Tjaldanes

 Frá Auðkúlu að Tjaldanesi er aðeins hálfur annar kílómetri. Síðan 1957 hefur jörðin legið í eyði[1] en húsið sem síðast var búið í stendur enn í grashvammi, skammt frá sjó, við Tjaldanesbug, sem er innan við Tjaldanesá, en utan við hana eru Tjaldaneseyrar.[2] Á fyrri öldum mun bærinn, eða máske annað tveggja býla á jörðinni, hafa staðið á eyrunum utan við ána og var seinna nefnt Litlatjaldanes.[3] Seint á síðustu öld sáust þar enn fornar húsatóttir.[4] Hér á Tjaldanesi kaus fyrsti landnámsmaðurinn í Arnarfirði að reisa bústað sinn, ef marka má frásögn Landnámabókar, Örn sá frá Rogalandi í Noregi sem menn hafa talið að fjörðurinn væri kenndur við.[5] Að sögn hinna fornu höfunda sat hann hér aðeins einn vetur en seldi þá lönd öll milli Langaness og Stapa í hendur Áni rauðfeld (sjá Rafnseyri) og fluttist norður í Eyjafjörð.[6]

Um Örn landnámsmann er fátt ritað og vera kann að hann sé aðeins hugarsmíð en nafn fjarðarins eigi rætur að rekja til hins vængbreiða konungs fuglanna sem enn svífur um loftin blá og sést stöku sinnum yfir firði þessum. Vel má líka vera að bæjarnafnið sé með öllu óviðkomandi tjöldum sæfaranna er hér settust að, fyrstir manna, en tengist rauðnefjuðum fuglum er oft sjást á vappi í sendnum fjörum og halda sig tíðum hér á eyrunum að kunnugra manna sögn.[7]

Hið eina merkilega við stuttorða frásögn Landnámabókar af Erni landnámsmanni er skýringin á því hvers vegna hann kaus að hafa vetursetu á Tjaldanesi en hún var sú „að þar gekk eigi sól af um skammdegi“.[8] Sigurður Vigfússon fornfræðingur kannaði málið árið 1882 og gaf þessa skýrslu:[9]

Þegar gengið er upp á hól sem er út og upp frá bænum á Tjaldanesi, þá er það sá einasti staður í öllum Arnarfirði sem sólina sér þegar skemmstur er dagur … . Þetta er nefnilega meðan sólin gengur fyrir botninn á Fossfirði. Þar er skarð og fjöllin lág til að sjá.

Að fornu mati var Tjaldanes talið vera 24 hundraða jörð.[10] Að engjum var hún „mikið mögur“[11]en túnið grasgefið[12] og fjörubeitin góð svo sauðfé gat lifað hér á útigangi í sæmilegu ári.[13] Í Jarðabókinni frá 1710 er þó gert lítið úr landkostum á Tjaldanesi og dregin upp nöturleg mynd af aðstæðum fólksins sem hér bjó. Segir þar m.a. svo:[14]

Hætt er kvikfé á vetur fyrir sjávarflóðum undir móðsköflum. Hætt er bænum og fjósinu fyrir fjóslæknum sem að upp bólgnar allt í kringum bæinn og grefur sig undir hann oftlega og springur upp í húsunum þess á milli.

Álftamýrarkirkja eignaðist Tjaldanes á 15. eða 16. öld[15] og um miðbik 19. aldar átti hún jörðina enn.[16] Bænhús var hér í fyrri daga og í Jarðabókinni frá 1710 er sagt að „bænhúsviðirnir“ hafi verið notaðir í skálann er þá stóð hér.[17] Á Tjaldanesi var oft tvíbýli á liðnum öldum[18] og stöku sinnum þríbýli.[19] Frá 1845 til aldarloka bjó þó yfirleitt aðeins einn bóndi á jörðinni, lengst Þorvaldur Ingimundarson, sem kvæntur var Ragnheiði Jensdóttur, en þau voru hér við búskap frá 1837 til 1868.[20] Fyrr á sömu öld bjó hér um skeið Bjarni nokkur sem nefndur var Bjarni „á bullunni“ og var að sögn sterkasti maður í Arnarfirði á sinni tíð.[21] Hann gat hamið mannýgt naut með því að leggja handlegginn yfir háls þess og herða að.[22] Sagt er að hann hafi jafnhattað séra Markús Þórðarson á Álftamýri og haldið honum með beinum handleggjum yfir höfði sér, en líkamsþungi prestsins verið 120 kíló.[23]

Frá árinu 1746 liggur fyrir vitneskja um annan heimamann á Tjaldanesi, Eyjólf Sumarliðason, er sagður var uppvís að þjófnaði og strokinn burt „frá óléttri konu og ungbarni“.[24]Eyjólfi lýsti sýslumaður svo:[25]

 

Stór vexti, herðamikill og beinadigur, svartur á hár og hrokkinhærður, dökkur í yfirlit, með skarð í hökuna, lítið skegg svart, þjófsleg augu, mjúkmáll og lágtalaður hversdagslega, lagtækur á tré og járn, hefur ör á öðrum þumalfingri og stóran beinhnút á sama fingri.

Svo virðist sem ekkert hafi spurst til Eyjólfs síðar og má vera að hann hafi komist í duggu.

Árið 1890 voru hér tvær fjölskyldur í húsmennsku[26] og litlu síðar settist fólk að á Tjaldaneseyrum þar sem verið hafði fornbýlið er áður var nefnt.[27] Í kotinu var aðeins búið í nokkur ár því árið 1898 eða 1899 var svo komið að húsráðandi taldi sig ekki geta hafst þar við fyrir ásókn drauga.[28] Byggði hann sér þá nýjan bæ, rétt fyrir utan heimatúnið á Tjaldanesi, og nefndi Svalbarð.[29] Þar var búið allt til ársins 1954.[30]

Fjallið ofan við túnið heitir Tjaldanesfell og þar er Tjaldaneshyrna efst.[31] Utan við fellið skerst langur og mjög þröngur dalur inn í landið til norð-norðvesturs. Hann heitir Tjaldanesdalur.[32] Þar, í um það bil þriggja kílómetra fjarlægð frá bænum, fellur Seljalækur í Tjaldanesá.[33] Heiman við lækinn er Seljahryggur en framan við hann mýri sem heitir Stórsteinsmýri og stendur þar steinninn er hún dregur nafn af.[34] Seljamýrar eru aðeins framar og heimantil við þær, uppi við fjallsræturnar, eru í dálítilli kvos hjá nafnlausum smálæk rústir selsins frá Tjaldanesi.[35] Nærri lætur að Tjaldanesdalur sé fimm kílómetrar á lengd. Uppi í hlíðinni sunnan við dalbotninn er stór gróðurlaus skál sem heitir Tröllakiki[36] og sést þar aldrei sól.[37] Ýmsir munu hafa óttast tröllin sem talin voru búa í þessum sólarlausa fjallasal og greikkuðu sporið svo um munaði ef hið þunga fótatak þeirra heyrðist í fjarska.[38]

Úr Tjaldanesdal er fært gangandi manni um Kvennaskarð yfir í Galtardal í Dýrafirði og um Göngudalsskarð yfir í Göngudal sem er þverdalur frá Kirkjubólsdal í Dýrafirði.[39] Fjallið norðan við Tröllakika heitir Grjótskálarhorn.[40] Hlíðin milli Tjaldaness og Baulhúsa, sem eru næsti bær fyrir utan, er öll skriðurunnin. Skammt fyrir utan dalsmynnið er stór hryggur sem nefndur var Blettskriða en gróðurteigur utan við hann var ýmist kallaður Blettur eða Blettir.[41] Um hann liggja landamerkin, frá Dorraskeri við ströndina í Blettskriðugil.[42]

 

 

[1] Firðir og fólk 1900-1999, 126.

[2] ÖÖ.

[3] Sama heimild. Jb. Á. og P. VII, 19–20.

[4] ÞN 1951, 146 (Árbók F.Í.).

[5] Ísl. fornrit I, 176–177.

[6] Sama heimild.

[7] ÖÖ.

[8] Ísl. fornrit I, 176.

[9] SV 1883, 62 (Árbók Hins ísl. fornleifafélags).

[10] Jb. Á. og P. VII, 19–20.

[11] Sóknalýs. Vestfj. II, 35.

[12] ÞN 1951, 146 (Árbók F.Í.).

[13] Sóknalýs. Vestfj. II, 35.

[14] Sama heimild.

[15] D.I. XV, 578. Sbr. D.I. IV, 147.

[16] JJ 1847, 191.

[17] Jb. Á. og P. VII, 19.

[18] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681. Manntal 1703. Jb. Á. og P. VII, 19–20. Manntöl 1762, 1801 og 1816.

[19] Bændatöl og skuldaskrár 1720–1765, eftirrit, Ísafjs. um 1735. Smt. Rafnseyrar 1772.

[20] Smt. Rafnseyrar.

[21] Vestf. sagnir I, 42–44 og 46–47.

[22] Sama heimild, bls. 46–47.

[23] Sama heimild, bls. 42.

[24] Alþb. Ísl. XIII, 318–319.

[25] Sama heimild.

[26] Manntal 1890.

[27] ÞN 1951, 146 (Árbók F.Í.). Smt. Rafnseyrar 1893–1899.

[28] Sömu heimildir.

[29] ÖÖ. ÞN 1951, 146. Smt Rafnseyrar.

[30] Firðir og fólk 1900-1999, 127.

[31] ÖÖ.

[32] Sama heimild.

[33] Sama heimild.

[34] Sama heimild.

[35] Sama heimild.

[36] Sama heimild. HrÞ KÓ 30.10.1998.

[37] Sóknalýs. Vestfj. II, 24.

[38] Sbr. Vestf. þjóðs. II. 1., 162–164.

[39] Jb. Á. og P. VII, 15–18

[40] ÖÖ.

[41] Sama heimild.

[42] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »