Sveinseyri

Leiðin úr Keldudal að Sveinseyri er tæplega fimm kílómetra löng en fyrir daga bílvegarins var hér erfiðara yfirferðar en á öðrum leiðum milli bæja í Þingeyrarhreppi. Undir Arnarnúpi komum við strax að Eyrarófæru en rétt innan við hana er Ófærusker og eru þar landamerki Arnarnúps og Sveinseyrar.[1]Kirkjuvegurinn er torsóttur yfir Eyrarófæru til Hrauns í Keldudal og er þetta varla mannhættulaust á vetur nema um stórstraumsfjöru, segir í Jarðabókinni frá 1710.[2] Sjálf Ófæran er klettar sem ganga í sjó fram og fyrir þá er aðeins fært þegar lágt er í sjó. Gísli Vagnsson, sem lengi bjó á Mýrum í Dýrafirði, hefur ritað greinargóða lýsingu á Eyrarófæru. Hann segir:

 

Utar í hlíðinni er sjálf Ófæran, háir slútandi hamrar sem slíta götuslóðann algerlega í sundur á tuttugu til þrjátíu faðma svæði og er þar einungis þurrt um lágsjávað eða fjöru. Tvö klettanef ganga þar lengst fram en á milli þeirra hefur myndast gjá eða skúti í hamrana sem nefnist Stofa. Var oft stætt á Stofugólfi þótt brimaldan bryti á báðum nefjum. Það var venja gangandi manna þegar svo bar til að taka sprett fyrir ytra nefið en bíða svo færis í Stofunni þar til lag fékkst til að klífa upp á innra nefið en á því eru tveir stallar, Neðri- og Efri-stallur kallaðir. Upp á Efri-stallinn mun vera um þriggja metra hæð en þar er góða handfesti að fá því járnboltar voru greyptir í bergið til öryggis fyrir vegfarendur. Var þess full þörf, ekki síst á vetrum, því í frostum var allt bergið svellað langt upp fyrir höldin. Kom sér þá betur að hafa góða handfesti því oft varð að bíða á stöllunum eftir lagi. Meðan á biðinni stóð var ekki ný bóla að sjórinn bryti yfir þann sem á stallinum beið.[3]

 

Þegar ófært var fyrir klettaranann var stundum þræddur tæpur stígur hér uppi í snarbrattri hlíðinni, ofan við hina ófæru sjávarkletta. Hét það að fara hærri Eyrarófæru.[4] Sumarið 1914 fór Þorvaldur Kristjánsson, bóndi í Svalvogum, þá leið með hest undir klyfjum og var talið algert einsdæmi því götuslóðinn þótti jafnan lítt fær lausgangandi mönnum.[5]

Erfiðar hafa vetrarferðirnar verið á þessum slóðum þegar brim svarraði á Stofugólfi og harðfenni í hlíðinni eða lausasnjór sem búast mátti við að hlypi í sjó fram þegar minnst varði og tæki þá með sér allt lauslegt, bæði dautt og lifandi.

Ungir menn úr Keldudal og Svalvogum létu þvílíkar hindranir þó ekki binda sig heima þegar til nokkurs var að vinna. Ekki var ég gamall þegar ég fór að brjótast með Kristjáni bróður mínum inn yfir hærri Eyrarófæru í hörkufrosti og ófærð til að geta komist á kvenfélagsböll í Haukadal, segir Ottó Þorvaldsson frá Svalvogum, sem fæddur er árið 1903,[6] og bætir síðan við: Þar dönsuðum við alla nóttina og hlupum svo heim að morgni. Milli þeirra staða er þriggja klukkustunda gangur aðra leiðina.

Oftast komu menn heilir á húfi úr svaðilförum um Eyrarhlíð og Eyrarófæru en ekki alltaf. Á nýársdag árið 1943 ætlaði sóknarpresturinn á Þingeyri, séra Sigurður Z. Gíslason, að messa á útkirkjunni í Hrauni í Keldudal. Hann var einn á ferð og lagði af stað frá Sveinseyri nokkru fyrir hádegi en komst aldrei á leiðarenda. Talið var að hann hefði lent í snjóflóði úr gili rétt utan við Eyrarófæru.[7] Þeir sem nú fara bílveginn úr Keldudal inn með Dýrafirði sjá fyrst til Þingeyrar litlu áður en komið er að Ófærunni. Þaðan sem Þingeyri sést fyrst eru aðeins um 100 metrar inn að gilinu þar sem snjóflóðið náði séra Sigurði og hreif hann með sér niður bratta hlíðina. Þrátt fyrir leit fannst lík hans ekki fyrr en alllöngu síðar.

Ekki er kunnugt um önnur banaslys á þessum slóðum á síðari tímum en oft skall hurð nærri hælum. Haustið 1923 var Þórarinn Vagnsson, bóndi í Hrauni í Keldudal, á leið heim til sín frá Rauðsstöðum í Arnarfirði. Hann reið gráskjóttri hryssu sem Kristján Guðmundsson, bóndi á Arnarnúpi, átti og hét hún Botnía.[8] Er Þórarinn kom að Eyrarófæru var orðið alldjúpt fyrir innra nefið en þegar svo stóð á var ekki óalgengt að menn hleyptu á sund ef sjór var ládauður eða því sem næst.[9] Að þessu sinni veitti Þórarinn því ekki athygli að tekið var að brima og er hann var um það bil að sleppa fyrir nefið ríður að stærðar sjór sem færði bæði hest og mann í kaf. Gísli, bróðir Þórarins Vagnssonar, ritaði aldarþriðjungi síðar um atburð þennan og sagði frá á þessa leið:

 

Botnía greip þegar sundið og hefði sennilega ekki orðið annað né meira en þessi eina kaffæring ef annað hefði ekki komið til. – Þegar sjór var ókyrr safnaðist einatt mikill þari í Stofuna og svo var í þetta skipti. Við frákastið og útsogið sópaðist allur þarabunkinn fram og skall að fótum og brjósti hryssunnar en við það missti hún sundtökin og barst nú með útsoginu fram í brimgarðinn. Þar náði hún sundtökunum aftur en nú var stefnan út og fram fjörðinn. … Af Þórarni er það að segja að strax og hryssan barst út í brimgarðinn greip hann föstu taki í fax hennar og lét sig svo fallast af henni djúpmegin. Dróst hann með hlið hennar meðan hryssan þreytti sundið við brimið og dauðann sem einn virtist bíða þeirra eins og nú horfði við. … Hryssan kafaði nú hvert ólagið á fætur öðru með Þórarin við hlið sér. … Botnía herti nú sundið út og fram í fjörðinn, móti öldunni, og eru þau komin fram á djúpa róðrarleið, um þrjú hundruð metra frá landi og eitt til tvö hundruð metra út með urðinni.[10]

 

Er hér var komið sögu tókst Þórarni loks að snúa hryssunni við og svo fór að þau komust bæði í land í sandvíkinni innan við Ófæruna.[11] Þar hvíldust þau bæði góða stund en síðan teymdi Þórarinn Botníu til baka inn að Sveinseyri, barði þar upp því komin var nótt og beiddist gistingar.[12] Daginn eftir hélt hann ferðinni áfram út í Hraun.

Sem betur fór voru slíkar hrakfarir ekki algengar en fólkið sem átti heimili sín fyrir utan Eyrarófæru fékk þó margt að reyna á ferðum sínum um þessar tröllaslóðir.

Innan við Eyrarófæru tekur Eyrarhlíðin við.[13] Öll er hún snarbrött og gróðurlaus að mestu. Árið 1953 var lokið við gerð bílvegar út í Keldudal[14] en áður lá götuslóðinn ýmist með sjónum eða eftir örmjóum þræðingum uppi í hlíðinni.[15] Yfir hlíðinni gnæfa klettabrúnir Eyrarfjalls, þær efstu í um það bil 500 metra hæð.

Innan við miðja hlíð komum við að Eyrarhálsum, þremur klettahálsum sem allir ganga í sjó fram en þeim hefur áður verið lýst á þessum blöðum (sjá hér Þingeyrarhreppur, inngangskafli). Í daglegu tali kunnugra eru þeir aðeins nefndir Hálsar. Á Ystahálsi taldi Svalvogafólk leið sína til Þingeyrar vera hálfnaða.[16] Rétt utan við hann er sker sem heitir Hroði. Þeir útsveitarmenn sem sóttu sjó frá bæjum innar í firðinum bundu stundum báta sína við sker þetta í heimróðri og tóku sér hvíld.[17] Ótvírætt virðist að Eyrarhálsar hafi skilið að landnám Eiríks í Keldudal og landnám Vésteins Végeirssonar er fyrstur byggði í Haukadal en í Landnámabók eru mörkin þar á milli sögð hafa verið við Háls hinn ytri (sjá hér Þingeyrarhreppur, inngangskafli). Fyrir Eyrarhálsa var aðeins hægt að komast í stærstu fjörum[18] og því urðu menn oftast að þræða tæpa götu uppi í hlíðinni til að komast fram hjá þeim en þar var hengiflug undir í giljum milli hálsanna. Oft gat verið erfitt að komast upp á innsta hálsinn og var venjulega farin Bolagjóta.[19] Væri hún ófær fóru menn Sveinssleppu upp á hálsinn.[20] Rétt innan við Innstaháls þrýtur Eyrarhlíð og við taka sléttar grundir heim í hlað á Sveinseyri.

Á Sveinseyri er talsvert undirlendi og þaðan sér um drjúgan hluta Dýrafjarðar, inn að Þingeyri og Höfða og út á Fjallaskaga á norðurströndinni. Handan fjarðarins og nær beint á móti Sveinseyri stendur höfuðbólið forna, Núpur í Dýrafirði. Yfir fjörðinn eru hér aðeins rösklega þrír kílómetrar og frostaveturinn mikla 1918 náði hestheldur ís út á móts við Sveinseyrarodda og Núp.[21]

Bújörðin Sveinseyri er kennd við samnefnda grasigróna eyri sem teygist hér dálítið fram í fjörðinn og stendur bærinn utarlega á henni. Innantil á eyrinni er sendinn jarðvegur og hefur sandfok stundum valdið hér nokkrum skaða.[22] Ofan við eyrina eru sléttar grundir. Utan við túnið á Sveinseyri er dálítil tjörn sem heitir Eyrarvatn eða Sveinseyrarvatn.

Árið 1927 ferðaðist Þórður Flóventsson frá Svartárkoti í Bárðardal um Vestfirði og var að kanna skilyrði til lax- og silungseldis. Í Sveinseyrarvatn taldi hann ráð að flytja 8-10 þúsund af bleikjusilungssíli árlega.[23]  Í vatnið fellur lækur sem kemur úr Eyrarhvilft en hún er hér beint upp frá bænum. Utan við hvilftina rís Eyrarfjall  en innan við hana gnæfir hæst Nóntindur, 455 metra hár. Innan við hann tekur við fjalldalur sem Eyrardalur heitir. Um hann fellur Eyrará og til sjávar innantil við Sveinseyri.

Á Eyrardal vestanverðum er gamalt sel og framan við það lækur sem Sellækur heitir.[24] Veturlönd heitir hvilft fremst í dalnum. Þar er alltaf snjór, vetur, sumar, vor og haust.[25] Fjallið sem skilur að Eyrardal og Haukadal heitir Haukadalsfell[26] en hefur á síðari tímum verið kallað Fell.[27] Út úr því gengur klettaöxl sem snýr að Eyrardal. Á öxl þessari stendur hár og allgildur steindrangur og ber við himin frá þjóðveginum rétt innan við Sveinseyri en sést líka vel heiman frá bæjarhlaði. Þetta er Eyrarkerlingin sem hér var áður minnst á (sjá hér Hraun í Keldudal bls. 2 þar) og svo er kerling þessi brött að engum mun fært að sigra hana. Hún stendur í um það bil 350 metra hæð yfir sjávarmáli.[28]

Í fornum heimildum er Sveinseyrar fyrst getið í skrá frá árinu 1446 yfir jarðeignir Guðmundar ríka Arasonar á Reykhólum.[29] Fjögur kúgildi fylgdu þá jörðinni.[30] Árið 1534 festi Jón Arason, biskup á Hólum, kaup á Sveinseyri[31] en fjórum árum síðar seldi Ari lögmaður, sonur Jóns biskups, jörðina.[32]

Skömmu fyrir 1670 var a.m.k. nokkur hluti Sveinseyrar í eigu séra Snorra Jónssonar, sem þá var aðstoðarprestur föður síns, séra Jóns Magnússonar þumlungs á Eyri í Skutulsfirði. Árið 1669 varð séra Snorri að svara til saka á Alþingi fyrir að hafa gert ungfrú Ragnhildi Torfadóttur barn en hún hafði þá látist af barnsförum og barn þeirra var þá líka dáið.[33] Bræður Ragnhildar, Páll Torfason, sýslumaður á Núpi í Dýrafirði, og séra Einar Torfason á Stað á Reykjanesi, sóttu málið og varð að samkomulagi að séra Snorri greiddi þeim bræðrum alls 30 hundruð í bætur, þar á meðal 4 hundruð í Sveinseyri.[34]

Líklegt er að séra Jón Arason í Vatnsfirði, dáinn 1673, sonur Ara sýslumanns Magnússonar í Ögri, hafi átt a.m.k. 16 hundruð í Sveinseyri því börn hans tvö, Helga og séra Sigurður Jónsson í Holti í Önundarfirði, eignuðust hvort um sig nokkur hundruð úr þessari jörð í Dýrafirði.[35] Árið 1672 fékk nýnefnd Helga bróður sínum, séra Sigurði Jónssyni í Holti, í hendur 4 hundruð úr Sveinseyri[36] og fjórum árum síðar keypti séra Sigurður önnur 4 hundruð úr sömu jörð en árið 1703 átti hann 16 hundruð hér á Sveinseyri[37] sem gæti bent til þess að hann hafi erft 8 hundruð en Helga systir hans þau 4 hundruð sem fyrr voru nefnd. Við skipti á dánarbúum á þeirri tíð kom jafnan aðeins hálfur sonararfur í hlut hverrar dóttur.

Þau 8 hundruð úr Sveinseyri sem séra Sigurður í Holti eignaðist ekki mun séra Ólafur Þorleifsson á Söndum, dáinn 1696, hafa átt og hlaut Ólöf systir hans þau í arf að honum látnum.[38] Hvorugt þessara systkina gekk í hjónaband og bæði voru þau barnlaus.[39] Átta hundruðin í Sveinseyri gaf nýnefnd Ólöf Þorleifsdóttir bróðurdóttur sinni, Guðrúnu Bjarnadóttur, dóttur Bjarna Þorleifssonar lögsagnara,[40] með ljúfu samþykki systursona sinna, bræðranna Þorleifs Magnússonar og Torfa Magnússonar sem báðir bjuggu á Auðkúlu í Arnarfirði.

Árið 1710 átti séra Sigurður í Holti enn sín 16 hundruð í Sveinseyri og nýnefnd Guðrún Bjarnadóttir, þá búsett á Auðkúlu, hin 8 hundruðin.[41] Landskuld af allri jörðinni var þá 6 vættir fiska og leigukúgildin sem jörðinni fylgdu þrjú á parti prófastsins í Holti en eitt og hálft (9 ær) á parti Guðrúnar.[42] Landskuldina bar leiguliðunum hér á Sveinseyri að greiða einokunarverslunina á Þingeyri en kúgildaleigurnar í smjöri eður peningum uppá fiskatal heim til landsdrottna.[43]

Árið 1679 bjó á Sveinseyri maður að nafni Guðmundur Jónsson og er hann fyrsti bóndi hér sem sögur fara af. Honum varð það á að selja stjúpson sinn í hendur hollenskra hvalveiðimanna er hér stunduðu veiðar. Kom mál hans til kasta Alþingis og þar var þetta bókað í lögréttu árið 1678

 

Um bréfabrotssekt viðvíkjandi landsins passa, hvort segjast skuli upp á þann mann, Guðmund Jónsson á Eyri í Dýrafirði, hver eð flutti Anno 1677 sinn stjúpson, Björn Jónsson, á hollensk hvalaskip til útsiglingar af landinu. Svara lögþingismenn samþykkilega að sýslumönnum beri með dómi í héraði sanngjarnlega að traktera hvað nefndur Guðmundur kunni fyrir sig bera, skuli hann frá bréfabrotssektum fríaður verða, svo, ef óvitund vænist, að hann það þá með eiði staðfast geri.[44]

 

Ekki sést í Alþingisbókinni hversu gamall stjúpsonurinn, sem sigldi með hollenskum frá Sveinseyri, var en hefði hann verið á barnsaldri má ætla að þess hefði verið getið. Greinilegt er að Guðmundur var aðeins sakaður um brot á ríkjandi banni gegn ferðum manna úr landinu án vegabréfs frá réttum yfirvöldum en ekki fyrir að hafa selt Hollendingum drenginn í hagnaðarskyni. Guðmundi á Sveinseyri er því gefinn kostur á að sverja af sér alla vitneskju um bann konungs gegn því að múgamenn sigldu úr landi með duggurum. Er menn settust að nýju á rökstóla vð Öxará næsta ár hafði eiðtakan hins vegar enn ekki farið fram og var þá úrskurðað á ný að annað hvort yrði bóndinn á Sveinseyri að sanna vanþekkingu sína á bréfum konungs um þessi efni með eiði eða gjalda sekt.[45]

Bænhús var á Sveinseyri í kaþólskum sið og í byrjun 18. aldar gátu menn enn sýnt gestum bænhústóttina og leifar af kirkjugarði.[46] Bænhúsið var þá fallið fyrir manna minni[47] en kirkjugarðsleifarnar sýna að lík hafa verið jörðuð á Sveinseyri í fyrri tíð, enda hlýtur oft að hafa verið ærið torsótt að flytja þau út að Hrauni þar sem sóknarkirkja Sveinseyrarfólks var allt til ársins 1864 (sjá hér Þingeyrarhreppur, inngangskafli).

Sveinseyri var 24 hundruð að fornu mati og þótti löngum allgóð bújörð. Þar er góður heyskapur og útigangur en tún og engjar liggja undir sandfoki, segir í sóknarlýsingunni frá því um 1840.[48]

Í Jarðabókinni frá 1710 er kostum og göllum jarðarinnar meðal annars lýst á þessa leið:

 

Útigangur í fjörunni í betra lagi en lakari á landi. Torfrista og stunga lök og sendin. Móskurður til eldiviðar lítill fram á Eyrardal sem er erfitt til að sækja. Lyngrif bjarglegt en brúkast lítt. Reki meinast hér verið hafa að fornu en ekki hefur hann heppnast í manna minni. Hrognkelsaveiði hefur verið sæmileg, fer til rýrðar en brúkast þó.[49]

 

Skriður og sandfok gerðu mönnum oft erfitt fyrir við búskapinn og má sem dæmi nefna að í byrjun 18. aldar reif skriða með sér fjögur útihús á Sveinseyrartúni með fé og hestum.[50] Árið 1710 var engra eyðibýla getið í landi Sveinseyrar en í Ferðabók Olaviusar sem geymir upplýsingar frá árinu 1775 er talað um eyðibýlið Hlaðir í Sveinseyrarlandi.[51]

Heimræði var frá Sveinseyri og lending sæmileg en þaðan þótti langt að róa – svo fyrir því fara menn á vorin með skip sín í verstöðvar og gjalda alminnilega vertolla, segir í Jarðabókinni.[52] Eiginleg verstöð mun aldrei hafa verið hér, a.m.k. ekki til langframa, en dæmi voru þess um aldamótin 1900 að bændur frá bæjum innar í firðinum færu hingað með báta sína á vorvertíð.[53]

Árið 1710 bjuggu tveir leiguliðar á jörðinni en eigendur hennar voru þá, svo sem fyrr var nefnt, séra Sigurður Jónsson, prófastur í Holti í Önundarfirði, og Guðrún Bjarnadóttir á Auðkúlu í Arnarfirði.[54]

Fyrir og um miðja 19. öld bjó maður að nafni Össur Magnússon hér á Sveinseyri. Hann virðist hafa verið uppgangsbóndi og að líkindum hákarlaformaður. Að minnsta kosti var hann einn fárra bænda í Þingeyrarhreppi sem árið 1835 áttu sjálfir fimm manna far eða þaðan af stærra áraskip.[55] Aðeins sex bændur í hreppnum áttu þá slíka báta einir sér en aðrir fimm áttu hlut í bát. Árið 1845 voru 15 manns í heimili hjá Össuri á Sveinseyri.[56] Þá var tvíbýli á jörðinni og fimm manneskjur á hinu býlinu.[57]

Árið 1847 fluttist að Sveinseyri maður sem Jón Einarsson hét. Hann var ættaður norðan úr Strandasýslu en kom til Sveinseyrar frá Flateyri. Hann var skipstjóri á þilskipi er hann átti sjálfur að hálfu og var þessi útgerð frá Sveinseyri önnur tveggja fyrstu tilrauna bænda í Þingeyrarhreppi til skútuútgerðar (sjá hér Þingeyrarhreppur, inngangskafli). Jón Einarsson andaðist voveiflega haustið 1848, hálffertugur að aldri (sjá Þingeyrarhreppur, inngangskafli – Flateyri og Höfði), og með honum leið skútuútgerðin héðan frá Sveinseyri undir lok.

Á síðustu áratugum 19. aldar fjölgaði fólki á Sveinseyri. Hér var um skeið búið í þurrabúð sem kölluð var Stekkur[58] og árið 1901 var íbúatalan komin upp í þrjátíu. Þá bjuggu hér fjórir bændur og tvær fjölskyldur að auk voru hér í húsmennsku.[59] Sjómennska á skútum greiddi öllu þessi fólki leið til að komast af þó að jarðnæði væri lítið.

Úr röðum heimafólks á Sveinseyri, bæði fyrr og síðar, var lengi kunnust Gunnhildur Sumarliðadóttir sem hér drukknaði í lendingu 24. ágúst 1793, tæplega fertug að aldri.[60] Sú var trú manna að Gunnhildur gengi aftur og var hún enn talin á kreiki 120-150 árum eftir dauða sinn. Án vafa má fullyrða að á fyrri hluta tuttugustu aldar hafi hún enn verið víðkunnasti draugur í Vestur-Ísafjarðarsýslu þó mjög væri þá farið að dofna yfir henni miðað við það sem áður hafði verið. Margt hefur verið ritað um Gunnhildi[61] en það litla sem hér verður um hana sagt er allt byggt á frásögnum í Vestfirskum sögnum nema annarra heimilda sé getið. Þær frásagnir voru flestar færðar í letur á árunum 1934 og 1935.

Gunnhildur var fædd um 1754, dóttir Sumarliða Þorvaldssonar, hreppstjóra á Sveinseyri, og konu hans Guðrúnar Illugadóttur.[62] Nokkur systkini átti Gunnhildur og virðist hún hafa verið þeirra elst. Á annan dag jóla árið 1789 gekk Bjarni bróðir hennar að eiga Sigurfljóð Jónsdóttur frá Meðaldal. Sjálf var Gunnhildur þá enn ógefin í föðurgarði, orðin hálffertug, og herma sagnir að fyrir brúðkaup Bjarna hafi hún haft á orði að nú væri sér best að víkja úr vegi áður en drottningin yrði hafin inn.[63]

Árið 1793 mun Bjarni, bróðir Gunnhildar, hafa verið tekinn við búsforráðum á Sveinseyri að mestu eða öllu leyti en faðir þeirra systkina var þó enn á lífi og andaðist ekki fyrr en haustið 1794. Á þessum árum var Sveinseyrarfólk við slægjur á Læk í Mýrahreppi, handan fjarðarins. Á Bartólómeusmessu árið 1793 fóru þrjú systkinanna á Sveinseyri róandi yfir fjörð að sækja hey, Gunnhildur, Bjarni og Jón, bróðir þeirra, sem þá var um 18 ára aldur. Frá atburðum við heimkomu þeirra með heyið frá Læk segir svo í Vestfirskum sögnum:

 

Urðu þau seint fyrir og var komið svartamyrkur þegar þau komu yfir undir Sveinseyri. Bræðurnir róa miðskipa en Gunnhildur situr ofan á heyinu aftur í bátnum. Var nú töluvert brim í lendingunni og eiga þeir bræður fullt í fangi með að koma bátnum réttum að landi og hugsa ekki um annað meðan þeir eru að lenda. Síðan bera þeir upp heyið og brýna bátnum. En ekki verður Gunnhildur neitt á vegi þeirra, enda áttu þeir ekki von á hjálp frá henni er að landi væri komið. Þegar þeir koma til bæjarins spyr móðir þeirra hvar Gunnhildur sé. Bræðrunum verður bilt við spurninguna en segjast hafa haldið að hún hafi stokkið upp úr bátnum þegar þeir lentu og haldið til húsa. En þar eð enginn heimamanna hafði orðið hennar var halda þeir aftur til sjávar og leita hennar en finna ekki. Morguninn eftir er leit hafin á ný og finnst hún þá í flæðarmálinu í bótinni, kippkorn fyrir utan lendinguna hjá læknum sem rennur úr Eyrarvatni. En bót sú er síðan kölluð Gunnhildarbót. Sáu þeir bræður engin lífsmerki á Gunnhildi og töldu hana því örenda. Þeir hafa það og fyrir satt að hún hafi oltið út af bunkanum í lendingunni og drukknað í sjónum. Þeir láta hana í kassabörur og bera heim í naust sem síðan var kallað Gunnhildarnaust.[64]

 

Gunnhildarbót heitir nú þar sem lækur úr Eyrarvatni (sjá hér bls. 4) fellur til sjávar.[65] Þar í bótinni mun Gunnhildur hafa drukknað og þar alveg rétt hjá hlýtur Gunnhildarnaust að hafa verið.

Í naustinu stóð lík Gunnhildar uppi næstu daga og sagt var að þar hefðu einhverjir talið sig sjá votta fyrir roða í kinnum hinnar sjódauðu heimasætu. Er Bjarni, bróðir Gunnhildar, tók að smíða utan um hana þar í naustinu reis hún að sögn upp af líkbörunum og gerði sig líklega til brottgöngu. Varð Bjarni að standa yfir henni með reidda öxi svo hún lægi kyrr uns Jón bróðir þeirra kom heiman frá bæ með ljós sem hann hafði farið að sækja.

Þann 28. ágúst var Gunnhildur jörðuð frá sóknarkirkjunni í Hrauni. Séra Jón Ásgeirsson, sem þá var prestur á Söndum en síðar í Holti, ritar þá í kirkjubókina að hún hafi orðið sjódauð. Út í Keldudal var lík hennar flutt sjóleiðis en er verið var að bera kistuna frá sjó heim að Hrauni var hún ýmist þung sem blý eða létt sem fis. Nokkrir heimamenn í Hrauni töldu sig reyndar sjá Gunnhildi koma gangandi heim frá sjónum á undan líkfylgdinni og meðan séra Jón Ásgeirsson var að jarðsyngja hana sást Gunnhildur hlaupa um Hólavöllinn þar í Hraunstúni fyrir utan kirkjuna og hafði aldrei sprækari verið.

Sagt var að Gunnhildur, bóndadóttir á Sveinseyri, hefði verið með barni er hún drukknaði. Óvissa ríkti um faðernið en líklegastur var talinn Jón nokkur sem kenndur var við bæinn Glóru í Mýrahreppi og hafði verið vinnumaður á Sveinseyri. Skömmu eftir jarðarför Gunnhildar varð Glóru-Jón bráðdauður og töldu menn sig sjá ummerki þess að hann hefði verið kyrktur. Fæstir drógu í efa að þar hefði Gunnhildur verið að verki, enda gekk hún brátt ljósum logum um Dýrafjörð.

Fjöldi manna varð með einum eða öðrum hætti var við Gunnhildi næstu 120 árin og margvíslegar sögur mynduðust um hrekki hennar og bellibrögð. Einkum þótti hún fylgja niðjum systkina sinna (sjá hér Ketilseyri) en þeim fjölgaði ört er á 19. öldina leið og dreifðust þá um Dýrafjörð og nálæga firði. Reyndar gerði Gunnhildur lengi vart við sig hvar sem um hana var rætt og því forðuðust margir að nefna nafn hennar, einkum þó ef orðið var kvöldsett.

Er afturganga Gunnhildar var hvað mögnuðust á fyrri hluta 19. aldar brugðu Dýrfirðingar á það ráð að leita til víðfrægra kunnáttumanna í Arnarfirði, Magnúsar Ólafssonar á Baulhúsum og Jóhannesar bróður hans á Kirkjubóli í Mosdal (sjá hér Kirkjuból í Mosdal) í þeirri von að slíkir galdrameistarar sæu ráð til að fyrirkoma Gunnhildi. Jóhannes kom að Hrauni og skoðaði leiði Gunnhildar vel og vandlega en tilkynnti síðan að enginn kostur væri á að kyrrsetja afturgönguna þar eð hún dveldist aldrei í gröfinni nema á hvítasunnudag milli pistils og guðspjalls. Mun Gunnhildur hafa verið eina afturgangan sem Jóhannes varð ráðþrota gagnvart.

Fleiri sögur af Gunnhildi verða ekki sagðar hér en þeim sem vilja kynnast henni nánar skal vísað á Vestfirskar sagnir. Undir lok nítjándu aldar og á fyrstu árum hinnar tuttugustu varð enn býsna oft vart við Gunnhildi en ekki verður sagt að líf manna og limir hafi þá enn verið í bráðri hættu þar sem hún lét til sín taka. Svipur Gunnhildar gerði þá ekki síst vart við sig á undan komu einhvers frænda hennar eða frænku og mjög bar á því að hún reyndi að komast í rúm til manna og lokka þá til blíðuhóta við sig. Oftast birtist Gunnhildur klædd í peysuföt en stundum var hún á rauðu millipilsi með glettnissvip og hæðnisbros á vör. Stöku sinnum dró hún líka á eftir sér nautshúðina sem forðum var breidd yfir sjórekinn líkama hennar í Sveinseyrarnausti og væri hún reitt til reiði átti hún til að drepa vænsta sauðinn eða vakrasta hestinn fyrir þeim sem á hlut hennar hafði gert.

Segja má að alla nítjándu öldina hafi bannhelgi hvílt á nafni Gunnhildar og enginn Vestfirðingur dirfðist að gefa nýfæddu stúlkubarni þetta fagra nafn hinnar fornu kóngamóður. Hjónin Marsibil Ólafsdóttir og Matthías Ólafsson, síðar kaupmaður í Haukadal og alþingismaður Vestur-Ísfirðinga, eignuðust sitt fyrsta barn árið 1889. Þau voru þá ung að árum og hugðust storka hjátrúnni með því að láta dóttur sína heita Gunnhildi. Slíkt þótti flestum furðulegt óráð. Marsibil var dóttir Ólafs Péturssonar, skipstjóra á Þingeyri, en Gunnhildur sem drukknaði og gekk aftur hafði verið ömmusystir hans. Þau Ólafur skipstjóri og Þórdís Ólafsdóttir, kona hans, tóku ráðagerðir unga fólksins um Gunnhildarnafnið mjög nærri sér og svo fór að stúlkan var látin heita Lilja.[66] Enn liðu tuttugu ár uns nokkurt stúlkubarn í Vestur-Ísafjarðarsýslu fékk nafnið Gunnhildur en þar kom árið 1909 að Steinn Ólafsson bakari, bróðir Marsibilar sem hér var nefnd, og Jóhanna Guðmundsdóttir, kona hans, rufu bannhelgina og létu dóttur sína heita Gunnhildi.[67] Þá voru 116 ár liðin frá því Gunnhildur Sumarliðadóttir drukknaði í Sveinseyrarlendingu. Enn varð hennar þó vart stöku sinnum, m.a. í Hrauni í Keldudal haustið 1913,[68] en sjaldgæft mun vera að draugar endist lengur en í 120 ár.

Nú liggur Gunnhildur bóndadóttir á Sveinseyri kyrr í hinum forna kirkjugarði í Hrauni. Leiði hennar er þar sem áður var norðausturhornið á gamla kirkjugaðinum en á þeim liðlega 200 árum sem nú eru liðin frá því hún var jörðuð hefur garðurinn verið stækkaður. Enn má þó sjá hvar áður var norðausturhornið á gamla garðinum sem var nokkurn veginn hringlaga.

Ættfólk Gunnhildar bjó alllengi á Sveinseyri eftir hennar dag, fyrst Bjarni bróðir hennar og síðan Össur Magnússon, tengdasonur Bjarna, en að honum sótti Gunnhildur hvað harðast um nokkurt skeið.[69] Össur virðist hafa verið uppgangsbóndi og að líkindum hákarlaformaður eins og fyrr var nefnt (sjá hér bls. 7).

Nú ríkir friður yfir fornum naustum á Sveinseyri þar sem Gunnhildur lá á köldum líkbörum fyrir liðlega 200 árum og reis þó upp til hálfs undir öxi bróður síns. Ekkert óhreint er hér lengur á ferð. Lítilfjörlegur hrollur kynni þó að fara um suma þá sem ef til vill verður boðið að gista í stofunni á Sveinseyri því svefnstaðurinn þar er sagður standa á sama stað og rúm Gunnhildar forðum. Sá sem hér krotar orð á blað leyfir sér þó vegna góðrar reynslu að mæla með þeirri gistingu. Mynd Gunnhildar Sumarliðadóttur geymist okkur í minni enn um sinn en nú höldum við frá Sveinseyri að Haukadal. Sú leið er fljótfarin aðeins hálftíma gangur inn eyrina, yfir Eyrará og síðan skamman spöl inn með sjónum í bótinni uns komið er til bæja í Haukadal. Landamerki milli jarðanna eru um Merkishrygg sem er beint niður undan Fellsröndinni og nær niður að sjó skammt frá mynni Eyrarár.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Örnefnaskrá.

[2] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 37,

[3] Gísli Vagnsson 1956, 64-65 (Ársrit Sögufél. Ísfirðinga).

[4] Ottó Þorvaldsson 1980, 38 og 59.  Kristján G. Þorvaldsson 1951, 129 (Árbók Ferðaf. Ísl.).

[5] Ottó Þorvaldsson 1980, 38.

[6] Ottó Þorvaldsson 1980, 59.

[7] Kr. G. Þorv. 1951, 129 (Árb. F.Í.).

[8] Gísli Vagnsson 1956, 65-68 (Ársrit S.Í.).

[9] Sama heimild.

[10] Gísli Vagnsson 1956, 65-68 (Ársrit S.Í.).

[11] Sama heimild.

[12] Sama heimild.

[13] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 49-50.

[14] Gísli Vagnsson 1956, 64.

[15] Sama heimild. Kr. G. Þorv. 1951, 129 (Árbók F.Í.).

[16] Guðm. Fr. Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann í júlí 1991.

[17] Sama heimild.

[18] Kr. G. Þorv. 1951, 129.

[19] Örn.skrá.

[20] Sama heimild.

[21] Ottó Þorvaldsson 1980, 30.

[22] Jarðab. Á. og P. VII, 37.  Sóknalýs. Vestfj. II, 57.

[23] Þórður Flóventsson 1981,81 (Ársrit S.Í.).

[24] Örn.skrá.

[25] Sama heimild.

[26] Sóknalýs. Vestfj. II, 51.

[27] Örn.skrá.

[28] Sama heimild.

[29] D.I. IV, 688.

[30] Sama heimild.

[31] Sama heimild IX, 634-636.

[32] Sama heimild X, 367.

[33] Alþingisbækur Íslands VII, 154-155.  Íslenskar æviskrár IV, 303 og V, 31.

[34] Alþ.b. Íslands VII, 154-155.

[35] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir (Kph. 1993), 168 og 170.  Jarðab. Á. og P. XIII, 253.  Ísl. æviskr.

III, 41-42 og IV, 234-235.

[36] Jarðabr. frá 16. og 17. öld. Útdrættir (Kph. 1993), 168.

[37] Sama heimild, 170.  Jarðab. Á. og P. XIII, 253.

[38] Jarðabr. frá 16. og 17. öld. Útdrættir (Kph. 1993), 163.  Ísl. æviskr. IV, 91 og V, 173.

[39] Sömu heimildir.

[40] Sömu heimildir.  Ísl. æviskr. I, 198.

[41] Jarðab. Á. og P. VII, 36.

[42] Sama heimild.

[43] Sama heimild.

[44] Alþ.b. Íslands VII, 428.

[45] Sama heimild, 455.

[46] Jarðab. Á. og P. VII, 36.

[47] Sama heimild.

[48] Sóknalýs. Vestfj. II, 57.

[49] Jarðab. Á. og P. VII, 36-37.

[50] Sama heimild.

[51] Ólafur Olavius I, 1964, 177.

[52] Jarðab. Á. og P. VII, 37.

[53] Ottó Þorvaldsson 1980, 82-83.

[54] Jarðab. Á. og P. VII, 36.

[55] Skj.s. sýslum. og sveitarstj. Ís. Þingeyrarhr. 2. Hreppsbók 1835-1851.

[56] Manntal 1845.

[57] Sama heimild.

[58] Sóknarm.töl Sandaprestakalls 1876-1878.

[59] Manntal 1901.

[60] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.

[61] Vestf. sagnir I, 289-319 og III, 241-247.  Vestf. þjóðsögur I, 15-18.  Þjóðs. Jóns Árnasonar I, 286.

Lbs. 22354to, bls. 303-311 (Magnús Hjaltason).

[62] Um Sumarliða, sjá Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1974, 115-117. Sbr. hér Mýrar, þar bls. 37-38.

[63] Vestf. sagnir I, 290-291

[64] Vestf. sagnir I, 292-293.

[65] Örn.skrá.

[66] Vestf. sagnir I, 305-307.

[67] Sama heimild, 316-317.  Prestsþj.b. Sandapr.kalls, skrá yfir fermingar árið 1923.

[68] Vestf. sagnir I, 315-316.

[69] Vestf. sagnir I,  296-297.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »