Hjallkárseyri

Frá Rauðsstöðum að Hjallkárseyri eru tæplega fimm kílómetrar og liggur leiðin út með norðurströnd fjarðarins. Landamerkin eru við Grjótá, um 800 metrum fyrir utan Rauðsstaði,[1] en þar tekur við Hjallkárseyrarhlíð. Á miðri hlíðinni er Óskarsel[2] en þar byggði „einn fátækur maður“ sér hús, endur fyrir löngu, líklega um 1600 eða snemma á 17. öld, og hafðist þar við í tvö ár, ásamt eiginkonu sinni.[3] Síðan þá hefur enginn sest að í Óskarseli.[4] Nokkru utar er Ásgrímssel og gátu menn vísað þar á gamlar seltóttir fyrir fáum áratugum.[5] Þar heitir Selnes við sjóinn en ofan við tóttirnar er besta haglendið á allri hlíðinni.[6] Skriðan mikla utan við þá grasteiga heitir Illaskriða en gilið í fjallinu, ofan við hana, Rauðagil.[7]

Sjálf Hjallkárseyrin er lítil. Á henni stóð bærinn sem féll í eyði árið 1992[8] og þar var túnið. Innan við eyrina opnast Borgarfjörður en utan við hana stefna þeir sem ströndinni fylgja beint í vestur. Gamli bærinn stóð ofarlega á eyrinni, ekki langt frá húsinu sem hér er nú. Ofan við túnið er kletturinn Fiskaberg en annað nafn á honum er Álfkonuklettur.[9] Í þessum steini sá Guðmundur Halldór, síðar togarasjómaður í Reykjavík, ljós, tvisvar sinnum, er hann var að alast hér upp á árunum kringum síðustu aldamót.[10] Núpurinn ofan við bæinn heitir Höfði en fjallið innan við hann Hjallkárseyrarfjall.[11]

Í Landnámabók er getið um þrælinn Hjallkár sem Ánn rauðfeldur á Eyri í Arnarfirði gaf frelsi.[12] Bendir sú staðreynd til þess að Hjallkárseyri hafi verið orðin bújörð á ritunartíma þeirrar bókar. Að fornu mati var jörðin 12 hundruð að dýrleika.[13] Hér er lítið um slægjur en gott sauðland.[14] Sandfok og sjávargangur ollu stundum skaða á túninu og landspjöll af völdum skriðufalla voru tíð.[15] Skriðurnar ógnuðu líka bænum.[16] Guðmundur Halldór, sem fyrr var nefndur, segir frá því að haustið 1899 hafi fallið hér 30 skriður og ein þeirra rétt við bæinn.[17] Mikið af túninu fór þá undir aur og grjót.[18]

Álftamýrarkirkja mun hafa eignast Hjallkárseyri á árunum upp úr 1400,[19] líklega í svartadauða eða mjög skömmu síðar. Kirkjan átti jörðina enn á fyrri hluta síðustu aldar[20] en árið 1901 bjó hér sjálfseignarbóndi.[21] Á 15. öld urðu landsetar kirkjunnar, sem hér bjuggu, að róa á skipi prestsins á vorin[22] en í byrjun 18. aldar hafði þeirri kvöð verið létt af.[23] Réttar til hrísrifs í skógarreit kirkjunnar í Arnarfjarðarbotni virðast þeir sem hér bjuggu hafa notið um aldir (sjá Rauðsstaðir). Á síðari öldum var nær alltaf einbýli á Hjallkárseyri[24] en hér bjuggu þó tveir bændur árið 1681[25] og líka 1710.[26]

Á árunum kringum 1800 bjó hér býsna lengi bóndinn Ásgrímur Sigurðsson[27] sem nefndur var Ásgrímur „illi“ eða Galdra-Grímsi.[28] Kona hans hét Sigríður Jónsdóttir.[29] Hann fæddist á Karlsstöðum um 1760[30] og var sonur Sigurðar Bjarnasonar og Steinvarar Jónsdóttur er þar bjuggu.[31] Ásgrímur var talinn kunnáttumaður og álitu margir að Benedikt Gabríel, sem hér var áður sagt frá, hefði lært galdra hjá honum.[32] Eitt barna Ásgríms og eiginkonu hans var Ásgrímur, fæddur 1796 eða því sem næst.[33] Þegar drengur þessi var þriggja ára týndist hann og dvaldist að sögn með álfum í þrjá daga.[34] Ásgrímur Ásgrímsson varð seinna bóndi á Rauðsstöðum og bjó þar um miðbik nítjándu aldar.[35] Með konu sinni, Steinunni Halldórsdóttur, eignaðist hann dreng sem líka var skírður Ásgrímur.[36] Sá piltur var að sögn „vitstola frá barndómi“.[37]Er nýir húsbændur tóku við búi á Rauðsstöðum varð hann þar um kyrrt, kominn á þrítugsaldur.[38] Sjónarvottur lýsti útliti hans og hátterni svo:[39]

Hann lá á hnjánum í bóli sínu í hvítri einskeftu skyrtu með baðandi höndum krepptum, með fótleggi úr kind í hvorri hendi. Hann var af stærstu mönnum á vöxt, með svart hár hrokkið ofan á axlir. Ekkert orð skildi ég sem hann talaði en ég man hann sagði alltaf: „Bre, bre“.

Frá Hjallkárseyri hélt um miðbik 19. aldar út í heiminn ungur maður sem Bjarni hét Þorlaugarson en nafn hans flaug skömmu síðar víða er hann barðist einn við átján Fransmenn á Alviðrubót og hélt velli (sjá Alviðra). Bjarni fæddist árið 1827 og ólst hér upp frá 1838 hjá hjónunum Jóni Tómassyni og Ingigerði Bjarnadóttur.[40] Svo sterkur var Bjarni að hann braut hrygginn í mannýgu nauti með einu hnefahöggi.[41]

Síðasti nítjándu aldar bóndinn á Hjallkárseyri var Guðmundur Friðriksson.[42] Hann var eitt margra barnabarna séra Jóns Ásgeirssonar á Álftamýri,[43] orðlögð refaskytta og talinn flestum
mönnum sterkari. Um tófu sem hann skaut tók hann svo til orða að hún hefði komið „í brennandi loganum innan frá Lukkuhalli“.[44] Þau álög voru talin hvíla á Hjallkárseyri að hér mætti enginn búa lengur en í 16 ár.[45] Þá bannhelgi braut Guðmundur Friðriksson og á sínu sautjánda búskaparári, sem var árið 1910, missti hann þrjú börn á aldrinum 10–20 ára og drjúgan hluta af bústofninum.[46] Eitt barna Guðmundar Friðrikssonar og konu hans, Guðmundínu Jónsdóttur, var Guðmundur Halldór, fæddur 1887.[47] Hann fór ungur til sjós á skútum, gerðist síðar togarasjómaður í Reykjavík og var á togurum fram á tíræðisaldur sem líklega er heimsmet.

Í Jarðabókinni frá 1710 er tekið fram að vatnsbólið bregðist hér stundum „á vetur“ og þá sé vatnsvegurinn óbærilega langur.[48] Hjá fólkinu sem hér bjó var því ærið tilefni til fagnaðar er Guðmundur biskup góði laðaði fram vatn með því að slá staf sínum við stein á hrygg einum skammt fyrir utan bæinn.[49] Kunnugir segja að gatið á steininum sjáist enn og það sé sexhyrnt.[50] Nú fáum við okkur að drekka úr Gvendarbrunninum góða og röltum síðan af stað út að Gljúfrá, sem er næsti bær. Milli bæjanna var aðeins hálftíma gangur og liggur leiðin út með Reynihlíð, undir Reynihlíðarfjalli.[51] Utarlega á hlíðinni er Ystahæðargil og Hlaðshryggur skammt fyrir utan það.[52] Þar eru landamerki Hjallkárseyrar og Gljúfrár.[53]

 

 

[1] ÖÖ.

[2] ÞN 1951, 156 (Árbók F.Í.).

[3] Jb. Á. og P. VII, 13.

[4] ÞN 1951, 156.

[5] ÖÖ.

[6] Sama heimild.

[7] Sama heimild.

[8] Firðir og fólk 1900-1999, 118.

[9] ÖÖ.

[10] Sama heimild.

[11] ÞN 1951, 156.

[12] Ísl. fornrit I, 179.

[13] Jb. Á. og P. VII, 12–13.

[14] ÞN 1951, 156. Sóknalýs. Vestfj. II, 33–34.

[15] Jb. Á. og P. VII, 12–13. Sóknalýs. Vestfj. II, 21.

[16] Jb. Á. og P. VII, 12–13. Sóknalýs. Vestfj. II, 21.

[17] GHG JóG 1962, bls. 10. ÖÖ.

[18] Sömu heimildir.

[19] D.I. IX, 29–30. Sbr. D.I. IV, 147.

[20] JJ 1847, 191.

[21] Manntal 1901 og fylgiskjöl.

[22] D.I. IX, 29–30.

[23] Jb. Á. og P. VII, 12.

[24] Manntöl 1703, 1762, 1801 og 1816. Smt. Rafnseyrar.

[25] Rtk 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[26] Jb. Á. og P. VII, 12.

[27] Manntöl 1801 og 1816.

[28] Vestf. þjóðs. II. 2., 101.

[29] Manntal 1801.

[30] Manntal 1816.

[31] Smt. Rafnseyrar.

[32] Vestf. þjóðs. II. 2., 101.

[33] Manntöl 1801 og 1816.

[34] ÞErl 1954, 32–33.

[35] Sama heimild. Manntöl 1840, 1845, 1850 og 1855.

[36] Sömu heimildir.

[37] Manntal 1845.

[38] ÞErl 1954, 32–33.

[39] Sama heimild

[40] Prþjb. og smt. Rafnseyrar.

[41] Vestf. sagnir II, 219–220.

[42] Prþjb. og smt. Rafnseyrar.

[43] Sömu heimildir.

[44] SkN KÓ 10.7.1991.

[45] GHG JóG 1962, 32–33.

[46] Sama heimild.

[47] Prþjb. og smt. Rafnseyrar.

[48]Jb. Á. og P. VII, 12–13.

[49] ÞN 1951, 156.

[50] ÞN 1951, 156 (Árbók F.Í.).

[51] Sama heimild.

[52] Sama heimild. ÖÖ.

[53] Sömu heimildir. D.I. XI, 29–30.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »