Frá Saurbæ að Lambavatni

 Frá Saurbæ að Lambavatni

Mál er að tygja sig til ferðar frá Saurbæ. Þeir sem brattgengir eru geta haldið til fjalls og lagt á einstigið um Bæjargjá upp á klettabrúnina og þaðan norður af til Sauðlauksdals. Þar var þó aldrei alfaravegur.

Við fylgjum hins vegar þjóðveginum út Sandinn, fram hjá rústum hjáleigunnar í Stekkadal og í átt til Grafar sem á síðari tímum var lengi næsta býli utan við Stekkadal.

 

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín er getið um jarðirnar Gröf og Klúku sem báðar eru sagðar hafa verið í eyði svo lengi sem elstu menn muni þegar Jarðabókin er rituð í byrjun 18. aldar. Tekið er fram að Klúka hafi byggst úr landi Grafar og eyðikot þessi bæði séu nú konungseign en Grafarland allt af fjallskriðum fordjarfað.[1]

Bæði Gröf og Klúka munu hafa verið í byggð um miðja 15. öld því að þeirra er getið í eignaskrá Guðmundar Arasonar ríka frá árinu 1446. Þar er Gröf talin tuttugu hundraða jörð og Klúka sextán jarðarhundruð[2] svo að hér hefur verið mikið land áður en skriðurnar féllu. Býlið Klúka var á sínum tíma innan við Gröf [3] en hefur nú legið í eyði í margar aldir.

Byggð hófst hins vegar á ný í Gröf á síðari hluta 18. aldar. Í bæjaskránni sem fylgir sýslulýsingu frá 1746 er Gröf ekki talin[4] en þegar manntal var tekið árið 1801 búa hér tíu manneskjur.[5] Upp frá því var búið í Gröf allt fram undir 1980  er bærinn fór í eyði.[6]

Á leiðinni frá Stekkadal að Gröf er farið hjá steini nokkrum, rétt innan við Gröf, sem kallaður er Prestshella. Segir sagan að séra Jón Ólafsson, sem prestur var í Sauðlauksdalsprestakalli 1674 til 1703 og sat á Lambavatni, hafi tvívegis lærbrotnað á þessum steini.[7] Prestshella er enn (1988) á sínum stað við gamla götuslóðann fyrir ofan bílveginn. Lá hellan næstum yfir götuna.[8]

 

Frá Gröf er örskammt að Stökkum. Stakka á Rauðasandi mun fyrst getið í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar. Tveir fyrstu bændur sem vitað er um að búið hafi á Stökkum voru báðir gerðir útlægir úr Vestfirðingafjórðungi fyrir vígsmál. Guðlaugur Valentínusson á Stökkum var viðriðinn víg nágranna síns, Markúsar Gíslasonar í Saurbæ, árið 1196 og var af þeim sökum dæmdur útlægur úr fjórðungnum.[9] Nokkru eftir aldamótin 1200 settist Loftur, launsonur Markúsar Gíslasonar í Saurbæ, að á Stökkum er Þorvaldur Vatnsfirðingur hafði hrakið hann frá Mýrum í Dýrafirði.[10] Hann náði þó aðeins að búa hér skamma hríð en var þá dæmdur af Sighvati Sturlusyni útlægur úr Vestfirðingafjórðungi fyrir vígsmál.[11]

Árið 1217 settist Eyjólfur Kársson, sem síðar var í Flatey (sjá hér Flatey), að á Stökkum. Hann var þá nýkvæntur Herdísi, dóttur Hrafns Sveinbjarnarsonar á Eyri við Arnarfjörð. – Henni fylgdi heiman land að Stökkum á Rauðasandi, segir Sturla sagnaritari.[12]

Áður hefur hér verið getið um deilur Eyjólfs við Gísla Markússon í Saurbæ (sjá Saurbæ). Hér skal því bætt við að er Gísli kom með flokk manna að Stökkum og sótti að Eyjólfi voru hér fáir til varnar. Sturla ritar á þessa leið:

 

Þar var húskarl hans [Eyjólfs] í hjá honum, er Þorsteinn stami hét, og griðkona er Þorbjörg hét. Eyjólfur varðist alldrengilega. En Þorsteinn spurði hvort hann skyldi eigi gefa nautum. Eyjólfur bað hann fara hvert er hann vildi og tók hann orlof. … Eyjólfur varð eigi sóttur og hurfu þeir frá Gísli og hans menn.[13]

 

Ekki leynir sér að framganga nautamannsins, Þorsteins stama, hefur orðið Sturlu sagnaritara til nokkurrar skemmtunar.

Bænhús var á Stökkum fyrir siðaskipti en síðast mun þess getið svo kunnugt sé árið 1509.[14]

Stakkar eru stór jörð. Í byrjun átjándu aldar var hér tvíbýli og auk þess fimm hjáleigur. Á tveimur hjáleignanna var einnig tvíbýli svo að alls voru þá níu bændur á torfunni.[15] Ekki er nema von að menn hafi fundið til landþrengsla í slíku margbýli, enda segir í Jarðabókinni: Jörðin er meinlega landþröng og fjallshlíðin öll í skriður komin. Einnig er kvartað yfir vatnsskorti: Vatnsból er í erfiðasta lagi fyrir fjarlægð og oft bregst það aldeilis, nema lítil sitra þar nærri sem Stóri-Krókur er og þarf stundum á vetur á sleðum til að flytja.[16]

Úr hópi þeirra er búið hafa á Stökkum á síðari tímum er skylt að nefna hinn ágæta fræðimann Pétur Jónsson er hér átti heima frá 1903 til dauðadags 1946. Fæddur var Pétur árið 1864 og voru foreldrar hans úr Breiðafjarðareyjum. Pétur á Stökkum ritaði margt og er stuðst við sumt af því í þessu verki. Meðal helstu ritverka Péturs má nefna Strandamannabók, er út kom 1947, og níu ritgerðir um ýmis efni í Barðstrendingabók sem gefin var út árið 1942. Sitthvað fleira liggur eftir hann, allt honum til sóma.

Pétur á Stökkum var líka vel hagmæltur. Um það vitnar m.a. vísa sem hann mælti fram við Snæbjörn í Kvígindisdal er þeir sátu á tali og orðið var dimmt:

 

Viljirðu þiggja og leggja lið,

löstu þekkja og hróður,

mæla skaltu í myrkri við

mann og vin og bróður.[17]

 

Um gjárnar í klettabrúninni að baki Stökkum segir Pétur: Stekkadalsgjá, Stakkagjá, Vallargjá og Galnefsgjá eru einstigi sem ganga má upp á brún ef klakalaust er. Talið er að skriða hlaupi úr Stakkagjá fimmtánda hvert ár.[18] Frá brúninni upp af Stökkum er liðlega klukkutíma gangur norður að Sauðlauksdal.

Hjáleigur og hjábýli frá Stökkum sem búið var á í byrjun 18. aldar voru þessi: Stóri-Krókur (líka nefndur Heimakrókur og síðar bara Krókur), Krókshús, Litli-Krókur, Kvíarhólar og Hesthús.[19] Ekki verður annað séð í Jarðabók Árna og Páls en þrjú fyrsttöldu hjáleigubýlin séu öll gömul en um Kvíarhóla er tekið fram að þeir hafi byggst fyrir um það bil 40 árum og Hesthús fyrir minna en 60 árum,[20] það er um miðja sautjándu öld.

Þessar tvær yngstu Stakkahjáleigur fóru líka fyrst í eyði, strax á átjándu öld. Í manntali frá árinu 1801 má sjá að þá eru aðeins fjórir bændur búandi á allri Stakkatorfunni en þar eru engin nöfn skráð á einstökum býlum.[21] Í manntali frá 1816 er bændafjöldinn sá sami og þar fæst staðfest að þá eru í byggð Stakkar sjálfir, Krókshús, Krókur (áður Stóri-Krókur) og Litli-Krókur.[22]

Litli-Krókur er enn talinn með byggðum bólum þegar séra Gísli Ólafsson ritar sóknalýsingu Rauðasandshrepps árið 1840 en í manntali sem tekið var fimm árum síðar er ekkert fólk í þessu koti.[23] Krókshús og Krókur (áður Stóri-Krókur) héldust aftur á móti lengur í byggð, Krókshús fram undir lok 19. aldar og Krókur fram yfir 1930.[24] Krókshús stóðu upp við hlíðarfótinn, nær beint upp af Stökkum, Krókur þar litlu innar og innst í þeirri röð mun Litli-Krókur hafa verið.

Einn hinna fjölmörgu hjáleigubænda sem búið hafa á Króksbæjunum var Guðmundur Einarsson blóðtökumaður sem kenndur við kukl bjó fimmtugur að aldri í Litla-Króki árið 1816.[25] Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er eitt og annað skráð um Guðmund, ekki endilega blákaldar staðreyndir heldur sýnishorn af því sem um manninn var talað. Þar segir að hann hafi verið norðlenskur að ætt og sagst vera dóttursonur Duggu-Eyvindar. Guðmundur var að sögn heppinn blóðtökumaður og kallað var að hann færi með kukl. Í einni sögunni segir frá viðskiptum Guðmundar við Guðbrand Jónsson í Kvígindisdal, er síðar bjó á Geirseyri, og þá á þessa leið:

 

Guðmundur bjó að Litlakróki á Rauðasandi og lítt er sagt hann vildi á dreif drepa þó kallaður væri hann margfróður. Þá bjó Guðbrandur í Kvígindisdal. Voru þeir Guðmundur vinir og því fóstraði Guðbrandur Kristján son hans. En er Kristján var vaxinn svo nokkuð var það að hann orti nokkuð níðslega af gamni um Guðrúnu fóstru sína, konu Guðbrandar, og mundi hann þó lítt stökufær. Varð Guðbrandur þess var og barði á honum, var hann og maður svakalegur og lítt gætinn þegar hann reiddist en Kristján kærði það fyrir föður sínum.

Lék síðan orð á að Guðmundur vekti upp svein einn úr Bæjarkirkjugarði og sendi hann Guðbrandi og Guðrúnu konu hans. Er það sagt að kvöld eitt þá er þau Guðbrandur sátu á palli inni sýndist þeim að flygsa ein lágvaxin sæktist að komast upp á pallstokkinn. Varð Guðrúnu bilt og bað fyrir sér en Guðbrandur brást reiður við og skipaði djöfli þeim í burt að dragast og sækja þar að er hann væri frá kominn, greip hlandkopp sinn og skvetti úr af pallinum fram, fór síðan út eftir flygsunni með bölvi og heitingum ef hún hlýddi ei skipan sinni. Hvarf hún síðan á brott og fann ei þau Guðbrand síðan. Þá er sagt að Gvöndur á Litlakróki yrði mállaus hið sama kvöld með flogi og fékk hann ei að gjört. Héldust þau við hann lengi, þó bötnuðu honum þau að lyktum.[26]

 

Þó að blóðtökumaðurinn í Litlakróki færi heldur halloka að þessu sinni skulum við vona að hann hafi náð að rétta hlut sinn. Fátækir hjáleigubændur þurftu oft á nokkurri kunnáttu að halda þegar í harðbakkann sló.

Engum sögum fer af kukli þess bóndamanns sem árið 1843 hóf búskap í Krókshúsum hér á Stakkatorfunni. Hann hét Jón Bjarnason, fæddur á útmánuðum 1803 í Haga á Barðaströnd þar sem móðir hans sat dauðadæmd í fangavist (sjá hér Hrísnes og Sjöundá). Jón þessi sem fertugur að aldri hóf búskap í Krókshúsum var sonur Saka-Steinunnar og Bjarna á Sjöundá, eina barnið sem þau áttu saman. Þegar dauðadæmdir foreldrarnir voru fluttir suður haustið 1803 til að bíða aftöku á fjarlægum stað varð hvítvoðungurinn eftir. Þessi ávöxtur forboðinnar sælu lá þarna ósjálfbjarga og vegalaus. Ómagi hlaut hann að verða sín uppvaxtarár og sá varð úrskurður amtmanns að öll Barðastrandarsýsla skyldi bera kostnaðinn af uppeldinu.[27] Hann varð því sýsluómagi og síðar kallaður Sýslu-Jón. Tolldi það nafn við hann lengi.[28] Þeir sem í uppvexti heyrðu til stétt þurfamanna áttu þess yfirleitt ekki kost að hefja sjálfstæðan búskap á ungum aldri. Margir úr þeim hópi þjónuðu alla ævi sem vinnuhjú en aðrir komust í bændatölu um miðbik ævinnar. Það tókst Sýslu-Jóni. Hann kvæntist 10. október 1840 Guðrúnu Sigmundsdóttur en þau voru þá vinnuhjú í Króki (Stóra-Króki).[29] Jón var 37 ára er hann kvæntist og Guðrún litlu yngri. Þau voru áfram vinnuhjú í Króki um sinn en hófu 1843 sjálfstæðan búskap í Krókshúsum. Þar eru þau skráð í manntalinu frá 1845. Eitt barn höfðu þau eignast meðan þau voru enn í Króki. Var það Júlíana, fædd 7. febrúar 1842.[30]

Í Krókshúsum varð þeim á árunum 1843 til 1850 þriggja barna auðið en af þeim komst aðeins eitt á legg, dóttirin Sigurbjörg sem fædd var 14. maí 1848.[31] Fyrir hjónaband hafði Sýslu-Jón eignast a.m.k. einn son. Sá hét líka Jón og var fæddur 7. janúar 1833 í Haga. Móðirin var Þórdís Þorsteinsdóttir og báðir foreldrarnir þá ógift vinnuhjú í Haga.[32] Drengurinn var á heimili föður síns í Krókshúsum árið 1845.[33]

Árið 1850 bjuggu Sýslu-Jón og fjölskylda hans enn í Krókshúsum. Upp úr því flytjast þau á Barðaströnd og þar átti Jón síðan heima til æviloka. Árið 1855 er hann á Arnórsstöðum með konu sína og dæturnar tvær, þá enn í bændatölu. Á árunum 1856 til 1859 lýkur búskaparsögu Sýslu-Jóns og vinnumennska verður hlutskiptið á ný. Alls hefur Jón búið í þrettán til sextán ár. Á árunum 1860 til 1881 var hann vinnumaður í Tungumúla, á Hreggstöðum, Haukabergi, Siglunesi, Brekkuvelli og í Litluhlíð.[34]

Um sextugsaldur var Sýslu-Jón í vinnumennsku á Hreggstöðum ásamt konu sinni. Þá virðist hann enn hafa notið nokkurrar kvenhylli því um veturnætur árið 1863 fæðist honum dóttir, enda þótt eiginkonan væri þá fyrir löngu komin úr barneign. Barnsmóðir hans að því sinni var Guðrún Ólafsdóttir, ógift vinnukona á Hreggstöðum, um 35 ára aldur. Barnið var skírt Kristín og einn skírnarvottanna var Guðrún Sigmundsdóttir, eiginkona Sýslu-Jóns. Líklega hefur hún ekki tekið mjög hart á þessu hjúskaparbroti bónda síns, enda vandlega skráð við fæðingu barnsins að þetta sé hans fyrsta hórdómsbrot.[35]

Á árunum 1867 til 1880 er Sýslu-Jón jafnan skráður vinnumaður á heimili Júlíönu, elstu dóttur sinnar, sem gift var Pétri Guðmundssyni. Lengst eru þau á Brekkuvelli á þessum árum og þar er þá líka árum saman barnsmóður Sýslu-Jóns, Guðrún Ólafsdóttir, og hórbarn hans, Kristín. Stóð svo til 1880.[36]

Í harðindunum miklu upp úr 1880 var Jón Bjarnason kominn undir áttrætt. Á uppvaxtarárum hafði hann verið ómagi heillar sýslu en samt náð að spjara sig og staðið langa ævi á eigin fótum. Í harðindunum urðu Júlíana dóttir hans og Pétur maður hennar að hætta búskap, reyndar var Pétur þá orðinn aldraður en hann var að kalla jafnaldri tengdaföður síns. Júlíana og Pétur fóru þá að Auðshaugi með sitt eina barn, Ingimund, til Ásmundar Sveinssonar sýslumanns sem þar sat.[37]

Í desember 1881 stendur Sýslu-Jón enn í báða fætur og er þá skráður vinnumaður hjá Þorsteini Ólafssyni í Litluhlíð. Það hafði verið hart í ári þegar hann var getinn á Sjöundá á sólmánuði 1802. Nú voru nær áttatíu ár liðin og harðindin slík að helst minnti á þennan eina vetur sem foreldrar hans voru samvista á Sjöundá og Vestfirðingar kölluðu Klaka.

Um vorið féll Sýslu-Jón loks úr röðum sjálfbjarga fólks og varð á ný ómagi annarra. Hann þurfti þó ekki lengi að una slíkri tilveru. Mannskæð sótt fór um landið og úr þeim mislingum andaðist Jón Bjarnason 6. september 1882, 79 ára sveitarómagi á Grænhól.[38]

Ásmundur Sveinsson var sýslumaður Barðstrendinga frá 1879 til 1882 og sat á Auðshaugi. Hann segir að Sýslu-Jón hafi verið ráðvandur og gæflyndur, fremur stór og þreklegur, sagður líkur Bjarna föður sínum í vexti en Steinunni móður sinni í andlitsfalli, – enda fremur laglegur maður í sjón, bætir sýslumaður við.[39]

Að lokum skal minnst hér stuttlega á tvær dætur Sýslu-Jóns, þær Júlíönu og Sigurbjörgu, sem ungar léku að stráum í Krókshúsum en fengu síðar að heyra söguna af Sjöundármálum þar sem afi þeirra og amma voru í aðalhlutverkum.

Júlíana giftist milli tvítugs og þrítugs Pétri Guðmundssyni sem var fjörtíu árum eldri en hún.[40] Þau bjuggu á annan áratug á Brekkuvelli á Barðaströnd og höfðu jörðina alla til ábúðar.[41] Þar fæddist Ingimundur, sonur þeirra, 1873 eða 1874, og hefur líklega verið eina barn Júlíönu sem komst á legg. Fardagaárið 1880-1881 var þessi fjölskylda við búskap á Ytri-Hreggstöðum á Barðaströnd en 1882 eru þau öll þrjú komin til Ásmundar Sveinssonar, sýslumanns að Auðshaugi. Júlíana er skráð vinnukona en Pétur tökukarl, áttræður að aldri.[42]Ásmundur sýslumaður segir að Júlíana hafi verið ráðvönd og gæflynd eins og faðir hennar og dáið hjá sér á Hallbjarnareyri í Eyrarsveit á Snæfellsnesi árið 1886.[43]

Sigurbjörg, dóttir Sýslu-Jóns, giftist aldrei. Um fertugsaldur var hún vinnukona hjá Ólafi Ólafssyni, kvæntum bónda á Stökkum á Rauðasandi. Með honum eignaðist hún dótturina Guðmundínu sem fædd var 17. júní 1889.[44] Um fimmtugsaldur eða fyrr er Sigurbjörg komin að Hvallátrum í Rauðasandshreppi[45] og dvaldist þar löngum síðan.[46] Árið 1935 situr hún á friðarstóli á Látrum á heimili dóttur sinnar og tengdasonar, þeirra Guðmundínu Ólafsdóttur og Guðbjarts Þorgrímssonar. Hún er þá orðin 87 ára og presturinn skráir í sóknarmannatalið að hún sé fædd sunnudaginn í 7. viku sumars.[47]

Nýjar kynslóðir af ættmeiði Bjarna og Steinunnar á Sjöundá voru þá að vaxa úr grasi, fólk með eld í arf.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 301-302.

[2] Dipl. isl. IV, 690.

[3] Sama heimild.  Pétur Jónsson 1942, 91 (Barðstr.bók).

[4] Sýslulýsingar 1744-1749, 150 (gefnar út 1957).

[5] Manntal 1801.

[6] Martin Schuler 1994, 61 (Búsetuþróun á Íslandi 1880-1990).

[7] Pétur Jónsson 1942, 91.

[8] Sigríður Guðbjartsdóttir frá Lambavatni. – Viðtal K.Ó. við hana 9.8.1988.

[9] Sturlungasaga I, 388 og 391-396.

[10] Sturlungasaga I, 353-354 og 387.

[11] Sama heimild, 354.

[12] Sturlungasaga II, 61.

[13] Sama heimild II, 64.

[14] Lýður Björnsson 1967, 37 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[15] Jarðab. Á. og P. VI, 303-306.

[16] Sama heimild, 306.

[17] Snæbjörn J. Thoroddsen 1979, 35 (Árbók Barð. 1968-1974).

[18] Pétur Jónsson 1942, 91 (Barðstrendingabók).

[19] Jarðab. Á. og P. VI, 302-306.  Manntal 1703.

[20] Jarðab. Á. og P. VI, 305.

[21] Manntal 1801.

[22] Manntal 1816.

[23] Sóknalýs. Vestfjarða I, 210-212. Manntal 1845.

[24] MartinSchuler 1994, 61 (Búsetuþróun á Íslandi 1880-1990), sbr. Pétur Jónsson 1942, 91. Bæjartal á Íslandi 1930, bls.25.

[25] Manntal 1816.

[26] Þjóðsögur J.Á. I, 325-326.

[27] Jón Helgason 1962, 268 (Sunnudagsblað Tímans I. árg.).

[28] Sama heimild.

[29] Sóknarmannatöl og prestsþjónustubækur Sauðlauksdalsprestakalls.

[30] Sömu heimildir.

[31] Sömu heimildir.

[32] Prestsþj.b. Hagasóknar 1829-1859.

[33] Manntal 1845.

[34] Manntöl 1860, 1870, og 1880 og sóknarmannatöl Brjánslækjarpr.kalls.

[35] Prestsþj.b. Brjánslækjarpr.kalls.

[36] Sóknarm.töl Brjánslækjarpr.kalls.

[37] Sóknarm.töl Brjánslækjarpr.kalls 1881 og 1882.

[38] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Brjánslækjarpr.kalls.

[39] Ásmundur Sveinsson 1953, 43 (Sagnaþættir Fjallkonunnar).

[40] Sóknarm.töl Brjánslækjarpr.kalls.

[41] Sama heimild.

[42] Sama heimild.

[43] Ásmundur Sveinsson 1953, 43 (Sagnaþættir Fjallkonunnar).

[44] Manntöl úr Sauðlauksdalspr.k., 1890 Stakkar, 1910 og 1920 Hvallátur.

[45] Manntal 1901.

[46] Manntöl 1910, 1920 og 1930.

[47] Sóknarm.tal Sauðlauksdalspr.k. 1935.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »