Kroppstaðir

Frá Efstabóli að Kroppstöðum er varla nema fimm eða sjö mínútna gangur því hér var stutt á milli bæja. Landamerkjum milli þessara tveggja jarða hefur áður verið lýst (sjá hér Efstaból) en á móti Kirkjubóli, sem er næsti bær fyrir utan Kroppstaði, á jörðin land að merkjum sem liggja um innanverðan Bæjarhrygg.[1]  Grjóthryggur þessi er vel gróinn og breiðir úr sér neðan við Bæjargil[2] sem er uppi í fjallinu, skammt fyrir framan túnið á Kirkjubóli. Frá Bæjarhrygg liggja merkin um Stórholt, sem er rétt innan við Bænhúslág (sjá hér Kirkjuból í Korpudal) og skammt frá túninu á Kirkjubóli, og síðan áfram í nær beina línu frá nefndu holti yfir ána Korpu og yfir undir Hestá[3] en vegalengdin frá bæjarhlaðinu á Kroppstöðum út að Kirkjubóli er ekki nema hálfur kílómetri eða þar um bil. Mest af landi Kroppstaða liggur norðan við ána Korpu en jörðin á þó líka landspildu handan árinnar (sjá hér Hestur og Kirkjuból í Korpudal) og alveg að Hestá, sem skiptir löndum milli Kroppstaða og Hóls, að öðru leyti en því að norðan við hana á Hóll eyri sem ýmist er nefnd Breiðeyri eða Smiðjueyri.[4]

Ofan við Kroppstaði er brött fjallshlíð. Þar liggur Kroppstaðaskál í háfjallinu og skilur að Kroppstaðafjall og Kirkjubólsfjall sem er utan við skálina.

Kroppstaðir eru gömul bújörð sem nú hefur verið í eyði frá árinu 1956 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 373). Að fornu mati taldist jörðin vera 18 hundruð að dýrleika[5] en í skránni frá 1446 yfir jarðeignir Guðmundar ríka Arasonar eru Kroppstaðir þó aðeins virtir á 12 hundruð (sjá hér Efstaból). Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 eru ókostir jarðarinnar tíundaðir með þessum orðum: Vetrarhart er hér eins og á Efstabóli. Jörðin er mjög hagalítil á sumar. Engjunum spillir á sem ber þar á grjót og eyðir þeim. Úthögunum, þeim litlum sem eru, spilla skriður ár frá ári.[6] Séra Tómas Sigurðsson getur þess líka í sóknalýsingunni frá 1840 að á Kroppstöðum sé lítið um slægjur.[7]

Í yngri heimildum fá Kroppstaðir hins vegar aðra og betri dóma og má nefna að í matsgerð frá árunum kringum 1920 segir að þeir séu með betri slægnajörðum.[8] Til kosta var þá talið að mikið af hinu grasgefna slægjulandi var svo sléttlent að þar mátti slá með sláttuvél.[9] Um 1920 var túnið á Kroppstöðum talið vera í meðallagi grasgefið og annar helmingur þess sléttlendur[10] sem var ærinn kostur. Af túninu fengust þá 90 hestar af töðu en af engjum jarðarinnar mátti fá 400 hesta af útheyi.[11] Beitilandið var hins vegar í minna lagi eins og löngum hafði verið svo bóndinn á Kroppstöðum varð að semja um beitarréttindi hjá öðrum.[12]

Í varðveittum heimildum er Kroppstaða fyrst getið í skránni yfir jarðeignir Guðmundar Arasonar ríka en jarðaskrá sú er talin vera frá árinu 1446.[13] Þar er jörð þessi nefnd Kroppstaðir en í yngri heimildum bregður alloft fyrir nafninu Krofstaðir og virðast bæði nöfnin lengi hafa verið notuð sitt á hvað. Í manntalinu frá 1703 er jörðin nefnd Kroppstaðir en í Jarðabókinni frá 1710 er báðum nöfnunum gert jafnhátt undir höfði − Kroppstaðir eður Krofstaðir, stendur þar.[14] Í manntalinu frá 1801 er nafnið Kroppstaðir og einnig í manntali frá 1816 en í jarðabók frá árinu 1805 er ritað Krofstaðir.[15] Í Jarðatali Johnsens frá árinu 1847 er bærinn hins vegar nefndur Kroppstaðir og svo er einnig í sóknalýsingu séra Tómasar Sigurðssonar frá árinu 1840 og í manntalinu frá 1845.[16] Í sóknarmannatölum frá síðari hluta 19. aldar er bærinn líka alltaf nefndur Kroppstaðir eða Kroppsstaðir.[17]

Á liðinni tíð hafa ýmsir leitað skýringar á bæjarnafninu Kroppstaðir og gengið misjafnlega. Einhver bjó til þá sögu að í harðindum hefði jörðin einhverju sinni verið seld fyrir einn kindarkropp eða sauðarkrof og til þess eigi nafnið rætur að rekja.[18] Slíka sögu má hafa til gamans en líklega dettur fáum í hug að þar sé að finna rétta skýringu á bæjarnafninu. Vegna nafnsins á Korpudal og ánni Korpu hefur þeirri hugmynd verið fleygt að Kroppstaðir kynnu í fyrstu að hafa heitið Korpsstaðir en nafnið síðan gengist í munni.[19] Ekki er það útilokað en þá er þess að minnast að til eru aðrir Kroppstaðir hér ekki langt í burtu, það er að segja í Skálavík ytri við Ísafjarðardjúp, og þar er engin Korpa. Bæir sem heita Kroppur eru svo finnanlegir bæði í Eyjafirði og Borgarfirði þar sem fornar bújarðir bera nöfnin Litli-Kroppur og Stóri-Kroppur.

Líklegt er að skýringuna á þessum Kroppsnöfnum sé yfirleitt að finna í landslaginu en upphaflega merkti orðið kroppur eitthvað sem var svert eða kúlulaga,[20] samanber orðin kryppa og kroppinbakur. Ekki er ólíklegt að á öllum bæjunum sem bera nöfnin Kroppur eða Kroppstaðir finnist í landslaginu kúlulaga hóll eða hæð sem gæti minnt á kryppu og tvímælalaust er að bærinn á þessum Kroppstöðum stóð einmitt á slíkri kryppu, það er ávölum langhól sem mikið ber á neðan frá þjóðveginum en hann er í um það bil 100 metra fjarlægð frá veginum. Bærinn er nú fallinn en bæjarstæðið var rétt utan við steypta súrheysgeymslu sem enn hangir uppi (1994).[21] Nær fullvíst má telja að hér eigi nafnið á bænum rætur að rekja til kryppunnar sem hann stóð á.

Hafi bæjarnafnið hins vegar verið Korpstaðir til forna er líklegast að það tengist mannsnafni eða viðurnefni en orðið Korpur merkir hrafn. Í norrænum málum þekkjast dæmi um að orðin korpur og korpi hafi verið notuð sem viðurnefni eða stuttnefni.[22] Nafnið Korpa merkir aftur á móti hrukka[23] og má því ætla að þeir sem gáfu ánni nafn hafi séð hana fyrir sér sem hrukku eða rák í landslaginu. Svo er dalurinn kenndur við ána.

Eins og áður var nefnt er Kroppstaða fyrst getið í heimild frá miðri 15. öld sem er skráin yfir jarðeignir Guðmundar ríka Arasonar. Guðmundur er því fyrsti eigandi Kroppstaða sem um er kunnugt en einnig liggur fyrir vitneskja um ýmsa aðra eigendur jarðarinnar á 15. og 16. öld. Nöfn þeirra hafa áður verið nefnd á þessum blöðum (sjá hér Efstaból) því svo virðist sem Kroppstaðir og Efstaból hafi jafnan fylgst að við eigendaskipti á þeirri tíð.

Aðra hálflenduna á Kroppstöðum, alls níu hundruð, náði Páll Torfason, sýslumaður á Núpi í Dýrafirði, að kaupa í þremur áföngum á árunum 1672-1695.[24] Síðustu þrjú hundruðin af þessum níu keypti hann af hjónunum Jóni Jónssyni og Dórótheu Ketilsdóttur. Í Alþingisbókinni frá árinu 1695 er greint frá kaupunum með þessum orðum:

 

Lýsti valdsmaðurinn Páll Torfason sínu lagaboði á þremur hundruðum í jörðinni „Hrappsstöðum”, liggjandi í Önundarfirði og Holtskirkju sókn sem Dóróthea Ketilsdóttir hafi lofað sér að selja fyrir lausafé með samþykki síns ektamaka, Jóns Jónssonar.[25]

 

Nafnið Hrappsstaðir er hér augljóslega misritun fyrir Kroppstaðir því engin jörð í Önundarfirði hét Hrappsstaðir á þessum tíma og ekki er kunnugt um að svo hafi áður verið. Enda þótt hjónin Jón og Dóróthea létu jarðarhundruð sín af hendi við Pál sýslumann bjuggu þau áfram á Kroppstöðum og þar voru þau enn þegar manntal var tekið árið 1703.[26] Jón Jónsson var þá einn þriggja bænda á Kroppstöðum, orðinn 74 ára gamall, en Dóróthea kona hans var nær tuttugu árum yngri.[27] Orð Páls sýslumanns um að Dóróthea hafi lofað að selja sér áðurnefndan jarðarpart benda til þess að hún hafi staðið Jóni, manni sínum, framar og verið fyrir þeim hjónum. Hinn mikli aldursmunur þeirra kynni að vera skýringin á því fráviki frá almennri reglu.

Árið 1710 átti Páll Torfason sýslumaður níu hundruð í Kroppstöðum, það er hálfa jörðina, en hin hálflendan var þá í eigu Kristínar Torfadóttur á Auðkúlu í Arnarfirði,[28] dóttur Torfa Magnússonar lögréttumanns þar sem þá var nýlega látinn (sjá hér Efstaból). Jarðarhundruðin sem Páll sýslumaður átti í Kroppstöðum fékk Ásta dóttir hans í heimanmund, ásamt fleiri jarðeignum, þegar hún giftist séra Sigurði Sigurðssyni í Holti[29] á árunum milli 1710 og 1720. Árið sem Páll sýslumaður andaðist, það er 1720, fékk hann hins vegar þennan sama jarðarpart til baka frá tengdasyni sínum, prestinum í Holti, í jarðaskiptum þeirra á milli.[30]

Ein þriggja dætra séra Sigurðar Sigurðssonar í Holti og Ástu Pálsdóttur frá Núpi var Halldóra sem giftist frænda sínum séra Jóni Teitssyni, sonarsyni Páls Torfasonar á Núpi, en Jón varð síðar biskup á Hólum.[31] Þau hjónin, séra Jón og Halldóra, voru systkinabörn í báðar ættir.[32] Frá 1740 til 1756 var séra Jón Teitsson prestur í Otradal í Arnarfirði. Áður en hann fór þaðan hafði Helga Árnadóttir, kona Einars Einarssonar á Hóli í Bíldudal, ánafnað séra Jóni ýmsar jarðeignir í arf, þar á meðal hálfa Kroppstaði[33] sem komust þá enn í hendur niðja Páls Torfasonar, fyrrum sýslumanns á Núpi.

Sú hálflenda hér á Kroppstöðum sem Páll Torfason eignaðist aldrei mun allt frá því um 1600 og fram á 18. öld hafa verið í eign sömu ættar.[34] Eigandi þessa jarðarparts árið 1710 var eins og áður gat Kristín Torfadóttir á Auðkúlu í Arnarfirði en hún var þá á unglingsaldri[35]. Áður höfðu átt þessi sömu jarðarhundruð faðir hennar, Torfi Magnússon, lögréttumaður á Auðkúlu, og þar áður hans foreldrar, þau Kristín Þorleifsdóttir og Magnús Guðmundsson, timburmaður og tinsmiður á Auðkúlu[36].

Árið 1762 voru Kroppstaðir í eigu tveggja presta. Annar þeirra var séra Jón Teitsson, sem hér var nefndur, þá prestur í Gaulverjabæ, en hinn séra Hallgrímur Jónsson á Rafnseyri,[37] eiginmaður Kristínar Torfadóttur frá Auðkúlu sem átt hafði hálfa Kroppstaði 52 árum fyrr. Nokkru síðar mun Jón Arnórsson, sýslumaður í Reykjarfirði við Djúp, að öllum líkindum hafa náð að eignast jörð þessa því árið 1805 var hún í eigu konu hans, Kristínar Jónsdóttur, sem þá var orðin ekkja.[38]

Eigendur Kroppstaða á 19. öld voru ýmsir en ekki verður gerð grein fyrir þeim hér. Árið 1901 var jörðin komin í eigu Kjartans Rósinkranzsonar frá Tröð, sem þá var skútuskipstjóri á Flateyri,[39] en um 1920 var Elías Eiríksson frá Hóli í Firði orðinn sjálfseignarbóndi hér á Kroppstöðum.[40]

Árið 1710 var landskuld af þessari 18 hundraða jörð 6 vættir[41] eða sem svaraði einu kýrverði. Á hálflendunni sem Páll Torfason sýslumaður átti var landskuldin 3 vættir og átti ein þeirra að greiðast með fóðri, önnur í kaupstað en greiðslu hinnar þriðju vann landseti Páls af sér með formennsku á skipi sýslumanns.[42] Svo virðist sem ábúð á jarðarparti sýslumanns hafi þá fylgt sú kvöð að róa á skipi hans á hverri vertíð.[43]

Árin 1753 og 1847 þurftu leiguliðarnir á Kroppstöðum að greiða 5½ vætt í landskuld[44] það er litlu minna en verið hafði 1710. Í jarðabókinni frá 1805 er hins vegar gert ráð fyrir að landskuldin sé 36 álnir[45] eða innan við 2 vættir því tuttugu álnir voru í hverri vætt. Um 1920 var landskuld af Kroppstöðum 2 ær og 2 gemlingar[46] eða sem svaraði 3 vættum og 2/3 úr hinni fjórði.[47]

Á fyrri hluta 15. aldar fylgdu Kroppstöðum þrjú innstæðukúgildi[48] en árið 1708 voru þau sex og þá var talið að svo hefði verið til forna.[49]. Árið 1710 hafði þessum leigukúgildum fækkað niður í fimm og hálft[50] sem þýðir að leiguánum hefur fækkakð úr 36 í 33. Árið 1753 voru leigukúgildin á Kroppstöðum fimm[51] og svo var einnig árið 1847[52] en um 1920 fylgdu jörðinni 22 leiguær,[53] það er tæplega fjögur kúgildi. Um leigur af kúgildunum vísast til þess sem hér hefur áður verið ritað (sjá hér Efstaból).

Fyrstu bændur á Kroppstöðum sem unnt er að nefna með nafni eru þeir Jón Ketilsson og Gísli Hálfdánarson sem bjuggu hér árið 1681 á sinni hálflendunni hvor.[54] Árið 1703 voru þeir báðir hættir búskap á Kroppstöðum.[55] Athygli vekur að árið 1681 býr Jón Ketilsson á 9 hundruðum úr Kroppstöðum og einnig á 10 hundruðum úr Kirkjubóli í Korpudal.[56] Vera kann að þetta sé einn og sami maður sem þá hefur nytjað báðar jarðirnar að hluta. Líklegt er að Dóróthea Ketilsdóttir, sem var 55 ára húsfreyja á Kroppstöðum árið 1703 og hafði átt hér jarðarpart (sjá hér bls. 3), hafi verið systir Jóns Ketilssonar en jarðeign hennar bendir til þess að þetta fólk hafi verið eitthvað efnaðra en almennt var. Hafi Jón Ketilsson haft 19 hundruð til ábúðar bendir það líka eindregið til hins sama því flestir leiguliðar hér um slóðir urðu á þessum tíma að láta sér nægja mun færri jarðarhundruð.[57]

Á 18. öld var nær alltaf tvíbýli á Kroppstöðum og árið 1703 voru ábúendurnir reyndar þrír.[58] Á fyrstu árum 19. aldar bjuggu hér líka tveir bændur[59] en árið 1835 var einn maður kominn með alla jörðina til ábúðar[60] og eftir það mun sjaldan hafa verið hér tvíbýli[61] (sjá líka Firðir og fólk 1900-1999, 373). Á árunum kringum aldamótin 1900 voru heimilin þó stundum tvö og má sem dæmi nefna að auk bóndans var hér kvæntur lausamaður árið 1880, kvæntur húsmaður árið 1890 og árið 1901 leigjandi með fjögra manna fjölskyldu.[62]

Um bændurna sem bjuggu á Kroppstöðum á 18. öld er fátt til frásagnar. Einn þeirra komst þó á blöð sögunnar fyrir þjófnað og þvermóðsku við yfirvöldin en sá var Jón Þórðarson sem hér bjó á árunum millli 1780 og 1790. Árið 1789 var Jón dæmdur á Mosvallaþingi til að erfiða eitt ár í því íslenska tugthúsi en á Alþingi var tugthúsvist bóndans á Kroppstöðum stytt úr tólf mánuðum í tvo. Hér hefur áður verið sagt nánar frá þessu þjófnaðarmáli Jóns Þórðarsonar (sjá hér Mosvellir) og varla ástæða til að bæta neinu við þá frásögn.

Af bændum sem bjuggu á Kroppstöðum á 19. öld er fyrst að nefna Eyjólf Sigurðsson sem hóf hér búskap eigi síðar en 1790 og bjó hér í tvíbýli 1801 og 1816.[63] Eyjólfur var fæddur á Hóli í Firði árið 1753 eða því sem næst og hafði búið í nokkur ár á Hvilft áður en hann fluttist að Kroppstöðum.[64] Kona Eyjólfs var Vilborg Guðmundsdóttir frá Eyri.[65] Þegar Eyjólfur andaðist árið 1820 hafði hann búið á Kroppstöðum í 30 ár og fékk dauður þá umsögn hjá presti að hann hefði verið hreinskiptinn og vandaður iðjumaður.[66] Niðjar Eyjólfs og Vilborgar konu hans bjuggu síðan á Kroppstöðum allt til ársins 1860, lengst Markús sonur þeirra, svo alls sátu þeir feðgar og þeirra nánustu jörðina í 70 ár.[67]

Úr hópi sambýlismanna Eyjólfs Sigurðssonar á Kroppstöðum má nefna Jón Ásgrímsson, sem bjó á hálfri jörðinni árið 1801, og Sigmund Erlingsson sem tók við af Jóni og bjó hér bæði 1805 og 1816.[68] Jón Ásgrímsson fluttist til Bolungavíkur og var árið 1835 kominn norður á Lónseyri í Snæfjallahreppi.[69] Sigmundur Erlingsson var úr Súgandafirði en fluttist árið 1818 frá Kroppstöðum út á Ingjaldssand.[70] Kona Sigmundar var Guðný, dóttir Odds Gíslasonar í Tungu í Firði sem hér var áður sagt frá (sjá hér Tunga í Firði).

Markús Eyjólfsson, sem tók við búi á Kroppstöðum af föður sínum um 1820, var fæddur hér árið 1796.[71] Árið 1821 var hann sannanlega tekinn við búinu,[72] enda hafði faðir hans andast í desembermánuði árið 1820 og móðir hans fáeinum árum fyrr.[73] Haustið 1821 gekk Markús að eiga Önnu, dóttur Guðmundar Guðmundssonar, hreppstjóra á Hóli á Hvilftarströnd.[74] Þau Markús og Anna stóðu fyrir búi hér á Kroppstöðum í 37 ár eða því sem næst.[75] Fyrstu árin munu þau hafa búið í tvíbýli[76] en fljótlega fengu þau alla jörðina til ábúðar og hélst sú skipan þaðan í frá.[77] Árið 1830 var bústofn Markúsar og Önnu þessi: 3 kýr, 1 kálfur, 19 ær, 5 hrútar og sauðir, 14 gemlingar, 16 lömb og 2 hestar.[78] Markús átti þá engan bát.[79] Tuttugu árum síðar var tala kúnna hin sama en sauðfénu hafði fjölgað lítið eitt svo ærnar voru orðnar 22, gemlingarnir 18 og lömbin 20.[80]

Þau Markús og Anna á Kroppstöðum eignuðust 12 börn og af þeim munu 5 hafa komist upp.[81] Eitt þeirra var Þuríður sem giftist Guðmundi Guðmundssyni frá Neðri-Breiðadal.[82] Árið 1857 eða 1858 tók Guðmundur við búi á Kroppstöðum af tengdaföður sínum en vorið 1860 fluttist allt þetta fólk að Neðri-Breiðadal og þar dóu bæði Markús og Anna kona hans árið 1864.[83]

Á árunum 1858-1860 var tvíbýli á Kroppstöðum[84] en vorið 1861 fluttust hingað hjónin Jens Jónsson og Sigríður Jónatansdóttir sem höfðu alla jörðina til ábúðar næstu 25 árin.[85] Jens fæddist árið 1825 og var sonur hjónanna Jóns Guðlaugssonar og Margrétar Guðmundsdóttur sem lengi bjuggu á Mosvöllum.[86] Hann var því bróðir Gabríels Jónssonar, bónda, á Efstabóli sem var sjö árum yngri. Jens kvæntist Sigríði Jónatansdóttur árið 1854 og þegar þau fluttust að Kroppstöðum vorið 1861 höfðu þau búið á Innri-Veðrará í fáein ár.[87] Sigríður var fædd á Neðri-Bakka á Langadalsströnd árið 1832[88] en fluttist um eða innan við þriggja ára aldur með foreldrum sínum í Önundarfjörð og var hjá þeim á Innri-Veðrará árið 1845.[89]

Jens á Kroppstöðum var hreppstjóri um skeið[90] og séra Stefán P. Stephensen í Holti segir Jens og Sigríði konu hans vera vel uppfrædd og heimili þeirra hér á Kroppstöðum mesta þrifa- og regluheimili.[91] Magnús Hjaltason lætur þess getið að Jens hafi verið maður hæglátur og nýtinn eins og Gabríel bróðir hans en ýmsir hafi talið þá bræður vera undirhyggjumenn enda hafi verið á þeim feimnissvipur.[92] Sigríður Jónatansdóttir, húsfreyja á Kroppstöðum, var ljósmóðir í Mosvallahreppi í 33 ár, frá 1864 til 1897[93] og mun hafa verið hinn mesti skörungur. Um hana ritar Magnús Hjaltason þetta: Sigríður ljósmóðir var kvenskörungur mikill, þrekleg og hraust og allmikill drengur og var hún vanalega talin fyrir búinu og kölluð „Sigríður á Kroppstöðum”.[94]

Árið 1880 voru þau Jens og Sigríður á Kroppstöðum með stærsta búið í Mosvallahreppi, samkvæmt búnaðarskýrslu, ef frá eru talin bú séra Stefáns P. Stephensen í Holti og Torfa Halldórssonar, verslunarstjóra og útgerðarmanns á Flateyri.[95] Bústofn hjónanna á Kroppstöðum var þá sem hér segir: 4 kýr, 1 kvíga, 42 ær með lömbum, 2 geldar ær, 20 gemlingar, 3 hestar og 1 tryppi.[96] Jens átti þá líka einn þriðja part í bát, sexæring eða fjögra manna fari[97] sem ætla má að hafi verið gerður út frá Kálfeyri.

Vorð 1886 fluttust þau Jens og Sigríður búferlum frá Kroppstöðum að Innri-Veðrará[98] en Jens var þá kominn á sjötugsaldur. Á Innri-Veðrará héldu þau áfram búskap í átta ár og síðan í þrjú ár á Ytri-Veðrará, allt til ársins 1897.[99] Síðustu árin sem Jens og Sigríður lifðu voru þau hjá dóttur sinni og tengdasyni á Innri-Veðrará og þar andaðist Jens árið 1899.[100] Sigríður kona hans átti þá fjögur ár ólifuð.[101]

Á þeim árum sem Jens Jónsson og Sigríður Jónatansdóttir bjuggu á Kroppstöðum höfðu þau jafnan alla jörðina til ábúðar en oft voru þar ættingjar í húsmennsku, t.d. Magnús, bróðir Sigríðar húsfreyju, árin 1863-1864 og svo dætur þeirra og tengdasynir á árunum upp úr 1880.[102]

Þau Jens og Sigríður á Kroppstöðum eignuðust fimm börn sem komust upp.[103] Elst var Sigríður sem giftist Bóasi Guðlaugssyni og bjó með honum á Innri-Veðrará.[104] Árið 1880 voru ungu hjónin, Bóas og Sigríður, á Kroppstöðum og í manntali frá því ári er Bóas sagður lausamaður.[105] Aðrar dætur Jens Jónssonar á Kroppstöðum og eiginkonu hans voru Jensína sem giftist frænda sínum, Jóni Gabríelssyni frá Efstabóli, síðar bónda á Fjallaskaga, og Guðfinna sem varð prestsfrú á Miklabæ í Skagafirði.[106] Hún gekk sumarið 1884 að eiga Björn Jónsson frá Broddanesi í Strandasýslu sem tók prestvígslu tveimur árum síðar og var prestur á Miklabæ frá 1889 til 1921.[107] Synir Jens Jónssonar og Sigríðar Jónatansdóttur á Kroppstöðum voru tveir og hétu Jónatan og Ólafur. Jónatan varð bóndi á Efstabóli (sjá hér Efstaból) en Ólafur fluttist norður í Skagafjörð og gerðist verslunarmaður á Sauðárkróki.[108]

Árið 1890 bjuggu á Kroppstöðum hjónin Bjarni Guðmundsson og Jósabet Þorleifsdóttir[109] sem áður höfðu búið alllengi á Kirkjubóli í Korpudal (sjá hér Kirkjuból í Korpudal). Þá var hér líka tengdasonur þeirra, þrítugur húsmaður, Guðmundur E. Engilbertsson að nafni, með sex manna fjölskyldu.[110] Guðmundur og kona hans, Anna J. Bjarnadóttir, bjuggu síðar á Birnustöðum í Dýrafirði (sjá hér Birnustaðir).

Vorið 1893 fengu hjónin Jón Guðmundsson búfræðingur og Guðrún Jónsdóttir ábúð á Kroppstöðum og bjuggu hér í átta ár.[111] Jón búfræðingur var frá Ketilsstöðum í Hvammssveit í Dalasýslu en Guðrún kona hans frá Ytri-Veðrará og þar höfðu þau búið í eitt eða tvö ár áður en þau færðu sig að Kroppstöðum.[112] Frá Kroppstöðum fluttust þau aftur að Ytri-Veðrará árið 1901 og bjuggu þar allan sinn búskap þaðan í frá en Jón andaðist 8. febrúar 1938.[113] Frá Jóni Guðmundssyni búfræðingi og Guðrúnu konu hans verður sagt nánar þegar við innan skamms komum í hlað á Ytri-Veðrará (sjá hér Ytri-Veðrará).

Þegar Jón búfræðingur fór að búa á Kroppstöðum var Halldór Magnússon í Þjóðólfstungu í Bolungavík annar tveggja eigenda jarðarinnar.[114] Hinn eigandinn hét Sveinn Ólafsson og verður að telja mjög líklegt að þar sé um að ræða tengdason Halldórs með því nafni, Svein Ólafsson sem fæddur var árið 1844 og bjó á síðasta áratug 19. aldar í Engidal í Skutulsfirði.[115] Byggingarbréfið sem Jón búfræðingur fékk í hendur er ritað í Þjóðólfstungu 16. nóvember 1892 og undir það hafa þeir báðir skrifað Halldór og Sveinn. Bréfið hefur að geyma athyglisvert dæmi um byggingarskilmála á síðustu árum 19. aldar en texti þess er svona:

 

Hér með byggjum við undirskrifaðir umráða og eigindóm okkar, jörðina Kroppstaði liggjandi í Önundarfirði, 18 hundruð að dýrleika að fornu mati, herra búfræðingi Jóni Guðmundssyni á Ytri-Veðrará næstkomandi fardagaár og framvegis sem okkur um semur með meðfylgjandi ábúðarskilmálum:

  1. Gjaldi hann okkur árlega í landskuld eftir þessi 18 hundruð eins og venja hefur áður verið, nefnilega 2 ær loðnar og lemdar í löggildu standi og 1 gemling í hverjum fardögum heim til okkar.
  2. Með þessari jörð nú fylgjandi fær hann á leigu 22 ær eftir hverjar hann gjaldi okkur árlega lögleigu, 7 merkur undan hverri á af hreinu og vel verkuðu smjöri fyrir eða um Mikaelismessu heim til okkar.
  3. Svari öllum lögboðnum tíundum og tollum í skyldum og skylduverkum er af honum sem þessarar jarðar ábúanda með rétt heimtast kann og kosti til sérhverju skylduútsvari og verkum er núgildandi eða komandi lög krefja hann um, hans ábúðartíð.
  4. Húsum jarðarinnar og hennar innstæðukúgildum viðhaldi hann á eigin kostnað án uppbótar frá lands-drottnum, einnig hennar húsum og heytóttum, túni og engjum og hverju öðru er jörðinni tilheyrir – en svari jörðinni út í fullu standi eða með fullgildu álagi þegar frá fer.
  5. Kappkosti hann að betra tún sitt, verja það og rækta og öll slægjulönd jarðarinnar sem best hann má. Færa á tún og til þess útgræðslu allan áburð, eins sauðatað, en engu af því sóa til brennslu heldur í þess stað nota sér torfskurð en engum þó leyfa móskurð. Fella mógrafir vandlega saman svo skepnum hættulaust verði. Stungu eða ristu má hann ekki leyfa sér eða öðrum í túni eða slægjulandi.
  6. Ber honum að hlaða löggarð um tún sitt uns fullgjörður er og síðan vel við halda með meiru.
  7. Alls ekkert má hann af ábýli sínu ljá eða byggja öðrum án okkar leyfis og ekkert húsfólk án okkar leyfis inn taka.
  8. Láti hann ekkert undan jörðinni ganga af landi hennar né leyfislaust af óviðkomendum. Móskurð má hann engum ljá framar en hér segir en tilsegi okkur ef nokkur hans leiguland ásælist.
  9. Flytji afgjaldið heim til okkar á gjaldtíma ár hvert. Þegar frá jörðinni vill færa sig, segi okkur þá ábýli sínu lausu fyrir eða um Mikaelismessu haustinu áður.

Að þessum framanskrifuðum ábúðarskilmálum samþykktum, undirskrifuðum og síðan tryggilega uppfylltum er fyrrskrifuð jörð, 18 hundruð að dýrleika, hér með lögheimiluð velnefndum búfræðingi, herra Jóni Guðmundssyni á Ytri-Veðrará, svovel þetta næstkomandi fardagaár og framvegis svo lengi okkur hér um semur, til allrar löglegrar ábúðar og leigulendisnota.

Framanskrifuðum ábúðarskilmálum til staðfestu eru okkar undirskrifuð nöfn og hjásett signet. – 

         Þjóðólfstungu 16. nóvember 1892.

Halldór Magnússon               Sveinn Ólafsson.[116]

 

Um efni þessa byggingarbréfs verður ekki fjallað hér, enda lítil þörf á útskýringum því hinar ýmsu greinar skjalsins tala sjálfar skýru máli.

Þegar Jón Guðmundsson fór frá Kroppstöðum vorið 1901 tók annar búfræðingur við jörðinni, Sveinn Árnason sem seinna bjó á Hvilft, en hann bjó hér aðeins í 2 ár.[117] Í skjóli Sveins hafðist fjögra manna fjölskylda um skeið við hér á Kroppstöðum og er í manntalinu frá 1. nóvember 1901 sögð vera leigjendur.[118] Þetta voru þau Sigurður Guðmundsson og Hallbjörg Jónsdóttir, bústýra hans, ásamt tveimur dætrum þeirra, 9 og 12 ára.[119] Í manntalinu frá 1901 er Sigurður sagður vera sláttu- og sjómaður.[120] Hann var í byrjun 20. aldar hálfsjötugur en bústýran átján árum yngri.[121]

Snorri Sigfússon skólastjóri, sem settist að á Flateyri árið 1912, segir að á sínum fyrstu árum í Önundarfirði hafi fólkið á Kroppstöðum búið í lélegum torfbæ og aðeins eitt hálfþil snúið fram á hlaðið.[122] Snorri lætur þess jafnframt getið að seinna hafi  Halldór Þorvaldsson frá Efstabóli búið hér bóðu búi.[123]

Um 1920 var Elías Eiríksson bóndi á Kroppstöðum (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 373) og átti sjálfur jörðina (sjá hér bls. 4). Ekki er ólíklegt að hann hafi komið upp timburhúsinu sem þá hafði tekið við hlutverki gamla torfbæjarins. Í matsgerð frá árunum kringum 1920 eru bæjarhús á Kroppstöðum sögð vera þessi: Baðstofa úr timbri 12 x 6 álnir, portbyggð með 12 x 3 álna skúr, skemma, hjallur, fjós, 2 fjárhús, 2 hlöður, hesthús og eldiviðarhús.[124]

Samtals voru hús þessi virt á 2.200,- krónur sem þá var nálægt meðaltali húsaverðs á bændabýlum í Mosvallahreppi.[125] Um þetta leyti var hér líka 200 ferfaðma matjurtagarður og úr honum fengust að jafnaði 10 tunnur af garðávöxtum.[126]

Jörðin Kroppstaðir fór í eyði árið 1956 og af byggingum stendur hér ekkert uppi (1994) nema partur af steinsteyptri votheysgeymslu en turninn sá sést langt að, m.a. frá Holti. Bærinn stóð áður á sama hól og þetta mannvirki en aðeins utar (sjá hér bls. 2-3) og dyrnar voru á þeirri hlið sem sneri niður að þjóðveginum.[127]

Við höfum nú litast um á Kroppstöðum og höldum sem leið liggur út að Kirkjubóli en þann spöl er auðvelt að ganga á sjö mínútum.

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Óskar Einarsson 1951, 95.

[2] Sama heimild.

[3] Gunnlaugur Melsted. – Viðtal K.Ó. við hann 1.9.1994.

[4] Jensína Ebba Jónsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 29.6.1994. Sbr. Lbs. 27364to, bls. 130-131/M.Hj.

[5] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 114-115.

[6] Sama heimild.

[7] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 102.

[8] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[9] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[10] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[11] Sama heimild.

[12] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[13] D.I. IV, 688.

[14] Manntal 1703. Jarðab. Á. og P. VII, 114.

[15] Manntöl 1801 og 1816. Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.

[16] J. Johnsen 1847, 195. Sóknalýs. Vestfj. II, 102. Manntal 1845.

[17] Sóknarmannatöl Holts í Önundarfirði.

[18] Lbs. 27364to, bls. 130/Magnús Hjaltason.

[19] Sama heimild.

[20] Ásgeir Blöndal Magnússon 1989, 508.

[21] Guðrún Össurardóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 23.7.1994.

[22] Ásgeir Bl. Magnússon 1989, 496.

[23] Sama heimild.

[24] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. (Kph. 1993), 167-168 og170.

[25] Alþ.b. Íslands VIII, 515. Sbr. Manntal 1703.

[26] Manntal 1703.

[27] Sama heimild.

[28] Jarðab. Á. og P. VII, 114.

[29] Alþingisbækur Íslands X, 545-546.

[30] Sama heimild.

[31] Íslenskar æviskrár III, 286-287.

[32] Sama heimild.

[33] Alþ.b. Íslands XIV, 227.

[34] Jarðabók Á. og P. VII, 114-115 og XIII, 264-265.

[35] Manntal 1703, 193.

[36] Jarðabók Á. og P. XIII, 264-265. Sbr. Lögréttumanntal, bls. 517, og Ísl. æviskrár II, 182-183.

[37] Manntal 1762.

[38] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805. Ísl. æviskrár III, 53.

[39] Manntal 1901, fylgiskjöl.

[40] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[41] Jarðab. Á. og P. VII, 114-115.

[42] Sama heimild.

[43] Sama heimild.

[44] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.  J. Johnsen 1847, 195.

[45] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.

[46] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[47] Sama heimild, bls. 73 og 77.

[48] D.I. IV, 688.

[49] Jarðab. Á. og P. VII, 114-115.

[50] Sama heimild.

[51] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[52] J. Johnsen 1847, 195.

[53] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[54] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[55] Manntal 1703.

[56] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[57] Jarðab. Á. og P. VII, 94-127.

[58] Manntal 1703. Jarðab. Á. og P. VII, 114-115. Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, Ísafj.sýsla um 1735,

eftirrit. Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753. Manntal 1762.

[59] Manntöl 1801 og 1816. Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.

[60] Manntal 1835.

[61] Manntöl 1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1870, 1880, 1890 og 1901.

[62] Manntöl 1880, 1890 og 1901.

[63] Ólafur Þ. Kristjánsson / Önfirðingar. Manntöl 1801 og 1816.

[64] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[65] Sama heimild.

[66] Sama heimild.

[67] Sama heimild. Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[68] Manntöl 1801 og 1816. Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.

[69] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[70] Sama heimild.

[71] Sama heimild.

[72] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821.

[73] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[74] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[75] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís. Mosvallahr. 2. Hreppsbók 1819-1835. Manntöl 1835, 1840, 1845, 1850 og

  1. Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[76] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821.

[77] Sama heimild, búnaðarskýrslur 1830. Manntöl 1835, 1840, 1845, 1850 og 1855.

[78] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1830.

[79] Sama heimild.

[80] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[81] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[82] Sama heimild.

[83] Sama heimild. Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[84] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[85] Sama heimild.

[86] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[87] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[88] Sama heimild.

[89] Manntal 1845.

[90] Sóknarm.töl Holts í Önundarf. 1863, 1865 og 1866.

[91] Sama heimild, 1875.

[92] Lbs. 22384to, bls. 29.

[93] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[94] Lbs. 22384to, bls. 29.

[95] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[96] Sama heimild.

[97] Sama heimild.

[98] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[99] Sama heimild.

[100] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[101] Sama heimild.

[102] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[103] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[104] Sama heimild.

[105] Manntal 1880.

[106] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[107] Ísl. æviskrár I, 232.

[108] Lbs. 22384to, bls. 28-29/Magnús Hjaltason.

[109] Manntal 1890.

[110] Sama heimild.

[111] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[112] Guðrún I. Jónsdóttir 1985, 127-139.

[113] Sama heimild.

[114] Lbs. án safnnúmers. Handrit úr fórum J. Guðm. búfr. á Ytri-Veðrará byggingarbréf dagsett 16.11.1892.

[115] Vestfirskar ættir, bls. 307-310.

[116] Lbs. án safnnúmers. Handrit úr fórum J. Guðm. búfr. á Ytri-Veðrará, byggingarbréf dagsett 16.11.1892.

[117] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar. Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[118] Manntal 1901.

[119] Sama heimild.

[120] Sama heimild.

[121] Sama heimild.

[122] Snorri Sigfússon 1969, 111.

[123] Sama heimild.

[124] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[125] Fasteignabók 1921.

[126] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[127] Guðrún Össurardóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 23.7.1994.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »