Arnkelsbrekka og Holtssel

Arnkelsbrekka og Holtssel

Í Gísla sögu Súrssonar segir frá ferð tveggja sendimanna hans úr Haukadal í Dýrafirði að Hesti í Önundarfirði þeirra erinda að koma mjög mikilvægum boðum til Vésteins Vésteinssonar á Hesti sem var mágur Gísla og náinn vinur.[1] Skilaboðin sem flytja átti Vésteini voru þau að hann skyldi halda sig heima og alls ekki ríða vestur yfir Gemlufallsheiði fyrr en Gísli kæmi sjálfur á hans fund.[2] Sagan sýnir að ekkert minna en líf Vésteins lá við en svo slysalega tókst til að boðin náðu honum ekki fyrr en um seinan því þegar sendimenn Gísla riðu frá Mosvöllum hið efra reið Vésteinn þar undir melinn á leið til Dýrafjarðar með viðkomu í Holti (sjá hér Mosvellir) og þess vegna fórust þeir á mis, Vésteinn og sendimenn Gísla.

Þegar sendimennirnir komu að Hesti og fengu þær fréttir að Vésteinn væri lagður af stað til Dýrafjarðar sneru þeir við sem skjótast og er ferð þeirra lýst með þessum orðum í sögunni:

 

Og er þeir komu til Mosvalla, þá sjá þeir mannareið í miðjum dal og var þá leiti í millum þeirra. Ríða nú í Bjarnardal og koma til Arnkelsbrekku. Þar springa báðir hestarnir. Þeir renna þá af hestunum og kalla.[3]

 

Um framhald sögunnar skal vísað til þess sem hér hefur áður verið ritað (sjá Gemlufall og Haukadalur).

Í Íslendinga sögu Sturlu Þórðarsonar er Arnkelsbrekka líka nefnd og frá því sagt að þegar Sturla Sighvatsson reið í Holt til fundar við Vatnsfirðinga vorið 1230 hafi Steinþór prestur í Holti komið til móts við hann að Arnkelsbrekku (sjá hér Holt).

Hvorki í Gísla sögu né í Íslendinga sögu Sturlu kemur fram með skýrum hætti að Arnkelsbrekka hafi verið býli. Engu að síður má telja fullvíst að þarna sé um bæjarnafn að ræða því úr öðrum heimildum er kunnugt um býli með þessu nafni í Bjarnardal. Þar er fyrst að nefna Oddgeirsmáldaga frá árinu 1377 eða því sem næst en þar er Holtskirkja sögð eiga þrjár jarðir auk heimalands og tekið fram að Arnkelsbrekka sé ein þeirra.[4] Í Vilkinsmáldaga frá árinu 1397 er Arnkelsbrekka líka sögð vera ein af jörðum kirkjunnar í Holti.[5] Í báðum þessum máldögum er jörðin nefnd eins og hver önnur bújörð án nokkurra athugasemda svo telja verður mjög líklegt að þar hafi enn verið búið í lok 14. aldar.

Í máldaga Gísla biskups Jónssonar frá árunum upp úr 1570 er Arnkelsbrekku hins vegar ekki getið þegar jarðir Holtskirkju eru taldar upp[6] Það sýnir að jörðin hefur þá verið komin í eyði því vitað er að forráðamenn Holtskirkju létu aldrei af hendi land þessarar fornu bújarðar sem kirkjan eignaðist um miðja 14. öld eða fyrr.

Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 segir svo um Arnkelsbrekku:

 

Arnkelsbrekka heitir í Bjarnadal, skammt fyrir neðan Holtssel og í Holts landseign. Þar sér til bæjarstæðis eður gamalla tóttaleifa og eru sagnir að hér hafi bær staðið, þó fyrir mörgum mannsöldrum, og veit enginn til að segja nær það býli hafi eyðilagst. Líkast er að þær engjar á Bjarnadal sem Holtsstaður nú brúkar hafi þessu býli í gamla daga fylgt. Má staðurinn ekki þeirra án vera, ekki heldur haganna og verður svo þetta býli ekki aftur byggt án staðarins skaða. Aðrir kalla þetta Arnkelskot.[7]

 

Þessi orð Jarðabókarinnar sýna að sumarið 1710 hafa bændur í Bjarnardal getað bent Árna Magnússyni á rústir Arnkelsbrekku og þeir hafa því vitað nákvæmlega hvar bærinn stóð, þ.e. skammt fyrir neðan Holtssel en þó fyrir framan Seljaleiti því eyðibýlið var í Holts landseign. Um þessa staðsetningu er alls ekki hægt að efast en milli Sels og Seljaleitis er aðeins skammur spölur eins og hér hefur áður verið nefnt. Ólafur Olavius fór sína rannsóknarferð um Vestfirði árið 1775 og í Ferðabók sinni nefnir hann sex eyðibýli í Önundarfirði.[8] Tvö þeirra segir hann kunnuga telja best fallin til endurbyggingar, nafnlaust kot í landi Mosvalla og Arnkelsbrekku í Bjarnardal.[9] Í sóknalýsingu sinni frá árinu 1840 telur séra Tómas Sigurðsson í Holti upp þessi sömu eyðibýli í prestakallinu og segir að á Arnkelsbrekku sé selstaða frá Holti.[10]

Í Jarðabókinni frá 1710 lætur Árni Magnússon þess getið, svo sem fyrr var nefnt, að sumir nefni Arnkelsbrekku nú Arnkelskot. Slík breyting á nöfnum eyðijarða var reyndar algeng. Ólafur Þ. Kristjánsson, skólastjóri í Hafnarfirði, sem fæddur var árið 1903 og ólst upp á Kirkjubóli í Bjarnardal, næsta bæ við Arnkelsbrekku, segir að á sínum uppvaxtarárum hafi alltaf verið talað um Arnkelskot og nafnið haft í fleirtölu.[11] Holtsselið segir Ólafur vera kippkorn framar í dalnum en bærinn Arnkelsbrekka stóð[12] sem kemur heim við orð Jarðabókarinnar frá 1710.

Óskar Einarsson læknir sem safnaði örnefnum í Önundarfirði á árunum kringum 1930 getur þess að Arnkelskot (eintala) sé af mörgum nefnt Ekkilskot en tekur fram að það hljóti að vera latmæli[13] sem vafalaust er rétt. Arnkelsbrekku eða Arnkelskot segir Óskar vera mitt á milli Sels og Seljaleitis og getur þess að hátt í hlíðinni, þar beint fyrir ofan, sé Langiteigur.[14] Heiman við Langateig segir Óskar vera Litlahvamm en síðan komi hinn breiði grasteigur Fles sem hér hefur áður verið nefndur (sjá hér Tröð).

Með orð Jarðabókarinnar frá 1710 og frásagnir þeirra Ólafs Þ. Kristjánssonar og Óskars Einarssonar í huga eða höndum er auðvelt að gera sér grein fyrir á hvaða slóðum Arnkelsbrekka muni hafa verið, það er kippkorn heiman við Selið eða mitt á milli Sels og Seljaleitis en spölurinn þar á milli er um það bil 800 metrar. Nokkuð skortir þó á nákvæmni hjá hinum ágætu höfundum, því enginn þeirra nefnir hversu langt frá árbakkanum bærinn hafi staðið. Nú eru engar tóttir sjáanlegar á því svæði sem til greina kemur. Um Langateig, sem Óskar Einarsson segir vera beint fyrir ofan fornbýlið, þarf vart að efast því mitt á milli Sels og Seljaleitis er aðeins einn langur grasteigur sem nær hátt upp í hlíðina. Beint niður af honum er þúfnakargi, skammt fyrir neðan gamla akveginn, og sýnist líklegt að Óskari hafi verið sagt að Arnkelskot væri þar. Guðmundur Ingi Kristjánsson, sem fæddur er árið 1907 og hefur alla ævi átt heima á Kirkjubóli í Bjarnardal, segir hins vegar að staðurinn sem fólk á Kirkjubóli nefndi Arnkelskot hafi verið svolítið nær Seljaleiti og alveg fram á árbakkanum.[15] Þarna er nú bugur á ánni og greinilegt að hún hefur brotið úr bakkanum á síðari árum.[16] Á æskuárum Guðmundar Inga voru engar greinilegar tóttir sjáanlegar á árbakkanum sem nú er horfinn en jarðvegi engu að síður þannig háttað að bent gat til byggingarleifa.[17]

Hér voru áður leiddar líkur að því að Arnkelsbrekka hefði farið í eyði á 15. eða 16. öld en jörðin hafði þá verið í eigu Holtskirkju um alllangt skeið. Um ástæður þess að hætt var að búa á jörðinni er ekki vitað með vissu en líklegasta skýringin er sú að presturinn, sem þá sat í Holti, hafi talið hentugra að nýta beitilandið fyrir sinn eigin seljabúskap en vera með bónda á þessu koti.

Áður en Arnkelsbrekka fór í eyði mun selið frá Holti hafa verið frammi í Mjóadal en það er langur afdalur sem gengur suðaustur úr Bjarnardal. Fram í mynni hans er aðeins tíu mínútna gangur frá rústunum af hinu yngra Holtsseli. Heimaraleiti er í mynni Mjóadals en nokkru framar er Fremraleiti og nær upp fyrir miðja hlíð.[18] Uppi á neðri brúninni, ofan við leitin sem hér voru nefnd, er grasivaxin hvilft sem heitir Seljahvilft.[19] Hún er tvískipt og var því stundum talað um Hærri-Seljahvilft og Lægri-Seljahvilft.[20] Örnefnið Fornusel þekkist enn, heimarlega á Mjóadal og austan ár,[21] mitt á milli Fremraleitis og Þurragils[22] en það er djúpt gil fyrir framan Fremraleiti og nær tæplega upp í miðja hlíð.[23] Enn framar í Mjóadal er Stóragil sem klýfur fjallsbrúnina[24] og þar fyrir framan Illagil en í dalbotninum eru Austurkiki og Vesturkiki.[25] Frá hinu yngra Holtsseli eru um það bil tveir kílómetrar fram að Fornuseljum og þaðan eru aðrir tveir kílómetrar fram í botn Mjóadals þar sem hann greinist í Austurkika og Vesturkika. Fremst í Mjóadal, þar sem árkvíslarnir sem mynda Mjóadalsá nálgast hvor aðra, heita Ártungur.[26]

Í ritgerð frá árinu 1972 segir Ólafur Þ. Kristjánsson skólastjóri að fyrr á öldum hafi Holtssel verið fram í Mjóadal þar sem enn heiti Fornusel[27] og í annari ritgerð frá árinu 1979 greinir hann frá á þessa leið:

 

Sérstakt býli var á fyrri öldum skammt fyrir heiman þar sem selið var síðar reist. Það hét Arnkelsbrekka eða Arnkelskot. Hafði sú jörð verið eign Holtskirkju en Holtssel var þá mun framar, Kirkjubólsmegin á Mjóadal þar sem enn heita Fornusel og Seljahvilft fyrir ofan. Þar hefur verið hin ágætasta sumarbeit (ég sat þar hjá kvíaánum þegar ég var strákur) en vetur lagst nokkuð snemma að og seint leyst á vorin. Sagði faðir minn mér að þar hefði sést fyrir tóttarleifum við lækjarkjaft niður við langána en nú er sá bakki eyddur. Selið hefur verið flutt heim eftir að Vilchinsmáldagi var gerður 1397 því að þá er Arnkelsbrekka nefnd sem býli.[28]

 

Þessi orð hins ágæta fræðimanns frá Kirkjubóli í Bjarnardal sýna að nú muni vera of seint að leita rústanna af Fornuseljum sem enn voru þó sjáanlegar á síðari hluta 19. aldar. Í ritgerð Ólafs fáum við líka frá fyrstu hendi þá vitneskju að á fyrstu áratugum þessarar aldar hafi verið setið yfir kvíaám frá Kirkjubóli fram á Mjóadal, þar sem enn heita Fornusel, og að þangað hafi heyskapur verið sóttur frá sama bæ sumarið 1918 þegar lítið var um gras.[29]

Í máldaganum frá síðustu árum 14. aldar er minnst á selför frá Holti (sjá hér Holt) svo tvímælalaust er að seljabúskapur prestanna þar hefur hafist áður en Arnkelsbrekka fór í eyði. Allar líkur benda til þess að selið hafi verið flutt úr Fornuseljum og heim undir Arnkelsbrekku um svipað leyti og jörðin með því nafni féll úr byggð, það er að segja á árunum milli 1397 og 1570. Æ síðan stóð Holtssel á sama stað og hér erum við nú stödd við rústir þess sem tala sínu þögla máli. Úr selinu eru liðlega 6 kílómetrar heim að Holti.

Gamli reiðvegurinn sem farinn var úr Bjarnardal á Gemlufallsheiði lá rétt fyrir framan dyrnar á selhúsunum,[30] yfir Heiðará og upp með henni að austanverðu.[31] Þjóðvegurinn sem nú er farinn liggur hér uppi í hlíðinni. Ofan við hann og beint upp af selinu er Skáldagrímsdalur, lítill fjalldalur með Kaldbak á aðra hlið en Skáldagrímsfjall, sem er framar, á hina. Framan við það er Rjúpnahvilft, þá Rjúpnahvilftarhorn og þar fyrir framan Folaldahvilft.[32] Er þá komið að hreppamörkum uppi á miðri Gemlufallsheiði. Úr Skáldagrímsdal fellur Selá og rennur í Bjarnardalsá rétt framan við selið.[33] Úr fjalllendinu hinum megin í dalnum, handan við Bjarnardalsá, kemur Hádegisá sem rennur um Efri- og Neðri-Hádegishvilft og fellur í Bjarnardalsá beint á móti selinu.[34] Hádegisá skiptir löndum milli Kirkjubóls og sellands staðarins í Holti. Klettahornið framan við Hádegisá heitir Hádegishorn[35] og mun hafa verið eyktamark. Rétt framan við ármót Selár og Bjarnardalsár er foss í síðarnefndu ánni. Hann heitir Selfoss[36] og sýnist vera 6 til 8 metrar á hæð. Þar við fossklettana er hlaðin rétt og leifar af annarri rétt hjá. Frá þessum fossi er aðeins hálfur kílómetri eða því sem næst fram að ármótum Heiðarár, sem kemur ofan af Gemlufallsheiði, og Mjóadalsár sem kemur úr Mjóadal. Þar við ármótin renna þær saman í eitt og úr verður Bjarnardalsá.[37] Rétt neðan við þessi ármót er Möngufoss þar sem sagt er að Sel-Manga hafi drukknað en frá henni er nánar greint aftar á þessum blöðum (sjá hér bls. 15-17). Við ármót Heiðarár og Mjóadalsár er botn Bjarnardals en þar fyrir framan tekur Mjóidalur við sem hér hefur áður verið sagt frá.

Um Holtssel og seljabúskapinn sem þar var rekinn á 17., 18. og 19. öld eru til allmargar traustar heimildir og í fjölda þjóðsagna er greint frá reimleikum og annarlegum fyrirbærum af öðru tagi hér í selinu. Í vísitazíugerð Þórðar biskups Þorlákssonar frá árinu 1675 segir að Arnkelsbrekka sé nú og hafi langvaranlega verið brúkuð fyrir selstöðu frá Holti.[38] Þau orð koma mjög vel heim við það sem hér var áður sagt, að búskapur á Arnkelsbrekku hefði fallið niður fyrir 1570 og selið frá Holti þá verið flutt hingað framan úr Mjóadal. Séra Sigurður Jónsson, sem var sóknarprestur í Holti frá 1680 til 1730, getur um selstöðuna fram á Bjarnadal í ritgerð frá árinu 1709 og segir að beitilandið þar spillist af skriðum að ofan en ánni að neðan.[39]

Í vísitazíugerðum frá árunum 1725 og 1790 láta biskuparnir Jón Árnason og Hannes Finnsson þess getið að jörðin Arnkelsbrekka sé nýtt fyrir selstöðu frá Holti[40] og í ritgerð um selstöður og þeirra nytsemi sem séra Guðlaugur Sveinsson í Vatnsfirði birti árið 1787 nefnir hann sel prestanna í Holti. Í ritgerð sinni kemst séra Guðlaugur m.a.svo að orði:

 

Einungis eru nokkrir fáir forstands- og fyrirhafnarmenn sem enn árlega flytja búsmala sinn í nokkurt fráliggjandi sel á sumrum, einkum frá messudögum [dögunum frá 24. júní til 2. júlí.– innsk. K.Ó.] og fram um höfuðdag, átta eða tíu vikna tíma, og á nokkrum stöðum veit ég haft í seljum frá fardögum og lengra fram á haust, einkum þar hrjóstrugt og magurt heimaland er til enn meiri hagnaðar og nytsemdar.[41]

 

Séra Guðlaugur getur þess að í Holti í Önundarfirði sé sauðféð líka haft í selinu á veturna og greinir frá á þessa leið:

 

Á fáeinum stöðum hvar sauðfé verður eigi heima haft til nokkurra nota á hávetrardag en gott slægjuland er nálægt seli láta góðir bændur heyja fyrir það til vetrarins. Er því þar og síðan mestapart vetrar til haga haldið og fyrst látið liggja við svokallað sauðahlað eður fjárborg en þá meir á herðir halda menn þar að húsi og heyi og brúkast þá selhúsin til fjárhúsa um þann tíma svo mikið sem þau til hrökkva. Þetta hefur verið langvarandi venja í Holti í Önundarfirði, hvar selhúsin standa í dalbotni nokkrum, góðu haglendi, nokkrar bæjarleiðir frá heimastaðnum og er þar heyjað til fjár og stakkað á sumrum en fjármaður gistir um vetur að næsta bæ við selið um þann tíma.[42]

 

Í ritgerð þessari leitast séra Guðlaugur í Vatnsfirði við að sýna fram á nytsemi seljabúskapar og ráðleggur bændum að hafa selhúsin þrjú, það er að segja svefnhús, eldhús og matar- eður mjólkurhús með hillum og öðru tilheyrandi.[43]

Í úttektargerð frá árinu 1797, þegar séra Jón Ásgeirsson var að taka við staðnum í Holti, sjáum við að þá hafa selhúsin hér á Bjarnardal verið fjögur.[44] Eitt þessara húsa var þá nýtt en hin þrjú gömul og ekki sem best uppi.[45] Þegar staðurinn var tekinn út 14 árum síðar, að séra Jóni látnum, var komið nýtt 60 kinda hús í stað gömlu selkofanna.[46] Þetta stóra fjárhús í selinu er til marks um að hér frammi í dalnum hafi fé verið haldið til beitar að vetrinum eins og séra Guðlaugur, prestur í Vatnsfirði, greindi frá í sinni ritgerð. Margar yngri heimildir frá nítjándu öld eru líka til vitnis um það. Við úttekt sem fram fór árið 1822 voru selhúsin hér tekin gild sem 60 kinda hús.[47] Árið 1836 var komið nýtt 50 kinda fjárhús í selinu og annað minna til uppbótar þar sem nýja húsið tók ekki nema 50 kindur en það eldra hafði verið 60 kinda hús.[48]

Í sóknalýsingu sinni frá árinu 1840 greinir séra Tómas Sigurðsson í Holti frá því að í tíð þálifandi manna hafi hvergi verið haft í seli í sínu prestakalli nema í Holti. [49] Um selstöðuna frá Holti kemst prestur svo að orði: Einasta frá Holti hefur hún verið og er enn brúkuð árlega með ærna kostnaði fram í áður umgetnum Bjarnadalsbotni og er þar fé haft vetur og sumar en kýr á sumrum.[50]

Þessi vitnisburður séra Tómasar er ótvíræður og sýnir að selhúsin hafa verið notuð bæði sumar og vetur. Í dagbókum Sigurðar sonar hans, sem var aðstoðarprestur hjá föður sínum í Holti á árunum 1836-1847 og dvaldist í Önundarfirði allt til 1850 (sjá hér Holt), fáum við reyndar nánari upplýsingar um þetta. Dagbækur prestsins sýna að jafnan var farið með féð í selið síðast í júní eða í fyrstu viku júlí.[51] Að líkindum hefur féð oftast komið heim úr selinu upp úr miðjum ágúst því séra Sigurður skrifar í dagbók sína 17. ágúst 1843: Komið heim að vanda úr seli.[52] Stundum mun þó hafa verið haldið til í selinu eitthvað lengur fram eftir sumri því 31. ágúst 1839 segir séra Sigurður féð hafa komið heim þann dag.[53]

Á sumrin voru kýr hafðar í selinu álíka lengi og féð á þessum árum. Sem dæmi má nefna að árið 1839 var komið með þær heim úr seli 30. ágúst og árið 1843 var farið með þær í selið 10. júlí.[54] Á sumrin var líka heyjað í sellandinu fram á Bjarnardal og sumarið 1839 getur séra Sigurður þess í dagbókinni að maður sem Páll hét hafi byrjað að slá þar 5. ágúst.[55] Ætla má að fólk hafi, a.m.k. stundum, haldið til við heyskap í selinu langt fram í september þó kýr og ær væru farnar heim. Vísbendingu um þetta má sjá hjá séra Sigurði en 16. september 1842 greinir hann svo frá að þann dag hafi fólk komið alfarið úr seli.[56] Með hliðsjón af því sem hér hefur áður verið ritað verður að telja líklegt að það hafi ekki verið búsmalinn sem kom svo seint heim úr selinu heldur heyskaparfólk.

Á haustin var féð yfirleitt flutt aftur í selið í síðari hluta október[57] en í dagbókum séra Sigurðar Tómassonar finnst þó eitt dæmi um að farið hafi verið með féð fram eftir fyrir miðjan október.[58] Á búskaparárum séra Sigurðar og Tómasar föður hans í Holti var féð yfirleitt haft í selinu í um það bil fjóra mánuði að vetrinum en var oftast tekið heim þegar leið á þorra eða á góunni.[59] Veturinn 1845-1846 virðist féð þó hafa verið tekið heim á þriðja degi jóla en farið aftur með það fram eftir einum mánuði síðar.[60]

Hjá séra Sigurði fáum við að sjá að veturinn 1843-1844 sendir hann 61 sauðkind í selið og í þeim hópi voru 3 hrútar.[61] Ef marka má búnaðarskýrslu frá haustinu 1843 var séra Tómas í Holti þá búlaus en séra Sigurður átti 44 ær og 27 gemlinga en enga fullorðna sauði.[62] Fjártalan bendir til þess að nær allar sauðkindur prestsins, aðrar en lömb, hafi verið sendar í selið þetta haust. Næsta vetur var féð lítið eitt færra en veturinn 1845-1846 fóru 68 sauðkindur fram í sel.[63] Samkvæmt búnaðarskýrslu áttu þeir feðgar, séra Sigurður og Tómas faðir hans, aðeins 59 sauðkindur, aðrar en lömb, þetta haust[64] svo eitthvað er vantalið í skýrslunni nema ef lömb hafa líka verið höfð í selinu sem er ólíklegt.

Stundum nefnir séra Sigurður nafn sauðamannsins sem fylgdi fénu og hafði vetursetu í selinu. Veturna 1842-1843 og 1845-1846 var það Jón Teitsson[65] sem ugglaust er sá hinn sami og á manntali frá 2. nóvember 1845 er sagður 41 árs vinnumaður hjá séra Tómasi Sigurðssyni í Holti.[66] Frá Jóni Teitssyni segir hér nokkuð síðar (sjá bls. 14-15). Tvo aðra fjármenn, sem sendir voru í selið að hausti til, nefnir séra Sigurður og hét annar þeirra Páll en hinn Eyjólfur.[67] Merkilegt er að sjá hjá séra Sigurði dæmi um að ær hafi verið mjólkaðar í Holtsseli í nóvembermánuði. – Mjólkað í selinu, skrifar séra Sigurður í dagbókina 6. nóvember 1849 og nær þrem vikum síðar, það er 26. nóvember skrifar hann skýrum stöfum mjólkað féð.[68] Þann dag var hann staddur í Holti[69] þó að látið hefði af prestskap (sjá hér Holt). Árið 1849 var séra Lárus M. Johnsen orðinn prestur í Holti svo orð séra Sigurðar um mjaltir í selinu 6. nóvember á því ári sýna að séra Lárus hefur nýtt selhúsin sem beitarhús að vetrinum eins og forverar hans höfðu löngum gert.

Þegar séra Lárus M. Johnsen fór frá Holti árið 1855 voru í selinu tvö hús sem bæði til samans voru ætluð fyrir 60 fjár og komin voru nokkuð til ára sinna en að auk var þar nýtt fjárhús í selinu nyrst, virt á 20 ríkisdali og 48 skildinga.[70] Ekki verður nú séð hvað þetta nýja hús í selinu var ætlað fyrir margar kindur en allstórt hefur það verið því nýtt hús heima í Holti var aðeins virt á 12 ríkisdali.[71] Í úttektinni frá 1855 sést að nýja selhúsið hefur verið metið á liðlega fjóra fimmtu hluta úr kýrverði.[72]

Það var séra Stefán P. Stephensen sem tók við staðnum í Holti úr hendi séra Lárusar M. Johnsen vorið 1855. Auk selhúsanna fram í Bjarnardal fékk hann m.a. afhentar 2 skrínur til seljaflutninga eins og sjá má í úttektinni.[73] Séra Stefán var umsvifamaður í búskap (sjá hér Holt) og fullvíst er að hann var með fé sitt í selinu bæði sumar og vetur (sjá hér bls. 11). Sagt er að hann hafi látið byggja upp hin fornu beitarhús á Bjarnardal[74] en vera má að meira hafi verið gert úr framkvæmdum hans þar en efni stóðu til. Svo mikið er víst að þegar séra Stefán skilaði af sér árið 1884 var húsakostur í selinu talsvert lakari en þegar hann kom að Holti nær þremur áratugum fyrr. Í úttektargerð frá árinu 1884 segir svo: Selhús yfir 60 fjár á að fylgja í Holtsseli. Þar er til hús þaklítið en máttarviðir og dyraumbúningur lélegur, jötustokkalaust og tekur ekki nema 56 fjár.[75] Fyrir niðurníðslu selhúsanna varð séra Stefán að borga 14,- krónur í álag við brottför sína frá Holti.[76]

Á þeim 29 árum sem séra Stefán bjó í Holti kom margt fólk að störfum í seli staðarins á Bjarnardal, selstúlkur, smalar, sauðamenn og heyskaparfólk. Sumt af þessu liði lifði fram yfir 1930 og síðasti selsmalinn frá Holti sem um er kunnugt dó reyndar ekki fyrr en 1953.[77] Ekki er þó vitað um neinar ritaðar frásagnir um vinnubrögð í Holtsseli á dögum séra Stefáns nema þær tvær sem Ólafur Þ. Kristjánsson skólastjóri átti í fórum sínum og birti í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga árið 1979.

Önnur þessara tveggja frásagna byggir á orðum Guðrúnar Sakaríasdóttur sem var vinnukona í Holti á árunum 1870-1872, þá milli fermingar og tvítugs. Þá frásögn skrifaði Ólafur Þ. Kristjánsson niður að Guðrúnu látinni eftir syni hennar, Ágústi Guðmundssyni, bónda á Sæbóli á Ingjaldssandi, sem hafði eftir móður sinni og sagði frá á þess leið:

 

Tvær til þrjár stúlkur voru í selinu að jafnaði. Kýrnar voru mjólkaðar fyrst og var það oftast búið þegar féð kom. Ein stúlkan fór að öllum jafnaði þegar búið var að mjólka kýrnar og ærnar fyrri mjölt til þess að setja mjólkina en hinar mjólkuðu eftirmjölt. Smérið var flutt heim í krókum en skyrið einu sinni í viku í strokknum. Drukkurinn var fluttur heim í tvíbytnum að vetrinum, dreginn á sleða.[78]

 

Ætla má að þessi fáorða lýsing á vinnubrögðum í Holtsseli, sem Ágúst bóndi hafði eftir Guðrúnu móður sinni, sé í öllum meginatriðum rétt. Guðrún komst á tíræðisaldur og dó hjá Ágústi syni sínum árið 1946.[79]

Enn lengur lifði Þorkell Guðmundsson sem var smali í Holtsseli á árunum kringum 1880. Hann fæddist árið 1861 og ólst upp í Holti en fluttist þaðan með séra Stefáni P. Stephensen í Vatnsfjörð árið 1884.[80] Þorkell var lengi bóndi í Þúfum í Vatnsfjarðarsveit en á sínum efstu árum var hann í Vatnsfirði hjá séra Þorsteini Jóhannessyni.[81] Haustið 1952 sendi Ólafur Þ. Kristjánsson séra Þorsteini nokkrar spurningar er hann bað prestinn að leggja fyrir Þorkel sem þá var orðinn 91 árs.[82] Þessar spurningar Ólafs lutu að vinnubrögðum í Holtsseli forðum tíð og reyndist gamli maðurinn kunna skil á flestu sem um var spurt og mundi margt úr æsku sinni í Holti.[83]

Síðari frásögnin af vinnubrögðum í selinu, sem Ólafur kom á prent, er því byggð á orðum Þorkels og verður að teljast mjög merkileg heimild. Fráfærulömbin kvað Þorkell hafa verið rekin upp í fjalldalinn Kálfabana fyrir framan Kirkjuból[84] en frá sumarstörfum selfólksins í Holtsseli sagði hann á þessa leið:

 

Ærnar voru aftur á móti strax reknar fram í Holtssel [það er strax eftir fráfærurnar]. Yfirleitt var ekki setið hjá ánum nema kannski einn dag heldur var þeim smalað allan fráfærutímann. Eftir mjaltir kvölds og morgna voru þær reknar fram fyrir Heiðará á Mjóadal. … Smalinn var vakinn kl. 3-4 á nóttunni til smalamennskunnar og einnig var farið að smala um svipað leyti, kl. 3-4, að degi til. Smalinn hélt alltaf til í selinu.

Venjulega voru 3 stúlkur í selinu, selráðskonan og 2 mjaltakonur. Selráðskonan annaðist matseld og mjólkina, renndi trogum og sá um smjörgerðina en undanrennan var daglega flutt heim að Holti í tveimur 80 marka (40 lítra) kútum og þar var skyrið búið til. Dallur með dagssmjörinu var reiddur ofan á milli á hestinum.

Selkonurnar fóru oft heim að Holti á daginn til þess að þurrka og raka þegar svo stóð á en voru alltaf í selinu yfir nóttina.

Þegar heyjað var í selinu, í Heiðarennunum en það eru brekkurnar heiman við Heiðará, grasgefnar mjög, munu tveir karlmenn hafa dvalið þar framfrá vikutíma eða svo. Heyið var flutt heim í selið.

Í sláttarlok flutti svo fólkið úr selinu heim að Holti og tók ærnar með sér. Eftir þann tíma munu þær ekki hafa verið mjólkaðar nema einu sinni á dag.

Féð var haft heima við í Holti fram undir snjóa en þá voru ærnar reknar í selið að nýju og hafðar þar framundir hátíðar eða meðan selheyið entist. Fjármaðurinn sem gætti fjárins og stóð yfir því á daginn gisti ýmist á Kirkjubóli eða í Tröð, oftast þó á Kirkjubóli.

Kýr voru aldrei hafðar í selinu á æskuárum Þorkels.[85]

 

Séu frásagnir Guðrúnar Sakaríasdóttur og Þorkels Guðmundssonar bornar saman sjáum við að kýrnar frá Holti hafa verið sendar í selið fram yfir 1870 en því verið hætt þegar kom dálítið fram á áttunda áratug 19. aldar. Minnt skal á að í heimildum frá árunum kringum 1840 er staðfest að þá voru Holtskýrnar hafðar í selinu yfir hásumarið (sjá hér bls. 7). Orð Guðrúnar og Þorkels benda líka til þess að önnur breyting á seljabúskapnum hafi orðið á árunum milli 1870 og 1880 því að sögn Guðrúnar önnuðust selstúlkurnar skyrgerðina þegar hún var hjá séra Stefáni en Þorkell segir aftur á móti að undanrennan hafi verið flutt heim í Holt á hverjum degi og skyrið búið til þar.

Þorkell Guðmundsson var 22ja ára gamall þegar hann fór frá Holti með séra Stefáni P. Stephensen vorið 1884. Í svörum hans við spurningum Ólafs Þ. Kristjánssonar kemur ekki fram hvort ær séra Stefáns hafi enn verið mjaltaðar í selinu á hans síðasta búskaparári í Holti en líklegt má telja að svo hafi verið. Þórður Sigurðsson, er seinna bjó lengi í Neðri-Breiðadal, kom að Holti vorið 1884 á vegum nýja prestsins, séra Janusar Jónssonar, og var þar vinnumaður næstu árin.[86] Í grein sem Þórður ritaði síðar segir hann beinum orðum að sumarið 1884 hafi fráfæruærnar í Holti verið hafðar heima.[87] Frásögn Þórðar af búskaparháttum í Holti á næstu árum eftir 1884 bendir líka eindregið til þess að séra Janus hafi aldrei haft búsmala í selinu að sumarlagi.[88] Eiginlegum seljabúskap mun því hafa lokið hér á árunum upp úr 1880 og líklegast að ær hafi síðast verið mjaltaðar hér í selinu sumairð 1883. Séra Janus lét hins vegar heyja í selinu og nýtti selhúsin sem beitarhús að vetrinum eins og lengi hafði tíðkast.[89]

Þegar séra Janus kom að Holti árið 1884 var aðeins eitt hús uppistandandi í selinu og var það ætlað fyrir 56 kindur en orðið lélegt (sjá hér bls. 9). Við brottför séra Janusar árið 1908 voru þar hins vegar tvö fjárhús sem tóku 56 kindur hvort og auk þess hlöðugarmur.[90] Á þessu sést að séra Janus hefur látið byggja upp í selinu. Fjárhúsin tvö sem voru þar um síðustu aldamót stóðu hlið við hlið en hlaðan var á milli þeirra.[91] Hús þessi voru öll sambyggð[92] og úr hlöðunni, sem tók 60 hesta,[93] var innangengt í bæði fjárhúsin.[94]

Oftast mun einhverjum vinnumanna í Holti hafa verið falinn sá starfi að halda kindum prestsins til beitar fram á Bjarnardal þegar vetur gekk í garð og sjá um að hýsa þær í selinu. Á árunum kringum 1880 gisti beitarhúsamaðurinn oftast á Kirkjubóli (sjá hér bls. 11). en sú jörð var nytjuð frá Holti um skeið í tíð séra Stefáns P. Stephensen og stóð því í eyði frá 1876-1884.[95] Húsakynnin þar hafa þó að líkindum verið eitthvað skárri en í selinu fyrst beitarhúsamennirnir fóru þangað til gistingar á þessum árum. Síðasti selmaðurinn hér í Holtsseli mun hafa verið Guðmundur Guðmundsson, síðar skósmiður, sem enn lifði hálftíræður á Flateyri árið 1979.[96] Ættingjar Guðmundar telja að það hafi verið veturinn 1905-1906 sem hann hafði þennan starfa.[97] Guðmundur var þá liðlega tvítugur yngispiltur. Faðir hans bjó á Kirkjubóli í Bjarnardal svo selmaðurinn gat sofið heima hjá sér á nóttunni en gekk daglega þaðan til kinda prestsins, hélt þeim til beitar og hýsti þær í selinu.[98] Sé ártalið sem hér var nefnt rétt og sú staðhæfing að Guðmundur Guðmundsson hafi verið hinn síðasti í langri röð beitarhúsamanna prestanna í Holti, þá hefur séra Janus hætt notkun selhúsanna tveimur árum áður en hann lét af embætti og fluttust suður. Vel má vera að það sé rétt en best að hafa þann fyrirvara á að þarna gæti skeikað einu eða tveimur árum.

Selhúsin frá tíð séra Janusar stóðu uppi næstu ár þó hætt væri að nota þau og mun ýmsum hafa þótt lítt fýsilegt að ríða fyrir dyr húsanna þegar skuggsýnt var orðið[99] því flestir töldu að hér væri reimt. Að síðustu voru þessi gömlu selhús þó rifin en Anton Proppé, sem bjó í Holti 1918-1920, byggði hér upp á ný til að notfæra sér beitina á dalnum.[100] Húsin sem Anton byggði upp úr tóttum hinna eldri húsa voru með skúrarlagi og á þeim voru timburgaflar.[101] Þau hús voru tekin niður skömmu eftir að Anton hætti búskap í Holti.[102]

Rústir þær sem nú ber mest á í Holtsseli hljóta að vera af húsum Antons en eins og áður sagði voru þau á sínum tíma byggð upp úr tóttum gömlu selhúsanna frá tíð séra Janusar. Beitarhúsin frá árunum 1918-1920 virðast hafa verið um það bil 11 x 11 metrar að flatarmáli með fimm körmum og sjáanlegt er að gaflar þeirra hafa snúið í austur og vestur. Þessi beitarhúsatótt er sú stærsta hér í selinu en við fremri hlið hennar er ungleg tótt og lætur nærri að hún sé 2 x 8 metar að flatarmáli. Húsið sem þar stóð virðist hafa verið áfast við sjálf beitarhúsin. Lítið eitt framar er svo eldri tótt, sem er um það bil 8 x 3,5 metrar, og virðist vera af húsi sem snúið hefur í norður og suður. Auk tóttanna, sem nú hafa verið nefndar, eru sjáanlegar hér í selinu fáeinar eldri tóttir, m.a. ein hringlaga á bakka Selár og önnur með sama lagi nær Bjarnardalsá. Sú fyrrnefnda er 17 eða 18 metrar í ummáli en hin 25-30 metrar.

Flest bendir til þess að þegar Anton Proppé byggði upp í Holtsseli skömmu fyrir 1920 hafi tóttum hinna fornu selhúsa verið umturnað, enda munu þau hafa staðið á sama stað og hús Antons. Fram við Selfoss í Bjarnardalsá, um það bil 100 metrum framan við selið, er rétt hlaðin úr grjóti eins og hér hefur áður verið nefnt (sjá bls. 5) og er fosshamarinn nýttur sem réttarveggur. Í þessa rétt var fé rekið til rúnings á fyrri hluta 20. aldar[103] en örskammt frá henni eru sjáanlegar leifar af annarri eldri rétt eða kví. Ekkert verður nú um það fullyrt hvort kvíabólið í Holtsseli hafi verið hér fram við fossinn eða nær selhúsunum en hvort tveggja kemur til greina því skammt er á milli.

Á síðari hluta 19. aldar og langt fram eftir tuttugustu öld kunnu margir að segja frá reimleikum í Holtsseli og komust sumar þær sögur á prent.[104] Ekki er ljóst hvað elstu sögurnar eru gamlar en þær bera með sér að gýgur nokkur, sem ógn stafaði af, var talin búa í fossinum sem kenndur er við selið. Seinna fór Sel-Manga svo að láta til sín taka og fleiri afturgöngur sem bekktust til við sauðamenn frá Holti og gerðu ferðamönnum lífið leitt ef þeir leituðu skjóls í selinu.

Meðal elstu sagnanna munu vera þessar tvær sem festar voru á blað árið 1934:

 

Eitt sinn fyrir afarlöngu gætti maður nokkur sauða í Holtsseli að vetrarlagi og svaf þar um nætur. Nótt eina um jólaleytið kemur óvættur nokkur að glugganum hjá honum og segir með dimmri röddu: „Hnífur í hálsi þér og undir trog.” Varð honum bilt við en þó herti hann upp hugann og svaraði samstundis: „Hrútshorn í rassi þér og hlauptu svo.” Brá óvættinni svo við þetta að hún hljóp þegar burt frá selinu og gerði þar ekki mein að því sinni.

 

− Öðru sinni var það þegar selstöð var í Holtsseli að selkonur fóru þaðan á helgum degi til þess að hlýða á tíðasöng í Holtskirkju. Þær vildu fá sauðamanninn með sér til kirkjunnar en hann fékkst ekki til þess og varð einn eftir í selinu. Þegar selkonurnar komu aftur var sauðamaðurinn horfinn en blóðdrefjar mátti rekja frá selinu að Selfossi og fannst annar skór hans fastur á steini rétt hjá fossinum. En það höfðu menn fyrir satt að gýgur ein sem þar byggi hefði tekið manninn og farið með hann í fossinn til sín.[105]

 

Svo er sagt að um nokkurt árabil hafi gýgurin í Selfossi náð að bana hverjum sauðamanninum í Holtsseli á fætur öðrum og hafi þeir jafnan horfið á Þorláksmessu.[106] Loks kom þar að maður langt að kominn og öllum ókunnugur í Önundarfirði tókst á hendur að gerast selmaður hjá presti. Hann lifði jólin af og þó hann yrði var við eitt og annað í selinu lét hann jafnan lítið yfir því þegar um var rætt.[107] Annan vetur sinn í selinu sat hann þar að snæðingi að kvöldi jóladags og segir þá við sjálfan sig: Guði sé lof, et ég hér ket á öðrum jólum. Þá er svarað fyrir utan selið: Hvað gerði nema það að þú þagðir eins og vitur maður yfir vondum draumi.[108]

Einn vinnumanna séra Tómasar Sigurðssonar og Sigurðar sonar hans í Holti á árunum 1836-1847 var Jón Teitsson sem komið hafði í Önundarfjörð úr Breiðafjarðarbyggðum með séra Tómasi. Í manntali frá árinu 1845 er Jón sagður vera 41 árs vinnumaður í Holti, fæddur í Reykhólasveit.[109] Í dagbók séra Sigurðar Tómassonar sést að Jón Teitsson var sauðamaður í Holtsseli í a.m.k. tvo vetur, það er 1842-1843 og 1845-1846 (sjá hér bls. 8). Kristjana Þorsteinsdóttir, sem andaðist á Gemlufalli í Dýrafirði árið 1903, var kona stórvitur, stálminnug og óljúgfróð[110] og kunni frá ýmsu að segja um það sem bar fyrir Jón Teitsson í selinu. Að hennar sögn vitjaði gýgurin Jóns á Þorláksmessu[111] eins og hinna fyrri sauðamanna en talið var líklegt að hann hefði þá gefið henni sauð til frelsis sér.[112]

Frægari varð viðureign Jóns við óvætt þessa er hún sótti að honum í selinu í byrjun lönguföstu. Jón brá þá á það ráð að þylja yfir henni allan föstuinngangslesturinn úr postillu Jóns Vídalíns[113] en þar segir meðal annars:

 

Eins vorum vér allir á oss komnir áður en guðs eilífa miskunn endurbætti vorn syndugan getnað með vatni og anda. Svo mikill munur sem nú er á milli ljóssins og myrkursins, milli dags og nætur, milli sólarinnar og þeirra hluta sem hún upplýsir – svo mikið djúp sem þar er staðfest á millum Lazarum í faðmi Abrahams og hins ríka sælgætings þar hann pínist í helvíti og kvölunum, svo stór mismunur er að sínu leyti milli þeirra sem alleina af holdinu og þeirra sem í skírninni verða af Abraham fæddir.[114]

 

Við þennan lestur gekk tröllkonan aftur á bak út um dyrnar á fjárhúsinu og bar með sér dyrarjáfur allt á herðunum.[115] Þegar Jón Teitsson kom út að loknum lestri sá hann ekkert kvikt en spor mikil lágu frá selinu fram í fossinn.[116]

Um Jón Teitsson er ætíð sagt að hann hafi jafnan sofið í selinu þegar hann var þar við sauðagæslu[117] og það munu hinir fyrri selmenn prestanna í Holti einnig hafa gert. Á síðari hluta 19. aldar gisti selmaðurinn hins vegar yfirleitt á Kirkjubóli[118] en þangað er um það bil hálftíma gangur úr selinu í bærilegri færð. Ýmsir fullyrtu síðar að reimleikar hefðu valdið því að selmanninum frá Holti var fengin gisting á Kirkjubóli.[119]

Á síðari hluta 19. aldar virðist fossgýgurin hafa verið farin að missa mátt. Hennar varð þá sjaldan vart í selinu en draugar og afturgöngur létu þá mjög til sín taka í selhúsunum. Frægust þeirra allra var Sel-Manga sem oft gerði mönnum lífið brogað. Manga þessi, sem í lifanda lífi hét Margrét Ólafsdóttir, drukknaði í Heiðará, skammt frá Holtsseli, sumarið 1793.[120] Hún var þá talin 73ja ára gömul og var að flytja búferlum með eiginmanni sínum, Jóni Jónssyni að nafni, frá Ytri-Hjarðardal í Önundarfirði að Alviðru í Dýrafirði.[121] Frá drukknun Margrétar í Heiðará var sögð þessi saga:

Þegar Jón og Margrét fluttust frá Hjarðardal komu þau við í Tröð á leiðinni vestur og þáðu þar kaffi með brennivínsdropa út í.

 

Þegar þau komu að Heiðará var hún í vexti … . Margrét reiddi smalatík þeirra er Lúsalöpp hét yfir ána og hélt á henni fyrir framan sig. Heiðará er slæm undir, grýtt og straumhörð, og þegar Margrét kemur út í hana hrasar hesturinn sem hún reið á svo að Margrét steypist fram af honum í ána og berst með straumnum ofan í Bjarnardalsá og ofan fyrir foss sem síðan er kenndur við Margréti og er kallaður Möngufoss. Þar náðist í hana og var hún dregin örend upp úr ánni – með tíkina dauða í fanginu.

Svo lítur út sem Jón [eiginmaður Margrétar] hafi viljað kenna hressingunni í Tröð um að Margrét gat ekki setið á hestinum því þegar hún hraut af baki varð honum að orði „Hafðu minna drykkjusvallið.” En er hann síðar sagði frá atburði þessum, sagði hann ætíð að lokum: „Mér þótti verst um skömmina hana Lúsalöpp.” Lík Margrétar var fyrst flutt heim í selið og þar var það meðan um það var smíðað.[122]

 

Frá Holtsselinu er aðeins fimm til tíu mínútna gangur fram að Möngufossi og auðvelt að fylgja á árbakkanum gömlu reiðgötunni sem lá að vaðinu yfir Heiðará rétt ofan við fossinn (sjá hér bls. 5). Fossinn er að sjá um það bil tvær mannhæðir og undir honum djúpur hylur sem ætla má að Manga hafi lent í.

Einn þeirra mörgu sem komust í kast við afturgöngu Sel-Möngu var Bjarni Sigurðsson sem andaðist 74 ára gamall á Bíldudal árið 1927. Þegar Bjarni var um og innan við tvítugt var hann vinnumaður í Hvammi í Dýrafirði en reri á vertíð í Bolungavík.[123] Einhverju sinni þurfti hann að skreppa heim að vetrarlagi norðan úr Bolungavík og kom kaldur og hrakinn að Holtsseli í slæmu veðri. Lét hann fyrirberast næturlangt en fékk engan svefnfrið. Tvisvar var hurðin í dyrum fjárhússins brotin upp en frá atburðum næturinnar sagði sonur Bjarna síðar á þessa leið:

 

Ekki hefur hann beðið lengi er stærðar högg kemur á hurðina að utan svo að hún mölbrotnar og hrökkva brotin inn í húsið. Stekkur Bjarni þá fram úr jötunni og sér kvenmann standa í dyrunum. Hún var illúðleg mjög og ógnaði honum með krepptum krumlum svo að Bjarni hélt að hún ætlaði að ráðast á sig. Verður hann þá afarreiður, grípur stein er hann hafði við hendina og fleygir honum af öllu afli í kvenkind þessa og vísar henni til hins neðsta með mörgum ófögrum orðum. Snýr hún þá á flótta og eltir Bjarni hana út úr dyrunum með grjótkasti og formælingum. En þegar út kom sá hann ekkert fyrir myrkri og kafaldi. Eftir þetta fær Bjarni sér aðra hressingu úr brennivínsflöskunni og taldi hann að sér hefði viljað það til lífs að geta hresst sig svona þarna í kuldanum. Hann vakti það sem eftir var nætur en varð einskis var framar.[124]

 

Fullvíst þótti að kvenkindin sem ógnaði Bjarna með krepptum krumlum hefði verið Sel-Manga.[125] Stríð Bjarna Sigurðssonar við Möngu mun hafa verið háð á árunum kringum 1870.[126] Skömmu síðar gisti Sighvatur Borgfirðingur í Holtsseli en virðist ekki hafa orðið þar var við neitt. – Var í þjóðvegaruðningi á Gemlufallsheiði norðast. Verð í nótt í Holtsselinu, skrifar Sighvatur í dagbók sína 7. júlí 1874.[127] Þá var nóttin björt og fáar ókindur á ferli.

Sumarið 1899 var Guðmundur Einarsson refaskytta, sem síðar bjó á Brekku á Ingjaldssandi, kaupamaður hjá séra Janusi í Holti. Í ágústmánuði var hann við heyskap í selinu ásamt kaupakonu og vinnumanni frá Holti.[128] Kaupakonan og vinnumaðurinn voru þó stundum kölluð til að sinna öðrum störfum og nótt eina var Guðmundur einn í selhúsunum en þar var hann vanur að sofa í hlöðunni. Um kvöldið lagðist hann til hvílu í hlöðunni en lá þó enn upp við dogg þegar hann sá kvenmann koma inn í hlöðuna úr fremra fjárhúsinu.[129] Þó skuggsýnt væri orðið sá hann konuna glöggt og lýsti útliti hennar og klæðaburði síðar á þessa leið:

 

Hún var nokkru lægri en meðalkvenmaður á hæð, í sauðsvörtu vaðmálspilsi og peysu af sama efni og með sama lit. Ofan yfir sér hafði hún prjónahyrnu úr ullarbandi, mórauða að lit. Var henni brugðið undir hökuna og bundin saman hornin að aftan undir hnakkann.[130]

 

Guðmundur gerði ráð fyrir að þetta væri Sel-Manga.[131] Ekki gerði hún honum neitt mein og vék á braut er hann vísaði henni út með blíðum orðum.[132] Síðan þá hefur Möngu víst sjaldan orðið vart enda munu fáir hafa gist í Holtsseli á þeirri öld sem nú er að renna skeið sitt á enda.

Á öðrum stað í þessu riti er sagt dálítið frá draugnum Gunnhildi sem mjög lét til sín taka í Dýrafirði, Önundarfirði og Súgandafirði á nítjándu öld og framan af þeirri tuttugustu (sjá hér Sveinseyri). Um glettur Gunnhildar við einn selmanna séra Stefáns P. Stephensen í Holti verður hins vegar látið nægja að vísa í það sem finna má í ritinu Vestfirskum sögnum um þeirra viðskipti.[133]

 

Í gær slógum við upp tjöldum hjá Holtsseli á fögru ágústkvöldi og höfum átt hér góða nótt. Nú rísum við upp um miðjan morgun og búumst til ferðar heim að Kirkjubóli í slóð selmannanna sem áttu þar vísan næturstað á fyrri tíð. Við gefum okkur þó góðan tíma til að kveðja í selinu og röltum í morgunkyrrð fram að Möngufossi sem hér var áður nefndur. Þó hægt sé farið erum við ekki nema tíu mínútur að komast þangað frá selinu. Hjá fossinum látum við hugann reika til horfinna tíða og njótum þess að vera til í dýrð náttúrunnar. Frá Möngufossi fetum við okkur til baka og stöldrum við hjá Selfossi sem niðar þýðlega rétt framan við ármót Selár og Bjarnardalsár. Þar tyllum við okkur á réttarvegginn og bíðum þess að gýgurinn í hamrinum birtist.

Svo öxlum við okkar skinn, vöðum austur yfir Bjarnardalsá og tökum strikið í norður.

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Íslensk fornrit VI, 38-40.

[2] Sama heimild.

[3] Sama heimild, 39.

[4] D.I. III, 324.

[5] D.I. IV, 141.

[6] D.I. XV, 572-573.

[7] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 105.

[8] Ólafur Olavius I, 176-178.

[9] Sama heimild.

[10] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 105-106.

[11] Ólafur Þ. Kristjánsson 1972, 78.

[12] Sama heimild.

[13] Óskar Einarsson 1951, 107-108.

[14] Óskar Ein. 1951, 107-108.

[15] Guðm. I. Kristjánsson. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1994.

[16] Sama heimild.

[17] Sama heimild.

[18] Óskar Ein. 1951, 107.

[19] Sama heimild.

[20] Guðm. I. Kristjánsson. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1994.

[21] Vestfirskar sagnir I, 321.

[22] Óskar Ein. 1951, 107.

[23] Óskar Ein. 1951, 107.

[24] Guðm. I. Kristjánsson. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1994.

[25] Óskar Ein. 1951, 107.

[26] Guðm. I. Kristjánsson. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1994.

[27] Ól. Þ. Kr. 1972, 78.

[28] Ól. Þ. Kr. 1979, 138.

[29] Sama heimild, 138 og 142.

[30] Ól. Þ. Kr. 1979, 137.

[31] Vestf. sagnir I, 321.

[32] Óskar Ein. 1951, 107.

[33] Sama heimild, 108.

[34] Sama heimild, 107.

[35] Sama heimild.

[36] Sama heimild.

[37] Sama heimild.

[38] Bps. A. II. 11, − vísitazíubók Þórðar biskups Þorlákssonar, Holt í Önundarf. 24.8.1675.

[39] Skj.s. prófasta XIII. 1. B. 2, skjalabók Holts í Önundarf. 1484-1731, bls. 273.

[40] Bps. A. II. 17, vísitazíubók Jóns biskups Árnasonar, Holt í Önundarf. 26.8.1725. Bps. A. II. 24,

vísitazíubók Hannesar biskups Finnssonar, Holt í Önundarf. 13.8.1790.

[41] Guðlaugur Sveinsson 1787, 195 (Rit þess ísl Lærdómslistafélags VII. Ritgerðin heitir :Um selstöður og

    þeirra nytsemi).

[42] Sama heimild, 200-201.

[43] Sama heimild, 202-203.

[44] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1776-1851, úttekt frá Holti 17.5.1797.

[45] Sama heimild.

[46] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1776-1851, úttekt frá Holti 4.7.1811.

[47] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1776-1851, úttekt 6.7.1822.

[48] Sami kirkjustóll, úttekt 25.7.1836.

[49] Sóknalýs. Vestfj. II, 104.

[50] Sama heimild.

[51] ÍB 8258vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar 5.7. 1838. ÍB 8268vo, Sama dagbók 5.7.1843 og 27.6.1845.

[52] Sama dagbók 17.8.1843.

[53] Sama dagbók 31.8.1839.

[54] Sömu dagbækur 30.8.1839 og 10.7.1843.

[55] ÍB 8258vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar 5.8.1839.

[56] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar 16.9.1842.

[57] ÍB 8258vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar 18.10.1838 og  ÍB 8268vo , sama dagbók 22.10.1842, 27.10.1843, 23,10.1844, 27.10.1845 og 30.10.1846.

[58] ÍB 8258vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar 12.10.1839.

[59] ÍB 8258vo, 9.2.1838, 1.3.1839 og 21.3.1840. ÍB 8268vo, 16.2.1842, 11.2.1843 og 5.3.1845 (Dagb. sr. S.T.).

[60] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar 27.12.1845 og 26.1.1846.

[61] Sama dagbók 27.10.1843.

[62] VA III, 410, búnaðarskýrslur 1843.

[63] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar 23.10.1844 og 27.10.1845.

[64] VA III, 411, búnaðarskýrslur 1845.

[65] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar 22.10.1842 og 27.10.1845.

[66] Manntal 1845.

[67] ÍB 8258vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar 21.3.1840. ÍB 8268vo, Dagb. sr. S.T. 27.10.1843.

[68] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar 6.11.1849 og 26.11.1849.

[69] Sama heimild.

[70] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963, úttekt 21.5.1855.

[71] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963, úttekt 21.5.1855.

[72] Sama heimild.

[73] Sama heimild.

[74] Frá ystu nesjum II, 98.

[75] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963, úttekt 26.5.1884.

[76] Sama heimild.

[77] Ól. Þ. Kr. 1979, 141.

[78] Ól. Þ. Kr. 1979, 138-139 (Ársrit S.Í.).

[79] Ól. Þ. Kr. 1979, 139.

[80] Sama heimild.

[81] Sama heimild.

[82] Sama heimild.

[83] Sama heimild.

[84] Sama heimild, 140-141.

[85] Ól. Þ. Kr. 1979, 140-141.

[86] Þórður Sigurðsson 1986, 13-29.

[87] Sama heimild, 24.

[88] Sama heimild, 24-27.

[89] Sama heimild. Ól. Þ. Kr. 1979, 142.

[90] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963, úttekt 2.7.1908.

[91] Vestf. sagnir I, 336.

[92] Sama heimild.

[93] Þórður Sigurðsson 1986, 27.

[94] Vestf. sagnir I, 336.

[95] Sóknarm.töl Holts í Önundarf. VA III, 422-423, búnaðarskýrslur 1875-1877.

[96] Ól. Þ. Kr. 1979, 142.

[97] Sama heimild.

[98] Sama heimild.

[99] Sama heimild, 138.

[100] Sama heimild, 142.

[101] Guðm. I. Kristjánsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.6.1993.

[102] Ól. Þ. Kr. 1979, 142.

[103] Ól. Þ. Kr. 1979, 141-142.

[104] Vestf. sagnir I, 320-339. Vestf. þjóðsögur III, 1, 133-140. Frá ystu nesjum V, 117-118.

[105] Vestf. sagnir I, 321-322.

[106] Sama heimild, 322-324.

[107] Sama heimild.

[108] Sama heimild.

[109] Manntal 1845.

[110] Vestf. sagnir I, 327.

[111] Sama heimild, 326-328.

[112] Sama heimild.

[113] Sama heimild.

[114] Jón Þorkelsson Vídalín 1858, 164.

[115] Vestf. sagnir I, 326-328.

[116] Sama heimild.

[117] Sama heimild.

[118] Sama heimild, 329 og 334-335.

[119] Vestf. þjóðsögur III, 1, 135.

[120] Vestf. sagnir I, 324-326.

[121] Sama heimild.

[122] Sama heimild.

[123] Vestf. sagnir I, 331-334.

[124] Sama heimild.

[125] Sama heimild.

[126] Sama heimild.

[127] Lbs. 23744to, Dagbók Sighvats Grímssonar Borgfirðings 7.7.1874.

[128] Vestf. sagnir I, 335-337.

[129] Sama heimild.

[130] Sama heimild.

[131] Sama heimild.

[132] Sama heimild.

[133] Sama heimild, 329-330.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »