Veturinn 1939-40 dvaldist María systir mín á Ísafirði, svo að ég vissi lítið af henni í langan tíma. Mundi varla að hún væri til, en svo birtist hún allt í einu eftir áramótin í fylgd með ungum manni sem hún sagði að væri kærastinn sinn. Erindið var náttúrlega að kynna hann fyrir foreldrunum og mér fannst þetta óskaplega spennandi. Ísfirðingar voru þjóðflokkur sem ég hafði ekki haft nein kynni af, enda hafði ég aldrei til Ísafjarðar komið.
Föður mínum þótti dóttirin ekki velja mannsefnið vel. Þessi náungi væri ekki líklegur sjósóknari og greinilega allur uppá bókina. Þeir sátu lítið í samræðum,áttu enda fá sameiginleg áhugamál. Mér fannst þetta aftur á móti hrein himnasending. Þetta var maður sem gat rætt fram og aftur um bækur og talaði við mig eins og ég væri bara fullorðinn maður og það líkaði mér vel. Þessi ungi maður hét Óskar Aðalsteinn Guðjónsson.Hann ætlaði sér að verða rithöfundur og hafði nýlega lokið við að skrifa fyrstu skáldsöguna sína,sem hét “Ljósið í kotinu”. Hún beið nú prentunar og prentsmiðjan hafði krafist þess að Óskar gæti sýnt fram á væntanlegan fjölda kaupenda.
Ég var því sendur út um kvöldið til að ganga í hús með blað þar sem fólk átti að skrifa nafnið sitt og þar með að það myndi kaupa þessa bók þegar hún kæmi út. Ég gekk á röðina hús úr húsi og bankaði uppá hjá Bolvíkingum sem flestir sögðu nei, en ég kláraði alla Hafnargötuna inn að á þetta kvöld og hafði þá fengið sex undirskriftir á blaðið og þótti gott. Kvöldið eftir tók ég Holtin og Grundirnar og alls urðu þetta fjórtán væntanlegir kaupendur.
Óskar hældi mér á hvert reipi fyrir dugnaðinn svo ég herti upp hugann og bað hann að koma með mér upp á loft og skoða bókasafnið mitt, áður en þau færu inn að á til Sigurrósar systur minnar, þar sem þau dvöldu að mestu leyti þessa daga sem þau voru í Bolungavík.
Óskar hélt það nú að hann hefði gaman af því að sjá hvað ég ætti af bókum. Ég dró fram trékistil með kúptu loki, sem ég hafði herjað útúr Sigurði bróður mínum fyrir nokkru.Í þessum kistli voru allar mínar eigur að undanteknu því sem var í skólatöskunni.Þarna voru fjórar bækur sem ég hafði einhvern veginn eignast,efst var “Saga Natans Ketilssonar og Skáld Rósu” hryllingsaga um morð og aftökur,ást og hatur.Þar undir var bók sem heitir “Árin og eilífðin” guðfræðilegar predikanir eftir Harald Níelsson prédikara,ég las hana nú víst aldrei,þriðja bókin hét “Dvergurinn Rauðgrani og brögð hans”en ég var nú vaxinn upp úr því að lesa svoleiðis sögur.Sú fjórða bar titilinn “Fórnfús ást” og var mjög rómantísk.
Ég held að Óskari hafi ekki þótt þetta veglegt bókasafn,en hafði fá orð um það svo ég lokaði þessari bókakistu og varð fyrir hálfgerðum vonbrigðum. María systir mín og Óskar kærasti kvöddu síðan eftir tvo daga og héldu til Ísafjarðar.


Óskar og María buðu mér heim til sín um vorið þegar barna skólanum lauk.Þau bjuggu á Túngötu 13 á Ísafirði höfðu þar lítið eldhús,herbergi og nokkuð rúmgóða stofu í húsinu hjá Guðjóni Föður Óskars. Þessi dvöl var mér ógleymanleg og hafði mikil og góð áhrif á mig að því er varðaði þekkingu á bókmenntum og innsýn í þann töfrandi heim.
Óskar var vel að sér í verkum íslenskra skáldsagnahöfunda og hann var starfsmaður á Bókasafni Ísafjarðar á þessum árum. Ég var því á bókasafninu alla daga með honum og las það sem Óskar benti mér á að væri þess virði að kynna sér,en það voru þeir íslensku höfundar sem hæst bar um þessar mundir svo sem Gunnar Gunnarsson, Kiljan, Þórbergur og Hagalín. Ekki flaug þó í hug mér að reyna að skrifa eitthvað sjálfur. Hinsvegar hafði ég mikinn áhuga fyrir kveðskap og ljóðum allskonar og sú árátta fylgdi mér gegnum ævina alla.
Einn af kennurum mínum í barnaskólanum hét Ágúst Vigfússon,hann var ættaður úr Dölum og mikill ljóðavinur eins og flestir þar í sveit á þeim árum. Við náðum vel saman við Ágúst,lékum okkur oft við vísnagerð og ræddum mikið um hefðbundinn kveðskap.Ég lærði utanað ljóð þeirra skálda sem voru í mestu uppáhaldi hjá mér,en þar var Bólu Hjálmar númer eitt og síðan Einar Ben og Davíð.Þetta gerði það að verkum að ég sinnti lítið útiveru og samskiptum við jafnaldra mína,lá bara í bókum og spekúleringum.
Ég læt hér fylgja eina af vísum Ágústar sem hann gerði um unglinginn:
“Undarleg eru örlögin,
að inni í þessu hreysi
hírist nærri hálfboginn
helsti kvæðasmiðurinn.”
Þetta var nú ekki allt glæsilegur kveðskapur hjá okkur gæti ég trúað og sem betur fer er þetta nú allt saman gleymt og glatað.
FERMINGIN
Unglings árin liðu hratt og áður en varði var ég orðinn fjórtán ára og okkur jafnöldrum mínum var sagt það einn daginn í skólanum,að við skyldum mæta í fermingar undirbúning hjá prestinum eftir skólatíma á morgun, laugardag. Ég hafði auðvitað átt von á þessu fermingar tilstandi og hugsað mikið um það um veturinn og nú var ég orðinn ákveðinn.Ég ætlað ekki að láta ferma mig. Ég tilkynnti foreldrum mínum þessa ákvörðun í matartímanum á sunnudeginum og þeim brá töluvert,einkum þótti móður minni þetta leiðinlegt,hún var mjög trúuð kona og fannst hræðilegt að sonurinn vildi vera heiðinn.En ég sat við minn keip,ég ætlaði ekki að fylla hóp þessara hræsnara sem þóttust vera kristnir,en sýndu svo engan áhuga á því að fara eftir kenningum Jesú í samskiptum sínum við annað fólk.
Ég hef grun um að móðir mín hafi haft samband við prestinn séra Pál,því hann kom heim og vildi fá að tala við mig í einrúmi.Hann bað mig að ígrunda það í alvöru að breyta þessari ákvörðun minni,mig mundi iðra þess síðar að vera ekki í söfnuðinum og foreldrum mínum þætti þetta líka ákaflega leiðinlegt.En ég var hinn þverasti og tók engum sönsum,svo hann gafst upp á þessum fortölum og kvaddi.
Daginn eftir kom skólastjórinn Sveinn Halldórsson heim til okkar og bað mig að koma með sér út smástund.Við gengum niður á fjörukambinn og settumst þar á sinn steininn hvor og horfðum til hafs. Sveinki brosti út í annað munnvikið (hálft andlit hans var lamað) og sagði “Jæja karlinn,ég heyrði sagt að þú hafir verið að stríða prestinum í gær.Þú skalt vera þægur við prestinn og leyfa honum að ferma þig,annars neitar hann kanski að gifta þig þegar þar að kemur.Og þú átt að vita það úr íslandssögunni að þegar átti að gera íslendinga að kristinni þjóð,var samið um að það mætti blóta á laun og yfirleitt gera það sem hver vildi í laumi,en það yrðu allir að láta skíra sig og eftir það væri öllum frjást að gera það sem þeim dytti í hug.Það er nú búið að skíra þig svo þér er engin vorkunn að láta ferma þig líka.
“Þú átt alla ævina framundan“.
“Ævin verður mikið þægilegri hjá þér ef þú ert eins og allir hinir,skírður fermdur og giftur“.
Mér fannst mikill sannleikur í orðum karlsins og sagði honum að þetta væri líklega satt sem hann segði.Líklega væri bara best að láta ferma sig,það væri alltaf hægt að fá fyrirgefningu syndanna hjá Guði,og það veit engin lifandi sála hvað maður hugsar og gerir í laumi. Eftir þetta samtal sagði ég móður minni að ég væri búinn að skipta um skoðun og ég ætlaði að fermast eins og hinir krakkarnir. Það létti öllum við þennan viðsnúning og mér líka.
Móðir mín fór með mér til Sesselju saumakonu,hún ætlaði að sauma á mig síðbuxur og blússu og til þess þurfti hún að mæla mig allan. Ég fór allur hjá mér þegar hún fór að mæla hve langt væri upp í klofið og mig kitlaði alveg svakalega þegar hún var að þukla undir handleggina og í hálsakotið,en hún hló bara að mér.
Í þessar mælingar þurfti ég að koma margoft og alltaf var ég þuklaður og strokinn frá hvirfli til ilja þar til fermingarfötin voru tilbúin.Ég gekk til prestsins eins og allir hinir jafnaldrar mínir,lærði sæluboðin og sálmana og allir voru kátir með það. Í síðustu tímunum af þessum fermingarundirbúningi fórum við ásamt prestinum upp í kirkju og þar var okkur sýnt hvernig við ættum að haga okkur í athöfninni,það var nú frekar einfalt, aðallega að passa sig að vera á réttum stað í röðinni og gera eins og næsti maður á undan.Einu sinni áttum við að segja já,presturinn sagði allt hitt. Þegar allt var búið og við vorum komin út tóku allir í hendina á manni og sögðu “til hamingju”,það var dálítið erfitt,maður varð svo þreyttur í hendinni.
Þegar við komum heim var Sigurrós systir mín búin að raða stólum og leggja á borð fyrir átta manns,meira leyfði plássið ekki,þær voru nú ekki stærri stofurnar hjá okkur en það.Svo var ég sendur til að bjóða fjórum hjónum í fyrstu og sótti svo fólk til veislunnar eftir því sem sæti losnuðu.Þetta var nokkuð erilsamt,en ég taldi það ekki eftir mér því ég vissi að allir myndu gefa eitthvað og flestir gáfu pening. Þetta var nærri allt saman fullorðið fólk sem kom þennan dag og þegar leið að kvöldi var kominn slatti af seðlum í skókassann.Þetta leit bara vel út því daginn eftir átti að vera veisla líka.
Svo rann upp annar í Hvítasunnu og þá áttum við að ganga til altaris,eins og það er kallað sú athöfn gekk nú bara nokkuð vel fyrir sig,ég dreypti á messuvíninu og át oblátuna og þótti hvorugt gott. Þennan seinni dag var boðið ættingjum og venslafólki,en vinir og kunningjar flutu með líka. Það hækkaði lítið í skókassanum síðari daginn en þetta var miklu skemmtilegra fólk og talsvert af unglingum og börnum.
Eftir ferminguna breyttist álit mitt á sjálfum mér töluvert,ég taldi mig kominn í tölu fullorðinna og meira að segja bara þó nokkuð efnaður.Ég var fljótlega farinn að hugsa um það hvað ég ætti að gera við þessa peninga sem mér höfðu áskotnast,mér fannst sjáfsagt að kaupa eitthvað,því ég ætti eiginlega ekki neitt og vantaði margt,eins og til dæmis reiðhjól.svo ég færði í tal við föður min hvort ég mætti ekki bara kaupa reiðhjól fyrir fermingar peningana og hann féllst á það eftir svolitla umhugsun.
SUMAR Á BREIÐABÓLI 1943
Sigurður bróðir minn hóf búskap á Breiðabóli 1942 og var kominn með töluverðan bústofn fljótlega,aðallega var það nú sauðfé,en kýrnar voru þrjár og mjólkin úr þeim eingöngu til heimilisnota,einn tuddi var líka og þrír hestar. Það var ekkert fjós á Breiðabóli þegar Sigurður tók þar við,bara eldgamall torfkofi yst á gamla bæjarhólnum,hann var að falli kominn og hefði hvort eð er ekki tekið nema tvær kýr,svo kýrnar voru hafðar í fjárhúsunum upp á túninu og hestarnir líka þegar þeir voru látnir inn.
Sigurður hafði ákveðið að byggja nýtt fjós áfast íbúðarhúsinu sjávarmegin og strax á fyrsta búskapar árinu var grafið fyrir þeirri byggingu og eftir tvö ár var komin hlaða og fjós byggt úr timbri og steinsteypu en til þess hafði hann liðsinni tveggja ungra manna sem báðir hétu Elías og voru í vinnu hjá honum sumrin 1942 og þrjú eftir vertíðarlokin og síðan bættist ég í hópinn seinna sumarið og var til hausts.
EGGJAFERÐ
Skömmu eftir að ég kom út eftir var farið í Kambana eins og það var kallað,þetta voru eggjatöku leiðangrar.Sigurður var vanur svona ferðum frá því að foreldrar okkar bjuggu á Minnibakka,en ég held að þetta hafi lagst af eftir að við fluttum til Bolungavíkur. Svona leiðangur þurfti töluverðan undir búning.Það þurfti trékassa undir eggin því þau voru viðkvæm og það þurfti að búa vel um þau svo þau brotnuðu ekki í meðferðinni bæði við að tína þau í klettasyllunum og láta þau síga niður til þeirra sem tóku á móti þeim undir klettunum.
Við fórum þrír á skektu Jónas á Minnibakka Sigurður og ég og fluttum með okkur kassa með heyi undir eggin og litla stiga til að nota við uppgöngu í varphillurnar. Þegar við komum inn fyrir Kerlinguna fjallið sem sjómenn kalla Deild,sáum við hvar grillti í fuglabjörg þau sem heita Mávakambar utarlega á Stigahlíðinni.Við lentum þar í fjörunni undir grösugum klettunum sem iðuðu af fugli og hávaðinn var mikill í fuglinum,þar sem hver söng með sínu nefi og allir höfðu hátt. Við bárum kassana og stigana upp í hlíðina þar sem klettarnir byrjuðu og bjuggum þar um þá undir kletti því við ætluðum að koma daginn eftir og hefja eggjatökuna. Síðan rerum við heim til að huga að sauðburðinum sem var byrjaður,svo nóg var að gera.
Við lögðum af stað eftir hádegið daginn eftir til að hefja eggjaránið.Við Jónas löbbuðum inn fjöruna í mestu makindum en Sigurður var mikið hraðskreiðari og var kominn langt á undan okkur og farinn að huga að uppgöngu í Kambana þegar við komum.Hann stjórnaði þessu alveg,fór sjálfur upp í klettana með band og skrínu til að tína eggin í og láta þau síga niður til okkar , en við tókum á móti og bjuggum um eggin í kössunum og stoppuðum með heyi þannig að þau snertust ekki og kæmust heil heim.
Við tókum á móti öllu því sem Sigurður lét síga niður til okkar og á endanum voru allir kassarnir orðnir fullir og afgangurinn lá bara í hrúgu í grasinu.Að lokum kom Sigurður svo niður og skildi bandið eftir í berginu,það væri þá til reiðu ef einhver vildi fara upp þarna síðar.Við bárum með okkur sinn eggjakassann hvor á leiðinni heim og tókum þá léttustu því við ætluðum að koma á skektunni daginn eftir til að sækja allan fenginn,sem var töluverður. Ég veit ekki til að svona leiðangur hafi verið farinn síðar í Kambana en eitthvað hafa menn kannski sótt þangað af eggjum í smáum stíl.
FÓLKIÐ Á BÆNUM
Það var fjölmennt heimili á Breiðabóli þetta sumar auk húsbændanna Ólínu og Sigurðar. Ólína hafði misst manninn sinn Runólf Hjálmarsson í hörmulegu sjóslysi þegar vélbáturinn Baldur fórst með allri áhöfn,þar voru bræður tveir Guðmundur og Ólafur Péturssynir,mágur þeirra Óskar Halldórsson og Runólfur var sá fjórði.Runólfur og Ólína höfðu verið gift í tvö ár þegar hann drukknaði og höfðu þá eignast soninn Pétur. Tveimur árum síðar giftust þau Ólína og Sigurður bróðir minn og hófu sama árið búskap á Breiðabóli. Pétur sonur Ólínu var því þarna hjá móður sinni. Hávarðína Hjálmarsdóttir systir Runólfs heitins var þarna kaupakona hluta úr sumrinu með unga dóttur sína Ólöfu.
Elías bróðir minn var þarna kaupamaður og Elías Finnbogason sonur Finnboga föðurbróður okkar.En þeir nafnarnir voru þá um tvítugt ungir og ærslafullir mjög,svo það var oft mikið um að vera á svefnloftinu á kvöldin því þarna var líka ung kaupakona úr Reykjavík sem hét Kristín og sú þrenning stóð oft fyrir ólátum og gauragangi sem þótti stundum ganga úr hófi fram svo húsbændurnir þurftu að skakka leikinn.
Roskinn maður úr Bolungavík sem hét Jens Þórðarson var aðal sláttumaðurinn ,svo var þarna drengur úr Reykjavík sem hét Sigmundur Finnsson, kallaður Simbi. Snúningastúlka úr Bolungavík sem hét Elsa Árnadóttir og svo auðvitað ég sem var aðal maðurinn. Mér telst svo til að þessi hópur hafi fyllt tylftina þegar flest var. Það veitti svo sannarlega ekki af mannskapnum.þegar búið var að taka upp móinn,grinda hann og búa til þerris, byrjaði fljótlega heyskapurinn, fyrst á túninu og svo á engjunum. Þegar búið var að fylla hlöðurnar var farið að heyja handa bolvíkingum. Sigurður bóndi þurfti á peningum að halda til að borga lánin sem voru tekin til að kaupa jörðina og bústofninn og eina leiðin til að afla þeirra var að selja hey til Bolungavíkur.
Það var nóg af grasinu í Skálavík, en það þurfti að slá það og þurrka það, binda það í bagga og reiða á hestum inn á vegarendann á heiðinni og síðan á bíl til kaupandans. Þarna var um að ræða nokkur hundruð bagga svo þetta var töluvert mál að breyta grasi í peninga og nóg fyrir alla að gera þegar veður leyfði.
TALSTÖÐIN
Það kom sér oft illa að ekki hafði verið lagður sími til Skálavíkur,en til að bæta úr því hafði “Póstur og Sími” skaffað báta talstöð,sem komið var fyrir á Minnibakka og Jónas bóndi tók að sér að sjá um hana,en til þess að gagn væri að því,þurfti hann að hafa samband við Ísafjarðar-radíó á tilteknum tíma einu sinni á dag og kanna hvort einhver skilaboð lægju fyrir þaðan,en aftur á móti gat hann hvenær sem var kallað upp Ísafjarðarradíó því þar var alltaf opið,en fólki var ekki vel við að tala í talstöðina,það þurfti alltaf að vera að segja “SKIPTI”.Einnig gátu allir hlustað á það sem sagt var í talstöðina bara með því að hlusta á bátabylgjunni með venjulegu útvarpsviðtæki.
Talstöðin þurfti náttúrlega rafmagn,svo það fylgdu henni tveir stórir rafgeymar.En svo þurfti rafmagn til að hlaða rafgeymana svo Jónas keypti vindrafstöð sem hann festi á gríðarstórt rekatré sem hann hafði komið fyrir upp á endann ekki langt frá íbúðarhúsinu,einnig var rafmagnið frá vindrafstöðinni notað til ljósa á bænum og ekki leið á löngu þar til líka var komin upp vindrafstöð á hinum bæjunum til að geta notað rafmagnsljós,sem þótti bæði betra og þægilegra en olíulamparnir. Þessi talstöð þótti mjög gagnleg meðan hún var notuð en eftir nokkur ár var talsímalína lögð frá Bolungavík og á þessa þrjá bæi sem þá voru enn í byggð. Bréfhirðing var aldrei í Skálavík, ef einhver vildi senda bréf varð að fara með það til Bolungavíkur og póstleggja það þar.
DANSLEIKUR Á MINNIBAKKA
Um miðjan júlí var farið að tala um að halda ball í Skálavík,það voru Ellarnir og Stína sem höfðu orð á því að það væri alveg hægt að halda ball í stofunni á Minnibakka og Jónas bóndi tók því bara vel að lána stofuna undir dansleik,það væri alveg sjálfsagt að leyfa unglingnum að sletta úr klaufunum einn sunnudag þau yrðu bara hressari á eftir.Sigurður bróðir ætlaði að lána grammófón og sagðist eiga eitthvað af plötum en aðallega væri það nú sönglög svo það yrði þá að fá lánaðar plötur inn í Bolungavík til viðbótar. Einhversstaðar fengust lánaðar tvær plötur með harmóníkuleik og þá þótti sjálfsagt að ákveða að halda ball síðdegis næsta sunnudag.
Það mættu bæði ungir og gamlir og eftirvæntingin var mikil hjá flestum. Grammófónninn var trekktur upp og tónlistin hljómaði um stofuna svo voru allt í einu þrjú pör komin á gólfið. Ég meira að segja labbaði með Elsu til og frá um gólfið en það var skrítið hvað hún var gjörn á að hafa tærnar einmitt þar sem ég ætlaði að stíga niður,hún meiddi sig nú samt ekkert því ég var í mjúkum gúmmískóm sem Hafliði skósmiður hafði límt saman úr gamalli bílslöngu.
Þetta fótaspark okkar var eiginlega dans það vantaði bara nafnið á hann,varla var hægt að segja að hann væri tilþrifamikill því gúmmískórnir voru ekki heppilegur fótabúnaður frekar en stígvélin sem sumir karlarnir voru í en þeir smokruðu sér þá bara úr þeim og það var mikið betra að dansa á ullarsokkunum.En það var nú ekki búið að finna upp rokkið,að minnsta kosti ekki á Íslandi þegar þetta var.
Þegar Arnfríður Þorkelsdóttir gamla frúin á Meiribakka gekk í salinn bað hún strax um að vals yrði settur á fóninn og spurði síðan hátt og snjallt “Hvaða herra ætlar að dansa við mig?” Elli Boga frændi minn gekk strax fram og hneigði sig fyrir Arnfríði eins og sannur herramaður og síðan hringsnerust þau á gólfinu í hröðum valsi og gamla konan sveif um gólfið eins og hún væri orðin tvítug aftur,þau höfðu alveg gólfið fyrir sig fólkið stóð bara í kring og undraðist hve gamla konan var lipur og létt á sér þrátt fyrir háan aldur.
Þegar dansinum lauk leiddi Elías dömuna til sætis og hún þakkaði fyrir sig en hafði orð á því að þetta yrði nú líklega síðasti dansinn sinn þennan daginn en hún var ekki sannspá þar, því þegar allir marséruðu í hring eftir gólfinu og sungu “Öxar við ána” gekk hún auðvitað með og söng eins og hinir.
Þegar platan með Maríu Markan hafði verið sett þrisvar á fóninn og svo kom Stefán Íslandi á eftir og söng “Áfram veginn í vagninum ek ég”, þá fór nú að fara mesti galsinn úr mannskapnum. Það var hætt að dansa og sest niður. Sumir piltarnir drógu upp úr vösunum rjómakaramellur og kóngabrjóstsykur til að bjóða dömunum og hlutu falleg bros og vinsældir að launum, en dansleikurinn leystist upp og fullorðna fólkinu var boðið í kaffi hjá Minnibakka hjónunum að lokum.
GESTAKOMA
Það hafði verið sólskin og þurkur alla vikuna og við unglingarnir vorum orðin þreytt á eilífum rifjingum ,en við vorum nú samt að rifja á efra túninu eftir hádegið ég og Stína kaupakona,Simbi og Elsa,en hitt fólkið var fram á engjum að slá og raka í flekki þar.
Það glaðnaði heldur betur yfir okkur þegar við sáum að einhver var að koma fram götuna frá Minnibakka. Þegar hann kom nær þekktum við að þetta var Jónas bóndi og hann hafði kú í taumi. Svarta nautið á Breiðabóli sem hafði embættisnafnið Sveitarnaut var tjóðrað þarna á efra túninu rétt hinum megin við bæjarlækinn hjá okkur og af því okkur grunaði hvert erindi Jónasar og kýrinnar væri,settumst við niður og biðum spennt eftir því hvað myndi ske bráðum.
Jónas leiddi kúna beina leið til bola og þau heilsuðust með því að lykta hvert af öðru og snerust í hringi hvert um annað svo tjóðurbandið flæktist um fætur þeirra öðru hvoru. Þegar tuddinn hafði lyktað af kúnni og rúllað upp efri vörinni nokkrum sinnum fór að sjást í endann á áhaldinu sem hann hafði undir kviðnum. Þá sagði Kristín eins og við sjálfa sig “Je minn,hann er rauður”, en Elsa tautaði “Hann er nú bara mjór og stuttur”. En þegar tuddinn reis upp á afturlappirnar og stakk kúna sást að hann var nú bara töluvert langur.
Þegar hér var komið virtist athöfnin hafa tekist vel,en Jónas bóndi var víst ekki ánægður því hann leyfði tuddanum að jafna sig og lét hann síðan lykta af blettinum þar sem kýrin hafði pissað áðan og brátt var tuddi tilbúinn að endurtaka leikinn og að þessu sinni lauk hann sér af með gríðarlegum hnykk og eftir það stóð beljugreyið í algjörum keng og þá öskraði Simbi”Sjáið þið,hann er búinn að beygla hana”. En Jónas bóndi gekk að kúnni og boraði fingrunum niður í hrygginn á henni og þá réttist hún aftur úr beygjunni. Þau Jónas og kýrin lögðu svo af stað aftur heim að Minnibakka eflaust ánægð með móttökurnar,en sýningunni var lokið hjá okkur og við héldum áfram að rifja.
TÖÐUGJÖLD
Þegar búið var að hirða í hlöðu megnið af töðunni af túninu var farið að huga að töðugjöldum eins og forn hefð er fyrir,að halda matarveislu fyrir heyskaparfólkið þegar túngresið er komið í hús og engjaheyskapurinn byrjar. Við fórum eitt kvöldið Sigurður bóndi Sigmundur og ég til að velja dilk sem væri hæfur til slátrunar í þessu tilefni.Við vorum bara þrír,Sigurður bóndi,Sigmundur snúningadrengur og ég,Elíasarnir höfðu farið niður í á að veiða Þeir fóru oft á kvöldin niður í á og veiddu drjúgt af silungi í net.
Okkur Sigmundi var sagt á leiðinni frameftir að við þyrftum að handsama lambið en það mætti alls ekki taka í ullina því þá kæmu marblettir í kjötið,við ættum bara að grípa í fæturna og halda eins fast og við gætum. Það var fullt af fé þarna í hlíðinni og Sigurður sá fljótlega lambhrút sem honum fannst girnilegur,eftir smá eltingaleik höfðum við hann í höndunum og Sigurður snaraði honum á háhest á baki sér og bar hann heim í fjárhús. Það var strax drifið í því að slátra dilknum upp við fjárhúsin og þar voru ekki fleiri viðstaddir en húsbóndinn sem slátraði lambinu og við Sigmundur.Það átti að reka Sigmund heim en hann þverneitaði,sagðist hafa hjálpað til við að sækja hrútinn og hann myndi aldrei fá að sjá slátrun í Reykjavík,svo hann ætlaði sko ekki að missa af þessu tækifæri.
Sigmundi þótti nokkuð svakalegt þegar hausinn var skorinn af og blóðið fossaði úr hálsinum,en aftur á móti þótti honum sniðugt að sjá hvernig hægt var að flá skinnið af skrokknum og “Klæða greyið úr gallanum” eins og hann kallaði það.Síðan þegar skrokkurinn var opnaður og innyflin ultu út,fyrst vömbin og garnirnar á eftir,þá öskraði Simbi “Eru pulsurnar virkilega inni í kindunum?” .Svakalegur bjáni ertu” sagði ég “þetta eru garnirnar maður og það er skítur innan í þeim”.
Þegar slátruninni var lokið var kjötið látið hanga til næsta sunnudags en þá var kjötsúpa í hádegismatinn og þótti mikið sælgæti eftir allan saltfiskinn sem altaf var í mat þó stundum væri steiktur silungur á sunnudögum. Sigmundur borðaði manna mest og hældi sér af því að nú væri hann búinn að sjá og læra aðferðina við það hvernig kindunum er breytt í kjöt.
BERJAFÓLKIÐ
Þegar leið að hausti og berin fóru að þroskast fór fólk úr Bolungavík að koma úteftir til að tína ber. Það komu tvær þrjár fjölskyldur með tjöld og útilegubúnað og dvöldu í nokkra dsga við berjatínslu sem var ákaflega tímafrek því allt þurfti að tína með puttonum,berjatínur sáust ekki fyr en mörgum árum seinna.Það var öllum frjálst að koma og tjalda og tína eins og hver vildi og enginn amaðist við því. Þetta fólk hafði komið með bíl upp í heiðarskarðið þar sem vegurinn endaði og þurfti svo að bera allt sitt hafurtask niður í dalinn þangað sem kallað var Seljaurðir og Sóleyjahryggur í Breiðabólshlíðinni,þar þótti besta berjalandið,en heimafólkið fór sjaldan þangað frameftir til að tína ber, það tíndi heimavið kringum Skriðholtið eða bara upp á Berjahjalla.
Berjafólkið kom stundum á kvöldin niður á bæjina til að sníkja sér mjólk,eða skoða sólarlagið og njóta fegurðar náttúrunnar. Á þessum árum þekktust allir íbúar hreppsins vel og gestum var auðvitað vel tekið því frekar lítið var um ferðafólk. Flestir í Bolungavík höfðu heyrt af því hversu kvöldin í Skálavík geta verið dásamleg þegar sólin er að setjast við sjóndeildarhring og gyllir speglandi hafflötinn.Allt litast af eldrauðum bjarma og fjöllin verða eins og glóandi eldsúlur sitt hvoru megin við dalinn.Þá finnst manni heimurinn dásamlegur og lífið gott.
Einn laugardagseftirmiðdag komu tveir menn á miðjum aldri labbandi niður dalinn og heilsuðu upp á okkur þar sem við vorum að fást við engjaheyskapinn. Þetta voru Bolvíkingar, vel metnir menn hvor á sínu sviði, þeir voru báðir góðglaðir og dálítið hreyfir af víni, mér finnst rétt að kalla þá Dóra og Frigga. Þeir sögðust vera í skemtiferð og hefðu komið með bíl frá Bolungavík um hádegisbilið þangað sem vegurinn náði og hefðu þá verið þrír í för en leiðin frá vegarendanum og niður í dalinn var mjög óslétt undir fæti og af því að vinirnir höfðu fengið sér aðeins í tána voru þeir ekki mjög fótvissir. einkum var það sá sem við skulum kalla Óla sem átti erfitt með að fóta sig,en hann var mjög lágur vexti og sérlega fótstuttur.
Óli var margbúinn að kútveltast í grasinu og hnjóta í urðinni.Hann var orðinn alblóðugur í framan því önnur augabrúnin sprakk og auk þess var hann kominn með blóðnasir.Þeir félagar hans voru alveg að gefast upp á að leiða hann svona á milli sín, svo þeir lögðu hann útaf í blómum skrýdda berjalaut,vöfðu jakkanum hans utanum annan skóinn og stungu þeim kodda undir höfuð hans og skildu hann þar eftir sofandi værum svefni. Dóri og Friggi stoppuðu ekki lengi hjá okkur heyvinnufólkinu en héldu áfram niður að Breiðabóli og göntuðust þar við konurnar sem voru að undirbúa hvöldverðinn fyrir heimilisfólkið.
Þegar þeir voru farnir sendi Sigurður kaupamennina Elíasana til að sækja Óla frameftir og þeir komu síðan með hann hálfsofandi á milli sín. Þeir þvoðu honum í framan klæddu hann í skóinn sinn og lögðu hann síðan inn í heyskapar tjaldið okkar lögðu undir hann hey og breiddu jakkann hans ofan á hann. Þegar við komum heim voru ferðamennirnir farnir í heimsókn á næstu bæi en þeir skiluðu sér að Breiðabóli um kvöldið og báðust gistingar og þeim var vísað í hlöðu til að sofa. Daginn eftir voru þeir vaktir um hádegisbilið þeir vildu engan mat en skelltu í sig svörtu kaffi,síðan voru settir undir þá hestar til að koma þeim til Bolungavíkur,þeim gekk furðanlega að halda sér á baki en það þurfti að teyma undir þeim,ég teymdi annan hestinn en Simbi hinn og hann spurði riddarann hvort hann væri mikið slæmur í höfðinu,en fékk lítil svör.Elsa teymdi svo lausan hest sem átti að bera Óla sem beið sofandi í tjaldinu fram á engjunum. Jónas á Minnibakka hafði farið í talstöðina um morguninn og pantað handa þeim vörubíl sem myndi verða við vegarendann um þrjú leytið. Þetta gekk allt að óskum og fylgdarmennirnir komu til baka ánægðir eftir slysalausa ferð. Þetta mun vera ein fyrsta tilraun til skipulagðrar ferðaþjónustu á þessum slóðum og þótti takast vel og eftirminnilega.
MINNING
Ég get ekki lokið þessari upprifjun um þetta sumar á Breiðabóli 1943, án þess að minnast sérstaklega Sigmundar vinar míns sem dvaldi þarna með okkur þá og var einstaklega eftirminnilegur persónuleiki. Hann var bara níu ára borgarbarn sem ólst upp í Reykjavík á hernámsárunum þess vegna var sveitadvölin þetta sumar eins og nýstárlegt ævintýri fyrir hann á hverjum degi,sem hann naut með gleði. Hann var ætíð glaður og brosandi,sló um sig með athugasemdum sem okkur þóttu frumlegar og nýstárlegar og það þótti öllum vænt um hann sem kynntust honum. Þegar hann óx upp gerðist hann togarasjómaður og endaði ævina aðeins 25 ára gamall,í einu hörmulegasta sjóslysi þegar togarinn Júlí frá Hafnarfirði hvarf með 30 manna áhöfn í aftakaveðri á Nýfundnalandsmiðum í febrúar árið 1959.
UNGLINGASKÓLINN, VETURINN 1943-4
Það var gagnfræðaskóli á Ísafirði eins og víða hér á landi á þessum árum,en gagnfræðaskóli var ekki í Bolungavik,hinsvegar var þar svokallaður unglingaskóli handa börnum sem lokið höfðu barnaskólaprófi. Þessi skóli sem kallaður var Framhaldið var ekki ýkja vel sóttur,mig minnir að við værum sjö eða átta þennan vetur sem ég var þar.Þeir sem ætluðu sér í langskólagöngu fengu sér frekar einkakennslu til undirbúnings fyrir inntökupróf í menntaskóla,það þótti skila betri árangri.
Steinn Emilsson stjórnaði þessum skóla og hann var eini kennarinn. Hann byrjaði kennsluna fyrstu dagana á því að láta okkur skrifa upp nokkurskonar kennslubækur,efni sem hann las upp og við skrifuðum niður jafnóðum,þetta var efni sem ég held að hann hafi samið sjálfur og engar prentaðar kennslubækur voru notaðar nema “Enskubók Önnu Bjarnadóttir”,sem hófst á sinn skemmtilega hátt á setningunni “The black cat runs after the fat rat“,Þessi setning hefur oft hljómað í huga mér síðan,í rúm áttatíu ár. Námsgreinarnar voru sex íslenska, enska,danska, stærðfræði, náttúrufræði, landafræði og saga. Steini tókst nokkuð vel að troða þessum fróðleik í okkur og mér finnst þegar ég lít til baka að eg hafi hafi haft ákaflega mikið gagn af þessu námi því Steinn var afburða kennari og margfróður. Steinn Emilsson var útlærður jarðfræðingur úr þýskum háskóla.
ÞORSKAFJARÐARHEIÐI 1945
Vorið 1945 réði ég mig í vegavinnu inn á þorskafjarðarheiði,þeir sem höfðu ráðið sig þar í vinnu fengu um það skilaboð að mæta vissan dag við skipshlið djúpbátsins sem yrði við bæjarbryggjuna á Ísafirði.Þaðan yrði síðan ferðast með skipinu inn að Arngerðareyri og myndu menn verða skráðir í vegavinnuna þar um borð.
Þegar á bryggjuna kom sá maður að þessi ferð hafði verið töluvert undirbúin áður,því við bryggjuna flutu tveir bringingabátar sem höfðu verið festir saman hlið við hlið með köðlum og pallur úr timbri smíðaður yfir þá svo þeir urðu eins og ein fleyta (tvíbytna).Á palli þessa sérkennilega skips stóð þvert á bátana amerískur hertrukkur sem Veturliði Veturliðason hafði keypt af varnarliðinu og breytt honum svoldið og nú var hann á leið í vegavinnu inn á Þorskafjarðarheiði eins og sá fríði flokkur ungra manna sem þennan morgunn mætti um borð í djúpbátinn.
Bringingabátarnir voru teknir í tog af djúpbátnum sem sigldi með þá í eftirdragi inn að Arngerðareyri,þar var þeim lagt upp að klöppunum utan til við þorpið en þar er mjög aðdjúpt um háflæðina. Síðan ók bíllinn í land eftir sliskjum sem lagðar voru undir hjólin og allt gekk þetta eins og í sögu því logn var og ládeyða og mátulega hátt í sjó til að þetta væri framkvæmanlegt. Það var talsverð byggð á Arngerðareyri um þetta leyti,leifarnar af blómaskeiði staðarins sem var löggiltur verslunarstaður kringum aldamótin 1900 og árin þar á eftir.
Verslun Á.Ásgeirsson frá Ísafirði hafði þar aðstöðu og Kaupfélag Nauteyrarhrepps var þar í mörg ár með sláturhús.Ferðamenn fóru þar mikið um sunnan að yfir Steingrímsfjarðar og Þorskafjarðarheiðar á leið sinni til verstöðvanna í Bolungavík,Hnífsdal,Ísafirði og Súðavík.Póstbátur kom tvisvar í viku og símstöð var starfrækt þar og mikið notuð.einnig var svonefnt. Samkomuhús ,þar sem allskonar fundir voru haldnir og skemmtanir.Kaupfélagið reisti þar myndarlegt og vandað hús handa kaupfélagsstjóranum árið 1928 sem stendur enn og þykir fagurt hús og merkilegt.
Farangri okkar vegagerðarmanna var skipað upp úr djúpbátnum og síðan ók Veturliði með okkur á trukknum fram Langadal ,fram að eyðibýlinu Skeggjastöðum,en þar höfðu tjaldbúðir vegagerðarflokksins verið árið áður og þarna stóðu nokkrir timburskúrar sem vegagerðin átti og við vorum strax látnir fara að koma upp tjöldum fyrir væntanlegan flokk að sofa í.þetta voru nokkuð vönduð og rúmgóð tjöld með timburgólfi og tveimur svefnbeddum en húsgögnin voru að öðru leyti frekar fábrotin.Tjöldin voru höfð í einni beinni röð og gangstétt úr timbri var lögð meðfram lengjunni.
Timburskúrarnir voru ætlaðir til ýmissa nota,sá stærsti var matsalur og eldhús í öðrum endanum.Annar var meyjaskemma fyrir ráðskonuna Mörtu og dóttur hennar sem hún hafði miklar gætur á í þessum ungkarlahópi sem þarna var saman kominn.Einnig var þarna geymsluskemma ætluð undir allskonar drasl sem ekki gat verið úti og í öðrum enda hennar var lítið herbergi með tveimur rúmstæðum.Þar réði ríkjum Magnús nokkur Jónsson frá Bolungavík,hann hafði verið þarna í vegavinnu nokkur sumur og hafði komist til þeirra metorða að búa i húsi en ekki tjaldi eins og flestir gerðu. Við þekktumst lítillega við Magnús og hann tók mig strax undir sinn verndarvæng og bauð mér svefnstað í herberginu sínu,auk þess sem ég hafði þau fríðindi að vera vakinn síðastur á morgnana. Magnús hafði það embætti að vekja mannskapinn og vakti mig síðastan svo ég fengi að sofa ofurlítið lengur.
Daginn eftir var mönnum skipað til verka og ég var settur í hóp þeirra sem störfuðu í ofaníburðar námunni og mokuðu möl á bílana,við vorum fimm í þessum hópi allir um tvítugt en sá sjötti var kominn yfir miðjan aldur bóndi þarna úr sveitinni kallaður Jón á Fossi. Þrátt fyrir aldursmuninn gerði hann sér far um að sýna ekki minni afköst en ungu mennirnir og var iðnastur allra með skófluna og hakann.
Jón Erlendur var einstakur persónuleiki, hann var mikill sögumaður og sagði frá þannig að unun var á að hlýða, allt voru þetta ævintýri sem hann samdi jafnóðum. Yfirleitt var hann aðalpersónan í þessum sögum og stundum voru þær talverst barnalegar.En svo þegar Jón vað var við að sumir í okkar hópi voru farnir að gera grín að þessum sögum hans neitaði hann að hafa aðra en fjóra nafngreinda eldri menn viðstadda í tjaldinu þegar hann sagði frá,en það kom ekki að sök því þeir sem heyra vildu sátu bara í grennd við tjaldið og heyrðu hvert orð sem sagt var í tjaldinu.
Þetta var erfið vinna að berja jökuleirinn lausan með haka þarna í námunni og moka þessu síðan upp á bíla sem voru tveir og komu til skiptis eftir að hafa losað ofaníburðinn í veginn og þá áttum við að moka á bílpallinn þangað til bílstjóranum þótti komið nóg en til þess þurfti stóra hrúgu. Við vorum ungir og hraustir og okkur líkaði vinnan vel og þetta er í endurminningunni virkilega skemmtilegt sumar. Það var alltaf frí á sunnudögum og það var ráðgast um það alla vikuna hvað gera skyldi á næstu helgi. Hvítasunnu helgina var ákveðið að fara til messu á Nauteyri,þar ætlaði Séra Þorsteinn að ferma tvö börn úr sveitinni og nú skyldi haldið til kirkju.Veturliði ætlaði að aka okkur á trukknum og á palli hans sátum við meðan ekið var sem leið lá niður Langadal að brúnni við Neðribakka og yfir hana en þar endaði bílvegurinn og ekkert framundan nema hestagöturnar.En Veturliði hafði hugsað sér að aka á trukknum alla leið út að Nauteyri og verða þar með fyrstur manna til að aka þessa leið á bíl og nefndi það við okkur farþegana að við mundum veita þá aðstoð sem við gætum ef bíllinn festist einhversstaðar á leiðinni,okkur strákunum leist vel á þetta og hétum því að bera grjót undir hjólin og fylla í lækina ef þess þyrfti með,en það kom fljótlega í ljós að það þurfti meiri aðstoð en nokkra stráka í sparifötunum til að koma svona þungum bíl yfir keldurnar í Rauðamýrar engjunum og eftir að við höfðum fest trukkinn þrisvar og haft mikið fyrir að ná honum af stað aftur gáfumst við upp og lögðum af stað labbandi til að missa ekki af fermingarmessunni því tíminn var orðinn naumur.
Kirkjuathöfnin fannst mér dálítið sérstök,það var enginn sérstakur kór en allir sungu hver sem betur gat og söngurinn var sannarlega margraddaður. Fermingarbörnin voru bara tvö,strákur og stelpa sem stóðu hlið við hlið fyrir altarinu eins og tilvonandi brúðhjón,en þetta gekk allt fyrir sig á hefðbundinn hátt að sjálfsögðu og eftir messuna var öllum kirkjugestunum boðið í kaffi og meðlæti í stofunni á Nauteyri og að því loknu var haldið heim á leið,en okkar beið erfitt og óþrifalegt verk að koma trukknum aftur til baka yfir mýrasundin og á sæmilega færan akveg.Okkur tókst það nú samt með tímanum að komast á þjóðveginn.En sparifötin voru illa farin eftir þetta ævintýri og við afar þreyttir.
Eftir þetta ferðalag með Veturliða á trukknum var farið að heyrast í okkar hópi að stórhættulegt gæti verið að flytja hóp manna sitjandi flötum beinum á vörubílspalli langar leiðir eftir misjöfnum vegum.Auk þess væri mjög óþægilegt að sitja svona með fæturnar beina og þess vegna sætu margir yst á röndinni og létu fæturnar dingla fram af,sem væri afar hættulegt.
Þetta barst til eyrna ráðamanna vegagerðarinnar,svo það varð úr að ráða Halldór Pálsson frá Höfða í Jökulfjörðum,sem var þarna í vinnu, til að smíða trébekki (Svokallað Boddý) til að setja á pallinn. Það var rekin saman grind til að leggja á bílpallinn og svo voru fimm trébekkir festir á grindina og síðan plankar utanum alltsaman svo hægt var að lyfta þessu af í heilu lagi og nægur mannskapur var fyrir hendi til að koma því fyrir á pallinum þegar til stóð að ferðast eitthvað. Um sumarið fréttum við af fimleikahátíð sem til stóð að halda í Bjarkalundi sunnan heiðar.
Breiðfirðingafélagið var þetta sumar að hefja byggingu samkomuhúss í Bjarkalundi og þegar leið á sumarið var hluti hússins orðinn fokheldur og þá var skipulögð íþróttahátíð á sléttum velli þar í grennd. Við vegagerðarmenn ætluðum auðvitað flestir þangað og Veturliði ætlaði að aka okkur á trukknum með fínu sætunum. Þetta gekk allt vel veðrið var gott þessa helgi og allt lék í lyndi. Við þrír sem vorum nú orðnir sérstakt lokað kompaní,töldum okkur vera meiri gáfumenn en almennt gerist og héldum okkur því sér frá hinum treggáfaða hóp almennra skóflumanna. Við settumst afsíðis á fimleikasýningunni sem þarna var til skemmtunar hjá ungmennafélaginu og gerðum stólpagrín að spriklinu í ungu mönnunum úr sveitinni sem voru þarna að sýna listir sínar, okkur þótti þetta ákaflega hjákátlegar aðfarir og til lítils gamans og ennþá minna gagns.
Þegar fimleikunum lauk var veitingasalur opnaður í nýja húsinu sem ekki var nú nema rétt fokhelt,en þar hafði verið raðað upp borðum og stólum í salnum og hægt var að fá afgreidda gosdrykki á borðin,en við vorum auðvitað altof kaldir karlar til að drekka svoleiðis gutl og spurðum hvort ekki væri hægt að fá eittvað sterkara.Afgreiðslustúlkurnar sögðust geta útvegað okkur pilsner og við létum okkur nægja að drekka pilsnerinn og gerðum það svikalaust því þegar eitt glas tæmdist var strax beðið um annað og þannig gekk þetta fram eftir kvöldi,við drukkum pilsner og fórum annað slagið út að pissa bak við hús.
Þegar kvöldaði og skotsilfur okkar félaganna tók að þrjóta því pilsnerinn var dýr og við fjárvana,þess vegna yfirgáfum við samkvæmið gengum út og lögðum okkur milli bekkjanna á bílpallinum hjá Veturliða til að vera vissir um að við yrðum ekki skildir eftir þegar heim væri haldið,en slíkt hafði stundum komið fyrir bestu menn þetta sumar þegar svipað stóð á.
Við vorum vaktir þegar ballinu lauk,því Veturliði kallaði hópinn saman til spyrja hvort við vildum að Kristmundur yrði bílstjórinn á leiðinni heim því sjálfur hefði hann aðeins fengið sér í glas fyrr um kvöldið en Kristmundur væri örugglega edrú. Það var sameiginlegt álit okkar farþeganna að Veturliði væri örugglega í standi til að aka okkur heim.Hann hefði ekið okkur á hverri helgi hingað til og við færum ekkert að breyta því núna. Veturliða líkaði vel þessi ákveðna afstaða okkar svo hann ræsti trukkinn og við lögum af stað glaðir og ánægðir heim í búðirnar að loknu þessu helgar fríi.
Par frá Hólmavík kemur í heimsókn
Dag nokkurn um kvöldmatarleytið sást fólk koma gangandi ofan af Steingrímsfjarðarheiði,það virtist stefna á tjaldbúðirnar okkar og þegar nær dró sást að þetta var karl og kona og þeir sem þekktu til töldu sig þekkja þarna pör sem bjuggu á Hólmavik og voru nokkuð þekktar persónur við Djúp. Hafliði Þorsteinsson og sambýliskona hans sem kölluð var Jasína. Þau voru það sem í þá daga var kallað að vera andlega vangefin,en nú mun það ver kallað að vera þroskaheftur. Hafliði var mjög smámæltur og átti því erfitt með að segja þorsteinsson svo að gárungarnir kölluðu hann Hafliða hottentot.
Þetta máhelti og sérkennileg framkoma varð til þess að gert var að þeim grín og sköpuðust um þau ýmsar kátlegar sögur sjálfsagt flestar ýktar,en sjálfsálit þeirra var í ágætu lagi og þau fóru oft í ferðalög um sveitir vestra og þeim var allsstaðar vel tekið og nutu gestrisni fólks víðast hvar. Marta matráðskona okkar tók á móti þeim með virktum og bauð þeim inn í borðsal til að matast enda var kvöldmat nýlokið hjá okkur og nægur afgangur og þáðu þau það með þökkum,en þegar við strákarnir ætluðum inn líka benti Marta okkur á að ef við sýndum gestunum ekki fulla virðingu yrðum við samstundis reknir út,en við lofuðum fullri kurteisi að sjálfsögðu.
Borðsiðir þeirra voru kannski nokkuð frjálslegir og guðsgaflarnir notaðir meira en málmurinn,þau nutu matarins af nokkurri áfergju enda orðin matarþurfi eftir langa og erfiða dagleið.Að lokinni máltíð báðu þau guðlaun fyrir matinn en þegar staðið var upp frá borðum prumpaði Hafliði hraustlega og þá sendi Marta okkur eitrað augnaráð og benti með krepptum hnefa á dyrnar en við hlupum hlæjandi út um þær. Marta fór síðan að spyrja hvort þau ættu vísan næturstað,en þau sögðust mundu fara niður að Kirkjubóli þar væru þau vön að gista þegar þau færu hér um, svo Marta sendi eftir Veturliða og bað hann að aka þeim niður eftir þau væru eflaust dauðþreytt eftir langa göngu og þar með lauk heimsókn þeirra og endaði hún vel að vonum.
Á Hanhóli
Vorið 1946 gerðist ég vinnumaður á Hanhóli. Hannibal Guðmundsson og Þorsteina Jónsdóttir Fluttu að Hanhóli 1944,þau komu frá Þernuvík þar sem þau höfðu búið í nokkur ár.Hanhóll var ríkisjörð og hafði verið í eyði um nokkurn tíma þegar þau tóku við. Þetta var dugnaðarfólk á besta aldri ,Hannibal var bjartsýnn á framtíðina þarna og stóð um vorið í jarðabótum til að stækka túnið,hann var byrjaður á að ryðja burt gömlum útihúsa tóftum á hólnum norðan við bæjarhólinn og nú var verið að fjarlægja allt grjót úr landinu þarna og steinar sem voru mjög stórir eða jarðfastir varð að sprengja með dínamíti til að hægt væri að fjarlægja þá.Við vorum því dögum saman að bora í þá holur til að troða sprengiefninu í og það var seinlegt verk að bora þessar holur með hamri og meitli en önnur ráð höfðum við ekki,en það var aftur á móti skemmtilegt að fylla holuna af sprengiefni stinga í það kveikiþræði,kveikja í þræðinum,hlaupa í var og bíða í nokkrar sekúndur þangað til allt sprakk með háum hvelli og steinninn hrökk meira og minna í tætlur.Þessa tækni hafði Hannibal lært einhversstaðar og ég held að honum hafi þótt þetta ennþá skemmtilegra en mér.
Þegar grjótið hafði verið fjarlægt var landið herfað með spaðaherfi sem tveir hestar drógu ,síðan var stráð yfir grasfræi og valtað yfir til að þjappa jarðveginn .þessi sáðslétta stækkaði túnið á Hanhóli umtalsvert enda var það ekki stórt fyrir, en núna er stór hluti sléttunnar horfinn undir veginn sem liggur heim að bænum.
GULLEGGIÐ
Þetta sumar fór hænsnakynbótabúið á Reykjum í Mosfellssveit að auglýsa kynbótakjúklinga sem þeir myndu senda hvert sem væri út um allt land,ef einhver hefði áhuga fyrir að koma sér upp hænsnabúi. Hannibal hringdi og pantaði sér hundrað kjúklinga og fékk þá senda í fjórum pappakössum sem voru með göt á hliðunum svo ungarnir gætu andað.Þeir voru sendir með skipi og voru fjóra daga á leiðinni en það kom ekki að sök því ungar sem eru nýkomnir úr eggi hafa í sér næringu til nokkurra daga og geta lifað dögum saman án þess að fá fóður er manni sagt.
Þeir voru sem sé allir lifandi þegar við fengum þá í hendur og nú tók við nokkurra mánaða tími við að halda á þeim hita og gefa þeim að borða og drekka svo þeir stækkuðu og yrðu að hönum og hænum.Eftir þrjá mánuði var það komið í ljós hvoru kyninu þeir tilheyrðu og það var nokkurn veginn til helminga hanar og hænur.Hanarnir voru teknir og hálshöggnir allir nema tveir,annan höfðum við til að þjónusta hænurnar okkar en Ingveldur á Geirastöðum fékk hinn, henni fannst hann svo fallegur að hún bað okkur að gefa honum líf og láta sig fá hann en þegar hann stækkaði varð hann mannýgur og réðst á húsmóður sína svo hann var dæmdur til dauða og eins fór fyrir okkar hana þegar hann varð fullorðinn fór hann að ráðast á börnin á bænum svo að hann var líka gerður höfðinu styttri.
Ungu hanarnir höfðu allir verið aflífaðir þegar þeir voru þriggja mánaða gamlir,hausinn,fæturnir og stélið var fjarlægt og búkurinn síðan sendur á Ísafjörð til sölu í Björnsbúð,þeim var stillt þar út í glugga þar ,fólki varð starsýnt á þessa fuglategund og spurði hvort þetta væru hrafnar,enda var búkurinn svartur.Enginn vildi kaupa svo endirinn varð sá að kona nokkur sem hafði menn í föstu fæði keypti hrúguna fyrir slikk. Hænurnar fengu náttúrlega allar að lifa og innan skamms fóru þær að skila okkur eggjum í varpkassa sem við útbjuggum fyrir þær. Eggin voru seld í verslun Einars Guðfinnssonar og við vorum kátir með hænsnabúið okkar sem við sáum fram á að myndi skila góðum arði í framtíðinni og skírðum fyrirtækið og það var látið heita GULLEGGIÐ það þótti okkur fallegt nafn.
HANHÓLSHESTARNIR
Hjörtur Sturlaugsson hafði verið bóndi á Hanhóli nokkru áður en Hannibal kom þangað.Hjörtur var alþekktur hestamaður og hestaprangari. Hann fór oft í leiðangra suður í Barðastrandasýslu til að kaupa hross af bændum og seldi þau síðan nágrönnum sínum við Djúp. Hannibal hafði keypt ungan og ótaminn hest af Hirti um veturinn og var að fikta við að temja hann þetta vor,einn daginn átti að prófa að setja hann ásamt öðrum eldri hesti fyrir slóða.
Það var byrjað á því að útbúa á þá aktauma og láta þá ganga hlið við eftir hlaðinu fram og aftur og það gekk bara nokkuð vel hjá Hannibal að stjórna þeim með aktaumunum svo það var ákveðið að beita þeim fyrir slóðann og sjá hvernig það gengi,það kom í minn hlut að festa keðjur úr slóðanum í aktygi hestanna og þegar ég fór að skrölta með keðjurnar fór sá ungi að ókyrrast, stappa niður fótum, blaka eyrum og frýsa en sá eldri tók fljótlega að smitast af honum og sýndi öll einkenni hræðslu engu síður en sá yngri.
Þeir hættu að hlýða taumhaldinu og drógu Hannibal á eftir sér í kringum kerru sem stóð þarna álengdar,þegar Hannibal féll um kerruna og hún fór af stað ærðust þeir alveg og hlupu á harða stökki niðaur allt tún og niður á eyrarnar fyrir neðan túnið. Við Hannibal hröðuðum okkur á eftir þeim og þegar við komum niður eftir stóðu þeir grafkyrrir hlið við á bakkanum á keldu sem heitir Pirrapyttur og störðu niður í vatnið titrandi af hræðslu og gengu upp og niður af mæði,þeir róuðust þó fljótlega þegar við huguðum að þeim,tókum af þeim aktygin og settum þá í tjóður til næsta dags. En jafn snarvitlausir og þeir urðu skildi ég aldrei hversvegna þeir stoppuðu þarna við pyttinn því það var lítið mál að króka fyrir kelduna.
Það hafði stundum komið fyrir að þessir hestar fældust og yrðu hræddir en þegar farið var að slá Eyrarnar fyrir neðan túnið voru þeir að draga sláttuvélina dag eftir dag og þeir urðu þreyttir og leiðir á að labba þarna hring eftir hring með sláttuvélina aftan í sér jafnvel vikum saman,mér fannst ég sjá lífsgleðina slokkna í augum þeirra og ég fór að þurfa að nota svipu annað slagið til að herða á þeim.
Þegar heyskapurinn hófst reyndist ég nú ekki heppilegur sláttumaður,ég kunni lítið í þeirri list að þynna ljá á hverfisteini svo það beit ekki ekki vel hjá mér við sláttinn á þurrum hólum Hanhólstúns. En svo vel vildi til að Hannibal hafði ráðið til sín þokkalegan sláttumann Friðrik Árnason að nafni ,hann og Hannibal sáu um að slá heimatúnið en ég var settur í að heyja á Eyrunum sem voru neðan túns,þetta var marflatt flæðiengi sem slegið var með hestasláttuvél en hún var útbúin með svokallaðri „Skúffu“ sem fest var aftan á sláttuvélarljáinn.Skúffan tók við grasinu af ljánum og maður gat lyft rammanum með einu handtaki og þá tæmdist innihaldið sem leit út eins og vel saxað fang af heyi. Maður tók fyrir ferkantaðan stóran reit og sló í hringi alltaf á sama veg og losaði úr skúffunni í hornunum. Þetta var ágætis útbúnaður,ekkert þurfti að raka og föngin var þægilegt að taka og henda upp í vagn til að flytja þau upp á tún til að þurrka stargresið áður en það var látið í hlöðu.
TÓFUYRÐLINGARNIR
Hannibal hafði stundað mikið skotveiði allt frá því hann var ungur og eignaðist byssu. Það var einkum rjúpnaveiði og tófuskyttirí á veturna ,en grenjavinnsla á vorin og þetta stundaði hann einnig eftir að hann kom að Hanhóli. Þegar ég kom þarna um vorið hafði hann nýlega unnið greni og komið með fimm yrðlinga hein og látið þá í steyptan votheysturn sem var í enda hlöðunnar þar var þeim haldið föngnum en þegar þeir stækkuðu fengu þeir að fara undir bert loft og krakkarnir léku sér við þá eins og hverja aðra hvolpa og þeim þótti mjög vænt um þessa vini sína svo enginn dirfðist að tala um líflát í sambandi við dvöl þessara ungu sumargesta.
Þegar leið á sumarið og yrðlingarnir höfðu stækkað og þroskast mikið fóru að heyrast köll úr hlíðunum í kring,það var gagg villtra refa sem höfðu orðið varir við systkynin sem dvöldu heima á bænum og þessu gaggi svöruðu yrðlingarnir jafnan en við gátum lítið ráðið í hvað rætt var á þessu refa máli,hinsvegar kom að því þegar dagar tóku að styttast og skammdegi færðist nær að einn og einn yrðlingur hvarf úr hópnum en sást svo kannski aftur nokkrum dögum seinna koma og gæða sér á matnum úr matardollunni en loks einn morguninn var allur hópurinn horfinn og lét ekki sjá sig aftur vikum saman og þá var talið fullvíst að þeir væru farnir fyrir fullt og allt. Hannibal var kærður fyrir sveitarstjórn,sakaður um að hafa alið upp refi og sleppt þeim síðan til fjalla. Þegar rannsókn hafði farið fram þótti einsýnt að Hannibal væri sekur um þetta framferði og hann fékk þann Salómonsdóm að hann skyldi verða jafnmörgum tófum að bana og hann hafði alið upp.Hannibal var þrautþjálfuð refaskytta og átti ekki í neinum erfiðleikum með að skila fimm tófuskottum á hreppsskrifstofuna fyrir árslok og þar með var málið dautt.
Lambið sem dó ekki strax
Þegar leið að hausti var farið að huga að göngum og réttum, Hannibal var skipaður gangnastjóri í dalnum og þegar gangnadagurinn rann upp bjartur og fagur skipaði hann mönnum til verka.Hann vissi að ég var með þeim ósköpum fæddur að ég sá illa frá mér, Þess vegna var ég látinn „standa fyrir“ eins og það var kallað.Það þýddi að ég stóð niðri á láglendinu og beið þess að kindunum væri stuggað niður úr hlíðunum af þeim sem þar smöluðu, það þótti nú heldur óvirðulegt að vera fyrirstöðumaður og í það voru helst notuð börn og liðléttingar eftir aðstæðum,en svona var nú þetta. Í kindahópnum var lambhrútur sem hafði verið dýrbitinn af tófu.Þegar refur ræðst á fé bítur hann fyrst í snoppuna ,hangir þar og drekkur blóð. Þessi dilkur var þannig særður og leit ílla út hann var máttvana og rakst ekki með fénu,ég var því sendur með hann heim að Hanhóli og sagt að slátra honum og ganga frá kjötinu meðan verið væri að rétta.Ég bar dilkinn heim á bakinu og sagði húsmóðurinni hvað til stæði, bað hana að koma út rétt strax og hræra í blóðinu. Ég hafði oft aðstoðað við slátrun og þekkti handbrögðin vel,en aldrei hafði ég slátrað kind sjálfur svo nú reið á að sýna hvað maður gæti.
Ég vissi hvar byssan var geymd hlóð hana og tók hana ásamtbeittum hníf með mér út,valdi stað á bak við fjárhúsin þar sem slátrunin skyldi fara fram og Þorsteina fylgdist með mér. Ég sótti lambið hafði það milli fóta mér,greip byssuna og skaut það í hnakkann,en lambið dó ekki,það stóð á fótunum eins og ekkert væri og ég sá að Þorsteinu var brugðið. Ég beit á jaxlinn ,greip hnífinn og skar af því hausinn. Þorsteina var engin kveif hún hrærði í blóðinu og aðstoðaði mig síðan við að ganga frá kjötinu. Þannig lauk þessu fyrsta böðuls-starfi mínu með sóma þó það byrjaði með ósköpum. Mér hafði líkað þarna vel um sumarið svo að ég var þarna veturinn líka og aftur seinna að sumarlagi.
Til Reykjavíkur
Ég var búinn að vera atvinnulaus frá því um haustið,það var enga vinnu að hafa í Bolungavík en allir sem það gátu flykktust suður í svokallaða Bretavinnu á Keflavíkurflugvelli. Það var þægileg vinna og vel borguð. Ég sótti um vinnu á Vellinum en loksins þegar ég fékk svar var það neikvætt ég væri vinstri sinnaður og þannig þenkjandi menn væru ekki velkomnir á svæðinu.hvaðan þessir gestir okkar höfðu þessar upplýsingar um mig veit ég ekki enda var það ekkert skilgreint nánar.Það var að vísu alkunnugt í Bolungavík að við Ágúst Vigfússon kennari værum miklir mátar og Ágúst var talinn einn stækasti Rússadindill og Stalín aðdáandi í þorpinu svo það þurfti ekki frekar vitnanna við. Fyrir mig var Keflavíkurvallarhliðið læst.
Ég fór nú samt að huga að suðurferð því María systir mín sem hafði skilið við Óskar sinn og hann kominn með nýja konu,en sjálf var hún búin að koma dætrum sínum fyrir hjá góðu fólki og ráða sig sem heimilisaðstoð hjá fyrrverandi mági sínum Valgeiri Guðjónssyni múrara sem bjó á Njálsgötu 32 í Reykjavík. Sigríður Sveinsdóttir kona Valgeirs var að berjast við einhvern heilsubrest og þurfti því á aðstoð að halda. Þegar farið var að huga að skipaferðum suður fréttum við að skip væri að fara til Reykjavíkur næsta þriðjudag og myndi koma við í Bolungavík til að taka farþega.
Þennan dag var talsverður sjógangur og mikil hreyfing við brimbrjótinn svo skipið lagðist ekki að en kom aðeins með bóginn að kantinum svo þeir sem ætluðu um borð urðu að skutla sér yfir borðstokkinn það augnablik sem skipið var nógu nálægt. Ég og tveir aðrir reyndum þetta heljarstökk og komumst um borð,en hræddur var ég og skalf á eftir. Þetta ferðalag var ógeðslegt frá upphafi til enda,farþegarnir voru svo margir að kojurnar voru fullar og afgangurinn af fólkinu lá á káetugólfinu svo erfitt var ganga um án þess að stíga á handlegg eða fót svo þétt var legið.Ég lá ásamt öðrum manni andfætis á bekk framan við eina kojuna.
þessi ferðafélagi minn var frá Ísafirði og ég frétti síðar að hann var þekktur alki úr strætinu,hann var kallaður Jói andskoti þarna suðurfrá en þetta var öðlingsmaður sem reyndi að láta mér líða vel í þessari sjóferð eftir því sem hægt var. Flestir farþegarnir voru ákaflega sjóveikir og Jói safnaði handa þeim ílátum til að æla í og gaf þeim vatn til að skola munninn,hann var hinn hjálpsami hjúkrunarengill þarna en enginn virtist meta það við hann og engan sá ég þakka honum að ferðalokum. Við komum til Reykjavíkur seinnipart nætur og það kom fólk um morguninn til að taka á móti vinum og ættingjum en enginn kom til að taka á móti mér og ég treysti mér ekki til að fara neitt upp í borgina, enda algerlega ókunnugur.
Þegar leið á morguninn birtist Jói vinur minn á bryggjunni ég var auðvitað mjög feginn að sjá hann og bað hann að hjálpa mér að komast upp í bæ. Hann tók vel í það en tjáði mér jafnframt að hann væri illa staddur fjárhagslega og spurði hvort ég gæti ekki lánað sér nokkrar krónur,ég fór að róta í veskinu og þar var í einu hólfinu hálfur tíu króna seðill hann hafði dottið í sundur í brotinu og öðrum helmingum hafði ég einhvern veginn glatað. Þegar Jói sá þennan hálfa seðil sagði hann “Blessaður láttu mig hafa þennan hálfa, ég fer með hann í bankann og fæ nýjan seðil og þá græðum við báðir”. Hann fékk seðilinn stakk honum í vasann og labbaði svo með mér upp á Lækjartorg að einum strætisvagninum og sagði við bílstjórann “þessi drengur ætlar upp á Njálsgötu 32.láttu hann vita þegar hann á að fara út”.Ég fór inn í vagninn og litaðist um í þessum flotta vagni. Mér fannst þetta svakalega stór og flottur bíll með hægindastólum sem festir voru við gólfið með krómuðum rörum og hurðirnar opnuðust og lokuðust sjálfkrafa. Það var ekkert annað fólk í vagninum og ég þorði ekki að setjast niður þar til bílstjórinn sagði “Sestu niður drengur”. Svo ók bíllinn af stað og tók nokkrar beygjur fyrir götuhornin uns hann stoppaði og bílstjórinn kallaði “Frakkastígur”,ég sat sem fastast og bílstjórinn leit á mig og sagði: “þú átt að fara hérna úr”. Ég sagði: “Nei, ég er að fara upp á Njálsgötu”.Bílstjórinn leit á mig með blendnum svip og endurtók “Farðu núna út, þú ert á Njálsgötu”.Ég hlýddi því og fór út til að leita að númer 32 og þegar ég hringdi dyrabjöllunni við útidyrnar kom María systir mín til dyra og þá vissi ég að mér væri borgið.