Skógar

 Milli eyðibýlanna Horns og Skóga er skammur spölur, aðeins tíu mínútna gangur en Skógar eru innar. Frá þessum bæjum var um það bil hálfur annar kílómetri til sjávar. Við ströndina fellur Hornsá á landamerkjunum en ofar liggur merkjalínan utan við Hrísholt og í vörðu í Efra-Parti sem svo heitir og þaðan sjónhending í Hvítgötu, fjárgötu sem lá upp Langahjalla beint suður af bænum í Skógum.[1] Þaðan liggur merkjalínan í Þverlæk en hann fellur um Skógadal[2] og mætir Skógaá í 80 metra hæð. Ósá skilur að lönd Skóga og Óss en á móti Kirkjubóli eiga Skógar land að Merkjalæk sem fellur í Skógaá.[3] Ofar ræður lína frá honum í Örnólfsgil.[4] Frá Kirkjubóli er stefnan á gilið rétt vestan við suður.[5] Bærinn í Skógum stóð í brekku í miðju túninu.[6] Innan og neðan við hann voru lambhús og hlaða en fjárhús voru nær beint fyrir ofan bæinn og aðeins utar.[7] Rústir þessara útihúsa gefa okkur nú til kynna hvar bæjarstæðið er að finna.

Jörðin Skógar í Mosdal var 12 hundruð að fornu mati.[8] Nafn sitt dregur hún af miklu skóglendi sem hér var á fyrri öldum og herma sagnir að í því hafi villifé gengið sjálfala.[9] Allt frá 14. öld átti Rafnseyrarkirkja ótakmarkaðan rétt til kolagerðar og hrísrifs í Hvammsskógi sem er í landi Skóga, fyrir innan Skógaá.[10] Á árunum kringum 1700 deildu eigendur Skóga og Kirkjubóls um eignarráð yfir þeim hluta skógarins sem liggur næst Örnólfsgili[11] en í yngri heimildum er allur Hvammsskógur sagður vera í landareign Skóga.[12] Í byrjun 18. aldar var skógur þessi orðinn „mjög eyddur“[13]en samt var hér enn nóg af hrísi til kolagerðar og til eldiviðar.[14] Í þrætulandinu nýtti Skógafólk skóginn en Kirkjubólsmenn slægjurnar og sauðfé frá báðum jörðunum gekk þar á beit.[15]

Land Skóga liggur um miðjan Mosdal og nær frá fjöru til fjalls. Dalverpið upp af bænum heitir Skógadalur og um hann fellur Skógaá sem kemur úr Heiðarvatni og mætir Kirkjubólsá skammt frá sjó en þar sameinast þær og fá nafnið Ósá.[16] Um Skógaheiði, sem liggur sunnan og austan við Skógadal, var stundum farið að Botni í Geirþjófsfirði.[17] Um 1840 var sú leið þó aðeins talin fær gangandi mönnum.[18] Í Skógadal heitir tungan milli Skógaár og Þverlækjar Flatidalur.[19] Ofantil í honum miðjum eru Seljaþúfur og ofan við þær Seljahólar.[20] Ætla má að þar hafi búsmali verið hafður í seli. Á fyrri hluta okkar aldar var sauðfjárbeit talin vera góð í Skógum og túnið grasgefið.[21] Hér var þá líka mikil mótekja[22] og stærstu grafirnar í mýrum ofan við ármót Skógaár og Kirkjubólsár.[23]

Árið 1816 bjó ekkjan Guðný Ívarsdóttir hér í Skógum og hafði ein ábúð á allri jörðinni.[24] Hún stóð hér fyrir búi fram yfir 1840 en sonur hennar, Guðmundur Guðmundsson, var um alllangt skeið ráðsmaður á búi móður sinnar.[25] Hann var nefndur „Skóga-Gvendur“ og talinn ærið göldróttur.[26] Ýmsir töldu að hann „gerði oftar illt en gott með kunnáttu sinni“[27]en þau urðu endalok Guðmundar að hann drukknaði í Breiðafirði og var talið að sending frá Jóhannesi á Kirkjubóli, nágranna Skógafólks, hefði orðið honum að bana en þeir höfðu áður ást illt við.[28]

Á árunum kringum 1840 var Jónas Tómasson ráðsmaður á búi tengdamóður sinnar, Guðnýjar Ívarsdóttur í Skógum, en hann var kvæntur Ragnhildi Guðmundsdóttur, systur „Skóga-Gvendar“ er hér var frá sagt.[29] Jónas og Ragnhildur tóku svo hér við búi vorið 1844 og bjuggu til 1861.[30] Jarðatalið frá 1847 sýnir að þau áttu jörðina[31]. Sama ættin hafði þá setið hér lengi að búi því Bjarni Einarsson, tengdafaðir Guðnýjar Ívarsdóttur, var sjálfseignarbóndi í Skógum árið 1762. Á síðustu árum 19. aldar var hér oft tvíbýli og tvö voru heimilin sumarið 1887[32] þegar Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur gisti hér í tvær nætur.[33]

Árið 1947 fóru Skógar í eyði[34] en innarlega í túninu stendur enn gamli Landdísarsteinninn,[35] vinafár í auðninni. Nærri lætur að hann sé einn metri á hæð, ofan jarðar, og sléttur flöturinn sem upp snýr 2 x 2,3 metrar. Á flatlendinu utan og neðan við bæinn í Skógum, úti við túnjaðarinn, var skömmu eftir 1920 reist skólahús fyrir börnin í Mosdal og þar var síðast kennt veturinn 1944–45.[36] Grjóthlaðinn grunnurinn er þarna enn og mælist 5 x 3,5 metrar. Hjá honum liggur brotinn steinsteyptur skorsteinn en aðeins innar bíða endalokanna grænir veggir lítils torfkofa. Héðan röltum við niður að sjó og hyggjum þar að minjum um horfna tíð. Á grundunum innan við ós Hornsár stóð á árunum kringum síðustu aldamót þurrabúðarkotið Móeyri[37] og þar eru rústirnar enn. Í kotinu var bollokað frá 1894 eða 1895 til 1903 og húsráðendur voru allan þann tíma hjónin Þorsteinn Jónsson og Jórunn Guðmundsdóttir.[38] Nokkru innar er Skóganaust.[39] Þar var lendingarstaður bændanna í Skógum, alveg inn undir Ósá[40] sem skilur að lönd jarðanna Skóga og Óss. Hér eru rústir tveggja nausta. Yngri tóttin er 5 x 1,5 metrar en sú eldri, sem er aðeins utar, er minni.

Stóra holtið ofan við ströndina heitir Sjóarholt en neðan við það er Skógamór.[41] Þar voru á 17. öld eitt eða tvö þurrabúðarkot.[42] Þrír karlmenn, tvær konur og fjögur börn áttu enn heima í Skógamó árið 1703.[43] Hreysin sem þar stóðu féllu í eyði í stórubólu árið 1707,[44] en enn mótar fyrir rústunum í þýfi rétt fyrir utan fossinn í Ósá og er sú stærsta 3 x 2 metrar. Í heimild frá árinu 1710 segir að húsmennirnir í Skógamó hafi brúkað skóginn til eldiviðar „og til kolgjörðar að selja sér til gagnsmuna“[45]svo ljóst virðist að þeir hafi haft nokkra atvinnu af kolagerð en lifðu þó „mestan part“ af sjávarafla.[46] Einn þeirra sem áttu heima í Skógamó árið 1703 var Landbjartur Guðmundsson er þá var orðinn „sjóndapur, veikur og örvasa“.[47]Tuttugu árum síðar fæddist annar Landbjartur en sá var Jónsson og árið 1750 var hann dæmdur til að „kagstrýkjast og erfiða í Bremerhólms fangelsi“ alla sína lífstíð fyrir þjófnað og „morðbrand“ í Stóra-Laugardal í Tálknafirði.[48] Úr allri Íslandssögunni þekkjum við aðeins þessa tvo Landbjarta en hvort sá eldri var afi hins vitum við ekki.

 

[1] ÖÖ.

[2] Sama heimild.

[3] ÁgSig KÓ 3.9.1997.

[4] Sama heimild.

[5] Sama heimild.

[6] ÞorbjPét KÓ 2.7.1998.

[7] Sama heimild.

[8] Jb. Á. og P. VII, 6–7.

[9] Vestf. þjóðs. II. 2., 98–99.

[10] D.I. III, 198 og IV, 145. Jb. Á. og P. VII, 15–16. Sóknalýs. Vestfj. II, 17–18.

[11] Jb. Á. og P. VII, 15–16.

[12] Sóknalýs. Vestfj. II, 17–18. ÖÖ.

[13] Jb. Á. og P. VII, 15–16.

[14] Sama heimild, bls. 6–7. Sjá Auðkúluhreppur.

[15] Sama heimild.

[16] ÖÖ.

[17] Sóknalýs. Vestfj. II, 18.  ÖÖ.

[18] Sóknalýs. Vestfj. II, 18.

[19] ÖÖ.

[20] Sama heimild.

[21] ÞN 1951, 161 (Árbók F.Í.).

[22] Sama heimild.

[23] ÖÖ.

[24] Manntal 1816. Sbr. Manntal 1801.

[25] Sömu heimildir. Prþjb. og smt. Rafnseyrar.

[26] Vestf. sagnir I, 91–92, 202–203 og 209–212.

[27] Sama heimild, bls. 91–92.

[28] Sama heimild, bls. 209–212.

[29] Prþjb. og smt. Rafnseyrar.

[30] Sömu heimildir.

[31] JJ 1847, 191.

[32] Smt. Rafnseyrar.

[33] ÞTh 1959 II, 129–132.

[34] ÖÖ.

[35] Sama heimild.

[36] ÁgSig KÓ 8.10.1998.

[37] ÖÖ.

[38] Smt. Rafnseyrar.

[39] Sama heimild.

[40] PSig KÓ 2.7.1998.

[41] Sama heimild.

[42] Jb. Á. og P. VII, 6–7.

[43] Manntal 1703.

[44] Jb. Á. og P. VII, 6–7.

[45] Sama heimild.

[46] Manntal 1703.

[47] Sama heimild.

[48] BThB 1975, 42–45.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »