Háls

Háls var fremsti bær á Ingjaldssandi og tekur nafn af hálsinum sem gengur til norðurs fram úr fjallinu Þorsteinshorni ofan við túnið. Fjallið Þorsteinshorn skiptir fremsta hluta Ingjaldssands í tvennt og stendur eitt sér að mestu. Fjærst byggðinni á Sandinum nær það þó að sameinast hálendinu vestantil við Sandsheiði.

Jörðin Háls á land beggja vegna við Þorsteinshorn og þar með allt fjallið. Að austanverðu skiptir Þverá löndum á móti Brekku en að vestanverðu ræður Langá merkjunum uns kemur að ármótum hennar og Mórillu og síðan Mórilla til fjalls.[1] Frá þessum skýru landamerkjum er þó eitt frávik sem áður hefur verið getið um því rétt neðan við túnið á Hálsi, í tungunni milli Langár og Þverár, á Hraun svolítið land austan Langár (sjá hér Hraun) og heita þar Hraunseyrar.

Á ferð okkar um Ingjaldssand komum við fyrst í Hálslandareign rétt framan við ármót Langár og Mórillu, nær tveimur kílómetrum framan við túnið á Hálsi. Fljótlegt verður að ganga þann spöl en fyrst skulum við svipast hér dálítið um. Í tungunni milli ánna er dálítið gróðurlendi og ber nafnið Tungur en neðsti hluti þeirra, rétt ofan við ármótin, heitir Tagl.[2]

Áin Mórilla á upptök sín í fjalllendinu fyrir sunnan og vestan Ingjaldssand og kemur stærsta kvíslin úr fjalldal sem heitir Ranghali.[3] Á Uppdrætti Íslands, blaði 12 frá árinu 1977, er þessi fjalldalur nefndur Hálsdalur sem er ekki rétt. Á uppdrættinum er sýndur mikill klettaveggur fyrir botni þessa sama krika sem skerst suð-suðvestur í fjalllendið en vert er að taka fram að þar er nær alveg klettalaust.[4]

Skammt fyrir norðan Ranghala er Sandskarðadalur, gróðurlaus hvilft eða dalverpi sem gengur nær beint í vestur og liggur hátt, í nánd við efstu brúnir.[5] Um Sandskarðadal, sem er upp af beitilandinu Heiðum (sjá hér Birnustaðir og Svipast um á Ingjaldssandi) og því ekki í Hálslandareign, lá leið þeirra sem fóru Skörð milli bæja á Ingjaldssandi og Fjallaskaga eða Birnustaða við Dýrafjörð. Norðan við Sandskarðadal er Grjótdalsháls[6] en þar fyrir norðan Grjótdalur sem hér var áður nefndur (sjá hér Hraun). Framan við Sandskarðadal, það er sunnan við hann en norð-norðvestan við Ranghala er Nónhorn[7] og hefur það fjall verið eyktamark frá Hálsi. Annað nafn á Nónhorni er Þóroddshorn og sagt að prestur sem Þóroddur hét hafi hrapað þar fram af brúninni.[8]

Í norðaustur frá Ranghalabotni er fjallið Þverfell[9] og liggur klettabrún þess í um það bil 500 metra hæð yfir sjávarmáli. Frá Ranghala að Þverfelli er skammur spölur. Austan við Þverfell og lítið eitt norðar eru fremstu brúnir Þorsteinshorns, fjallsins sem klýfur fremri hluta Ingjaldssands í tvennt. Hér sameinast Þorsteinshornið hálendinu að byggðarbaki, í grennd við Sandsheiði. Frá Þverfelli að fremstu hlíðardrögum Þorsteinshorns er um það bil einn kílómetri. Á því svæði eru upptök Langár, í fremstu daladrögum vestan við Þorsteinshorn og heita þar Hálsdrög eða Hálsdalsdrög.[10] Hálsdalur er hér neðar, milli Langár og vesturhlíða Þorsteinshorns en síðan tekur við Hálshlíð þegar gengið er austan Langár ofan dalinn og stefnt heim að Hálsi.[11] Dálítill hjalli skilur þarna að hlíð og dal.[12] Í einni heimild er Hálshlíðin sögð byrja við Engislæk sem kemur ofan af Hálsdal og fellur í Langá rétt neðan við ármót hennar og Mórillu.[13] Á hlíðinni heiman við læk þennan voru slægjulönd Hálsbænda.[14]

Efst í Tungunum milli Mórillu og Langár eru Tungubrúnir[15] en ofan við þær tekur við mýrarstykki sem heitir Mórillueyrar og nær upp að Girðisbrekku.[16] Svo má heita að Girðisbrekka girði hér fyrir dalbotninn, milli Mórillu og Langár en vesturendi hennar milli Mórilllu og Mórillulækjar heitir reyndar Ranghalabrekkur.[17] Á móts við þær er í ánni hár foss, sem heitir Rollufoss, en allmiklu neðar er Mórillufoss sem líka er talsvert hár.[18] Dragabrekkur eru framhald Girðisbrekku austan Langár og ná þær upp að Þorsteinshorni.[19]

Upp við Dragabrekkur er Dragabrekkufoss í Langá en mun neðar, þar sem hún fellur með Dalabrekkum, undirhlíðum Þorsteinshorns, eru í ánni fjórir fossar.[20] Neðstur þeirra er Lægstifoss, rétt ofan við ármót Langár og Mórilllu, þá Miðfoss, svo Skotfoss og loks Hæstifoss.[21]

Frá ármótum Langár og Mórillu höfum við nú svipast um góða stund og brátt munum við hefja gönguna heim að Hálsi. Fyrst lítum við samt einu sinni enn upp til fjallanna í kringum dalbotninn hér vestan við Þorsteinshornið og beinum sjónum að stórum skafli sem liggur í kvos rétt austan við endann á Þverfelli sem hér var áður nefnt. Skafl þessi heitir Hempuskafl.[22] Hæstu brúnir Þverfells og Þorsteinshorns eru í um það bil 500 metra hæð yfir sjávarmáli en skaflinn er aðeins neðar. Guðmundur Benediktsson, sem fæddist á Hálsi árið 1886 og átti þar heima til 1920, kvaðst aðeins einu sinni hafa séð Hempuskafl hverfa nær alveg en að því sinni var þó eftir 50-60 ferfaðma svellbunga þegar skaflinn fór aftur að vaxa um haustið.[23] Haft var í munnmælum að undir Hempuskafli væru ýmsir dýrmætir náttúrusteinar sem aðeins væri unnt að ná á Jónsmessunótt ef skaflinn væri orðinn að engu svo snemma sumars.[24] Frásögn Guðmundar Benediktssonar bendir reyndar eindregið til þess að slíkt hafi aldrei skeð. Hitt er svo annað mál að eftir 1920 mun skaflinn hafa horfið þó nokkrum sinnum síðla sumars og að haustlagi.[25]

Til skýringar á örnefnunum Þorsteinshorn og Hempuskafl var sögð sú saga að eitt sinn hefði prestur sem Þorsteinn hét villst af Sandsheiði út á Þorsteinshorn og hrapað þar fram af í sortabyl[26] en hempan af honum átti að hafa fundist á skaflinum sem nú heitir Hempuskafl.[27]

Jóhannes Davíðsson segir söguna í 22. árgangi Ársrits Sögufélags Ísfirðinga en dálítið önnur gerð þessarar sömu sögu var skráð af alþýðuskáldinu Magnúsi Hjaltasyni snemma á tuttugustu öld. Um Hempuskafl og prestinn sem hrapaði og dó ritar Magnús á þessa leið:

 

Hempuskafl heitir á Ingjaldssandi við Þverfellsendann í Hálsdal. Þann skafl leysir ekki nema í mestu rigningasumrum. Sumarið 1909 leysti hann sama sem allan og mundu þá ekki gamlir menn eftir að hann hefði leyst svo fyrr. Næsti vetur, 1909-1910, var hinn nafnkenndi snjóflóðavetur þegar slysið mikla varð í Hnífsdal og Ytri-Skálavík. Er það gömul sögn að Hempuskafl leysi ekki nema á undan mestu snjóavetrum.

Skaflinn dregur nafn sitt af því að prestur einn beið þar bana, villtist í gaddhörkubyl og hrapaði þarna niður í Hálsdal. Prestur fannst nokkru síðar, sumir segja um vorið, en hempa hans fannst þar löngu síðar. Af henni dregur skaflinn nafnið.[28]

 

Þetta voru orð Magnúsar Hjaltasonar. Líklegt er að sagan um hrap prestsins sé þó aðeins tilbúningur einhvers sem langaði til að koma með skýringu á hinu sérstæða nafni skaflsins. Í gömlum heimildum finnst hvorki eitt né neitt sem bent gæti til þess að sagan um Þorstein prest hefði sannleikskjarna að geyma og enginn prestur með því nafni hefur þjónað í Dýrafjarðarþingum svo kunnugt sé.[29]

Örugg skýring á nafninu Hempuskafl mun ekki vera auðfundin en margur hefur þó látið sér detta í hug að hann dragi nafn af lögun sinni. Því mótmælir Jóhannes Davíðsson sem jafnan hafði skafl þennan fyrir augum á sínum uppvaxtarárum og segir hann vera kringlóttan.[30] Ýmsum breytingum hlýtur snjódyngja þessi þó að hafa tekið í tímans rás og líklega hæpið að hafna algerlega þeirri hugmynd að fyrr á öldum kynni lögun skaflsins að hafa minnt á hempu. Fjallið Þorsteinshorn er umgirt klettabrún og hreint ekki ólíklegt að þar hafi einhverju sinni hrapað maður og gæti reyndar sem best hafa heitið Þorsteinn þó ekki væri hann vígður. Í dimmviðri gátu þeir sem fóru um Sandsheiði og ekki voru hér þrautkunnugir átt á hættu að villast út á fjallið því hæðarmunur er nánast enginn. Á síðari árum hafa margir lagt leið sína út á Þorsteinshorn og hvergi er betra útsýni yfir Ingjaldssand en frá fjallsbrúninni framan við bæinn á Hálsi. Er Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur fór úr Valþjófsdal um Klúku og Sandsheiði að Gerðhömrum sumarið 1887 lagði hann lykkju á leið sína og reið út á Þorsteinshorn til að líta yfir byggðina á Sandinum.[31] Hann segir fjallið vera þverhníptan kamb[32] og stendur sú lýsing í fullu gildi.

Að þessu sinni látum við vera að ganga upp á Þorsteinshorn, enda mál til komið að halda heim að Hálsi. Dálítið ofan við Lægstafoss, sem fyrr var nefndur, vöðum við yfir Langá og fylgjum eystri bakka hennar í norðurátt. Rétt neðan við ármót Langár og Mórillu komum við að Engislæk sem áður var nefndur. Þetta er lítill lækur og veldur engri töf. Heiman við Engislæk tekur við partur sem heitir Engi en holtið uppi í hlíðinni þar fyrir ofan kallast Stórholt.[33] Hér er land vel gróið meðfram ánni og upp undir hlíðarfótinn. Hver slægjuparturinn tekur hér við af öðrum, hin fríðustu engjapláss. Heiman við Engi, sem áður var nefnt, er Hólakotspartur[34] en milli hans og  Steinsholtsparts er grasi vaxinn hóll sem heitir Hlaðsholt.[35] Uppi á hól þessum er hringlaga tótt. Þar hefur líklega verið sauðabyrgi. Nær árbakkanum og örlítið framan við Hlaðsholt sér móta fyrir fornum tóttum og hefur lengi verið talið að þær væru af gamalli hjáleigu frá Hálsi sem sagt er að héti Hólakot.[36] Ætla má að 400 ár séu liðin frá því hjáleiga þessi lagðist í eyði eða jafnvel enn lengri tími því í Jarðabókinni frá 1710 segir svo um hana:

 

Hólakot heitir eitt örnefni í úthögum fram á Hálsdal. Þar sjást tóttarústir litlar og eru munnmæli að þar hafi að fornu hjáleiga verið frá Hálsi en enginn kann þar um neitt víst framar að segja. Ekki má hér aftur byggja því heyskapur er enginn og túnstæðið nýlega fordjarfað af skriðu.[37]

 

Þeir sem hér voru kunnugir á fyrstu árum 20.  aldar töldu sig sjá merki þess að lækur hefði fallið í gegnum bæjarhúsin í Hólakoti.[38] Aðaltóttin á þessum stað er um það bil 10 metrar á lengd og stendur skammt ofan við brún árdalsins.

Frá Hólakoti liggur leið okkar um Steinsholtspart og svo Brúarholtspart.[39] Í Steinsholtsparti er hátt einstakt aurholt upp undir hlíðinni og heitir Bulluholt en milli tveggja síðastnefndu partanna er Steinsholt[40]

Brúarholt, sem Brúarholtsparturinn er kenndur við, er við ármót Langár og Selár, beint á móti Selárósi.[41] Framan við Brúarholt er Stakkeyrarvað sem kennt er við litla eyri handan Langár.[42] Við heimri endann á Brúarholti er annað vað sem heitir Stekkjarvað en stekkur frá Hálsi var hér lítið eitt ofar.[43] Í hjallanum ofan við stekkinn er Hvítiklettur sem stendur þar einn en lautin framan við Hvítaklett og fyrir ofan Brúarholtspart heitir Svartahvolf.[44]

Frá stekknum er aðeins hálfur kílómetri heim í tún á Hálsi og er sá spölur fljótfarinn.

Á Hálsi var löngum tvíbýli og stóðu bæirnir nokkuð hátt vestan undir hálsrananum sem gengur norður úr Þorsteinshorni. Túninu hallar niður að Langá en skammt norðan við það sameinast Langá og Þverá sem kemur ofan frá dalnum austan við Þorsteinshorn.

Að fornu mati var Háls á Ingjaldssandi talinn 12 hundraða jörð. Jarðarinnar er fyrst getið í máldaga Sæbólskirkju frá árinu 1306 en þar segir að Maríukirkjan á Sæbóli eigi land undir Hálsi.[45] Næstu 600 árin var Háls kirkjujörð eða allt þar til kirkjan á Sæbóli hætti að vera bændakirkja og var afhent söfnuðinum árið 1906 (sjá hér Sæból). Um miðbik 19. aldar fékk presturinn í Dýrafjarðarþingum helming landskuldarinnar sem bændur á Hálsi borguðu fyrir jarðarafnotin[46] og má ætla að svo hafi lengi verið.

Fyrsti bóndinn sem um er kunnugt að búið hafi á Hálsi er Jón Gíslason sem þar bjó árið 1570. Hans er getið í reikningum Eggerts Hannessonar lögmanns frá því ári[47] en Eggert var þá eigandi Sæbóls (sjá hér Sæból) og hafði því umráð yfir eignum kirkjunnar þar. Í reikningum lögmannsins frá 1570 segir svo: Item hjá Jóni Gíslasyni undir Hálsi 80 í landskuld. Lukt í þetta 3 ær og tvævetran sauð. Restera 5 álnir.[48] Hér sést að landskuldin af Hálsi hefur á þessum tíma verið 80 álnir eða sem svaraði fjórum ærgildum (tveir þriðju hlutar úr kýrverði). Hver ær var metin á 20 álnir og fyrst leiguliðinn á Hálsi skuldaði lögmanninum enn 5 álnir þegar reikningurinn var skrifaður hlýtur tvævetra sauðurinn að hafa verið metinn á 15 álnir. Árið 1571 fékk lögmaðurinn 3 ær með lömbum í landskuld frá Hálsi og eina vætt fiska.[49] Ærnar þrjár og lömbin hafa verið virt á 60 álnir en fiskavættin á 20 álnir sem passar nákvæmlega því tveir fiskar voru í hverri alin.

Reikningar Eggerts lögmanns sýna að um 1570 hefur Jón Gíslason búið einn á Hálsi og haft alla jörðina til ábúðar. Árið 1681 var þar hins vegar tvíbýli og svo var einnig 1703.[50] Auk bændanna tveggja sem bjuggu á Hálsi var þar líka húsmaður þegar manntal var tekið árið 1703. Sá hét Ari Guðmundsson og í manntalinu er tekið fram að hann nærist af sjóbjörg.[51]

Ætla má að sumt fólkið sem átti heima á Hálsi árið 1703 hafi andast í bólusóttinni sem hér geisaði á árunum 1707 til 1709 og kölluð var stórabóla. Árið 1710 var nýr bóndi tekinn við á Hálsi, Sigurður Ólafsson, og bjó einn á allri jörðinni.[52] Hin árlega landskuld sem Sigurði var gert að greiða var fjórar vættir[53] en ein vætt á landsvísu var sama og 20 álnir.[54] Landskuldin hefur því verið óbreytt frá því sem verið hafði árið 1570 og um miðbik 19. aldar var hún enn 80 álnir.[55] Jarðarafgjaldið var Sigurði ætlað að greiða í kaupstað, annað hvort í fiski eða peningum.[56]

Fjögur leigukúgildi fylgdu jörðinni árið 1710 en leigurnar af þeim áttu að borgast í smjöri[57] eins og venja var. Sú kvöð fylgdi ábúð á Hálsi í byrjun 18. aldar að bóndinn þar varð að leggja kirkjueigandanum á Sæbóli til mann í skiprúm á vorvertíð.[58]

Í Jarðabókinni frá 1710 er kostum og göllum þessarar kirkjujarðar á Ingjaldssandi lýst með þessum orðum:

 

Útigangur í jarðarinnar landi mjög lítill og því beitir ábúandi oftlega á vetur Sæbólskirkju land, sem hún á fram á Heiðum, og geldur þar öngvan toll fyrir. Torfrista og stunga lök. Sverði er elt með taði undan kvikfé. Lyngrif lítið.

Túninu grandar Langá með landbroti. Engjarnar sem jörðin á heimum sig eru stórlega fordjarfaðar af skriðum. Fjallslægjur eru nokkrar í brokflóum og er þangað mjög erfitt að sækja. Vatnsból er erfitt á vetur fyrir fannlögum í Langá.[59]

 

Í sóknalýsingunni frá 1840 er látið mun betur af landkostum á Hálsi. Séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum segir þar að Háls sé notagóð jörð með góðu túni og miklum útislægjum bæði fram frá bænum á Hálsdal og líka upp á Skógarbrekku og lengra fram.[60]

Svo virðist sem séra Jón noti nafnið Hálsdalur um stærra svæði en nú er gert (sjá hér bls. 2), þar á meðal um engjalöndin á Hálshlíð sem hér var áður nefnd. Skógabrekka er austan við Þorsteinshorn svo ljóst er að slægjulönd Hálsbænda hafa verið beggja vegna við fjallið. Þetta staðfestir líka Jóhannes Davíðsson en hann segir svo um búskaparskilyrði á Hálsi í ritgerð frá árinu 1968:

 

Þar var lítið tún, bratt og grýtt, og náði niður að Langánni. Engjar voru nokkrar beggja megin Þorsteinshorns. Voru þær erfiðar til nytja vegna brattlendis, einkum frá ytri jörðinni, en á Hálsi var jafnan tvíbýli og stundum þríbýli. Heyskapur var ekki mikill … snjóþungt en beitargott er til jarðar náðist. Var til þess tekið að þó að þyrfti að bera gemlingana upp í hálsinn á vorin var þeim borgið ef til jarðar náðist.[61]

 

Jóhannes getur þess að tvær leiguær hafi fylgt hverju jarðarhundraði á Hálsi[62] og hafa leiguærnar þá verið 24 eða sem svaraði fjórum kúgildum. Ætla má að Jóhannes sé þarna að vísa til áranna í kringum aldamótin 1900 en reyndar voru innstæðukúgildin á Hálsi líka fjögur árið 1710 og um miðja 19. öld.[63]

Á 18. og 19. öld var oftast tvíbýli á Hálsi en stöku sinnum bjó einn bóndi á allri jörðinni[64] og finna má dæmi um þríbýli.[65] Árið 1801 bjuggu þrír bændur á Hálsi, allt fjölskyldumenn, og þá var þar líka húsmaður með ráðskonu sinni.[66]

Árið 1812 bjó maður sem Guðmundur Sigurðsson hét á Hálsi. Hann var formaður á einum hinna þriggja báta frá Ingjaldssandi sem fórust með allri áhöfn í mannskaðaveðrinu mikla þá um vorið. Með Guðmundi drukknaði sonur hans, Gils Guðmundsson, sem þá var á 18. ári (sjá hér Sæból) en Guðmundur og kona hans, sem hét Guðrún Gilsdóttir, höfðu áður búið á Sæbóli.[67]

Árið 1845 var maður að nafni Guðmundur Guðmundsson eini bóndinn á Hálsi.[68] Kona hans hét Ingibjörg Bjarnadóttir. Þau fluttust að Álfadal vorið 1848[69] en ævi Guðmundar lauk haustið 1849 er hann drukknaði í lendingunni á Sæbóli. Hann var þá í skiprúmi hjá Eiríki Tómassyni í Hrauni en Eiríkur og menn hans fórust allir er þeim hlekktist á í landtöku við Sæbólssjó (sjá hér Hraun).

Er Guðmundur Guðmundsson drukknaði var hann liðlega fertugur en kona hans, Ingibjörg Bjarnadóttir, var þá innan við fertugt.[70] Hún fluttist aftur að Hálsi og stóð þar fyrir búi um skeið og þar bjuggu enn fjögur börn þeirra Guðmundar um aldamótin 1900. Systkini þessi hétu Benedikt, Kristín, Bjarni og Guðfinna.[71] Þau héldu hópinn og bjuggu lengi saman á Ytribæjarjörðinni á Hálsi.[72] Ekkert þessara systkina gekk í hjónaband nema Bjarni en hann varð ekkjumaður eftir eins árs sambúð og fluttist þá aftur heim að Hálsi.[73]

Jóhannes Davíðsson þekkti vel til á Hálsi á árunum upp úr aldamótunum 1900. Hann festi löngu síðar á blað dálitla lýsingu á systkinunum sem hér voru nefnd og búskaparháttum þeirra. Sú frásögn er á þess leið:

 

Bræðurnir voru líkir á vöxt og í útliti, lágir en gildvaxnir, hægfara, rauðskeggjaðir og búlduleitir, kallaðir nokkuð durnalegir. Öll voru þessi systkin greind meira en í meðallagi, stálminnug og fróð. Guðfinna var svipuð bræðrum sínum í vexti og útliti. Eftir Kristínu man ég ekki svo að teljandi sé. Hún var sögð fluggreind og fyrir systkinum sínum í öllu, enda húsmóðirin á heimilinu meðan hún lifði. Þau voru öll samhent í búskapnum, vel bjargálna, fornbýl og húshættir fornir. Til dæmis voru lömb kefluð og látin ganga með ánum í stað þess að fært væri frá. Aldrei var þar búsvelta, þrifnaður og sparsemi í búi. Seintekin voru þau en rausnarleg og trölltrygg þeim er við þau tengdust kunningja- eða vináttuböndum.[74]

 

Benedikt var elstur þessara systkina, sagður 8 ára á manntalinu frá 1845.[75] Árið 1886 eignaðist hann son með vinnukonu sem komið hafði að Hálsi vestan úr Dýrafirði.[76] Drengurinn var skírður Guðmundur og tók hann seinna við búi á Hálsi. – Hann á enga móður, hann kom út úr þúfu, á Kristín á Hálsi að hafa sagt er spurt var um móðerni þessa bróðursonar hennar.[77] Svarið bendir til þess að hún hafi ekki talið barnsmóður bróður síns vera honum samboðna.

Guðmundur Benediktsson, drengurinn sem kom út úr þúfu, fékk snemma orð á sig fyrir góða greind. Um það liggur meðal annars fyrir vitnisburður alþýðuskáldsins Magnúsar Hjaltasonar sem átti heima á Brekku á Ingjaldssandi á árunum 1896-1899. Haustið 1898 er Magnús var 25 ára gamall spjallaði hann dag einn lengi við þennan unga svein á Hálsi sem þá var á 12. ári. Að kvöldi sama dags grípur Magnús dagbók sína og skrifar:

 

Hann var gáfaður ákaflega, skynsamastur allra jafnaldra sinna í næstu kirkjusóknum að því er séra Þórður [Ólafsson á Gerðhömrum] sagði. Við drenginn var unun að tala, svo var hann fróður og minnugur.[78]

 

Guðmundur tók við búsforráðum á Hálsi af systkinum föður síns árið 1911 en Benedikt faðir hans var þá látinn fyrir nokkrum árum og einnig Kristín, systir Benedikts (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 303). Guðmundur bjó á Hálsi til 1920 en fluttist þá til Reykjavíkur.[79] Hann var sjálfmenntaður fróðleiksmaður og hefur meðal annars ritað margt um örnefni á Ingjaldssandi. Þau skrif eru nú varðveitt hjá Örnefnastofnun Þjóðminjasafns. Við brottför Guðmundar Benediktssonar árið 1920 fór Ytribæjarjörðin á Hálsi í eyði.

Á síðustu áratugum 19. aldar og fyrstu áratugum 20. aldarinnar voru bæirnir á Hálsi tveir og mun almennt hafa verið talað um ytri bæ og fremri bæ.[80] Hér hefur nú verið sagt dálítið frá fólki því sem bjó í ytri bænum um aldamótin 1900 og var þar gróið við torfuna. Í fremri bænum varð mun styttra í búsetunni hjá hverri einstakri fjölskyldu sem þar settist að síðustu áratugina sem búið var á Hálsi.

Á árunum milli 1880 og 1890 bjó þar maður sem Sigurður Bjarnason hét. Fyrri konu sína, Vilborgu Guðmundsdóttur, missti hann snemma á árinu 1885 frá ungum börnum en kvæntist aftur haustið 1888, Sigríði G. Guðbjartsdóttur sem þá var helmingi yngri en hann.[81]

Eitt barna Sigurðar með fyrri konunni var Guðmundur Ágúst, fæddur 26. júlí 1884. Einn góðan veðurdag haustið 1889 fór hann í berjamó með fleiri börnum frá Hálsi og slasaðist þá svo illa að hann hlaut bana af. Um slys þetta ritar Sighvatur Grímsson Borgfirðingur á Höfða svo í dagbók sína þann 9. september 1889: Fréttist í gær að drengur á Hálsi hefði slasast, fór til berja og datt ofan af kletti í á, líklega Þverá (Ósóma hinn forna), meiddist mjög á höfði, ef til vill brotin höfuðskelin.[82]

Í dagbókarskrifum Sighvats má sjá að Odds læknis á Þingeyri hefur verið vitjað en Sighvatur segir hann ekki hafa treyst sér út á Ingjaldssand vegna bilunar í fæti.[83] Þann 13. september fréttir Sighvatur að drengurinn á Hálsi hafi dáið[84] en í prestsþjónustubókinni er hann sagður hafa dáið 7. september.[85] Sú dagsetning er að líkindum rétt, enda gátu oft liðið nokkrir dagar þar til fréttir af því sem skeði á Ingjaldssandi bárust að Höfða.

Nokkru eftir þennan hörmulega atburð fluttust Sigurður Bjarnason og Sigríður kona hans burt frá Hálsi og settust að á kotinu Bessastöðum í landareign Mýra. Bæði drukknuðu þau í kaupstaðarferð með Guðmundi Hagalín á Mýrum þann 30. október árið 1894 (sjá hér Mýrar).

Fáum mánuðum áður en 20. öldin rann upp komu hjón á fertugsaldri sér fyrir í fremri bænum á Hálsi. Þau hétu Jón Matthíasson og Matthildur Sigmundsdóttir.[86] Jón og Matthildur bjuggu síðan á Hálsi til ársins 1909.[87] Þau voru barnafólk og munu hafa eignast fjórtán börn sem flest komust á legg.[88] Um Jón Matthíasson segir Jóhannes Davíðsson að hann hafi verið góðmenni, léttlyndur og hláturmildur.[89] Annars lýsir hann honum svo:

 

Jón var lágur vexti, vel farinn í andliti, með mikið ljóst skegg. Hann virtist lítill fyrir mann að sjá og enginn búhöldur en furðanlega seigur og gat borið í fatla á bakinu ótrúlega þunga bagga, enda þurfti hann oft á því að halda því að hann vanhagaði tíðum um hey, mat og eldivið en nágrannarnir bættu úr því eftir getu og bar Jón það sem honum áskotnaðist heim að Hálsi á bakinu.

Hann tuggði rullu og vantaði tíðum „upp í sig” og þoldi hann það litlu betur en skort á mat. Eitt sinn vissi faðir minn [þ.e. Davíð Davíðsson, bóndi á Álfadal – innsk. K.Ó.] um að Jón var tóbakslaus. Átti hann tóbakshönk sem átti annars að nota til áburðar í gemlingana til varnar færilús. Sendi hann son sinn niður fyrir tún, er þar sást til ferða Jóns, með þetta til karlsins. Hann ljómaði allur er hann sá hvað drengurinn var með, fékk sér strax tölu og sagði „Nú beit!” – En annars tuggði hann snærisspotta heldur en ekkert.[90]

 

Er Jón og Matthildur fóru frá Hálsi árið 1909 settust þau að í kofa sem nýlega hafði verið byggður rétt hjá Klukkulandi í Núpsdal í Dýrafirði (sjá hér Klukkuland).

Síðust allra bjuggu í fremri bænum á Hálsi hjónin Vilhjálmur Jónsson og Sesselja Sveinbjörnsdóttir. Þau áttu þar heima frá 1915 til 1921 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 303). Vilhjálmur var fæddur og uppalinn norður í Jökulfjörðum en Sesselja kona hans var úr Súgandafirði.[91] Þau voru ung og nýgift er þau hófu búskap á Hálsi en þar eignuðust þau fimm börn á sex árum.[92] Frá Hálsi fluttust þau til Ísafjarðar þar sem Vilhjálmur var lengi skósmiður og bæjarpóstur.[93]

Í Vestfirskum þjóðsögum er prentuð frásögn Vilhjálms af búskaparbasli hans á Hálsi. Hann segir 12 leiguær hafi fylgt hálflendunni sem hann fékk þar til ábúðar vorið 1915[94] og kemur það alveg heim við það sem hér var áður ritað að samtals hefðu leiguærnar á Hálsi yfirleitt verið 24 (sjá hér bls. 7). Sjálfur átti Vilhjálmur engan bústofn er hann byrjaði búskapinn og varð því að láta sér nægja þessar tólf ær en brá á það ráð að skipta á sex þeirra fyrir kú.[95]

Að sögn Vilhjálms gekk búskapur hans á Hálsi mjög vel fyrstu þrjú árin en sumarið 1918 var grasspretta léleg á engjunum og greip hann þá til þess ráðs að slá ákveðinn valllendisblett, sem hann vissu þó að bannhelgi hvíldi á, því þar var nóg gras.[96] Skrásetjari sögunnar hefur eftir Vilhjálmi að álagablettur þessi sé ekki langt frá bænum á Hálsi og skammt frá svonefndum Svörtuloftum.[97] Þeir Guðmundur Benediktsson frá Hálsi og Óskar Einarsson læknir, sem mest hafa ritað um örnefni í landareign þessarar jarðar, nefna ekki Svörtuloft[98] og enginn Sandmanna, sem út í þetta hafa verið spurðir, kannast við örnefnið.[99] Guðmundur Benediktsson og Óskar læknir geta hins vegar báðir um Svartahvolf sem þeir segja vera nær beint á móti ósi Selár (sjá hér bls. 5), í um það bil 500 metra fjarlægð frá bænum á Hálsi. Neðan við Svartahvolf er grösugt engjastykki sem heitir Brúarholtspartur (sjá hér bls. 5) og verður að telja mjög líklegt að álagabletturinn sé þar eða á allra næstu grösum. Vilhjálmur var aðkomumaður á Ingjaldssandi og gæti hafa talað um Svörtuhvolf og það nafn síðan breyst í Svörtuloft fyrir misgáning skrásetjara sögunnar. Neðarlega í hlíðinni hér fyrir ofan eru svartir smáklettar og vel getur verið að Svartahvolf dragi nafn af þeim.

Hvernig svo sem þessu kann að vera háttað er hitt víst að árið eftir að Vilhjálmur sló álagablettinn missti hann að eigin sögn nær allan fjárstofn sinn.[100] Lömbin sem hann ól köfnuðu öll nema eitt á góunni í leysingavatni sem hálffyllti lambhúsið.[101] Um vorið fór að bera á veiki í ánum og svo fór að þær drápust allar, sú síðasta á höfuðdag.[102] Þá átti Vilhjálmur bara eftir fjóra hagfæringa og máske hrútinn sem bjargaðist úr flóðinu í lambhúsinu.[103] Nágrannar Vilhjálms gáfu honum þá skýringu á þessum óförum hans að álagabletturinn sem hann sló væri álfakirkjugarður en legstaðir framliðinna væru álfum langtum helgari en mennskum mönnum.[104]

Úr þessu tók að styttast í veru þeirra Vilhjálms og Sesselju konu hans á Hálsi. Alfarin fóru þau þaðan vorið 1921 og þá fór jörðin í eyði því Guðmundur Benediktsson í ytri bænum hafði flust burt einu ári fyrr. Háls var fyrsta jörðin á Ingjaldssandi sem fór í eyði en þar hefur aldrei verið búið síðan Vilhjálmur Jónsson og fjölskylda hans fluttust þaðan til Ísafjarðar vorið 1921 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 303)).

Eins og áður sagði voru bæirnir á Hálsi tveir síðustu áratugina sem þar var búið og ætla má að svo hafi lengi verið.

Bæirnir stóðu skammt frá hvorum öðrum í bröttu túninu og voru aðeins tíu eða tólf faðmar á milli þeirra.[105] Ofan við ytri bæinn var Baðstofuhóll en upp af fremri bænum Einstæðingshóll sem er hærri en fyrrnefndi hóllinn.[106] Framan við Einstæðingshól, í beina stefnu frá honum, er Kvíabali og fyrir ofan hann var Bólið sem náði upp undir Lágaskarð í hálsbrúninni.[107] Utan og ofan við túnið var gamalt byrgi, kallað Lambahlað.[108]

Svo mátti heita að bæirnir á Hálsi væru í þjóðleið því reiðvegurinn, sem farinn var þegar komið var af Sandsheiði eða lagt á heiðina, lá þar hjá.[109] Á Hálsi sjást nú aðeins tóttir af útihúsum en búið er að slétta yfir bæjartóttirnar.[110] Gamli þjóðvegurinn, sem enn sést móta fyrir ofan við túnið, vísar því sem næst á bæjarstæðið sem var efst í túninu á hólbala, beint niður af dálitlu hvolfi sem er hér upp við girðinguna.[111]

Fyrir alla þá sem komu af Sandsheiði og stefndu að Hrauni, Álfadal eða Sæbóli var Háls fyrsti bær sem komið var að. Alfaravegur fram Sandinn í átt til heiðarinnar lá yfir Miðvað á Langá, rétt hjá ármótum hennar og Þverár, fram Hraunseyrar, sem eru austan Langár, og um túnið á Hálsi.[112] Guðmundur Benediktsson frá Hálsi segir í örnefnalýsingu sinni að reiðgatan sem almennt var farin hafi legið milli bæjanna á Hálsi[113] en Jóhannes Davíðsson segir að gata þessi hafi legið upp með túninu í sneiðing upp Hálsinn.[114] Líklegt er að menn hafi ýmist riðið um túnið eða upp með því og máske hafa þeir einir farið um tún og hlað sem hugðust heilsa upp á fólkið á Hálsi í leiðinni.

Frá túnbalanum þar sem áður stóðu bæirnir tveir á Hálsi leggjum við leið okkar norður fyrir túnið, þangað sem Þverá fellur í þremur fossum fram af hálsbrúninni og um Fossabrekkur niður í Langá.[115] Neðsti fossinn heitir Hálsfoss[116] og á bak við hann er skúti undir berginu svo alltaf er hægt að ganga þurrum fótum á bak við fossinn.[117]

Sú skoðun mun nú vera býsna almenn að lækurinn Ósómi á Ingjaldssandi sem um er getið í Landnámabók muni vera Þverá (sjá hér Svipast um á Ingjaldssandi) og hér ómar hún við ósinn. Á síðari tímum mun neðsti fossinn, sem í Örnefnaskrá er sagður heita Hálsfoss, stundum hafa verið nefndur Ósómi en nafnið Hálsfossar notað sem samheiti um alla fossana hér neðan við hálsbrúnina.[118]

Við fossniðinn er gott að una og hvergi betra en hér að minnast þeirra sem fyrstir bjuggu á Ingjaldssandi, að sögn Landnámabókar, Ljóts hins spaka, Gríms kögurs og sona hans en frá viðskiptum þeirra hefur áður verið sagt á þessum blöðum. Hér sem annars staðar rennur Þverá á landamerkjum Háls og Brekku. Samt látum við bíða að taka strikið niður að Brekku en snúum, að góðri stund liðinni, til baka heim í tún á Hálsi því enn eigum við dálitla ferð fyrir höndum um þann hluta Hálslandareignar sem liggur austan við Hálsinn og fjallið Þorsteinshorn.

Frá bæjunum á Hálsi lá gamla þjóðleiðin upp brekkuna fyrir ofan túnið og yfir hálsranann en síðan til suð-suðausturs fram dalinn austan við Þorsteinshorn og í átt til heiðarinnar. Við tygjum okkur nú líka til ferðar, röltum yfir Hálsinn og fram dalinn þar sem gamla reiðgatan er víða sjáanleg í nánd við bílveginn sem liggur meðfram Þorsteinshorni fyrir vestan Þverá. Dalurinn hér austan við Þorsteinshornið er um það bil þrír kílómetrar á lengd og mun nú af mörgum vera nefndur Brekkudalur hlíða á milli. Að réttu lagi er það þó aðeins landið austan Þverár sem heitir því nafni, það er að segja sá hluti dalsins sem er í landareign Brekku (sjá hér bls. 1). Bæði gamla þjóðleiðin og akvegur nútímans liggja hins vegar vestan Þverár um Hálsparta og Skógabrekkur en þær eru tvær og heita Neðri- eða Lægri-Skógabrekka og Hærri-Skógabrekka.[119] Neðri-Skógabrekka er lítill hjalli en Hærri-Skógabrekka er mun stærri og liggur þvert á Þorsteinshorn.[120]

Í Hálspörtum voru dálitlar slægjur.[121] Fremst í pörtum þessum, rétt við Þverá, er allstórt lyngivaxið holt og heitir Fjárholt.[122] Þar er Fjárholtsfoss í ánni en Skógabrekkufoss þar rétt fyrir ofan.[123]

Tóttir af fyrrum seljum frá Hálsi ættu líka að finnast hér austan við Þorsteinshornið ef vel væri leitað. Við réttarhald, sem efnt var til á Mýrum í Dýrafirði 17. júní 1727,var lagður fram vitnisburður um landamerki jarðanna Háls og Brekku.[124] Vitnisburður þessi var dagsettur 4. júlí 1635 og þar sagði meðal annars að fyrir ofan Háls væru tóttir selja frá Hálsi.[125] Ætla verður að í minni þeirra sem áttu heima á Hálsi hafi orðalagið fyrir ofan Háls falið í sér merkinguna hinum megin við hálsinn sem þar rís ofan við túnið. Aðra merkingu er tæplega hægt að leggja í þessi orð þar sem þau standa í vitnisburðinum frá 1635. Með hliðsjón af því ætti selið að hafa verið austan við hálsinn og þá að líkindum á gróðursælum stað upp með Þverá. Tvímælalaust er að það hefur verið í Hálslandareign og tóttanna ber því að leita vestan árinnar þegar betra tóm gefst til.

Í vitnisburðinum frá 1635 er talað um seljatóttir og virðist því ljóst að búsmali hafi ekki verið nytkaður þar á þeim tíma. Vera kann að bændur á Hálsi hafi síðar tekið upp seljabúskap á ný en um það er þó ekkert vitað og ekki er kunnugt um aðrar seljatóttir í Hálslandi.

Einu tóttirnar sem nú er kunnugt um fyrir ofan Háls eru skammt fyrir framan brúna á Þverá.[126] Þær eru á vinstri hönd þegar ekið er fram dalinn og bendir útlitið til þess að þarna hafi verið einhvers konar fjárhús.[127]

Akvegurinn sem nú er farinn frá Sæbóli og upp á Sandsheiði liggur yfir brú á Langá rétt framan við túnið á Brekku og svo vestur yfir Þverá á móts við túnið á Hálsi en þó hinum megin við hálsranann. Braut þessi hlykkjast svo áfram hér vestan árinnar í átt til heiðar um beitiland þeirra sem áður bjuggu á Hálsi.

Ofan við Hærri-Skógabrekku sem áður var nefnd er stórt og mikið holt sem heitir Vatnahjallaholt.[128] Enn ofar gengur klettahjalli til austurs út úr Þorsteinshorni og er það Vatnahjalli.[129] Upp hann miðjan lá gamla reiðgatan á fyrri tíð.[130] Þegar farið var ríðandi á Sandsheiði var hestum jafnan leyft að hvíla sig þegar komið var á Vatnahjalla.[131] Fram af Vatnahjallaendanum fellur Þverá í fossum og landsvæðið þar fyrir neðan nefna kunnugir undir Fossum.[132] Dálítið ofan við Vatnahjalla er stór grjóthóll sem heitir Sjónarhóll. Frá honum er skammt til heiðarinnar. Kaplaskarð heitir í Þorsteinshorni fyrir ofan Vatnahjalla. Þar var stundum farið og þótti snjóléttara.[133] Að þessu sinni er ekki meiningin að fara yfir Sandsheiði. Við snúum því við á Sjónarhól, förum yfir Þverá og hefjum göngu um landareign jarðarinnar Brekku. Frá lagningu akvegarins yfir Sandsheiði og ferðum yfir hana er sagt hér á öðrum stað (Sjá hér Svipast um á Ingjaldssandi.                         – – – – – o o o – – – – –

[1] Óskar Einarsson 1951, 172.

[2] Örnefnaskrá.

[3] Guðmundur og Guðni Ágústssynir. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993. Guðmundur Hagalínsson. – Viðtal

K.Ó. við hann 2.7.1993.

[4] Sömu heimildir.

[5] Sömu heimildir.

[6] Óskar Ein. 1951, 163-164.

[7] Sama heimild.

[8] Sama heimild.

[9] Guðm. og Guðni Ágústssynir. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

[10] Örn.skrá.

[11] Guðm. og Guðni Ágústssynir. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

[12] Sama heimild.

[13] Óskar Ein. 1951, 174.

[14] Sama heimild.

[15] Örn.skrá.

[16] Sama heimild.

[17] Sama heimild og Óskar Ein. 1951 174.

[18] Örn.skrá.

[19] Sama heimild.

[20] Sama heimild.

[21] Sama heimild.

[22] Sama heimild.

[23] Örn.skrá.

[24] Sama heimild.

[25] Jóhannes Davíðsson 1979, 107.

[26] Sama heimild, 106-108.

[27] Sama heimild.

[28] Lbs. 25604to.

[29] Sveinn Níelsson 1950, 190-191.

[30] Jóh. Dav. 1979, 107.

[31] Þorvaldur Thoroddsen 1959, 123 (Ferðabók II).

[32] Sama heimild.

[33] Óskar Ein. 1951, 173-174.

[34] Sama heimild.

[35] Sama heimild.

[36] Sama heimild og Örn.skrá.

[37] Jarðab. Á. og P. VII, 91.

[38] Örn.skrá.

[39] Óslar Ein. 1951, 173-174 og Örn.skrá.

[40] Sömu heimildir.

[41] Sömu heimildir.

[42] Sömu heimildir.

[43] Sömu heimildir.

[44] Sömu heimildir.

[45] D.I. II, 360.

[46] Sóknalýs. Vestfj. II, 86.

[47] D.I. XV, 473.

[48] Sama heimild.

[49] D.I. XV, 522.

[50] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681. Manntal 1703.

[51] Manntal 1703.

[52] Jarðab. Á. og P. VII, 91.

[53] Sama heimild.

[54] Almanak Hins Ísl. þjóðvinafélags 1875, 32.

[55] J. Johnsen 1847, 194.

[56] Jarðab. Á. og P. VII, 91.

[57] Sama heimild.

[58] Sama heimild.

[59] Jarðab. Á. og P. VII, 91.

[60] Sóknalýs. Vestfj. II, 86.

[61] Jóh. Dav. 1968, 59.

[62] Sama heimild.

[63] Jarðab. Á. og P. VII, 91. J. Johnsen 1847, 194.

[64] Jarðab. Á. og P. VII, 91. Jarða- og bændatal 1753. Manntal 1845.

[65] Manntal 1801.

[66] Sama heimild.

[67] Manntal 1801.

[68] Manntal 1845.

[69] VA III, 411-412, búnaðarskýrslur 1846-1850.

[70] Manntal 1845.

[71] Jóh. Dav. 1970, 98-99.

[72] Sama heimild.

[73] Sama heimild.

[74] Sama heimild.

[75] Manntal 1845.

[76] Jóh. Dav. 1970, 99.

[77] Jóh. Dav. 1970, 99.

[78] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 11.10.1898.

[79] Jóh. Dav. 1970, 99.

[80] Örn.skrá.

[81] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Dýrafj.prestakalls.

[82] Lbs. 23744to, Dagbók S.Gr.B. 9.9.1889.

[83] Lbs. 23744to, Dagbók S.Gr.B. 9.9.1889.

[84] Sama dagbók 13.9.1889.

[85] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[86] Jóh. Dav. 1970, 97-98.

[87] Sama heimild.

[88] Sama heimild.

[89] Sama heimild.

[90] Sama heimild.

[91] Jóh. Dav. 1970, 97-98. Lýður Björnsson 1989, 319 (Grunnvíkingabók II). Vestf. ættir II, 469.

[92] Sömu heimildir.

[93] Sömu heimildir.

[94] Vestf. þjóðsögur II, síðari hluti, bls. 123-128.

[95] Sama heimild.

[96] Sama heimild.

[97] Sama heimild.

[98] Örn.skrá. Óskar Ein. 1951, 172-175.

[99] Guðm. og Guðni Ágústsson. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993. Guðmundur Hagalínsson. – Viðtal K.Ó. við

hann 2.7.1993.

[100] Vestf. þjóðsögur II, síðari hluti, bls. 123-128.

[101] Sama heimild.

[102] Vestf. þjóðsögur II, síðari hluti, bls. 123-128.

[103] Vestf. þjóðsögur II, síðari hluti, bls. 123-128.

[104] Sama heimild.

[105] Örn.skrá.

[106] Sama heimild.

[107] Sama heimild og Óskar Ein. 1951, 173.

[108] Örn.skrá.

[109] Sama heimild.

[110] Guðm. Hagalínsson. – Viðtal K.Ó. við hann 2.7.1993.

[111] Sama heimild.

[112] Örn.skrá.

[113] Sama heimild.

[114] Jóh. Dav. 1970, 96.

[115] Örn.skrá og Óskar Ein. 1951, 168.

[116] Sömu heimildir.

[117] Sömu heimildir.

[118] Guðni Ágústsson. – Viðtal K.Ó. við hann 1.7.1993.

[119] Örn.skrá. M. og G. Guðm.dætur. -Viðt. K.Ó. v. þ. 30.6.93. G. og  G. Ág.synir. – Viðt. K.Ó. v. þá 1.7.93.

[120] Guðm. og Guðni Ágústssynir. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

[121] Jóh. Dav. 1968, 59. Óskar Ein. 1951, 175.

[122] Óskar Ein. 1951, 175.

[123] Sama heimild.

[124] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 2. Dóma- og þingbók Markúsar Bergssonar sýslumanns 1720-1729,

réttarhald á Mýrum 17.6.1727.

[125] Sama heimild.

[126] Guðm. og Guðni Ágústssynir. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

[127] Sama heimild.

[128] Örn.skrá og Óskar Ein. 1951, 175.

[129] Örn.skrá.

[130] Sama heimild.

[131] Guðm. og Guðni Ágústssynir. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

[132] Óskar Ein. 1951, 175.

[133] Guðm. og Guðni Ágústssynir. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »