Sjöundá

Frá Skor að Sjöundá er tæplega klukkutíma gangur. Farið er um snarbratta og skriðurunna hlíð upp í Söðulinn í tæplega 300 metra hæð. Þegar þangað er komið blasir Rauðasandur við og leiðin sæmilega greið að Sjöundá. Önnur leið var stundum farin að Sjöundá og þá beint upp klettana ofan við Skor og norður á Sjöundárdal.[1] Með sjó er hins vegar ófært úr Skor að Sjöundá en vestan Skorar beygir ströndin til norðurs og heldur þeirri stefnu uns komið er að sandrifinu milli Sjöundár og Melaness.

Á Sjöundá var búið til ársins 1921. Sunnantil við bæinn gengur Sjöundárdalur til fjalls og um hann fellur áin Sjöundá. Líklega heitir hún svo vegna þess að talið frá Saurbæ er hún sú sjöunda og jafnframt hin    syðsta (austasta) af ánum á Rauðasandi.

Í túninu á Sjöundá minna vallgrónar tóttir þann sem að garði ber á holdsins girnd, kvöl og dauða. Sjöundármálin frá árinu 1802 eru mörgum kunn en þau urðu kveikjan að skáldsögu Gunnars Gunnarssonar er hann nefndi Svartfugl. Þessu skáldverki Gunnars hefur fólk líka átt kost á að kynnast í áhrifamikilli sýningu á leikgerð sögunnar. Um Svartfugl verður ekki fjallað hér en fáein atriði Sjöundármála rifjuð upp eftir málsskjölum og öðrum opinberum heimildum.

Er nítjánda öldin gekk í garð bjuggu á Sjöundá hjónin Bjarni Bjarnason og Guðrún Egilsdóttir ásamt þremur börnum sínum á aldrinum eins til tólf ára. Í manntali er Bjarni sagður 40 ára þann 1. febrúar 1801 en Guðrún 36 ára.[2] Þá bjuggu í Skápadal í Patreksfirði hjónin Jón Þorgrímsson og Steinunn Sveinsdóttir ásamt börnum sínum fimm á aldrinum fjögra til tíu ára.[3] Steinunn var upprunnin á Barðaströnd en þar bjó faðir hennar m.a. um skeið á Efri-Vaðli.[4] Þeir Jón og Bjarni voru jafnaldra en Steinunn tveimur árum yngri en Guðrún. Vorið 1801 munu þau Jón og Steinunn hafa flust frá Skápadal að Sjöundá og urðu þá sambýlisfólk Bjarna og Guðrúnar. Vel má vera að tíðleikar hafi verið með þeim Bjarna og Steinunni áður en hún kom á Sjöundá en hvort heldur sá neisti var gamall eða nýr magnaðist hann brátt í eyðandi loga er samvistir þeirra hófust.

Vetrinum 1801-1802 lýsir Þorvaldur Thoroddsen svo í árferðisannál sínum:

 

Enginn maður mundi þá jafnharðan vetur og langan og líktu menn honum saman við Lurk. Var hann á Vestfjörðum kallaður Klaki, enda lagðist hann þar mjög hart að með geysilegum snjóþyngslum, ómuna frostum og margföldum áfreðum, svo hvergi sást hinn minnsti snefill jarðar fyrir útigangspening. … Tún komu sums staðar á Vestfjörðum ekki upp fyrr en undir vanalega sláttarbyrjun, gróðrarleysi var því mikið og fádæma grasbrestur um sumarið. Víðast bönnuðu ísalög, hafísar og ófærðir sjóróðra og kaupstaðarferðir svo mjög fáir gátu þannig leitað sér bjargar. Fé var víða farið að stráfalla um vorið þó flestir færu að skera á þorra og síðan á ýmsum tímum og sums staðar drápu menn hesta og kýr. Um vordaga flosnuðu margir upp á Vestfjörðum, og kvað svo rammt að í Barðastrandarsýslu að börn fóru að leita sér uppeldis á húsgangsflakki. Bjargþrota fólk varð eðlilega hinum betur megandi til mikilla þyngsla svo þeir sumir flosnuðu líka upp.[5]

 

Á þessum grimmdarvetri réðust örlög þeirra Bjarna og Steinunnar á Sjöundá. Ekki mun langt hafa verið liðið á veturinn Klaka er með þeim þróaðist sá ásetningur að ráða mökum sínum, Jóni og Guðrúnu, bana – svo að ekkert stæði lengur í vegi fyrir þeirra eigin girndarráðum. Á miðjum einmánuði 1802 lauk ævidögum Jóns Þorgrímssonar og um fardaga þá um vorið var Guðrúnu á Sjöundá einnig ráðinn bani.

Þann 8. nóvember sama ár hófst meiriháttar réttarhald í Sauðlauksdal og stóð í fimm daga. Að kvöldi 12. nóvember kvað hinn ungi sýslumannsfulltrúi, Guðmundur Scheving í Haga, upp dauðadóm yfir Bjarna og Steinunni og voru þau bæði fundin sek um að vera völd að dauða Jóns og Guðrúnar á Sjöundá.[6]

Tæpu hálfu áru síðar, 4. maí 1803, féll dómur í landsyfirréttinum í Reykjavík yfir sakafólkinu frá Sjöundá. Í forsendum dómsins segir m.a. svo:

 

Af gengnum héraðsprocessi og dómi að Sauðlauksdal í næstliðnum nóvembris er ljóst að giftur bóndi Bjarni Bjarnason á Sjöundá innan Barðastrandarsýslu hefur lagst á hugi við ektakvinnu sambýlismanns síns, Jóns Þorgrímssonar, að nafni Steinunni Sveinsdóttur, um veturinn 1802, og eftir Bjarna og Steinunnar stöðugri meðkenningu haft iðulega holdlegt samræði með henni. Af þessu reis að líkindum megn úlfúð milli sambýlisfólksins. Einkum hótuðu þau Bjarni og Steinunn bóndanum Jóni illu og sér í lagi konu Bjarna, Guðrúnu Egilsdóttur, líftjóni, ef hún fyndi að lifnaði þeirra eða bæri hann út. Á aðra síðuna leiddi dagvaxandi heift á milli þeirra seku og vanvirtu persóna en á hina vaxandi lostagirnd þau Bjarna og Steinunni til að ráðgast um og ásetja að fremja morðillvirki á Jóni bónda Þorgrímssyni þegar hentugleikar byðust. – Bjarni lýsir að Steinunn hafi sig þar tilhvatt, verið í ráði og vitorði með sér, en illræðið fullkomnaði hann loksins þann 1. apríl 1801 [misritun fyrir 1802 – innsk. K.Ó.] með því að rota mann hennar, Jón Þorgrímsson, með göngustaf, draga hann síðan strax fram í sjó og þegar hann daginn eftir fann hann sjórekinn, þá að grafa líkama hans í fönn við sjóinn, hvaðan hann um fardaga, eða fyrst í júni, flutti líkið og varpaði því aftur í sjó fram af skerjaklöpp, er fram skagaði þar nálægt. Það rak síðan á Saurbæjarlandareign þann 26. septembris.

… Nú tóku þau Bjarni og Steinunn nýja ráðagerð fyrir, nefnilega einnig að ráða konu Bjarna, Guðrúnu Egilsdóttur, af dögum, svo að þau Bjarni og Steinunn mættu þar eftir ektast. Steinunn fylgdi fast að því að Bjarni myrti konu sína og hótaði annars að opinbera morð á Jóni manni sínum. Bjarni fær Steinunni rottupúður og eirsvarf til að gefa konu sinni Guðrúnu inn í graut og þar með að drepa hana 29. apríl en þetta eitur orkaði eigi svo mikils. Konan fékk að sönnu megn uppköst og stríða verki, sem henni bötnuðu þó að miklu leyti nokkru síðar. Guðrún heitin lýsti þessu atviki sjálf fyrir sinn dauða. Loksins verða þau Bjarni og Steinunn samráða og samtaka í að kyrkja og kæfa konu Bjarna, Guðrúnu Egilsdóttur, við fjárkvíar þann 5. júlí [misritun fyrir 5. júní – innsk. K.Ó.] 1802. Steinunn heldur höndum hennar í fjörbrotunum meðan Bjarni framkvæmir þessa níðangalegu óhæfu á sinni eiginkonu uns þeim virðist hún dauð.[7]

 

Landsyfirréttur dæmdi þau Bjarna og Steinunni bæði til dauða og ekki aðeins það. Í dómsorðinu segir svo:

 

Bjarni Bjarnason frá Sjöundá í Barðastrandarsýslu skal fyrir skammarlegt hórdómslíferni fram hjá konu sinni, Guðrúnu Egilsdóttur, með giftri konu, Steinunni Sveinsdóttur á sama bæ, fyrir framið morð á hennar saklausa og vanvirta manni, Jóni Þorgrímssyni, þann 1. apríl 1802, fyrir morðtilraun við konu sína, Guðrúnu Egilsdóttur, með eitursbyrlun þann 29. sama mánaðar, og fyrir níðangalega framið morð og kyrkingu hennar þann 5. júní næst eftir, klípast alls 5 sinnum með glóandi töngum, nefnilega á báðum morðplássunum tvisvar milli þeirra og seinast á aftökustaðnum, flytjast með bert höfuð úr fangelsinu til hans, með snöru um háls og samanbundnar hendur, missa síðan lifandi hægri hönd sína og seinast höfuðið. Líkamann leggi böðullinn á steglur og festi hans hönd og höfuð þar uppyfir á stjaka.

… Steinunn Sveinsdóttir skal, fyrir meðvitund og ráð með Bjarna þessum um morð eiginmanns hennar, Jóns Þorgrímssonar, fyrir skammarlegt hórlífefni með Bjarna, fyrir morðtilraun við Guðrúnu konu hans með eitri, áeggjanir við Bjarna til hennar morðs og eigin verknaðar tilhjálp við þess fullkomnun þann 5. júní 1802, missa höfuðið og það síðan upp setjast á stjaka en kroppurinn grafist á aftökustaðnum.[8]

 

Landsyfirréttur sá líka ástæðu til að dæma héraðsdómarann, Guðmund Scheving, í 20 ríkisdala sekt til fátækra í Rauðasandshreppi fyrir óleyfilegan drátt málsins fyrirtektar og vantandi líkskurðargjörða útvegun. Einnig sló rétturinn því föstu að prófasturinn í Sauðlauksdal, séra Jón Ormsson, ætti eftir biskups fyrirskipun að sæta lagatiltali fyrir alla embættis forsómun og grunsömu afskipti hans um þetta mál.[9] Var talið að séra Jón hefði vanrækt tilraunir til lagfæringar á vondu samlífi Sjöundárfólks og staðið fyrir niðurþöggun almennings orðróms um þessi afbrot. Þess skal strax getið að bæði Guðmundur Scheving og séra Jón Ormsson voru sýknaðir í hæstarétti.[10]

Dóm landsyfirréttar yfir þeim Bjarna og Steinunni á Sjöundá kváðu upp þeir Magnús Stephensen, Benedikt Gröndal og Ísleifur Einarsson. Sækjandi í málinu var Jón Espólín, sýslumaður og sagnaritari, en verjandi Páll Jónsson á Elliðavatni, faðir séra Páls í Hörgsdal á Síðu.

Mörgum mun virðast dómurinn yfir Bjarna á Sjöundá líkari niðurstöðum miðaldaréttarfars en þeim anda er fylgdi upplýsingastefnunni við upphaf nítjándu aldar. Samt ritar sjálfur höfðingi upplýsingarinnar, Magnús Stephensen, síðar konferenzráð, ásamt hinum dómurunum undir skjalið, – það dómsorð að Bjarni frá Sjöundá skuli klípast fimm sinnum með glóandi töngum og einnig handhöggvast áður en höfuðið fyki af bolnum. Héraðsdómur Guðmundar Scheving hafði verið heldur vægari en samkvæmt honum átti Bjarni að klípast þrisvar sinnum.[11] Allt var þetta í samræmi við tilskipanir og konungsbréf frá 17. og 18. öld. Hæstiréttur Danmerkur staðfesti dóm landsyfirréttar yfir Bjarna og Steinunni þann 2. nóvember 1803.[12]

Á þessum árum mun reglan þó hafa verið sú í Danaveldi að konungur mildaði slíka dóma svo að sakamenn sluppu við glóandi tengur. Í nafni hins geðveika Danakonungs Kristjáns VII var dómurinn yfir Bjarna á Sjöundá líka mildaður á þennan veg.[13]

Veturinn 1802 til 1803 sat Bjarni dauðadæmdur í járnum í Haga. Steinunn var að sögn í Hrísnesi á Barðaströnd þennan vetur[14] en þegar hún ól son þeirra Bjarna í marsmánuði bókar presturinn að drengurinn sé laungetið barn fanganna í Haga[15] (sjá hér Frá Haga á Siglunes, Hrísnes þar). Vel má þó vera að Steinunn fafi dvalist í Hrísnesi drjúgan hluta úr vetrinum. Á þorranum tókst Bjarna að strjúka úr fangavistinni í Haga. Þrjár nætur var hann þá í fjárhúsi í Miðhlíð en hélt síðan út Siglunes- og Skorarhlíðar þar sem hann hafðist við í tvær nætur. Frá ferðum hans segir síðan á þessa leið:

 

Leitaði hann þá út á Rauðasand og kom að Móbergi á Rauðasandi á föstudagskvöld. Leyndist hann þar í hlöðu um nóttina, allan laugardaginn og nóttina eftir. En á sunnudagsmorguninn handtóku fjórir Rauðsendingar hann í hlöðunni og bundu og færðu hann sýslumanni í Haga.[16]

 

Í septembermánuði 1803 voru þau Bjarni og Steinunn flutt vestan af Barðaströnd og í Reykjavíkurtugthús[17] þar sem nú er stjórnarráð. Enda þótt hæstaréttardómur félli í nóvemberbyrjun sama ár varð biðin eftir aftökunni enn löng. Í byrjun september árið 1804 tókst Bjarna enn að brjótast út úr dýflissunni en var handsamaður á ný tveim vikum síðar á hálsinum framan við Stafholtsveggi í Borgarfirði, – var þá á vesturleið.[18]

Þann 19. mars 1805 skrifar Geir Vídalín biskup Bjarna Þorsteinssyni, sem þá var við laganám í Kaupmannahöfn, og hefur m.a. þessar fréttir að færa:

 

Ekki er enn búið að taka af Barðastrandarsýslu-morðingjana því enginn fæst böðullinn. Richdal [hann var norskur skósmiður í Reykjavík – innsk. K.Ó.] vildi fyrst takast verkið á hendur fyrir 50 rd en féll frá og uppástendur nú 200 rd eða árlega fasta gage [þ.e. laun – innsk. K.Ó.] viðlíka og mestermanns penge hjá ykkur og þetta þorðu menn ekki að tilstanda.[19]

 

Úti í Kaupmannahöfn var loks afráðið vorið 1805 að Bjarni og Steinunn skyldu send til aftöku í Noregi þar eð engan böðul væri að fá á Íslandi. Samið var við Bjarna riddara Sívertsen í Hafnarfirði um að eitt skipa hans flytti þau til Kristianssand í Noregi þá um haustið. Þótti riddarinn selja flutninginn dýrt en hann taldi sér ekki unnt að annast verkið fyrir minna en 500 ríkisdali.[20]

Steinunn Sveinsdóttir frá Sjöundá fór þó aldrei í boðaða siglingu yfir Atlantsála. Hún andaðist í Reykjavíkurtugthúsi 31. ágúst 1805, tólf dögum áður en skipið lagði úr höfn. Margvíslegar sögusagnir fóru á kreik um þetta skyndilega dauðsfall. Ein sagan var sú að Fredrik Kr. Trampe, sem þá var hér amtmaður yfir vesturamtinu, hefði útvegað henni eitur þegar ljóst var að hún fengist ekki náðuð.[21] Steinunn var grafin utangarðs uppi í Skólavörðuholti. Þar stóð dysin hennar við alfaraveg á aðra öld.[22] Svo fór þó að lokum að Steinkudys þótti standa í vegi framkvæmdaglaðra borgara og var jöfnuð við jörðu árið 1914. Litlu síðar, nánar tiltekið 9. janúar 1915, var hvíluró sakakonunnar frá Sjöundá raskað og líkamsleifar hennar fluttar úr Skólavörðuholtinu í kjallara Safnahússins við Hvefisgötu.[23] Þar voru þær rannsakaðar hátt of lágt af hópi lækna og beinagrindin ljósmynduð. Líkamshæð sýndist hafa verið 1,50 m. Að rannsókn lokinni var líkami Steinunnar á Sjöundá borinn til moldar í kyrrþey og nú í vígðum reit.[24]

Eigi er kunnugt hvort dauðamaðurinn Bjarni hefur fengið að vera viðstaddur hina fyrri útför Steinunnar, þá sem fram fór í Skólavörðuholtinu. Heldur er það ólíklegt. Tólf dögum eftir andlát hennar var hann færður til skips í Hafnarfirði og þann sama dag, 12. september 1805, lét skip Bjarna riddara, De tvende Söstre, úr höfn og tók brátt stefnu á Noreg. Með því sigldi sakamaðurinn frá Sjöundá.

Hver sá sem hlotið hafði dauðadóm átti lögvarinn rétt á sálusorgun síðustu stundirnar fyrir aftöku. Sjálfsagt hefur Bjarni frá Sjöundá skilið lítið í norskum mállýskum, enda þótti ekki annað boðlegt en senda með honum íslenskan fulltrúa rétttrúnaðarins. Til ferðarinnar valdist ungur kennari við Hólavallaskóla í Reykjavík, Hjörtur Jónsson að nafni,[25] sem ári síðar varð prestur á Gilsbakka í Hvítársíðu og andaðist þar árið 1843. Sonarsynir séra Hjartar settu lengi svip á bæjarlífið á Ísafirði, þeir Þorvaldur Jónsson prófastur, fæddur 1847, Árni Jónsson, faktor Ásgeirsverslunar í Neðstakaupstað, fæddur 1851 og Grímur Jónsson skólastjóri, fæddur 1855.

Þeir Bjarni frá Sjöundá og sálusorgarinn velktust átján sólarhringa í hafi á skútu Bjarna riddara. Í lok september gengu þeir á land í Kristiansand, norskum smábæ skammt austan við syðsta odda Noregs.[26] Þar var sakamaðurinn fenginn í hendur Lahn bæjarfógeta en böðull staðarins fór að undirbúa aftöku. Íbúar Kristiansand voru þá um 5000. Austan við bæinn rann áin Otra og handan við ármynnið aftökustaðurinn Gálgabergstangi, framarlega á nesi.[27]

Snemma morguns þann 4. október var Bjarni fluttur með báti frá fangelsinu í Kristiansand yfir dálítið sund til aftökustaðarins og höggvinn einum stundarfjórðungi fyrir klukkan átta.[28] Kjartan Sveinsson skjalavörður segir að í skjölum megi sjá að meðan hægri hönd Bjarna var höggvin af hafi séra Hjörtur haldið fast um þá vinstri að beiðni sakamannsins.[29] Svo fauk höfuðið af bolnum og síðan var búkurinn lagður á steglu en bæði höfuðið og hin afhöggna hönd fest upp á stjaka þar fyrir ofan[30] svo sem mælt var fyrir í dómnum. Yfir sundið milli bæjarins og Gálgabergstanga er nú fyrir löngu komin brú.[31] Að öllu samanlögðu mun kostnaður við að senda Bjarna til Noregs og vegna sjálfrar aftökunnar hafa numið á annað þúsund ríkisdala.[32] Allt var það fé greitt úr fjárhirslu konungs og má því segja að bóndinn á Sjöundá hafi orðið kóngi býsna dýr um það er lauk.Ekki er annað vitað en Bjarni hafi orðið karlmannlega við dauða sínum en fylgdarmaður hans, séra Hjörtur, mun löngum hafa verið fámáll um þessa atburði.

Um Sjöundármál hefur margt verð ritað og með því elsta eru skrif Gísla Konráðssonar, hins skagfirska fræðaþular í Flatey. Furðuleg er saga hans af aftökunni í Noregi og fjarri lagi. Gísli segir að Bjarni hafi verið fluttur um borgina í lokuðum vagni en skyndilega hafi maður stokkið upp í vagninn, brugðið saxi og höggvið höfuðið af Bjarna þar í vagninum.[33] Fyrir þessari furðusögu ber Gísli fylgdarmann Bjarna, séra Hjört, en margt getur skolast á langri leið. Hitt mun nær lagi, sem Gísli segir um Sjöundárfólk, að Bjarni hafi verið gildur fyrir sér og Steinunn stórlynd og máske er það rétt hjá karli að hún hafi verið sonardóttir Jóns skóla sem kallaður var[34] (um Jón skóla sjá hér Brjánslækur).

Niðjar sakafólksins frá Sjöundá eru nú fjölmargir og segir hér lítillega á öðrum stað frá syni þeirra, er nefndur var Sýslu-Jón (sjá hér frá Saurbæ að Lambavatni, Krókshús þar).

Lengi enn mun mynd Bjarna og Steinunnar fylgja bæjartóttunum á Sjöundá og minna á takmörk þess unaðar sem manneskjunni stendur til boða.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jóhann Skaptason 1959, 112.

[2] Manntal á Íslandi 1801.

[3] Sama heimild.

[4] Jón Helgason 1962, 174 (Sunnudagsblað Tímans).

[5] Þorvaldur Thoroddsen 1916, 199 (Árferðisannáll).

[6] Sagnaþættir Fjallkonunnar 1953, 40-42.

[7] Landsyfirréttar- og hæstaréttardómar 1803, bls. 59-61.

[8] Landsyfirréttar- og hæstaréttardómar 1803, bls. 63-64.

[9] Sama heimild, 65.

[10] Jón Helgason 1962, 316 (Sunnudagsblað Tímans).

[11] Sama heimild, 247.

[12] Landsyfirréttar- og hæstaréttardómar 1803, bls. 461-462.

[13] Jón Helgason 1962, 257.

[14] Ásmundur Sveinsson 1953, 42 (Sagnaþættir Fjallkonunnar).

[15] Prestsþjónustubækur Brjánslækjar.

[16] Ásmundur Sveinsson 1953, 42 (Sagnaþættir Fjallkonunnar).

[17] Jón Helgason 1962, 271 (Sunnudagsblað Tímans).

[18] Sama heimild, 286.

[19] Geir biskup góði 1966, 43.

[20] Jón Helgason 1962, 294.

[21] Ásmundur Sveinsson 1953, 43 (Sagnaþættir Fjallkonunnar).

[22] Jón Helgason 1962, 293 (Sunnudagsblað Tímans).

[23] Jón Helgason 1962, 317.

[24] Sama heimild, bls. 317-318. (Sunnudagsblað Tímans).

[25] Íslenskar æviskrár II, 368.

[26] Jón Helgason 1962, 294.

[27] Sama heimild, 295.

[28] Kjartan Sveinsson/Morgunblaðið 4.2. 1968, bls. 12 og 19.

[29] Kjartan Sveinsson/Morgunblaðið 4.2. 1968, bls. 12 og 19.

[30] Sama heimild.

[31] Sama heimild.

[32] Jón Helgason 1962, 309 (Sunnudagsblað Tímans).

[33] Lbs. 4034to, bls. 119.

[34] Sama heimild, 108.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »