Svefneyjar

Svefneyjar liggja að heita má beint í austur frá Flatey og er sundið á milli um tvær sjómílur á breidd. Er það ýmist nefnt Flateyjarsund eða Svefneyjasund. Norð-norðaustur af Svefneyjum eru fyrst Hvallátur og síðan Skáleyjar en allar hafa eyjar þessar verið í byggð allt til þessa (1988), þó að sum síðustu árin hafi aðeins verið um sumardvöl að ræða. Um stórstraumsfjöru má ganga milli allra þessara eyja Svefneyja, Hvallátra og Skáleyja.[1] Vegalengdin milli bæja í Svefneyjum og Skáleyjum er milli ellefu og tólf kílómetrar, sé miðað við loftlínu, og endist því fjaran naumlega til að komast þarna á milli. Sundið milli Svefneyja og Látralanda, sem öll liggja undir Hvallátur, heitir Breiðasund. Austur þaðan eru Sviðnur sem fóru í eyði árið 1956 (sjá hér Sviðnur). Vegalengdin frá Svefneyjum í Sviðnur er um fimm sjómílur.

Sameiginlega eru Svefneyjar, Hvallátur, Skáleyjar og Sviðnur stundum nefndar Inneyjar og með sama hætti kallast þá Flatey, Hergilsey og Bjarneyjar einu nafni Úteyjar.

Svefneyja er getið í Landnámu en þar segir að Hallsteinn goði hafi sent hingað þræla sína til saltgerðar (sbr. hér Sviðnur). Enn heitir Þrælalág í túninu í Svefneyjum þar sem Hallsteinn kom að þrælunum sofandi er þeir áttu að vaka og vinna að saltgerðinni.[2]

Menjar fornrar akuryrkju mátti lengi sjá sunnantil á Bæjareynni í Svefneyjum og heita þar Akrar.[3] Sigurður Vigfússon lýsir ummerkjum þar í Árbók Hins Íslenska fornleifafélags árið 1893 og segir akurlendið hafa verið 50 faðma á lengd en 25 á breidd, umgirt og sundurskipt með smærri girðingum.[4] Í Lýsingu Íslands lætur Þorvaldur Thoroddsen þess einnig getið að í Svefneyjum megi enn sjá leifar skjólgarða um forn akurlönd.[5]

Bæjareyjan í Svefneyjum er önnur stærsta eyja í Vestureyjum, næst á eftir Flatey. Í ýmsum eldri ritum er hún nefnd Svefney[6] en það nafn mun lítt hafa verið notað á síðari tímum. Alls eru graseyjar í Svefneyjum liðlega fimmtíu. Fornt mat á jörðinni var 40 hundruð[7] en í Nýrri jarðabók frá árinu 1861 eru Svefneyjar metnar á 105 hundruð og var það einkum dúnninn sem þá hækkaði matið svo mjög.[8]

Frá Svefneyjum á Breiðafirði kom Eggert Ólafsson, skáld, náttúrufræðingur og varalögmaður, en um nafn hans hefur löngum leikið skær ljómi í hugum Íslendinga. Veldur því margt, skáldskapur Eggerts sjálfs, rannsóknir hans á náttúru landsins og þjóðlífi Íslendinga, kvæðin sem Jónas Hallgrímsson, Matthías Jochumsson og fleiri ortu um Eggert og síðast en ekki síst stórbrotinn dauðdagi – að sökkva í brúðarörmum niður í bráðan Breiðafjörð.

Eggert fæddist í Svefneyjum 1. desember 1726 og ólst þar upp en drukknaði nýkvæntur á Breiðafirði 30. maí 1768, ásamt konu sinni og skipshöfn, í búferlaflutningum frá Sauðlauksdal að Hofstöðum í Miklaholtshreppi. Hann lagði stund á náttúruvísindi við Kaupmannahafnarháskóla og ferðaðist ásamt Bjarna Pálssyni á árunum 1750-1757 um nær allt Ísland við rannsóknir á náttúru landsins og þjóðlífi. Sættu rannsóknarferðir þeirra félaga miklum tíðindum, enda fyrsti leiðangur af slíku tagi sem hér hefur verið farinn. Ferðabók Eggerts og Bjarna kom fyrst út í Sórey fjórum árum eftir dauða Eggerts, mikið og merkilegt rit, sem Eggert hafði að mestu samið einn. Var hún brátt þýdd á ensku, þýsku og frönsku og bar þessi landkynning Eggerts lengi vel af öllu öðru sem um Ísland hafði verið skrifað á erlendum málum.

Eggert Ólafsson var í fremstu röð íslenskra endurreisnarmanna á 18. öld og lét sér ekki síst annt um framfarir í landbúnaði og öllum atvinnuháttum. Löngum var hugur hans bundinn við náttúruna og líf íslensks sveitafólks. Það sýna best kvæðin sem hann orti. Með fræðslu og upplýsingu vildi Eggert hefja íslenska bændastétt úr deyfð og doða og gera sóma hennar sem mestan. Á þeim árum sem Eggert ferðaðist um landið varð hér veruleg mannfækkun af völdum hallæris og telur Hannes biskup Finnsson að á árunum 1752-1759 hafi fallið úr harðrétti nær tíu þúsund manns[9] eða um fimmtungur þjóðarinnar. Trú Eggerts á landið var samt óbilandi. Hann vildi kveða í þjóðina kjark og dug til að nýta betur margvíslega landkosti. Sú íslenska matarsæla og Sælgætið í þessu landi eru nöfn á kvæðum hans og í kvæðinu Íslandssæla syngur Eggert búsældinni og trúnni á heimahaga lof:

 

Sæt og fögur grösin gróa,

gleðja kindur, naut og jóa,

engjar, tún og auðnir glóa

eftir boði skaparans

út um sveitir Ísalands;

að stekkjarfénu stúlkur hóa

og stökkva’ úr því við kvína;

enga langar út um heim að blína.[10]

 

Vorhugur Eggerts hefur mörgum bjargað frá þungum þönkum:

 

Hvort á nú heldur að halda

í hamarinn svartan inn,

ellegar út betur – til þín,

Eggert, kunningi minn?

 

Svo orti Jónas Hallgrímsson og tengir kvæðið reið sinni fyrir Ólafsvíkurenni þar sem Breiðafjörður blasir við, bjartur og fagur. Í Hulduljóðum Jónasar er Eggert orðinn tengiliður mannheims við huldar vættir Íslands og þjóðardýrlingur:

 

Sólfagra mey! hann svipast um með tárum,

saltdrifin hetja, stigin upp af bárum.

 

Mágur Eggerts, séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal, lýsti honum svo:

 

Eggert var með hærri mönnum að vexti, heldur grannvaxinn að því skapi, herðamikill, ekki mjög hár í sessi. Hendur hans og armleggir voru miklir í liðum og sterklegir, hann var réttvaxinn og fljótstígur í hvers dags framgangi; í andliti var hann ljósleitur og grannleitur, hafði í æsku bjart hár, sem þá var orðið svart, brúnahár hafði hann dökkleit, en skegghár hvít, sem hærur verða fegurstar, ennið var mikið; ofan til við gagnaugað vinstra var hann fæddur með ljósgula díla, sem nokkrir menn kalla valbrá. Hann var fagureygður og nokkuð fasteygður, nefið var í meira lagi, liður á í miðju og nokkuð niðurbjúgt, kjálkabörðin hvöss, hakan stutt og aðdregin, allt var þó andlitið eftir vexti og jafnt við sig. Hann var hyggilegur maður í tilliti, alvarlegur og þó ljúfmannlegur; hann var gildur karlmaður til burða, manna léttastur, og svo frækinn hvað sem reyna skyldi að fæstir jöfnuðust við hann, brattgengur var hann í fjöll og kletta, þurfti hann oft til þess að taka á sinni observationsreisu. Hann fór hraðara á öndrum [þ.e. skíðum (eða þrúgum) – innskot K.Ó] en nokkur maður mætti fylgja honum á hlaupi.[11]

 

Foreldrar Eggerts, bóndinn Ólafur Gunnlaugsson og Ragnhildur Sigurðardóttir, kona hans, bjuggu lengi við farsæld í Svefneyjum. Ólafi Gunnlaugssyni lýsir Daði fróði svo að hann hafi verið gildur bóndi, settur í ráði og skörulegur álitum, hagur í verkum, vitsmunamaður besti og skáld gott.[12] Talið er að Ólafur hafi ort kvæðið Straumaskrá, eins konar leiðarvísi fyrir byrjendur í siglingafræðum, 65 erindi. Kvæðið byrjar svo: Í hug mér fló að herma börnum, helst ófróðum, hvornig straumar hafs á síðum, haga sér eftir mánatíðum.[13]

Í Svefneyjum bjuggu löngum gildir bændur en embættismenn sátu þar yfirleitt ekki. Þó finnst dæmi um einn prest sem bjó í Svefneyjum. Var það Andrés Gíslason, er haustið 1797 varð aðstoðarprestur séra Þorkels Guðnasonar á Skálmarnesmúla. Séra Andrés andaðist úr holdsveiki 18. mars 1799.[14]

Á 19. öld ríktu lengi í Svefneyjum Eyjólfur Einarsson dannebrogsmaður, sem af mörgum hefur verið nefndur eyjajarl, og Hafliði sonur hans. Þeir Eyjólfur og Hafliði voru búhöldar og sjóvíkingar svo af bar. Í a.m.k. fjörutíu vertíðir var Eyjólfur formaður í Dritvík undir Jökli og farnaðist vel en þangað var um langan veg að sækja úr Svefneyjum á áraskipum sextíu sjómílna leið.[15] Gísli Konráðsson segir að Eyjólfur hafi fyrstur Vestureyinga hafið róðra úr Dritvík en aðrir hafa véfengt þetta.[16] Hitt mun síður umdeilt að Hafliði, sonur Eyjólfs, hafi verið einn síðasti Dritvíkurformaður úr Vestureyjum.[17]

Eyjólfur eyjajarl var ekki lamb að leika sér við og gerði strangar kröfur um hlýðni til þeirra sem undir hann voru settir. Um Eyjólf hefur verið haft á orði að hann hafi verið fæddur forráðamaður[18] og líklega hefur hann treyst sjálfum sér betur en flestum öðrum bæði á sjó og landi. Ég vildi að allir Íslendingar kynnu að skipa eins og Eyjólfur í Svefneyjum því að þá kynnu þeir betur að hlýða, sagði gamli Gram sem lengi stundaði lausakaupmennsku í Flatey.[19]

Eyjólfur var þó ekki aðeins hreppstjóri, stórbóndi og sjóhetja. Hann átti einnig til félagsleg viðhorf og studdi dyggilega menningar- og framfaraviðleitni höfðingjanna í Flatey. Eyjólfur var um skeið félagsmaður í Bréflega félaginu og lagði þá fram nokkrar frumsamdar ritgerðir, m.a. ritgerð um vörumeðferð.[20] Í einni þessara ritgerða veittist hann mjög að þilskipaútgerðinni, sem hann taldi draga vinnulýðinn frá bændum og vera uppsprettu ómenningar og hvers kyns lausungar. Sjálfur hafði hann þó alllöngu fyrr fest kaup á þilskipi í félagi við Ólaf prófast Sívertsen en sú útgerð mun ekki hafa lánast.[21]

Oft átti eyjajarlinn í deilum við aðra stórhöfðingja og lá t.d. eitt sinn við meiriháttar bardaga í Bjarneyjum þar sem þeir fylktu liði hvor gegn öðrum, Eyjólfur og séra Eggert Jónsson á Ballará, vegna deilu um hval.[22]

Ekki báru þeir ætíð gæfu til samþykkis Jón Thoroddsen, skáld og sýslumaður Barðstrendinga, og Eyjólfur hreppstjóri hans í Svefneyjum. Höfðaði Jón m.a. mál á hendur Eyjólfi vegna atvika er tengdust sjálfsmorði heimamanns í Svefneyjum. Í því málavafstri gaf sýslumaður eitt sinn fyrirmæli um að handtaka Eyjólf þar sem hann var staddur í Flatey en enginn dirfðist að leggja hendur á hreppstjórann í Svefneyjum. Eyjólfur lét þá, að sögn, sækja bækur hreppsins, fleygði þeim fyrir fætur sýslumanns og kvaðst ekki þjóna honum lengur.[23]

Fyrstu alþingiskosningarnar í Barðastrandarsýslu fóru fram 7. júní 1844 og var Eyjólfur í Svefneyjum kjörinn þingmaður Barðstrendinga með 19 atkvæðum en séra Ólafur Sívertsen í Flatey fékk 12 atkvæði.[24] Nokkru fyrir kosningar þessar hafði séra Ólafur ritað Bjarna amtmanni Thorsteinssyni á Stapa á þessa leið: Ekki mun völ á mörgum alþingisfulltrúum hér í sýslu, sem geti tekið fram hreppstjóra Eyjólfi, þótt hann ekki sé „litterair” maður  – þegar alls er gætt.[25]

Eyjajarlinn var liðlega sextugur að aldri er hann settist fyrst á þing. Hann var fulltrúi Barðstrendinga á þremur fyrstu þingunum, 1845, 1847 og 1849. Á Alþingi lét Eyjólfur nokkuð til sín taka í ýmsum málum en þótti þó ekki slíkur skörungur þar sem á heimavelli.

Eyjólfur Einarsson eyjajarl andaðist árið 1865, liðlega áttræður að aldri. Hafliði sonur hans var þá 44 ára og tók nú að fullu við ríki í Svefneyjum. Öllum heimildum ber saman um að Hafliði hafi verið mildari gerðar og langtum geðstilltari en faðir hans. Naut hann hylli alþýðu alla sína daga. Þó var Hafliði engu minni sjóhetja en gamli jarlinn og gerðist ungur frægur hákarlaformaður. Á vertíð reri hann ýmist frá Dritvík undir Jökli eða Brunnum vestan Látrabjargs.

Teinæringurinn Fönix í Svefneyjum var stærsta opna hákarlaskipið við Breiðafjörð og þótti mikil happafleyta.[26] Þessu skipi stýrði Hafliði lengi og farnaðist vel. Allir þóttu þeir snilldarmenn við skipstjórn og veiðar á þeim gráa, Hafliði á Fönix, Bárar-Ólafur í Flatey á Gusti og Jóhannes Magnússon í Bjarneyjum á Sæmundi. Til hákarlaveiða sóttu Vestureyingar um hávetur út í Kolluál og lágu þar oft við í fjóra sólarhringa á opnum róðrarskipum.[27] Mesti hákarlsafli sem Hafliði fleytti á land á Fönix úr einni legu var 41 og af þeim voru 22 á seilum.[28]

Svefneyja-Fönix var einnig notaður til fiskaferða, sem kallað var, – á honum var vertíðaraflinn sóttur í Dritvík og vestur á Brunná og fluttur heim í Svefneyjar.[29] Oft sóttist róðurinn þá seint með skipið hlaðið og þungt undir árum. Til eru þeir menn sem enn (1988) muna Fönix þar sem hann hvíldi á fyrsta áratug tuttugustu aldar undir Svarta-pakkhúsinu í Flatey. Hann mátti þá muna sinn fífil fegri, göt voru komin á byrðinginn og margvísleg ellimörk áberandi. Konur þurrkuðu undir honum föt og strákar höfðu hann að leikvangi, segir Bergsveinn Skúlason.[30] Þannig leikur ellin hin fríðustu skip.

Árið 1888 birtist í blaðinu Ísafold grein eftir Hafliða í Svefneyjum um formennsku og stjórn á opnum bátum í veiðistöðvum eða lengri sjóferðum. Hefur grein þessi verið endurprentuð síðar, m.a. í Barðstrendingabók árið 1942. Hafliði byrjar grein sína á þessa leið:

 

Enginn ætti að taka að sér að vera formaður á opnum bátum í veiðistöðvum eða lengri sjóferðum nema hann sé orðinn nokkurn veginn reyndur að því að vera huggóður, laginn stjórnari og um fram allt aðgætinn, veðurglöggur og ráðagóður, þegar slæmt veður ber að höndum á sjó.[31]

 

Öll er grein Hafliða hin skilmerkilegasta og á einum stað segir hann:

 

Háskalegast og jafnvel voðalegast er, ef hásetar sjá að formaðurinn missir hug og kjark, því að þá getur skipshöfninni verið hinn mesti háski búinn, auk þess sem enginn háseti getur borið fullt traust og virðingu fyrir slíkum formanni.

 

Kjarkur og hugur var það sem síst mátti bresta.

Hafliði í Svefneyjum hafði forystu í margvíslegum félagsmálum Vestureyinga. Hann var 28 ára gamall þegar fyrsti Kollabúðafundurinn var haldinn árið 1849 og það sama sumar sótti hann Þingvallafund við Öxará, sá eini úr Breiðafjarðareyjum.[32]

Hafliði var jafnan mikill áhugamaður um sjávarútvegsmál og bætta verslun. Árið 1865 tók hann sér ferð á hendur og sótti sjávarútvegssýningu, er þá var haldin í Björgvin í Noregi. Á heimleiðinni frá Noregi gekk bóndinn í Svefneyjum fyrir Kristján IX Danakonung í fylgd Jóns Sigurðssonar forseta.[33]

Um þetta leyti vaknaði hjá Hafliða mikill áhugi fyrir því að koma á fót verslunarsamtökum er tækju upp bein viðskipti við Noreg. Örfáum árum síðar spruttu hér upp fyrstu innlendu verslunarsamtökin er hófu útflutning á innlendum framleiðsluvörum og vörukaup erlendis. Samtök um félagsverslun við Húnaflóa voru mynduð haustið 1869 og oft nefnd Borðeyrarfélagið. Bækistöð þess var á Borðeyri við Hrútafjörð en félagssvæðið var stórt og teygðist brátt vestur að Breiðafirði.[34] Sumarið 1870 var Gránufélagið stofnað norður í Eyjafirði og vorið 1871 komu skip hlaðin vörum á vegum þessara félaga beggja erlendis frá í fyrsta sinn.[35] Gránufélagið hafði keypt vörurnar í Kaupmannahöfn en Borðeyrarfélagið fékk sínar vörur í Björgvin í Noregi hjá fyrirtæki sem nefndi sig Det islandske Handelssamlag.[36]

Þetta sama sumar, 1871, gekkst Hafliði í Svefneyjum fyrir því að bændur í Breiðafjarðareyjum sendu þilskipið Jóhannes frá Flatey beint til Björgvin með útflutningsvörur eyjamanna. Kom skipið aftur um haustið úr þeirri för hlaðið erlendum vörum og höfðu bæði ferðin og viðskiptin gengið prýðilega.[37] Skútuna Jóhannes, sem fór þessa frægðarför, átti Hafliði sjálfur ásamt nokkrum öðrum Vestueyingum.[38] Skipstjóri í ferðinni var Eggert Magnússon, þá bóndi á Fossá á Hjarðarnesi, en stýrimaður Torfi Markússon, tengdasonur Hafliða.[39] Þessi sigling og vöruflutningur eyjamanna fram og til baka yfir Atlantshafið á eigin skipi með alinnlendri áhöfn sætti miklum tíðindum. Íslendingar áttu þá engin kaupskip nema hvað Gránufélagið hafði litlu fyrr eignast gömlu Gránu, sem svo var nefnd, og notuð var í millalandasiglingum, – en þar var skipstjórinn danskur.[40]

Öldum saman höfðu Íslendingar orðið að treysta á aðra um alla vöruflutninga að og frá landinu og var það máske skýrasta merkið um ósjálfstæði þjóðarinnar. Fyrstu dæmin frá síðari tímum um að íslenskir menn stýri skipi yfir Atlantshafið eru frá fyrri hluta 19. aldar[41] en allar innfluttar vörur voru þá enn fengnar í Danmörku. Árið 1855 fengu Íslendingar heimild til verslunar við þegna annarra ríkja en Danaveldis. Samt er efamál hvort nokkurt skip með alíslenskri áhöfn og í eigu innlendra manna hafi lagt upp í verslunarferð hlaðið varningi til Noregs eða annarra landa utan Danaveldis á undan Flateyjarskútunni Jóhannesi. Þarf því engan að undra þótt Jóni forseta Sigurðssyni þætti mikið til þessarar siglingar koma. Í ritgerð sinni Um verslun og verslunarsamtök í 29. árgangi Nýrra félagsrita greinir Jón frá þessum tíðindum og kemst þá m.a. svo að orði:

 

Ferðin gekk vel og skip þeirra kom heppilega til baka með vörur til félagsins en það þótti Björgynjarmönnum nýnæmi að þetta skip var hið fyrsta, sem var eign Íslendinga með allri áhöfn og með íslenskum farmönnum, er til Björgynjar hafði komið síðan fyrir mörgum hundruðum ára síðan, svo að nú var það loksins orðið ósatt mál um Íslendinga að „enginn kunni að sigla”.[42]

 

Þó að Hafliði í Svefneyjum sé talinn upphafsmaður þessarar sögulegu Noregsferðar, þá verður að geta hér sérstaklega skipstjórans á Jóhannesi í þessari ferð, Eggerts Magnússonar.

Þeir Hafliði og Eggert voru bræðrasynir. Var Eggert sonur Magnúsar Einarssonar, sem lengst bjó í Skáleyjum (sjá hér Skáleyjar) og Sigríðar Einarsdóttur, fyrri konu hans. Eggert var fæddur árið 1832 og varð ungur formaður hjá Brynjólfi Benedictsen í Flatey.[43] Haustið 1861 innritaðist hann í sjómannaskóla í Flensborg í Suður-Slésvík sem þá tilheyrði ennþá Danaveldi. Vorið eftir lauk hann þar skipstjóraprófi.[44] Næstu árin stundaði Eggert sjó frá Flatey en fór vorið 1866 að búa á Fossá í Barðastrandarhreppi. Þar átti hann heima er hann réðst í hina sögulegu verslunarferð til Noregs. Á Fossá gerðist Eggert hreppstjóri en fékkst einnig við lækningar sem hómópati og þótti góður yfirsetumaður við barnsfæðingar.[45]

Í harðindunum milli 1880 og 1890 brá Eggert Magnússon á það ráð að flytjast til Ameríku. Þangað fór hann með konu og fjögur börn árið 1886, þá 54 ára gamall, og settist að í Norður-Dakota. Í Ameríku nefndi hann sig Eggert Magnússon Vatnsdal.[46] Hann andaðist árið 1916. Sonur Eggerts fyrir hjónaband var Ólafur Eggertsson er varð merkisbóndi í Króksfjarðarnesi og eru niðjar hans einu niðjar Eggerts hérlendis.[47]

Ekki er nú kunnugt hversu margir sendu afurðir til Björgvin með þilskipinu Jóhannesi sumarið 1871 en í kringum þessi Noregsviðskipti gekkst Hafliði í Svefneyjum fyrir myndun verslunarsamtaka og var sá félagsskapur jafnan nefndur Flateyjarfélagið. Flest gögn félagsins munu nú glötuð en Jón forseti Sigurðsson segir að tilgangur þess hafi verið: með samtökum og samlögum í verslunarefnum að koma á stofn færandi verslun.[48] Þessi orð birtir Jón innan tilvitnunarmerkja og má því ætla að þau séu tekin úr lögum eða reglum félagsins. Jón Sigurðsson greinir nánar frá stofnun félagsskaparins og segir:

 

Félagsmenn tóku sig þá saman um að skjóta saman ákveðinni upphæð í dalatali og kusu sér þrjá menn í aðalstjórn og tvo deildarstjóra í hverri sveit. Félagið fékk sér síðan þilskip á leigu, sem einn félagsmaður átti, og gerði það út með íslenskum farmönnum og félagsvörum til Björgynjar.[49]

 

Jón talar ýmist um Eyjamenn og Reyknesinga eða Breiðfirðinga að vestan sem stofnendur þessa verslunarfélags[50] og bendir það til þess að félagssvæðið hafi náð um Vestureyjar og sveitirnar við norðanverðan Breiðafjörð. Allt þyrfti þetta miklu nánari könnunar við en hér er kostur á.

Flateyjarfélagið starfaði í nokkur ár og keypti miklar eignir í Flatey, m.a. hús sem Guðmundur Scheving hafði reist um 1830 og Brynjólfur Benedictsen hafði verslað í síðar.[51] Hús þetta stendur enn, var lengi nefnt Félagshús og þá kennt við þetta Flateyjarfélag. En þótt byrjunin á verslunarrekstri Hafliða og félaga hans lofaði góðu þá hallaði brátt undan fæti. Félagið réð til starfa dansk/norskan verslunarstjóra og sigldi hann með útflutningsvörurnar til Noregs haustið 1872. Kom hann eyjavörunum í peninga en hvarf síðan með allt andvirðið og hefur ei til hans spurst.[52] Var helst talið að svikahrappur þessi hefði strokið til Kína eða Indlands. Þetta áfall stóð félagið þó af sér og bæði 1872 og 1873 kom gufuskipið Jón Sigurðsson með norskar vörur til Flateyjarfélagsins. Var það fyrsta gufuskipið er þangað kom.[53] Eigandi skipsins var Det islandske Handelssamlag í Björgvin[54] og ugglaust hefur Hafliði einkum átt viðskipti við það félag í Noregi. Gjaldþrot þessa norska félags skömmu síðar bitnaði illa á Hafliða og voru allar eigur hans veðsettar fyrir skuldum árið 1877.[55] Um það leyti var starfsemi Flateyjarfélagsins hætt en Hafliði varð áður en lauk fyrir mjög verulegu fjárhagstjóni vegna þessara verslunartilrauna.[56]

Þingstaður Flateyjarhrepps var í Svefneyjum á búskaparárum þeirra feðga, Eyjólfs og Hafliða, og svo hafði áður verið, a.m.k. um skeið, en á dánarári Hafliða, 1894, var þingstaðurinn fluttur til Flateyjar.[57]

Þegar Davíð Scheving var sýslumaður í Barðastrandarsýslu (1752-1781) þingaði hann eitt sinn sem oftar í Svefneyjum. Maður nokkur, Þorsteinn að nafni, bar á þinginu fram kæru á meðhjálparann fyrir að hafa svarað sér með því að segja: Hver ætli taki mark á orðum þínum, þú sem bölvar öllum hlutum? Sýslumaður tók málið til rannsóknar og spurði þingheim hversu mikið Þorsteinn blótaði. Þögn sló á lýðinn uns Einar bóndi Sveinbjörnsson í Svefneyjum, faðir Eyjólfs eyjajarls, svaraði sýslumanni og sagði: Fyrst ég er til þessa kvaddur þá votta ég það að Þorsteinn blótar mönnum og skepnum, sjónum og jörðinni, himninum og jafnvel guði sjálfum. Var þá meðhjálparinn sýknaður af kæru Þorsteins en Scheving sýslumaður úrskurðaði að Þorsteinn skyldi þaðan í frá bera viðurnefnið blóti og var hann jafnan nefndur Þorsteinn blóti þaðan í frá.[58]

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Bergsv. Skúlason 1942, 62 (Barðstrendingabók). Sbr. sami 1964, I, 68-69.

[2] Sami 1982 II, 97. Sbr. Ísl. fornrit I, 164.

[3] Sami 1974, 204.  Sóknalýs. Vestfj. I, 146.

[4] Bergsv. Skúlason 1974, 205.

[5] Þorv. Thoroddsen 1920, 181 (Lýsing Íslands IV).

[6] Eggert Ólafsson 1975  I, 220.  Sóknalýs. Vestfj. I, 145.

[7] Jarðab. Á. og P. VI, 246.

[8] Þorv. Thoroddsen 1935, 68 (Lýsing Íslands III).

[9] Hannes Finnsson 1970, 85.

[10] Eggert Ólafsson/Íslands þúsund ár (1300-1800), 186-187.

[11] Þorv. Thoroddsen 1902, 42-43 (Landfræðisaga Íslands III).

[12] Sami 1898,302 (Landfræðisaga Íslands II).

[13] Sama heimild, 301-302.

[14] Ísl. æviskrár I, 9-10.

[15] Lúðvík Kristjánsson 1953, 107.  Bergsv. Skúlason 1964, 61.

[16] Bergsv. Skúlason 1964, 61.

[17] Sami 1982, II, 66.

[18] Lúðvík Kristjánsson 1953, 107.

[19] Sama heimild, 108.

[20] Sama heimild, 233-234.

[21] Sama heimild, 107 og 260.

[22] Bergsv. Skúlason 1964, 186.

[23] Jökull Jakopsson 1964, 79-80 (Síðasta skip suður).

[24] Lúðvík Kristjánsson 1960, 47.

[25] Sama heimild, 46.

[26] Bergsv. Skúlason 1982, II, 74.

[27] Lúðvík Kristjánsson 1981, 124.

[28] Bergsveinn Skúlason 1974, 203.

[29] Bergsv. Skúlason 1982, II, 71.

[30] Sama heimild, 74.

[31] Hafliði Eyjólfsson 1942, 260 (Barðstrendingabók).

[32] Lúðvík Kristjánsson 1955, 231.

[33] Bergsv. Skúlason 1979, 89 og 116.

[34] Magnús Jónsson 1957, 420-423.

[35] Sama heimild, 413 og 422.

[36] Sama heimild.

[37] Bergsv. Skúlason 1979, 59.

[38] Bergsv. Skúlason 1979, 59.

[39] Sama heimild.

[40] Magnús Jónsson 1957, 413.

[41] Sama heimild, 303.  Gils Guðmundsson 1977, I, 69.

[42] Jón Sigurðsson 1872, 113-114 (Ný félagsrit).

[43] Játv. J. Júlíusson 1985, 122.

[44] Játv. J. Júlíusson 1985, 122.

[45] Sama heimild, 123.

[46] Sama heimild, 124.

[47] Sama heimild.

[48] Jón Sigurðsson 1872, 113 (Ný félagsrit).

[49] Sama heimild, 113-114.

[50] Sama heimild.

[51] Bergsv. Skúlason 1979, 63-64.

[52] Bergsv. Skúlason 1979, 65.

[53] Bergsv. Skúlason 1979, 67.

[54] Páll Eggert Ólason 1945-1946, 434.

[55] Bergsv. Skúlason 1979, 68.

[56] Sami 1964, 62.  Snæbj. Kristjánsson 1958, 102.

[57] Bergsv. Skúlason 1942, 61 (Barðstrendingabók).

[58] Þjóðsögur J. Á. IV, 229-230.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »