Klukkuland

Frá Hólakoti liggur leið okkar að eyðibýlinu Klukkulandi en þarna er aðeins fárra mínútna gangur á milli. Báðir þessi bæir stóðu innan við Núpsá og Klukkuland var fremsti bær í Núpsdal. Túnið á Klukkulandi nær alveg niður að Núpsánni og stóð bærinn skammt frá árbakkanum. Á leið okkar frá Hólakoti að Klukkulandi gefst okkur kostur á að skoða rúst kotbýlis sem reist var sunnan við túnið á Klukkulandi á fyrstu árum tuttugustu aldar og var af sumum kallað Nýlenda eða Nýlendi[1] en aðrir nefndu Kænugarð (sjá Firðir og fólk 1900-1999,287). Í koti þessu sem var í landi Klukkulands var aðeins búið í tvö ár alls. Fardagaárið 1907-1908 voru hér í húsmennsku hjónin Sigurður Sigurðsson og Guðlaug Indíana Jónasdóttir og tveimur árum síðar bjuggu Jón Matthíasson og Matthildur Sigmundsdóttir eitt ár í þessum sama kofa með börn sín sjö.[2]

Nýlendutóttin er rétt neðan við holtin sem vegurinn frá Hólakoti að Klukkulandi liggur um.[3] Frá henni eru varla nema 200 metrar að túninu á Klukkulandi. Tóttin sýnir að grunnflötur þessa mannabústaðar hefur verið um það bil 4 x 6 metrar.

Landamerkjum Klukkulands og Hólakots hefur þegar verið lýst (sjá hér Hólakot) en á móti Núpi (og Kotnúpi) liggja merkin um Núpsá og síðan um Geldingadalsá[4] sem fellur í Núpsá um það bil tveimur kílómetrum fyrir framan túnið á Klukkulandi. Allt land í Núpsdal þar fyrir framan á Núpur. Um Klukkulandsfjallið sem gnæfir yfir innri hlíð dalsins var áður getið en hinum megin í dalnum ber við himin yfir Klukkulandi og Kotnúpi sjálfan Núpinn, hamravegg við efstu brún. Til hans er skýringar að leita á nafni hins forna stórbýlis sem stendur hér rétt utan við dalsmynnið og síðar verður frá sagt.

Jörðin Klukkuland var á síðari öldum talin 24 hundruð að dýrleika að Hólakoti meðtöldu.[5] Í heimild frá 15. öld er Klukkuland hins vegar sagt vera 12 hundraða jörð en þá voru Hólar, sem síðar fengu nafnið Hólakot, metnir á önnur 12 hundruð (sjá hér Hólakot).

Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 segir svo um Klukkuland:

 

Útigangur í skárra lagi. Torfrista lítt nýtandi, stunga sæmileg. Móskurður lítill með taði undan kvikfé til eldiviðar. Skipsuppsátur er sagt að jörðin eigi í Lækjarlandi. Túnið spillist af sandfoki úr melum sem liggja við túnið. Enginu spillir Núpsá með grjóts áburði að neðan en skriður að ofan, hvorutveggja til stórskaða og eyðileggingar. … Hætt er húsum og heyjum fyrir stórviðrum. … Fóðrast kann á allri jörðinni þriggja kúa þungi.[6]

 

Í Sóknalýsingunni frá 1840 er Klukkuland sagt vera notagóð jörð með ágætt beitiland en jafnframt tekið fram að þar sé lítið um slægjur.[7] Jóhannes Davíðsson segir í ritgerð frá árinu 1968 að beitiland jarðarinnar sé mjög kjarngott og óvíða betra í þessari sveit.[8] Mjög gott berjaland segir hann einnig vera á Klukkulandi.[9]

Um Klukkuland er fyrst getið í skránni yfir jarðeignir Guðmundar ríka Arasonar á Reykhólum sem talin er vera frá árinu 1446.[10] Nafnið á jörðinni er þó eldra því í landamerkjabréfi Núps frá árinu 1368 er tekið fram að Núpur eigi hestabeit á Klukkulandshjalla.[11] Ekki er ólíklegt að menn hafi sest hér að strax á landnámsöld eða litlu síðar en tilraunir til skýringa á nafni jarðarinnar verða að sinni látnar liggja milli hluta.

Ýmsir stórhöfðingjar áttu Klukkuland um lengri eða skemmri tíma á 15. og 16. öld. Úr þeim hópi má auk Guðmundar Arasonar nefna Björn hirðstjóra Þorleifsson, Eggert lögmann Hannesson, sem lengi bjó á Núpi, og Þorlák sýslumann Einarsson, sem var mágur Eggerts og tók við stjórn á Núpi þegar Eggert fluttist þaðan að Bæ á Rauðasandi skömmu eftir miðja 16. öld.[12]

Fyrsti ábúandi sem um er kunnugt á Klukkulandi er séra Árni Loftsson en hann er jafnframt eini presturinn sem þar hefur búið svo vitað sé. Séra Árna voru veitt Dýrafjarðarþing árið 1657 og er talið að hann hafi flust að Klukkulandi á því ári.[13] Þar bjó hann í nokkur ár en var kominn að Leiti í Alviðru árið 1665.[14] Alls var séra Árni prestur í Dýrafjarðarþingum í 14 ár og hvarf héðan árið 1671.[15] Sighvatur Grímsson Borgfirðingur heyrði sagt að undir lok veru sinnar í Dýrafirði hafi séra Árni verið kominn að Mýrum[16] en allt er óljóst um það.

Prestur þessi, sem um skeið bjó á Klukkulandi, átti lengi í margvíslegum þrætum og þjarki við fleiri eða færri úr hópi sinna samtíðarmanna og var stundum borinn þungum sökum. Allt þetta stóð hann þó af sér og mun á efri árum hafa náð að lifa í bærilegum friði.

Séra Árni Loftsson var bóndasonur úr Hvammssveit í Dölum, fæddur um 1623, en átti ættir að rekja til Jóns Arasonar, biskups á Hólum, og Lofts ríka Guttormssonar.[17] Hann varð ungur prestur á Þykkvabæjarklaustri en fékk síðan Stað í Aðalvík árið 1653 og var þar í fjögur ár.[18] Þar norður frá kom fljótt í hann mikið óyndi og svo virðist sem hann hafi á því skeiði talið sig ofsóttan af galdramönnum. Galdratrúin stóð þá með mestum blóma og það var einmitt á Aðalvíkurárum séra Árna sem séra Jón Magnússon á Eyri í Skutulsfirði fékk Kirkjubólsfeðga dæmda á bálið (sjá hér Neðri-Hjarðardalur).

Árið 1656, sama ár og Kirkjubólsfeðgar voru brenndir, sendu þrettán bændur í Aðalvíkursókn Brynjólfi biskupi Sveinssyni sérstakt leyfisbréf upp á burtför séra Árna Loftssonar.[19] Í bréfinu taka þeir fram að þar sem séra Árni geti með engu móti unað sér hjá þeim þá gefi þeir hann lausan frá þessari sókn aldeilis og það þótt þeim hafi í rauninni líkað fullvel við þennan sálusorgara.[20]

Bændurnir sem skrifuðu biskupi gera rækilega grein fyrir því hvers vegna nauðsyn beri til að séra Árni fái annað brauð og segja þá m.a.:

 

Þriðja orsökin er þessi, sem oss þykir þyngst vera, að hann hefur umkvartað fyrir oss um hættusamastan samviskunnar veikleika og skelfing, með eymótlegri langsemi og ótta, einkum um skammdegistímann á staðnum, hver kvilli að hann segir linast hafi fyrir iðkun guðs orða og auðmjúkar bænir á stundum en þó kviknað ekki einasta af ýmsu mótlæti og af því hann  hafi öngvan í sveitinni sér skynsamari til viðtals og skemmtunar í slíku efni, heldur hafi það svo bráðlega að sigið nokkrum sinnum að varla megi segja frá, – og þó það hafi ekki verið nema síðan í fyrravetur um jól, þá þykir honum það jafnan sig smá auka og einkum mest þá hann þjónustar það fólk, les yfir því eður biður, leynt eður ljóst, sem hefur óvenjuleg krankdæmi, sem eru yfirsvif, ólíðandi verkur í ýmsum limum, þögn eður samviskunnar kvilla, því vér getum ekki því neitað að margir hafa hér í sveit veikir verið og jafnvel þá sem séra Árni heldur af djöflinum þjáða, þó hér sé ekki sá djöflagangur sem í aðrar sveitir máske sé sagður.[21]

 

Brynjólfur biskup var í fyrstu tregur til að greiða götu séra Árna á brott úr Aðalvík og í bréfi er biskup ritaði honum vorið 1657 kemst hann m.a. svo að orði: En það megið þér vita að víðar sé djöfullinn en í Aðalvík, víðar er hætt við sálartöpum en á Hornströndum og víðar fljúga freistingar en úr útnorðri.[22]

Síðar á sama ári tókst séra Árna þó að fá sig lausan frá Aðalvík, enda hafði hann þá náð að útvega annan kennimann til að fara þangað í sinn stað en hafði sjálfur verið kallaður til prests af sóknarmönnum í Dýrafjarðarþingum.[23] Á þessa tilflutninga féllst Brynjólfur biskup sumarið 1657 en virðist þó hafa séð ástæðu til að veita séra Árna sérstaka áminningu í leiðinni og setti honum því skilmála sem voru orðaðir á þessa leið:

 

… en ég skil á séra Árna það hann hefur áður með eiði lofað, að óttast guð og framfylgja sínu embætti í guðs ótta og lítillæti og að vera sínu yfirvaldi og andlegrar stéttar formanni hlýðinn og hollan í öllu tilbærilegu utan ofstopa og óheilindi og að varast ágirnd og ábatahugsun í allan máta. Þessu öllu vil ég hann með handsölun prófastinum trúlofi með sinni undirskrift.[24]

 

Alla þessa svardaga mun séra Árni hafa innt af hendi áður en honum veittist sú náð að mega flytjast frá Stað í Aðalvík hingað að Klukkulandi. Vera má að óyndi hans í Aðalvík hafi að einhverju leyti stafað af því að þar var hann einhleypur og hefur máske óttast nokkuð um tryggð heitkonu sinnar suður í Breiðafjarðarbyggðum. Hafi svo verið var sá ótti ekki ástæðulaus því er þau loks voru pússuð saman, rétt um það leyti sem hann settist að á Klukkulandi, þá var unglingspiltur, sem Bjarni Narfason hét, búinn að gera henni barn svo hún gekk ólétt upp að altarinu.[25] Stúlka þessi hét Álfheiður Sigmundsdóttir og var frá Fagradal í Saurbæjarsveit í Dölum. Þau séra Árni hófu sinn búskap á Klukkulandi og fylgdust æ síðan að meðan bæði lifðu.

Þremur árum eftir að séra Árni kom í Dýrafjörð var hann á prestafundi í Holti þar sem fjallað var um ofsóknir séra Jóns Magnússonar þumlungs á hendur Þuríði Jónsdóttur frá Kirkjubóli í Skutulsfirði (sjá hér Neðri-Hjarðardalur). Sá fundur var haldinn vorið 1660 en um svipað leyti virðist einhver galdragrunur hafa fallið á hinn óstýriláta sálusorgara á Klukkulandi út af eikarspjaldi sem hinn harðsnúni erkióvinur allra galdramanna, Þorleifur Kortsson, hafði frétt að séra Árni hefði undir höndum. Um mál þetta segir svo í Alþingisbókinni frá 1660:

 

Í sama stað og dag [29. júní] bar sýslumaðurinn, Þorleifur Kortsson, fram í lögrétt á Öxarárþingi eitt eikarspjald og eitthvað upp á ristið, sem fundið er í sókn séra Árna Loftssonar og hann, presturinn, ekki viljað líða að væri þar geymt af sínum sóknarmönnum og ætti ekki heldur neinum veraldlegum manni afhendast, nema prestum og próföstum. Þar fyrir líst lögmönnum og lögréttumönnum að herra biskupinn, mag. Brynjólfur Sveinsson, yfirheyri þennan prest, hvar fyrir hann vilji ekki láta þetta spjald veraldlegum í hendur koma svo biskupinn grennslist eftir hvort presturinn hefur þetta með hönd, ef þar kann nokkurt hneyksli í að vera.[26]

 

Frá þessu máli virðist séra Árni hafa komist án meiriháttar skakkafalla en verr mun honum hafa gengið að efna heit sín við biskup um að varast alla ágirnd og ábatahugsun.

Vorið 1668 samþykkti prestastefna á Þingvöllum sérstaka áminningu til prestsins í Dýrafjarðarþingum þar sem fyrir honum er brýnt að stunda til friðar og samþykkis í sókninni en varast flokkadrátt og heimskulegt undirferli.[27] Í þessu áminningarbréfi prestastefnunnar til séra Árna segir einnig svo:

 

Sömuleiðis vill synodan viðvarað hafa allt okur og óskikkanlega höndlan og kaupskaparbrall, líka vel varandi og varnandi við ólöglegum kaupskap af framandi þjóðum, vilji menn varast sem ber tiltal og straff.[28]

 

Á þessum orðum má sjá hvers eðlis helstu kærumálin á hendur séra Árna hafa verið en á þessari sömu prestastefnu var samþykkt að mæðgur tvær á Sæbóli á Ingjaldssandi, sem báðar voru ekkjur, skyldu ásamt næstu nágrönnum fá fullt leyfi til að nota annan prest en séra Árna, enda töldu þær sig vera stórlega særðar af áreiting og ýfing þessa sóknarprests í Dýrafjarðarþingum.[29]

Mæðgurnar sem þarna áttu í hlut hétu Ragnhildur Steindórsdóttir og Helga Eggertsdóttir[30] en þær voru báðar ríkismannaekkjur. Ragnhildur var sjálf dótturdóttir Þorláks Einarssonar, sýslumanns á Núpi, og hafði verið gift Eggerti Sæmundssyni á Sæbóli, dóttursyni Magnúsar prúða Jónssonar.[31] Helga dóttir hennar hafði aftur á móti verið gift Snæbirni Torfasyni, lögréttumanni á Kirkjubóli í Langadal við Djúp, sem var bróðir Páls Torfasonar, sýslumanns á Núpi, og andaðist árið 1666.[32]

Ekki er alveg skýrt hvað þær Sæbólsmæðgur hafa gefið prestinum að sök en engir smámunir hafa það verið úr því prestastefnan samþykkti að veita þeim leyfi til að ganga algjörlega fram hjá séra Árna varðandi öll prestverk. Allt bendir reyndar til þess að um það leyti sem séra Árni fékk áminningarbréfið frá prestastefnunni á Þingvöllum hafi mjög verið farið að harðna á dalnum fyrir honum í öllum samskiptum við sóknarfólk sitt og kirkjuyfirvöld. Ári síðar, vorið 1669, svifti Brynjólfur hann umboði til að innheimta biskupstíundir í Ísafjarðarsýslu og var tilkynning biskups um þann úrskurð lesin yfir hausamótum séra Árna eftir messugerð í kirkjunni á Sæbóli á Ingjaldssandi.[33]

Úr þessu tók að styttast í dvöl séra Árna Loftssonar í Dýrafirði og þaðan mun hann hafa farið árið 1671 þó Jón Espólín nefni 1676.[34] Er séra Árni yfirgaf sóknarbörn sín í Dýrafirði fluttist hann á æskuslóðir sínar suður í Hvammssveit og bjó þar til dauðadags en prestsembætti gegndi hann aldrei þaðan í frá.

Skömmu eftir komuna í Dali lenti séra Árni í erfiðum þrætum út af erfðamálum við mág sinn Rögnvald Sigmundsson, bónda í Innri-Fagradal, er síðar varð sýslumaður í Strandasýslu. Svo fór að Rögnvaldur kærði séra Árna fyrir galdra og fleiri sakir. Í kærubréfinu tók hann svo til orða:

 

Stefni ég þér fyrir þá fyrstu sök að þú hefur með fjölkynngi og fordæðuskap og óleyfilegri galdrabrúkun ollað og á mig hleypt þeim veikleika sem ég undir lá um haustið fyrir jól, annó 1674. Einnig hefur þú með sama móti ollað veikleika minnar kvinnu, Ragnheiðar Torfadóttur, sem hún af þungaðist á sama vetri og vorið eftir. Einnig hefur þú með fjölkynngi minn pening deytt og drepið og suman pínt og plágað … .[35]

 

Aðrar sakir sem Rögnvaldur í Fagradal ber á systurmann sinn, séra Árna, voru þær að prestur hefði kallað Sigmund heitinn Gíslason, föður Rögnvaldar en tengdaföður séra Árna, skálk og sagt hann vera ærulausan, ónýtan, ómyndugan, ófriðhelgan þjóf.[36] Að sögn Rögnvaldar hafði séra Árni haft í heitingum við Sigmund tengdaföður sinn á hans síðustu ævidögum og m.a. sagt við hann þetta: Þú hefur stolið frá öðru barninu og gefið hinu. Þú ert nú gamall maður og átt ei annað fyrir höndum en loga í helvíti.[37]

Kæru sína á hendur séra Árna sendi Rögnvaldur prestastefnu sem haldin var á Þingvöllum sumarið 1678.[38] Ekki mætti séra Árni á þeirri stefnu en sendi bréf þar sem hann segir m.a.:

 

Lectori Salutem. Sá prestmaður séra Árni Loftson kveður kvæði síns vinar: Þér eruð sem til annars spillvirkja út gengnir með sverðum og stöngum að grípa mig. Daglega hef ég þó hjá yður verið og kennt í musterinu etc. En af hverjum atvikum, merkjum eða teiknum sá einstaki Rögnvaldur svo dæmi eður ráði, það veit sá lygigestur og sturlunardjöfull sem í honum býr eins og forðum í Sál og Akab spámönnum. Það villuljós sem Satan upp kveikti í Rögnvalds sálu er fánýtur skuggi. … Sá Evu niðji Rögnvaldur matti meir ágirnd sína í álnir séra Árna og systra sinna en guð og það fimmta og áttunda guðsboðorð af því dalirnir og jarðirnar voru girnilegri til sællífis og metorða. Satan blés og að þeim kolum, þvingaði svo fríviljann að djöfullinn varð kröftugri í barni vantrúarinnar. … Séra Árni er inni í hellumúrnum Kristí, augað guðs er á sérhverju hans höfuðhári. Fyrr lætur guð stinga í sitt augasjáaldur og taka í burtu sitt líf en hann missi litla séra Árna er á aðra síðuna er skýlaus, saklaus, skilvís, ólíklegur í öllum pörtum til ills athæfis, fyrirlitinn, fátækum út af kominn, fráhverfur heiminum, fýsn holdsins, girnd augnanna og drambseminnar etc.[39]

 

Enda þótt séra Árni væri farinn frá Klukkulandi er hann setti saman þessa varnarræðu má af henni nokkuð ráða um það hvernig hann var vanur að haga orðum sínum og hvert mat hans var á sinni eigin persónu.

Kærunni á hendur séra Árna vísaði prestastefnan á Þingvöllum til annarrar samkomu af sama tagi er halda skyldi í Hvammi í Hvammssveit 15. ágúst 1668. Á þeirri stefnu var séra Árni gert að hreinsa sig af galdraáburðinum með tylftareiði[40] og er skemmst frá því að segja að þetta tókst honum og sóru tólf prestar með honum eiðinn.[41]

Árið 1710 var séra Árni enn á lífi, hátt á níræðisaldri, og átti þá heima í Gerði í Hvammssveit.[42] Tólf árum síðar tók Jón sonur hans, sem fæddur var í Alviðru, við biskupsembætti í Skálholti, næstur á eftir sjálfum Jóni Vídalín.

Árið 1703 voru 32 ár liðin frá því Árni prestur Loftsson hvarf á braut úr Dýrafirði og hætti að gegna prestsembætti. Þá var þríbýli á Klukkulandi.[43] Tveir bændanna sem þar bjuggu árið 1703, þeir Diðrik Sigurðsson og Jón Sighvatsson, höfðu þá nýlega verið dæmdir til þrælkunar á Brimarhólmi fyrir lítilfjörlega verslun við breska fiskimenn sem hleyptu inn á Dýrafjörð undan hafís. Frá öllum málarekstri er sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Lækur) en svo virðist sem bændurnir á Klukkulandi og lagsbróðir þeirra á Læk hafi sloppið við Brimarhólmsvist fyrir konungsnáð enda þótt dómsniðurstaðan væri ótvíræð.

Árið 1710 var enn þríbýli á Klukkulandi. Diðrik, sem dæmdur var á Brimarhólm, bjó þá enn á átta hundruðum úr Klukkulandi en Katrín dóttir hans átti þann jarðarpart.[44] Hin sextán hundruðin voru þá í eigu bændafólks í Tálknafirði og Vestureyjum Breiðafjarðar.[45] Jón Sighvatsson, sem eins og Diðrik hafði verið dæmdur á Brimarhólm, var leiguliði árið 1710 og bjó á tólf hundruðum úr Klukkulandi en þriðji bóndinn þar hét Guðmundur Brandsson og hafði fjögur hundruð til ábúðar.[46] Jörðin er sundurdeild í þrjá bæi og standa þeir allir á forna bæjarstæðinu, segir í Jarðabókinni.[47] Þar er líka tekið fram að túni og engjum sé skipt á milli býlanna þriggja en annað land jarðarinnar sé óskipt.[48]

Um 1720 mun Klukkuland hafa verið komið í eigu Mála-Snæbjarnar sem þá bjó á Mýrum en síðar á Sæbóli. Snæbjörn átti fáum árum síðar í deilum við Pétur Arfvidsson, kaupmann á Þingeyri, sem krafði hann um greiðslu á skuldum. Árið 1724 virðist Markús Bergsson sýslumaður hafa dæmt kaupmanninum rétt til að taka veð í Klukkulandi til tryggingar greiðslu á skuldum Snæbjarnar.[49] Þennan dóm sýslumanns kærði Snæbjörn til Alþingis og kom málið til þess kasta árið 1726 og er þá talað um aðtekt og execution á jörðinni Klukkulandi með öðru fleiru.[50] Þrátt fyrir kæruna til Alþingis mun Snæbjörn enga leiðréttingu hafa fengið í þessu máli og tveimur árum síðar auglýsti Markús Bergsson sýslumaður í lögréttu fyrir hönd áðurnefnds kaupmanns á Þingeyri að Klukkuland væri til sölu.[51] Jörðin var þá boðin réttum lausnarmanni til lausnar eða þeim er leysa vill fyrir 142 ríkisdali í krónumynt.[52]

Hinn rétti lausnarmaður hefur ugglaust verið Snæbjörn sem þarna fékk boð um að leysa jörðina til sín með því að gera skuldina upp en jafnframt fólst í auglýsingunni tilkynning um að jörðin yrði seld öðrum ef Snæbjörn gengi ekki þá þegar frá sínum málum við kaupmanninn. Á þessum árum taldist ríkisdalur í krónumynt (þ.e. sléttur dalur) jafngilda 20 álnum í landaurareikningi[53] svo eðlilegt verð fyrir hvert hundrað í jörð hefur verið sex slíkir dalir. Klukkuland sem var 24 hundraða jörð hefði því átt að kosta 144 krónudali sem kemur ágætlega heim við tilboð kaupmannsins. Ekki er ljóst hvernig þessum málum lyktaði en líkur benda til þess að Snæbjörn hafi leyst jörðina til sín eða keypt hana aftur því vitað er að synir hans, séra Magnús á Söndum og séra Hákon á Álftamýri, áttu Klukkuland árið 1762.[54] Þá var tvíbýli á jörðinni og svo var jafnan næstu 100 árin.[55] Árið 1870 bjó aðeins einn bóndi á Klukkulandi en þá voru þar líka tveir húsmenn.[56] Um það leyti hófst búseta á eyðijörðinni Hólakoti sem bændur á Klukkulandi höfðu nytjað öldum saman (sjá hér Hólakot). Þaðan í frá bjó yfirleitt aðeins einn bóndi í senn á Klukkulandi.[57] Þó var þar tvíbýli í örfá ár á fyrsta fjórðungi 20. aldar (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 287).

Á Klukkulandi taldi fólk sig verða vart við huldar vættir bæði í svefni og vöku. Sem dæmi má nefna að þegar Ríkey Jónsdóttir, sem þar var húsfreyja frá 1915 til 1934, var að vinna á túninu í júnímánuði árið 1918 heyrðu hún hljómfagran, ókenndan söng.[58] Ríkey var frá Meiri-Bakka í Skálavík og að sögn Magnúsar Hjaltasonar var hún skáldkona góð.[59] Fyrst virtist henni að söngurinn kæmi frá kvíabólinu og síðar sagði hún frá á þessa leið:

 

Ég hélt áfram verki mínu og hlýddi um leið á sönginn sem mér þótti unaðslegur en þó með nokkrum þunglyndisblæ. Söngurinn smáfærðist niður eftir hlíðinni, rétt fyrir ofan mig. Þegar söngurinn var kominn gegnt mér fannst mér hann hafa einhver seiðandi og lamandi áhrif á mig. Ég hafði þá lokið verkinu og settist niður andartak en gekk síðan í hægðum mínum heim til bæjar.

Meðan ég gekk til náða hafði ég opinn glugga í vorblíðunni og stöðugt heyrði ég hljóm söngsins bæði meðan ég gekk heim og á meðan ég háttaði. Virtist hann færast smátt og smátt niður eftir hlíðinni og var kominn niðurundir Hvassahrygg er ég lagði mig til svefns. …  Aldrei sá ég neitt enda var ég þess full vís að söngurinn gat ekki verið af mennskra manna völdum.[60]

 

Við sem búum í borgum á nýrri tækniöld getum víst ekki vænst þess að heyra ómþýðan söng úr fjallahlíðum þó við stöldrum hér við um sinn og ekki sjáum við heldur eld í steini eins og Sigurður Halldórsson sem hér rak kýr í haga um það leyti sem Íslendingar minntust 1000 ára byggðar í landinu.[61] Niðinn í ánni getum við þó látið bera okkur skamma stund inn í þá veröld sem áður var.

Svo stöndum við á fætur og göngum upp fyrir túnið, syðsta hluta þess. Þar eru tvær lautir sem vert er að skoða neðst í hlíðinni og heita Barnalaut og Berjalaut.[62] Nöfnin segja sitt en ekki er vert að draga lengur að rölta fram að Geldingadalsá þar sem landamerkin eru. Eins og áður var getið er þetta tveggja kílómetra spölur. Best er að fylgja fjárgötunni, sem enn á að vera hér, og liggur fram alla Klukkulandshlíð, frá gömlu kvínni fyrir ofan túnið í Hólakoti og fram að Geldingadal.[63]

Framan við túnið á Klukkulandi er Túnholtið sem spillir útsýni frá gamla bæjarhlaðinu fram í dalinn.[64] Allmiklu framar gengur skál inn í fjallgarðinn og heitir Heimrihvilft en fjallið upp af henni Hvilftarfjall.[65] Heiman til við þessa skál, niður undan fremsta teignum í Klukkulandsfjalli, er dálítill bungumyndaður hryggur sem heitir Skollabringur.[66] Þar mun skolli stundum hafa sést á ferli. Niður úr Heimrihvilft rennur lækur í djúpu gili og heitir Heimrihvilftargil.[67] Framantil við þennan læk og rétt við götuna er nokkuð hátt holt sem heitir Prestsholt. Steinn þar á holtinu heitir Einbúi en fram af því steypist Prestslækur.[68] Þjóðsögur herma að í honum hafi drukknað prestur en á Prestsholti hafi verið tjaldað yfir líkið.[69] Niður í Dýjaparti hér fyrir neðan rennur lækur þessi í kringlótta holu sem heitir Matarhola.[70] Er sagt hún dragi nafn af því að fyrrum hafi aldrei þrotið þar silungsveiði og var talið að undirgöng lægju frá Núpsá upp í holuna.[71]

Dálítið framan við Prestsholt gengur önnur skál inn í fjallið og heitir Fremrihvilft.[72] Neðan við hana sjáum við Stóruskriðu. Heimantil í skriðunni er rauður steinn og þar niður af voru mógrafir.[73] Fjallið framan við Fremrihvilft heitir Heiðnahorn og handan þess tekur Geldingadalur við[74] og gengur nær beint í austur. Dalur þessi liggur hátt og er girtur hömrum svo ófært var talið að komast úr honum á fjall upp.[75] Suðurhlíð Geldingadals er í landareign Klukkulands en norðurhlíðina á Núpur því Geldingadalsá sem fellur um dalinn skiptir löndum. Áin steypist niður úr dalnum í allháum fossi sem heitir Geldingadalsfoss.[76]

Á fyrri tíð voru fráfærulömb oft rekin fram á Geldingadal til hagagöngu og þar er einnig dálítið slægjuland neðst í dalnum en örðugt var að koma heyi þaðan niður á jafnsléttu vegna brattlendis og hjalla fyrir neðan dalsmynnið.[77]

Við Geldingadalsá snúum við til baka að þessu sinni en förum síðar aðra ferð um Núpsdalinn til að skoða hann betur (sjá hér Núpur). Gaman hefði verið að vita hvar á Núpsdalnum þau sátu yfir kvíaám sumarið 1890, Sigurður Einarsson, er þá átti heima í Minna-Garði en síðar var lengi kennari á Þingeyri, og Kristín Jónsdóttir sem þá var heimasæta á Klukkulandi og síðar á Dröngum en fluttist ung úr Dýrafirði og fékk við giftingu ættarnafnið Dahlstedt. Bæði höfðu þau fermst um vorið og þarna í hjásetunni gaf drengurinn ungi þessari vinkonu sinni eyrnahringi úr látúni sem hann hafði keypt fyrir 12 aura í Gramsverslun á Þingeyri.[78] En hér fór í verra þegar pilturinn hugðist stinga göt í eyrnasnepla stúlkunnar svo hún gæti skartað þessum djásnum. Þá fór að blæða einhver ósköp undan fjaðranálinni sem hann hafði í höndum og gleði beggja snerist í sorg.[79] Hringunum góðu fleygðu þau í ána og vera kann að þar séu þeir enn þó að heil öld og gott betur sé nú liðin frá þeim sæla sumardegi.

Nú er dagur að kvöldi kominn og mál að halda í náttstað. Hér vöðum við yfir Núpsá og komum að Kotnúpi þegar sól er sest.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[2] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[3] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[4] Örnefnaskrá.

[5] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 73-74.

[6] Jarðab. Á. og P. VII, 73-74.

[7] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 73-74.

[8] Jóhannes Davíðsson 1968, 51-52 (Ársrit S.Í.).

[9] Sama heimild.

[10] D.I. IV, 688.

[11] D.I. VIII, 9.

[12] D.I. V, 502; D.I. XII, 314; D.I. XIII, 152.

[13] Lbs. 23684to XI, 350-364, Prestaæfir S.Gr.B.

[14] Sama heimild; Sóknalýs. Vestfj. II, 76-77.

[15] Íslenskar æviskrár I, 59-60.

[16] Lbs. 23684to XI, 350-364, Prestaæfir S.Gr.B.

[17] Lbs. 23684to XI, 350-364, Prestaæfir S.Gr.B.

[18] Sama heimild.

[19] Sama heimild; Gils Guðmundsson 1953, 81-84 (Dr.hylur og Brimarh.).

[20] Sömu heimildir.

[21] Sömu heimildir.

[22] Lbs. 23684to XI, 350-364 Prestaæfir S.Gr.B. og Gils Guðm. 1953, 81-84 (Dr.hylur og Brimarh.).

[23] Gils Guðm. 1953, 87-88.

[24] Sama heimild.

[25] Sama heimild.

[26] Alþingisbækur Íslands VI, 467-468.

[27] Gils Guðm. 1953, 89-90 (Dr.hylur og Brimarh.).

[28] Sama heimild.

[29] Sama heimild.

[30] Sama heimild.

[31] Sýslumannaæfir II, 73 og III, 88-89 og 94.

[32] Ísl. æviskrár IV, 311.

[33] Ísl. æviskrár IV, 311.

[34] Lbs. 23684to XI, 350-364 Prestaæfir S.Gr.B. ; Ísl. æviskrár I, 59-60.

[35] Lbs. 23684to XI, 350-364.

[36] Sama heimild.

[37] Sama heimild.

[38] Sama heimild.

[39] Lbs. 23684to XI, 350-364 Prestaæfir S.Gr.B.

[40] Sama heimild.

[41] Sama heimild.

[42] Jarðab. Á. og P. VI, 87-88, sbr. 149; Manntal 1703.

[43] Manntal 1703.

[44] Jarðab. Á. og P. VII, 73.

[45] Sama heimild.

[46] Sama heimild.

[47] Sama heimild.

[48] Sama heimild.

[49] Alþ.bækur Íslands XI, 309.

[50] Sama heimild.

[51] Sama heimild, 496.

[52] Sama heimild.

[53] Einar Laxness 1977, 104.

[54] Manntal 1762.

[55] Manntöl 1762, 1801, 1835, 1840, 1845, 1850, 1855 og 1860.

[56] Manntal 1870.

[57] Manntöl 1880, 1890 og 1901.

[58] Vestfirskar sagnir II, 387-388.

[59] Lbs. 22304to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 11.4.1913.

[60] Vestf. sagnir II, 387-388.

[61] Vestf. sagnir II, 362-363; Sbr. Prestsþj.bækur Dýrafj.þinga, fæddir drengir 1865.

[62] Örn.skrá.

[63] Sama heimild.

[64] Sama heimild.

[65] Sama heimild.

[66] Sama heimild.

[67] Sama heimild.

[68] Sama heimild.

[69] Vestf. sagnir II, 372-373.

[70] Sama heimild og Örn.skrá.

[71] Sömu heimildir.

[72] Örn.skrá.

[73] Sama heimild.

[74] Sama heimild.

[75] Sóknalýs. Vestfj. II, 74.

[76] Örn.skrá.

[77] Sóknalýs. Vestfj. II, 74.

[78] Kristín Dahlstedt/Hafliði Jónsson 1961, 16-19.

[79] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »