á síðari hluta 16. aldar en kynni áður að hafa verið hjáleiga frá Söndum. Í lok 14. aldar átti Sandakirkja engar jarðir nema heimalandið[8] en hugsanlegt er að Múli hafi þá verið hjáleiga í staðarlandinu. Á 14. og 15. öld fjölgaði mjög hjáleigum víða um land og má kalla líklegt að þá hafi búskapur hafist á Múla.

Um 1670 fylgdu Múla fjögur innstæðukúgildi (24 ær) í eigu Sandakirkju en hafði fjörutíu árum síðar fækkað niður í eitt og hálft kúgildi.[9] Í byrjun 18. aldar þurfti bóndinn á Múla að leggja Sandakirkju til mann í skiprúm á hverri vorvertíð og hefur að líkindum oft þurft að þjóna kirkjunni sjálfur með þessum hætti því erfitt hefur verið að halda vinnufólk á 6 hundraða jörð. Eins og víðar á þessum slóðum lágu úthagar, tún og engjar á Múla undir skriðuföllum og í Jarðabókinni frá 1710 segir að bærinn sé í hættu fyrir snjóflóðum og hafi þau mjög á hann gengið þó þau hafi ei hingað til hús brotið né burt tekið.[10] Á sama stað er þess getið að frá Múla sé vatnsvegur í Kirkjubólsá bæði langur og torsóttur á vetur fyrir fannalögum.[11]

Þrátt fyrir öll þessi vandkvæði komust menn sæmilega af á Múla og þá ekki síst þeir sem sjóinn sóttu af kappi. Um miðja 19. öld var Múli enn í eigu Sandakirkju sem eins og 1710 átti þar hálft annað innstæðukúgildi.[12]

Sjaldan mun hafa verið tvíbýli á Múla en auk bóndans og skylduliðs hans hafðist hér við árið 1703 kvæntur húsmaður sem hét Magnús Steinólfsson og voru þau hjónin sögð lifa við sjóbjörg.[13] Tveir prestar sem þjónað höfðu á Söndum á 19. öld færðu sig hingað er þeir hættu prestskap. Annar þeirra var séra Bjarni Gíslason sem missti bæði mál og rænu, fertugur að aldri, árið 1841.[14] Hann lét af embætti fimm árum síðar[15] en bjó ásamt fjölskyldu sinni hér á Múla árið 1850.[16] Ætla má að kona hans, Helga Árnadóttir, hafi þá staðið fyrir búinu eða sonur þeirra, Hákon Bjarnason, fæddur 1828, sem þá var enn í foreldrahúsum,[17] en hann varð seinna verslunarstjóri á Þingeyri um skeið og lengi kaupmaður á Bíldudal.[18]

Séra Jón Sigurðsson, fæddur 1787, er margir nefndu Jón svarta, var prestur á Söndum frá 1853 til 1859[19] en hafði áður þjónað lengi í Dýrafjarðarþingum (sjá Gerðhamrar). Hann var vel að sér í tungumálum, einkum frönsku,[20] og mun það oft hafa komið sér vel því á hans dögum lá oft mikill fjöldi af frönskum skútum inni á Dýrafirði og menn áttu margvísleg viðskipti við frönsku sjómennina. Sagt er að þegar Jón svarti var á Söndum hafi hann eitt sinn bjargað strokumanni af franska herskipinu Artemise[21] sem stundum fylgdi skútunum á Íslandsmið.[22] Kona Jóns prests Sigurðssonar var Þórdís, dóttir séra Þórðar Þorsteinssonar er lengst var prestur í Ögurþingum.[23] Að sögn kunnugra var séra Jón tilfinningamaður og hjálpsamur við þá sem bágt áttu [24] en bæði voru þau hjónin nokkuð drykkfelld og sálusorgarinn bráðlyndur við drykk og heitingagjarn ef út af bar.[25]

Vorið 1859 var Jón prestur að verða 72ja ára og orðinn sjóndapur.[26] Hann lét þá af embætti og fluttist ásamt konu sinni og skylduliði hingað að Múla, í niðurnídda torfkofa, en um brottför sína frá Söndum og komuna að Múla orti hann sjálfur svo:

 

Söndum þegar ég flæmdist frá,

villtur, sljóskyggn vissi ég ekki

veg minn í hvarma þokumekki,

félaus mér engin forráð sá.

 

Blindan og þreyttan bar mig að

moldvörpuhreysi myrku, brotnu,

mínu fjöri að næstum þrotnu,

vesælt herbergi þótti það.

 

Lúinn samt niður lagðist þar,

moldu umkringdur, myrkri, grjóti,

mínu skapi þó þvert á móti,

því Niflheimi líkt og Náströnd var.

 

Átján náttdægur eg þar lá,

sældarskorti sárum vafinn,

sorgar þá líka þönkum kafinn.

Herrann gaf nokkra huggun þá.

 

Framandi komu firðar að,

sendir mér gulls að færa fórnir,

fleiri voru mér skenkir bornir,

huga minn gladdi og hjarta það.[27]

 

Vart þarf að efa að hinir framandi firðar, sem prestur getur um, muni hafa verið franskir sjómenn og ekki ólíklegt að þeir hafi talið sig eiga honum gott að gjalda. Köld mun aðkoman hafa verið en hinn prestvígði tungumálagarpur hélt þó sæmd sinni hér í kotinu. Hann var haustið 1860 með tíu manna heimili og í þeim hópi tvö tökubörn.[28] Séra Jón Sigurðsson og Þórdís, kona hans, bjuggu hér í þrjú ár en fluttust þá norður að Hafnarhólmi í Steingrímsfirði, til dóttur sinnar.[29]

Nokkru seinna bjuggu um sinn á Múla hjónin Kristján Össurarson og Ragnheiður Pétursdóttir og hjá þeim var hér haustið 1880 níu ára sonur þeirra er Guðmundur hét[30] en hann stýrði seinna, fyrstur innlendra manna, togara til veiða á Íslandsmið (sjá hér Haukadalur). Árið 1882 settist Benjamín Bjarnason að á Múla en hann var þá liðlega þrítugur að aldri.[31] Benjamín var lengi fiskiskipstjóri á kútterum og skonnortum Gramsverslunar á Þingeyri en skip þessi gerði verslunin út til veiða yfir sumarmánuðina og þá með íslenskri áhöfn en vor og haust fluttu þau vörur og afurðir milli Danmerkur og Íslands og voru þá undir stjórn danskra skipstjóra (sjá hér Þingeyri). Benjamín skipstjóri bjó á Múla í um það bil 20 ár, kallaður húsmaður fyrstu árin en síðan bóndi. Héðan fluttist hann til Þingeyrar rétt eftir aldamótin 1900. Kristján Jón Guðmundsson, skipstjóri frá Arnarnúpi í Dýrafirði, sem þekkti vel til starfa Benjamíns, ritar um hann á þessa leið:

 

Benjamín Bjarnason var með elstu skipstjórum á Þingeyri. Hann var lengi með Juliettu, bæði á fiskiríi og í flutningum, og þrjú ár var hann með Edward & Sophie. … Hann var um fjölda ára aðalsetningastjóri á skipum á Þingeyri, skipaskoðunarmaður var hann lengi og fiskimatsmaður eftir að hann hætti sjósókn. Hann var glöggur og skýr maður og sérstaklega samviskusamur. Sjómaður var hann góður.[32]

 

Frá hlaðinu á Múla blasti Sandakirkja áður við sjónum manna og bæjarhúsin þar á staðnum, enda aðeins tæplega tveir kílómetrar á milli. Frá Múla Sanda-stað fær séð, segir í gömlu bæjavísunni sem hér er að finna framar í riti þessu (sjá hér Þingeyrarhreppur, inngangskafli).  Nú er öldin önnur. Samt fetum við slóðina heim á hinn forna kirkjustað.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Örnefnaskrá.

[2] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 43-44.

[3] Sama heimild, 28-93.

[4] D.I. XV, 577.

[5] Sama heimild.

[6] Jarðab. Á. og P. VII, 43 og 46.

[7] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.  Sbr. J. Johnsen 1847, 192.

[8] D.I. IV, 145.

[9] Jarðab. Á. og P. VII, 44.

[10] Sama heimild.

[11] Jarðab. Á. og P. VII, 44.

[12] J. Johnsen 1847, 192.

[13] Manntal 1703.

[14] Íslenskar æviskrár I, 166-167.

[15] Sama heimild.

[16] Manntal 1850.

[17] Sama heimild.

[18] Ísl. æviskrár V, 358-359.

[19] Sama III, 265.

[20] Þjóðsögur og þættir II, 104.

[21] Sama heimild, 108-109.

[22] K.Ó. 1986, 182 og 184 (Saga, tímarit).

[23] Ísl. æviskrár III, 265 og V, 125-126.

[24] Þjóðsögur og þættir II, 110.

[25] Sama heimild, 104.

[26] Ísl. æviskrár III, 265.

[27] Lbs. 23684to, Sighvatur Grímsson Borgfirðingur. Prestaæfir XI, 221-222.

[28] Manntal 1860.

[29] Ísl. æviskrár III, 265.

[30] Manntal 1880.

[31] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[32] Skútuöldin V, 112.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »