Fremri-Hjarðardalur

Fremri-Hjarðardalur

Þeir sem nú leggja leið sína að Fremri-Hjarðardal nota flestir bílveginn sem þangað liggur frá bæjunum í Neðri-Hjarðardal en við komum úr öfugri átt, frá Höfðaseli.  Frá árbakkanum þar sem við stöndum nú er spölurinn heim til bæjar ekki langur, tæplega hálftíma gangur.  Við höfum góðan tíma og skulum því byrja á að líta á rústirnar af Hjarðardalsseli sem eru hér á árbakkanum beint á móti Höfðaseli.[1]  Hér hefur greinilega verið rekinn mikill seljabúskapur, enda var haft hér í seli bæði frá Fremri-Hjarðardal og Neðri-Hjarðardal og selið enn í notkun um miðbik 19. aldar.[2]  Við augum blasa tóttir af a.m.k. tíu til tólf húsum, sumar ærið gamlar að sjá en aðrar greinilega yngri.  Auk húsatóttanna eru hér tvær réttir.  Yngstu seltóttirnar sem telja má víst að séu frá nítjándu öld benda til þess að húsin hafi þá verið fjögur og virðist hið stærsta hafa verið um það bil 7 x 2 metrar að flatarmáli.  Eldri húsin sýnast flest hafa verið minni nema eitt sem reyndar virðist hafa verið langstærst eða um það bil 10 metrar á lengd og 3 á breidd.  Um miðja 19. öld var búsmali enn nytkaður í Hjarðardalsseli, ekki aðeins frá Fremri-Hjarðardal heldur líka frá býlunum í Neðri-Hjarðardal.[3]  Aðrar enn eldri seltóttir eru sagðar vera framar í dalnum, fyrir framan Fremri-Grænkur á Kaldadalshlíð.[4]  Þar heita Fornusel en Kaldadalshlíð er tveir til þrír kílómetrar á lengd og nær fram að Heimri-Þverá (sjá hér bls. 2).  Sagnir herma að sumarbúskapur hafi lagst af í Fornuseljum vegna þess að þaðan týndust tveir smalar.  Annar þeirra var stúlka sem Oddný hét og fannst hún látin þar sem síðan heitir Oddnýjarfles og er grasteigur eða mosabreiða suðaustan í lágu felli skammt fyrir neðan Tunguskarð (sjá hér bls. 3) að norðvestan fremst í Hjarðardal.[5]  Hinn smalinn fannst aldrei og var þess getið til að hann hefði farið í gljúfrið mikla sem Ónshús heitir fremst í Lambadal.[6]

Frá hinu yngra Hjarðardalsseli höldum við nú í vesturátt niður dalinn og komum þá brátt að þverá sem kennd er við Skolladal.  Þaðan er leiðin greið til bæjar í Fremri-Hjarðardal.

Bærinn Fremri-Hjarðardalur er eina býlið í dal þessum því bæirnir í Neðri-Hjarðardal standa allir neðantil við dalsmynnið.  Fram í Fremri-Hjarðardal eru rösklega tveir kílómetrar neðan frá fjarðarströndinni við ós Hjarðardalsár.  Bærinn stendur undir norðurhlíð dalsins en þaðan sér ekki til sjávar því urðarhryggur í dalsmynninu byrgir sýn.

Í Neðri-Hjarðardal hefur löngum verið margbýlt og býlin þar hétu hvert og eitt sínum sérstöku nöfnum (sjá hér Neðri-Hjarðardalur).  Í manntölum frá 18. öld og fyrri hluta 19. aldar eru sérheiti þessara býla þó yfirleitt ekki nefnd heldur eingöngu samheitið Neðri-Hjarðardalur og svo Fremri-Hjarðardalur sem sjálfstæð bújörð.

Á síðari hluta 19. aldar virðist nafnið Neðri-Hjarðardalur hins vegar ekki hafa verið heimafólki á þessum slóðum munntamt og í sóknarmannatölum frá árunum 1870-1900 er aldrei talað um Neðri-Hjarðardal en hins vegar alltaf getið um Bakka og Fremsthús.[7]  Þannig er þetta líka á þessum árum í dagbókum Sighvats Grímssonar Borgfirðings, bónda á Höfða,[8] og Fremri-Hjarðardal kallar hann ætíð bara Hjarðardal,[9] enda mun það hafa verið almenn málvenja á þeim tíma.  Fyrst nafnið Neðri-Hjarðardalur var ekki notað í daglegu tali þá þurfti ekki að nefna hina jörðina Fremri-Hjarðardal til aðgreiningar og þess vegna hafa menn látið duga að tala bara um Hjarðardal.  Á fyrri hluta 20. aldar fékk nafnið Neðri-Hjarðardalur hins vegar aukið vægi á ný og þá fyrst og fremst sem heiti á býlinu Bakka í Neðri-Hjarðardal en það er önnur saga.

Allar líkur benda til þess að Hjarðardalur (neðri og fremri) hafi í fyrstu verið ein jörð og má ætla að bærinn hafi þá staðið þar sem nú er Neðri-Hjarðardalur.  Fremri-Hjarðardalur hefur þá byggst eitthvað síðar úr landi þeirrar jarðar.  Helstu rökin fyrir slíkri kenningu eru þau að Neðri-Hjarðardalur hefur svo lengi sem um er kunnugt átt land fram á dalnum beggja vegna við landareign Fremri-Hjarðardals.  Allur Hjarðardalur er um níu kílómetrar á lengd en land Fremri-Hjarðardals nær aðeins frá Hjarðardalsgili og MarklækSkolladalsá.[10]  Vegalengdin milli þessara landamerkja er bara tveir kílómetrar.  Land Fremri-Hjarðardals er hins vegar mjög grösugt og þar er meira undirlendi en annars staðar í dalnum.  Beitiland fyrir sauðfé er þó lítið í landareign Fremri-Hjarðardals og í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 segir að ábúendur þar þurfi jafnan að þiggja beit af nágrönnum sínum, bæði sumar og vetur.[11]  Tekið er fram að á móti komi óákveðinn góðvilji en ekki sé greiddur neinn ákveðinn beitartollur.[12]  Jóhannes Davíðsson sem lengi bjó í Neðri-Hjarðardal á tuttugustu öld segir reyndar að bændur í Fremri-Hjarðardal hafi átt rétt til beitar og hrísrifs fram á dalnum þar sem ekki var slægjuland.[13]  Ætla má að þannig hafi þetta verið í reynd þó vera kunni að engir skriflegir samningar hafi verið fyrir hendi.  Dálítið framan við Skolladalsá sem skiptir löndum milli jarðanna mjókkar dalurinn verulega og þar tekur við Kaldadalshlíð sem nær fram að Heimri-Þverá.[14]  Milli Skolladalsár og Heimri-Þverár eru tæplega fjórir kílómetrar en einum kílómetra framan við Heimri-Þverá fellur Fremri-Þverá í Hjarðardalsá.[15]  Þveráaenni heitir hlíðin milli Þveránna og þar segir Jóhannes Davíðsson að setið hafi verið yfir kvíaám.[16]  Á móts við Fremri-Þverá, handan Hjarðardalsár, er dálítið gil sem heitir Fremra-Fannargil.  Þar eru landamerki Höfða og Neðri-Hjarðardals[17] og á því Neðri-Hjarðardalur allt land, beggja vegna árinnar, fyrir framan gil þetta.  Frá þessum landamerkjum er reyndar ekki langt fram í dalbotninn.

Fjallaskarðið upp frá botni Hjarðardals heitir Tunguskarð og hefur ugglaust fengið það nafn vegna þess að þaðan var stundum farin fjallasýn að bænum Tungu í Önundarfirði.  Leiðin milli bæja frá Fremri-Hjarðardal að Tungu er um 16 kílómetrar og liggur hæst í því sem næst 700 metra hæð.  Þarna lá reyndar aldrei neinn alfaravegur og í sóknarlýsingu séra Jóns Sigurðssonar á Gerðhömrum frá árinu 1840 er tekið fram að upp úr botni Hjarðardals megi fara fjallasýn ofan í Önundarfjörð víðar en á einum stað.[18]

Jörðin Fremri-Hjarðardalur var talin 12 hundruð að dýrleika samkvæmt fornu mati.[19]  Í Jarðabókinni frá 1710 er getið um fornt eyðiból í landi Fremri-Hjarðardals og sagt að nafn þess hafi verið Húnatún.[20]  Er Jarðabókin var samin sáust enn ljós byggingamerki þar sem býli þetta hafði staðið, bæði húsatóttir og garðhleðslur.[21]  Munnmæli sem þá lifðu enn á vörum fólks hermdu að Húnatún hefði verið 6 hundraða jörð og Fremri-Hjarðardalur önnur 6 hundruð en orðið 12 hundruð er jarðirnar voru sameinaðar og Húnatún fór í eyði. Skammt fyrir framan gamla heimatúnið er fjárrétt og framan við hana Stekkalækurinn, sem breiðir úr sér og rennur neðst í allmörgum kvíslum en Húnavatn er að sögn kunnugra rétt fyrir framan hann.[22]  Önnutóttir er svo hétu voru líka í túninu í Fremri-Hjarðardal og var sagt að þar hefði búið einsetukona, Anna að nafni.[23]  Um kosti og galla Fremri-Hjarðardals segir svo í Jarðabókinni frá 1710:

 

Útigangur lítill.  Torfrista og stunga næg.  Elt er sauða- og nautataði.  Lyngrif litið.  Silungsveiði lítil í Hjarðardalsá, hefur að fornu góð verið.  Enginu granda skriður og lækir að ofan og Hjarðardalsá með landbroti að neðan, allt þetta til stórskaða.  … Hætt er húsum og heyjum við stórviðrum.[24]

 

Líklegt virðist að þarna séu kostir jarðarinnar vanmetnir en a.m.k. sumir ókostanna ofmetnir.  Að minnsta kosti fær jörðin mun betri einkunn í lýsingu séra Jóns Sigurðssonar frá árinu 1840 en hann kemst þá svo að orði um þessa sömu jörð:

 

Þar er mjög grösugt og mikið slægjuland og góður heyskapur, – beitarland mikið [máske á hann þarna við sumarbeit fyrir kýr – innskot K.Ó.] og gott undir bú en snjóasamt á vetrum.  Sú jörð svarar meir en hundraðatali enda er hún og meira leigð en aðrar hér í sóknum.  Þar er selstaða fram í dalnum sem árlega er brúkuð ….  Nálægt selstöðunni sem liggur undir brekkum eða neðar gengur afdalur nokkur sem Skolladalur er kallaður.  Þar er vatn lítið sem smáá rennur úr, kennd við dalinn og í aðalána bæjarmegin við selið.  Skógur er þar enginn né móskurður en smáhrís sem til eldsneytis er brúkað.  Þar er mjög veðrasamt af austnorðri.[25]

 

Séra Jón tekur sérstaklega fram í sömu sóknarlýsingu að bærinn í Fremri-Hjarðardal sé vel byggður[26] og hann fullyrðir að jörðin sé of lágt metin, enda sé greidd af henni hærri landskuld en almennt gerist með aðrar 12 hundraða jarðir þar í prestakallinu.  Þessi staðhæfing prestsins fær reyndar styrka stoð í Jarðatali Johnsens frá árinu 1847 en þar kemur fram að landskuldin af Fremri-Hjarðardal hefur þá verið 100 álnir (5/6 úr kýrverði) á ári en meðalgjald af öðrum 12 hundraða jörðum í Mýrahreppi var þá 65 álnir.[27]

Athygli vekur að séra Jón segir ekkert mótak vera í landi Fremri-Hjarðardals en í örnefnaskrá sem rituð var um miðbik tuttugustu aldar segir að mó hafi víða verið að finna í landareigninni.[28]  Þar er líka getið um vatnsbólið Drimlu, rétt fyrir framan bæinn, og fullyrt að vatnið sem þar fékkst hafi verið frægt fyrir gæði.[29]

Ekki er vitað með vissu hvenær Fremri-Hjarðardalur varð sjálfstætt býli en í tveimur óskyldum heimildum frá 13. öld er talað um Hjarðardal í Dýrafirði án nokkurrar aðgreiningar í fremri og neðri (sjá hér Neðri-Hjarðardalur).  Sú staðreynd bendir til þess að jörðin hafi þá enn verið óskipt, enda þótt vera kunni að fólk hafi þá þegar verið farið að búa á jarðarparti frammi í dalnum.

Um miðja 15. öld er Fremri-Hjarðardalur hins vegar tvímælalaust orðin sjálfstæð bújörð eins og sjá má í kaupbréfi frá 23. apríl 1459 er Þorkell Einarsson kaupir hálfa jörðina af Halldóri Sveinssyni og greiðir með hálfu áttunda hundraði í Tungumúla á Barðaströnd.[30]  Kaupbréf þetta mun vera elsta heimildin sem varðveist hefur þar sem talað er um Fremri-Hjarðardal en þar kemur reyndar fram að jörðin hefur þá verið sjálfstæð bújörð um alllangt skeið og landamerki eru þá þegar hin sömu og nú.[31]  Í bréfi frá árinu 1467 er líka talað um báða Hjarðardali í Dýrafirði en þá um haustið selur Ari Guðmundsson Sveini Brandssyni þessar tvær jarðir fyrir 60 hundruð.[32]

Um miðbik 16. aldar áttu ýmsir stórhöfðingjar fleiri eða færri hundruð í jörðinni Fremri-Hjarðardal, sumir skamma hríð en aðrir lengur og má úr þeim hópi nefna þá mága Þorlák Einarsson, sýslumann á Núpi í Dýrafirði, og Eggert Hannesson, lögmann í Bæ á Rauðasandi.[33]  Á árunum 1553 til 1556 náði svo Jón Ólafsson að eignast allan Fremri-Hjarðardal[34] en hann fór um skeið með sýsluvöld og er sagður hafa búið í Hjarðardal í Dýrafirði.[35]  Líklegt verður að telja að þar sé átt við Neðri-Hjarðardal því slíkur mektarmaður, sem um skeið var tengdasonur Björns Guðnasonar í Ögri, hefur tæplega látið sér nægja 12 hundraða jörð.

Árið 1703 var þríbýli í Fremri-Hjarðardal[36] en síðar á 18. öldinni mun oft hafa verið þar tvíbýli.[37]  Árið 1710 var landskuld af jörðinni eitt hundrað á ári, það er 120 álnir.[38]  Landskuldin hefur því verið 10 álnir á hvert jarðarhundrað en aðeins eitt annað dæmi fannst þá í Mýrahreppi um svo háa landskuld og var það á Fjallaskaga þar sem landskuldin var líka hálf vætt, það er 10 álnir, fyrir hvert hundrað í jörð.[39]  Ætla má að á báðum þessum jörðum hafi hið opinbera jarðamat verið of lágt en hér hefur áður komið fram að um miðja 19. öld var landskuldin af Fremri-Hjarðardal enn mun hærri en vænta mátti eftir hundraðatalinu.

Fimm innstæðukúgildi fylgdu jörðinni árið 1710 og höfðu áður verið sjö.[40]  Leigur fyrir kúgildin voru goldnar í smjöri heim að Núpi í Dýrafirði en landskuldin var goldin að einum þriðja með fiski í kaupstað, annar þriðjungur hennar var greiddur með fóðri og hitt ýmist í landaurum eður fiskatali eftir proportion.[41]

Auk þess að standa skil á landskuld og leigum urðu báðir bændurnir í Fremri-Hjarðardal að leggja til sinn manninn hvor í skiprúm hjá jarðeiganda um vertíð og var sú kvöð enn í fulli gildi árið 1710.[42]

Bústofn bændanna tveggja er þá bjuggu hér var samkvæmt opinberum tölum þessi:  5 kýr og ein kvíga, 25 ær, 32 sauðir, 25 lömb og 2 hross.[43]  Tölurnar sýna samanlagðan fjölda búfjár hjá báðum bændunum.

Eigandi Fremri-Hjarðardals árið 1710 var séra Jón Torfason á Breiðabólsstað í Fljótshlíð[44], sem var sonarsonur Jóns Gizurarsonar, lögréttumanns á Núpi í Dýrafirði, og Þóru Ólafsdóttur konu hans en hún var sonardóttir Jóns Ólafssonar sýslumanns sem eignaðist Fremri-Hjarðardal á árunum 1553-1556 eins og fyrr var nefnt.  Allar líkur benda til þess að jarðeignir séra Jóns Torfasonar í Dýrafirði hafi verið erfðagóss frá afa hans og ömmu á Núpi en auk Fremri-Hjarðardals átti hann 40 hundruð í sjálfu ættaróðalinu.[45]  Fremri-Hjarðardalur hefur því að líkindum haldist í eigu sömu ættar alveg frá því um 1550 til 1710 og síðan lengi enn eins og brátt mun verða rakið.

Séra Jón Torfason á Breiðabólsstað ól allan sinn aldur á Suðurlandi en faðir hans ólst upp hjá foreldrum sínum á Núpi í Dýrafirði og sonur séra Jóns fluttist vestur og gerðist bóndi á Núpi, óðali ættar sinnar.  Sá hét Björn Jónsson[46] en sonur hans, Jón Björnsson, gerðist bóndi í Fremri-Hjarðardal á árunum kringum 1770[47] og má ætla að þar með hafi jörðin komist í sjálfsábúð því kunnugt er að bæði faðir hans[48] og afi höfðu átt hana.  Jón var um skeið einn af fimm hreppstjórum Mýrahrepps (sjá hér Þingeyri), fæddur um 1730[49] og stóð fyrir búi í Fremri-Hjarðardal fram undir lok 18. aldar.

Á dögum Jóns Björnssonar var varðveitt í Fremri-Hjarðardal eiginhandarrit séra Hallgríms Péturssonar af Passíusálmunum, hið sama eintak og skáldið sendi Ragnheiði, dóttur Brynjólfs biskups í Skálholti, vorið sem hún varð þunguð af völdum Daða Halldórssonar og sagt er að hún hafi haft til lestrar í banalegunni tveimur árum síðar.

Ferill handritsins er auðrakinn.  Við dauða Ragnheiðar árið 1663 varð faðir hennar, Brynjólfur biskup Sveinsson, eigandi þess.  Er biskup andaðist árið 1675 átti hann enga niðja á lífi en hafði arfleitt bróðurson sinn, séra Torfa Jónsson í Gaulverjabæ, að meginhluta eigna sinna og Sigríður Halldórsdóttir, eiginkona séra Torfa, varð þá eigandi Passíusálmahandritsins.[50]  Faðir séra Torfa var Jón Gizurarson á Núpi í Dýrafirði, hálfbróðir Brynjólfs biskups, en sonur Torfa og Sigríðar var séra Jón Torfason á Breiðabólsstað í Fljótshlíð, sem hér var áður nefndur og átti Fremri-Hjarðardal árið 1710.  Séra Jón Torfason andaðist árið 1716 og um það leyti hefur Ragnheiðarhandritið borist vestur með Birni syni hans sem gerðist bóndi á Núpi í Dýrafirði eins og hér var áður nefnt.  Úr sínum foreldrahúsum á Núpi hefur Jón Björnsson síðan flutt það með sér að Fremri-Hjarðardal.

Enginn vafi leikur á því að Jón Björnsson átti þetta merkilega Passíusálmahandrit, hið eina sem enn er til í eiginhandarriti sjálfs höfundarins.[51]  Handritið er nú varðveitt í Landsbókasafni[52] og er þangað komið frá Jóni Sigurðssyni forseta.  Á það hefur Hálfdan Einarsson, skólameistari á Hólum skrifað þessi orð:

 

Þetta eiginhandarrit síra Hallgríms Péturssonar hefi ég undirskrifaður eignast frá Jóni Bjarnarsyni í innra Hjarðardal í Dýrafirði.

                                          Hólum d. 28. Augusti 1773.

                                          Hálfdan Einarsson[53]

 

Enda þótt Hálfdan tali þarna um innra Hjarðardal í Dýrafirði en ekki Fremri-Hjarðardal þá fer hér ekkert milli mála.  Um það leyti sem Hálfdan skólameistari skrifaði þessi orð á handritið var hann að undirbúa þá útgáfu Passíusálmanna sem prentuð var á Hólum árið 1780 og má ætla að hann hafi af þeim ástæðum lagt kapp á að ná í Ragnheiðarhandritið.  Í eftirmála sem fylgir þessari útgáfu sálmanna kemst meistari Hálfdan svo að orði:

 

Ég hefi haft það eftirlæti að eignast fyrir nokkrum árum sjálft hið sama exemplar af þessum Passíusálmum, ritað af sjálfum Auctore [þ.e. höfundi – innskot K.Ó.], er hann 1661, í Majo, sendi jungfrú Ragnheiði Brynjólfsdóttur í Skálholt ….[54]

 

Eins og nærri má geta hefur Jón Björnsson í Fremri-Hjarðardal vitað að það var Ragnheiðarhandritið sem hann sendi norður að Hólum.  Orð skólameistarans, þau sem hér var til vitnað, sýnast líka taka af öll tvímæli um þetta og auk þess er enn nánari rökstuðning fyrir því að svo hafi verið að finna í ritgerð Páls Eggerts Ólasonar Ferill Passíusálmahandrits, sem prentuð var í Skírni árið 1927.[55]

Á aðra öld höfðu ættmenn Ragnheiðar Brynjólfsdóttur varðveitt, mann fram af manni, þennan dýrgrip sem Hallgrímur prestur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd sendi henni rétt í þann mund sem hún var látin vinna eiðinn sem frægastur varð og grimm lögmál aldarfarsins tóku að buga hana og brjóta.  Síðastur þessara ættmenna átti handritið Jón bóndi Björnsson sem hér bjó.

Passíusálmahandrit þetta sem barst frá Skálholti að Fremri-Hjarðardal og fór þaðan norður að Hólum komst í eigu Jóns Sigurðssonar forseta árið 1856.[56]  Það var Jón Guðmundsson, ritstjóri Þjóðólfs, sem gaf honum þetta merkilega eiginhandarrit sálmaskáldsins en Jón Guðmundsson hafði skömmu áður keypt það af Jóni Jóhannessyni, bónda í Leirárgörðum í Borgarfjarðarhéraði.[57]  Bóndinn í Leirárgörðum sagði handritið hafa verið í eigu Ólafs Stefánssonar, stiftamtmanns í Viðey, en sjálfur kvaðst hann hafa fengið það að gjöf frá Jónasi Scheving, sýslumanni á Leirá, sem var tengdasonur Ólafs stiftamtmanns.[58]  Jón Guðmundsson ritstjóri taldi hins vegar líklegra að Jón í Leirárgörðum hefði stolið handritinu.[59]

Ekki er alveg ljóst hvernig þetta Ragnheiðarhandrit barst frá Hálfdani skólameistara á Hólum til Ólafs Stefánssonar stiftamtmanns eða þeirra annarra sem áttu það næst á undan Jóni Jóhannessyni í Leirárgörðum.  Páll Eggert Ólason hefur sett fram þá tilgátu að Ólafur stiftamtmaður hafi fengið handritið frá Ingibjörgu, einkadóttur skólameistarans, en hún var gift systursyni Ólafs.[60]  Líklegt má kalla að svo hafi verið en þó engan veginn fullvíst.

Árið 1957 setti Ólafur Ólafsson, skólastjóri á Þingeyri, fram þá kenningu að umrætt Passíusálmahandrit hafi aðeins verið lánað norður að Hólum og þess vegna hafi því verið skilað aftur að Fremri-Hjarðardal.[61]  Stoðin undir þessari kenningu er bréf frá séra Sigtryggi Guðlaugssyni á Núpi, ritað 4. desember 1952.  Prestur vitnar þar í Sighvat Grímsson Borgfirðing, sem þá var látinn fyrir nær aldarþriðjungi, og segir hann hafa sagt að erfingjar Jóns Björnssonar í Fremri-Hjarðardal hafi gefið séra Þorvaldi Böðvarssyni í Holti í Önundarfirði þetta eiginhandarrit séra Hallgríms af Passíusálmunum.[62]  Séra Þorvaldur var tengdafaðir Jóns Guðmundssonar ritstjóra sem átti þá að hafa fengið handritið hjá honum.  Öll er ritgerð Ólafs skólastjóra um þetta hin skemmtilegasta en gallinn við kenninguna er bara sá að Jón ritstjóri staðhæfir sjálfur að hann hafi keypt handritið af Jóni Jóhannessyni í Leirárgörðum eins og hér var áður nefnt.  Fram hjá svo skýrum orðum ólygins manns verður víst með engu móti gengið.  Hitt gæti verið að séra Þorvaldur hafi fengið eitthvert annað merkilegt handrit í Fremri-Hjarðardal á útfarardegi Jóns Björnssonar bónda þar árið 1815 eða skömmu síðar.  Handritin sem séra Torfi í Gaulverjabæ og Sigríður kona hans fengu eftir Brynjólf biskup hafa verið býsna mörg og ekki er ólíklegt að talsverður hluti þeirra hafi borist vestur í Dýrafjörð með sonarsyni þeirra sem settist að á Núpi, föður Jóns Björnssonar í Fremri-Hjarðardal.  Hjá Guðmundi Þorvaldssyni, sem lengi hafði búið í Fremri-Hjarðardal og var kvæntur sonardóttur Jóns Björnssonar, fékk Sighvatur Borgfirðingur ýmis fornbréf 9. mars 1874[63] og gætu sum þeirra hafa verið komin úr safni Brynjólfs biskups Sveinssonar, enda þótt nær 200 ár væru þá liðin frá dauða hans.

Jón Björnsson í Fremri-Hjarðardal varð gamall maður og mun hafa dáið hálfníræður eða því sem næst árið 1815.[64]  Hann hafði þá fyrir alllöngu látið jörðina og búið í hendur Torfa sonar síns en átti þó áfram heima í Fremri-Hjarðardal sem húsmaður.[65]  Tvíbýli virðist hins vegar aldrei hafa verið þar á 19. öld nema sjö síðustu árin, 1893-1900.[66]

Torfi Jónsson bjó í Fremri-Hjarðardal uns hann andaðist árið 1820 en þá tóku þar við búi Guðrún dóttir hans og eiginmaður hennar, Guðmundur Þorvaldsson frá Hvammi.[67]  Er manntal var tekið árið 1845 voru þau Guðmundur og Guðrún Torfadóttir með 18 manns í heimili og bjuggu ein á allri jörðinni.[68]  Guðmundur er þá sagður lifa af grasnyt, fiskiafla og skipasmíði.[69]  Í Jarðatali Johnsens frá árinu 1847 er tekið fram að hann sé sjálfseignarbóndi.[70]  Hér var áður minnst á hina fyrri eigendur Fremri-Hjarðardals, m.a. Jón Ólafsson sýslumann sem eignaðist jörðina á árunum 1553 til 1556 og séra Jón Torfason sem átti hana árið 1710 (sjá hér bls. 5).  Við undirbúning þessa rits hefur ekki verið kannað til hlítar hvort jörðin hélst óslitið í eigu sömu ættar alveg frá því um miðja 16. öld og fram á síðari hluta 19. aldar.  Allar líkur benda þó til þess að svo hafi verið eins og hér hefur áður komið fram en Guðrún Torfadóttir, kona Guðmundar Þorvaldssonar, var áttundi ættliður ef talið er frá Jóni Ólafssyni sem keypti Fremri-Hjarðardal á árunum upp úr 1550.[71]

Guðmundur Þorvaldsson í Fremri-Hjarðardal var víðkunnur skipasmiður á sinni tíð og merkisbóndi.  Hann var með stórt bú og nytjaði lengi ellefu hundruð í Neðri-Hjarðardal auk heimajarðarinnar.[72]  Árið 1846 eignaðist Guðmundur hálft þilskip.  Skútuna áttu þeir saman Guðmundur í Fremri-Hjarðardal og Oddur Gíslason í Meira-Garði (sjá hér Meiri-Garður).  Hún hét Þorskur og var eitt allra fyrsta þilskipið sem gert var út frá Dýrafirði en skútuútgerð þaðan hófst ekki fyrr en árið 1843 (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli).  Skipi þessu farnaðist vel og var það enn á floti árið 1860 (sjá hér Meiri-Garður).  Skipstjóri á Þorskinum á árunum 1850 og 1851 var Guðmundur Guðmundsson (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli) sem haustið 1850 gekk að eiga Þuríði, dóttur Guðmundar Þorvaldssonar.[73]  Guðmundur Þorvaldsson hefur borið mikið traust til þessa unga manns.  Hann treysti honum ekki aðeins fyrir skipinu og dóttur sinni því vorið 1852 afhenti hann honum líka búið í Fremri-Hjarðardal og öll jarðarafnot þar.[74]  Jarðarparturinn í Neðri-Hjarðardal sem áður var nefndur fylgdi líka með.[75]  Guðmundur Þorvaldsson var rétt um sextugt er hann afhenti jörðina í hendur tengdasyninum og kona hans lítið eitt yngri.  Þau völdu þann kost að fara í húsmennsku en áttu þó lengi enn heima í Fremri-Hjarðardal.

Guðmundur Guðmundsson skipstjóri sem tók við búi í Fremri-Hjarðardal vorið 1852 var frá Svalvogum og ólst þar upp hjá foreldrum sínum, Guðmundi Snorrasyni og Ingibjörgu Sigmundsdóttur,[76] fæddur 1826 eða því sem næst.  Vorið sem hann fór að búa hætti hann skipstjórn á Þorskinum en tók við öðru þilskipi sem hann eignaðist um svipað leyti.  Guðmundur tengdafaðir hans virðist þá hafa hætt þilskipaútgerð (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli) en ekki er ólíklegt að hann hafi selt hlut sinn í Þorskinum með það í huga að hjálpa tengdasyninum til að komast yfir annað skip.  Skútan sem Guðmundur Guðmundsson tók við vorið 1852 hét Jóhannes og í opinberum skýrslum er hann sagður hafa átt hana einn.  Mun hann vera eini bóndinn í Fremri-Hjarðardal sem jafnframt var skipstjóri á þilskipi er hann átti sjálfur.  Á fyrsta búskaparári þessa unga manns virtist allt leika í lyndi en lánið er oft fallvalt.  Þann 22. september árið 1853 drukknaði þessi ungi fullhugi frá Svalvogum er skip hans, Jóhannes, týndist í áhlaupaveðri (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli bls. 23) og sex menn fórust.  Þá syrti að hér í Fremri-Hjarðardal.

En tíminn læknar flest mannanna mein og líklega hefur Guðmundur Þorvaldsson haldið áfram bátasmíðum því sagt er að hann hafi smíðað 120 stóra báta, það er sexæringa og þaðan af stærri skip.[77]  Eitthvað af þessum bátum hlýtur hann að hafa smíðað fyrir menn úr öðrum fjörðum, enda frá því greint í þjóðsögum að Arnfirðingar hafi leitað til hans um skipasmíðar.[78]  Í Vestfirskum sögnum er frá því sagt að Guðmundur hafi smíðað bát fyrir Ólaf Guðmundsson í Hokinsdal í Arnarfirði og einhver ágreiningur komið upp vegna þeirra viðskipta.  Ólafur var talinn kunnáttumaður eins og fleiri Arnfirðingar á fyrri hluta 19. aldar og segir sagan að hann hafi vakið upp draug og sent hann í strákslíki að Fremri-Hjarðardal.[79]  Dóttursonur Guðmundar, sem Þorvaldur Magnússon hét, sagði svo frá að draugur þessi hefði lagst mjög þungt á afa sinn svo hann varð um skeið sinnulaus og ófær til starfa.  Nánar lýsti Þorvaldur þessu svo:

 

Þegar hann [Guðmundur] vildi hefla við í smíðahúsi sínu hreyfði hann höndina hefillaust eftir viðnum og innan skamms gat hann ekki á fótum verið og lagðist í rúmið.  Þá var sendur maður til Jóhannesar á Kirkjubóli [í Mosdal – sjá hér Kirkjuból] til þess að biðja hann að hjálpa Guðmundi.  Segir hér ekkert af ferð mannsins fyrr en hann kemur heim aftur.  Daginn sem sendimaður kom var gott veður og voru börn Guðmundar úti á hlaði þegar hann kom.  Þar sem hann var að koma úr langferð búast þau við því að hann muni undireins heilsa hverju þeirra með kossi eins og þá var títt.  En ekkert verður úr kveðjum hjá sendimanni og lætur hann eins og hann sjái ekki börnin.  Gengur hann rakleitt upp fyrir bæ og þrisvar sinnum í kringum hann.  Þá fyrst gengur hann inn, yrðir á engan þó að menn verði á vegi hans en fer upp á loft og rakleiðis að rúmi húsbónda, kyssir hann og skilar til hans kveðju frá Jóhannesi á Kirkjubóli.  Síðan heilsar hann öðrum heimamönnum á venjulegan hátt.  Nú fór Guðmundi að batna, rís hann brátt úr rekkju og varð eftir nokkurn tíma laus meina sinna.  En nokkuð lengi loddi þó við hann minnisleysið sem á hann hafði sótt í legunni.  Batnaði það þó þegar frá leið.[80]

 

Alla þessa frásögn hafði Þorvaldur Magnússon eftir móður sinni sem var dóttir Guðmundar Þorvaldssonar og ein í hópi barnanna sem voru á hlaðinu þegar sendimaðurinn kom.[81]

Enda þótt vel tækist að lækna smiðinn góða í Fremri-Hjarðardal þóttust ýmsir lengi verða varir við annarlegan pilt í fylgd með niðjum hans og gerði drengstauli sá stundum vart við sig á undan komu þessa eða hins úr niðjahópi Guðmundar.[82]  Kauða þennan nefndu menn ýmist Hjarðardalsmóra eða Bakka-Móra en einn sona Guðmundar varð bóndi á Bakka í Neðri-Hjarðardal.[83]  Sonur Guðmundar Þorvaldssonar stóð fyrir búi í Fremri-Hjarðardal allt til ársins 1869 en þá kom nýtt fólk á jörðina.[84]

Síðasti 19. aldar bóndinn í Fremri-Hjarðardal var Benedikt Oddsson sem tók þar við búi vorið 1869[85] og bjó fram yfir aldamót (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 266).  Hann var lengi hreppstjóri[86] og var kosinn oddviti hreppsnefndar haustið 1895.[87]  Benedikt var mikill framkvæmdamaður í búnaði og í einni heimild er þess getið að hann hafi haft búfræðinga heil sumur og látið gera mestar jarðabætur allra bænda í Mýrahreppi á sinni tíð.[88]

Við alþingiskosningarnar í Ísafjarðarsýslu haustið 1880, fyrstu kosningarnar eftir andlát Jóns Sigurðssonar forseta, var Benedikt í Hjarðardal einn þeirra átta manna sem gáfu kost á sér til þingsetu en hann náði ekki kjöri.[89]

Eitt barna Benedikts Oddssonar og Ólafar Jónsdóttur konu hans var Benedikt Benediktsson sem sagður var 19 ára við húsvitjun árið 1883.[90]  Benedikt yngri var þá heima hjá foreldrum sínum í Fremri-Hjarðardal.[91]  Árið 1884 var hann við nám í Búnaðarskólanum í Ólafsdal en drukknaði 23.ágúst þá um sumarið í Gilsfirði.[92]  Þegar bóndasonurinn frá Hjarðardal drukknaði var hann að lauga sig í Gilsfirði ásamt öðrum manni frá Ólafsdal.[93]

Benedikt Oddsson átti heima í Fremri-Hjarðardal frá því hann tók þar við búi vorið 1869 og til dauðadags árið 1902.  Allan þennan aldarþriðjung hafði hann búsforráð hér á hendi nema um þriggja ára skeið frá 1889-1892.  Þá var það Gestur Björnsson, tengdasonur Benedikts, sem bjó á jörðinni.[94]  Gestur var fæddur árið 1860 í Dalasýslu og útskrifaðist sem búfræðingur frá Ólafsdalsskóla vorið 1887.[95]  Hann kom að Fremri-Hjarðardal sama ár og var þar fyrst lausamaður en árið 1888 gekk hann að eiga Jónu, dóttur Benedikts Oddssonar, og vorið 1889 tóku ungu hjónin við búinu.[96]  Gestur var fyrsti búfræðingurinn sem komst í bændatölu í Dýrafirði og reyndar á öllum Vestfjörðum.[97]  Hann sinnti mikið félagsmálum.  Haustið 1888 var Menningarfélag stofnað í Mýrahreppi og var Gestur kosinn í fyrstu stjórn þess.[98]  Á vegum þessa félags flutti hann a.m.k. tvo fyrirlestra á árunum 1888 og 1889 og fjallaði annar þeirra um félagsskap og menntun.[99]  Árið 1890 stóð hann sannanlega fyrir pöntunarfélagi sem virðist um skeið hafa verið eins konar deild í Kaupfélagi Ísfirðinga er þá starfaði.[100]  Árið 1891 var Gestur kosinn formaður Búnaðarfélags Mýrahrepps (sjá Firðir og fólk1900-1999, 247) en félagið hafði verið stofnað þremur árum fyrr, nokkrum mánuðum eftir að þessi ágæti búfræðingur settist að í Fremri-Hjarðardal.  Mjög líklegt verður að telja að hann hafi verið hvatamaður að stofnun félagsins og reyndar greinilegt að hann hefur verið í forystu fyrir öllum þessum þremur félögum, – menningarfélaginu, pöntunarfélaginu og búnaðarfélaginu sem öll voru stofnuð árið 1888.  Með þeim orðum er ekki lítð sagt því stofnun þessara félaga var í raun fyrsta tilraun bænda í Mýrahreppi til að nýta félagsskap og samtök sjálfum sér og sínu fólki til heilla.

Veturinn 1890-1891 var annar búfræðingur frá Ólafsdal barnakennari hjá Kristjáni Oddssyni á Núpi, Jón Guðmundsson sem síðar var lengi bóndi á Ytri-Veðrará í Önundarfirði.  Fáum dögum fyrir jól skrifaði Jón skólastjóranum í Ólafsdal bréf og sagði þá meðal annars:  Það er mikill pólitískur andi í þeim hér sumum, einkanlega Gesti, bónda og búfræðingi í Hjarðardal sem Þjóðviljinn ber vitni um og mun gjöra það betur seinna.[101]

Við undirbúning þessa rits hefur ekki verið ráðist í að kanna skrif Gests Björnssonar í Þjóðviljanum, blaði Skúla Thoroddsen á Ísafirði, en slík rannsókn gæti reyndar verið forvitnileg.

Búskaparár Gests í Fremri-Hjarðardal urðu því miður aðeins þrjú.  Vorið 1892 ákvað hann að flytjast til Ameríku og segir sagan að vinnufólksekla hafi valdið mestu um þessa ráðabreytni.[102]  Vel má það rétt vera því að keppa varð um vinnufólk við þilskipaútgerðina, hvalstöðina á Höfðaodda og ameríska lúðuveiðara sem höfðu bækistöð á Þingeyri og sóttust eftir að fá unga menn úr Dýrafirði og næsta nágrenni á sínar doríur.

Gestur Björnsson búfræðingur steig á skip 20. júní 1892 og fluttist til Ameríku.[103]  Þangað fylgdu honum kona hans og börn en tveimur dögum fyrir brottförina kom hann til Sighvats Borgfirðings og fékk hann til að gerast umboðsmann Þjóðviljans í Dýrafirði í sinn stað.[104]

Ekki átti það fyrir þessum fyrsta búfræðingi í bændastétt á Vestfjörðum að liggja að verða lánsmaður í Ameríku.  Tæplega tveimur árum eftir komuna þangað drukknaði hann í Winnipegvatni í Kanada.  Sá hörmulegi atburður skeði 30. júní 1894[105] og um miðjan ágúst var sorgarfréttin borin tengdafólki hans í Fremri-Hjarðardal.[106]  Við andlát hans stóð ekkja hans uppi með þrjú börn og hið fjórða á leiðinni.  Jóna Benediktsdóttir úr Hjarðardal, ekkja Gests sáluga, kom nú aftur alkomin frá Ameríku í gærkveldi með börnin nema eitt, skrifar Sighvatur Borgfirðingur í dagbók sína 2. október þetta sama ár.[107]  Kjarkmikil kona hefur þetta verið því löng var leiðin frá Winnipeg heim í Hjarðardal og örðugt að ferðast með ungbörn yfir land og sjó á þeirri tíð.  Við skulum hins vegar vona að margir hafi tekið vel á móti henni er hún heilsaði Dýrafirði á ný og nákvæmlega þremur mánuðum eftir heimkomuna ól hún sitt fjórða barn.[108]  Það var hann Gestur Oddfinnur sem lét margt til sín taka og var lengi skólastjóri í Flatey á Breiðafirði.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Guðmundur Gíslason, Höfða / K.Ó. 1.7.1992.

[2] Sóknalýs. Vestfj. II, 67-68.

[3] Sama heimild, 67, 68.

[4] Örnefnaskrá.

[5] Sama heimild.

[6] Sama heimild.

[7] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga 1870-1900.

[8] Lbs. 23744to og 23754to, Dagbækur S.Gr.B. 1873-1900.

[9] Sama heimild.

[10] Jóhannes Davíðsson 1968, 44-45 (Ársrit S.Í.).  D.I. V, 176-177.

[11] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 62.

[12] Sama heimild.

[13] Jóh. Dav. 1968, 45.

[14] Örn.skrá.

[15] Sama heimild.

[16] Örn.skrá.

[17] Sama heimild.

[18] Sóknalýs. Vestfj. II, 68.

[19] Jarðab. Á. og P. VII, 62.

[20] Sama heimild, 61.

[21] Sama heimild.

[22] Davíð H. Kristjánsson/K.Ó. 12.7. 1998.

[23] Örn.skrá.

[24] Jarðab. Á. og P. VII, 62.

[25] Sóknalýs. Vestfj. II, 67-68.

[26] Sama heimild.

[27] J. Johnsen 1847, 193-194.

[28] Örn.skrá.

[29] Sama heimild.

[30] D.I. V, 176-177.

[31] D.I. IV, 176-177.

[32] D.I. V, 495-496.

[33] D.I. XII, 606 og XIII, 151-152.

[34] D.I. XII, 633-634 og XIII, 151-152.

[35] Sýslumannaæfir I, 517-518.

[36] Manntal 1703.

[37] Jarðab. Á. og P. VII, 62.  Manntal 1762.

[38] Jarðab. Á. og P. VII, 62.

[39] Sama heimild, 55-93.

[40] Sama heimild, 62.

[41] Sama heimild.

[42] Sama heimild.

[43] Sama heimild.

[44] Jarðab. Á. og P. VII, 62.

[45] Jarðab. Á. og P. VII, 75.

[46] Manntal 1762;  Ísl. æviskrár III, 294.

[47] Manntal 1762;  Páll Eggert Ólason 1927, 189 (Skírnir).

[48] Manntal 1762.

[49] Manntal 1801.

[50] P.E. Ól. 1927, 191 (Skírnir); Hallgr.Pét. Passíusálmar 1996, formáli, bls. 11.

[51] P.E. Ól. 1927, 183-194;  Sami 1939, 176-179 (Skírnir).

[52] JS. 3374to.

[53] P.E. Ól 1927, 189 (Skírnir).

[54] Sama heimild.

[55] Sama heimild, 182-194.

[56] Sama heimild, 184-185.

[57] Sama heimild, 184-186.

[58] P.E. Ól. 1927, 184-186 (Skírnir).

[59] Sama heimild.

[60] Sama heimild, 192.

[61] Ól. Ólafss. 1957, 27-34 (Ársrit S.Í.).

[62] Sama heimild, 29.

[63] Lbs. 23744to, Dagbók S.Gr. B. 9.3.1874.

[64] Ól. Ólafss. 1957, 26.

[65] Manntal 1801.

[66] Manntöl frá 19. öld.  Sóknarm.töl Dýrafj.þinga frá sama tíma.

[67] Ól. Ólafss. 1957, 29 (Ársrit S.Í.).

[68] Manntal 1845.

[69] Sama heimild.

[70] J. Johnsen 1847, 193.

[71] Ísl. æviskrár.  Ól. Ólafss. 1957, 26-29 (Ársrit S.Í.).

[72] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 2. Bún.sk. 1839-1858.

[73] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[74] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 2. Bún.sk. 1839-1858.

[75] Sama heimild.

[76] Manntöl 1835 og 1845.  Prestsþj.b. Dýrafj.þinga, hjónavígsla 17.10.1850.

[77] Ól. Ólafss. 1957, 17 (Ársrit S.Í.).

[78] Vestf. sagnir I, 225-227 og III, 265-268.

[79] Sama heimild I, 225-227.

[80] Vestf. sagnir I, 226-227.

[81] Sama heimild.

[82] Sama heimild , 225-227 og III, 265-268.

[83] Sömu heimildir.

[84] VA III, 419-420, búnaðarskýrslur.

[85] Sama heimild.

[86] Lbs. 23744to og 23754to, Dagbækur S.Gr.B. 1873-1903.

[87] Lbs. 23754to, Dagbók S.Gr.B. 9.11.1895.

[88] Jóh. Dav. 1968, 45 (Ársrit S.Í.).

[89] Þjóðólfur 1.1.1881.  Bergsteinn Jónsson 1972, 370-371 (Tr.Gunn. III).

[90] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[91] Sama heimild.

[92] Lbs. án safnnúmers.  Gögn úr fórum Hjálmars Jónssonar, kaupmanns á Flateyri.  Annáll Hjálmars frá

árunum 1869-1885, ár 1884.

[93] Sama heimild.

[94] VA III, 419-420, búnaðarskýrslur.  Sóknarm.töl Dýrafj.þinga 1870-1901.

[95] Játv. J. Júl.1986 xxix.

[96] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga 1885-1893.

[97] Játv. J. Júl. 1986 (Nemendatal Ólafsdalsskóla).

[98] Lbs. 23744to, Dagbók S.G.B. 7.10.1888.

[99] Sama dagbók 10.12.1888 og 30.12.1889.

[100] Sama dagbók 24.3.1888, ársyfirlit 1888, 27.7., 13.9., 4.10. og 13.12 1889, 3.1., 21.1., 24.1. og

12.3.1890.

[101] Lbs. 30934to, Bréf Jóns Guðmundssonar búfræðings, síðar á Veðrará, 20.12.1890 til Torfa Bjarnasonar

í Ólafsdal.

[102] Játv. J. Júl. 1986 (Nemendatal Ólafsdalsskóla, xxix.

[103] Lbs. 23754to, Dagbók S.Gr.B. júní 1892.

[104] Sama dagbók, júní 1892.

[105] Játv. J. Júl. 1986, xxix.

[106] Lbs. 23754to, Dagbók S.Gr.B. 19.8.1894.

[107] Sama dagbók, 2.10.1894.

[108] Játv. J. Júl. 1986, xxix.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »