Gljúfrá

 Eyðibýlið Gljúfrá var að fornu mati 18 hundraða jörð[1] og tekur nafn af ánni sem fellur í þröngu gljúfri innantil við túnið. Bærinn stóð í nær 80 metra hæð og er sjávargatan ærið brött. Við hana stendur Hvíldarsteinn.[2] Þar hvíldu menn sig og létu baggann hvíla á steininum, væri byrðin þung.[3] Neðar við sömu götu er stærri steinn er menn nefndu Grettistak.[4] Ofan við túnið á Gljúfrá opnast Gljúfrárdalur en afdalur sem gengur austur úr honum heitir Snjádalur[5] og hefur einnig verið nefndur Grjótárdalur.[6] Á fyrri hluta síðustu aldar var jörðin Gljúfrá talin „mikið mögur“ og „slægnalítil eftir stærð“ en engjavegurinn var þó stuttur.[7] Slægjulandið er utan við túnið og heita þar Gljúfrármýrar.[8]

Á fyrri hluta 15. aldar var Gljúfrá ein hinna mörgu jarða sem Guðmundur ríki Arason átti á Vestfjörðum en þær voru allar dæmdar undir konung árið 1446.[9] Um 1700 átti Sveinn Einarsson á Fífustöðum stóran hlut í Gljúfrá[10] en hundrað árum síðar var jörðin í eigu Ólafs Thorlacius, kaupmanns á Bíldudal.[11]

Á átjándu öld og fyrstu áratugum hinnar nítjándu var oftast tvíbýli á Gljúfrá.[12] Þegar manntal var tekið árið 1762 hafði Ingibjörg Jónsdóttir þó alla jörðina til ábúðar.[13] Eiginmaður hennar og dóttir af fyrra hjónabandi, þau Ívar Jónsson og Ólöf Jónsdóttir, höfðu þá verið dæmd til dauða fyrir sifjaspell en beðið var eftir niðurstöðu hæstaréttar.

Í sálnaregistri ungdómsins frá árinu 1758 er Ólöf á Gljúfrá sögð vera 18 ára.[14] Tekið er fram að hún hafi verið fermd á því sama ári, sé læs á bók og kunni barnalærdóminn[15] – „þénar hjá stjúpföður sínum, Ívari Jónssyni á Gljúfrá, hegðar sér vel og frómlega“, segir þar.[16] Einu ári síðar dundu ósköpin yfir er Ívar bóndi gerði þessari prúðu stjúpdóttur sinni barn.[17] Við slíku athæfi lá dauðarefsing og var því reynt að leyna barnsfæðingunni en allt komst upp og voru stjúpfeðginin dæmd til dauða á þingstað réttum, Auðkúlu í Arnarfirði, þann 16. maí 1761.[18] Bæði voru dæmd fyrir framda blóðskömm og dulda barnsfæðingu og fyrir að hafa ekki leitast við að halda lífi í barninu.[19] Með vísun til gildandi laga var í dómnum kveðið á um að Ívar skyldi leiddur til aftökustaðarins með snöru um háls og klipinn þrisvar á leiðinni með glóandi töngum.[20] Í dómsorðunum var tekið fram að á höggstokknum ætti hann fyrst að missa sína hægri hönd og síðan höfuðið.[21] Stúlkan unga var einnig dæmd til að hálshöggvast og mælt svo fyrir að höfuð hennar yrði að aftöku lokinni fest upp á stjaka öðrum til viðvörunar.[22]

Dóminn kvað upp Sigurður Sigurðsson, settur sýslumaður í Ísafjarðarsýslu,[23] en hann var af mörgum nefndur Sigurður „skuggi“ (sjá Mosvellir). Ekki dæmdi hann einn og meðdómendur voru þessir: Bjarni Einarsson hreppstjóri á Borg, Árni Bjarnason í Hokinsdal, Bjarni Árnason á Ósi, Bjarni Eysteinsson á Laugabóli, Björn Jónsson á Rafnseyrarhúsum, Guðbrandur Bjarnason á Tjaldanesi, Loftur Bjarnason á Kirkjubóli og Jón Bjarnason á Rauðsstöðum.[24]

Dauðadóminn yfir Ívari og Ólöfu staðfesti Davíð Scheving, sýslumaður í Barðastrandarsýslu, á aukalögþingi sem efnt var til í Selárdal 31. ágúst 1761.[25] Sakamál þetta úr Arnarfirði fór síðan fyrir hæstarétt í Kaupmannahöfn og varð dómsniðurstaðan sú hin sama.[26] Í hæstarétti var líflátsdómurinn staðfestur 16. desember 1762[27] en þá staðfestingu hefur sýslumaður Ísfirðinga, Sigurður „skuggi“, að líkindum ekki fengið í hendur fyrr en alllangt var liðið á sumarið 1763. Þau Ívar og Ólöf frá Gljúfrá voru tekin af lífi 22. ágúst 1763 eins og sjá má á vottfestri yfirlýsingu er sýslumaðurinn hefur ritað aftan á dómsskjölin.[28] Þar greinir hann frá því að við aftökuna hafi margir verið viðstaddir en gera má ráð fyrir að hin dæmdu hafi verið leidd undir öxi á Auðkúlu, þingstað sveitarinnar (sjá Auðkúla). Einn bændanna þriggja sem vottuðu með sýslumanni að aftakan hefði farið fram átti heima á Auðkúlu en hinir á Tjaldanesi og í Stapadal.[29] Ekki liggur fyrir hvar stjúpfeðginin frá Gljúfrá voru höfð í varðhaldi þær 118 vikur sem liðu frá því dauðadómur sýslumanns var kveðinn upp og þar til aftakan fór fram en líklegast er að Sigurður „skuggi“ hafi geymt þau í dýflissu hjá sér. Hann sat í Holti í Önundarfirði vorið 1761 en settist að á Mosvöllum í sama byggðarlagi vorið 1762 (sjá Mosvellir).

Á Þingvöllum við Öxará var konu síðast stjakað í Drekkingarhyl árið 1749 en þar voru nokkrar konur dæmdar til að hálshöggvast á árunum 1760–1790, fyrir sifjaspell eða leyndar barnsfæðingar.[30] Tvær þessara kvenna voru af Vestfjörðum en önnur þeirra var sýknuð af yfirréttinum og ekki er ljóst hvort hin var tekin af lífi.[31] Tvímælalaust er að líflát bóndans á Gljúfrá og stjúpdóttur hans var ein hin allra síðasta aftaka á þingstöðum Vestfirðinga og er höfuð þeirra fuku af bolnum var blóði úthellt í síðasta sinn á voru landi fyrir sakir sem flokkuðust undir sifjaspell.[32]

Sigurður sýslumaður „skuggi“, sem kvað upp dóminn yfir Ívari og Ólöfu og stóð fyrir aftökunni, átti löngum í basli. „Honum veittust embættisverk erfiðlega, var fátækur og fékk oft uppgjöf skulda“, segir um hann í æviskrám.[33] Á sínum sýslumannsárum vestra reið hann eitt sinn suður í Borgarfjörð til fundar við Magnús Gíslason, amtmann á Leirá. Þar var þá við störf ungur skrifari, Jón Þorláksson að nafni, vestfirskur að ætterni en síðar prestur á Bægisá. Honum varð vísa á munni:[34]

Skuggi hingað skaust á hesti fúsum,

Skuggi gisti nótt í amtmannshúsum,

Skuggablakkur, Skuggahnakkur,

Skuggastakkur skreið og sprakk í lúsum.

 

Ætla má að slíkur kveðskapur hefði glatt Ívar og Ólöfu sem nú lágu höfuðlaus í sinni dys því ekki mun valdsmaðurinn hafa verið þeim kær né heldur böðullinn sem við vitum ekki hver var.

Þegar stjúpfeðginin voru leidd til höggs baslaði Ingibjörg Jónsdóttir enn við búskap hér á Gljúfrá, kona Ívars og móðir Ólafar.[35] Hún var þá um sextugt, „fróm og einföld“ að sögn prestsins og hafði „lært sinn kristindóm“.[36] Hjá henni voru árið 1763 þrjú börn hennar, Jón Jónsson, sagður 21 árs, albróðir Ólafar, Guðbjörg Ívarsdóttir, 15 ára, og Jón Ívarsson, 13 ára.[37] Dauft var yfir mannlífinu á Gljúfrá um þær mundir, í skugga grimmra skapa, dóms og dauða. Seinna birti á ný. Ætla má að Jón Jónsson sem hér bjó árið 1801, sagður 58 ára,[38] hafi verið sá hinn sami og hér var nefndur því aldurinn passar. Ekkja hans, Þuríður Jónsdóttir, stóð hér enn fyrir búi árið 1816 en rangt er farið með aldur hennar í manntalinu frá því ári.[39] Þá voru í hreppnum fimm Jóns börn, fædd á Gljúfrá á árunum 1773– 1793.[40] Mjög sterkar líkur benda til að Ólöf, sem höggvin var, hafi verið föðursystir þeirra allra. Eitt þessara meintu systkina var Ingimundur Jónsson sem bjó á Gljúfrá um nokkurt skeið[41] en á árunum kringum 1850 bjuggu hér dóttir hans og tengdasonur, Sigríður Ingimundardóttir og Árni Pétursson.[42] Þau voru landsetar Jóns Sigurðssonar, skjalavarðar í Kaupmannahöfn, sem átti tíu hundruð í Gljúfrá en einmitt þessi eign tryggði honum kjörgengi er kosið var til hins endurreista Alþingis í fyrsta sinn árið 1844.[43] Án eignarhalds og umráða yfir þúfnakollunum hér í túninu hefði prestssonurinn frá Rafnseyri ekki mátt gefa kost á sér til setu á Alþingi og líklegt er að saga Íslands á nítjándu öld hefði þá orðið með nokkuð öðrum brag en raun varð á. Moldin hér á Gljúfrá geymir því minningar af tvennum toga, sárar bæði og sigurglaðar.

Oft mun fátækt fólk hafa búið á Gljúfrá og þegar lítið var um mat kom sér vel að fá úr ánni silung sem hér veiddist undir fossi, skammt frá sjó.[44] Við slíkan veiðiskap tókst þó eitt sinn svo illa til að sonur ekkju sem hér bjó féll í hylinn og drukknaði.[45] Hvarf þá veiði úr ánni því slegin þungri sorg mælti móðir piltsins svo um og lagði á að aldrei framar skyldi nokkur málsverður fást úr því vatni.[46] Nú hefur jörðin legið í eyði frá 1943.[47]

 

 

[1] Jb. Á. og P. VII, 13.

[2] ÖÖ.

[3] Sama heimild.

[4] Sama heimild.

[5] D.I. IX, 29–30.

[6] Sóknalýs. Vestfj. II, 21.

[7] Sama heimild. II, 23.

[8] ÞN 1951, 155 (Árbók F.Í.).

[9] D.I. IV, 683–694.

[10] Lbs. 797 4to. Jarðaskrá úr Ísafjs. frá árinu 1695. Jb. Á. og P. VII, 13.

[11] Rtk. Jarðab. V. 16, Ísafjs. 1805.

[12] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681. Manntöl 1703, 1801 og 1816. Jb. Á. og P. VII, 13.

[13] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681. Manntöl 1703, 1801 og 1816. Jb. Á. og P. VII, 13.–14. Bændatöl og skuldaskrár 1720–1765, Ísafjs. um 1735, eftirrit. Jarða- og bændatöl 1752–1767, Ísafjs. 1753. Smt. Rafnseyrar.

[14] Manntal 1762.

[15] Smt. Rafnseyrar.

[16] Smt. Rafnseyrar.

[17] Sama heimild.

[18] Skjs. stiftamtm. III, nr. 227. Hæstaréttard. frá 16.12.1762.

[19] Sama heimild.

[20] Sama heimild.

[21] Sama heimild.

[22] Sama heimild.

[23] Sama heimild.

[24] Sama heimild.

[25] Sama heimild. Smt. Rafnseyrar 1763.

[26] Skjs. stiftamtm. III, nr. 227. Hæstaréttard. frá 16.12.1762.

[27] Sama heimild.

[28] Sama heimild.

[29] Skjs. stiftamtm. III, nr. 227. Hæstaréttard. frá 16.12.1762.

[30] Sama heimild.

[31] PáSig 1971, 38. Alþb. Ísl. XIV, 568 og XV, 78–82, 143, 389, 414 og 418.

[32] Alþb. Ísl. XIV, XV og XVI og Acta yfirréttarins 1774.

[33] IHH 1992, 206.

[34] Ísl. æviskrár IV, 258.

[35] BBen Sýslumæfir III, 515.

[36] Smt. Rafnseyrar 1763.

[37] Sama heimild.

[38] Sama heimild.

[39] Manntal 1801.

[40] Manntal 1816. Sbr. Manntal 1801. Sbr. einnig prþjb. og smt. Rafnseyrar.

[41] Manntal 1816.

[42] Sama heimild.

[43] Prþjb. og smt. Rafnseyrar. Sbr. Manntal 1816.

[44] LKr 1960, 41–43.

[45] Sama heimild.

[46] Sama heimild.

[47] Firðir og fólk 1900-1999, 119.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »