Mosdalur

Göngu okkar um Mosvallahrepp hefjum við á hreppamörkum við Reyðarsker undir fjallinu Hrafnaskálarnúpi. Vegalengdin frá hreppamörkum inn að bæjarrústunum í Mosdal er tæplega tveir kílómetrar og er það fyrsti áfanginn á ferð okkar um hreppinn. Fjöruleiðin fyrir Hrafnaskálarnúp er býsna erfið og til að komast fyrir Palla, sem eru alllangt fyrir utan Reyðarsker, verður að sæta sjávarföllum eins og hér hefur áður verið nefnt (sjá hér Villingadalur).

Nær beint upp af Reyðarskeri og Vökumannahelli eru grónir klettastallar, sem heita Ytrihreppar, og skaga nokkuð fram.[1] Innan við þá taka við Rauðubjörg (eða Ytri-Rauðubjörg). Þar er rauðleitt berg  hátt í fjallinu og þar fyrir neðan grjótskriður sem ná hér um bil niður í fjöru.[2] Spölurinn undir Rauðubjörgum mun jafnan hafa verið talinn einn allra hættulegasti kaflinn á leiðinni fyrir Hrafnaskálarnúp. Þar er sífellt grjótflug niður í sjó en klettasárin og leirinn eru rauðleit af járnsteini og mýrarrauða, segir Óskar læknir[3] og á öðrum stað er tekið fram að í vætutíð hafi verið illfært um fjöruna undir Rauðubjörgum fyrir steinkasti.[4]

Innan við Rauðubjörg komum við að Innrihreppum en það eru klettastallar og grasteigar skammt ofan við fjöruna.[5] Þar var löngum mikið um hvönn. Inn og upp af Innrihreppum eru mörg klettanef, allhátt í fjallinu, og heitir þar Fuglabæli.[6] Þangað þurfti stundum að sækja fé á fyrri tíð en í kletta þessa fóru þó aldrei aðrir en hinir færustu menn.[7] Ef til vill hefur það verið hér sem Eiríkur Guðlaugsson, vinnumaður á Kirkjubóli í Valþjófsdal, hrapaði vorið 1850 en í prestsþjónustubókinni frá Holti segir að hann hafi hrapað til dauðs þann 27. maí 1850 í fjalli fyrir utan Mosdal.[8] Eiríkur mun hafa verið um fimmtugt þegar hann beið bana í fjallinu.[9] Inn og niður af Fuglabæli er grasi vaxin skvompa sem heitir Krubba og niður af henni Krubbugil.[10] Klettabeltið innan við gil þetta heitir Innri-Rauðubjörg.[11] Fyrir innan þau tekur við Hvannurð, mikil og ógróin skriða eða urð, sem nær frá sjávarklettunum og fram í sjó á hvarfi því er sér til út með Núpnum frá Mosdal.[12] Fram af miðri Hvannurð eru tveir steinar í sjónum. Heitir annar Langisteinn en hinn Litlisteinn og er rétt fyrir framan Langastein.[13] Litlastein flæðir jafnan í kaf á hverri flæði en Langisteinn stendur upp úr á flóðinu þegar smástreymt er.[14] Báðir þessir steinar voru notaðir sem fjörumerki því á þeim mátti sjá hvort fært væri fyrir Palla, á leiðinni út á Ingjaldssand, eða fyrir Hamarinn, sem verður á vegi manna þegar farið er úr Mosdal inn í Valþjófsdal. Óskar Einarsson læknir skýrir þetta nánar og segir:

 

Séð frá Mosdalsbæ var gangfjara fyrir Palla í útfalli ef örlaði á Litlasteini en í aðfalli ef hann var vel upp úr. Reiðfjara var fyrir Hamar í útfalli er Langisteinn var vel kominn upp úr og síðasta reiðfjara í aðfalli er Litlisteinn var um það bil að fara í kaf. Gera varð ráð fyrir því að fljótar fjarar og flæðir í stórstraumi en þegar smástreymt er.[15]

 

Innan við Hvannurð eru Hvannurðartök, björg með smærri steinum á milli.[16] Ef unnt var að komast þurrum fótum fyrri þau í útfalli eða ekki var fallið að þeim í aðfalli var gangfjara vís út á Ingjaldssand.[17]

Á ysta hluta leiðarinnar frá Reyðarskeri að Mosdal er fjallið eitt hamraþil frá efstu brún og niður að fjöru. Innan við Hvannurð breytist þetta því þar taka aurar við af klettum neðantil í fjallinu. Á þessum mörkum er Lambaskál, rétt neðan við fjallsbrúnina, og niður undan henni Strengbergsgil með þveru strengbergi að utanverðu.[18] Innan við það gil taka við Aurar og síðan Aursvað sem er klettalaus aurbreiða og nær inn undir Landgilið þar sem komið er í Mosdal.[19] Rétt utan við Aursvaðið er gjá eða gilendi í sjávarklettunum og heitir Réttargjá.[20] Nafnið skýrist af því að þar var hægt að króa fé af.[21]

Við Landgil, rétt innan við Aursvaðið sem áður var nefnt, endar Hrafnaskálarnúpur. Sjávarbakkarnir sem nú taka við heita Landbakkar en gróðurlendið ofan við þá kallast Land.[22] Hér í fjörunni, nær beint niður af bænum en þó aðeins utar, var lending Mosdalsbænda.[23] Þar sjást enn rústir af gömlu nausti. Við þá fornu veggi nemum við staðar og tökum okkur hvíld en röltum síðan sjávargötuna heim að bæjartóttunum.

Bærinn Mosdalur fór í eyði árið 1930 (sjá hér bls. 12) en þá hafði verið búið hér, óslitið að kalla, í nær 240 ár (sjá hér bls. 6). Þetta var eina bújörðin í samnefndum dal og stóð bærinn á sjávarbakka í dalsmynninu. Dalurinn er um það bil tveir og hálfur kílómetri á lengd en mjög þröngur, um það bil 300 metrar á breidd niður við sjó en mjókkar þegar framar dregur. Mosdalur liggur nokkru hærra yfir sjó en bæði Ingjaldssandur og Valþjófsdalur.[24] Samt sem áður er dalur þessi vel gróinn og hér var útibeit talin sérlega góð, bæði vetur og sumar.[25]

Að fornu mati var Mosdalur talinn 12 hundraða jörð[26] og var því ein minnsta bújörðin í Mosvallahreppi að frátöldum hjáleigum (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Landamerki jarðarinnar á móti Sæbóli á Ingjaldssandi eru við hreppamörk Mýra- og Mosvallahrepps undir Hrafnaskálarnúpi en innri landamerkin eru við Brimnes, undir fjallinu Sporhamri, þar sem land Kirkjubóls í Valþjófsdal tekur við.

Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er kostum og ókostum Mosdals lýst með þessum orðum:

 

Jörðin á til sjóar en ekki rekur hér. Útræði getur hér verið ef ábúandi er svo efnaður. Lending er erfið, stórgrýtt og brimasöm og má ekki lenda nema einu skipi í senn og getur hér því ei verstaða verið þótt vildi. Útigangur er hér í betra lagi á vetur, þá vetur svo leggjast.

Hætt er hér fyrir snjóflóðum ef ekki er vel vaktaður peningur. Flæðihætt er hér og í nokkrum stöðum. Svo fer og fé hér í ógöngur í fjöllum svo oft verður skaði að. Ristulaust er hér svo að kalla. Skriður falla á túnið og spilla því. Heimaengjum (ef svo skal kalla) spilla og skriður en fjallaslægjur eru nokkrar þar fyrir utan og fellur í sama máta á þær þess á milli. Kirkjuvegur er örðugur og langur til Holts í Önundarfirði, sem almennilega tíðkast, því ekki er jafnlega flutt embætti á Kirkjubóli í Valþjófsdal.[27]

 

Aðrar heimildir benda til þess að í þessari lýsingu á búskaparskilyrðum í Mosdal sé einkum lagt kapp á að draga fram ókostina en minna sé gert úr kostunum. Hér hefur áður verið vitnað til orða séra Tómasar Sigurðssonar í Holti frá árinu 1840 um gæði beitarinnar í Mosdal sem að hans sögn mátti kallast sérlega góð, hvort heldur sem var að sumri eða vetri. Samkvæmt yngri heimildum voru líka talin nokkur hlunnindi af reka og hrognkelsaveiði í Mosdal.[28]

Jóhannes Davíðsson, sem var vel kunnugur hér um slóðir á fyrstu áratugum tuttugustu aldar, segir að í Mosdal hafi landgæði og sauðbeit verið með ágætum, jarðsælt og oftast snjólétt niður við sjóinn.[29] Fjörubeit var líka allgóð í Mosdal, að sögn Jóhannesar, en hann tekur fram að túnið hafi verið lítið og engjar ekki miklar.[30] Á liðinni tíð munu ófáir sauðir sem lifðu á kjarngresinu í Mosdal hafa náð góðum holdum og enn (1993) gengur hér fé á beit þó bærinn sé kominn í eyði.

Á árunum kringum aldamótin 1900 og á fyrstu áratugum tuttugustu aldar héldu ýmsir því fram að Mosdalur héti að réttu lagi Mostdalur og væri borið fram Mossdalur.[31] Þessi kenning á sér enga stoð í eldri heimildum en á rætur að rekja til hinnar svokölluðu landnámssögu Önundarfjarðar sem skráð er í Vestfirskum sögnum.[32] Þar segir frá fjórum landnámsmönnum í Önundarfirði, þeim Önundi Víkingssyni og fóstbræðrunum, Birni, Þorfinni og Valþjófi. Einn þeirra, Valþjófur, er sagður hafa verið frá eynni Morstr, nú Moster í Noregi, og svo látið heita að hann hafi verið bróðir Þóru Morstrstangar sem frá er sagt í Heimskringlu.[33] Þóra var að sögn Snorra ein hinna mörgu barnsmæðra Haralds konungs hárfagra og segir hann Hákon konung, sem nefndur var Aðalsteinsfóstri, hafa verið son þeirra.[34]

Í landnámssögu Önundarfjarðar er Valþjófur, móðurbróðir Hákonar Aðalsteinsfóstra, sagður hafa siglt til Íslands frá eynni Mostur og hafi þeir Þorfinnur, fóstbróðir hans, numið Valþjófsdal í Önundarfirði.[35] Þar fylgir síðan þessi saga:

 

Frá Valþjófi er það sagt að hann hafi átt þrjá kjörgripi sem Óðni voru helgaðir og höfðu honum verið gefnir þeir í tannfé. Fyrsti gripurinn var hrafn, annar göltur mikill og sá þriðji þræll einn er gæta skyldi hinna gripanna. Hann hét Moss og sama nafn bar gölturinn.[36]

 

Í annarri útgáfu af þessari sömu sögu er nafnið á þrælnum og geltinum ritað Most[37] en báða þessa gripi lætur höfundur sögunnar detta dauða niður í dalnum sem nú heitir Mosdalur og heldur því fram að hið rétta nafn dalsins sé þess vegna Mossdalur eða Mostdalur.[38]

Um uppruna þessarar landnámssögu er það að segja að hún verður ekki rakin lengra en til Sveinbjörns Magnússonar sem átti heima á Hvilft í Önundarfirði á síðustu árum 19. aldar.[39] Sveinbjörn var fæddur 1821[40] og var lengi bóndi í Skáleyjum á Breiðafirði en fluttist á gamals aldri að Hvilft til dóttur sinnar. Vel má vera að hann hafi skáldað landnámssöguna upp því þetta var glúrinn karl og skemmtilegur en sumir höfðu eftir Sveinbirni að söguna hefði hann fundið í gamalli og rotinni skinnbók sem börn hefðu leikið sér með uppi á lofti í húsi frænda síns Eyjólfs eyjajarls í Svefneyjum á Breiðafirði.[41] – Þá bók hefur víst enginn séð.

Elstu heimildir um að búið hafi verið í Mosdal eru frá 15. öld en vel má samt vera að fólk hafi sest hér að löngu fyrr. Fyrsti eigandi jarðarinnar sem um er kunnugt er Ari Guðmundsson, faðir Guðmundar ríka á Reykhólum. Vorið 1420 gaf Ari Oddfríði dóttur sinni hálfan Valþjófsdal til kaups við Halldór Jónsson sem þá gekk að eiga hana.[42] Hinn helminginn af Valþjófsdal seldi Ari hinum verðandi tengdasyni sínum við sama tækifæri og í samningnum er tekið fram að jarðirnar í Valþjófsdal séu látnar af hendi með öllum þeim gögnum og gæðum er þeim hafi fylgt að fornu og nýju að undanteknum Mosdal.[43]

Orðalagið bendir til þess að fyrir 1420 hafi Mosdalur ekki verið sjálfstæð bújörð um langt skeið því fram kemur að hann hefur fylgt einhverri jörðinni í Valþjófsdal og þá að líkindum Kirkjubóli. Þrátt fyrir þetta kynni að hafa verið búið í Mosdal á fyrstu áratugum 15. aldar en sé svo hefur Mosdalur þá verið hjáleiga.

Þau Halldór Jónsson og Oddfríður Aradóttir hófu búskap á Kirkjubóli í Valþjófsdal árið 1420 eða því sem næst (sjá hér Kirkjuból). Skömmu síðar mun Halldór hafa eignast Mosdal, enda þótt tengdafaðir hans héldi honum eftir í fyrstu, þegar gengið var frá kaupum á jörðunum í Valþjófsdal þeirra á milli. Til marks um að svo hafi verið má nefna að í vitnisburðarbréfi frá árinu 1428 segir að Halldór hafi handlagt konu sinni, Oddfríði Aradóttur, Mosdal og goldið henni Kirkjuból í þau 60 hundruð sem Ari hafði gefið þessari dóttur sinni er hún giftist Halldóri.[44]

Er þetta bréf var skrifað í janúarmánuði árið 1428 hefur Halldór bóndi Jónsson máske gert ráð fyrir að hann ætti stutt eftir ólifað og svo mikið er víst að 23. janúar 1433 gekk Oddfríður Aradóttir í hjónaband öðru sinni er hún giftist Hákoni Jónssyni.[45] Þeirra sonur var Halldór Hákonarson, lögréttumaður á Kirkjubóli í Valþjófsdal.[46] Haustið 1470 gaf Halldór Hákonarson kirkjunni þar ýmsar gjafir og var Mosdalur ein þeirra (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal). Í máldaga Kirkjubólskirkju frá sama hausti er tekið fram að Mosdalur sé 12 hundraða jörð[47] og mun óhætt að fullyrða að búskapur hafi þá verið hafinn í Mosdal því bújarðir einar voru metnar til hundraða. Um miðbik 16. aldar var líka búið í Mosdal því á sjötta áratug þeirrar aldar lentu þeir Eggert Hannesson lögmaður og Árni Gíslason sýslumaður í þrætu út af tveimur kúgildum þar, sem Árni vildi meina að Eggert hefði stungið undan er hann lét af starfi sem umboðsmaður konungsjarða vestra árið 1556 og Árni tók við því umboði.[48] Kúgildin tvö sýna að Mosdalur hefur þá verið í byggð því á eyðijörðum voru engin innstæðukúgildi eða annar búpeningur.

Kæran á hendur Eggerti bendir líka til þess að Mosdalur hafi verið talinn konungsjörð um miðja 16. öld. Hér var þess áður getið að jörð þessi var gefin kirkjunni á Kirkjubóli í Valþjófsdal árið 1470 og árin 1710 og 1847 var hún enn hennar eign.[49] Með hliðsjón af þvi verður að gera ráð fyrir að kóngur hafi talist eiga Kirkjuból á árunum kringum 1550 og þar með kirkjuna sem þar stóð og allar hennar eignir. Um þetta leyti átti hann fjölda jarða á Vestfjörðum sem flestar voru áður í eigu Ögmundar biskups Pálssonar en eignir hans höfðu verið gerðar upptækar við siðaskiptin og lagðar í hendur konungs. Margar þessara jarða seldi kóngur síðan innlendum fjáraflamönnum áður en langir tímar liðu.

Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 segir að Mosdalur hafi legið í eyði í marga mannsaldra, kannske 200 ár áður en byggð hófst þar á ný árið 1692.[50] Tvö hundruð ár hafa þetta samt ekki verið því hér hefur verið sýnt fram á að búið var í Mosdal á árunum upp úr 1550. Með hliðsjón af orðum Jarðabókarinnar má hins vegar telja fullvíst að jörðin hafi farið í eyði mjög skömmu síðar og síðan aðeins verið notuð til beitar í 130 ár að minnsta kosti.

Í Jarðabókinni segir að séð hafi til lítilla tóttarústa í Mosdal er byggð hófst þar á ný árið 1692 en nýtingu jarðarinnar meðan hún stóð í eyði er á sama stað lýst með þessum orðum:

 

Meðan þetta pláss lá í eyði brúkuðu þeir úr Önundarfirði það fyrir afrétt, item ráku þangað nokkrir úr Dýrafirði og af Ingjaldssandi og var hér fyrir goldið eftir samkomulagi til þess sem Mosdal hafði leigt af eiganda. En hann galt landsdrottni árlega einn spesíuríxdal.[51]

 

Er búskapur hófst á ný í Mosdal árið 1692 var engin landskuld greidd af jörðinni fyrstu árin.[52] Ekki leið þó á löngu uns farið var að krefja leiguliðann sem þar bjó um greiðslu fyrir afnot af jörðinni og er Stórabóla dundi yfir árið 1707 var landskuldin komin upp í 4 vættir,[53] það er tvo þriðju hluta úr kýrverði. Eftir bóluna var landskuldin lækkuð niður í 3 vættir[54] og um miðbik 19. aldar var hún óbreytt, 60 álnir[55] eða hálft kýrverð.

Í byrjun 18. aldar fylgdu þrjú leigukúgildi (18 ær) jörðinni í Mosdal en á fyrstu árunum eftir stórubólu fækkaði þeim niður í tvö[56] og um miðbik 19. aldar var allt óbreytt í þeim efnum.[57] Árið 1710 átti Mosdalsbóndinn að greiða leigurnar fyrri kúgildin með peningum – einn ríkisdal fyrir tvo og hálfan smjörfjórðung.[58] Lögleiga fyrir tvö kúgildi var samkvæmt Jónsbók fjórir fjórðungar af smjöri (20 kíló) og var sú viðmiðun enn óbreytt í byrjun 20. aldar.[59] Árleg peningagreiðsla Mosdalsbóndans fyrir leigukúgildin tvö ætti því að hafa verið einn ríkisdalur og fimmtíu og átta skildinga á árunum kringum 1710 og síðar.

Fyrsti bóndinn í Mosdal sem kunnur er með nafni er Gísli Árnason sem bjó hér þegar manntal var tekið árið 1703. Hann var þá 54 ára gamall og átti 40 ára gamla konu sem hét Guðrún Jónsdóttir.[60] Um hjón þessi væri nú fátt kunnugt ef aldrei hefði kviknað hórdómsryktið sem um var fjallað á prestastefnu árið 1702 og frá því er greint hér litlu aftar (sjá hér bls. 16-18).

Árið 1710 voru Gísli og Guðrún farin frá Mosdal en maður að nafni Sigmundur Guðmundsson tekinn við jörðinni og hafði hana alla til ábúðar.[61] Ekki er vitað hvaðan Sigmundur kom en í manntalinu frá 1703 finnast þrír menn með þessu nafni á aldrinum milli tvítugs og þrítugs í Dýrafirði en enginn í Önundarfirði.[62] Allir voru þeir ókvæntir 1703 og í Neðri-Arnardal við Skutulsfjörð var þá líka 18 ára piltur sem hét Sigmundur Guðmundsson.[63]

Svo virðist sem Sigmundur í Mosdal hafi snemma orðið allgildur bóndi því árið 1710 bjó hann með 3 kýr, 25 ær, 15 sauði eldri en veturgamla, 7 veturgamla sauði og 2 hross.[64] Á árinu 1735 bjó Sigmundur Guðmundsson enn í Mosdal[65] og má ætla að bóndi sá sé hinn sami og hér bjó aldarfjórðungi fyrr.

Um heimilisfólk Sigmundar árið 1735 er allt ókunnugt nema það eitt að hjá honum var þá dóttir hans, Halldóra að nafni. Veturinn 1735-1736 dundi það ólán yfir feðgin þessi í Mosdal að Halldóra varð þunguð af völdum föður síns og fæddi hún barnið nóttina fyrir 16. sunnudag eftir trinitatis haustið 1736.[66]

Mjög skömmu eftir fæðingu barnsins reið Markús Bergsson, sýslumaður í Ögri, til Önundarfjarðar og setti rétt á Mosvöllum í blóðskammarmáli feðginanna og 12. október dæmdi sýslumaðurinn og meðdómsmenn hans þau bæði til dauða.[67] Málið varð þó að ganga fyrir lögmannsdóm áður en aftaka færi fram og varð biðtíminn lengri en vænta mátti. Sumarið 1737 sat Markús sýslumaður heima og reið ekki til Alþingis enda var hann þá talinn af stórharðindum … löglega forfallaður.[68] Líklegt er að Sigmundur bóndi og Halldóra dóttir hans hafi því setið dauðadæmd í varðhaldi í Ögri í 20 mánuði, tvo vetur og eitt sumar. Seint í júnímánuði árið 1738 lét sýslumaðurinn í Ögri hins vegar leggja á hesta sína og lagði upp í hina löngu ferð suður að Þingvöllum við Öxará. Í þeirri för hafði hann með sér feðginin úr Mosdal, stúlkuna Halldóru og bóndann Sigmund.

Þann 11. júlí voru þau komin alla leið en þann dag varð ei gengið til lögréttu vegna stórviðris og regns.[69] Þegar menn vöknuðu næsta dag hafði stytt upp og þá um morguninn var lesið upp í lögréttu bréf konungs um skipun danska timburkaupmannsins Hans Becher í embætti lögmanns norðanlands og vestan á Íslandi.[70] Síðar þann sama dag settist hinn nýi lögmaður í dómarasæti og kom þá fyrir réttinn Markús sýslumaður í Ögri og færði með sér Sigmund Guðmundsson og Halldóru Sigmundsdóttur.[71] Þennan dag staðfestu feðginin frammi fyrir lögmanninum sínar fyrri játningar og síðan var málinu frestað um tvo daga.[72]

Blóðskammarsök feðginanna úr Mosdal var fyrsta málið sem Hans Becher dæmdi í á Alþingi og dómsorð sitt í því las hann upp þann 14. júlí að þeim Sigmundi og Halldóru viðstöddum.[73] Þetta var dauðadómur og hljóðaði svo:

 

Með því að Sigmundur Guðmundsson og hans dóttir, Halldóra, svo vel fyrir réttinum heima í héraði sem hér fyrir lögþingis réttinum hafa opinberlega laus og liðug óneydd og viljuglega viðgöngu veitt og játað að þau hefðu aflað þess barns sín í milli sem Halldóra fæddi um nóttina fyrir 16. sunnudag eftir trinitatis Anno 1736 og Sigmundur sé svo sannur faðir að því barni sem dóttir hans sé móðir, skulu bæði fyrir soddan hræðilega blóðskömm öðrum til blygðunar og viðvörunar eftir stóradómi, af kong Friderich 2. 1565 confirmeruðum, á lífinu straffast, Sigmundur hálshöggvast en Halldóra í vatni drekkjast, og á sýslumaðurinn signor Markús Bergsson að útvega þeim prest sem undirvísi þeim í þeirra sáluhjálparsökum áður en exsecutionen [aftakan] verður, sem skal verða þegar það er sýslumanninum hentugast hér við Öxará, nú á þessu yfirstandandi lögþingi.

Áhrærandi Sigmundar Guðmundssonar litlu eftirlátnu fémuni, nefnilega 314 ½ alin, þá eftir Réttarbót Magnúsar kongs verður það barninu tillagt til fósturs, sem ekki er enn nú tveggja ára.[74]

 

Á lokaorðunum sést að barn Sigmundar og Halldóru hefur verið á lífi þegar foreldrarnir voru dæmdir til dauða og kynni að hafa átt fram undan langa ævi. Þau Sigmundur og Halldóra frá Mosdal voru hins vegar bæði tekin af lífi fyrir þinglok 1738,[75] hann hálshöggvinn en henni drekkt. Stúlkan Halldóra var reyndar sú næstsíðasta af 18 konum sem sannanlega var drekkt á Þingvöllum á árunum 1618-1749.[76] Allir máttu þær súpa hel í Drekkingarhyl þar sem vatnið er kalt og djúpt. Þrjár þeirra voru úr Ísafjarðarsýslu.[77]

Flestir þeirra sem bjuggu í Mosdal á árunum 1692-1930 höfðu alla jörðina til ábúðar. Tvíbýli var þó hér á árunum 1907-1912 (sjá hér bls.12) og svo var einnig um nokkurt skeið á síðari hluta 18. og fyrstu árum 19. aldar.[78] Leiguliðarnir tveir sem bjuggu í Mosdal árið 1801 hétu Eiríkur Tómasson og Sveinn Þorleifsson.[79] Eiríkur var þá roskinn maður. Hjá honum voru í heimili sonur hans og tengdadóttir, bæði um þrítugt, og tvö börn þessara yngri hjóna.[80] Annað barnið var tveggja ára drengur sem bar nafn afa síns, − Eiríkur Tómasson, síðar bóndi í Hrauni á Ingjaldssandi, sem frá er sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Hraun). Sveinn Þorleifsson, sem einnig bjó í Mosdal við upphaf nítjándu aldar, fluttist fáum árum síðar að Þorfinnsstöðum í Valþjófsdal (sjá hér Þorfinnsstaðir).

Á árunum kringum 1810 bjó í Mosdal Ólafur Jónsson hreppstjóri. Kona hans var Guðrún Sumarliðadóttir frá Sveinseyri í Dýrafirði, systir Gunnhildar sem drukknaði í Sveinseyrarlendingu 24. ágúst 1793,[81] en Gunnhildur var síðar talin valda mögnuðum draugagangi á ýmsum stöðum í Ísafjarðarsýslu (sjá hér Sveinseyri). Árið 1801 áttu þau Ólafur og Guðrún heima í Ytri-Hjarðardal í Önundarfirði en þar var Ólafur bústjóri hjá Solveigu Ólafsdóttur,[82] ekkju séra Jóns Sigurðssonar í Holti sem drukknaði sumarið 1796 á reið yfir Ystavað í Önundarfirði (sjá hér Holt). Í sóknarmannatali frá árinu 1802 segir séra Jón Ásgeirsson í Holti að Ólafur sé vel gáfaður − forstöndugur og drífandi en Guðrún kona hans siðlát og þægileg.[83] Mjög skömmu síðar fóru þau að búa í Mosdal og bjuggu þar uns Ólafur drukknaði, 45 ára gamall, í mannskaðaveðrinu mikla vorið 1812. Hann var þá formaður á einum bátanna sjö úr Önundarfirði sem fórust með allri áhöfn þann 6. maí. Uppskrift af dánarbúi Ólafs í Mosdal er birt hér á öðrum stað (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli) og er þar margvíslegan fróðleik að finna um búsmuni, fatnað og aðrar eigur þessa dugmikla bónda og hreppstjóra.

Er ekkjan Guðrún Sumarliðadóttir og börn hennar fluttust frá Mosdal fengu hjónin Gísli Oddsson og Maren Guðmundsdóttir jörð þessa til ábúðar. Þau voru þá liðlega fertug og höfðu áður búið í Hjarðardal og á Vífilsmýrum.[84] Gísli Oddsson var bóndi í Mosdal árið 1815 þegar Gunnlaugur Arason setti saman rímu um alla bændurna í Mosvallahreppi.[85] Vísan sem Gísli fékk þarna hjá Gunnlaugi er svona:

 

                            Gísli í Mosdal greini ég þá

                            í góðu standi,

                            gæðum prýddur geðs í landi.[86]

 

Í Mosdal bjuggu þau Gísli og Maren kona hans aðeins í fáein ár en færðu sig þaðan að Sæbóli á Ingjaldssandi[87] vorið 1816 þegar Ásgeir Jónsson prófastur fluttist frá Sæbóli að Brjánslæk.[88]

Meðal margra barna Gísla og Marenar voru synirnir Oddur og Guðmundur, fæddir 1801 og 1802.[89] Oddur varð síðar bóndi í Meira-Garði í Dýrafirði en Guðmundur í Alviðru í Dýrafirði (sjá hér Meiri-Garður og Alviðra). Guðmundur G. Hagalín rithöfundur, sem var einn fjölmargra niðja Odds Gíslasonar, skrifar um 1950 að á búskaparárum Gísla og Marenar í Mosdal hafi þeir Oddur og Guðmundur Gíslasynir hlaðið mikinn varnargarð allt frá klettum og fram í sjó til að varna því að búfénaður úr Mosdal leitaði lengra inn á hlíðina undir fjallinu Sporhamri.[90]

Hagalín tekur fram að bræðurnir hafi verið milli fermingar og tvítugs er þeir hlóðu garðinn og opinberar heimildir sýna að þeir voru aðeins 14-16 ára er þeir fóru frá Mosdal eins hér hefur þegar verið leitt í ljós. Um þetta afrek langafa síns og bróður hans kemst rithöfundurinn svo að orði:

 

Er sagt að þeir hafi hlaðið garðinn í landlegum og að nóttinni. Svo stórir steinar eru í þessum garði, sem stendur enn að nokkru, að furðulegt má teljast að unglingar hafi þar verið einir að verki.[91]

 

Með hliðsjón af stærð steinanna taldi Guðmundur Hagalín líklegt að faðir bræðranna, sem sagður var afrenndur að afli, hefði lagt sonum sínum eitthvert lið við garðhleðsluna.[92]

Engin merki sjást nú um þennan vörslugarð og heldur ólíklegt verður að telja að hann hafi nokkru sinni verið hlaðinn. Aftur á móti eru mörg stór björg í gamla túngarðinum í Mosdal, ekki síst niðri á sjávarbökkunum fyrir innan bæinn. Vera má að Gíslasynir, sem hér voru nefndir, hafi lagt hönd að verki þegar sá garður var hlaðinn og fengið þá að reyna á kraftana. Sannleikskjarni gæti því leynst í frásögn Hagalíns þó að túngarðurinn hafi í munni fólks breyst í vörslugarð sem náði í sjó fram. Gegn slíkri hugmynd mælir þó að í búnaðarskýrslum frá því um miðbik 19. aldar gerir eyðublaðið ráð fyrir upplýsingum um lengd túngarða en þar virðist aldrei vera getið um túngarð í Mosdal.[93] Eftir því að dæma ætti garðurinn að vera yngri en óvíst verður reyndar að telja hvort skýrslurnar gefi tæmandi upplýsingar um þessi efni.

Bóndi sá sem lengst allra bjó í Mosdal á 19. öld var Jón Magnússon en hann fæddist á Ytri-Veðrará árið 1795 eða því sem næst.[94] Árið 1829 voru Jón Magnússon og Guðrún Jónsdóttir, kona hans, farin að búa í Mosdal[95] og kynnu að hafa byrjuð búskap sinn þar nokkrum árum fyrr. Í sóknarmannatalinu frá 1829 gefur Ásgeir Jónsson prófastur Jóni í Mosdal þá einkunn að hann sé þægðarmaður og kunnáttan sæmileg.[96] Árið 1837 voru 14 manneskjur í heimili hjá Jóni og Guðrúnu.[97] Bústofninn var þá 3 kýr, 15 ær, 7 hrútar og sauðir eldri en eins árs, 2 gemlingar, 15 lömb og 2 hestar.[98] Þremur árum síðar voru fullorðnir sauðir og hrútar orðnir tíu og þá átti Jón lítinn bát sem var minni en fjögra manna far.[99]

Lítil vísa sem ort var um Mosdal og Jón Magnússon á hans fyrstu búskaparárum þar komst löngu síðar á prent og er á þessa leið:

 

Mosdalur er mikil jörð,

                           margan feitir sauðinn.

                           Bóndinn Jón, með býsna hjörð,

                           ber þar saman auðinn.[100]

 

Sagt er að höfundur vísunnar sé Anna, dóttir Ebenezers Þorsteinssonar, sýslumanns í Ytri-Hjarðardal,[101] og hefur vísan þá líklega verið ort áður en sýslumannsdóttirin fluttist burt úr Önundarfirði en hún giftist Kristjáni Guðmundssyni, dannebrogsmanni í Vigur, árið 1832 og settist þar að.[102]

Svo virðist sem þægðarmaðurinn Jón Magnússon og Guðrún kona hans hafi jafnan bjargast af í Mosdal. Árið 1845 voru fimm börn þeirra á aldrinum 12-20 ára þar heima[103] en annað heimilisfólk var þá einn vinnumaður, ein vinnukona og fjörgamall niðursetningur.[104]

Í lok ársins 1878 var Jón Magnússon enn talinn fyrir búi í Mosdal, kominn á níræðisaldur,[105] og er hann andaðist 12. febrúar 1880[106] voru búskaparár hans þar orðin a.m.k. fimmtíu. Að Jóni látnum hélt Guðrún Jónsdóttir, ekkja hans, búskapnum áfram og var enn talin fyrir búinu í Mosdal við lok ársins 1885.[107] Guðrún dó 12. febrúar 1886, sögð 89 ára gömul[108] og þá tók Guðmundur Jóhannesson við búinu en hann bjó í Mosdal til 1912, síðustu árin í tvíbýli (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 340). Guðmundur hafði alist upp í Mosdal og er við fermingu árið 1861 sagður vera fóstursonur Jóns Magnússonar og Guðrúnar konu hans.[109]

Þegar Guðmundur Jóhannesson tók við búi í Mosdal árið 1886 voru jarðarhúsin tekin út. Baðstofan var þá 9 x 4,5 álnir,[110] það er tæplega 16 fermetrar. Hæð baðstofuhússins var 6 álnir[111] eða 3,77 metrar. Þar var þiljað loft með fjórum rúmstokkum og á húsinu voru 5 gluggar.[112] Bæjargöngin í Mosdal voru þá um það bil 5,6 metrar á lengd, breiddin tæplega einn metri og hæðin um 2,2 metrar.[113] Búrið var um það bil 9,5 fermetrar og liðlega 3 metrar á hæð en eldhúsið var mun minna, 5,3 fermetrar eða því sem næst.[114] Tveggja kúa fjós var í Mosdal árið 1886 og jörðinni fylgdi þá leiguhús yfir 14 ær.[115]

Síðustu bændurnir í Mosdal voru feðgarnir Sumarliði Jónsson, sem bjó hér frá 1907 til 1925, og Salómon Sumarliðason sem tók við búi af föður sínum og bjó í fimm ár (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 340). Á Sumarliða í Mosdal hefur kunnugur gefið þessa lýsingu:

 

Sumarliði var sérkennilegur maður, greindur vel og fróður um margt, ekki hár í lofti en kvikur á fæti og snar í snúningum. Hann gat verið stríðinn og glettinn. … og spaugsamur var hann jafnan en gat orðið meinlegur ef honum fannst sér misboðið.[116]

 

Síðustu árin sem búið var í Mosdal voru þar tvær kýr, um eitt hundrað sauðkindur og sex hross.[117] Opinberar tölur sýna að á sínum síðustu búskaparárum hefur Salómon bóndi í Mosdal verið með fleira fé en nær allir aðrir bændur sem þá bjuggu í Önundarfirði.[118] Túnið í Mosdal var þá talið 2,8 hektarar og heyfengurinn 100 hestar af töðu og 200 hestar af útheyi.[119] Salómon bjó í torfbæ og um það leyti sem hann hætti búskap voru hús jarðarinnar talin vera ein þau lökustu í hreppnum en voru þó virt á 1.200,- krónur.[120]

Úr hópi þeirra sem alist hafa upp í Mosdal er að líkindum kunnastur Guðmundur Jónsson, sem jafnan var nefndur Guðmundur frá Mosdal, en hann átti lengst heima á Ísafirði þar sem hann fékkst við kennslu og iðkaði myndskurð af fágætum hagleik. Guðmundur fæddist á Villingadal á Ingjaldssandi haustið 1886 en faðir hans, Jón bóndi Jónsson, fórst í snjóflóðunum sem þar urðu þremur mönnum að bana þann 20. desember 1886 (sjá hér Villingadalur). Guðmundur var því aðeins þriggja mánaða gamall er hann missti föður sinn en skömmu síðar var hann tekinn í fóstur að Mosdal og ólst þar síðan upp hjá Guðmundi bónda Jóhannessyni sem var hálfbróðir föður hans.[121]

Guðmundur nam tréskurð hjá Stefáni Eiríkssyni, myndskera í Reykjavík, og dvaldist einnig tvö ár erlendis við nám.[122] Rösklega tvítugur gekkst hann fyrir stofnun þriggja ungmennafélaga í Önundarfirði og lét síðan lengi mikið til sín taka í félagsmálum ungmennafélaganna og góðtemplarareglunnar.[123] Guðmundur frá Mosdal var lítill maður vexti en áhrifamikill þar sem hann lét til sín taka. Hann var í stjórn Sögufélags Ísfirðinga á fyrstu árum þess[124] og einn allra helsti forgöngumaður að stofnun Byggðasafns Vestfjarða árið 1955.[125] Guðmundur andaðist 3. júlí 1956 en skömmu fyrir andlát sitt ánafnaði hann Byggðasafni Vestfjarða hús sitt, Sóltún, við Túngötu á Ísafirði og fylgdu með ýmsar gamlar bækur og munir er hann hafði varðveitt.[126]

Hér við bæjarhólinn í Mosdal er vert að minnast þessa merkilega skurðmeistara sem lagði sig allan fram í þjónustu við þær hugsjónir er hann taldi mestu varða og batt tryggðir við.

Að þessu sinni verður dvöl okkar í Mosdal ekki löng því ætlunin er að komast inn í Valþjófsdal í kvöld. Samt skulum við svipast hér um skamma stund áður en lagt verður af stað inn fjöruna undir Sporhamri.

Bærinn í Mosdal, sem nú er rústir einar, stóð á Bæjarhól en neðsti hluti hans heitir Skemmuhóll og nær niður að Fjárhúshólum.[127] Sumarið 1993 voru bæjartóttirnar enn hinar stæðilegustu og sjáanlegt að bæjardyrnar hafa snúið til fjalls. Ofan við bæinn hefur verið kálgarður og annar innar á túninu. Smiðjuhóll er áframhald af Bæjarhól en er framar og aðeins austar.[128] Lægð er milli Smiðjuhóls og Hlöðuhóls sem er enn framar og austar.[129] Hólarnir báru nöfn eftir húsum sem á þeim stóðu en fjárhúsin voru þó rétt austan við Fjárhúshóla.[130] Fjósið var á Hlöðuhól, við hlið hlöðunnar.[131] Innan við Bæjarhól er enn einn hóllinn og heitir Brattihóll.[132] Tóttin efst í túninu, utantil og nær beint upp af bæjarrústunum, ber með sér að þar hefur verið hesthús.

Rétt innan við túnið tifar bæjarlækurinn[133] og lítið eitt innar fellur Mosdalsá í dálitlum fossi niður í fjöruna.[134] Hún kemur úr litlu stöðuvatni fremst í dalnum[135] og fellur um hann endilangan. Milli lækjar og ár eru Holtin og segir Óskar Einarsson læknir að þar muni útikofar húsfólks og vinnufólks í Mosdal hafa staðið.[136] Tóttir voru þar, sagði Salómon, og var eitt húsið notað sem lambhús.[137] Efst á holtunum, þar sem heita Háholt, voru færikvíar og þar voru kýr líka mjólkaðar.[138] Dálítið ofar og framar en Holtin eru stórir hólar sem heita Hlaðshólar.[139] Af þeim sést að heita má um allan dalinn. Neðan og heiman við Hlaðshólana er stórgrýtisurð sem heitir Hesthúshraun eða Hesthúsgrjót.[140] Þangað er skammt að fara frá hesthúsinu, sem áður var nefnt, en það stóð efst í Mosdalstúni. Nær efst í þessari urð er dálítil hola milli tveggja steina og heitir Dagshola.[141] Hún er talin draga nafn af manni sem Dagur hét og átti heima í Mosdal um aldamótin 1800.[142] Ef til vill hefur Dagur verið veill á geði því sagt er að hann hafi ekki viljað borða mat en vafið sig snærum til að verjast hungurkvölum og falið sig í gjótunni sem við hann er kennd.[143] Enginn getur nú fullyrt hver þessi gjóta sé en býsna líkleg verður sú að teljast sem sýnir sig um það bil 40 metrum fyrir ofan hesthústóttina er hér var áður nefnd.

Í manntalinu frá 1. febrúar 1801 er Dagur Sívertsen (þ.e. Sigurðarson) sagður vera 63 ára gamall ógiftur vinnumaður í Mosdal[144] og má ætla að þar sé kominn sá maður sem holan er kennd við. Við skulum vona að það hafi ekki verið matarskortur sem olli hungurkvölum Dags Sigurðarsonar en húsbóndi hans í Mosdal árið 1801 var Sveinn Þorleifsson[145] er síðar bjó á Þorfinnsstöðum (sjá hér Þorfinnsstaðir).

Frá Hlaðshólunum er gott að virða fyrir sér fjallahringinn umhverfis Mosdal en brúnir fjallanna eru hér víðast hvar í um og yfir 600 metra hæð. Yst er röndin á Hrafnaskálarnúpi og þar skerst Lambaskál, sem hér hefur áður verið nefnd, inn í fjallsbrúnina. Rétt heimantil við miðja ytri hlíð dalsins skerst svolítill þverdalur inn í háfjallið og heitir hann Hördalur.[146] Um aldamótin 1900 voru þó til menn sem vildu meina að rétta nafnið væri Hörgsdalur, enda hefði verið þar blótstaður til forna.[147] Úr Hördal er fært gangandi manni upp á Hrafnaskálarnúp og þar var stöku sinnum farið yfir fjall og niður í Villingadalshvilft á Ingjaldssandi.[148] Þessa leið hugðist alþýðuskáldið Magnús Hjaltason fara 11. júlí 1897 en lenti í þoku og varð að snúa við.[149] Magnús segir að þessi leið hafi aðeins verið farin um sumartíma eða þegar autt er og þá helst með fjárrekstra.[150] Upp úr Mosdal mun hins vegar hvergi vera unnt að komast með hesta.[151] Sunnanvert í Hördal er gjá í fjallsbrúnina sem heitir Nóngjá og var eyktamark frá Mosdal.[152] Í botni Hördals er svolítill grasigróinn blettur og heitir Hördalsengi.[153] Þar var slegið eins og nafnið bendir til.[154] Erfitt mun þó hafa verið að þurrka hey þarna uppi því aldrei nýtur þar sólar nema framan af degi.[155] Heyið mun því stundum hafa verið flutt til þurrkunar á hentugri staði og heitir Þerrilág neðan við dalsmynnið.[156] Fjallið framan við (sunnan við) Hördal heitir Hördalshorn en framan við það er Vatnahvilft.[157] Þar uppi í hvilftinni er Vatnahvilftarvatn sem sagt er vera um það bil 600 faðmar að ummáli.[158] Neðan við vatnið vaxa bláber, krækiber og fjallagrös.[159] Syðst í hvilftinni er Vatnahvilftarengi og nær upp að vatni.[160] Þar var slegið einstöku sinnum en átti þó að vera álagablettur.[161]

Framan við Vatnahvilft er fjallið Vatnahvilftarhorn en þar fyrir framan tekur við Vestarikiki upp frá dalbotninum.[162] Kiki þessi er svolítil skál sem gengur inn í fjalllendið með stefnu í suð-suðvestur. Þarna er fjallsbrúnin örþunn og upp á henni er klettur með gati.[163] Sá heitir Gatklettur en handan við fjallsbrúnina er Brekkudalur á Ingjaldssandi.[164] Fjallið fyrir botni Mosdals heitir Þverfell en sinn hvorum megin við það eru Vestarikiki, sem áður var nefndur, og Nyrðrikiki sem er á milli Þverfells og Sporhamars.[165] Rétt austan við Vestarikika er klettalaus gjá í Þverfelli og heitir Prestagjá.[166] Í þjóðsögum er sú skýring gefin á nafninu að prestur úr Dýrafjarðarþingum hafi um skeið komið ríðandi yfir fjallið og niður gjána á hverju hausti til að kjósa sér þann sauðinn í Mosdalsrétt er honum sýndist vænstur.[167] Á síðari tímum mun þessi leið aldrei hafa verið farin með hesta enda sýnist hún ófær.[168] Upp af Nyrðrikika er fjallsbrúnin hæst, 684 metrar, en norðan við hann tekur við fjallið Sporhamar sem skýlir allri austurhlíð dalsins og gengur í sjó fram. Uppi á brún Sporhamars og nokkuð heiman við Nyrðrikika er allhár standklettur sem heitir Geithús eða Geitahús. Þar var hádegiseyktamark frá bænum í Mosdal.[169]

Við höfum nú svipast um með fjallabrúnum en að lokum skulu rifjuð upp fáein örnefni í Mosdal sem tengjast fornum búskaparháttum eða sögnum um líf fólksins sem hér bjó.

Í fjallshlíðinni utan og ofan við túnið er stór skriða sem heitir Lambhússkriða og rétt norðan við hana er Lambhúsgil.[170] Úr því gili komu stundum snjóflóð og í kringum aldamótin 1900 ruddist eitt þeirra alveg heim að bæ, braut bæjarhurðina og fyllti bæjargöngin.[171]

Dálítið framan við túnið er stórt og hátt holt sem heitir Stekkjarholt. Sunnantil í þessu holti var stekkurinn. Þar var lömbunum stíað frá mæðrum sínum en í Mosdal var fært frá alveg þangað til bærinn fór í eyði.[172] Heimar og aðeins rétt ofan við Mosdalstúnið er allstór hringlaga tótt. Þar hefur líklega verið sauðabyrgi. Framan við Stekkjarlækinn heita Lægriholt og teygjast þau meðfram vestri bakka Mosdalsár.[173] Í þessum holtum eru grasgefnir bollar sem heita Ottalágar. Nafnið tengist þjóðsögu um vinnumanninn Otta í Mosdal sem gerðist sauðaþjófur og leyndist í þessum grasgefnu lágum þegar átti að grípa hann.[174] Seinna komst Otti í skip eins og vera ber í góðri sögu.[175]

Í sögunni er Otti sagður hafa búið í dyralofti í Mosdal og stolið sauðum frá höfðingskvinnunni Þóru í Dal[176] sem bjó á Kirkjubóli í Valþjófsdal á fyrri hluta 17. aldar (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal). Varla fær þetta staðist því á hennar dögum mun Mosdalur hafa verið í eyði (sjá hér bls. 5-6). Aftur á móti getur vel verið að Ottalágar séu kenndar við Otta Ottason sem var vinnumaður í Mosdal á árunum kringum 1700. Þá bjuggu hér hjónin Gísli Árnason og Guðrún Jónsdóttir og á prestastefnu sem haldin var á Mýrum í Dýrafirði 20. júní 1702 var fjallað um hórdómsrykti úr Mosdal sem komið var fyrir eyru kirkjunnar þjóna.[177]

Slúðrið sem prestarnir höfðu heyrt var á þá leið að Guðrún húsfreyja í Mosdal héldi framhjá manni sínum og sannur faðir að nýlega fæddu barni hennar væri Otti Ottason vinnumaður.[178] Vegna þessara kvennamála eða annarra kynni Otti Ottason að hafa komist í hann krappan áður en lauk og vera má að þeir sem komu af stað orðrómnum um leynifundi þeirra Guðrúnar húsfreyju hafi séð þau saman í hinum gróðursælu bollum sem nú heita Ottalágar. Oft hafa örnefni orðið til af minna tilefni og þjóðsögur fært úr stað það sem meira var en að breyta vöskum kvennamanni í sauðaþjóf. Hér hefur þó að líkindum engu þurft að breyta því áður en lauk var Otti Ottason kærður fyrir þjófnað og fleiri sakir eins og hér verður brátt gerð grein fyrir.

Í þjóðsögunni um Otta, sauðaþjóf í Mosdal, segir að hann muni að lokum hafa komist í skip til hollenskra fiskimanna á Dýrafirði[179] en um endalok Otta Ottasonar, sem almannarómur taldi hafi giljað húsfreyjuna á bænum, veit nú enginn með vissu. Að hann hafi strokið í skip og siglt með hollenskum er reyndar hugsanlegt því sú varð leið margra sem komust í kast við geistleg og versleg yfirvöld.

Þegar fyrsta allsherjarmanntalið var tekið hérlendis árið 1703 var aðeins liðið eitt ár frá því rætt var um meint hórdómsbrot Otta á prestastefnunni á Mýrum. Í manntalinu frá 1703 er samt hvergi finnanlegur maður að nafni Otti Ottason ef frá er talinn kvæntur bóndi á áttræðisaldri suður á Skeiðum í Árnessýslu[180] er telja má útilokað að sé sá Otti sem ári fyrr var í Mosdal. Í manntalinu eru aðeins skráðir tveir menn aðrir sem báru nafnið Otti, báðir í Gullbringusýslu, en hvorugur þeirra var Ottason og enginn Ottó finnst í þessu sama manntali[181] Allt bendir því til þess að Otti sá sem var í Mosdal árið 1702 hafi verið lagstur út eða kominn í felur einu ári síðar, nema hann hafi logið til nafns.

Árið 1707 lét Friðrik kóngur fjórði lýsa á Alþingi eftir Ottho Ottosyni, sem þá er sagður burtstrokinn úr Ísafjarðarsýslu,[182] og vegna þess hve nafnið er fágætt má telja fullvíst að þar sé um sama Otta Ottason að ræða. Sú staðreynd að kóngur auglýsti eftir Otta að beiðni Jóns Vídalín, biskups í Skálholti,[183] sýnir að strokumaðurinn hefur fyrst og fremst átt í útistöðum við yfirvöld kirkjunnar. Því miður er útliti Otta ekki lýst í nýnefndri auglýsingu konungs en þar segir að hinn eftirlýsti hafi fyrir nokkrum árum hlaupist á brott frá eiginkonu sinni á Austurlandi og síðan dvalist í Ísafjarðarsýslu en þar hafi hann hegðað sér mjög illa og orðið uppvís að þjófnaði og margvíslegum ódyggðum.[184] Í tilkynningu Friðriks kóngs er þess einnig getið að strokumaðurinn Ottho Ottoson hafi að undanförnu vanvirt heilagt sakramenti og sýnt öllu guðsorði fullkomna fyrirlitningu.[185] Með vísan til alls þessa fór kóngur þess á leit að strokumaðurinn yrði gripinn hvar sem hittast kynni.

Tveimur árum síðar var bréf Odds Sigurðssonar lögmanns og Páls Beyer landfógeta til Friðriks konungs lesið upp í lögréttu.[186] Í bréfi því minnast þeir á nokkra sakamenn, m.a. Otta, sem þar er nefndur Otte Ottesen, og segja að nú muni hann vera dauður.[187] Líklegast er því að Otti sem var í Mosdal hafi andast í stórubólu á árunum 1707-1709 þegar þriðjungur þjóðarinnar týndi lífi. Nafn hans lifði hins vegar enn á vörum fólks um 1930 eins og þjóðsagan, sem hér var áður vitnað til, sýnir glöggt en hún var fest á blað eftir frásögn Guðmundar Jónssonar frá Mosdal sem fæddur var árið 1886[188] en hann hafði söguna eftir Guðrúnu Jónsdóttur í Mosdal sem fædd var árið 1834.[189] Óhugsandi er að Guðmundur hafi haft nokkra vitneskju um Otta úr skjölum eða öðrum rituðum heimildum svo saga hans má kallast merkilegt dæmi um munnlega geymd söguefnis í 250 ár því Guðmundur dó ekki fyrr en 1956 (sjá hér bls. 13) og hefði ugglaust getað sagt söguna af Otta á sínum síðustu árum. Í hinni munnlegu frásögn hafði Otti verið færður dálítið til og gerður að samtímamanni Þóru í Dal, það er hálfri öld eldri en hann var.

Frá Ottalágum víkjum við næst að Þórutótt sem er nokkru framar í dalnum eða nánar til tekið þar sem heita Flatir en það eru sléttar grundir niðurundan Hördalshorni[190] sem  hér var áður nefnt (sjá hér bls. 15). Þetta er stór hringlaga tótt og stendur á Fremra-Flatarenda.[191] Óskar Einarsson læknir segir mannvirki þetta heita Þórutótt og hermi munnmæli að þarna hafi ríkiskonan Þóra í Dal, sem bjó á Kirkjubóli í Valþjófsdal á 17. öld (sjá hér Kirkjuból), látið gera fjárrétt.[192] Ekki er ólíklegt að bygging þessi hafi verið reist sem sauðabyrgi á dögum Þóru. Tóttin er um það bil 22 metrar í ummál og stendur á bakkabrún heimantil við Stóruskriðu sem er hinum megin við ána.

Eldiviðarhvarf heitir lágt klettabelti sem liggur þvert yfir dalinn, framarlega.[193] Þetta klettabelti skyggir á sjálfan dalbotninn þegar horft er fram dalinn frá Bæjarhólnum.[194] Dálítið framan við þetta kennileiti og vestan árinnar voru mógrafirnar.[195] Þarna var talið gott mótak, um fimm stungur, en erfitt var að ná mónum því að ofan á honum var tveggja til þriggja álna skriða.[196]

Lækir nefnist votlent engjaland niður af framanverðri Vatnahvilft.[197] Framan við Læki taka við Brekkur, hallandi mýrlendi beggja vegna árinnar og ná fram í dalbotn.[198] Þarna í Brekkunum var besta slægjulandið í Mosdal.[199] Í dalbotninum koma tvær ársprænur hvor úr sínum kika og mynda svolítið stöðuvatn þar sem þær mætast.[200] Þar á Mosdalsá upptök sín.

Vatnahvarf heitir allmikill grjóthryggur niður undan heimanverðri Vatnahvilft en hún er vestantil í dalnum eins og hér var áður nefnt (sjá hér bls. 15). Nær beint á móti þessum grjóthrygg er Stóraskriða hinum megin í dalnum og ber nafn með rentu.[201] Rétt framan við Stóruskriðu eru tóttir af gömlu seli á grasflöt niður við ána.[202] Sléttlendið umhverfis selið heitir Selflöt og brekkan fyrir ofan Selbrekka.[203] Enginn veit nú hvenær búsmali var síðast hafður hér í seli en tóttin er enn á sínum stað í tungu milli lækjar og ár. Sjáanlegar eru nú rústir af einu húsi og örlitlum kofa þar hjá. Einnig mótar fyrir hleðslum sem að líkindum sýna hvar kvíin hefur verið en allt er þetta mjög fornlegt.

Hjallahvarf heitir skarpur hryggur í hlíðarröndinni þar sem fjallið Sporhamar sveigir frá Mosdal inn með fjarðarströndinni.[204] Rétt innan við hvarfið rís allhár standbergsklettur sem heitir Strýta.[205] Klettur þessi var eyktamark. Þar voru dagmál frá bænum í Mosdal.[206]

Rétt innan við lendinguna í Mosdal er söðulbakaður steinn sem heitir Varakollur.[207] Á honum var greint hvort fært væri fyrir Hamarinn á fjöruleiðinni inn í Valþjófsdal.[208] Ef ekki flaut í aðfalli upp í söðulinn á steininum mátti treysta því að fjaran væri fær og svo var einnig ef vel sást ofan á Varakoll í útfalli.[209]

Heiman frá bæjarrústunum sjáum við ekki niður í vörina því sjávarbakkarnir skyggja á. Við skulum því ganga fram á bakkana og sjá hvað aðfallinu líður. Þarna er Varakollur umflotinn sjó en svolítil rönd er ennþá þurr neðan við söðulinn á þessum góða steini.

Nú þarf reyndar ekki lengur að sæta sjávarföllum til að komast fyrir Hamarinn þegar farið er milli Mosdals og Valþjófsdals því reiðgata var lögð yfir hann 1923 eða 1924 og tengdist sú framkvæmd umsvifum Ostagerðarfélags Önfirðinga sem þá hafði nýlega hafið starfsemi.[210] Árið 1962 var svo ráðist á Hamarinn með sprengingum og um 1965 var lokið við að leggja akfæran veg úr Valþjófsdal út í Mosdal.[211] Þessum vegi hefur hins vegar ekki verið haldið við svo hann er nú langt frá því að vera bílfær.

Við kveðjum bæjartóttirnar í Mosdal og skundum inn túnið með stefnu á Valþjófsdal. Við augum blasir hið mikla klettafjall Sporhamar, sem skilur að dalina tvo, eitt fegursta fjallið í Önundarfirði og minnir á pýramída þegar horft er á það utan af firðinum eða frá vissum stað á ströndinni hinum megin við fjörðinn. Innan við bæjarlækinn í Mosdal taka við Háubakkar.[212] Inn og niður Háubakka lá Kirkjugata ofan í fjöruna og var hún jafnan farin væri farið á hestum inn í Valþjófsdal.[213] Skammt innan við Háubakka fellur Mosdalsá í dálitlum fossi niður í fjöruna. Ekkert nafn er á fossinum annað en Foss og kletturinn utan við hann heitir Fossklettur.[214] Aðeins utan við þann klett er Réttarklettur og skagar talsvert fram úr bökkunum.[215] Milli þessara tveggja kletta er Mosdalsrétt[216] en örskammt utan við Réttarklett og alveg niður við fjöruna er drangur sem heitir Strýta[217] og er það önnur Strýta en sú sem hér var áður nefnd (sjá hér bls. 19). Inn á Réttarklett var oft farið frá Mosdal til að gæta að fé í fjörunni eða hyggja að mannaferðum. Var það kallað að ganga á klett eða gá á klett.[218] Við Réttarklett byrja sjávarhamrarnir sem ná síðan alveg inn að landamerkjunum við Brimnes.[219]

Við vöðum nú yfir Mosdalsá og hefjum göngu inn fjöruna. Rétt innan við ána skagar allstór klettur fram úr sjávarhömrunum. Hann heitir Gunnsteinsklettur.[220] Stundum gat Mosdalsá orðið ófær í fjörunni um flæði og urðu þeir sem hér fóru um þá að klifra upp eða niður Gunnsteinsklett.[221] Í þjóðsögu sem börn lærðu af eldra fólki í Mosdal á síðustu árum 19. aldar var skýring gefin á nafni klettsins. Til sögunnar var nefndur maður sem Gunnsteinn hét og sagður hafa verið vinnumaður á Kirkjubóli í Valþjófsdal fyrir langa löngu.[222] Börnin fengu að heyra að Gunnsteinn þessi hefði verið látinn gæta sauða frá Kirkjubóli úti í Mosdal og jafnan klifrað upp klettinn er hann gekk til sauðanna.[223] Frá þessum annars ókunna sauðamanni átti kletturinn að hafa fengið nafn sitt en sagan öll, sem ekki verður rakin hér, ber merki þess að hafa verið búin til í því skyni að setja fram skýringu á nokkrum örnefnum í Mosdal.

Frá Gunnsteinskletti hröðum við för inn fjöruna og komum brátt að dálitlum berggangi sem nær frá klettunum ofan við fjöruna og í sjó fram. Í fljóti bragði gæti mönnum sýnst að bergveggur þessi, sem heitir Hlein, hefði verið hlaðinn, enda segir sagan að hér hafi tröllkonur ætlað að hlaða garð yfir þveran fjörðinn en dagað uppi þegar þær voru rétt að byrja á því mikla verki.[224] Ofan við Hlein er leiti í hlíðinni. Þangað sést frá Mosdalsbökkum en lengra ekki.[225]

Skammt innan við Hlein komum við í Brimnesbót en fram af bótinni rís klettur úr sjó í um það bil 30 metra fjarlægð frá landi og heitir Kúði.[226] Gjáin í sjávarklettunum ofan við bótina er við hann kenn og nefnd Kúðagjá.[227] Brimnesbótin er reyndar lítið áberandi hér í fjörunni undir Sporhamri og fáir myndu virða hana viðlits ef Kúði væri horfinn á braut. Innan við bótina og klettinn Kúða er Brimnes[228] sem einnig lætur fara lítið fyrir sér. Framan við Brimnesið er klettasker sem er hæst fremst og kemur upp um hálffallinn sjó.[229]

Hér við Brimnes er leiðin fyrir Sporhamar um það bil hálfnuð og hér eru landamerki Mosdals og Kirkjubóls í Valþjófsdal.[230] Fjallið yfir höfðum okkar rís hér stall af stalli í nær 650 metra hæð og er einn óslitinn klettaveggur. Vegalengdin frá Mosdal inn að landamerkjunum við Brimnes er um það bil einn og hálfur kílómetri en liðlega tveir kílómetrar frá merkjunum heim í hlað á Kirkjubóli. Fjöruleiðin undir Sporhamri er ekki hættulaus þó voðinn sé hér minni en þegar farið er fyrir Hrafnaskálarnúp, úr Mosdal út á Ingjaldssand. Á sumrin er það grjótflugið sem hætta getur stafað af en á vetrum snjóflóðin. Í Sjávarborgarannál er þess getið að 26. janúar árið 1628 hafi tveir menn lent í snjóflóði út á Sporhamri í Mosdal á Vestfjörðum eins og það er orðið.[231] Annar þessara manna, Jón Jónsson að nafni, fórst í snjóflóðinu en hinn komst af.[232] Líklega hefur þetta snjóflóð fallið utan við Brimnes fyrst talað er um Sporhamar í Mosdal.

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Örnefnaskrá.

[2] Sama heimild.

[3] Óskar Einarsson 1951, 14.

[4] Örn.skrá.

[5] Sama heimild.

[6] Sama heimild.

[7] Sama heimild.

[8] Prestsþjónustubækur Holts í Önundarfirði.

[9] Ólafur Þ. Kristjánsson / Önfirðingar.

[10] Örn.skrá.

[11] Óskar Ein. 1951, 143.

[12] Sama heimild og Örn.skrá.

[13] Óskar Ein. 1951, 143.

[14] Sama heimild.

[15] Sama heimild.

[16] Sama heimild og Örn.skrá.

[17] Óskar Ein. 1951, 143.

[18] Sama heimild.

[19] Sama heimild.

[20] Sama heimild.

[21] Sama heimild.

[22] Sama heimild, 138.

[23] Örn.skrá.

[24] Jóhannes Davíðsson 1976, 92.

[25] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 104.

[26] Sama heimild og Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 94.

[27] Jarðab. Á. og P. VII, 94-95.

[28] Fasteignabók  1932, 51.

[29] Jóh. Dav. 1976, 92.

[30] Sama heimild.

[31] Örn.skrá, gögn sem henni fylgja.

[32] Vestfirskar sagnir II, 80-85.

[33] Sama heimild og Íslensk fornrit XXVI, 142-143.

[34] Ísl. fornrit XXVI, 142-143.

[35] Vestf. sagnir II, 80-85.

[36] Sama heimild.

[37] Örn.skrá, gögn sem henni fylgja.

[38] Sömu heimildir.

[39] Vestf. sagnir II, 84-85.

[40] Vestfirskar ættir I, 397.

[41] Vestfirskar sagnir II, 84-85.

[42] D.I. IV, 278-279.

[43] Sama heimild.

[44] D.I. IV, 353-354.

[45] Sama heimild, 525.

[46] Lögréttumannatal, bls. 218.

[47] D.I. V, 579-580.

[48] D.I. XIII, 493-496 og Íslenskar æviskrár I, 42.

[49] Jarðab. Á. og P. VII, 94.  J. Johnsen 1847, 194.

[50] Jarðab. Á. og P. VII, 94.

[51] Sama heimild.

[52] Sama heimild.

[53] Sama heimild.

[54] Sama heimild.

[55] J. Johnsen 1847, 194.

[56] Jarðab. Á. og P. VII, 94.

[57] J. Johnsen 1847, 194.

[58] Jarðab. Á. og P. VII, 94.

[59] Þorvaldur Thoroddsen / Lýsing Íslands III, bls. 45.

[60] Manntal 1703.

[61] Jarðab. Á. og P. VII, 94-95.

[62] Manntal 1703.

[63] Sama heimild.

[64] Jarðab. Á. og P. VII, 94-95.

[65] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit, Ísafjarðarsýsla 1735 eða svo.

[66] Alþingisbækur Íslands XII, 374-377 og  411-412.

[67] Sama heimild.

[68] Alþ.bækur Ísl. XII, 375-377.

[69] Sama heimild, 402.

[70] Sama heimild, 403. Páll Eggert Ólason 1943, 168-169.

[71] Alþ.bækur Ísl. XII, 404.

[72] Sama heimild.

[73] Sama heimild, 411.

[74] Sama heimild, 411-412.

[75] Annálar III, 573.

[76] Páll Sigurðsson 1971, 52-55.

[77] Sama heimild.

[78] Manntöl 1762 og 1801.

[79] Manntal 1801.

[80] Sama heimild.

[81] Vestf. sagnir I, 289-290.

[82] Manntal 1801.

[83] Sóknarmannatal Holtsprestakalls 1802.

[84] Guðmundur G. Hagalín 1951, 9-10 og 14-16. Manntal 1801, − vesturamt, bls. 295.

[85] ÍB 7838vo, Bændaríma kveðin Anno 1815.

[86] Sama heimild.

[87] G.G. Hag. 1951, 9-10 og 14-16.

[88] Sbr. Manntal 1816, 695-696 og Ísl. æviskrár I, 92-93.

[89] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[90] G.G. Hag. 1951, 9-10 og 14-16.

[91] Sama heimild, 10.

[92] Sama heimild.

[93] VA III, 407, 412 og 417, búnaðarskýrslur 1837, 1850 og 1860.

[94] Sóknarm.töl og manntöl frá 19. öld úr Holtspr.kalli.

[95] Sóknarm.töl Holtspr.kalls.

[96] Sama heimild.

[97] VA III, 407, búnaðarskýrslur 1837.

[98] Sama heimild.

[99] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[100] Óskar Ein. 1951, 136-137.

[101] Sama heimild.

[102] Ísl. æviskrár III, 375.

[103] Manntal 1845.

[104] Sama heimild.

[105] Sóknarm.töl Holtspr.kalls.

[106] Prestsþj.b. Holtspr.kalls.

[107] Sóknarm.töl Holtspr.kalls.

[108] Prestsþj.b. Holtspr.kalls.

[109] Sama heimild og sóknarm.töl Holtspr.kalls. Manntal 1850.

[110] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosvallahreppur 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 47-48.

[111] Sama heimild.

[112] Sama heimild.

[113] Sama heimild.

[114] Sama heimild.

[115] Sama heimild.

[116] Snorri Sigfússon 1969, 123.

[117] Fasteignabók 1932, 51.

[118] Fasteignabók 1932, 51-52.

[119] Sama heimild.

[120] Sama heimild.

[121] Eiríkur J. Eiríksson 1956, 117-120 (Ársrit S.Í.).

[122] Sama heimild.

[123] Sama heimild.

[124] Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1956, 6.

[125] Eiríkur J. Eiríksson 1956, 117-120. Jóhann Gunnar Ólafsson 1956, 113-116 og sami 1957, 52-58.

[126] Jóhann G. Ólafsson 1956, 115.

[127] Örn.skrá.

[128] Örnefnaskrá.

[129] Örn.skrá.

[130] Sama heimild.

[131] Sama heimild.

[132] Sama heimild.

[133] Óskar Ein. 1951, 138-139.

[134] Örn.skrá.

[135] Sama heimild.

[136] Óskar Ein. 1951, 139.

[137] Örn.skrá.

[138] Sama heimild.

[139] Sama heimild.

[140] Óskar Ein. 1951, 139.

[141] Sama heimild.

[142] Sama heimild.

[143] Sama heimild.

[144] Manntal 1801.

[145] Örnefnaskrá.

[146] Örn.skrá.

[147] Vestf. sagnir II, 80-85.

[148] Örn.skrá.

[149] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 11.7.1897.

[150] Sama heimild.

[151] Örn.skrá.

[152] Sama heimild.

[153] Sama heimild.

[154] Sama heimild.

[155] Sama heimild.

[156] Sama heimild.

[157] Sama heimild.

[158] Óskar Ein. 1951, 140.

[159] Örn.skrá.

[160] Sama heimild.

[161] Sama heimild.

[162] Sama heimild.

[163] Örnefnaskrá.

[164] Sama heimild.

[165] Örn.skrá.

[166] Sama heimild.

[167] Óskar Ein. 1951, 144-145.

[168] Örn.skrá.

[169] Sama heimild.

[170] Sama heimild.

[171] Sama heimild og Óskar Ein. 1951, 139.

[172] Örn.skrá.

[173] Sama heimild.

[174] Óskar Ein. 1951, 141 og 145.

[175] Sama heimild.

[176] Sama heimild.

[177] Skj.s. prófasta XIII. 1. B. 2. Holt í Önundarf., skjalabók 1484-1731, bls. 221-224.

[178] Sama heimild.

[179] Óskar Ein. 1951, 145.

[180] Nafnaskrá yfir Manntal 1703.

[181] Sama heimild.

[182] Alþ.bækur Ísl. IX, 422-423.

[183] Sama heimild.

[184] Alþ.bækur Ísl. IX, 422-423.

[185] Sama heimild.

[186] Sama heimild, 536.

[187] Sama heimild.

[188] Óskar Ein. 1951, 141 og 145.

[189] Sama heimild og Manntöl 1890 og 1901 (Mosdalur).

[190] Óskar Ein. 1951, 140-141 og 144.

[191] Sama heimild.

[192] Sama heimild.

[193] Örn.skrá.

[194] Sama heimild.

[195] Örnefnaskrá.

[196] Örn.skrá.

[197] Sama heimild.

[198] Sama heimild.

[199] Sama heimild.

[200] Sama heimild.

[201] Óskar Ein. 1951, 141-142.

[202] Örn.skrá.

[203] Sama heimild.

[204] Sama heimild.

[205] Sama heimild.

[206] Sama heimild.

[207] Sama heimild og Óskar Ein. 1951, 138.

[208] Sömu heimildir.

[209] Sömu heimildir.

[210] Guðni Ágústsson. – Viðtal K.Ó. við hann 22.6.1996. Sbr. Jens Hólmgeirsson 1978, 119-144 (Ársr. S.Í.).

[211] Guðni Ágústsson. – Viðtal K.Ó. við hann 22.6.1996.

[212] Örn.skrá og Óskar Ein. 1951, 138.

[213] Sömu heimildir.

[214] Sömu heimildir.

[215] Örn.skrá.

[216] Sama heimild.

[217] Sama heimild.

[218] Sama heimild.

[219] Sama heimild.

[220] Sama heimild.

[221] Sama heimild.

[222] Óskar Ein. 1951, 144-145.

[223] Sama heimild.

[224] Örn.skrá.

[225] Óskar Ein. 1951, 137.

[226] Örnskrá.

[227] Sama heimild.

[228] Sama heimild.

[229] Sama heimild.

[230] Sama heimild og Óskar Ein. 1951, 136.

[231] Annálar IV, 255.

[232] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »