Meðaldalur

Bærinn í Meðaldal stóð neðst í samnefndum dal, utantil við ána. Þar stendur enn (1991) á háum hól stórt íbúðarhús úr steinsteypu þó jörðin hafi farið í eyði árið 1959 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 175). Nafnið Meðaldalur á sér að líkindum þá skýringu að dalur þessi liggur mitt á milli tveggja annarra dala sem eins og hann hafa sína meginstefnu frá norðri til suðurs og er þá átt við Haukadal og Kirkjubólsdal. Meðaldalur er tæplega fjórir kílómetrar á lengd en aðeins 200-300 metrar á breidd víðast hvar. Beggja vegna dalsins rísa há klettafjöll. Að utan Hæðin, sem nefnd fullu nafni mun heita Meðaldalshæð, en að innan Hólafjall sem í sóknarlýsingunni frá því um 1840 er nefnt Þríhnúkafjall[1] en Þríhnúkar gnæfa þar við efstu brún. Fjallið Meðaldalshæð er 513 metra hátt en Hólafjall 653 metrar. Upp úr botni Meðaldals er fær nær klettalaus en brött gönguleið yfir í Fossdal í Arnarfirði og er þá farið rétt innan við hornið á Kaldbak, hæsta fjalli Vestfjarða. Skarðið sem farið er um liggur í um það bil 600 metra hæð. Meðaldalsá rennur um endilangan dalinn og er dálítið graslendi beggja vegna árinnar.

Bújörðin Meðaldalur var ætíð sú eina í dal þessum en stundum kom fólk sér hér fyrir í þurrabúð við sjóinn og um skeið var búið í Götu, hjáleigu neðst í dalnum, rétt innan við ána. Síðast mun fólk hafa átt þar heima um aldamótin 1700 og allt til ársins 1707 en þá eyddist hjáleiga þessi í stórubólu[2] og er ekki kunnugt um að þar hafi verið búið síðar. Eini bóndinn í Götu sem þekktur er með nafni er Bjarni Hávarðsson sem þar bjó 77 ára gamall árið 1703 með konu sinni og tveimur dætrum.[3] Líklega hafa þau flest eða öll dáið í bólunni fjórum árum síðar.

Árið 1710 töldu menn að byggð hefði verið stopul þarna í hjáleigunni fyrir 1680 en um það segir svo í Jarðabók Árna og Páls:

 

Gata … . Byggð í fyrstunni fyrir manna minni á fornu eyðibóli eftir því sem menn meina og líklegt sýnist af girðingum sem þar eru í kring en hefur þó langsamlega fylgt Meðaldal það menn til vita og lá mörg ár í eyði en byggðist upp aftur hér um fyrir 30 árum og varaði byggðin sú inn til bólunnar.[4]

 

Á árunum kringum 1700 var árleg landskuld hjáleigubóndans í Götu oftast ein eða ein og hálf vætt.[5] Á landsvísu taldist vættin samsvara einu ærgildi. Litlar hafa grasnytjar hjáleigunnar verið því aðeins var talið unnt að reita þar saman hálft kýrfóður.[6] Engu að síður fylgdi kotinu eitt innstæðukúgildi í eigu landsdrottins og fyrir það varð að greiða leigur í smjöri eins og venja var.[7] Líklega hefur oft verið lítið um feitmeti á heimili síðasta hjáleigubóndans í Götu þegar búið var að leggja til hliðar allt það smjör sem færa átti prófastinum í Holti, séra Sigurði Jónssyni, er átti jörðina. Án vafa hafa þeir sem bjuggu í Götu reynt að bjargast af sjávarafla en reyndar hvíldi sú kvöð á ábúandanum þar í byrjun 18. aldar að verða að leggja til mann í skiprúm á vertíðinni[8] og hefur landsdrottinn þá líka fengið í sinn hlut allan afla sem sá maður dró að landi frá páskum til Jónsmessu. Má því segja að fólkinu í Götu hafi verið flestar bjargir bannaðar og því skiljanlegt að enginn yrði til þess að setjast hér að þegar stórabóla hafði lagt að velli þá sem áður drógu fram lífið á þessu koti. Fyrst eftir bóluna var túnbleðillinn í Götu nytjaður frá Hólum,[9] næsta bæ fyrir innan Meðaldal, en eitthvað síðar var eyðihjáleiga þessi lögð á ný undir heimajörðina í Meðaldal.

Árið 1710 kunni heimafólk í Meðaldal líka að vísa á tóttir af öðrum mannabústað frá fyrri tíð hér í landareigninni. Sveinstóttir heita hér á bökkunum niður við sjóinn, skrifar Árni Magnússon, og er sagt að þar hafi einn maður fyrir manna minni byggt sér upp hús og lifað mestan part á sjávarafla en ekki ætla menn að grasnautn hafi fylgt þessu býli.[10] Eins og Gata munu tóttir þessar, kenndar við óþekktan Svein, vera innan við Meðaldalsá (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 175).

 

Í byrjun 18. aldar var Meðaldalur talinn 36 hundraða jörð[11] en um miðja 19. öld var dýrleiki jarðarinnar ýmist talinn 30 eða 36 hundruð.[12] Að fornu mati var jörðin fjórða eða fimmta stærsta bújörð í Þingeyrarhreppi. Aðeins Hraun í Keldudal, Haukadalur og Hvammur voru tvímælalasut stærri, allar 60 hundruð hver[13] en matið á Söndum var harla misjafnt. Í sóknarlýsingu séra Bjarna Gíslasonar frá því um 1840 segir að gott tún sé í Meðaldal, nokkur útigangur við sjóinn en litlar slægjur.[14]

Í heimild frá miðri 20. öld segir hins vegar að fram á dalnum séu mikil slægjulönd.[15] Skógarítak átti Meðaldalur í Botnsskógi í Dýrafjarðarbotni og heitir þar Meðaldalsteigur.[16] Í Meðaldal var búsmali hafður í seli frammi á dalnum í fyrri daga. Tóttabrot eru þar á grasbala skammt frá ánni og heita Fremrasel.[17] Þangað er um það bil klukkutíma gangur heiman frá bæ.[18] Á móti Fremraseli, handan árinnar, er Seljahvilft og er hún fremsta hvilftin í dalnum.[19] Niður undan henni er Seljahvilftarholt, stórt holt við ána.[20] Heimar á dalnum er tóttarbrot í mýri og heitir þar Heimrasel.[21]

Í lýsingu séra Bjarna Gíslasonar á Sanda- og Hraunssóknum frá árunum kringum 1840 segir að í Meðaldal hafi búsmali síðast verið hafður í seli árið 1833.[22] Hér mun seljabúskapur þó hafa verið tekinn upp á ný því að sögn Kristjáns H. Kristjánssonar, sem fæddur var árið 1897 og ólst upp í Meðaldal, var búsmali nytkaður í Fremraseli á síðari hluta 19. aldar, allt fram um 1880.[23] Kristján segir að síðasta selráðskonan þar hafi verið Sigríður Benónýsdóttir[24] sem fædd var árið 1847 og átti heima í Meðaldal á uppvaxtarárum Kristjáns.[25] Sigríður dó haustið 1915.

Frá Meðaldal var löngum sóttur sjór. Árið 1710 gekk héðan einn bátur í eigu ábúenda og var róið úr heimavör nema á vorvertíðinni en þá var farið með bátinn í útver.[26]

Í Meðaldal var um aldir þingstaður allra þeirra sem bjuggu við vestanverðan Dýrafjörð, enda álíka langt þangað að fara frá ysta og innsta bæ í hreppnum eða um 14 kílómetrar frá Svalvogum og um 17 kílómetrar frá Dröngum. Í byrjun 18. aldar var hreppurinn ýmist nefndur Dýrafjarðarhreppur vestan fram eða Meðaldalsþingsókn.[27] Á fyrri hluta 19. aldar virðist nafnið Þingeyrarhreppur hins vegar hafa náð að festast í sessi,[28] enda munu sýslumenn stundum hafa þingað á Þingeyri á árunum kringum 1800 (sjá hér Hraun í Keldudal) þó réttur þingstaður væri í Meðaldal. Ekki er alveg ljóst hvenær þinghald hófst í Meðaldal en til er heimild um almennt héraðsþing sem hér var haldið í janúarmánuði árið 1501 og varðveist hefur dómur sem upp var kveðinn á Meðaldalsþingi árið 1570.[29] Allar götur síðan var Meðaldalur þingstaður hreppsins uns Þingeyri tók við árið 1896 (sjá hér Þingeyri). Lögréttuhóll heitir hóll einn í Meðaldalstúni, sunnan við bæjarhólinn, og sást þar lengi móta fyrir gamalli tótt.[30]

Gálgi heita klettar niður við sjó innan við túnið í Meðaldal hjá lækjarsytru er kemur ofan úr Þursaskál. Þar má ætla að þjófar, sem dæmdir voru á Meðaldalsþingi, hafi verið hengdir, enda sýnast aðstæður hentugar til slíkra athafna. Annar klettanna tveggja sem þarna eru mun þó hafa sigið töluvert á fyrri hluta 20. aldar og er því lægri en áður var.[31]

Árið 1693 var á Alþingi auglýstur dómur frá Meðaldal sem upp hafði verið kveðinn vegna samskipta við enska fiskimenn[32] og árið 1698 var skotið til Alþingis dómi sem upp hafði verið kveðinn í Meðaldal vegna erfðaþrætu. Um afgreiðslu þess máls segir svo í Alþingisbókinni:

 

Andsvar lögþingismanna innan vébanda upp á þann dóm er það að í þessu efni skilji þeir svo lögbókarinnar erfðatal að frilludóttursyni skilfengnum beri fyrr að erfa heldur en systursyni.[33]

 

Í Meðaldal voru Guðmundur Pantaleonsson frá Granda og Ingveldur Jónsdóttir dæmd til dauða, þann 5. september 1749, fyrir framda blóðskömm, en frá máli þeirra verður brátt nánar greint hér á þessum blöðum (sjá Grandi).

Bænhús mun snemma hafa verið reist í Meðaldal, enda var kirkjuvegur langur og erfiður að Hrauni í Keldudal en þangað átti heimilisfólk í Meðaldal kirkjusókn allt til ársins 1802 (sjá hér Þingeyrarhreppur, inngangskafli). Bærinn var sá innsti í Hraunssókn og þaðan var því lengst að sækja til kirkjunnar. Í skjali frá árinu 1538 má sjá að á eigendum jarðarinnar hvíldi þá sú kvöð að halda hér við bænhúsi.[34] Árið 1710 var bænhúsið fallið en þess sáust þó enn nokkur merki.[35]

Meðaldals er fyrst getið í Gísla sögu Súrssonar en þar er nefndur Önundur bóndi hér sem Gísli og Þorkell Súrssynir fengu til umsjónar með búrekstrinum á Hóli í Haukadal er þeir lögðu upp í utanför. Í sögunni segir að Önundur hafi verið vel fjáreigandi og skilríkur maður og það var hann sem varð síðar fyrstur til að segja Gísla frá útkomu Vésteins Vésteinssonar.[36] Hann bar því boð um þann atburð sem sköpum skipti og miklu réð um alla framvindu sögunnar.

Bærinn Meðaldalur er nefndur í máldögum frá 14. öld[37] og á fyrri hluta 15. aldar var jörðin um skeið í eigu Guðmundar ríka Arasonar.[38] Síðar eignaðist Björn Þorleifsson hirðstjóri Meðaldal og við skipti á arfi eftir hann, sem fram fóru haustið 1467, kom jörðin í hlut Árna sonar hans[39] sem var hermaður og féll við Brúnkahæð í Stokkhólmi 10. október 1471.[40] Þar hefur þessi eigandi Meðaldals verið í liði Kristjáns I Danakonungs sem þá fór halloka fyrir Svíaher og bændaliði Stóra Steins. Þann 22. desember 1538 komst Meðaldalur í eigu Jóns biskups Arasonar á Hólum[41] en seinna eignaðist jörðina Ari Magnússon í Ögri sem varð sýslumaður í Ísafjarðarsýslu árið 1598 og fór hér með sýsluvöld allt til ársins 1652.[42] Við andlát Ara árið 1652 erfði Meðaldal sonur hans, Magnús Arason, sýslumaður á Reykhólum, sem fékk jörðina í hendur tveggja sona sinna en þeir seldu hana vorið 1653 föðurbróður sínum, séra Jóni Arasyni í Vatnsfirði við Djúp.[43] Að séra Jóni og eiginkonu hans, Hólmfríði Sigurðardóttur, önduðum fékk sonur þeirra, séra Sigurður Jónsson í Holti í Önundarfirði, Meðaldal í arf árið 1692[44] og átti hann jörðina enn árið 1710.[45]

Árið 1703 var landskuld af Meðaldal 12 vættir,[46] það er tólf ærgildi. Eftir mannfallið í drepsóttinni stórubólu árið 1707 lækkaði þetta afgjald af jörðinni um þriðjung og var 8 vættir árið 1710.[47] Gjald þetta var bændum í Meðaldal gert að leggja inn hjá einokunarversluninni á Þingeyri í fiski og lýsi, þá vel aflast, ella í vaðmáli, prjónlesi eða annarri kaupmannsvöru.[48] Allt fór það inn á reikning prófastsins í Holti. Innstæðukúgildi landeigandans hér í Meðaldal voru sjö fyrir stórubólu en fækkaði þá niður í sex.[49] Í hverju kúgildi voru 6 ær. Leigur fyrir kúgildin var landsetum prófastsins gert að greiða í smjöri er þeir urðu að færa honum norður að Holti.[50]

Oftast mun hafa verið annað hvort tví- eða þríbýli í Meðaldal. Þrír bændur bjuggu hér árið 1801 en tveir árið 1845.[51] Á síðari hluta 18. aldar bjó í Meðaldal Jón Skúlason hreppstjóri sem einn manna reri með hákarlalóðir eins og hér var áður frá sagt (sjá Þingeyrarhreppur, inngangskafli). Einn þriggja bænda í Meðaldal árið 1801 var Jón Halldórsson sem líka var hreppstjóri.[52] Árið 1957 lét Ólafur Ólafsson, skólastjóri á Þingeyri, þess getið að niðjar þessa hreppstjóra hefðu þá mjög lengi verið framámenn í Þingeyrarhreppi ásamt niðjum Þorvaldar Sveinssonar í Hvammi sem uppi var á sama tíma.[53] Ein dætra Jóns Halldórssonar í Meðaldal var Þórdís sem best spjaraði sig þegar reimleikarnir ætluðu allt um koll að keyra í Haukadal (sjá hér Haukadalur).

Um miðbik 19. aldar bjó í Meðaldal Benóný Daðason. Hér var áður sagt frá fæðingu hans á Vatneyri árið 1817 og þeim úfum sem risu manna á milli er reynt var að knýja föðurinn til að viðurkenna barnið (sjá hér Álftamýri). Faðir Benónýs var séra Daði Jónsson, sem þá var kvæntur aðstoðarprestur í Sauðlauksdal, en móðirin Guðrún Guðmundsdóttir, ógift bóndadóttir frá Auðkúlu í Arnarfirði, en hún varð síðar eiginkona séra Jóns Ásgeirssonar á Álftamýri. Nauðugur varð séra Daði að játa á sig faðernið en fyrir þetta sitt hórdómsbrot var hann sviptur hempunni í sjö ár (sjá hér Álftamýri og Sandar). Benóný ólst upp hjá föður sínum[54] og mun hafa komið með honum að Söndum er séra Daði varð þar prestur vorið 1828. Á manntali frá árinu 1845 er Benóný sagður vinnumaður í Meðaldal, þá 28 ára gamall,[55] en ári síðar gekk hann að eiga Guðnýju Halldórsdóttur, dóttur búandi ekkju hér á bænum og sonardóttur Jóns Halldórssonar hreppstjóra sem hér var nýlega nefndur og áður bjó í Meðaldal.[56]

Benóný tók þá strax við búsforráðum hjá tengdamóður sinni og bjó síðan í Meðaldal til æviloka. Þessi harmkvælasonur mun hafa verið talinn í fremstu röð bænda í Dýrafirði á sinni tíð. Hreppstjóri var hann um skeið[57] og nefndur af Sighvati Borgfirðingi valinkunnur merkismaður.[58] Á Kollabúðafundi árið 1856 var Benóný tilnefndur í þriggja manna nefnd úr Þingeyrarhreppi er ætlað var að gangast þar fyrir fundum um þau málefni er mestu þóttu varða land og lýð og undirbúa mál fyrir næsta Kollabúðafund.[59]

Gísli Konráðsson segir að Benóný hafi lengi verið fengsæll skútuskipstjóri[60] og vitað er að hann var á árunum 1850 og 1851 skipstjóri á skútunni Juliane sem Einar Jónsson í Ögri við Ísafjarðardjúp átti þá.[61] Benóný fórst í hákarlaróðri 21. janúar 1867 er áttæringurinn Sladdi frá Haukadal týndist í hafi.[62] Sighvatur Borgfirðingur tekur svo til orða að Benóný hafi drukknað með öllum sínum hásetum[63] og telur því augljóslega að hann hafi verið formaður á bátnum. Í annarri heimild er Jón Egilsson á Bakka sagður hafa verið formaður í þessari leguferð.[64] Ekki er gott að segja hvort réttara er en í prestsþjónustubók Sandaprestakalls, þar sem nöfn allra sem þarna drukknuðu eru skráð, er Benóný talinn fyrstur og bendir það til þess að Sighvatur hafi rétt fyrir sér. Þeir sem fórust 21. janúar 1867 voru níu og prestur ritar nöfn þeirra í þessari röð: Benóný Daðason 50 ára, bóndi Meðaldal, Guðmundur Eggertsson 36 ára, bóndi Brekku, Jón Egilsson 35 ára, bóndi Bakka, Bjarni Jónsson 38 ára, bóndi Bakka, Jón Bjarnason 44 ára, vinnumaður Arnarnúpi, Guðmundur Halldórsson 44 ára, vinnumaður Haukadal, Össur Össurarson 30 ára, vinnumaður Haukadal, Ólafur Pétursson 39 ára, vinnumaður Sveinseyri og Guðmundur Brandsson 40 ára, vinnumaður Sveinseyri.[65] Allir voru mennirnir úr Þingeyrarhreppi og hefur þetta verið ærin blóðtaka.

Þrjár dætur Benónýs Daðasonar giftust kunnum sjósóknurum sem ýmist voru bátaformenn eða skipstjórar á þilskipum. Daðína átti Matthías Ásgeirsson á Baulhúsum (sjá hér Baulhús), Sigríður átti Stefán Guðmundsson í Hólum, sem fórst í hákarlalegu 10. janúar 1881 (sjá hér Hólar), og Friðrika Benónýsdóttir átti Kristján Andrésson í Meðaldal sem hér verður brátt frá sagt.[66]

Næstu 12 árin eftir drukknun Benónýs stóð ekkja hans fyrir búi í Meðaldal en Magnús Halldórsson, bróðir hennar, var hér ráðsmaður.[67] Er Benóný drukknaði var á heimilinu 15 ára munaðarleysingi er Kristján Andrésson hét, bróðursonur húsfreyjunnar,[68] kallaður léttingur í sóknarmannatali frá árinu 1866.[69] Foreldrar hans höfðu búið á Bakka í Brekkudal en voru nú bæði látin.[70] Rösklega tólf árum síðar gekk Kristján að eiga Friðriku Benónýsdóttur í Meðaldal, sem hann missti eftir fárra ára sambúð, en sjálfur bjó hann áfram í Meðaldal til elli[71] og gerði þar garðinn frægan.

Kristján Andrésson hóf ungur sjómennsku og sagt er að fjórtán ára gamall hafi hann róið upp á heilan hlut.[72] Stýrimannafræði lærði hann á ungum aldri hjá Magnúsi Össurarsyni á Flateyri og var árið 1876 orðinn skipstjóri á skútunni Neptúnusi frá Ísafirði, þá 25 ára gamall.[73] Árið 1880 festi hann ásamt fleirum kaup á skonnortu sem nefnd var Haffrúin og stýrði henni til veiða frá Ísafirði.[74] Aðaleigandi skipsins mun þá hafa verið Lárus Á. Snorrason, kaupmaður á Ísafirði.[75] Haffrúin var þó oft sett upp á Þingeyri á haustin.[76] Veturinn 1883-1884 var Kristján í sjómannaskóla í Bogö í Danmörku, eyju rétt sunnan við syðsta odda Sjálands, en sá jafnframt um smíði á skonnortunni Fortunu og kom á henni heim um vorið.[77] Næstu ár var hann með Haffrúna eins og áður en tók síðar við skipstjórn á skipum Ásgeirsverslunar, m.a. á tveimur kútterum sem hétu Kalli og Lilja.[78] Er Kristján var með Lilju rakst skipið á ísjaka út af Dýrafirði og sökk. Áhöfnin á skonnortunni Fönix, sem áður hét Rósamunda, bjargaði honum og mönnum hans en skipstjóri á Fönix var þá Kristján Ólafsson frá Meira-Garði í Dýrafirði.[79] Nálægt aldamótum tók Kristján Andrésson við skipstjórn á 57 rúmlesta kútter sem Gramsverslun á Þingeyri átti og var með hann í sjö ár. Sá kútter hét Edward  og Sophie[80] og var keyptur nær 30 ára gamall frá Liverpool árið 1898.[81]

Heima í Meðaldal kenndi Kristján lengi stýrimannafræði og seglasaum á veturna og var þá oft margt um manninn hér.[82] Árið 1906 keypti hann vélbát, fyrstur manna í Dýrafirði, og hét báturinn Hreggviður.[83] Hann hafði þá verið skipstjóri á skútum í 30 ár og næstu fimm árin eða svo reri hann á Hreggviði frá Meðaldal. Árið 1914 var Kristján hættur að vera formaður en þá voru tveir vélbátar gerðir út frá Meðaldal á haustvertíð, Hreggviður og Sæljónið.[84] Gísli Kristjánsson frá Lokinhömrum, faðir Guðmundar Hagalíns rithöfundar, var þá með Hreggvið en Andrés, sonur Kristjáns Andréssonar, með Sæljónið.[85]

Kristján Jón Guðmundsson, sem í tvö ár var stýrimaður á kútter með Kristjáni Andréssyni, skrifar um hann á þessa leið:

 

Kristján var ágætur stjórnari og aflamaður góður, í stuttu máli sagt lánsmaður til sjávarins, ágætur fólki sínu, skemmtinn og ræðinn við háseta sína og vildi þeim allt hið besta.[86]

 

Af því sem hér hefur verið sagt mætti ætla að hugur Kristjáns Andréssonar hafi allur verið við sjóinn. Svo mun þó ekki hafa verið því hann var líka góður bóndi og fyrsti formaður Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 152).

Á sínum fyrstu búskaparárum, skömmu eftir 1880, lét Kristján setja upp vatnsmyllu til kornmölunar í Meðaldal en þeim framkvæmdum og gangi myllunnar lýsir sonur hans svo:

 

Grafinn var skurður úr ánni þar sem vatnið rann inn á hjól með um það bil eins metra löngum spöðum. Hjólið sneri litlu tannhjóli sem greip í annað stærra en það sneri efri kvarnarsteininum.[87]

 

Líklega hefur þetta verið ein fyrsta vatnsmyllan í Dýrafirði.[88]

Myllan var notuð fram undir fyrra stríð og malaði aðallega bankabygg.[89] Vatnsmylluholt heitir enn hátt holt við árdalinn í Meðaldal, – milli Skríks og Götu,[90] og minnir á hvar kornmyllan var. Um Götu hefur áður verið rætt (sjá hér bls. 1-2) en Skríkur var nafn á hluta árdalsins og sagt dregið af útburðarvæli sem stundum heyrðist þar í þýfðu graslendi.[91]

Veturinn 1913-1914 ferðaðist Jón H. Þorbergsson, síðar bóndi á Laxamýri, um Vestfirði og átti að leiðbeina mönnum um fjárrækt. Kominn úr þeirri ferð skrifaði hann dálitla skýrslu um sauðfjárrækt á Vestfjörðum og segir þar meðal annars:

 

Kristján Andrésson, bóndi í Meðaldal í Dýrafirði, sagði mér að hann gæfi fénaði sínum sjófang með heyjunum er svaraði því að vera fóður handa einum þriðja af sauðfénu og einum fjórða af kúnum. Hann hafði um 150 fjár og 4 kýr. Þannig mundu fleiri geta fóðrað. Það er athugunarvert.[92]

 

Eins og svo margir Vestfirðingar á fyrri tíð var Kristján í Meðaldal hvort tveggja í senn, sjómaður og bóndi. Sínum margþættu verkefnum á sjó og landi lauk hann öllum með sóma.

Á sjávarbökkunum utan við Meðaldalstúnið voru fyrrum bátanaust og sjóhús þeirra sem hér bjuggu. Við þær fornu tóttir er gott að minnast horfinna sægarpa sem áður ýttu héðan úr vör, Benónýs og manna hans, sem allir hlutu vota gröf í stórviðri skammdegisnætur úti á reginhafi árið 1867, og þeirra heilla er jafnan fylgdu Kristjáni skipstjóra í Meðaldal á löngum sjómannsferli. Enginn veit sína ævina fyrr en öll er.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 57.

[2] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 40-41.

[3] Manntal 1703.

[4] Jarðab. Á. og P. VII, 40-41.

[5] Sama heimild, 39-41 og XIII, 253.

[6] Jarðab. Á. og P. VII, 40-41.

[7] Sama heimild.

[8] Sama heimild.

[9] Sama heimild.

[10] Sama heimild.

[11] Sama heimild, 39-40.

[12] Jarðatal J. Johnsens 1847, 192.  Sóknalýs. Vestfj. II, 57.

[13] Sömu heimildir.

[14] Sóknalýs. Vestfj. II, 57.

[15] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 124 (Árbók F.Í.).

[16] Örnefnaskrá.  Jarðab. Á. og P. VII, 40.

[17] Örn.skrá.

[18] Örn.skrá.

[19] Sama heimild.

[20] Sama heimild.

[21] Sama heimild.

[22] Sóknalýs. Vestfj. II, 59.

[23] Örn.skrá.

[24] Sama heimild.

[25] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Sandaprestakalls.

[26] Jarðab. Á. og P. VII, 40.

[27] Manntal 1703.  Jarðab. Á. og P. VII, 28.

[28] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís., Þingeyrarhreppur  nr. 1. Hreppsbók 1822-1834 og 2. Hreppsbók 1835-1851.  Jarðatal J. Johnsens 1847, 191.

[29] D.I. VII, 546 og D.I. XV, 465.

[30] Örn.skrá.

[31] Örn.skrá.

[32] Alþingisbækur Íslands VII, 21.

[33] Sama heimild IX, 51.

[34] D.I. X, 395.

[35] Jarðab. Á. og P. VII, 39.

[36] Íslensk fornrit VI, 26, 37 og 38.

[37] D.I. III, 330 og D.I. IV, 144.

[38] D.I. VII, 383-384.

[39] D.I. V, 501-502.

[40] Íslenskar æviskrár I, 257.

[41] D.I. X, 395.

[42] Jarðab. Á. og P. XIII, 305-306.  Ísl. æviskrár I, 18-19.

[43] Sama Jarðab. XIII, 305-306.  Jarðabr. frá 16. og 17. öld. Útdr. (Kph. 1993), bls. 165.  Sbr. Ísl. æviskr. III, 404.

[44] Jarðab. Á. og P. XIII, 249.  Annálar III, 6.  Ísl. æviskrár III, 41-42.

[45] Jarðab. Á. og P. VII, 39-41.

[46] Sama heimild og sama XIII, 253.

[47] Sama heimild VII, 39-41.

[48] Sama heimild.

[49] Sama heimild.

[50] Sama heimild.

[51] Manntöl 1801 og 1845.

[52] Manntal 1801.

[53] Ólafur Ólafsson 1957, 21 (Ársrit S.Í.).

[54] Vestfirskar sagnir I, 253.

[55] Manntal 1845.

[56] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Sandapr.kalls 1801-1846.

[57] Pétur Guðmundsson/Annáll 19. aldar III, 345.

[58] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B., XI,1, bls. 202-203.

[59] Lúðvík Kristjánsson 1962, 114-120 (Ársrit S.Í.).

[60] Pétur Guðmundsson/Annáll 19. aldar III, 345.

[61] Arngrímur Fr. Bjarnason 1980, 19-20 (Inng. að Gullkistu Á. G.).

[62] Nathanael Mósesson  Hákarlaskip í Dýrafirði 1865-1892, óprentað handrit, ljósrit í eigu K.Ó.

[63] Lbs. 23684to, XI, 1.

[64] Nathanael Mósesson Hákarlaskip í Dýrafirði 1865-1892, óprentað handrit.

[65] Prestsþj.b. Sandapr.kalls 1865-1901. Sbr. P. G. Annáll 19. aldar III, 345.

[66] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, 1, bls. 202-203.

[67] Sóknarm.töl Sandapr.kalls 1866-1879.

[68] Þjóðviljinn 23.12.1902.

[69] Sóknarm.töl Sandapr.kalls 1866-1879.

[70] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Sandapr.kalls.

[71] Sömu heimildir.

[72] Ísl. æviskrár V, 423-424.

[73] Skútuöldin I, 241-246 og V, 112-113.

[74] Sama heimild I, 242-246 og V, 112-113.

[75] Skjöl Siglingamálastofnunar í Þjóðskjalasafni:  Aðalskipaskrá nóv. 1870 – sept. 1896, bls. 27.

[76] Skútuöldin I, 242-246 og V, 112-113.

[77] Sömu heimildir.

[78] Sömu heimildir.

[79] Sömu heimildir.

[80] Skútuöldin I, 232 og V, 113.

[81] Skjöl Siglingamálastofnunar, varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands: Aðalskipaskrá 6.9.1895 – 17.6.1920, bls. 131.

[82] Skútuöldin I, 241 og V, 113.

[83] Guðmundur G. Hagalín 1978 (1952), 210.

[84] Sami 1978 (1953), 10-21.

[85] Sama heimild.

[86] Skútuöldin V, 113.

[87] Örn.skrá.

[88] Sbr. Jóhannes Davíðsson 1978, 145-152 (Ársrit S.Í.).

[89] Örn.skrá.

[90]  Örn.skrá.

[91] Sama heimild.

[92] Jón H. Þorbergsson 1914, 26 (Um sauðfjárrækt á Vestfjörðum í Skýrslu Bún.samb. Vestfjarða 1913).

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »