Ketilseyri

Næsti bær fyrir innan Hvamm er Ketilseyri og eru um það bil þrír og hálfur kílómetri á milli bæjanna. Frá landamerkjunum undir Innra-Ausuhorni (sjá hér Hvammur) liggur leiðin um Ketilseyrarhlíð uns komið er í tún á Ketilseyri. Eyrin sem bærinn er kenndur við gengur dálítið fram í fjörðinn og innan hennar beygir fjarðarströndin lítið eitt frá austri til austsuðausturs. Ketilseyrarbærinn stendur utantil á eyrinni, skammt frá sjó, en upp frá henni gengur Ketilseyrardalur til fjalls, beint í suðurátt. Heiman frá bæ og fram í dalbotn eru um það bil fimm kílómetrar. Dalurinn liggur nokkuð hátt en fram í botni hans er þó dálítið graslendi. Ketilseyrará rennur um dalinn og til sjávar innantil við eyrina. Yfir hlíðum Ketilseyrardals rísa há klettafjöll, að utan Ausufjall en að innan Tafla. Bæði eru þau álíka há, 657 og 659 metrar yfir sjávarmáli þar sem hæst er. Upp úr dalbotninum er klettlaust og þaðan er fær gönguleið yfir í Hauksdal eða Gljúfrárdal í Arnarfirði (sjá hér Auðkúluhreppur, inngangskafli). Þá leið fór Friðfinnur Þórðarson, bóndi á Kjaransstöðum, á Rafnseyrarhátíðina 17. júní 1911 og hafði með sér drenginn Nóa.[1] Neðarlega á Ketilseyrardal heitir Selárdalur með ánni.[2] Þar eru seltóttir, rétt utan við ána, heimantil við fremri endann á fremsta holtinu en þau eru öll innan við ána. Þarna eru a.m.k. þrjár tóttir. Heiman frá Ketilseyri er aðeins 15-20 mínútna gangur fram að seltóttunum.

Innri landamerki Ketilseyrar eru á Digranesi, litlu nesi sem gengur í sjó fram milli Ketilseyrar og Kjaransstaða sem eru næsti bær inn með firðinum. Innan við Ketilseyri var gott slægjuland sem nefndist Partur.[3] Þar stóð áður lambabyrgi, borghlaðið úr grjóthellum.[4] Í byrgi þessu voru fráfærulömb höfð á nóttunni í tvær vikur eða svo fyrst eftir fráfærurnar áður en þau voru rekin á fjall.[5] Á daginn voru lömbin heft í Partinum neðan við byrgið.[6] Á þessum slóðum hefur á síðustu árum orðið mjög mikið umrót og jarðrask vegna framkvæmda.

Ketilseyri var að fornu mati talin 24 hundraða jörð[7] en um miðja 19. öld var jörðin aðeins metin á 18 hundruð.[8] Vafamál er hvort jörðin muni í öndverðu hafa verið kennd við mann, Ketil að nafni, ellegar við ketil í landslaginu, það er að segja pott, en botn dalsins sem jörðinni fylgir er ekki ólíkur gömlum potti í laginu.

Í Landnámabók er Hrafn, sonur Dýra landnámsmanns, sagður hafa búið á Ketilseyri[9] og í Gísla sögu Súrssonar er hann gerður að langafa Auðar Vésteinsdóttur, konu Gísla,[10] sem reyndar fær ekki staðist tímans vegna. Í fornritum þeim sem hér hafa verið nefnd er ekki sagt neitt nánar frá Hrafni Dýrasyni og hans er hvergi getið í öðrum heimildum.

Tveir fyrstu eigendur Ketilseyrar sem um er vitað með fullri vissu eru Þorleifur Grímsson, sýslumaður í Vaðlaþingi, og Jón Arason biskup á Hólum. Jón biskup keypti Ketilseyri af Þorleifi 4. nóvember 1532[11] en mun aðeins hafa átt hana í stuttan tíma því árið 1538 selur Ari lögmaður, sonur hans, þessa sömu jörð Þorsteini lögréttumanni í Hjörsey á Mýrum sem var sonur Torfa Jónssonar, hins víðfræga sýslumanns í Klofa.[12] Nokkru síðar mun Eggert Hannesson lögmaður hafa eignast Ketilseyri og árið 1568 selur hann jörðina mági sínum, Þorláki Einarssyni, sýslumanni á Núpi í Dýrafirði.[13] Sonarsonur Þorláks sýslumanns var Jón Gizurarson, bóndi, fræðimaður og lögréttumaður á Núpi, sem átti a.m.k. 10 hundruð í Ketilseyri á árunum kringum 1630.[14] Þessi 10 jarðarhundruð, ásamt fleiri jarðeignum, seldi Jón Gizurarson stjúpsyni sínum, Þorvaldi Björnssyni, í hendur til kaups og konumundar haustið 1634 er Þorvaldur gekk að eiga Jarþrúði Ólafsdóttur sem einnig var barnabarn Þorláks sýslumanns Einarssonar (sjá hér Hvammur og Núpur). Sjötíu árum síðar átti sonur Þorvalds og Jarþrúðar, Jón Þorvaldsson yngri, hálfa Ketilseyri, 12 hundruð, og hafði erft þá hálflendu eftir foreldra sína, svo og Dranga og 4 hundruð í Hvammi.[15] Hann var þá annar tveggja bænda hér á Ketilseyri.[16]

Hina hálflenduna átti um 1630 séra Sigurður Snorrason sem var prestur á Rafnseyri frá 1623 til 1648.[17] Séra Sigurður var annar tveggja presta sem Oddur Einarsson biskup sendi til Kaupmannahafnar árið 1618 til að hrekja þá ásökun höfuðsmannsins, Herlufs Daa, að biskup vígði ólærða menn til prestsembætta.[18] Séra Sigurður Snorrason kvæntist sumarið 1632 Dís Bjarnadóttur, ekkju séra Guðmundar Skúlasonar á Rafnseyri, en hún var sonardóttir séra Halldórs Einarssonar í Selárdal, bróður Þorláks, sýslumanns á Núpi, og Gizurar biskups Einarssonar.[19] Er Dís Bjarnadóttir gekk að eiga séra Sigurð fékk hún hálfa Ketilseyri í tilgjöf frá honum og þessa sömu hálflendu erfði sonur hennar siðar, Magnús Guðmundsson, bóndi, tinsmiður og timburmaður á Auðkúlu í Arnarfirði.[20]

Þessa hálflendu hér á Ketilseyri átti árið 1710 sonur Magnúsar tinsmiðs og konu hans, Kristínar Þorleifsdóttur, Þorleifur bóndi Magnússon á Auðkúlu.[21] Í Jarðabókinni frá 1710 er tekið fram að túninu á hálflendu Þorleifs spilli Ketilseyrará með landbroti og grjóts og sands áburði til stórskaða. Einnig eru engjarnar sagðar vera af skriðum stórlega fordjarfaðar.[22] Þessar miklu skemmdir á jörðinni hafa að líkindum átt sinn þátt í því að á jarðarpartinum sem Þorleifur á Auðkúlu átti hér á Ketilseyri bjó enginn árið 1710[23] og seinna var matið á jörðinni lækkað úr 24 hundruðum niður í 18 eins og fyrr var nefnt.

Landskuld af Ketilseyri um 1690 var sex vættir,[24] það er ein vætt fyrir hver fjögur jarðarhundruð en vættin taldist í landaurareikningi jöfn einu ærgildi. Síðasti leiguliði Þorleifs á Kúlu hér á Ketilseyri fyrir 1710 greiddi hins vegar aðeins eina og hálfa vætt í árlegt jarðarafgjald[25] og hefur landskuldin af þeirri hálflendu því verið lækkuð um helming vegna landskemmdanna.

Jón Þorvaldsson yngri, sem átti hálfa Ketilseyri á árunum kringum 1700, hóf hér búskap árið 1694 og var þá liðlega fertugur.[26] Bústofn hans árið 1710 var tvær kýr, kvíga og kálfur, 24 ær, 17 sauðir, 25 lömb og tvö hross.[27] Skilyrði til að ala hér sauðfé á útigangi voru þá talin vera í meðallagi, en torfrista og stunga lök og lítt nýtandi.[28] Fjallagrasatekja í landi Ketilseyrar var sögð lítil í byrjun 18. aldar og lítið um lyng sem unnt væri að rífa og nota til eldiviðar með taðinu.[29] Í sóknarlýsingu frá því um miðja nítjándu öld fær jörðin hins vegar betri einkunn og þar er sagt að hér sé víðlendi mikið og heyskapur.[30]

Eiginkona Jóns Þorvaldssonar, bónda á Ketilseyri á árunum kringum 1700, hét Halldóra Sigurðardóttir[31] og var hingað komin norðan af Snæfjallaströnd.[32] Sjö börn þeirra á aldrinum fjögurra til þrettán ára voru hjá þeim hér á Ketilseyri árið 1703.[33] Elst þessara barna var Einar, fæddur um 1690.[34] Hann var annar tveggja bænda á Ketilseyri um 1735[35] en árið 1762 bjó hér sonur hans, Þorlákur Einarsson, fæddur um 1730.[36] Hann bjó einn á allri jörðinni og var annar tveggja eigenda hennar.[37] Þorlákur Einarsson, bóndi á Ketilseyri, var fimmti maður frá Þorláki Einarsyni, sýslumanni á Núpi, því langamma hans, Jarþrúður Ólafsdóttir, eiginkona Þorvaldar söngmanns í Hvammi, var dótturdóttir Þorláks sýslumanns (sjá Hvammur). Líklegt er að þau ættartengsl hafi verið vandamönnum ofarlega í huga þegar nafn var valið á drenginn. Sonur Þorláks bónda var Torfi sem bjó hér á Ketilseyri á árunum kringum 1800 og allt til 1827[38] en hann var fjórði ættliðurinn sem hér sat að búi án þess að röðin slitnaði. Á dögum Torfa Þorlákssonar var oftast tvíbýli á jörðinni og átti hann aðra hálflenduna,[39] líklega þá sömu og faðir hans, afi og langafi höfðu átt. Torfi bóndi Þorláksson var tvíkvæntur og eignaðist börn með báðum konunum[40] en ekkert þeirra tók hér við búi. Eitt barna hans og seinni konunnar, Guðrúnar Hildibrandsdóttur, var Solveig sem giftist Nathanael Narfasyni og bjuggu þau um skeið í Meðaldal.[41] Úr röð dótturbarna Torfa á Ketilseyri, sem ættir eru frá komnar, má nefna Guðmund Nathanaelsson, bónda á Kirkjubóli hér í sveit, og systur hans, þær Jóhönnu, konu Steins Kristjánssonar, bónda í Lægsta-Hvammi, og Valgerði sem giftist Móses Mósessyni en þau bjuggu um skeið hér á Ketilseyri á árunum kringum 1880.[42] Þeirra sonur var Nathanael Mósesson, kaupmaður á Þingeyri.[43]

Á 18. og 19. öld var oft tvíbýli á Ketilseyri[44] en stundum sat þó einn ábúandi alla jörðina.[45] Árið 1845 var Guðmundur Ólafsson eini bóndinn á Ketilseyri.[46] Kona hans var Ragnheiður Björnsdóttir og voru þau bæði fædd í Sandasókn um aldamótin 1800.[47] Dóttir þeirra er í handriti að manntalinu frá 1845 nefnd Narflaug Guðrún en útgefendur manntalsins hafa breytt nafni hennar í Narfey.[48] Sjö voru í heimili á Ketilseyri árið 1845. Auk hjónanna og dóttur þeirra, sem hér var nefnd, voru á heimilinu  tvær vinnukonur, einn vinnumaður og sextán ára piltur sem kallaður er léttingur í manntalinu.[49] Guðmundur Ólafsson mun hafa verið leiguliði á Ketilseyri og goldið 90 álnir (3/4 úr kýrverði) í landskuld á ári.[50] Jörðin var þó í bændaeign um þetta leyti en leigð ábúanda með hálfu fimmta kúgildi.[51] Tuttugu og sjö leiguær hafa þá fylgt jörðinni því sex ær voru jafnan í hverju kúgildi.

Talsvert var um reimleika á Ketilseyri á nítjándu öld. Maður að nafni Gísli Jónsson hóf hér búskap árið 1881.[52] Hann lét strax rífa gamla bæinn og tvær skemmur, aðra mjög forna.[53] Er gamla skemman var rifin fannst beinagrind af mjög stórum karlmanni í öðrum veggnum.[54] Ekki mun Gísli bóndi hafa hirt um að veita beinunum umbúnað við hæfi og er sumri tók að halla fóru heimamenn á Ketilseyri að verða með ýmsum hætti varir við forna veggbúann sem gekk nú ljósum logum um hin nýju híbýli.[55] Svo stór var þessi vomur að þegar hann stakk höfðinu upp um loftsgatið á baðstofunni hvíldi hakan á skörinni. Þar kom að óhjákvæmilegt þótti að fá prest til að koma draugnum fyrir. Klerkurinn kom að Ketilseyri, flutti þar bænarorð og stökkti vígðu vatni um öll híbýli.[56] Aðgerðir hans nægðu þó ekki til að kveða niður reimleikana en smátt og smátt fjöruðu þeir út.[57]

Nokkru fyrr lét Gunnhildar, hin ramma afturganga frá Sveinseyri (sjá hér Sveinseyri), einnig mjög til sín taka á Ketilseyri en þá bjó hér systursonur hennar, Ólafur Ólafsson að nafni.[58] Hann var sagður rammur að afli, mikill fyrir sér og skytta góð.[59] Eitt sinn var Ólafur að koma heim frá Þingeyri og var með byssu sína. Gekk hann við í nausti er hann átti niður við sjó á Ketilseyri og lagði þar frá sér byssuna. Af atburðum í naustinu segir svo í Vestfirskum sögnum:

 

En jafnskjótt og hann sleppti byssunni er hann gripinn og honum fleygt af afli út að öðrum veggnum. Þá reynir hann að ná tökum á því sem á hann hefur ráðist. En hvar sem hann ætlar að taka grípur hann í tómt og fær hann ekki að gert en er fleygt milli veggja naustsins og innan um það allt. Loksins leið yfir hann og lá hann svo meðvitundarlaus um stund. Þegar hann raknaði við var hann kviðslitinn en gat þó komist heim og sagt frá atburðum þessum.[60]

 

Fáir drógu í efa að þarna hefði Ólafur átt í höggi við Gunnhildi frænku sína, enda hafði hann áður manað hana að reyna við sig en það var segin saga að hver sá sem storkaði Gunnhildi á einhvern hátt fékk áður en langt um leið að kenna á afli hennar.

Innan við Ketilseyri sveigir akvegurinn til sjávar, að brúnni yfir Dýrafjörð. Rétt fyrir utan vegamótin, þar sem gamli og nýi vegurinn mætast, er hringlaga rúst neðan við veginn og mun vera gamalt sauðahlað. Aðeins utar og ofan vegar er grjóthlaðin fjárborg sem heitir Lambabyrgi.[61] Þar voru fráfærulömb höfð á nóttunni í um það bil tvær vikur, eftir fráfærurnar, en geymd á daginn í hafti í Partinum niður af byrginu.[62] Síðan voru þau rekin á fjall.[63]

 

 

[1] Erlingur Davíðsson / Kristján Nói Kristjánsson 1978, 66.

[2] Örnefnaskrá.

[3] Sama heimild.

[4] Sama heimild.

[5] Sama heimild.

[6] Sama heimild.

[7] D.I. X, 367 og XV, 166.  Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 52.

[8] J. Johnsen 1847, 192.  Sóknalýsingar Vestfjarða II, 56.

[9] Íslensk fornrit I, 180-181.

[10] Íslensk fornrit VI, 15.

[11] D.I. IX, 634-636.

[12] D.I. X, 367.

[13] D.I. XV, 166.

[14] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir (Kph 1993), 157.

[15] Jarðab. Á. og P. XIII, 279-281.

[16] Manntal 1703.  Jarðab. Á. og P. VII, 52-53.

[17] Jarðab. Á. og P. XIII, 271.  Íslenskar æviskrár IV, 266-267.

[18] Ísl. æviskrár IV, 249-250 og 266-267.

[19] Sama heimild I, 168-169, II, 86-87 og 250, IV, 266-267.

[20] Jarðab. Á. og P. XIII, 271.  Ísl. æviskrár II, 182-183.

[21] Jarðab. Á. og P. XIII, 271. Sama VII, 52. Sbr. Manntal 1703 og Lögréttum.tal, bls. 517.

[22] Jarðab. Á. og P. VII, 52.

[23] Sama heimild.

[24] Sama heimild.

[25] Sama heimild.

[26] Sama heimild.  Manntal 1703, 198.

[27] Jarðab. Á. og P. VII, 52-53.

[28] Sama heimild.

[29] Sama heimild.

[30] Sóknalýs. Vestfj. II, 56.

[31] Manntal 1703.

[32] ÍB 154to, Jón Espólín, Ættatölubækur, dálkar 5511-5512.

[33] Manntal 1703.

[34] Sama heimild.

[35] ÍB 154to, J. Esp., Ættatölub., dálkar 5511-5512.  Manntal 1703.  Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765,

Ísafj.sýsla um 1735, eftirrit.

[36] Sömu heimildir.  Manntal 1762.

[37] Manntal 1762.

[38] Manntöl 1801 og 1816.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1. búnaðarskýrslur 1821-1838.

[39] Rtk. Jarðab. V. 16. Ísafj.s. 1805.  Manntöl 1801 og 1816.

[40] Prestaþj.b. Sandapr.kalls.  Manntöl 1801 og 1816.

[41] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.  Manntöl frá 19. öld.

[42] Sömu heimildir.  Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[43] Sömu heimildir.

[44] Manntöl 1703, 1801, 1816, 1855, 1860, 1870, 1880, 1890 og 1901.

[45] Manntöl 1762, 1835, 1840, 1845 og 1850.

[46] Manntal 1845.

[47] Sama heimild.

[48] Sama heimild.

[49] Sama heimild.

[50] J. Johnsen 1847, 192.

[51] Sama heimild.

[52] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[53] Vestfirskar sagnir III, fyrri hl., 144-149.

[54] Vestfirskar sagnir III, fyrri hl., 144-149.

[55] Sama heimild.

[56] Sama heimild.

[57] Sama heimild.

[58] Manntöl 1845 og 1855.

[59] Vestf. sagnir I, 299-300.

[60] Sama heimild.

[61] Örn.skrá.

[62] Sama heimild.

[63] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »