Lambeyri, Hvammeyri og Höfðadalur

Lambeyri, Hvammeyri og Höfðadalur

Frá Suðureyri er þægileg gönguleið með sjó inn að Lambeyri sem er næsti bær. Þar er enn búið(1988). Milli bæjanna er tæplega klukkutíma gangur. Rösklega einum kílómetra utan við Lambeyri er Smælingjadalur. Eru þar sæmilegir stórgripahagar, gott sauðland og berjaland.[1] Um dalinn fellur Smælingjdalsá og skiptir hún löndum milli Suðureyrar og Lambeyrar.[2] Um Smælingjdal lá gönguleiðin frá Suðureyri á Patreksfjörð, yfir Lambeyrarháls og niður í Litladal sem gengur upp frá Geirseyri. Þessa leið mátti einnig fara á hestum.[3] Meginleiðin úr Tálknafirði á Lambeyrarháls lá þó aðeins innar og var þá farið upp rétt utan við Lambeyri þar sem heitir Lambeyrarhvilft. Patreksfjarðarmegin við háhálsinn komu þessar tvær leiðir saman, framarlega í Litladal. Fjallvegurinn yfir Lambeyrarháls liggur hæst í um 418 metra hæð og var öldum saman helsta kaupstaðarleið Tálknfirðinga að Vatneyri við Patreksfjörð. Er þetta um sjö kílómetra leið og örskammt að róa yfir fjörðinn frá Sveinseyri að Lambeyri. Tvær aðrar leiðir yfir fjallgarðinn milli Tálknafjarðar og Patreksfjarðar voru einnig tíðfarnar og lágu báðar um Hálsgötu, upp frá botni fjarðarins. Önnur þessara leiða lá síðan líkt og akvegurinn nú um Höfðadal upp í nær 370 metra hæð og síðan um Mikladal á Eyrar. Hin lá yfir Botnaheiði, nær beint í suður frá Hálsgötunni, og að bænum Vestur-Botni í Patreksfirði, hæst í um 530 metra hæð.

Árið 1710 var Lambeyri í eigu Arngríms Jónssonar, sjálfseignarbónda á Suðureyri.[4] Tvíbýli var þá á jörðinni. Samanlagður bústofn bændanna var fimm kýr, tveir aðrir nautgripir, 49 sauðkindur, þar af tólf lömb, og tveir hestar. Róið var til fiskjar úr heimavör og átti annar Lambeyrarbænda bát.[5]Hrognkelsaveiði hefur áður verið góð, hún fer mjög til rýrðar en brúkast þó, segir Árni Magnússon um Lambeyri.[6] Í byrjun 18. aldar gengu munnmæli um bænhús á Lambeyri en þess sáust þá engin merki.[7]

Í þjóðsögum greinir frá þúfu einni merkilegri í Lambeyrarlandi þar sem Grámann Tálknfirðingur setti niður uppvakninginn Klaufa en draug þann hafði Ármann á Eysteinseyri vakið upp og magnað á hendur séra Vernharði Guðmundssyni er prestur var í Otradal á síðari hluta 18. aldar.[8] Nafn sitt fékk Klaufi af því að hann hafði nautsklaufir og lagðist hann einkum á búfé séra Vernharðar og annarra. Um ógnarmátt Klaufa er ritað að svo hafi hann magnaður verið

 

að engin jörð var óhult fyrir honum nema þúfa ein í Lambeyrarlandi … en engin kvik skepna og ekki fuglinn fljúgandi mátti snerta þúfu þessa – því jafnskjótt hneig hún dauð – og ekkert lifandi grasstrá hefur sprottið upp úr þúfu þeirri allt til þessa dags.[9]

 

Best mun vera enn í dag að halda sig fjarri Klaufaþúfu en líklega kunna fáir skil á því nú hvar hana muni vera að finna. Í örnefnalýsingum frá 20. öld sést nafnið ekki en vera má að þúfan sem þar heitir aðeins Þúfa sé einmitt hún. Sumarið 1937 sat Helgi Guðmundsson þjóðsagnasafnari dag einn á tali við Kristínu Ólafsdóttir, sem þá var húsfreyja í Norður-Botni í Tálknafirði en fædd og uppalin á Lambeyri og fékk hjá henni þessa sögu:

 

Sagt er að Suðureyrarbóndinn og Lambeyrarbóndinn hafi eitt sinn senst á sendingum og var ein þeirra sett þarna  niður [í Þúfu – innskot K.Ó.]. Fyrir nokkrum árum átti kona nokkur leið hjá Þúfu. Sá hún þar hvíta vofu, varð hrædd og sneri aftur við svo búið.[10]

 

Helgi vísar þeim líka til vegar sem kynnu að vilja nálgast Þúfuna ískyggilegu. Sé komið utan að er farið hjá gömlum vörslugarði innantil við Smælingjadal og þar nokkru innar skagar klettur fram í sjó um flæðar. Uppi á honum er grasflöt og heitir þar Þúfa að sögn Helga.[11] Fjöruklett þennan með grasflötinni segir hann vera kippkorn fyrir utan Lambeyrarhvilft[12] sem er rétt utan við bæinn á Lambeyri.

 

Sú var trú manna um skeið að huldufólk byggi í Lambadal í Lambeyrarlandi. Seint á 19. öld var ung stúlka á Sellátrum í Tálknafirði, sem Sigrún hét Ólafsdóttir. Eina nótt dreymir hana að maður kemur til hennar og biður hana að fara með sér. Ganga þau til sjávar og flytur maðurinn Sigrúnu yfir að Lambeyri.[13]

 

Hann segist eiga heima í honum Lambadal, sem er þar eigi allskammt frá, og átti hún þar engra bæja né manna von. En er þau koma fram í dalinn sér hún þar bæ, lítinn og fátæklegan, en mjög snotran og þokkalegan. Segir þá maðurinn henni að kona sín liggi þar í barnsnauð og eigi hún að sitja yfir henni.[14]

 

Sigrún var óvön ljósmóðurstörfum en engu að síður auðnaðist henni að bjarga konunni og barninu. Huldumaðurinn kvaðst litlu geta launað henni hjálpina en þó vilja mæla svo um að þaðan í frá lánist henni öll þau ljósmóðurstörf er hún taki að sér. Gekk það allt eftir.

Nokkru síðar veiktist Sigrún alvarlega og var margra lækna leitað en enginn þekkti sjúkdóminn. Þá birtist huldumaðurinn í Lambadal Kristjáni, ráðsmanni Kristínar Snæbjarnardóttur, ekkju á Lambeyri, og biður hann fyrir þau skilaboð til húsbónda Sigrúnar að frammi í Krossadal vaxi grös þau er henni megi verða til bjargar. Að tilvísan huldumannsins var grasanna leitað og fundust þau. Var nú Sigrún látin drekka af grösunum og gat hún þá klæðst eftir hálfan mánuð en varð síðan alheil.[15]

Frá norðurströnd Tálknafjarðar gengur Sveinseyraroddi fram í fjörðinn og liggur við að hann loki firðinum rétt innan við Lambeyri. Yfir í oddann eru þar aðeins um 300 metrar og getur Ólafur Árnason þess í sýslulýsingu sinni frá 1746 að hestar hafi oft verið látnir synda þarna yfir á eftir báti.[16] Heitir þarna Lambeyrarsund en fjörðurinn innan þess stundum nefndur Hóp.[17]

Um 1890 var þurrabúðarfólk sest að á Lambeyri og eru tvær slíkar fjölskyldur hér á manntali það ár.[18] Vistarverur þeirra bera þá ekki sérstakt heiti, ef marka má manntalið, en árið 1898 er Stekkjarbakki í fyrsta sinn  nefndur meðal mannabústaða í Tálknafirði.[19] Rétt upp úr aldamótum bætist svo Hlíðarendi við[20] en bæði Stekkjarbakki og Hlíðarendi voru húsmannskot rétt innan við Lambeyri. Þarna var aðeins búið um nokkurra ára skeið og allt fólk farið úr báðum kotunum fyrir 1920.[21]

Litlu innar og einnig í landi Lambeyrar reis á fyrstu árum 20. aldar nýbýlið Hvammeyri er síðan hélst í byggð fram yfir 1970. Milli Lambeyrar og Hvammeyrar er aðeins um einn og hálfur kílómetri. Hallbjörn Oddsson, sem bjó í Tálknafirði á árunum 1891 til 1912, segir að á því tímaskeiði hafi fimm ný smábýli verið reist í firðinum. Um Hvammeyri og Ólaf Bjarnason, sem þar byggði fyrstur, ritar Hallbjörn:

 

Ólafur Bjarnason, hálfbróðir Árna á Kvígindisfelli, byggði það [þ.e. býlið  Hvammeyri] og ræktaði og mun það hafa verið annað myndarlegasta býlið. … Ólafur var smiður og ýmist skipstjóri eða stýrimaður á skútum en drakk þá mikið. En um það leyti sem hann tók að rækta nýbýlið gekk hann í bindindi og varð einn af bestu mönnum þess.[22]

 

Eins og Hallbjörn segir var Ólafur á Hvammeyri mikill ræktunarmaður því árið 1914 fékk hann 50,- króna verðlaun úr Ræktunarsjóði Íslands, einn þriggja bænda í Barðastrandarsýslu og Ísafjarðarsýslu er slík verðlaun hlutu það ár.[23]

Árið 1935 var lögferja frá Lambeyri yfir að Sveinseyri en síðar varð Hvammeyri ferjustaður.[24]

Skammt innan við Hvammeyri gengur dálítil eyri fram í fjörðinn og er ýmist nefnd Búðeyri eða Skipeyri. Upp frá Skipeyri er Höfði, vel gróinn fjallsrani, og innan hans eyðibýlið Höfðadalur neðst í samnefndu dalverpi. Séra Þórður Þorgrímsson getur þess í sóknarlýsingu sinni frá árinu 1852 að í Hópinu innan við Lambeyrarsund liggi tíðum innlend og erlend fiskiskip.[25] Munnmælasögn í Tálknafirði er það að á Skipeyri hafi á fyrri tíð verið verslunarstaður. Segir svo frá því í Vestfirskum þjóðsögum:

 

Lambeyrarsund í Tálknafirði skilur svonefnt Hóp, sem er innri hluti Tálknafjarðar, frá meginfirðinum. Í Hópinu er ágæt höfn, sem mikið var notuð á fyrri tíð. Sóttu þangað bæði Þjóðverjar, Hollendingar og síðan Frakkar. Nokkru fyrir utan bæinn Höfðadal er eyri nokkur, sem heitir Skipeyri. Um miðja nítjándu öld sáust þar húsarústir, sem taldar voru af gömlum verslunarhúsum. Í Hópinu er svo mikil höfn að þar geta legið samtímis fjöldi skipa og haft hin bestu skilyrði til athafna. Á Skipeyri er ágæt lending og skipalægi í hléi við Höfðann, í miðju Hópinu.[26]

 

Séra Benedikt Þórðarson segir í sóknarlýsingu sinni frá 1873 að á Skipeyri sjáist merki til þess að þar hafi staðið verslunarhús og séu rústirnar líkar verslunarhúsarústum í Örfirisey við Reykjavík. Telji menn að þarna hafi verið verslað fyrir upphaf einokunartímans.[27]

Bærinn Höfðadalur var í byggð fram um miðja 20. öld.[28] Í byrjun 18. aldar var talið að fóðra mætti á jörðinni sex kýr. Þá er Höfðadal lýst með þessum orðum:

 

Útigangur er nokkuð í lakara lagi á landi en enginn í fjörunni. Torfrista og stunga bjargleg. Elt er sverði með taði undan kvikfé. Lyngrif lítið. Grasatekja mjög lítil. Skelfiskfjara að gagni nokkru um stórstraum. Úthagarnir eru litlir og gekk búfé mjög uppá nágrönnum meðan byggt var [Höfðadalur var nokkur ár í eyði eftir stórubólu – innsk. K.Ó.] en enginn galst hér þó beitartollur.[29]

 

Líklega er hér gert heldur lítið úr landkostum jarðarinnar því að í sóknarlýsingu séra Benedikts Þórðarsonar frá árinu 1873 segir að land sé grösugt í Höfðadal og landkostir góðir.[30]

Um 1720 bjuggu í Höfðadal hjónin Þorsteinn Jónsson og Ingibjörg Bjarnadóttir. Hjá þeim var vistráðin bróðurdóttir húsfreyju, Guðrún Jónsdóttir að nafni. Sumarið 1721 fæddi Guðrún barn sem Þorsteinn bóndi var faðir að. Ingibjörg húsfreyja, sem þá var um áttrætt, skildi á milli við fæðinguna en síðan tók Þorsteinn barnið og bar það út.[31] Reynt var að leyna barnsfæðingu þessari en allt komst þó upp og þann 12. mars 1722 voru þau Þorsteinn, Ingibjörg og Guðrún í Höfðadal öll dæmd til dauða á þingstað sveitarinnar, Kvígindisfelli. Dauðadóminn kvað upp Teitur Arason sýslumaður en með honum dæmdu átta meðdómsmenn.[32]

Þorsteinn í Höfðadal hélt því fram að barnið hefði fæðst andvana og móðirin kvaðst ekki geta um það sagt hvort barnið hefði fæðst með lífi.[33]

Sumarið 1722 flutti Teitur sýslumaður Þorstein og Guðrúnu með sér til Alþingis þar sem um mál þeirra skyldi fjallað af æðra dómsvaldi. Þann 9. júlí var héraðsdómurinn lesinn upp í lögréttu og þetta fært til bókar:

 

Framar þessu var héraðsprocessinn um þetta stórmæli í lögréttu upplesinn … í hvern dóm innfærð er átta manna vitnan um ásigkomulag þess andvana barns líkama, er Þorsteinn Jónsson, búandi að Höfðadal við Tálknafjörð þann 16. octobris 1721 að kirkjunni í Stóra-Laugardal þeim ásjáandi fært hafi, hvörn barns líkama hann deginum áður sótt hafi upp á fjallið fyrir ofan Höfðadal og upp úr einni holu tekið í viðurvist sýslumannsins Teits og lögréttumannsins Sigurðar Sigurðssonar.

… Hafi þá greindur Þorsteinn svoleiðis meðkennt og frásagt að eftir Jónsmessu nýju en um gömlu Jónsmessu leytið um sumarið 1721 hafi Guðrún Jónsdóttir … téðan barnslíkama í heiminn fætt og lýst sig föður að hvörn hann hafi þá strax tekið og borið fram í dalinn og þar grafið.[34]

 

Í frásögn barnsmóðurinnar fyrir héraðsdómi og í lögréttu kemur m.a. fram þetta:

 

… hún játar sig oftnefnt barn fætt hafa og hafi þá hjá sér verið faðir þess, Þorsteinn Jónsson, og hans kona Ingibjörg Bjarnadóttir, sem yfir sér hafi setið og við barninu tekið, strax þá það fætt var, – segist hún hafa beðið Þorstein þrisvar sinnum sér það fá, hvað hann ei hafi viljað gjöra heldur það strax útborið, en ei segist hún vita hvört það hafi lífs verið eður ei. Mjög veik segist hún þá verið hafa og með fylgjunni legið 6 dægur eftir barns-fæðinguna. … Konan Guðrún … játaði allt það satt vera, sem í héraðsprocessinum upp á sig skrifað væri og sagðist þar hjá hafa tvö dægur á gólfi legið áður en hún fæddi barnið og beðið að sækja systur sína að vera hjá sér ásamt föður sínum.

… Barnsmóðirin Guðrún segir að frá því hún hafi barnið fætt og það frá henni tekið var hafi hún verið ræktarlaus í sængurlegunni í heila viku og henni ekki annað til bjargar lagt en vatnsblönduð mjólk í aski, sem hún hafi ei kunnað af eigin krafti til sín að taka og að hún hafi fyrir sýslumanninum fyrst auglýst þetta tilfelli og eggjað Þorstein á að meðkenna það hann hér úti gjört hafi. Þetta meðkennir sýslumaðurinn Teitur satt að vera.[35]

 

Það voru lögmennirnir Oddur Sigurðsson og Niels Kjær (varalögmaður) sem við Öxará dæmdu í máli Tálknfirðinganna. Fyrir lögmannsdómnum játaði Þorsteinn að hann hafi strax eftir fæðinguna tekið við barnslíkamanum úr höndum konu sinnar Ingibjargar, lagt hann innan í traf og geymt síðan tvær nætur í búrkistu. Að þeim tíma liðnum hafi hann í samráði við Ingibjörgu grafið barnið fram á dal.[36]

Gamla Ingibjörg í Höfðadal var ekki til staðar í lögréttu. Teitur sýslumaður lagði fram vitnisburð sóknarprests og nokkurra þingsvitna

 

um áttræðis-aldurdóm og heilsuveiki Ingibjargar Bjarnadóttur síðan bólu árið 1707, svo hún ei hafi kunnað að komast til sinnar sóknarkirkju, svo hafi nefnd Ingibjörg á næstliðna vetri sjaldan á fótum verið, hvörs vegna þingsvitnið auglýsir að sýslumanninum Teiti ómögulegt sé téða kvenpersónu til þessa lögþingis færa láta.[37]

 

Þann 15. júlí 1722 dæmdu þeir Oddur lögmaður og Niels Kjær í útburðar- og dulsmáli bóndans og stúlkunnar frá Höfðadal. Í dómsorðinu segir:

 

Þá með því Þorsteinn Jónsson hefur verið hér í lögréttunni gaumgæfilega yfirheyrður og meðkennt allt það satt vera, sem upp á hann í héraðsprocessinum skrifað er, með því fleira, sem alþingisprotocolen útvísar: Skal þar fyrir Þorsteinn Jónsson fyrir soddan meðkennda ókristilega og hræðilega barns meðferð hafa forbrotið sitt líf og hér á þessu lögþingi með öxi hálshöggvast innan sex daga liðinna frá uppsögðum þessum dómi.

… Og eftir sömu laganna greinum skal Guðrún Jónsdóttir hafa sitt líf forbrotið og straffsins framkvæmd að ske eftir stóradóms hljóðan, sérdeilis þar hún uppstaðin af sængurlegunni ei sagði til þess fósturs, er hún hafði í heiminn fætt. En með því Þorsteinn Jónsson hér fyrir réttinum hefur meðkennt að Guðrún Jónsdóttir í hennar veikleika hafi hann umbeðið að sækja föður Guðrúnar og hennar systur, sem hjá henni væri í þeim hennar barnburðar veikindum, þar fyrir voga lögmenn til að álykta Guðrúnu Jónsdóttur verða þeirrar miskunnar, að hennar mál sé til hans Kongl. Majst. allraundirdanugast refererað … en á meðan sé hún í sýslumannsins vöktun og hann skyldugur þetta á tilhlýðilegum stöðum að framfæra.[38]

 

Þannig var máli Guðrúnar skotið á konungsnáðir og líklega hefur kóngur náðað hana eins og Gísli Konráðsson segir í Látramanna- og Barðstrendingaþætti sínum.[39] Þorsteinn í Höfðadal fékk hins vegar ekki að snúa aftur til Tálknafjarðar. Hann var hálshöggvinn við Öxará árdegis þann 21. júlí 1722 að viðstöddum Niels Fuhrmann amtmanni, lögmönnum báðum og nokkrum lögréttumönnum.[40]

Svo virðist sem lögmennirnir hafi átt í nokkrum vanda með mál gömlu húsfreyjunnar í Höfðadal sem dæmd hafði verið til dauða á Kvígindisfelli eins og hin tvö.

Þann 21. október 1721 hafði hún verið yfirheyrð heima í Höfðadal og þá játað að hafa setið yfir Guðrúnu og skilið á milli en Þorsteinn hafi barnið á pallinum tekið og útborið.[41] Þrátt fyrir vitnisburði um háan aldur og hrumleik Ingibjargar húsfreyju voru lögmennirnir ekki sáttir við fjarveru hennar og komust að þeirri niðurstöðu að máli hennar skyldi frestað til næsta árs og Teitur sýslumaður þá flytja hana með sér á Þingvöll nema svarin og lögleg forföll banni.[42]

Árið 1723 reið Teitur enn Ingibjargarlaus á Alþing og lagði þar fram vottorð um að kerling væri veik og vanfær, svo sýslumanninum ómögulegt verið hefði hana til þessa alþingis flytja.[43] Hannes Scheving, sýslumaður Eyfirðinga og faðir Þórunnar er síðar giftist séra Jóni Steingrímssyni eldklerki, var nú skipaður verjandi Ingibjargar í Höfðadal. Hann vakti í lögréttu athygli á því að vitnisburðir Tálknfirðinga um sjúkleik Ingibjargar væru ekki einu sinni undirritaðir nema af Teiti sýslumanni og því með engu móti unnt að dæma í máli hennar að svo stöddu. Á þetta féllust lögmennirnir.[44] Vísuðu þeir málinu frá að sinni og beindu enn til sýslumanns Barðstrendinga þeirri kröfu að hann að ári legði fram fullkomlega lögmæta og undirskrifaða vitnisburði um heilsufar gömlu konunnar í Höfðadal.[45]

Á héraðsþinginu að Kvígindisfelli hafði sú gamla verið dæmd til dauða en máske hefur þeim háu herrum ekki þótt taka því að seilast eftir lífi svo háaldraðrar manneskju og því fagnað hverri smugu til að skjóta málinu á frest. Ekki fer sögum af því hvort Ingibjörg Bjarnadóttir hélt áfram búskap í Höfðadal eftir að maður hennar hafði verið gerður höfðinu styttri en eftir 1723 var aldrei á mál hennar minnst á Alþingi.[46] Líklega hefur hún dáið drottni sínum heima í Tálknafirði um þetta leyti án atbeina réttvísinnar, enda komin um eða yfir áttrætt sé rétt frá aldri hennar greint í málsskjölum.

Harmsaga þessi frá Höfðadal mun lengi hafa verið í minnum höfð þó að um hana hafi verið hljótt nú hin síðari ár, enda langt um liðið.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jóhann Skaptason 1959, 140. (Árbók F.Í.).

[2] Örnefnaskrár Suðureyrar og Lambeyrar.

[3] Sömu heimildir. Jóhann Skaptason 1959, 140.

[3] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 339.

[4] Sama heimild.

[5] Sama heimild, 340.

[6] Sama heimild.

[7] Sama heimild.

[8] Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, 324-325.

[9] Þjóðsögur Jóns  Árnasonar I, 324-325.

[10] Örnefnaskrá Lambeyrar/Helgi Guðmundsson.

[11] Sama heimild.

[12] Sama heimild.

[13] Gráskinna hin meiri 1962, I, 49-51.

[14] Sama heimild.

[15] Gráskinna hin meiri 1962, I, 49-51.

[16] Sýslulýsingar 1744-1749, 144 (gefnar út 1957).

[17] Vestfirskar þjóðsögur III, 33.

[18] Manntal 1890.

[19] Sóknarmannatöl Stóra-Laugardalssóknar.

[20] Manntal 1910.

[21] Manntal 1920.

[22] Hallbjörn Oddsson 1963, 149 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[23] Freyr XI, 148 (tímarit).

[24] Ingivaldur Nikulásson 1942, 111 (Barðstrendingabók). Jóhann Skaptason 1959, 140 (Árbók F.Í.).

[25] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 218.

[26] Vestfirskar þjóðsögur III, 33.

[27] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 248.

[28] Martin Schuler 1994, 63 (Búsetuþróun á Íslandi 1880-1990).

[29] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 340-341.

[30] Sóknalýs. Vestfj. I, 242.

[31] Alþingisbækur Íslands XI, 64.

[32] Sama heimild, 62.

[33] Sama heimild, 64.

[34] Alþingisbækur Íslands XI, 63-64.

[35] Alþingisbækur Íslands XI, 64-65 og 72.

[36] Sama heimild, 72.

[37] Alþingisbækur Íslands XI, 63.

[38] Alþingisbækur Íslands XI, 73-74.

[39] Lbs. 4034to, bls. 28.

[40] Alþingisbækur Íslands XI, 74.

[41] Alþingisbækur Íslands XI, 64.

[42] Sama heimild, 74.

[43] Sama heimild, 145.

[44] Alþingisbækur Íslands XI, 147.

[45] Sama heimild.

[46] Sama heimild, 640, registur.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »