Hokinsdalur

Á sýslumörkunum við Langanestá gleðja augað margbreytilegir klettar og stórir drangar þar sem mætast land og haf. Fremst á nestánni, þar sem vitinn stendur, er þverhnípt berg ofan við fjöruna. Fram úr því norðanverðu gengur mikil klettabrík, 10–15 metrar á hæð en svo þunn að þar má sitja klofvega. Í bríkina hefur svarrandi brim sorfið stórt gat niðri við fjöruborðið og heitir það Selamannagat.[1] Sjálf er klettabríkin nefnd Selamannagatklettur.[2] Héðan sér vítt um allan Arnarfjörð og hér biðu veiðimennirnir á fyrri tíð og skyggndust um, þegar von var á selavöðum.[3] Oftast reru menn af stað er vaðan kom í sjónmál en hitt kom þó fyrir að hleypt væri á selinn í gegnum gatið.[4]

Örfáum metrum sunnan við Langanestá er hellismunni skammt frá fjöruborði. Sagt er að á „reykjaröldinni“ hafi maður sem sakaður var um galdra falið sig þar uns hann náði að komast í skip.[5] Skjólgott er sunnan við tána og heitir þar Sæluhöfn. Oft var farið um Arnarfjörð á litlum kænum og í stórviðrum mun margur hafa þóst hólpinn að komast þar í var.

Nafnið Langanes er gamalt[6] en á fyrri tíð var nesið stundum nefnt Sauðanes[7] og fremsti hluti þess Arnarnes.[8] Sjálf fjallsgnípan ofan við Langanestá heitir Langanestrumba.[9] Í sjávardröngunum við nestána gerði „fuglakóngurinn assa“ sér hreiður á hverju ári um langt skeið[10] og hér hrapaði séra Guðmundur Skúlason á Rafnseyri til bana vorið 1623 er hann reyndi að nálgast arnarhreiðrið.[11] Örskammt frá nestánni er skerið Geirmóður[12] en nokkru innar, um það bil miðja vega milli táarinnar og áróssins í Hokinsdal, eru nokkrir klettabásar við sjóinn og heitir einn þeirra Djöflabás.[13] Í þjóðsögum er hermt að þar hafi lengi borið á reimleikum af völdum tveggja Mosdælinga sem fóru að slást er þeir voru á heimleið frá Bíldudal, hvolfdu undir sér bátnum og drukknuðu.[14]

Frá Langanestá er aðeins tíu til fimmtán mínútna gangur að ósi Hokinsdalsár. Bærinn í Hokinsdal stóð hins vegar lengra frá sjó en önnur býli í Auðkúluhreppi og er hálftíma gangur frá vörinni innan við ósinn fram að bænum. Bæjarstæðið er í um það bil 100 metra hæð yfir sjó[15] en fáir bæir á Vestfjörðum standa svo hátt. Hokinsdalur var eina bújörðin í samnefndum dal og fór í eyði árið 1959 en aftur var búið hér í tvö ár, frá 1977 til 1979.[16] Hjáleiga var hér í túninu á 17. öld og hét Helgahús[17] en mun einnig hafa verið nefnd Bláskógar.[18] Þar var búið fram undir 1690 en þá var kotið lagt undir heimajörðina.[19] Þaðan í frá var hér tvíbýli um langt skeið og stundum þríbýli.[20] Að fornu mati var Hokinsdalur 24 hundraða jörð.[21] Hér eru góðir sumarhagar og fjörubeit var talin „í skárra lagi“.[22]Helsti kostur jarðarinnar var þó góð slægjulönd.[23] Þetta er „veðrajörð af austnorðri“ og þótti „óhæg til kirkjuferða“.[24]Landspjöll af skriðum voru líka til baga.[25]

Fyrsti eigandi Hokinsdals sem um er kunnugt var Jón Björnsson danur á Rafnseyri, sem andaðist árið 1508, en hann var launsonur Björns hirðstjóra Þorleifssonar á Skarði á Skarðsströnd.[26] Drjúgan hluta af eignum Jóns dans erfði systursonur hans, Björn Guðnason í Ögri.[27] Óljóst er þó hvort hann muni hafa eignast Hokinsdal en fullvíst aftur á móti að jörðin var árið 1576 í eigu dóttursonar Björns, Eggerts lögmanns Hannessonar í Saurbæ á Rauðasandi.[28] Eigandi Hokinsdals árið 1658 var Guðrún Henriksdóttir[29] dótturdótturdóttir nýnefnds Eggerts lögmanns.[30] Síðar á sautjándu öldinni átti Jón Þorláksson, sýslumaður í Múlaþingi, jörð þessa um skeið[31] en um 1700 var
Hokinsdalur kominn í eigu séra Halldórs Pálssonar í Selárdal, sem átti hér tíu hundruð, og Einars Gunnlaugssonar, lögréttumanns á Hreggstöðum á Barðaströnd, sem átti hinn jarðarpartinn.[32] Landskuld af þeim 14 hundruðum sem Einar átti var þá fjórar vættir,[33] það er fjögur ærverð, og var stundum greidd „í fríðum kindum en stundum í vaðmálskorni og sléttum peningum“.[34]Á 18. og 19. öld var Hokinsdalur oft í sjálfsábúð að einhverju eða öllu leyti[35] og svo var enn árið 1901.[36]

Á síðari hluta 16. aldar bjó hér maður að nafni Jón Gudduson og er hann fyrsti bóndinn í Hokinsdal sem unnt er að nefna með nafni. Honum seldi Eggert lögmaður Hannesson gamalt naut árið 1570 og átti Jón að greiða fyrir það með „sex vætta gildi í fiski og lýsi“.[37]Árið 1710 voru hér tveir bæir, annar á gamla bæjarstæðinu og hinn þar sem hjáleigan hafði verið.[38] Báðir stóðu þeir í sama túninu og var stutt á milli.[39]

Árið 1736 fluttist hingað sextugur prestur frá Söndum í Dýrafirði, Jón Þórðarson að nafni, en hann var um svipað leyti dæmdur frá prestskap fyrir að verða ofurölvi í miðri messu (sjá Sandar). Var hann brauðlaus þaðan í frá og átti jafnan heima hér í Hokinsdal uns hann andaðist nær áttræður árið 1755.[40] Séra Jón var tengdasonur Einars Gunnlaugssonar lögréttumanns á Hreggstöðum[41] sem átt hafði 14 hundruð í Hokinsdal og má vera að hinn hrösuli prestur hafi átt part úr jörðinni er hann settist hér að. Hann var á efri árum nefndur Jón „dettir“ eða Jón „hoki“.[42]

Um miðja 19. öld bjó hér Ólafur Guðmundsson sem að sögn var kallaður „loðinn“, sagður „fjölkunnugur og ójafnaðarmaður hinn mesti“.[43]Hann var frá Horni í Mosdal, fæddur 1802 eða því sem næst,[44] og andaðist árið 1855.[45] Ólafur „loðinn“ átti í nokkrum útistöðum við nafna sinn, Ólaf Jónsson, bónda á Auðkúlu, og beittu þeir að sögn göldrum til að fyrirkoma hvor annars búfénaði.[46]

Næsti bær við Hokinsdal er Steinanes í Suðurfjörðum. Milli bæjanna er aðeins tæplega klukkutíma gangur yfir lágan háls. Frá Steinanesi kom Þorleifur Jónsson sem var bóndi í Hokinsdal á árunum 1877–1899. Hann var sonur Jóns Jónssonar „skipherra“ á Steinanesi og konu hans, Margrétar Sigurðardóttur frá Rafnseyri, en hún var systir Jóns Sigurðssonar forseta. Margrét fluttist að Hokinsdal með syni sínum og tengdadóttur árið 1877 og andaðist hér 17. desember 1888.[47] Árið 1911 átti Þorleifur enn heima í Hokinsdal og sótti á því ári Rafnseyrarhátíðina sem haldin var til að minnast þess að hundrað ár voru liðin frá fæðingu Jóns forseta.[48] Á hátíðinni var Þorleifur nánasti ættingi forsetans.[49]

Úr Hokinsdal liggur leiðin með sjó fyrir Skarðanúp, fjall sem skilur að Hokinsdal og Mosdal. Vegalengdin frá bæjarhólnum í Hokinsdal að Laugabóli í Mosdal er sjö kílómetrar eða því sem næst. Úr fjörunni undir Skarðanúp blasir við augum dálítið sker í um það bil 700 metra fjarlægð frá landi. Það heitir Gíslasker og er kennt við sjálfan Gísla Súrsson.[50] Í hinni yngri gerð af sögu hans er Gísli sagður hafa kastað steini úr fjörunni í skerið er hann fór hér hjá á leið sinni úr Haukadal í útlegðina í Geirþjófsfirði.[51] Slíkt er þó á einskis manns færi í heimi raunveruleikans. Í sléttum sjó fer Gíslasker aldrei í kaf en stundum hverfur það í hafrótið þegar sær er úfinn. Sé horft frá Brimnesi innan við Hokinsdal á Gíslasker er Auðkúla beint á móti, handan fjarðarins, og Rafnseyri aðeins innar en hér er fjörðurinn þrír til fjórir kílómetrar á breidd. Framan í Skarðanúp eru þrjár gjótur og heitir sú sem við komum síðast að Skarðagjóta eða Svartagjóta. Hún er rétt fyrir innan Brimnes og við hana eru landamerkin.[52]

 

 

[1] ÖÖ.

[2] Sama heimild.

[3] ÞN 1951, 163 (Árbók F.Í.).

[4] LKr 1980, 401.

[5] Vestf. þjóðs. II. 2., 99–100.

[6] Ísl. fornrit I, 176–177.

[7] Sóknalýs. Vestfj. II, 16.

[8] Sama heimild, I, 256.

[9] ÞN 1951, 163.

[10] Sóknalýs. Vestfj. II, 16.

[11] Sama heimild. Sbr. Ísl. æviskrár II, 182–183.

[12] ÖÖ.

[13] ÞN 1951, 163.

[14] Sama heimild. Vestf. sagnir II, 197–200.

[15] ÞTh 1919, 9.

[16] Firðir og fólk 1900-1999, 108.

[17] Jb. Á. og P. VII, 4.

[18] Rtk. Jarðab. V. 16, Ísafjs. 1805.

[19] Jb. Á. og P. VII, 3–4.

[20] Sama heimild. Manntöl 1703, 1762, 1801, 1816 og 1845.

[21] Jb. Á. og P. VII, 3–4.

[22] Sama heimild.

[23] Sóknalýs. Vestfj. II, 32.

[24] Sama heimild.

[25] Sama heimild.

[26] D.I. VI, 534–535. Ísl. æviskrár III, 72–73.

[27] AS 1975, 299–300. D.I. IX, 57–58.

[28] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir (Kph. 1993), bls. 103–104.

[29] Lbs. 797 4to. Jarðaskrá úr Ísafjs. frá árinu 1658.

[30] Ísl. æviskrár III, 172, 431 og II, 348.

[31] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir, bls. 173 og 282. Alþb. Ísl. VIII, 143.

[32] Sömu Jarðabréf, bls. 173. Lbs. 797 4to. Jarðaskrá úr Ísafjs. frá árinu 1695. Jb. Á. og P. XIII, 215–216 og VII, 3–4. Sbr. Lögrmtal, bls. 106.

[33] Jb. Á. og P. XIII, 215–216.

[34] Jb. Á. og P. XIII, 215–216.

[35] Manntal 1762. Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafjs. 1805. JJ 1847, 190.

[36] Manntal 1901 og fylgiskjöl.

[37] D.I. XV, 475 og 523–524.

[38] Jb. Á. og P. VII, 3–4.

[39] Sama heimild.

[40] Ísl. æviskrár III, 307.

[41] Sama heimild.

[42] Sama heimild.

[43] Vestf. sagnir III, 256.

[44] Manntöl 1816 og 1845 og nafnlyklar þeirra.

[45] Prþjb. Rafnseyrar.

[46] Vestf. sagnir III, 256–259.

[47] Prþjb. og smt. Rafnseyrar og Otradals.

[48] LKr 1955, 32–33.

[49] Sama heimild.

[50] Sóknalýs. Vestfj. II, 25.

[51] Ísl. fornrit VI, 66. Sbr. þar BKÞ bls. xlviii.

[52] ÖÖ.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »