Sauðlauksdalur

Kirkjustaðurinn Sauðlauksdalur er í samnefndum dal um þrjá kílómetra frá sjó. Leiðin frá Kvígindisdal að Sauðlauksdal liggur fyrst með sjó fyrir Kvígindisháls en beygir síðan upp til dalsins. Við mynni Sauðlauksdals eru miklir sandflákar og hefur foksandurinn valdið verulegum landspjöllum í Sauðlauksdal og einnig herjað nokkuð á Kvígindisdal. Þetta er gulleitur, fíngerður skeljasandur, sem teygir sig frá Sandodda við sjóinn, þar sem nú er flugvöllur Patreksfirðinga, og heim undir tún í Sauðlauksdal.

Við mynni dalsins eru lágir, ávalir fjallsmúlar, sem hækka inn til landsins, Kvígindisháls að vestan en Skersmúli að austan. Sá síðarnefndi er endinn á Skersfjalli, sem rís frá fjarðarströndinni upp í nær 300 metra hæð og snýr bakhliðinni að austanverðum (sunnanverðum) Sauðlauksdal. Neðan við bæinn er allstórt stöðuvatn, Sauðlauksdalsvatn. Framan við það er mikil gróðursæld. Úr vatninu fellur Dalsvaðall til sjávar um sanddyngjurnar. Næst ströndinni hefur landið tekið allmiklum breytingum á síðustu öldum og lengi gekk treglega að hemja sandinn. Ólafur Árnason sýslumaður ritar árið 1746 að áin, sem falli úr vatninu sé með öllu ófær yfirferðar nema rétt við vatnið ellegar niður við sjó. Hvarvetna annars staðar sökkvi bæði menn og skepnur í sand, ef reynt sé að komast yfir.[1] Eggert Ólafsson, sem dvaldist árum saman í Sauðlauksdal, ritar skömmu eftir 1760 að í byrjun 18. aldar hafi mátt róa drekkhlöðnum bátum frá sjó og upp í Dalsvatn.[2] Hann getur þess jafnframt að sextíu árum síðar sé ósinn ekki nema tæplega fet á dýpt og vegalengdin frá vatninu til sjávar næstum fjórðungur úr mílu.[3] Á máli Eggerts er mílufjórðungur rétt liðlega einn kílómetri en nú eru um tveir kílómetrar frá Dalsvatni til sjávar og er þessi viðbót tómur sandur. Á síðustu 40 árum hefur vatnsborðið líka lækkað um 2 metra eða svo.[4]

Túni spillir mjög sandur, sem áfýkur, skrifar Árni Magnússon í Jarðabókina árið 1703.[5] Hann getur þess líka á sama stað að land sé víðlent og grösugt í Sauðlauksdal en vetrarhart í meira lagi. Um baráttu séra Björns Halldórssonar við sandinn er ritað hér litlu aftar (sjá bls. xx).

Árið 1840 mun ástandið í Sauðlauksdal hafa verið orðið mun lakara en á dögum Árna og séra Björns og á því ári kemst presturinn þar svo að orði að staðurinn sé nú að mestu aftekinn af sandfoki.[6]

Tæplega hálfri öld síðar komu þeir í Sauðlauksdal Þorvaldur Thoroddsen 1886 og Hermann Jónasson, síðar búnaðarskólastjóri, 1887. Báðir lýsa þeir ástandinu og ekki hafði það batnað. Þorvaldur segir að prestssetrið eyðist líklega innan skamms tíma alveg af roksandi og tekur fram að mestur hluti túnsins megi heita farinn.[7]Ég ímynda mér að sandur þessi eigi kyn sitt að rekja suður til Breiðafjarðar, bætir hann við.

Hermann Jónasson skýrir svo frá að þriðjungur til helmingur af túninu í Sauðlauksdal sé gjörsamlega eyddur og það allt meira og minna skemmt af sandinum.[8] Nú (1988) er öld liðin frá því Þorvaldur og Hermann rituðu lýsingar sínar. Á þeim tíma hefur verulegur árangur náðst í því sandstríði sem svo lengi hefur verið háð í Sauðlauksdal.

Tvær hjáleigur voru í Sauðlauksdal í byrjun 18. aldar, Hærri-(eða Efri-) Dalshús og Neðri-Dalshús. Eigandi jarðarinnar og hjáleigukotanna var þá Guðrún ríka Eggertsdóttir í Saurbæ. Á hjáleigubændurna í Dalshúsum báðum var lögð sú kvöð að róa á bátum Guðrúnar um vertíð í Keflavík eða í Láganúpsveri og einnig að fara eina skipsferð fyrir Guðrúnu yfir í kaupstaðinn á Patreksfirði eða út í Víkur.[9]

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá dóttur Sveins skotta, sem hengdur var í Reiðskörðum á Barðaströnd árið 1648. Sú stúlka dvaldist um skeið í Dalshúsum í Sauðlauksdal. Eitt sinn átti hún að hugga barn en tókst það ekki sem best. Heyrðist hún þá tauta fyrir munni sér: Væri ég sem afi minn væri gott að stinga gat á maga og hleypa út vindi.[10] Afi hennar var Axlar-Björn, frægasti morðingi á Íslandi bæði fyrr og síðar. Er bóndinn í Dalshúsum heyrði þessi orð stúlkunnar rak hann hana burt.

Í byrjun 19. aldar var aðeins búið á annarri þessara tveggja hjáleigna.[11] Pétur Jónsson frá Stökkum segir að Neðri-Dalshús hafi verið frammi á Sauðlauksdalstúni, þar sem stóðu fjárhús er hann ritaði lýsingu Rauðasandshrepps árið 1935.[12] Hærri-Dalshús segir Pétur hafa verið þar sem stóð hesthús og votheysgryfja árið 1935. Fjárhús þau, sem Pétur talar um stóðu á hólbarði, 150-200 metrum frá kirkjunni í stefnu fram dalinn og er yfir tvo læki að fara.[13] Hesthúsið, sem Pétur nefnir stóð ofar í túninu í nær beinni stefnu frá íbúðarhúsinu og fram í dalinn, vegalengd um 200 metrar.[14] Tóttir þessara útihúsa blasa enn við augum (1988) og má því sjá hvar hjáleigurnar voru fyrrum.

Pétur telur að Neðri-Dalshús hafi verið í byggð öðru hvoru fram yfir 1880.[15] Mjög hlýtur sú byggð að hafa verið stopul á 19. öld því að enginn er sjáanlegur þar á manntölum 1816 eða 1845 og í sóknarlýsingu séra Gísla Ólafssonar frá 1840 er Dalshúsa hvorki getið í röð byggðra býla né heldur sem eyðibýlis.[16] Sjálfur byggði séra Gísli hins vegar upp bæ í Neðri-Dalshúsum og settist þar að þegar hann lét af prestskap árið 1852 (sjá hér bls. 19).

Þriðja hjáleigan var einnig í Sauðlauksdal um skeið og hét á Leifum. Séra Björn Þorgrímsson, er ritaði ævisögu séra Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal, getur þessa þar. Hann segir séra Björn Halldórsson hafa fengið leyfi til að leggja niður hjáleiguna Dalshús en prestur hafi ekki viljað nýta sér þá heimild. Þess í stað hafi hann byggt upp nýja hjáleigu á eigin kostnað á þeim hluta túnsins er mest horfði við sandfoki og uppblæstri.[17] Prestur lagði hjáleigunni til eitt kýrfóður af heimatúninu og annað kýrfóður utan túns til þess að nýbýlingurinn því betur ræktað gæti það af vellinum er fjærst lá bænum og árlega um bætt það er mest lá við uppblæstri og skemmdum.[18]

Í ævisögunni kemur fram að séra Björn hafi nefnt þessa nýju hjáleigu Leyfa. Séra Björn Halldórsson sat í Sauðlauksdal frá 1753 til 1782 og á þeim árum hefur byggð hafist á Leifum.

Árið 1782 býr þar maður að nafni Jón Eyjólfsson með konu og syni.[19] Líklega hefur hann verið síðasti bóndinn á Leifum og svo mikið er víst að í manntölum frá 1808 eða síðar er Leifar ekki að finna. Búi Þorvaldsson frá Sauðlauksdal, fæddur 1902, segir að Leifar hafi staðið þar sem áður var upprunalegt bæjarstæði í Sauðlauksdal. Þar hafi mátt heita örfoka land þegar túnið var girt árið 1906 en orðið vel gróið um 1920. Hann lætur þess getið að rústirnar, sem enn voru nefndar Leifar á árunum kringum 1900, séu undir akveginum er hér liggur nú heim á staðinn.[20] Pétur frá Stökkum segir að Leifar hafi verið í túnjaðrinum nálægt Ranglát[21] (um Ranglát sjá hér bls. 10-11) og kemur það heim við orð þau úr ævisögu séra Björns er hér var vitnað til. Pétur getur þess líka á sama stað að fyrsti bóndi á Leifum hafi heitið Leifur og fengið svohljóðandi byggingarbréf hjá presti:

 

Leifur hefur leyfi til á Leifum búa

þar til hann er laus við lúa

og lýðir gera að honum hlúa.[22]

 

Sauðlauksdalur hefur lengi verið kirkjustaður og prestssetur. Kirkju er getið í Sauðlauksdal í kirknatali Páls biskups Jónssonar frá því um 1200.[23] Ýmsir hafa þó véfengt þetta og talið síðari tíma innskot, því vitað er að á 15. öld var aðeins bænhús í Sauðlauksdal.[24] Úr þessum ágreiningi verður tæplega skorið héðan af.

Um 1500 bjó í Sauðlauksdal mektarbóndi sem Jón Jónsson hét og kallaður var Jón Íslendingur. Hann gekk  árið 1483 að eiga Dýrfinnu, dóttur Gísla Filippussonar, sýslumanns í Haga, og konu hans, Ingibjargar Eyjólfsdóttur mókolls hins eldri í Haga.[25] Í heimanmund fékk Dýrfinna Sauðlauksdal, er þá taldist vera 36 hundraða jörð, og líka Keflavík í sama hreppi, 12 hundraða jörð.[26] Í byrjun 18. aldar hafði matið á Sauðlauksdal lækkað, að hjáleigum meðtöldum, niður í 30 hundruð.[27] Á Þorláksmessu árið 1499 gefur Jón Íslendingur bænhúsinu í Sauðlauksdal skóg í Trostansfirði með því skilyrði að ekki megi troða þar niður tún og engi. Tekið var fram að þeir sem nytja skóginn megi beita hestum í landareign Trostansfjarðar og róta jarðvegi til kolagerðar en þó þannig að ábúandi verði ekki fyrir skaða.[28]

Árið 1505 veitir Stefán Jónsson biskup heimild til að skíra börn, vígja saman hjón, leiða konur í kirkju og greftra heimamenn þar í Sauðlauksdal og með bréfi 29. september 1512 setur Stefán biskup alkirkju í Sauðlauksdal. Kirkjan var vígð 15. september 1515.[29] Ári fyrr hafði Jón Íslendingur gefið Sauðlauksdalskirkju sex hundruð í heimalandi og fylgdu þar með fjölmargar aðrar gjafir. Meðal þeirra var ítak í Látrabjargi, 60 sauða beit á Hvallátrum og 6 manna sölvafjara þar, sjötti hluti reka í Keflavík austan Látrabjargs og réttur til að gera út teinæring frá Látrum án greiðslu vertolla.[30] Synir Jóns Íslendings og Dýrfinnu, konu hans, voru Filippus prestur er rændi stúlkunni Solveigu Bjarnadóttur úr móðurgarði og bróður (sjá hér Núpur í Dýrafirði) og Konráð sem vörðuna hlóð og enn er við hann kennd (sjá hér bls. 23-24 og Keflavík).

Þegar sóknarkirkja var sett í Sauðlauksdal árið 1512 hafði alkirkja lengi verið í Saurbæ á Rauðasandi og allir íbúar hreppsins átt þangað kirkjusókn. Næstu tvær aldir var prestakallið þingabrauð og sátu prestar þá á ýmsum jörðum, flestir þó framan af í Saurbæ en eftir 1600 í Sauðlauksdal. Fyrsti prestur sem um er vitað að setið hafi í Sauðlauksdal er séra Björn Bjarnason. Hann fékk kallið árið 1602 og þjónaði í sextán ár.[31] Um endalok séra Björns er ritað hér á öðrum stað (sjá Lambavatn og Naustabrekka).

Fram til 1724 átti kirkjan aðeins sex hundruð í heimajörðinni í Sauðlauksdal en á árunum 1724 til 1728 gáfu Guðrún ríka Eggertsdóttir í Saurbæ og systur hennar Sauðlauksdalskirkju allt sem þær áttu í Sauðlauksdal og var kirkjan þar með orðin eigandi allrar jarðarinnar.[32] Þar með var Sauðlauksdalur orðinn staður og upp frá því var hér fast prestssetur.[33] Samt kallar Ólafur Árnason sýslumaður kirkjuna í Sauðlauksdal útkirkju frá Saurbæ árið 1746 og er það undarlegt.[34] Tvær sóknir voru í Sauðlauksdalsprestakalli til ársins 1824 en urðu þá þrjár er Saurbæjarsókn var skipt og Breiðavíkurkirkja gerð að sóknarkirkju (sjá hér Breiðavík). Með landshöfðingjabréfi frá 22. júní 1903 var leyft að byggja kirkju á Geirseyri og var þá hluti af Sauðlauksdalssókn lagður til hennar, það er þorpið á Patreksfirði og býlin við fjörðinn norðanverðan.[35] Með lögum frá 1907 var svo Geirseyrarsókn ásamt Laugardalssókn í Tálknafirði gerð að sérstöku prestakalli, Eyrarprestakalli.[36]

Líklega er séra Björn Halldórsson kunnastur allra presta, er setið hafa í Sauðlauksdal, og þá einkum fyrir það að hann ræktaði fyrstur manna kartöflur á Íslandi. Séra Björn var sem áður sagði prestur í Sauðlauksdal frá 1753 til 1782 en hafði áður verið aðstoðarprestur í fáein ár og þá búið í Saurbæ frá 1750. Fæddur var hann að Vogsósum í Selvogi árið 1724 en ólst upp á Stað í Steingrímsfirði þar sem faðir hans var prestur. Frá Sauðlauksdal fór séra Björn að Setbergi þar sem hann var prestur nokkur ár. Hann andaðist árið 1794.

Séra Björn var kappsamur búnaðarfrömuður, ritaði margt um þau efni og gekkst fyrir margvíslegum tilraunum, einkum í garðrækt. Um séra Björn í Sauðlauksdal hefur fjöldamargt verið ritað og ber mönnum saman um að hann hafi verið langmesti garðyrkjumaður á Íslandi á 18. öld.[37]

Árið 1759 fékk séra Björn sér eina skeppu (25 pund) af kartöflum frá Kaupmannahöfn en þær komu ekki í Sauðlauksdal fyrr en 6. ágúst. Lét hann þær í stórt ílát og huldi moldu. Um haustið var uppskeran aðeins örlítil kartöfluber en þau setti hann niður vorið eftir og fékk þroskaðar kartöflur haustið 1760.[38] Þar með hófst kartöflurækt á Íslandi. Þegar séra Björn setti fyrst niður kartöflur í Sauðlauksdal voru fjörtíu ár liðin síðan kartöflurækt hófst í Danmörku en þær fengu þó enga útbreiðslu þar fyrr en eftir 1750.[39] Talið er að sir Walter Raleigh hafi fyrstur flutt kartöflur til Englands frá Ameríku árið 1584. Ræktun þeirra varð þó ekki veruleg í Evrópulöndum fyrr en löngu síðar og jókst einkum er menn uppgötvuðu að úr þessum jarðarávexti mætti brugga brennivín.

Kona séra Björns var Rannveig Ólafsdóttir frá Svefneyjum, systir Eggerts Ólafssonar, skálds og náttúrufræðings. Dvaldist Eggert í Sauðlauksdal samfellt í fjögur ár, frá 1760 til 1764 og aftur síðasta árið sem hann lifði, 1767-1768. Unnu þeir mágar, Eggert og séra Björn, báðir saman að garðræktinni. Um kartöfluræktina ritar Eggert árið 1763:

 

… hefir séra Björn gert sér mikið far um að rækta hin rauðu jarðepli og það hefir honum einnig heppnast. Annað afbrigði þeirra, sem er smávaxnara og hvítt á lit og kallast jarðperur hefir einnig vaxið ásamt rauðu jarðeplunum. Þessi litlu jarðepli eru hnöttótt. Þar eru nú 4 ár síðan byrjað var á jarðeplaræktinni. Þau vaxa hér í skeljasandi, sem er blandaður að 1/3 – 1/2 með frjómold og dálitlu af sauðataði. Undan hverju grasi fást 6 – 10 jarðepli og eru 6 þeirra nægilega stór til matar. Hin stærstu eru ámóta og hænuegg en hin minnstu á við kirsiber. Hin eru notuð til útsæðis og eru á stærð við ertur eða heslihnetur Það er annars ekki óvanalegt að 20, 30 – 40 jarðepli komi undan einu grasi og það er meira að segja sagt að hjá einum bónda hér í sýslunni hafi 100 jarðepli fengist undan einu grasi. En að slíkri frjósemi er enginn hagur, því að því fleiri sem jarðeplin eru því smærri eru þau.[40]

 

Margt fleira segir Eggert um kartöfluræktina. Allra bestu jarðvegsblönduna fyrir kartöflur telur hann vera skeljasand, dökka gróðurmold og rauða móösku en mór hafði þá nýlega fundist í Sauðlauksdal. Jafnmikið á að vera af öllum efnunum en fyrst þarf askan að skolast eða liggja eitt ár úti undir beru lofti.[41]

Svo sem vænta mátti hrósar Eggert kartöflunum og bætir við:

 

Jarðarávöxtur þessi hefir náð miklum vinsældum á Íslandi svo að menn telja mat þann, sem úr jarðeplum er gerður, ekki einungis jafngildi kornmatar heldur stundum enn betri, eftir því hversu hann er tilbúinn.[42]

 

En fleira var ræktað en kartöflur í görðunum í Sauðlauksdal á árunum 1760 til 1764. Eggert Ólafsson segir mág sinn m.a. rækta það sem nú skal talið: Grænkál, hvítkál, rauðkál, grænt sniðkál, hnúðkál, gulrófur, savoykál, blómkál, spínat, bótfelskar rófur, maírófur (næpur), mustarð, piparrót, graslauk, kerfil, steinselju, allskonar salattegundir, hreðkur og kryddjurtir svo sem dilla, meiran, blóðberg, karsi og salvia.[43]Gulrætur vaxa ekki að nokkru ráði, ertur misheppnast oft, bætir Eggert við á sama stað.

Séra Björn getur þess í skýrslu frá árinu 1761 að hann hafi fengið færeyskt bygg og gert í tvö sumur tilraun til byggræktar en byggið náð litlum þroska.[44]

Áður var þess getið að Sauðlauksdalskirkja átti sex manna hvannskurð einn dag í Látrabjargi. Séra Björn ræktaði líka hvannir og ritaði um þær.[45] Víða um land tíðkaðist á fyrri öldum að menn færu á rótafjall og græfu upp hvannarætur til matar. Í Búalögum var rótafjórðungurinn metinn á alin[46] og hafa þá 600 kíló af hvannarótum jafngilt kýrverði. Í ritgerð sinni um gróður á Vestfjörðum og í Dalasýslu segir Eggert Ólafsson að hvönn sé hvarvetna etin sérstaklega leggirnir, sem etnir eru líkt og salat með nýju smjöri og fiski.[47] Þetta telur Eggert mjög hollt og bætir við að sumir eti líka ræturnar og smjör við á vorin. Eggert fræðir okkur um mataræðið í Sauðlauksdalssókn og segir að þar séu bændur teknir að nota bæði garðjurtir og villtar jurtir til matar. – Þeir borða kál og súrur, sem tilreitt er í saup eða nýja hvönn með fiskinum.[48] Í Sauðlauksdal telur Eggert vera einhver helstu jurtastóðin á landinu.[49] Hann segir skyrbjúg vera algengan sjúkdóm á Vestfjörðum en bót megi ráða á því með grænmetisáti. Í þeim efnum vísar Eggert til matjurtaræktunarinnar í Sauðlauksdal. Hann segir:

 

Á Vestfjörðum eru alltof margar orsakir til þessa sjúkdóms [skyrbjúgs]. Byggðin er öll við sjóinn þar sem loftið er þrungið saltgufu, landið er grýtt yfirferðar og sjómennirnir koma næstum aldrei á hestbak. Innisetur á vetrum valda þeim einnig heilsutjóni. Aðalfæða manna er nýr fiskur á sumrin en harðfiskur og þá oft þrár steinbítur á vetrum og sums staðar sjófuglakjöt. Bót mætti ráða á þessum vandkvæðum ef bændur vildu taka upp ræktun matjurta, líkt og sumir hafa gert í Barðastrandarsýslu, einkum við Patreksfjörð. Þá væri þeim sérstaklega hollt að nota þær villijurtir, sem blóðhreinsandi eru og lækna skyrbjúg, t.d. horblöðku og helluhnoðra. Til matar ættu þeir sérstaklega að nota sér súru, njóla, skarfakál, kattarbalsam og hrafnaklukku.[50]

 

Enn á þessi boðskapur frá Sauðlauksdal nokkurt erindi. Um kornsúruna ræðir Eggert nánar og segir bæði brauð og grauta vera gerða úr korni hennar:

 

Þegar hnýðin eru fullþroskuð og að því komin að detta eru þau tínd og þurrkuð og geta geymst allt árið. Það verður að mala þau vel og gengur það greiðlega ef þau eru þurrkuð fyrst. …

– og þótt þessi rauðu korn séu dálítið barkandi eru þau samt hollur og góður matur. Brauð úr þeim er dökkt á litinn en það þarf að blanda það méli svo að það tolli saman.[51]

 

Þeir mágar, Eggert og séra Björn, hafa líka drykk upp á að bjóða. Eggert ritar:

 

Prestar nokkrir í Barðastrandarsýslu hafa látið brenna einiber og gert af þeim drykk með líkum hætti og kaffi. … Þeim sem neytt hafa drykkjar þessa um hríð verður gott af honum, einkum ef þeir hafa þykkt blóð eða eru brjóstveikir.[52]

 

Eitthvað mun þessi kunnátta prestanna hafa breiðst út og Þorvaldur Thoroddsen kemst svo að orði að á 19. öld hafi hvannarótarbrennivín víða verið haft til sælgætis, heilsubótar og tilbreytingar líkt og einiberjabrennivín.[53]

Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal samdi auk ævisögu Eggerts Ólafssonar, ýms merkisrit um búnaðarmál. Er þar fyrst að nefna Atla, bók sem fyrst var prentuð í Hrappsey árið 1780 (önnur útgáfa 1783), og hét fullu nafni: Atli, eður ráðagjörðir yngismanns um búnað sinn, helst um jarðir og kvikfjárrækt, aðferð og ágóða með andsvari gamals bónda. Á titilsíðu stendur einnig: Samanskrifað fyrir fátækis frumbýlinga, einkanlega þá, sem reisa bú á eyðijörðum. Anno 1777. Selst almennt innbundið 15 fiskum.

 

Ritið var prentað í 800 eintökum á kostnað konungs og dreift ókeypis meðal bænda á Íslandi. Um þetta rit séra Björns segir Jón Eiríksson konferenzráð m.a. á útgáfuári þess:

 

Rit þetta er samtal milli gamals og ungs bónda og er gamli bóndinn að kenna hinum öll hin mikilvægustu atriði, er snerta búrekstur á Íslandi. … Höfundurinn er einn þeirra fáu manna á landinu, sem hefur fullkomna þekkingu á allri bústjórn og hvað við á þar í landbúnaði. Hann hefur og hina mestu reynslu í þeim efnum en auk þess hefur hann dregið efni til ritsins úr góðum ritum dönskum, sænskum og víðar að. Hefur hann tengt það við reynslu þá, sem bæði hann hefur aflað sér með endurteknum tilraunum og aðrir góðir bændur á Íslandi hafa eignast. Hann lætur þess og getið hvern árangur tilraunirnar hafa borið og hvers vegna þær hafi misheppnast er um slíkt var að ræða. … Ritið er og af ráðnum huga höfundar samið með það fyrir augum, öllu meira en nokkurt annað búnaðarrit sem hingað til hefur verið gefið út, að hvetja menn til að fylgja og framkvæma þær ráðstafanir sem allramildilegast hafa verið gerðar hin síðari árin til þess að reisa við landbúnaðinn og aðra atvinnuvegi á Íslandi.[54]

 

Þremur árum eftir að bókin kom út með formála Jóns Eiríkssonar dundu Móðuharðindin yfir. Af öðrum ritum séra Björns skulu hér aðeins nefnd tvö. Annað þeirra er Grasnytjar, bók sem kom út árið 1783, en þar gerir höfundur glögga grein fyrir hvaða not megi hafa af íslenskum grösum. Þessa bók mun séra Björn hafa ritað síðasta árið sem hann átti heima í Sauðlauksdal, þ.e. 1781.[55] Hitt ritið er svo Arnbjörg, sem ekki var prentuð fyrr en löngu eftir dauða séra Björns og heitir fullu nafni: Arnbjörg, æruprídd dándikvinna á Vestfjörðum Íslands, afmálar skikkun og háttsemi góðrar húsmóður í hússtjórn, barnauppeldi og allri innanbæjar búsýslu. Titill ritsins segir til um efnið.

Fyrir rit sitt Atla fékk séra Björn frá konungi 2 ríkisdali fyrir hverja prentaða örk[56] og frá Danska landbúnaðarfélaginu voru honum árið 1781 veitt sérstök verðlaun fyrir uppeldi munaðarlausra barna. Frá ástæðum þeirrar verðlaunaveitingar er m.a. greint á þessa leið:

 

… með því að hann fyrir 6 árum eður meira hefir tekið 5 föðurleysingja, 2 pilta og 3 stúlkur, og þar að auk ennþá 2 börn yngri, og kennt þeim jarðar- og aldingarðsyrkju. Hefir hann léð þeim lítið pláss nokkurt til brúkunar, gefið þeim fræ til sáningar og sjálfur sýnt þeim meðferðina.[57]

 

Á sama stað er tekið fram að börnin hafi fengið meir en 2½ tunnu af næpum og hvítum rófum, er þau hafi selt og sjálf haft ágóðann. Forvitnilegt hefði verið að sjá munaðarleysingjana í aldingarðinum í Sauðlauksdal. Þess er nú ekki kostur en einn þeirra var Gunnlaugur Guðbrandsson frá Brjánslæk er síðar nefndi sig Briem og varð ættfaðir allra Briema. Hann kom að Sauðlauksdal sex ára gamall árið 1779 og ólst síðan upp hjá séra Birni (sjá hér Brjánslækur). Sjálf áttu þau hjónin, Björn prestur og Rannveig kona hans, engin börn sem á legg komust.

Í ritum séra Björns Halldórssonar er fjölþættan fróðleik að finna um búnaðarhagi hérlendis og þá einkum í Rauðasandshreppi á árunum 1750 til 1780. Aðeins eitt dæmi skal nefnt hér og varðar kýrfóður og heyfeng af hverri vallardagsláttu. Séra Björn segir í riti sínu Atla að hálfur annar eyrisvöllur með góðri rækt gefi af sér kýrfóður en kýrfóðrið reiknar hann 26 hesta af töðu, hvern hest á 3 vættir.[58] Hér er þess fyrst að gæta að séra Björn reiknar heyhestinn á 3 vættir (120 kg) en um aldamótin 1900 og síðar mun heyhesturinn jafnan hafa verið talinn 2 vættir (80 kg).[59] Það sem prestur taldi þurfa í kýrfóðrið hafa því verið 3.120 kg af heyi eða 39 heyhestar af þeirri þyngd sem núlifandi menn áttu að venjast meðan hey var reitt heim á hestum.

Þessi 3.120 kg af töðu telur séra Björn að fá megi af hálfum öðrum eyrisvelli sé tún í góðri rækt. Eyrisvöllur merkir hér sama og dagslátta sem er 31,92% úr hektara. Þessa 39 nútíma heyhesta (3.120 kg), sem prestur taldi þurfa í kýrfóðrið, hefur hann því fengið af tæplega hálfum hektara (47,88% úr hektara). Er þá ljóst að eðlilegan heyfeng af túni í góðri rækt hefur séra Björn talið vera tæplega 81 og ½ síðari tíma heyhest af hverjum hektara.

Til samanburðar má hafa í huga að árið 1914 var meðalheyfengur af öllum túnum á Íslandi talinn vera um 35 hestar á hektara (rúmlega ellefu hestar á dagsláttu), samkvæmt opinberum skýrslum,[60] eða innan við helmingur þess sem séra Björn taldi unnt að fá af túnum í góðri rækt.

Margt hefur verið ritað um tilraunir séra Björns til að hefta hið ógnvænlega sandfok í Sauðlauksdal. Eggert Ólafsson getur þess að hér sé melur notaður til að hefta foksand og bjarga með því prestssetrinu frá eyðingu.[61] Hann bætir því við að í þessu skyni sé fræinu sáð en mest áhersla þó lögð á gróðursetningu hinna geysilöngu rótarsprota, sem melurinn vex upp af.

Margir kunnu lengi söguna um Ranglát, túngarðinn sem séra Björn lét sóknarbændur hlaða í kvaðavinnu til varnar sandfokinu. Nafnið fékk garðurinn af því að flestir töldu kvöð þessa óréttláta. Séra Björn mun hins vegar hafa haft í höndum heimild stjórnvalda til að leggja kvöðina á. Í ævisögu hans segir svo um þetta:

 

Til þessa fyrirtækis fékk prófasturinn þá yfirvaldsins tilhlutan að sóknarmenn skyldu honum ókeypis styrk veita að umgirða það af túninu sem vissi til austnorðurs að svo hemjast kynni að minnsta kosti uppblásturinn. Þess að auki setti hann sjálfur, með sjálfs síns heimilisfólki og aðkeyptum daglaunamönnum, fulla 200 faðma garðs umhverfis túnið svo það fengi fulla umgirðingu, sem í öðru tilliti nauðsyn krafði.[62]

 

Sandvarnargarðar séra  Björns voru, að sögn Búa Þorvaldssonar frá Sauðlauksdal, þrír. Á fyrri hluta 20. aldar var sá neðsti þeirra, sá sem næstur var ströndinni, 10-15 faðmar en sá í miðið um 30 faðmar á lengd. Næst bæjarhúsunum í Sauðlauksdal var svo lengsti garðurinn, um það bil helmingi lengri en sá í miðið og er það hinn raunverulegi Ranglátur.[63] Allir voru garðarnir um ein og hálf alin á hæð yfir umhverfið, að sögn Búa

Leifarnar af Ranglát blasa enn við sjónum í Sauðlauksdal og hafa verið friðlýstar allt frá 11. janúar 1974.[64] Sama dag var einnig þinglýst friðlýsingu Akurgerðis í Sauðlauksdal (sjá hér bls. 15) og vörslugarðs fyrir framan túnið sem talinn er frá tíð séra Björns Halldórssonar hér.[65]Tímans tönn hefur hins vegar máð út flest önnur ummerki hinna miklu framkvæmda séra Björns.

Einna hörðust mun sandhríðin hafa orðið í febrúar árið 1763. Séra Björn yrkir þá kvæði um sandpláguna og byrjar svo:

 

Sandur mér hingað sendist,

sandurinn á þann vanda,

sandurinn sjónir blindar,

sandurinn birgir landið.[66]

 

Skömmu eftir þessa sandhríð hefur séra Björn á orði í bréfi til amtmanns að líklega verði hann að flýja Sauðlauksdal ef ekki verði að gert. Kveðst hann á hverju ári hafa varið meir en fjórðungi tekna sinna í varnir gegn sandinum.[67]

Séra Björn Halldórsson þótti um sína daga allstrangur sóknarherra og svo segir Daði fróði að hann hafi jafnvel látið setja menn í gapastokk um messutímann.[68] Hérlendis voru gapastokkar innleiddir sem opinber refsitæki með húsagatilskipun Kristjáns VI. árið 1746.[69] Gapastokkar voru yfirleitt settir upp þar sem margt fólk kom saman og þá ekki síst við kirkjur. Varð brotamaðurinn að dúsa hlekkjaður í stokknum fyrir allra augum, án þess að geta hrært legg eða lið, og var refsingin ætluð honum til háðungar en öðrum til viðvörunar.

Vel má vera að séra Björn hafi þröngvað í gapastokkinn þeim þverbrotnu sóknarbörnum sem neituðu að draga kauplaust að grjót í Ranglát. Ugglaust hefur refsinga líka verið talin þörf fyrir sitthvað annað, máske spott um almættið. Sagan segir að séra Björn hafi eitt sinn farið að húsvitja meðan hann var aðstoðarprestur og bjó í Bæ á Rauðasandi. Spurði hann þá karl einn í sókninni hvort hann kynni nokkurt gott guðsorð. Karl kvaðst kunna fallega bæn og fór með þessa:

 

Engillinn mætti mér,

á miðri braut;

hafði hann horn í vanga

og stangaði mig sem naut.

Vaki vörður guðs yfir mér.[70]

 

Í Íslenskum æviskrám segir um séra Björn í Sauðlauksdal að hann hafi verið gáfumaður mikill, hagsýnn og stöðuglyndur, kennimaður góður, þótt hann væri lágróma, hraðmæltur og lítill raddmaður, siðavandur mjög og reglubundinn, gestrisinn og hjálpsamur.[71]

Ytra útliti séra Björns Halldórssonar er vel lýst í æviminningu sem eftirmaður hans í prestsembætti á Setbergi, séra Björn Þorgrímsson, ritaði. Þar segir m.a.:

 

Séra Björn sálugi var með hærri mönnum á vöxt, herðabreiður og miðmjór – eftir vexti hár í sessi. Hendur hans og útlimir voru miklir og allsterklegir. Var hann raunar rammur að afli meðan hann var á besta skeiði. … Í andliti var hann dimmleitur en skifti þó allglöggt litum. Ennið meðalmáta mikið og hamrað, brýrnar harðar í meira lagi, nefið að hófi stórt, liðlaust og óbogið, augun dauf fyrst að sjá en skarpleg og þó stöðug, ef í tómi var að gáð, en sást eigi gjörla í fljótu bragði, því maðurinn var alla ævi nærsýnn og sjónarlagið miklu hvassara í hálfdimmu en í glaðri birtu. Kinnbeinin lágu eigi hátt, munnurinn vel farinn en hakan nokkuð fram vaxin. Hár hafði hann í æsku svart en brýr og skegg jarpleitt.[72]

 

Lengi enn munu flestir sem koma í Sauðlauksdal og ekki eru með öllu fáráðir minnast hér séra Björns og þá ekki síður gistivinar hans og mágs, Eggerts Ólafssonar.

Þegar Eggert settist að í Sauðlauksdal sumarið 1760 var hann 33ja ára að aldri, ókvæntur og embættislaus. Hann hafði þá, ásamt Bjarna Pálssyni, farið rannsóknarferðir um Ísland í sjö sumur, fyrst 1750 en síðan á árunum 1752 til 1757 og þá á vegum Vísindafélagsins danska samkvæmt sérstöku konungsboði. Á árunum 1752 til 1757 höfðu þeir Eggert og Bjarni jafnan vestursetu í Viðey hjá Skúla fógeta en í Kaupmannahöfn hafði Eggert dvalist samtals á níunda ár við nám og störf frá því hann sigldi þangað fyrst ungur stúdent árið 1746. Þegar Eggert sigldi frá Kaupmannahöfn vorið 1760 hafði Bjarni félagi hans verið skipaður landlæknir á Íslandi, sá fyrsti er því embætti gegndi. Enn átti þá að mestu eftir að semja hið mikla rit sem að hafði verið stefnt með ferðum þeirra í sjö sumur. Það kom því í hlut Eggerts að vinna úr öllu því efni er þeir höfðu dregið saman og semja bókina. Að því verki vann hann í Sauðlauksdal næstu fjögur ár og lauk því í Kaupmannahöfn árið 1766. Er Eggert því jafnan talinn eini höfundur Ferðabókar Eggerts og Bjarna, enda þótt Bjarni landlæknir, sem síðar varð, hafi átt drjúgan þátt í efnisöflun.

Í Sauðlauksdal hefur Eggert haft næði til rannsókna, úrvinnslu og ritunar Ferðabókarinnar miklu auk skáldskapariðkana en jafnframt lagði hann hönd á plóg með mági sínum við ræktunarstörfin.

Í Höfn hafði Eggert verið manna vinsælastur meðal landa og margir söknuðu hans þar. Fór bróðir minn Eggert um borð á Patreksfjarðarskipi, sómamaður hinn mesti, minn elskulegur samþjón í 14 ár! valeat ocellus meus, ritar Bjarni Pálsson í almanak sitt 13. maí 1760.[73]

Og Jón Ólafsson úr Grunnavík párar um Eggert í kompu sína um svipað leyti þar úti í Kaupmannahöfn:

 

Skaði er skuli hans hér við missa, því hann er að hugviti, lærdómi og manndyggðum flestum sínum löndum framar merkilegur og er vænlegur til góðrar gagnsemdar. Hann hefur og eigi látið mig verða af því hlutlausan né hans góðu bræður, þeir báðir Jónar og Magnús eins.[74]

 

Allmörg bréf eru varðveitt sem Eggert skrifaði í Sauðlauksdal til Jóns Grunnvíkings og nokkur þeirra prentuð í Andvara.

Fyrsta bréfið eftir heimkomuna 1760 skrifar Eggert Jóni þann 10. september um haustið og er þá staddur í Hjarðarholti í Borgarfirði. Hann segir þar árgæsku mikla um allar sveitir og kveðst hafa hresstst eigi alllítið við að sjá hversu guð leikur hér við oss Íslendinga.[75] Í þessu bréfi segir Eggert ennfremur:

 

Ráðin er mér nú vetrarvist hjá mági mínum, síra Birni, vestur í Sauðlauksdal hvar foreldrar mínir ogsvo eru. Verður mér þar hús byggt, kakalónn, hýsing og aðrar hægðir, einasta mig vantar skrifarann, sem mér líki við. … Vel uni ég mér á Íslandi og eigi í nokkur ár betur.[76]

 

Frá Sauðlauksdal ritar Eggert Jóni Grunnvíkingi þann 7. september 1761. Hann ávarpar Jón með þessum orðum: Minn kæri kunnmaður og fornmennsku vinur, Mr. Jón Ólafsson gamli. Jón var þá 56 ára og hefur sjálfur skrifað á bréf Eggerts til skýringar á ávarpinu gamli – elstur alnafna sinna, hinna latínulærðu. Í þessu bréfi segir Eggert:

 

Ég hefi hér miklu betri heilsu en þar ytra, bestu rólegheit og náðir til að stúdera, stofu nýja, vel byggða, út af fyrir mig, með kakalóni, bóka- og klæðaskáp og öðru hagræði, thermometro, úri, sólskífu, lopt uppyfir með þéttri súð. Þar er sæng mín í öðrum enda en í hinum borð undir glugga. … Hvaða diæta [þ.e. fæði – innsk. K.Ó.] viðvíkur hefi ég kost sem utanlands og betri, vissan til hvers vikudags, þar þau hjónin eru svo lukkuleg að samtengja það sem nytsamlegt og sparsamt er við þann íslenska búskap.

… Hér eru maturtir yfirfljótanlegar: grænt, hvítt, rautt, snið-savoy-kál og kaalraven yfir og undir jörðu, sinep, spinat, salat, laukar, petursselja etc., næpur, hvítar rófur og rediker. Hér er að auk akurgerði með jarðeplum í, hvar af mjöl er gjört til brauða og grauta. Ég hefi og þar af hárpúður í stað þess útlenska. … Sjófiskur fæst hér allslags til matar og góður silungsafli er hér á veturna við túnið. Rjúpnaveiður er á vetrum nægileg eftir gömlum máta með snörum og togi. … og hefi ég notið þess yndis að sjá hér græn lauf með plómutré, píl og espibræður í sumar.

… Má ég það játa að ég hefi aldrei lifað náðugra, svo ég vildi gjarnan í skumaskoti þvílíku allan minn aldur njóta mega, þar ég veit að fleiri munu slíkt meina, ef guð ann voru föðurlandi nokkurrar endurnýjunar. Lesið nú þessa klausu aftur og aftur, nær yður verður þungt í skapi eður þá þér hugsið til Íslands, því betra er að gjöra sér hjálpvænlegar en hryggvar innbyrlingar.[77]

 

Það hefur ekki verið amalegt fyrir Grunnavíkur Jón að fá svona bréf, svo mjög sem hann óttaðist um heill og hag Íslands. Í bréfinu tekur Eggert hins vegar fram að frá því hann fór frá Höfn hafi hann misst alla lyst til að yrkja … hvort sem alvara verður af.

Í bréfi sem Eggert ritar Jóni ári síðar, 17. september 1762, má sjá að Jón hefur hvatt hann til að taka upp yrkingar á ný og mæra í ljóði slíka mögulega Íslands ánægju. Eggert vill gleðja sinn gamla vin og segir honum nú þær fréttir að í Sauðlauksdal sé hann búinn að yrkja Búnaðarbálk og vanti ekkert nema skrifarann svo að Jón gæti fengið afrit af öllum kvæðabálknum. Skáldið greinir í bréfinu frá efni og uppbyggingu Búnaðarbálks og segir m.a.:

 

Þriðja kvæðið kallast Munaðardæla, Bóndalíf og Landselska, um það, hvern veg góðir bændur kunna að lifa glaðir og vel ánægðir, og hafa alls konar nægtir á Íslandi, bæði af hlunnindum þeim, er þar brúkast nú, og honum, er af nýju fást og brúkast kunna, og í öllu því að sýna dugnað og elsku föðurlandinu. – Þetta er nú inntak Búnaðarbálks, sem er 100 erindi.[78]

 

Við móttöku þessa bréfs hefur sá gamli úr Grunnavík enn haft ástæðu til að fagna og lofsyngja Eggert.

Haustið 1763 barst Grunnvíkingnum í Kaupmannahöfn enn bréf frá  fornvini sínum í Sauðlauksdal, sem segir að allir Íslendingar hafi nú fullt hús matar en víkur síðan að öðru og ritar:

 

Það er gamall málsháttur kvenna að lengi skyldi í góðum graut á gólfi hræra. Það hefir nú í næst umliðin tíu ár verið hrært í þeim pólitíska graut vor Íslendinga og er því líklegt hann soðni um síðir svo að landsmönnum ætur og hollur verði. … Guð gefi yður huggun og hjálp í yðar útlendingsskap og allra helst að þér mættuð fá ánægju með ellinni.[79]

 

Í Sauðlauksdalssælunni unir Eggert sér vel og greinilegt að hann öfundar ekki Grunnavíkur Jón af Hafnarvistinni. Neðanmáls bætir hann við í þessu bréfi:

 

Æ tímgast hér matjurtir og ýms aldini betur og betur. Mustarðslundur 9 fóta hár kringum nýbyggt lysthús með borði, bekkjum og ilmandi blómi er hér á landi ný byggð, sem jafnast kann við diætas sumra þar ytra.

 

Í öðrum heimildum má sjá að lysthús þetta hefur staðið í einum urtagarðinum í Sauðlauksdal. Lysthúsinu og umhverfi þess er lýst svo í ævisögu séra Björns:

 

Hinn þriðji [jurtagarður] var 16 álna í hvert horn af fjórum og í þessum miðjum stóð lystihús eitt, hið fyrsta að ég ætla þess kyns, er byggt hefir verið á Íslandi. Var það eins og sjálfur aldingarðurinn uppbyggt í óskökku ferhyrningsformi og þakið yfir af timbri, alla vega jafnt uppdregið í topp, og efst knappur áttkantaður. Að hliðum hússins var í staðinn laufviðar plantaður mustarður og vöxtur hans svo aukinn að vel gnæfði yfir neðstu umför á þakinu.[80]

 

Akurgerði heitir í Sauðlauksdal uppi á brekkustalli, 300-400 metra í norður frá bænum. Þar telja menn að enn votti fyrir ummerkjum eftir jurtagarða séra Björns.[81] Búi Þorvaldsson frá Sauðlauksdal, fæddur 1902, lýsti Akurgerði svo um 1970 að það væri nokkuð stór garðspilda, girt sterkum garði af torfi og grjóti.Hann segir að læk hafi verið veitt undir mannvirki þetta og með hellusteini undir neðri garðveggnum hafi verið hægt að stjórna hve djúpt var á vatnið í jarðveginum.[82]

Í Sauðlauksdal vildu menn sýna að Ísland byði ekki upp á lakari kosti en önnur nálæg lönd. Lysthúsið í mustarðslundinum var kóróna þess sköpunarverks sem þetta átti að sanna. Í átjándu aldar sögu Íslendinga eru dæmin mörg um svartasta myrkur mannlegrar niðurlægingar. Þeim mun skærari verður birtan yfir Sauðlauksdal þar sem menn sýndu í snjöllum orðum og stórum verkum óbilandi trú á íslenska endurreisn. Þess hefur margur notið síðar.

Í lysthúsinu sat Eggert á góðum stundum við ljóðasmíð. Enn kunna margir Lysthúskvæði hans og syngja við aldagamalt þjóðlag íslenskt:

 

Undir bláum sólar sali

Sauðlauks- uppí lyngnum dali

fólkið hafði af hanagali

hversdags skemmtun bænum á,

fagurt galaði fuglinn sá;

og af fleiri fugla hjali

frygð um sumarstundir

listamaðurinn lengi þar við undi.

 

Og síðasta vísan:

 

Vín á milli mustarðs stofna

manninn hressti krafta dofna;

margur söng við sólarofna

og sendi tóninn greinum frá;

fagurt galaði fuglinn sá;

lyst var engin segg að sofna,

sorgin burtu hrundi;

listamaðurinn lengi þar við undi.

 

Á fyrstu árum 20. aldar taldi fólkið í Sauðlauksdal sig vita að lysthúsið frá dögum séra Björns Halldórssonar, sem hér var áður nefnt, hafi staðið ofantil í miðju Akurgerði, þar sem enn mótaði fyrir nokkurri upphækkun.[83]

Það hefur verið mikið um fuglaklið í Sauðlauksdal og haninn galað hátt á sólskinsmorgni.

Atli vill hænsn hafa heitir reyndar einn kaflinn í riti séra Björns Halldórssonar, Atla. Þar kemur fram að einhverjir í sóknum hans hafa talið hanagal vel til þess fallið að fæla burt drauga. Prestur taldi hanann að vísu betri til áts en átrúnaðar. Þó kemur fram að hann álítur slíka hjátrú geta verið févænlega, verði hún til þess að menn bæti búnað sinn og komi sér upp hænsnum.

Orðin sem séra Björn leggur hinum gamla og margvísa bónda í munn um þetta atriði eru:

 

Haninn galar venjulega á eyktamótum en viti hann á veðrabrigði þá bregður hann venju.

Hvað reimleika snertir þá er haninn langtum betri til áts en átrúnaðar. Þó er það févænlegri trú, sem eignar hanagalinu kraft á móti þeim en svokölluðu agate eða vafi og er sá bestur meðal hálfvita, sem bætir búnað sinn en spillir honum hvergi með þess háttar hjátrú. Ef að þú heldur að reimleikum valdi illir andar þá er hvergi vörn að fá í móti þeim nema í andanna ríki og hjá þeim sem er enn sterkari, það er sá almáttugi skapari og kóngur andanna, guð á himnum.[84]

 

Eggert Ólafsson yfirgaf Sauðlauksdal haustið 1764 eftir fjögurra ára dvöl og sigldi til Kaupmannahafnar. Árið 1767 kom hann aftur til landsins, hafði þá skilað Vísindafélaginu handriti að Ferðabókinni og verið skipaður varalögmaður. Þá um haustið settist hann enn að í Sauðlauksdal og átti hér veturvist en hafði áður haldið brúðkaup sitt í Reykholti (sjá hér Lýsing Rauðasands og Skorar). Um brottför Eggerts frá Sauðlauksdal vorið 1768 og drukknun hans á Breiðafirði er ritað hér á öðrum stað (sjá Lýsing Rauðasands og Skorar).

Þann 1. september 1767 var Eggert staddur í Reykholti að undirbúa brúðkaup sitt. Þann dag ritar hann enn fornvini sínum Jóni Ólafssyni úr Grunnavík mjög vellærðum og fornum fræðimanni. Í bréfinu hefur Eggert ýmsar fréttir að færa og þessar helstar úr Rauðasandshreppi og nálægum byggðum:

 

Fjárpestin gjörir stóran skaða og óvenjulegan skaða hér á landi, eins Vestfjörðum, sem oftar hafa sloppið hjá landplágum. Í Barðastrandarsýslu syðra parti og Ísafjarðarsýslu er mestallt dautt, en nyrðri partur Barðastrandarsýslu, milli Breiðafjarðar og Arnarfjarðar, er frí. Þar voru bænadagar haldnir af öllum prestum og komst þó þessi vonda sótt þangað áður en dagurinn kom, svo algleymingur var kominn á allri Barðaströnd og við Patreksfjörðinn, en strax eftir bænadaginn hvarf allt af aftur og varð jafngott. Hefir aldrei síðan orðið vart við það og hvergi betra fé en þar í vor.[85]

 

Enn skein sól yfir Sauðlauksdal og menn bænheitir á Rauðasandi og víðar í prófastsdæmi séra Björns.

Hér hefur verið tekinn sá kostur að rita nokkurt mál um þá félaga, séra Björn Halldórsson og mág hans Eggert. Á þeirra tíð varð vegur Sauðlauksdals mestur. Margir merkisprestar sátu þó staðinn bæði fyrr og síðar en hér verður lítt frá þeim sagt.

Séra Jón Ormsson varð prestur í Sauðlauksdal næstur á eftir séra Birni og hélt staðinn frá 1782 til 1820. Það kom í hlut séra Jóns að fást við morðmálin á Sjöundá árið 1802 og í skáldsögu Gunnars Gunnarssonar Svartfugli er hann ein höfuðpersónan. Klerkur mun hafa verið tregur að trúa söguburði um ástandið á Sjöundá og var sakaður um ótilhlýðilegt afskiptaleysi. Í dómi Landsyfirréttar frá 4. maí 1803 yfir þeim Bjarna og Steinunni á Sjöundá segir svo um hlut séra Jóns Ormssonar:

 

… en prófastur Jón Ormsson á, eftir biskups fyrirskipun, að sæta lagatiltali fyrir alla embættis forsómun og grunsömu afskipti hans um þetta mál, bæði hvað húsvitjunar forsómun og lagfæringartilraunir á vondu samlífi Sjöundárfólks 1802 snertir, og ekki birt hans afskifti við líkskoðun og greftrun Guðrúnar heitinnar, niðurþöggun almennings orðróms um þessi afbrot, drátt og hylmandi orðun auglýsingar hér um til yfirvaldsins, tilhlutun um þeirra seku sambúð, eða ráðgjört hjónaband, og allt annað hér að lútandi … .[86]

 

Í ummælum sínum um séra Jón ganga dómarar Landsyfirréttar reyndar enn lengra og segja ástæðu til að kanna sérstaklega hvort nefnds prófasts yfirsjón og embættis forsóman innibindi og fulla hylmingu svo skelfilegra ódáða eður ei.[87] (Sjá hér Sjöundá).

Sagt er að þegar séra Jón frétti að Bjarni á Sjöundá hefði játað á sig morðin hafi honum brugðið mjög og hann þá ort sálm einn, fimm erindi, og er upphafið þetta:

 

Þér einum braut ég móti mest,

minn Guð, hjartað mitt sér þú best

og alla athöfn ranga,

bölvun þunga, sem boða fer;

bið ég þín miskunn líkni mér,

hlífi við straffi stranga.[88]

 

Nær hálfum öðrum áratug síðar lenti séra Jón Ormsson í erfiðu máli vegna barneignarbrots sonar síns, sem þá var orðinn aðstoðarprestur í Sauðlauksdal. Séra Daði Jónsson tók við aðstoðarprestsembættinu árið 1815 og settist þá að hjá föður sínum í Sauðlauksdal. Tveimur árum síðar eignaðist hann, framhjá konu sinni, soninn Benóný með Guðrúnu Guðmundsdóttur frá Auðkúlu, er síðar varð kona séra Jóns Ásgeirssonar á Álftamýri. Séra Daði var tregur að meðganga barnið og sjálfur lenti séra Jón í blóðugum handalögmálum á Vatneyri vegna þessara barnsfaðernismála svo sem frá er sagt í Vestfirskum sögnum og skráð er í dómabók sýslumanns.[89]

Við barnsskírnina var þess krafist að séra Daði játaði faðernið en faðir hans, séra Jón prófastur Ormsson, sem þá var 73 ára gamall, svaraði og sagði engin líkindi til þess að sonur sinn ætti barnið og myndi skækja sú hafa getað fengið nóga stráka til að liggja með sér og ekki þurft að fá kvæntan mann til þess.[90] Við þessi orð reiddist Bjarni faktor Bjarnason á Vatneyri svo mjög að hann barði prófast og upphófust þá harðvítug slagsmál í stað skírnar. Málinu lauk þó svo að séra Daði játaði faðerninu en missti fyrir bragðið hempuna í sjö ár. Síðar varð hann prestur á Söndum í Dýrafirði (sjá hér Sandar).

Er séra Jón Ormsson lét af prestsembætti í Sauðlauksdal árið 1820 tók við prestakallinu séra Gísli Ólafsson, fæddur 1777, fóstursonur séra Benedikts Pálssonar á Stað á Reykjanesi. Séra Gísli var prestur í Sauðlauksdal frá 1820 til 1852. Í æviskrám segir um séra Gísla að hann hafi verið vel fjáður, vel gefinn, lipur kennimaður, hagmæltur, hraustur að afli, drykkfelldur mjög, enginn stillingarmaður og því ekki alls kostar þokkasæll.[91]

Fjölmargir sagnir eru skráðar um séra Gísla og fjalla sumar um virðureign prests og niðja hans við drauginn Dalla, sem mjög lét til sín taka frá því um 1825 og til 1925.[92] Dalli var upphaflega sending frá Benedikt Gabríel, hinum alkunna galdramanni er bjó í Reykjarfirði í Suðurfjörðum Arnarfjarðar frá 1819 til 1833. Segir sagan að séra Gísli í Sauðlauksdal hafi neitað að borga Benedikt Gabríel það sem upp var sett fyrir nokkur selskinn og hafi selskutlarinn Benedikt þá magnað þessa sendingu á prest.[93] Birtist Dalli í ýmsum myndum, ýmist sem hundur, kálfur, vetrungur eða strákur. Fyrstu komu hans í Sauðlauksdal er lýst á þessa leið:

 

… En á aðfangadagskvöld í rökkrinu er sagt að smalamaður í Sauðlauksdal hafi heyrt nautsöskur fyrir handan vatnið en gefið því engan gaum. Seinna um kvöldið þegar heimamenn eru allir inn komnir, að útiverkum afloknum, er bænum lokað og búist til jólagleði. Ætlar frú Sigríður [kona séra Gísla, en sjálfur var prestur að messa á Rauðasandi – innsk. K.Ó.] að fara að skenkja kaffið. Heyrist þá ógurlegt nautsöskur úti og í sömu svifum koma tvö geysimikil högg á stofuþilið en hræðslan grípur alla í baðstofunni. Frú Sigríður lítur út um glugga og biður guð að hjálpa sér en fyrirbýður að fara ofan og opna bæinn. Þá segir fjósamaðurinn, Halldór Bjarnason: „Það er til skammar að opna ekki fyrir þeim, sem er að berja til dyra.” Fer hann þá ofan og fram að dyrum og opnar bæjarhurðina en sér hvorki menn né naut úti né nokkuð óvenjulegt. Ein af dætrum séra Gísla fer ofan á eftir Halldóri með ljós í hendi til að lýsa gestinum, sem allir héldu að kominn væri, og aðrar tvær fara líka ofan. En jafnskjótt og Halldór opnar bæinn detta þær allar niður með froðufalli, ein í bæjardyrunum, önnur í göngunum og sú þriðja úr stiganum, þar sem hún var að fara ofan af loftinu. Jafnframt kemur æði á frú Sigríði og börnin öll, sem heima voru, en heimamenn urðu allir sem þrumu lostnir við ósköp þessi. … Höfðu allir frá sama að segja en það var, að undireins og bærinn var opnaður hefðu börnin þrjú séð svartan hund með hvítan díl í rófunni koma til sín með dinglandi skottið og samstundis hefðu þau fengið aðsvifið. Varð nú lítið úr allri jólagleði….[94]

 

Á jóladag kom séra Gísli heim.

 

Tekur hann þá til sinna ráða. Lét hann fólk allt fara í bæinn, lokaði honum, fór einn út á móti sendingunni og var úti mestalla nóttina. Eigi vissu menn gerla hvað hann starfaði en þó var talið að hann hafi verið með guðsorðalestri, skrýddur fullum messuskrúða og með kaleik í hendi, að eiga við drauginn.[95]

 

Var í fyrstu talið að séra Gísla hefði tekist að koma sendingunni fyrir í dýi einu utan til í túninu í Sauðlauksdal. Allt fór það því miður á annan veg. Reis Dalli upp hinn magnaðasti og reyndist séra Gísla og niðjum hans þungur í skauti í heila öld.[96]

Eftir að séra Gísli lét af prestsembætti árið 1852 byggði hann sér bæ í Dalshúsum hjá Sauðlauksdal og hafði þá öll afnot af þeirri hjáleigu.[97] Magnús sonur séra Gísla tók við embætti af föður sínum og þjónaði Sauðlauksdalsprestakalli til 1879. Í veikindum séra Magnúsar þjónaði séra Gísli þó embættinu á ný í fimm ár, frá 1855 til 1860, þá um áttrætt. Séra Gísli Ólafsson andaðist í Dalshúsum árið 1861 en séra Magnús Gíslason dó í Kvígindisdal árið 1904.[98]

Á síðustu hundrað árum hafa tveir prestar setið lengur en aðrir í Sauðlauksdal, séra Þorvaldur Jakobsson frá 1896 til 1919 og séra Þorsteinn Kristjánsson frá 1922 til 1943.[99] Sá síðarnefndi drukknaði er vélskipið Þormóður fórst 18. febrúar 1943. Báðir voru þeir sveitarstólpar og merkir lærdóms- og kennimenn. Þeir heyra 20. öldinni til og verður því ekki um þá fjallað hér.

Séra Þorvaldur varð gamall maður og var á efri árum sæmdur fálkaorðu. Sú saga hefur komist á kreik að kunningi hans hafi viljað óska honum til lukku með orðuna en karl þá svarað með vísu, sem ort var upp á vestfirsku forna:

 

Fálkatyrdill fenginn er

feikna virding sýnist þat

um svarit ördugt yrdi mér

ef þú spyrdir fyrir hvat?

 

Mun þó séra Þorvaldur hafa verið betur að fálkaorðunni kominn en margur annar sem slíkan kross hafa borið.

Síðasti prestur sem sat í Sauðlauksdal var séra Grímur Grímsson er hér var prestur frá 1954 til 1963.

Nú er autt og tómt í Sauðlauksdal. Sandinum tókst að vísu aldrei að leggja staðinn í auðn en aðrar og illvígari höfuðskepnur nútímans eyddu byggðinni. Árið 1975 fór staðurinn í eyði og hefur verið það síðan, hvað sem verður.

Kirkjan sem nú stendur í hér var smíðuð árið 1863. Meðal gripa kirkjunnar er predikunarstóll sem hjónin Ólafur Gunnlaugsson og Ragnhildur Sigurðardóttir, foreldrar Eggerts Ólafssonar, gáfu kirkjunni.[100] Einnig var hér lengi hökull sem Ingibjörg Guðmundsdóttir, brúður Eggerts, saumaði feigum fingrum veturinn eina sem hún dvaldist í Sauðlauksdal.[101] Hökullinn er nú á Þjóminjasafni.

Brátt höldum við líka úr hlaði. Við skulum samt fyrst líta einu sinni enn yfir vatnið góða sem er staðarprýði. Eggert getur þess að mikil silungsveiði hafi verið í vatninu.[102] og mun hún hafa haldist lengi.[103] Reyndar lét séra Björn Halldórsson útbúa sérstaka þró eða tjörn í túninu til að geyma í lifandi silung sem unnt væri að stinga í pottinn ef skjótt þurfti til að taka.[104]

Eggert kunni líka frá því að segja að Guðmundur góði, síðar biskup á Hólum, hafi á sínum tíma vígt Dalsvatn í Sauðlauksdal[105] og kemur það heim við eldri heimildir. Í Biskupasögum segir svo:

 

Þaðan fer Guðmundur prestur vestur í Fjörðu og verða þar margir merkilegir hlutir í stórum jarteinum þótt vér munum fátt af. En er hann var í Sauðlausdal þá vígði hann þar vatn og bar þar kona heim í húfu sinni því að hún hafði ekki ílátið til vatnsins og var húfan þurr á utan en vatnið var í húfunni.

Þá fer maður einn hver um fjall eitt bratt með vatnið í byttu og setti niður hjá sér er hann batt skó sinn. En þá stekkur byttan ofan fyrir fjallið og hleypur stein af steini uns hún kom á jöfnu. Þá þótti honum saki að mikill um vatnið og fór hann ofan af fjallinu og þar til, er byttan stóð, og var hún heil og enginn dropi úr.[106]

 

Það mun hafa verið sumarið 1200 sem Guðmundur prestur Arason vígði Sauðlauksdalsvatn, einum vetri fyrr en hann var kjörinn biskup.

Líklega hafa áhrif vígslunnar verið farin að dofna 574 árum síðar en þann 13. desember 1774 drukknuðu tveir yngismenn niður um ís á Sauðlauksdalsvatni. Báðir voru þeir námspiltar hjá séra Birni Halldórssyni. Hét annar Jón Guðmundsson og var systursonur séra Björns en hinn var Zakarías, sonur séra Jóns Bjarnasonar sem þá var prestur á Rafnseyri.

Í rökkrinu voru þeir að renna sér á öndrum á ísilögðu vatninu ásamt þriðja pilti.

 

– Ísinn var lélegur og svo ótraustur að annar piltanna féll ofan um hann, en þá ætlaði hinn að bjarga félaga sínum, en fór þá líka sjálfur í vökina. Þriðji pilturinn þorði ekki út á hinn veika ís og var það hans vitið meira en hljóp til bæjar og sagði tíðindin.[107]

 

Séra Björn orti erfiljóð eftir þessa ungu sveina, er svo sviplega kvöddu lífið, og segir þar m.a.: Háll ís og veikur og hættusöm leið, er hérvistar skeið.[108]

Á lognkyrrum sumardögum er vatnið sem spegill en enginn leikur nú listir sínar á ísum þess í skammdegisrökkrinu á ýli.

Frá vatninu lítum við til fjalla og hyggjum skamma stund að leiðum frá Sauðlauksdal. Séra Gísli Ólafsson segir í sóknarlýsingu sinni frá 1840 að frá Sauðlauksdal að Saurbæ sé farin Dalsheiði og sama segir Ólafur Árnason sýslumaður árið 1746.[109] Um það bil einum kílómetra fyrir framan bæjarhólinn í Sauðlauksdal verður svolítil lægð í austurhlíð dalsins og heitir þar Hagagil. Þar fellur Hagagilsá niður í dalinn og sameinast Sauðlauksdalsá. Upp Hagagilsbrekkur, framan við gilið, lá forn reiðgata á Dalsheiði. Frá brúninni var stefnan tekin í suðaustur en síðan beygt til suðurs rétt norðan við Mjósund þar sem nú er akvegurinn yfir Skersfjall og komið niður í Bjarngötudal á Rauðasand. Áningarstaður var við Víðivatn og annar rétt áður en komið var að Mjósundum.[110] Við Víðivatn er þó nokkur starargróður.[111] Þetta var leið Sauðlauksdalspresta á annexíuna í Saurbæ og mun ýmist hafa verið kallað að fara Dalsheiði, Sauðlauksdalsfjall eða Dalsfjall. Síðasta nafnið notar Pétur Jónsson fræðimaður, sem lengi bjó á Stökkum á Rauðasandi á fyrri hluta tuttugustu aldar, og Ólafi Magnússyni á Hnjóti, sem fæddur er 1900, er það tamt. Reiðvegurinn frá Sauðlauksdal að Saurbæ  er um tíu kílómetrar.

Gangandi menn, sem ekki hræddust kletta, gátu valið sér aðrar leiðir frá Sauðlauksdal á Rauðasand og tekið stefnu á þessa eða hina gjána í fjallsbrúninni upp af Rauðasandi. Einna algengast mun hafa verið að fara Stakkagjá og var þá farið fram í botn á Sauðlauksdal og síðan áfram með ánni nokkurn spöl til suðvesturs og um Stakkagjárdal til fjalls.

Til Keflavíkur austan Látrabjargs var farið Dalverpi en svo heitir langur afdalur eða lægð í fjalllendinu milli Keflavíkur og Sauðlauksdals. Á vatnaskilum eru þar Arnarvörður.[112] Þær eru tvær og allmiklu vestar Konráðsvarða sem sagt er að hafi verið hlaðin á 16. öld[113] og brátt verður nánar frá sagt. Sé farið um Dalverpi frá Sauðlauksdal til Keflavíkur er farið hjá vegamótum rétt áður en komið er að Konráðsvörðu.[114] Við þær krossgötur mætir reiðgatan um Dalverpi hinni fornu þjóðleið yfir Hnjótsheiði sem farin var frá bænum Hnjóti í Örlygshöfn að Naustabrekku á Rauðasandi.[115] Um það bil einum kílómetra vestan við nýnefndar krossgötur sveigir slóðin um Dalverpi til suðvesturs og þar tekur landinu að halla í átt til Keflavíkur.[116] Örskömmu síðar koma menn að öðrum vegamótum. Frá leiðinni niður í Keflavík sveigir þar önnur gata nær beint í vestur og síðan í norðvestur í átt að Brúðgumaskarði en úr skarðinu eru leiðir greiðar í ýmsar áttir, m.a. til Breiðavíkur.[117] Leiðin um Dalverpi og þaðan til Breiðavíkur mun sjaldan hafa verið farin áður en bænhúsið í Breiðavík var gert að sóknarkirkju árið 1824 (sbr. hér Breiðavík) en eftir það fjölgaði ferðum prestanna í Sauðlauksdal um Brúðgumaskarð á leið til útkirkjunnar. Þessa leið lét séra Magnús Gíslason ryðja er hann var prestur í Sauðlauksdal á árunum 1845-1879 og var hún stundum nefnd Prestavegur.[118] Nafnið Brúðgumaskarð kallar á skýringu og segir sagan að eitt sinn hafi brúðhjón verið á leið til Bæjarkirkju á Rauðasandi, áður en kirkja var byggð í Breiðavík, og hafi brúðguminn orðið bráðkvaddur í skarðinu.[119]

Leiðin um Dalverpi, frá Sauðlauksdal til Keflavíkur, er um fjórtán kílómetrar og liggur hæst í 250-300 metra hæð yfir sjávarmáli. Frá Sauðlauksdal að Breiðavík eru um það bil tuttugu kílómetrar, sé farið um Brúðgumaskarð, og liggur vegurinn hæst í sjálfu skarðinu þar sem hæðin nær 324 metrum.

Hér var áður minnst á Konráðsvörðu sem stendur við götuslóðina um Dalverpi, rétt fyrir vestan krossgöturnar þar sem leiðin um Dalverpi mætir gömlu þjóðgötunni yfir Hnjótsheiði. Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal skráði á síðari hluta 18. aldar frásögn um þessa merkilegu vörðu og segir þar að hana hafi hlaðið Konráður, sonur Jóns Jónssonar, sem nefndur var Jón Íslendingur, en sá Jón var bóndi í Sauðlauksdal á áratugunum kringum 1500.[120] Um Konráð og vörðuna sem hann hlóð ritar séra Björn á þessa leið:

Konráð var vel hagur maður sem faðir hans en sterkari  …. Konráð hefur hlaðið vörðu á veginn  …. til Keflavíkur sem sagt er hann hafi haft fyrir hjáverk sitt 3 vor sem hann reri í Keflavík. Er hún kölluð Konráðsvarða. Hún hefur verið svo vel hlaðin að formaður minn [það er forveri – K.Ó.], séra Þorvarður Magnússon, sagði mér að þegar hann kom hingað fyrst [árið 1704 – K.Ó.] hafði hann hvergi fundið svo mikla misfellu á grjóti í henni að knífur sinn hefði gengið fullan þumlung inn á milli steina. Sú varða var af tveimur óskilsömum gárungum niður rifin fáum árum áður en ég kom hingað [það er skömmu fyrir 1750 – K.Ó.] svo nú sér ekki nema svo sem alin af einum kanti hennar og hefi ég aldrei séð svo vel hlaðið óhöggnu grjóti. Almúgafólk hér hefur merkt það sem fram kom að annar þeirra sem vörðunni niður hrundu datt úr Látrabjargi vorið eftir og náðist skaddaður kroppur hans en hinn lifir enn mjög auðnulaus maður. Konráð hefur dáið annað hvort seinast á árinu 1542 eður annars næsta ár eftir, 1543, því Annó 1545 var hann látinn því þá var Andrés bóndi Arason  … kominn að Sauðlauksdal.[121]

 

Orð séra Björns verða ekki skilin á annan veg en þann að á ritunartíma þeirra hafi aðeins lítið brot af vörðunni sem Konráð hlóð verið uppistandandi. En ætla má að ekki hafi liðið mjög langur tími uns hún var hlaðin upp á ný og þá að líkindum úr sama grjótinu því varla hafa gárungarnir tveir farið langt með steinana.

Búi Þorvaldsson frá Sauðlauksdal , fæddur 1902, sem ritað hefur skilmerkilega um fjölda örnefna í landi prestssetursins lætur þess getið að Konráðsvarða sé í landareign Keflavíkur.[122] Hann segir son Þórðar Þorvarðssonar á Hnjóti hafa rifið vörðuna og byggt upp aftur til að sýna að hann gæti leikið þetta afrek eftir en það hafi honum ekki tekist eins og skyldi þó sú varða sem nú er sé listavel hlaðin.[123] Ekki kemur fram hjá Búa hvenær sonur Þórðar á Hnjóti á að hafa rifið Konráðsvörðu  og byggt hana upp á ný en vörðuna segir Búi standa á jarðföstu bergi með fjórum dálítið misháum nibbum upp úr og hæð hennar vera, mælt frá jörðu, tvær álnir,[124] það er einn metri og tuttugu og fimm sentimetrar.

Búi gerir enn nánari grein fyrir Konráðsvörðu og ritar svo:

Hellan á neðstu steinnibbunum er ekki alveg felld á allar fjórar nibburnar svo hún getur ruggað ögn til ef ýtt er við henni að átt til Kerlingarhóls. Menn sem oft hafa átt þarna ferð um segjast hafa heyrt hana rugga í hvössum vindhviðum af norðaustanátt.[125]

 

Konráðsvarða stendur enn (1988) á sínum stað og hefur ekki látið verulega á sjá. Að sögn Ara Ívarssonar frá Melanesi á Rauðasandi er að vísu hægt að reka í hana hnífsblað en mannsfingri verður óvíða í hana troðið.[126]

Hér að framan var gerð grein fyrir helstu fjallvegum sem liggja að og frá Sauðlauksdal og hafa þeir allir verið nefndir nema hvað stundum var farið yfir Háls (Kvígindisháls) að næsta bæ, Kvígindisdal, og þaðan að vild áfram út með ströndinni, út í Örlygshöfn eða lengra. Okkar leið liggur hins vegar eftir þjóðvegi nútímans niður að sjó, þar yfir brúna á vaðlinum og síðan inn Sandoddann og áfram inn með firðinum að bænum Hvalskeri.

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Ólafur Árnason 1957, 147.

[2] Eggert Ólafsson 1975, I, 362-363.

[3] Sama heimild.

[4] Valur Thoroddsen. – Viðtal K.Ó. við hann 10.8.1988.

[5] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VI, 326.

[6] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 211.

[7] Þorvaldur Thoroddsen 1959/ Ferðabók II, 25.

[8] Hermann Jónasson 1888, 159 (Búnaðarritið).

[9] Jarðab. Á. og P. VI, 326-327.

[10] Þjóðsögur J.Á. II, 121.

[11] Manntal 1801.

[12] Pétur Jónsson 1942, 102 (Barðstrendingabók).

[13] Valur Thoroddsen. – Viðtal K.Ó. við hann 10.8.1988.

[14] Sama heimild

[15] Pétur Jónsson 1942, 102 (Barðstrendingabók).

[16] Manntöl 1816 og 1845.  Sóknalýsingar Vestfjarða I, 211 og 213.

[17] Björn Þorgrímsson, Kph. 1799, 9-10.

[18] Sama heimild.

[19] Sóknarmannatal Sauðlauksdalspr.kalls 1782.

[20] Örnefnastofnun/Búi Þorvaldsson, skrif um örnefni í Sauðlauksdal.

[21] Pétur Jónsson 1942, 102.

[22] Sama heimild.

[23] Sveinn Níelsson 1950, 179.

[24] Sama heimild.  Lýður Björnsson 1967, 40 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[25] Dipl. isl. VI, 501-502. Ísl. æviskrár II, 50-51 og III, 167.

[26] Dipl.isl. VI, 501-502.

[27] Jarðabók Á. og P. VI, 325-327.

[28] Dipl. isl. VII, 441.

[29] Dipl. isl. VIII, 569-570.

[30] Sama heimild, 517.

[31] Íslenskar æviskrár I, 207.  Sveinn Níelsson 1950, 180.

[32] Snæbjörn J. Thoroddsen 1953, 135 (Árbók Barð.).

[33] Íslenskar æviskrár V, 255.

[34] Sýslulýsingar 1744-1749, 146 (gefnar út 1957).

[35] Sveinn Níelsson 1950, 179.

[36] Sama heimild, 179 og 181.

[37] Þorvaldur Thoroddsen: Lýsing Íslands IV, 95.

[38] Sama heimild, 96-97.

[39] Sama heimild.

[40] Eggert Ólafsson 1975, I, 257.

[41] Sama heimild.

[42] Eggert Ólafsson 1975, I, 257-258.

[43] Sama heimild, 256.

[44] Þorvaldur Thoroddsen 1922/Lýsing Íslands IV, 202.

[45] Sama heimild, 245.

[46] Sama heimild, 244.

[47] Eggert Ólafsson 1975, I, 251.

[48] Sama heimild, 269.

[49] Sama heimild, 252.

[50] Eggert Ólafsson 1975, I, 263.

[51] Sama heimild, 253.

[52] Eggert Ólafsson 1975, I, 255

[53] Þorvaldur Thoroddsen 1922/Lýsing Íslands IV, 246.

[54] Jón Eiríksson 1964, I, 37-38 (formáli að Ferðabók Olaviusar).

[55] Þorvaldur Thoroddsen/ Landfræðisaga Íslands III, 37.

[56] Jón Eiríksson 1964, 38 (formáli að Ferðabók Olaviusar).

[57] Rit þess ísl. Lærdómslistafél. 1781, II, 278-279.

[58] Þorvaldur Thoroddsen 1919/Lýsing Íslands III, 94.

[59] Sama heimild.

[60] Þorvaldur Thoroddsen 1919/Lýsing Íslands III, 93.

[61] Eggert Ólafsson 1975, I, 252.

[62] Björn Þorgrímsson, Kph. 1799, 9.

[63] Örnefnastofnun/Búi Þorvaldsson, skrif hans þar um örnefni í Sauðlauksdal.

[64] Fornleifavernd ríkisins, vefsíður: Skrá um friðlýstar fornleifar, fyrsta útgáfa 1990, bls. 25. Þinglýsing 11.1. 1974.

[65] Fornleifavernd ríkisins, vefsíður: Skrá um friðlýstar fornleifar, fyrsta útgáfa 1990, bls. 25. Þinglýsing 11.1. 1974.

[66] Hannibal Valdimarsson 1979, 50 (Árbók Barðastrandarsýslu, XI. Árg.).

[67] Sama heimild, 50-51.

[68] Sama heimild, 61.

[69] Einar Laxness 1987, 157.

[70] Jónas Jónasson 1961, 376 (Íslenskir þjóðhættir).

[71] Íslenskar æviskrár I, 219.

[72] Hannibal Valdimarsson 1979, 60 (Árbók Barðastr.sýslu , XI. Árg.).

[73] Þorvaldur Thoroddsen 1902/ Landfræðisaga Íslands III, 36.

[74] Sama heimild III, 38. JS 472.4to

[75] Andvari I, 172.

[76] Sama heimild, 173.

[77] Andvari I, 177-179.

[78] Andvari I, 182-183.

[79] Andvari I, 187-189.

[80] Björn Þorgrímsson, Kph. 1799, 8.

[81] Valur Thoroddsen í Kvígindisdal. – Viðtal K.Ó. við hann 10.8.1988.

[82] Örnefnastofnun/Búi Þorvaldsson, skrif hans um örnefni í Sauðlauksdal.

[83] Örnefnastofnun/Búi Þorvaldsson, skrif hans um örnefni í Sauðlauksdal.

[84] Björn Halldórsson 1783, 148 (Atli, önnur útgáfa).

[85] Andvari I, 191.

[86] Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenskum málum 1802-1873, ár 1803, 65-66.

[87] Sama heimild.

[88] Jón Kr. Ísfeld 1974, 42 (Árbók Barð. X árg. 1959-1967).

[89] Vestfirskar sagnir I, 250-253 og 423-424. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Barð. IV. 5, Dóma- og þingbók Barðastrandarsýslu 1815-1826, bls. 22-28.

[90] Vestfirskar sagnir I, 252.

[91] Íslenskar æviskrár II, 74.

[92] Vestfirskar sagnir I, 135 og 147.

[93] Sama heimild, 128-129.

[94] Vestfirskar sagnir I, 132-133.

[95] Sama heimild, 133-134.

[96] Sama heimild, 128-147.

[97] Séra Jón Kr. Ísfeld 1974, 44 (Árbók Barðastrandarsýslu X).

[98] Ísl. æviskrár II, 73-74 og III, 423.

[99] Ísl. æviskrár V, 532 og VI, 515.

[100] Landið þitt Ísland IV, 28.

[101] Þorvaldur Thoroddsen 1959/Ferðabók II, 26.

[102] Eggert Ólafsson 1975, I, 223.

[103] Ólafur Árnason 1957, 146.  (Sýslulýsingar 1744-1749). Jóhann Skaptason 1959, 126 (Árbók Ferðafélags Íslands).

[104] Hannibal Valdimarsson 1979, 51 (Árbók Barð. 1968-1974, XI. Árg.).

[105] Eggert Ólafsson 1975, I, 225.

[106] Biskupasögur II, 257.

[107] Vestfirskar sagnir I, 419. Sbr. Ísl.æviskrár II, 162-163 og III, 69-70.

[108] Sama heimild.

[109] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 213.  Ólafur Árnason 1957, 179 (Sýslulýsingar 1744-1749).

[110] Jóna Þorsteinsdóttir frá Sauðlauksdal. – Viðtal K.Ó. við hana 5.9. 1988. Sbr. Búi Þorvaldsson/örnefnaskrá Örnefnastofnunar. Sbr. einnig Ari Ívarsson frá Melanesi/Árbók Barðastr.sýslu XIII, 11.

[111] Búi Þorvaldsson frá Sauðlauksdal/örnefnaskrá Örnefnastofnunar.

[112] Jóhann Skaptason 1959, 125-126 (Árbók F.Í.).

[113] Örnefnaskrá Keflavíkur. Ari Ívarsson frá Melanesi. – Viðtal K.Ó. við hann.

[114] Ari Ívarsson frá Melanesi. – Viðtal K.Ó. við hann.

[115] Sama heimild. Landmælingar Íslands, Uppdráttur Íslands 1965, blað 3, Sauðlauksdalur.

[116] Sami Uppdráttur, blað 3.

[117] Sama heimild.

[118] Jóhann Skaptason 1959, 125-126 (Árbók F.Í.)

[119] Trausti Ólafsson frá Breiðavík/Örnefnaskrá Breiðavíkur.

[120] Lbs. 3454to, bls. 156-163. Sbr. Ísl. æviskrár III, 167.

[121] Lbs. 3454to, bls. 161-162.

[122] Örnefnastofnun. Búi Þorvaldsson um örnefni í Sauðlauksdal.

[123] Sama heimild.

[124] Sama heimild.

[125] Örn.stofnun/Búi Þorvaldsson um örnefni í Sauðlauksdal.

[126] Ari Ívarsson frá Melanesi. – Viðtal K.Ó. við hann.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »