Kirkjuból í Bjarnardal

Kirkjuból í Bjarnardal

Hádegisá, sem fellur í Bjarnardalsá beint á móti Holtsseli, skilur að selland staðarins í Holti og landareign Kirkjubóls sem er fremsti bær í Bjarnardal.[1] Landamerkjaá þessi kemur úr fjalllendinu austan við Bjarnardal og fellur um Efri- og Neðri-Hádegishvilft sem báðar eru hér hátt uppi í fjalli.[2] Vegalengdin frá Hádegisá heim að Kirkjubóli er um það bil tveir kílómetrar og er það greið gönguleið.

Fjallshlíðin, sem við fylgjum á leið okkar heim dalinn, er vel gróin og prýdd mörgum smálækjum hið neðra. Eftir fimmtán mínútna göngu frá Hádegisá komum við að stærri læk sem fellur í Bjarnardalsá, einum kílómetra framan við túnið á Kirkjubóli, og heitir Kálfabanaá.[3] Þessi litla þverá kemur úr fjalldalnum Kálfabana sem gengur austur úr Bjarnardal hér beint fyrir ofan. Afdal þennan mætti reyndar eins kalla skál en hlíðin neðan við skálarbrúnina er nokkuð brött og líklega um 300 metra há. Neðrafjallið framan við Kálfabana heitir Tagl[4] en hvilftirnar framan við þennan sama fjalldal, milli hans og Stóragils í Mjóadal, heita einu nafni Kirkjubólshvilftir.[5]

Uppi í Kálfabana er gott mótak og þar mun síðast hafa verið stunginn mór árið 1942 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 361). Þar uppi er líka ágæt sumarbeit og þangað voru fráfærulömb frá Holti rekin í fyrri daga.[6] Heimantil við Kálfabana og í álíka hæð og skálarbrúnin er Litlihjalli en þar fyrir ofan er Stórihjalli[7] og ber við himin sé horft til fjalls heiman frá Kirkjubóli.[8]

Við Kálfabanaá tefjum við skamma stund og höldum förinni áfram um gömul engjalönd fólksins á Kirkjubóli. Í landi Kirkjubóls framan við Kálfabanaá var hins vegar aldrei heyjað.[9]

Í engjum Kirkjubóls í Bjarnardal segir Árni Magnússon hafa verið býli á fyrri öldum.[10] Um þetta býli veit nú enginn neitt og rústir þess ekki sjáanlegar,[11] enda tekur Árni fram að þar hafi ekki verið búið í tíð þeirra manna sem uppi voru í byrjun 18. aldar eða þeirra foreldra.[12] Einhverjar tóttir frá þessu koti voru þó enn sýnilegar þegar Árni ræddi við Önfirðinga sumarið 1710.[13]

Rétt fyrir framan túnið á Kirkjubóli eru Hlaðhólar.[14] Þar er hringlaga tótt sem nefnd er Hlað, rétt við girðingarhornið,[15] og mun vera gamalt sauðabyrgi. Heimantil við Hlaðhóla er Hlaðhólalækur en enn nær túngirðingunni og rétt hjá Hlaðinu streymir fram annar lækur sem ýmist hefur verið nefndur Svartabakkalækur eða Nafnleysa.[16] Hóllinn Stóristagggarður er í túnjaðrinum heiman við Hlaðhóla og partur úr honum hefur verið brotinn til ræktunar.[17] Ofan við Stórastagggarð nær túnið fram fyrir hann.[18] Úr hlíðinni ofan við Stórastagggarð kemur lækurinn Organdi og fellur nú í skurð sem tekur við honum.[19] Úr skurðinum fer Organdi svo til móts við Hlaðhólalækinn, sem er framar, og sameinast honum.[20]

Í Kirkjubólstúninu skulum við nú svipast um litla stund áður en gengið verður til bæjar. Ofan við túnið er Bæjargil og nær að sjá upp á fjallsbrún.[21] Hlíðin framan við gilið heitir Hjallar en norðan við það fær hlíðin annað nafn og kallast Bringur.[22] Stekkjarhryggur er rétt framan við Bæjargil og nær niður í tún en gilið framan við hann heitir Stekkjargil.[23] Hjallinn sem við sjáum ofan við Stekkjarhrygg heitir Kúahjalli en er einnig nefndur Kýrholt.[24] Þangað munu kýr hafa verið reknar eftir mjaltir á kvöldin.[25]

Á leið okkar frá Holti um Bjarnardal hefur jafnan gefist kostur á að virða fyrir sér fjallið Kaldbak sem hér var áður nefnt. Frá Kirkjubóli skoðað er það nær beint á móti, hinum megin í dalnum, en þó lítið eitt sunnar. Neðan við Ganginn í Kaldbak og nálægt suðausturhorni fjallsins er brattur kambur sem ber nafnið Miðmundastandur og sýnir hann miðmunda frá Kirkjubóli.[26]

Allt land Kirkjubóls liggur austan við Bjarnardalsá og vegalengdin frá norðri til suðurs milli landamerkja jarðarinnar er um það bil 3 kílómetrar og er um það bil þriðjungur þess fyrir norðan bæinn. Til norðurs á Kirkjuból land á móti Mosvöllum og eru landamerkin á Merkisteig sem er um það bil einum kílómetra fyrir norðan Kirkjuból og því sem næst á móti bænum í Tröð.[27] Þann hluta landareignarinnar sem er norðan við túnið munum við skoða síðar (sjá her bls. 12) en nú erum við komin í hlað.

Kirkjuból í Bjarnardal stendur fjær sjó en aðrar bújarðir í Mosvallahreppi og er vegalengdin til sjávar um það bil þrír kílómetrar. Þetta er forn bújörð sem var eign kirkjunnar í Holti frá því á 14. öld og fram yfir aldamótin 1900 (sjá hér Holt).  Að fornu mati var Kirkjuból talið 18 hundraða jörð.[28] Til samanburðar má nefna að hinar jarðirnar í Bjarnardal voru metnar svo: Mosvellir 24 hundruð, Tröð 18 hundruð og Vaðlar 12 hundruð.[29] Af Kirkjubólunum fjórum í Önundarfirði var eitt lægra metið, Selakirkjuból á Hvilftarströnd sem að fornu mati var virt á 12 hundruð.[30] Hinar jarðirnar tvær, Kirkjuból í Valþjófsdal og Kirkjuból í Korpudal, voru mun stærri. Kirkjuból í Valþjófsdal 48 hundruð með hjáleigum og Kirkjuból í Korpudal 30 hundruð ef Kirkjubólshús voru talin með.[31]

Af Kirkjubólunum fjórum í Önundarfirði átti Holtskirkja aðeins Kirkjuból í Bjarnardal en hin þrjú hafa aldrei verið kirkjueign svo kunnugt sé. Bænhús var aftur á móti á öllum þessum jörðum í kaþólskum sið[32] og má telja líklegt að nafnið Kirkjuból hafi jarðirnar fengið vegna bænhúsanna. Um það er þó ekkert vitað með vissu og reyndar skylt að hafa í huga að bænhús voru á fjölmörgum jörðum um land allt án þess að helgihald sem þeim fylgdi segði til sín í nöfnum jarðanna. Um bænhúsið á Kirkjubóli í Bjarnardal segir í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 að það hafi hér verið og enn sjáist merki fyrir kirkjugarðinum.[33]

Þau ummerki sjást nú ekki lengur en hóllinn sem íbúðarhúið á Kirkjubóli stendur á heitir Bænhúshóll svo ætla má að þar hafi bænhúsið staðið.[34] Gamla bæjarstæðið var lítið eitt framar og aðeins nær ánni. Þar eru nú þvottasnúrur og hestasteinn með gati.[35]

Allt frá upphafi byggðar í landinu hefur þjóðbraut legið um Gemlufallsheiði, milli Dýrafjarðar og Önundarfjarðar. Norðan heiðarinnar er Kirkjuból í Bjarnardal fyrsti bærinn sem komið er að og oft munu ferðamenn hafa beiðst hér gistingar á fyrri tíð. Gemlufallsheiði er lágur fjallvegur, hæðin aðeins tæpir 300 metrar, og leiðin greiðfær milli fjarða. Vegalengdin milli bæja frá Kirkjubóli að Gemlufalli í Dýrafirði er aðeins 9 kílómetrar eða því sem næst. Röskir göngumenn fóru milli þessara bæja á hálfum öðrum tíma ef færi var gott og Jón Guðmundsson frá Grafargili segist reyndar hafa farið frá Tröð að Gemlufalli vorið 1889 á 1 klukkutíma og 25 mínútum.[36] Nafni hans, búfræðingurinn sem seinna bjó á Ytri-Veðrará, komst hins vegar ríðandi á einum klukkutíma frá Flateyri að Gemlufalli ári fyrr[37] og hefur þá varla verið nema hálftíma frá Kirkjubóli og vestur yfir heiði á hestinum.

Þó að Gemlufallsheiði væri oftast auðveld yfirferðar kom engu að síður fyrir að fólk yrði úti á þessum fjallvegi. Úr hópi þeirra sem luku ævinni með þeim hætti má nefna Guðlaug Þórðarson sem var bóndi hér á Kirkjubóli árið 1801.[38] Tíu árum síðar var hann kominn að Mosvöllum og 25. mars árið 1812 varð hann úti á ferð yfir Gemlufallsheiði, þá á sjötugsaldri.[39] Frá Margréti Ólafsdóttur, sem drukknaði í Heiðará sumarið 1793 þegar hún var að flytja búferlum yfir Gemlufallsheiði, hefur áður verið sagt í þessu riti (sjá hér Arnkelsbrekka og Holtssel).

Í varðveittum heimildum er Kirkjubóls í Bjarnardal fyrst getið í Vilkinsmáldaga frá árinu 1397 en þar eru jarðir Holtskirkju taldar upp og var Kirkjuból ein þeirra.[40] Í máldaganum er að vísu aðeins nefnt Kirkjuból en ekki tekið fram að átt sé við Kirkjuból í Bjarnardal. Fullvíst má þó telja að sú sé jörðin sem þarna er nefnd því fyrr á öldum héldu kirkjurnar yfirleitt öllum þeim jarðeignum sem þær náðu að eignast og Kirkjuból í Bjarnardal er eina Kirkjubólið sem um er kunnugt að Holtskirkja hafi nokkru sinni átt. Mjög líklegt má telja að kirkjan hafi eignast jörðina á árunum 1377-1397 því að í Oddgeirsmáldaga sem talin er vera frá árinu 1377 eða því sem næst er Kirkjuból ekki nefnt þegar gerð er grein fyrir jarðeignum Holtskirkju en tuttugu árum síðar var kirkjan orðin eigandi jarðarinnar.[41] Frá og með árinu 1397 er Kirkjuból jafnan nefnt þegar jarðeignir Holtskirkju eru taldar upp og Brynjólfur biskup Sveinsson tekur fram árið 1639 að það sé Kirkjuból í Bjarnardal sem kirkjan í Holti eigi.[42] Árið 1901 var jörð þessi enn í eigu kirkjunnar í Holti[43] og hafði þá verið það í a.m.k. 504 ár.

Um 1570 var hin árlega landskuld af Kirkjubóli 80 álnir[44] en var árið 1710 komin upp í 120 álnir[45], það er heilt kýrverð, og hafði því hækkað um 50%. Á fyrstu árum 18. aldar var leiguliðum Holtskirkju á Kirkjubóli gert að greiða einn þriðjung landskuldarinnar í kaupstað á Þingeyri, annan þriðjung með kindafóðri og sá þriðji átti að gjaldast í fríðu,[46] það er með lifandi búpeningi. Innstæðukúgildi, sem bændur á Kirkjubóli fengu í hendur með jörðinni, voru sex árið 1710[47] og árið 1847 voru bæði landskuldin og fjöldi leigukúgildanna óbreytt frá því sem þá hafði verið.[48]

Í Jarðabókinni frá 1710 sést að leiguliðarnir á Kirkjubóli í Bjarnardal þurftu ekki aðeins að standa kirkjunni skil á landskuldinni og lögleigu eftir kúgildin sem fylgdu jörðinni. Auk þessa var hverjum ábúanda gert að leggja til mann í skiprúm á vertíðinni og að skila á hverju sumri einu dagsverki við slátt á Holtsengjum.[49]

Á árunum kringum aldamótin 1900 voru fráfærulömbin frá Holti jafnan rekin upp í fjalldalinn Kálfabana sem er í landi Kirkjubóls (sjá hér bls. 1) og má telja líklegt að það hafi verið gömul siðvenja þó að ekki finnist þessara beitarréttinda getið í fornum skjölum. Á móti þessu kom að bændur á Kirkjubóli voru taldir eiga rétt á ótakmarkaðri beit fyrir sitt fé í landareign Holts á Bjarnardal og Mjóadal.[50] Jörðinni Tröð í Bjarnardal sem ætíð var í bændaeign fylgdu hins vegar engin slík beitarréttindi í landi Holts.

Um kosti og galla bújarðarinnar Kirkjubóls í Bjarnardal segir svo í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710:

 

Útigangur er hér góður. Skógur hefur hér verið en er nú eyddur af skriðum. Móskurð á jörðin nægilegan til eldiviðar. Engjunum hafa skriður spillt og spilla árlega, lækir bera þar og á aur og grjót. Torfrista er hér svo að segja engin.[51]

 

Um miðbik 19. aldar segir Holtsprestur heyskap vera góðan en lítinn á Kirkjubóli og tekur fram að jörðin sé notagóð til beitar.[52]

Um 1920 var talið að á Kirkjubóli mætti fá 110 hesta af töðu og 180 hesta af útheyi.[53] Túnið var þá talið grasgefið og þriðjungur þess sléttlendur.[54] Í skjölum fasteignamatsnefndar frá þeim tíma er jörðin sögð geta framfleytt 3 kúm, einum vetrungi, 70 fjár og 3 hrossum.[55] Jarðir Holtskirkju voru þá komnar í eigu Prestlaunasjóðs og enn fylgdu Kirkjubóli þrjú kúgildi, það er 18 leiguær.[56] Árleg leiga af kúgildunum var þá enn 60 pund af smjöri eins og verið hafði samkvæmt Jónsbókarlögum en landskuldin hálf þriðja ær.[57]

 

Fyrstu bændur á Kirkjubóli í Bjarnardal sem vitað er um nafn á eru þeir Jón Hallsson og Sigurður Pálsson sem báðir bjuggu hér árið 1681.[58] Á 18. öld var yfirleitt tvíbýli á jörðinni[59] en árið 1753 voru bændurnir samt þrír.[60]

Á fyrstu árum 19. aldar var enn tvíbýli á Kirkjubóli og reyndar þríbýli árið 1811[61] en frá því um 1815 og fram undir aldarlokin bjó yfirleitt aðeins einn bóndi í senn á allri jörðinni.[62] Annar bændanna tveggja sem bjuggu hér vorið 1801 var ekkjan Sesselja Brynjólfsdóttir[63] en eiginmaður hennar Jón Guðmundsson, bóndi á Kirkjubóli, sem bjó hér með Sesselju konu sinni árið 1793, hafði andast 30. mars 1801.[64] Ári síðar lætur sóknarpresturinn þess getið að Sesselja sé djarfmannleg og vel skýr í  andlegu.[65] Árið 1801 var Sesselja 45 ára gömul og studdist í búskapnum við elsta son sinn, Jón Jónsson, sem orðinn var 21 árs.[66] Þessi sonur Sesselju á Kirkjubóli kvæntist nokkrum árum síðar ungri ekkju sem Kristín hét og var Jónsdóttir og árið 1811 höfðu þau tekið við búi af móður hans.[67] Fimm árum síðar voru þau orðin einu ábúendurnir á allri jörðinni.[68] Hjón þessi bjuggu mun lengur á Kirkjubóli en aðrir bændur þar á 19. öld eða í 30 ár og eftir 1816 höfðu þau alltaf eða nær alltaf alla jörðina til ábúðar.[69] Hér verður þess þó að geta að í eitt ár, fardagaárið 1817-1818, virðast nýnefnd hjón hafa búið á Sæbólshúsum á Ingjaldssandi en ekki á Kirkjubóli.[70]

Árið 1840 var Jón bóndi á Kirkjubóli kominn um sextugt en stóð þó enn fyrir búinu.[71] Í manntali frá því ári er hann sagður vera stefnuvottur[72] en ef til vill hefur líkamsþrekið verið farið að bila því í þessu sama manntali er sonur þeirra Kristínar, Jón Jónsson yngri á Kirkjubóli, nefndur fyrirvinna.[73] Jón yngri var þá 27 ára gamall og nýlega kvæntur Margréti Kjartansdóttur frá Tröð.[74]

Hér hefur áður verið getið hins hörmulega mannskaða er varð 29. mars árið 1843 þegar áttæringur Kjartans Ólafssonar í Tröð fórst í hákarlalegu með allri áhöfn (sjá hér Tröð). Einn þeirra sem þar fórust var Jón yngri Jónsson á Kirkjubóli, tengdasonur Kjartans í Tröð, og sýnist alllíklegt að hann hafi verið formaður á skipinu. Þegar Jón yngri drukknaði hafði hann nýlega tekið við búsforráðum á Kirkjubóli af föður sínum.

Ekkjan Margrét Kjartansdóttir stóð af sér missi eiginmannsins og giftist á ný haustið 1845.[75] Seinni maður hennar var Jón Arnfinnsson sem á því ári gerðist bóndi á Kirkjubóli.[76] Hjá þeim hjónum voru 2. nóvember 1845 tvær dætur húsfreyju af hennar fyrra hjónabandi, einn sonur nýja eiginmannsins sem fylgdi föður sínum að Kirkjubóli og drengur sem Margrét og Jón Arnfinnsson eignuðust sjö vikum áður en þau gengu í hjónaband.[77]

Þegar Jón Arnfinnsson settist í búið á Kirkjubóli þótti við hæfi að láta taka út bæjarhúsin. Sú úttekt fór þó ekki fram fyrr en 4. júlí 1846 en þá tók Jón Arnfinnsson með formlegum hætti við búsforráðum úr  hendi gamla Jóns Jónssonar,[78] tengdaföður konu sinnar frá hennar fyrra hjónabandi.

Baðstofan á Kirkjubóli var þá 9 x 3,5 álnir[79] eða 12,4 fermetrar og því nokkru minni en hún var 38 árum síðar (sjá hér bls. 10). Hæð baðstofunnar sem Jón Arnfinnsson tók við var aðeins rétt liðlega 3 metrar[80] svo þar hefur fólkið varla hafst við uppi á baðstofulofti að jafnaði. Árið 1846 var búrið á Kirkjubóli um það bil sex og hálfur fermetri en í úttektargerðinni er ekki getið um eldhús.[81] Bæjargöngin voru nær fjórir metrar á lengd og lofthæð í þeim sú sama og í baðstofunni.[82] Þau voru í besta standi, bæði að viðum og veggjum.[83] Fjárhús fyrir 18 leiguær fylgdu jörðinni.[84]

Ofanálagið sem fráfarandi bóndi átti að greiða þeim sem við tók fyrir allt sem gengið hafði úr sér frá síðustu úttekt gaf Jón Arnfinnsson eftir.[85] Samkomulag hans við gamla Jón Jónsson um þetta var fært til bókar og segir þar m.a. svo:

 

Takandi [þ.e. sá sem tekur við jörðinni – innsk. K.Ó.] gefur ofanálagið eftir með þeim hætti að Jón Jónsson ljái honum þau hús sem hann á reikningslaust að öðru en því að hann geri við torfverk ásamt sér þá við þarf. Húsin eru: Tvö fjárhús, eldhús, fjós og hjallur og lofa þeir að styðja og styrkja hvör annan til þeirra aðgjörða.[86]

 

Bókunin bendir til þess að á þessum bæ hafi samkomulagið manna á milli verið eins og best verður á kosið. Þó að Jón gamli Jónsson sleppti stjórntaumunum í hendur Jóns Arnfinnssonar dvaldist hann áfram, ásamt konu sinni, í húsmennsku á Kirkjubóli í skjóli tengdadóttur sinnar og hennar nýja eiginmanns en allra síðast var hann þó í Tröð, hjá föður Margrétar, og þar dó hann haustið 1850.[87] Samanlagður búskapartími hjónanna Jóns Jónssonar og Kristínar Jónsdóttur og Margrétar, tengdadóttur þeirra, á Kirkjubóli spannaði yfir meir en helming af 19. öldinni en Margrét og Jón Arnfinnsson fluttust frá Kirkjubóli að Innri-Lambadal í Dýrafirði árið 1868.[88]

Jón Arnfinnsson var fæddur árið 1813 í Gufudalssveit við Breiðafjörð.[89] Árið 1840 var hann fiskimaður á Skutulsfjarðareyri[90] en mun skömmu síðar hafa tekist á hendur skipstjórn á þilskipi því séra Sigurður Tómasson nefnir hann skipherra árið 1842 (sjá hér Holt). Þann 17. apríl á því ári lánaði séra Sigurður Jóni Arnfinnssyni bók og 9 dögum síðar ritar klerkur í dagbók sína: Kom inn dekkbátur, lagðist við Hjarðardalssjóinn = Jón Arnfinnsson.[91] Séra Sigurður nefnir ekki hvaða dekkbátur þetta var eða hvaðan hann var gerður út en þremur árum síðar lætur hann þess getið að Jón Arnfinnsson hafi farið norður til jakta þann 27. mars.[92] Um það leyti var Jón að hefja búskap á Kirkjubóli en ætla má að hann hafi þá verið á þilskipi frá Ísafirði fyrst prestur segir hann hafa farið norður til jakta. Á þessum árum hefur Jón Arnfinnsson að líkindum verið ýmist skipstjóri eða stýrimaður á skútum því þegar hann flytur úr verslunarstaðnum við Skutulsfjörð að Kirkjubóli í Bjarnardal árið 1845 er hann sagður vera stýrimaður.[93]

Með eiginmönnum sínum, Jóni Jónssyni og Jóni Arnfinnssyni, eignaðist Margrét Kjartansdóttir á Kirkjubóli 14 börn, 5 með Jóni Jónssyni og 9 með Jóni Arnfinnssyni[94] en sex af börnum hennar dóu á ungum aldri.[95]

Þegar Jón Arnfinnsson og Margrét kona hans fóru frá Kirkjubóli vorið 1868 tók þar enn einn Jón Jónsson við búi.[96] Hann var fæddur 19. júní 1829 sonur Jóns Guðlaugssonar, bónda á Mosvöllum, og Margrétar Guðmundsdóttur konu hans.[97] Þegar Jón Jónsson frá Mosvöllum hóf búskap á Kirkjubóli var hann kominn um fertugt. Kona hans, sem fluttist með honum að Kirkjubóli, var Ingibjörg Pálsdóttir, fædd á Rauðasandi, og var hún fáum árum yngri en eiginmaðurinn.[98] Hinir nýju ábúendur á Kirkjubóli, hjónin Jón Jónsson og Ingibjörg Pálsdóttir, voru bæði skyld eða nátengd fólkinu sem hér bjó áður. Jón Jónsson frá Mosvöllum og Jón Jónsson, bóndi á Kirkjubóli, sem drukknaði árið 1843, voru þremenningar og áttu báðir Brynjólf Guðlaugsson, er bjó í Innri-Hjarðardal árið 1762, fyrir langafa.[99] Ingibjörg Pálsdóttir, sem tók við húsmóðurstörfum af Margréti Kjartansdóttur á Kirkjubóli, var hins vegar tengd henni á þann veg að móðir Ingibjargar, Bergljót Jónsdóttir, og faðir Margrétar, Kjartan Ólafsson í Tröð, höfðu verið hjón (sjá hér Tröð). Þegar Ingibjörg fluttist að Kirkjubóli var móðir hennar enn á lífi í Tröð en Kjartan, stjúpfaðir hennar, var þá látinn (sjá hér Tröð).

Á árunum kringum 1870 var enn mjög lítið um jarðræktarframkvæmdir í Önundarfirði ef frá er talið það sem Ebenezer Þorsteinsson, sýslumaður í Hjarðardal, hafði afrekað á því sviði meir en aldarfjórðungi fyrr (sjá hér Ytri-Hjarðardalur). Ef marka má búnaðarskýrslur voru það Jón Jónsson frá Mosvöllum, er þá bjó á Kirkjubóli í Bjarnardal, og Jón Gíslason í Ytri-Hjarðardal sem hófust handa um jarðræktartilraunir fyrstir sléttra bænda í Mosvallahreppi (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Árið 1869 lét Jón á Kirkjubóli grafa 30 faðma langan áveituskurð og slétta 15 ferfaðma blett í túninu og á næsta ári lengdi hann skurðinn og stækkaði sléttuna.[100] Þessi atorkusami bóndi var þá hreppstjóri í Mosvallahreppi[101] og sýnist flest benda til að af honum hafi mátt vænta dugmikillar forystu í framfarasókn komandi ára. Hér fór þó á annan veg því vorið 1871 drukknaði hann ásamt tveimur mönnum öðrum í fiskiróðri.[102] Hann reri þá úr Súgandafirði eins og sjá má í annál Hjálmars Jónssonar, kaupmanns á Flateyri, frá árinu 1871.[103] Með Jóni á Kirkjubóli, sem var 42ja ára, voru í skiprúmi þeir Kristján Jónsson, bóndi á Tannanesi, 32ja ára, og Steindór Ólafsson, vinnumaður á Flateyri, 20 ára, sem einnig fórust í sama róðri, þann 25. maí 1871.[104] Þegar Jón Jónsson hreppstjóri drukknaði voru 28 ár liðin frá því Jón Jónsson, nafni hans og frændi sem áður bjó hér á Kirkjubóli, fórst í hákarlalegu (sjá hér bls. 6).

Árin sem Jón Jónsson, hreppstjóri frá Mosvöllum, bjó á Kirkjubóli voru fá en ekkja hans, Ingibjörg Pálsdóttir, sat áfram á jörðinni að manni sínum látnum og stóð hér fyrir búi í fimm ár, frá 1871-1876.[105] Þá fór hún til Ísafjarðar og giftist þar á ný skömmu síðar.[106] Árið 1887 fluttist hún búferlum til Ameríku[107] og þar urðu synir hennar og Jóns hreppstjóra Jónssonar á Kirkjubóli gamlir menn, Páll sem dó í Kaliforníu um 1925[108] og Hinrik sem dó nær níræður í Lundarbyggð í Manitoba sumarið 1946.[109]

Ekkjan Ingibjörg Pálsdóttir, sem hér hefur komið við sögu, var síðasti leiguliðinn á Kirkjubóli sem átti við séra Stefán P. Stephensen í Holti að skipta. Þegar hún fór héðan árið 1876 lagði hann jörðina undir Holt. Næstu 8 ár var Kirkjuból nytjað frá Holti og stóð þann tíma í eyði.[110] Mörgum öldum fyrr hafði kirkjujörðin Arnkelsbrekka, framar í Bjarnardal, verið lögð undir Holt með svipuðum hætti en sá var munur á að Arnkelsbrekka hvarf þá endanlega úr tölu bújarða en á Kirkjubóli hófst búskapur á ný þegar séra Stefán fór frá Holti vorið 1884. Þann 25. mars þá um veturinn voru gömlu bæjarhúsin á Kirkjubóli tekin út. Svo mátti heita að baðstofan væri þá fallin að viðum og veggjum[111] en hún hafði verið 9 álnir á lengd og 4 ½ alin á breidd[112] eða tæplega 16 fermetrar. Hæð þessarar gömlu baðstofu var um það bil 4 metrar og í henni voru sex álnir undir súð en þrjár ekki.[113] Búrið á Kirkjubóli segja úttektarmennirnir að hafi verið rétt um 11 fermetrar og hæðin liðlega 3 metrar.[114] Um eldhús er ekki getið í úttektinni frá 1884 en tekið fram að lengd bæjarganganna sé liðlega 5 metrar.[115] Í göngunum voru 2,5 metrar frá gólfi til lofts en á breiddina voru þau því sem næst 1,25 metrar.[116]

Á þeim átta árum sem ekki hafði verið búið á jörðinni höfðu bæjarhúsin farið illa og töldu úttektarmennirnir sanngjarnt að séra Stefán greiddi sem svaraði 75,- krónum í álag til að bæta upp þann skaða.[117] Þessa fjármuni greiddi prestur með því að láta setja nýtt loft og fjögur rúmstæði í baðstofuna, þiljur niðri, stiga, einn glugga og hurð með skrá.[118] Frá presti fékk nýr ábúandi á Kirkjubóli líka í hendur fjárhús og nautahlöðu, sem bæði voru nýlega byggð, og taldist álagið þar með að fullu greitt.[119]

Það voru hjónin Guðmundur Jón Pálsson og Ingileif Steinunn Ólafsdóttir sem hófu búskap á Kirkjubóli í Bjarnardal vorið 1884[120] en þá hafði jörðin verið í eyði frá 1876. Hjón þessi voru þá á fimmtugsaldri, bæði fædd og uppalin í Önundarfirði, og höfðu búið um skeið á Vöðlum áður en þau fluttust hingað.[121]

Guðmundur Pálsson var frá Hóli í Firði en Ingileif frá Neðrihúsum í Hestþorpinu.[122] Guðmundur var meðhjálpari í Holtskirkju[123] og haustið 1883 var hann frammistöðumaður í brúðkaupsveislu sem haldin var í Efrihúsum en Brynjólfur Davíðsson, ráðsmaður þar, gekk þá að eiga Kristínu Ólafsdóttur frá Neðrihúsum sem var mágkona Guðmundar.[124]

Magnús Hjaltason, sem þá var 7 ára tökupiltur í Efrihúsum og kynntist Guðmundi betur síðar, segir að hann hafi verið með lægri mönnum á vöxt, búhöldur góður og allvitur en Ingileif, kona Guðmundar, fær þá einkunn hjá Magnúsi að hún hafi verið gerðarkona mikil en allskaphörð.[125]

Þórður Sigurðsson, sem síðar bjó í Breiðadal, kynntist Guðmundi og Ingileif konu hans á þeirra fyrstu árum hér á Kirkjubóli og hefur lýst þeim með þessum orðum:

 

Guðmundur Pálsson var góður bóndi og bjó snotru búi. Bæði voru þau hjón samvalin að myndarskap og híbýlaprýði. Guðmundur var prýðilega greindur maður og skýr. Hann var lengi í hreppsnefnd, úttektarmaður jarða og heyásetningsmaður eftir að þau lög voru sett.[126]

 

Þau Guðmundur Pálsson og Ingileif Ólafsdóttir undu hag sínum vel á Kirkjubóli og stóðu hér fyrir búi í 20 ár, allt þar til Kristján sonur þeirra og kona hans tóku við árið 1904.[127] Á árunum kringum síðustu aldamót var reyndar tvíbýli á jörðinni stuttan tíma en þá bjuggu hér líka hjónin Hagalín Þorkelsson og Solveig Pálsdóttir. Hagalín hóf búskap á Kirkjubóli árið 1897 og í sóknarmannatölum frá árunum 1898 og 1899 er hann talinn eini bóndinn á jörðinni en Guðmundur Pálsson sagður vera húsmaður.[128] Frá og með árinu 1900 voru þeir hins vegar báðir flokkaðir sem bændur og sagðir búa í tvíbýli.

Nú (1994) eru 110 ár liðin frá því Guðmundur og Ingileif settust að á Kirkjubóli en þráðurinn sem rekja má til þeirrar stundar hefur aldrei slitnað. Sonarbörn þeirra búa hér enn og hafa lengi gert garðinn frægan.

Á árunum 1904-1920 var Kristján Guðmundsson, sonur Guðmundar Pálssonar og Ingileifar Ólafsdóttur, bóndi hér og bjó einn á allri jörðinni (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 361). Kristján andaðist haustið 1920[129] og hafði átt við heilsubrest að stríða síðustu árin sem hann lifði. Kona hans var Bessabe Halldórsdóttir og tók hún við stjórn búsins að manni sínum látnum.

Árið 1920 var jörðin Kirkjuból í Bjarnardal virt á 2.100,- krónur og húsin sem  henni fylgdu á 2.000,- krónur.[130] Hús sem þá stóðu á jörðinni voru þessi: Baðstofa 9 x 5 álnir (um 18 fermetrar), tvær skemmur, hjallur, búr, eldhús, fjós, tvö fjárhús, fjórar hlöður, hesthús og eldiviðarhús.[131] Af verðmæti húsanna taldist ábúandi eiga um það bil þrjár krónur af hverjum fjórum.[132] Um þetta leyti var kominn hér 400 ferfaðma matjurtagarður og var meðaluppskera úr honum talin fylla fjórar tunnur.[133] Umhverfis túnið var búið að reisa torfgarð og tekið fram í skjölum að það sé algirt.[134]

Þann 1. desember árið 1920 áttu tíu manneskjur heima hér á Kirkjubóli.[135] Bóndi og húsfreyja var ekkjan Bessabe Halldórsdóttir sem þá var að verða 43ja ára gömul. Börn hennar fjögur voru öll heima, Ólafur Þórður 17 ára, Guðmundur Ingi 13 ára, Jóhanna Guðríður 12 ára og Halldór 10 ára. Enginn karlmaður yfir tvítugt var ekkjunni til aðstoðar en hjá henni voru þrjár vinnukonur, ein 68 ára, önnur 23ja ára og sú þriðja 18 ára.[136] Á Kirkjubóli var líka á þessum tíma 8 ára drengur, Jens Pálsson að nafni, sagður ættingi og líka amma barnanna, Ingileif Ólafsdóttir, 79 ára, og tekið fram í manntalinu að hún fáist við handavinnu.[137]

Frá því þetta manntal var tekið eru nú (1994) liðin 74 ár. Ingileif dó 95 ára gömul árið 1937 en sonarbörn hennar, þau Guðmundur Ingi og Jóhanna, eru hér enn. Hjá þeim höfum við dvalið lengi dags og nú er mál að halda ferðinni áfram að Mosvöllum.

Vegalengdin frá Kirkjubóli að Mosvöllum er rétt liðlega tveir kílómetrar og liggur leiðin í norðurátt en þó aðeins austan við norður því dalurinn breikkar þegar við nálgumst mynni hans og Mosvellir standa í austanverðu dalsmynninu. Á móts við bæinn í Tröð, sem er handan ár, er leiðin frá Kirkjubóli að Mosvöllum tæplega hálfnuð. Á þeim slóðum en þó aöeins framar eru þrjú holt sem heita Lambabyrgi.[138] Skýring á nafninu er sú að lambabyrgi var þarna á miðholtinu[139] og er tóttin enn greinileg. Landamerki Kirkjubóls og Mosvalla eru rétt fyrir norðan þessi holt.[140] Sjálft merkið er miðið við dý eitt og stein þar hjá.[141] Í kringum merkið er Merkisteigur og fyrr á tíð voru þarna mógrafir.[142] Á merkjunum eru nú leifar af girðingu en svo má heita að þau séu beint á móti Tröð.[143] Dagmálateigur er hér í hlíðinni um miðja kletta, neðan undir ytri enda Stórahjalla sem hér var áður nefndur (sjá hér bls. 1). Þar eru dagmál frá Tröð[144] en teigurinn neðan við Dagmálateig heitir Krummateigur.[145] Í örnefnalýsingu sinni talar Óskar Einarsson læknir reyndar um Dagmálateiga á þessum stað[146] en Guðmundur Ingi Kristjánsson á Kirkjubóli segir að þarna sé aðeins einn Dagmálateigur og hann sé rétt framan við landamerki Kirkjubóls og Mosvalla.[147]

Á leiðinni frá Kirkjubóli að Mosvöllum er gott að rifja upp lærdóm um notkun forsetninga með bæjarnöfnum í Bjarnardal og næsta nágrenni hans. Á Kirkjubóli sagði fólk niður að Mosvöllum og niður að Vöðlum en niður í Tröð og niður í Holt.[148] Hins vegar var jafnan sagt út að Þórustöðum og út á Flateyri.[149] Á Mosvöllum var sagt fram að Kirkjubóli, yfir að Vöðlum, niður í Holt og út að Þórustöðum.[150] Í Holti mun svo hafa verið talað um að fara upp að Mosvöllum.[151]

 

 

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Ólafur Þ. Kristjánsson 1979, 137.

[2] Óskar Einarsson 1951, 107.

[3] Sama heimild, 106.

[4] Sama heimild.

[5] Guðmundur Ingi Kristjánsson . – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1994. Sbr. Óskar Ein. 1951, 104.

[6] Ól. Þ. Kr. 1979, 140.

[7] Guðm. I. Kr. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1994.

[8] Óskar Ein. 1951, 106.

[9] Guðm. I. Kr. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1994.

[10] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 107-108.

[11] Guðm. I. Kr. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1994.

[12] Jarðab. Á. og P. VII, 107-108.

[13] Sama heimild.

[14] Guðm. I. Kr. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1994.

[15] Sama heimild.

[16] Sama heimild.

[17] Sama heimild.

[18] Sama heimild.

[19] Sama heimild.

[20] Sama heimild.

[21] Óskar Ein. 1951, 106.

[22] Sama heimild.

[23] Sama heimild.

[24] Sama heimild.

[25] Sama heimild.

[26] Sama heimild, 108.

[27] Sama heimild.

[28] Jarðab. Á. og P. VII, 107.

[29] Sama heimild, 105-108.

[30] Sama heimild, 121-122.

[31] Sama heimild, 95 og 115-116.

[32] Sama heimild, 95, 107, 115 og 121.

[33] Sama heimild, 107.

[34] Guðm. I. Kr. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1994.

[35] Sama heimild.

[36] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 3.5.1889.

[37] Lbs., án safnnúmers. Dagbók Jóns Guðmundssonar, búfræðings á Ytri-Veðrará, 7.5.1888.

[38] Manntal 1801.

[39] Prestsþj.bækur Holts í Önundarfirði.

[40] D.I. IV, 141.

[41] D.I. III, 324-325. D.I. IV, 141.

[42] D.I. XV, 572-573. Bps. A. II. 6, vísitazíubók Brynj. bisk. Sveinss., Holt 17.8.1639. Jb. Á. og P. VII, 107.

[43] Manntal 1901, fylgiskjöl.

[44] D.I. XV, 572-573.

[45] Jarðab. Á. og P. VII, 107.

[46] Sama heimild.

[47] Sama heimild.

[48] J. Johnsen 1847, 195.

[49] Jarðab. Á. og P. VII, 107.

[50] Ól. Þ. Kr. 1979, 137.

[51] Jarðab. Á. og P. VII, 107-108.

[52] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 102-103.

[53] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 155.

[54] Sama heimild.

[55] Sama heimild.

[56] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 71-72.

[57] Sama heimild.

[58] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[59] Manntal 1703. Jb. Á. og P. VII, 107. Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit, – jarða- og bændatal úr

Ísafjarðarsýslu, talið vera frá árinu 1735. Manntal 1762.

[60] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[61] Manntal 1801. Sóknarm.töl Holts í Önundarf. 1802, 1803 og 1811.

[62] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821, 1830 og 1834. Manntöl 1816, 1835, 1840,

1845, 1850, 1855, 1860, 1870 og 1890.

[63] Manntal 1801.

[64] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[65] Sóknarm.töl Holts í Önundarfirði.

[66] Manntal 1801.

[67] Sóknarm.tal Holts í Önundarf. 1811. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[68] Manntal 1816.

[69] Manntöl 1835 og 1840. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821, 1830, 1834 og 1837.

[70] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[71] Manntal 1840.

[72] Sama heimild.

[73] Sama heimild.

[74] Sama heimild.

[75] Ól. Þ. Kr. 1948, 74-75.

[76] Manntal 1845.

[77] Manntal 1845. Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[78] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosvallahr. 6. Úttektabók 1834-1875, bls. 47.

[79] Sama heimild.

[80] Sama heimild.

[81] Sama heimild.

[82] Sama heimild.

[83] Sama heimild.

[84] Sama heimild.

[85] Sama heimild.

[86] Sama heimild.

[87] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[88] Ól. Þ. Kr. 1948, 74-75.

[89] Sama heimild og Manntal 1845, vesturamt, bls. 288.

[90] Manntal 1840.

[91] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar 26.4.1842.

[92] Sama dagbók 27.3.1845.

[93] Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsfirði. Skrá yfir brottflutta árið 1845.

[94] Ól. Þ. Kr. 1948, 74-76.

[95] Sama heimild.

[96] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[97] Ól. Þ. Kr. 1953, 146. Manntal 1845, vesturamt, bls. 288.

[98] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holts í Önundarf. Manntal 1870.

[99] Ól. Þ. Kr. 1948, 80. Manntal 1845, vesturamt, bls. 288. Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[100] VA III, 421, búnaðarskýrslur.

[101] Manntal 1870.

[102] Prestsþj.b. Holts í Önundarf. Ól. Þ. Kr. 1953, 146.

[103] Lbs. án safnnúmers. Gögn úr fórum Hj. Jónss., kaupm. á Flateyri. Annáll áranna 1869-1885, ár 1871.

[104] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holts í Önundarf. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar. Sami 1948, 68-69 og 1953, 146.

[105] Sóknarm.töl Holts í Önundarf. VA III, 422-423, búnaðarskýrslur 1875-1877.

[106] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[107] Sama heimild.

[108] Ól. Þ. Kr. 1953, 146.

[109] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[110] Sóknarm.töl Holts í Önundarf. VA III, 422-423, búnaðarskýrslur 1875-1877.

[111] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 26.

[112] Sama heimild.

[113] Sama heimild.

[114] Sama heimild.

[115] Sama heimild.

[116] Sama heimild.

[117] Sama heimild.

[118] Sama heimild.

[119] Sama heimild.

[120] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[121] Prestsþj.b. Holts í Önundarf. Manntöl 1870, 1880 og 1890.

[122] Ól. Þ. Kr. /Önfirðingar.

[123] Lbs. 22384to, bls. 44.

[124] Sama heimild, bls. 40-45.

[125] Lbs. 22384to,  bls. 40-45

[126] Þórður Sigurðsson 1986, 21-22 (Ársrit S.Í.).

[127] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[128] Sama heimild.

[129] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[130] Fasteignabók 1921.

[131] Fasteignamatsskjöl, gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 155.

[132] Sama heimild.

[133] Fasteignamatsskjöl, gjörðabók undirmatsnefndar í V.-Ís., löggilt 226.3.1919, bls. 155.

[134] Sama heimild.

[135] Manntal 1920.

[136] Manntal 1920.

[137] Sama heimild.

[138] Óskar Ein. 1951, 106.

[139] Sama heimild.

[140] Sama heimild.

[141] Sama heimild.

[142] Sama heimild.

[143] Guðm. I. Kr. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1994.

[144] Óskar Ein. 1951, 106.

[145] Sama heimild.

[146] Sama heimild.

[147] Guðm. I. Kr. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1994.

[148] Guðm. I. Kr. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1994.

[149] Sama heimild.

[150] Sama heimild.

[151] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »