Hraun á Ingjaldssandi

Hraun á Ingjaldssandi

Hraun á Ingjaldssandi er forn bújörð, 12 hundruð að dýrleika samkvæmt fornu mati.[1] Landamerkjum jarðarinnar á móti Álfadal hefur áður verið lýst. Í suðurátt nær landareign Hrauns fram að Selá (sjá hér bls. 15 og 16). Frá bænum í Hrauni og fram að ármótunum þar sem Selá fellur í Langá er tæplega hálfur annar kílómetri. Framan við Selá tekur við beitilandið sem nefnt er á Heiðum og telst nú fylgja Sæbóli (sjá hér Sæból) en var áður fyrr sameign Sæbólskirkju, hálfkirkjunnar á Álfadal og eigenda Sæbóls (sjá hér Álfadalur) og máske fleiri aðila (sjá hér Brekka). Á móti jörðunum Hálsi og Brekku er það Langá sem skiptir löndum með þeirri undantekningu þó að Hraun á dálitla landspildu austan árinnar, neðan við túnið á Hálsi, og fylgja merkin þar gömlu árfari.[2] Landspilda sú sem Hraun á austan árinnar heitir Hraunseyrar og er það valllendisstykki.[3]

Yfir bænum í Hrauni gnæfir fjallið Hraunshorn en Stóruhraun, er svo heita, setja þar líka sterkan svip á allt umhverfið. Þau hafa myndast við mikið framhlaup sem komið hefur úr fjallinu og byrgja fyrir allt útsýni frá Hrauni niður eftir Sandinum. Grjóthólaþyrpingar af þessu tagi eru á Vestfjörðum nefndar hraun en þeim má þó ekki rugla saman við eldhraun í öðrum landsfjórðungum sem eru annars eðlis. Stóruhraun ná alveg ofan frá Borgum (Hraunsborgum), sem eru grjóthjalli í um það bil miðju fjallinu,[4] og ofan á láglendið. Utan við túnið í Hrauni er skammt frá ánni stórt holt sem heitir Vörðuholt.[5] Ofan við það er vik í hraunjaðarinn og þar stendur Hraunsrétt,[6] hin gamla skilarétt Sandmanna sem gegndi sínu forna hlutverki fram yfir 1960. Á einum stað, skammt fyrir framan landamerki Álfadals og Hrauns, ná grjóthólarnir nær alveg niður að Langá og heitir þar Hraunafótur.[7] Hér niður við ána eru þeir mun lægri en upp við fjallið og allvel grónir. Gamli alfaravegurinn fram Ingjaldssand lá yfir Hraunafót og áfram fram að Hrauni en síðan yfir Langá á Miðvaði, rétt hjá ármótum hennar og Þverár, og um túnið á Hálsi (sjá hér Háls og Brekka).[8] Leið þessi lagðist af árið 1956 þegar Langá var brúuð við Hraunafót eða með öðrum orðum rétt framan við túnið á Brekku[9] sem er hér handan ár.[10] Akvegur nútímans liggur yfir þessa brú og þó skammt sé á hana frá Hrauni þá er bærinn ekki í alfaraleið um Sandinn með sama hætti og áður var.

Fyrir framan túnið í Hrauni hækkar landið smátt og smátt upp frá ánni og upp undir Löngubrekku sem er í mynni Hraunsdals.[11] Hraunsdalur er gróinn hlíðarslakki framan við fjallið Hraunshorn en heiman við Selá og teygist til vesturs í átt að Nesdalsskarði (sjá hér Nesdalur). Hér verður síðar litið nánar á Hraunsdal og það helsta sem þar er að sjá en áður en það verður gert er rétt að staldra við heima í Hrauni.

Í rituðum heimildum er fyrst getið um jörðina Hraun á Ingjaldssandi í vitnisburði frá 18. september 1428 en þar er hún talin meðal jarða sem Guðmundur Arason hinn ríki greiddi Þorgerði Ólafsdóttur, stjúpmóður sinni, í mála hennar.[12] Nokkrum áratugum síðar komst jörðin í eigu Björns Þorleifssonar hirðstjóra og vorið 1467 seldi hann Örnólfi Einarssyni á Hvilft í Önundarfirði jarðirnar Hraun og Álfadal á Ingjaldssandi (sjá hér Álfadalur).[13] Ókunnugt er hversu lengi Örnólfur átti Hraun.

Árið 1710 átti Eggert Sæmundsson, sem þá bjó á Sæbóli, fjögur hundruð í Hrauni en hin átta hundruðin áttu dætur Þorgríms sáluga Halldórssonar á Svínanesi í Múlasveit við Breiðafjörð.[14] Þorgrímur þessi hafði verið kvæntur Sesselju Sæmundsdóttur frá Sæbóli á Ingjaldssandi, systur Eggerts Sæmundssonar þar (sjá hér Sæból). Með hliðsjón af því má telja mjög líklegt að systkinin Eggert og Sesselja hafi erft Hraun eftir föður sinn, Sæmund Eggertsson, lögréttumann á Sæbóli, sem andaðist árið 1666 (sjá hér Sæból) og vel má vera að jörðin hafi lengi verið í eigu Sæbólsmanna.

Árið 1762 átti Snæbjörn Pálsson (Mála-Snæbjörn), sem þá bjó á Álfadal, nokkur hundruð í Hrauni en annar eigandi jarðarinnar var þá Þóra Þorgrímsdóttir,[15] sem ætla má að hafi verið ein þeirra dætra Þorgríms Halldórssonar á Svínanesi er erfðu átta hundruð í Hrauni skömmu fyrir 1710. Þóra var átta ára gömul hjá foreldrum sínum á Svínanesi, Þorgrími og Sesselju Sæmundsdóttur, þegar manntal var tekið árið 1703.[16]

Í byrjun 18. aldar var tvíbýli í Hrauni en bændur á jörðinni voru þá Ketill Jónsson og Borgný Grímsdóttir.[17] Borgný var þá ekkja með fimm börn og eina vinnukonu.[18] Í manntalinu frá 1703 er þess getið að ekkjan í Hrauni taki vinnumannatíundir[19] sem merkir að hún hefur notið einhvers sveitarstyrks og hann verið greiddur af fé því sem vinnumenn í hreppnum guldu í fátækratíund. Árið 1710 voru hvorki Ketill né Borgný lengur við búskap í Hrauni en þá var kominn þar maður að nafni Jón Jónsson og bjó á allri jörðinni.[20] Bústofn hans var 4 kýr, 23 ær, 23 sauðir, 22 lömb, eitt hross og einn foli.[21] Landskuldin var fjórar vættir fiska og leigukúgildin fjögur sem jörðinni fylgdu.[22] Ábúð á Hrauni fylgdi líka sú kvöð árið 1710 að leggja landeiganda til mann í skiprúm á vorvertíðinni.[23] Kostum jarðarinnar og ókostum er þá lýst með þessum orðum:

 

Útigangur er mjög lakur. Torfrista mjög lök, stunga bjargleg. Móskurður bjarglegur til eldiviðar með sverði. Lyngrif lítið. Engið spillist stórlega með grjóts og sands áburði úr Langá sem áeykst árlega meir og meir. Útihagar eru bjarglegir. Hætt er kvikfé fyrir afætudýjum.[24]

 

Í þessari lýsingu er greinilega gert minna úr landkostum í Hrauni en efni stóðu til. Til samanburðar má hafa í huga að séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum segir árið 1840 að í Hrauni sé gott undir bú og kostasamt.[25] Til skýringar á þeim orðum nefnir hann sérstaklega Hraunsdalinn og segir að þar séu útislægjur frá Hrauni og beitiland sumar og vetur.[26] Að sögn séra Jóns var túnið í Hrauni þó ekki stórt og þótti harðslægt.[27] Dálitlar engjar voru á eyrum niður við ána auk slægjulandsins á Hraunsdal.[28]

Jóhannes Davíðsson, sem ólst upp á Ingjaldssandi á árunum kringum aldamótin 1900, lætur vel af landkostum í Hrauni og lýsir þeim með þessum orðum:

 

Hraun er ekki stór jörð en beit er þar mikil og góð. Túnið er fremur lítið og útfærslumöguleikar út frá túni engir. Heimaengjar eru bæði utan Stóruhrauna og áreyrar og flói fram með Langá en aðalslægjurnar voru á Hraunsdal og voru þar töluvert miklar slægjur og sérstaklega heygott. … Beitarsælt er í Hrauni á vetrum og beitar- og heygæði eru mikil á Hraunsdal og eru það aðalkostir jarðarinnar.[29]

 

Jóhannes getur þess líka að þótt landareign Hrauns nái ekki nema fram að Selá þá hafi bændur í Hrauni notið beitarlandsins á Heiðum, hinum megin við Selá, þar eð engin tálmun var á landamerkjunum.[30] Til marks um gæði heyjanna af Hraunsdal nefnir Jóhannes að bændur á öðrum bæjum á Ingjaldssandi hafi stundum fengið hey frá Hrauni ef þeir þurftu að lækna kindur sínar af skitu.[31] Gæði heysins af Hraunsdal þökkuðu menn hinum fjölbreytta gróðri sem þar vex en kvistur og víðilauf krydduðu mikið af heyinu sem þaðan kom.[32]

Orð Jóhannesar Davíðssonar sýna svo ekki verður um villst að í Jarðabókinni frá 1710 er gert alltof lítið úr landkostum í Hrauni. Einn ókostur fylgdi þó jörðinni, sem ekki er getið um í Jarðabókinni, en hann var sá að stundum komst eitt og eitt mannýgt naut úr afréttinni í Nesdal yfir varnarvegginn í Nesdalsskarði (sjá hér Nesdalur) heim á Hraunsdal og við bar að ógnvaldar þessir kæmu jafnvel alla leið heim að bæ í Hrauni.[33] Ýmsar sagnir greina frá viðureign manna við nautin og fólki sem bjargaðist naumlega á flótta undan þeim. Var kvenfólk sem vonlegt var hrætt við þessa gesti, segir Jóhannes Davíðsson, einkum á vorin þegar enginn fullorðinn karlmaður var heima.[34]

Á 18. öld virðist oft hafa verið tvíbýli í Hrauni og svo var enn árið 1801[35] en frá því um 1830 mun sjaldan eða aldrei hafa verið þar tvíbýli.[36] Bændurnir sem bjuggu í Hrauni árið 1801 hétu Jón Jónsson og Guðmundur Hákonarson.[37] Jón þessi Jónsson var þá kominn á sjötugsaldur og er ekki ólíklegt að það hafi verið hann sem þeir kumpánar Flotnös og Skrúðalín léku harðast nokkrum árum áður en manntal þetta var tekið (sjá hér Birnustaðir).

Úr röðum bænda sem bjuggu í Hrauni á 19. öld munu margir minnast Eiríks Tómassonar sem þótti merkisbóndi á sinni tíð en hann drukknaði haustið 1849 í Sæbólslendingu, tæplega fimmtugur að aldri. Eiríkur var dóttursonur Páls Hákonarsonar sem bjó á Álfadal um aldamótin 1800[38] en Páll var sonarsonur Mála-Snæbjörns eins og hér hefur áður verið rakið. Foreldrar Eiríks Tómassonar voru Tómas Eiríksson frá Mosdal í Önundarfirði og Þuríður Pálsdóttir frá Álfadal. Er manntal var tekið árið 1801 áttu þau heima í Mosdal og þar var Eiríkur sonur þeirra þá hjá þeim, fæddur 12. ágúst árið 1800.[39] Fjölskylda þessi fluttist fáum árum síðar á Ingjaldssand. Þar bjuggu foreldrar Eiríks haustið 1806 á Álfadal en tíu árum síðar voru þau komin að Hrauni.[40]

Haustið 1828 var Eiríkur Tómasson orðinn bóndi á Álfadal og það haust gekk hann að eiga Kristínu Nikulásdóttur frá Dufansdal í Arnarfirði sem við brúðkaupið er nefnd bústýra á Álfadal.[41] Við hjónavígsluna var brúðguminn 28 ára en brúðurin 21 árs.[42] Sú staðhæfing sóknarprestsins að Kristín hafi verið bústýra á Álfadal er hún giftist Eiríki bendir eindregið til þess að þau hafi búið þar saman um eitthvert skeið áður en hjónavígslan fór fram.

Kunn er sagan af bónorðsför Eiríks Tómassonar á þorranum árið 1828 yfir tvær heiðar og tvo firði, frá Ingjaldssandi að Dufansdal í Arnarfirði.[43] Í Dufansdal bjuggu þá hjónin Snæbjörn Pálsson og Kristín Nikulásdóttir en Snæbjörn var móðurbróðir Eiríks.[44] Stúlkan sem Eiríkur hugðist biðja sér fyrir konu var alsystir húsfreyjunnar í Dufansdal og hétu þær báðar Kristín.[45] Sagnir herma að heima á Sandi og við sjóróðra í öðrum byggðarlögum hafi Eiríki borist til eyrna ýmsar lofsamlegar frásagnir af þessari mágkonu frænda síns[46] en nú vildi hann sjá hana með eigin augum og fá að reyna hvort það orð sem af henni fór gæfi rétta mynd.

Ætla má að í Dufansdal hafi Eiríkur fengið góðar móttökur hjá húsráðendum og án efa hefur stúlkan sem hann hugðist biðja boðið af sér góðan þokka. Hinn langt að komni ferðalangur lét þó bíða að bera upp bónorðið, enda hafði hann einsett sér að hreyfa ekki þeim málum fyrr en hann hefði náð að prófa verkhæfni ungmeyjarinnar með marktækum hætti. Kom honum helst það ráð í hug að slíta varpið á skó sínum og biðja hana síðan að gera við skóinn svo kostur gæfist á að dæma um handbragðið.[47] Þetta verklega próf mun mærin hafa staðist með prýði og innan fárra daga bar Eiríkur upp bónorðið. Var því vel tekið og þegar hann sneri til baka heim á Ingjaldssand fór hin tilvonandi brúður með honum.[48]

Fyrstu hjúskaparárin bjuggu Eiríkur og Kristín á Álfadal því tvö elstu börn þeirra fæddust þar á árunum 1829 og 1830.[49] Árið 1832 mun Eiríkur hins vegar hafa tekið við búi af föður sínum í Hrauni en Tómas og Þuríður dvöldust þar áfram í húsmennsku hjá syni sínum og Kristínu konu hans.[50] Tíu árum síðar voru átta börn Eiríks og Kristínar heima hjá foreldrum sínum í Hrauni[51] en áður en lauk munu börn þeirra hafa orðið þresttán og náðu öll nema eitt fullorðinsaldri.[52] Á búskaparárum sínum í Hrauni var Eiríkur tvímælalaust í hópi virtustu bænda í Mýrahreppi. Hann átti sjálfur jörðina sem hann bjó á[53] og þó ábýlið væri ekki stórt virðist honum hafa búnast vel. Til þess bendir m.a. sú staðreynd að um það leyti sem Eiríkur andaðist áttu aðeins 7 af 49 bændum í Mýrahreppi meira lausafé en hann.[54] Að sögn gamalla Sandmanna áttu Eiríkur í Hrauni og fjölskylda hans þó við nokkurt andstreymi að stríða og þá einkum af völdum draugsins Hrauns-Móra sem gerði þeim margvíslegar glettingar.

Niðjar Eiríks Tómassonar í Hrauni sögðu sumir svo frá síðar að Hrauns-Móri hafi verið sending úr Arnarfirði og draugagangurinn hafi átt rætur að rekja til samskipta Eiríks við Arnfirðinga er hann leitaði sér konuefnis í Dufansdal í Arnarfirði.[55] Eins og áður var getið kvæntist Eiríkur Kristínu Nikulásdóttur haustið 1828 en fimm árum fyrr hafði Kristín flust að Dufansdal með foreldrum sínum, þá 16 ára gömul.[56] Þangað komu þau sunnan úr Dalasýslu en systir Kristínar, sem hét líka Kristín, hafði skömmu fyrr gifst Snæbirni Pálssyni, bónda í Dufansdal, sem var móðurbróðir Eiríks Tómassonar.[57] Nær vafalaust má telja að ættartengslin við Snæbjörn í Dufansdal hafi með einum eða öðrum hætti ráðið miklu um kvonfang Eiríks.

Einn fjölmargja niðja Eiríks Tómassonar og Kristínar konu hans var Guðmundur Jónsson frá Mosdal, kunnur myndskeri og lengi kennari á Ísafirði, en þau hjónin voru langafi hans og langamma.[58] Guðmundur sagði svo frá að áður en Eiríkur kvæntist Kristínu hefði Arnfirðingur nokkur ætlað séra hana fyrir konu og sá hinn sami hefði sent Hrauns-Móra á Ingjaldssand til að klekkja á Eiríki.[59] Nánar greindi Guðmundur frá Mosdal svo frá þessum atburðum:

 

Arnfirðingur einn hafði líka lagst á hugi við Kristínu og taldi sig hafa fengið hennar ef Eiríkur hefði ekki til komið. Þeim Eiríki og Arnfirðingnum varð að orðum út af þessu og svo lauk að Arnfirðingurinn heitaðist við Eirík.

Það var síðla sumars að Eiríkur fór ásamt Kristínu heitmey sinni heim að Hrauni [að Álfadal mun þó réttara, sjá hér bls. 5 – innsk. K.Ó.] og tóku þar við búi. Vorið eftir fór Eiríkur að sækja ýmsan farangur Kristínar til Arnarfjarðar og fór á litlum sexæring af Ingjaldssandi. Þegar Eiríkur og félagar hans voru að búast til brottferðar úr Arnarfirði sá einn háseti Eiríks, sem skyggn var, unglingspilt í mórauðri peysu og heldur ófrýnilegan standa þar í fjörunni og leita lags til þess að komast út í bátinn. Hásetinn sá strax að þetta var uppvakningur og hafði orð á því við Eirík hvort kumpán þessi ætti að fara með þeim.

Eiríki mun hafa í hug komið að Arnfirðingurinn ætlaði að jafna við sig hrakförina í ástamálunum með sendingu þessari og kvaðst skyldu sjá svo um að hún færi ekki með þeim á bátnum. Þeir félagar héldu nú heimleiðis til Önundarfjarðar og gekk ferðin vel. Litlu eftir að Eiríkur kom heim að Hrauni kom Móri þangað og hafði þá gengið fyrir botn Arnarfjarðar, Dýrafjarðar og út með Önundarfirði en ekki voru nein þreytumörk á honum. Reið Móri strax húsum í Hrauni svo brakaði og brast í hverju tré. Einnig hafði hann í frammi margs konar aðrar glettingar.

Móri var svo magnaður draugur að þeir sem skyggnir voru sáu hann oft leika sér með börnunum í Hrauni. Er sagt að Móri hafi flegið kött á þvertrénu í baðstofunni og leikið aðrar listir. Feril Móra úr Arnarfirði mátti rekja á þann veg að þar sem hann hafði komið nálægt á bæjum voru hvarvetna einhver skemmdarverk unnin.[60]

 

Á árunum 1839-1849 átti Eiríkur í Hrauni jafnan sexæring[61] og mun hafa róið á honum frá Sæbóli bæði vor og haust.[62] Þann 8. september 1849 fórst bátur Eiríks í landtöku við lendinguna á Sæbóli og drukknuðu allir sem á honum voru.[63] Sjálfur var Eiríkur formaður í þessum róðri og fórst hann þar með hásetum sínum. Þeir sem þarna týndu lífi voru: Eiríkur Tómasson, bóndi í Hrauni, Guðmundur Guðmundsson, bóndi á Álfadal, Jón Jónsson, bóndi á Hálsi, sem var annar tveggja bænda þar vorið 1849 er báðir hétu Jón Jónsson, Bjarni Bjarnason, vinnumaður Hrauni, Jón Jónsson, vinnumaður Villingadal, og Þorsteinn Einarsson, vinnumaður Villingadal.[64]

Drukknun Eiríks Tómassonar og skipverja hans upp við landsteina þótti sæta miklum tíðindum. María Sigmundsdóttir, sem var eitt barnabarna Eiríks, sagði síðar svo frá að er afi hennar lagði upp í þessa síðustu sjóferð sína hafi hann farið ríðandi frá Hrauni niður að Sæbólssjó eins og venja en heimilisfólk á Brekku hafi þá séð drauginn Hrauns-Móra í fylgd með honum. Sögðu sumir að Móri hefði setið í skutnum hjá Eiríki er þeir nálguðust land og hafi hann gripið í stýrissveifina þegar brimróðurinn var tekinn.[65] Gera má ráð fyrir að einhverjir Sæbólsmanna hafi séð bátinn farast án þess að geta nokkuð að gert og Jóhannes Davíðsson, sem hér hefur áður verið nefndur, kveðst hafa heyrt að börnin af frambæjunum á Ingjaldssandi hafi verið komin niður á Sæbólsbakka og séð til bátsins er hann hóf brimróðurinn en barst á og fórst við lendinguna.[66]

Átakanlegt hefur verið að sjá mennina drukkna í brimgarðinum og ærin raun fyrir börnin að horfa upp á svo óvænt dauðastríð sinna nánustu. Lendingin á Sæbóli þótti löngum viðsjál og mjög varasöm, enda voru Eiríkur í Hrauni og menn hans ekki þeir fyrstu sem týndu þar lífi (sjá hér Sæból). Aftur á móti mun enginn bátur hafa farist í Sæbólslendingu á þeim nær 150 árm sem liðin eru frá því Eiríkur Tómasson og skipverjar hans drukknuðu þar allir sex.[67]

Er Eiríkur í Hrauni drukknaði höfðu nýlega orðið sýslumannsskipti í Ísafjarðarsýslu. Eggert Briem, sem verið hafði sýslumaður Ísfirðinga, var þá farinn norður í Eyjafjörð en Magnús Gíslason hafði verið settur til að gegna sýslumannsembættinu. Þann 12. janúar 1850 skrifar Magnús forvera sínum langt bréf og getur þar meðal annars um bátstapann á Ingjaldssandi. Hann kemst þar svo að orði:

 

Fréttir eru engar nema skip fórst í haust í lendingu á Ingjaldssandi. Varð þar helstur mannskaði að Eiríki Tómassyni á Hrauni sem þér þekktuð. Hann var formaður, hinir voru lítt kenndir ….[68]

 

Orðalagið á þessari frásögn Magnúsar af slysinu sýnir vel hversu hátt Eiríkur hefur verið metinn hjá hinum æðstu embættismönnum sýslunnar. Um kynni Eiríks bónda í Hrauni af Eggerti Briem sýslumanni þarf heldur ekki að efast því hann var meðdómsmaður hjá Eggerti þegar Benóný og Ólöf á Álfadal voru dæmd til dauða árið 1845 (sjá hér Álfadalur).

Kristín Nikulásdóttir, ekkja Eiríks Tómassonar, bjó áfram í Hrauni í nokkur ár eftir að Eiríkur maður hennar drukknaði. Sagt er að prestssonur, norðan úr Grunnavíkurhreppi, Arnór Hannesson að nafni, hafi þá leitað ráðahags við þessa barnmörgu ekkju í Hrauni en fengið neitun.[69] Við skulum ná saman samt, á hann þá að hafa mælt og náði sú heitstrenging fram að ganga um það bil sjötíu árum síðar er sonardóttursonur Kristínar og sonardóttir Arnórs urðu hjón.[70]

Árin sem Kristín bjó sem ekkja í Hrauni urðu ekki mörg en niðjar hennar og Eiríks Tómassonar hafa búið þar æ síðan, allt til þessa dags.[71] Eitt hinna eldri barna Eiríks og Kristínar var Þuríður. Hún giftist Sigmundi Sveinssyni frá Leiti í Dýrafirði og tóku þau við búsforráðum í Hrauni úr höndum Kristínar vorið 1855.[72] Þau Sigmudur og Þuríður bjuggu í Hrauni í um það bil 30 ár en dvöldust þar síðan áfram hjá Eiríki syni sínum allt til ársins 1905.[73]

Engin lýsing mun vera til á útliti Eiríks Tómassonar í Hrauni en dóttursyni hans, Eiríki Sigmundssyni, sem fæddur var um 1860 og bjó í Hrauni um síðustu aldamót, hefur Jóhannes Davíðsson lýst með þessum orðum:

 

Eiríkur var með hærri mönnum á vöxt og samsvaraði sér vel, dökkhærður og svartskeggjaður, glaðvær og drengur góður. … Hann var málglaður og reifur, karlmenni, lagtækur nokkuð og duglegur.[74]

 

Kona Eiríks Sigmundssonar í Hrauni var Sigríður Jónsdóttir, sonardóttir Jóns Bjarnasonar á Sæbóli[75] sem hér hefur áður verið sagt frá (sjá hér Sæból). Sigríði þessari, húsfreyju í Hrauni við upphaf 20. aldar, lýsir Jóhannes Davíðsson svo:

 

Sigríður … var meðalkona að hæð, vel vaxin, fríð og gjörvileg, greind vel og las dönsku. Hún var fæddur stjórnari og hlýddu allir henni ósjálfrátt og var til þess tekið hve börn voru henni hlýðin. Þurfti hún ekki annað en berja með hring sínum í gluggarúðu er þau skyldu koma inn frá leikjum sínum og hlýddu þau strax. Hélt hún sig nokkuð að heldri kvenna hætti og ætla ég að ósjálfrátt hafi fáar konur í nágrenninu litið á hana sem jafningja sinn.[76]

 

Þau Eiríkur Sigmundsson og Sigríður kona hans bjuggu í Hrauni til ársins 1905 en fluttust þá til Flateyrar.[77] Á búskaparárum sínum í Hrauni stundaði Eiríkur Sigmundsson jafnan sjóróðra frá Sæbóli, bæði vor og haust, á sexæring sínum sem Hreggviður hét.[78] Sjóbúð hans sem stóð skammt frá lendingunni á Sæbóli hefur áður verið lýst á þessum blöðum (sjá hér Sæból).

Hér var áður minnst á drauginn Hrauns-Móra sem margir töldu að hefði verið sendur úr Arnarfirði á árunum skömmu fyrir 1830 í því skyni að gera Eiríki Tómassyni sem lengi bjó í Hrauni og niðjum hans sem mesta bölvun. Á búskaparárum Eiríks Sigmundssonar þóttust ýmsir enn verða varir við þessa gömlu fylgju sem send hafði verið á Ingjaldssand til höfuðs Eiríks afa hans.

Draugur þessi var þá ýmist nefndur Hrauns-Móri eða Skrúði.[79] Veturinn 1896-1897 var alþýðuskáldið Magnús Hjaltason við barnakennslu á Brekku á Ingjaldssandi. Var honum þá sagt frá mörgum hrekkjum sem draugur þessi átti að hafa framið. Meðal þess sem Magnús heyrði var að Skrúði hefði marið undir sér dreng til bana, lærbrotið telpu á Ingjaldssandi, sligað hesta, drepið kindur og jafnvel stórgripi.[80] Sandmenn sögðu Magnúsi að Hrauns-Móri, sem sumir kölluðu Skrúða, væri lítill strákur í mórauðum fötum með barðahatt á höfði.[81] Aldrei náði skáldið að sjá Skrúða en það flaugst hins vegar á við hann í draumi og hafði betur.[82]

Eitt margra barnabarna Eiríks Tómassonar var María Sigmundsdóttir frá Hrauni, systir Eiríks Sigmundssonar bónda þar. María átti mjög lengi heima í grennd við Mýrar í Dýrafirði.[83] Er komið var fram undir miðja 20. öld kunni hún enn einhver skil á Hrauns-Móra og svaraði spurningum um ættarfylgjuna á þessa leið:

 

Margir sáu piltunga í mórauðri peysu á undan eða í fylgd með Hraunsfólkinu. Piltungi þessi gerði ýmsar glettingar og skráveifur á bæjum þeim þar sem Hraunsfólkið kom og stundum drap hann gripi á bæjunum. … Að Eiríki (Tómassyni) látnum fylgdi Hrauns-Móri niðjum hans og vann ýms hervirki í ættinni en smám saman dró úr krafti hans og nú er hann víst útdauður með öllu.[84]

 

Líklega hefur Móri verið þrotinn að kröftum þegar Eiríkur Sigmundsson tók sig upp frá Hrauni og fluttist til Flateyrar árið 1905. Konan sem þá settist í húsmóðursætið í Hrauni var eins og hann úr hinum fjölmenna hópi barnabarna Eiríks Tómassonar, afa þeirra, sem áður bjó í Hrauni. Hún hét Sigríður Finnsdóttir og var gift manni sem Bernharður Jónsson hét.[85] Þau Bernharður og Sigríður fluttust að Hrauni vorið 1905 með allt sitt heimilisfólk en í þeim hópi voru fimm synir þeirra hjóna og foreldrar Sigríðar, þau Finnur Eiríksson frá Hrauni og Guðný Guðnadóttir kona hans. Allt kom þetta fólk að Hrauni frá Kirkjubóli í Valþjófsdal.[86] Er Bernharður og Sigríður fluttust að Hrauni vorið 1905 var jörðin enn í eigu Sigmundar Sveinssonar sem byrjað hafði sinn búskap þar fimmtíu árum fyrr.[87] Bernharður og Sigríður voru því leiguliðar í Hrauni þó ættmenn húsfreyjunnar hefðu búið þar í sjálfsábúð næstu 75 árin á undan eða því sem næst.

Finnur Eiríksson sem fluttist að Hrauni með dóttur sinni og tengdasyni vorið 1905 var fæddur í Hrauni 1. desember 1844,[88] sonur hjónanna Eiríks Tómassonar og Kristínar Nikulásdóttur sem hér hefur áður verið sagt frá. Er Eiríkur Tómasson drukknaði haustið 1849 var Finnur sonur hans á fimmta árinu svo ekki hefur hann haft mikið af föður sínum að segja. Finnur ólst upp í Hrauni þar til hann var orðinn þrettán eða fjórtán ára en fluttist þá með móður sinni að Dufansdal í Arnarfirði.[89] Að þremur árum liðnum komu þau mæðgin aftur að Hrauni og þar átti Finnur Eiríksson síðan heima allt til ársins 1870 er hann kvæntist Guðnýju Guðnadóttur, heimasætu í Dal en sú jörð er nú jafnan nefnd Kirkjuból í Valþjófsdal.[90] Finnur og Guðný bjuggu lengi í Dal, það er á Kirkjubóli, og verður nánar frá þeim sagt er þangað kemur.

Er Finnur Eiríksson fluttist aftur að Hrauni með dóttur sinni og tengdasyni vorið 1905 var hann sextugur að aldri. Hann átti þá enn eftir að lifa í 20 ár og einu betur og var allan þann tíma hjá fólki sínu í Hrauni. Jóhannes Davíðsson sem þekkti Finn vel á efri árum hans lýsir honum svo:

 

Hann var rífur meðalmaður á hæð, beinvaxinn, herðabreiður og sterkbyggður, enda kraftamaður góður, handviss og öruggur til úrræða, hvað sem að höndum bar. Rauðjarpur á hár og skegg og hélt hárinu fram að dauðastund. Nefið var hátt kónganef, ennið hátt og há kollvik. Þrátt fyrir mikla vinnu langa ævi gat hann svarið lófaeið, sem kallað er, til hins síðasta. Ekki var hann kvellisjúkur um dagana og hafði limi heila og óbæklaða fram til hinstu stundar.[91]

 

Bernharður Jónsson, bóndi í Hrauni, var oft við sjóróðra seinni hluta vetrar og öll vor fram til 12. júlí.[92] Finnur tengdafaðir hans stjórnaði þá útiverkum heima í Hrauni.[93] Gamli Finnur í Hrauni þótti vel verki farinn og léku flest verk í höndum hans. Hann þótti frábær vegghleðslumaður og góður vefari, laginn að temja hesta.[94] Um störf Finns Eiríkssonar á efri árum hans í Hrauni ritar Jóhannes Davíðsson meðal annars svo:

 

Finnur sló öll sumur fram á síðustu ár eða fram að áttræðu. Hann var góður sláttumaður og munaði drjúgum um hann á teig því iðinn var hann og laginn og svo bitu honum ljáir að það mátti segja að líkingin forna, að þeir bitu eins og brugðið væri í vatn, ætti sannarlega þar við. Ég man að eitt sinn sá ég hjá honum brúnt ljábrýni úr mjög hörðu efni, með sama lagi og norsku ljábrýnin nú á dögum. Kallaði hann það móbrýni og hef ég ekki séð slíkt brýni áður né síðar. Ekki hefði þýtt fyrir venjulega sláttumenn að reyna að eggja ljá með slíku brýni í grýttu landi … .

Á vetrum hirti Finnur lömbin og lét í kýrlaupana. Annars vann hann innivinnu, kembdi, brá gjarðir, vann hrosshár til reipa og fleira.

…… Einn var sá þáttur í fari Finns Eiríkssonar sem síst má gleymast og var hann einstakur í því efni á sinni tíð. Það var að ryðja og hreinsa hestagötur og reiðvegi svo að greiðfærari yrðu og hestum léttari. Ég held að hann hafi gengist fyrir að götur yfir Sandsheiði væru hreinsaðar af lausagrjóti á hverju vori og stundum unnið fáliðaður að því sjálfur. Þá er það alveg víst að ekkert vor eða sumar hafi undanfallið að göturnar upp á Hraunsdal væru hreinsaðar vegna heybandsflutninga og mannaferða að slætti og heim. Sjálfur reið hann alltaf upp á dalinn til sláttarins.[95]

 

Er nokkrir ungmennafélagar hófu vegagerð á Ingjaldssandi haustið 1911 var Finnur líka sá eini úr hópi eldri manna sem gekk til liðs við þá og lagði með þeim hönd að verki við þessar samgöngubætur.[96]

Einn drengjanna sem fluttust að Hrauni vorið 1905 var Guðmundur Bernharðsson sem seinna var lengi bóndi á nýbýlinu Ástúni á Ingjaldssandi. Á sínum efri árum ritaði Guðmundur ágæta lýsingu á baðstofunni í Hrauni sem byggð hafði verið á árunum kringum 1890 og hinir nýju ábúendur tóku við vorið 1905.[97] Um baðstofuna ritar Guðmundur svo:

 

Baðstofan var 15 álna löng, 6 álna breið (um 36 fermetrar) og 5 rúmstæði með hvorri hlið. Stoðir voru upp með rúmfótunum er náðu upp að sperrum. Rúmgaflar voru flestir þiljaðir upp til hálfs, með hillu yfir til að geyma skálar og aska og önnur matarílát. Annars náðu gaflar á hjónarúmum víða alla leið upp í súð. … Hún (baðstofan) var þiljuð í hólf og gólf, portbyggð. Skarsúð á sperrum, plægð gólfborð í loftinu með stigaopi á því miðju. Sexrúðugluggi í báðum stöfnum (bjórum) og 3 súðargluggar yfir rúmum vinnufólks. Stigi var upp á loftið [það er upp í baðstofuna – innsk. K.Ó.] með palli í miðju er breytti stefnu hans til annarrar hliðarinnar. …

Svefnrúmin tíu í baðstofunni voru öll fastnegld við portveggina. Stór, falleg og myndum skreytt húsklukka var fest á stoð milli tveggja nyrstu rúmanna. Borð var undir glugga á norðurstafni. Grindverk var í kringum stigaopið til varnar. Loftop var allmyndarlegt á mæni hússins, oft kallað „túða” eða „golan”. Það golaði eða drundi svo mikið í henni þegar stormur var.[98]

 

Að sögn Guðmundar Bernharðssonar var baðstofa þessi í Hrauni með þeim stærstu á Sandinum í byrjun þessarar aldar.[99] Hún þótti fremur köld og til að ráða bót á því var sett í hana kamína.[100] Undir baðstofunni var stofa og eldhús. Stofan var í norðurendanum, með tveimur gluggum móti austri fram á hlaðið.[101] Eldhúsið var þarna í miðju hússins. Þar var stór eldavél með bakarofni og þremur stórum eldholum.[102] Með austurhlið þessa sama húss var járnklæddur timburskúr, notaður sem geymsla og smíðahús en veggurinn milli baðstofunnar og skúrsins var alsettur hillum og undir þeim mjöltunnur og flest af þessháttar hlutum.[103]

Á árunum 1905 til 1915 voru alltaf lesnir húslestrar í baðstofunni í Hrauni á hverjum sunnudegi, árið um kring, og líka öll haust- og vetrarkvöld.[104] Finnur Eiríksson sem hér var áður nefndur, afi barnanna í Hrauni, las jafnan lesturinn og sat þá á rúmi konu sinnar sem var undir einum glugganum á súðinni.[105] Í þessu sæti, undir litla glugganum, naut hann birtunnar að utan við lesturinn. Gamli Finnur í Hrauni var líka meðhjálpari í Sæbólskirkju allt þar til kirkjan fauk 25. janúar 1924.[106] Við messugerðir fór hann stillilega með bænina og hringdi kirkjuklukkunum við upphaf og lok hverrar messu.[107] Lærdómslistir gamla meðhjálparans í Hrauni voru þó ekki allar tengdar guðsorði og bænalestri því hann var líka rímnamaður og kvað oft við raust heima í Hraunsbaðstofu á kvöldin.[108]

Á efri árum auðnaðist Finni að laða að sér konu sem var liðlega 30 árum yngri en hann og gera henni barn.[109] Þessi barnsmóðir hans hét Soffía Jónsdóttir og var systir Bernharðs bónda í Hrauni sem var tengdasonur karlsins.[110] Soffía var kaupakona í Hrauni sumarið 1911 en átti heima á Þingeyri.[111] Barnið sem hún kenndi Finni var stúlka sem fæddist á Þingeyri 14. maí 1912.[112] Séra Þórður Ólafsson, sem þá var prestur á Söndum, greinir frá foreldrum barnsins með þessum orðum: Finnur Eiríksson giftur húsmaður í Hrauni, Sæbólssókn og Soffía Jónsdóttir, 36 ára, gift húskona Grund. Hans fyrsta, hennar annað hórbrot.[113] Prestur segir þarna að Soffía sé gift kona en í sóknarmannatali frá 31. desember 1912 verður ekki séð að svo hafi verið. Hún bjó þá með öldruðum föður sínum og sex ára dóttur í húsinu Grund á Þingeyri.[114]

Stúlkan sem fæddist á Þingeyri 14. maí 1912 var mjög skömmu eftir fæðinguna flutt til ættfólks síns í Hrauni og ólst þar upp.[115] Sagt er að Finnur, sem þá var 67 ára gamall, hafi viljað ráða nafninu á þessu afkvæmi sínu. Lét hann hana heita Guðnýju í höfuðið á konu sinni[116] og átti þó aðra dóttur fyrir með því nafni sem var 42 árum eldri en þessi systir hennar.[117]

Flest bendir til þess að hin ágæta eiginkona Finns hafi reynst fús til að fyrirgefa bónda sínum hrösun hans með Soffíu og svo mikið er víst að hin hórgetna dóttir gamla meðhjálparans í Hrauni ólst þar upp.[118] Sveitungar fólksins í Hrauni sögðu þá sögu að einhverju sinni hefði Guðný Guðnadóttir, kona Finns, verið að kynna börnin í Hrauni fyrir ókunnugum gesti en þau voru flest barnabörn hennar. Þegar kom að næst yngsta barninu, sem var Guðný dóttir Soffíu, sagði gamla konan sem satt var: Þetta barn á nú Finnur minn.[119]

Finnur Eiríksson andaðist í Hrauni 30. september 1926[120] og var þá nær 82ja ára gamall. Hann var jarðsettur í gamla kirkjugarðinum á Sæbóli, síðastur allra sem þar hvíla.[121] Þegar Finnur dó var engin kirkja á Sæbóli því sú gamla hafði fokið út í veður og vind en ekki var búið að byggja nýja. Á því tímaskeiði, 1924-1929, var jafnan messað í stofunni í Hrauni (sjá hér Sæból) og má ætla að þar hafi séra Sigtryggur á Núpi talaði yfir kistu gamla meðhjálparans.

Bernharður Jónsson og Sigríður Finnsdótir stóðu fyrir búi í Hrauni allt til ársins 1934 en þá dó Bernharður.[122] Sigríður ekkja hans hélt búskapnum áfram næstu þrjú ár en þá tók við Þorlákur Bernharðsson, sonur þeirra, og bjó í Hrauni frá 1937-1943.[123]

Þess var áður getið að niðjar Eiríks Tómassonar og Kristínar Nikulásdóttur sem bjuggu í Hrauni á fyrri hluta 19. aldar hefðu búið þar æ síðan. Þorlákur Bernharðsson, sem fór frá Hrauni árið 1943, átti Eirík og Kristínu fyrir langafa og langömmu og svo var einnig um Hagalín Guðmundsson sem þá fór að búa í Hrauni.[124] Hagalín var sonur Maríu Sigmundsdóttur frá Hrauni[125] en nú (1993) býr í Hrauni sonur Hagalíns og tók þar við búi af föður sínum.

Dvöl okkar í Hrauni er senn á enda. Í kveðjuskyni skulum við horfa stundarkorn á fjallið sem ríkir yfir öllu sem hér var, er og verður. Það er Hraunshornið, eitt hið tignarlegasta bæjarfjall á þessum slóðum og þó víðar væri leitað. Klettabelti í hlíðinni ofan við bæinn heitir Lambahjalli[126] og á móts við hann en lítið eitt framar eru Svarthamrar, oftast dökkir af bleytu.[127] Þar sagði gamalt fólk vera álfabyggð.[128] Eitt sinn voru börn frá Hrauni að leik upp við Svarthamra og heyrðu þá skelli og smelli ferlega inni í klettum þessum.[129] Urðu þau þá mjög hrædd og forðuðust æ síðan að koma þar nærri.[130]

Ofan við túnið í Hrauni er gamla kvíabólið þar sem kýr og ær voru mjólkaðar á fyrri tíð. Þangað er um það bil 10 mínútna gangur heiman frá bænum.[131] Frá Bólinu þokum við okkur nú fram á Bælisholtið sem er rétt framan við túnið í Hrauni[132] og þaðan tökum við stefnuna fram á Hraunsdal sem hér hefur áður verið nefndur. Þar á dalnum voru helstu útislægjur Hraunsbænda og hið ágætasta beitiland. Spölurinn frá Bælisholti og fram að Selá er aðeins liðlega einn kílómetri og liggur leiðin um holtafláka sem heitir einu nafni Hraunsholt.[133] Neðan við holtin og nær Langá er mýrlendi sem heitir Flói. Á miðri leið okkar frá Hrauni og fram að Selá blasir við túnið á eyðibýlinu Hálsi, handan Langár og nær alveg niður að ánni. Andspænis Hálsi, Hraunsmegin við Langá, eru Hálseyrar meðfram ánni en milli þeirra og Flóans, sem áður var nefndur, er allhár þúfnamói sem heitir Staggarður.[134] Í mynni Hraunsdals og lítið eitt heiman við Selá er Langabrekka og teygist fram Hraunsdalinn þar sem landið fer stöðugt hækkandi.[135] Um Löngubrekku rennur Holtalækur og í gegnum Hraunsholtin niður í Langá.[136] Á göngu okkar komum við að Selá dálítið ofan við ármótin þar sem hún fellur í Langá og fylgjum síðan árbakkanum upp til dalsins. Eftir stundarkorn komum við hér að litlum fossi þar sem áin kemur út úr allmiklu gljúfri. Þetta er Selárfoss.[137] Við leggjum nú leið okkar um árdalinn upp með gljúfrinu og heitir þar neðst Karlsárdalur en nokkru ofar komum við í Sláttárdal.[138] Um hann lá heybandsvegur Sæbólsmanna er þeir reiddu heim útheyið sem slegið var fram á Heiðum (sjá hér Sæból).[139] Frá Sláttárdal er skammt að Löngubrekkuenda sem líka var nefndur Löngubrekkuhaus hér við Selá.[140] Rétt ofan við Löngubrekkuhausinn skiptist Selá í tvær kvíslar. Nyrðri kvíslin kemur undan Nesdalsskarði og heitir Stórholtslækur en sú syðri kemur frá Grjótdal sem er lítið dalverpi hér hærra uppi.[141]

Hér var þess áður getið að Hraun eigi land fram að Selá en þar fyrir framan tekur við beitilandið á Heiðum sem frá er sagt á öðrum stað (sjá hér Sæból). Í örnefnaskrá Örnefnastofnunar Þjóðminjasafns er tungan milli árkvíslanna tveggja sem hér voru síðast nefndar sögð vera í Hraunslandi því syðri kvíslin renni á landamerkjum.[142] Í þinglýstum landamerkjalýsingum frá síðustu árum 19. aldar eru merkin hins vegar ýmist sögð fylgja syðri kvíslinni eða hinni nyrðri sem með engu móti verður komið heim og saman.[143] Úr hugsanlegum ágreiningi um þessi efni verður ekki reynt að skera hér.

Gróðurlendið í hlíðarslakkanum milli Löngubrekkuenda og Stórholtslækjar heitir Hallar og einmitt þar voru mestu slægjurnar á Hraunsdal.[144] Í tungunni milli Stórholtslækjar og syðri árkvíslarinnar var líka slegið[145] og einnig upp á Krók[146] sem er stór og breiður hjalli hér enn ofar á leiðinni upp í Nesdalsskarð.[147]

Tungan milli árkvíslanna tveggja sem mynda Selá heitir Víðirlækir og það nafn var líka notað sem samnefni á tungunni og þessum tveimur lækjum eða kvíslum.[148] Neðst í nyrðri kvíslinni er allmikill foss sem heitir Gálgafoss[149] og þar við lækjamótin byrjar árgilið sem áður var nefnt og nær niður að Selárfossi.[150] Hér efst er gil þetta bæði þröngt og djúpt.[151] Sú skýring er gefin á nafni fossins að hér efst í gilinu hafi þjófar verið hengdir. – Þar sjást dysjar þeirra enn nú, segir séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum árið 1840.[152] Erfitt mun nú vera að finna dysjarnar en fossinn og gljúfrið eru enn á sínum stað.

Í tungusporðinum, rétt ofan við Gálgafoss, er fornt mannvirki sem menn nefna nú Laggarða[153] en er líka stundum nefnt í eintölu Laggarður eða Löggarður.[154] Annað nafn á neðsta hluta Stórholtslækjar, sem hér var áður nefndur, er líka Laggarðslækur[155] og um miðja nítjándu öld voru þrjár smátóttir í grennd við Laggarðinn kallaðar Lögréttubúðir.[156]

Um þessi fornu mannvirki í Víðirlækjum á Hraunsdal ritaði séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum svo árið 1847:

 

Nokkru, litlu ofar [þ.e. ofan við Gálgafoss – innsk. K.Ó.] er stór reglulegur hringur, hlaðinn af torfhnausi en niðurfallinn vegna elli, sem almennt er kallaður dómhringur. Þennan hring mældi ég sjálfur nýlega ásamt bóndanum á Hrauni og er hann hér um bil 12 faðmar að þvermáli. Eru það auðsjáanlega merki manna verka og sagði bóndinn mér að amma sín, sem varð mjög gömul kona en nú fyrir mörgum árum dáin, hefði sagt sér að þessi hringur hafi ýmist verið kallaður dómhringur og ýmist löggarður. Í norðvesturenda garðsins, sem veit upp að brekkunni, mótar fyrir nokkurri hlöðslu, svo sem sæti eða sætum eða mjög lítilli tótt, sem nú er að sjá sem háar þúfur samfastar, þó autt rúm á miðju.

Hér um bil 200 föðmum ofar í sömu átt eða stefnu eru þrjár smátóttir sem enn nú eru kallaðar Lögréttubúðir. Ég mældi þá stærstu og er hún tveir faðmar að lengd en frekur einn faðmur eða einn og hálfur að breidd. Hinar tvær eru miklu minni, sér í lagi önnur, báðar áfastar við syðri vegg þeirrar stærstu. Virðist sú minnsta ekki stærri en svo að hún máske hefði verið brúkuð fyrir matreiðslu eða eldakofa.. Selhús geta það ekki hafa verið því þá hefði orðið að sjást þar bilkorn frá merki til kvía, − enda eru selhúsatóttir gamlar þaðan langt í burtu.[157]

 

Dómhringurinn, er séra Jón nefnir svo, eða löggarðurinn er enn sjáanlegur, þó að ekki sé hann áberandi, og hefur ekki tekið miklum breytingum frá því sem fram kemur í lýsingu prestsins.

Lausleg mæling sumarið 1993 staðfesti þá fullyrðingu séra Jóns frá árinu 1847 að þvermálið væri um það bil 12 faðmar. Hinn hringlaga garður hér á Hraunsdal og Lögréttubúðirnar, sem prestur nefnir svo, eru nú friðlýstar fornminjar.[158]

Skammt norðvestur af Löggarðinum en þó hinum megin við veginn upp í Nesdalsskarð eru tóttir og sýnist líklegt að þar hafi verið sel frá Hrauni. Ein megintótt er hér mjög greinileg og önnur við enda hennar. Þriðji kofinn virðist svo hafa staðið við hlið þess stærsta. Í örfárra metra fjarlægð er svo kví eða rétt sem bendir eindregið til þess að þarna hafi verið sel.

Hér skal ekki um það dæmt hvort þessar tóttir séu þær Lögréttubúðir sem séra Jón Sigurðsson talar um í skrifi sínu frá 1847. Lýsingin passar ekki að öllu leyti þó að sumt standi heima. Í áður tilvitnuðum orðum prestsins er tekið sérstaklega fram að við Lögréttubúðir sjáist engin merki til kvía en hér blasir við mannvirki sem tvímælalaust hefur verið kví eða rétt. Ekki er nú kunnugt um neinar aðrar seltóttir í Hraunslandi.[159]

Bóndinn í Hrauni, sem á sínum tíma skoðaði hin fornu mannvirki á Hraunsdal með séra Jóni árið 1847, hefur augljóslega verið Eiríkur Tómasson sem  hér hefur áður verið frá sagt (sjá hér bls. 4-8) en hann drukknaði í lendingu á Sæbóli tveimur árum síðar. Prestur hefur það eftir Eiríki að amma þess síðarnefnda, sem náð hafi mjög háum aldri, hafi greint svo frá að hina hringlaga hleðslu upp við Gálgafoss hafi hún ýmist heyrt nefnda dómhring eða löggarð. Konan sem þar um ræðir hlýtur að vera föðuramma Eiríks, Guðrún Jónsdóttir, sem var 64 ára húsfreyja í Mosdal þegar manntal var tekið árið 1801.[160] Hin amma Eiríks Tómassonar, Halldóra Gísladóttir, sem gift var Páli Hákonarsyni á Álfadal, dó áður en Eiríkur fæddist[161] svo hún hefur hvorki sagt þessum dóttursyni sínum eitt né neitt. Sú staðreynd að Guðrún Jónsdóttir, sem fædd var árið 1737 eða því sem næst, nefndi hina fornu hringlaga hleðslu uppi á Hraunsdal dómhring eða löggarð sýnir að hugmyndir fólks um dómþing á þessum stað eru ekki nýjar af nálinni. Um aldur þeirra og uppruna mun fátt kunnugt umfram það sem  hér hefur verið sagt. Flestum mun nú virðast ótrúlegt að dómþing hafi verið háð á þessum stað en útilokað er það í sjálfu sér ekki. Hugsanlegt er að nöfnin Löggarður og Gálgafoss eigi í raun rætur að rekja til slíks þinghalds en að minnsta kosti jafn líklegt er hitt að þau hafi orðið til við leit fólks að skýringu á tilvist hins merkilega og ævaforna mannvirkis sem hér hefur verið sagt frá. Á fyrri hluta þessarar aldar virðast einhver munnmæli hafa verið á kreiki um þriggja hreppa þing hjá Gálgafossi á Hraunsdal[162] og geta menn sem best skemmt sér við þá hugsun meðan gátan mikla sem hér er boðið upp á er óleyst.

Yfir Gálgafossi og umhverfi hans hvílir seiðmögnuð dul er grípur hvern þann sem leggur leið sína á þennan stað. Vart gat hjá því farið að upp kæmu sögur um bústaði huldufólks í klettunum við fossinn, enda var því trúað að hér væri álfabyggð.[163] Stundum sást ljós í klettunum og bláklædd kona við fossinn.[164] Einn haustdag á árunum kringum 1870 voru bræður tveir frá Hrauni, Guðjón og Guðmundur Sigmundssynir, að smala fram á Hraunsdal. Þetta var seint á hausti og bændur fyrir löngu búnir að færa allan nautpening úr Nesdal, hver heim til sín. En þegar Guðjón kom að Gálgafossi koma á móti honum grá kýr og rautt naut sem eltu hann bölvandi og drynjandi svo drengurinn var nærri sprunginn af mæði er hann kom heim.[165] Gamalt fólk sem þá var í Hrauni taldi lítinn vafa leika á því að gripir þessir hefðu verið úr álfabyggðinni við fossinn.[166]

Á árunum um og upp úr1840 átti Kristján Jónsson, sem seinna bjó á Gemlufalli, heima í Hrauni hjá Eiríki Tómassyni sem var móðurbróðir hans.[167] Er Kristján var á 18. árinu (líklega veturinn 1842-1843) hafði hann á hendi fjárgæslu í Hrauni og rak þá féð til beitar dag hvern fram á dalinn.[168] Að morgni nýársdags sá Kristján margt fólk á ferð er hann kom fram á Hraunsdal og virtist honum það vera að flytjast búferlum.[169] Við þessa sýn varð hann gripinn ótta og tók á rás í áttina heim. Á hlaupunum leit hann þó um öxl og sá þá að ein stúlkan hafði tekið sig út úr hópnum og elti hann.[170] Herti hann þá hlaupin sem mest hann mátti og renndi sér að lokum fótskriðu yfir stóran svellbunka heima við bæ í Hrauni. Skildi þar loks með fjármanninum og huldustúlkunni en næstu nótt kom hún til hans í draumi og kvaðst hafa viljað fá hann til sín og skyldi hún hafa séð svo um að honum hefði liðið vel.[171] Frá þessu sagði Kristján Jónsson sjálfur mörgum kunningjum … og heimilisfólki sínu á Gemlufalli.[172]

Á fyrri tíð var jafnan setið yfir fráfæruám uppi á Hraunsdal[173] og er ekki ólíklegt að nokkurn beyg hafi stundum sett að unglingum sem hér fóru einir að fé og margt höfðu heyrt um álfabyggðina við Gálgafoss. Í raun stafaði þó meiri hætta af mannýgum nautum úr Nesdal eins og flestir munu reyndar hafa gert sér ljóst. Börn og unglingar sem sátu yfir fé fram á Hraunsdal heyrðu stundum öskrin í nautunum[174] því þarna er ekki langt á milli og stöku sinnum kom fyrir að einn og einn mannýgur griðungur næði að brölta yfir varnarvegginn í Nesdalsskarði. Þá gat veruleg hætta verið á ferðum þó engar sagnir muni hafa varðveist um alvarleg slys á fólki af þeirra völdum. Kunn er hins vegar saga um smalastúlku frá Hrauni sem bjargaði sér naumlega á flótta undan illvígu nauti með því að skríða ofan í árgljúfrið neðan við Gálgafoss. Þangað komst griðungurinn ekki en stóð öskrandi á gljúfurbarminum langa stund.[175]

Gálgafoss og Löggarður eru í liðlega 200 metra hæð yfir sjávarmáli. Þaðan er fljótlegt að rölta upp á Krók sem er mikill hjalli hér nokkru ofar og þaðan upp í Nesdalsskarð sem er í 388 metra hæð yfir sjávarmáli. Þegar farið er upp í skarðið er klettabelti á hægri hönd og heitir Bausnahjalli.[176] Sunnan eða suðvestan við skarðið er Rjúpnahvilft og sitt hvoru megin við hana eru Ytra­- og Fremra-Rjúpnahvilftarhorn.[177] Framan við síðarnefnda hornið er Grjótdalur[178] en í honum eru efstu upptök Selár, syðri kvíslarinnar.

Úr Nesdalsskarði hröðum við för okkar til baka og stiklum yfir kvíslar Selár skammt fyrir ofan Gálgafoss. Gönguferðinni um landareign Hrauns látum við lokið þar en tökum stefnuna niður í Seljalágar, þangað sem búsmali frá Sæbóli og Álfadal var áður hafður í seli (sjá hér Sæból og Álfadalur). Frá hinum merkilegu seljarústum í grennd við ármót Selár og Langár, sem hér hefur áður verið sagt frá, tökum við strikið í suðurátt, upp með Langá og stöndum eftir 15 mínútna rólega göngu við ármót Langár og Mórillu undir fjallinu Þorsteinshorni. Lítið eitt ofar er hentugt að vaða yfir Mórilllu og er þá komið í Háls landareign.

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jarðab. Á. og P. VII, 90.

[2] Örnefnaskrá. Óskar Einarsson 1951, 170.

[3] Sömu heimildir.

[4] Örn.skrá.

[5] Óskar Ein. 1951, 171.

[6] Örn.skrá.

[7] Sama heimild.

[8] Sama heimild.

[9] Sama heimild.

[10] Sama heimild. Magnúsína og Guðmunda Guðmundsdætur. – Viðtal K.Ó. við þær 30.6.1993.

[11] Örn.skrá.

[12] D.I. VI, 41-43.

[13] D.I. V, 475 og 517-518.

[14] Jarðab. Á. og P. VII, 90.

[15] Manntal 1762.

[16] Manntal 1703.

[17] Sama heimild.

[18] Sama heimild.

[19] Sama heimild.

[20] Jarðab. Á. og P. VII, 90-91.

[21] Jarðab. Á. og P. VII, 90-91.

[22] Sama heimild.

[23] Sama heimild.

[24] Sama heimild.

[25] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 85.

[26] Sama heimild.

[27] Sama heimild.

[28] Sama heimild.

[29] Jóhannes Davíðsson, 1976, 82-83.

[30] Sama heimild.

[31] Sama heimild.

[32] Jóh. Dav. 1976, 82-83.

[33] Sama heimild.

[34] Sama heimild.

[35] Manntal 1703. Bændatal frá því um 1735. Jarða- og bændatal 1753. Manntal 1762 og Manntal 1801.

[36] Manntöl 1835, 1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1870, 1880 og 1890. Jóh. Davl 1968, 59.

[37] Manntal 1801.

[38] Jóh. Dav. 1970, 101. Guðmundur Bernharðsson 1985, 16.

[39] Manntal 1801 og Prestsþj.b. Holtspr.kalls í Önundarfirði.

[40] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga, – Fæddir 1806 og 1816.

[41] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[42] Sama heimild.

[43] Jóh. Dav. 1976, 84-85. Guðm. Bernh. 1984 , 33-35 (Smalamennska og ást).

[44] Jóh. Dav. 1976, 84-85.

[45] Sama heimild. Sbr. Manntal 1845, Vesturamt, bls. 250 og 277.

[46] Guðm. Bernh. 1984, 33-35.

[47] Jóh. Dav. 1976, 84-85. Sbr. Guðm. Bernh. 1984, 33-35.

[48] Sömu heimildir.

[49] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[50] Sömu heimildir og Manntal 1835.

[51] Manntal 1845.

[52] Jóh. Dav. 1976, 85-86.

[53] J. Johnsen 1847, 194.

[54] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís. 4. Mýrahreppur, hreppsbók 1849-1968, tíundaskýrsla vorið 1850.

[55] Vestf. sagnir III, 181-182.

[56] Jóh. Dav. 1976, 84-85.

[57] Sama heimild.

[58] Jóh. Dav. 1970, 101-102.

[59] Vestf. sagnir III, 181-182.

[60] Vestf. sagnir III, 181-182.

[61] VA III, 408-412, búnaðarskýrslur 1839-1849.

[62] Jóh. Dav. 1976, 86.

[63] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga. H.Sk.. 1241-12424to, bréf séra Magnúsar Þórðarsonar, Hvítanesi, 16.9.1849

til Eggerts Briem sýslumanns.

[64] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga. VA III, 412, búnaðarskýrslur 1849 og 1850.

[65] Guðm. Bernh. 1985, 213.

[66] Jóh. Dav. 1976, 86.

[67] Jóh. Dav. 1976, 87.

[68] H.Sk. 1241-12424to, Bréf Magnúsar Gíslasonar sýslumanns til Eggerts Briem sýslumanns.

[69] Jóh. Dav. 1976, 88.

[70] Sama heimild.

[71] Jóh. Dav. 1970, 100-104.

[72] Jóh. Dav. 1976, 85 og 88.

[73] Jóh. Dav. 1970, 100-104. Prestsþj.b. Dýrafj.þinga. Manntöl 1880 og 1890.

[74] Jóh. Dav. 1970, 100.

[75] Sama heimild.

[76] Sama heimild.

[77] Sama heimild, 100-104.

[78] Sama heimild.

[79] Vestf. sagnir III, 182-183.

[80] Þjóðsögur og þættir II, 291-293.

[81] Sama heimild.

[82] Þjóðsögur og þættir II, 291-293.

[83] Vestf. sagnir III, 179-180.

[84] Sama heimild.

[85] Jóh. Dav. 1970, 102-103.

[86] Sama heimild og Guðm. Bernh. 1985, 15-29.

[87] Jóh. Dav. 1970, 102.

[88] Guðm. Bernh. 1985, 16.

[89] Jóh. Dav. 1976, 88-91.

[90] Jóh. Dav. 1976, 88-91 og Guðm. Bernh. 1985, 16.

[91] Jóh. Dav. 1976, 94-95.

[92] Guðm. Bernh. 1985, 24-25.

[93] Sama heimild.

[94] Jóh. Dav. 1976, 105-107.

[95] Jóh. Dav. 1976, 105-107.

[96] Sama heimild.

[97] Guðm. Bernh. 1985, 25-26.

[98] Guðm. Bernh. 1985, 25-26.

[99] Sama heimild.

[100] Sama heimild.

[101] Guðm. Bernh. 1985, 25-26.

[102] Sama heimild.

[103] Sama heimild.

[104] Sama heimild, 39.

[105] Sama heimild.

[106] Guðm. Bernh. 1980, 13. Sami 1985, 186.

[107] Sömu heimildir.

[108] Guðm. Bernh. 1985, 48.

[109] Jóh. Dav. 1976, 108-109.

[110] Sama heimild.

[111] Sama heimild.

[112] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.

[113] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.

[114] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[115] Jóh. Dav. 1976, 108-109.

[116] Jóh. Dav. 1976, 108-109.

[117] Vestf. ættir II, 433.

[118] Jóh. Dav. 1976, 108-109. Sbr. Guðm. Bernh. 1985, 21.

[119] Jóh. Dav. 1976, 109.

[120] Sama heimild, 108.

[121] Sama heimild.

[122] Sama heimild.

[123] Jóh. Dav. 1970, 103.

[124] Sama heimild, 100-104.

[125] Sama heimild. Sbr. Vestf. ættir I, 97.

[126] Óskar Ein. 1951, 172.

[127] Sama heimild. Guðmundur Hagalínsson. – Viðtal K.Ó. við hann 2.7.1993. Vestf. sagnir II, 367-368.

[128] Vestf. sagnir II, 367-368.

[129] Vestf. sagnir II, 367-368.

[130] Sama heimild.

[131] Örn.skrá.

[132] Sama heimild.

[133] Sama heimild.

[134] Sama heimild.

[135] Sama heimild og Óskar Ein. 1951, 170-171.

[136] Óskar Ein. 1951, 170-171.

[137] Örn.skrá og Óskar Ein. 1951, 170-171.

[138] Sömu heimildir.

[139] Örn.skrá.

[140] Örn.skrá og Óskar Ein. 1951, 170-171.

[141] Guðm. og Guðni Ágústss. – Viðt. K.Ó. við þá 1.7.1993. Guðm. Hag.. – Viðt. K.Ó. við hann 2.7.1993.

[142] Örn.skrá.

[143] Þinglýstar landamerkjalýsingar jarðanna Sæbóls og Hrauns, varðveittar hjá heimafólki á þessum bæjum.

[144] Óskar Ein. 1951, 170-171. Sbr. Sóknalýs. Vestfj. II, 85.

[145] Jóh. Dav. 1968, 59-60.

[146] Óskar Ein. 1951, 170-171.

[147] Örn.skrá.

[148] Sama heimild.

[149] Guðm. og Guðni Ágústss. – Viðt. K.Ó. við þá 1.7.1993. Guðm. Hag.. – Viðt. K.Ó. við hann 2.7.1993.

[150] Örn.skrá.

[151] Sama heimild.

[152] Sóknalýs. Vestfj. II, 85.

[153] Örn.skrá. Óskar Ein. 1951, 170-171.

[154] Jóh. Dav. 1981, 114.

[155] Óskar Ein. 1951, 170-171.

[156] Sóknalýs. Vestfj. II, 94-95.

[157] Sóknalýs. Vestfj. II, 94-95.

[158] Bréf Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar 15.4.1929, varðveitt í Hrauni á Ingjaldssandi.

[159] Guðmundur Hagalínsson. – Viðtal K.Ó. við hann 2.7.1993.

[160] Manntal 1801.

[161] Jóh. Dav. 1976, 83, sbr. Manntal 1801, − vesturamt, bls. 286.

[162] Jóh. Dav. 1981, 114.

[163] Vestf. sagnir II, 346-347.

[164] Sama heimild.

[165] Sama heimild.

[166] Sama heimild.

[167] Sama heimild, 366-367, sbr. Manntal 1845, − vesturamt, bls. 272.

[168] Vestf. sagnir II, 366-367.

[169] Sama heimild.

[170] Vestf. sagnir II, 366-367.

[171] Sama heimild.

[172] Sama heimild.

[173] Guðm. Bernh. 1985, 28-29.

[174] Sama heimild.

[175] Jóh. Dav. 1981, 114.

[176] Örn.skrá. Óskar Ein. 1951, 170-171.

[177] Örn.skrá.

[178] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »