Birnustaðir

Frá landamerkjunum í Vogum er aðeins tólf til fimmtán mínútna gangur heim að Birnustöðum. Utan við Gunnuteigsgil en innan við Birnustaðabjörg liggur Bakkagata úr fjörunni upp á bakkana innan við túnið.[1] Þessi sjávargata fólksins á Birnustöðum er sums staðar bæði brött og tæp og hlýtur að hafa verið ill yfirferðar í vetrarhálkum. Gatan er líka alllöng og mun óhætt að segja að á engri sjávarjörð á öllum Vestfjörðum hafi verið erfiðara að komast að og frá sjó en einmitt hér á Birnustöðum. Í sóknarlýsingunni frá 1840 er Bakkagata sögð vera hættulegur vegur[2] en þar er þó tekið fram að með mikilli aðgætni megi komast hér upp og niður með stórgripi á sumardögum.[3] Skammt utan við Bakkagötu eru Birnustaðabjörg, sem hér hafa þegar verið nefnd, háir fjöruklettar inn og niður af bænum og fellur þar sjór í berg um flestar flæðar.[4]

Bærinn á Birnustöðum stóð hér spölkorn ofan við bakkana og að heita má alveg upp undir fjallshlíðinni. Bæjarrústirnar eru enn allstæðilegar og sýna að auk baðstofunnar hafa verið í bænum fjórar vistarverur. Ein þeirra kynni þó að hafa verið fjós. Jörðin er landlítil og öll skilyrði til búskapar heldur erfið. Síðasti bóndinn á Birnustöðum yfirgaf kotið vorið 1907 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 299) og síðan þá hefur allt staðið hér í eyði.

Á fyrri tíð var jörð þessi stundum nefnd Birnistaðir sem sýnist þó ekki vera annað en afbökun. Í Jarðabókinni frá 1710 segir að nafn jarðarinnar sé Byrnustader eður Byrnestader[5] og í sóknarlýsingunni frá 1840 er nafnið Birnistaðir.[6] Líklegast er að bæjarnafnið eigi rætur til þess að rekja að hér hafi birna gengið á land á hafísvori og sýnist best að halda sig við orðmyndina Birnustaðir.

Í Jarðabókinni frá 1710 segir að á Birnustöðum sé naumlega hægt að fóðra eina kú.[7] Engu að síður voru þar tvær kýr árið 1710 og líka kvíga og kálfur[8] svo einhvern veginn hefur Birnustaðabóndanum tekist að afla meiri heyja en almennt var talið að jörðin gæfi af sér. Fyrir sauðféð hefur verið treyst á útigang en árið 1710 voru á Birnustöðum 18 ær, 30 sauðir, þar af þrettán veturgamlir, og 17 lömb.[9] Þar var líka einn hestur.[10]

Hinir síðustu ábúendur á Birnustöðum og aðrir sem bjuggu hér á árunum kringum aldamótin 1900 munu hins vegar ekki hafa átt hest.[11] Ætla má að hér hafi jafnan verið lítið um hesta, enda lítt mögulegt að nota þá til aðdrátta því upp Bakkagötuna sem áður var nefnd er ófært með baggahest.[12]

Kostum og ókostum Birnustaða var þannig lýst fyrir Árna Magnússyni árið 1710:

 

Útigangur við sæmandi þó hann bregðist stundum. Torfrista og stunga að kalla þrotin. Lyngrif til eldiviðar bjarglegt. Rekavon lítil og eiga hana áðurnefndar kirkjur. [þ.e. Núps- og Mýrakirkja – innskot K.Ó.] Túninu hafa grandað skriður sem að áeykst og engjar öngvar. Úthagar eru litlir um sig, skriðurunnir og mjög hrjóstrugir og þarf því ábúandi jafnan að þiggja haga af nábúum sínum og kemur þar fyrir óákveðinn góðvilji en enginn viss tollur. Hætt er kvikfé fyrir snjóflóðum og grjóthruni. Vatnsvegur                              er erfiður, einkanlega á vetur. Kirkjuvegur torsóttur á vetur fyrir harðfenni og svellum yfir Birnistaðahlíð. [Birnustaðafólk átti kirkjusókn að Núpi – innskot K.Ó.] Hreppamannaflutningur mjög svo tæpur og torsóttur á sumur en oftast öldungis ófær á vetur, nema á skipi sé flutt.[13]

 

Að sögn Árna Magnússonar reru Birnustaðamenn úr heimavör árið um kring en lending var talin brimasöm í vestanátt.[14] Um skipsuppsátrið segir í Jarðabókinni frá 1710 að það sé mjög erfitt og brotni því skipin oft og lamist fyrir sjávargangi.[15] Bátur ábúandans var sá eini sem reri frá Birnustöðum vorið 1710[16] en áður reru allt upp í þrjú skip frá Ytra-Vogi sem er innst í Birnustaðalandi (sjá hér Arnarnes). Ætla má að þar hafi einnig verið helsta lending og skipsuppsátur Birnustaðamanna, bæði fyrr og síðar, en í heyflutningum var stundum lent í Brimgilsvík sem er rétt fyrir utan túnið á Birnustöðum.[17]

Í sóknarlýsingu sinni frá árinu 1840 segir séra Jón Sigurðsson að túnið á Birnustöðum sé lítið og mjög harðlent og útislægjur segir hann vera alls engar.[18] Aftur á móti lætur hann vel af beitinni og segir hana vera góða, bæði vetur og sumar.[19]

Eins og fleiri jarðir í Dýrafirði eru Birnustaðir fyrst nefndir í varðveittum heimildum í skránni yfir eignir Guðmundar ríka Arasonar sem gerðar voru upptækar árið 1446.[20]Arnarnes með Birnistöðum 24 hundruð[21] stendur þar og gæti bent til þess að Birnustaðir hafi þá verið í eyði en jörðin verið nytjuð að einhverju leyti frá Arnarnesi. Ljóst er þó að Birnustaðir hafa verið orðnir sjálfstætt býli áður en skrá þessi frá árinu 1446 var samin og hundraðatalan sem þarna er nefnd er sú sama og fram kemur í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710, það er Arnarnes 18 hundruð og Birnustaðir 6 hundruð.

Frá 1446 til 1675 munu eigendur Birnustaða alltaf eða nær alltaf hafa verið hinir sömu og þá áttu næstu tvær jarðir fyrir innan, það er Arnarnes og Gerðhamra.[22] Hér hefur áður verið rakið hverjir þessir eigendur voru og skal til þess vísað (Sjá Gerðhamrar). Í fornum skjölum er varða eigendaskipti á þessum jörðum er nafn Birnustaða reyndar býsna oft misritað eða afbakað en á samhenginu má þó jafnan skilja við hvaða jörð er átt. Í skjali frá árinu 1508 er jörðin t.d. nefnd Brunnastaðir og í skrá yfir jarðir Ögmundar biskups Pálssonar sem teknar voru undir konung árið 1541 eru Birnustaðir ýmist nefndir Bjarnastaðir eða Bjartstaðir.[23] Í þessari síðast nefndu skrá frá árinu 1541 er tekið fram að jörð þessi sé í eyði og þó nafnið sé brenglað leikur enginn vafi á því að átt sé við Birnustaði því kot þetta er jafnan talið þar næst á eftir Gerðhömrum og Arnarnesi eins og hin landfræðilega röð segir til um.

Skömmu eftir að Birnustaðir urðu konungseign varð Eggert Hannesson, lögmaður í Bæ á Rauðasandi, umboðsmaður konungsjarða í Ísafjarðarsýslu. Í reikningum hans frá árinu 1570 er tekið fram að Birnustaðir hafi þá verið lengi í eyði.[24] Í reikningum Eggerts frá árunum kringum 1570 má sjá að jörðin hefur þó verið nytjuð, a.m.k. til beitar, að því er virðist frá Fjallaskaga.[25] Fyrir þessar nytjar voru greiddar 20 álnir á ári í landskuld en það samsvaraði einni á með lambi.[26]

Eins og hér hefur komið fram eignaðist kóngur Birnustaði árið 1541 þegar eignir Ögmundar biskups voru gerðar upptækar. Er kóngur seldi Arnarnes og Gerðhamra árið 1675 fylgdu Birnustaðir ekki með og voru áfram konungseign allt til ársins 1777[27] eða samtals í 236 ár.

Fyrsti bóndinn sem um er kunnugt á Birnustöðum er Auðunn Indriðason sem var landseti konungs þar árið 1681.[28] Búið var á jörðinni árið 1703 og auk fjölskyldu bóndans átti þá líka heima þar húsmaður sem lifði á sjóbjörg.[29] Í byrjun 18. aldar var landskuld af Birnustöðum ein vætt og svo hafði lengi verið.[30] Sú upphæð samsvaraði reyndar nákvæmlega þeim 20 álnum sem goldnar voru fyrir nytjar af Birnustöðum árið 1571, þegar jörðin var í eyði, og hér var áður getið um. Munurinn var þó sá að árið 1571 var landskuldin greidd með einni á og lambi en 1710 átti hún að greiðast í fiski sem landsetinn var skuldbundinn til að flytja í kaupstað og leggja þar inn.[31] Engin leigukúgildi fylgdu Birnustöðum árið 1710 og landseti konungs þar var laus við allar kvaðir.[32] Árið 1735 eða þar um bil var búið á Birnustöðum og líka 1753 en árið 1762 var jörðin í eyði.[33]

Fimmtán árum síðar lét kóngur Birnustaði loks af hendi í makaskiptum. Þau jarðarkaup tengdust rekstri saltverksins sem sett var á stofn á Reykjanesi í landi Reykjarfjarðar við Djúp árið 1773. Æskilegt var talið að forstjóri saltverksins, Jón Ásgeirsson sýslumaður, fengi umráð yfir allri jörðinni í Reykjarfirði og af þeim ástæðum var ekkjan Guðrún Þórðardóttir, sem þar bjó, fengin til að selja kóngi eignarhlut sinn í þeirri jörð og fékk í staðinn Auðkúlu í Arnarfirði sem kóngur hafði átt (sjá hér Auðkúla). Jafnframt lét sonur Guðrúnar, Þórður Arason, af hendi við konung þau fjögur hundruð sem hann átti í Reykjarfirði og fékk í staðinn kotið Birnustaði hér við norðanverðan Dýrafjörð.[34] Kaup þessi fóru fram vorið 1777.[35]

Eins og áður sagði voru Birnustaðir í eyði árið 1762 og vel má vera að svo hafi einnig verið fimmtán árum síðar, er kóngur lét jörðina af hendi. Hins vegar var búið á Birnustöðum árið 1785 og næstu ár þar á eftir og svo var einnig nær alla nítjándu öldina.[36] Þá var stöku sinnum tvíbýli á koti þessu, að minnsta kosti sýnir sóknarmannatal frá árinu 1877 að þá bjuggu hér tveir bændur.[37]

Þórður Arason, sem keypti Birnustaði árið 1777, mun aldrei hafa búið hér en hann var árið 1801 bóndi á Eyri í Ísafirði.[38] Um miðbik 19. aldar voru Birnustaðir hins vegar komnir í sjálfsábúð eins og sjá má í Jarðatali Johnsens frá árinu 1847.[39]

Úr röðum bænda sem búið hafa á Birnustöðum verður Skúli Hildibrandsson að líkindum einna lengst í minnum hafður og margt var um hann talað á fyrri tíð. Skúli var fæddur árið 1763 eða því sem næst[40] og upp úr tvítugu bjó hann með móður sinni, Ingibjörgu Skúladóttur, í Ytri-Lambadal. Séra Markús Eyjólfsson sem tók við prestsþjónustu í Dýrafjarðarþingum árið 1784 skráði á sínum tíma í húsvitjunarbók ýmsar umsagnir um hegðun sóknarbarna sinna. Um ekkjuna í Lambadal, móður Skúla, segir hann til dæmis árið 1786 að hún sé stórgeðja og misjafnt kynnt.[41] Tveimur árum síðar var hún komin sem vinnukona að Minna-Garði, 59 ára gömul, og fær þá einkunn hjá presti að nú sé hún tekin að setjast.[42] Við þessa húsvitjun er hún reyndar líka sögð vera sæmilega kunnandi. Fyrsta umsögn prests um Skúla, sem þá var í Lambadal, er frá árinu 1786 en þá tekur prestur fram að æskumaður þessi þurfi að setjast og siðast.[43] Næsta ár er Skúli svo sagður vera ótaminn. Allt er þetta eins og forboði um það orð sem síðar fór af þessum Hildibrandssyni, bæði lifandi og látnum.

Um 1793 fór Skúli að búa hér á Birnustöðum.[44] Hann var þá kvæntur konu sem hét Ingibjörg Jónsdóttir og höfðu þau áður búið skamman tíma á Arnarnesi.[45] Árið 1801 voru Skúli og Ingibjörg á Birnustöðum með börn sín fjögur á aldrinum eins til tíu ára og eitt barn í viðbót, drenginn Abraham, sem Skúli hafði átt fram hjá konu sinni.[46] Hjá þeim hjónum var þá ekkert annað heimilisfólk og fjölskylda þessi var eina fólkið sem hér átti heima.[47]

Eitt barna Skúla og Ingibjargar var Kristján sem sagður er 10 ára gamall árið 1801.[48] Ári síðar týndist drengur þessi í fjárleitum en um hvarf hans skrifar prestur svo í bók sína: 1802, 2. sept. – Hvarf úr fjárleit og meinast að vera dauður, Kristján Skúlason á Birnustöðum, 11 ára gamall, og finnst ekki þó nokkur sinni hafi leitað verið.[49]

Vart þarf að efa að hér sé rétt frá skýrt en skömmu eftir hvarf drengsins kom upp sá kvittur að faðir hans hefði selt Hollendingum þennan rauðhærða son sinn í beitu[50] og sýna sögur þessar að ýmsir hafa talið að við flestu mætti búast af Skúla. Ekki verður þó séð í bókum sýslumanns Ísfirðinga að nokkur opinber rekistefna hafi orðið út af barnshvarfinu.[51] Í einni frásögn af þessu barnshvarfi á Birnustöðum haustið 1802 segir að það hafi ekki verið Kristján Skúlason sem þá týndist heldur Mikael bróðir hans.[52] Prestsþjónustubókin tekur hins vegar af öll tvímæli um þetta og í henni sést líka að Mikael Skúlason drukknaði niður um ís á Dýrafirði 13. febrúar 1809 og er þá sagður hafa verið 17 ára gamall.[53] Hann átti þá heima á Leiti í Alviðru og var á leið frá Þingeyri yfir að Gemlufalli.[54]

Einn þeirra sem Skúli á Birnustöðum átti að sögn í brösum við var Gísli Oddsson sem bjó á Sæbóli á Ingjaldssandi á árunum 1816-1821 eða 1822 en fluttist þaðan að Meira-Garði í Dýrafirði.[55] Gísli Oddsson var langalangafi Guðmundar G. Hagalín, rithöfundar, sem fæddur var árið 1898 og heyrði ýmislegt talað um Skúla á sínum uppvaxtarárum. Bónda þessum á Birnustöðum lýsir Hagalín svo:

 

Hann var vel gefinn um margt. Hann var meira en í meðallagi gáfaður, þrekmikill og sundmaður góður og mjög vel var hann verki farinn. En hins vegar var hann talinn misindismaður, þótti nískur, ágengur og ágjarn – og ófyrirleitinn með afbrigðum.

 

Um aldamótin 1800 bjó maður að nafni Jón Gunnarsson á Fjallaskaga og voru þeir Skúli nágrannar. Svo virðist sem Jón hafi verið mun gildari bóndi en Skúli og sést það m.a. á því að þegar þeir voru báðir um fertugt var Jón með 5 vinnumenn og 2 vinnukonur en hjá Skúla var þá ekkert vinnufólk.[56] Á árunum 1793-1807 var Jón Gunnarsson eini bóndinn á Fjallaskaga[57] og hefur því haft sæmilega rúmt um sig.

Svo virðist sem vel hafi farið á með þeim nágrönnum Jóni Gunnarssyni og Skúla en báðir eru þeir sagðir hafa verið brösóttir.[58] Um þá var lengi sögð sú saga að þeir hefðu með brellum náð verulegum fjármunum af bónda nokkrum sem bjó í Hrauni á Ingjaldssandi. Saga þessi er til á prenti í a.m.k. fjórum dálítið mismunandi útgáfum en kjarni hennar er alltaf sá sami.[59] Í tveimur af þessum útgáfum eru þeir Jón og Skúli nefndir með nafni og sagt að meðan þeir voru að ná undir sig fé og vistum frá Hrauni hafi þeir látist vera huldumenn.[60] Í hinum tveimur útgáfunum eru nöfn þeirra ekki nefnd og þar er sagt að þeir sem prettuðu fólkið í Hrauni hafi ekki leikið huldumenn heldur engla af himnum senda.[61] Að öðru leyti eru sögur þessar hver annarri líkar þó komnar séu úr ýmsum áttum og snúast greinilega um eitt og sama málið. Ef til vill leynist í þeim einhver sannleikskjarni en um hitt er aftur á móti ekkert hægt að fullyrða, hvort þarna hafi aðeins verið saklausar glettur á ferð ellegar óprúttin tilraun til að auðga sjálfa sig á kostnað náungans. Alkunnugt er að í slíkum efnum getur ein fjöður orðið að tíu hænum og lítilfjörleg saga átt það til að margfaldast á langri leið og breytast í stóran reyfara.

Elsta heimildin um brellur Skúla Hildibrandssonar og Jóns Gunnarssonar við bóndann í Hrauni er komin frá Jóni Gabríelssyni sem fæddur var ári 1856 og bjó sjálfur á Fjallaskaga á árunum kringum aldamótin  1900. Hér verður sá kostur tekinn að taka upp kjarnann úr hans frásögn af þessum atburðum[62] en þeim sem meira vilja lesa skal bent á heimildir þær sem hér hefur nú þegar verið vísað á. Kjarni sögunnar er þessi:

 

Eitt sinn tóku þeir saman ráð sín, Skúli á Birnustöðum og Jón Gunnarsson á Skaga, og ákváðu að gera tilraun til að ná sem mestum fjármunum af vel stæðum bónda sem bjó í Hrauni. Einn góða veðurdag klæddust þeir í dulargerfi og lögðu á fjall. – „Var það eitt í búningi Skúla að hann hafði tólgarkerti framan úr nefinu og nefndi sig Flotnös en Jón var í skræpóttum og skrúðmiklum búningi og nefndi sig Skrúðalín.” [63]

 

Er þeir félagar hittu Hraunsbóndann þar sem hann stóð yfir fé sínu kváðust þeir vera huldumenn og hótuðu honum hörðu ef hann léti vera að færa þeim 30 spesíur á ákveðinn stað fyrir dagsetur. Karlinn í Hrauni tók þetta allt trúanlegt og lét þá hafa spesíurnar. Brátt komu þeir í annað sinn og heimtuðu meiri peninga. Allt fór þá á sömu leið og úr því komu þeir hvað eftir annað að Hrauni í líkum erindagerðum. Þegar lausafé bóndans var allt uppurið létu Flotnös og Skrúðalín færa sér hvers kyns vistir úr búri og skemmu í Hrauni uns allur matur sem þar hafði verið geymdur var á þrotum. Sagt er að meðan á þessu stóð hafi huldumennirnir stundum hafst við í hellum og skútum til að verða nógu fljótir á vettvang og jafnvel í kúahlöðunni í Hrauni. Birgðirnar fluttu þeir svo heim að Birnustöðum og Skaga þegar færi gafst og þennan vetur var þar aldrei sultur í búi.

Þar kom að nágrannar Hraunsbóndans á Ingjaldssandi fengu eggjað hann til að kæra framkomu huldumannanna við sig og láta uppi þá skoðun við sýslumann að líklega væru það Skúli á Birnustöðum og Jón á Skaga sem hefðu leikið hann svo grátt. Sagnir herma að þeir félagar hafi fengið pata af þessu og hraðað sér á fund sýslumanns með fullan sjóvettling af silfri til að sleppa við refsingu. Þetta hreif og var bóndinn í Hrauni dæmdur til að afturkalla öll sín illmæli um heiðursmennina á Birnustöðum og Skaga. Sumir sögðu að sýslumaður hafi látið rita dóminn á sköturoð og knúið bóndann í Hrauni til að éta roðið þar á þinginu og biðja jafnframt í allra áheyrn fyrirgefningar á kærunni.

Í lok sögu sinnar greinir Jón Gabríelsson frá því að skömmu síðar hafi Skúli á Birnustöðum og Abraham sonur hans ráðist í skiprúm til Gísla Oddssonar á Sæbóli og hafi það verið ætlun Skúla að gera honum sem mesta bölvun eða jafnvel drepa hann þar eð Gísli hafi verið helsti hvatamaður þess að bóndinn í Hrauni sendi frá sér kæru til sýslumanns á hendur þeim félögum. Bæði Jón Gabríelsson og Guðmundur G. Hagalín greina svo frá að í brimlendingu á Sæbóli hafi Skúli reynt að drekkja Gísla og sonum hans en gæfumunur þeirra orðið sá að það urðu Skúli og Abraham sem þar fórust en Gísli og hans synir sluppu naumlega.[64]

Ánægjulegt hefði verið að geta upplýst hvort þessi gamla saga hafi á sínum tíma verið diktuð upp frá rótum fólki til skemmtunar eða hvort í henni leynist sannleikskjarni. Við könnun heimilda fengust þó engin skýr svör við þeirri spurningu. Eins og áður sagði fór Skúli Hildibrandsson að búa á Birnustöðum árið 1793 eða því sem næst og alveg um sama leyti hóf Jón Gunnarsson sinn búskap á Skaga.[65] Jón drukknaði sumarið 1807,[66] tæplega fimmtugur að aldri, svo ekki hafa þeir Skúli farið í leiðangur að Hrauni eftir þann tíma. Í dóma- og þingbókum sýslumannsins í Ísafjarðarsýslu frá árunum 1791-1808 finnst hins vegar ekkert um þetta mál en taka verður fram að ekkert er skráð þar um þinghald í Mýrahreppi árið 1803 og eitthvað kynni líka að vanta í frá árunum 1802 og 1804.[67] Hér eru öll kurl því ekki komin til grafar og auk þess hugsanlegt að gengið hafi verið frá málinu án formlegrar ákæru og opinberra réttarhalda. Á því 15 ára skeiði sem hér um ræðir var Jón Johnsoníus lengst sýslumaður í Ísafjarðarsýslu[68] en Ebenezer Þorsteinsson, sem Guðmundur Hagalín segir að tekið hafi við silfurvettlingnum,[69] var ekki settur sýslumaður fyrr en þremur árum eftir að Jón Gunnarsson drukknaði.[70]

Segja má að hin gömlu ummæli séra Markúsar Eyjólfssonar um Skúla Hildibrandsson (sjá hér bls 4) bendi til þess að hann kynni að hafa staðið fyrir ýmsum brellum á yngri árum. Allt sem sjáanlegt er í samtímaheimildum um Jón Gunnarsson á Fjallaskaga gefur hins vegar til kynna að hann hafi verið ráðsettur maður og heldur ólíklegur til ævintýra af því tagi sem hér hefur verið lýst. Því til staðfestingar má nefna að hann var bæði hreppstjóri og sáttanefndarmaður á sínum síðustu árum.[71] Reyndar er aldrei að vita hvað slíkir kunna að hafa brallað í æsku en Jón var hátt á fertugsaldri þegar Skúli fór að búa á Birnustöðum. Hugsanlegt er  að einhver allt annar maður hafi leikið Skrúðalín í ferðunum að Hrauni þó nafn hreppstjórans á Skaga hafi síðar runnið inn í söguna.

Frá Skúla Hildibrandssyni er það að segja að hann virðist flytjast frá Birnustöðum árið 1804 eða þar um bil[72] en mun hafa komið þangað aftur nokkru síðar því árið 1818 var hann kvæntur bóndi á Birnustöðum.[73] Á því ári eignaðist hann sitt annað hórbarn, sem var dóttirin Kristín.[74] Móðir hennar var vinnukona sem misst hafði mann sinn. Hún hét Margrét Jónsdóttir.[75]

Um Skúla á Birnustöðum og hina háu og snarbröttu sjávarbakka þar setti einhver saman þessa vísu:

 

Birnustaða bakkarner

                        býsna ljótir sýnast mér,

                        fyrir Skúla og skrattann er

                        að skeiða þar með sínum her.[76]

 

Skúli drukknaði 10. júní 1819 ásamt Abraham syni sínum og er þá sagður hafa átt heima á Sæbóli á Ingjaldssandi.[77] Í prestsþjónustubókinni kemur ekki fram með hvaða hætti slys þetta bar að en þar sést hins vegar að úr Sæbólssókn drukkna þennan dag engir aðrir en þeir feðgar. Guðmundur G. Hagalín rithöfundur greinir svo frá að Skúli og Abraham sonur hans hafi þetta vor verið í skiprúmi hjá Gísla Oddssyni, sem þá bjó á Sæbóli, og hafi þeir feðgar drukknað í lendingu er komið var í land úr heimsókn út í franska skútu.[78] Ætla má að sagnir um þennan atburð hafi lifað alllengi meðal niðja Gísla sem var langalangafi Hagalíns eins og fyrr var nefnt.

Kenningunni um að Skúli hafi ætlað að drekkja formanni sínum þarna í brimlendingunni, er hann týndi sjálfur lífi, er samt sem áður best að trúa varlega því vel kynni slíku kryddi að hafa verið bætt við söguna einhvers staðar á hennar löngu leið.

Hér skal þess getið að lokum að í góðu færi tekur varla nema fjóra klukkutíma að fara frá Birnustöðum eða Skaga að Hrauni á Ingjaldssandi sé farið um Skörðin er svo heita en þar slitnar klettaröðin í fjallsbrúninni um það bil miðja vega milli Birnustaða og Skaga. Sú leið er að vísu ærið brött en hana hljóta Flotnös og Skrúðalín að hafa farið yfir að Hrauni og enn er fært í þau fótspor. Á Ingjaldssandi heitir Sandskarðadalur þar sem komið er niður úr Skörðunum[79] og bendir nafnið til þess að á fyrri tíð hafi Skörðin stundum verið nefnd Sandskörð sem líka er mjög rökrétt. Yfir þau skreiddist Guðmundur norðlenski vorið 1873, orðinn 73 ára gamall, og hafði verið óverkfær niðursetningur á fimmta ár (sjá hér Sandar – Skáli þar). Göngumenn sem síðar kynnu að hugsa til ferðar yfir á Ingjaldssand frá Birnustöðum eða Skaga ættu því varla að þurfa að hika við að leggja á brattann.

Ekki verður nú séð með auðveldum hætti hversu margar ær og kýr voru á Birnustöðum á búskaparárum Skúla Hildibrandssonar þar en ætla má að búið hafi verið lítið. Vorið 1850 bjuggu á Birnustöðum hjónin Jón Jónsson og Guðrún Bjarnadóttir[80] og munu þau hafa átt jörðina.[81] Hjá þeim voru þá níu manns í heimili en þar að auki var á Birnustöðum fjögra manna fjölskylda í húsmennsku.[82] Bústofn Jóns og Guðrúnar var þá sem hér segir: Ein kýr, einn kálfur, þrettán ær, sex sauðir, sex gemlingar, ellefu lömb og einn ótaminn hestur.[83] Báturinn sem Jón á Birnustöðum átti var minni en fjögra manna far.[84]

Húsmaðurinn sem átti heima á Birnustöðum vorið 1850 hét Guðbrandur Jónsson.[85] Hann bjó löngum á Fjallaskaga á árunum milli 1850 og 1870 en fluttist svo aftur að Birnustöðum. Frá honum verður sagt nokkru nánar er við komum á Skaga (sjá hér Fjallaskagi).

Hér var áður minnst á hjónin Jóhannes Jónsson og Bjarneyju Þorleifsdóttur sem bjuggu á Birnustöðum á árunum kringum 1890 en áttu síðar heima á Stöðlum í Alviðru og svo á Rana en síðast í Ytrihúsum hjá Núpi (sjá hér Alviðra). Jóhannes var fæddur árið 1855 en Bjarney var fáeinum árum yngri.[86] Sighvatur Borgfirðingur getur þess að Jóhannes hafi farið að búa á Birnustöðum vorið 1885 og nefnir hann þá Jóhannes lamba.[87] Viðurnefnið lambi mun Jóhannes hafa fengið vegna þess að sjálfur sagði hann oft lambið mitt við þá sem hann talaði við.[88] Um þau hjónin, Jóhannes og Bjarneyju, hefur Guðmundur G. Hagalín rithöfundur skrifað manna mest[89] og lítið brot úr þeim skrifum hefur áður verið kynnt á þessum blöðum (sjá hér Alviðra). Dálítið nánari lýsingu á þeim er að finna í bókinni Stóð ég úti í tunglsljósi en þar ritar Hagalín m.a. svo um hjón þessi sem áður voru á Birnustöðum:

 

Jóhannes var lágur vexti og að sama skapi grannvaxinn en samt sem áður var hann vel sterkur og viðbragðssnöggur – og harðfengur með afbrigðum. Hann þótti því engan veginn dæll viðureignar í áflogum, hvort sem var í gamni eða alvöru. Hann var fljótur til reiði, einkum ef honum þótti konu sinni misboðið í orði, og ekki þurfti mikið að gera á hluta hans sjálfs til þess að í hart færi, ef hann var með víni, – en vín þótti honum gott, – og hafði margur stærri og sterkari orðið að lúta fyrir honum í lægra haldi. Hann hafði verið á skipum sem danskir skipstjórar stýrðu til fiskveiða á Íslandsmiðum og þar var nokkur hluti áhafnarinnar danskur auk skipstjóra. Kvaðst Jóhannes hafa lært af dönskum stýrimanni að nota skallann í illindum, og víst var um það að Jóhannes var talinn hafa allt að því járnhaus. Hann hafði gert það aftur og aftur að skopa skeið og renna sér á timburvegg, án þess að honum yrði meint af, en hins vegar hafði komið fyrir að hann bryti borð í vegg sem var úr svokölluðum panil. Jóhannes leit mjög upp til konu sinnar og aldrei heyrði ég það að hann hefði orðið svo hamstola við vín að hann hefði lagt á hana hendur … .

Bjarney var lágvaxin, nokkuð breið á herðar en mjög grannholda. Hún var gædd allt að því yfirskilvitlegri orku og seiglu, var kvik en þó að því er virtist mjúk í hreyfingum, fágætlega létt á fæti og gat frekar heitið að hún hlypi við fót en gengi hratt þó að ekki færi hún nema milli bæjanna þarna í Núpsþorpinu. Hún var alkunn að geðprýði og brjóstgæðum og eins og áður getur var hún kattþrifin. Myndarleg var hún til verka bæði úti og inni og kappsöm að sama skapi. Að greind mun hún hafa verið í meðallagi og bar þar mjög af Jóhannesi.[90]

 

Er Bjarney og Jóhannes bjuggu á Birnustöðum mun hann oftast hafa verið kokkur á skútum frá því snemma á vorin og fram á haust og var Bjarney þá stundum ein heima með börnin.[91] Aðstæðum Bjarneyjar á Birnustöðum, þegar hún var þar ein með börnin, lýsir Guðmundur Hagalín vel og byggir þar á samtölum sínum við hana:

 

 – Hún varð að hugsa um börnin, bera heim þang og skera sinu handa kúnni og sjá um að þessar fáu kindur, sem þau hjónin áttu, færu ekki svo langt að hún gæti ekki litið til þeirra þegar þær færu að bera. – „Ég hljóp stundum hart, elskan mín”, sagði Bjarney við Hagalín, „þegar ég var að koma heim frá kindunum. Höfðu nú blessuð börnin farið sér að voða? Og þegar ég fór fram hjá fjósdyrunum heyrði ég hungurbaulið í vesalings kusu minni.”[92]

 

Svo kom að sauðburðinum. Þá fór tófan að bíta. Bjarney reyndi að halda ánum heima en þær sóttu á hlíðina. Hún var á ferli nótt og dag og dugði ekki til því eitthvað af lömbunum beit tófan.[93] „Það var eins og hún vissi að lítið væri um varnir”, sagði Bjarney síðar.[94] Er Guðmundur Hagalín heimsótti Bjarneyju og Jóhannes á Rana sumarið 1919 sagði hún við hann:

 

„Það er nú ekki orðin nein Birnistaðavesöld á okkur lengur, guði sé lof, – er annað en þegar ég var ein, – kornabarn í vöggunni og ég eltandi tófu sem var lögst á unglömbin hjá mér. … Þá stytti ég mig nú rúmlega upp fyrir hné, – ójá elskan mín, enda fannst mér hann þyngja mig ótrúlega, soldátabyssuhólkurinn sem ég þorði ekki annað en halda út frá mér, sí svona sko, af því að hann var hlaðinn.[95]

 

Einn sumarmorgun er Bjarney var um sextugt lagði hún af stað frá Rana  í Núpsþorpinu að jöfnu báðu óttu og miðmorguns að sækja tvær dilkær og gemling upp í Breiðhillu. Er hún kom til baka með kindurnar fáum stundum síðar spurði Hagalín hvort hún væri ekki þreytt. Að hans sögn var svar hennar þetta:

 

Ne-hei. Ég kann að hafa verið rjóð en hvorki sveitt né mædd þegar ég kom upp í hilluna. Það var þá duggunarlítið annað að bera hundrað punda mélsekk upp þá Birnistaðabakka og flýta sér í blóðspreng, komin langt á sjöunda mánuð og engin hjálp í bænum en blessuð börnin tvö hágrátandi í varpanum.[96]

 

Allt varpar þetta ljósi á hina hörðu lífsbaráttu hjónanna á Birnustöðum undir lok síðustu aldar og sýnir vel hvað konurnar sem bjuggu við þvílík kjör máttu reyna. Arnór Árnason, sem fæddur er árið 1916 og man vel eftir Jóhannesi lamba, segir að þegar þau Bjarney voru á Birnustöðum hafi kýrin þeirra stundum verið inn á Arnarnesi og Bjarney farið þangað til mjalta einu sinni á dag.[97]

Af frásögnum Guðmundar Hagalíns má ráða að einn helsti styrkur þessara Birnustaðahjóna í þeirra lífsstríði hafi verið glaðlyndi. Á sjötugsaldri reyndi Jóhannes, maður Bjarneyjar, að kenna Guðmundi Hagalín og bræðrum hans hvernig þeir ættu að bera sig að við kvenfólkið. Boðskap sinn um þau efni orðaði karlinn svo:

 

„Það er mín reynsla í lífinu að þess frekari sem maður sé og harðari og snöggari í áhlaupinu því meiri líkur séu fyrir góðum árangri. Það er nefnilega sko þetta, drengir mínir: Það má ekki gefa kvenfólki tóm til að hugsa, – það getur klárlega rotað í þeim fjörfiskinn.” [98]

 

Árið 1894 höfðu Bjarney og Jóhannes búið á Birnustöðum í níu ár og fluttust þá inn í Alviðru með börn sín fimm.[99] Í kotunum kringum Alviðru og Núp áttu þau fram undan langa lífdaga og undu löngum glöð við sitt.

Vorið 1895 fóru karl og kona úr Borgarfirði að búa á Birnustöðum og pússaði séra Þórður á Gerðhömrum þau saman í hjónaband þá um haustið.[100] Húsfreyjan hét Guðrún og var dóttir séra Magnúsar Sigurðssonar á Gilsbakka sem dó árið 1858.[101] Maðurinn sem hún gekk að eiga vestur í Dýrafirði haustið 1895 hét Vilhjálmur Sigurðsson og var líka úr Hvítársíðu.[102] Hann var seinni eiginmaður Guðrúnar. Þau Vilhjálmur og Guðrún bjuggu aðeins í eitt ár á Birnustöðum því árið 1896 var jörðin komin í eyði.[103] Þar var þó aftur farið að búa árið 1897 og næstu tíu ár hélst jörðin í byggð. Enginn þeirra sem hófu búskap á Birnustöðum eftir 1890 bjuggu hér lengur en í fimm ár og flestir þessara síðustu ábúenda voru hér aðeins í eitt ár (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 299).

Vorið 1906 fengu hjónin Guðmundur Engilbertsson og Anna Bjarnadóttir Birnustaði til ábúðar. Næsta vetur fórst Halldór sonur þeirra í snjóflóði í Vogunum, nálægt landamerkjum Arnarness og Birnustaða.[104] Hann var að koma úr kaupstað og fór frá Arnarnesi þegar komið var undir rökkur.[105] Ætla má að sonarmissirinn hafi stuðlað að brottför Guðmundar og Önnu frá Birnustöðum en þau fluttust þaðan vorið 1907 og síðan hefur ekki verið búið á jörðinni. Túnið var þó slegið fram yfir 1920 og var heyið bundið og látið renna á streng niður í bát sem lá við festar við fjöruna  undir Björgunum.[106]

Frá bæjartóttinni á Birnustöðum röltum við út bakkana og stefnum á Fjallaskaga. Leiðin milli þessara tveggja eyðibýla er um það bil fimm kílómetrar ef miðað er við loftlínu en best er að ætla sér að minnsta kosti þrjá til fjóra tíma í ferðina því leiðin er giljótt og víða erfitt yfirferðar. Landamerki milli jarðanna eru á miðri leið þar sem heitir Seljagil[107] en voru áður við Stertagil[108] sem er lítið eitt innar.

Skammt utan við túnið á Birnustöðum er Brimgil og þar heitir Brimgilsvík við sjóinn.[109] Litlu utar er Stóragil en lækurinn sem fellur í það heitir Múlalækur.[110] Gil þessi ná bæði úr fjöru og allhátt upp í fjallshlíðina. Rétt innan við Stóragil er klettur fram á sjávarbökkunum sem heitir Sjónarklettur.[111] Þar þótti gott að svipast um til kinda.[112]

Utan við Stóragil og Múlalæk eru Múlarnir og niður við sjóinn Múlavík.[113] Múlarnir eru háir sjávarbakkar milli Stóragils og Stertagils og nafnið nær líka yfir svolítið gróðurlendi hér ofan við bakkana. Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er getið um fornt eyðiból í landi Birnustaða sem sagt er að hafi heitið Lambamúli. Um þetta segir svo í Jarðabókinni:

 

Lambamúli. – Fornt eyðiból hér í landinu út við Stertagil, sem nú eru haldin landamerki milli Skaga og Birnustaða, og er sagt að landið, sem þessi eyðijörð hafi átt, skuli hafa lagst til beggja jarðanna þá byggðin féll af. Ekki má hér aftur byggja því skriða er fallin yfir bæjarstæðið og landið í hrjóstur komið.[114]

 

Er Árni Magnússon kom í Dýrafjörð árið 1710 hafa menn ekki kunnað að gera grein fyrir því hvenær býlið Lambamúli fór í eyði og má því telja nær fullvíst að hér hafi alls ekki verið búið eftir 1600. Í Jarðabókinni er skriða sögð hafa fallið yfir bæjarstæðið en Jón Gabríelsson, sem bjó á Fjallaskaga um aldamótin 1900, greindi svo frá að enn sæist þarna móta fyrir fornum tóttum á stöku stað og leifum af hlöðnum túngarði.[115] Eftir Jóni er haft að tóttir þessar séu rétt utan við Stóragil en í Jarðabókinni er sagt að Lambamúli hafi verið út við Stertagil.[116] Hér skeikar að vísu ekki miklu en tæpur kílómetri er þó á milli giljanna. Jón Gabríelsson lét sér detta í hug að þegar hér var búið hafi Stóragil ekki verið hlaupið og þá muni hafa verið allstórt graslendi umhverfis bæinn.[117] Skammt neðan við bæjartóttirnar í Múlunum segir hann vera Halldórsflöt er talið sé að dragi nafn af manni sem þar hafi orðið bráðkvaddur.[118] Engar bæjartóttir eru nú sjáanlegar á Múlunum en þar eru auðfundnar tvær tóttir af stórum hringlaga sauðabyrgjum enda átti Núpskirkja 60 sauða beit á Skagahlíðum samkvæmt fornum máldögum (sjá hér Núpur).

Í nánd við rústir sauðabyrgjanna á Múlunum þarf að velja milli tveggja leiða sem til greina koma þegar farið er út á Skaga. Efri leiðin liggur um Hærrihlíð og síðan út yfir Ufsir sem eru skammt fyrir neðan klettaþilin efst í fjallinu fyrir innan og ofan Skaga.[119] Þessi leið var farin með stórgripi[120] og er öruggara fyrir þá sem hika við að þræða tæpan stíg á klettabrún (sjá hér Fjallaskagi). Ufsagatan, sem áður var rudd á hverju vori,[121] er hins vegar talsvert seinfarnari en neðri leiðin.[122] Við sem nú erum á ferð kjósum neðri leiðina sem á löngum kafla liggur með sjó en látum Ufsagötu bíða annars tíma.

Utan við Múlana komum við að Stertagili sem nær úr fjöru og upp í miðja hlíð.[123] Munnmæli herma að þar hafi Dýrfirðingar fellt einn eða tvo úr hópi erlendra ránsmanna er menn kölluðu Sterta.[124] Sagnir þessar tengjast tvímælalaust Spánverjavígunum á Fjallaskaga árið 1615, þegar Dýrfirðingar felldu þar þrettán hvalveiðimenn frá Norður-Spáni eins og frá er sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Fjallaskagi). Í elstu heimildum um þann atburð segir að þessir þrettán menn hafi allir verið drepnir á Fjallaskaga og líkum þeirra sökkt í sjó (sjá hér Fjallaskagi). Hugsanlegt er að einhver líkanna hafi rekið á land og verið urðuð hér í gilinu. Um þetta er þó ekkert vitað en í þjóðsögum er frá því hermt að Spánverjarnir sem drepnir voru á Fjallaskaga hafi verið dysjaðir í Stertagili.[125] Við innanverðan Tangann á Fjallaskaga heitir á einum stað Stertalending og hefur verið talið að þar hafi Spánverjarnir frá 1615 stigið á land.[126] Sú skýring er gefin á nafninu Stertar að sjómenn þessir sunnan frá Spáni hafi verið í treyjum með löngu stéli að aftan[127] en aðrir hafa látið sér detta í hug að Stertar sé afbökun úr Serkjar[128] og er þá gengið út frá þeirri forsendu að Dýrfirðingar hafi talið Spánverjana vera Serki frá Norður-Afríku en ríki þeirra á Spáni leið reyndar undir lok fyrir miðja 13. öld. Allt sem hér hefur verið ritað um Stertagil sýnir að í raun liggur ekki fyrir nein ótvíræð skýring á nafni þess. Vel má þó vera að hinar gömlu munnmælasögur geymi sannleikskjarna og það séu Spánverjarnir frá 1615 sem nefndir hafi verið Stertar.

Athygli vekur að í einni frásögn er haft eftir Jóni Gabríelssyni, sem áður bjó á Fjallaskaga, að Stertagilin séu tvö, hið innra og hið ytra.[129] Þar er þó líklega um misskilning að ræða því um þetta er ekki getið í örnefnalýsingu þeirri sem hér hefur verið stuðst við. Sú lýsing er einkum byggð á orðum Zóphoníusar Jónssonar en hann var sonur Jóns Gabríelssonar og ólst upp á Skaga.[130] Ef til vill hefur þetta skolast til vegna þess að Seljagil, sem er næsta gil fyrir utan Stertagil, skiptist er fjær dregur sjó í tvö gil[131] og heita þau Þorgrímsgil og Örnólfsgil.[132] Upp af Stertagili og Seljagili eru Skörðin er svo heita og rjúfa klettavegginn upp undir fjallsbrúninni. Um þau er fært yfir á Ingjaldssand eins og hér hefur áður verið greint frá og var sú leið stundum farin með nautgripi að sumarlagi.[133] Um miðbik 19. aldar voru Skörð þessi þó aðeins talin fær gangandi mönnum.[134] Milli Stertagils og Seljagils er ekki langt en á hlíðinni milli þessara tveggja gilja er allstórt svæði vaxið lyngi og víði. Þar heitir Laxaskógur.[135] Um Seljagil liggur leið okkar niður í fjöruna en gil þetta skiptir nú löndum milli jarðanna Birnustaða og Fjallaskaga eins og sjá má í þinglýstri landamerkjaskrá frá árinu 1891.[136] Árið 1710 voru merkin milli jarðanna hins vegar talin vera við Stertagil[137] en hér verður ekki reynt að leita skýringa á þessari breytingu. Í fjörunni neðan við Seljagil stígum við yfir landamerkin og höfum þá gengið um það bil helming leiðarinnar frá Birnustöðum að Skaga.

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – o o o o o – – – – – – –

 

[1] Örnefnaskrá.

[2] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 81.

[3] Sama heimild.

[4] Örn.skrá.

[5] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 83.

[6] Sóknalýs. Vestfj. II, 81.

[7] Jarðabók Á. og P. VII, 83.

[8] Sama heimild.

[9] Sama heimild.

[10] Sama heimild.

[11] Valdimar Kristinsson, Núpi – Viðtal K.Ó. við hann 29.6.1993.

[12] Sama heimild.

[13] Jarðabók Á. og P. VII, 83.

[14] Sama heimild.

[15] Sama heimild.

[16] Sama heimild.

[17] Örn.skrá.

[18] Sóknalýs. Vestfj. II, 81.

[19] Sama heimild.

[20] D.I. VIII, 688.

[21] Sama heimild.

[22] D.I. IV, 688, V, 502, VIII, 263, X, 679-681, XV, 508 og 522.

[23] D.I. VIII, 263 og X, 679-681.

[24] D.I. XV, 508.

[25] Sama heimild, 508 og 522.

[26] Sama heimild.

[27] Alþingisbækur Íslands VII, 443-444 og XV, 543 og 571.

[28] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681, jarðaskrá og búenda í Skálholtsbiskupsdæmi.

[29] Manntal 1703.

[30] Jarðabók Á. og P. VII, 83.

[31] Sama heimild og D.I. XV, 522.

[32] Jarðabók Á. og P. VII, 83.

[33] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, Ísafj.s.1735, eftirrit.  Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753. Manntal 1762.

[34] Alþ.bækur Ísl. XV, 543 og 571.

[35] Sama heimild.

[36] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga og Manntöl frá 19. öld.

[37] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[38] Manntal 1801, vesturamt, bls. 336.

[39] J. Johnsen 1847, 194.

[40] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga og Manntal 1801.

[41] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[42] Sama heimild.

[43] Sama heimild.

[44] Sama heimild og Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[45] Sömu heimildir.

[46] Manntal 1801.

[47] Manntal 1801.

[48] Manntal 1801.

[49] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[50] Guðmundur G. Hagalín 1951, 11 og 14. Vestfirskar sagnir III, 27.

[51] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 4. Dóma- og þingbók 1790-1805.

[52] G.G. Hag. 1951, 11 og 14.

[53] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[54] Sama heimild.

[55] Sama heimild og prestsþj.bók Holts í Önundarfirði.

[56] Manntal 1801.

[57] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[58] Vestf. sagnir III, 27.

[59] Vestf. sagnir III, 27-35 og 233-238. Vestf. þjóðsögur III, 1, 66-76 og G.G. Hag. 1951, 10-16.

[60] Vestf. sagnir III, 27-35 og G.G. Hag. 1951, 10-16.

[61] Vestf. sagnir III, 233-238 og Vestf. þjóðsögur III, 1, 66-76.

[62] Vestf. sagnir III, 35.

[63] Sama heimild.

[64] Vestf. sagnir III, 32-34 og G.G. Hag. 1951, 15-16.

[65] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[66] Sömu heimildir.

[67] Skj. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 4. og 5., dóma- og þingbækur 1790-1805 og 1805-1817.

[68] Íslenskar æviskrár III, 165.

[69] G.G. Hag. 1951, 13-14, sbr. Vestf. sagnir III, 27-35.

[70] Ísl. æviskrár I, 311.

[71] Skj. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 4. og 5., dóma- og þingbók 1790-1805, 166 og dóma- og þingbók 1805-1817, 48.

[72] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[73] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[74] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[75] Sama heimild.

[76] Lbs. 27364to, bls. 154 (Magnús Hjaltason).

[77] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[78] G.G. Hag. 1951, 14-16.

[79] Óskar Einarsson 1951, 164.

[80] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 2., búnaðarskýrsla 1850 og Manntal 1850

[81] J. Johnsen 1847, 194. – Sbr. Manntal 1845 og 1850.

[82] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 2., búnaðarskýrsla 1850.

[83] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 2., búnaðarskýrsla 1850.

[84] Sama heimild.

[85] Sama heimild.

[86] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[87] Lbs. 23744to, Dagbók S.Gr.B. 31.5.1885.

[88] Arnór Árnason, Vöðlum. – Viðtal K.Ó. við hann 3.8.1993

[89] G.G. Hag. 1952, 205-208 og Sami 1973, 46-80.

[90] G.G. Hag. 1973, 51-52.

[91] Sama heimild og G.G. Hag. 1952, 206.

[92] G.G. Hag. 1952, 206.

[93] Sama heimild.

[94] Sama heimild.

[95] G.G. Hag. 1973, 49.

[96] G.G. Hag. 1973, 57.

[97] Arnór Árnason, Vöðlum. – Viðtal K.Ó. við hann 3.8.1993.

[98] G.G. Hag. 1973, 55.

[99] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[100] Lbs. 23754to, Dagbók S.Gr.B. 15.11.1895.

[101] Sama heimild og Ísl. æviskrár III, 454.

[102] Ísl. æviskrár III, 454. Lbs. 23754to, Dagb. S.Gr.B. 15.11. 1895.

[103] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[104] Örn.skrá og Jóhannes Davíðsson 1968, 56 (Ársrit S.Í.).

[105] Örn.skrá.

[106] Jóh. Dav. 1968, 56-57.

[107] Örn.skrá.

[108] Jarðabók Á. og P. VII, 83.

[109] Örn.skrá.

[110] Sama heimild.

[111] Sama heimild.

[112] Sama heimild.

[113] Sama heimild.

[114] Jarðabók Á. og P. VII, 83-84.

[115] Vestf. sagnir III, 121-122.

[116] Sama heimild og Jarðabók Á. og P. VII, 83-84.

[117] Vestf. sagnir III, 121-122.

[118] Sama heimild..

[119] Örn.skrá.

[120] Sóknalýs. Vestfj. II, 81.

[121] Örn.skrá.

[122] Valdimar Kristinsson, Núpi. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[123] Örn.skrá.

[124] Vestf. sagnir II, 356-357.

[125] Vestf. sagnir I, 361-364.

[126] Örn.skrá og Vestf. sagnir II, 356-357.

[127] Vestf. sagnir I, 361-364.

[128] Örn.skrá.

[129] Vestf. sagnir II, 356-357.

[130] Örn.skrá.

[131] Sama heimild.

[132] Valdimar Kristinsson, Núpi. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[133] Örn.skrá.

[134] Sóknalýs. Vestfj. II, 85.

[135] Örn.skrá.

[136] Sama heimild.

[137] Jarðabók Á. og P. VII, 83.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »