Sólbakki

Frá Hvilft er aðeins einn kílómetri út að Sólbakka en þar var á árunum 1889-1901 rekin hvalveiðistöð sem þá var hin stærsta á öllu landinu. Hér verður nú gerð nokkur grein fyrir þeim rekstri.

Þegar hvalveiðistöðin á Sólbakka tók til starfa árið 1889 var skammt um liðið frá því vélvæðing við vinnslu hvalafurða hófst og farið var að veiða hvali með sprengiskutli. Notkun gufubáta við hvalveiðar var líka nýjung sem kom til sögunnar á síðari hluta 19. aldar. Hvalveiðar á árabátum höfðu hins vegar verið stundaðar öldum saman hér við land, bæði af innlendum mönnum og frá erlendum veiðiskipum og voru handskutlar notaðir við þær veiðar frá fornu fari.

Heimildir frá 17. öld greina frá hvalveiðum Baska hér við land á öðrum áratug þeirrar aldar[1] og Baskarnir frá Spáni sem Ari Magnússon, sýslumaður í Ögri, lét taka af lífi í Æðey og á Fjallaskaga árið 1615 (sjá hér Fjallaskagi) voru hvalveiðimenn sem einkum stunduðu veiðar í Norður-Íshafinu.[2] Á 17. og 18. öld voru skip frá Frakklandi, Hollandi og Bretlandi líka við hvalveiðar í hafinu fyrir vestan og norðan Ísland en hvalirnir voru þá skornir á rúmsjó og spikið brætt um borð.[3] Á þessu skeiði stunduðu Íslendingar líka hvalveiðar í smáum stíl á litlum árabátum, ekki síst frá Arnarfirði og byggðunum við Ísafjarðardjúp. Þegar farið var að reisa landstöðvar til vinnslu hvalafurða voru Íslendingar hins vegar nær alveg hættir að skutla hvali en þessi forna atvinnugrein var þá aðeins stunduð í Arnarfirði þar sem síðast var skutlaður hvalur árið 1894 (sjá hér Baulhús).

Sá sem fann upp sprengiskutulinn til notkunar við hvalveiðar var Norðmaðurinn Svend Foyn frá Túnsbergi á Vestfold og hann varð einnig fyrstur til að nota gufuknúna stálbáta við veiðarnar í stað árabáta.[4] Hann fæddist árið 1809,[5] gaf sig einkum að selveiðum á fyrri hluta ævinnar en vann á efri árum að tilraunum við hvalveiðar og hafði þá aðsetur í Varangursfirði í Norður-Noregi,[6] skammt frá núverandi landamærum Noregs og Rússlands. Svend Foyn kom hingað til lands árið 1866 og kynnti sér rækilega hvalveiðitilraunir sem þá voru stundaðar frá Seyðisfirði eystra en þar hafði Bandaríkjamaðurinn Thomas Roys reist hvalstöð árið 1865.[7] Hann var sá fyrsti sem reyndi að hefja rekstur slíkrar stöðvar hér á Íslandi og hugðist beita nýrri tækni bæði við veiðar og vinnslu.[8] Þessi tilraun Bandaríkjamannsins stóð þó aðeins mjög skamman tíma og mun ekki hafa skilað árangri, enda var hann eingöngu með árabáta við veiðarnar[9] og eldflaugarbyssan sem hann hafði sjálfur hannað jafnaðist ekki á við sprengiskutulinn frá Svend Foyn sem skömmu síðar var almennt farið að nota.

Það var frá Finnmörku í Norður-Noregi sem fyrst var farið að stunda hvalveiðar með sprengiskutli og elta hvalina uppi á hraðskreiðum gufubátum. Á árunum um eða upp úr 1870 risu þar líka nokkrar vélvæddar hvalveiðistöðvar þar sem beitt var nýjustu tækni við vinnslu hvalafurða. Nokkru fyrr höfðu Norðmenn hafið síldveiðar við Ísland og með norskum síldveiðimönnum, sem sneru heim frá Íslandi, bárust fréttir af miklum fjölda hvala hér við land.[10]

Árið 1883 reistu Norðmenn hvalveiðistöð á Langeyri í Álftafirði við Ísafjarðardjúp og var það fyrsta hvalveiðistöð þeirra á Íslandi.[11] Rekstur þessarar stöðvar náði að blómgast en fyrri tilraunir Bandaríkjamannsins Thomas Roys og Danans O.C. Hammers til að reka hvalstöðvar á Íslandi höfðu ekki lukkast.[12]

Eigandi hvalveiðistöðvarinnar á Langeyri var hlutafélagið Mons Larsen & Co. í Noregi en stærsti hluthafinn í því félagi var í fyrstu sjálfur Svend Foyn, sem hér var áður nefndur, og átti hann 3/5 hlutabréfanna.[13] Rekstrinum á Langeyri stjórnaði frá 1883-1897 Norðmaðurinn Thomas Amlie sem einnig átti hlut í fyrirtækinu.[14] Þeir Thomas Amlie og Svend Foyn komu báðir til Íslands sumarið 1883 en sá síðarnefndi náði þá aðeins að skjóta einn hval og dró sig mjög skömmu síðar út úr fyrirtækinu.[15] Thomas Amlie hélt hins vegar áfram rekstri hvalveiðistöðvarinnar á Langeyri og á árunum 1889-1897 reistu Norðmenn sex nýjar hvalveiðistöðvar á Íslandi svo alls urðu þær sjö fyrir aldarlok. Öllum þessum stöðvum var valinn staður á Vestfjörðum, það er að segja á Sólbakka í landi Eyrar í Önundarfirði, á Höfðaodda í Dýrafirði, á Suðureyri í Tálknafirði, á Stekkeyri í Hesteyrarfirði, á Meleyri í Veiðileysufirði og á Dvergasteinseyri í Álftafirði.[16] Áttunda hvalveiðistöðin var svo reist á Uppsalaeyri í Seyðisfirði við Ísafjarðardjúp árið 1897.[17] Sú stöð var reist af dansk-íslensku fyrirtæki en aðaleigandi þess var Ásgeir G. Ásgeirsson sem átti og rak Ásgeirsverslun á Ísafirði.[18] Á árunum kringum aldamótin 1900 var hún eina hvalveiðistöðin á Vestfjörðum sem Norðmenn áttu ekki.

Hvalveiðistöðin hér í Önundarfirði var sú næst fyrsta sem Norðmenn reistu á Íslandi og starfræksla hennar hófst árið 1889.[19] Fyrirtækið sem reisti og rak stöðina á Sólbakka var hlutafélag, skrásett í Kristjaníu (Osló), og bar nafnið Skjærsnæss.[20] Talið er að hlutafé félagsins hafi numið 500.000,- krónum og að ekkert annað hvalveiðifélag með starfsemi á Íslandi á árunum kringum aldamótin 1900 hafi lagt upp með svo mikið hlutafé.[21] Framkvæmdastjóri félagsins á Íslandi og einn eigenda þess var Hans Ellefsen sem áður hafði staðið fyrir rekstri hvalveiðistöðvar þessa sama félags við Vardö í Norður-Noregi.[22] Úr hópi annarra hluthafa má nefna Einar Simers ölgerðarforstjóra og Kjörstrup nokkurn frá Drammen í Noregi, vellauðugan mann.[23] Andreas Ellefsen, sem var eldri bróðir Hans Ellefsen, varð líka meðeigandi í Sólbakkastöðinni árið 1891 en hann hafði þá verið forstjóri hvalveiðistöðvar í Norður-Noregi um alllangt skeið.[24]

Hans Ellefsen, sem stýrði rekstri hvalstöðvarinnar á Sólbakka frá upphafi til loka, var fæddur 10. júní 1856 á Skersnesi við Túnsbergsfjörð[25] en fjörður sá er á Vestfold í Noregi við vestanverðan Oslófjörð og er líka nefndur Vestfjord.[26] Í norskri heimild er hann sagður hafa verið úr hinni þekktu hvalveiðifjölskyldu frá Stokke,[27] sem er nafn á sveitinni umhverfis Skersnes,[28] en faðir hans, sem hét Thor Ellefsen, fékkst við skipasmíðar, útgerð á kaupskipi og búskap í sveit.[29] Þegar Hans Ellefsen var 14 ára gamall gerðist hann farmaður.[30] Síðar gekk hann í sjómannaskóla og var um tvítugt orðinn skipstjóri á norsku flutningaskipi.[31] Árið 1879 tók hann að stunda hvalveiðar frá Vardö í Norður-Noregi og sinnti þar veiðum og vinnslu hvalafurða í tíu ár, allt þar til hann fluttist til Íslands árið 1889[32] en þá var hann tæplega 33ja ára gamall. Hér verður síðar sagt nánar frá þessum dugmikla forstjóra (sjá hér bls. 31-38) sem með rekstri hvalveiðistöðvarinnar á Sólbakka átti sinn stóra þátt í að móta atvinnuhætti og mannlíf í Önundarfirði um það leyti sem nítjánda öldin var að kveðja og sú tuttugusta að ganga í garð.

Sá maður sem talið er að haft hafi milligöngu um komu Ellefsens til Önundarfjarðar er Páll Torfason sem var elsti sonur Torfa Halldórssonar, útgerðarmanns og kaupmanns á Flateyri, og konu hans Maríu Össurardóttur.[33] Páll mun hafa skroppið til Noregs árið 1887 og hitt þar að

Í þeirri för hitti hann [Páll] Ellefsensbræður að máli og sögðu þeir honum þá fyrirætlun sína að hefja hvalveiðar við Ísland ef tiltækilegt þætti. Páll tók þessu hið besta og eggjaði þá mjög á að athuga öll skilyrði hér við land. Bauðst hann til að leiðbeina þeim í öllu sem hann gæti og taldist svo til með honum og þeim bræðrum að þeir kæmu til að athuga alla staðhætti þegar á næsta ári.[34]

 

Fyrstu ferð sína til Íslands fór Hans Ellefsen þó ekki fyrr en haustið 1888 en þá lagði hann í haf og beindi för sinni til Önundarfjarðar á fund Páls Torfasonar.[35] Jón Guðmundsson, búfræðingur, sem seinna bjó lengi á Ytri-Veðrará var haustið 1888 búðarmaður við útibú Ásgeirsverslunar á Flateyri (sjá hér Ytri-Veðrará). Þann 12. október þá um haustið skrifar hann í dagbók sína þessi orð: Það kom að norðan með Nóru, það er hvalveiðaskip er kemur hingað á Önundarfjörð í vor til hvalveiða.[36] Þessi frásögn Jóns búfræðings mun vera elsta heimildin úr Önundarfirði um komu Hans Ellefsen haustið 1888 og athygli vekur að dagbókarritarinn telur þá þegar ákveðið að hvalveiðar verði hafnar frá Önundarfirði næsta vor. Orðin það kom að norðan með Nóru, kynni að benda til þess að Ellefsen hafi farið fyrst á Ísafjörð en Nora var annar tveggja gufubáta sem hófu hvalveiðar frá Sólbakka vorið 1889 (sjá hér bls. 7).

Jón Guðmundsson frá Grafargili greinir líka frá komu gufubátsins Noru til Flateyrar haustið 1888 en skráir atburðinn degi seinna en nafni hans. Í dagbók sína hefur Jón frá Grafargili ritað 13. október og kemst þá svo að orði: Í gær kom gufuskip frá Norvegi til að fá pláss á Flateyri til hvalaveiða.[37]

Dagbókaskrifin sem hér hefur verið vitnað til bera með sér að Ellefsen hefur komið til Flateyrar 12. október og sama dag veitti Torfi Halldórsson á Flateyri Páli syni sínum ótakmarkað umboð til að ganga frá samningi um leigu á grunni undir bræðsluverk og hvalveiðastöð … norðanvert við Flateyrarhöfn.[38] Torfi var þá eigandi Eyrar (sjá hér Flateyri og Eyri) og þar með landsins sem hvalveiðistöðin var reist á. Frá samningnum var gengið þá þegar og næsta dag var hann undirritaður og færður til bókar hjá sýslumanninum á Ísafirði.[39] Allt gekk þetta því mjög hratt fyrir sig sem bendir eindregið til þess að málið hafi áður verið rætt og um það samið að mestu úti í Noregi einu ári fyrr eins og hér var áður minnst á.

Leigusamningurinn sem Páll Torfason og Hans Ellefsen skrifuðu undir 13. október 1888 er á dönsku en aðalatriði hans eru þessi:

 

 1. Landið sem Ellefsen tók á leigu var 400 álnir (251 metri) á breidd og mælt frá efstu flæðarmörkum í átt til fjalls náði það yfir 200 álnir.[40] Í samningnum segir að hin ytri mörk þessarar leigulóðar séu 15 álnum fyrir utan lýsisbræðslu[41] sem þá stóð skammt frá sjó innan við Flateyri en þess má geta að Þórður Sigurðsson, lengi bóndi í Neðri-Breiðadal, segir þessi mörk hafa verið við Hvalstein[42] sem enn stendur á sínum stað í fjörunni utan við Sólbakka (sjá hér bls. 6). Þegar samningurinn var gerður var Þórður tvítugur vinnumaður í Holti (sjá hér Neðri-Breiðadalur).

 

 1. Í leigu fyrir nefnda landspildu lofaði Ellefsen að greiða 5,- krónur fyrir hverja langreyði og steypireyði sem þar yrði komið með á land og eina krónu fyrir hvern hval af hinum smærri tegundum.[43] Kveðið var á um að leigan skyldi þó aldrei vera lægri en 100,- krónur á ári og hana bæri jafnan að greiða fyrir lok septembermánaðar.[44]

 

 1. Til tryggingar skilvísri greiðslu voru húsin sem til stóð að reisa á lóðinni sett að veði.[45]

 

 1. Samningurinn var gerður til 30 ára en þó með ákveðnum uppsagnarákvæðum.[46]

 

 1. Tekið var fram að Ellefsen væri veittur réttur til að nýta sér grjót og vatn utan lóðarmarkanna en Torfi áskildi sér rétt til beitar fyrir búfénað inni á lóðinni í þeim mæli að ekki yrði til baga fyrir leigutakann eða rekstur hinnar fyrirhuguðu hvalveiðistöðvar.[47]

 

 1. Landshlutinn, sem frá fornu fari hafði verið venja að landeigendur fengju greiddan af hverjum hval sem á land kom í þeirra landareign, gaf Torfi eftir en fékk í staðinn þá greiðslu sem kveðið var á um í samningnum.[48]

 

Með nýjum samningum sem gerðir voru 1891 og 1894 fékk Ellefsen svolítið meira land til umráða en um var samið í fyrstu en leigan sem hann þurfti að greiða hélst óbreytt.[49] Áður en lauk urðu tekjurnar sem Torfi hafði af þessari lóðarleigu 11.555,-krónur[50] og var það hærri upphæð en nokkur önnur hvalveiðistöð á Íslandi borgaði til landeiganda á þessu skeiði, árunum 1883-1915.[51]

Í Önundarfirði lifðu lengi á vörum fólks ýmsar sögur um Hans Ellefsen, m.a. um fyrstu komu hans til Flateyrar. Fimmtíu árum síðar kunnu gamlir menn frá því að segja að gufubáturinn sem hann kom á hefði þá tekið niðri á útgrynninu í Bótinni en skipverjar náð að losa hann án hjálpar frá öðrum.[52] Frá fyrstu göngu Ellefsens um fjöruna innan við Flateyri segir svo í ritinu Frá ystu nesjum:

 

Þegar gengið er eftir fjörunni frá Flateyri og upp að Sólbakka verður á vegi manna stór, sæbarinn steinn sem kallaður er Hvalsteinn. Heitir hann svo frá fornu fari og fylgir sú saga að þegar Hollendingar voru hér við hvalveiðar fyrr á öldum hafi þeir fest hvölum við stein þennan meðan þeir voru að skera þá. Var Ellefsen strax sýndur steinninn og þótti honum vænt um hvort tveggja, sögnina og nafnið. Lét hann svo ummælt í gamni er hann hafði tekið ákvörðun um að flytja til Önundarfjarðar að vel hefði sér litist á fjörðinn og alla aðstöðu en tvennt hefði sannfært sig um það að hér væri sér ætlað að dvelja. Annað var Hvalsteinninn og sögnin um hann en hitt væri sá atburður að báturinn skyldi taka niðri. Hefði hann þá þegar orðið hér landfastur.[53]

 

Brot úr munnmælasögum um hvalskurð Hollendinga hjá Hvalsteini er að finna í Vestfirskum þjóðsögum.[54] Hvalsteinn stendur enn einn sér í fjörunni fyrir utan Sólbakka.[55] Steinninn er um það bil 2 metrar á hæð og ummál hans ekki langt frá 12 metrum.

Haustið 1888 mun Hans Ellefsen aðeins hafa staldrað við í Önundarfirði meðan gengið var frá samningnum um land undir hina fyrirhuguðu hvalveiðistöð en síðan hélt hann aftur til Noregs á bát sínum Noru. Síðla vetrar árið 1889 sendi Ellefsen tvo hvalveiðibáta frá Noregi til Önundarfjarðar en sjálfur hefur hann að líkindum komið í aprílmánuði með flutningaskipi sem fyrirtæki hans átti. Í dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili er ýmislegt að finna sem tengist upphafi hvalveiðanna frá Sólbakka. Jón skrifar meðal annars árið 1889:

 

 1. mars     Fór annar hvaladampurinn fyrir fjörðinn en hinn kom inn.
 2. apríl      Kom hvalveiðiskip inn.
 3. apríl      Er annað hvalveiðiskip að teyma inn norskt brikk.
 4. apríl      Komu 2 hvalveiðiskip og eitt brikk. Eigandinn er hér kominn líka. Er norskur. Hefur hann fært sig búferlum hér til Flateyrar.
 5. apríl      Komu þá báðir hvalveiðabátarnir með sinn hvalinn hvor inn og gáfu þeir hér um bil allt þvestið af þeim.[56]

 

Af orðum Jóns frá Grafargili má ráða að hvalveiðibátarnir tveir, sem gerðir voru út frá Sólbakka sumarið 1889, hafa komið hingað strax í byrjun mars á því ári og sjálfur hefur Ellefsen komið eigi síðar en um miðjan apríl þegar brikkskip fyrirtækisins varpaði akkerum á Flateyrarhöfn. Um sumarmál komu bátarnir svo inn með fyrstu hvalina. Í lok maí gengu skipverjar af öðrum hvalveiðibátnum á land á Fjallaskaga þar sem Dýrfirðingar voru í veri. Einn vermanna þar var Sighvatur Borgfirðingur. Hann nefnir komu þeirra í dagbók sinni 27. maí 1889 og segir: Hvalveiðimenn af Flateyri komu á Skaga og Ellefsen var sjálfur með. Hann bauð okkur hval.[57]

Ekki er nú kunnugt um hversu margir Norðmenn unnu við að reisa lýsisbræðsluna og aðrar byggingar á Sólbakka vorið 1889 en ætla má að þeir hafi skipt tugum því ekki er unnt að gera ráð fyrir að Ellefsen hafi treyst á að fá Íslendinga til þeirra framkvæmda. Árið 1889 var aðeins kominn vísir að þorpi á Flateyri. Í byrjun þess árs töldust 72 manneskjur eiga þar heima og 19 á Eyri,[58] hinni fornu landnámsjörð, en í hennar landi var þorpið reist og einnig stöðin á Sólbakka.

Sumarið 1889 voru 2 hvalveiðibátar gerðir út frá Sólbakka[59] og munu það hafa verið Othar og Nora. Í opinberri skipaskrá er Hans Ellefsen sagður vera eigandi beggja þessara báta árið 1889 og sjálfur skipstjóri á þeim báðum![60] Vitað er að Othar stóð hér uppi veturinn 1889 til 1890[61] og Nora var hér örugglega við veiðar 1890.[62] Þetta fyrsta sumar náðu bátarnir tveir að veiða 67 hvali ef marka má orð Sighvats Grímssonar Borgfirðings á Höfða í Dýrafirði[63] en í annarri og yngri heimild segir að hvalirnir sem veiddust þetta sumar hafi verið 63.[64] Eitt mannvirkið sem Ellefsen kom upp á Sólbakka árið 1889 var stór og stæðileg bryggja en mjög lítið var þá um slík þarfaþing á landi hér. Til marks um það má nefna að í blaðagrein frá haustinu 1890 er sagt frá ferð með strandferðaskipinu Thyru frá Eskifirði og norður um land til Reykjavíkur og frá því greint að á allri þeirri leið hafi skipið aðeins getað lagst að bryggju á Ísafirði og í Önundarfirði.[65]

Sjálf hvalstöðin sem reist var sumarið 1889 stóð á uppfyllingu í fjörunni[66] en þetta fyrsta sumar hófst Ellefsen einnig handa við byggingu íbúðarhúss fyrir sig og fjölskyldu sína uppi á bökkunum fyrir ofan stöðina. – Vorum að grafa undir grunnmúrinn undir húsið, ritar Jón Guðmundsson frá Grafargili í dagbók sína 24. júlí 1889 og bætir við að húsið eigi að verða tveggja tasíu, 20 álnir á lengd og 15 álnir á breidd.[67] Nærri lætur að hvor hæð hafi þá verið 118 m2. Þann 24. september 1889 lagði Ellefsen af stað til Noregs á öðrum hvalveiðibátnum og dvaldist þar yfir háveturinn en kom aftur til Flateyrar með gufuskipinu Láru 20. mars 1890 og hafði þá með sér konu sína ásamt þremur börnum þeirra og tveimur  þjónustustúlkum.[68]

Íbúðarhúsið, sem fjölskyldunni var ætlað að búa í, mun þá ekki hafa verið komið til landsins en það var verksmiðjuframleitt í Noregi.[69] Ellefsen og hans fólk settist þá að í Gunnlaugshúsi, tvílyftu timburhúsi á Flateyri,[70] en 12. október 1888 hafði Páll Torfason fengið heimild föður síns, Torfa Halldórssonar, til að leigja Ellefsen þetta hús.[71] Gunnlaugshús mun Ellefsen hafa tekið á leigu eigi síðar en 1889 og veturinn 1889-1890 bjuggu þrír Norðmenn á hans vegum í húsinu.[72] Í bók sinni Aldarfar og örnefni í Önundarfirði segir Óskar Einarsson læknir að fjölskylda Ellefsens hafi búið í Gunnlaugshúsi eitt ár eða liðlega það því íbúðarhúsið á Sólbakka hafi verið í smíðum allt sumarið 1890 og veturinn 1890-1891.[73] Líklega er þetta alveg rétt því að í sóknarmannatölum frá árunum 1890 og 1891 er Ellefsen sagður eiga heima á Flateyri en í embættisbókum Holtspresta verður aldrei vart við nafnið Sólbakki fyrr en árið 1891.[74] Á því ári segir prestur norskan skipstjóra, Leonard Andersen að nafni, flytja frá Noregi til Flateyrar (Sólbakka) og hefur sviga utan um þetta nýja nafn.[75]

Það var íbúðarhúsinu frá 1891 sem Hans Ellefsen gaf nafnið Sólbakki[76] en þetta ágæta nafn festist fyrr en varði ekki aðeins við húsið heldur einnig við hvalveiðistöðina. Einstaka menn reyndu þó að koma að nafninu Sunnuhvoll og átti að vera þýðing á norska orðinu Solbakke. Þetta má meðal annars sjá í blaði frá aldamótaárinu 1900 en þar stendur: Sunnuhvoll (Solbakke) er heimili og hvalveiðastöð herra Hans Ellefsens.[77] Það tilgerðarlega nafn mun þó aldrei hafa náð að festa rætur og staðurinn heitir enn Sólbakki.

Hans Ellefsen mun snemma hafa gert sér ljóst að ekki væri nægilegt að reisa eitt veglegt íbúðarhús á Sólbakka og réðst því árið 1892 í að koma hér upp öðru íbúðarhúsi sem líka var flutt inn frá Noregi. Að nýrra húsið hafi verið byggt árið 1892 sést meðal annars á því að Jón Guðmundsson frá Grafargili, sem vann við að koma því upp, segir í dagbók sinni að flutt hafi verið inn í það 17. janúar 1893. – Í dag flutti Hans Ellefsen með allt sitt úr gamla húsinu í nýja húsið sem við höfum verið að klára, skrifar Jón þennan dag[78] svo hér fer ekkert á milli mála. Húsið var tekið út 27. apríl 1893 og virt á 5.500,- krónur.[79] Það var tveggja hæða, portbyggt og grunnflöturinn 14,4 x 10 metrar.[80]

Húsið sem Ellefsen reisti á árunum 1890-1891 var líka tvílyft og mun Ellefsen hafa búið þar á efri hæðinni en Carl Svendsen vélameistari á neðri hæðinni. Það mundi Guðlaug Sveinsdóttir á Hvilft, sem fædd var árið 1885, og sagði syni sinum, Gunnlaugi Finnssyni.[81] Í nýrra húsinu, sem byggt var 1892, bjó Ellefsen frá því hann fluttist þangað inn í janúarmánuði árið 1893 og allt þar til hvalvinnsla lagðist niður á Sólbakka en fáum árum síðar var það hús flutt til Reykjavíkur og gert að ráðherrabústað (sjá hér bls. 49-50). Hús þetta stendur enn, nokkuð breytt, og er númer 32 við Tjarnargötu í Reykjavík. Íbúðarhúsin tvö sem Ellefsen reisti á Sólbakka á árunum 1890-1892 stóðu sitt hvorum megin við lækinn og var skammt á milli þeirra. Eldra íbúðarhúsið stóð innan við lækinn og á grunni þess stendur nú (1995) íbúðarhús Kristjáns Erlingssonar.[82] Á grunni yngra hússins, þess sem seinna var gert að ráðherrabústað, stendur nú íbúðarhús Einars Odds Kristjánssonar.[83]

Á þeim árum sem Sólbakkastöðin var í rekstri dvaldist Hans Ellefsen oftast í Noregi yfir háveturinn en mun þó hafa verið hér eina fjóra vetur, einn á Flateyri og þrjá á Sólbakka. Eins og áður var nefnt bjó Ellefsen í Gunnlaugshúsi á Flateyri veturinn 1890-1891 og þar var hjá honum kona hans Ida, fædd Schulz, og börn þeirra en þau voru fjögur.[84] Haustið 1891 munu þau hafa farið til Noregs því Jón Guðmundsson frá Grafargili getur þess í dagbók sinni að 18. febrúar 1892 hafi Ellefsen komið á gufuskipi frá Noregi.[85] Í sóknarmannatölum frá desember 1892 og desember 1893 eru Hans Ellefsen, kona hans og börn, skráð til heimilis á Sólbakka án þess nokkrar sérstakar athugasemdir fylgi[86] og munu þau hafa dvalist þar árið um kring frá vorinu 1892 til hausts 1894. Það haust fóru frú Ida og börnin fjögur hins vegar til Noregs[87] og þau eru ekki skráð á Sólbakka á sóknarmannatalinu frá 31. desember 1894.[88] Sjálfur var Ellefsen hér um kyrrt þennan vetur 1894-1895, og var það þriðji vetur hans á Sólbakka.[89] Þann 4. október 1895 lét hann í haf og sigldi til Noregs en kom aftur 9. mars 1896 ásamt fólki sínu.[90] Haustið 1896 fóru Sólbakkaforstjórinn og fjölskylda hans aftur til Noregs[91] og í sóknarmannatalinu frá desember á því ári er tekið fram að þau eigi heimili á Sólbakka en dveljist í Noregi að vetrinum.[92] Þann hátt munu þau æ síðan hafa haft á meðan hvalveiðistöðin var rekin á Sólbakka og dvöldust þá í Kristjaníu (Osló) yfir háveturinn.[93] Í fjarveru Ellefsens var það hinn eineygði vélameistari, Carl Svendsen, sem stýrði málum á Sólbakka og notaði vetrarmánuðina til að dytta að og búa tól og tæki undir átök komandi sumars.[94] Eiginkona og börn vélameistarans fluttust frá Noregi að Sólbakka árið 1894 og áttu hér heima nær óslitið næstu tólf árin.[95]

Á árunum 1892-1901 voru oftast 15-20 manneskjur heimilisfastar á Sólbakka[96] og er þá fjölskylda Hans Ellefsen talin með þó að hún dveldist oftast í Noregi að vetrinum. Húsráðendur á þessu skeiði voru aldrei nema tveir, þeir Hans Ellefsen og Carl Svendsen.[97] Flestir heimilismenn á Sólbakka voru norskir en nærri lætur að fjórði hver íbúi hafi þó verið íslenskur.[98]

Þegar leið að vori og hvalveiðarnar komust í fullan gang margfaldaðist fólksfjöldinn hér á Sólbakka. Í hvalstöðinni munu oft hafa unnið 100-150 menn frá mars og fram í september og á hvalveiðibátunum, sem héðan voru gerðir út, voru 63 sjómenn þegar flest var. Flestir þeirra sem unnu á Sólbakka og á bátunum voru Norðmenn en allt að 50 Íslendingar munu þó hafa verið hér við störf þegar flest var og líka allmargir Svíar.[99] Sumarið 1897 eru þeir sagðir hafa verið 40.[100] Til rökstuðnings þeirri fullyrðingu að þeir sem unnu á sjó og landi hjá Hans Ellefsen á Sólbakka hafi verið um eða yfir 200 þegar fjölmennast var skal nú bent á nokkur atriði.

Í samtíðarheimildum er frá því greint að á Sólbakka hafi oftast unnið 40-50 Íslendingar þá mánuði sem vertíðin stóð yfir[101] og þar má líka sjá að á árunum 1893 og 1894 var fjöldi Norðmannanna sem komu í vertíðarbyrjun um 120.[102] Vera má að eitthvað af Svíum sé talið þarna með. Árið 1901 var tala hinna erlendu sjómanna og verkamanna, sem komu frá Noregi til Sólbakka í byrjun vertíðar, komin upp í 140[103] og óhætt mun vera að bæta við um það bil 10 Norðmönnum sem hér höfðu vetursetu. Að meðtöldum Íslendingunum sem komu bæði frá Reykjavík og úr næsta nágrenni verður heildartala vinnulýðsins á sjó og landi þá um 200. Af öllum þessum fjölda voru 63 á bátunum því þeir voru sjö síðustu árin, 1899 og 1900,[104] og 9 menn á hverjum bát.[105]

Fróðlegt er að sjá hvað Jón Guðmundsson frá Grafargili segir um fjölda vertíðarfólksins og komutíma þess hingað að Sólbakka en hann var hér oft í smíðavinnu hjá Ellefsen. – Fór Hans Ellefsen til Reykjavíkur til að sækja erfiðisfólkið sem kom til hans með póstskipinu, skrifar Jón í dagbók sína 9. mars 1891.[106] Tveimur árum síðar komu Norðmennirnir 10. febrúar með flutningaskipi sem var í eigu hlutafélagsins er rak Sólbakkastöðina. Frá þessu greinir Jón í dagbók sinni og segir: Kom gufuskipið Friðþjófur frá Noregi með 117 manns til Hans Ellefsens til að vinna á hvalveiðastöðinni í sumar og að auki hefur hann þó nokkra Íslendinga.[107]

Þann 28. febrúar árið 1894 greinir Jón frá komu þessa sama skips frá Noregi, segir það hafa verið 18 daga á leiðinni og 126 menn hafi verið um borð.[108] Gera má ráð fyrir að þeir hafi allir verið ráðnir í vinnu á Sólbakka nema hinir fáu sem voru í áhöfn flutningaskipsins. Þann 16. mars 1896 kom gufuskipið Fridthjof til Sólbakka með múrstein og 2 hús og tóm föt og svo rúm 30 manns frá Reykjavík.[109] Skipið var að koma frá Noregi[110] en hefur komið við í Reykjavík til að taka þar Sunnlendinga sem ætluðu sér að vinna á Sólbakka. Um haustið fóru 35 Íslendingar með þessu sama skipi frá Sólbakka til Reykjavíkur en þegar Hans Ellefsen hélt til Noregs þetta sama haust fylgdu honum 114 menn frá Sólbakka.[111] Tólf menn hefur hann hér í vetur, skrifar Jón í dagbókina á brottfarardaginn[112] svo ljóst er að sumarið 1896 hefur heildartala Norðmanna, Svía og innlendra farandverkamanna af Suðurlandi verið um 160 ef áhafnir hvalveiðibátanna eru taldir með. Heildarfjöldi starfsmanna hlýtur þó að hafa verið nokkru meiri því gera má ráð fyrir að einhverjir Önfirðingar og menn úr nálægum byggðum hafi unnið á Sólbakka þetta sumar.

Í verslunarbókum Ásgeirsverslunar sést að sumir Norðmennirnir á Sólbakka hafa keypt sér eitt og annað í sölubúð hennar á Flateyri og verið þar með viðskiptamannareikning á eigin nafni. Svo var til dæmis um skómakarann Christofer Evensen, rakarann Thor Strand og kyndarann Johann Andersen en þeir voru allir á Sólbakka árið 1894.[113]

Af því sem hér hefur nú verið ritað um komutíma meginþorra erfiðisfólksins að Sólbakka má ráða að vertíðin hafi yfirleitt hafist í febrúar eða mars. Í dagbók Jóns frá Grafargili er stundum getið um hvenær hvalveiðibátarnir voru settir niður og hvenær komið var að landi með fyrsta hvalinn. – Eru Norðmenn búnir að fá einn hval, skrifar Jón 30. mars 1890 og segir þá hafa komið inn með hann í fyrradag.[114]

– Setti Ellefsen fram Nóru, gufubátinn, skrifar Jón 10. febrúar 1891,[115] en Nora var einn þriggja hvalveiðibáta sem gerðir voru út frá Sólbakka þetta ár (sjá hér bls. 12). Báturinn hefur því verið settur fram á miðjum þorra og tveimur vikum síðar var Ellefsen búinn að fá hval.[116] Næsta ár hefur líklega verið byrjað um svipað leyti því 17. mars á því ári voru 19 hvalir komnir á land á Sólbakka.[117]

Þann 18. febrúar 1893 var Ellefsen búinn að setja ofan alla hvalbátana frá stöðinni á Sólbakka en þeir voru þá fjórir.[118] Ári síðar var komið inn með fyrsta hvalinn 19. febrúar.[119] Árin 1895 og 1896 hófst vertíðin hins vegar ekki fyrr en um miðjan mars. – Farið að setja fram hvalveiðibátana, skrifar Jón frá Grafargili 10. mars 1895 og fimm dögum síðar voru tveir hvalir komnir á land á Sólbakka.[120] Árið 1896 var komið inn með fyrsta hvalinn þann 14. mars.[121]

Óljóst er hvað því hefur valdið að vertíðarbyrjunin færðist aftur um heilan mánuð veturinn 1895 því varðveittar heimildir benda til þess að Ellefsen hafi þá verið á Sólbakka. Árið 1896 kom Ellefsen hins vegar ekki frá Noregi fyrr en 9. mars[122] og var þá ekki við því að búast að vertíðin hæfist fyrr en nokkrum dögum síðar. Á árunum 1896-1901 var Ellefsen í Noregi yfir háveturinn eins og hér hefur áður verið nefnt og er líklegt að vertíðin hafi yfirleitt ekki hafist fyrr en í mars á þeim árum. Síðari árin sem Sólbakkastöðin var í rekstri þurfti líka að sækja hvalina lengra en áður hafði verið (sjá hér bls. 15) og gæti það vel hafa gert menn hikandi við að byrja veiðarnar fyrr en langt var liðið á góu. Á haustin mun yfirleitt hafa verið hætt í september.[123] – Var Hans Ellefsen að setja upp seinasta gufubátinn í kveld, er snjór í byggð, skrifar Jón frá Grafargili 30. september 1893.[124]

Fyrstu tvö árin, 1889 og 1890, voru tveir hvalveiðibátar gerðir út frá Sólbakka[125] og hétu þeir Nora og Othar.[126] Síðarnefndi báturinn var tekinn hér á land haustið 1889 en Nora fór þá til Noregs og kom aftur 27. mars 1890.[127] Nora var 82 smálestir, smíðuð í Christianiu (Osló) árið 1882, en Othar, sem var 74 smálestir, var smíðaður á sama stað veturinn 1884-1885.[128] Báðir voru þessir bátar úr járni.[129] Í Noru var 30 hestafla vél en sú í Othari var svolítið kraftminni eða 25 hestöfl.[130] Báða þessa báta keypti Hans Ellefsen 8. febrúar 1889.[131]

Vorið 1891 bættist þriðji báturinn við,[132] Snorri Sturluson sem kom frá Noregi í fyrri hluta apríl á því ári.[133] Þetta var nýr 72ja smálesta gufubátur, smíðaður í Christianiu veturinn 1890-1891.[134] Hann var úr járni og stáli, lengd tæplega 79 fet, breidd tæplega 16 fet, dýpt 9 fet og lengd vélarrúms 22 fet.[135] Tvö möstur voru á Snorra og í honum var 30 eða 35  hestafla Compound vél.[136] Þann 7. mars 1891 var Hans Ellefsen skráður eigandi bátsins[137] og má ætla að hann hafi verið smíðaður á hans vegum. Ári síðar bættist fjórði báturinn við[138] og 28. mars árið 1893 kom sá fimmti.[139] – Kom nýr hvalveiðibátur til Hans Ellefsen svo nú hefur hann 5 báta til veiða, skrifar Magnús Hjaltason í dagbók sína þann dag.[140]

Bátarnir tveir sem bættust í flotann 1892 og 1893 hétu Ingólfur og Mosvalla.[141] Báðir þessir bátar voru smíðaðir í Noregi og komu alveg nýir að Sólbakka, Mosvalla 1892 og Ingólfur 1893.[142] Mosvalla var 87 smálesta járnbátur en Ingólfur 79 smálesta stálbátur.[143] Í báðum þessum bátum voru 30 hestafla vélar.[144] Skipstjóri á Mosvalla sumarið 1892 var Niels Samuelsen en skipstjóri á Ingólfi sumarið 1895 var Andreas Ellefsen,[145] að líkindum bróðir Hans Ellefsen.

Heimildirnar, sem hér er byggt á hvað varðar nöfn bátanna og það hvenær þeir komu fyrst að Sólbakka, geta talist öruggar en þess má geta að í hreppsbók Mosvallahrepps má líka sjá hver fjöldi bátanna var á hverju ári og passar það jafnan við þá tölu sem hér var nefnd.[146] Með vísun til þess má gera ráð fyrir að óhætt sé að treysta því sem sagt er í hreppsbókinni um bátafjölda á Sólbakka á árunum 1894-1901 og eru tölurnar þá sem hér segir: 1894 fimm, 1895-1897 sex, 1899-1901 sjö.[147] Bátarnir tveir, sem enn hafa ekki verið nefndir, ættu því að hafa bæst í flota Ellefsens 1895 og svo 1898 eða 1899. Í heimildum sem varðveist hafa er hins vegar hvergi að finna nöfn annarra hvalbáta á Sólbakka en þeirra fimm sem hér hafa áður verið nefndir og svo tveggja báta sem Ellefsen keypti haustið 1900 ef marka má upplýsingar í hinni opinberu skipaskrá.[148] Þessir tveir bátar hétu Varanger og Pasvig[149] og vera má að Ellefsen hafi haft þá á leigu um nokkurt skeið áður en hann keypti þá.

Í einni heimild er frá því greint að hvalveiðibátarnir Varanger og Pasvig hafi verið gerðir út frá Sólbakka á fyrstu árum stöðvarinnar þar[150] sem fær þó ekki staðist en hefur að því er vænta má átt að vera á síðustu árum hennar.

Gufubátarnir Varanger og Pasvig voru báðir úr járni og smíðaðir í Kristjaniu (Osló), sá fyrrnefndi árið 1881 en hinn árið 1885.[151] Varanger var 86,55 smálestir en Pasvig 72,34 smálestir með 75 hestafla Compound vél.[152] Þessa tvo báta keypti Hans Ellefsen í Tönsberg í Noregi 31. október 1900.[153] Skipstjóri á Pasvig var Samúel Samúelsson sem fékk skipstjóraréttindi á Ísafirði 22. mars 1895.[154] Í skrá yfir skattgreiðendur í Mosvallahreppi árið 1900 sést að sex skipstjórum á Sólbakka var þá gert að greiða nokkra fjárhæð í skatt en þeir hétu: Frithjof Ellefsen, Lars Iversen, Leonard Andersen, Nils Samuelsen, Martein Johansen og Carl Andersen.[155] Gera má ráð fyrir að þessir menn hafi allir verið skipstjórar á hvalveiðibátunum.

Á hverjum hvalveiðibát var 9 manna áhöfn, skipstjóri, vélameistari, matsveinn, tveir kyndarar og fjórir hásetar.[156] Skipstjórarnir voru ætíð norskir en vegna lagaákvæða urðu þeir að hafa íslenskan lepp sem skráður var skipstjóri til málamynda.[157] Á hverjum bát var því jafnan að minnsta kosti einn íslenskur háseti og algengt var að íslenskir piltar væru kyndarar.[158]

Skipstjórinn á hverjum bát var jafnframt skytta.[159] Hann hafði fast kaup og að auk 50,- krónur fyrir hvern veiddan hval.[160] Hásetarnir höfðu í fyrstu 40,- krónur í fast mánaðarkaup og 2,- krónur af hverjum hval en seinna hækkaði mánaðarkaupið upp í 50,- krónur og premían úr tveimur krónum í fjórar.[161] Mun lægra var kaupið hjá kyndurunum, ekki nema 16-20,- krónur á mánuði, enda voru þeir flestir kornungir, margir aðeins 16 eða 17 ára.[162]

Um borð í bátunum skiptist sólarhringurinn í sex fjögurra tíma vaktir og voru tveir hásetar á hverri vakt.[163] Stóð annar við stýri en hinn var í tunnunni og hafði þann starfa að skyggnast um eftir hval.[164] Hvalskutlinum var skotið úr fastri byssu sem komið var fyrir í stafni bátsins.[165] Skutullinn var mjór stálleggur, um 40 kíló að þyngd.[166] Á fremri enda hans voru flaugar sem réttust út þegar í hvalinn kom og vörnuði því að skutullinn drægist til baka.[167] Framan á skutulinn var skrúfuð granat kúla sem var full af púðri og ýmsu járnarusli.[168] Þegar skutullinn kom í hvalinn sprakk kúlan og púðrið sundraði járnaruslinu víðs vegar um skepnuna.[169] Við skutulinn var festur um 350 faðma langur kaðall úr sterkum hampi.[170] Best þótti að skjóta hvalinn á 10-15 metra færi en væri fjarlægðin meiri en 50-60 metrar þótti varla gerlegt að reyna skot.[171]

Með sprengiskutlinum náðu menn oftast að særa hvalinn til ólífis. Þegar dýrið fann til sársaukans tók það kipp og náði stundum að draga bátinn á eftir sér langar leiðir.[172] Oftast þrutu þó kraftar skepnunnar eftir hálfa eða eina klukkustund og var hún þá skotin í annað sinn eða stungin til bana með geysistórum lensum.[173] Þegar hvalurinn hafði verið drepinn var dælt í hann lofti svo hann sykki ekki.[174]

Af hinum ýmsu hvalategundum hér við land var mest veitt af steypireyði á árunum 1883-1915 en einnig mikið af langreyði og eitthvað af hnúfubak og fleiri tegundum.[175] Verðmætastir voru búrhvalirnir en lítið veiddist af þeim.[176] Hans Ellefsen taldi að sögn að úr meðalstórum búrhval fengjust 9-10 tonn af lýsi, 3 tonn af hvalmjöli og 7 tonn af beinamjöli og fyrir þessar afurðir mætti fá 7.000,- krónur.[177] Til samanburðar má nefna að árið 1893 var ein steypireyður virt á 4.000-6.000,- krónur og ein langreyður á 1.500,- krónur.[178] Hvalir sem bátarnir frá Sólbakka veiddu voru margir býsna stórir. Algengt var að þeir væru um 20 metrar á lengd og sagt er að sá stærsti hafi verið 30 metrar.[179]

Á fyrstu árum hvalveiðistöðvarinnar á Sólbakka þurftu bátarnir yfirleitt ekki að fara mjög langt til að ná í hval.[180] Nefna má að 18. mars 1892 var 21 hvalur kominn á land á Sólbakka og höfðu þeir allir verið skotnir á Ísafjarðardjúpi.[181] Þá höfðu hvalirnir leitað inn á Djúpið undan hafís.[182] Eins og áður var frá greint voru allar hvalveiðistövarnar, sem Norðmenn settu á laggirnar hérlendis á árunum 1883-1899, reistar á Vestfjörðum og þegar kom fram undir aldamótin hafði hvölum á miðunum í grennd við Vestfirði fækkað mjög verulega vegna ofveiði.[183] Bátar Ellefsens fóru þá að elta hvalina austur með öllu Norðurlandi og djúpt á haf út.[184] Fyrstu árin var venjan sú að hver bátur kæmi með feng sinn að landi en þegar svo var komið að sækja varð á fjarlæg mið var nýr háttur tekinn upp. Sjómennirnir á veiðibátunum voru þá látnir leggja hvölunum við legufæri, t.d. á Hornvík eða Siglufirði og síðan voru flutningaskip fyrirtækisins látin sækja þá norður og flytja í trossum að Sólbakka.[185]

Flutningaskipin, sem fyrirtækið er rak Sólbakkastöðina átti, voru að minnsta kosti fjögur[186] en vera má að þau hafi aldrei verið öll í gangi á sama tíma. Aðalverkefni þeirra var að flytja hvalafurðir frá Sólbakka á markað í Bretlandi og flytja þaðan og frá Noregi margvíslegar rekstrarvörur sem stöðin á Sólbakka þurfti á að halda.[187] Stundum fluttu þau líka hina erlendu verkamenn yfir Íslandshaf. Elst þessara skipa var Ína en síðan bættust við Fridtjof (Friðþjófur), Barden (Barðinn) og Einar Simers sem var stærsta skipið.[188] Talið var að Friðþjófur gæti í góðu veðri flutt 6 hvali í trossu frá Siglufirði að Sólbakka en Barðinn og Einar Simers 16-18 hvali hvor.[189]

– Er annað hvalveiðiskipið að teyma inn norskt brikk, skrifar Jón Guðmundsson frá Grafargili 16. apríl 1889[190] og má telja líklegt að briggskipið sem þá var verið að teyma inn á Flateyrarhöfn hafi verið Ína og hefur hún þá verið að koma hingað í fyrsta skipti. Einu ári síðar nefnir Jón Ínu með nafni og segir hana þá hafa komið frá Noregi 31. mars.[191] Ína var þriggja mastra skip[192] og líklega hefur það verið hún sem kom inn að Höfðaodda í Dýrafirði 18. febrúar 1892 en þann dag skrifar Sighvatur Borgfirðingur á Höfða í dagbókina að vanda og segir:

 

Alísa fjörðurinn. … Fyrir fótaferðartíma kom hér inn að Odda stórt þrímastrað gufuskip frá Noregi, hefur veri 12 daga á ferð frá Túnsbergi. Þar er á Ellefsen hvalveiðari frá Flateyri með fólk sitt og fór strax í Önundarfjörð.[193]

 

Hugsanlegt er þó að þetta hafi verið Friðþjófur en í dagbókum úr Önundarfirði og Dýrafirði verður þó ekki vart við hann svo kunnugt sé fyrr en 10. febrúar 1893. Þann dag segir Jón frá Grafargili að gufuskipið Friðþjófur hafi komið að Sólbakka með 117 Norðmenn.[194] Nítján dögum síðar lagði þetta sama skip svo af stað til Skotlands og Noregs og kom aftur úr þeirri ferð 17. apríl.[195] Sama dag kom Ína inn á Önundarfjörð frögtuð af kolum frá Skotlandi.[196]

Flutningaskipið Frithjof var 237,6 smálestir, smíðað úr eik og furu árið 1884 á heimaslóðum Ellefsens, í Skjærsnes í Noregi.[197] Í þessum dalli var 50 hestafla vél.[198] Skipstjóri á Frithjof árið 1895 var maður að nafni Lars Iversen.[199] Aldamótaárið 1900 var skip þetta selt úr landi.[200]

Tvö stærstu flutningaskip Ellefsens á Sólbakkaárum hans voru Barðinn (Barden) og Einar Simers. Barðinn var smíðaður í Glasgow í Skotlandi árið 1884.[201] Þetta var 380 brúttólesta skip úr járni eða stáli með 291 hestafls þriggja þjöppu gufuvél.[202] Lengd skipsins var 143 fet, breiddin 22 fet og mesta dýpt 10,8 fet.[203] Barðann keypti Hans Ellefsen í Noregi 12. apríl 1898 og fyrsti skipstjóri hans á því skipi var Lars Iversen.[204]

Einar Simers var 547 brúttósmálestir, smíðaður í Akers mekaniske Værksted í Kristjaniu (Osló) árið 1895.[205] Skip þetta var úr stáli með tvö þilför og tvö möstur.[206] Lengd þess var 154 7/10 fet, breiddin 25 4/10 fet og dýpt 17 fet.[207] Í Einari Simers var 400 hestafla þriggja þjöppu gufuvél.[208] Athygli vekur að í mælingarbréfum Barðans og Einars Simers er Hans Ellefsen sagður vera eigandi þessara skipa en ekki hlutafélagið Skærsnæss sem átti stöðina á Sólbakka.[209] Hingað til lands kom, þetta stóra gufuskip Ellefsens, Einar Simers, sama ár og það var smíðað og flutti forstjórann á Sólbakka og farandverkamenn hans til Noregs þá um haustið.[210] Í aðalskipaskrá er Hans Ellefsen þó ekki sagður hafa eignast skipið fyrr en 25. júlí 1897.[211] Í mælingarbréfinu, sem hér var áður vitnað til, er nafn skipsins ritað Einar Siemers en í hinni opinberu skipaskrá er strikað yfir þriðja stafinn í seinna nafninu svo úr verður Einar Simers[212] sem líklega er réttara. Í skipaskránni er fraktskip þetta líka sagt vera aðeins stærra en nefnt er í mælingarbréfinu eða 548,84 smálestir[213] í stað 547 smálesta. Skipið Einar Simers seldi Ellefsen kaupendum í Noregi í janúarmánuði árið 1912.[214]

Á flutningaskipunum, sem þjónuðu hvalveiðistöðinni á Sólbakka, voru nær eingöngu Norðmenn en þess er vert að geta að tveir ungir menn frá Flateyri komust þar í stöður yfirmanna. Annar þeirra var Ásgeir Torfason, fæddur 1877, sem varð stýrimaður á Einari Simers[215] en hinn var Ebenezer Ebenezersson, fæddur 6. desember 1876, sem varð skipstjóri á Barðanum.[216] Hann var fyrsti Íslendingurinn sem varð skipstjóri á gufuskipi eða einn af þeim allra fyrstu.[217] Seinna komst Ebenezer bæði til Asíu og Afríku. Þegar Ellefsen seldi einn hvalveiðibát sinn til Japan var Ebenezer falið að koma honum í hendur nýrra eigenda og fór hann þá langt austur með bátinn en ekki er alveg ljóst hvort hann muni hafa farið alla leið til Japan.[218] Árið 1911 hóf Ebenezer störf við halveiðistöð sem Hans Ellefsen var þá að koma á fót í Suður-Afríku.[219] Þar var hann um skeið skipstjóri á hvalveiðibátnum Mosvalla, sem kenndur var við Mosvallahrepp í Önundarfirði,[220] þar sem hinn víðförli skipstjóri var borinn og barnfæddur. Ebenezer Ebenezersson kvæntist norskri konu og settist að í bænum Tönsberg (Túnsbergi) á Vestfold í Noregi.[221] Hann andaðist 9. apríl 1940, sama dag og Þjóverjar réðust inn í Noreg.[222]

Á fyrstu árum hvalveiðistöðvarinnar á Sólbakka voru hvallýsi og hvalskíði einu framleiðsluvörurnar sem sendar voru á erlendan markað en vorið 1893 lauk byggingu mjölverksmiðju eða gúanófabrikku eins og hún var nefnd og í henni var framleitt mjöl úr kjöti og beinum hvalanna en fiskúrgangi blandað saman við.[223] Þessi mikla verksmiðja var 80 álnir (50,2 metrar) á lengd og 19 álnir á breidd[224] Hún var tekin út 27. apríl 1893 og virt með öllu naglföstu á 75.000,- krónur[225] en sú upphæð svaraði þá til rétt liðlega 700 kúgilda samkvæmt opinberri verðlagsskrá.[226] Úttektarmennirnir voru Guðmundur Á. Eiríksson, hreppstjóri á Þorfinnsstöðum, og Jón Guðmundsson frá Grafargili en sérstaka athygli vekur að í úttektargerðinni nefna þeir hina nýju byggingu áburðarverksmiðju.[227] Áður en mjölverksmiðjan var byggð voru hvalhræin látin reka til hafs þegar búið var að flensa af þeim spikið.[228] Eitthvað af kjöti og rengi var þó selt hér innanlands eða gefið til matar.[229] Með byggingu mjölverksmiðjunnar, sem tekin var í gagnið vorið 1893, varð veruleg breyting á rekstrinum og má segja að þaðan í frá hafi allt sem hvalurinn gat gefið af sér verið nýtt til fulls. Þrjár slíkar verksmiðjur voru teknar í notkun á Vestfjörðum árið 1893 og voru hinar tvær í hvalstöðvunum á Höfðaodda í Dýrafirði og á Suðureyri í Tálknafirði.[230] Slík mjölvinnsla var þá alger nýjung hérlendis[231] en lýsið var eftir sem áður langverðmætasta framleiðsluafurðin á Sólbakka.[232] Vorið 1893 var hin nýja mjölverksmiðja virt á 75.000,- krónur[233] eins og fyrr var nefnt en til samanburðar má geta þess að árið 1901 voru allar helstu byggingar hvalstöðvarinnar, aðrar en íbúðarhúsin uppi á bökkunum, tryggðar ásamt vélum og búnaði fyrir 200.000,- krónur.[234] Í hvalveiðistöðvum Norðmanna á Íslandi var beitt vélum og tækni sem Íslendingar höfðu aldrei áður komist í kynni við, enda var notkun véla nánast óþekkt á Íslandi fyrir 1890. Á Sólbakka gengu bæði bátarnir og landvinnslan fyrir gufuafli.

Vinnubrögðum í hvalstöðvunum á Íslandi um aldamótin 1900 hefur Trausti Einarsson lýst í stuttu máli og segir:

 

Vinnslu hvalsins var þannig háttað í hvalstöðvum á Íslandi að ofan við hvalskurðarpallinn, flenseplan, voru öflugar eimvindur sem drógu hvalinn á land. Hvalskurðarmennirnir ristu skurði inn úr spikkápunni frá sporði að haustrjónunni. Vírstrengur var svo festur í spiklengjuna hausmegin á hvalnum og dró eimvindan inn vírinn svo að spikið fylgdi eftir. Jafnharðan voru spiklengjurnar dregnar inn í spikbræðsluhúsið, spekk kokeri, og settar undir hjólhníf sem skar lengjurnar í þunnar flísar. Þaðan var spikinu ekið í vélknúnum vögnum upp á aðra hæð spikbræðsluhússins og steypt ofan í bræðslukör. Þeir sem höfðu þann starfa voru nefndir spikloftsmenn.

Eftir að spikið hafði verið skorið af hvalnum og skíðin fjarlægð tóku aðrir við að sundra hvalskrokknum á hvalskurðarpalli, kjöttplanen. Bein og kjöt voru soðin í kjötsuðuhúsinu og lýsi síðan pressað úr kjötinu. Gúanó- eða mjölverksmiðjan skiptist í tvö hús. Í öðru húsinu voru þurrkofnar en kvarnir í hinu. Kjötið var bæði þurrkað og malað og úr því unnið kraftfóður. Eins voru bein þurrkuð og möluð og úr þeim unnið beinamjöl sem selt var sem áburður eða malað saman við það versta af hvalkjötinu, í hlutfallinu einn á móti tveimur, í gúanó.[235]

 

Nánari lýsingu á vinnubrögðum á Sólbakka er að finna í ritinu Frá ystu nesjum en þar segir svo um beinavinnsluna:

 

Eftir að allt kjötið hafði verið skorið utan af beinunum voru þau dregin þangað sem beinahnífurinn stóð. Hann var útbúinn á svipaðan hátt og spikhökkurnar. Hjólið sem dreif hann áfram var að vísu miklu stærra, eða 3-3½ metri í þvermál, en útbúnaður að öðru leyti mjög svipaður. Þótti Ellefsen gaman að sýna gestum beinahnífinn þegar hann var í gangi, enda voru átök hans hin tröllslegustu. Skalf öll verksmiðjan og nötraði eins og hún væri að brotna niður, því geysimikinn kraft þurfti til að kubba í sundur hryggjarliði og önnur stærstu hvalbein líkt og þau væru smjörskökur einar. Þegar beinin höfðu verið höggvin voru þau soðin á sama hátt og kjötið. Síðan voru þau möluð og mjölið sett í poka. Beinamjölið var alltaf haft sér, enda eingöngu notað sem áburður, en kjötmjölið þótti einnig hið besta skepnufóður.[236]

 

Hús hvalveiðistöðvarinnar á Sólbakka, önnur en íbúðarhúsin uppi á bökkunum, stóðu öll á uppfyllingu niðri í fjörunni.[237] Í texta sem fylgir mynd frá aldamótaárinu 1900 er gerð grein fyrir röð húsanna sem sjást á henni.[238] Þar segir:

 

Yst til vinstri handar er matvælaskúrinn og hjá honum er ferhyrndur reitur með skíðgarði umhverfis á þrjá vegu. Það er danspallur sem Ellefsen hefur látið gera handa verkamannalýðnum svo að hann geti „lyft sér þar upp” í tómstundum. Skammt þaðan sjáum vér þak á löngu húsi og við endann á því annað hús, hátt og mikið. Er það hvort tveggja íbúðarhús verkamannalýðsins. Þar næst er bræðsluhúsið með tveim háum reykháfum. Lágt hús með ljósleitu þaki er að bera í bræðsluhúsið. Það er smíðahús hr. Svendsens vélameistara. Áfast við bræðsluhúsið er lítið eitt lægra hús, ákaflega langt, og sjáum vér aðeins þakið á því uppundan brekkunni. Það er „Gúanó-” eða hvalmjölsverksmiðjan og nær hún spölkorn út fyrir íbúðarhús hr. Ellefsens sem er að bera í hana. Yst í vesturenda verksmiðjunnar er þerrihúsið og gnæfir reykháfurinn á því hátt yfir íbúðarhúsið. Í þerrihúsinu er hvalmjölið þurrkað. Skammt frá verksmiðjunni er íbúðarhús Svendsens vélameistara og yst til hægri handar eru hesthús og heyhlaða.[239]

 

Í þessum texta eru ekki talin upp alveg öll húsin sem sjást á myndinni. Skipið sem liggur við bryggju er strandferðaskipið Skálholt og rétt fyrir framan stefnið á því sér í gaflinn á kolahúsinu.[240] Aðeins lengra til hægri á myndinni sjáum við í gaflinn á öðru geymsluhúsi sem ætíð var nefnt Sjóbúðin.[241]

Eitthvað af húsum hvalveiðistöðvarinnar vantar á myndina. Í textanum sem henni fylgir er ekki getið um spikhúsið og mjölgeymslu sem sagt er frá í öðrum heimildum.[242] Í einni heimild eru verkamannaskálarnir á Sólbakka sagðir hafa verið fimm[243] en í blaðinu Hauki er aðeins getið um tvö íveruhús verkamannalýðsins. Á myndina vantar máske líka staurinn, sem stóð neðan við verkamannaskálana, en við hann var fest bjalla sem hringt var þegar kvatt skyldi til vinnu eða hætta átti störfum.[244] Dráttarbraut var einnig á Sólbakka og þar var gufuafli beitt til að draga hvalveiðibátana á land á haustin[245] en allar viðgerðir á bátunum fóru fram hér.[246]

Hér hefur áður verið frá því greint að á árunum 1893-1901 hafi oft verið á annað hundrað manna við störf í hvalvinnslunni á Sólbakka og eru þá ekki taldir með sjómennirnir á hvalveiðibátunum (sjá hér bls. 10-11). Áður en mjölverksmiðjan tók til starfa vorið 1893 munu verkamennirnir hafa verið eitthvað færri.[247]

Þeir sem unnu í hvalstöðinni voru eingöngu eða nær eingöngu karlmenn[248] en af ýmsu þjóðerni, Norðmenn, Svíar og Íslendingar (sjá hér bls. 10-11). Unnið var í dagvinnu frá klukkan sex á morgnana til sjö á kvöldin en ætla má að tveir tímar og máske þrír hafi farið í mat og kaffi.[249] Sumir unnu vaktavinnu og hjá þeim var sólarhringnum skipt í fjórar sex tíma vaktir.[250] Þeir sem gengu á vaktir unnu þá í tólf tíma á hverjum sólarhring[251] en virkur vinnutími hefur þó líklega verið eitthvað styttri vegna matar- og kaffitíma. Algengasta kaupið á Sólbakka var 30,- til 40,- krónur á mánuði auk fæðis.[252] Dálítið var þetta samt breytilegt og fór meðal annars eftir því hvort menn voru vanir og hvaða verk þeir unnu.[253] Ætla má að kaupið hafi verið hæst hjá faglærðum mönnum og hjá flensurunum.[254] Í hvalstöðvum Norðmanna hérlendis voru flensararnir yfirleitt norskir en einhverjir Íslendingar náðu þó að verða flensarar.[255] Lægsta kaupið fengu unglingar og aðrir nýliðar, aðeins 16,- til 20,- krónur á mánuði[256] eða rétt um helming þess sem greitt var þjálfuðum verkamönnum. Á Sólbakka og öðrum hvalveiðistöðvum Norðmanna á Íslandi voru vinnulaun borguð út í peningum[257] en á árunum kringum 1890 mátti heita að slíkt væri alger nýjung á landi hér.[258]

Upplýsingar um veltu hvalveiðistöðvarinnar á Sólbakka þau 13 ár sem hún var starfrækt og um hagnað eigendanna liggja ekki á lausu. Ýmsar vísbendingar sem vert er að skoða eru þó í boði. Þess var áður getið að hlutafé fyrirtækisins sem rak stöðina á Sólbakka muni hafa verið um 500.000,- krónur og þar með meira en hjá nokkru hinna félaganna sem ráku hvalveiðistöðvar á Íslandi á árunum kringum aldamótin 1900 (sjá hér bls. 2-3). Hér á Sólbakka urðu umsvifin líka mest og á Asknesi við Mjóafjörð þar sem Hans Ellefsen setti upp nýja hvalveiðistöð árið 1901.[259]

Ýmsar tölur liggja á lausu um fjölda hvalanna sem bátar frá Sólbakka veiddu sum árin og má nefna þessar: 1889 63 hvalir, 1890 126 hvalir, 1893 194 hvalir, 1895 287 hvalir, 1900 205 hvalir.[260] Hér hefur áður verið gerð grein fyrir breytilegum fjölda hvalveiðibátanna sem gerðir voru út frá Sólbakka á árunum 1889-1901 (sjá hér bls. 12-13). Með þá vitneskju í huga er auðvelt að reikna út hver var árleg meðalveiði á bát þau fimm ár sem nefnd voru sérstaklega hér að ofan og reynist hún hafa verið 42 hvalir. Til samanburðar má geta þess að í norskri heimild segir að árleg meðalveiði á hvern hvalveiðibát við Ísland á árunum 1883-1915 hafi verið 38 hvalir[261] og eru tölurnar býsna nálægt hvor annari. Hafi árleg meðalveiði á bát verið 40 hvalir ættu 200 hvalir að hafa komið á land að jafnaði á ári á Sólbakka því meðalfjöldi báta sem þaðan voru gerðir út var fimm. Heildarfjöldinn í þau þrettán ár sem stöðin var starfrækt ætti þá að hafa verið um 2.600 hvalir. Líklega er sú tala mjög nálægt lagi og hefur þá þriðji hver hvalur sem veiddist hér við land á árunum 1889-1901 verið færður á land á Sólbakka því opinber heildartala veiddra hvala á þessum árum er 7.741.[262]

Í samningnum sem Páll Torfason gerði fyrir hönd föður síns við Hans Ellefsen haustið 1888 var miðað við að landleiga fyrir stöðina á Sólbakka yrði fimm krónur af hverri steypireyði og hverri langreyði sem þar yrði færð á land en ein króna fyrir hina minni hvali (sjá hér bls. 5). Í bók sinni Hvalveiðar við Ísland 1600-1939 segir Trausti Einarsson að Ellefsen muni hafa greitt 11.555.- krónur í leigu fyrir landið á Sólbakka sem hann hafði á leigu frá 1888-1906.[263] Fimm síðustu árin af þessum nítján kom hér enginn hvalur á land og ekki heldur árið 1888 og má ætla að Ellefsen hafi þá aðeins greitt 100,- krónur á ári í leigu en það var lágmarksupphæðin sem kveðið var á um í samningnum.[264] Hin árin ætti greidd leiga þá að hafa verið 850,- krónur á ári að jafnaði sem passar alveg við ákvæði leigusamningsins sé gert ráð fyrir 200 hvölum ár hvert og reiknað með að um 80% þeirra hafi verið af hinum stærri tegundum.

Allar tiltækar heimildir benda því til þess að fjöldi veiddra hvala hjá Ellefsen á Sólbakka hafi að jafnaði verið um 200 á ári. Hér er á öðrum stað vakin athygli á að opinberar tölur um fjölda hvala sem veiddir voru frá hvalveiðistöðinni á Höfðaodda í Dýrafirði á árunum 1890-1902 séu mun lægri en vera ætti ef rétt væri farið með staðreyndir (sjá hér Höfði). Hvað varðar stöðina á Höfðaodda er réttu tölurnar að finna hjá Sighvati Grímssyni Borgfirðingi sem bjó á Höfða í Dýrafirði á þessum árum og getur í dagbók sinni um sérhvern hval sem þar var færður á land (sjá hér Höfði). Hugsanlegt er að tölurnar frá Sólbakka, sem hér hafa verið nefndar, séu líka eitthvað lægri en vera ætti. Engin bein ástæða er þó til að ætla að svo sé því samkvæmt tölum Sighvats var árleg meðalveiði á hvern bát úr Dýrafirði ekki nema 35 hvalir á árunum 1893-1902 (sjá hér Höfði) en ef marka má tölurnar frá Sólbakka er hér voru nefndar veiddu bátarnir sem þaðan voru gerðir út 40 hvali hver að jafnaði á ári. Samanburður við stöðina í Dýrafirði gefur því ekki tilefni til að breyta því sem hér var áður sagt um fjölda hvalanna sem færðir voru að landi hér á Sólbakka. Niðurstaðan er því sú að á þrettán árum, 1889-1901, hafi heildarveiði Sólbakkabátanna verið um 2.600 hvalir.

Í útflutningsskýrslum, sem prentaðar eru í Stjórnartíðindum, verður fyrst vart við hvallýsi frá Sólbakka árið 1890 en þá eru 25 tunnur af þessari afurð sagðar hafa verið fluttar út frá Flateyri.[265] Næstu tvö árin er ekkert minnst á útflutning hvallýsis frá Flateyri en árið 1893 eru nær 11.000 tunnur af slíku lýsi sagðar hafa verið fluttar í skip til útlanda frá þessu sama þorpi í Önundarfirði.[266] Útflutningsskýrslurnar frá þessum árum sýnast alls ekki vera marktækar því úr hvölum sem veiddust hér við land á árunum 1889-1901 fengust að jafnaði 39 tunnur af lýsi úr hverri skepnu.[267] Í hinum opinberu útflutningsskýrslum frá árunum 1894 og 1895 er ekkert minnst á hvalafurðir frá Sólbakka (Flateyri) en frá og með árinu 1896 verður breyting á í þeim efnum og í útflutningsskýrslum frá árunum 1896-1900 er jafnan einhverjar tölur að finna um magn og verðmæti hvalafurða sem út voru fluttar frá Flateyri (Sólbakka).[268] Á þessum fimm árum voru fluttar út frá Flateyri 78.027 tunnur af hvallýsi, ef marka má skýrslurnar, eða 15.605 tunnur að jafnaði á ári. Fyrir allt þetta lýsi segja skýrslurnar að hafi fengist 1.660.648,- krónur[269] og hefur meðalverð á hverja tunnu þá verið 21,28 krónur. Verðið var hins vegar mjög misjafnt ef marka má þessar sömu skýrslur eða allt frá 12,67 krónum á tunnu árið 1896 upp í 40,00 krónur árið 1900.[270]

Hér var þess áður getið að marktækar heimildir bendi til þess að á árunum 1889-1901 hafi að jafnaði fengist 39 tunnur af lýsi úr hverjum hval sem veiddist við Ísland.[271] Lýsið úr þeim um það bil 2.600 hvölum sem færðir voru á land á Sólbakka ætti því að hafa nægt til að fylla liðlega 100.000 tunnur og í einni heimild eru lýsistunnurnar frá Sólbakka sagðar hafa verið 101.734.[272]

Í raun mun verðið á hvallýsinu hafa verið mun hærra en upp er gefið í útflutningsskýrslunum frá 1896-1900. Í öðrum heimildum sést að á árunum 1889-1901 var meðalverð á fyrsta flokks hvallýsi á bilinu frá tæplega 16 sterlingspundum og upp í 22 sterlingspund fyrir tonnið[273] en sex lýsistunnur voru í hverju tonni.[274] Lætur þá nærri að þrjú sterlingspund hafi fengist að jafnaði fyrir hverja tunnu en liðlega þó. Í hverju sterlingspundi voru 18,12 danskar krónur árið 1889 en síðan 18,10 krónur á árunum 1890-1901 og er þá miðað við markaðsgengi.[275] Meðalverð fyrir hverja lýsistunnu frá Sólbakka ætti þá að hafa verið 50-60,- krónur sé miðað við fyrsta flokks lýsi en ætla verður að mest af því hafi farið í fyrsta flokk. Hér hefur áður verið nefnt að liðlega 100.000 tunnur af hvallýsi muni hafa verið fluttar út frá Sólbakka og má því gera ráð fyrir að 5 milljónir króna eða þar um bil hafi fengist fyrir það. Hinar íslensku útflutningsskýrslur frá árunum 1895-1901 gefa til kynna að fyrir hvallýsið hafi þá fengist 78,25% af heildarútflutningsverðmæti hvalafurðanna. Séu þær tölur hafðar til viðmiðunar og út frá því gengið að 5 milljónir króna hafi fengist fyrir lýsið, sem út var flutt frá Sólbakka á árunum 1889-1901, þá verður útkoman sú að heildarverðmæti allra hvalafurðanna sem héðan fóru á markað hafi verið um 6,4 milljónir króna eða um 500.000 krónur að jafnaði á ári þau 13 ár sem hvalstöðin var starfrækt hér á þessum stað. Árin 1889-1892 var hér að vísu engin mjölframleiðsla en á móti kemur að á árunum 1893-1901 mun mjölframleiðslan hafa vegið þyngra í rekstrinum á Sólbakka en í sumum hinna hvalstöðvanna hérlendis því Ellefsen varð einna fyrstur til að setja upp mjölverksmiðju (sjá hér bls. 17-18) og í sumum stöðvanna komst slík verksmiðja aldrei upp.[276] Þessari kenningu til styrktar má nefna að samkvæmt hinum opinberu útflutningsskýrslum gaf lýsið frá Sólbakka aðeins 71,4% af sölutekjum stöðvarinnar en aðrar hvalafurðir 28,6% á árunum 1898-1900.[277] Áður en lengra er haldið skal svo tekið fram að hvallýsið var eingöngu eða nær eingöngu selt til Bretlands og sömu sögu er að segja um hvalskíðin.[278] Hvalkjötsmjölið og hvalbeinamjölið (gúanó) fór hins vegar ýmist á markað í Bretlandi eða Noregi.[279] Helsti tengiliður við markaðinn í Bretlandi var fyrirtækið Chr. Salvesen & Co. í Leith.[280] Í Bretlandi mun hvalmjölið bæði hafa verið notað til að fóðra skepnur og sem áburður.[281] Eitthvert lítilræði af hvalmjöli frá Sólbakka var selt hér innanlands og notuðu menn kjötmjölið í skepnufóður en beinamjölið í áburð.[282]

Hér hefur nú verið sýnt fram á að mjög líklegt megi telja að árlegt söluverðmæti hvalafurða frá stöðinni á Sólbakka hafi að jafnaði verið um eða jafnvel yfir 500.000,- krónur. Sú tala er ekki nákvæm en miklu lægri hafa sölutekjurnar alls ekki verið. Undir þá kenningu má renna einni stoð enn, því norskur sérfræðingur á þessu sviði segir að árið 1893 hafi ein steypireyður verið virt á 4.000-6.000,- krónur og ein langreyður á 1.500,- krónur.[283] Sá hinn sami bendir á að hér við land hafi mest verið veitt af steypireyði á árunum kringum aldamótin 1900 en einnig mikið af langreyði.[284] Sé nú ráð fyrir því gert að af þeim 200 hvölum sem í meðalári voru færðir að landi á Sólbakka (sjá hér bls. 22-23) hafi 90 verið steypireyðar, 70 langreyðar og 40 aðrir smærri hvalir hefur söluverðmæti afurðanna tvímælalaust farið eitthvað yfir 500.000,- krónur á ári ef marka má nýnefndar tölur um verðmæti hinna stærri hvala. Hér ber því allt að sama brunni svo óhætt mun að slá því föstu að árlegar meðaltekjur hvalveiðistöðvarinnar á Sólbakka hafi náð 500.000,- krónum og reyndar getur verið að 600.000,- krónur væri nær lagi.

Erfiðara mun reynast að svara spurningunni um beinan hagnað eigenda hvalstöðvarinnar af rekstri hennar en flest bendir til að hann hafi verið geysimikill. Upplýsingar um fjölda starfsmanna á sjó og landi og kaupið sem þeim var greitt er hér að finna á bls. 10-11, 13-14 og 20-21. Þær gefa til kynna að heildarlaunagreiðslur hafi verið um eða innan við 10% af söluverðmæti afurðanna því hafa verður í huga að nær allir starfsmenn fyrirtækisins voru aðeins á launum hálft árið eða því sem næst. Tekjur landssjóðs af öllum hvalveiðistöðvunum á Íslandi eru taldar hafa numið 24.920,- krónum að jafnaði á ári frá 1883-1915.[285] Mest af þessu var útflutningsgjald því hvalveiðistöðvarnar voru undanþegnar tekjuskatti allt til ársins 1903.[286] Sé hlutur stöðvarinnar á Sólbakka í þessum greiðslum áætlaður með hliðsjón af því að um 17% af öllu hvallýsinu sem út var flutt á þessu skeiði kom frá Sólbakka[287] má ætla að frá Sólbakkastöðinni hafi um það bil 140.000,- krónur runnið í landssjóð, það er 10-11.000,- krónur á ári. Útsvarsgreiðslur til Mosvallahrepps námu alls 15.300,- krónum[288] eða tæplega 1.200,- krónum að jafnaði á ári þau 13 ár sem stöðin var starfrækt. Opinber gjöld til sveitarsjóðs og landssjóðs voru því samanlagt um 12.000,- krónur á ári, það er um 3% af veltu. Gjafir til Mosvallahrepps sem námu um 1.000,- krónum fyrir hvert ár sem stöðin á Sólbakka var rekin[289] eru þá ekki taldar með, enda breyta þær engu um niðurstöðuna.

Upplýsingar um kostnað við að byggja hvalveiðistöðina upp liggja ekki fyrir en sú staðreynd að allar helstu byggingar í stöðinni ásamt vélum og búnaði voru árið 1901 brunatryggðar fyrir 200.000,- krónur (sjá hér bls. 18) gefur ef til vill einhverja vísbendingu. Um verð á bátum og flutningaskipum er ekki vitað og ekki heldur um árlegan rekstrarkostnað. Af því sem hér hefur verið sagt virðist þó augljóst að hreinn ágóði eigendanna hljóti að hafa verið ærinn og kynni að hafa numið milljónum á því þrettán ára tímabili sem stöðin var rekin.

Í einni marktækri heimild segir að við lokauppgjör frá Íslandi hafi norsku hluthafarnir sem áttu hvalstöðina á Sólbakka fengið greiddan ágóðahlut er nam 23% af framlagi hvers og eins[290] en sú tala segir í rauninni ekki mikið fyrst ekki er unnt að sjá hverjar árlegar arðgreiðslur hafi verið.

Á árunum fyrir aldamótin 1900 mátti svo heita að hvalveiðistöðvarnar væru einu stórfyrirtækin á Íslandi. Á árunum 1895-1901 voru hvalafurðir um 18% af öllum útflutningi frá Íslandi og aldamótaárið 1900 fór þessi hlutfallstala upp í 23,3%.[291] Á þeim tveimur stöðvum sem Hans Ellefsen stýrði voru umsvifin tvímælalaust mest, það er á Sólbakka frá 1889-1901 og á Asknesi í Mjóafirði eystra frá 1901-1911. Fjöldi útfluttra lýsistunna sýnir þetta best en frá fimm stöðvum við Ísafjarðardjúp og í Jökulfjörðum voru fluttar út samtals 161.076 tunnur af lýsi, frá Sólbakka 101.734 tunnur, frá Höfðaodda í Dýrafirði 54.500 tunnur, frá Suðureyri í Tálknafirði 64.006 tunnur, frá Asknesi 87.924 tunnur og frá 4 öðrum stöðvum á Austfjörðum samtals 116.800 tunnur.[292] Tölurnar sýna að Ellefsen var með um þriðjung af allri lýsisframleiðslunni í hinum þrettán hvalstöðvum sem hér voru í rekstri um lengri eða skemmri tíma á árunum 1883-1915.

Norski fræðimaðurinn Dr. Joh. N. Tønnesen staðhæfir að fyrirtækið sem Hans Ellefsen stýrði hafi áður en lauk orðið hið stærsta er stundað hefur hvalveiðar í Noregshafi á síðari tímum[293] og í ritinu Frá ystu nesjum var því slegið föstu árið 1942 að hvalveiðistöðin á Sólbakka hafi um skeið verið stærsta og umfangsmesta atvinnufyrirtækið hér á landi.[294] Síðari fullyrðingin kann að virðast ótrúleg en líklega er hún ekki fjarri lagi. Af öllum hvalveiðistöðvunum sem hér voru í gangi fyrir aldamót var sú á Sólbakka tvímælalaust með mesta veltu eins og hér hefur verið sýnt fram á. Í öðrum atvinnugreinum mun erfitt að finna hérlent fyrirtæki sem var með meiri umsvif á þessum tíma. Líklega er það Ásgeirsverslun á Ísafirði sem helst kæmi til greina. Hún var á árunum 1890-1900 langstærsta fyrirtækið á Ísafirði og gerði út mörg þilskip. Ef marka má tölur úr Stjórnartíðindum var Ísafjörður stærsta útflutningshöfn landsins árið 1896 með útflutningsverðmæti upp á 733.761,- krónur.[295] Útflutningur frá Reykjavík var þá nokkru minni en frá Ísafirði.[296] Vitneskju skortir um árlega veltu Ásgeirsverslunar en þess má geta að eignir hennar voru árið 1914 virtar á um það bil eina miljón króna[297] sem mun svara til 600-700 þús. króna á verðlagi áranna 1890-1900.[298] Um umsvif Ásgeirsverslunar skal að öðru leyti vísað til þess sem Jón Þ. Þór hefur ritað í þriðja bindi af Sögu Ísafjarðar.[299]

Hér var áður sýnt fram á að árleg velta hvalveiðistöðvarinnar á Sólbakka muni að jafnaði hafa verið um 500.000,- krónur eða liðlega það á þeim 13 árum sem hún var starfrækt, 1889-1901 (sjá hér bls. 24). Til að átta sig á þessari tölu er máske einfaldast að líta á sjálfan landssjóðinn sem seinna breyttist í ríkissjóð til samanburðar en á fjárlögum ársins 1890 voru áætlaðar tekjur hans 383.450,- krónur.[300] Árið sem mjölverksmiðjan tók til starfa á Sólbakka voru samþykkt á Alþingi fjárlög fyrir árin 1894 og 1895 og gert ráð fyrir að tekjur landssjóðs yrðu þá 573.750,- krónur á ári.[301] Loks má nefna árið 1901 sem var síðasta ár hvalstöðvarinnar á Sólbakka. Á því ári samþykkti Alþingi fjárlög fyrir árin 1902 og 1903 og í þeim var gert ráð fyrir að tekjur landssjóðs yrðu 767.700,- krónur hvort ár.[302] Tekjuáætlanir fjárlaga sem samþykkt voru 1889, 1893 og 1901 gerðu því ráð fyrir 574.967,- krónum í meðalárstekjur hjá landssjóði en það er álíka upphæð og stöðin á Sólbakka fékk greitt að jafnaði ár hvert fyrir sínar hvalafurðir. Það sem við blasir er að velta hvalstöðvarinnar á Sólbakka var á árunum 1889-1901 álíka mikil og velta landssjóðs. Með þá staðreynd í huga verður auðveldara að taka góðar og gildar hinar margvíslegu vísbendingar sem styrkja líkurnar á því að Sólbakkastöðin hafi um skeið verið stærsta og umfangsmesta atvinnufyrirtækið á landi hér.

Á árunum kringum aldamótin 1900 var öllum sem ekki voru danskir ríkisborgarar bannað með lögum að stunda atvinnurekstur á Íslandi. Forstjórar norsku hvalveiðistöðvanna urðu því að kaupa hér borgarabréf og gerast danskir ríkisborgarar. Slíkt bréf mun Ellefsen hafa keypt og var því með danskan ríkisborgararétt þau ár sem hann stóð fyrir rekstri hvalveiðistöðva á Íslandi.[303]

Skömmu eftir að Norðmenn hófu hvalveiðar við Ísland árið 1883 varð þess vart að ýmsir hérlendir menn ömuðust við veiðunum, ekki síst vegna þess að þær voru taldar spilla fiskigöngum.[304] Um það hvort svo væri skiptust menn í flokka og sló oft í harðar brýnur á næstu árum bæði á Alþingi og á öðrum mannfundum og einnig í blöðunum. Oft var skiptingin á þann veg að þeir sem bjuggu næst hvalveiðistöðvunum vildu leggja sem minnstar hömlur á veiðarnar en hinir sem fjær stóðu, ekki síst Norðlendingar, vildu draga úr hvalveiðunum eða jafnvel banna þær.[305]

Með lögum frá 19. febrúar 1886 var skotveiði allra hinna stærra hvalategunda bönnuð innan landhelgismarka á tímabilinu frá 1. maí til 31. október ár hvert.[306] Í þessum sömu lögum var einnig kveðið á um að á öðrum tímum ársins væri einnig bannað að skjóta hvali inni á fjörðum eða vogum meðan síldarveiði er þar stunduð.[307] Fyrir norsku hvalveiðimennina mun þessi lagasetning reyndar ekki hafa haft mikla þýðingu því flesta hvalina veiddu þeir jafnan utan þriggja mílna landhelgislínunnar.[308]

Í Ísafjarðarsýslu munu margir hafa verið andsnúnir hvalveiðunum í fyrstu en síðar dró úr þeirri andstöðu[309] og ýmsir sýslubúar gerðust ákafir talsmenn óheftra hvalveiða. Þar var fremstur í flokki Páll Torfason á Flateyri sem haft hafði milligöngu um komu Ellefsens til Íslands og tryggt honum land undir hvalveiðistöðina á Sólbakka (sjá hér bls. 3-5). Páll hélt því fram að í stað þess að setja friðunarlög ætti Alþingi að fara að fordæmi Rússakeisara og ákveða að lána fé úr landssjóði á mjög lágum vöxtum til þeirra sem reyna vildu fyrir sér við hvalveiðar.[310] Í sama mánuði og Hans Ellefsen byrjaði sinn rekstur í Önundarfirði vorið 1889 birti Páll grein í Þjóðviljanum og andmælir þar hvalfriðunarlögunum frá 19. febrúar 1886.[311] Hann segir þar að kenningin um að hvalveiðar spilli þorskveiðum sé beinlínis hlægileg og sú firra að hvalurinn reki síldina að landi hafi oft verið hrakin.[312] Síðan færist hann í aukana og tjáir sig á þessa leið:

 

Ég ber fyllilega það traust til þingsins 1889 að það nemi viðstöðulaust úr gildi hvalfriðunarlögin. Í stað friðunarlaganna ætti að koma fjárlán úr landssjóði með mjög vægum kjörum, t.d. 3% vöxtum og veði í gufubátunum, til framtakssamra íslenskra borgara er gera vildu tilraun til að drepa hvali. Rússa Czar hefir lagt fram opinbert fé til hvalbátakaupa og sjálfur Czarinn er eigandi og útgerðarmaður nokkurra hvalgufubáta. Skyldi landssjóður vor gera sig sekan í „nýmælaprjáli” þótt hann „gengi út” og gerði sem Czarinn? Eða skyldu menn ætla að það sé áhættumeira að vera parteigandi í vátryggðum gufubát en í ríkisskuldum Dana sem alls eigi eru vátryggðar Íslendingum til handa meðan hvorki Czarinn eða Bismarck hafa skrifað undir vátryggingarskírteinið? [313]

 

Um hugsanleg áhrif af þessari grein Páls Torfasonar er nú erfitt að dæma en svo mikið er víst að á fyrstu árum hvalveiðistöðvarinnar á Sólbakka fór stuðningsmönnum hvalveiðanna fjölgandi í Vestur-Ísafjarðarsýslu. Í ritstjórnargrein Þjóðviljans, blaðsins sem Skúli Thoroddsen gaf út á Ísafirði, segir 1. maí 1890 að þegar Norðmenn hófu hvalveiðar úti fyrir Vestfjörðum árið 1883 hafi allur fjöldinn haft ýmugust á þeim veiðiskap.[314] Þetta viðhorf segir blaðið vera óðum að breytast enda hagi fiskurinn göngum sínum inn í Djúpið eins og áður.[315]

Fyrir Alþingi lágu árið 1891 andstæðar bænarskrár frá Vestfjörðum.[316] Í bænarskrám frá þeim sem bjuggu við Ísafjarðardjúp var farið fram á að hvalveiðar í landhelgi yrðu nær alveg bannaðar árið um kring en í bænarskrám úr Vestur-Ísafjarðarsýslu var mælt gegn öllum hömlum á þessar veiðar.[317] Við söfnun undirskrifta í Vestur-Ísafjarðarsýslu munu einkum hafa beitt sér Páll Torfason á Flateyri og Guðmundur Á. Eiríksson, hreppstjóri á Þorfinnsstöðum, en líka séra Þórður Ólafsson á Gerðhömrum.[318] Sighvatur Grímsson Borgfirðingur á Höfða í Dýrafirði, sem gerðist snemma mjög andvígur hvalveiðistöðinni, þar getur um nýnefnda undirskriftasöfnun í dagbók sinni og segir: Séra Þórður og Guðmundur Eiríksson, hreppstjóri Önfirðinga, komu að vestan (úr Arnarfirði) úr undirskriftasmalamennskunni fyrir Berg og Ellefsen.[319] Orð Sighvats sýna að hann hefur talið hvalveiðiforstjórana í Dýrafirði og Önundarfirði, þá Lauritz Berg og Hans Ellefsen, standa á bak við þessa söfnun undirskrifta.

Séra Sigurður Stefánsson í Vigur, sem var annar tveggja þingmanna Ísfirðinga árið 1891, segir í blaðagrein að á því ári hafi Alþingi borist tíu bænarskrár úr Ísafjarðarsýslu sem vörðuðu deiluna um hvalveiðarnar, fimm úr norðurhluta sýslunnar og fimm úr vesturhlutanum.[320] Í fjórum bænarskrám úr vesturhluta sýslunnar var að sögn séra Sigurðar farið fram á að bannið við hvalveiðum innan landhelgi frá 1. maí til 31. október yrði afnumið.[321] Tvær af þessum bænarskrám voru úr Mosvallahreppi og þær voru samtals með 116 nöfnum.[322] Þriðja bænarskráin var úr Suðureyrarhreppi með 12 nöfnum og sú fjórða úr Auðkúluhreppi með 11 nöfnum.[323] Fimmta bænarskráin úr vesturhluta Ísafjarðarsýslu var svo úr Dýrafirði en hún var með öðru orðalagi sem gekk skemmra.[324] Þar var mælt gegn algeru banni við hvalveiðum í landhelginni en ekki farið fram á að það takmarkaða bann sem í gildi var yrði afnumið.[325] Undir þessari bænarskrá stóðu 157 nöfn.[326] Á þessum fimm bænarskrám úr vesturhluta sýslunnar, sem allar sýndu vinsamlega afstöðu til hvalveiðanna, höfðu því verið rituð nöfn 296 manna.

Í hinum fimm bænarskránum, sem voru með 244 nöfnum og komu frá mönnum á Ísafirði og úr norðurhluta sýslunnar, var skorað á Alþingi að banna með öllu hvalveiðar innan landhelgislínunnar.[327] Sjónarmiðin voru því eins andstæð og frekast mátti verða.

Á þinginu 1891 varð niðurstaðan sú að láta hvalfriðunarlögin frá 1886 standa að mestu óbreytt en þó voru bæði upphaf og lok hins árlega banntíma færð fram um einn mánuð.[328] Næstu árin var því bannað að skjóta hvali innan landhelgislínunnar frá 1. apríl á vorin til 1. október á haustin.[329]

Á árunum upp úr 1890 var Þjóðviljinn eina blaðið sem gefið var út á Ísafirði og þar birtust árið 1892 ýmsar greinar um hvalveiðideiluna. Þeir Páll Torfason og Guðmundur á Þorfinnsstöðum boðuðu frjálsar hvalveiðar en séra Sigurður Stefánsson í Vigur taldi rétt að hafa á þeim nokkrar hömlur.[330] Ljóst er að prestinum í Vigur hefur þótt nóg um kapp andstæðinga sinna við söfnun undirskriftanna því hann segir að svo að segja hverjum vinnudreng í Mosvallahreppi hafi verið smalað á undirskriftalistana.[331]

Í grein Guðmundar Á. Eiríkssonar á Þorfinnsstöðum kemur fram að hann hefur farið með eina eða fleiri af bænarskránum alla leið suður til Reykjavíkur og afhent séra Sigurði í Vigur um þingtímann.[332] Bænarskráin, sem Guðmundur tekur sérstaklega fram að hann hafi afhent alþingismanninum í Reykjavík, virðist hafa verið sú sjötta úr vesturhluta Ísafjarðarsýslu.[333] Í þessari bænarskrá var aðeins farið fram á að hvalveiðar yrðu ekki takmarkaðar meira en gert hafði verið með lögunum frá 1886[334] og hefur hún því gengið skemmra en flestar hinna sem þinginu bárust úr vesturhluta sýslunnar. Ætla má að þessi bænarskrá hafi verið hugsuð svo sem til vara og menn hafi litið á efni hennar sem algera lágmarkskröfu til að tefla fram ef meginkröfunni um frjálsar hvalveiðar yrði hafnað.

Séra Sigurður Stefánsson segir að á þessari síðast nefndu bænarskrá hafi verið 295 nöfn en í mjög mörgum tilvikum hafi þar verið um að ræða sömu menn og skrifað höfðu undir hinar bænarskrárnar úr Önundarfirði, Dýrafirði, Arnarfirði og Súgandafirði.[335] Ef marka má orð prestsins í Vigur voru 275 nafnanna á þessari sjöttu bænarskrá úr vesturhluta Ísafjarðarsýslu öll rituð af ónefndum manni í Önundarfirði en hin 20 af öðrum Önfirðingi sem hann segir að Guðmundur hreppstjóri á Þorfinnsstöðum þekki vel.[336]

Nokkrum árum síðar komst deilan um hvalveiðarnar aftur á suðupunkt. Árið 1899 bárust Alþingi áskoranir frá Norðurlandi og Austurlandi þar sem hvatt var til þess að hvalveiðimönnum yrði bannað með lögum að flytja hvali inn fyrir landhelgislínuna og öll vinnsla hvalafurða á sjó eða landi í íslenskri lögsögu yrði bönnuð.[337] Gegn þessari kröfugerð var efnt til funda á ýmsum stöðum á Vestfjörðum. Einn slíkur fundur var haldinn á Sólbakka árið 1903[338] og á því ári bárust Alþingi áskoranir frá Önfirðingum, Dýrfirðingum og Arnfirðingum um að íþyngja í engu hvalveiðimönnum hér við land.[339] Þá voru tvö ár liðin frá því stöðin á Sólbakka hætti starfsemi en ætla má að ýmsir hafi lengi haldið í vonina um að hún yrði endurreist. Bóas Guðlaugsson á Innri-Veðrará var þá oddviti Mosvallahrepps og í grein sem hann ritaði í blaðið Vestra á Ísafirði árið 1903 kemst hann m.a. svo að orði:

 

Í Önundarfirði og víðar hér vestra er að heyra, sem von er, megna óánægju hjá almenning út af hreyfingu þeirri sem komið hefur fram fyrir undirróður einstakra manna á Norður- og Austurlandi í þá átt að banna hvalveiðar hér við land eða leggja svo hátt gjald á veiðina að hvalveiðamönnum þyki ekki svara kostnaði að reka hana, enda sýnast eigi neinar gildar ástæður framkomnar fyrir því að banna þessar veiðar.

Hér vestanlands virðist vera jafnmikil ef ekki meiri fiskafli og síldarveiði eins og var áður en byrjaði hér hvalveiði þótt búið sé nú að reka veiði þessa, t.d. við Ísafjarðardjúp, um 20 ár.[340]

 

Í þessari sömu blaðagrein ber Bóas mikið lof á Hans Ellefsen forstjóra eins og hér verður nánar vikið að síðar (sjá hér bls. 37). Svo virðist sem krafan um óheftar hvalveiðar hafi átt mikinn stuðning í Önundarfirði á árunum kringum aldamótin 1900. Að svo hafi verið sést meðal annars á því hversu margir Önfirðingar rituðu árið 1891 undir bænarskrárnar sem hér var áður sagt frá. Framganga Guðmundar hreppstjóra á Þorfinnsstöðum í þeirri lotu og blaðaskrif Bóasar oddvita á Innri-Veðrará 12 árum síðar benda líka til hins sama. Óhætt virðist því að gera ráð fyrir að afstaða meginþorra Önfirðinga til hvalveiðistöðvarinnar á Sólbakka hafi verið vinsamleg þó skoðanir hafi efalaust verið eitthvað skiptar. Varðveittar heimildir bera líka með sér að Hans Ellefsen, forstjóri á Sólbakka, hefur orðið vinsæll hjá mörgum, enda hafði hann greinilega lag á að tryggja sjálfum sér og fyrirtækinu velvild margra þeirra sem áhrifamenn gátu talist.

 

Hér hefur áður verið sagt nokkuð frá uppruna Hans Ellefsen og störfum hans í Noregi áður en hann fluttist til Íslands árið 1889 og hóf rekstur hvalveiðistöðvar á Sólbakka (sjá hér bls. 3). Þegar Ellefsen settist hér að var hann 33ja ára gamall og næstu 22 árin stóð hann fyrir rekstri hvalveiðistöðva á Íslandi, fyrst á Sólbakka frá 1889 til 1901 og síðan á Asknesi í Mjóafirði eystra frá 1901 til 1911.[341] Sumrin sem Ellefsen stóð fyrir rekstri á Íslandi urðu þó 23 því hann kom í vertíðarbyrjun árið 1889 og fór í vertíðarlok árið 1911.[342]

Á fyrstu árum hvalveiðistöðvarinnar á Sólbakka dvöldust Ellefsen og fjölskylda hans stundum hér bæði sumar og vetur en frá 1895 mun reglan hafa verið sú að hann sigldi til Noregs á haustin og dveldist þar með fjölskyldu sinni yfir háveturinn (sjá hér bls. 9). Hans Ellefsen, kona hans og börn, voru þó jafnan talin eiga lögheimili á Sólbakka allt til ársins 1906[343] en þá voru fimm ár liðin frá því síðasti hvalurinn var færður hér að landi og frá því ný hvalveiðistöð, sem Ellefsen stýrði, var reist austur í Mjóafirði.

Í prentuðum ritum má finna ýmsar lýsingar á Hans Ellefsen og eru sumar þeirra býsna hástemmdar. Árið sem Ellefsen hætti rekstri hvalstöðvarinnar í Mjóafirði var ritað um hann í tímaritið Óðinn. Höfundur þeirrar greinar mun vera Sveinn Ólafsson, bóndi og síðar alþingismaður í Firði í Mjóafirði[344] og kemst hann m.a. svo að orði:

 

Hans Ellefsen er hár maður vexti, fríður sýnum og prúðmenni í viðmóti. Hann er eljumaður mikill og atorkusamur, víðsýnn, snarráður og haukur að hug. Skapið er sambland af norrænu frosti og suðrænum funa, víkingseðli og mannást. Flestum öðrum er hann gjörhugulli um hjálp og hluttekningu við þá sem bágt eiga. Víkingshjartað gljúpnar jafnan ef aumt sér og margur munaðarleysinginn á Hans Ellefsen þakkir að gjalda.

Gestrisinn er Hans Ellefsen með afbrigðum og þótt hann sé um alla hluti hinn mesti hófsmaður þá gætir þess ekki er gestum skal fagna því að metnað sinn virðist hann oft setja í að veita sem skörulegast og jafnan hefur hann til taks nokkur uppbúin gestarúm.

… Það er ekki með hóglífi og féhyggjubralli eða smámunalegri samhaldssemi að maður þessi hefur aflað sér fjár og frama. Hann hefur unnið eins og berserkur andlega og líkamlega, einkum framan af ævinni, en með þeirri fyrirhyggju og glöggskyggni sem sigrað hefur alla erfiðleika og gert hann að því óskabarni hamingjunnar sem flest fyrirtæki heppnast vel. Járnvilji hans, kapp og heilbrigt hyggjuvit hefur fært honum gull í mund en drengslundin og höfðingsskapurinn ást og virðingu granna og samvistumanna.[345]

 

Sveinn getur þess líka að hinn mikli forstjóri hafi lagt sig eftir að kynnast högum lands og þjóðar og tekur fram að hann kunni þó nokkuð í íslensku og lesi að staðaldri íslensk blöð.[346]

Ekki er til þess vitað að Önfirðingar hafi tekið sér fyrir hendur að lýsa Hans Ellefsen í rituðu máli meðan hann dvaldist enn mitt á meðal þeirra en nokkrum áratugum síðar var eitt og annað fest á blað af því sem gamalt fólk í Mosvallahreppi kunni þá frá þessum merkismanni að segja. Óskar Einarsson, sem var læknir á Flateyri á árunum 1925-1936, segir að Ellefsen hafi verið harðduglegur og hamslaus áhugamaður í störfum sínum svo að stundum hafi hann sýnst vart einhamur.[347] Að sögn læknisins var Ellefsen höfðingi heim að sækja, ör á fé og allra manna velviljaðastur framfara- og menningarmálum í byggðarlaginu.[348]

Í fyrsta bindi af ritinu Frá ystu nesjum, sem út kom árið 1942, er Hans Ellefsen lýst og án efa byggt á heimildum úr Önundarfirði. Þar segir:

 

Hans Ellefsen var fremur hár maður vexti, þrekvaxinn mjög og allur hinn gjörvulegasti. Ennið var hátt og mikið, nefið fremur langt, augun hvöss og snör með einkennilegum glampa sem lýsti samblandi af glettni, ákefð og viðkvæmni. Skapmaður var Ellefsen mikill og þótt hann reyndi oft að stilla sig var geðið svo ákaft að það tókst ekki alltaf sem skyldi. Kom það jafnvel fyrir að í hann hljóp fullkominn ofsi sem varla sómdi mann í hans stöðu. En þótt hann væri mjög ákaflyndur og bráður í skapi og oft fyki í hann út af litlu stóð það sjaldan lengi ef um smámuni var að ræða en stærri mótgerðir erfði hann árum saman.[349]

 

Um framgöngu forstjórans á vinnustað segir svo í sama riti:

 

Oft var Ellefsen nærstaddur þegar verið var að vinna við einhver meiriháttar verk sem honum þótti nokkru varða að vel tækist til um. Stóð hann þá jafnan álengdar og horfði á aðfarir manna. Tækist verkið vel var hann oftast þögull og ræddi lítið um en lét þá oft njóta þess síðar sem sýnt höfðu sérstaklega góða framgöngu. Yrðu aftur á móti einhver mistök eða óhöpp sem stöfuðu af klaufaskap þeirra sem verkið unnu gat hæglega svo farið að hann missti þolinmæðina og breyttist úr hinu dagfarsgóða prúðmenni sem allir þekktu í hálfgerðan villimann. Tútnaði hann þá allur út, blánaði í framan, hristist og skalf af reiði. Því næst barði hann sig utan, þreif af sér húfuna, sneri upp á hana, vatt hana milli handanna, fleygði henni síðan fyrir fætur sér og tróð á henni. Þegar reiði hans hafði fengið útrás í þessum framkvæmdum fór hún jafnan að réna og aldrei er þess getið að hann hafi lagt hendur á neinn til líkamlegrar hirtinga.[350]

 

Sé lýsingin rétt virðist þó hafa legið nærri að hinn alvaldi forstjóri legði hendur á þá úr hópi vinnulýðsins sem kunnu illa til verka eða sýndu af sér einhvern klaufaskap. Ekki er heldur ólíklegt að mönnum sem litlir voru fyrir sér hafi staðið ærin ógn af þessum yfirboðara sínum þegar hann komst í álíka ham og þann sem hér var lýst.

Öllum lýsingum ber saman um að Ellefsen hafi verið mikill kappsmaður við vinnu. Oft fór hann á fætur klukkan fjögur að morgni og fyrsta verk hans var venjulega að taka sjónaukann og horfa út á fjörðinn til að vita hvort hann sæi nokkurn báta sinna á leið inn.[351] Daglega gekk hann um vinnslustöðina til að líta eftir því hvort allt væri í röð og reglu og færi eitthvað aflaga var hann fljótur að koma auga á það.[352] Nýtni hans og hirðusemi var síðar lýst með þessum orðum:

 

Allt varð að vera á sínum rétta stað, frá því minnsta til þess stærsta. Ekkert hirðuleysi gat liðist í neinni grein án þess að úr væri látið bæta. Sæi Ellefsen nothæfa ró eða nagla á vegi sínum tók hann það upp og geymdi. Yrði hann var við kolamola sem fallið hafði á plan eða bryggju fór hann með molann þangað sem kolin voru. … Þrátt fyrir þá dæmafáu nýtni sem einkenndi Ellefsen var hann langt frá því að vera nískur maður eða féfastur um skör fram. Útbúnaður allur í verksmiðju hans og veiðiskipum var með fyrirmyndarbrag enda sparaði hann ekkert til að svo gæti verið. Gestrisni hans og höfðingsskap var líka við brugðið.[353]

 

Með því að leggja saman þær umsagnir um Hans Ellefsen sem hér hefur verið vitnað í fæst nokkuð skýr mynd af þessum stjórnsama og kappsfulla hvalveiðiforstjóra og sýnist óþarft að bæta þar miklu við en þó skal tekið fram að hann mun hafa lært töluvert í íslensku á Sólbakkaárunum.[354]

Hér hefur áður verið sagt nokkuð frá samskiptum Ellefsens við Mosvallahrepp, útsvarsgreiðslum hans (sjá hér bls. 25) og frumkvæði að vegarlagningu og vegabótum (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli og Þorfinnsstaðir). Þau 17 ár sem Hans Ellefsen átti lögheimili í Önundarfirði greiddi hann aðeins 15.300,- krónur í útsvar til Mosvallahrepps, það er innan við 1.000,- krónur á ári að jafnaði eins og hér hefur áður verið nefnt. Nær engar aðrar greiðslur runnu frá honum eða fyrirtæki hans í hreppssjóðinn ef frá eru taldar gjafir. Ekki verður annað sagt en þessi útsvarsgreiðsla sé hreint ótrúlega lág því hún nemur aðeins um 0,23% af veltu fyrirtækisins sem var um eða yfir 500.000,- krónur á ári eins og hér hefur áður verið sýnt fram á. Engu að síður munu útsvarsgreiðslur Ellefsens hafa numið þriðjungi eða jafnvel nær helmingi af öllum útsvarstekjum Mosvallahrepps á árunum 1890-1904,[355] enda höfðu flestir hinna gjaldendanna ekki af miklu að má í peningasökum.

Tvímælalaust er að Hans Ellefsen hafði frumkvæði að lagningu upphlaðins vagnvegar inn Hvilftarströnd en hér hefur áður verið gerð grein fyrir þeirri vegarlagningu (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Byrjað var á þeim framkvæmdum skömmu eftir 1890 og á næstu árum tókst að þoka veginum áfram svo hann var kominn lítið eitt inn fyrir Breiðadal haustið 1896. Einhverja fjármuni frá sjálfum sér eða hvalstöðinni lagði Ellefsen í veginn og árið 1895 lánaði hann hreppsnefndinni 2.400,- krónur til vegaframkvæmdanna.[356] Vegurinn sem Hans Ellefsen hófst handa um að leggja inn Hvilftarströnd mun hafa verið fyrsti upphlaðni vegurinn sem lagður var í Ísafjarðarsýslu eða nágrenni hennar.[357] Vegur þessi entist vel en þegar bílar komu til sögunnar, löngu síðar, reyndist hann of mjór og var þá breikkaður.[358] Til brúnna sem byggðar voru í Önundarfirði á síðasta áratug 19. aldar mun Ellefsen líka hafa lagt eitthvað af peningum, m.a. 74,- krónur í brúna yfir Korpu (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli) og fljótur var hann að bregðast við þegar gamla leiðin yfir Ófæruna innan við Valþjófsdal lokaðist og ryðja varð nýja braut með ærnum tilkostnaði (sjá hér Þorfinnsstaðir).

Í einni heimild segir að á Sólbakkaárunum hafi Ellefsen beitt sér fyrir samgöngubótum bæði á sjó og landi.[359] Til marks um viðleitni hans til að bæta samgöngur á sjó má nefna að haustið 1889 skrifaði hann póststjórninni í Kaupmannahöfn og fór þess á leit að póstskipin yrðu látin koma við á Önundarfirði í öllum ferðum þeirra til Vestfjarða.[360] Bréf þetta er skrifað í Kristjaniu (Osló) 4. nóvember 1889, skömmu eftir að Ellefsen kom til Noregs úr sinni fyrstu sumardvöl á Íslandi. Í bréfinu greinir hann frá erfiðleikum við að komast yfir Breiðadalsheiði til Ísafjarðar, einkum að vetrinum, og lætur þess getið að oft sé líka mjög erfitt að komast til Þingeyrar vegna hvassviðris á Dýrafirði.[361]

Auk liðsinnis í samgöngumálum lét Ellefsen fræðslumál Önfirðinga eitthvað til sín taka því í marktækri heimild er frá því greint að skólahúsin þrjú sem reist voru í Mosvallahreppi á fyrstu árum 20. hafi verið byggð með hans hjálp og fyrir hans tilstilli.[362] Til nánari skýringar er þess getið í sömu heimild að forstjórinn á Sólbakka hafi verið hreppsnefndinni hjálplegur, bæði við efniskaupin og smíði skólahúsanna.[363] Skólahúsin sem þarna ræðir um voru reist á árunum 1903 og 1904, eitt á Flateyri, annað á Þorfinnsstöðum og hið þriðja í Hestþorpinu (sjá hér Þorfinnsstaðir, Hestur og Flateyri). Þegar skólahúsin þrjú voru reist átti Ellefsen enn lögheimili á Sólbakka þó að hvalvinnslan þar væri þá úr sögunni.

Þær vinsældir sem Hans Ellefsen náði að ávinna sér hjá Önfirðingum áttu sér ýmsar skýringar. Eitt var það að strax í upphafi hvalveiðanna frá Sólbakka lét hann þau boð út ganga að hjá sér gætu allir fengið eins mikið og þeir vildu af ókeypis hvalkjöti.[364] Þessi rausn kostaði forstjórann og fyrirtæki hans reyndar ekki neitt fyrstu árin því áður en mjölverksmiðjan var byggð (1893) gat Ellefsen með engu móti gert sér peninga úr kjötinu. Einnig er vert að hafa í huga að varla hafa Önfirðingar lagt sér til munns nema örlítið brot af öllu því kjöti sem Ellefsen fékk í hendur. Margir hafa þó án efa nýtt sér boðið og sótt sér bita af hvalkjöti að Sólbakka. Eitthvað af því fór líka í skepnufóður.[365] Í dagbók Jóns Guðmundssonar búfræðings, sem bjó á Kroppstöðum frá 1893 til 1901 en seinna á Ytri-Veðrará, sést að síðla vetrar og um vorið 1896 fóru bændur innan úr Firði í fleiri en eina hvalferð. Þennan vetur var komið með fyrsta hvalinn að Sólbakka rétt fyrir miðjan mars[366] og fáum dögum síðar skrifar búfræðingurinn á Kroppstöðum í dagbók sína: Við Jónatan fórum út að Veðrará eftir hval og „gúanó” og drógum það á sleða.[367] Þá hefur verið búið að flytja hvalkjöt og eitthvað af gúanói inn að Veðrará. Í lok apríl þetta sama ár fór Jón búfræðingur aftur að sækja sér hval og fór þá á bát út á Flateyri við annan mann.[368] Líklega hafa birgðirnar sem þeir sóttu að því sinni verið nokkuð miklar því frá sjónum voru þær reiddar heim á hesti næsta dag.[369]

Ekki var það bara hvalkjötið sem menn fengu ókeypis hjá Ellefsen því föst venja hans mun hafa verið að gefa hverju heimili í hreppnum vænt stykki af rengi úr fyrsta hvalnum sem veiddist á hverri vertíð.[370] Í ritinu Frá ystu nesjum segir að stundum hafi Ellefsen líka gefið þurfandi mönnum kol og matvöru, aðra en hval.[371] Þeirri sögu fylgir hins vegar önnur sem er á þessa leið:

 

Sérstaklega styrkti hann þá sem sýnt höfðu dugnað við að vinna fyrir þungri ómegð. Aftur á móti sinnti hann lítt kvabbi þeirra sem latir voru eða mjög drykkfelldir og fátækir af þeim sökum.

 

Hér hefur nú verið minnst á gjafir af ýmsu tagi sem forstjórinn á Sólbakka rétti að mönnum en hann mun einnig hafa gefið mörgum Önfirðingum skíði[372] og fyrir einhverja keypti hann ódýrt byggingarefni í Noregi og flutti til landsins á skipum sínum fyrir mjög sanngjarnt verð.[373] Af því sem hér hefur nú verið talið upp má sjá að fyrir Önfirðinga fylgdi margvíslegt hagræði hvalstöðinni á Sólbakka þó ætla megi að atvinnan sem þar var í boði hafi skipt mestu máli, ekki síst það að fá launin greidd í peningum, og svo kynni af vélum og tækni á sjó og landi hjá fyrirtæki Ellefsens.

Sala hvalafurða hér innanlands mun ekki hafa skipt neinu máli í stórrekstrinum á Sólbakka. Eitthvað var þó selt af rengi en verðið á því mun lengi hafa verið 4 aurar fyrir pundið.[374] Árið 1891 var almennt verð á hvalrengi í Ísafjarðarsýslu þó talið 6 aurar fyrir pundið.[375]

Í blaðinu Þjóðviljanum er frá því greint 1. maí 1890 að sumarið 1889 hafi Ellefsen leyft sveitungum sínum og ýmsum öðrum að skera sér ókeypis þvesti eftir óskum til heimilisþarfa og þar er þess einnig getið að nú hafi Ellefsen lækkað verðið á rengi úr 6 í 4 aura fyrir pundið.[376] Til skýringar skal þess getið að hvalkjötið var nefnt þvesti og má vera að svo sé enn.

Einstök dæmi mætti nefna um að hvalkjöt og fleiri hvalafurðir frá Sólbakka hafi verið sendar með strandferðaskipum til fjarlægra héraða. Að minnsta kosti einn Önfirðingur auglýsti meira að segja í blöðum í Reykjavík og á Seyðisfirði að hann gæti útvegað og sent um land allt ódýr matvæli frá Sólbakka, hvalrengi á 4 aura pundið, hvalsporða á 2 aura pundið og undanfláttu  á 1½  eyri pundið.[377] Undanfláttan er feitasta kjötið á hvalnum og sá sem þetta auglýsti árið 1896 var Kristján Torfason,[378] bróðir Páls Torfasonar sem haft hafði milligöngu um komu Ellefsens að Sólbakka (sjá hér bls. 3-5).

Eitthvað var líka um það að bátar úr fjarlægum byggðarlögum kæmu að Sólbakka til að kaupa þar hvalafurðir. Sem dæmi um þetta má nefna að í júlímánuði árið 1897 kom Kristján Snæbjörnsson frá Hergilsey á Breiðafirði í slíkum erindagerðum á 11 tonna dekkbát sem hét Hergils.[379] Hann var sendur vestur á vegum Torfa Bjarnasonar, skólastjóra búnaðarskólans í Ólafsdal,[380] og ef til vill einhverra fleiri Breiðfirðinga. Á Sólbakka fékk Kristján að minnsta kosti 6 eða 7 tonn af hvalkjöti og rengi og líka eitthvað af sporðum og hvalmjöli.[381] Að beiðni Torfa í Ólafsdal var Jón Guðmundsson búfræðingur, sem þá bjó á Kroppstöðum en seinna á Ytri-Veðrará, Kristjáni hjálplegur við að leggja mat á gæði þeirra hvalafurða sem í boði voru.[382]

Hér litlu framar var gerð nokkur grein fyrir hinni fjármálalegu hlið á samskiptum Hans Ellefsen við Önfirðinga en enn er þó eftir að nefna þrjá sjóði er hann og kona hans settu á stofn í því skyni að efla framfarir og styrkja menningarlíf í Mosvallahreppi.

Sá fyrsti þessara sjóða varð til árið 1896 en þá afhenti Ellefsen forráðamönnum hreppsins 1.500,- krónur og mælti fyrir um að fjármuni þessa skyldi leggja í sérstakan sjóð.[383] Sjóður þessi fékk nafnið Gjafasjóður Hans Ellefsens hvalveiðimanns frá 1896.[384] Gjöfin var afhent með þeim skilmála að þessar 1.500,- krónur skyldi ávaxta þar til nefnd upphæð væri komin í 2.500,- krónur en þaðan í frá yrði nær öllum árlegum vöxtum varið til að halda við veginum frá Flateyri inn að Breiðadalsá.[385]

Báðir hinir sjóðirnir voru stofnaðir árið 1903 og í blaðagrein frá því ári gerir þáverandi oddviti Mosvallahrepps grein fyrir þeim með þessum orðum:

 

Þann 20. þessa mánaðar [mars] gaf hann [Hans Ellefsen] Mosvallahreppi ennfremur þá höfðingsgjöf, 10.000,- krónur, og ávaxtist upphæð þessi uns hr. Ellefsen hættir hér hvalveiðum eða flytur burt úr hreppnum en eftir það hefur hreppsnefndin umráð yfir vöxtunum til hvers sem vera skal í hreppsins þarfir.

Þar að auki gaf hann á sama tíma 800,- krónur til umbóta á söng hér í sókninni. … Önfirðingar munu ætíð minnast þessa heiðursmanns með þakklætistilfinningu, elsku og virðingu.[386]

 

Tíu þúsund króna sjóðurinn, sem hér var nefndur, fékk nafnið Gjafasjóður Hans Ellefsens hvalveiðamanns.[387] Í skipulagsskrá hans segir meðal annars:

 

Þau ár er Mosvallahreppur hefir skatttekjur af hvalveiðarekstri skal leggja ársvextina við höfuðstólinn. … Þá er vextirnir eiga ekki að leggjast við höfuðstólinn samkvæmt 2. tölulið skal verja þeim á þann hátt er hér segir:

 1. a) Svo lengi sem menn sem greiða háan skatt flytja ekki inn í hreppinn eða verksmiðjur, verslanir eða önnur fyrirtæki eru sett þar á stofn, er gera hreppnum að verulegum mun auðveldara en nú að annast sómasamlega hina almennu fátækraframfærslu, sé vöxtunum varið til þess að styrkja hreppinn til þess að standa straum af sveitarþyngslunum og bæta fátækraframfærið.
 2. b) Þegar hreppurinn hins vegar eins og vikið er að í staflið a getur annast hina almennu fátækraframfærslu fullkomlega sómasamlega án þess að íþyngja tilfinnanlega almenningi í hreppnum, skal verja vöxtunum að helmingi til þess að bæta skóla- og kennslumál en að hinum helmingnum til styrktar verðugum bágstöddum sem ekki njóta fátækrastyrks, hvort tveggja innan takmarka Mosvallahrepps.[388]

 

Sérstakt ákvæði var í skipulagsskránni þar sem kveðið var á um að kæmi til þess að verslunarstaðurinn Flateyri yrði skilinn frá hreppsfélaginu og gerður að sérstöku sveitarfélagi skyldi gjafasjóðurinn fylgja landhreppnum.[389]

Minni sjóðinn sem Ellefsen stofnaði árið 1903, þennan sem ætlaður var til að efla söngmennt, lét hann kenna við eiginkonu sína og fékk sá sjóður nafnið Gjafasjóður frú Idu Ellefsens.[390] Í skipulagsskrá hans er tekið fram að vöxtunum skuli verja til þess að styrkja karl eða konu sem heima á í hreppnum til þess að afla sér söngmenntunar enda skuldbindi styrkþeginn sig til að kenna æskulýðnum í Mosvallahreppi margraddaðan söng.[391]

Um örlög þessara sjóða í verðbólgunni á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar og síðar þarf ekki að ræða.

 

Einu norsku fjölskyldurnar sem dvöldust árum saman á Sólbakka voru fjölskylda Hans Ellefsen og fjölskylda Carls Svendsen vélameistara en þeirra beggja hefur áður verið getið. Carl Svendsen mun fyrst hafa haft hér vetursetu veturinn 1892-1893 og kona hans og börn voru búsett hér árið um kring allt frá 1894.[392] Munnleg heimild gefur til kynna að öll hafi þau dvalist á Sólbakka allt frá árinu 1892 (sjá hér bls. 8).  Svendsen og fjölskylda hans bjuggu síðan á Sólbakka allt til ársins 1906 og munu frá 1894 jafnan hafa dvalist hér árið um kring nema veturinn 1904-1905 en þá voru þau í Noregi.[393] Allt frá haustinu 1895 var Ellefsen ætíð í Noregi yfir háveturinn ásamt fjölskyldu sinni (sjá hér bls. 9) en í fjarveru hans var Carl Svendsen jafnan hæstráðandi á Sólbakka.[394] Svendsen var lærður vélfræðingur og þótti mjög fær járnsmiður.[395] Sagt er að allt sem laut að viðgerðum skipa og véla hafi hann kunnað út í æsar.[396] Allir hvalveiðibátarnir voru teknir á land á haustin og á veturna var unnið að viðgerðum og endurbótum, bæði á bátunum og vinnslustöðinni.[397] Áður en Carl Svendsen kom til Íslands hafði hann fengið járnflís í annað augað svo taka varð það burt.[398] Hann var því eineygður en vann þó alltaf gleraugnalaus að hinum margvíslegu járnsmíðum á Sólbakka.[399] Auk Svendsens og fjölskyldu hans dvöldust oftast fáeinir aðrir Norðmenn á Sólbakka yfir veturinn en þeir voru sjaldan eða aldrei með eiginkonur og börn.[400] Í prestsþjónustubókinni frá Holti er Leonard Andersen skipstjóri þó sagður hafa flust frá Noregi að Sólbakka ásamt eiginkonu sinni árið 1891.[401] Hann var þá 26 ára gamall[402] og hefur ugglaust verið skipstjóri á Othari eða Noru, öðrum hvalbátanna tveggja sem fyrst voru gerðir út frá Sólbakka. Leonard Andersen kom reyndar í Önundarfjörð með Hans Ellefsen vorið 1889 og hann var einn þeirra þriggja Norðmanna sem höfðu vetursetu á Flateyri veturinn 1889-1890 (sbr. hér bls. 7) en haustið 1890 sigldi hann til Noregs og kom svo aftur næsta vor.[403]

Um lífið á Sólbakka þá sex mánuði sem hvalvertíð stóð, ár hvert frá 1889 til 1901, eru heimildir fremur rýrar ef frá eru taldar frásagnir af illvígum slagsmálum sem hér verður síðar vikið að og aðrar sem tengjast Hans Ellefsen forstjóra. Enginn þeirra sem hér unnu á þessum árum má nú lengur mæla en víst er um það að lengi kunnu þeir frá mörgu að segja.

Líklega hefur kvenmannsleysið verið einna bagalegast fyrir marga í hópi þessara á annað hundrað karlmanna sem hér strituðu í sex mánuði á ári fjarri heimahögum, Norðmenn, Svíar og Íslendingar. Svo virðist sem fáir þeirra hafi náð sér í stúlkur úr Önundarfirði, nema ef vera skyldi til skyndikynna. Norðmenn eða Svíar sem kvæntust íslenskum stúlkum hjá prestinum í Holti voru að minnsta kosti mjög fáir. Ein liðlega tvítug blómarós lét þó heillast af skipstjóranum á Einari Simers, stærsta flutningaskipi Hans Ellefsen, og giftist honum í Holtskirkju 17. september 1898.[404] Hún hét Hjálmfríður Jónsdóttir, fædd á Grafargili 6. ágúst 1876 og var dóttir hjónanna Jóns Helgasonar og Kristjönu Guðmundsdóttur sem þar bjuggu.[405] Við lok ársins 1897 segir prestur hana vera yngismær í húsi Torfa Halldórssonar á Flateyri.[406] Í prestsþjónustubókinni sjáum við að brúðgumi hennar hét Hans Wogn Henriksen (eða Henrichsen) og þar er hann sagður vera skibsfører fra Solbakken, 42ja ára ekkjumaður.[407] Í mælingarbréfi gufuskipsins Einars Simers er skipstjórinn þar um borð sagður heita H. W. Henriksen[408] og í annarri heimild má sjá að þessi sami Henriksen var enn skipstjóri á Einari Simers þegar Ellefsen hætti loks að stunda hvalveiðar hér við land árið 1911.[409] Árið sem Hjálmfríður giftist skipstjóranum fluttist hún með honum til Noregs.[410]

Ekki er ólíklegt að Hans Ellefsen hafi efnt til veislu á Sólbakka fyrir þennan skipstjóra sinn og hans ungu brúði þegar þau gengu í hjónaband og minnt skal á að það var Ellefsen sem hélt brúðkaupsveisluna þegar Jón Guðmundsson frá Grafargili gekk að eiga Marsibil Kristjánsdóttur 27. júlí 1896 (sjá hér Grafargil). Marsibil hafði þá unnið um skeið við heimilisstörf á Sólbakka og Jón verið þar við smíðar. Úr röðum unga fólksins í Önundarfirði var nýnefnd Hjálmfríður Jónsdóttir ekki sú eina sem fluttist til Noregs á dögum Ellefsens. Sömu leið fóru ýmsir fleiri, m.a. Ebenezer Ebenezersson, skipstjóri frá Flateyri (sjá hér bls. 17), og Jón Geirmundsson sem fluttist 23ja ára gamall frá Sólbakka til Noregs árið 1897.[411]

Í hópi Norðmannanna á Sólbakka hafa ýmsir kunnað að spila á harmoníku því það ágæta hljóðfæri var orðið algengt í Noregi um 1880.[412] Elsta  kunna dæmið úr Önundarfirði um að spilað væri á harmoníku er líka eldra en frá dögum hvalstöðvarinnar á Sólbakka því að spilað var á slíkt hljóðfæri í brúðkaupsveislu á Hvilft haustið 1873 (sjá hér Hvilft). Harmoníkunni fylgdi dans og líklegt má telja að ýmsir hafi stigið sín fyrstu dansspor á pallinum sem reistur var hér á Sólbakka. Um danspallinn þann þarf ekki að efast því hann blasir við á mynd sem tekin var árið 1900 og birtist sama ár í blaðinu Hauki sem þá var gefið út á Ísafirði.[413] Í texta sem fylgir þeirri mynd segir svo:

 

Yst til vinstri handar [ef horft var ofan úr hlíðinni – innsk. K.Ó.] er matvælaskúrinn og hjá honum er ferhyrndur reitur með skíðgarði umhverfis á þrjá vegu. Það er danspallur sem Ellefsen hefir látið gera handa verkamannalýðnum svo að hann geti „lyft sér þar upp” í tómstundunum.[414]

 

Myndin sem Björn Pálsson á Ísafirði tók sýnir að danspallurinn var uppi á bakkanum, nær beint upp af bryggjunni á Sólbakka. Verið getur að þar hafi ekki verið dansað mjög oft en stöku sinnum hlýtur verkamannalýðurinn að hafa lyft sér upp og ætla má að þá hafi hinir djarftækustu sveiflað ungum stúlkum úr nágrenninu í polka og ræl á pallinum.

Eitthvað var líka um annars konar samkomur á Sólbakka. Áður var minnst á fundinn sem hér var haldinn árið 1903 (sjá hér bls. 30) og 1. febrúar árið 1895 var efnt til tombólu.[415] Það voru konur á Flateyri sem héldu tombóluna og var auglýst að öllum ágóða af henni yrði varið til að flýta fyrir lagningu vegarins inn Hvilftarströnd.[416] Á tombóluna mættu hátt á annað hundrað manns, flest úr Önundarfirði, en einir níu úr Dýrafirði og fimm úr Súgandafirði.[417] Konurnar sem gengust fyrir þessari hlutaveltu munu hafa verið frú Sophie Holm, frú Jóna Sakaríasdóttir, frú Margrét Magnúsdóttir og ungfrú Guðrún Torfadóttir.[418] Ágóðinn varð 400,- krónur[419] en mánaðarkaup flestra verkamanna á Sólbakka var þá 30-40,- krónur, auk fæðis (sjá hér bls. 20-21). Þessi ágóði af hlutaveltunni var því hreint ekki svo lítið fé.

Flestir Norðmannanna og Svíanna sem unnu á Sólbakka munu hafa verið ungir menn eða á miðjum aldri. Nokkrir úr þeirra hópi tóku þó síðustu andvörpin hér ýmist af völdum slysa eða sjúkdóma. Í marsmánuði árið 1892 dóu tveir þessara erlendu manna á Sólbakka, annar 6. mars en hinn 10. mars.[420] Þeir hétu Gullit Erikssen og Carl Johannesson.[421] Sá fyrrnefndi var 44 ára en hinn 38 ára.[422] Árið 1893 komu norsku verkamennirnir að Sólbakka þann 10. febrúar (sjá hér bls. 10). Næsta dag andaðist einn þeirra[423] og hefur að líkindum veikst í hafi. Hann hét Preben Hansen, var 55 ára gamall, kvæntur.[424]

Á þeim þrettán árum sem hvalveiðistöðin var rekin á Sólbakka urðu þar að minnsta kosti þrjú banaslys. Þann 8. apríl 1894 færði Sighvatur Grímsson Borgfirðingur á Höfða í Dýrafirði þessa frétt til bókar: Maður dó nýlega á Flateyri hjá Ellefsen með þeim hætti að hakkhnífurinn hjó í sundur höfuðið yfir þvert.[425] Sighvatur talar þarna um Flateyri svo líklega hefur honum ekki verið orðið tamt að nota nafnið Sólbakki. Í prestsþjónustubók séra Janusar í Holti sjáum við að sá sem hlaut svo hörmulegan dauðdaga var 41 árs gamall Norðmaður, Anton Andersen að nafni.[426] Í Vestfirskum þjóðsögum segir að Anton þessi hafi nokkrum árum fyrr komið saklausum manni á höggstokkinn í Noregi og þegar hvalskurðarhnífurinn svipti hans eigin höfði frá bolnum hafi það verið hefnd.[427]

Í mars og apríl árið 1899 urðu tvö banaslys á Sólbakka. Þann 26. mars féll sænskur verkamaður, Carl Hilmer Cariolussen, ofan af þilfari á flutningaskipinu Einari Simers og niður í lest.[428] Varð fallið honum að bana.[429] Hann var 30 ára gamall.[430] Þremur vikum seinna var Pálmi Guðmundsson frá Hrauni á Ingjaldssandi í vinnu á Sólbakka og varð þar undir snjó er hrundi.[431] Pálmi var hálfþrítugur vinnumaður og beið hann bana þegar snjórinn hrundi yfir hann.[432]

Hér var áður minnst á frásagnir af slagsmálum á Sólbakka, sem lengi voru í minnum höfð, og komust sumar þeirra að lokum í bækur.[433] Þarna er reyndar aðeins um tvær sögur að ræða, aðra frá árinu 1893, þegar einn Svíanna á Sólbakka lenti í útistöðum við Ellefsen og rotaði forstjórann, en hin frá árinu 1897, þegar Guðmundur Einarsson, síðar bóndi á Brekku á Ingjaldssandi og víðkunn refaskytta, barðist einn við heilan hóp af Svíum og fór með sigur af hólmi.

Elstu heimild um ryskingarnar 1893 er að finna í dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili en þar hefur hann skrifað 8. október á því ári:

 

Þann 6. þessa mánaðar var slagur hjá Hans Ellefsen. Var hann sleginn af Svensk með flösku í höfuðið, í hnakkann, og rauk hann útaf og skemmdist mikið í höfðinu og er nú sagt að höfuðið sé að bólgna. Einn annan sló hann ogsvo og tróð undir fótum og var sagt að það hefði blætt úr augunum á honum.[434]

 

Allmörgum áratugum síðar var frásögn sjónarvotta af þessum sömu slagsmálum á Sólbakka færð í letur og segir þar m.a.:

 

Kom brátt í ljós að Svíarnir höfðu setið að drykkju og voru orðnir ærið ölvaðir. Hafði lent í deilu milli þeirra innbyrðis og var allt í háa lofti þegar að var komið. Sá þeirra Svíanna sem hávaðasamastur var og aðsópsmestur hét Strand, stór vexti og hraustmenni mikið en varð stundum viti sínu fjær við vín. Þar fyrir utan kom hann sér vel því að hann var ágætur verkmaður og svo sterkur að hann tók 100 kílóa mjölpoka af jafnsléttu og fleygði þeim á bak sér án erfiðismuna. Var hann orðinn mjög drukkinn í þetta sinn og virtist standa fyrir óeirðunum.

 … Var þá maður sendur til Ellefsens og honum sagt hvað um væri að vera. Hann brá þegar við, greip handjárn sem hann átti og lét kalla tvo hraustustu menn sína sér til fulltingis. Var annar þeirra beykir, Axel að nafni, afrenndur að afli og með svo harðan haus að hann lék sér að því að skalla í sundur „fimmkvarttommu” borð. Hinn maðurinn hét Ágúst og var skytta á hvalveiðibátnum Noru, einstakt lipurmenni og þaulvanur í ryskingum

Þegar Ellefsen kom fyrir hornið á skála þeirra Svíanna sá hann hvar Strand stóð í dyrum úti með brennivínsflösku í hendinni. Var hann þá heldur farinn að stillast en þegar hann sá Ellefsen með handjárnin umhverfðist hann á ný, reiddi upp flöskuna og fleygði henni frá sér af heljarafli, froðufellandi af reiði. Flaskan lenti á höfðinu á Ellefsen og lá hann þegar sem skotinn væri. Þegar Axel beykir, sem gengið hafði á eftir Ellefsen, sá þetta hljóp honum kapp í kinn, skopaði skeið mikið, setti undir sig hausinn og skallaði Svíann svo hraustlega að hann valt endilangur ofan í stóran kassa sem stóð undir skálaveggnum. Var hann síðan settur í járn.[435]

 

Í þeirri frásögn sem hér hefur verið birt að hluta segir síðan að Ellefsen hafi verið borinn í hús en alllangur tími liðið án þess menn vissu hvort hann væri dauður eða lifandi.[436] Loks raknaði hann þó úr rotinu og virtist sæmilega hress. Gaf hann þá fyrirmæli um að sá sem flöskunni hafði kastað yrði þegar í stað fluttur í járnum um borð í flutningaskipið Fridthjof og farið yrði með dólginn til Ísafjarðar í hendur sýslumanns.[437] Þar var Svíinn dæmdur til alllangrar fangelsisvistar en mun hafa farið utan næsta vor og kom aldrei aftur að Sólbakka.[438]Um afleiðingar hins þunga höfuðhöggs er Ellefsen hlaut segir svo í frásögn þeirri sem hér var vitnað í:

 

Ekki slapp Ellefsen svo vel við afleiðingar af högginu sem útlit var fyrir í fyrstu. Nóttina eftir atburðinn vaknaði hann við ógurlegar kvalir í höfðinu. Lá hann lengi milli heims og helju svo að vaka þurfti yfir honum dag sem nótt og þótti mikil tvísýna um líf hans. Þó hresstist hann aftur smátt og smátt svo að hann varð vinnufær á ný en það mun þó mála sannast að aldrei hafi hann orðið jafngóður. Töldu sumir sem til þekktu að áfall þetta hafi orðið til að flýta fyrir dauða hans.[439]

 

Um harðan bardaga Guðmundar refaskyttu við Svíana á Sólbakka vorið 1897 verður fyrst og fremst að byggja á hans eigin orðum sem Theódór Gunnlaugsson færði í letur og er að finna í bókinni Nú brosir nóttin sem út var gefin árið 1960. Vorið og sumarið 1897 var Guðmundur í vinnu á Sólbakka og hafði þar aðsetur í einum verkamannaskálanum.[440] Sá skáli var á tveimur hæðum og svaf Guðmundur niðri en á efri hæðinni voru bæði Svíar og Íslendingar. Eitt kvöldið þegar kominn var háttatími heyrir Guðmundur neyðaróp af efri hæðinni og gerir sér ljóst að þar muni einn íslensku verkamannanna, sem Þorkell Sigurðsson hét, vera að kalla á hjálp.[441] Guðmundur brá skjótt við og segir sjálfur frá á þessa leið:

 

Ég þóttist vita að Svíarnir ættu sök á þessu. Ég hentist út og hugsaði um það eitt að hjálpa Þorkeli. En það var þá ekki hægt um vik að komast til hans. Gangurinn sem Þorkell fór inn í var fullur af Svíum og margir utan við dyrnar. Ég sá strax að það var ekki nema um eina leið að velja og hún var sú að stökkva upp á Svíana aftan frá og berja frá sér með höndum og fótum eins og slægur hestur. Þetta dugði. Þeim varð ónotalega við því þeir áttuðu sig ekki strax á hvað þetta átti að þýða og hörfuðu út úr ganginum. Við það rýmkaðist svo að ég komst til Þorkels þar sem hann lá innst í honum illa farinn. ….. Svíarnir virtust hafa áttað sig á hvernig komið var og fylktu nú liði með ópum og köllum. Ég stóð í dyrunum svo að þeir komust ekki inn. Þar hafði ég besta vígi því þeir gátu ekki sótt að mér nema á einn veg.

… Fyrstur réðst Ottó (einn Svíanna) á mig í dyrunum með reidda hnefa. Ég sparkaði svo fast í kviðinn á honum að hann féll yfir sig og lá eins og dauður. Þegar félagar hans tveir, sem verið höfðu með honum í aðförinni að Þorkeli, sáu þetta óðu þeir að mér og hafði annar hníf í hendi. En það fór á sömu leið fyrir þeim. Þeir lágu báðir hreyfingarlitlir. Við þetta virtist koma hik á Svíana sem næstir voru. Þeir hörfuðu ofurlítið frá. Þá var það sem ég þreif handriðið sem losnað hafði áður af stiganum í ganginum við ólætin og hljóp með það út í hópinn.

Til ómetanlegrar gæfu kom þá á móti mér einn Svíinn sem var mesti vinur minn. Hann bað mig með mildum orðum en miklum alvöruþunga að hætta þessum leik. Hann sagði að ég myndi iðrast þess alla ævi ef ég æddi út í hópinn með þetta barefli og í þeim  ógnar  ham  sem ég  væri  nú   kominn í. [442]

 

Með þessum hætti lauk viðureign Guðmundar við Svíana þennan dag en að hans eigin sögn varð honum oft hugsað til þess síðar hvílík gæfa það var að hinn sænski vinur skyldi ná að stöðva hann á þessari örlagastund.[443] Um sitt eigið ástand þegar reiðiofsinn var mestur kemst Guðmundur svo að orði:

 

Þó mér væri ekki gjarnt á að reiðast þá var ég í þetta sinn búinn að missa alla vitglóru. Og þar að auki hafði ég ónáttúrlegt afl í öllum skrokknum. Það voru hnífarnir sem gerðu mig blindan af heift. Þegar ég sá þá stefna að mér úr öllum áttum og heyrði hótanirnar sem fylgdu, þá hugsaði ég ekkert um lífið. Ég hugsaði bara um það eitt að einhvers staðar kæmi skarð í óvinahópinn áður en ég félli til jarðar. Því á þessari stundu efaðist ég ekkert um það.[444]

 

Í annarri prentaðri frásögn af þessum sama atburði segir að þegar Guðmundur barðist við Svíana hafi hann verið í járnuðum stígvélum og fyrirliði þeirra í aðförinni að Þorkeli hafi verið frá vinnu í heila viku eftir þá ráðningu sem Guðmundur veitti honum.[445] Ætla má að sú útgáfa sögunnar sé líka byggð á orðum gömlu refaskyttunnar sem mundi þetta allt fram á efstu ár.

Síðar á þessu sama sumri kom aftur til átaka milli Guðmundar refaskyttu og Svíanna. Guðmundur var þá fluttur úr verkamannaskálanum því yfir hásumarið taldi hann grútarsvæluna þar vera illþolandi.[446] Hann hafði því hrófað upp sérstöku skýli fyrir sig, lítið eitt fjær lýsisbræðslunni, og var það rúff ofan af hásetaklefa á stóru skipi.[447] Svaf Guðmundur þar fyrst við annan mann en síðan einn. Þegar Guðmundur var orðinn einn í skýlinu fór fljótlega að kvisast að Ottó hinn sænski og félagar hans hygðust launa honum lambið gráa einhverja nóttina.[448] Skýlisbúinn var því var um sig og hafði vopn við hendina. Síðar sagði hann frá atburðum á þessa leið:

 

Um eða eftir miðnætti heyri ég allt í einu hljóðskraf sem færist nær. … Ég seildist hljóðlega með annarri hendi eftir hvallensunni en með hinni greip ég um byssuna. Svo kraup ég á kné og beið átekta. Ekki heyrði ég betur en þarna væru Ottó og félagar hans sem mér virtust vera þrír að leggja á ráðin hvernig atlögunni skyldi hagað. … Eftir litla stund fann ég að önnur hliðin á „rúffinu” lyftist skyndilega og því var velt um af alefli. Um leið þrýsti ég á gikkinn og skaut upp í loftið. Sennilega hef ég eitthvað yrt á Svíana um leið og ég spratt á fætur með sveðjuna þótt skothvellurinn hafi líklega nægt. Því ég minnist ekki að hafa séð eins skyndilega breytingu úr árás í flótta. Svíarnir virtust allir jafn viðbragðsfljótir að þjóta burtu, hver sem betur gat. Og það leyndi sér ekki á öllum útlimum að svona viðtökur höfðu engum þeirra flogið í hug.[449]

 

Hér verða þessi brot úr sögum Guðmundar refaskyttu látin nægja til að gefa svolitla mynd af þeirri spennu sem stundum myndaðist í sambúð manna af ólíku þjóðerni hér á Sólbakka. Gera má ráð fyrir að gamla refaskyttan hafi farið rétt með í aðalatriðum en hins vegar er alkunnugt að menn muna best einstaka atburði sem standa utan við hinn gráa hversdagsleika. Full ástæða er því til að ætla að enda þótt slagsmálasögurnar hafi orðið lífseigar þá hafi flesta daga ríkt hér friðsamleg sambúð á glaðværum vinnustað.

 

Á allra síðustu árum nítjándu aldarinnar var orðið lítið um hvali á miðunum úti fyrir Vestfjörðum því svo mátti heita að þeim hefði verið útrýmt.[450] Einskis hófs var gætt við veiðarnar svo þær verður að flokka undir rányrkju á mjög háu stigi. Frá hvalveiðistöðvunum á Vestfjörðum var þá farið að senda veiðiskipin austur með öllu Norðurlandi eins og hér hefur áður verið nefnt. Um aldamót voru hvalveiðibátar frá Vestfjörðum farnir að skjóta hvali úti fyrir Austfjörðum[451] og varð þá augljóst að betur myndi henta að koma upp nýjum stöðvum á Austfjörðum. Tveimur fyrstu hvalveiðistöðvunum þar var komið á fót árið 1901. Önnur þeirra var reist á Sveinsstaðaeyri í Hellisfirði en hin á Asknesi í Mjóafirði.[452] Stöðina á Asknesi lét Hans Ellefsen setja upp á fyrri hluta ársins 1901[453] og er sagt að ætlun hans hafi verið að halda uppi rekstri bæði þar og á Sólbakka.[454]

Í bréfi sem Lauritz Berg, stjórnandi hvalveiðistöðvarinnar á Höfðaodda í Dýrafirði, skrifaði séra Janusi Jónssyni í Holti 13. nóvember árið 1900 má sjá að þá hefur verið afráðið að Ellefsen réðist í að koma upp þessari nýju stöð fyrir austan.[455] Hann segir þarna að Ellefsen hafi keypt tvo veiðibáta frá Finnmörku og ætli að hefja rekstur hvalveiðistöðvar á Austurlandi.[456]

Sumarið 1901 var hvalveiðistöðin á Sólbakka starfrækt með líkum hætti og undanfarin ár allt fram til 6. ágúst. Þann dag braust út eldur í stöðinni svo allar helstu byggingar þar, aðrar en íbúðarhúsin þrjú uppi á bökkunum og verkamannaskáli  þar, brunnu til kaldra kola (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 383-384).[457] Einhverjir Önfirðingar munu hafa talið að álfar væru valdir að þessum mikla eldsvoða.[458] Þeir sem slíku trúðu vísuðu til þess að verkstjóri Ellefsens hefði veturinn áður sprengt þó nokkuð af grjóti úr stórum steini er stóð ofarlega á Flateyri og sagður var bústaður huldufólks.[459] Sú saga komst líka á kreik að álfarnir hefðu dansað og hoppað af gleði umhverfis bálið á Sólbakka.[460] Bæði mjölverksmiðjan og lýsisbræðslan urðu eldinum að bráð svo og smiðjan, spikhúsið og mjölgeymslan.[461] Helstu vélar og tæki stöðvarinnar og annar búnaður fóru líka forgörðum í þessum mikla bruna og dálítið af lýsi og mjölbirgðum.[462] Bryggjan slapp hins vegar og ýmsar smærri byggingar sem næst henni stóðu.[463]

Mikið af púðri var jafnan geymt á Sólbakka, enda mátti það síst af öllu vanta þar sem hvalir voru veiddir með sprengiskutlum. Þeir sem börðust hér við eldinn 6. ágúst 1901 vissu að kæmist hann í púðrið væri voðinn vís.[464] Finnur Finnsson á Hvilft, sem fæddur var árið 1876, sagði svo frá að mest af púðri hvalveiðistöðvarinnar á Sólbakka hefði jafnan verið geymt í grjótbyrgi uppi í hlíðinni en dálitlar birgðir þó oftast verið tiltækar í Sjóbúðinni, geymsluhúsi sem stóð rétt fyrir ofan bryggjuna[465] (sbr. hér bls. 20). Þaðan var handhægt að flytja það um borð í hvalveiðibátana þegar þeir komu inn.

Að sögn Finns var allmikið af púðri í Sjóbúðinni þegar eldurinn braust út 6. ágúst 1901 og þá var fljótlega hafist handa við að fjarlægja það.[466] Finnur Finnsson sagði Gunnlaugi syni sínum að púðurpokana hefðu menn handlangað út úr geymsluhúsinu og niður á bryggju þar sem þeim var fleygt í sjóinn.[467] Forgöngu um þetta hafði Ragnar Þorláksson, er þá var við störf á Sólbakka, bróðir Hinriks Þorlákssonar sem lengi var kennari á Flateyri.[468] Finnur greindi svo frá að eldurinn hefði náð að komast í þakskeggið á Sjóbúðinni, þar sem púðrið var geymt, en með því að skvetta stöðugt sjó á húsið hefði tekist að verja það.[469] Talið var að kæmist eldurinn í púðrið hefðu öll verksmiðjuhúsin og allar byggingar á Flateyri sprungið í loft upp.[470]

Hvalveiðistöðin á Sólbakka var brunatryggð í Kaupmannahöfn og fyrir allt sem varð eldinum að bráð fengust 200.000,- krónur í bætur.[471] Hvort þar var um sannvirði að ræða skal ósagt látið en þess má geta að vorið 1893 var mjölverksmiðjan ein virt á 75.000,- krónur.[472]

Einhverjar ráðagerðir mun Ellefsen hafa verið með um að endurreisa Sólbakkastöðina og lét sér koma til hugar að byggja hana upp í landi Hóls á Hvilftarströnd, tveimur kílómetrum fyrir innan Sólbakka. Þar byrjaði hann á framkvæmdum (sjá hér Hóll á Hvilftarströnd) en ekkert verulegt varð úr. Fyrstu árin eftir brunann sendi Ellefsen hvalveiðibáta sína vestur á Sólbakka á hverju hausti og þar stóðu þeir uppi yfir veturinn.[473] Carl Svendsen, vélameistari Ellefsens, sat um kyrrt á Sólbakka, rak þar vélaverkstæði og sá um árlegt viðhald á bátunum.[474] Er sagt að Svendsen hafi verið tregur til að fara frá Sólbakka.[475] Í prestsþjónustubókinni frá Holti sjáum við þó að hann hefur flust ásamt fjölskyldu sinni frá Sólbakka til Noregs árið 1904 og er þá kallaður vélafræðingur, 48 ára að aldri.[476] Árið 1905 kom Svendsen þó aftur og báðir áttu þeir Ellefsen enn lögheimili á Sólbakka í lok þess árs.[477] Á árinu 1906 færðu þeir Ellefsen og Svendsen heimilisföng  sín loks austur í Mjóafjörð, báðir tveir,[478] en þar hafði Ellefsen þá rekið hvalveiðistöð í fimm ár. Með þeim fluttu austur þrír íslenskir verkamenn sem átt höfðu heima á Sólbakka en íslenskur bakari sem þar hafði verið fór til Noregs.[479] Síðustu leifarnar af færanlegum eignum sínum á Sólbakka lét Ellefsen flytja burt 1908 eða 1909 og þá var m.a. rifið gamalt geymsluhús sem hinn eyðandi eldur hafði ekki náð að fella árið 1901.[480]

Þó að Ellefsen teldist eiga heima á Sólbakka á árunum 1902-1906 mun hann aldrei hafa dvalist þar langdvölum á þeim árum. Í marsmánuði árið 1902 voru nokkrir fyrirmenn í Mosvallahreppi komnir með ráðagerðir um að færa hvalveiðiforstjóranum gjöf[481] sem líklega hefur átt að kveðja hann með. Séra Janus Jónsson í Holti greinir frá þessum áformum í bréfi er hann ritaði svila sínum Halldóri Daníelssyni, bæjarfógeta í Reykjavík, 27. mars 1902 og segir þar:

 

Svo er mál með vexti að Önfirðingar vilja gefa Ellefsen einhverja gjöf í virðingar- og velvildarskyni. Þeir hafa skotið saman cirka 95,- krónum og afhent mér og falið mér á hendur að láta smíða bikar úr silfri, gylltan innan, og svo skreyttan sem kostur er á fyrir þessa upphæð. Það á að grafa á stéttina: „Til H. Ellefsen frá Önfirðingum 1902”. Svo var talað um að grafa á hann gufubát (öðrum megin) sem eltir hval (hinum megin). Ég hef nú engin ráð nema leita hjálpar þinnar að ráða smið í Reykjavík og sjá um þetta ef þú vilt gera mér svo vel. Bikarinn gæti verið ölbikar á fæti … . Þú getur þegar látið byrja á þessu því að peningarnir eru vissir og þá sendi ég til þín með næsta pósti.[482]

 

Ljóst er að Halldór bæjarfógeti hefur brugðist vel við erindi séra Janusar því rösklega þremur mánuðum síðar skrifar prestur honum annað bréf og er þá búinn að fá bikarinn. Í því bréfi kemst séra Janus svo að orði:

 

Svo er næst að telja bikarinn. Hann kom með góðum skilum og eru þeir ánægðir með hann, þeir er séð hafa. Eigi er hann afhentur enn en nú ætlum við bráðum með hann, þrír herrar í okkar bestu görmum, ég hreppstjóri og oddviti. Við gerum ráð fyrir að við fáum eitthvað gott og helst kampavín því að okkur þykir ekkert í annað varið hér og kaffi viljum við ekki sjá nema því fylgi „Benediktiner”. Við drekkum ekki líkeurinn með kaffinu, nei, við drekkum kaffið með líkeurnum. Annars erum vér ekki ánægðir. Þá eru peningarnir sem af gengu. Þeim hef ég skipt milli vor sem lögðum fram aukafjárveitinguna. Hefur þar hver fengið sitt. Jæja! Þökk fyrir þetta allt saman og svo í fjórða lagi bréfið með bikarnum.[483]

 

Vart þarf að efast um að séra Janus hafi komið bikarnum í hendur Ellefsens og vona má að hann hafi fengið nóg af kampavíni á Sólbakka en verið getur að oddvitinn og hreppstjórinn hafi fremur kosið kaffi og líkjör.

Engin grein verður hér gerð fyrir rekstri hvalveiðistöðvarinnar sem Hans Ellefsen lét reisa á Asknesi í Mjóafirði árið 1901 en þess verður þó að geta að hún var rekin í tólf ár, frá 1901 til 1913.[484] Hans Ellefsen stýrði rekstrinum á Asknesi allt til ársins 1911[485] en þá hóf hann hvalveiðar frá Suður-Afríku og stundaði þær í fimm ár.[486] Þegar þessi umsvifamikli hvalveiðimaður hætti veiðum og vinnslu þar suður frá árið 1916 stóð hann á sextugu og átti skammt eftir ólifað því hann andaðist árið 1918.[487] Frá Íslandi fór Ellefsen alfarinn árið 1911 en þá voru hvalveiðarnar á Íslandsmiðum að komast á síðasta snúning því stofnar hinna ýmsu hvalategunda voru að hrynja af völdum ofveiði. Það hefur Ellefsen skilið og talið tímabært að koma sér burt. Árið 1913 voru loks samþykkt á Alþingi lög um tíu ára bann við hvalveiðum frá landstöðvum og kom það til framkvæmda haustið 1915.[488]

Á árunum 1907-1911 seldi Ellefsen flesta hvalveiðibátana sem stundað höfðu veiðar frá Sólbakka. Othar var seldur til Nýfundnalands árið 1907.[489] Ebenezer Ebenezersson, sem verið hafði skipstjóri á einu flutningaskipa Ellefsens (sjá hér bls. 17 og 40), keypti Snorra Sturluson haustið 1908 og Ingólf haustið 1910.[490] Þeir bátar fóru svo báðir til Noregs.[491] Hvalveiðibáturinn Mosvalla var seldur til Englands og fór þaðan til Höfðaborgar í Suður-Afríku þar sem hann var skráður 1911.[492] Um nokkurt skeið var hann gerður út frá hvalveiðistöð Ellefsens í Suður-Afríku (sjá hér bls. 17). Við strendur Afríku mun Mosvalla hafa farist.[493] Báturinn Pasvig var seldur til Svíþjóðar og tekinn þar af skipaskrá árið 1909.[494] Noru keyptu Seyðfirðingar[495] og er sagt að sá bátur hafi verið búinn að veiða 999 hvali þegar Ellefsen seldi hann.[496] Nora mun síðast hafa verið í eigu Reykjavíkurhafnar og hlutafélagsins Hamars en var höggvin upp árið 1932.[497]

Bátinn Varanger seldi Ellefsen dönsku verslunarfyrirtæki á Ísafirði, Leonhard Tang & Sön, árið 1907.[498] Þessi fyrrverandi hvalveiðibátur var seinna í flutningum með ströndum fram hér við land og sökk á Skagafirði árið 1927.[499]

Á árunum 1904-1906 mun Ellefsen hafa látið af hendi flestar eða allar eignir sínar á Sólbakka sem ekki var kleift eða ekki hentaði að flytja austur á Mjóafjörð (sbr. hér bls. 50). Hér var áður minnst á íbúðarhúsið sem hann lét reisa árið 1892 (sjá hér bls. 8) en í því húsi bjó hann jafnan síðan, ef frá eru taldar vetrardvalir í Noregi, allt þar til rekstri hvalveiðistöðvarinnar á Sólbakka lauk. Á árunum 1902-1905 mun húsið oftast hafa staðið autt því þá var sjálf vinnslustöðin brunnin og varla neitt við að vera fyrir Ellefsen á Sólbakka nema í nokkra daga eða örfáar vikur á ári. Eigi síðar en vorið 1906 ráðstafaði Ellefsen þessu myndarlega íbúðarhúsi sínu til Hannesar Hafstein sem fyrstur manna hafði orðið ráðherra Íslands og tekið við því embætti 1. febrúar 1904.[500] Árið 1942 var frá því greint í víðlesnu riti að Ellefsen hefði gefið ráðherranum húsið og þar var tekið fram að hann hefði einnig látið smiði sína taka það niður á Sólbakka og reisa á ný í Reykjavík.[501] Ekki er kunnugt um að þessari sögu hafi nokkru sinni verið mótmælt en í þriggja binda ævisögu Hannesar Hafstein sem Kristján Albertsson skrifaði og gefin var út á árunum 1961-1964 er ekkert á gjöfina minnst.[502]

Frá 1895 til 1904 var Hannes Hafstein sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Ísafirði[503] svo ætla má að þeir Hans Ellefsen hafi á því skeiði átt margvísleg samskipti og líklega verið góðir kunningjar. Á ljósmynd sem tekin var í garðinum hjá Lauritz Berg, hvalveiðiforstjóra á Höfða í Dýrafirði árið 1899 standa þeir hlið við hlið. (Myndin er í bók Trausta Einarssonar frá 1987 – þar mynd nr. 23.) Í Reykjavík var forstjórahúsinu frá Sólbakka valinn staður á lóðinni númer 32 við Tjarnargötu og þar var það endurreist sumarið 1906.[504] Í riti sínu um sögu íslenska stjórnarráðsins segir Agnar Kl. Jónsson að Hannes hafi fengið húsið hjá Hans Ellefsen en nefnir ekki hvort hann hafi fengið það að gjöf eða fengið það keypt.[505] Agnar lætur þess hins vegar getið að þegar húsið var reist að nýju suður í Reykjavík hafi það verið stækkað og endurbætt.[506]

Hannes Hafstein bjó í húsinu frá Sólbakka allt þar til hann lét af ráðherraembætti árið 1909 en þá seldi hann það landssjóði fyrir 52.400,- krónur.[507] Tilgangurinn með kaupum landssjóðs á húsinu var sá að þar yrði ráðherrabústaður og svo fór að allir ráðherrar Íslands á árunum 1909-1917 og nær allir forsætisráðherrar í íslenskum ríkisstjórnum á árunum 1917-1943 bjuggu í þessu veglega húsi frá Sólbakka.[508] Síðustu hálfa öld hefur þetta aldna hús einkum verið notað fyrir opinberar veislur og móttökuathafnir á vegum ríkisstjórnar og einstakra ráðherra og þar hefur mörgum erlendum þjóðhöfðingjum verið búin gisting.[509] Þetta merkilega hús, sem Hans Ellefsen lét reisa á Sólbakka árið 1892, stendur enn við Tjarnargötu í Reykjavík og er jafnan nefnt Ráðherrabústaðurinn.

Bryggjuna á Sólbakka, ásamt kolaskemmu, sjóbúð, brakka og hesthúsi, seldi Hans Ellefsen Kristjáni Torfasyni á Flateyri vorið 1906 fyrir 10.000,- krónur og var kaupsamningnum þinglýst 21. júní á því ári.[510] Kaupsamningur þessi er ritaður á dönsku máli og þegar Kristján skrifar undir nefnir hann sig Kristján T. Halldórsson. Hann var sonur Torfa Halldórssonar á Flateyri og hefur því notað Halldórsson sem ættarnafn.

Eitt af húsunum á Sólbakka, sem Kristján Torfason keypti vorið 1906 ,var Barakken med iværende Kakkelovn,[511] það er brakkinn með kolaofninum sem í honum var.  Þessi brakki var fyrsta íbúðarhúsið sem Hans Ellefsen lét reisa á Sólbakka og byggt á árunum 1890-1891 (sjá hér bls. 7-8). Er hér var komið sögu hafði það lengi verið notað sem bústaður fyrir nokkurn hluta verkamanna er unnu við hvalstöðina. Með í kaupunum fylgdi líka langur og lágreistur verkamannaskáli sem stóð aðeins innar (sjá Firðir og fólk 900-1900, 381, mynd þar og myndatexti)[512] en bæði þessi hús héldu velli þegar hvalstöðin brann sumarið 1901.

Skömmu eftir kaupin á Sólbakkaeignunum settist Kristján Torfason að í brakkanum með kolaofninum, sem reyndar var tveggja hæða hús, og þar bjó hann frá 1907 og allt þar til hann andaðist haustið 1932.[513] Þetta eldra íbúðarhús Ellefsens á Sólbakka var rifið árið 1968[514] og hafði þá lengi gengið undir nafninu gamli Sólbakki. Á grunni þess stendur nú  (1995) íbúðarhús Kristjáns Erlingssonar eins og hér hefur áður verið nefnt (sjá hér bls.8-9). Ásgeir Torfason, bróðir Kristjáns, reisti hins vegar íbúðarhús á grunninum sem húsið frá 1892, Ráðherrabústaðurinn sem síðar varð, hafði áður staðið á.[515] Gamli grunnmúrinn úr hlöðnu grjóti er þarna enn með 120 sentimetra þykkum veggjum og þar stendur nú íbúðarhús Einars Odds Kristjánssonar.[516]

Örskammt fyrir utan hús Einars Odds og aðeins ofar blasir við enn einn húsgrunnur frá tíma hvalveiðistöðvarinnar. Í húsi sem þar stóð bjó Carl Svendsen vélameistari[517] sem hafði umsjón með öllum vélum á Sólbakka og annaðist viðhald þeirra (sjá hér bls. 8-9, 38-39 og 47) en hann hafði vetursetu hér í fyrsta sinn veturinn 1892-1893.[518] Á þeim grunni var árið 1912 eða því sem næst reist húsið Litlabýli.[519] Í því settust að systur Kristjáns Torfasonar, þær Guðrún og Ástríður, og áttu þar lengi heima.[520] Þetta hús var flutt niður á Flateyri árið 1934 eða 1935[521] og stóð þar enn við Ránargötu árið 1991.[522]

Þegar Kristján Torfason keypti Sólbakkaeignirnar fyrir 10.000,- krónur vorið 1906 mun hann hafa gert góð kaup því fimm árum síðar voru eignir hans á Sólbakka virtar á 100.000,- krónur og út á þær hafði hann þá fengið 78.000,- króna lán hjá veðdeild Landsbanka Íslands.[523]

Í nýnefndum kaupsamningi frá vorinu 1906 er tekið fram að Ellefsen sé áskilinn réttur til að láta hús sín á Sólbakka, sem ekki voru seld Kristjáni, svo og lausa muni, standa þar í allt að tvö ár frá undirskrift samningsins án þess að nokkur leiga komi fyrir.[524]

Réttindi og skyldur sem kveðið var á um í leigusamningnum frá 1888 (sjá hér bls. 4-5) yfirtók Kristján við undirritun kaupsamningsins og þar með var Ellefsen laus allra mála gagnvart föður kaupandans, Torfa Halldórssyni,[525] sem átti allt það land sem hvalveiðiforstjórinn hafði haft á leigu.

Með samningi, sem var undirritaður 21. ágúst 1906, leigði Torfi Halldórsson Kristjáni syni sínum landspilduna sem hús og önnur mannvirki á Sólbakka stóðu á.[526] Í þeim leigusamningi er gerð eftirfarandi grein fyrir lóðarmörkunum: Hin leigða lóð nær frá svonefndum „Hvalsteini” við nyrðri enda lóðarinnar 350 faðma strandlengis til suðurs, 350 faðma á land upp til austurs og 60 faðma á sjó út frá lægsta fjöruborði.[527]

Leigan sem Kristján skuldbatt sig til að greiða árlega var 120,- krónur og í samningnum var kveðið á um að landeigandi gæti ekki sagt honum upp næstu 40 árin.[528] Á hinn bóginn var Kristjáni veittur réttur til að framleigja lóðina til þriðja aðila og kveðið á um að hver sá er öðlast hefði leiguréttinn gæti fengið hana keypta fyrir 2.400,- krónur.[529] Að einum mánuði liðnum frá undirritun þessa leigusamnings og viku áður en Torfi Halldórsson andaðist tók Kristján Torfason 12.000,- króna lán hjá Íslandsbanka og veðsetti þá bankanum allar húseignir sínar og mannvirki, meðal annarra þær sem hann hafði keypt af Hans Ellefsen um vorið.[530]

Árið 1906, skömmu eftir brottför Carls Svendsen vélameistara og fjölskyldu hans frá Sólbakka, settist þar að Páll Torfason frá Flateyri,[531] sá hinn sami og á árunum 1888-1889 hafði haft milligöngu um að leigja Hans Ellefsen landið á Sólbakka undir hvalveiðistöð. Páll var elsti sonur hjónanna Torfa Halldórssonar og Maríu Össurardóttur á Flateyri eins og hér hefur áður verið nefnt. Hann gerðist snemma umsvifamikill fjármálamaður og bjó í Kaupmannahöfn á síðari hluta ævinnar.[532] Páll átti konu af dönskum og frönskum ættum og bjó með henni á Sólbakka frá 1906-1909.[533]

Kristján Torfason, bróðir Páls, bjó hins vegar á Sólbakka til dánardægurs[534] og stóð þar í ýmsum stórræðum. Hann var maður einhleypur og andaðist árið 1932.[535]

Ásgeir Torfason, bróðir Páls og Kristjáns, var líka skráður til heimilis á Sólbakka í lok ársins 1907[536] en hann mun þá hafa verið skipstjóri á enskum togara.[537] Hann kvæntist árið 1909 Ragnheiði Eiríksdóttur frá Hrauni á Ingjaldssandi[538] og bjuggu þau næstu áratugina á Sólbakka. Á yngri árum var Ásgeir skipstjóri, m.a. á innlendum og erlendum togurum, en síðar framkvæmdastjóri.[539]

Árið 1912 var að frumkvæði Kristjáns Torfasonar reist fiskimjölsverksmiðja á innanverðum brunarústum Ellefsensverk-smiðjunnar.[540] Verksmiðjan var byggð af þýsku fyrirtæki en komst síðar í eigu Íslendinga.[541] Í þessari verksmiðju á Sólbakka var seinna rekin síldar- og karfabræðsla og mun hún hafa verið í gangi, með einhverjum hléum þó, allt til ársins 1945.[542] Umfjöllun um þann rekstur fellur hins vegar utan við ramma þessarar ritsmíðar og því er mál til komið að þoka sér frá Sólbakka niður á Flateyri. Í þorpinu sem þar tók að myndast um 1880 hafði íbúunum fjölgað úr 72 í 204 á árunum 1889-1900, það er á árum hvalveiðistöðvarinnar á Sólbakka.[543] Þá er fólkið sem átti heima á hinni gömlu bújörð Eyri ekki talið með og ekki heldur fólkið á Sólbakka. Brunaárið 1901, sem var síðasta ár hvalstöðvarinnar, fækkaði íbúum Flateyrar um tvo en á næstu átta árum fjölgaði þeim um nær 14%[544] svo ekki verður séð að stöðvun hvalveiðanna og endalok verksmiðjureksturs Ellefsens á Sólbakka hafi haft umtalsverð áhrif á íbúafjölda þorpsins. Óskar Einarsson læknir skýrði þetta á sínum tíma svo: Það var Önfirðingum til hins mesta láns að þeir yfirgáfu ekki útgerð sína og hlupu í verksmiðjuvinnuna. … Fyrir því varð ekkert atvinnuleysi á Flateyri við burtför Ellefsens.[545]

 

 

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Trausti Einarsson 1987, 43-46.

[2] Sama heimild, 23-26 og 153.  Jón Þ. Þór / Dr. Joh. N. Tønnesen 1981, 15.

[3] Sömu heimildir.

[4] Trausti Einarsson 1987, 44-46.

[5] Jón Þ. Þór / Dr. J.N. Tønnesen 1981, 17 (Ársrit S.Í.).

[6] Trausti Einarson 1987, 44.

[7] Sama heimild, 43-46.

[8] Sama heimild.

[9] Trausti Einarson 1987, 43-46.

[10] Dr. J.N.Tønnesen 1981, 17-20 (Ársrit S.Í.).

[11] Sama heimild, 20-26.

[12] Sama heimild, 19-26.

[13] Sama heimild, 21.

[14] Sama heimild, 21-31.

[15] Sama heimild, 20-24.

[16] Dr. J.N.Tønnesen 1981, 32-59.  Trausti Einarsson 1987, 67-75.

[17] Dr. J.N.Tønnesen 1981, 55-56.

[18] Sama heimild.

[19] Dr. J.N. Tönnesen 1981, 32-59.

[20] Trausti Einarsson 1987, 53.

[21] Trausti Einarsson 1987, 53, 57.

[22] Sama heimild, 53.  Dr. J.N.Tønnesen 1981, 32 (Ársrit S.Í.).

[23] Frá ystu nesjum 1942, I, 11.

[24] Dr. J.N.Tønnesen 1981, 32-33.  Sbr. Frá ystu nesjum I, 8-9.

[25] Óðinn 1911, VII, 33.

[26] Magnús Gíslason 1949, 149.

[27] Dr. J.N.Tønnesen 1981, 32.

[28] Magnús Gíslason 1949, 149.

[29] Óðinn 1911, VII, 33.  Frá ystu nesjum I, 29-30.

[30] Óðinn 1911, VII, 33.

[31] Frá ystu nesjum I, 8.  Sbr. Óðinn 1911, VII, 33.

[32] Óðinn 1911, VII, 33.

[33] Frá ystu nesjum I, 8.

[34] Frá ystu nesjum I, 9.

[35] Frá ystu nesjum 1942, I, 9-10. Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 13.10.1888.

[36] Lbs. án safnnr. Gögn úr fórum Jóns Guðmundssonar, búfræðings á Ytri-Veðrará.

[37] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 13.10.1888.

[38] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 5. Veðmálabók 1882-1894, bls.265.

[39] Sama heimild, 263-265.

[40] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 5. Veðmálabók 1882-1894, bls. 265.

[41] Sama heimild.

[42] Þórður Sigurðsson 1968, 146 (Ársrit S.Í.).

[43] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 5. Veðmálabók 1882-1894, 263-265.

[44] Sama heimild.

[45] Sama heimild.

[46] Sama heimild.

[47] Sama heimild.

[48] Sama heimild.

[49] Trausti Einarsson 1987, 112.

[50] Trausti Einarsson 1987, 152.

[51] Sama heimild.

[52] Frá ystu nesjum 1942, I, 9.

[53] Frá ystu nesjum 1942, I, 9.

[54] Vestfirskar þjóðsögur II, 1, 159-160.

[55] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1995.

[56] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili, mars og apríl 1889.

[57] Lbs. 23744to, Dagbók Sighvats Grímssonar Borgfirðings 27.5.1889.

[58] Sóknarmannatöl Holts í Önundarfirði.

[59] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr.  5. Hreppsbók 1883-1912.

[60] Aðalskipaskrá nóv. 1870 – sept. 1896, bls. 73-74.

[61] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 25.3.1890.

[62] Sama dagbók 27.3.1890 og 10.2.1891.  Sbr. Frá ystu nesjum I, 17.

[63] Lbs. 23744to, Dagbók S. Gr. B. 13.9.1889.

[64] Óskar Einarsson 1951, 68.

[65] Fjallkonan 11.11.1890, 136-137.

[66] Jón Þ. Þór / Dr. J.N.Tønnesen 1981, 35 (Ársrit S.Í.).

[67] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 24.7.1889.

[68] Sama dagbók 24.9.1889 og 20.3.1890.  Lbs. 23744to, Dagb. S. Gr. B. 20.3.1890. Prestsþj.b. Holts í Ön.

[69] Óskar Ein. 1951, 68.  Trausti Einarsson 1987, 90.

[70] Óskar Ein. 1951, 68.

[71] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 5. Veðmálabók 1882-1894, bls. 265.

[72] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[73] Óskar Ein. 1951, 68.

[74] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[75] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[76] Óskar Ein. 1951, 68.

[77] Haukur III, 10.7.1900.

[78] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 17.1.1893.

[79] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 157.

[80] Sama heimild.

[81] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.6.1996.

[82] Einar Oddur Kristjánsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1995.

[83] Einar Oddur Kristjánsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1995.

[84] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.  Óðinn 1911, VII, 33-34.

[85] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 19.2.1892.

[86] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[87] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[88] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[89] Sama heimild.

[90] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 4.10.1895 og 9.3.1896.

[91] Sama dagbók 13.9.1896.

[92] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[93] Frá ystu nesjum I, 36.  Óðinn 1911, VII, 33-34.

[94] Frá ystu nesjum I, 36 og 49.

[95] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[96] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[97] Sama heimild.

[98] Sama heimild.

[99] Trausti Einarsson 1987, 78.

[100] Frá ystu nesjum I, 57.

[101] Trausti Einarsosn 1987, 78.

[102] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 10.2.1893 og 28.2.1894.

[103] Óskar Ein. 1951, 69.

[104] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 5. Hreppsbók 1883-1912.

[105] Frá ystu nesjum I, 18.

[106] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 9.3.1891.

[107] Sama dagbók 10.2.1893.

[108] Sama dagbók 28.2.1894.

[109] Sama dagbók 16.3.1896.

[110] Sama heimild.

[111] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 13.9.1896.

[112] Sama heimild.

[113] Hsk. Ísaf. nr. 092. Höfuðbók frá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri.

[114] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 30.3.1890.

[115] Sama dagbók 10.2.1891.

[116] Sama dagbók 24.2.1891.

[117] Sama dagbók 17.3.1892.

[118] Sama dagbók 18.2.1893.

[119] Sama dagbók 19.2.1894.

[120] Sama dagbók 10.3. og 15.3.1895.

[121] Sama dagbók 14.3.1896.

[122] Sama dagbók 9.3.1896.

[123] Frá ystu nesjum 1942, I, 24.

[124] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 30.9.1893.

[125] Dr. J.N.Tønnesen 1981, 32 (Ársrit S.Í.).

[126] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 25.3. og 27.3.1890.

[127] Sama heimild.

[128] Aðalskipaskrá nóv. 1870 – sept. 1896, bls. 73-74.

[129] Sama heimild.

[130] Sama heimild.

[131] Jón Björnsson 1990 II, 85-86 (Íslensk skip).

[132] Dr. J.N.Tønnesen 1981, 32.

[133] Lbs. 23744to, Dagbók S. Gr. B. 12.4.1891.

[134] Aðalskipaskrá nóv. 1870 – sept. 1896, bls. 89.

[135] Skj.s. landsh.. Skráningarmál 1896-1899, askja I. Mæl.bréf gufub. Snorra Sturlusonar, dags. 7.1.1892.

[136] Sama heimild.  Jón Björnsson 1990 II, 98.

[137] Aðalskipaskrá nóv. 1870 – sept. 1896, bls. 89.

[138] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 9.4.1892. Sbr. sömu dagbók 18.2.1893.

[139] Lbs. 22164to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 28.3.1893.

[140] Sama heimild.

[141] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 19.2. og 31.3. 1894.

[142] Aðalskipaskrá nóv. 1870 – sept. 1896, bls. 92 og 192.

[143] Sama heimild.

[144] Sama heimild.  Jón Björnsson 1990 II, 70 og IV, 47.

[145] Aðalskipaskrá nóv. 1870 – sept. 1896, bls. 92 og 102.

[146] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 5. Hreppsbók 1883-1912.

[147] Sama heimild.  Sbr. Frá ystu nesjum I, 17.

[148] Aðalskipaskrá 6.9.1895 – 17.6.1920, bls. 120-121.

[149] Sama heimild.

[150] Frá ystu nesjum 1942, I, 17.  Sbr. Jón Þ. Þór / Dr. J. N. Tønnesen 1981, 36 (Ársrit S.Í.).

[151] Aðalskipaskrá 6.9.1895 – 17.6.1920, bls. 120-121.

[152] Sama heimild.  Jón Björnsson 1990 IV, 48 og 61 (Íslensk skip).

[153] Aðalskipaskrá 6.9.1895 – 17.6.1920, bls. 120-121.

[154] Sama heimild.

[155] Skj.s. sýslum og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 5. Hreppsbók 1883-1912. Skrá yfir skattgreiðendur í

hreppnum árið 1900.

[156] Frá ystu nesjum I, 18.

[157] Frá ystu nesjum I, 18 og 24.

[158] Sama heimild.

[159] Frá ystu nesjum 1942, I, 18 og 24.

[160] Sama heimild. Sbr.  Trausti Einarsson 1987, 83.

[161] Sama heimild.

[162] Sama heimild.

[163] Sama heimild, 18.

[164] Sama heimild.

[165] Trausti Einarsson 1987, 46.

[166] Frá ystu nesjum I, 19.

[167] Sama heimild.

[168] Sama heimild.

[169] Sama heimild.

[170] Sama heimild.

[171] Sama heimild.

[172] Sama heimild, 20-21.

[173] Sama heimild, 21-23.

[174] Sama heimild.  Trausti Einarsson 1987, 46.

[175] Dr. J. N. Tønnesen 1981, 28 (Ársrit S.Í.).

[176] Frá ystu nesjum I, 23-24.

[177] Trausti Einarsson 1987, 42-43.

[178] Dr. J. N. Tønnesen 1981, 29 (Ársrit S.Í.).

[179] Frá ystu nesjum I, 23.

[180] Sama heimild, 52.

[181] Þjóðviljinn ungi 19.3.1892.

[182] Sama heimild.

[183] Frá ystu nesjum I, 52.

[184] Sama heimild.

[185] Sama heimild.

[186] Sama heimild, 17.

[187] Sama heimild.

[188] Sama heimild.

[189] Sama heimild, 52.

[190] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 16.4.1889.

[191] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 31.3.1890.

[192] Sama heimild.

[193] Lbs. 23754to, Dagbók S. Gr. B. 18.2.1892.

[194] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 10.2.1893.

[195] Sama dagbók mars og apríl 1893.

[196] Sama heimild.

[197] Aðalskipaskrá nóv. 1870 – sept. 1896, bls. 101.

[198] Sama heimild.

[199] Sama heimild.

[200] Sama heimild.

[201] Jón Björnsson 1990 IV, 19 (Íslensk skip).  Skj.s. landsh. Skráningarmál 1896-1899, askja I, mælingarbréf fyrir gufuskipið Barden.

[202] Sömu heimildir.

[203] Skj.s. landsh. Skráningarmál 1896-1899, askja I, mælingarbréf frá 1898 fyrir gufuskipið Barden.

[204] Sama heimild.

[205] Skj.s. landsh. Skráningarmál 1896-1899, askja I, mælingarbréf fyrir gufuskipið Einar Simers.

[206] Sama heimild.

[207] Skj.s. landsh. Skráningarmál 1896-1899, askja I, mælingarbréf fyrir gufuskipið Einar Simers.

[208] Jón Björnsson 1990 IV, 24 (Íslensk skip).

[209] Skj.s. landsh. Skráningarmál 1896-1899, askja I, mælingarbréf fyrir gufuskipið Einar Simers.

[210] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 4.10.1895.

[211] Aðalskipaskrá 6.9.1895 – 17.6.1920, bls. 9.

[212] Sama heimild.

[213] Sama heimild.

[214] Jón Björnsson 1990 IV, 24.

[215] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 67.

[216] Magnús Gíslason 1949, 48.  Sbr. Vestfirskar ættir I, 238 og 398.

[217] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 67.

[218] Magnús Gíslason 1949, 57-58 og 104-105 (Á hvalveiðastöðvum, bókin).

[219] Sama heimild, 126.

[220] Sama heimild.

[221] Sama heimild, 104-105.  Vestf. ættir I, 238.

[222] Sama heimild.

[223] Trausti Einarsson 1987, 64 og 146.  Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 27.4.1893.

Dr. J. N. Tønnesen 1981, 33 (Ársrit S.Í.).

[224] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 157.

[225] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 157.

[226] Stjórnartíðindi 1894 B, bls. 37-38.

[227] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 157.

[228] Dr. J. N. Tønnesen 1981, 33-34.

[229] Frá ystu nesjum I, 15-16.

[230] Trausti Einarsson 1987, 64.

[231] Dr. J. N. Tønnesen 1981, 33-34.

[232] Trausti Einarsson 1987, 146.

[233] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 27.4.1893.

[234] Trausti Einarsson 1987, 53.  Jón Þ. Þór / Dr. J. N. Tønnesen 1981, 35.

[235] Trausti Einarsson 1987, 82.

[236] Frá ystu nesjum I, 28.

[237] Jón Þ. Þór / Dr. J. N. Tønnesen 1981, 35 (Ársrit S.Í.).

[238] Haukur III, 10.7.1900.

[239] Haukur III, 10.7.1900, bls. 40.  Sbr. þar mynd á bls. 25.

[240] Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1978, 97.

[241] Sama heimild.

[242] Jón Þ. Þór / Dr. J. N. Tønnesen 1981, 35 (Ársrit S.Í.).

[243] Frá ystu nesjum I, 26.

[244] Sama heimild, 62-63.

[245] Sama heimild, 49.  Sbr. Trausti Einarsson 1987, 72.

[246] Frá ystu nesjum I, 49.

[247] Sbr. Trausti Einarsson 1987, 110.

[248] Trausti Einarsson 1987, 83.

[249] Sama heimild, 84.

[250] Sama heimild.

[251] Frá ystu nesjum I, 26.

[252] Sama heimild.  Sbr. Magnús Gíslason 1949, 23.

[253] Sama heimild.

[254] Trausti Einarsson 1987, 85.

[255] Sama heimild, 60.

[256] Frá ystu nesjum I, 26.

[257] Trausti Einarsson 1987, 104-106 og 128.

[258] Jón Guðnason 1985, 10-14 (tímaritið Saga).

[259] Trausti Einarsson 1987, 69.

[260] Dr. J. N. Tønnesen 1981, 38 (Ársrit S.Í.).  Þjóðviljinn ungi 30.9.1893.  Óskar Einarsson 1951, 71.

[261] Dr. J. N. Tønnesen 1981, 38 (Ársrit S.Í.).

[262] Trausti Einarsson 1987, 65.

[263] Trausti Einarsson 1987, 65, 152.

[264] Trausti Einarsson 1987, 65, 152.

[265] Stjórnartíðindi C, 1889 og 1890.

[266] Sama heimild C deild.

[267] Trausti Einarsson 1987, 65.

[268] Stjórnartíðindi C deild. Landshagsskýrslur.

[269] Sama heimild.

[270] Stjórnartíðindi C deild. Landshagsskýrslur.

[271] Trausti Einarsson 1987, 65.

[272] Sama heimild.

[273] Sama heimild, 64.

[274] Sama heimild, 147.

[275] Nationalbanken i Kjöbenhavn / Regnskaber 1889-1901.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

[276] Sbr. Trausti Einarsson 1987, 64.

[277] Stjórnartíðindi 1899, 1900 og 1901, c deild.

[278] Trausti Einarsson, 64-65.

[279] Sama heimild.

[280] Sama heimild, 63.

[281] Dr. J. N. Tønnesen 1981, 33 (Ársrit S.Í.)

[282] Frá ystu nesjum I, 28

[283] Dr. J. N. Tønnesen 1981, 29.

[284] Sama heimild, 28.

[285] Trausti Einarsson 1987, 107.

[286] Sama heimild, 128.

[287] Sama heimild, 69 og 154.

[288] Sama heimild, 149.

[289] Sama heimild.

[290] Dr. J. N. Tønnesen 1981, 39.

[291] Trausti Einarsson 1987, 114.

[292] Trausti Einarsson 1987, 69.

[293] Dr. J. N. Tønnesen 1981, 34 (Ársrit S.Í.).

[294] Frá ystu nesjum 1942, I, 8.

[295] Stjórnartíðindi 1896 C, bls. 272.

[296] Sama heimild.

[297] Jón Þ. Þór 1988, 113 (Saga Ísafjarðar III.).

[298] K.Ó. 1987, 389-390.

[299] Jón Þ. Þór 1988, 86-119.

[300] Stjórnartíðindi 1889 A, bls. 38-42.

[301] Sama heimild 1893 A, bls. 78-82.

[302] Stjórnartíðindi 1901 A, bls. 120-124.

[303] Trausti Einarsson 1987, 88.  Dr. J. N. Tønnesen 1981, 22-23 og 38.

[304] Þjóðviljinn 1.5.1890.  Frá ystu nesjum I, 13.  Trausti Einarsson 1987, 116.

[305] Trausti Einarsson 1987, 116-128.

[306] Sama heimild, 117.  Dr. J. N. Tønnesen 1981, 27 (Ársrit S.Í.).

[307] Trausti Einarsson 1987, 117.

[308] Dr. J. N. Tønnesen 1981, 27.

[309] Þjóðviljinn 1.5.1890.

[310] Páll Torfason / Þjóðviljinn 9.4. og 24.4.1889.

[311] Sama heimild.

[312] Sama heimild.

[313] Páll Torfason / Þjóðviljinn 24.4.1889.

[314] Þjóðviljinn 1.5.1890.

[315] Sama heimild.

[316] Sama heimild, 9.9.1891.

[317] Sama heimild.

[318] Lbs. 23744to, Dagb. S. Gr. B. 14.4. og 16.4.1891. P.Torfason / Þjóðv. 13.1.1892. Óskar Ein. 1951, 69.

[319] Lbs. 23744to, Dagbók S. Gr. B. 16.4.1891.

[320] Séra Sigurður Stefánsson / Þjóðviljinn ungi 13.2.1892.

[321] Sama heimild.

[322] Sama heimild.

[323] Séra Sigurður Stefánsson / Þjóðviljinn ungi 13.2.1892.

[324] Sama heimild.

[325] Sama heimild.

[326] Sama heimild.

[327] Sama heimild.

[328] Trausti Einarsson 1987, 120.

[329] Sama heimild.

[330] Páll Torfason / Þjóðviljinn ungi 13.1. og 19.3.1892.  Séra Sigurður Stefánsson / Þjóðviljinn ungi 13.2.

og 19.3.1892.  Guðmundur Á Eiríksson / Þjóðviljinn ungi 11.3.1892.

[331] Séra Sigurður Stefánsson / Þjóðviljinn ungi 13.2.1892.

[332] Guðmundur Á. Eiríksson / Þjóðviljinn ungi 11.3.1892.

[333] Sama heimild.  Séra Sigurður Stefánsson / Þjóðviljinn ungi 19.3.1892.

[334] Sömu heimildir.

[335] Séra Sigurður Stefánsson / Þjóðviljinn ungi 19.3.1892.

[336] Sama heimild.

[337] Trausti Einarsson 1987, 125.

[338] Sama heimild, 126.

[339] Sama heimild.

[340] Bóas Guðlaugsson / Vestri 11.4.1903.

[341] Dr. J. N. Tønnesen 1981, 38 (Ársrit S.Í.).

[342] Sama heimild.

[343] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[344] Trausti Einarsson 1987, 148.

[345] Sveinn Ólafsson / Óðinn VII, ágúst 1911.

[346] Sama heimild.

[347] Óskar Ein. 1951, 69.

[348] Óskar Ein. 1951, 69.

[349] Frá ystu nesjum 1942, I, 30.

[350] Frá ystu nesjum 1942, I, 30-31.

[351] Frá ystu nesjum 1942, I, 31.

[352] Sama heimild, 32.

[353] Sama heimild.

[354] Magnús Gíslason 1949, 19.

[355] Frá ystu nesjum 1942, I, 15.  Bóas Guðlaugsson / Vestri 11.4.1903.

[356] Bóas Guðlaugsson / Vestri 11.4.1903.

[357] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 67 (Árbók F.Í.).

[358] Sama heimild.

[359] Frá ystu nesjum I, 16.

[360] Skj.s. ísl. stjórnardeildarinnar. Isl. Journal 17, nr. 673. Bréf Hans Ellefsens 4.11.1889 til Det islandske

     Postdepartement í Kaupmannahöfn.

[361] Sama heimild.

[362] Frá ystu nesjum I, 16.

[363] Sama heimild, 35.  Sbr. Óskar Ein. 1951, 71.

[364] Frá ystu nesjum 1942, I, 15-16.

[365] Sama heimild.

[366] Lbs. án safnnr. Gögn úr fórum J. Guðm., búfræðings á Ytri-Veðrará, dagbók hans 14.3.1896.

[367] Sama dagbók 19.3.1896.

[368] Sama dagbók 30.4.1896.

[369] Sama dagbók 1.5.1896.

[370] Frá ystu nesjum I, 33.

[371] Sama heimild.

[372] Trausti Einarsson 1987, 91.

[373] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 67 (Árbók F.Í.).

[374] Frá ystu nesjum 1942, I, 16.  Trausti Einarsson 1987, 103.

[375] Trausti Einarsson 1987, 101.

[376] Þjóðviljinn 1.5.1890.

[377] Trausti Einarsson 1987, 103.

[378] Sama heimild.

[379] Lbs. 30934to, Bréf J. Guðm. búfr., síðar á Ytri-Veðrará, 11.7. 1897 til Torfa Bjarnasonar, skólastjóra í Ólafsdal.       Sbr. bréf sama 21.7.1897 til sama.  Jón Björnsson 1990 I, 57 (Íslensk skip).  Sbr. Snæbjörn Kristjánsson 1958, 165.

[380] Sama bréf.

[381] Sama heimild.

[382] Sama heimild.

[383] Bóas Guðlaugsson / Vestri 11.4.1903.

[384] Stjórnartíðindi 1908 B, 354-355.

[385] Sama heimild.

[386] Sama heimild.  Sbr. Trausti Einarsson 1987, 91-92 og 149.  Frá ystu nesjum I, 35-36.

[387] Stjórnartíðindi 1908 B, 355-357.

[388] Stjórnartíðindi 1908 B, 355-357.

[389] Sama heimild.

[390] Sama heimild, 357-358.

[391] Sama heimild.

[392] Prestsþj.bækur og sóknarm.töl Holts í Önundarfirði.

[393] Sömu heimildir.

[394] Frá ystu nesjum1942, I, 36 og 49.

[395] Sama heimild.

[396] Sama heimild.

[397] Sama heimild.

[398] Sama heimild, 49-50.

[399] Sama heimild.

[400] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[401] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[402] Sama heimild.

[403] Sama heimild.  Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[404] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[405] Sama heimild.

[406] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[407] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[408] Skj.s. landsh. Skráningarmál 1896-1899, askja I, mælingarbréf fyrir skrúfudampskipið Einar Simers. Sbr. hér bls 18)

[409] Magnús Gíslason 1949, 104.

[410] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[411] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[412] Trausti Einarsson 1987, 96.

[413] Haukur III, 10.7.1900, bls. 25.

[414] Sama heimild, 40.

[415] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 1.2.1895.

[416] Sama heimild.

[417] Sama heimild.

[418] Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1979, 152.

[419] Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1979, 152.

[420] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[421] Sama heimild.

[422] Sama heimild.

[423] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 12.2.1893.

[424] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[425] Lbs. 23754to, Dagbók S. Gr. B. 8.4.1894.

[426] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[427] Vestfirskar þjóðsögur II, 1, 12-13.

[428] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[429] Sama heimild.

[430] Sama heimild.

[431] Sama heimild.

[432] Sama heimild.

[433] Frá ystu nesjum 1942, I, 44-46 og 57-69.  Theodór Gunnlaugsson 1960, 76-84.

[434] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 8.10.1893.

[435] Frá ystu nesjum 1942, I, 44-45.

[436] Frá ystu nesjum 1942, I, 45-46.

[437] Sama heimild.

[438] Sama heimild.

[439] Sama heimild, 46.

[440] Theodór Gunnlaugsson / Guðmundur Einarsson 1960, 76.

[441] Sama heimild.  Frá ystu nesjum 1942, I, 59.

[442] Theodór Gunnlaugsson / Guðmundur Einarsson 1960, 76-77.

[443] Sama heimild, 77-78.

[444] Sama heimild.

[445] Frá ystu nesjum 1942, I, 61-62.

[446] Theodór Gunnlaugsson / Guðmundur Einarsson 1960, 78-79.

[447] Theodór Gunnlaugsson / Guðmundur Einarsson 1960, 78-79.

[448] Sama heimild.

[449] Sama heimild, 79-80.

[450] Jón Þ. Þór / Dr. J. N. Tønnesen 1981, 16 (Ársrit S.Í.).  Óskar Ein. 1951, 71.  Frá ystu nesjum I, 53.

[451] Trausti Einarsson 1987, 69-70.

[452] Sama heimild, 55, 113 og 152.

[453] Trausti Einarsson 1987, 53.

[454] Dr. J. N. Tønnesen 1981, 34 (Ársrit S.Í.).

[455] Lbs. 43394to, Bréf Lauritz Berg 13.11.1900 til séra Janusar Jónssonar.

[456] Sama heimild.

[457] Eyjólfur Jónsson 1996, I, 314-316.

[458] Vestfirskar þjóðsögur II, 1, 157-158.

[459] Sama heimild.

[460] Sama heimild.

[461] Jón Þ. Þór / Dr. J. N. Tønnesen 1981, 35.  Trausti Einarsson 1987, 53.

[462] Jón Þ. Þór / Dr. J. N. Tønnesen 1981, 35.

[463] Sama heimild.

[464] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.6.1996.

[465] Sama heimild.

[466] Sama heimild.

[467] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.6.1996.

[468] Sama heimild.

[469] Sama heimild.

[470] Sama heimild.

[471] Jón Þ. Þór / Dr. J. N. Tønnesen 1981, 35.  Trausti Einarsson 1987, 53.

[472] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 27.4.1893.

[473] Jón Þ. Þór / Dr. J. N. Tønnesen 1981, 35.

[474] Trausti Einarsson 1987, 92.  Frá ystu nesjum I, 51.  Magnús Gíslason 1949, 49.

[475] Frá ystu nesjum I, 51.

[476] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[477] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[478] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[479] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[480] Magnús Gíslason 1949, 92.

[481] Lbs. 41914to, Bréf séra Janusar Jónssonar 27.3.1902 til Halldórs Daníelssonar bæjarfógeta.

[482] Lbs. 41914to, Bréf séra Janusar Jónssonar 27.3.1902 til Halldórs Daníelssonar bæjarfógeta.

[483] Sama heimild.

[484] Trausti Einarsson 1987, 53-54.

[485] Dr. J. N. Tønnesen 1981, 38-39.

[486] Dr. J. N. Tønnesen 1981, 38-39.

[487] Dr. J. N. Tønnesen 1981, 32.

[488] Trausti Einarsson 1987, 133 og 136.  Jón Þ. Þór / Dr. J. N. Tønnesen 1981, 16.

[489] Jón Björnsson 1990 II, 86 (Íslensk skip).

[490] Sama heimild, 70 og 98.

[491] Sama heimild.

[492] Sama heimild IV, 47.

[493] Magnús Gíslason 1949, 58.

[494] Jón Björnsson 1990 IV, 48.

[495] Magnús Gíslason 1949, 58.

[496] Sama heimild.

[497] Aðalskipaskrá nóv. 1870 – sept. 1896, bls. 73. Aðalskipaskrá 6.9.1895 – 17.6.1920, bls. 222.

[498] Jón Björnsson 1990 IV, 61 (Íslensk skip).

[499] Aðalskipaskrá 6.9.1895 – 17.6.1920, bls. 120.

[500] Frá ystu nesjum I, 25.  Agnar Kl. Jónsson 1969 II, 937.  Ísl. æviskrár II, 311-312.

[501] Frá ystu nesjum I, 25.  Sbr. Snorri Sigfússon 1969 II, 36.

[502] Kristján Albertsson 1961, 1-357.  Sami 1963, 1-323.  Sami 1964, 1-370.

[503] Ísl. æviskrár II, 311-312.

[504] Agnar Kl. Jónsson 1969 II, 937.

[505] Sama heimild.

[506] Sama heimild.

[507] Sama heimild, 937-939.

[508] Agnar Kl. Jónsson 1969 II, 937-941.

[509] Sama heimild, 941-943.

[510] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 9. Veðmálabók 1898-1907, 632-635.  Jón Þ. Þór / Dr. J. N. Tønnesen

1981, 35.

[511] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 9. Veðmálabók 1898-1907, 632-635.  Jón Þ. Þór / Dr. J. N. Tønnesen

1981, 35.

[512] Ársrit Sögufél. Ísf. 1978, 97.

[513] Sóknarm.töl Holts í Önundarf. Torfaættarbók 1991, 66. Einar Oddur Kristjánsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7. 1995.

[514] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.6. 1996.

[515] Torfaættarbók 1991, 104.  Einar Oddur Kristjánsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1995.

[516] Sama heimild.

[517] Sama heimild.

[518] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[519] Einar Oddur Kristjánsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1995.

[520] Sama heimild.

[521] María Jóhannsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 5.7.1995.

[522] Torfaættarbók 1991, 24.

[523] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. X. 5. Uppboðsbók 1906-1912, 441.

[524] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 9. Veðmálabók 1898-1907, 632-635.

[525] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 9. Veðmálabók 1898-1907, 632-635.

[526] Sama heimild, 650-651.

[527] Sama heimild.

[528] Sama heimild.

[529] Sama heimild.

[530] Sama heimild, 649.

[531] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[532] Torfaættarbók 1991, 60.

[533] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[534] Torfaættarbók 1991, 66.

[535] Sama heimild.

[536] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[537] Torfaættarbók 1991, 72.

[538] Torfaættarbók 1991, 72.

[539] Sama heimild.

[540] Landið þitt Ísland I, 206.  Haraldur Ásgeirsson 1991, 88 (Torfaættarbók).

[541] Haraldur Ásgeirsson 1991, 85-104.

[542] Sama heimild.  Landið þitt Ísland I, 205-206.

[543] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[544] Sama heimild.

[545] Óskar Ein. 1951, 69.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »