Brekka á Ingjaldssandi

Brekka á Ingjaldssandi

Á Ingjaldssandi var Brekka næst stærsta bújörðin, 48 hundruð að dýrleika samkvæmt fornu mati.[1] Brekka á allt land austan Þverár og Langár, frá efstu grösum fyrir botni Brekkudals og niður að landamerkjum á móti Villingadal en þau eru við Merkisgil, skammt fyrir utan túnið á Brekku.[2] Fyrstu aldirnar sem búið var í landinu mun Brekka að líkindum hafa átt allt land austan Langár, alla leið til sjávar. Ótvíræðar sannanir fyrir því að svo hafi verið munu að vísu vandfundnar en benda má á að á 17. öld héldu greinargóðir menn á Ingjaldssandi því fram að Villingadalur hefði byggst úr landi Brekku (sjá hér Villingadalur) og niður við sjóinn, fyrir norðan Villingadal, heitir enn Brekkunes austan Langár. Sú landspilda hefur nú verið í eigu Sæbóls í a.m.k. þrjár aldir (sjá hér Sæból).

Á ferð okkar um Ingjaldssand komum við fyrst í landareign Brekku fremst á Brekkudal en þaðan eru liðlega fjórir kílómetrar heim að Brekku. Frá brún Sandsheiðar blasir dalurinn við austan við fjallið Þorsteinshorn en að réttu lagi á nafnið Brekkudalur þó aðeins við landið austan Þverár eins og hér var áður rakið (sjá bls. Háls). Austan við dalinn gnæfir Brekkufjall og nær alla leið norður að Villingadalshvilft sem er utan og ofan við túnið í Villingadal.[3] Fjallsbrúnin er víðast hvar í liðlega 600 metra hæð yfir sjávarmáli en neðan við hana er nær óslitið hamrabelti sem fylgir brúninni alla þessa nær 5 kílómetra löngu leið. Göngu okkar niður dalinn hefjum við frá Leynihjalla fremst í dalbotninum en upp frá honum rís fjallið Leynihjallahorn.[4] Þar sem Brekkufjall beygir til norðurs frá Leynihjallahorni er allstór kvos eða skál við efstu brúnir og heitir Grjótskál.[5] Lítið eitt norðar er í fjallinu stórt klettabelti sem heitir Kambar.[6] Úr Grjótskál fellur Grjótskálarlækur og neðan við Leynihjalla, í krikanum milli lækjarins og Þverár, heita Dumbutungur.[7] Dálítið utan við Grjótskál og rétt utan við Kambana, klettabeltið sem áður var nefnt, er allmikið gil í fjallinu, ófært yfirferðar fyrir ofan miðja hlíð.[8] Klettagangur þar við gilið heitir Strengberg.[9] Niður undan Strengbergi er dálítill stararfláki við ána og heitir Fremstaengi.[10] Mun það vera fremsti slægjubletturinn á Brekkudal. Heiman við Fremstaengi er Miðengisholt og upp af því er Gatklettur í fjallsbrúninni.[11] Nafnið á klettinum skýrir sig sjálft. Dálítið heiman við Miðengisholt er annað holt, grasi gróið og nær frá Þverá upp undir fjallið. Milli þessara tveggja holta er Miðengi.[12]

Frá holtinu heimantil við Miðengi tekur við gróið land sem ber nafnið Sel. Hér eru tóttir af seli bændanna á Brekku og er talið að hér hafi búsmali verið nytkaður fram á 19. öld.[13]

Frá brúnni þar sem þjóðvegurinn liggur nú yfir Þverá er rösklega einn kílómetri fram að Selinu en beint á móti því, handan árinnar, beygir þjóðvegurinn frá ánni upp að fjallinu Þorsteinshorni. Seltóttirnar standa spölkorn frá árbakkanum og eru auðfundnar. Hér eru þrjár nokkuð stórar tóttir, 5-6 metrar á lengd hver og allt upp í 3-4 metrar á breidd. Í kring eru svo smærri tóttir. Sjálfar seltóttirnar eru upp við hlíðarfótinn, framantil við gróna skriðu en mjaltakvíin er heimantil við þessa sömu skriðu. Rétt fyrir framan seltóttirnar er neðst í fjallshlíðinni holt sem skilur að Miðengi og Sel. Ofan við þetta holt er Hjásetusteinn og við hann rústir af smalakofa en á Brekku var síðast fært frá sumarið 1942.[14] Hlíðin hér ofan við Selið heitir Seljahlíð og nær fram að gilinu við Strengberg sem hér var áður nefnt.[15] Sá hluti Brekkufjalls sem er hér ofan við Selið var líka nefndur Seljafjall og það nafn mun reyndar hafa verið notað um allt fjallið frá Strengbergi og Kömbum út að Dagmálagróf sem er lítil en djúp hvilft í háfjallinu rétt framan við Stóruskriðu en svo heitir afarmikið gil er nær frá efstu brún niður á láglendi þar sem Brekkuhlíð tekur við af Brekkudal.[16] Dagmálagróf sem hér var nefnd mun hafa verið eyktamark frá Hálsi.[17]

Í kringum seltóttirnar eru valllendisgrundir en lítið eitt heimar á dalnum koma Seljabrekkur. Niður af þeim fellur Þverá í fossi. Á Brekku var foss þessi nefndur Seljabrekkufoss en á Hálsi var hann nefndur Skógarbrekkufoss.[18] Frá Seljabrekkufossi höldum við göngu okkar áfram um fögur engjalönd. Fyrst er það Fremstipartur, þá Töðumóur og svo Fornuseljapartur.[19] Framan við Fornuseljapart er stór skriða sem nefnd er Hvarf. Frá henni sést fyrst heim að Brekku þegar komið er niður dalinn.[20] Heimantil í Fornuseljaparti er stór grasi vaxin hæð á bakka Þverár og þar sést móta fyrir gömlum rústum af miklum byggingum.[21] Hér heita Fornusel[22] og eru þau skammt frá brúnni sem nú er ekið um yfir Þverá og byggð var árið 1956.[23]

Heimantil við Fornusel beygir Þverá til vesturs og fellur þar í þremur fossum sem áður hafa verið nefndir fram af hálsbrúninni ofan við ármót Þverár og Langár (sjá hér Háls). Á síðara tímum hefur sú kenning fengið byr að lækurinn Ósómi sem um er getið í Landnámabók muni vera Þverá (sjá hér Svipast um á Ingjaldssandi). Sem skýringu á hinu forna nafni hafa menn látið sér detta í hug að það sé dregið af hljómfögrum ómi neðsta fossins. Hugsunin á bak við nafnið hefur þá verið Ós-ómi en ekki Ó-sómi.

Brekkurnar sem Þverá fellur um hér í dalsmynninu heita Fossabrekkur[24] en neðan við þær þrýtur hálsinn sem gengur norður úr fjallinu Þorsteinshorni. Frá árbakkanum við fossinn sem síðast var nefndur og heim að Brekku eru aðeins einn og hálfur til tveir kílómetrar, út með Brekkuhlíð sem byrjar við Stóruskriðu er áður var nefnd, hér örskammt frá. Ætla má að nafnið Stóraskriða hafi í fyrstu verið notað um hina miklu skriðu sem augsýnilega hefur komið úr gilinu sem hér er í Brekkufjalli á mörkum dals og hlíðar. Nafn skriðunnar hefur síðan færst yfir á sjálft gilið sem nú heitir Stóraskriða að sögn kunnugra.[25]

Heiman við Stóruskriðu eru í hlíðinni tveir hryggir sem heita Fremri- og Heimri-Fornahlaðshryggur.[26] Milli þeirra er gamall stekkur sem menn nefndu Fornahlað.[27] Eyrin sem hér er niður við ármót Þverár og Langár heitir Slátteyri en dálítið norðar gengur önnur eyri út í Langá og heitir Hraunseyri.[28] Síðarnefnda eyrin er beint á móti Þrjót sem er hár hóll fremst í túninu á Hrauni.[29] Hér ofan við Hraunseyrina og niður með Langá þar sem áður var óbrotið land eru nú tún frá Brekku sem ræktuð hafa verið upp á síðustu áratugum en framan við sjálft heimatúnið á Brekku er hóll a bakka Langár, grasi vaxinn að ofan. Þetta er Reiðhóll en niður úr honum gengur stór eyri, sem heitir Bjarneyri, fram í Langá.[30] Framan í Reiðhól lá gamla reiðgatan sem farin var heim að Brekku fyrir bílaöld.[31] Nú er brú á Langá rétt neðan við hólinn, byggð árið 1956.[32]

Að fornu mati var Brekka 48 hundraða jörð eins og fyrr var nefnt og hér var oft margbýlt. Nú er hér allt í eyði og hefur svo verið frá árinu 1991 (sjá Firðir og fólk 1900-1999).

Brekkutúnið nær alveg niður að Langá en bærinn stendur hátt í framanverðu túninu. Frá Brekku er stutt að Hrauni og Álfadal en báðar þær jarðir eru handan ár, Hraun svolítið framar en Brekka en Álfadalur lítið eitt neðar. Brekka er fallegt býli, segir séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum árið 1840.[33] Hann tekur fram að þaðan sjáist til allra bæja á Sandinum og hægt sé að greina hvað fólk hafi fyrir stafni á hverjum bæ.[34] Séra Jón lýsir landkostum á Brekku, nefnir gott mótak fremst í Brekkudal og segir síðan:

Þar [á Brekku] er slétt og harðlent tún en ekki stórt eftir hundraðatölu. Útislægjur eru þar mestar á Sandi fram frá bænum með ánni, allt að Hálsi og fram á Brekkudal. Þær eru mjög votlendar hið lægra. Efst með hlíðinni er mjög skriðurunnið.[35]

 

Í heimild frá árinu 1968 segir að neðri engjarnar á Brekku nái óslitið fram að Hálsþverá[36] en Þverá sem skiptir löndum milli Háls og Brekku fram í dalnum mun stundum hafa verið nefnd þessu nafni, Hálsþverá.

Jóhannes Davíðsson segir að vindasamt sé á Brekku en upplýsingar um ókosti jarðarinnar er annars helst að finna í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710. Þar segir:

 

Útigangur við lakari kost. Torfrista og stunga lök. Móskurður til eldiviðar nægur með sverði. Engjarnar spillast stórlega af skriðum úr brattlendi sem áeykst meir og meir. Hætt er kvikfé fyrir snjóflóðum. Vatnsvegur er bæði erfiður og langur í Langá og torsóttur á vetur fyrir fannlögum og svellum. Hætt er húsum og heyjum fyrir stórveðrum.[37]

 

Um Brekku á Ingjaldssandi er getið í Landnámabók og sagt að þar hafi búið Grímur kögur sem keypti lækinn Ósóma af nágranna sínum, Ljóti spaka. Frá viðskiptum Gríms og Ljóts hefur áður verið sagt á þessum blöðum og rakin frásögn Landnámu af þeim atburði er Kögurssynir frá Brekku vógu Ljót spaka (sjá hér Svipast um á Ingjaldssandi). Mat manna á sannleiksgildi þeirra frásagna er án efa breytilegt en burtséð frá því verður frásögn Landnámabókar af ræktunarviðleitni þessa 10. aldar bónda á Brekku að teljast mjög merkileg en þar er frá því greint að hann hafi veitt vatni úr læknum Ósóma á eng sína.

Utan Landnámabókar er Brekku hvergi getið í íslenskum fornritum en í máldaga sem Maríukirkjunni á Sæbóli á Ingjaldssandi var settur árið 1306 er getið um bænhús á Brekku.[38] Þar segir að Árni Helgason, sem var biskup í Skálholti á árunum 1304 til 1320, hafi mælt svo fyrir að í bænhúsinu á Brekku skyldi syngja tíðir þrisvar á ári, á Jónsmessu, Pétursmessu og Ólafsmessu,[39] það er 24.júní, 29. júlí og 22. febrúar.

Ekki er ljóst hvort bænbúsið hefur verið nýlegt þegar Árni biskup vísiteraði á Ingjaldssandi sumarið 1306 en það átti þá langa framtíð fyrir höndum. Í Vilkinsmáldaga frá árinu 1397 er tekið fram að á Ingjaldssandi séu málefni kirkju og kristnihalds með sama hætti og verið hefði árið 1306[40] en í Gíslamáldaga frá árunum upp úr 1570 er ekki minnst á bænhús á Brekku.[41] Með hliðsjón af því má ætla að tíðasöngur í bænhúsi þessu hafi fallið niður um siðaskipti og máske nokkru fyrr.

Í byrjun 18. aldar lifðu enn munnmæli um að bænhús hefði verið á Brekku að fornu og þá sáust á einum stað í heimatúninu þar líkindi til þvílíkra tóttaleifa með girðingu í kring.[42] Magnús Hjaltason, sem átti um skeið heima á Brekku á síðasta áratug 19. aldar, segir að ummerki um bænhúsið hafi þá enn verið sjáanleg  fyrir framan bæjarlækinn.[43]

Við réttarhald sem fram fór á Mýrum í Dýrafirði 17. júní 1727 kváðust ýms vitni hafa heyrt að bænhúsið á Brekku hefði átt ítök í Nesdal og á Heiðum.[44] Í byrjun 18. aldar var almennt viðurkennt að hálfkirkjan eða bænhúsið sem enn stóð uppi á Álfadal árið 1710 hefði átt þriðjung lands í Nesdal og á Heiðum en tveir þriðju hlutar þessara beitilanda voru þá í eigu Sæbólsmanna og kirkjunnar á Sæbóli (sjá hér Sæból). Vitnisburðirnir frá árinu 1727 gefa þeirri hugmynd byr undir vængi að á fyrri öldum hafi guðshúsin þrjú á Ingjaldssandi átt sinn þriðjunginn hvert í Nesdal og beitilandinu á Heiðum en um 1600 eða fyrr hafi Sæbólsmenn náð að bæta við sig þeim þriðjungi sem bænhúsið á Brekku hafði átt.

Sé litið fram hjá Grími kögur, sem hér var áður nefndur, reynist Guðmundur Arason ríki vera fyrstu eigandi Brekku sem um er vitað með vissu. Á árunum kringum 1420 greiddi hann Þorgerði Ólafsdóttur, stjúpmóður sinni, ýmsar jarðir í mála hennar og var Brekka á Ingjaldssandi ein þeirra.[45] Líklegt er að Brekka hafi síðar á sömu öld komist í eigu Björns Þorleifssonar hirðstjóra eins og margar aðrar eignir Guðmundar Arasonar og fullvíst er að Jón danur, sonur Björns hirðstjóra, átti Brekku og fleiri jarðir á Ingjaldssandi.[46] Er Jón danur andaðist árið 1508 varð Björn Guðnason í Ögri eigandi Brekku og margra annarra jarða sem Jón hafði átt.[47] Þegar Björn í Ögri andaðist tíu árum síðar náði Ögmundur Pálsson Skálholtsbiskup mörgum jarða hans undir sig en erfingjar Björns töldu biskup hafa tekið þær með ofríki.[48] Haustið 1524 afhenti Ögmundur biskup Birni Þorleifssyni á Reykhólum mikið jarðagóss sem Björn í Ögri hafði talið sig eiga en biskup taldi Björn á Reykhólum réttan erfingja að eftir Jón dan.[49] Meðal þessara eigna voru Brekka og fleiri jarðir á Ingjaldssandi.[50] Björn Þorleifsson á Reykhólum gaf síðan syni sínum, Þorleifi presti, þrjár jarðir á Sandinum og voru það Sæból, Brekka og Villingadalur. Lenti hann þar í hörðum deilum vð Torfa, son Björns í Ögri, um yfirráð þessara jarða (sjá hér Sæból). Skömmu síðar mun Ögmundur biskup hafa náð Brekku og Villingadal undir sig því báðar þessar jarðir eru á skrá yfir jarðeignir sem þessi síðasti kaþólski biskup í Skálholti átti en voru gerðar upptækar við siðaskiptin og urðu þá konungseign.[51] Brekka var síðan konungsjörð allt til ársins 1790[52] eða í nær 250 ár. Árið 1571 var árleg landskuld af Brekku eitt hundrað (120 álnir) og jörðinni fylgdu þá 5 kúgildi.[53] Auk landskuldar og leigna fyrir kúgildin fékk kóngur á því ári hálfa vætt fiska (10 álnir) í vertoll frá Brekku[54] sem sýnir að fjaran austan Langár og Brekkunesið norðan við Villlingadal (sjá hér Villingadalur) hefur þá enn verið í eigu Brekku. Lendingin var í Sandvík[55] sem er mjög skammt innan við árósinn, milli tveggja skerja.[56] Flest bendir til að þaðan hafi síðast verið sóttur sjór á árunum upp úr 1570 en Brekkumenn fengu þá skipsuppsátur við Sæbólssjó (sjá hér Svipast um á Ingjaldssandi). Til endurgjalds fyrir þau réttindi létu þeir fjöruna austan Langár og Brekkunes af hendi til eigenda Sæbóls (sjá hér Svipast um á Ingjaldssandi).

Fyrsti bóndinn sem um er kunnugt að búið hafi á Brekku á síðari öldum er Bjarni Nikulásson[57] en hann var kvæntur Halldóru, dóttur séra Ólafs Jónssonar, skálds og sóknarprests á Söndum í Dýrafirði (sjá hér Minni-Garður). Við réttarhald sem fram fór á Mýrum sumarið 1727 vitnaði Gísli Brandsson, sem þá var liðlega sjötugur, í það sem nefndur Bjarni hefði sagt sér fyrir löngu um landamerki á Ingjaldssandi.[58] Gísli tók fram að Bjarni hefði búið á Brekku og orðið a.m.k. 84 ára gamall.[59] Bjarni var 17. aldar maður en ekki er alveg ljóst á hvaða árum hann bjó á Brekku. Hér hefur áður verið sagt allmikið frá Nikulási, syni þeirra Bjarna og Halldóru (sjá hér Minni-Garður) en hann bjó á ýmsum bæjum í Mýrahreppi og varð gamall maður. Nikulás var fæddur um 1642 og er ekki ólíklegt að foreldrar hans hafi búið á Brekku um og eftir miðja öldina. Árið 1681 var Bjarni hins vegar hættur búskap á Brekku en þá var þar þríbýli og hét einn bóndinn Sigurður Bjarnason.[60] Árið 1703 voru býlin á Brekku orðin fjögur[61] en sjö árum síðar hafði aftur fækkað um eitt.[62]

Árið 1710 var landskuld af Brekku sex vættir fiska,[63] eða sem svaraði 120 álnum í landaurareikningi.[64] og hefur landskuldin því verið óbreytt frá því sem verið hafði um 1570. Leigukúgildunum sem fylgdu jörðinni hafði hins vegar fjölgað úr fimm í sex og leigurnar eftir þau áttu Brekkubændur að greiða í smjöri sem þeim bar að flytja heim til umboðsmannsins, Ara Þorkelssonar í Haga á Barðaströnd.[65]

Á árunum kringum 1700 lét kóngsumboðsmaðurinn í Haga gera út skip frá Sæbóli á Ingjaldssandi á hverju vori um 20 ára skeið.[66] Sérhverjum landseta á Brekku var þá skylt að leggja til mann í skiprúm og á Brekkubændum hvíldi þá líka sú kvöð að flytja fisk og lýsi í kaupstaðinn með formanninum, svo mikið sem kaupmannsvara var af fiskinum.[67] Hitt fiskifangið áttu þeir að flytja á hestum inn í Dýrafjörð, þangað sem tilsagt var,[68] en ætla má að síðan hafi Ari í Haga látið sækja fiskinn á skipi til Dýrafjarðar. Í Stórubólu sem hér geysaði á árunum 1707-1709 féll þessi Hagaútgerð frá Sæbóli niður og hafði ekki verið tekin upp á ný árið 1710.[69]

Árið 1762 var fjórbýli á Brekku. Einn bændanna sem bjuggu þar þá var Halldór Brandsson.[70] Halldór var frá Fjallaskaga og er talið að hann hafi á yngri árum farið í viðarferðir norður á Hornstrandir. Sagt er að þar hafi hann átt í höggi við galdramann og haft betur (sjá hér Fjallaskagi). Niðjar Halldórs bjuggu alllengi á Ingjaldssandi en meðal barna hans voru Jón Halldórsson, síðar hreppstjóri í Meðaldal í Dýrafirði, og Guðný sem varð kona Brynjólfs Hákonarsonar og fluttust með honum að Mýrum í Dýrafirði árið 1811 (sjá hér Mýrar). Þeirra niðjar bjuggu á Mýrum allt til ársins 1929.

Hér litlu framar var þess getið að Brekka hefði lengi verið kóngsjörð. Með tilskipun konungs frá 13. júní 1787 voru sex verslunarstöðum á Íslandi veitt kaupstaðarréttindi og var einn þessara verslunarstaða á Skutulsfjarðareyri þar sem nú er Ísafjarðarkaupstaður. Forsenda þess að hinn fyrirhugaði kaupstaður við Skutulsfjörð gæti orðið eitthvað meira en nafnið tómt var þó sú að land fengist til að byggja á. Allt land á Skutulsfjarðareyri var þá í eigu kirkjunnar sem lengi hafði staðið þar en árið 1790 varð að ráði að Eyrarkirkja léti af hendi lóð undir kaupstaðinn en fengi í staðinn jörðina Brekku á Ingjaldssandi.[71] Landspildan sem kóngur fékk í staðinn fyrir Brekku var neðri hlutinn af Skutulsfjarðareyri og mældist liðlega 400.000 ferálnir.[72]

Árið 1847 var Brekka enn í eigu Eyrarkirkju.[73] Árleg landskuld af jörðinni var þá eitt hundrað (120 álnir) og því með öllu óbreytt frá því sem verið hafði árin 1571 og 1710. Kirkjan á Eyri mun hafa átt jörðina fram yfir síðustu aldamót[74] og nú er hún ríkisjörð.

Á 19. öldinni var ýmist tví- eða þríbýli á Brekku og stundum var þar líka húsfólk.[75] Við lok aldarinnar mun ekkjan Rakel Sigurðardóttir þó hafa verið eini bóndinn á Brekku en þá var þar húsfólk í neðri bænum.[76] Rakel og eiginmaður hennar, Guðjón Arnórsson, voru bæði fædd norður í Jökulfjörðum en hófu búskap á Brekku árið 1888.[77] Veturinn 1893 var Guðjón við sjóróðra norður í Kálfadal sem er skammt fyrir innan Bolungavík. Þar andaðist hann aðfaranótt 21. mars úr heilablóðfalli.[78] Magnús Hjaltason, sem átti heima í Fremri-Breiðadal þennan vetur en varð seinna heimiliskennari á Brekku, segir frá andláti Guðjóns með þessum orðum í dagbók sinni 21. mars 1893:

 

Kom að norðan Sólmundur Guðmundsson frá Klukkulandi í Dýrafirði. Kom norðan af Ísafirði á leið út á Ingjaldssand til að láta vita dauðsfall Guðjóns Arnórssonar, bónda á Brekku, sem andaðist í Kálfadal síðastliðna nótt. Féll mikill maður þar sem Guðjón sálugi var. Hann var á margan máta góður drengur að sögn þeirra er þekktu hann og hinn vaskasti sjómaður.[79]

 

Að Guðjóni látnum hélt Rakel áfram búskapnum og stóð fyrir búi á Brekku til ársins 1904.[80]  Jóhannes Davíðsson, sem var kunnugur Rakel, segir hana hafa verið lága vexti, grannvaxna og létta á fæti, fríða sýnum, rauðhærða og frábæra tóskaparkonu.[81] Rakel varð 103ja ára gömul og dó á Vöðlum í Önundarfirði 26. október 1956.[82] Hún vann að tóskap fram yfir 100 ára aldur og var þá enn þráðbein í baki, − gæðakona og drengur góður að sögn kunnugra.[83]

Er Guðjón, maður Rakelar á Brekku, féll frá stóð hún uppi með þrjár dætur þeirra ungar og líka fjórðu stúlkuna sem Guðjón hafði eignast fram hjá henni með annarri konu.[84] Ein dætra Guðjóns og Rakelar var Hjaltlína er síðar varð eiginkona séra Sigtryggs Guðlaugssonar á Núpi. Þegar Rakel varð ekkja var hún um fertugsaldur og réð þá til sín ráðsmann sem hét Guðbjartur Jónsson. Hann var úr Dýrafirði. Orðin sem Jóhannes Davíðsson festi á blað um þennan ráðsmann á Brekku eru einkar athyglisverð og eiga skilið að koma fyrir sem flestra augu. Um Guðbjart ritaði Jóhannes svo:

 

Guðbjartur Jónsson var meira en í meðallagi á hæð, grannvaxinn og léttur á fæti, með jarpt alskegg og dökkt hár. Hann var barngóður með afbrigðum og elskuðu öll börnin á Brekku hann sem góðan föður. Glettinn var hann og gamansamur og orðheppinn, stálminnugur og glöggur fjármaður og góður fjárhirðir. Hann var hvorki læs né skrifandi en það „að líkna smælingjum var stafrófskver hans, lögbók og biblía” eins og séra Sigtryggur Guðlaugsson komst að orði í líkræðu yfir honum … .

Guðbjartur var talinn allvel efnaður af vinnumanni að vera og rann það inn í bú Rakelar ásamt vinnu hans og tók hann í staðinn nauðþurftir sínar og ást og virðingu fjölskyldunnar. Hann var svo góður í hugarreikningi og minnið svo trútt að hann seldi haust eftir haust fé frá Brekku og kindur frá undirfólki á Sandinum og stundum fyrir bændur. Hann þótti selja vel en þetta var eins konar torgsala. Féð var rekið til Ísafjarðar og leyfðu húseigendur að reka hópinn inn í girðingu um lóðir sínar. Kaupendur komu svo þangað og völdu sér kindur úr hópnum til skurðar og svo var þráttað og prúttað um verðið og þótti Guðbjartur laginn að selja vel. … Guðbjartur mundi svo er heim kom hvað kjöt, gærur og mör úr hverri kind vigtaði og lagði sig á margar krónur og aura og hvað hver átti að fá. Þetta endurtók sig ár eftir ár og er engin hætta á að þetta hafi farið í rugling hjá honum. Þó mun hann stundum hafa haft skrifara ef mjög margir báðu hann að selja fé.[85]

 

Haustið 1896 fékk Rakel ungan mann til að gerast heimiliskennari á Brekku og var það alþýðuskáldið og dagbókaritarinn Magnús Hjaltason sem þá var 23ja ára gamall, fæddur 6. ágúst 1873. Hér hefur áður verið sagt lítillega frá kvennamálum Magnúsar á árunum 1895-1898 og í því sambandi minnst á vist hans á Brekku (sjá hér Drangar).

Að Brekku kom Magnús fyrst til dvalar sunnudaginn 11. október 1896.[86] Daginn eftir samdi hann ræðu til að flytja yfir börnunum og hóf síðan kennsluna á þriðjudegi.[87] Að þessu sinni var hann við kennslu á Brekku fram að jólum en kenndi síðan eftir áramót á Mýrum í Dýrafirði. Lögheimili taldist Magnús hins vegar eiga á Brekku allt frá haustinu 1896 til vorsins 1899. Á því skeiði dvaldist hann þar oft og sinnti ýmist kennslu eða búverkum en var þess á milli annars staðar, oftast við kennslu eða í skiprúmi.[88]

Haustið 1896 voru tveir heimiliskennarar á Ingjaldssandi, Magnús Hjaltason á Brekku og Runólfur Magnús Jónsson guðfræðingur á Sæbóli.[89] Sá síðarnefndi var níu árum eldri en Magnús Hjaltason og var síðar lengi prestur á Stað í Aðalvík, ætíð nefndur Magnús Runólfur. Ýmislegt bendir til þess að kennararnir tveir á Ingjaldssandi hafi ekki átt skap saman. Á aðfangadag jóla árið 1896 ritar Magnús Hjaltason nokkur orð um Magnús Runólf í dagbók sína og segir þá meðal annars:

 

Magnús Runólfur var öldrykkjumaður mikill og óeirðarmaður um kvennafar. Kom hann af Austurlandi um haustið. Var hann þar trúlofaður Ingibjörgu Skaptadóttur blaðstýru en ærið leit hann utan hjá kærustunni.[90]

 

Allt rekur Magnús Hjaltason þetta nánar í dagbókinni og segir blaðstýruna hafa slitið trúlofun þeirra Magnúsar Runólfs er hún kom að guðfræðingnum með tvær aðrar í kjöltunni.[91]

Á aðfangadag jóla árið 1896 hélt Magnús Runólfur kvöldsöng í kirkjunni á Sæbóli og þrátt fyrir andúð sína á guðfræðingnum varð alþýðuskáldið að viðurkenna að honum hefði mælst vel að því sinni.[92] Reyndar er fátt kunnugt um samskipti þeirra nafna, Magnúsar Hjaltasonar og Magnúsar Runólfs, er báðir voru á Ingjaldssandi, en vísa hefur geymst sem báðir áttu hlut að. Er vísan var ort voru þeir á heimleið úr kaupstað með fleiri Sandmönnum og kastaði Magnús Runólfur að nafna sínum þessum orðum:

 

Fæst við kennslu fyrir mat,

                             finnst ei ræfill slíkur.

 

Og Magnús Hjaltason svaraði að bragði:

 

En frakkaklæddur kandidat

                             kjaftar, lýgur, svíkur.[93]

 

Ljóst er að Magnús Runólfur brígslar nafna sínum um að hann vinni ekki nema rétt fyrir mat sínum en alþýðuskáldið bendir guðfræðingnum á að þrátt fyrir prófgráðuna vanti hann hempuna, sé bara frakkaklæddur kandidat. Ætla má að þarna vísi Magnús Hjaltason til þess að Magnús Runólfur eignaðist barn fyrir hjónaband[94] en guðfræðingar sem slíkt henti fengu lengi ekki prestvígslu fyrr en eftir nokkur ár. Svo skemmtilega vill til að systir Magnúsar Hjaltasonar, sem hét Vilhelmína, giftist löngu síðar Magnúsi Runólfi en þá voru þau bæði komin á sjötugsaldur og var hún síðari eiginkona prestsins.[95]

Fyrstu mánuðina sem Magnús Hjaltason var á Brekku var þar tvíbýli. Ekkjan Rakel, sem Magnús gerðist kennari hjá, bjó í hærri bænum en Pálmi Guðmundsson og hans fólk í neðri bænum.[96] Vorið 1897 fluttist Pálmi burt en Rakel bætti við sig jarðarpartinum sem hann hafði búið á.[97] Við brottför Pálma losnaði húspláss í neðri bænum og næstu árin var þar eingöngu jarðnæðislaust húsfólk. Einn þeirra sem þar fengu inni var Magnús Hjaltason en hann settist að í neðri bænum á Brekku vorið 1897 og hafði þá tekið til sín heilsulitla konu á fimmtugsaldri, Ingibjörgu Guðmundsdóttur frá Breiðadal.[98] Hér hefur áður verið sagt nokkuð frá samskiptum Magnúsar og Ingibjargar og sambúð þeirra á Brekku (sjá hér Drangar) en Magnús segir í dagbókum sínum að þessi fylgikona hans hafi verið haldin hryllilegum veikleika er hann nefnir slagaveiki.[99] Ingibjörgu, sem var liðlega tuttugu árum eldri en hann, kveðst Magnús hafa tekið að sér í gustukaskyni og með því viljað launa henni góðvild er hún hafði auðsýnt honum nokkrum árum fyrr er hann var sjálfur heilsulaus unglingur í Fremri-Breiðadal.[100] Að sögn Magnúsar hafði Ingibjörg fullan hug á að fá hann fyrir eiginmann en sem kærustu gat hann með engu móti elskað hana.[101] Skáldið lét sig þó hafa að sænga hjá henni í 15 nætur en kveðst hafa varist svo lengi sem hann gat.[102] Dagbókarskrif Magnúsar Hjaltasonar sýna að hin slagaveika fylgikona hans dvaldist á hans vegum á Brekku í eitt ár, frá 19. apríl 1897 til 12. apríl 1898.[103] Lítið munu þau hafa haft fyrir sig að leggja en skáldið náði þó að afla svolítilla tekna. Vorið 1897 var Magnús við sjóróðra frá Kálfeyri (sjá hér Eyri í Önundarfirði) og um sumarið fór hann í nokkra róðra frá Sæbóli með Oddi Gíslasyni sem þar bjó.[104] Veturinn 1897-1898 var hann alllengi við barnakennslu á Næfranesi og í Innri-Lambadal[105] en Ingibjörg var þá um kyrrt á Brekku.

Um hegðun fylgikonunnar úr Breiðadal meðan á sambúð þeirra stóð viðhefur skáldið mörg þung orð, segir hana m.a. hafa hellt bleki yfir margar blaðsíður af því sem hann var að skrifa og með hnýsni og slefburði neytt sig til að brenna fjölda bréfa frá góðum vinum.[106] Verst lét hún þó ef skáldið leyfði sér að tala við aðrar konur. Er fimm mánuðir voru liðnir frá því Magnús flutti Ingibjörgu til sín út á Ingjaldssand festi hann þessi orð á blað:

 

Hin líðilega heiftar- og heimskunorn, Ingibjörg Guðmundsdóttir, er hjá mér var, sem ógæfan hafði leitt í samveru við mig, hafði farið svo með mig að ég ekki var orðinn sjálfum mér líkur. Hennar djöfullegu getgátur um mig, hennar ljótu og röngu dómar um aðra höfðu riðið mér að fullu. Hafði ég þó oft með sáru sinni beðið Ingibjörgu að hafa ekki slíkt í frammi en það hafði enga vog. Hún var þó aldrei verri en ef hún heyrði mig tala þægilega við kvenmann, hvort heldur giftan eða ógiftan. Lét hún þá sem óð væri.[107]

 

Hér hefur áður verið sagt frá skilnaði Magnúsar og Ingibjargar slagaveiku vorið 1898 og skal til þess vísað (sjá hér Drangar). Er Magnúsi hafði tekist að koma fylgikonunni burt og búið var að flytja hana á sína sveit fannst honum þungu fargi vera af sér létt og kvað þessa vísu:

 

Ég nú hef fengið frelsi,

finn ég hjartað glatt,

afarþröngu þrældómshelsi

þessi drós mig batt.[108]

 

Er Magnús Hjaltason hafði dvalist í nokkra mánuði á Brekku tók einn vinnumaðurinn á bænum að breiða út þann orðróm að barnakennari þessi hefði stundað þar mesta kvennabrask.[109] Undir þessum áburði vildi skáldið ekki liggja og tók að afla sér vottorða um sína kristilegu hegðun. Í þeim efnum varð Magnúsi vel ágengt og fékk hann m.a. í hendur yfirlýsingu frá Rakel Sigurðardóttur, húsmóður sinni, dagsetta 15. janúar 1897. Þar stóðu þessi orð:

 

Hér með gef ég undirskrifuð Magnúsi Hj. Magnússyni [þannig ritaði Magnús Hjaltason sitt eigið nafn – innsk. K.Ó.] heiðarlegan vitnisburð fyrir hverja þá stund sem hann dvaldi á heimili mínu sem barnakennari. Í allri hegðan sinni við alla, unga og gamla, karl og konu, tjáði nefndur Magnús Hj. Magnússon sig svo kurteislega við hvern mann hér sem ég varð áskynja. Hver sem annað segir af mínu heimili er sprottið af ósönnum óhróðri sem Magnús Hj. Magnússon er laus við í alla staði. Ég hefði helst viljað ákjósa að hann hefði dvalið lengur hér hefði þess verið kostur.[110]

 

Árin sem Magnús Hjaltason átti lögheimili á Brekku var hann stundum fenginn til að sinna einhverjum búverkum þar heima eða hjá öðrum bændum á Ingjaldssandi. Sumarið 1898 var hann t.d. í nær tvo mánuði við heyskap á Villingadal.[111] Eitt sinn fór hann með öðrum húsmanni að stinga mó fram á Skógarbrekku[112] og 7. október 1898 fór hann með vinnufólki Rakelar á Brekku fram á Grjótskálarbrekku á Brekkudal að rífa lyng á sex hesta.[113] Haustið 1898 tók Magnús líka þátt í fjárrekstri frá Ingjaldssandi til Ísafjarðar[114] en á þessum árum tíðkaðist að Sandmenn rækju þangað talsvert af fé til slátrunar. Ætla má að í slíkum rekstrarferðum um torleiði og langan veg hafi oft reynt allnokkuð á þrek manna og hreysti. Skrif Magnúsar um rekstrarferðina sem hann fór á Ísafjörð haustið 1898 benda til þess að önnur iðja hafi hentað honum betur. Í dagbók sína ritar skáldið svo 22. september 1898

 

Fór ég og fleiri af Ingjaldssandi áleiðis á Ísafjörð með fjárrekstur. Gistum í Holti að Janusar prófasts Jónssonar. Mátti þar ógistilegt kalla. Eigi voru tekin af okkur vosklæði og máttum við fara í þau vot um morguninn. Lítið eitt fengum við til næringar um kvöldið áður en við fórum að sofa en höfðum þá setið 3 klukkustundir, votir í brókarlinda úr Hjarðardalsá. Áður en við fórum um morguninn fengum við engan greiða. Við rákum svo féð á Vað og sem leið liggur yfir Breiðadalsheiði.[115]

 

Sjálfur átti Magnús þrjár kindur í rekstrinum og fékk rétt liðlega 10,- krónur fyrir hverja kind þegar í kaupstaðinn var komið.[116]

Haustið 1901 var Magnús Hjaltason búsettur á Grænagarði, rétt innan við Ísafjarðarkaupstað, og í dagbók sinni frá því hausti getur hann um komu Sandmanna sem ráku sláturfé í kaupstaðinn.[117] Þann 26. september komu Sandmenn með 100 kindur til slátrunar.[118] Þeir sem ráku að því sinni voru: Rakel Sigurðardóttir, búandi ekkja á Brekku, Guðbjartur Jónsson, bústjóri hennar, Veturliði Guðbjartsson, vinnumaður á Brekku, Þorbjörn Guðmundsson, húsmaður á Sæbóli, Benedikt Guðmundsson, vinnumaður í Hrauni, Jóhannes Jónsson, bóndi á Álfadal, Jón Jónsson, vinnumaður á Álfadal, og Guðmundur Sigmundsson, bóndi á Villingadal.[119]

Í dagbókarskrifum Magnúsar frá árunum 1896-1899 má finna ýmsan fróðleik um landbúnaðinn á Ingjaldssandi á þessum árum. Á einum stað nefnir hann til dæmis að Sandmenn fái venjulega fjórðung af smjöri, það er fimm kíló, undan hverri á sem þar sé mjöltuð í kvíum.[120] Tuttugu árum síðar var hins vegar talið að meðalærnyt á landinu öllu væri mun minni eða um þrjú kíló af smjöri.[121]

Í lok marsmánaðar árið 1898 getur Magnús þess að á Sandinum sé nú verið að smíða taðvélar til að mylja áburðinn, hinar fyrstu sem sést hafi þar í sveit.[122] Taðvélarnar sem Magnús talar þarna um voru almennt nefndar taðkvarnir en notkun þeirra hérlendis mun ekki hafa hafist fyrr en á síðari hluta 19. aldar.[123]

Á þessum dæmum má sjá að barnakennarinn á Brekku minnist stöku sinnum á búnaðarmálefni í dagbókum sínum en oftast var hann þó með hugann við annað. Þar skipuðu ljóðagerð og hvers kyns ritsmíðar háan sess. Laugardaginn fyrir páska árið 1898 situr þessi 24 ára gamli sveimhugi í kytru sinni á Brekku og ritar:

 

Lauk ég við að skrifa töflur yfir kveðskap minn frá því ég fór að yrkja á 11. ári til ársloka 1897. Voru það 874 ljóðagerðir (númer) að ótöldum vísum í tveim skáldsögum er ég hafði fengist við að rita. Skáldsögur „þær nefndi ég Múlafólkið og Landnám úteyjanna”.[124]

 

Hjá slíkum manni bar líka sitthvað í drauma. Haustið 1898 dreymdi hann Fjalla-Eyvind.[125]Umgekkst ég hann mikið í svefninum, ritar skáldið, og þóttist spyrja hann að flestum atburðum þeim er getur í sögu hans … og bar saman að mestu.[126] Átta nóttum síðar vitjaði Sigurður Breiðfjörð þessa lærisveins síns í þriðja sinn í draumi og voru þá fimm ár liðin frá því Magnús dreymdi hann fyrst. Daginn eftir greindi skáldið á Brekku frá atburðum næturinnar og sagði: Þótti mér Sigurður Breiðfjörð nú vera allellihniginn og voteygður og talaði ég við hann.[127]

Magnús Hjaltason var ekki alltaf umtalsgóður um náungann en flestum Sandmönnum, sem hann nefnir, ber hann þó vel söguna. Húsmóður sína, Rakel á Brekku, mat hann mikils og tekur fram að jólin í hennar húsum árið 1896 hafi verið hin skemmtilegustu er hann þá hafði lifað.[128] Hjá Rakel á Brekku var Maríumessa (25. mars) haldin heilög, að sögn Magnúsar, og einnig á fleiri bæjum á Ingjaldssandi.[129] Sýnist þar hafa verið um merkilegar leifar úr kaþólsku að ræða en hér hefur áður verið nefnt að kirkjan á Sæbóli var fyrir siðaskipti helguð Maríu guðsmóður (sjá hér Sæból)

Ummæli Magnúsar um ýmsa karla og konur á Sandinum verða hér látin liggja milli hluta að mestu en minnt skal á Jón Guðmundsson fingralausa sem var samtíða Magnúsi á Brekku, þá kvæntur húsmaður í hærri bænum. Fötlun Jóns lýsir Magnús rækilega og getur þess að tveir bræður hans og ein systir séu líka fingralaus.[130] Öll eru systkin þessi líka táalaus svo sem þau eru fingralaus, skrifar Magnús, en tekur fram að þau séu dugnaðarmanneskjur og vel viti borin.[131] Einn þessara fingralausu bræðra var Ólafur Guðmundsson en um hann ritaði Jóhannes Davíðsson sérstakan þátt sem birtist í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga árið 1971.[132]

Þann 30. mars 1899 fór Magnús Hjaltason alfarinn frá Brekku og fluttist til Súgandafjarðar þar sem hann var heitbundinn ungri frænku sinni. Er burtför hans af Sandinum var ráðin gerði hann grein fyrir þeirri ákvörðun í dagbók sinni og sagði þá meðal annars:

 

Ekki var það af því að mig langaði mjög til að fara af Ingjaldssandi. Þar var fólk þjóðlegt og skemmtilegt og héraðið fagurt en erfitt til aðdrátta. Ég hafði víða farið en þó hvergi komið þar sem fólk var þjóðlegra og gestrisnara en á Ingjaldssandi. Mátti jafna Ingjaldssendingum við Eyfellinga hvað rausn og þjóðlegheitum viðkom. [Veturinn 1894-1895 hafði Magnús verið heimiliskennari á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum – innsk. K.Ó.] Þó var það nokkuð með öðrum hætti. Ingjaldssendingar voru fjörugir, Eyfellingar stilltir og ekki eins framgjarnir. Á Ingjaldssandi var menntunarfýsn mikil en miður hjá Eyfellingum.[133]

 

Ekki verður annað séð en Sandmenn geti unað vel við þennan dóm alþýðuskáldsins sem kvaddi þá með trega á skírdag 1899. Þann dag gerði Magnús grein fyrir hugrenningum sínum með þessum orðum:Er ég þá fluttur af Ingjaldssandi, eflaust einhverju skemmtilegasta héraði á Vesturlandi, …enda hef ég kunnað mér þar vel og mikið hef ég ritað þar og tregur fer ég héðan.[134] Frá Brekku hélt skáldið á vit óvissrar framtíðar.

Tíu árum síðar kom að Brekku sá maður sem nú er tvímælalaust kunnastur allra bænda sem þar hafa búið en það er Guðmundur Einarsson refaskytta. Guðmundur stóð fyrir búi á Brekku í 37 ár, frá 1909 til 1946 (sjá Firðir og fólk 1900-1999) og átti þar heima allt til dauðadags en hann andaðist 22. júlí 1964 og var þá nýlega orðinn 91 árs gamall. Um Guðmund refaskyttu hefur ýmislegt verið ritað og er þar helst að nefna þáttinn Útilegumaður á Vestfjörðum eftir Guðmund G. Hagalín[135] og bók Theodórs Gunnlaugssonar Nú brosir nóttin þar sem brugðið er upp svipmyndum úr æviferli Guðmundar.[136]

Búskaparsaga Guðmundar Einarssonar á Brekku heyrir 20. öldinni til og af þeim ástæðum verður hér fátt um hann ritað. Ævikjör og athafnir þessa sérstæða snilldarmanns munu hins vegar lengi enn verða mörgum tilefni frásagna og íhugunar ef bærilega tekst til um framtíð landsins barna.

Guðmundur var Borgfirðingur að uppruna, fæddur á Heggsstöðum í Andakílshreppi 19. júlí 1873.[137] Ellefu ára gamall missti hann föður sinn og gleymdi seint sultinum sem hann varð að þola næstu fjögur ár.[138] Ellefu ára var ég talinn með stærstu drengjum á mínum aldri en minnstur var ég minna jafnaldra fimmtán ára, sagði bóndi þessi á Brekku síðar[139] og mun óþarft að hafa fleiri orð um aðstæður hans eftir föðurmissinn á harðindaárunum milli 1880 og 1890.

Vestur á firði barst Guðmundur vorið 1897 og vann þá um sumarið sem verkamaður í hvalstöðinni á Sólbakka, innan við Flateyri í Önundarfirði.[140] Næstu þrjú árin var hann viðloðandi í Önundarfirði en vorið 1900 fór hann að búa í Fremri-Hjarðardal í Dýrafirði, þá nýlega kvæntur Guðrúnu Magnúsdóttur sem líka var Borgfirðingur.[141] Í Fremri-Hjarðardal bjuggu þau hjónin í eitt ár, síðan tvö ár á Bakka í Neðri-Hjarðardal og sex ár í Minna-Garði.[142] Þaðan fluttust þau að Brekku vorið 1909 og tóku þá strax alla jörðina til ábúðar.[143] Að Brekku kom Guðmundur með 3 kýr, 20 ær og 2 hesta en 36 leiguær fylgdu jörðinni.[144] Árleg landskuld af Brekku var þá þrjár ær og tveir gemlingar og í leigur af ánum, sem jörðinni fylgdu, þurfti hann að borga 12 fjórðunga (60 kíló) af smjöri á hverju ári.[145] Fyrstu búskaparárin á Brekku varð Guðmundur að fara með landskuld og leigur til Ísafjarðar og færa prestinum þar kindurnar fimm og smjörið því Eyrarkirkja í Skutulsfirði átti jörðina.[146]

Er Guðmundur kom að Brekku hafði hann átta börn á framfæri.[147] Á árunum 1892-1898 hafði hann eignast fjögur börn með Katrínu Gunnarsdóttur, vinnukonu á Skarði í Lundarreykjadal, og á árunum 1899-1926 eignaðist hann sautján börn með konu sinni, Guðrúnu Magnúsdóttur.[148] Samtals urðu börnin því tuttugu og eitt og komust sextán þeirra upp, þar á meðal öll þau börn sem Guðmundur eignaðist fyrir hjónaband.[149]

Þrátt fyrir barnamergð og örbirgðina sem hann hlaut ungur í veganesti þurfti Guðmundur aldrei að þiggja sveitarstyrk.[150] Drýgst urðu honum byssan sem hann notaði við refaveiðarnar og dugnaður konunnar sem heima annaðist bú og börn.

Fyrstu tófuna skaut Guðmundur suður í Borgarfirði er hann var tæplega tvítugur að aldri.[151] Var það Gyrðir, hið óarga dýr, sem hver skyttan á fætur annarri hafði gefist upp við.[152] Við þetta frægðarverk fékk hann strax það orð á sig að kunna vel að fara með byssu. Fjögur síðustu árin sem Guðmundur var í Borgarfirði fékkst hann jafnan við refaveiðar á vorin og er hann kom til Önundarfjarðar var hann strax fenginn til að liggja þar á grenjum og eltast við tófur.[153]

Er Guðmundur fluttist í Mýrahrepp, aldamótaárið 1900, var hann því orðinn þrautþjálfuð refaskytta sem hafði jafnan sigur í glímunni við skolla. Í 53 ár samfleytt var Guðmundur við grenjalegur um lengri eða skemmri tíma á hverju einasta vori, frá 1893 til 1946, fyrstu fjögur árin í Borgarfirði en síðan í 49 ár í Vestur-Ísafjarðarsýslu og hafði lengi alla sýsluna undir.[154] Kjörsvæði hans virðist þó hafa verið Skagahlíðar, yst við norðanverðan Dýrafjörð, og Nesdalur þar skammt frá en í dalnum þeim lá hann á grenjum í meira en 180 nætur.[155] Samtals lá Guðmundur úti í 2.469 nætur og náði að veiða 2.464 dýr eða rétt um það bil eina tófu á hverjum sólarhring sem hann var við veiðarnar.[156] Nær öll þessi dýr voru fullorðnir refir því yrðlingarnir voru lengi verðlausir og þá ekki taldir með.[157] Síðustu 20 árin sem Guðmundur var við veiðarnar var hann blindur á hægra auga[158] en sá bagi virtist litlu breyta um einstaka færni þessa ástríðufulla veiðimanns.

Grenjatíminn var yfirleitt í maí og júní og oft var kalt á fjöllum. Allar þessar 2.469 nætur sem Guðmundur lá úti klæddist hann yst sem innst fötum úr íslenskri ull og heimaunnu vaðmáli.[159] Nankinsstakk hafði hann þó stundum utan yfir sig og oftast skinnsokka á fótum en aldrei vatnsheld hlífðarföt.[160] Marga nótt og margan dag var hann því holdvotur fjarri mannabyggð en svo virtist sem engin vosbúð fengi komið þessu hraustmenni á kné. Þó kom fyrir að hann fengi lungnabólgu og skipaði læknir honum þá að liggja í rúminu í þrjár vikur. En veiðimanninum héldu engin bönd. Heimilinu varð hann að sjá farborða því ekki máttu konan og börnin fara á sveitina og áður en lungnabólguvikurnar þrjár voru á enda var hann búinn að vinna átta greni, skjóta sextán fullorðnar tófur og bana yfir fjörutíu yrðlingum.[161]

Er Guðmundur var ungur maður bað hann gamla refaskyttu að kenna sér svolítið til verka við grenjavinnslu. Svarið sem hann fékk var þetta: Þú skalt spyrja tófuna sjálfa.[162] Í fyrstu fannst honum svarið dálítið undarlegt en skildi síðar að í því fólst hin besta ráðlegging. Til þess að verða góð refaskytta var ekki nóg að geta haldið á byssu og kunna að skjóta í mark. Menn urðu að þekkja til hlítar lifnaðarhætti dýranna, kunna skil á margbreytilegu atferli þeirra og sérhverju fyrirbæri í náttúrunni sem að gagni mátti koma við veiðarnar. Óhætt mun að fullyrða að í þeim efnum hafi fáir menn, ef nokkrir, náð lengra en Borgfirðingurinn á Brekku.

Um Guðmund Einarsson hefur verið sagt að refaveiðarnar hafi orðið honum allt í senn, íþrótt, vísindi og ótrúlega drjúg tekjulind.[163] Um íþróttina og vísindin þarf ekki að efast en mat á tekjunum ræðst af því til hvaða mælikvarða er gripið. Þegar best lét náði Guðmundur að vinna fyrir átta vikna kaupi sláttumanna á aðeins rúmri viku[164] en oftast var þetta mun minna. Á grenjunum lá hann aðeins í nokkrar vikur á hverju vori en skaut svo stundum nokkur dýr á öðrum árstímum. Ekki er ólíklegt að tekjur af refaveiðunum hafi ráðið úrslitum um það að Guðmundi tókst jafnan að framfleyta sínu stóra heimili og úr skuldum komst hann eftir liðlega 30 ára búskaparbasl.[165] Útslagið í þeim efnum gerðu 500,- krónur sem hann fékk árið 1931 fyrir yrðlinga er sendir voru sem kynbótarefir til Noregs.[166] Tólf árum síðar eignaðist hann í fyrsta skipti á ævinni spariföt sem ekki voru heimaunnin.[167] Þá var hann sjötugur og börnin sextán, sem fengu að lifa, öll orðin fullorðið fólk. Er Guðmundur eignaðist sparifötin var hann búinn að vinna um 2.300 dýr og sultarárin í Andakíl langt að baki. Merki þeirra bar hann þó alla tíð og var því reiðubúinn að kosta sér öllum til í harðri lífsbaráttu sem stundum snerist um það eitt að tryggja öllum hans mörgu munnum mat. Í þeim efnum mátti oft lítið út af bera á hinum fyrri búskaparárum Guðmundar. Það vissi hann best sjálfur og sú vitneskja hefur að líkindum átt ærinn þátt í að gera hann að þeim dýrðlega veiðimanni sem hann var.

Hér hefur aðeins verið fjallað stuttlega um refaveiðar Guðmundar og verður sú umfjöllun látin nægja. Þess skal að lokum getið að auk almennra starfa við eigið bú stundaði refaskyttan lengi grásleppuveiðar á vorin, áður en grenjavinnslan byrjaði.[168] Til grásleppuveiðanna notaði Guðmundur lengi lítið tveggja manna far sem hann keypti í Önundarfirði árið 1899.[169] Bát sinn, sem var norskur að uppruna, nefndi hann Kringlu og á henni stundaði hann líka haustróðra frá Sæbólssjó þegar gaf.[170] Bátinn fékk Guðmundur fyrir 25,- krónur árið 1899[171] og sama ár keypti hann af Matthíasi Ólafssyni í Haukadal gamla forláta byssu, bakhlaðning, sem líka kostaði 25,- krónur.[172] – Aðalbjargræðistæki mín um dagana voru tvö, sagði Guðmundur refaskytta síðar, annað var byssan en hitt var happafleytan Kringla.[173] Með þau orð í huga kveðjum við hann hér á hlaðinu á Brekku og búumst til brottfarar en röltum þó fyrst ofan að ánni.

Niður undan gamla fjósinu rennur Langá í krók til vesturs og heitir þar Þvottárdalur meðfram árkróknum.[174] Þar var ullin þvegin og stundum líka fatnaður.[175] Neðan við Þvottárdal hækkar árbakkinn verulega og heitir þar Hamrabrekka.[176] Þar var griðland huldufólks og hvíldu þau álög á brekkunni að hana mátti aldrei slá.[177] Börnum var ætíð bannað að leika sér í Hamrabrekku sem er snarbrött og mjög grasgefin og lítill hólmi sem þarna er í ánni var einnig talinn vera álagablettur[178] Neðan við Hamrabrekku er Brúarárdalur. Þar var brú á ánni allt til 1956 er núverandi brú heiman við Reiðhól var byggð.[179] Brúarárdalur nær að landamerkjum Brekku og Villingadals en þangað er skammur spölur. Fjær ánni liggja landamerkin um mitt Kattarholt og um Merkisgil[180] en bæði holtið og gilið eru rétt utan við túnið á Brekku, fyrir framan ármót Langár og Álfadalsþverár.[181]

Frá Brúarárdalnum þokum við okkur upp á Kattarholtið og fylgjum síðan Kattarláginni ofan við holtið uns hana þrýtur neðan við Villingadalstúnið.[182]

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jarðabók Á. og P. VII, 87-93.

[2] Örnefnaskrá.

[3] Sama heimild og Óskar Einarsson 1951, 167.

[4] Sömu heimildir.

[5] Sömu heimildir.

[6] Sömu heimildir.

[7] Örn.skrá.

[8] Sama heimild.

[9] Sama heimild.

[10] Óskar Ein. 1951, 167. Örn.skrá.

[11] Óskar Ein. 1951, 167.

[12] Óskar Ein. 1951, 167. Örn.skrá.

[13] Örn.skrá.

[14] Sama heimild.

[15] Sama heimild.

[16] Sama heimild.

[17] Sama heimild.

[18] Sama heimild.

[19] Sama heimild.

[20] Sama heimild.

[21] Sama heimild. Guðm. Hagalínsson. – Viðtal K.Ó. við hann 1.9.1994.

[22] Örn.skrá.

[23] Guðm. Hagalínsson. – Viðtal K.Ó. við hann 1.9.1994.

[24] Örn.skrá.

[25] Sama heimild.

[26] Sama heimild.

[27] Sama heimild.

[28] Sama heimild.

[29] Sama heimild.

[30] Sama heimild.

[31] Sama heimild.

[32] Sama heimild.

[33] Sóknalýs. Vestfj. II, 86.

[34] Sama heimild.

[35] Sóknarlýs. Vestfj. II, 86.

[36] Jóh. Dav. 1968, 63.

[37] Jarðab. Á. og P. VII, 92.

[38] D.I. II, 360.

[39] Sama heimild.

[40] D.I. IV, 142.

[41] D.I. XV, 574-575.

[42] Jarðab. Á. og P. VII, 92.

[43] Lbs. 47084to / Magnús Hjaltason.

[44] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 2. Dóma- og þingbók Markúsar Bergssonar 1720-1729, bls. 219 og 220.

[45] D.I. VI, 41-43.

[46] D.I. XI, 567.

[47] Sama heimild.

[48] Sama heimild.

[49] Arnór Sigurjónsson 1975, 457-458.

[50] Sama heimild.

[51] D.I. X, 678-681.

[52] Sóknalýs. Vestfj. II, 86 og Jón Þ. Þór 1984, 83.

[53] D.I. XV, 522.

[54] Sama heimild.

[55] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 2. Dóma- og þingbók Markúsar Bergssonar 1720-1729, bls. 219,

réttarhald á Mýrum 17. og 18. 6.1727.

[56] Örn.skrá.

[57] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 2. Dóma- og þingbók Markúsar Bergssonar 1720-1729, réttarhald á

Mýrum 17. og 18..6.1727.

[58] Sama heimild.

[59] Sama heimild.

[60] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[61] Manntal 1703.

[62] Jarðab. Á. og P. VII, 92.

[63] Sama heimild.

[64] Almanak Hins ísl. Þjóðvinafélags 1875, 32.

[65] Jarðab. Á. og P. VII, 92.

[66] Sama heimild.

[67] Sama heimild.

[68] Sama heimild.

[69] Sama heimild.

[70] Manntal 1762.

[71] Jón Þ. Þór 1984, 83.

[72] Sama heimild.

[73] J. Johnsen 1847, 194.

[74] Jóh. Dav. 1970, 106.

[75] Manntöl 1801, 1835, 1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1870, 1880 og 1890.

[76] Jóh. Dav. 1970, 104-105.

[77] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga – innfluttir 1888. Lýður Björnsson 1992, 162 og 302.

[78] Lbs. 22164to, Dagbók M.Hj. 21.3.1893. Sbs. 23754to, Dagbók S.Gr.B. 23.3.1893.

[79] Lbs. 22164to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 21.3.1893.

[80] Jóh. Dav. 1970, 105.

[81] Sama heimild, 104.

[82] Sama heimild.

[83] Sama heimild.

[84] Sama heimild. Lbs. 22174to. Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 11.10.1896. Sbr. Manntöl 1890 og 1901.

[85] Jóh. Dav. 1970, 104-105.

[86] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 11.10.1896.

[87] Sama dagbók 12. og 13.10.1896.

[88] Sama dagbók árin 1896-1899.

[89] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 24.12.1896.

[90] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 24.12. 1896.

[91] Sama heimild.

[92] Sama heimild.

[93] Gunnar M. Magnúss 1956, 191.

[94] Ísl. æviskrár VI, 348.

[95] Ísl. æviskrár VI, 348.

[96] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 11.10.1896.

[97] Sama dagbók 27.2.1897. Sbr. Lbs. 22184to.  Sama dagbók 30.3.1899.

[98] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 13.4.1897, 19.4.1897, 15.6.1897 og 25.7.1897.

[99] Sama dagbók 13.4.1897.

[100] Sama dagbók.

[101] Sama dagbók.

[102] Sama dagbók 25.7.1897.

[103] Sama dagbók 19.4.1897 og 12.4.1898.

[104] Sama dagbók sumarið 1897.

[105] Sama dagbók 1897 og 1898.

[106] Sama dagbók 13.9.1898.

[107] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 16.9.1897.

[108] Sama dagbók 12.4.1898.

[109] Sama dagbók 3.4.1897.

[110] Sama heimild.

[111] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 3.9.1898.

[112] Sama dagbók 13.7.1897.

[113] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 7.10.1898.

[114] Sama dagbók 22.9.1898.

[115] Sama heimild .

[116] Sama dagbók 23.9.1898.

[117] Lbs. 22204to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 26.9.1901.

[118] Sama heimild.

[119] Sama heimild.

[120] Sama dagbók 17.10.1898.

[121] Þorvaldur Thoroddsen / Lýsing Íslands III, 339.

[122] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 31.3.1898.

[123] Sigurður Sigurðsson 1937, 115 (B.Í. Aldarminning II).

[124] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 9.4.1898.

[125] Sama dagbók 9.10.1898.

[126] Sama heimild.

[127] Sama dagbók 17.10.1898.

[128] Sama dagbók 28.12.1896.

[129] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 25.3.1899.

[130] Lbs. 22184to, Dagbók M. Hj. 20.3.1899, sbr. Lbs. 22174to, Dagb. M.Hj. 11.10.1896 og 7.9.1898.

[131] Lbs. 22184to, Dagbók M. Hj. 20.3.1899, sbr. Lbs. 22174to, Dagb. M.Hj. 11.10.1896 og 7.9.1898.

[132] Jóh. Dav. 1972, 95-105, sjá ennframur Ársrit S.Í. 1972 160 og 1979, 45-48.

[133] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 31.12.1898.

[134] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 30.3.1899.

[135] Guðmundur G. Hagalín 1953, 50-126 (Bókin heitir Þrek í þrautum).

[136] Theodór Gunnlaugsson 1960, 7-229.

[137] Theodor Gunnlaugsson 1960, 9.

[138] Sama heimild, 21-28.

[139] Sama heimild, 28.

[140] Sama heimild, 74-84.

[141] Sama heimild, 86 og 112.

[142] Sama heimild, 85-97.

[143] Sama heimild, 97-98.

[144] Sama heimild.

[145] Sama heimild.

[146] Sama heimild, 98-99.

[147] Sama heimild.

[148] Niðjatal Guðmundar Einarssonar, Katrínar Gunnarsdóttur og Guðrúnar Magnúsdóttur, fjölrit júní 1986.

[149] Sama heimild.

[150] Theodor Gunnlaugsson 1960, 206.

[151] G.G. Hag. 1953, 58-61.

[152] Sama heimild.

[153] Sama heimild, 58-72.

[154] Theodor Gunnlaugsson 1960, 150-151.

[155] Sama heimild, 93-95 og 163-169. G.G. Hag. 1953, 103-106 og 125-126.

[156] G.G. Hag. 1953, 52 og 56, sbr. Theodór Gunnlaugsson 1960, 150-151.

[157] Theodór Gunnlaugsson 1960, 151.

[158] Sama heimild.

[159] G.G. Hag. 1953, 106-107.

[160] Sama heimild.

[161] Sama heimild, 80-99.

[162] G.G. Hag. 1953, 62.

[163] G.G. Hag. 1953, 56.

[164] Theodór Gunnlaugsson 1960, 96.

[165] Sama heimild, 163-164.

[166] Sama heimild.

[167] Sama heimild, 100-101.

[168] Sama heimild, 96-97, 102, 112-125.

[169] Sama heimild.

[170] Sama heimild.

[171] Theodór Gunnlaugsson 1960, 112.

[172] Sama heimild, 112 og 130-132. G.G. Hag. 1953, 73-75.

[173] Theodór Gunnlaugsson 1960, 112.

[174] Örn.skrá.

[175] Sama heimild.

[176] Sama heimild.

[177] Sama heimild. Jóh. Dav. 1968, 63.

[178] Magnúsína og Guðmunda Guðmundsdætur. – Viðtal K.Ó. við þær 30.6.1993.

[179] Örn.skrá.

[180] Sama heimild. Jóh. Dav. 1968, 62.

[181] Guðmundur og Guðni Ágústssynir. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

[182] Örn.skrá.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »