Hólar

Frá Meðaldal að Hólum, næsta bæ fyrir innan, er stutt að fara og liggur leiðin með sjó um gróðurlítil holt og mela. Þennan spöl milli bæjanna má ganga á tíu til fimmtán mínútum. Hólabærinn stendur rétt utan við mynni Kirkjubólsdals og um 300 metra frá sjó. Að bæjarbaki gnæfir Hólafjall sem hér var áður nefnt. Innantil við túnið í Hólum er nú flugvöllur Dýrfirðinga.

Að fornu mati voru Hólar taldir vera 12 hundraða jörð. Í byrjun 18. aldar var vetrarbeit talin allgóð í landareign Hóla, bæði í fjörunni og á grónu landi. Þá er túnið sagt vera harðlent og grýtt og úthagar skriðurunnir.[1] Seltóttir frá Hólum eru sagðar vera á Bugabrekku, fjallmegin við engjalönd Hólafólks við Sandaá.[2] Um 1840 var talið landþröngt í Hólum og lítið um gras.[3] Eitthvað var þar enn um lyng til eldiviðar á fyrstu árum 18. aldar en erfiðleikar með vatn því vatnsból brugðust bæði sumar og vetur og var þá óbærilega langur vatnsvegur í Sandaá.[4] Réttur til veiði í Sandaá fylgdi jörðinni en silungsveiði þar sögð nánast engin árið 1710.[5] Krókalækur, sem rennur skammt frá landamerkjum Hóla og Kirkjubóls, olli stundum skaða á búpeningi Hólabænda á fyrri tíð.[6] Gildrunes heitir nes eitt lítið við sjóinn, utantil við túnið í Hólum og er sagt að þar hafi selagildrur verið lagðar.[7] Máske hafa þær verið af svipuðu tagi og hér var áður frá sagt (sjá Hraun í Keldudal).

Utantil í norðanverðu Hólafjalli er gríðarstór hvilft sem heitir Hólahvilft en efsti hluti hennar er nefndur Þursaskál.[8] Fjallsgnípan norðan við skálina heitir Þursaskálarhorn og er nyrst í Hólafjalli. Landamerki Meðaldals og Hóla liggja um ytri Þursaskálarrönd og þaðan beina sjónhending niður í Litla-Gildrunes á fjarðarströndinni.[9]

Á móti jörðinni Kirkjubóli eiga Hólar land að Fremrirana í grennd við ármót Kirkjubólsár og Brekkudalsár, sem báðar mynda Sandaá, en þaðan er merkjalínan dregin gegnum munnann á Illagili í Þursaskálarhorn.[10]

Á síðari hluta átjándu aldar og fyrstu árum hinnar nítjándu áttu bændur í Hólum í landamerkjaþvargi við presta á Söndum. Sandaá skiptir löndum milli jarðanna en klerkarnir reyndu að ná engjaplássi utan við ána undir staðinn. Stykki þetta heitir Hólaey en frá Söndum var reynt að koma á það nafninu Fagurey.[11] Þann 23. júní árið 1806 var dæmt í þessu þrætumáli í landsyfirrétti og varð dómsniðurstaðan að Hólar skyldu framvegis halda því umþrætta engjaplássi.[12] Í forsendum dómsins segir m.a.:

 

Frá jörðinni Hólum við Dýrafjörð í Ísafjarðarsýslu hafa Sandaprestar um nokkurn tíma lagt ástundun á að fá með átölulausri hefð á beit í engjastykki frá Hólum, nefndu Hólaey, og svo sjálfa þessa eyju að öllu leyti undir nefnt prestakall hefðaða, – og í því tilliti viljað nýta sér bæði umlíðingarsama þögn bænda í Hólum í nokkur ár við þeim veittan yfirgang í beit frá Söndum, vegna frændsemis eða mægða sinna við prestana og eins einfeldni og linleika Hóla-ábúanda að verja sitt eignar- eða leiguland; líka í sama skyni nokkrir tekið það til bragðs að skíra þessa eyju upp aftur, í staðinn fyrir Hólaey nefna pláss þetta Fagurey, við hvert nafn engir aðrir en nokkrir prestanna, þó ei allir, kannast á seinni tímum. … Það er ei heldur vitnað að prestar nokkurn tíma hafi boðið sér eyjuna að yrkja en þvert á móti skýlaust svarið að Hóla-ábúendur hafi hana stöðugt yrkt og slegið. Og þó einhver þessara af heimsku, talhlýðni eða ótta við ágengni presta á Söndum hafi hlaupið á sig með því að þiggja eitthvert sinn samþykki þeirra til þess er ekkert með eyjuna áttu getur það ei hnekkt svörnum eignarrétti Hólamanna, þegar svo ljós skilríki um hann sem hér framkoma, en að Sanda-leyti einungis þau er votti ágengni presta þar og yfirgang á beit Hólum veittan … .[13]

 

Fyrstur skrifar undir dóminn Magnús Stephensen dómsstjóri. Hann var aldrei mikill prestavinur en batt vonir sínar við mannlega skynsemi.

Fyrsti eigandi Hóla, sem um er kunnugt, var Guðmundur ríki Arason á Reykhólum sem átti jörðina á fyrri hluta 15. aldar.[14] Meðal annarra eigenda Hóla á 15. og 16. öld má nefna Björn Þorleifsson, hirðstjóra á Skarði, Ögmund Pálsson biskup og Sigfús Brúnmannsson, lögréttumann í Hrauni í Keldudal.[15]

Um 1650 átti Eggert ríki Björnsson, sýslumaður á Skarði á Skarðsströnd, 10 hundruð í Hólum eða fimm sjöttu hluta allrar jarðarinnar. Þessi tíu jarðarhundruð seldi hann árið 1651 bróður sínum, séra Páli Björnssyni í Selárdal í Arnarfirði.[16] Þeir bræður voru af ætt hinna ríku Skarðverja því langafi þeirra var Eggert Hannesson lögmaður og langamma hans Þóra, dóttir Björns Þorleifssonar, hirðstjóra á Skarði, sem veginn var af Englendingum í Rifi árið 1467.[17] Þau tíu hundruð í Hólum sem séra Páll í Selárdal eignaðist árið 1651 ánafnaði hann Helgu, dóttur sinni, sem árið 1672 gekk að eiga séra Sigurð Jónsson í Holti í Önundarfirði og áttu þau hjónin þessi hundruð í marga áratugi.[18] Þann sjöttung úr jörðinni, sem Eggert ríki á Skarði hafði ekki náð að eignast, átti hins vegar séra Þorleifur Bjarnason á Söndum í Dýrafirði sem andaðist árið 1668.[19] Við andlát hans komu þessi tvö hundruð í Hólum í hlut Ólafar, dóttur hans, og við uppgjör á dánarbúi hennar veturinn 1702-1703 urðu systursynir hennar, þeir Torfi lögréttumaður Magnússon og Þorleifur bróðir hans, báðir á Auðkúlu í Arnarfirði, eigendur þeirra.[20]

Landskuld af Hólum um 1700 var 3 vættir fiska af þeim tíu hundruðum sem prófasturinn í Holti átti en hálf vætt, það er hálft ærgildi, af hinum tveimur hundruðunum.[21] Innstæðukúgildi sem jörðinni fylgdu voru þá fjögur,[22] það er 24 ær.

Árið 1730 andaðist séra Sigurður Jónsson í Holti og á því ári tók sonur hans, séra Sigurður Sigurðsson, við prestsembættinu þar.[23] Árið 1734 seldi hann hálfa Hóla fyrir hálfa jörðina Höfn hér í sama hreppi[24] en báðar þessar jarðir töldust vera 12 hundruð að dýrleika. Við þessi makaskipti áskildi séra Sigurður sér forkaupsrétt að hálflendunni í  Hólum fyrir 42 spesíudali.[25] Hvert jarðarhundrað í Hólum hefur því verið metið á 7 spesíudali sem er nokkuð hátt því almenn viðmiðun var 5 spesíudalir fyrir hundraðið.[26]

Árið 1765 var Sigurður Sigurðsson sýslumaður á Mosvöllum í Önundarfirði, sem kallaður var skuggi, orðinn eigandi að 6 hundruðum í Hólum en hann var tengdasonur séra Sigurðar Sigurðssonar í Holti sem hér var áður nefndur. Á því ári veðsetti hann þessi jarðarhundruð til tryggingar fullri greiðslu gjalds þess sem honum var ætlað að standa skil á til holdsveikraspítalans á Hallbjarnarneyri í Eyrarsveit á Snæfellsnesi.[27] Svo virðist sem Sigurði skugga hafi ekki reynst létt að standa skil á spítalahlutnum því á næsta Öxarárþingi var auglýst að þessi veðsettu 6 hundruð í  Hólum yrðu boðin upp á næsta ári vegna vangreiðslu á gjaldinu til holdsveikra.[28]

Ótvírætt virðist reyndar að Sigurður skuggi hafi átt Hólana alla því á sama ári og hann veðsetur holdsveikraspítalanum hálfa jörðina lætur hann Danakonungi í té veð í hinum helmingnum til tryggingar greiðslu á afgjaldi af Ísafjarðarsýslu og því sem honum bar að greiða í fjárhirslu konungs fyrir tekjur af konungsjörðum í þeirri sýslu og í Barðastrandarsýslu.[29]

Á árinu 1766 mun hinum skuldumvafna sýslumanni hafa tekist að losa um annað veðið því þá um haustið veðsetur hann enn 6 hundruð í Hólum með einu kúgildi og að því sinni Aystrup kaupmanni sem hann skuldaði 27 og ½ vætt[30] eða sem svaraði fjórum til fimm kúgildum. Í opinberri tilkynningu um þessa veðsetningu er jörðin að vísu kölluð Hóll í Dýrafirði en ekki Hólar[31] en gera verður ráð fyrir að þar sé um ritvillu að ræða.

Einn landseta Holtspresta í Hólum á fyrri hluta 18. aldar hét Jón og var nefndur Jón kollur ef marka má gamla sögu sem prentuð er í Þjóðsögum Þorsteins Erlingssonar. Sagan segir að Jón kollur í Hólum hafi verið sendur úr Dýrafirði suður í Skálholt með kæru á hendur séra Jóni Þórðarsyni, er prestur var á Söndum frá 1708 til 1735,[32] en bóndinn sem bjó í Hólum er séra Jón Þórðarson lét af prestskap hét reyndar Jón Jónsson[33] svo allt getur þetta passað. Séra Jón Þórðarson var knúinn til að segja af sér prestsembætti er hann féll ölmóður niður á kórgólfið í Sandakirkju við messugerð (sjá hér Sandar). Árið 1719 hafði hann fyrst verið kærður fyrir embættisafglöp[34] og má vera að nafni hans og nágranni í Hólum hafi þá lagt land undir fót og hlaupið með kæruna úr Dýrafirði suður í Skálholt til fundar við sjálfan Jón Vídalín er þá sat á biskupsstóli. Sumir Dýrfirðingar munu hafa talið sinn drykkfellda prest á Söndum vera fjölkunnugan og ber sagan í safni Þorsteins Erlingssonar þess glögg merki en þar segir meðal annars svo:

 

Af því fáum þótti ferðin [þ.e. til Skálholts] hættulaus kom svo að lokum að Jón kollur gaf kost á sér og komst alla leið með heilu og höldnu en þó hafði hann sagt að hann hefði aldrei komist í hann jafnkrappan en verst hefði sér þótt þegar móðir sín hefði komið á móti sér þá er hann átti stutt eftir í Skálholt og ekki mundi hann þá hafa komist af ef kona sín hefði ekki stöðugt haft gætur á presti og séð þegar hann vakti hana upp [móðurina] og hafi getað deyft kerlinguna áður en hún lagði af stað. Hún hafði sagt að hún sæi allt hvernig honum liði úr glugganum sínum og framundir þennan tíma hafði það verið haft fyrir máltæki í Dýrafirði þegar einhver þótti sjá vel: „Þú sérð gegnum holt og hæðir eins og Hólakerlingin.” [35]

 

Lending var talin góð við Hólasjó og reru bændur þar jafnan úr heimavör nema um vertíðina en þá var farið í útver.[36] Langræði hefur þó verið í meira lagi nema þegar fiskur gekk í fjörðinn.

Á 19. öld voru hákarlaveiðar stundaðar af kappi frá Hólum. Guðbrandur Guðmundsson bóndi þar var einn þeirra sex manna í Þingeyrarhreppi sem áttu hver um sig heilan sexæring eða áttæring árið 1835.[37] Árið 1843 var Guðmundur sonur hans talinn eigandi bátsins en hann var þá ekki enn tekinn við búinu.[38] Guðmundur Guðbrandsson í Hólum og Jóhannes bróðir hans á Kirkjubóli voru lengi formenn á Hólaskipinu í hákarlalegum[39] en þegar skipið fórst í janúarmánuði árið 1881 voru þeir hættir formennsku.

Í ritgerð sinni um hákarlaútgerð í Dýrafirði segir Nathanael Mósesson að um þær mundir hafi Kristján Andrésson í Meðaldal verið með skipið en vegna fjarveru við seglasaum norður á Ísafirði hafi hann fengið Steindór Egilsson á Brekku í sinn stað.[40]

Steindór kallaði mennina til róðurs, – en þá er hann sjálfur var kominn spölkorn út fyrir Granda á leið til skips veiktist hann svo hastarlega að hann komst með naumindum heim að Granda.[41] Steindór sendi þá þegar Gísla Gíslason, vinnumann á Brekku, í sinn stað og gerði Stefáni í Hólum, syni Guðmundar Guðbrandssonar, boð að fara fyrir sig með bátinn.[42] Hlýddi Stefán því kalli en vonskuveður var og sneru þeir samdægurs til lands. Á uppsiglingunni hvolfdi bátnum og fórust þrír af áhöfninni en hinum tókst að bjarga. Sighvatur Grímsson Borgfirðingur bjó þá á Höfða í Dýrafirði og ritar í dagbók sína 10. janúar 1881:

 

Hólaskipið var í hákarlalegu. Þegar þeir voru nýfarnir að sigla til lands hvelfdi skipinu. Þar týndust þrír menn. Formaðurinn Stefán Guðmundsson, ungur bóndi í Hólum, valmenni, átti konu og eitt barn, Gísli Gíslason á Brekku og Þorvaldur Jónsson á Bakka í Brekkudal, báðir ógiftir. Andrés Pétursson, skipherra í Haukadal, var á eftir á skipi sínu og bjargaði af kjöl hinum sjö.[43]

 

Stefán Guðmundsson var 35 ára er hann drukknaði en Andrés Pétursson, sem hér hefur áður verið nefndur (sjá hér Haukadalur) og bjargaði mönnunum, var kominn nær fimmtugu, víðfrægur hákarlaformaður og skútuskipstjóri. Í Dýrafirði og víðar var þetta björgunarafrek Andrésar lengi í minnum haft. Sighvatur segir að mennirnir sem hann bjargaði af kili áttæringsins í vonskuveðri úti á rúmsjó hafi verið sjö en Nathanael Mósesson segir þá hafa verið sex og nefnir alla með nafni.[44] Að sögn hans voru mennirnir þessir: Ólafur Bjarnason, Meðaldal, Hákon Jónsson, Haukadal, Andrés Guðmundsson, Hólum, Jón Gíslason, Brekku, Halldór Andrésson, Meðaldal, og Þorvaldur Jónsson frá Bakka – síðar á Kroppstöðum í Önundarfirði. Að Þorvaldur Jónsson frá Bakka hafi bjargast og orðið bóndi á Kroppstöðum í Önundarfirði er þó ekki rétt því samtímaheimildir votta að hann var einn þeirra þriggja sem fórust, – þá 27 ára gamall og hét fullu nafni Þorvaldur Jón Jónsson.[45]

Er þriðjungur aldar var liðinn frá drukknun Stefáns Guðmundssonar í Hólum tók annar maður með sama nafni við búsforráðum hér. Sá Stefán Guðmundsson var fæddur sama árið og hinn fórst, bóndasonur frá Kirkjubóli en milli þessara tveggja bæja er aðeins tveir og hálfur kílómetri. Hann varð á unglingsaldri verslunarmaður hjá Gramsverslun á Þingeyri en lauk árið 1903 prófi frá Sjómannaskólanum í Reykjavík[46] og gerðist þá skipstjóri á þilskipi frá Þingeyri.[47] Nokkru síðar keypti hann skonnortuna Fortunu, sem smíðuð hafði verið í Danmörku árið 1884 (sjá hér Meðaldalur), og var skipstjóri á henni um nokkurt skeið.[48] Um 1914 gekk Stefán í félag við Nathanael Mósesson á Þingeyri og Ólaf Guðbjart Jónsson í Haukadal og gerði félag þeirra út tvær til fjórar skútur frá Þingeyri næstu fimmtán ár.[49] Árið 1915 fór Stefán að búa í Hólum (sjá hér Firðir og fólk 1900-1999, 177) og mun þá hafa hætt sjómennsku.[50]

Enn er búið í Hólum. Er við stöndum þar á hlaðinu blasir við handan ár túnið á Söndum þar sem áður var prestssetur og kirkjustaður um aldir. Þar munum við brátt staldra við þó allt sé nú í eyði en fyrst leggjum við lykkju á leið okkar og lítum á bæina í Kirkjubólsdal en bæði hann og  Brekkudalur opnast í næsta nágrenni við Sanda.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 41-42.

[2] Örnefnaskrá.

[3] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 57.

[4] Jarðab. Á. og P. VII, 42.

[5] Sama heimild.

[6] Sama heimild.

[7] Örn.skrá.

[8] Sama heimild.

[9] Sama heimild.

[10] Sama heimild.

[11] Landsyfirréttar- og hæstaréttardómar 1802-1873, I, 205-207.

[12] Sama heimild.

[13] Sama heimild.

[14] D.I. IV, 688.

[15] D.I. V, 501-502 og X, 347.

[16] Jarðab. Á. og P. XIII, 282.

[17] Íslenskar æviskrár.

[18] Jarðab. Á. og P. VII, 41.

[19] Sama XIII, 265.  Ísl. æviskrár V, 173.

[20] Jarðab. Á. og P. XIII, 265.  Sbr. sama VII, 41.

[21] Sama VII, 41.

[22] Sama heimild.

[23] Ísl. æviskrár IV, 234-235 og 256.

[24] Alþingisbækur Íslands XII, 305.

[25] Sama heimild.

[26] Sigfús H. Andrésson 1988, I, 144-145.  Jón J. Aðils 1971, 418-421.

[27] Alþ.b. Íslands XIV, 580.

[28] Sama heimild XV, 16.

[29] Alþ.b. Íslands XV, 21.  Sbr. Acta Yfirréttarins á Íslandi 1768-1772, 43-47.

[30] Alþ.b. Íslands XV, 63.

[31] Sama heimild.

[32] Þorsteinn Erlingsson 1954, 216-217.

[33] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, Ísafj.sýsla um 1735, eftirrit.

[34] Ísl. æviskrár III, 307.

[35] Þorsteinn Erlingsson 1954, 216-217.

[36] Jarðab. Á. og P. VII, 42.

[37] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís., Þingeyrarhr. 2. Hreppsbók 1835-1851.

[38] Sama heimild.  Manntal 1845.

[39] Skútuöldin V, 118.

[40] Nathanael Mósesson Hákarlaskip í Dýrafirði 1865-1892, óprentað handrit, ljósrit í eigu K.Ó.

[41] Sama heimild.

[42] Sama heimild.

[43] Lbs. 23744to , Dagbók S. Gr. B. 10.1. 1881.

 

 

[44] Nathanael Mósesson Hákarlaskip í Dýrafirði 1865-1892, óprentað handrit, ljósrit í eigu K.Ó.

[45] Prestsþj.bækur og sóknarm.töl Sandaprestaskalls. Lbs 23744to , Dagbók S.Gr.B. 10.1. 1881.

[46] Skipstjóra- og stýrimannatal IV.

[47] Skútuöldin I, 238-239 og V, 116.

[48] Sömu heimildir.

[49] Sömu heimildir.

[50] Skútuöldin V, 116.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »