Minni-Garður

Vegalengdin frá Meira-Garði út að Minna-Garði er varla meiri en 300 metrar en bæir þessir stóðu báðir undir sömu fjallshlíðinni. Umhverfi þeirra og landamerkjum hefur áður verið lýst (sjá hér Meiri-Garður), nema landamerkjum Minna-Garðs á móti jörðunum Hólakoti og Felli. Á móti Hólakoti liggja merkin um Hvassahrygg sem nær upp undir röndina á Klukkulandsfjalli[1] við mynni Núpsdals. Um landamerki Minna-Garðs og Fells er rætt hér á öðrum stað (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 281-282).

Jörðin Minni-Garður, sem líka var oft nefnd Litli-Garður, var talin 6 hundruð að dýrleika[2] og hefur því verið metin helmingi lakara ábýli en Meiri-Garður sem var 12 hundruð. Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 eru kostir og ókostir þessara tveggja jarða annars sagðir vera hinir sömu (sjá hér Meiri-Garður).[3] Í síðari tíma heimild segir að í Minna-Garði hafa engjarnar verið grasmiklar en heyið ekki gott að sama skapi.[4] Þar er líka getið um ágætt berjaland í kjarri vaxinni hlíð út frá bænum og vaxa þar aðalbláber.[5] Líklegt verður að telja að Garður í Dýrafirði hafi í fyrstu verið ein jörð en síðar hafi menn farið að búa í Minna-Garði sem þá hafi í fyrstu verið hjáleiga eða afbýli frá Meira-Garði. Engar heimildir um þetta liggja þó fyrir en í Jarðabók Árna og Páls er sagt að sumir ætli að svona hafi þróunin verið. Til rökstuðnings slíkri tilgátu bendir Árni Magnússon á að ekki sé vitað um lögskifti á úthögum þessara jarða en tekur þó fram að Minni-Garður hafi lengi verið talinn sérstakt lögbýli.[6]

Sumar heimildir frá 15. öld benda til þess að Meiri-Garður og Minni-Garður hafi þá verið ein jörð (sjá hér Meiri-Garður) en í Vilkinsmáldaga frá árinu 1397 er aftur á móti talað um Garða land sem bendir til þess að jarðirnar hafi þá þegar verið orðnar tvær. Ótvírætt er að Minni-Garður var orðinn sérstakt býli í byrjun 16. aldar því þá er í varðveittum heimildum talað um Syðra-Garð í Dýrafirði (þ.e. Meira-Garð) (sjá hér Meiri-Garður) sem ekki hefði verið nefndur svo nema af því að jarðirnar voru tvær.

Í rituðum heimildum sem varðveist hafa er Minni-Garður fyrst nefndur árið 1556 og er þá reyndar kallaður Litligarður.[7] Eggert Hannesson lögmaður, sem þá var nýlega fluttur frá Núpi í Dýrafirði að Bæ á Rauðasandi,[8] selur þá mági sínum, Þorláki Einarssyni á Núpi, ýmsar jarðir í Dýrafirði og var Minni-Garður ein þeirra.[9]

Af bændum sem bjuggu í Minna-Garði á fyrri tíð fer fáum sögum og verður hér aðeins minnst á einn þeirra Nikulás Bjarnason sem þar bjó um aldamótin 1700. Hér hefur áður verið sagt frá basli Nikulásar við að fá leyfi til að kvænast barnsmóður sinni, Gunnfríði Brynjólfsdóttur (sjá hér Neðri-Hjarðardalur), og þar var látin í ljós sú skoðun að móðir stúlkunnar hefði að líkindum ekki viljað fá Nikulás fyrir tengdason vegna þess að hann lá undir grun um yfirhylmingu í þjófnaðarmáli. Hér verður nú brátt greint nánar frá viðskiptum Nikulásar við réttvísina.

Í manntalinu sem tekið var árið 1703 er Nikulás sagður vera 61 árs gamall[10] og hefur því verið fæddur á árunum upp úr 1640. Hann var sonur Bjarna Nikulássonar og Halldóru, dóttur séra Ólafs Jónssonar skálds og sóknarprests á Söndum í Dýrafirði.[11] Ekki er nú vitað með vissu hvar þau Bjarni og Halldóra bjuggu á uppvaxtarárum Nikulásar en í dómabók frá árunum 1720-1729 er Bjarni reyndar sagður hafa búið á Brekku á Ingjaldssandi og fram kemur að hann hafi orðið a.m.k. 84 ára gamall.[12] Í sömu heimild kemur fram að Nikulás hafi verið mjög vel kunnugur á Ingjaldssandi[13] og má því telja líklegt að hann hafi alist upp á Brekku. Um tvítugsaldur var hann búsettur í Mýrahreppi því árið 1665 var hann sóttur til saka á Mýraþingi.[14]

Þar voru bræður tveir, Gísli og Jón Bjarnasynir, dæmdir fyrir að hafa stolið til 30 vætta og fjögra fjórðunga,[15] sem verður að teljast verulegur þjófnaður, því 30 vættir á landsvísu töldust 5 kýrverð. Báðum var þeim refsað á Mýraþingi fyrir þjófnaðinn en dómsmenn þar töldu rétt að láta Alþingi skera úr um hvort sá eldri þessara bræðra, Gísli sem var 25 ára, ætti að hljóta þyngri refsingu.[16] Við Öxará sáu menn ekki ástæðu til að þyngja refsinguna.[17]

Í Alþingisbókinni frá árinu 1666 má líka sjá að Nikulás Bjarnason hefur verið riðinn við þetta þjófnaðarmál en þó með sérstökum hætti. Þar kemur fram að á Mýraþingi árið áður hefur honum verið dæmdur sjöttareiður fyrir falið góss sem upp í fjallið borið var.[18] Þessi orð verða ekki skilin á annan veg en þann að Nikulási hafi verið gefinn kostur á að fá sex menn til að sverja með sér þann eið að honum hafi verið ókunnugt um þýfið sem Gísli og Jón földu í fjallinu fyrir ofan bæinn og hefur hann því verið grunaður um yfirhylmingu. Er málið kom til Alþingis ári síðar hafði Nikulás enn ekki komið fram eiðnum og var hann þá dæmdur í fjögurra marka eiðfallssekt.[19] Þessi úrskurður lögréttumannanna í máli Nikulásar var þó bundinn því skilyrði að þar til kvaddir menn næðu að sanna á Nikulás að grunurinn um yfirhylmingu væri á rökum reistur.[20]

Við lestur Alþingisbókarinnar hlýtur að vakna sú hugmynd að allir þessir þrír Bjarnasynir, Gísli, Jón og Nikulás, hafi verið bræður. Í gögnum málsins kemur þó aðeins fram að Gísli og Jón muni hafa verið bræður en ekkert um það hvort Nikulás hafi verið bróðir þeirra.[21] Hvað sem því líður verður að telja mjög líklegt að allir hafi þeir Bjarnasynir búið á sama bæ eða í allra næsta nágrenni hver við annan því varla hefði grunurinn um yfirhylmingu komið upp ef Nikulás hefði búið annars staðar.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að Nikulás Bjarnason, sem átti í útistöðum við réttvísina með þeim hætti sem hér hefur verið lýst árið 1665, var sannanlega enn á lífi árið 1689 og búsettur í Mýrahreppi eins og áður.[22] Aðeins einn Nikulás Bjarnason bjó í Vestur-Ísafjarðarsýslu árið 1681 (skrá vantar þó úr Súgandafirði), þá á Fjallaskaga,[23] og má því telja fullvíst að allt sé þetta sami maðurinn en hann fluttist síðar frá Fjallaskaga að Minna-Garði.

Í gamla íslenska réttarkerfinu gekk klukkan oft ákaflega hægt og ekki var mjög fátítt að minniháttar sakamál væru að velkjast í dómskerfinu í nokkra áratugi. Svo fór líka hér. Þegar 24 ár voru liðin frá því dæmt var í þjófnaðarmáli Bjarnasona á Mýraþingi virðast menn allt í einu hafa minnst þess að Nikulás hafði aldrei náð að tryggja sér þá sex hjálparmenn sem áttu að sanna sakleysi hans með eiði. Nú var úr vöndu að ráða og hafa menn talið nauðsynlegt að leita enn úrskurðar Öxarárþings. Þann 8. júlí 1689 var þetta gamla mál Nikulásar tekið fyrir í lögréttunni á Þingvöllum og svohljóðandi niðurstaða færð til bókar:

 

Um það málaferli Nikulásar Bjarnasonar sem hingað var sett með dómsáliti úr Ísafjarðarsýslu gengnu þann 6.aprilis þessa árs að Mýrum við Dýrafjörð, áhrærandi óframkominn eið, honum með séttarsærum gerðan það ár 1665, er andsvar og ályktun lögmanna og lögréttunnar að þar hérnefndur Nikulás Bjarnason fær góða og frómlega kynning af þeirrar sýslu innbyggjurum, svo er ekkert bevísanlegt til ærukreinkingar upp á hann borið í þessu máli, ei heldur honum tilnefnd eiðvætti eiðinn ósæran svarið, að hann að svo prófuðu sé í þessu máli aldeilis á sinni æru ókreinktur.[24]

 

Með þessum úrskurði Öxarárþings fékk Nikulás loks fulla uppreisn æru. Aldarfjórðungur var þá liðinn frá því þýfi Bjarnasona var borið til fjalls og sautján ár frá því prestastefna í Holti veitti Nikulási heimild til að ganga að eiga barnsmóður sína, Gunnfríði Brynjólfsdóttur, þrátt fyrir harða andstöðu móður hennar (sjá hér Neðri-Hjarðard.). Er Nikulás kvæntist Gunnfríði varð hann tengdasonur Brynjólfs ríka Bjarnasonar í Neðri-Hjarðardal og er ekki ólíklegt að þær tengdir hafi orðið honum til styrktar.

Ekki verður nú séð hvar Nikulás og Gunnfríður hófu búskap en árið 1681 voru þau á Fjallaskaga[25] og síðar í Minna-Garði og á Arnarnesi.[26] Ekki er ólíklegt að þau hafi búið á fleiri jörðum en þess verður hvergi vart að þau hafi nokkru sinni verið búsett utan Mýrahrepps. Ef marka má ummæli lögréttumannanna á Þingvöllum er þeir veittu Nikulási uppreisn æru þá hefur bóndamaður þessi verið vel kynntur í sínu byggðarlagi. Búskaparbasl þeirra Gunnfríðar sýnist líka hafa lánast vel að ýmsu leyti, a.m.k. náðu þau að koma upp fimm börnum,[27] sem kynnu reyndar að hafa verið fleiri, og sjálfur var Nikulás enn talinn fyrir búi árið 1710, þá kominn fast að sjötugu.[28] Áföllum urðu þau hins vegar fyrir og munu reyndar hafa flosnað upp frá búskap í harðindunum miklu undir lok sautjándu aldar. Gæfa þeirra var hins vegar slík að þau náðu brátt að koma undir sig fótum á ný. Á árunum 1695-1699 gengu mikil harðindi yfir landið og hefur árferðinu á þeim árum verið lýst með þessum orðum:

 

Hafís lá lengi 1695 (til júníloka). Árið 1696 var fellivetur mikill um land allt og dóu margir úr hungri. Mundu menn ekki slíkan vetur síðan hvíta vetur (1633), dóu þá og margir úr hungri í Þingeyjarþingi. Veturinn 1697 var harður er á leið og kallaður vatnsleysuvetur. Varð þá mannfellir og umferð mikil þurfamanna. Hörkuvetur mikill var 1699, gengið á ísi yfir Hvalfjörð, skógar sliguðust af snjóþunga og brotnuðu og mannfellir varð.[29]

 

Ekki er fullvíst hvar í Mýrahreppi Nikulás og Gunnfríður bjuggu er harðindi þessu hófust en fyrir liggur að þau voru þá landsetar Ástríðar Jónsdóttur á Mýrum er síðar varð tengdamóðir Mála-Snæbjarnar. Þegar harðnaði í ári gat Nikulás ekki staðið í skilum við Ástríði með leigur af ásauðarkúgildunum sem jörðinni fylgdu, enda líklegast að kindur þessar hafi fallið úr hor. Árið 1698 kærði Ástríður þennan landseta sinn fyrir vanskil og segir í Alþingisbókinni að málið hafi risið útaf tveimur ásauðarkúgildum og öðru fleiru.[30] Málið var dæmt á Mýraþingi 15. september 1698 og sá dómur staðfestur á Alþingi árið eftir.[31] Í úrskurði lögmanna og lögréttumanna við Öxará um mál þeirra Nikulásar og Ástríðar segir svo:

 

… en þar sem Nikulás kann ekki svara skileyri fyrir nefnd kúgildi sem honum þó, ef til hefur, fullkomlega svara ber, þá álykta lögþingismenn innan vébanda að greindum Nikulási tilhlýði kúgildanna andvirði riktuglega að betala með þeim aurum sem næst ganga málnytu og ábata von er af, en það viðvíkur kúgildanna leigum um allan þann tíma sem hann hafi þeim innihaldið, síðan hann frá jörðinni veik, virðist tilheyrilegt að téður Nikulás tvígjaldi þær leigur fyrir hvert ár, nema hann fyrir sína bón og auðmjúka eftirleitni fái af velnefndri Ástríði þar linun á.[32]

 

Orðalag þessa úrskurðar ber með sér að búsmalinn er fallinn og Nikulás búinn að yfirgefa ábýli sitt. Engu að síður er hann dæmdur til að standa full skil á andvirði kúgildanna og greiða fyrir þau tvöfalda leigu fyrir þann tíma sem liðinn er frá því hann flosnaði upp. Þetta var harður dómur sem erfitt hefur verið fyrir Nikulás og Gunnfríði að sætta sig við. Ekki var hann sjálfur mættur við Öxará þegar dómurinn var kveðinn upp, enda um langan veg að fara, en hann sendi þangað bréf sér til varnar. Það eitt sýnir að Nikulás hefur verið maður sem vildi ganga uppréttur og lagði kapp á að standa á rétti sínum sem er meira en almennt verður sagt um múgamenn á hans tíð. Í bréfi sínu til Alþingis gerir Nikulás þá kröfu að Páli Vídalín varalögmanni verði meinað að sækja málið fyrir hönd Ástríðar á Mýrum[33] en Páll var tengdasonur hennar. Í annan stað greinir Nikulás svo frá í sama bréfi til Alþingis að hann reikni sig í öreigatölu[34] og hefur með því viljað benda á að til lítils væri að dæma sig til fjárútláta. Páll Torfason, sýslumaður á Núpi, sem var mættur við Öxará sumarið 1699, andmælti hins vegar þessari staðhæfingu Nikulásar[35] og virðist hafa talið að hann væri þrátt fyrir allt ekki alveg örbjarga.

Tíu árum fyrr hafði Alþingi veitt Nikulási uppreisn æru en nú kom þessi dómur sem lagði á hann ærnar byrðar, nema hann gengi á fund Ástríðar ríku á Mýrum og bæðist griða hjá henni. Óvíst er hvort Nikulás hefur nokkru sinni gengið þau þungu spor. Einhvern veginn sýnist hann ekki líklegur til þess og svo mikið er víst að hennar landseti var hann ekki, hvorki 1703 eða 1710.

Árið 1703 voru þau Nikulás og Gunnfríður hér í Minna-Garði, liðlega sextug að aldri og hjá þeim voru þá börn þeirra fimm á aldrinum 13-32ja ára.[36] Ekki er ólíklegt að Minni-Garður hafi verið fyrsta jarðnæðið er þau fengu til ábúðar eftir áföllin sem á þeim dundu í harðindunum fyrir aldamótin. Eigandi Minna-Garðs á fyrstu árum 18. aldar var Ari Þorkelsson, sýslumaður í Haga á Barðaströnd, sem keypti jörðina af Ingibjörgu Jónsdóttur þann 28. mars árið 1700[37] og átti hana enn árið 1710.[38] Hvaða Ingibjörg Jónsdóttir þetta var er óljóst en eina konan með því nafni í Vestur-Ísafjarðarsýslu sem um er vitað að átti einhverjar jarðeignir þar um aldamótin 1700 er sú sem gift var Ara Pálssyni úr Arnarfirði, en hann var brenndur fyrir galdra á Alþingi árið 1681 (sjá hér Lokinhamrar). Máske hún hafi átt Minna-Garð og byggt hann Nikulási vorið 1699. Engum sögum fer af samskiptum Ara sýslumanns í Haga og Nikulásar en eitt og hálft kúgildi fylgdi jörðinni, það er níu ær, og sú kvöð að leggja til mann í skipsferð vestur í Arnarfjörð að flytja landskuldir og leigugjald, bæði af þessari jörðu og öðrum sem Ara tilheyra hér nálægt.[39]

Vera má að Nikulás hafi aðeins búið í Minna-Garði í fáein ár en þar hefur hann náð sér á strik eftir volæði harðindaáranna því árið 1710 er hann farinn að búa á Arnarnesi við utanverðan Dýrafjörð sem var mun betra jarðnæði. Hann var þá eini bóndinn á Arnarnesi en sú jörð var talin 24 hundruð að dýrleika.[40] Er hér var komið sögu átti Nikulás fjóra nautgripi í fjósi og sauðkindur hans voru 75 en auk þess átti jarðeigandinn, séra Sigurður Jónsson prófastur í Holti, 18 kindur á Arnarnesi og fylgdu þær jörðinni. Þetta var stórt bú á þeirra tíma mælikvarða og auk þess átti Nikulás bát fyrir landi.[41] Sjálfur vottar hann með eigin hendi í Jarðabók þeirra Árna og Páls að þarna sé rétt með farið.[42] Ekki er ólíklegt að þau Nikulás og Gunnfríður hafi notið barna sinna sem orðin voru fullvinnandi heimilisfólk hjá foreldrum sínum er bú fjölskyldunnar tók að blómgast á ný á fyrstu árum átjándu aldar.

Við réttarhald sem fram fór á Mýrum sumarið 1727 út af landamerkjaþrætu var oft vitnað í það sem þessi sami Nikulás Bjarnason hafði sagt mönnum um þau efni.[43] Þar er Nikulás sagður hafa verið merkilega skynsamur maður og fróður og þess einnig getið að hann hafi verið hreppstjóri.[44] Eitt vitnið í þessum réttarhöldum tekur fram að Nikulás hafi verið 77 ára þegar hann andaðist[45] og má því ætla að þessi margreyndi og margvísi bóndamaður hafi dáið árið 1719 eða því sem næst.

Árin sem Nikulás bjó í Minna-Garði var hann í nábýli við Ástríði Jónsdóttur á Mýrum sem fengið hafði hann dæmdan á Alþingi fyrir vanskil þegar harðast var í ári og fénaðurinn hrundi niður. Oft hefur hann horft heim að höfðingjasetrinu á þeim árum og líklega hefði það glatt þennan kotbónda ef einhver sem mark var takandi á hefði getað fullvissað hann um að rétt liðlega hundrað árum síðar yrði sonarsonarsonur hans orðinn eigandi að Mýrum og hæstráðandi þar á höfuðbólinu. Slík saga hefði máske ekki þótt trúleg en sú varð þó raunin á því Brynjólfur Hákonarson, sem keypti Mýrar árið 1810 (sjá hér Mýrar), var sonarsonur Bárðar Nikulássonar, bónda á Arnarnesi, en Bárður var sonur Nikulásar Bjarnasonar[46] og Gunnfríðar konu hans, sem eins og áður var frá skýrt var dóttir Brynjólfs Bjarnasonar í Neðri-Hjarðardal.

Niðjahópur Nikulásar og Gunnfríðar er ærið fjölmennur svo margir sem hingað koma geta vafalaust rakið ættir sínar til þeirra. Minjar úr búskap þessara hjóna eru þó vart sjáanlegar hér í Minna-Garði en umhverfið er hið sama nema þar sem mannvirki nútímans hafa náð að setja svip sinn á það.

Um bændur sem bjuggu í Minna-Garði næstu hundrað árin eftir brottflutning Nikulásar út að Arnarnesi er fátt kunnugt. Þó má nefna Pálma Guðmundsson er bjó hér í nokkur ár í kringum 1790 og sagður er hafa fundið álfapott sem varðveittur er á Þjóðminjasafni Íslands. Potturinn var gefinn safninu árið 1882 og fylgdi þá með blað sem á var rituð þessi saga:

 

Fyrir hér um bil 70-80 árum bjó maður að nafni Pálmi Guðmundsson á Litlagarði í Dýrafirði í Ísafjarðarsýslu. Hann var maður hjátrúarlaus og trúði ekki að draugar né álfafólk væri til og þótti honum oft gaman að þrætast á við aðra um þessháttar. En þá bar það til einhverju sinni á gamlárskveld að þegar hann kom út í tunglsljósi, sem þá var, að honum sýndist sem flokkur af fólki færi fyrir neðan hlaðvarpann og bar eitthvað skran sem hann ekki sá hvað var og svo stóð hann kjur um stundarkorn og trúði ekki sjálfum sér að það væri nema vitleysa. Loks verður honum litið á hvar barn hérumbil 4 til 5 ára er á eftir fólkinu og hann heyrir svo gjörla að barnið sagði: „Mamma mín, mamma mín”, og svo sá hann að það hélt á einhverju í hendinni en hvað það var gat hann ekki séð.

Þá dettur honum í hug að fara á eftir en þegar hann er rétt kominn á stað sér hann að það setur þetta af sér og fer að flýta sér enn meira og kalla sem fyrr og þá fer hann þar sem þetta lá, tekur það upp og sér að það er pottur sem að honum þykir vera mjög undarlegur. Sá hann þá að þetta voru álfar og þótti mjög mikil skemmtun að en pottinn bar hann með sér heim og lét ofan í kistu úti á skemmulofti og lofaði hann ekki nema bestu vinum sínum að sjá hann. En á seinasta ári hans gaf hann fóstursyni sínum hann, sem hét Pálmi Ásmundsson og seinna bjó á Ósi í Bolungavík, og bað hann geyma vandlega svo lengi hann lifði og sá Pálmi dó árið 1865 um sumarið en þá eignaðist sonur hans, Pálmi, þennan pott en hann dó um 1870. Þá tók kona hans, Sigríður Jónsdóttir, pottinn og hefur geymt hann síðan og oft hefur verið beðið um ofurlítið af svarfi úr álfapottinum, bæði til að leggja við brjóstmein og fingurmein, og það sýnir fóturinn á pottinum að það er satt því það er lægð inn í hann og hefur alla jafnan hitt svo á að það hefur farið að batna strax á eftir.[47]

 

Þannig er sagan af pottinum sem álfabarnið týndi fyrir neðan hlaðvarpann í Minna-Garði við búferlaflutninga á gamlárskvöld fyrir langa löngu. Þetta er bumbuvaxinn smápottur sem stendur á þremur fótum.[48] Hann er úr koparblendingi, 10,2 cm á hæð, að fótunum meðtöldum, og mest 12,8 cm í þvermál.[49] Þessi ágæti álfapottur er talinn vera útlendur að uppruna og mun nú vera orðinn um það bil 500 ára gamall.[50] (Mynd af pottinum fylgir í bók Kr.E. „Hundrað ár í Þjóðminjasafni”.)

Samkvæmt bréfinu sem fylgdi álfapottinum er hann var gefinn safninu árið 1882 ætti Pálmi sá sem pottinn fann að hafa búið í Minna-Garði á árunum 1802-1812. Þar mun þó vafalaust átt við Pálma Guðmundsson sem hóf búskap í Minna-Garði árið 1786 og bjó þar næstu átta árin en var árið 1801 kominn að Ósi í Bolungavík.[51] Kona Pálma hét Ólöf Hannesdóttir og bæði voru þau fædd um 1750.[52] Í sóknarmannatali frá árinu 1793 er Pálmi, bóndi í Minna-Garði, sagður vera forstandsmaður og ekki óskír.[53] Ólöfu konu hans gefur prestur þá einkunn þetta sama ár að hún sé með greindara fólki en Þórdís, sem virðist hafa verið eina barn þeirra og var 16 ára hjá foreldrum árið 1793, er sögð mannvænleg og hlýðin.[54]

Árið 1801 bjuggu Pálmi og Ólöf á Ósi í Bolungavík, eins og hér var áður nefnt,[55] en síðar áttu þau heima á Gili í sömu sveit og þar andaðist Pálmi 22. júlí 1816.[56] Er allsherjarmanntal var tekið í desember 1816 bjó ekkja Pálma, Ólöf Hannesdóttir, á Gili í Bolungavík og þar var þá hjá henni 18 ára fóstursonur, Pálmi Ásmundsson að nafni.[57] Árið 1845 var Pálmi Ásmundsson kvæntur bóndi á Ósi í Bolungavík og þar var þá líka sonur hans, Pálmi Pálmason, 10 ára gamall.[58] Kemur þá allt heim við söguna sem pottinum fylgdi og hér var áður rakin. Þess skal að lokum getið að Þórdís Pálmadóttir, sem bjó 39 ára gömul á Ósi í Bolungavík í desember 1816 og var eiginkona Hallgríms Lárentíussonar bónda þar, er vafalítið dóttir Pálma sem pottinn fann og Ólafar konu hans, því aldurinn passar nákvæmlega við bóndadótturina með þessu nafni sem átti heima í Minna-Garði á árunum 1786-1794 og fyrr var nefnd. Ætla má að hún hafi flust með foreldrum sínum til Bolungavíkur árið 1794 og 2. ágúst 1795 voru þau Hallgrímur gefin saman í hjónaband.[59] Sú staðreynd að engin Þórdís Pálmadóttir var til í Bolungavík árið 1793,[60] árinu áður en Pálmi Guðmundsson og hans fjölskylda yfirgáfu Dýrafjörð, styrkir enn þá skoðun að það hafi verið Þórdís frá Minna-Garði sem gekk að eiga Hallgrím Lárentíusson í Bolungavík árið 1795.

Frá Þórdísi Pálmadóttur og Hallgrími eru komnar ættir og má úr niðjahópi þeirra nefna Pálma Lárentíusson sem var sonarsonur þessara hjóna og bjó alllengi í Keflavík norðan Súgandafjarðar en þar mun hann hafa talið sig komast í kast við álfa eins og hér er frá sagt á öðrum stað (sjá hér Keflavík).

Tæpum aldarþriðjungi eftir brottför Pálma Guðmundssonar og Ólafar konu hans frá Minna-Garði eða nánar tiltekið vorið 1826 settist hér að prestur sem áður hefur verið frá sagt á þessum blöðum (sjá hér Sandar), séra Daði Jónsson.[61] Hann var þá aðstoðarprestur séra Jóns Sigurðssonar sem átti heima í Meira-Garði og mun séra Daði vera eini presturinn sem búið hefur í Minna-Garði. Hann var fæddur árið 1780, sonur séra Jóns Ormssonar í Sauðlauksdal og konu hans Ragnheiðar Eggertsdóttur. Sumarið 1815 tók hann prestvígslu og gerðist aðstoðarprestur föður síns en var tveimur árum síðar sviptur hempunni fyrir barneign fram hjá konu sinni (sjá hér Álftamýri og Sandar). Það mál varð honum erfitt og réttindi til prestsstarfa fékk hann ekki á ný fyrr en sjö árum síðar. Á þeim árum bjó hann á Geirseyri við Patreksfjörð en kona hans, Sigríður Þóroddsdóttir, hafði áður verið gift Jóni Thorberg, verslunarstjóra á Vatneyri.[62] Hún var dóttir Þórodds Þóroddssonar, beykis á Vatneyri, og því föðursystir Jóns Thoroddsen, skálds og sýslumanns.[63]

Þau séra Daði og Sigríður kona hans fluttust frá Geirseyri að Minna-Garði vorið 1826. Hann var þá hálffimmtugur að aldri en hún tæplega sextug. Hinn nýi aðstoðarprestur, séra Daði, sem nú var að reyna sig í annað sinn í prestsembætti, var því ekkert unglamb lengur en prestur hafði hann þó aðeins verið í tvö ár áður en hann kom í Dýrafjörð og reyndar bara aðstoðarprestur þá eins og nú. Í Minna-Garði bjuggu séra Daði og Sigríður kona hans líka í tvö ár, því vorið 1829 tóku þau sig upp og fluttust yfir fjörðinn að Söndum en þá hafði séra Daða fyrir stuttu verið veitt Sandaprestakall (sjá hér Sandar).

Við innra og neðra hornið á bæjartóttinni í Minna-Garði stóð enn gamall hestasteinn sumarið 1993 og hafði nýlega verið reistur við. Á honum er lítið gat fyrir beislistauminn og í steininn er höggvið ártalið 1865 eða máske 1866. Ártalið bendir til þess að steinninn hafi verið settur þarna á búskaparárum Gísla Jónssonar sem bjó í Minna-Garði frá því rétt fyrir 1860 og fram yfir 1870[64] en hann var um skeið hreppstjóri í Mýrahreppi.[65] Frá Gísla þessum Jónssyni og Maren konu hans, dóttur Odds Gíslasonar sem lengi bjó í Meira-Garði, hefur þegar verið sagt lítið eitt framar á þessum blöðum og skal til þess vísað (sjá hér Meiri-Garður). Gísli var fermdur vorið 1836 og átti þá heima í Meira-Garði.[66] Er prestur skráir nafn hans í fermingardálkinn lætur hann þess getið að piltur þessi sé sæmilega kunnandi og bætir því við að hann sé glaðsinna.[67] Ekki er ólíklegt að Gísli hafi alla tíð verið gleðimaður og mikið var sungið í brúðkaupi hans og Marenar haustið 1853 (sjá hér Meiri-Garður).

Þau Gísli og Maren fluttust frá Minna-Garði vorið 1871 að Svalvogum í Þingeyrarhreppi (sjá hér Svalvogar) og bjuggu þar í allmörg ár en hættu búskap upp úr 1880. Á sínum efri árum voru hjón þessi lengi heimilisfólk hjá Oddi syni sínum og fluttust með honum frá Ketilseyri í Dýrafirði að Sæbóli á Ingjaldssandi árið 1889.[68]

Jón Oddsson skipstjóri frá Sæbóli, fæddur 1887, var sonarsonur Gísla og Marenar. Í ævisögu Jóns, sem Guðmundur G. Hagalín rithöfundur skráði, er að finna ýmsar frásagnir af Gísla[69] sem að líkindum eru flestar komnar frá Jóni Oddssyni en hann mundi vel eftir þessum afa sínum frá uppvaxtarárum á Sæbóli. Í ævisögu Jóns Oddssonar er Gísla afa hans lýst með þessum orðum:

 

Gisli var mikill maður vexti. Hann var með hæstu mönnum á þeirri tíð og afbrigða þrekinn, enda var hann rammur að afli. Hann var og kvikur í hreyfingum og snerpan fágæt. Andlitsfríður var hann en andlitið þó karlmannlegt og svipurinn skörulegur og gáfulegur, ennið hátt og hvelft, augun björt, einkennilega blikmikil og skiptu mjög um blæ eftir því hvað honum bjó í skapi.

Hann var ör í lund en hafði þó gott vald á geði sínu, hafði yndi af skrafi og gleðskap og var jafnan sættir manna ef upp á slettist með kunningjum hans þegar öl var á könnu. Hann var mikill bókamaður og gat gleymt sér yfir bókum, las ekki síður fræðibækur en sögur, kvæði og rímur. Hann hafði lært danska tungu og las þær danskar bækur sem hann á náði. Þegar hann hafði lesið bók, sem honum þótti mikils um vert, lifði hann mjög í hennar heimi, sagði frá efni hennar og bollalagði út af því. Ef bókin var skáldsaga hermdi hann samtöl sögufólksins með breytilegum rómi og breyttum svip og hreyfingum. Þegar hann las kvæði sem hrifu hann lærði hann þau, reyndi að finna við þau lög og söng þau síðan við raust, enda var hann mikill raddmaður …

Hann var ekki drykkfelldur en honum þótti gott að vera hreifur af víni og þegar hann var orðinn hýr var hann manna glaðastur, sagði sögur eða söng við raust. Þegar hann fór að finna á sér söng hann æfinlega þessa vísu:

                 

Þar sá ég heyja hildarþrá

                  hamremmi tryllta Íslendinga,

                  bláklæddir stóðu í brynjum hringa

                  Gunnar og sterki Grettir þá.[70]

 

Þessa ágætu vísu má enn kveða við hestasteininn í Minna-Garði þar sem Gísli glaði kvaddi gesti sína forðum.

Bóndi þessi sem áður bjó í Minna-Garði varð gamall maður og komst á níræðisaldur. Áttræður sá hann mótorbát í fyrsta skipti vorið 1904 og þótti mikið til koma.[71] Gísli var þá að róa frá Sæbóli á Ingjaldssandi á fjögra manna fari með tveimur sonarsonum sínum sem báðir voru innan við tvítugt.[72] Annar þeirra sagði síðar frá þessu atviki en Guðmundur G. Hagalín rithöfundur færði frásögnina í þennan búning:

 

Síðla nætur voru þeir að róa á mið undir Barða, þremenningarnir, öldungurinn Gísli Jónsson, þá áttræður, og sonarsynir hans Jón og Gísli (Oddssynir). Það var vestan kul og Sæbjörginni miðaði ekki ört þó að róið væri með fallinu.

Allt í einu sáu þeir bræður hvar opinn bátur kom öslandi fyrir Purkuskerin án þess að séð yrði að honum væri róið. Og brátt heyrðu þeir háa og hvella skelli. … Gamli maðurinn sá ekki hinn öslandi farkost en áður en langt leið heyrði hann skellina, leit upp, skimaði og spurði síðan:

„Hvaða ógnar skellir eru þetta, drengir mínir? Það er eins og Barðavætturin sé búin að koma sér upp smiðju.”

„Hann er víst að koma hérna vestur með, hann Ásgeir Torfason á mótorbátnum sínum”, svaraði annar bræðranna.

Gamli maðurinn lagði upp árarnar og setti hönd fyrir augu og nú sá hann bátinn sem nálgaðist óðum. – „Sko, sko, – þykir ykkur freyða á honum! Þetta er eins og illhveli sem veður ofansjávar”, sagði hann og skók hærukollinn.[73]

 

Þegar Ásgeir Torfason tók svo kænu Sæbólsmanna í tog þarna undir Barðanum starði gamli maðurinn furðulostinn á veraldarundrið því báðir bátarnir skriðu nú liðugt á fullri ferð án þess að árum væri dýft í sjó.[74] Hann minntist þá sinna fyrri daga er hann stýrði þilskipi til veiða fyrir hálfri öld og sagði: Skyldi honum Gísla Jónssyni hafa líkað það að hafa svona vélarkorn í Þorskinum þegar hann lónaði á honum sneisafullum austur í Húnabugt og komst ekki vestur til að losa fyrir dauðalogninu.[75]

Til skýringar skal þess getið að skútan sem Oddur Gíslason i Meira-Garði, tengdafaðir Gísla Jónssonar, eignaðist að hálfu árið 1846 hét Þorskur og á henni mun Gísli hafa verið skipstjóri á árunum upp úr 1850 (sjá hér Meiri-Garður).

Úr hópi bænda sem búið hafa í Minna-Garði nefnum við síðast Guðmund Einarsson refaskyttu sem hér bjó á árunum 1903-1909.[76] Á búskaparárum sínum í Minna-Garði stundaði Guðmundur jafnan hrognkelsaveiðar á vorin á lítilli bátkænu sinni er hann nefndi Kringlu.[77] Oftast gengu veiðar þessar vel og stundum lagði hann líka haukalóð fram af Mýramel og fékk á hana lúðu.[78] Frá hrognkelsaveiðum sínum þegar hann bjó í Minna-Garði sagði Guðmundur síðar þessa sögu:

 

Eitt vorið lagði ég óvanalega snemma. Þá var víst farið að sneiðast um björg. Ég var ánægður ef ég fékk í soðið fyrir mig og mína. Í því trausti lagði ég netin. Það brást heldur ekki. Í fyrstu umvitjun þetta vor fékk ég 60 stykki. Á heimleiðinni kom ég við hjá ekkju sem bjó í tómthúskofa með tvö börn. Ég var að vita hvort hún ætti eitthvað til að borða. Hún sagði mér að hún hefði lokið við síðustu máltíðina í morgun. Kom mér þá í hug minn fyrri sultur og fékk henni 50 stykki. Ég þóttist vita að þau hefðu lengi haft lítið að borða. Og aldrei hef ég heyrt um dagana meiri eða betri fyrirbænir en þær sem hún mælti yfir mér að skilnaði.

Og svo brá við að ég kom með hlaðinn bát að landi í hvert sinn sem ég fór til neta það vorið. Ég sá líka um að ekkjan hefði nóg í soðið þann tímann.[79]

 

Frá Guðmundi Einarssyni refaskyttu, sem lengst bjó á Brekku á Ingjaldssandi, segjum við nánar þegar þangað kemur (sjá hér Brekka).

Rétt utan við bæjarstæðið  í Minna-Garði rennur bæjarlækurinn en skammt utan við túnið var kvíabólið á dálítilli flöt sem þar er.[80] Út og upp í hlíðinni fyrir utan túnið blasir við Stekkjargil og niður af því er Stekkjarskriða.[81] Utan við skriðuna er Stekkjarhvolf og þar kúrir enn rústin af gamla stekknum sem notaður var fram yfir síðustu aldamót [1900] þegar lömbunum var stíað frá mæðrum þeirra.[82] Á ytri barmi Stekkjargils sjáum við Grástein en hlíðin utan við gilið heitir Garðshlíð og nær út að landamerkjum þar sem Núpsdalurinn tekur við.[83] Ofarlega í henni er Sultarteigur og ofan til við hann mosató og lítið uppsprettuauga sem heitir Grænadý.[84] Mýrin sem hér var út og niður af bænum hét Hrossamýri og á leitinu fyrir neðan hana, sitt hvoru megin gömlu götunnar, voru tvær dysjar eða þúfur sem kallaðar voru Smalaþúfur.[85] Þær eru nú komnar undir veg. Sagt var að þar væru dysjaðir tveir smalar, annar frá Minna-Garði en hinn frá Felli. Hafði þeim orðið sundurorða út af landamerkjum og lent í áflogum sem enduðu með því að þeir drápu hvor annan.[86] Þeir voru síðan heygðir sitt hvoru megin við landamerkin[87] sem enn liggja hér þar sem nú er þjóðvegur. Héðan frá merkjunum er fljótlegt að rölta heim að Felli.

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

 

[1] Örn.skrá.

[2] Jarðabók Á. og P. VII, 70-71.

[3] Sama heimild.

[4] Jóh. Dav. 1968, 50 (Ársrit S.Í.).

[5] Sama heimild.

[6] Jarðabók Á. og P. VII, 70-71.

[7] D.I. XIII, 152.

[8] Ól. Lár. 1948, 26 (Árbók Barð.).

[9] D.I. XIII, 152.

[10] Manntal 1703.

[11] Sigurjón Einarsson 1960, 99-101 (Skírnir); Ól.Þ.Kr. 1980, 109-114 (Ársrit S.Í.).

[12] Skj.s. sýslum og sv.stj. Ís. IV, 2. Dóma- og þingbók Markúsar Bergssonar 1720-1729, réttarhald á Mýrum 17. og 18.6.1727.

[13] Sama heimild.

[14] Alþ.bækur Íslands VII, 84-85 og VIII, 250.

[15] Sama heimild VII, 84-85.

[16] Sama heimild.

[17] Sama heimild.

[18] Sama heimild.

[19] Alþ.bækur Íslands VII, 84-85.

[20] Sama heimild.

[21] Alþ.bækur Íslands VII, 84-85 og VIII, 250.

[22] Sama heimild VIII, 250.

[23] Rtk.2.1. Stríðshjálpin 1681, Jarðaskrá og búenda í Skálholtsbiskupsdæmi.

[24] Alþ.bækur Íslands VIII, 250.

[25] Rtk.2.1. Stríðshjálpin 1681, Jarðaskrá og búenda í Skálholtsbiskupsdæmi.

[26] Manntal 1703; Jarðabók Á. og P. VII, 82.

[27] Manntal 1703.

[28] Jarðabók Á. og P. VII, 82.

[29] Páll E. Ólason 1942, 404 (Saga Ísl. V).

[30] Alþ.bækur Íslands IX, 113.

[31] Sama heimild.

[32] Alþ.bækur Íslands IX, 113.

[33] Sama heimild.

[34] Sama heimild.

[35] Sama heimild.

[36] Manntal 1703.

[37] Alþ.bækur Íslands IX, 146.

[38] Jarðabók Á. og P. VII, 70-71.

[39] Jarðabók Á. og P. VII, 70-71.

[40] Jarðabók A. og P. VII, 82.

[41] Sama heimild, 82-83.

[42] Sama heimild, 86.

[43] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 2. Dóma- og þingbók Markúsar Bergssonar 1720-1729, réttarhald á Mýrum 17.-18.6.1727.

[44] Sama heimild.

[45] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 2. Dóma- og þingbók Markúsar Bergssonar 1720-1729, réttarhald á Mýrum 17.-18.6.1727.

[46] G.G.Hag. 1951, 7.

[47] Kristján Eldjárn 1962, 19.

[48] Sama heimild.

[49] Sama heimild.

[50] Sama heimild.

[51] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga 1785-1806; Manntal 1801.

[52] Sömu heimildir.

[53] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[54] Sama heimild.

[55] Manntal 1801.

[56] Prestsþj.bækur Eyrarpr.kalls í Skutulsfirði og Hóls í Bolungavík.

[57] Manntal 1816.

[58] Manntal 1845.

[59] Prestsþj.bækur Eyrar í Skutulsfirði og Hóls í Bolungavík.

[60] Sóknarm.tal Hólssóknar í Bolungavík frá árinu 1793.

[61] Ísl. æviskrár I, 302.

[62] Sama heimild; Manntöl 1801 og 1816.

[63] Sömu heimildir; Sóknarm.töl Sauðlauksdalsprestakalls 1780-1790; Jón Guðnason 1968, 9.

[64] Manntöl 1855, 1860, 1870 og 1880.

[65] Manntal 1870.

[66] Prestsþj.bækur Dýrafj.þinga.

[67] Sama heimild.

[68] G.G.Hag. 1960, 12-13, 15-16 og 27.

[69] Sama heimild, 12-22.

[70] G.G.Hag. 1960, 14-15.

[71] Sama heimild, 89.

[72] Sama heimild.

[73] G.G.Hag. 1960, 89.

[74] Sama heimild.

[75] G.G.Hag. 1960, 12-22.

[76] Theodór Gunnlaugsson 1960, 86-97 og 112-118.

[77] Sama heimild.

[78] Sama heimild.

[79] Theodór Gunnlaugsson 1960, 97.

[80] Örn.skrá.

[81] Sama heimild.

[82] Sama heimild.

[83] Örn.skrá.

[84] Sama heimild.

[85] Sama heimild og Vestf. sagnir II, 381.

[86] Vestf. sagnir II, 381.

[87] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »