Karlsstaðir

Frá Gljúfrá liggur leið okkar út að Karlsstöðum en nærri lætur að spölurinn milli þessara eyðibýla sé 1300 metrar. Landamerkin eru við Þorbjarnará.[1] Hún kemur úr dalskorningi er skerst inn í brún fjallsins og heitir sá Þorbjarnardalur.[2] Frá Gljúfrá eru 800 metrar út að merkjunum. Í öndverðu munu Karlsstaðir hafa byggst úr landi Rafnseyrar[3] en þeir urðu snemma sjálfstæð bújörð, 12 hundruð að dýrleika að fornu mati.[4] Hennar er fyrst getið í máldaga Rafnseyrarkirkju frá árinu 1363 en kirkjan átti jörðina allt þar til langt var liðið á nítjándu öldina.[5] Einn af landsetum Rafnseyrarkirkju sem hér bjuggu á 18. öld hét Magnús Jónsson en hann var árið 1719 kærður fyrir að hafa með göldrum valdið veikindum nágrannakonu sinnar, Margrétar Sveinsdóttur á Gljúfrá.[6] Markús Bergsson sýslumaður dæmdi Magnús til að „fría sig frá galdra brúkun“ með eiði en á Alþingi var bóndinn á Karlsstöðum leystur undan öllum svardögum og sá úrskurður felldur sumarið 1719 að ásakanirnar gegn honum hefðu ekki verið annað en „líkindalaus áburður“.[7]Þá voru liðin 36 ár frá síðustu galdrabrennunni á Íslandi (sbr. Lokinhamrar).

Á árunum kringum 1800 bjuggu hér á Karlsstöðum hjónin Hrólfur Þórðarson og Helga Jónsdóttir.[8] Árið 1801 var hann orðinn 73ja ára gamall en Helga kona hans var tuttugu árum yngri.[9] Hafi hjón þessi eignast börn virðast þau ekki hafa komist upp[10] en einn son, Hrólf Hrólfsson, sem fæddist árið 1790 eða því sem næst, eignaðist Hrólfur bóndi fram hjá konu sinni og ólst drengurinn upp hjá föður sínum á Karlsstöðum.[11]

Árið 1816 var Hrólfur yngri kominn til séra Sigurðar Jónssonar á Rafnseyri og Þórdísar, konu hans, foreldra Jóns Sigurðssonar forseta.[12] Hjá þeim var hann vinnumaður í áratugi[13] og kvæntist systurdóttur prestsfrúarinnar (sjá Sandar). Hann var lengi formaður á skipi séra Sigurðar og reri frá Bás í Ystadal í Verdölum,[14] handan Arnarfjarðar. Þar var hann formaður vorið 1828 er Guðrún skálda (sjá Borg) orti um hann þessa vísu:[15]

Sels um bása hreystihnár

Hrólfur frá Rafnseyri

lætur rása mastra-már

mót þó blási stundum Kár.

Arnfirðingar sem fæddir voru á árunum upp úr 1850 kunnu frá því að segja að Jón Sigurðsson, er við nefnum forseta, hefði á unglingsárum róið á skipi föður síns frá Verdölum[16] og má ætla að hann hafi verið í skiprúmi hjá Hrólfi er vísa þessi var ort. Á barnsaldri mun Jón hafa verið í góðu vinfengi við Hrólf frá Karlsstöðum[17] en þennan vinnumann sinn kallar séra Sigurður „gáfaðan“, „vel greindan“, „fróðan“ og „kostulega skýran“.[18]

Svo virðist sem Jón Sigurðsson hafi alla tíð haldið tryggð við Hrólf og líklegt er að með þeim hafi orðið fagnaðarfundur er Jón kom vestur eftir 16 ára fjarveru, sumarið 1845, fáum vikum áður en hið endurreista Alþingi kom saman til síns fyrsta fundar. Hrólfur var þá enn á Rafnseyri[19] en mun hafa verið orðinn mjög sjóndapur eða alveg blindur.[20] Þjóðfundarárið 1851 fluttist hann með Margréti, systur Jóns forseta, og eiginmanni hennar frá Rafnseyri að Steinanesi í Suðurfjörðum og átti þar heima til dauðadags.[21] Í manntalinu frá 1855 stendur þessi athugasemd við nafn Hrólfs: „Blindur í 12 ár en stendur þó enn hinum yngri á sporði í mörgum verknaði til lands og sjávar.“[22]

Bróðir Jóns forseta, Jens Sigurðsson, átti heima í Reykjavík en fór vestur sumarið 1856. Í bréfum er hann sendi Jóni til Kaupmannahafnar í ágústmánuði á þvi ári segir hann fréttir úr ferðinni, m.a. þessar: „Að Rafnseyri kom ég og var við messu. Fluttu mig Jón mágur [Jónsson á Steinanesi] og Hrólfur.“[23] Næsta dag grípur Jens pennann á ný og bætir við:[24]

Sem „Curiosum“ segi ég þér frá því sem Hrólfur sagði um daginn, þegar ég sagði honum að þú hefðir skrifað rit móti einum háskólakennara. Þá segir Hrólfur: „Það hefur víst verið einn Íslandsvinurinn sá arna. Það er mikil guðs mildi að þeir eru ekki búnir að drepa hann Jón minn – en þeim er hlíft sem guð hlífir.

Ummælin sýna að enn hefur Hrólfur látið sér annt um fóstra sinn. Gamall og blindur gerði hann sér grein fyrir því að drengurinn sem hjá honum var í skiprúmi fyrir 30 árum hafði nú mikilvægum erindum að gegna í þágu ættjarðarinnar sem var þeim báðum kær.

Í bréfum sínum til Jóns forseta minnist Margrét systir hans á Steinanesi nokkrum sinnum á Hrólf og konu hans, Karitas Þorkelsdóttur. Sumarið 1858 færir hún þessar fréttir: Hrólfur og Karitas eru nú bæði orðin lasin. Þó hefur hann farið til sjávar á vorin þar til í vor, með annarra tilstyrk. Þau biðja að heilsa þér.[25] Tveimur árum síðar skrifar hún: Hrólfur dó nú um vertíðarlokin en við erum öll ósjúk fyrir guðs náð.[26]

Hrólfur Hrólfsson fór ungur héðan út að Rafnseyri. Við kveðjum nú bæjartóttina, sem enn stendur hér í túninu þó jörðin hafi fallið í eyði árið 1935,[27] og fylgjum í fótspor hans. Milli bæjanna er tæplega klukkutíma gangur. Gilið í fjallinu ofan við Karlsstaði heitir Karlsstaðagil og hryggurinn utan við túnið Karlsstaðahryggur.[28] Utan við hann eru þrír hvammar, Karlsstaðahvammur innst, þá Húsahvammur og Votahvammur yst.[29] Í Karlsstaðahvammi er stór steinn sem talið var að væri bústaður huldufólks.[30] Eitt sinn var lítil stúlka að leika sér þar í hvamminum.[31]

Verður henni þá litið upp að steininum og sýnist henni hann standa opinn. Sá hún þar sitja kvenmann inni og var að kemba barni með glóbjart hár. Sýndist henni hún svo standa upp og láta barnið fara innar í steininn. Síðan sýndist henni hún taka styttuband og fara að stytta sig. Þá varð stúlkan hrædd og tók til fótanna … .

Frá Karlsstöðum er aðeins rösklega einn kílómetri út að landamerkjunum á móti Rafnseyri en þau liggja um Sandeyrargil og Sandeyrarhrygg og þar heitir Sandeyri við sjóinn.[32]

 

 

[1] ÖÖ.

[2] Sama heimild.

[3] Jb. Á. og P. VII, 14–15.

[4] Sama heimild.

[5] JJ 1847, 191. Manntal 1901 og fylgiskjöl.

[6] Alþb. Ísl. X, 423–424.

[7] Sama heimild.

[8] Manntal 1801.

[9] Sama heimild.

[10] Sama heimild, vesturamt, bls. 240–288.

[11] Manntal 1801.

[12] Manntal 1816.

[13] Smt. Rafnseyrar.

[14] ÞBj 1911, 103. PEÓ 1945–1946, 33–34. Sbr. LKr 1985, 211.

[15] Ægir, júlí 1926, 136.

[16] ÞBj 1911, 103.

[17] PEÓ 1945–1946, 33–34.

[18] Smt. Rafnseyrar.

[19] Manntal 1845.

[20] Manntal 1855, Otradalssókn í Arnarfirði.

[21] Prþjb. Rafnseyrar og Otradals.

[22] Manntal 1855.

[23] Lbs. 2590 4to. Bréf JensS 13.8.1856 til JSig forseta.

[24] Lbs. 2590 4to. Bréf sama 14.8. 1856 til sama.

[25] Lbs. 2590 4to. Bréf MS 18.8.1858 til JSig forseta.

[26] Lbs. 2590 4to. Bréf sömu 22.8.1860 til sama.

[27] Firðir og fólk 1900-1999,120.

[28] BBj 1961, 11–12. ÖÖ.

[29] ÖÖ.

[30] Þjóðs. JÁ III, 18–19.

[31] Sama heimild.

[32] BBj 1961, 11–12.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »