Álfadalur

Leiðin frá Sæbóli og fram að eyðibýlinu Álfadal er rétt liðlega tveir kílómetrar en miðja vega milli þessara tveggja bæja stendur nýbýlið Ástún og er í landi Álfadals. Í Ástúni var búið frá 1930-1989 en hin forna bújörð Álfadalur fór í eyði árið 1969 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 308 og 310). Þegar gengið er frá landamerkjunum og fram að Álfadal eru Álfadalshlíð og Álfadalsfjall á hægri hönd. Fjallsbrúnin er í um það bil 500 metra hæð og neðan við hana er hár og óslitinn klettaveggur sem dregur að sér athygli vegfarenda.

Flugvöllurinn, sem nú (1993) hefur þjónað Sandmönnum í aldarfjórðung, er hér neðan við veginn og nærri lætur að landamerkin milli Sæbóls og nýbýlisins úr landi Álfadals séu um miðjan flugvöllinn. Nær Álfadal og framan við landamerki Álfadals og Ástúns er félagsheimilið Vonaland[1] sem Sandmenn reistu á árunum 1943 og 1944.[2] Félagslíf hafði þá náð að dafna á Ingjaldssandi um alllangt skeið, allt frá stofnun ungmennafélags árið 1908.[3] Á síðustu árum 19. aldar og rétt eftir aldamótin voru tvær samkomur reyndar haldnar á Ingjaldssandi á hverjum vetri. Sú fyrri var áramótabrenna á Sæbóli á gamlárskvöld en þá var leikið á harmóniku og dansað á svelli í bjarma frá bálkestinum.[4] Hin samkoman var jafnan haldin á útmánuðum, annaðhvort á Sæbóli eða í Hrauni, og þá var dansað í stofunum á þessum bæjum.[5] Á þessar skemmtanir komu jafnan nær allir Sandmenn.[6] Á þeim mannamótum var fólk jafnan með gleðibrag og oft var þar ærið líf í tuskunum.[7]

Upp frá bænum á Álfadal gengur svolítill fjalldalur til suðvesturs og heitir Álfadalur. Um hann rennur Álfadalsá sem á upptök sín þar í dalbotninum og fellur í fossi fram af brún dalsins. Fossinn er nú almennt nefndur Álfadalsfoss.[8] Í riti sínu Aldarfar og örnefni í Önundarfirði segir Óskar Einarsson læknir hins vegar að fossinn heiti Dalafoss[9] en það nafn mun nú vera óþekkt.[10] Sá hluti árinnar sem er neðan við fossinn ber nafnið Álfadalsþverá.[11] Framan við neðri hluta túnanna á Álfadal rennur hún nú í nýjum farvegi en þangað var henni veitt um miðbik tuttugustu aldar.[12] Áður rann hún þar sem nú er tún.

Framan við Álfadal rís fjallið Hraunshorn sem gengur fram úr fjalllendinu vestan við Ingjaldssand og setur sterkan svip á allt umhverfið. Landamerki Álfadals og jarðarinnar Hrauns, sem er hér nokkru framar á Sandinum, liggja úr Hraunshorni ofan í lægð eina sem heitir Geil og er milli Álfadalsborga og Hraunsborga.

Lítið eitt framan við ármót Álfadalsþverár og Langár er stórt holt sem heitir Brúarholt. Þar var áður brú yfir Langá.[13] Niður Brúarholtið og út í Langá rann áður lítill lækur sem nú mun vera horfinn. Hann hét Merkjalækur og skipti löndum milli Álfadals og Hrauns.[14] Lækur þessi var nær beint á móti bænum á Brekku. Árdalur Langár, rétt framan við Brúarholt, heitir Dýárdalur.[15] Landamerkjalínan er nú dregin frá dýinu í nýnefndum árdal og þaðan sjónhending í rauðan stein á Geilarkambi[16] en á Geilina sem merkin liggja um í átt til fjalls var áður minnst. Á móti jörðunum Brekku og Villingadal, sem eru handan ár, skiptir Langá löndum. Eyðijörðin Villingadalur er lítið eitt neðan við Álfadal en Brekka skammt framan við ármót Álfadalsþverár og Langár. Frá gamla bæjarstæðinu á Álfadal blasa við bæjarhúsin á Brekku.

Álfadalur liggur miðsvæðis á Ingjaldssandi og þaðan má komast fótgangandi til hvers sem er af hinum fimm bæjunum á Sandinum á hálfri klukkustund eða enn styttri tíma. Þaðan sést líka mjög vel yfir allan neðri hluta Sandsins. Af þessum ástæðum hafa ýmsir látið sér detta í hug að Álfadalur hafi verið landnámsjörð og þar hafi þeir búið Ingjaldur Brúnason og Ljótur spaki sem hér var áður frá sagt (sjá hér Svipast um á Ingjaldssandi).[17] Um þetta verður þó ekkert fullyrt en telja verður að minnsta kosti jafn líklegt að hinir fyrstu íbúar Ingjaldssands hafi reist bæ sinn á Sæbóli (sjá hér Svipast um á Ingjaldssandi).

Að fornu mati var Álfadalur talinn 36 hundraða jörð[18] sem bendir til þess að þar hafi búskaparskilyrði verið talin ákjósanleg að mörgu leyti. Í þeim efnum hefur beitin í Nesdal og á Heiðum skipt sköpum eins og sjá má í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710.[19] Í byrjun 18. aldar var reyndar talið að ekki væri hægt að fóðra á jörðinni nema fjórar kýr en samt voru þar 7 kýr auk þriggja annarra nautgripa og 130 sauðkinda árið 1710.[20]

Um Álfadal er fyrst getið í varðveittum heimildum í máldaga Sæbólskirkju frá árinu 1306 en þar segir að til kirkjunnar á Sæbóli skuli gjaldast tíundir og ljóstollar frá öllum bæjum á Ingjaldssandi utan fyrir Álfadal.[21] Ummælin sýna að bænhús eða hálfkirkja hefur þá þegar verið risin á Álfadal og í máldaganum kemur fram að heimafólk á Álfadal átti að greiða sín gjöld til hennar.[22] Um hálfkirkjuna á Álfadal er komist svo að orði í máldaganum frá 1306:

 

Þar er leyfður heimamanna gröftur og fátækra manna tíund þeirra sem þar andast. Þar skal syngja annan hvern helgan dag og allar tíðir Nikulásmessu en síðar Maríumessur allar, allraheilagramessu og næsta dag eftir. Þar skal gjalda presti tvær merkur.[23]

 

Í heimildum frá 15. og 16. öld er sjaldan getið um hálfkirkjuna á Álfadal en þó má ætla að hún hafi jafnan staðið þar frá því fyrir 1300 og fram á 18. öld eins og hér verður síðar vikið að. Árið 1431 fékk kirkja þessi eitt hundrað að gjöf frá Guðna Oddssyni, ríkum bónda sem lengst bjó á Hóli í Bolungavík[24] og var langafi Björns Guðnasonar í Ögri er síðar varð mestur höfðingi á Vestfjörðum. Í skjallegum heimildum verður næst vart við hálfkirkjuna á Álfadal rétt fyrir 1530 er Torfi Björnsson frá Ögri veitti manni blóðugan áverka þar í kirkjugarðinum og saurgaði þar með hinn vígða reit.[25] Torfi hafði þá haldið Sæból um nokkurt skeið en átti í átökum við kirkjunnar menn og frændur sína á Reykhólum (sjá hér Sæból). Fyrir saurgun kirkjugarðsins á Álfadal voru erfingjar Torfa dæmdir til að greiða biskupi og kirkjunni 15 merkur þann 13. ágúst 1530 en sjálfur var Torfi látinn þegar dómurinn var kveðinn upp.[26]

Í Gíslamáldaga frá árunum upp úr 1570 er getið um hálfkirkju á Álfadal og þar má sjá að hún fær engar tíundir nema af heimajörðinni á Álfadal.[27] Í þeim efnum hefur allt verið í sömu skorðum og verið hafði árið 1306 og hér var áður frá sagt. Gíslamáldagi er nú elsta heimild um gripi hálfkirkju þessarar og virðist ástand þeirra hafa verið heldur bágborið er hér var komið sögu. Um þau efni farast höfundi máldagans orð á þessa leið: Hálfkirkjan í Álfadal á eina klukku rifna og altarisklæði rifið og rotið.[28] Lýsing þessi á gripum kirkjunnar bendir til þess að strax upp úr siðaskiptum hafi prestarnir hætt að syngja tíðir á Álfadal en kirkjan stóð þó enn uppi í byrjun 18. aldar því í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 segir svo um Álfadal: Bænhús hefur hér verið að fornu og stendur það enn en ekki embættað í manna minni.[29]

Þess var áður getið að hálfkirkjan á Álfadal átti þriðjung lands í Nesdal (sjá hér Nesdalur) og beitarítak á Heiðum (sjá hér Sæból) og í Jarðabók Árna og Páls er sagt að bænhúsið eður jörðin eigi líka skipsuppsátur og nausts gjörð … yst á Mölum í Sæbólslandi.[30] Um aðrar eignir, réttindi eða ítök hálfkirkjunnar á Álfadal virðist hvergi vera getið.

Svo virðist sem Álfadalur hafi haldið eignarréttindum sínum í Nesdal og á Heiðum fram yfir aldamótin 1900. Í sóknalýsingunni frá 1840 er getið um selstöðu frá Álfadal og Sæbóli framan við Selá[31] svo ljóst er að ábúendur beggja jarðanna hafa nýtt sumarbeitina á Heiðum. Jóhannes Davíðsson, sem ólst upp á Álfadal á árunum kringum aldamótin 1900, segir að beitarfé þaðan hafi þá jafnan verið rekið í Nesdal án þess að nokkrum athugasemdum væri hreyft varðandi eignarréttinn.[32] Jóhannes lætur þess einnig getið að á þeim árum hafi fólkið á Álfadal tekið upp mó fram á Heiðum og hafi sú mótekja jafnan verið látin átölulaus.[33]

Í sóknalýsingu sinni frá árinu 1840 greinir séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum svo frá að enn sjáist móta fyrir kirkjugarðinum á Álfadal og tekur fram að greina megi einstök leiði þar í garðinum.[34] Svo mun reyndar enn hafa verið á fyrstu áratugum tuttugustu aldar.[35]

Bænhúspartur, er svo hét í túninu á Álfadal, var neðan við gamla bæjarhólinn (sjá hér bls. 20).[36] Í Bænhúspartinum voru veggir hins forna kirkjugarðs enn sýnilegir á árunum kringum 1900 og þar í garðinum mótaði fyrir mörgum leiðum.[37] Jóhannes Davíðsson, sem hér var áður nefndur, segir að vegalengdin frá neðri bænum á Álfadal niður að Bænhúsgarðinum hafi verið 20-30 metrar.[38] Nánar segir Jóhannes frá kirkjugarðinum á Álfadal með þessum orðum:

 

Í kirkjugarðinum var heyhlaða, líklega byggð upp úr bænhúsinu, og var hún niðurgrafin, cirka einn metra. Kálgarður var þar framanvert við hlöðuna … . Einar Jóhannesson sem bjó á Álfadal eftir föður minn, fyrir og um 1920, stækkaði umræddan kálgarð sem kallaður var Bænhúsgarður. Kom hann þá niður á ófúin mannabein. Niður frá bænum, í stefnu á kirkjugarðinn umhverfis bænhúsið, sá glöggt fyrir upphækkun sem var eins og upphlaðinn vegur. …Þetta var kallaður undirgangur og sagt að undirgangur hefði verið þar undir frá bænum og niður í bænhúsið.[39]

 

Á árunum upp úr síðustu aldamótum var sú þjóðsaga sögð á Ingjaldssandi að á efstu árum Mála-Snæbjörns, um 1765, hefðu synir hans þrír af fyrra hjónabandi, sem allir voru prestar, eitt sinn komið í heimsókn til hans að Álfadal.[40] Sagt var að þeir feðgar hefðu þá farið niður í bænhúsið, synirnir ofanjarðar en karlinn eftir undirganginum og hafi hann orðið fljótari en þeir.[41] Sögu þessa hefur Jóhannes Davíðsson eftir Finni Eiríkssyni sem fæddist og dó í Hrauni á Ingjaldssandi og var 5. maður frá Mála-Snæbirni.[42] Nú er kirkjugarðurinn á Álfadal ekki lengur sýnilegur því árið 1949 var sléttað yfir hann og allt sem eftir var af gömlu bæjunum.[43]

Fyrsti eigandi Álfadals sem um er kunnugt er Halldór Jónsson sem árið 1420 gekk að eiga Oddfríði, laundóttur Ara Guðmundssonar á Reykhólum sem var faðir Guðmundar ríka, en Guðmundur var um þetta leyti að taka við búsforráðum á Reykhólum. Þann 27. maí 1420 var gengið frá kaupmála Halldórs og Oddfríðar en Ari gaf þá þessari dóttur sinni hálft Kirkjuból í Valþjófsdal.[44] Auk þess seldi hann hinum verðandi tengdasyni sínum, Halldóri Jónssyni, þann helming Kirkjubóls sem ekki var gefinn Oddfríði og fékk þá á móti 21 hundrað í Álfadal og jörðina Vífilsmýrar ásamt 11 kúgildum og 4 hestum.[45] Skömmu eftir að frá þessu var gengið andaðist Ari og komu Álfadalur og ýmsar fleiri jarðir sem hann hafði átt þá í hlut Þorgerðar Ólafsdóttur sem verið hafði síðari eiginkona hans.[46] Frá þessu var gengið með samningum Þorgerðar við Guðmund Arason, son Ara af fyrra hjónabandi.[47] Ekki verður annað séð en Þorgerður hafi þá fengið allan Álfadal í sinn hlut en ekki bara þau hundruð sem Ari hafði keypt af Halldóri tengdasyni sínum.

Á þeim árum sem Álfadalur var í eigu Þorgerðar Ólafsdóttur mun stjúpsonur hennar, Guðmundur ríki Arason, hafa haft umráð yfir flestum hennar eignum og illa mun Ólöfu Aradóttur, hálfsystur hans og dóttur Þorgerðar, hafa gengið að ná þeim úr hans höndum að móður sinni látinni.[48] Er nokkrir áratugir voru liðnir frá því Guðmundur ríki var hrakinn í útlegð báru vitni að Ólöf systir hans hefði falið Birni Þorleifssyni hirðstjóra að ná erfðagóssi sínu úr höndum Guðmundar[49] og svo mikið er víst að Björn hirðstjóri eignaðist margar þessara jarða, með réttu eða röngu, þar á meðal Álfadal. Þann 7. apríl 1467 seldi Björn hirðstjóri Örnólfi Einarssyni jarðirnar Álfadal og Hraun á Ingjaldssandi fyrir þrjár jarðir í Strandasýslu og Húnavatnssýslu[50] en Örnólfur mun hafa búið á Hvilft í Önundarfirði.[51]

Næsti eigandi Álfadals, sem um er kunnugt með fullri vissu, er Þorgautur Ólafsson sem árið 1601 seldi Sæmundi Árnasyni, sýslumanni á Hóli í Bolungavík, jörðina, nær alla.[52] Eggert Sæmundsson á Sæbóli og Þuríður systir hans, sem um skeið átti heima í Haukadal í Árnessýslu,[53] áttu Álfadal árið 1710[54] og sú staðreynd að þau skuli hafa átt jörðina saman bendir eindregið til þess að þau hafi erft hana. Mjög líklegt verður því að telja að faðir þeirra, Sæmundur Eggertsson, lögréttumaður á Sæbóli, hafi líka átt Álfadal  en Eggert, faðir hans, var sonur Smundar Árnasonar á Hóli sem keypti Álfadal árið 1601 (sjá hér Sæból) eins og hér var nefnt. Allir bjuggu þessir niðjar Sæmundar á Hóli á Sæbóli.

Árið 1762 bjó hér í elli sinni Snæbjörn Pálsson, sem nefndur var Mála-Snæbjörn, og var þá eigandi jarðarinnar.[55] Eigendur Álfadals árið 1805 voru Páll Hákonarson í Dufansdal í Arnarfirði og Jón Bergsveinsson á Dynjanda í Jökulfjörðum.[56] Páll var sonarsonur Mála-Snæbjörns en Jón á Dynjanda dóttursonur karlsins.[57] Árið 1821 seldi nýnefndur Páll Hákonarson Magnúsi Guðmundssyni, bónda í Bæ í Súgandafirði, þau 18 hundruð sem hann átti í Álfadal.[58]

Fyrsti bóndinn, sem bjó á Álfadal og þekktur er með nafni, er Bárður Torfason sem þar bjó árið 1681.[59] Er manntal var tekið árið 1703 bjuggu fjórir bændur á Álfadal og auk þess átti þar heima húsmaðurinn Jörundur Sveinsson sem þá var 27 ára gamall.[60] Um húsmann þennan er tekið fram í manntalinu að hann nærist með bróður sínum af sjóbjörg og handbjörg annarri en hjá Jörundi var ekki annað fólk í heimili en hann sjálfur og Narfi bróðir hans sem var 11 ára gamall.[61]

Einn bændanna, sem bjuggu á Álfadal árið 1703, var líka einhleypur og bjó einn á sínu heimili.[62] Hann hét Guðmundur Magnússon og er sagður 48 ára gamall. – Án bústýru og vinnufólks, stendur þar.[63] Enginn veit nú hvað þjakað hefur piparsveininn á Álfadal en tveimur árum eftir að manntalið var tekið brá hann á það ráð að stytta sér aldur. Hengdi sig bóndinn Guðmundur Magnússon á Álfadal á Ingjaldssandi, segir í Sjávarborgarannál þar sem greint er frá ýmsu því sem skeði árið 1705.[64] Í Alþingisbókinni frá sumrinu 1705 sjáum við að Guðmundur á Álfadal hefur brugðið snörunni um háls sér á vetrardegi en þar segir: Lýsti sýslumaður Páll Torfason í Ísafjarðarsýslu föllnu fé til kónglegrar majestæt eftir Guðmund Magnússon er sjálfur sig hengdi á næstliðna vetri og bjó að Álfadal á Ingjaldssandi.[65]

Árið 1710 bjuggu þrír bændur á Álfadal og voru þeir allir leiguliðar.[66] Einn bjó á 18 hundruðum, annar á tólf og sá þriðji á sex hundruðum.[67] Landskuld af jörðinni var þá 9 vættir fiska og svo hafði lengi verið.[68] Sjö leigukúgildi fylgdu jörðinni og höfðu áður verið átta.[69] Leigurnar fyrir kúgildin áttu að greiðast í smjöri.[70] Árið 1710 hvíldi enn sú kvöð á bændunum sem bjuggu á Álfadal, að hver og einn þeirra varð að leggja til mann í skiprúm um vertíðina[71] á bátum Eggerts Sæmundssonar á Sæbóli en Eggert og systir hans voru landsdrottnar Álfadalsbænda.

Í Jarðabókinni frá 1710 er kostum og ókostum jarðarinnar lýst með þessum orðum:

 

Útigangur heima á jörðinni er lakur en geldfé gengur jafnlega á Nesdal. Afrétt á bænhúsið í Nesdal, allan þriðjung eftir því sem almennilega heyrst hefur. Torfrista og stunga lök. Svarðarstunga til eldingar með taði undan kvikfé. Skipsuppsátur og nausts gjörð er sagt að bænhúsið eður jörðin eigi yst á Mölum í Sæbólslandi. Ekki hefur það brúkast í næstu 20 ár eða lengur.

Túnið spillist af grjótsáburði úr Þverá [Álfadalsþverá]. Engjarnar fordjarfast stórlega af grjóts- og sands áburði af Langá og veitan af Þverá. Selstöðu á jörðin fram á Heiðum sem brúkast árlega. Úthagarnir heima á jörðinni eru mjög fordjarfaðir af skriðum og fyrir því brúkast selförin jafnlega.[72]

 

Í þessari lýsingu frá árinu 1710 virðist reyndar vera lagt kapp á að gera sem mest úr ókostum jarðarinnar og til samanburðar má benda á að séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum segir árið 1840 að á Álfadal séu miklar útislægjur[73] og í ritgerð frá árinu 1968 nefnir Jóhannes Davíðsson grasgefið og heygott engi fram með Langánni.[74] Að sögn Jóhannesar brást þar sjaldan gras og sami höfundur tekur líka fram að í heimahögum Álfadals sé gott til beitar.[75]

Á fyrri hluta 18. aldar virðast bændur á Álfadal yfirleitt hafa verið þrír eða fjórir[76] en á síðari hluta 18. aldar og á 19. öld var þar oftast tvíbýli eða þríbýli.[77]

Hér hefur áður verið minnst á Snæbjörn Pálsson sem nefndur var Mála-Snæbjörn og bjó lengi á Álfadal í elli sinni. Snæbjörn fluttist frá Sæbóli að Álfadal á árunum 1740-1750 og stóð þar enn fyrir búi árið 1762 en í manntalinu frá því ári er hann sagður vera 86 ára gamall.[78] Hér hefur áður verið ritað allýtarlega um Snæbjörn og verður því látið nægja að vísa til þess sem þar var sagt (sjá hér Sæból). Mála-Snæbjörn andaðist á Álfadal 31. desember árið 1767[79] og var þá kominn á tíræðisaldur. Hann er fyrsti sjálfseignarbóndinn sem um er kunnugt að búið hafi á Álfadal.[80]

Árið 1801 var Páll Hákonarson, sonarsonur Mála-Snæbjörns, einn þriggja bænda á Álfadal.[81] Hann var þá ekkjumaður og bjó með fimm börnum sínum á aldrinum 8-25 ára.[82] Yngst þeirra barna var Snæbjörn Pálsson sem síðar varð sjálfseignarbóndi í Dufansdal í Arnarfirði og bjó þar með eiginkonu og tíu börnum árið 1845.[83]

Þann 12. júní 1833 fórst bátur sem reri frá Sæbóli og með honum fimm menn sem allir áttu heima á Ingjaldssandi.[84] Formaður var Árni Jónsson, tæplega þrítugur bóndi á Álfadal,[85] en með honum fórust: Hallgrímur Guðmundsson, bóndi á Brekku, Guðmundur Jónas Sveinsson, fyrirvinna þar, Jón Borgarsson, vinnumaður á Álfadal og Guðmundur Jónsson sem líka var vinnumaður þar.[86] Ekkja Árna Jónssonar, sem nefndur var, bjó áfram á jörðinni ásamt börnum þeirra sem öll voru ung þegar faðir þeirra drukknaði. Húsfreyja þessi hét Sigríður Narfadóttir og 13. janúar 1835 giftist hún í annað sinn.[87] Maðurinn sem hún gekk þá að eiga hét Jón Þorgrímsson og hafði verið ráðsmaður hennar um skeið.[88] Hann drukknaði 25 ára gamall með Móses Jónssyni á Sæbóli 11. apríl 1836, fimmtán mánuðum eftir brúðkaupið, og er þá sagður hafa verið bóndi á Álfadal.[89] Í þriðja sinn giftist Sigríður Narfadóttir þann 11. október 1839 og gekk þá að eiga Benóný Gunnarsson sem borist hafði á Ingjaldssand norðan úr Aðalvík.[90] Benóný var fæddur 26. júní 1813 í Neðri-Miðvík í Aðalvík[91] og árið 1835 var hann vinnumaður hjá séra Stefáni Hanssyni á Stað í Aðalvík.[92] Er Sigríður á Álfadal giftist þessum þriðja eiginmanni sínum var hún komin á fimmtugsaldur[93] en brúðguminn 26 ára.

Þau Benóný og Sigríður bjuggu næstu árin á Álfadal og voru þar í tvíbýli á móti hjónunum Ólafi Jónssyni og Guðfinnu Ebenesersdóttur.[94] Eina barn þeirra sem komst á legg var Sigríður sem líklega hefur verið fædd árið 1840 því hún er sögð 5 ára á manntalinu frá 2. nóvember 1845.[95] Í búnaðarskýrslu frá því ári er Benóný sagður hafa 18 hundruð til ábúðar og hefur því búið á hálfri jörðinni. Bústofn þeirra hjóna var þá 2 kýr, 16 ær, 14 sauðir, hrútar og gemlingar, 10 lömb og einn hestur.[96] Árið 1845 átti Benóný á Álfadal líka lítinn bát sem var minni en fjögra manna far.[97]

Með fyrsta eiginmanni sínum, Árna Jónssyni, hafði Sigríður Narfadóttir eignast þrjú börn sem náðu að komast á legg, Ólöfu, Engilbert og Bathoníu.[98] Öll voru þessi börn heima hjá móður sinni og stjúpföður árið 1840 og þar voru þau enn þegar árið 1845 gekk í garð.[99] Elst þessara stjúpbarna Benónýs var Ólöf, fædd 10. desember 1825,[100] og áður en langt var liðið á hennar tuttugasta aldursár tók hún að þykkna undir belti. Þann 29. júní 1845 varð hún léttari og fæddi sveinbarn sem skírt var Magnús.[101]

Um það leyti sem stúlkan ól barnið komst sá orðrómur á kreik að Benóný, stjúpfaðir hennar, væri barnsfaðirinn.[102] Hann var þá í blóma lífsins, 32ja ára gamall, og að sögn Sighvats Borgfirðings talinn með virðingarmönnum í Mýrahreppi.[103]

Er tæpar þrjár vikur voru liðnar frá því Ólöf á Álfadal varð léttari ritaði sóknarpresturinn, séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum, bréf til sýslumanns og greindi þar frá orðrómnum um faðernið.[104] Hér var illt í efni því samkvæmt lögum, sem þá voru enn í gildi, flokkaðist barneign svo tengdra einstaklinga undir sifjaspell og lá við dauðarefsing. Um þessar mundir hafði Eggert Briem, sem fæddur var árið 1811, verið settur sýslumaður í Ísafjarðarsýslu um eins árs skeið. Hann átti þá enn heima á Skutulsfjarðareyri þar sem nú er Ísafjarðarkaupstaður en fluttist að Ytri-Hjarðardal í Önundarfirði um haustið.[105] Er bréf prestsins á Gerðhömrum kom á heimili sýslumanns var hann farinn í þjófaleit norður í Grunnavík og komst því ekki á Ingjaldssand fyrr en 25. júlí. Þann dag setti hann rétt á Álfadal og byrjaði á að yfirheyra hina ungu barnsmóður. Frá réttarhaldi þessu segir svo í dómabókinni:

 

Stúlkan Ólöf Árnadóttir var látin koma á þingið og spurð um téð málefni en hún fæst varla til að svara fyrir gráti og harmi. Hún játar því að stjúpfaðir hennar, Benóný, sé faðir að barni því er hún ól þann 29. fyrri mánaðar en að hún hafi hlífst við að segja frá því af blygðun yfir ávirðingu þeirra, er hún þó ekki segist vita hvað mikil hegning liggi við. Hún segist vera 19 ára gömul og ekki hafi hún fyrr orðið fyrir opinberum ákærum. …

Því næst var Benóný Gunnarsson látinn koma á þingið og játar hann að vera faðir að barni því er Ólöf Árnadóttir ól hinn 29. fyrra mánaðar. Hann kveðst vera fæddur í Aðalvík og vera nú 30 ára og aldrei fyrr hafa orðið fyrir opinberum ákærum.[106]

 

Er játningar beggja höfðu verið færðar til bókar bætir sýslumaður þessum orðum við:

 

Þess er að geta að kona Benónýs, Sigríður Jónsdóttir [á að vera Narfadóttir – innskot K.Ó.], hefir verið mikið heilsulasin og að hér er ekkert annað kvenfólk á heimilinu. Konan mætti og óskaði innfærða fyrirbón sína fyrir manni hennar og dóttur hennar þeim til líknar.[107]

 

Daginn eftir, þann 26. júlí 1845, var málið tekið til dóms og var dómþingið haldið í Hrauni, næsta bæ við Álfadal.[108] Sem meðdómsmenn valdi Eggert Briem fjóra bændur á Ingjaldssandi, þá Eirík Tómasson í Hrauni, Friðrik Pétursson Busch á Brekku, Bjarna Bjarnason á Brekku og Guðmund Guðmundsson á Hálsi.[109] Er gengið hafði verið frá öllum formsatriðum var svohljóðandi dómur kveðinn upp:

 

Það er í þessu máli orðið augljóst og af þeim ákærðu viðurkennt að stúlkan Ólöf Árnadóttir sem er 19 ára að aldri ól barn þann 29. fyrri mánaðar, að hverju hún lýsir föður stjúpföður sinn, bónda Benóný Gunnarsson, sem er langt yfir lögaldur sakamanna, og hefur hann líka gengið við þessu faðerni. Og þareð engin ástæða er til að efast um sannindi þessarar játningar þá hljóta þau að dæmast til að missa lífið samkvæmt dönsku lögum 6-13-14, samanber tilskipun 24. janúar 1838, svo og til að borga allan af sök þessari löglega leiðandi kostnað. Meðferð málsins hefur verið lögmæt.

Því dæmist rétt vera: Hin ákærðu, Benóný Gunnarsson og Ólöf Árnadóttir eiga að hálshöggvast. Svo eiga þau og sameiginlega að borga allan af sök þessari löglega leiðandi kostnað. Dóminum ber að fullnægja með aðför að lögum.[110]

 

Er Benóný og Ólöf á Álfadal voru dæmd til dauða sumarið 1845 voru fimmtán ár liðin frá því dauðadæmdir sakamenn voru síðast teknir af lífi hérlendis. Í réttarkerfi því sem hér var við lýði um miðbik 19. aldar var ráð fyrir því gert að allir dauðadómar, sem upp væru kveðnir af sýslumönnum, kæmu til úrskurðar hjá æðri dómstólum, fyrst hjá landsyfirrétti í Reykjavík og síðan hjá hæstarétti í Kaupmannahöfn. Síðasta orðið hafði svo sjálfur konungurinn.

Þann 8. september 1845 var sifjaspellsmál Benónýs og Ólafar tekið fyrir í landsyfirrétti en að því sinni var málinu vísað frá vegna skorts á ýmsum upplýsingum sem dómararnir töldu nauðsynlegt að fá í hendur áður en úrskurður yrði kveðinn upp.[111] Var Eggerti Briem, sýslumanni Ísfirðinga, falið að afla þessara gagna.[112] Meðal þess sem dómararnir í  landsyfirrétti vildu fá að vita var hvernig sjúkleika eiginkonu Benónýs og móður Ólafar væri háttað og hvort sá sjúkleiki muni hafa getað haft nokkra verkun á samlífi þeirra hjónanna.[113] Einnig töldu þeir nauðsynlegt að fá upplýst hvort Benóný hefði tælt eða lokkað stjúpdóttur sína til holdlegs samræðis og þá með hverju móti og hvort Ólöf hefði strax látið til leiðast eða fyrst eftir ítrekaða áleitni.[114] Síðast en ekki síst vildu hinir æruverðugu dómarar fá nánari vitneskju um núverandi kristindómsþekkingu Benónýs, ekki síst vegna þess að er hann fór frá Aðalvík, sex árum fyrr, hafði sóknarpresturinn þar lýst honum í vitnisburði sem yfrið veikum að þekkingu í kristindómi sínum.[115]

Skömmu eftir að sýslumaður Ísfirðinga fékk í hendur fyrirmæli landsyfirréttarins um víðtækari upplýsingaöflun setti hann rétt að Hvilft í Önundarfirði þar sem Ólöf frá Álfadal var þá til dvalar.[116] Réttarhald þetta hófst 10. október 1845 og þann dag var Ólöf yfirheyrð að nýju. Hún gaf þá m.a. þau svör að stjúpfaðir sinn hefði hvorki tælt sig né lokkað en tók fram að samdráttur þeirra hefði byrjað með elskuatlotum jafnt frá beggja síðu.[117] Við þessa yfirheyrslu játaði stúlkan að samdráttur þeirra Benónýs hefði hafist veturinn 1843-1844 og að móðir hennar hefði einu sinni varað hana við í einrúmi að hafa ekki of mikil afskipti af Benóný.[118]

Þann 14. október þetta sama haust var rannsókn málsins haldið áfram og var þá efnt til réttarhalds á Álfadal.[119] Sigríður Narfadóttir, eiginkona Benónýs, kom þá fyrst fyrir dómarann. Frá svörum hennar við spurningum hans er greint á þessa leið í dómabókinni:

 

Hún kveðst vera 51 árs að aldri og fædd að Hrafnabjörgum í Ögursókn. Hún hafi verið heilsulasin frá því hún var um tvítugt en það hafi þó aukist núna seinni árin með hóstaverk fyrir brjóstinu og máttleysi. Í hitteðfyrra, 1843, hafi hún legið í kvefsóttinni, er þá gekk um landið, frá miðsumri til Mikaelsmessu (29. september) og þá hafi gengið upp úr henni gröftur og blóð. Á meðan hún lá hafi Ólöf dóttir hennar staðið fyrir heimilinu en þegar hún kom á fætur hafi hún orðið vör við einhvern samdrátt milli manns sins, Benónýs Gunnarssonar, og dóttur sinnar, Ólafar Árnadóttur, en þó einkum um veturinn þá Sigríður lá aftur í átta vikur … en ekki hafi hún vitað um neinn verknað fyrr en hún sá um aðventuna að Ólöf myndi vera orðin þunguð. Ólöf hafi ætíð þagað þegar hún hafi nefnt það en Benóný eytt því með hæglæti en þó tekið því vel eins og hann yfir höfuð hafi verið sér og öðrum umgengnisgóður. Ekki hafi heldur lasleiki sinn haft neina henni sjáanlega verkan á sambúð þeirra, líka hafi þau alltaf samsængað.[120]

 

Sama dag var hinn dauðadæmdi bóndi á Álfadal líka kvaddur til nýrrar yfirheyrslu hjá sýslumanni sem færði orð hans til bókar á þessa leið:

 

Hann segir að Ólöf hafi verið sér mjög eftirlát frá því hann hafi þar komið og því hafi sér orðið mjög vel til hennar er síðan hafi leitt til elskuatlota, einkum undir sjúkdómi konu hans sumarið 1843 og um veturinn eftir en þó hafi hann ekki haft samræði við hana fyrr en um veturinn er kemur heim við það er hin ákærða, Ólöf, hefur borið.

Hann játar að hann hafi vitað að þetta var syndsamlegt og straffsvert þó hann væri svo blindaður að hugsa ekki út í það en eftir að hún hafi verið orðin barnshafandi og hann hafi farið að hugsa um afleiðingarnar af því þá hafi hann þó ímyndað sér að straffið kynni að verða eftirgefið af konunglegri náð eins og hann hafi vitað til um mann er átti börn með tveimur systrum og eins og nú er algengt um hórströff en ekki kveðst hann hafa vitað hvert straff væri við því lagt í lögum.[121]

 

Við lok þessa réttarhalds lagði Sigríður húsfreyja á Álfadal skriflega beiðni frá sér um konunglega náð til handa eiginmanni sínum og dóttur sem dæmd höfðu verið til dauða.[122] Þessa náðunarbeiðni sendi Eggert sýslumaður landsyfirrétti ásamt öðrum gögnum málsins.[123] Greinilegt er að sýslumaður hefur lagt kapp á að hraða allri meðferð málsins því er tekist hafði að ljúka þessum síðari yfirheyrslum fékk hann sérstakan sendiboða til að fara strax með hin nýju málsskjöl, sem bæst höfðu við, suður til Reykjavíkur.[124] Fyrir þá ferð þurfti að greiða 20 ríkisdali[125] en kýrverðið var þá um það bil 25 ríkisdalir.[126]

Ferðin suður með málsskjölin virðist hafa gengið hratt og vel því 26. nóvember þetta sama haust var dæmt í máli þeirra Benónýs og Ólafar í landsyfirrétti. Þar var dauðadómurinn, sem upp hafði verið kveðinn fjórum mánuðum fyrr, staðfestur og málið látið ganga til hæstaréttar úti í Kaupmannahöfn.[127]

Við könnun heimilda vekur athygli að enda þótt Eggert Briem sýslumaður dæmdi þau Benóný og Ólöfu til dauða sá hann ekki ástæðu til að hneppa þau í varðhald meðan beðið væri dómsniðurstöðu hæstaréttar og endanlegs úrskurðar frá æðstu stöðum. Er manntal var tekið 2. nóvember 1845 var liðið nokkuð á fjórða mánuð frá því dauðadómurinn var kveðinn upp. Við nafn Benónýs er þó enga athugasemd að finna í manntalinu er gefi til kynna að þetta sé dauðadæmdur sakamaður.[128] Hann er þar enn sagður vera kvæntur bóndi á Álfadal og lifa af grasnyt og fiskiveiði eins og flestir aðrir. Heima á Álfadal var líka hórbarn þeirra Ólafar, Magnús Benónýsson, − kallaður húsbóndans óekta sonur í manntalinu.[129] Móðir ungbarns þessa var hins vegar ekki lengur á Álfadal því henni hafði verið komið fyrir hjá Magnúsi Einarssyni, bónda og varaþingmanni, á Hvilft í Önundarfirði.[130] Í manntalinu er Ólöf Árnadóttir sögð vera sakamaður. Þar er líka tekið fram að hún sé 20 ára og fædd í Sæbólssókn á Ingjaldssandi.[131]

Í bréfi sem Eggert sýslumaður ritar Bjarna Thorsteinsson, amtmanni á Stapa, 31. júlí 1845, segist hann hafa látið vera að fangelsa Benóný og Ólöfu og kveðst með því hafa viljað hlífa hinu opinbera við ónauðsynlegum fjárútlátum.[132] Jafnframt lætur sýslumaður þess getið að hinni dauðadæmdu stúlku hafi hann komið fyrir í öðrum hreppi og þar eigi hún að vinna fyrir sér.[133]

Allan veturinn 1845-1846 urðu þau Ólöf og Benóný að bíða dóms hæstaréttar og hins endanlega úrskurðar konungs. Dómur hæstaréttar féll 6. maí 1846 og breytti í engu niðurstöðu landsyfirréttarins.[134] Þá var konungsnáðin ein eftir. Er þetta langt var liðið á nítjándu öldina hafði tíðkast um alllangt skeið að konungur mildaði alla dauðadóma í sifjaspellsmálum og leysti höfuð þeirra sem dæmdir höfðu verið fyrir slíkar sakir.[135] Í samræmi við þessa venju felldi Kristján konungur VIII þann úrskurð að Benóný og Ólöf skyldu bæði halda lífi. Konungsúrskurðurinn er dagsettur 12. júní 1846 og þar er kveðið á um að í stað þess að hálshöggvast verði Benóný sendur til Kaupmannahafnar og látinn dveljast þar í betrunarhúsi um óákveðinn tíma en refsing Ólafar þótti konungi hæfilega ákveðin 27 vandarhögg.[136]

Ætla má að fréttir af hæstaréttardómnum og úrskurði konungs hafi borist til Íslands að áliðnu sumri árið 1846 en hinum dauðadæmdu persónum var þó ekki tilkynnt um náðun konungs fyrr en í lok febrúar árið 1847.

Í skjalasafni Vesturamtsins er varðveitt eintak af hæstaréttardómnum í máli Benónýs og Ólafar. Aftan á skjal þetta hefur verið ritað:

 

Ár 1847 hinn 25. febrúar á Hvilft í Önundarfirði höfum við undirskrifaðir birt þennan hæstaréttardóm fyrir Ólöfu Árnadóttur og þar með að henni með kóngsbréfi frá 12. júní 1846 sé lífsstraffið eftirgefið en að hún skyldi líða 27 vandarhögg. Þetta vitnum við undir okkar áður svarinn eið með höndum og innsiglum.

Sturli Jónsson. Guðlaugur Þorsteinsson.[137]

 

Daginn eftir var farið með skjalið út á Ingjaldssand en Benóný var þá enn búandi á Álfadal. Þar fengu Eiríkur Tómasson í Hrauni og Friðrik Busch Pétursson á Brekku það verkefni að tilkynna honum um dómsniðurstöðuna og úrskurð konungs.[138] Aftan á eintakið af hæstaréttardómnum skrifa þeir að honum sé lífsstraffið eftirgefið en að hann skuli setjast til vinnu í Kaupmannahafnar betrunarhúsi undir konungsins náð.[139]

Síðastur skrifar Eggert Briem sýslumaður stutta yfirlýsingu aftan á þetta sama eintak af hæstaréttardómnum og tekur þar fram að sama dag og Ólöfu var birtur úrskurður konungs hafi hún verið hýdd þessum 27 vandarhöggum að konungsboði og hýðingin hafi farið fram á Hvilft.[140] Í reikningi yfir útlagðan kostnað, sem sýslumaður sendi frá sér í marsmánuði árið 1847, sjáum við að hann hefur sjálfur verið viðstaddur hýðinguna og borgað fyrir hana tvo ríkisdali.[141] Hver böðullinn var sem greiðsluna þáði vitum við hins vegar ekki.

Haustið 1847 var Benóný á Álfadal sendur utan til að taka þar út þá refsingu sem kóngur hafði mælt fyrir um. Dagana 5.-8. september var skipið sem hann sigldi með statt á útleið í Stykkishólmi og þá var fanginn eitthvað veikur svo fá þurfti fyrir hann meðul sem kostuðu liðlega fimm ríkisdali. Reikningurinn vegna þessara meðalakaupa er enn á vísum stað og þar sést að lyfin frá apótekinu í Stykkishólmi hefur Benóný fengið 5. og 8. september.[142] Með það í huga má gera ráð fyrir að Benóný hafi komið til Kaupmannahafnar í síðari hluta september. Ætla má að hann hafi þá verið færður beinustu leið í betrunarhús og þá líklega í Stokkhúsið við Austurvegg en þar voru enn nokkrir íslenskir fangar um miðja 19. öld.[143]

Í fyrirmælum konungs um refsivist Benónýs var ekki nefnt hversu lengi hann ætti að dveljast í fangelsinu[144] og mátti því heita ljóst að kóngur væri einráður um það. Líklega hefur Benóný enga grein gert sér fyrir því á hverju hann mætti eiga von í þessum efnum en svo fór að vist hans í betrunarhúsinu stóð aðeins í eitt ár því 23. september 1848 sendi kóngur frá sér fyrirmæli um að bóndinn af Ingjaldssandi yrði látinn laus og sendur til síns heima.[145] Eitthvað mun heimferð Benónýs hafa gengið brösótt[146] en er rösklega tveir mánuðir voru liðnir frá því honum var sleppt úr fangelsinu komst hann þó heill á húfi á leiðarenda. Til marks um það höfum við orð Guðmundar Guðmundssonar norðlenska sem bjó á Næfranesi í Dýrafirði árið 1848 en þann 28. nóvember á því ári ritar hann í dagbók sína þessi orð: Ríð að Mýrum, fer þaðan, finn Benóný er fór á Bremerholm í fyrra lukkulega búinn þá alla reisu af að standa.[147]

Áður en lengra er haldið er rétt að staldra við og hyggja lítillega að kostnaðinum við öll réttarhöldin í blóðskammarmáli Benónýs og Ólafar á Álfadal. Skömmu eftir að úrskurður konungs var birtur þeim tók Eggert Briem saman hversu mikill kostnaðurinn væri orðinn. Reikningur hans yfir útlagðan kostnað hljóðaði þá upp á 60 ríkisdali og 48 skildinga.[148] Þar má sjá ýmislegt um ferðalög sýslumanns vegna þessa máls og kostnaðinn við þau. Sem dæmi má nefna ferðina í febrúar 1847 er Eggert sýslumaður fer frá Melgraseyri við Djúp vestur í Önundarfjörð til að birta hinum seku dóm hæstaréttar og úrskurð konungs. Fjórir ræðarar flytja hann yfir Djúpið til Skutulsfjarðar þann 23. febrúar og gert er ráð fyrir að ferð þeirra fram og til baka taki tvo daga.[149] Fyrir þetta fá mennirnir 1 ríkisdal og 32 skildinga hver og sama upphæð virðist hafa verið greidd fyrir bátinn.[150] Næsta dag, 24. febrúar, fer sýslumaður yfir Breiðadalsheiði og fær í þá ferð sérstakan fylgdarmann, auk fasta fylgdarmannsins sem ætíð fylgir húsbónda sínum.[151] Fyrir vetrarferð þessa yfir heiðina fékk fyrrnefndi fylgdarmaðurinn einn ríkisdal.[152] Þann 25. febrúar lauk sýslumaður embættisverkum á Hvilft og fékk sig fluttan yfir Önundarfjörð. Sá flutningur kostaði 48 skildinga (þ.e. hálfan ríkisdal).[153] Daginn eftir, 26. febrúar, fluttu tveir ræðarar yfirvaldið sjóleiðis frá Holti út í Valþjófsdal og fengu báðir til samans 48 skildinga fyrir það viðvik.[154] Er út í Valþjófsdal kom fór veður versnandi og töldu menn sýnt að stormur væri í aðsigi.[155] Sýslumaður brá því á það ráð að fá stærri bát til að flytja sig fyrir Sporhamar og Hrafnaskálarnúp út á Ingjaldssand og var farið með hann á sexæringi.[156] Fyrir þá ferð þurfti að borga 2 ríkisdali og 32 skildinga.[157] Svo virðist sem sýslumaður hafi engan reikning gert fyrir heimferðinni úr Önundarfirði en vera má að hún hafi orðið krókótt vegna annarra embættisstarfa. Fyrir þá fjóra daga sem hann var á ferðalagi vegna Benónýs og Ólafar lét hann hins vegar það opinbera greiða sér einn ríkisdal á dag í dagpeninga en fasti fylgdarmaðurinn fékk 64 skildinga á dag í kaup og átti sjálfur að greiða fyrir fæði og gistingar af þeim launum.[158]

Eins og áður sagði hljóðaði reikningurinn sem Eggert Briem sendi frá sér 12. mars 1847 upp á 60 ríkisdali og 48 skildinga. Í bréfi sem hann ritar Bjarna amtmanni á Stapa sama dag nefnir hann nokkra aðra ýmist greidda eða ógreidda reikninga vegna sama sakamáls og bættist þar 71 ríkisdalur við.[159] Samtals var kostnaðurinn við málareksturinn því kominn í 131 og ½ ríkisdal þegar bréfið var skrifað en þar af fengu sækjandi og verjendur við landsyfirréttinn 16 ríkisdali og sá sem sótti málið við hæstarétt 10 ríkisdali.[160] Utan við þetta er svo allur kostnaður við sendingu Benónýs til Kaupmannahafnar en upp í þann ferðakostnað lagði sýslumaður út 20 ríkisdali haustið 1847 sem óvíst er þó að hafi dugað.[161] Samtals hefur málskostnaðurinn því numið a.m.k. liðlega 150 ríkisdölum eða sem svaraði 6 kýrverðum (sjá hér bls. 13).

Í sýslumannsdómnum frá 26. júlí 1845 voru Benóný og Ólöf dæmd til að borga allan af sök þessari löglega leiðandi kostnað eins og það er orðað í dómabókinni (sjá hér bls. 11) og við því ákvæði var ekki hróflað á æðri dómsstigum. Engan þarf því að undra þótt Eggert sýslumaður láti þess getið í bréfi rituðu 30. júní 1848 að andvirði eigna Benónýs hafi alls ekki nægt til að standa undir öllum þessum kostnaði.[162] Sýslumaður segir þarna að hann hafi veitt Benóný heimild til að annast sjálfur sölu eignanna en 20 ríkisdali hafi vantað upp á að andvirði þeirra nægði fyrir málskostnaði.[163] Í þessu sama bréfi til amtmanns tekur Eggert Briem fram að sjálfur hafi hann reyndar ekki haft hörku til að ganga að konu Benónýs, Sigríði Narfadóttur á Álfadal, og leggja hald á brýnustu nauðþurftir hennar.[164]

Af því sem hér hefur verið sagt má ljóst vera að er Benóný Gunnarsson kom aftur heim úr fangavistinni í Kaupmannahöfn var hann eignalaus öreigi og hafði ekkert fyrir sig að leggja. Hann var hins vegar enn á ungum aldri, aðeins 35 ára gamall, og fær í flestan sjó. Ekki er nú kunnugt hvað því hefur valdið að Benóný ílentist ekki á Ingjaldssandi eftir heimkomuna haustið 1848 en svo mikið er víst að hann fluttist mjög skömmu síðar á æskuslóðir sínar norður í Aðalvík og virðist þá hafa skilið við konu sína. Árið 1851 var þessi fyrrverandi fangi búsettur á Læk í Aðalvík og er þá kallaður lausamaður.[165] Á því ári eignaðist hann barn með heimasætu þar á bænum[166] svo ekki hefur dauðadómurinn nægt til að gera hann afhuga öllu kvenfólki. Barnsmóðir Benónýs að því sinni hét Karólína Jónsdóttir en sonur þeirra sem fæddist 7. desember 1851 var skírður Marías.[167] Drengur þessi varð síðar bóndi á ýmsum bæjum í Sléttuhreppi. Hann eignaðist konu og börn og náði háum aldri.[168] Benóný föður hans varð hins vegar ekki langra lífdaga auðið því hann fórst með þilskipinu Lovísu frá Ísafirði í lok apríl árið 1854[169] og var þá lausamaður á Sæbóli í Aðalvík.[170] Skútan Lovísa var fyrsta þilskipið sem Ásgeir Ásgeirsson, stofnandi Ásgeirsverslunar á Ísafirði, eignaðist en hún fórst með allri áhöfn vorið 1854 og hafði Ásgeir þá gert hana út í sjö ár.[171] Þegar Lovísa fórst var Benóný Gunnarsson háseti þar um borð en skipstjóri á skútunni var Guðmundur Bjarnason, þá búsettur á Ísafirði[172] en þeir Torfi Halldórsson, síðar kaupmaður og útgerðarmaður á Flateyri, voru bræðrasynir[173]

Í Vestfirðingasögu sinni getur Gísli Konráðsson sex manna er drukknuðu þegar Lovísa fórst og segir þar um Benóný: Hafði hann getið barn við stjúpdóttur sinni og því dæmdur utan en komst þar vel af. Kom út aftur og tók að græða fé mikið.[174]

Er Benóný Gunnarsson var sendur í fangelsi í Kaupmannahöfn haustið 1847 vissi enginn hvað dvöl hans þar yrði löng (sjá hér bls. 15). Þess var áður getið að Benóný og Sigríður kona hans höfðu 18 jarðarhundruð til ábúðar vorið 1845 (sjá hér bls. 9). Mjög skömmu eftir að sýslumaður dæmdi Benóný til dauða minnkuðu þau við sig og árið 1846 taldist hinn dauðadæmdi bóndi búa á fjórðungi úr Álfadal, það er 9 hundruðum.[175] Haustið sem Benóný var sendur utan er Sigríður kona hans skrifuð fyrir þessu sama jarðnæði[176] en virðist hafa gefist upp á búskapnum vorið 1848, þegar Benóný var í fangelsinu.[177] Hún hverfur þá úr tölu bænda en vorið 1850 fær hún til ábúðar svolítinn part úr jörðinni Hálsi og bjó þar á þremur hundruðum í nokkur ár.[178] Ekki mátti jarðnæðið minna vera en þarna baslaðist hún áfram, óbuguð að sjá þrátt fyrir margvíslega mæðu. Er manntal var tekið haustið 1850 voru öll börn Sigríðar hjá henni á Hálsi, elst Ólöf Árndóttir, sem féll með Benóný og hafði verið dæmd til dauða, en yngst Sigríður Benónýsdóttir sem sögð var 10 ára gömul þegar þetta manntal er tekið.[179] Þarna var þá líka hjá ömmu sinni drengurinn Magnús Benónýsson, barnið sem Ólöf hafð eignast með stjúpföður sínum.[180]

Fáum árum síðar fékk Engilbert, sonur Sigríðar, part úr Álfadal til ábúðar og fluttist þá móðir hans með honum þangað frá Hálsi. Vorið 1855 eru Sigríður Narfadóttir og Engilbert Árnason, sonur hennar, bæði sögð vera húsbændur á Álfadal[181] og þar dó Sigríður sumarið 1856.[182]

Svo virðist sem tengsl Benónýs og Ólafar Árnadóttur, sem dæmd var með honum til dauða, hafi slitnað er dómurinn hafði verið kveðinn upp og Ólöfu var komið fyrir á Hvilft sumarið 1845. Þar var hún enn til dvalar er að hýðingunni kom í góubyrjun árið 1847 (sjá hér 14). Haustið 1850 var Ólöf hins vegar komin aftur út á Ingjaldssand eins og hér var nýlega nefnt og þar eignaðist hún sitt annað barn sumarið 1852.[183] Barnsfaðirinn var kvæntur bóndi á Hálsi á Ingjaldssandi, Jón Jónsson að nafni.[184]

Haustið 1857 var Ólöf vinnukona á Álfadal, orðin 32ja ára gömul. Þar náði hún sér í einn vinnumanninn, Pálma Jónsson, sem var sjö árum yngri en hún og voru þau pússuð saman í Sæbólskirkju þann 25. september þetta haust.[185] Með manni sínum, sem aldrei komst í bændatölu, eignaðist Ólöf níu börn.[186] Þau hjónin áttu heima á Álfadal til ársins 1868 en voru síðan í húsmennsku og vinnumennsku á ýmsum bæjum, síðast á Klukkulandi í Dýrafirði og þar dó Ólöf 30. maí 1897.[187]

Börnin sem Benóný Gunnarsson skildi eftir á Álfadal er hann sigldi til Kaupmannahafnar haustið 1847 voru tvö, Sigríður og Magnús. Sigríði, sem þá var um 7 ára aldur, hafði hann eignast með eiginkonu sinni en Magnús, sem var 2ja ára, með Ólöfu stjúpdóttur sinni. Sigríður Benónýsdóttir var því hálfsystir Magnúsar bróður síns en líka hálfsystir Ólafar móður hans. Um þessi tvö Benónýsbörn á Álfadal verða örfá orð látin nægja. Sigríður Benónýsdóttir ól aldur sinn á Ingjaldssandi en mun ekki hafa gifst. Hún drukknaði í Langá (Sandsá) þar á Sandinum 28. apríl 1878 ásamt annarri yngri stúlku.[188] Þær voru á leið frá Hrauni og fram að Hálsi[189] en milli bæjanna er aðeins tæplega einn kílómetri. Munnmæli herma að þær hafi ætlað á hesti yfir ána en hún verið í foráttuvexti.[190] Sigríður var um 38 ára aldur er hún drukknaði (sjá hér bls. 18). Hún var þá vinnukona í Hrauni.[191]

Barnið sem fæddist á Álfadal 29. júní 1845 og olli svo miklu raski á högum foreldra sinna fékk sem áður sagði nafnið Magnús. Honum auðnaðist langt líf og hann náði að eignast fimm börn með þremur konum.[192] Sum barna Magnúsar Benónýssonar dóu ung en frá elstu dóttur hans, Málfríði Magnúsdóttur sem giftist Færeyingnum Jens Fr. Jensen, er kominn hópur niðja.[193]

Dauðadómurinn sem upp var kveðinn á Ingjaldssandi 26. júlí 1845 mun vera sá næstsíðasti í Ísafjarðarsýslu.[194] Fjórum árum síðar voru önnur stjúpfeðgin dæmd til dauða norður á Sléttu í Jökulfjörðum fyrir sömu sakir og kallað höfðu dauðadóm yfir Benóný og Ólöfu á Álfadal.[195] Á þeim 150 árum sem síðan eru liðin munu sýslumenn Ísfirðinga engan hafa dæmt frá lífi en dauðarefsing var þó ekki numin úr lögum fyrr en 1928.[196]

Á síðari hluta 19. aldar var oftast tvíbýli á Álfadal og stundum þríbýli.[197] Úr hópi bænda sem þá bjuggu á Álfadal má nefna Engilbert Árnason, sem tók þar við búi þrítugur að aldri árið 1858, en hann var bróðir Ólafar Árnadóttur sem dæmd var til dauða.[198] Engilbert bjó á Álfadal til dauðadags og andaðist 12. desember 1879.[199] Kona hans var Sigríður Guðmundsdóttir, dóttir Guðmundar Bjarnasonar á Sæbóli sem hér hefur áður verið sagt frá.

Síðustu nítjándu aldar bændurnir á Álfadal voru þeir Jóhannes Jónsson og Davíð Davíðsson.[200] Bæirnir á Álfadal voru þá tveir og aðeins nokkrir metrar á milli.[201] Jóhannes bjó í efri bænum en Davíð í þeim neðri.[202] Báðir bæirnir stóðu inn við ána[203] og nokkru ofar í túninu en steinhúsið sem Bjarni Ívarsson byggði um 1930[204] og enn stendur uppi. Hér er áin enn í sínum gamla farvegi og bæjarhóllinn auðfundinn þó búið sé að slétta yfir tóttirnar.[205] Ætla má að hér inn við ána hafi bæjarstæðið verið um langan aldur, máske allt frá fyrstu tíð. Á Álfadal eru tveir bæir saman, segir í sóknalýsingunni frá 1840[206] og þannig var það líka sextíu árum síðar.

Jóhannes Jónsson, sem bjó í efri bænum á Álfadal um aldamótin 1900, var kvæntur Ríkeyju Eiríksdóttur en hún var dóttir Eiríks Tómassonar, bónda í Hrauni á Ingjaldssandi, og fædd eftir að faðir hennar drukknaði árið 1849.[207] Jóhannes Davíðsson, sem fæddur var árið 1893 og ólst upp í neðri bænum á Álfadal, hefur lýst þessum hjónum svo:

 

Hann [Jóhannes] var lágur maður vexti, lotinn í herðum, grannvaxinn, rauðskeggjaður, ljúfmenni og góðmenni. Hann var vel hagur í höndum, frábær sláttumaður og iðjumaður sem aldrei féll verk úr hendi. Ríkey var meðalkvenmaður á hæð og frekar gildvaxin, svarthærð og hafði verið myndarkona á yngri árum en fátækt, barneignir og basl höfðu rist hana rúnum sínum er ég man fyrst eftir henni rétt fyrir síðustu aldamót. Hún var kona skapstór og réð miklu í sambúð þeirra hjóna, góðsöm og gjafmild eins og systir hennar, Þuríður, en ekki smáþrifin eða nostursöm.[208]

 

Davíð Davíðsson og Jóhanna Jónsdóttir kona hans bjuggu í neðri bænum á Álfadal frá 1890 til 1913 en fluttust þá að Neðri-Hjarðardal.[209] Davíð var frá Tungu í Valþjófsdal og hafði lengi verið stýrimaður á skútum á yngri árum.[210]

Jóhannes, sonur Davíðs og Jóhönnu, getur þess að árleg landskuld sem foreldrar hans þurftu að borga af hálflendunni hafi verið tvær ær, loðnar og lembdar í fardögum.[211] Leiguærnar voru að sögn Jóhannesar 36 með allri jörðinni,[212] það er sex kúgildi. Árið 1710 höfðu leigukúgildin sem fylgdu Álfadal verið sjö (sjá hér bls. 7) svo lítið hefur breyst í þeim efnum á 200 árum. Leigurnar sem Davíð þurfti að greiða á hverju ári fyrir kúgildin þrjú (18 ær), sem fylgdu hans parti af jörðinni, voru sex fjórðungar af smjöri,[213] það er 30 kíló. Greinilegt er að við ákvörðun leignanna hefur enn verið farið eftir ákvæðum Jónsbókarlaga þó komið væri fram á 20. öld því í þeirri góðu bók segir að lögleiga fyrir hvert málnytukúgildi skuli vera tveir fjórðungar af smjöri.[214]

Bústofn Davíðs og Jóhönnu, er þau bjuggu á hálfum Álfadal, var venjulega þrjár kýr, þrjátíu til fjörutíu ær, tuttugu til þrjátíu gemlingar og einn til tveir hestar.[215] Fellisvorið 1898 fór ærstofninn þó svo illa  að hann náði sér ekki fyrr en 1905 en þá fékk Davíð alla jörðina til ábúðar.[216]

Kristnihaldi á Álfadal á fyrstu árum 20. aldarinnar lýsir Jóhannes Davíðsson með þessum orðum:

 

Móðir mín … var alin upp hjá kristnu og vönduðu fólki og ræktu foreldrar mínir húslestra alla helgidaga ársins og á kvöldin áður en gengið var til náða, frá veturnóttum til sumarmála. Faðir minn las húslesturinn og voru sungnir sálmar bæði fyrir og eftir lesturinn og bænir lesnar og hafði Kristján Jónsson, frændi og fóstri móður minnar, samið og skrifað heila bænabók og voru þær bænir oft lesnar þótt fleiri væru til.[217]

 

Óskar Einarsson læknir, sem á sínum tíma ritaði bók um aldarfar og örnefni í Önundarfirði, segir að álagablettir séu margir í landi Álfadals og hvergi vissi hann til þess að örnefni væru þéttari en þar.[218] Einn álagabletturinn er Ólafshólmi í Langá og annar er fast við túnið, niður undan Votabæli sem er utan við ytra Bólið.[219] Þessi álagablettur var eitt sinn sleginn á árunum kringum 1930 en stúlka, sem vann þar að heyverkum, dó næsta vetur.[220] Álagablettir eru líka niður undan Pálshjalla, sem svo heitir, en hjalli þessi er neðan við Svörtukletta, ekki langt frá landamerkjum Álfadals og Hrauns.[221] Á blettum þessum hvíldi sú bannhelgi að þar mætti aldrei slá en þarna eru þó grasgefnir smáhvammar vaxnir finnungi og snarrót.[222] Óskar Einarsson segir frá því að eitt sinn hafi maður sem Páll hét farið með orf og ljá upp á hjallann fyrir ofan þessa síðast nefndu álagabletti. Er hann hafði slegið þar nokkur ljáför sótti að honum þvílíkur svefn að hann varð að leggjast út af. Sofnaði hann skjótt og dreymdi að til sín kæmi maður með öxi mikla reidda um öxl. Hótaði sá að láta Pál kenna á öxinni ef hann héldi áfram slætti þar á hjallanum. Við þetta vaknaði Páll og var þá svo hræddur að hann tók til fótanna og hljóp heim til bæjar frá orfi sínu.[223] Æ síðan hefur hjallinn sem um ræðir verið nefndur Pálshjalli og var því trúað að þar mætti aldrei bera ljá í gras.[224]

Kvíabólið á Álfadal var á hjalla upp af utanverðu túninu.[225] Þar heita Fremraból og Ytraból.[226] Utan við Ytraból (nær sjó) er Votabæli og þar skammt fyrir utan standa á gróinni skriðu allmargir stórir steinar í einni hvirfing.[227] Flestir standa þeir á mjórri endanum.[228] Stærsti steinninn í þessari þyrping heitir Álfakirkja en steinaþyrpinguna í heild nefndu menn Stórusteina.[229] Einn steinninn heitir Landdísasteinn.[230] Hann stendur stakur og er í lögun eins og tafla sem stendur á öðrum endanum.[231] Steinninn er hár en þó kleifur, vaxinn dökkum skófum niður fyrir miðju.[232] Steinaþyrpingin sem hér var nefnd er ofantil við félagsheimilið Vonaland. Landdísasteininn er auðvelt að þekkja sé höfð í huga lýsingin sem hér var vitnað í. Steinninn er rétt fyrir framan félagsheimilið en annar steinn, Álfakirkja, hinum megin við það, nær Sæbóli.

Dálítið neðan við túnið á Álfadal og gegnt Villingadal, sem er handan ár, eru Villingadalsholt. Í holtum þessum eru þrjár lágar og heitir sú fremsta Berjalág.[233] Um hana lá reiðvegurinn frá Álfadal að Villingadal.[234] Næst er Djúpalág en síðan kemur Reiðlág og um hana lá gatan frá Sæbóli að Villingadal.[235]

Hér hefur áður verið minnst á Álfadalsá eða Álfadalsþverá sem á upptök sín uppi í dalkvosinni ofan við túnið (sjá hér bls. 1). Fjalldalurinn sem áin kemur úr er samnefndur bænum og heitir því Álfadalur. Veturlönd með Veturlandaklettum eru í ytri hlíð dalsins en fremri hlíðin heitir Hraunshornshlíð.[236] Uppi á dalnum, niður undan Veturlöndum, er Álfhóll.[237] Úr dalbotninum er fær leið upp á Álfadalsfjall um hjalla tvo sem heita Neðrikiki og Efrikiki.[238] Skammt utan við hjalla þessa en framan við Álfhól er stórt gil í fjallsbrúninni og heitir Bringgil.[239] Þar er miður aftan frá Álfadal.[240] Lækur sem fellur um gilið kemur úr Álfadalsvatni þar uppi á fjallinu.[241] Sagt var að skrímsli nokkurt ætti bústað sinn í vatninu og haft fyrir satt að þar gætti flóðs og fjöru.[242]

Hér hefur fátt eitt verið talið upp af hinum mikla grúa örnefna í Álfadalslandi en þó verður nú látið staðar numið enda mál til komð að þoka sér fram að Hrauni sem er næsti viðkomustaður. Landamerki Álfadals og Hrauns eru undir Hraunshorni sem er fjallið mikla framan við Álfadal. Fremst í Álfadalslandi, næst landamerkjunum, eru Álfadalsborgir uppi í fjallinu en milli þeirra og Hraunsborga er berjarík lægð sem heitir Geil.[243] Merkin liggja um þessa lægð og niður við Langá eru þau að heita má beint á móti íbúðarhúsinu á Brekku (sjá hér bls. 2).

 

 

 

– – – – – – o — – – – –

[1] Guðm.og Guðni Ágústssynir. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

[2] Guðm. Bernh. 1985, 147-160.

[3] Sama heimild.

[4] G.G. Hag. 1960, 86-87.

[5] Sama heimild.

[6] Sama heimild.

[7] Sama heimild.

[8] Guðm.og Guðni Ágústssynir. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

[9] Óskar Ein. 1951, 176-177.

[10] Guðm.og Guðni Ágústssynir. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

[11] Óskar Ein. 1951, 176-177.

[12] Guðm. Hagalínsson. – Viðtal K.Ó. við hann 2.7.1993. Magnúsína og Guðmunda Guðmundsdætur. –

Viðtal K.Ó. við þær 30.6.1993.

[13] Örn.skrá.

[14] Sama heimild.

[15] Sama heimild.

[16] Guðm. Hagalínsson. – Viðtal K.Ó. við hann 2.7.1993.

[17] Sóknalýs. Vestfj. II, 94-95. Jóh. Dav. 1968, 60-61 (Ársrit S.Í.).

[18] Jarðab. Á. og P. VII, 89-90. Sóknalýs. Vestfj. II, 84.

[19] Jarðab. Á. og P. VII, 89-90.

[20] Sama heimild, 90.

[21] D.I. II, 360.

[22] D.I. II, 360.

[23] D.I. II, 360.

[24] D.I. IV, 484-486. Ísl. æviskrár II, 196.

[25] D.I. IX, 548.

[26] Sama heimild, 548-549.

[27] D.I. XV, 575.

[28] Sama heimild.

[29] Jarðab. Á. og P. VII, 89.

[30] Jarðab. Á. og P. VII, 89.

[31] Sóknalýs. Vestfj. II, 85.

[32] Jóh. Dav. 1981, 121 (Ársrit S.Í.).

[33] Sama heimild.

[34] Sóknalýs. Vestfj. II, 84.

[35] Jóh. Dav. 1959, 127-128 (Árbók. Hins ísl. fornleifafélags).

[36] Sama heimild.

[37] Sama heimild.

[38] Sama heimild.

[39] Sama heimild.

[40] Jóh. Dav. 1959, 127-128 (Árbók. Hins ísl. fornleifafélags).

[41] Jóh. Dav. 1959, 127-128 (Árbók Hins ísl. fornleifafélags).

[42] Sama heimild. Guðm. Bernh. 1985, 16.

[43] Jóh. Dav. 1959, 127-128.

[44] D.I. VIII, 339.

[45] Sama heimild.

[46] D.I. IV, 264-265, sbr. D.I. VI, 41-43.

[47] Sömu heimildir.

[48] Arnór Sigurjónsson 1975, 175-177.

[49] Sama heimild, 178-184.

[50] D.I. V, 475-476 og 517-518.

[51] Ól. Þ. Kr. 1980, 25 (Ársrit S.Í.).

[52] Jarðabréf frá16. og 17. öld. Útdrættir. (Kph. 1993), bls. 158.

[53] Jarðab. Á. og P. VII, 89-90.

[54] Sama heimild.

[55] Manntal 1762.

[56] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.

[57] Ísl. æviskrár I, 145 og II, 234-235.

[58] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 6. Dóma- og þingbók 1817-1834, bls. 113-114.

[59] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681, Jarðatal og búenda í Skálholtsbiskupsdæmi.

[60] Manntal 1703.

[61] Sama heimild.

[62] Sama heimild.

[63] Sama heimild.

[64] Annálar IV, 320.

[65] Alþ.bækur Ísl. IX, 356.

[66] Jarðab. Á. og P. VII, 89-90.

[67] Sama heimild.

[68] Jarðab. Á. og P. VII, 89-90.

[69] Sama heimild.

[70] Sama heimild.

[71] Sama heimild.

[72] Sama heimild.

[73] Sóknalýs. Vestfj. II, 84.

[74] Jóh. Dav. 1968, 60-61.

[75] Sama heimild.

[76] Manntal 1703. Jarðab. Á. og P. VII, 89-90. Bændatal frá því um 1735.

[77] Jarða- og bændatal 1753. Manntöl 1762, 1801, 1835, 1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1870, 1880, 1890 og

1901.

[78] Manntal 1762.

[79] Annálar III, 658.

[80] Manntal 1762.

[81] Manntal 1801, sbr. Ísl. æviskrár II, 234-235.

[82] Manntal 1801.

[83] Manntal 1845.

[84] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga. Sbr. Eyjólfur Jónsson 1976, 146-150 (Ársrit S.Í.).

[85] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga og Vestf. ættir II, 413.

[86] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[87] Sama heimild.

[88] Sama heimild.

[89] Sama heimild.

[90] Sama heimild. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 9. Dóma- og þingbók 1841-1847, bls. 300-303.

[91] Kristinn Kristmundsson og Þórleifur Bjarnason 1971, 213.

[92] Manntal 1835.

[93] Manntal 1845. Vestf. ættir II, 413.

[94] Manntal 1845.

[95] Manntal 1845.

[96] VA III, 410, búnaðarskýrsla 1845.

[97] Sama heimild.

[98] Vestf. ættir II, 413-429.

[99] Manntöl 1840 og 1845.

[100] Vestf. ættir II, 413.

[101] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[102] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 9. Dóma- og þingbók 1841-1847, bls. 300-303.

[103] S.Gr. B. 1924-1927, 131 (Blanda III). Manntal 1845.

[104] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 9. Dóma- og þingbók 1841-1847, bls. 300-303.

[105] Skjalas. Vesturamts. VA III – J, 10 nr. 1298, reikn. Eggerts Briem, dags. 12.3.1847.

Ísl. æviskrár I, 315-316. Manntal 1845.

[106] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 9. Dóma- og þingbók 1841-1847, bls. 300-303.

[107] Sama heimild.

[108] Sama heimild.

[109] Sama heimild.

[110] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 9. Dóma- og þingbók 1841-1847, bls. 300-303.

[111] Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar 1802-1873, VI, 38-40.

[112] Sama heimild.

[113] Sama heimild.

[114] Sama heimild.

[115] Sama heimild.

[116] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV.9. Dóma- og þingbók  1841-1847, bls. 300-303.

[117] Sama heimild.

[118] Sama heimild.

[119] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV.9.  Dóma- og þingbók  1841-1847, bls. 300-303.

[120] Sama heimild.

[121] Sama heimild.

[122] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV.9.  Dóma- og þingbók  1841-1847, bls. 300-303.

[123] Sama heimild.

[124] VA – J, 10 nr. 1298, reikningur Eggerts Briem, dags. 12.3.1847 og sendur Vesturamti.

[125] Sama heimild.

[126] Skýrslur um landshagi I, 262.

[127] Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar VI, 51-53.

[128] Manntal 1845.

[129] Sama heimild.

[130] Sama heimild.

[131] Sama heimild.

[132] Skjalasafn Vesturamts. VA – J, 10 nr. 1298, bréf Eggerts Briem 31. júlí 1845 til Bjarna Thorsteinsson.

[133] Sama heimild.

[134] Skjalasafn Vesturamts. VA – J, 10 nr. 1298, afrit af dómi hæstaréttar 6.5.1846 í málinu no. 185/1846.

[135] Skj.safn landsyfirrétter, askja nr. 59. Lögvörn Brynjólfs Svenzon í málinu nr. 13/1845, dags. 25.8.1845.

[136] Skjalasafn Vesturamtsins. VA – J, 10 nr. 1298, konungsúrskurður dags. 12.6.1846.

[137] Sama askja, hæstaréttardómur frá 6. maí 1846  ásamt áritun frá 27.2. 1847.

[138] Sama heimild.

[139] Sama heimild.

[140] Sama heimild.

[141] Skjalasafn Vesturamts. VA – J, 10 nr. 1298, reikningur frá Eggerti Briem, dags. 12.3.1847.

[142] Skj.safn Vesturamtsins. VA – J, 10 nr. 1298,  reikn. frá apótekaranum í Stykkishólmi, dags. 29.11.1847.

[143] Íbúaskrá Kaupmannahafnar 1850, varðveitt í danska ríkisskjalasafninu.

[144] Skj.safn Vesturamtsins. VA – J, 10 nr. 1298, konungsúrskurður 12.6.1846.

[145] Sama askja, bréf dómsmálaráðuneytisins í Kaupmannahöfn 26.9.1848 til amtmannsins í Vesturamti.

[146] Sama askja, bréf Jóns Péturssonar, sýslum. í Mýra- og Hnappad.sýslu 7.11.1848 til Bj. Thorst. amtm..

[147] Lbs. 23328vo, Dagb. G.G. 28.11.1848.

[148] Skj.s. Vesturamts. VA – J, 10 nr. 1298, reikn. E. Briem, dags. 12.3.1847 og sendur skrifst. V.amtsins.

[149] Sama heimild.

[150] Sama heimild.

[151] Skj.s. Vesturamts. VA – J, 10 nr. 1298, reikn. E. Briem, dags. 12.3.1847 og sendur skrifst. V.amtsins.

[152] Sama heimild.

[153] Sama heimild.

[154] Skj.s. Vesturamts. VA – J, 10 nr. 1298, reikn. E. Briem, dags. 12.3.1847 og sendur skrifst. V.amtsins.

[155] Sama heimild.

[156] Sama heimild.

[157] Sama heimild.

[158] Sama heimild.

[159] Sama askja, bréf Eggerts Briem 12.3.1847 til Bjarna Thorsteinsson amtmanns.

[160] Sama heimild, sbr. í sömu öskju bréf rentukammers 8.5.1847 til Bjarna Thorsteinsson amtmanns.

[161] Sama askja, bréf Eggerts Briem 20.2.1848 til Bjarna Thorsteinsson amtmanns.

[162] Skj.s. Vesturamts. VA – J, 10 nr. 1298, bréf Eggerts Briem 30. júní 1848 til Bjarna Thorsteinsson amtmanns.

[163] Sama heimild.

[164] Sama heimild.

[165] Kristinn Kristmundsson og Þórleifur Bjarnason 1971, 132.

[166] Sama heimild.

[167] Sama heimild.

[168] Sama heimild.

[169] Eyjólfur Jónsson 1976, 148  (Ársrit S.Í.).

[170] Prestsþj.b. Staðar í Aðalvík – dánir árið 1854.

[171] Jón Þ. Þór 1984, 138-140.

[172] Lbs. 12884to, bls. 429 (Vestfirðingasaga Gísla Konráðssonar).

[173] Sama heimild. Ísl. æviskrár V, 25.

[174] Lbs. 12884to, bls. 429.

[175] VA III, 411, búnaðarskýrsla 1846.

[176] VA III, 411, búnaðarskýrsla 1847.

[177] VA III, 411, búnaðarskýrsla 1848.

[178] VA III, 411-413, búnaðarskýrslur 1848-1853.

[179] Manntal 1850.

[180] Sama heimild.

[181] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga, – „fermdir 1855”.

[182] Vestf. ættir II, 413.

[183] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[184] Sama heimild.

[185] Sama heimild.

[186] Vestf. ættir II, 418-422.

[187] Sama heimild, 413 og 418.

[188] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 5.5.1878. Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[189] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 5.5.1878.

[190] Eyjólfur Jónsson 1976, 148 (Ársrit S.Í.).

[191] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[192] Vestf. ættir II, 413-418.

[193] Sama heimild.

[194] Halldór Kristjánsson 1991, 40 (Ársrit S.Í.).

[195] Sama heimild, 40-58.

[196] Alþ.tíð. 1928 A, þingskjal 424 og 1928 B, dálkar 2071-2076. Sbr. Stjórnartíðindi 1928 A, bls. 125.

[197] Manntöl frá árunum 1850-1901 og sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[198] Vestf. ættir II, 413-422.

[199] Sama heimild.

[200] Jóh. Dav. 1970, 107-110 (Ársrit S.Í.).

[201] Jóh. Dav. 1970, 111. (Ársrit S.Í.).

[202] Sami 1970, 107-110.

[203] Sama heimild, 111.

[204] Örn.skrá.

[205] Magnúsína og Guðmunda Guðmundsdætur. – Viðtal K.Ó. við þær 30.6.1993.

[206] Sóknalýs. Vestfj. II, 84.

[207] Jóh. Dav. 1970, 107-110 (Ársrit S.Í.).

[208] Sama heimild.

[209] Sama heimild.

[210] Sama heimild.

[211] Sama heimild.

[212] Sama heimild.

[213] Jóh. Dav. 1970, 107-110 (Ársrit S.Í.).

[214] Þorv. Thoroddsen, Lýsing Íslands III, 45.

[215] Jóh. Dav. 1970, 107-109 (Ársrit S.Í.).

[216] Sama heimild.

[217] Sama heimild, 110.

[218] Óskar Ein. 1951, 91 (Árbók F.Í.).

[219] Sami 1951, 177-179 (Aldarfar og örn.).

[220] Sama heimild.

[221] Sama heimild, 176-177.

[222] Sama heimild.

[223] Óskar Ein. 1951, 176-177. (Aldarfar og örnefni).

[224] Sama heimild.

[225] Örn.skrá.

[226] Óskar Ein. 1951, 177 (Aldarfar og örnefni).

[227] Sama heimild.

[228] Sama heimild.

[229] Sama heimild.

[230] Jóh. Dav. 1976, 144 (Ársrit S.Í.).

[231] Sama heimild.

[232] Sama heimild.

[233] Óskar Ein. 1951, 179.

[234] Sama heimild.

[235] Sama heimild.

[236] Sama heimild, 175-176.

[237] Sama heimild.

[238] Sama heimild.

[239] Jóh.Dav. 1976, 144-145 (Ársrit S.Í.).

[240] Sama heimild.

[241] Óskar Ein. 1951, 176.

[242] Sama heimild.

[243] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »