Frá Felli að Læk er aðeins einn kílómetri sé farið beint af augum en kjósi menn að fylgja þjóðveginum er þetta svolítið lengri spölur. Lækur í Mýrahreppi er forn 12 hundraða bújörð og hét áður Ástríðarlækur en síðustu þrjár aldir og máske lengur hafa menn yfirleitt látið nægja að nefna jörðina Læk.[1]
Bærinn stendur dálítið norðantil við ytri enda Mýrafells, lítið eitt innan við Núpsá og í um það bil 1300 metra fjarlægð frá sjó. Í norð-norðaustur frá bænum sér inn í Núpsdalinn en svolítið utar, handan við Núpsá, er hið forna höfuðból Núpur. Þangað er varla nema 15 mínútna gangur frá Læk sé farin stysta leið og vaðið yfir ána en heldur lengra sé þjóðveginum fylgt.
Lækur á land að sjó frá Ytri-Hagagarði við endann á Mýrafelli (sjá hér Mýrar) og út að Núpsá. Bærinn á Læk stendur sunnan í Lækjarholti eða Lækjarholtum því stundum er fleirtölumyndin notuð.[2] Skammt norðan við Læk heitir Kjóamýri með ánni og liggur vegurinn yfir hana. Mýri þessi er hálf í landi Lækjar en hinn hlutinn í landi eyðijarðarinnar Hólakots[3] sem er í Núpsdal skammt frá dalsmynninu, sömu megin ár og Lækur. Upp af Kjóamýri er Kjóamýrarholt og á því er landamerkjasteinn.[4] Innst og efst í Lækjarholtum sem áður voru nefnd eru Neðri-Skörð og Fremri-Skörð. Vegurinn liggur þarna um Neðri-Skörð en landamerkin milli Lækjar og Minna-Garðs um Fremri-Skörð[5] og þaðan sjónhending í Löngulágarenda þar sem vegirnir skiptast (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 284). Landamerki milli Fells og Lækjar liggja aftur á móti frá þessum sömu vegamótum út eftir móabörðum og beint í miðklettinn í Fellstaglinu (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 284).
Í Jarðabókinni frá 1710 segir að landþröng sé ærin á Læk og búfénaður þaðan gangi því mjög upp á aðrar jarðir.[6] Landskuldin var þá þrjár vættir (hálft kýrverð) og leigukúgildin þrjú en talið var að á Læk væri unnt að fóðra tvær til þrjár kýr.[7] Árni Magnússon fékk þær fréttir í Dýrafirði sumarið 1710 að Lækur ætti sex vikna beit í landi þá jarðarinnar Klukkulands í Núpsdal en sá beitarréttur hefði ekki verið notaður síðustu 12 árin eða lengur.[8] Þeir sem fræddu Árna á þessu greindu einnig frá því að á móti þessum beitarréttindum ætti Klukkuland skipsuppsátur í landi Lækjar.[9] Um 1840 fengu bændur sem bjuggu á Læk enn sumarbeit fyrir kindur sínar í landi Klukkulands.[10] Ólafur Ásbjörnsson, sem bjó á Læk árið 1710, kvartaði yfir því að aur og möl úr holtunum í kring fyki á túnið hjá sér,[11] en í Sóknalýsingunni frá 1840 er sagt að útislægjur séu hér miklar og meiri en ábúandi jarðarinnar geti notað.[12] Torfrista og stunga var talin bjargleg á Læk árið 1710,[13] og árið 1840 er sagður vera þar mikill og góður móskurður en tekið fram að mótak þetta sé einkum nýtt af öðrum en heimafólki.[14]
Undir lok 19. aldar, er hjónin Guðmundur Bjarnason og Valgerður Þórarinsdóttir bjuggu á Læk, var tekið þar upp mikið af mó.[15] Oft mun húsfreyjan hafa verið byrjuð að taka upp móinn þegar bóndi hennar kom af vertíðinni á Fjallaskaga[16] í júnílok. Valgerður á Læk seldi þá mó til Þingeyrar og var sagt að hún fengi stundum síst minna fyrir móinn en nam aflahlut Guðmundar bónda hennar á vorvertíðinni.
Stundum var róið til fiskjar frá Læk á fyrri tíð en þó nær eingöngu á sumrin. Í Jarðabók Árna og Páls segir svo um þetta: Heimræði hefur hér verið að fornu sem ekki hefur brúkast í margt ár og sjaldan áður nema um hásumar en nú er þetta heimræði að litlu gagni því fiskurinn gengur ekki svo langt inn í fjörðinn.[17] Lendingin var rétt utan við Mýrafell þar sem heitir Hella og hér verður brátt nánar frá sagt.
Á fyrri hluta 15. aldar var Lækur ein hinna mörgu jarða Guðmundar ríka Arasonar á Reykhólum og er jarðarinnar fyrst getið í skrá eða skýrslu um jarðeignir hans á Vestfjörðum, sem talið er að hafi verið samin árið 1446.[18] Lækur er þar talinn vera 16 hundruð að dýrleika[19] en síðar var jörðin jafnan metin á 12 hundruð. Skömmu eftir að eignir Guðmundar Arasonar voru dæmdar undir konung fékk Björn hirðstjóri Þorleifsson eignarráð yfir mörgum þessara jarðeigna. Ætla má að hann hafi eignast Læk því 29. mars 1459 seldi kona Björns hirðstjóra, Ólöf ríka Loftsdóttir, þessa jörð presti nokkrum sem Ólafur hét Ísleiksson.[20] Frá sölu jarðarinnar var gengið í Vatnsfirði við Djúp og andvirði hennar þá þegar greitt að fullu.[21]
Séra Ólafur Ísleiksson, sem keypti Læk árið 1459, var þá prestur í Holti í Önundarfirði og mun hafa keypt Læk fyrir hönd Holtskirkju (sjá hér Holt). Lækur var síðan öldum saman i eigu kirkjunnar í Holti og allt var enn óbreytt í þeim efnum árið 1847.[22]
Einn sumardag árið 1516 eða þar um bil var merkilegur fundur haldinn á Læk. Hér mættust þá Ragnhildur Bjarnadóttir, kona héraðshöfðingjans Björns Guðnasonar í Ögri, og Þorgils Nikulásson, sem þá var prestur í Holti í Önundarfirði. Til fundarins var efnt í því skyni að fá séra Þorgils til að falla frá kærum á hendur þeirra liðsmanna Björns í Ögri sem komið höfði í Holt og látið þar ófriðlega. Nánar segir hér frá þessum fundi þegar fjallað verður um Holt.
Árið 1681 bjó á Læk maður að nafni Brandur Símonarson[23] en annar elsti bóndinn þar sem kunnugt er um nafn á er Ólafur Ásbjörnsson sem dæmdur var á Brimarhólm árið 1700.[24] Í Alþingisbókunum gömlu má sjá að 6. júlí árið 1700 voru þrír menn úr Mýrahreppi, sem hétu Ólafur Ásbjörnsson, Jón Sighvatsson og Diðrik Sigurðsson, dæmdir til búslóðarmissis og Brimarhólmsvistar fyrir launverslun við Englendinga.[25] Þar kemur ekki fram á hvaða bæjum þessir þrír menn úr Mýrahreppi áttu heima en í manntalinu frá 1703 og Jarðabókinni frá 1710 má sjá að bændur á Læk og Klukkulandi hétu einmitt þessum nöfnum.[26] Óhætt mun að slá því föstu að þar sé um sömu menn að ræða því nöfnin Ásbjörn, Sighvatur og Diðrik eru ekki mjög algeng á þessum tíma. Jón Sighvatsson og Diðrik Sigurðsson voru bændur á Klukkulandi en Ólafur Ásbjörnsson bjó á Læk. Þann 27. maí árið 1700 voru allir þessir menn staddir á Þingeyri en þar á höfninni lá bresk skúta sem hleypt hafði inn á Dýrafjörð undan hafís.[27] Þeir þremenningarnir reru fram í skútuna, hafa máske verið á heimleið, og áttu þar einhver viðskipti.[28] Sá sem stýrði einokunarversluninni á Þingeyri þetta ár hét Jörgen Sörinsson og sendi hann nokkra af kaupmannsfólkinu á eftir bátnum til að kanna hvað bændurnir af norðurströndinni hefðu keypt af Bretunum.[29] Snæbjörn Pálsson, sem þá var ungur sýslumannssonur á Núpi, og tvö önnur vitni báru að sendimenn Þingeyrarkaupmanns hefðu verið með raffyr og láslausa byssu meðferðis er þeir rannsökuðu þann íslenska bát.[30] Sú rannsókn virðist hafa farið fram við skipshlið því vitnin segja að einhverjir Bretanna hafi tekið þátt í slagsmálum við þá sem sendir voru til að rannsaka bátinn.[31]
Jörgen kaupmaður kærði ólögmæta launverslun þremenninganna við Breta þegar í stað til sýslumannsins á Núpi sem var Páll Torfason, faðir Mála-Snæbjarnar. Svo virðist sem Páll hafi viljað taka vægt á þessum nágrönnum sínum því hann dæmir aðeins einn þeirra sekan, Jón Sighvatsson, sem játaði að hafa keypt tvær álnir af kiersæ af hinum bresku sjómönnum, það er af ullarvefnaði sem kenndur var við bæinn Kersey í Suffolk á Englandi.[32] Páll sýslumaður kvað upp sinn dóm þann 10. júlí, tveimur vikum eftir ferð bændanna á fund bresku sjómannanna, og dæmdi Jón Sighvatsson til búslóðarmissis en væri búslóð ekki til skyldi hann þola líkamlegt straff.[33] Síðan fór málið til Alþingis.
Jörgen Sörinsson, kaupmaður á Þingeyri, var mjög ósáttur við dómsniðurstöðu sýslumannsins á Núpi sem hann taldi alltof væga. Hann sendi því sérstaka greinargerð um málið til Alþingis og segir svo frá henni í Alþingisbókinni:
Þar næst var auglýst skrifleg umkvörtun kaupmannsins í Dýrafirði … upp á sýslumanninn, Pál Torfason, að hann hafi ei ályktað Ólafi Ásbjörnssyni nokkurt straff fyrir það að hann sem höfundur og orsök til téðrar ófríhöndlunar verið hafi í því hann svo blygðunarlaust hafi á sínum eigin bát farið og fært þá tvo menn, Jón Sighvatsson og Diðrik Sigurðsson, til ófríhöndlaranna, – óskandi þar með að þeir sömu kynnu að haldast undir straff og fjársekt til fátækra, öðrum við viðvörunar.[34]
Eins og áður var nefnt reyndi Snæbjörn, sýslumannssonur á Núpi, að bregða skildi fyrir nágranna sína og sendi ásamt tveimur samsveitungum annað bréf til Alþingis með greinargerð um málavexti. Hann vekur þar athygli á vopnaburði sendimanna kaupmannsins, sem ekki mun hafa verið talinn lögmætur, og segir að á héraðsþinginu á Mýrum hafi menn sæst á að sakir á báða bóga yrðu látnar niður falla.[35] Þetta samkomulag vilja Snæbjörn og félagar hans meina að kaupmaðurinn hafi svikið með kæru sinni til Alþingis en hafi um eitthvert slíkt samkomulag verið að ræða hlýtur það að hafa falið í sér að ekki yrði reynt að hnekkja dómsniðurstöðu Páls Torfasonar.
Dómur í máli bændanna á Klukkulandi og Læk var kveðinn upp á Alþingi 6. júlí sama ár og þar voru þeir, allir þrír, dæmdir til búslóðarmissis og þrælkunar á Brimarhólmi um ótilgreindan tíma.[36] Í dómsorðinu er þó tekið fram að áður en mennirnir yrðu sendir utan skyldi mál þeirra lagt fyrir Danakonung með tilliti til hugsanlegrar náðunar vegna hans allranáðugustu mildi og meðaumkvunar.[37] Ólafur Ásbjörnsson á Læk var liðlega sextugur að aldri er hann var dæmdur á Brimarhólm en félagar hans, Diðrik Sigurðsson og Jón Sighvatsson, voru um fertugsaldur.[38]
Er Ólafur á Læk og bændurnir tveir á Klukkulandi voru dæmdir til þrælkunar voru 18 ár liðin frá því út var gefið konungsbréf þar sem Brimarhólmsvist í járnum var lögð við því að versla við ófríhöndlara.[39] Lögréttumennirnir við Öxará virðast þó aldrei hafa dæmt menn til þrælkunar á Brimarhólmi fyrir launverslun fyrr en mál Dýrfirðinganna þriggja kom til úrskurðar og niðurstaðan varð sú sem áður var frá greint.[40]
Ekki er nú kunnugt hversu lengi þeir félagar þurftu að bíða eftir úrskurði konungs í sínu máli en allar líkur benda til þess að kóngur hafi að lokum séð aumur á þessum þegnum sínum og þeir aldrei verið sendir á Brimarhólm þrátt fyrir dóminn. Að minnsta kosti sátu þeir allir á búum sínum á Læk og Klukkulandi tíu árum eftir að glæpurinn var framinn.[41]
Er Ólafur Ásbjörnsson á Læk var dæmdur á Brimarhólm var hann ekki eini bóndinn á jörðinni því einnig var búið í hjáleigukoti sem ýmist var nefnt Lækjartröð eða Litli-Lækur[42] eða bara Lækjarafbýli eins og kot þetta er kallað í manntalinu frá 1703.[43] Um Lækjartröð segir svo í Jarðabókinni frá 1710:
Hjáleiga byggð í fyrstunni í úthögum á fornu byrgisstæði fyrir vel 30 árum og varaði byggðin inn til bólunnar, síðan í auðn. Landskuld í fyrstunni ein vætt, síðan hálf önnur vætt … leigukúgildi eitt. Leigan betalaðist í smjöri til staðarins [þ.e. Holts í Önundarf. – innsk. K.Ó.]. Kvöð var skipsáróður þar sem staðarhaldarinn [Holtsprestur]til sagði. Fóðrast kunni hálf kýr og er þetta hálfa kýrfóður áður talið heimajörðinni. … Aftur má hér byggja en þó er það til rýrðar og skaða heimajörðinni.[44]
Séra Sigurður Jónsson, sem var prestur í Holti í Önundarfirði frá 1680 til 1730 og áður aðstoðarprestur þar, segir í greinargerð frá árinu 1709 að hann hafi látið byggja upp hjáleigukot á Læk sem nú sé komið í eyði og tekur fram að árleg landskuld af kotinu hafi verið 5 aurar.[45] Ummæli prestsins um upphæð landskuldarinnar koma heim við það sem sagt er i Jarðabókinni því verðgildi 5 aura var hálf önnur vætt, það er 30 álnir.
Orð Jarðabókarinnar og séra Sigurðar sýna að í Lækjartröð hefur aðeins verið búið í um það bil 30 ár, líklega frá 1680 og þar til bólan, sem hér geisaði á árunum 1707-1709, lagði heimilisfólkið að velli. Systkini tvö, Nikulás og Þórunn bjuggu í Lækjartröð árið 1703, börn Páls Jónssonar sem líka átti þar heima, örvasa gamalmenni á níræðisaldri.[46] Ætla má að þetta fólk hafi verið síðustu ábúendur í þessu koti og máske líka þeir fyrstu.
Hjáleigan Lækjartröð mun hafa verið ofantil við Sjóarholtin á Læk, skammt frá gömlu götunni sem liggur heiman frá bænum til sjávar.[47] Þarna heitir nú Kot[48] og þar er enn túnblettur sem jafnan er sleginn.[49] Tóttir gömlu hjáleigunnar sjást ekki lengur því þær hafa verið sléttaðar út, en túnbletturinn sýnir að kotið hefur staðið um það bil miðja vega milli heimatúnsins á Læk og fjörunnar við ós Núpsár, á vinstri hönd þegar farinn er bílvegurinn frá Læk niður að sjó.
Frá því Lækjartröð fór í eyði í Stórubólu og fram til aldamótanna 1900 var sjaldan eða aldrei tvíbýli á Læk.[50] Einn bóndi tók við af öðrum og í sex ár, frá 1811 til 1817, bjó hér prestur, séra Markús Þórðarson, sem þá var aðstoðarprestur í Dýrafjarðarþingum.[51] Frá séra Markúsi er sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Álftamýri).
Síðasti 19. aldar bóndinn sem hér bjó hét Guðmundur Bjarnason en kona hans var Valgerður Þórarinsdóttir. Þau hófu búskap á Læk vorið 1880 og bjuggu hér fram yfir aldamót.[52] Sagnir herma að á þeirra búskaparárum hafi huldufólk og fjörulallar látið talsvert að sér kveða á Læk, ýmist til ills eða góðs. Fjörulallarnir héldu sig þá einkum undir Mýrafelli og gerðust um tíma svo aðgangsharðir við ærnar á Læk að Guðmundur bóndi varð að halda þeim frá fjörunni um fengitímann.[53] Ánægjulegri voru samskipti þeirra hjóna við huldufólkið sem þau áttu að grönnum. Eitt sinn skömmu eftir veturnætur missti önnur kýrin á Læk nær alla nyt þó skammt væri liðið frá burði. Valgerði húsfreyju dreymdi þá að huldukonan vitjaði sín og bæði hana forláts á mjólkurhvarfinu.[54] Kvaðst hún hafa gripið til mjólkurinnar úr Rauðflekku af því kýrin sín væri geld en bóndinn veikur og barnið mjólkurlaust á fyrsta ári.[55] Lét Valgerður þetta gott heita, enda lofaði huldukonan að bæta henni þennan skaða síðar. Um jólaleytið bar álfakýrin og þá þurfti huldukonan ekki lengur á mjólkinni úr Rauðflekku að halda, enda kom þá skyndilega í hana sama nyt og verið hafði fyrir mjólkurhvarfið.[56] Er leið að vori og Guðmundur bóndi hugðist fara að sleppa gemlingunum dreymdi Valgerði húsfreyju að huldukonan kæmi til sín á ný og segði að nú skyldi hún fara í lambhúsið á morgun með manni sínum og þiggja þar endurgreiðslu fyrir mjólkina sem hvarf úr Rauðflekku.[57] Þetta gerði Valgerður og er þau Guðmundur komu í lambhúsið sáu þau þar ókunnan gráan gelding, blóðmarkaðan undir þeirra mark.[58] Þótti þá Valgerði vel hafa ræst draumar sínir, en grái geldingurinn varð brátt forystusauður á Læk og var talinn metfésskepna.[59]
Dvöl okkar á Læk er senn á enda. Við skulum samt ganga niður í árdalinn fyrir utan bæinn og með ánni niður að sjó. Hver veit nema grábotnóttur hulduhrútur verði þar á leið okkar. Núpsáin fellur nú til sjávar nokkru innar en áður var[60] og rétt innan við árósinn er gamli lendingarstaðurinn Hella við rætur Mýrafells. Bláendinn á Mýrafelli er í landi Lækjar og stundum nefndur Fellsfótur[61] eða Hellufótur.[62] Ysti hluti fótarins heitir Stekkur en klettanibbur utan við Stekkinn heita Steinakerfi.[63] Hellugangur heita klettar sem hér eru ofan við fjöruna en utan við þá er Banabás.[64] Í básnum var flæðihætta fyrir sauðfé og líka gat komið fyrir að fé fennti þar.[65]
Sjálfur lendingarstaðurinn er rétt utan við Banabás, svolítil vík með flatar klappir. Sker eru sitt hvoru megin við víkina[66] og skýla henni. Hér í Hellu þótti gott að lenda og bændur á Felli, í Hólakoti og á Klukkulandi höfðu hér uppsátur fyrir báta sína, auk bændanna á Læk.[67] Lengst hefur sjávargatan verið frá Klukkulandi, um það bil 3 kílómetrar.
Hér við Lækjarsjóinn drukknaði Bjarni Sigmundsson, vinnumaður frá Arnarnesi, 8. ágúst 1885[68] og mun hafa týnt lífinu af völdum Bakkusar.[69] Héðan frá Hellu lagði Gunnhildur Sumarliðadóttir líka upp í sína hinstu för, síðla dags þann 24. ágúst 1793 og var í heyflutningum (sjá hér Sveinseyri). Um kvöldið drukknaði hún á bótinni sem síðan er við hana kennd, rétt hjá Sveinseyrarlendingu handan fjarðarins. Fyrir bóndadóttur þessari, sem hér ýtti síðast báti úr vör, áttu hins vegar þau ósköp að liggja að verða frægasti draugur í Ísafjarðarsýslu og halda þeim titli um langt skeið, en frá málum Gunnhildar er sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Sveinseyri). Héðan frá Hellu blasir Sveinseyraroddinn við og aðeins þrír kílómetrar á milli, þvert yfir fjörðinn.
Frá Hellu fylgjum við gömlu sjávargötunni heim að Læk en stöldrum við á miðri leið í gömlu hjáleigunni, Lækjartröð, sem stórabóla lagði í auðn fyrir tæplega þremur öldum eins og fyrr var nefnt. Svo kveðjum við á Læk og skundum upp með Núpsá í átt að Hólakoti sem er næsti áfangastaður.
– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –
[1] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 72.
[2] Örnefnaskrá.
[3] Sama heimild.
[4] Sama heimild.
[5] Sama heimild.
[6] Jarðab. Á. og P. VII, 72.
[7] Sama heimild.
[8] Sama heimild.
[9] Jarðab. Á. og P. VII, 72.
[10] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 73.
[11] Jarðab. Á. og P. VII, 72.
[12] Sóknalýs. Vestfj. II, 73.
[13] Jarðab. Á. og P. VII, 72.
[14] Sóknalýs. Vestfj. II, 73.
[15] Vestfirskar sagnir II, 220-221.
[16] Sama heimild.
[17] Jarðab. Á. og P. VII, 72.
[18] D.I. IV, 688.
[19] Sama heimild.
[20] D.I. V, 176.
[21] Sama heimild.
[22] D.I. XV, 573; Jarðab. Á. og P. VII, 72; J.Johnsen 1847, 193.
[23] Rtk. 2.1. Stríðshjálpin 1681, Jarðaskrá og búenda í Skálholtsbiskupsdæmi.
[24] Alþingisbækur Íslands IX, 146-148; Manntal 1703.
[25] Alþ.bækur Íslands IX, 146-148.
[26] Manntal 1703; Jarðab. Á. og P. VII, 72-73.
[27] Alþ.bækur Íslands IX, 146-148.
[28] Sama heimild.
[29] Sama heimild.
[30] Sama heimild.
[31] Sama heimild.
[32] Alþ.bækur Íslands IX, 146-148.
[33] Sama heimild.
[34] Sama heimild.
[35] Sama heimild.
[36] Sama heimild.
[37] Sama heimild.
[38] Manntal 1703.
[39] Ól. Lár. 1958, 286 (Lög og saga).
[40] Alþ.bækur Ísl. VII, VIII og IX; Sbr. Ól. Lár. 1958, 285-298.
[41] Jarðab. Á. og P. VII, 72-73.
[42] Sama heimild.
[43] Manntal 1703.
[44] Jarðab. Á. og P. VII, 72-73.
[45] Skj.s. prófasta XIII. 1.B.2, skjalabók frá Holti í Ön.f. 1484-1731, bls. 272.
[46] Manntal 1703.
[47] Örn.skrá.
[48] Sæmundur K. Þorvaldsson frá Læk. – Viðtal K.Ó. við hann 8.7.1992.
[49] Sama heimild.
[50] Jarðab. Á. og P. VII, 72; Manntöl 1762, 1801, 1835, 1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1870, 1880 og 1890.
[51] Lbs. 23684to XI. Prestaæfir S.Gr.B.
[52] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.
[53] Vestf. sagnir II, 390-391.
[54] Sama heimild, 221-222.
[55] Sama heimild.
[56] Sama heimild.
[57] Sama heimild.
[58] Vestf. sagnir II, 221-222.
[59] Sama heimild.
[60] Örn.skrá.
[61] Sama heimild.
[62] Lbs. 23744to, Dagbók S.Gr.B. 8.8.1885.
[63] Örn.skrá.
[64] Sama heimild.
[65] Sama heimild.
[66] Sama heimild.
[67] Sæmundur K. Þorvaldsson frá Læk, viðtal K.Ó við hann 8.7. 1992.
[68] Lbs. 23744to, Dagbók S.Gr.B. 8.8.1885.
[69] Sama heimild.