Látrabjarg

Alvotur stendur upp að knjám

öldubrjóturinn kargi

kagandi fram á kalda röst

kvikur af fuglaþvargi;

býsn eru meðan brothætt jörð

brestur ekki undan fargi

þar sem á hennar holu skurn

hlaðið var Látrabjargi.[1]

 

Þannig yrkir Jón Helgason prófessor um hamrabjargið mikla yst við norðanverðan Breiðafjörð og dregur upp skarpa mynd með fáum orðum.

Látrabjarg er um fjórtán kílómetrar á lengd, óslitinn hamraveggur frá austri til vesturs með sjó fram. Hæst er bjargið 441 metri við Heiðnukinn en víðast hvar er hæð þess 250 til 400 metrar og allra vestast er það lægra. Bjargið hefst við Brimnes, rétt vestan við Keflavík, og teygir sig lengst til vesturs á Bjargtöngum sem eru vestasti oddi landsins á 24°32’3” vestlægrar lengdar. Út af Bjargtöngum er Látraröst, einhver varasamasta sjávarröst við Íslandsstrendur hvenær sem sjó ygldi.

Fjórar jarðir í Rauðasandshreppi eiga Látrabjarg. Þær eru Keflavík, Breiðavík, Saurbær (þ.e. Saurbæjarkirkja) og Hvallátur. Skiptist bjargið í fjóra hluta milli þessara eigenda og er hlutur Látramanna mestur. Innst er Keflavíkurbjarg og nær frá Brimnesi að forvaða undir bjarginu sem heitir Gorgán. Þá tekur við Breiðavíkurbjarg, frá Gorgán og að Melalykkju austan við Geldingsskorardal, en þvínæst Bæjarbjarg sem nær að Saxagjá. Ysti hluti bjargsins, frá Saxagjá að Bjargtöngum tilheyrir Hvallátrum og heitir aðeins Látrabjarg.[2] Nafnið Látrabjarg nær þó líka yfir hina hluta bjargsins, enda þótt hver þeirra um sig eigi að auk sitt sérstaka nafn.

Frá Bjargtöngum að Djúpadal, sem er rétt innan við Saxagjá, er bjargið þverhníptur hamraveggur frá fjöru á brún. Vegalengdin eftir bjargbrúninni inn af Djúpadal er um sjö kílómetrar.

Liðlega tveimur kílómetrum fyrir austan Bjargtanga skagar um 80 metra há hamrabrík út úr bjarginu um 60 metra í sjó fram. Breiddin að ofan er frá 20 sentimetrum upp í 2 metra.[3] Hamrabrík þessi heitir Barð.

Margir hafa velt því fyrir sér hvort nafnið á Barðaströnd og þar með Barðastrandarsýslu tengist með einhverjum hætti Barðinu í Látrabjargi. Svo virðist þó ekki vera. Bæði er ærin vegalengd frá Barðinu inn á Barðaströnd og auk þess sýnist nafn Barðastrandar ekki vera dregið af einu Barði heldur tveimur eða fleiri Börðum ellegar einum Barða. Reyndar má telja nær fullvíst að allt Látrabjarg eða a.m.k. meginhluti þess hafi verið nefnt Barð á fyrstu öldum Íslandsbyggðar en það skýrir þó ekkert frekar nafnið á Barðaströnd. Verður sú gáta að vera óleyst að sinni en benda má á skynsamlega tilgátu Trausta Ólafssonar prófessors sem taldi að Börðin væru fjöllin upp af Barðaströnd.[4]

Í Landnámu er tvívegis minnst á Barð. Á einum stað segir þar að Örlygur Hrappsson hafi siglt vestan fyrir Barð og suður á Kjalarnes við Faxaflóa. Á öðrum stað segir frá Þórólfi spörr landnámsmanni á Hvallátrum og þess getið að hann hafi numið Patreksfjörð allan fyrir vestan og víkur fjórar fyrir norðan Barð og hina fimmtu Keflavík fyrir sunnan Barð.[5]

Í Þorgils sögu skarða, er greinir frá atburðum á 13. öld, segir frá því að Gísli Markússon í Saurbæ á Rauðasandi og Seldælir í Arnarfirði hafi deilt um bergtoll af Barðsgnípu.[6]

Öll þau ummæli sem hér hefur verið vitnað í benda til þess að Látrabjarg hafi verið nefnt Barð en ekki aðeins hamrabríkin sem nú ber það nafn. Barðsgnípa kynni þá að hafa verið Barðið sem nú er nefnt svo. Í kirknaskrá Páls biskups frá því um 1200 og í Gottskálksannál árið 1327 mun Barð einnig vera notað sem heiti á Látrabjargi.[7]

Þrjár dalkvosir skerast niður í bjargbrúnina utan frá Saxagjá og inn að Keflavíkurbjargi. Yst þeirra er Djúpidalur sem gengur um 200 metra niður í bergið og er hann mestur og grösugastur. Vestan að honum liggur Heiðnakinn en að austan Kristnakinn, báðar grösugar. Niður undan Kristnukinn eru grasigrónar hlíðar, er nefnast Undirhlíðar, og er þar mest lundavarp í öllu bjarginu.[8] Næsti dalur fyrir austan er Geldingsskorardalur í Bæjarbjargi. Í vesturbrún hans er hvannstóð mikið og heita þar Hvannhillur en austan dalsins er Eyjarskorarnúpur. Í austanverðum Geldingsskorardal heitir Þorsteinshvammur. Þar í hvamminum var heyjað um aldamótin 1900[9] og máske lengur. Sótt var til heyskapar víðar um bjargbrúnina og jafnvel niður í bjargið þar sem heitir Saxagjárvöllur, vestan við Saxagjá.[10] Af Eyjarskorarnúp blasir við byggðin á Rauðasandi, allt til Skorar, en austan núpsins tekur við Lambahlíðardalur. Undirhlíð dalsins heitir Lambahlíð og þar er sums staðar hægt að ganga alveg niður í fjöru.[11] Þar er sauðbeit og má segja að bjargið slitni þarna í sundur á einum stað.

Undir Lambahlíð er Lögmannsvogur þar sem Oddur Sigurðsson lögmaður braut skip sitt Svan, seint í ágúst árið 1714.[12] Var Svanur talinn stærsta skip sem þá var til á Íslandi og sagður bera 300 vættir eða um tólf tonn.[13] Sagnir herma að Þormóður Eiríksson, skáld og kunnáttumaður í Gvendareyjum, hafi valdið þessum hrakningi lögmanns. Var Oddur á heimleið frá Rifi að Narfeyri með skip sitt hlaðið af kaupstaðarvöru. Hafði lögmaður góðan byr inn Breiðafjörð en fram undan Eyrarsveit mætir hann öðrum báti og áttu skipverjar á honum við andbyr að stríða á sinni leið út undir Jökul. Kastar lögmaður til þeirra þessum orðum: Nú er byr á Barðaströnd en formaður á bátnum hafði áður lent í hrakningum yfir Breiðafjörð og náð landi á Barðaströnd. Þormóður skáld var á fleytunni sem lögmaður mætti og mun hafa viljað launa Oddi köpuryrðin. Snerist þá vindur skjótt í hvassa suðaustanátt svo vonlaust var fyrir Odd að berja á móti veðrinu. Hraktist hann yfir Breiðafjörð og í átt til hafs en náði að lokum landi undir Látrabjargi þar sem síðan heitir Lögmannsvogur.[14]

Skip lögmanns brotnaði í spón en mannbjörg varð. Ef marka má munnmæli var það þakkað Jóni Þorgilssyni í Brandsbúð á Stapa er var á skipi með Oddi. Sagt er að hann hafi gengið undir bjarginu inn að Keflavík og fengið þar mannhjálp til að draga skipbrotsmennina upp á brún. Er hann, að sögn, sá eini maður sem vitað er að komist hafi fyrir forvaðann Gorgán eða yfir hann.[15] Aðrir rita að Jón í Brandsbúð hafi komist upp á bjargið og síðan hinir allir í gegnum klettaskoru eina.[16] Hugðu flestir eigi annað en skip og menn mundu týnst hafa en um veturinn urðu menn þess vísir að Oddur lögmaður lifði.[17]

Fært mun vera úr fjöru á brún um Lambahlíð og innantil í bjarginu má allvíða feta sig eftir syllum frá brún og alllangt niður í bergvegginn.[18] Vestan við Djúpadal er eingöngu fært úr fjöru á brún í Saxagjá.[19] Bjargbrúnin er öll vel gróin og voru hestar látnir ganga á bjarginu fram undir jól.[20] Þar var einnig heyjað. Sauðlauksdalskirkja átti beitarítak á bjarginu, hagagöngu fyrir 60 sauði. Sagt var að í tíð séra Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal, á síðari hluta 18. aldar, hafi sauðamanninn og alla sauðina hrakið í sjó og ítak þetta ekki verið nýtt þaðan í frá.[21]

Jón Jónsson, sem kallaður var Íslendingur og bjó í Sauðlauksdal um 1500, gaf Sauðlauksdalskirkju þessi fríðindi og mörg önnur, m.a. einn bjarghlut af Látrabjargi (utan Saxagjár) og annan af Keflavíkurbjargi.[22] Í sóknarlýsingunni frá 1840 segir að meðal ítaka Sauðlauksdalskirkju sé bjargið í Keflavík og tollaust bjarg á Látrum til fyglingar.[23] Þar er einnig nefnt beitarítakið sem fyrr var getið um. Eggert Ólafsson greinir svo frá að Sauðlauksdalskirkju hafi verið gefinn árlegur hvannskurður í Látrabjargi, svo mikið sem 6 menn skera á einum degi eða einn maður á 6 dögum.[24]

Öldum saman voru bjargferðir stór þáttur í fæðuöflun fólksins í nágrenni Látrabjargs. Á ári hverju var ógrynni af fugli og eggjum tekið úr bjarginu. Fuglinn var saltaður til vetrarins en fiðrið selt og var bringufiðrið dýrast.[25]

Eggert Ólafsson lýsir bjargferðunum fyrstur manna með skipulegum hætti í rituðu máli og á lýsing hans við tímann um miðja 18. öld. Þorvaldur Thoroddsen kom á Látrabjarg á veiðitímanum sumarið 1886 og hefur lýst nokkuð háttum manna við bjargsigið. Loks hefur Eyjólfur Sveinsson, bóndi og kennari á Lambavatni á Rauðasandi, fæddur þar 1885, ritað skilmerkilega um fuglaveiðar og eggjatöku í Látrabjargi og er ritgerð hans birt í Barðstrendingabók er út kom 1942. Verður hér stuðst við skrif allra þessara manna auk annarra heimilda.

Í marsmánuði fer svartfuglinn að koma að bjarginu.[26] Komutíminn fer samt nokkuð eftir veðri og seinkar komu fuglsins í kuldatíð.[27] Um mánaðamótin maí-júní byrjar varpið en getur þó dregist ef illa vorar. Fyrst verpir langvían neðarlega í bjarginu en nefskeri og hringvían ofar. Á urðum undir því verpir álkan og lundinn, hann verpir líka uppi á bjarginu.[28] Einnig verpa rita og fýll nú um allt bjargið.

Eggert Ólafsson segir að veiðitíminn hefjist um hina nýju krossmessu[29] og á þá væntanlega við vinnuhjúaskildaga þann 14. maí (gamla krossmessa var 3. maí). Þá er fuglinn rétt að byrja að setjast upp og trúlegt að svo snemma á vori hafi menn aðeins sótt sér lítilræði af fugli til matar. Undir lok maí byrjar fuglinn að verpa og hófust þá eggsig sem stóðu í allt að hálfan mánuð.[30]

Á nítjándu öld hófst fuglaveiðin yfirleitt ekki fyrr en í júlímánuði og stóð yfir í nokkrar vikur. Fuglveiði tíðkast í tólftu viku sumars í Látrabjargi, segir séra Gísli Ólafsson í sóknarlýsingunni frá 1840.[31] Bæði hjá Þorvaldi Thoroddsen og Eyjólfi Sveinssyni kemur fram að fuglaveiðin hefur verið stunduð frá júlíbyrjun og nokkuð fram í síðari hluta þess mánaðar.[32] Þá hafa menn verið á bjargi í nokkra daga hver hópur á tímabilinu frá vertíðarlokum til sláttar.

Eggert Ólafsson talar um þrjár veiðiaðferðir við fuglaveiðina. Í fyrsta lagi klifra menn í bjargið bæði ofan frá og neðan. Í öðru lagi var farið í handfesti og var festin 30 til 40 faðma löng. Væru tveir menn saman hélt annar í festina meðan hinn fór niður, annars var efri endi handvaðsins settur fastur á brúninni.[33] Í þriðja lagi var svo sigið í bjargið. Segir Eggert þá aðferð mest notaða og lýsir henni nánar.

Bjargfestin sem notuð var til siga var þegar best lét gerð úr fjórum til sjö þáttum úr uxahúð og því ærið sterkleg. Festin var 60-100 íslenskir faðmar á lengd, að sögn Eggerts, og mun hann þá trúlega telja hvern íslenskan faðm vera þrjár íslenskar álnir en á 18. öld var hver íslensk alin 57 sentimetrar. Samkvæmt því hefur lengd festarinnar yfirleitt verið á bilinu 100 til 170 metrar. Með lengstu festinni hefur þá mátt síga niður á Barðið en þangað eru einmitt um 170 metrar ofan frá brún.[34]

Á dögum Eggerts fóru menn þó sjaldan lengra en 50 faðma (85,5 m) niður[35] en undir lok 19. aldar var sigið mun lengra eða lengst 225 metra.[36] Eggert upplýsir að 80 faðma festi úr sjö þáttum hafi vegið 60 kíló og kostað um miðja 18. öld 20 ríkisdali spesíumyntar eða sem svaraði 5 jarðarhundruðum. Í slíka festi þurfti 16 nautshúðir.[37] Bjargstokkur úr timbri var lagður á brúnina svo að annar endinn stóð fram af. Á þeim enda stokksins lék bjargfestin í rauf eða hjóli, segir Eggert. Þann sem niður fór kalla þeir Eggert og Þorvaldur Thoroddsen sigamann en Eyjólfur á Lambavatni nefnir hann aftur á móti sigara. Eggert lýsir vel hvernig búið var um sigamanninn í festinni:

 

Til þess að vel geti farið um sigamanninn er gerður gildur hringur úr festinni. Heitir hann festarauga. Hringur þessi er fóðraður með vaðmáli eða gæruskinni. Liggur hann um neðanverðar lendar sigamannsins og er festur á milli fóta hans og gengur festin upp fyrir framan hann en fyrir neðan hendur er hún tengd við hann með breiðri gjörð, sem spennt er utan um hann svo að hann geti ekki endastungist.[38]

 

Um aldamótin 1900 var festin eða vaðurinn ekki lengur úr uxahúð heldur gildir strengir úr tjörukaðli[39] og Þorvaldur Thoroddsen lýsir bindingunni svo að vaðnum sé brugðið undir lendar sigamannsins og kappmellu um mittið.[40]

Sérhverri festi fylgdi grönn taug, sem kallaðist leynivaður, og notaði sigamaður hann til að koma skilaboðum með sérstöku merkjamáli til þeirra sem voru á brún.[41] Helstu merkin sem notuð voru við sig í Látrabjargi voru þessi:

 

  1. Einn sterkur kippur merkti að sigarinn vildi fá slaka á vaðinn
  2. Tveir kippir merktu að taka átti slaka af vaðnum eða draga sigarann spottakorn upp á við. Þegar sigarinn var kominn svo hátt sem hann ætlaði sér lét hann sig síga í og gaf þannig til kynna að ekki ætti að draga lengra.
  3. Þegar slaki hafði verið tekinn af vað og síðan átti að gefa spöl niður var merkið nokkrir smákippir.
  4. Þrír ákveðnir kippir merktu að draga átti alla leið á brún.[42]

 

Niður í bjargið hafði sigamaður með sér 6 til 10 álna (3,7 – 6,3 m) langa bjargstöng. Á öðrum enda hennar var járnkrókur, sem nota mátti til að krækja í bjargið, en á hinum endanum var snaran sem notuð var við fuglaveiðina, gerð úr hvalskíði eða hrosshári.[43] Stöngina notaði sigamaður til að stýra sér þegar sigið var.

Um miðja 18. öld voru fjórir til sex menn á bjargbrún við hverja festi og sáu þeir um að gefa eftir eða draga upp eftir merkjum frá sigamanninum. Auk þess sat einn á klettasnös og var verkefni hans að fylgjast með sigamanninum niður í í bjarginu. Kallaðist hann setumaður og starf hans hét að vera á vaðbergi.[44] Er Þorvaldur Thoroddsen kom á Látrabjarg voru mun fleiri á brún um hverja festi en verið hafði á dögum Eggerts og segir hann þá tíu til fimmtán, – standa þeir allir nema sá sem er við hjólið, hann situr og spyrnir í.[45]

Þegar sigamaður kemur niður í bjargið losar hann sig úr festinni á einhverri syllunni og safnar eggjum eða snarar fugla að vild.[46]

Eggert Ólafsson tekur fram að sú lýsing sem hann gefur á öllum búnaði við bjargsigið og hér hefur verið vitnað til eigi við hið besta sem þekkist í þeim efnum. Hann nefnir líka að fátæklingar séu oft mjög vanbúnir í bjargferðum en reyni þá stundum að bæta það upp með dirfsku sem mörgum hafi orðið að fjörtjóni. Eggert ritar:

 

Til dæmis má geta þess að í Látrabjargi, sem margir sækja í, nota menn oft aðeins 40 til 50 faðma langa festi, sem oft er úr gömlum skipskaðli, sem ekki er nándar nærri nægilega sterkur. Í stað festaraugans eru settir 2 hnútar á taugina og við þá gerðar 2 lykkjur, sem sigamaðurinn hangir í á líkan hátt og áður var lýst. Oft vantar bæði leynivað og bjargstöngina eða bjargstöngin er mjög grönn og veik.[47]

 

Fátæktin hefur kostað margan lífið.

Í Látrabjarg var sigið eftir eggjum á daginn og við það voru menn aðeins einn dag í senn.[48] Eftir fugli var hins vegar eingöngu sigið á nóttinni og þá héldu menn til á bjarginu í nokkra sólarhringa. Þorvaldur Thoroddsen ritar svo: Þegar sól er gengin úr bjargi á kvöldin byrja menn að síga og er hætt allri veiði þegar sólin kemur aftur af því fuglinn er styggur í sólskini.[49] Þorvaldur lýsir því líka vel hvernig fuglinn var fluttur upp á brún:

 

Jafnóðum og fuglinn er snaraður eru fuglakippurnar dregnar upp á brún. Eru kippurnar bundnar hver fyrir ofan aðra á vaðinn. Þegar maður fer upp í sömu ferðinni eru fuglakippurnar hafðar fyrir ofan hann svo maðurinn, ef steinn fellur, geti dregið sig inn undir kippurnar.[50]

 

Í hverri kippu voru 30 fuglar.[51] Að sögn Eyjólfs Sveinssonar voru fuglakippurnar ekki dregnar upp jafnóðum heldur margar í lotu þegar sigarinn gerir hlé á veiðinni.[52] Mikið af fugli rotast jafnan við steinkast úr bjarginu og fellur dauður niður í fjöru. Slíkir fuglar voru kallaðir bjargfall. Stundum var róið undir bjargið og eitthvað hirt af nýdauðum fugli. Í slíkum ferðum urðu menn að gæta þess að tala ekki hátt. Við allan hávaða kemst hreyfing á loftið og þá er hætt við grjóthruni.[53]

Einnig var farið í bjargið að neðan eftir fugli og eggjum. Til fuglaveiða var venjulega farin ein undirbjargsferð á sumri frá hverju heimili.[54] Þorvaldur Thoroddsen ritar:

 

Ganga menn þá lausir og klifra eftir örmjóum röndum, stundum upp fyrir mitt bjarg. Styrkir þá hver annan með litlu bandi. Af stærri hillunum er sigið á þá palla, sem eigi verður gengið í, og hafa menn til þess handvaði. Fyrir neðan fara bátar með bjarginu og er fuglinum kastað niður til þeirra.[55]

 

Í slíkum ferðum var venja að formaður væri kyrr í bátnum og að hinir færu aldrei lengra en svo að til þeirra sæist úr bátnum.[56]

Þorvaldur Thoroddsen segir að mest sé um langvíu í Látrabjargi en einnig aðrar tegundir af svartfugli, það er álka og stuttnefja. Lundann flokkar hann ekki sem svartfugl. Hann nefnir einnig ritu, svartbak og máva en þegar Þorvaldur var hér á ferð var enn lítið um fýl í bjarginu. Rituungar voru teknir í Saxagjá snemma í ágúst og lundakofur í Bæjarbjargi (Undirhlíð) í síðari hluta ágúst.[57]

Eggert Ólafsson kallar þá staði í bjarginu höld þar sem fuglaveiði var veruleg.[58] Eyjólfur Sveinsson nefnir þá einnig svo en notar líka annað orð og kallar þessa staði flæmi eða fuglaflæmi.[59] Bestu flæmin í Látrabjargi (utan við Saxagjá) segir hann vera Miðlandahillu, Melahvappshillur og Kvíarhillur en þar voru hlaðnar sérstakar kvíar svo auðveldara yrði að hremma fuglinn. Í Bæjarbjargi getur Eyjólfur um Heiðnakast, Vælaskor, Kingjulönd, Hálsa og Háhöldin.[60]

Fram undir aldamótin 1900 var almennt farið á bjarg úr Rauðasandshreppi. Látramenn höfðu þó sitt bjarg eingöngu fyrir sig og lánuðu það ekki öðrum.[61] Þeir sem ekki áttu hlut í bjarginu fengu einkum að fara í Bæjarbjarg.[62] Venja mun hafa verið að landeigandi tæki tíunda hvern fugl í bjargtoll[63] ellegar einn hlut þegar skipt var.[64] Aðrir dauðir hlutir voru vaðarhlutur, sem eigandi festarinnar fékk, og hættuhlutur sem sigarinn fékk aukalega, umfram þá sem voru á brún.[65] Sömu reglur giltu við skipti á eggjum og fugli.

Þegar Eyjólfur Sveinsson á Lambavatni ritaði um bjargferðirnar nálægt 1940 hafði fuglaveiðum í bjarginu verið hætt en enn var farið til eggja. Eyjólfur þekkti þó bjargferðirnar af eigin raun eins og þær höfðu tíðkast í fyrri daga. Til að skýra myndina af þessum mikilvæga þætti í bjargræði fólks í Rauðasandshreppi verður dálítill hluti af lýsingu Eyjólfs tekinn hér upp. Um bjargferðir til eggjatöku frá Látrum ritar hann svo:

 

Allir fóru á bjargið, sem farið gátu, konur og karlar, og hlutgengir voru allir sem fermdir voru. Bjargferðirnar stóðu yfir tvær eða þrjár vikur. Voru það erfiðir dagar, einkum fyrir kvenfólkið því að vinna varð nótt með degi að reyta fuglinn svo að hann skemmdist ekki. …

Þegar farið er á bjarg er valið til þess þurrt veður. Í regni eða vætu er ekki farið sökum hættu af steinkasti og hálku í bjarginu. Daginn sem fara skal á bjarg frá Látrum er vaknað um sólaruppkomu. Eru þá reknir heim hestar til að reiða á þeim eggjakassana og vaðina. … Þegar öllum undirbúningi er lokið er lagt af stað og fylgist allt fólkið. Sigararnir fara á undan, taka ofan húfurnar signa sig og lesa bænir sínar. Þegar komið er á bjargið, sem er nær tveggja stunda ferð frá Látrum, er hitað kaffi og búist til að síga. Sigarinn steypir yfir sig bjargskrúðanum, sem er stór strigakufl. Á honum eru op fyrir höfuð og handleggi, svo stór að inn um þau geti hann látið á sig eggin. Hypjar hann svo kuflinum sem best upp á bakið og bindur hann svo með snæri að sér í mittið svo að eggin hrynji ekki niður. Í þennan bakpoka komast 150 egg, ennfremur hefur hann poka undir egg á öðrum handleggnum. Ef sigararnir eru þrír skiptir fólkið sér á milli þeirra. … Velur hann [sigarinn] svo einn úr liði sínu, sem hann treystir vel, að vera við hjólið. Er hann kallaður „hjólmaður”. Verður hann að vera athugull og gætinn. Hjólið er stórt skoruhjól, sem vaðurinn leikur í, en það snýst milli tveggja kjálka og er það haft fremst á brúninni, svo að vaðurinn skerist ekki niður í bjargbrúnina.

Svo kveður sigarinn fólkið, allir óska honum góðrar ferðar, hann signir sig og hverfur um leið ofan fyrir brúnina með aðra höndina á vaðnum. Gefið er eftir viðstöðulaust þar til maðurinn hefur náð þeirri hillu, sem hann ætlar sér að komast á. … Venjulega er maður látinn vera á vaðbergi – gægjum – og segir hann til ef sigarinn biður einhvers. Ef ekki sést til hans af brúninni kippir hann þrisvar í vaðinn ef hann vill láta draga sig upp aftur en einu sinni ef hann vill síga lengra. Er það hjólmannsins að taka eftir því enda má hann ekki sleppa höndunum af vaðnum. Þegar gefið er eftir sitja allir, hver að baki öðrum, en þegar dregið er standa flestir upp, nema hjólmaðurinn, og sumir bregða um bak, – leiða.[66]

 

Ekki var óalgengt að sigari fengi á þriðja þúsund egg einn og einn dag og Hafliði Halldórsson, sem stundaði bjargsig um 1920, kvaðst eitt vorið hafa fengið hátt á fimmta þúsund egg á tveimur dögum.[67]

Eyjólfur Sveinsson lýsir líka bjargferðum til fuglaveiða, bæði frá Látrum og af Rauðasandi. Hann segir þar m.a.:

 

Þegar farið var á Bæjar- og Breiðavíkurbjarg var óvíða sigið af brún en gengið niður í bjargið og sigið þaðan. Það varð að leggja af stað snemma dags af Rauðasandi og úr Firðinum þegar farið var á bjarg til þess að vera kominn niður í bjargið um sólarlag því að þá byrjaði veiðitíminn. Farið var í félagi af nokkrum bæjum og var foringinn vanur bjargferðum og góður sigari. Hestar þeir, sem til voru á heimilunum, voru hafðir undir farangur og fugl, sem veiddist. Voru menn jafnan glaðir og vongóðir er lagt var af stað í bjargferðir. Ungu mennirnir hlökkuðu til að reyna fimi sína, hinir eldri lifðu í endurminningunum um fyrri ferðir og von um góðan afla. Þegar komið var á bjargið voru hestarnir tjóðraðir en menn bjuggu sig til niðurgöngu. Bera varð vaðina, nesti og fleira með sér. Þar sem torveldast var að fara var farið í lásum. Var þá vaðnum kastað niður fyrst en haldið í endann og renndu menn sér svo á höndum og fótum niður vaðinn en einn hélt við. Upp lása var farið þannig að spyrnt var fótum í bergið og handstyrkt sig svo upp vaðinn. Oft var endinn á vaðnum settur fastur um nef eða þúfu og renndu sér svo allir niður vaðinn en nefið hélt við og varð þá vaðurinn að liggja svo að komist yrði upp aftur. Þegar komið var þangað, sem síga skyldi, var valin aðseta og var það venjulega tæpt nef, brattar flesjur eða grastótur, um annað er ekki að velja. …

Þegar lokið var að snara fuglinn var hann dreginn upp í aðsetuna og svo var hann borinn upp bjargið, kippurnar látnar hanga yfir axlirnar. Þar sem „lásar” eru var fuglinn dreginn upp en víða er svo bratt og tæpir gangar að fáum er þar fært lausum nema vönum bjargmönnum.[68]

 

Dagurinn var notaður til að bera upp fuglinn, sem veiðst hafði yfir nóttina. Var það erfitt verk oft í steikjandi sólarhita og ekkert vatn að fá í bjarginu.[69]

Eyjólfur Sveinsson segir eingöngu hafa verið sigið í þurru veðri en á 18. öld sýnist þessu hafa verið öðru vísi háttað því að Eggert Ólafsson getur þess að eggin séu mest tekin í rigningartíð því að þá verpi fuglinn best.[70] Á dögum Eggerts voru fuglasnörurnar ýmist úr hrosshári eða hvalskíði (sjá hér bls. 6). Eyjólfur Sveinsson talar eingöngu um hrosshárssnörur og má ætla að snörur úr hvalskíði hafi ekki lengur tíðkast á hans dögum.

Þegar gengið var á bjarg báru sigararnir fuglasnörurnar um hattinn.[71] Guðbjartur Þorgrímsson, sem lengi bjó á Látrum og andaðist á áttræðisaldri árið 1956, sagði þetta hafa verið gert til þess að venja þær svo að sveigur þeirra yrði haldbetri og svitinn mýkti þær.[72] Fuglasnara Guðbjarts er nú í Byggðasafninu á Ísafirði fléttuð úr 16 taglhárum ungs fola.[73]

Frá Látrum sóttu börn og unglingar fuglinn á bjargbrún og reiddu heim á hestum.[74] Á hverjum hesti voru reiddir 120 fuglar.[75] Var fuglinn settur inn í hlöður og þar voru börnin látin nefja fuglana, það er hengja þá upp með því að stinga hverju fuglsnefi í torfveggi hlöðunnar. Þarna hékk fuglinn þar til konur tóku hann ofan og plokkuðu.[76]

Þorvaldur Thoroddsen segir að sumarið 1886 hafi 36.000 svartfuglar verið veiddir í Látrabjargi.[77] Fjöldi heimila í Rauðasandshreppi var þá 84,[78] og hafi þetta þá verið 428 fuglar á hvert heimili í hreppnum að jafnaði. Í annarri heimild frá sama tíma kemur fram að í bestu fuglatekjuárum hafi fengist um 50.000 fuglar í Látrabjargi en stundum hálfu minna.[79] Um Guðbjart Þorgrímsson á Hvallátrum, sem áður var nefndur, er sagt að hann hafi eitt sinn veitt 900 fugla á einni nóttu[80] og nóttina áður en Þorvaldur Thoroddsen kom á Látrabjarg 1886 höfðu 2160 fuglar (18 stór hundruð) verið teknir á Barðinu einu.[81] Samt sást þar ekki auður blettur.

Vanalegt verð á svartfugli á brún er gömul vætt fyrir stórt hundrað, segir Þorvaldur.[82] Í landaurareikningi gilti vættin 20 álnir og hafa þá verið 720 fuglar í kýrverðinu. 900 fugla veiði á einni nóttu hefur því gefið góðar tekjur, jafnvel þó skipt væri í tíu til fimmtán hluti. Síðar var verð á óreyttum svartfugli ein króna fyrir tíu fugla en fimmtán fuglar fyrir krónuna af söltuðum fugli.[83] Þarna er líklega vísað til áranna 1900-1913 en þá voru greiddar kr. 2,42 til kr. 2,84 fyrir dagsverk um heyannir í Barðastrandarsýslu.[84]

Það höfðu menn fyrir satt að Guðmundur biskup góði hefði vígt nær allt Látrabjarg á ferðum sínum um Vestfirði en þó skilið eftir Heiðnakastið vestan við Djúpadal þar sem bjargið er hæst. Þar þótti lengi vel ekki hættandi á að síga. Ýmsar gerðir eru til af sögunni um vígslu Látrabjargs. Í Vestfirskum sögnum er sagan birt eftir handriti Gísla Konráðssonar með einhverjum viðbótum. Þar er meginefnið þetta:

Á dögum Guðmundar biskups Arasonar þóttust menn þess vísir að óvættur byggi í Látrabjargi. Urðu sigamenn þá fyrir svo miklum slysum að ekki þótti einleikið. Kom það oft fyrir er sigamaður var niðri í bjargi að þeir sem gættu festarinnar urðu þess vísir að hún var allt í einu mannlaus. Fannst sigamaðurinn síðan dauður undir bjarginu með nokkuð af festinni við sig en endar hennar eins þeir hefðu verið skornir í sundur með beittu eggjárni.

Einu sinni sem oftar var sigamaður niðri í bjarginu. Kom þá grá loðin loppa út úr berginu með skálm eigi litla og ber hana að festinni svo að þegar fara í sundur tveir þættir en ekki hinn þriðji. Þorir nú maðurinn ekki að láta draga sig upp á einum þætti, sker hann því í sundur með hníf sínum og gefur merki um að draga festina upp. Farið var með festina heim að Látrum og hún fengin í hendur gömlum, blindum og karlægum manni sem fjölfróður þótti. Hann þefar úr þverskorna endanum og segir síðan að einn þátturinn sé skorinn sundur af mennskum manni en hinir tveir af einhverri óvætt. Var sigamanninum síðan bjargað heilum á húfi.

Upp úr þessu var leitað til Guðmundar biskups. Kom hann á bjargið og stefndi bjargbúanum fyrir sig. Ávítaði biskup hann harðlega fyrir illvirki sín og kvaðst mundi reka hann burt úr bjarginu. Bjargbúinn bað sér vægðar og sagði við biskup: Einhvers staðar verða vondar kindur að vera. Lauk viðræðum þeirra svo að biskup gaf bjargbúa þessum leyfi til að búa í þeim hluta bjargsins sem síðan hefur verið nefndur Heiðnabjarg og nær frá Djúpadal vestur að Saxagjá. Var þetta sá hluti bjargsins er óhægast þótti í að síga eða ganga fyrir mennska menn. Bannaði biskup bjargbúanum að fara nokkru sinni út fyrir mörk þau er hann nú hafði sett honum.

Síðan vígði Guðmundur biskup allt bjargið nema svæði það sem bjargbúanum var úthlutað. Þar bannaði biskup kristnum mönnum að síga eða nytja gæði þess bjarghluta á nokkurn hátt. Létti nú ásóknum bjargbúans, enda virtu menn öldum saman bann Guðmundar góða og létu vera að síga í Heiðnabjarg.[85] Heiðnakast heitir brík ein fram úr neðri hluta Heiðnabjargs.[86] Í Jarðabók Árna og Páls frá byrjun 18. aldar er minnst á Heiðnakast. Þar sígur enginn í, stendur þar.[87] Eggert Ólafsson minnist líka á þetta og segir:

 

En í bjarginu eru önnur svæði, sem engu eru verr fallin til veiða á, en menn þora með engu móti að síga í vegna ótta við hamratröll og forynjur, sem þeir halda að búi í bjarginu og skeri á festina. … Þessir staðir kallast heiðnaberg, það er óvígt bjarg, en öll höldin eiga að hafa verið vígð með vatni í kaþólskum sið.[88]

 

Um aldamótin 1800 mun aftur hafa verið byrjað að síga í Heiðnakast. Sagnir herma að þá dirfskuför hafi fyrstur farið Björn Bjarnason er þá bjó á Látrum. Um Björn og sig hans í Heiðnabjarg hefur þetta verið ritað:

 

Hann var athafnamaður mikill og lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Taldi hann það hégiljur einar að síga ekki í Heiðnabjargið. En sagt er að hann hafi kveðið eða látið kveða þakklætissálm til Drottins fyrir vernd hans eftir fyrstu ferðina. … Eftir þetta tókst upp veiði í Heiðnabjarginu sem annars staðar í Látrabjargi.[89]

 

Enn leið samt langur tími uns nokkur lagði í að klífa Heiðnakast, enda mun það flestum ófært. Jón Torfason á Hnjóti í Örlygshöfn, dáinn 1901, var einn færasti bjargmaður á sinni tíð. Kleif hann Heiðnakast fyrstur manna svo vitað sé.[90]

Einn mesti afreksmaður við bjargsig í Látrabjargi var á síðari hluta 19. aldar Árni Thoroddsen á Látrum. Þorvaldur Thoroddsen segir að eitt sinn hafi Árni sigið við annan mann ofan í hellisskúta er Jötunsaugu heita, 40 faðma loftsig. Þangað hafði þá aldrei áður verið sigið og ekki höfðu fleiri leikið þetta eftir er Þorvaldur kom á Látrabjarg vorið 1886 en hann gisti þá hjá Árna frænda sínum.[91] Jötunsaugu eru um það bil einum kílómetra austan við Barð. Sá sem þangað seig með Árna Thoroddsen var Jón Jónsson frá Vatneyri.[92]

Lengi var sú trú við lýði að flagðkonur tvær byggju í Látrabjargi, önnur í Heiðnukinn, vestan Djúpadals, en hin í Kristnukinn, austan dalsins. Eitt sinn lá skotmaður frá Látrum fyrir ref í Djúpadal og varð þar gott til fanga. Er hann hafði fengið 19 refi lá hann í skothúsi sínu. Þá heyrist sagt í Kristnukinn: Skal hann lengi líðast? Þá var svarað í Heiðnukinn: Hann skal gripinn fljótt. Þá var aftur svarað úr Kristnukinn: Látum hann fylla tuginn. Beið þá skotmaðurinn ekki boðanna en sneri óðara heim á leið. Veitti önnur flagðkonan honum eftirför. Vildi maðurinn þá skjóta á hana en byssan kveikti ekki. Slítur hann þá af sér silfurhnappana og hlóð byssuna með þeim. Kveikti þá byssan og skaut maðurinn 18 skotum á flagðkonuna á leiðinni heim að Látrum, síðasta skotinu þegar komið var að bænhúsinu, rétt sunnan við bæinn, – og slapp hann við það.[93]

Enda þótt flögðum og óvættum fækkaði í Látrabjargi er nýir tímar fóru í hönd gátu menn samt lengi átt þar á ýmsu von. Furðudýr sást fram á bjarginu haustið 1848.[94] Ekki löngu síðar varð vart við bjarndýr undir Látrabjargi en slíkt var mjög fátítt þar eð hafís kemst yfirleitt ekki suður fyrir Látraröst. Sáust dýrin, birna og húnn, fyrst á Stórurð undir bjarginu,[95] um það bil einum kílómetra fyrir vestan Saxagjá. Var þetta að vorlagi og náðu menn áður langt um leið að vinna dýrin.[96]

Trúlega hafa bjarndýrin á Stórurð unnist án mannhættu en tæpar hefur staðið þegar Rauðsendingar mættu vopnuðum Fransmönnum á sama stað vorið 1880. Nokkrir bændur af Rauðasandi höfðu þá farið á áttæring undir bjarg til fuglaveiða og er sagan af viðureign þeirra við Frakkana skráð í Vestfirskum sögnum[97] eftir nafngreindum heimildamönnum sem mundu atburðinn.

Formaður á bátnum var Jón Ólafsson á Sjöundá en hann mun ekki hafa farið í land. Þeir sem í land fóru gengu sumir upp í bjargið til veiðanna en aðrir fóru um fjöruna. Þeir sem fjöruna gengu urðu brátt varir við skothríð í bjarginu og er þeir komu nokkru utar sáu þeir útlenda menn með byssur og töldu þetta vera Frakka. Höfðu Frakkarnir skotið fugl úr bjarginu en slíkt athæfi var stranglega bannað.

Rauðsendingar þeir sem í fjörunni voru ákváðu nú að fara til móts við Frakkana og reka þá úr bjarginu. Mættust hóparnir á Stórurð, fimm Rauðsendingar og fimm Frakkar. Höfðu Frakkarnir tvær byssur og auk þess árar í höndum en Sigfreður Ólafsson í Stekkadal og hans liðsmenn vopnlausir, nema hvað þeir neyttu grjótsins í urðinni er bardagi hófst. Brátt náði Sigfreður byssu af fyrirliða Frakkanna og sló hann í rot með byssuskaftinu. Úr því lögðu Frakkarnir fljótlega á flótta en tvo liðsmanna sinna urðu þeir að bera um borð í léttbátinn. Var af ýmsum talið að þessir tveir hefðu jafnvel látist af áverkum. Aldrei varð samt neinn málarekstur út af þessu svo að slíkur orðasveimur mun hafa byggst á ýkjum.

Árið 1916 ferðaðist Sigurður Sigurðsson ráðunautur um Barðastrandarsýslu. Þá voru fuglaveiðar enn stundaðar í Látrabjargi þó að eitthvað muni hafa verið farið að draga úr þeim veiðiskap. – Í Látrabjargi er eggjataka svo þúsundum skiftir og eins veiðist þar mikið af svartfugli, segir Sigurður í skýrslu sinni um ferðina.[98]

Mörg slys hafa orðið við sig í Látrabjargi á liðnum öldum. Án lífsháska var ekki unnt að nytja bjargið. Magnús Gestsson nefnir í bók sinni Látrabjarg þrettán menn er farist hafi við fugla- og eggjatöku í bjarginu frá því á átjándu öld og til okkar daga.[99] Árið 1926 varð síðasta banaslysið. Fórust þá tveir ungir menn, Kristján Erlendsson frá Hvallátrum og Ástráður Ólafsson frá Keflavík. Þeir voru við eggjatöku í gangi skammt vestan Saxagjár.[100] Var Ástráður í aðsetu en Kristján að síga og mun hann hafa kippt Ástráði fram af brúninni um leið og hann hrapaði.[101] Um þetta leyti var farið að draga úr fuglaveiðinni og lagðist hún algerlega niður eftir þetta slys. Eggjataka var stunduð nokkru lengur og allt fram á síðustu ár hafa einstaka menn skotist til eggsiga á Látrabjarg. Þannig hefur verið haldið við fornri íþrótt, enda þótt bjargferðir séu ekki lengur sjálfsagður þáttur í búskaparháttum þeirra sem eiga hamratröllið yst við Breiðafjörð að granna og vin.

Enn er mörgum kunn sagan af björgunarafrekinu við Látrabjarg í desember 1947 þegar sveit vaskra manna úr Útvíkum og nágrenni bjargaði tólf skipbrotsmönnum af breska togaranum Dhoon við hinar erfiðustu aðstæður undir Látrabjargi. Þá kom sér vel að hinir eldri menn á Látrum kunnu merkin sem notuð höfðu verið við sig á fyrri tíð. Í þessu riti er aldrei fjallað að neinu marki um atburði 20. aldar og þess vegna ekki ritað hér um björgunarafrekið svo sem vert væri. Sú hetjusaga á þó mörgum öðrum fremur skilið að geymast og skal bent á frásögn Sigurbjörns Guðjónssonar, bónda í Hænuvík, í Árbók Barðastrandarsýslu árið 1948 og frásögn Magnúsar Gestssonar í bók hans Látrabjarg.[102] Strandstaðurinn er niður af Geldingsskorardal. Þar urðu menn fyrst að síga 150 metra niður á Flaugarnefið og síðan 80 metra standberg niður í fjöru. Alla leið í fjöruna fóru fjórir björgunarmannanna, Þórður Jónsson á Látrum, sem var  formaður sveitarinnar, Bjarni Sigurbjörnsson, þá ungur maður í Hænuvík, Andrés Karlsson úr Kollsvík og Hafliði Halldórsson á Látrum, elstur í þessum hópi. Þú þekkir merkin Daníel, sagði Hafliði um leið og hann renndi sér fram af brún Flaugarnefsins.[103]

Nokkrum skipsbrotsmanna tókst að koma upp á Flaugarnefið áður en dimmdi að þann 13. desember. Löng var vetrarnóttin á mjóu nefinu, mitt í hengiflugi bjargsins, og ekki síður í fjörunni hjá þeim sem þar biðu birtunnar í sautján klukkustundir.

Tæknin sem menn höfðu eina við að styðjast var aldagömul, nema hvað línubyssan var ný. Í bjargferðum höfðu menn löngum þurft að kosta sér öllum til. Líkamskrafta mátti ekki skorta þegar á hólminn var komið og því síður fyrirhyggju í öllum búnaði. Í aldalangri glímu við bjargið reyndi löngum bæði á afl og vit og svo var enn í þolraun desemberdaganna árið 1947.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jón Helgason: Áfangar  (Úr landsuðri 1948, 7).

[2] Pétur Jónsson 1942, 97 (Barðstrendingabók).  Eyjólfur Sveinsson 1942, 205 (Barðstrendingabók).

[3] Landið þitt Ísland III, 47.

[4] Trausti Ólafsson 1957, 5-8 (Árbók Barðastrandarsýslu 1955-1956).

[5] Íslensk fornrit I, 54 og 175.

[6] Sturlungasaga III, 270.

[7] Trausti Ólafsson 1957, 7.

[8] Bergsveinn Skúlason 1964, 260.

[9] Sama heimild, 261.

[10] Þorvaldur Búason í sjónvarpsfréttum 30.8.1988.

[11] Jóhann Skaptason 1959, 117 (Árbók F.Í.).

[12] Jón Espólín: Árbækur IX, 23.

[13] Öldin átjánda, 48.

[14] Bergsveinn Skúlason 1964, 265-266.

[15] Pétur Jónsson 1942, 97 (Barðstrendingabók).

[16] Jón Espólín: Árbækur IX, 23.

[17] Sama heimild.

[18] Jóhann Skaptason 1959, 117.

[19] Sama heimild.

[20] Eyjólfur Sveinsson 1942, 204 (Barðstrendingabók).

[21] Sama heimild.

[22] Sama heimild, 204-205.  Íslenskar æviskrár III, 167.

[23] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 213-214.

[24] Eggert Ólafsson 1975, I, 252.

[25] Eyjólfur Sveinsson 1942, 212 (Barðstrendingabók).

[26] Eggert Ólafsson 1975, I, 330.

[27] Eyjólfur Sveinsson 1942, 206.

[28] Sama heimild, 207.

[29] Eggert Ólafsson 1975, I, 330.

[30] Magnús Gestsson 1971, 109.

[31] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 212.

[32] Þorvaldur Thoroddsen 1959/ Ferðabók II, 21.  Eyjólfur Sveinsson 1942, 206 og 208.

[33] Eggert Ólafsson 1975, I, 330.

[34] Þorvaldur Thoroddsen 1959/ Ferðabók II, 23.  Eyjólfur Sveinsson 1942, 205 (Barðstrendingabók).

[35] Eggert Ólafsson 1975, I, 332.

[36] Þorvaldur Thoroddsen 1959/ Ferðabók II, 22.

[37] Eggert Ólafsson 1975, II, 56.

[38] Eggert Ólafsson 1975, I, 331.

[39] Eyjólfur Sveinsson 1942, 207 (Barðstrendingabók).

[40] Þorvaldur Thoroddsen 1959/ Ferðabók II, 22.

[41] Eggert Ólafsson 1975, I, 331.

[42] Magnús Gestsson 1971, 117 (Látrabjarg).

[43] Eggert Ólafsson 1975, I, 331.

[44] Sama heimild.

[45] Þorvaldur Thoroddsen 1959/ Ferðabók II, 22.

[46] Eggert Ólafsson 1975, I, 331.  Eyjólfur Sveinsson 1942, 209 (Barðstrendingabók).

[47] Eggert Ólafsson 1975, I, 331-332.

[48] Eyjólfur Sveinsson 1942, 208.

[49] Þorvaldur Thoroddsen 1959/ Ferðabók II, 21.

[50] Sama heimild, 22.

[51] Eyjólfur Sveinsson 1942, 209 (Barðstrendingabók).

[52] Sama heimild.

[53] Eggert Ólafsson 1975, I, 334.

[54] Eyjólfur Sveinsson 1942, 207, 210 og 212.

[55] Þorvaldur Thoroddsen 1959/ Ferðabók II, 22.

[56] Vestfirskar sagnir II, 339.

[57] Þorvaldur Thoroddsen 1959/ Ferðabók II, 21.  Eyjólfur Sveinsson 1942, 212.

[58] Eggert Ólafsson 1975, I, 332.

[59] Eyjólfur Sveinsson 1942, 205 (Barðstrendingabók).

[60] Sama heimild.

[61] Sama heimild, 206.

[62] Sama heimild.

[63] Þorvaldur Thoroddsen 1959/ Ferðabók II, 22.

[64] Eyjólfur Sveinsson 1942, 208.

[65] Sama heimild.

[66] Eyjólfur Sveinsson 1942, 207-208 (Barðstrendingabók).

[67] Magnús Gestsson 1971, 119.

[68] Eyjólfur Sveinsson 1942, 211 (Barðstrendingabók).

[69] Sama heimild, 212.

[70] Eggert Ólafsson 1975, I, 330.

[71] Eyjólfur Sveinsson 1942, 208.

[72] Þorsteinn Einarsson 1984, 101 (Ársrit Sögufél. Ísf.).

[73] Sama heimild, 102.

[74] Sama heimild, 104.

[75] Eyjólfur Sveinsson 1942, 209.

[76] Þorsteinn Einarsson 1984, 105.

[77] Þorvaldur Thoroddsen 1959/ Ferðabók II, 22.

[78] Sóknarmannatal Sauðlauksdalspr.k. 1886.

[79] Hermann Jónasson 1888, 159 (Búnaðarritið 2. árgangur).

[80] Þorsteinn Einarsson 1984, 104 (Ársrit Sögufél. Ísfirðinga).

[81] Þorvaldur Thoroddsen 1959/ Ferðabók II, 23.

[82] Sama heimild, 22.

[83] Eyjólfur Sveinsson 1942, 212 (Barðstrendingabók).

[84] Hagskinna 1997, 606-607.

[85] Vestfirskar sagnir I, 164-166.

[86] Magnús Gestsson 1971, 166.

[87] Jarðab. Á. og P. VI, 310.

[88] Eggert Ólafsson 1975, I, 332.

[89] Vestfirskar sagnir I, 167.

[90] Eyjólfur Sveinsson 1942, 206 (Barðstrendingabók).

[91] Þorvaldur Thoroddsen 1959/ Ferðabók II, 21. Sami 1923, 98 (Minningabók II).

[92] Magnús Gestsson 1971, 205-206.

[93] Vestfirskar sagnir I, 171.

[94] Vestfirskar þjóðsögur II, 87.

[95] Þorvaldur Thoroddsen hreppstjóri 1952, 97 (Árbók Barð. 1951).

[96] Sama heimild.

[97] Vestfirskar sagnir II, 337-342.

[98] Sigurður Sigurðsson 1919, 100 (Búnaðaramband Vestfjarða. Skýrslur og rit 1916-1917).

[99] Magnús Gestsson 1971, 170-178.

[100] Sama heimild, 177-178.

[101] Eyjólfur Sveinsson 1942, 212 (Barðstrendingabók).

[102] Sigurbjörn Guðjónsson 1948, 63-75 (Árbók Barðastr.sýslu). Magnús Gestsson 1971, 29-97.

[103] Magnús Gestsson 1971, 51.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »