Oddbjarnarsker

Í Oddbjarnarskeri var öldum saman ein helsta verstöð við Breiðafjörð. Séra Ólafur Sívertsen lýsir skerinu svo:

Það er nokkurskonar sandhóll í samföstum skerjaklasa, nær því kringlótt, að lengd 90 faðmar, en á breidd 70 faðmar. Einna hæst er það að austanverðu. Er þar lítill hóll á skerinu, sem mælt er sé haugur þess, er Oddbjarnarsker hefir nafnið af. Laut eður lág gengur eftir hveli þessu enu litla frá austri til vesturs. Bæði sú laut og skerhóllinn allur er þakinn fögru og háu melgresi, hvar áður voru þéttskipaðir fiskireitar, af steini lagðir. Kringum skerhólinn allan er bláhvítur smásandur, rétt kallaður ægissandur, allt ofan að smástraumsflæði, eins og líka sami sandur er í öllum skershvelinum.[1]

 

Eftir lýsingu séra Ólafs ætti skerið að vera um tveir hektarar að flatarmáli og þá stærð nefnir Guðmundur Einarsson á Brjánslæk, sem lengi bjó í Hergilsey, en tekur fram að þá sé miðað við stærð þess um flæði.[2] Annars staðar er skerið sagt vera um einn hektari að flatarmáli.[3]

Frá Flatey blasir Oddbjarnarsker við í sæmilegu skyggni, svolítill hóll við hafsbrún, lítið eitt sunnan við vestur. Vegalengdin frá Flatey í Oddbjarnarsker er sex til sjö sjómílur og er skerið meðal ystu eyja við Breiðafjörð. Lending þótti þar allgóð. Er hún norðan eða norðvestan á Skerinu og hlífa Laugasker lendingunni.[4] Þangað var talinn um tveggja stunda róðir í logni frá Flatey eða Hergilsey.[5]

Á fyrri öldum var Oddbjarnarsker eign Flateyjarkirkju en við eignaskiptin 1782, er byggð hófst á ný í Hergilsey, varð Oddbjarnarsker sameign eigenda Flateyjar og Hergilseyjar.[6]

Á hverju hausti var melgresið í Oddbjarnarskeri slegið og talið að þar fengjust átta kýrfóður.[7] Í desembermánuði árið 1801 drukknuðu fjórir menn úr Hergilsey og Flatey í melferð í Oddbjarnarsker.[8]

Í sóknarlýsingu séra Ólafs Sívertsen frá árinu 1840 segir að róðrar frá Oddbjarnarskeri hafi hafist á 14. öld eða fyrr. Hann greinir einnig frá því að Jón Björnsson, hinn ríki í Flatey, sem uppi var á 16. öld, hafi fyrstur svo vitað sé heimtað vertolla af þeim er reru úr Skerinu, tíu fiska af hverjum manni.[9]

Í Jarðabók Árna og Páls frá byrjun 18. aldar eru taldar upp 27 verbúðir í Oddbjarnarskeri og nefndir 33 formenn er þaðan reru árið 1703.[10] Stærð bátanna var þá samkvæmt sömu heimild sem hér segir: Einn áttæringur, níu sexæringar, fjórtán fimm manna för, átta fjögra manna för og eitt þriggja manna far.[11] Í Jarðabókinni segir ennfremur:

 

Allar búðir í Oddbjarnarskeri upp byggja eigendur skipanna, sem þar ganga, á sinn eigin kostnað, og viðhalda þeim. Leyfi þar til fá þeir af Flateyjar eigendum og ráðendum. Grjót til byggingar taka þeir í skerinu, en torf og við flytja þeir til af landi, og eldivið allan. Eftir hvörs skips og manns hlut í Skerinu er goldinn tveggja fjórðunga tollur í fiski til Flateyjar ráðenda. (Fyrrum var það ½ vætt). Vertíð byrjast almennilegast um páskatíma, og helst til þingmaríumessu [2. júlí – innsk. K.Ó.]. Til þeirrar verstöðu sækja almennilega menn úr Eyjahrepp, og úr öllum syðra parti Barðastrandarsýslu, og úr vestra partinum á miðja Barðaströnd. Af því sem fiskast er þorskur allur óskiftur til vertíðarloka af hverju skipi. Vaktar hann og verkar sameiginlega öll skipshöfnin, er hann síðan veginn í sundur og skiftur, en allur annar fengur er skiftur á hverju kveldi, sá sem á deginum fæst. Hálfdrættingar eru á fám einum skipum. Þjónustu flytja vermenn með sér eða þjóna sér sjálfir. Þegar þjónusta fylgir skipi, þá hefur hún einn drátt óvalinn af róðri. Segl fylgir hverju skipi. Lóðir brúkast þar so nær aldrei. Stjórar brúkast skjaldan, nema í hákallalegu. Lending er góð og óhætt. Lángræði er þar í mesta máta. Til beitu brúkast steinbítur og heilagfiski.[12]

 

Öll er þessi lýsing hin fróðlegasta og má m.a. af henni ráða að í byrjun 18. aldar hafi hátt í tvö hundruð manns haldið til í Oddbjarnarskeri um þriggja mánaða skeið á ári hverju. Fram kemur að vertollur Flateyjarkirkju hefur verið tveir fjórðungar af hverjum manni og hverju skipi. Ætla má að hér sé átt við tvo fjórðunga af verkuðum harðfiski, það er 10 kíló. Í Jarðabókinni er formönnum skipt í tollversmenn og heimamenn í Flatey,[13] sem líklega hafa ekki þurft að greiða vertollinn. Alls hefur vertollurinn þá numið a.m.k. 1550 kílóum af harðfiski af þeim 25 skipum sem reru úr Skerinu og ekki voru frá Flatey. Um 1760 ritar Eggert Ólafsson, skáld og náttúrufræðingur, um Oddbjarnarsker og segir m.a.:

 

Í hólma þennan safnast menn árlega til útróðra bæði frá byggðu eyjunum og meginlandinu, úr Stranda- og Dala­sýslum, en einkum þó úr suðurhluta Barða­strandar­sýslu. Eyja þessi er mjög vel fallin til útræðis en þar er ekkert ósalt vatn að fá.[14]

 

Eggert lýsir síðan vatnsbúskap vermanna í Skerinu en þar í grenndinni mátti um fjöru fá vatn úr tveimur heitum uppsprettulindum. Er önnur lindin í sandbotni við Laugasker en hin, sem aðeins verður náð til um stórstraumsfjöru á tveggja vikna fresti, sprettur upp úr lítilli sprungu í harðri klöpp og má harðsjóða í henni egg. Vatn þetta segir Eggert vera heilnæmt og gott að drekka það gegn ýmsum innankvillum.[15] Með því að drekka góðan teyg á fastandi maga mátti t.d. lækna ýmiss konar magaveiki og lystarleysi.

Eggert Ólafsson greinir einnig frá því að í Oddbjarnarskeri tyggi sjómenn kryddsöl í tóbaks stað því að þeir þóttust finna af þeim eins konar rammt kryddbragð er minnti á engifer.[16] Kryddsöl þessi fengust á miklu dýpi í Breiðafirði.[17]

Er Eggert ritar Ferðabókina var bátafjöldinn, sem reri frá Oddbjarnarskeri, álíka og verið hafði í byrjun aldarinnar (30-40 bátar). Vertíðina segir Eggert standa frá sumarbyrjun til Jónsmessu[18] og er það nokkru styttri tími en nefndur er í Jarðabók Árna og Páls. Vertolla í Skerinu telur Eggert 10 fiska fyrir hvern skipverja og jafnmikið fyrir bátinn.[19] Hér eru komnir 10 fiskar í stað 10 kílóa í Jarðabókinni en tollarnir munu þó hafa verið óbreyttir því að einn skreiðarfiskur taldist því aðeins gildur að hann vigtaði eitt kíló.[20] Á sexæringi var aflanum skipt í sjö jafna hluti, að sögn Eggerts, og fær þá báturinn einn sjöunda hluta aflans. Frá Oddbjarnarskeri færir Eggert okkur fleiri fréttir:

 

Merkilegt má það kallast að aldrei hefur bátur farist við Oddbjarnarsker. Þar er enginn slíkur óþefur eins og venja er til í verstöðvum. Er það því að þakka að slóg og úrgangur grefst þegar í stað í sandinn og hið hreina hafloft, svo langt frá landi, tekur burt allan óþef og flytur hann á haf út. … Þegar flestir sjómennirnir eru farnir úr Oddbjarnarskeri verpir þar svo mikill þernufjöldi að tvær skipshafnir, 10-12 manna hvor, sem stunda þar veiðar fram eftir sumrinu, fá þar um varptímann nægju sína af eggjum þessum þótt smá séu.[21]

 

Til að ná í kríueggin segir Eggert nægja að rétta hendina út um stromp eða glugga.

Hér hefur verið vitnað í skrif Eggerts Ólafssonar, skálds og náttúrufræðings, um Oddbjarnarsker. Annar Eggert Ólafsson kom þar þó meira við sögu, sá sem byggði Hergilsey vorið 1783, þá liðlega fimmtugur að aldri, örfáum árum yngri en nafni hans.

Líklega má Eggert í Hergilsey kallast frægastur allra formanna í Oddbjarnarskeri og af honum skráðar margar sögur, sem þó verða ekki raktar hér utan ein. Eggert mun hafa hafið róðra úr Skerinu um 1750 og átti þá heima í Vesturbúðum í Flatey.

Í móðuharðindunum 1783-1785 leitaði mikill fjöldi örbjarga fólks til Breiðafjarðar í von um mat á flótta undan yfirvofandi hungurdauða. Eggert í Hergilsey flutti þá tugi bjargþrota fólks út í Oddbjarnarsker, bjó um það í auðum verbúðum, og er húsrýmið þraut lét hann hvolfa báti sínum, Hring, svo vergangslýður þessi fengi skjól undir áttæringnum góða. Játvarður Jökull Júlíusson segir svo frá:

 

Öllum sögnum ber saman um að hann nærði þetta fólk allt eigin hendi, skammtaði því sjálfur. Hann flutti þrjár mjólkurkýr útí Oddbjarnarsker, nærði fólkið á mjólk, eggjum og fugli, auk sjávarfangs. Með hverri máltíð gaf hann hverjum stóran smjörskammt, sem hann mældi með skeið. Allir réttu við, náðu heilsu og kröftum. Jafnóðum og fólkið fékk vinnuþrek á ný lét hann það róa til fiskjar.[22]

 

Eggert í Hergilsey hefur kunnað fleira en stýra skipi í stormi og stórsjó. Hann vissi líka að til þess að bjarga aðframkomnu fólki frá hungurdauða þarf að skammta nýmetið smátt í fyrstu. Þess vegna mældi hann allt sjálfur. Það munu hafa verið um sjötíu hrakningsmenn sem Eggert reisti til lífs í Oddbjarnarskeri á þeim dimmu dögum. Margur hefur hlotið lof fyrir minna.

Nokkuð var um að konur sæktu sjó frá Oddbjarnarskeri eins og víðar við Breiðafjörð. Halldóra Ólafsdóttir klumbufótur, systir Eggerts í Hergilsey, var þar formaður í margar vertíðir og brást henni aldrei afli. Sagt er að helst hafi hún viljað hafa konur einar að hásetum.[23] Það voru líka róðrarkonur sem fluttu Ebenezer Henderson milli lands og eyja og um eyjasundin á Breiðafirði sumarið 1815 og blöskraði biblíumanninum öll kaffidrykkjan í Hergilsey.[24]

Um aldamótin 1800 reru nær 30 bátar úr Oddbjarnarskeri eins og sjá má í sóknarlýsingu séra Ólafs Sívertsen frá árinu 1840. Hann segir þar:

 

Var í Skeri fjölfiski mikið: Þorskur, ýsa, flyðri, langa, steinbítur, skata, hákarl. – Voru þar alkomin aflabrögð á sumarmálum og einatt, á þeirri tíð, búið að leggja inn til kauptorgsins í Flatey … frá 150 til 200 skippund af blautum þorski. Þessu til dæmis er að síðasta vetrardaginn árið 1799 kom á land úr einum róðri í Skeri, á 29 bátum, 178 vænar flyðrur, auk þess sem nokkur róðrarskipin öfluðu 15 til hlutar af steinbít og þorski.[25]

 

Svo virðist sem bátum er reru frá Oddbjarnarskeri hafi fækkað mjög verulega á tveimur fyrstu áratugum nítjándu aldarinnar og í vísum sem rímnaskáldið Gunnlaugur Arason orti um formenn í Skerinu árið 1816 eru aðeins nefndir sex.[26] Formennirnir sem þar eru nefndir voru þessir: Jón Eggertsson, Einar, Jón frá Sauðeyjum, Bjarni Eiríksson, Magnús og Jón Snorrason.[27] Manntalið frá árinu 1816 vísar okkur með sæmilegu öryggi á fjóra þessara formanna. Jón Eggertsson bjó í Hergilsey á móti föður sínum, Eggerti bónda Ólafssyni, sem hér var áður nefndur.[28] Jón frá Sauðeyjum mun vera sá yngri feðganna sem þar áttu heima 1816 og báðir hétu Jón Jónsson.[29] Bjarni Eiríksson, sem var formaður í Oddbjarnarskeri, er að öllum líkindum sá maður með því nafni sem árið 1816 átti heima í Innstabæ í Flatey en Jón Snorrason var þá húsmaður í Hergilsey.[30] Tvo formannanna nefnir höfundur vísnanna aðeins með fornafni, þá Einar og Magnús. Þessi nöfn eru svo algeng að ógerlegt er að setja fram vitræna tilgátu um hverjir þetta hafi verið. Líklegast er að þessir menn hafi átt heima í Flatey en þar koma til greina þrír Magnúsar og tveir Einarar.[31]

Að sögn séra Ólafs Sívertsen lögðust róðrar frá Oddbjarnarskeri niður um skeið skömmu fyrir 1840 þar eð fiskur lagðist frá.[32] Er róðrum var hætt frá Oddbjarnarskeri dróst þar selur að og stunduðu Hergilseyingar þar selveiðar með nótalögn.[33]

Enda þótt menn hættu fiskiróðrum frá Oddbjarnarskeri litlu fyrir 1840 leið ekki á löngu uns róðrar þaðan voru teknir upp á ný. Á síðari hluta nítjándu aldar voru haustróðrar úr Skerinu stundaðir af kappi. Snæbjörn í Hergilsey var þar við haustróðra árið 1866, þá yngstur allra, aðeins 12 ára gamall. – Þeir kölluðu mig sýslumann. Ég gat ekki glímt af mér sýsluna, fell fyrir öllum. Það var sárt og ég hugsaði oft: „Við skulum vita, þegar ég er orðinn stór.” [34] Þannig segist Snæbirni frá í ævisögu sinni. Þar kemur fram að um þessar mundir hafi venjulega verið 30-40 manns í Oddbjarnarskeri á haustin og þá trúlega fimm til sjö bátar. Að sögn Snæbjarnar var venjan sú að hver maður hafði með sér sex pund af kjöti og tvö pund af feitmeti fyrir hverja viku en brauð og fiskur ómælt. Var oft gleði mikil á kveldum yfir kjötinu, ef vel hafði aflast um daginn.[35]

Sextán ára varð Snæbjörn formaður í Oddbjarnarskeri. Reri hann þaðan á haustin en á vorin vestur á Hvallátrum, frá krossmessu til Jónsmessu. Frá páskum til krossmessu reri Snæbjörn undir undir Jökli.[36]

 

Oft þegar slæmt var veður hugsaði ég til Guðrúnar fóstru minnar og tilsagnar hennar í stjórn á bátum og fékk ég þá raun á að færi ég eftir því stjórnlagi, sem hún hafði kennt mér við hlóðir í eldhúsinu, varð tæplega við betri stjórn búist af mér svo ungum.[37]

 

Hallbjörn Oddsson var við sprökuveiðar í Oddbjarnarskeri haustið 1882, þá fimmtán ára prestssonur frá Gufudal. Var Hallbjörn háseti hjá Birni Jónssyni frá Kirkjubóli á Bæjarnesi (um Björn og búferlaflutninga hans síðar yfir Glámu, sjá hér Botn í Dýrafirði). Fanggæsla þeirra var María, systir Björns. – Hún var svo sterk að fáir voru þeir karlmenn, er báru hana ofurliði í átökum eða tuski en var samt um leið mjög myndarleg og vel verki farin, segir Hallbjörn í ævisögu sinni.[38] Snæbjörn Kristjánsson, sem lengst bjó í Hergilsey, var einn formannanna í Skeri þetta haust og segir Hallbjörn að hann hafi eitt sinn fengið 200 lúður í einum róðri.

Pétur Jónsson frá Stökkum birti greinargóða ritgerð um Oddbjarnarsker í Barðstrendingabók árið 1942. Hann greinir frá því að á síðari hluta 19. aldar hafi nær eingöngu verið róið þaðan að haustinu en stundum hafi Hergilseyingar þó skroppið í Skerið nokkra daga fyrir sláttinn að loknum vorróðrum í öðrum verstöðvum.[39] Pétur segir sjö til tíu búðir hafa verið í Oddbjarnarskeri á árunum 1875-1890 og lýsir þeim svo:

 

Allar voru búðir þessar loftlausar, veggirnir gerðir úr torfi og grjóti, vel 5 feta háir, lengdin um 7-12 álnir, breidd flestra um 5 álnir [um 3 m2 á mann í 6 manna skipshöfn – innsk. K.Ó.]. Sperrur voru settar á veggi, langbönd voru á sperrum, viðarárefti og torfþak. Fáar einar voru með mæniási og stoðum. Lítill gluggi var á hverri búð. Ein skipshöfn var um hverja búð nema tvær eða þrjár þær stærstu; voru þær ætlaðar tveimur skipshöfnum. Við hverja búð var dálítið anddyri eða skýli, sem nefnt var „kró”; var hún jafnframt notuð fyrir eldhús.[40]

 

Að sögn Péturs reru jafnan 8-12 bátar úr Skerinu á síðasta fjórðungi nítjándu aldar, urðu flestir 14 haustin 1881 og 1882. Veiðarfærin voru haukalóðir og haldfæri og var einkum sóst eftir heilagfiski og skötu. Hundrað og fimmtíu sprökur á bát þótti þá afbragðsafli yfir vertíðina en áður hafði afli verið meiri.[41]

Árið 1882 var eitt mesta harðindaár í allri Íslandsögunni. Samt var oft glatt á hjalla í Oddbjarnarskeri þetta haust. Á Fitinni, sléttri grund yst á Skerinu, var farið í leiki í landlegum, höfrungahlaup, skjaldborg, ofanreið og það sem kallað var að sækja smjör í strokk. Þarna á Fitinni voru bændaglímur háðar og menn reyndu krafta sína við steinatök ellegar fóru í krók.[42] Pétur Jónsson ritar:

 

Oft voru lesnar sögur og þó einkum kveðnar rímur að kvöldinu í sumum búðum, er landlegur voru. Völdust ætíð til þess bestu kvæðamennirnir. Var þá jafnan húsfylli af áheyrendum eins og þá kirkja er best sótt á hátíðum. … Á þeim árum var ekkert vínbann á landi hér, enda gerðu sumir Skersarar sér stundum dagamun í landlegum og glöddu sig á góðri stund með kunningjum sínum.[43]

 

Um fimmtugsaldur var Snæbjörn í Hergilsey enn við haustróðra í Oddbjarnarskeri og var þá komið undir aldamótin 1900. Mun hann hafa róið þaðan einna síðastur manna.[44] Eitthvað var þó róið úr Skerinu á fyrstu árum 20. aldar.[45]

Í Oddbjarnarskeri var fögur veiðistaða og happasæl, segir Gestur Vestfirðingur.[46] Snæbjörn í Hergilsey lætur þess getið að varla sé fegurra um að litast annars staðar á Íslandi en úr Oddbjarnarskeri, bæði kvölds og morgna.[47] Guðmundur Einarsson á Brjánslæk, sem um skeið bjó í Hergilsey, var sama sinnis: Það finnst þeim er þetta ritar, að hvergi sé fegurra í Breiðafjarðareyjum um sólarlag og sólaruppkomu en í Oddbjarnarskeri, ritar hann.[48]

Nú eru búðirnar í Skerinu flestar sokknar í ægissand, Neðra-Víti og Hrafnastallur, Norðurseta, Lóssa og allar hinar. Þar ríkja fuglar himins og hafs og selurinn á sjávarklöppum en fólkið horfið á braut.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

 

[1] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 138-139.

[2] Guðmundur Einarsson 1953, 52-53 (Árbók Barðastrandarsýslu).

[3] Bergsveinn Skúlason 1942, 59 (Barðstrendingabók).

[4] Sami 1964, 19.

[5] Guðm. Einarsson 1953, 42.

[6] Sóknalýs. Vestfj. I, 138.

[7] Hallbjörn Oddsson 1958, 87-89 (Ársrit Sögufél. Ísfirðinga).

[8] Játv. J. Júlíusson 1979, 122-124.

[9] Sóknalýs. Vestfj. I, 143.

[10] Jarðab. Á. og P. VI, 247-249.

[11] Sama heimild, 248-249.

[12] Sama heimild, 248.

[13] Sama heimild, 248-249.

[14] Eggert Ólafsson 1975 I, 225-226.

[15] Sama heimild.

[16] Sama heimild, 261.

[17] Sama heimild.

[18] Sama heimild, 268.

[19] Sama heimild.

[20] Gísli Gunnarsson 1987, 109.

[21] Eggert Ólafsson 1975 I, 268 og 285.

[22] Játv. J. Júlíusson 1979, 62.

[23] Bergsv. Skúlason 1984, 8.

[24] Ebenezer Henderson 1957, 291 og 308.

[25] Sóknalýs. Vestfj. I, 144.

[26] ÍB. 7838vo, Formannavísur í Oddbjarnarskeri ortar 1816.

[27] Sama heimild.

[28] Manntal 1816.

[29] Sama heimild.

[30] Sama heimild.

[31] Sama heimild.

[32] Sóknalýs. Vestfj. I, 144.

[33] Snæbjörn Kristjánsson 1958, 15 og 47.

[34] Snæbj. Kristjánsson 1958, 48.

[35] Snæbj. Kristjánsson 1958, 48.

[36] Sama heimild, 57 og 60.

[37] Sama heimild, 60.

[38] Hallbjörn Oddsson 1958, 87-89 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[39] Pétur Jónsson 1943, 125-139.

[40] Pétur Jónsson 1942, 130-131 (Barðstrendingabók).

[41] Pétur Jónsson 1942, 133-135 (Barðstrendingabók).

[42] Sama heimild, 135.  Hallbjörn Oddsson 1958, 87-89. (Ársrit Sögufél. Ísf.). Bergsv. Skúlason 1942, 60 (Barðstrendingabók).

[43] Pétur Jónsson 1942, 135.

[44] Bergsv. Skúlason 1942, 60.  Jóhann Skaptason 1959, 77-78 (Árbók F.Í.).

[45] Bergsv. Skúlason 1964, 20.

[46] Gestur Vestfirðingur I, 15.

[47] Snæbj. Kristjánsson 1958, 47.

[48] Guðm. Einarsson 1949, 55 (Árbók Barðastrandarsýslu).

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »