Næfranes

Spölurinn frá Ytri-Lambadal að Næfranesi er tæplega þrír kílómetrar. Utan við Merkjalækinn, sem áður var nefndur, tekur við Næfraneshlíð. Þar er lítið undirlendi en hlíðin er samt allvel gróin og þar voru áður slægjulönd sem skiptust í marga parta[1] eins og algengt var. Þess var áður getið að fjallið upp af bænum í Ytri-Lambadal héti Kúlnafjall en þegar kemur út fyrir Drottningargil, sem liggur á ská niður hlíðina og er rétt innan við landamerkin, tekur við Tindafjall.[2] Reyndar er þetta eitt og sama fjallið þó nöfnin séu tvö. Klettabrún Tindafjalls nær út undir Næfranes og er víðast hvar í 500-600 metra hæð. Þar sem klettana þrýtur, séð frá Næfraneshlíð, lækkar fjallið verulega og við tekur um það bil fjögurra kílómetra langur háls eða múli er teygist til vesturs milli fjarðarstrandarinnar og Hjarðardals sem er á bak við hálsinn

Upp af Næfranesi er hálsinn lægstur og þar er brúnin í aðeins liðlega 200 metra hæð yfir sjávarmáli. Þar heitir Háls en innar, næst Tindafjalli, er hálsinn nokkru hærri og kallast Hærriháls.[3] Allur ytri hluti  þessa múla ber nafnið Höfði og þar heitir efst Háhöfði en brún hans er í nær 300 metra hæð.[4] Skammt utan við Næfranes tekur hálsinn að rísa og verður að höfða. Háhöfðinn er um það bil miðja vega milli bæjanna Næfraness og Höfða en utar fer brún Höfðans lækkandi uns hann endar í lágum rana við mynni Hjarðardals, rétt utan við bæina á Höfða.

Land Næfraness nær aðeins lítinn spöl út fyrir túnið.[5] Þar heitir Markasteinn (eða Merkjasteinn) í fjörunni og er landamerkjalínan dregin frá honum beint upp hlíðina í kletta sem heimildir nefna ýmist Hrafnabjörg[6] eða Höfðakletta.[7]

Á göngu okkar út Næfraneshlíð skulum við rifja upp nöfn á slægjulöndunum sem nú eru að stórum hluta komin undir þjóðveginn.  Innst var Grafarpartur og síðan Selalágarpartur.[8] Upp í hann gengur löng laut neðan frá fjöru og heitir Selalág.[9] Á fyrri tíð voru selir veiddir í net hér skammt undan landi og voru netin þá þurrkuð í láginni.[10]  Selveiði hefur verið lítil, brúkast nú eigi, segir í Jarðabók Árna og Páls þegar fjallað er um landkosti á Næfranesi.[11] Allt rímar þetta vel. Utan við Selalágarpartinn tekur við Grásteinsengi og síðan Þúfnapartur.[12] Upp af utanverðum Þúfnaparti, ofan við miðja hlíð, er gamall stekkur og heitir Gvendarstekkur.[13] Stekk þennan byggði Guðmundur norðlenski[14] sem frá er sagt annars staðar á þessum blöðum (sjá hér Nesdalur og Sandar, Guðmundarskáli þar) en hann bjó á Næfranesi á árunum 1846-1851. Utan við Þúfnapart kemur Flagapartur og síðan Kotpartur. Í Kotpartinum eða upp af honum er talið að hafi verið býlið Birnustaðir sem um er getið í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710.[15] Býli þetta var þá löngu komið í eyði. Í Jarðabókinni segir að Birnustaðir séu fornt eyðiból eður hjáleiga í landi Næfraness og þar sjáist tóttarústir en engar leifar af túngarði.[16] Tekið er fram í sömu heimild að þarna sé land allt mjög yfirrunnið af skriðum.[17]  Í örnefnaskrá Næfraness er haft eftir Bjarna Kristjánsson, bónda þar á fyrri hluta 20. aldar, að tóttirnar af býli þessu séu um miðja hlíð, langt ofan við veg.[18] Utan við Kotpartinn er Guðfinnupartur sem kenndur var við Guðfinnu Bjarnadóttur, konu Kristjáns Þórðarsonar, en þau bjuggu á Næfranesi í nokkur ár, skömmu eftir miðja nítjándu öld, og síðan á Kjaransstöðum. Í ofanverðum Guðfinnuparti er Guðfinnustekkur. Sagt er að hann hafi verið byggður vegna þess að nefnd Guðfinna hafi ekki viljað hafa sínar kindur innan um annarra manna fé.[19] Fyrir utan Guðfinnupart og skammt innan við túnið á Næfranesi er engjapláss sem heitir Samvinna.  Nafnið mun dregið af því að þar heyjuðu bændurnir á Næfranesi um skeið í sameiningu[20] en þeir voru oft tveir og stundum fleiri.

Hér hafa nú verið nefnd nöfn á átta engjapörtum á Næfraneshlíð. Öll er hlíðin aðeins hálfur annar kílómetri á lengd svo augljóst er að hver einstakur partur nær ekki yfir stórt landflæmi.

Innst á Næfraneshlíð varð maður sem Andrés Helgason hét fyrir merkilegri reynslu haustið 1895. Hann var þá gangandi á ferð að næturlagi frá Innri-LambadalGemlufalli.[21] Skyndilega varð hann var við að hár eldstólpi sem bar við fjöll stóð í götunni fyrir framan hann.[22] Andrés gekk við broddstaf og er hann varð eldsins var tvíhenti hann broddstafinn og lét höggin óspart ríða á elddraug þennan með svo mögnuðum skammaryrðum sem hann frekast kunni.[23] Við barsmíð Andrésar og formælingar sundraðist eldstólpinn í allar áttir svo ferðalangnum tókst að komast leiðar sinnar.[24]

Næfranes var að fornu mati talið 18 hundraða jörð.[25] Í Jarðabókinni frá 1710 segir að túnið blási upp fyrir stórveðrum í svarðleysur og moldarflög en engjar spillist af skriðum.[26] Tekið er fram á sama stað að vegna landþrengsla gangi búfé frá Næfranesi mjög á nágranna og í engjum til rýrðar heyskapnum.[27] Árið 1710 kunnu gamlir menn frá því að segja að Næfranes ætti beitarrétt sex vikur á sumri í annað mál í landi Höfða, handan við hálsinn sem hér var áður nefndur.[28] Einn maður sem Árni Magnússon átti þá tal við taldi sig líka hafa heyrt að á móti þessum réttindum ætti Höfði móskurð í Næfraneslandi.[29] Árni tekur fram að þessi gagnkvæmu réttindi hafi bændur á Næfranesi og Höfða ekki nýtt sér svo lengi sem elstu menn muni.[30]

Hér var áður minnst á mógrafirnar innst í Næfraneslandi og í Jarðabókinni er sagt að móskurður til eldiviðar sé hér bjarglegur.[31]  Þar er þó jafnframt tekið fram að mórinn sé lítið notaður.[32] Í sóknalýsingu séra Jóns Sigurðssonar frá árinu 1840 er móskurður sagður vera góður og mikill á Næfranesi.[33] Athygli vekur að séra Jón segir móinn þó ekki vera notaðan þar heima heldur seldan kaupstaðarfólki hins vegar fjarðarins.[34] Er sóknalýsingin var rituð átti ekki annað fólk heima á Þingeyri en Edward Thomsen kaupmaður og fjölskylda hans (sjá hér Þingeyri) svo ljóst virðist að Kristjana Knudsen, frá Landakoti í Reykjavík, kona Edwards, hafi fengið mó frá Næfranesi til að hita upp í faktorshúsinu.

Séra Jón á Gerðhömrum segir í sóknalýsingunni að túnið á Næfranesi sé undirorpið skriðufalli og snjóflóðum er fyrir þremur árum hafi valdið miklum skemmdum.[35] Slægjuland telur hann hins vegar vera gott á Næfraneshlíð og beitarland vetur og sumar.[36]

Nafnið á Næfranesi kemur dálítið spánskt fyrir sjónir því erfitt er að koma þar auga á nokkurt nes en líklega hefur verið þar mikið um næfra meðan landið var viði vaxið. Jarðarinnar er hvergi getið í fornum heimildum en fyrsti eigandi hennar sem um er kunnugt með vissu er Þorsteinn Þorleifsson, síðar sýslumaður og klausturhaldari austanlands og norðan, en hann átti bæði Ytri-Lambadal og Næfranes árið 1658[37] Þorsteinn , sem fæddur var árið 1635, var af vestfirskum höfðingjaættum eins og hér hefur áður verið rakið (sjá hér Ytri-Lambadalur). Árið 1691 seldi hann Næfranes og hafði til þess samþykki tengdasonar síns, séra Björns Þorleifssonar, prófasts í Odda á Rangárvöllum, síðar biskups á Hólum.[38] Kaupandinn var Þórður Jónsson, lögréttumaður í Stóra-Laugardal í Tálknafirði.[39] Þórður átti Næfranes enn árið 1703[40] en árið 1710 var hann látinn og jörðin þá í eigu erfingja hans.[41] Árið 1711 keypti Björn Halldórsson, prestssonur frá Selárdal í Arnarfirði, sem nefndur var brútus einn þriðja part úr jörð þessari en seljandinn var Guðrún yngri, dóttir Þórðar Jónssonar í Stóra-Laugardal.[42] Björn brútus hafði árið 1709 lokið námi frá Skálholtsskóla en tók aldrei prestvígslu.[43] Hann bjó lengi í Stóra-Laugardal og síðar á Sveinseyri í Tálknafirði en andaðist þar á Eyrarhúsum, um 73ja ára aldur, árið 1759.[44] Björn og kona hans, Ólöf Jónsdóttir, voru barnlaus en arfleiddu Ólaf sýslumann Árnason að hálfum eignum sínum og Sigurð, launson Ólafs, síðar klausturhaldara á Kirkjubæjarklaustri, að hinum helmingnum.[45] Ólafur var sýslumaður Barðstrendinga og bjó lengi í Haga á Barðaströnd. Hann andaðist reyndar fjórum árum á undan Birni brútus[46] en frá erfðaskránni hefur efalaust verið gengið áður en Ólafur dó og skilgetin börn hans notið þess hluta arfsins eftir Björn brútus sem ætlaður hafði verið föður þeirra. Hvort Björn Halldórsson brútus átti þriðjung sinn í Næfranesi enn þegar hann gaf upp andann árið 1759 verður nú tæplega séð en vel má það vera. Um aðra eigendur Næfraness á árunum 1711-1760 ríkir óvissa en árið 1762 voru eigendur jarðarinnar tveir, Sigurður Bjarnason og Þorgerður Bjarnadóttir.[47] Vera má að Sigurður þessi Bjarnason sé sá hinn sami og maður með því nafni er þá bjó hér á annarri hálflendunni.[48] Árið 1805 bjuggu hér sjálfseignarbændur, þeir Kolbeinn Hildibrandsson og Torfi Grímsson og ekkjan Ingileif Bjarnadóttir.[49] Kolbeinn fluttist með dóttur sinnni og verðandi tengdasyni úr Dýrafirði að Hesti í Önundarfirði árið 1820 og lifði þar til hárrar elli (sjá hér Hestur).

Árið 1710 var landskuld af Næfranesi furðu há, sex vættir á ári eða sem svaraði kýrverði.[50] Árið 1847 var landskuldin helmingi lægri.[51]

Á 18. og 19. öld voru ábúendur á Næfranesi oftast tveir eða þrír.[52] Þó kom fyrir að þeir væru fjórir og þannig var ástatt árið 1845 en þá voru heimilin á Næfranesi reyndar fimm því auk bændanna átti þar heima húsmaður sem lifði á fiskveiðum.[53]

Árið 1846 fékk Guðmundur Guðmundsson norðlenski, er áður hafði búið í Nesdal, part úr Næfranesi til ábúðar en allt sem hann átti í Nesdal, bæði laust og fast, var þá flutt hingað sjóleiðis honum að kostnaðarlausu samkvæmt sérstökum skilmálum sem frá er sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Nesdalur). Neðan við þjóðveginn standa enn (1992) rústir af sjóhúsunum á Næfranesi og má ætla að í grennd við þau hafi verið skipað á land öllu sem þessi stolti og stórráði Skagfirðingur átti og ekki gat gengið sjálft, hvort sem fjóshaugurinn úr Nesdal hefur nú fylgt þar með eða ekki (sbr. hér Nesdalur).

Á síðustu áratugum 19. aldar bjó á Næfranesi bóndi sem Guðmundur hét og var Þórarinsson. Árið 1901 var hann hér enn við búskap og var þá annar tveggja eigenda jarðarinnar.[54] Guðmundur þótti sómamaður í hvívetna og las bæði blöð og bækur. Blaðið Ísafold, sem Björn Jónsson frá Djúpadal fór að gefa út í Reykjavík þjóðhátíðarárið 1874, virðist hafa borist mjög snemma að Næfranesi því í ársbyrjun 1876 fær Sighvatur Borgfirðingur Ísafold lánaða hjá Guðmundi Þórarinssyni.[55] Nokkrum mánuðum fyrr hafði Guðmundur á Næfranesi líka lánað Sighvati föt svo hann kæmist til kirkju.[56]

Á búskaparárum Guðmundar Þórarinssonar var alþýðuskáldið Magnús Hjaltason eitt sinn ráðinn hingað til kennslu og það var hér sem Kristín á Dröngum bauð skáldinu að leggja út peninga svo þau gætu keypt sér trúlofunarhringa (sjá hér Drangar).

Eitt barna Guðmundar Þórarinssonar á Næfranesi og konu hans, Guðbjargar Guðmundsdóttur, var Guðmundur sem fór í Sjómannaskólann í Reykjavík og lauk þar námi.[57] Guðmundur Guðmundsson var alllengi skipstjóri á skútum, m.a. Fortúnu sem gerð var út frá Þingeyri.[58] Hann er sagður hafa verið heppinn skipstjóri, öruggur sjómaður … veðurglöggur í besta lagi, dagfarsprúður, drengur hinn besti og glæsimenni á velli.[59]  Guðmundur bjó lengi á Næfranesi eftir föður sinn (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 262).

Annar sonur Guðmundar Þórarinssonar á Næfranesi og konu hans var Björn Guðmundsson, lengi kennari við héraðsskólan á Núpi í Dýrafirði og skólastjóri þar í þrettán ár. Hann var fæddur á Næfranesi árið 1879 og ólst hér upp. Björn lauk kennaraprófi frá Flensborgarskóla í Hafnarfirði vorið 1906 og var við nám í lýðháskólanum í Askov í Danmörku veturinn 1907-1908.[60] Hann var vinsæll kennari en gegndi auk kennslustarfanna fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir sveitunga sína.[61]

Er Guðmundur Þórarinsson bjó á Næfranesi var hér stundum þríbýli og oft var hér húsfólk á síðari hluta 19. aldar.[62] Á aðfangadagskvöld jóla árið 1896 lenti húsmaður á Næfranesi í þeirri ógæfu að taka ófrjálsri hendi kind sem einn bændanna er hér bjuggu átti og slátraði hann henni til matar.[63] Tómthúsmaðurinn játaði skömmu síðar á sig þjófnaðinn og bað bóndann um fyrirgefningu.[64] Á þá bón vildi sá síðarnefndi þó alls ekki fallast og kærði kindarstuldinn til sýslumanns.[65] Magnús Hjaltason var heimiliskennari á Næfranesi haustið 1897. Hann getur þess að veturinn áður hafi bóndinn sem kindina átti verið svo hræddur við þann sem hann synjaði um fyrirgefningu að allt fram til páska hafi hann jafnan borið öxi í hendi sér ef hann vék úr baðstofu og myrkur var á.[66]

Túnið á Næfranesi náði frá sjávargrundunum ofan við fjöruna og dálítið upp í hlíðina. Bæjarstæðið var ofarlega í túninu. Um aldamótin 1900 tók einn heimamanna á Næfranesi sig til og reisti timburhús spölkorn fyrir utan túnið. Þetta var Bjarni Kristjánsson sem þá var ungur maður, fæddur 1875. Hann bjó síðan í þessu húsi fram um 1950, lengst ekkjumaður með ráðskonu. Í kringum hús sitt ræktaði hann upp dálítið tún og sér þess enn merki. Bjarni var á yngri árum stýrimaður á skútum, m.a. á Dýra hjá Ólafi Guðbjarti Jónssyni í Haukadal[67] en sinnti eingöngu búi sínu á Næfranesi er aldur færðist yfir.

Á Næfranesi er nú allt í eyði og hefur svo verið allt frá árinu 1953. Gaman hefði verið að ganga hér yfir hálsinn og kanna fornar götur sem þar liggja. Þær heita Selgötur og um miðja 20. öld kunni heimafólk hér frá því að segja að á fyrri tíð hefði búsmali frá Næfranesi verið hafður í seli fram í Höfðadal[68] en svo er stundum nefndur sá hluti Hjarðardals sem er sunnan við Hjarðardalsá og í landi Höfða. Hinar fornu Selgötur má þræða frá Kvíahjallanum á Næfranesi út og neðan hálsinn uns komið er á brún.[69] Sú ferð bíður þó betri tíma því við ætlum okkur beinustu leið að Höfða. Við Landdísarsteininn sem örnefnaskrá vísar okkur á í miðju túninu utanverðu gerum við stuttan stans og aftur við rústirnar af bæ Bjarna Kristjánssonar. Héðan er fagurt að horfa til Glámu og um allan innfjörðinn á kyrrum sumardegi þegar fjöllin speglast í haffletinum sem er lygn eins og heiðartjörn. Síðan tökum við mal okkar og skundum út hlíðina í átt að Höfða.

Á landamerkjum jarðanna má enn sjá leifar af ævafornum Merkjagarði, hlöðnum úr grjóti, og náði hann ofan úr háhlíð og niður í fjöru þar sem Markasteinn, sem líka er nefndur Merkissteinn, stendur enn á sínum stað[70] (sjá hér bls. 1). Merkjagarðurinn er nú (1992) á skrá yfir friðlýstar fornminjar.[71]

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jóhannes Davíðsson 1968, 43 (Ársrit S.Í.).  Örnefnaskrá.

[2] Örn.skrá.

[3] Sama heimild.  Guðmundur Gíslason, Höfða. – Viðtal K.Ó. við hann 1.7.1992.

[4] Örn.skrá.  Sbr. Sóknalýsingar Vestfjarða II, 67.

[5] Jóhannes Davíðsson 1968, 43.

[6] Sama heimild, 44.

[7] Örn.skrá.

[8] Sama heimild.

[9] Sama heimild.

[10] Sama heimild.

[11] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 59.

[12] Örn.skrá.

[13] Örn.skrá.

[14] Sama heimild.

[15] Sama heimild.

[16] Jarðab. Á. og P. VII, 60.

[17] Sama heimild.

[18] Örn.skrá.

[19] Sama heimild.

[20] Sama heimild.

[21] Vestfirskar sagnir II, 404-405.  Vestfirskar þjóðsögur II-1, 154-155.

[22] Sömu heimildir.

[23] Sömu heimildir.

[24] Sömu heimildir.

[25] Jarðab. Á. og P. VII, 59.

[26] Jarðab. Á. og P. VII, 59.

[27] Sama heimild.

[28] Sama heimild.

[29] Sama heimild.

[30] Sama heimild.

[31] Sama heimild.

[32] Sama heimild.

[33] Sóknalýs. Vestfj. II, 66.

[34] Sama heimild.

[35] Sama heimild.

[36] Sama heimild.

[37] Lbs. 797   , Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu 1658 og 1695.

[38] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. Kph. 1993, 174. Sbr. Ísl. æviskrár I, 258-259 og V, 235.

[39] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. Kph. 1993, 174. Sbr. Lögréttumamannatal, bls. 541.

[40] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín XIII, 248.

[41] Sama heimild VII, 59.

[42] Alþingisbækur Íslands X, 33 og 581. Ísl. æviskrár I, 218.

[43] Ísl. æviskrár I, 218.

[44] Sama heimild

[45] Sama heimild. Sbr. Ísl. æviskrár IV, 28 og 251.

[46] Ísl. æviskrár IV, 28.

[47] Manntal 1762.

[48] Sbr sömu heimild.

[49] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[50] Jarðab. Á. og P. VII, 59.

[51] J. Johnsen 1847, 193.

[52] Manntöl 1703, 1762, 1801, 1835, 1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1870, 1880, 1890, 1901.

[53] Manntal 1845.

[54] Manntal 1901 og fylgiskjöl með því.

[55] Lbs. 23744to, Dagbók Sighvats Grímssonar Borgfirðings 4.1.1876.

[56] Sama heimild, 12.9.1875.

[57] Skútuöldin I, 246-247.

[58] Sama heimild og sama V, 117.

[59] Sama heimild I, 246-247.

[60] Jóhannes Davíðsson 1980, 65 (Ársrit S.Í.).

[61] Jóhannes Davíðsson 1980, 63-74 (Ársrit S.Í.).

[62] Manntöl 1850-1901.  Sóknarm.töl Dýrafj.þinga 1870-1900.

[63] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar, viðbætir við 1896.

[64] Sama heimild.

[65] Sama heimild.

[66] Sama heimild.

[67] Guðm. G. Hagalín 1953, 77-149.

[68] Örn.skrá.

[69] Sama heimld.

[70] Sigurður Vigf. 1892, 132.  Guðm. Gíslas., Höfða, viðtal K.Ó. við hann 1.7.1992.

[71] Frásögur um fornaldarleifar 1983, II, 419.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »