Lambavatn og Naustabrekka

Lambavatn og Naustabrekka

– Keflavík og hinir mörgu fjallvegir –

 

Frá Krókshúsum þar sem Sýslu-Jón bjó um skeið eru tveir kílómetrar út að Lambavatni, ysta bæ á sjálfum Rauðasandi. Á þeirri leið er svolítið vatn fyrir neðan veginn og heitir Stakkavatn.

 

Lambavatn var ein af jörðum Guðmundar ríka Arasonar á Reykhólum á fyrri hluta 15. aldar.[1] Jörðin komst síðar í eigu sonarsonar Guðmundar, Bjarna Andréssonar á Brjánslæk. Frá árinu 1509 er til, frá hendi Björns Guðnasonar í Ögri, skrá yfir jarðir Bjarna Andréssonar sem þá var látinn en hafði verið tengdasonur Björns. Fylgja þar með ýmsar upplýsingar. Björn í Ögri segir þarna:

 

Séra Hermundi byggði ég hálft Lambavatnið um ár fyrir fjórar ær, vætt skreiðar og bjórtunnu eða mjöltunnu jafnskilin hvor fyrir sig fyrir 40 álnir í kauptíð. Árna Hermundssyni hálfa fyrir svo skilda landskyld.[2]

 

Ekki er nú vitað hver þessi séra Hermundur var, sem m.a. átti að greiða eina bjórtunnu í landskuld af hálfu Lambavatni, en gera verður ráð fyrir að hann hafi búið á jörðinni, a.m.k. þetta eina ár.

Löngu síðar varð Lambavatn aftur prestssetur um skeið er séra Jón Ólafsson átti hér heima frá 1680 til dauðadags 1703. Hann kom prestvígður á Rauðasand árið 1669. Mun aðeins hafa þjónað Saurbæjarsókn fyrstu fimm árin en var veitt Sauðlauksdalsprestakall árið 1674.[3] Áður en séra Jón fluttist að Lambavatni sat hann á Melanesi. Hann var skáldmæltur og enn eru varðveitt mörg handrit sem hann skrifaði upp og miklar ættartölur. Séra Jón átti átta hundruð í Lambavatni en alls var jörðin talin 24 hundruð og 30 hundruð með hjáleigunni Naustabrekku.[4]

Frá dauða séra Jóns á Lambavatni árið 1703 er sagt á þessa leið í Breiðfirskum sögnum:

 

Hann var á ferð út í Örlygshöfn og kom síðla dags ölvaður að Hnjóti. Þar settist prestur að drykkju með bónda en hélt síðan heim á leið um nóttina yfir Hnjótsheiði. Með séra Jóni var ungur sonur hans, Ólafur að nafni. Er þeir komu nokkuð upp á heiðina dró prestur upp nestispela sinn og drakk allósleitilega. Andartaki seinna sá drengurinn bláa gufu brjótast fram um varir hans. Hneig séra Jón þá af hestinum og var þegar örendur. Trékross var reistur þar sem prestur andaðist og heitir síðan Krossholt.[5]

 

Í byrjun 18. aldar var þríbýli á Lambavatni en síðar lengi tvíbýli. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá árinu 1703 segir að á Lambavatni sé sölvafjara til gagns, jörðin sé landþröng en hafi samt verið grasgefin. Ennfremur:

 

Nú spillist það af sandfjúki svo engjar eru mjög svo nær ónýtar. Skriður hafa tekið af grasið úr hlíðinni og hrynur oft grjót á túnið. Vatnsbrestur er þar á vetur til stórmeina og þarf það á sleðum og mönnum heim að bera.[6]

 

Skammt fyrir utan Lambavatn þrýtur graslendi Rauðasands við háan grjóthól sem Skaufhóll heitir, sjálfsagt kenndur við skaufhala sem er eitt af mörgum nöfnum tóunnar. Í Skaufhól er stór sérkennilegur steinn sem líkist mannshöfði.

Gömul álfasaga tengist Skaufhól. Sagt er að séra Jón Ólafsson á Lambavatni, sem hér var áður nefndur, hafi lengi verið lítt trúaður á huldufólk.

 

Svo var það eitt sinn er prestur reið fram hjá Skaufhól … að hann mælti sem af glettni: „Nú eru allar dísir dauðar.” En varla hafði hann sleppt orðinu er út úr hólnum kom álfkona og kallaði: „Bíð þú mín, séra Jón.” En prestur kærði sig ekki um að bíða heldur keyrði hestinn sporum og reið ákaflega inn allar götur að Saurbæ. Álfkonan fylgdi honum fast eftir, þótt hestlaus væri, og skoraði í sífellu á hann að bíða sín. Því sinnti prestur engu en reið allt hvað af tók þangað til hann náði að klukknaportinu við Saurbæjarkirkju. Þar hljóp hann af hestinum sprengmóður og hringdi kirkjuklukkunum sem mest hann mátti. Við klukknahljóminn brá álfkonunni úr Skaufhól svo að hún hvarf aftur til sinna heimkynna.[7]

 

Fyrir utan Skaufhól taka við Brekkusandar, svartir foksandar er ná milli fjalls og fjöru, og litlu vestar brattar sjávarhlíðar.

 

Naustabrekka er fyrir utan Brekkusanda og var áður hjáleiga frá Lambavatni. Á Naustabrekku er nær ekkert undirlendi en svolítill túnskækill þar sem Brekkusandar enda en við tekur nær sæbrött Brekkuhlíð. Frá Lambavatni út að Naustabrekku eru þrír til fjórir kílómetrar og farið um sandana. Þó að Naustabrekka standi utan við meginbyggðina á Rauðasandi og sé aðskilin frá henni var bærinn jafnan talinn með býlum á Rauðasandi, enda í Saurbæjarsókn. Í jarðeignaskrá Guðmundar ríka Arasonar frá miðri 15. öld er Naustabrekku getið: Lambavatn með Brekkunni stendur þar.[8] Búið var á Naustabrekku fram á  miðjan fimmta áratug 20. aldar.[9] Pétur Jónsson frá Stökkum segir að þar sé allmikill reki, góð fjörubeit og nokkur sauðbeit á Brekkuhlíð.[10]

Frá Naustabrekku var í fyrri daga róið til fiskjar og var lendingin nokkuð vestan við bæinn þar sem heitir í Básum. Í norðan- og norðaustanátt var þar góð lending[11] en annars oft ólendandi. Í sóknarlýsingu séra Gísla Ólafssonar frá 1840 segir að Rauðasandsbændur hafi skipsuppsátur á Naustabrekku[12] og í Jarðabók Árna og Páls er skráð við Lambavatn að þaðan gangi á sumrin skip Guðrúnar Eggertsdóttur í Bæ fram til höfuðdags.[13] Sú útgerð hefur væntanlega verið frá hjáleigunni Naustabrekku, enda þótt bændur á Rauðasandi hafi stöku sinnum farið á sjó að sumarlagi frá Rifinu framan við meginbyggðina þegar ládautt var.[14]

 

Frá Naustabrekku liggur fjallvegur nær beint í norður að bænum Hnjóti í Örlygshöfn við Patreksfjörð og heitir Hnjótsheiði. Er þetta um átta kílómetra leið og farið hæst í liðlega 300 metra hæð yfir sjávarmáli. Sé lagt upp frá Naustabrekku liggur fyrsti áfanginn um sneiðinga upp nokkuð bratta en lága hlíð og síðan um einstigi í klettum upp á brúnina.[15] Þessi uppgönguleið er hestfær að sumarlagi og var gatan hlaðin upp í klettaskarði.[16] Frá brekkubrúninni er leiðin greiðfær norður að Hnjóti. Á þessari leið andaðist séra Jón Ólafsson á Lambavatni árið 1703 eins og fyrr var getið.

Til Keflavíkur austan Látrabjargs er um tvær leiðir að ræða frá Naustabrekku en milli bæjanna eru um það bil fjórir kílómetrar. Mögulegt er á sumardegi að fara fjöruna undir Brekkuhlíð en þó aðeins um lágsjávað því að sjór gengur í berg á tveim stöðum. Annað hamraklifið sem lokar leiðinni heitir Forvaði. Þröngt gat er þó í gegnum klettinn og geta menn smeygt sér þar í gegn við hálffallinn sjó.[17] Heitir það að fara í Gat og mun hafa komið fyrir að gildvaxnir menn sætu fastir í Gatinu um sinn. Við Forvaðann eru landamerki milli Naustabrekku og Keflavíkur. Hin leiðin milli þessara tveggja bæja liggur um Kerlingaháls, þrjú hundruð metra háan fjallveg um brún hinnar snarbröttu Brekkuhlíðar.

Er þá fyrst farið upp sjálfa Naustabrekkuna, sömu leið og þegar stefnt var norður að Hnjóti. Leið þessi var oftast ófær hestum á vetrum og stundum líka gangandi mönnum.[18] Þegar komið er á brún verða vegamót. Liggur önnur leiðin norður Hnjótsheiði, svo sem fyrr var nefnt, en hin vestur um Kerlingaháls til Keflavíkur. Leiðinni um Kerlingaháls lýsir Pétur frá Stökkum svo:

 

Þegar komið er á brún beygist vegurinn út eftir þverhníptum hamrabrúnum sem heita Hyrnur. … Er gatan þar víða svo tæp að sjá má fram af hengifluginu og fjörugrjótið beint fyrir neðan.[19]

 

Klifhyrna er innst af Hyrnunum utan við Naustabrekku og var stundum farið þar upp klifið ef brekkan var ófær.[20]

Hálsinn er sagður hafa nafn sitt frá tveimur kerlingum er hér fóru um fyrir margt löngu. Endaði ferð þeirra með ósköpum er svo hefur verið lýst:

 

Þegar kerlingarnar komu þar sem vegurinn er brattastur gekk sú er á eftir var í spor hinnar, sem á undan fór. Henni mislíkaði það og hafði orð um. En hin síðari breytti eigi til, enda var það ekki hægt nema með því að ganga fram af. Af þessu tilefni kom þykkja mikil í kerlingarnar og sú fyrri fikraði sig alltaf tæpara og tæpara eftir brúninni en hin fylgdi jafnan í spor hennar. Brátt kom að því að ekki varð tæpara gengið. Þá ávarpar hin fyrri síðari kerlinguna og sagði: „Gakk þú nú í sporin mín, bölvuð”, og gekk um leið fram af brúninni. Hin kerlingin lét ekki á sér standa. Fóru þær báðar fram af fluginu og köstuðust til bana í stórgrýtinu þar fyrir neðan.[21]

 

Fleiri hafa hrapað til bana á þessum slóðum en stíflyndu kerlingarnar tvær.

Talið er að séra Björn Bjarnason, prestur í Sauðlauksdal, hafi hrapað til bana í Klifhyrnu árið 1625.[22] Nær hálfri öld síðar hrapaði annar Sauðlauksdalsprestur, séra Þorbjörn Einarsson, fram af brúninni á Kerlingahálsi og beið bana.[23]

Margir fætur manna og hesta hafa troðið götuna fornu yfir Kerlingaháls. Aftur og fram um hálsinn lá leið allra hinna mörgu er fóru af Rauðasandi eða Barðaströnd í Útvíkurnar norðan Látrabjargs, m.a. allra vermannanna. Fyrir 1825 náði Saurbæjarsókn að Blakksnesi og lá þá um hálsinn kirkjuvegur allra sem í Útvíkum bjuggu. Vestantil á Kerlingahálsi skiptast svo leiðir eftir því hvort stefnt skal í Keflavík og að Látrum, ellegar í Breiðavík eða Kollsvík. Leiðin frá Naustabrekku um Kerlingaháls, Brúðgumaskarð og Víknafjall norður í Kollsvík er einn allra lengsti fjallvegur í Rauðasandshreppi, 16-17 km, og var talinn sjö roðskóa heiði.[24]

 

Bærinn Keflavík stóð í samnefndri dalkvos. Austan við hana er Kerlingaháls en rétt fyrir vestan víkina rís hamraveggur Látrabjargs sem nær héðan og út að Bjargtöngum. Eru það um fjórtán kílómetrar. Keflavíkur eru margar á landinu svo sem kunnugt er. Til aðgreiningar frá öðrum Keflavíkum er þessi stundum nefnd Keflavík austan Látrabjargs, sem er réttnefni. Í Landnámabók er hún kölluð Keflavík fyrir sunnan Barð[25] og er sú áttatáknun dálítið brengluð því að víkin er austantil við Látrabjarg og aðeins norðar – en það var bjargið sjálft sem nefnt var Barð til forna (sjá hér Látrabjarg).

Bærinn í Keflavík stóð ofarlega í dalkvosinni, í um það bil eins kílómetra fjarlægð frá sjó. Í Jarðabók Árna og Páls segir að í Keflavík megi fóðra þrjár kýr og níu lömb. Öðru sauðfé sé ekki ætlað fóður því að útigangur sé í besta lagi.[26] Tveir bændur bjuggu í Keflavík árið 1703 og húskona að auk. Búpeningur hér var þá fimm kýr, tuttugu og fjórar ær, tuttugu og þrír gemlingar og sauðir og tveir hestar, – eða mun stærri bústofn en jörðin var talin bera.[27]

Lífsbjörg Keflavíkurbænda var þó ekki eingöngu ær og kýr. Fugl og egg sóttu þeir í bjargið og úr Keflavík var róið á sjó þó að lending væri brimótt og ótrygg. Heimræði var frá Keflavík bæði vor og sumar. Í byrjun átjándu aldar gengu héðan sjö skip á vorvertíð, frá sumarmálum til Þingmaríumessu, sem er 2. júlí, og þá voru hér sjö verbúðir. Alla bátana hér átti Guðrún ríka Eggertsdóttir í Saurbæ en hún var eigandi jarðarinnar.[28] Stærstu bátarnir voru áttæringar en þeir minnstu fimm manna för. Á þessum bátum Guðrúnar hafa verið 40 til 50 sjómenn og hvíldi yfirleitt sú kvöð á landsetum Guðrúnar að róa á bátum hennar eða leggja til mann. Vertollur í Keflavík var hálf vætt eða 20 kíló af fiski af hverjum vermanni. Á móti nutu róðrarmenn lyngrifs í Keflavíkurlandi. Árni Magnússon grípur til þýskrar tungu er hann lýsir útgerð Guðrúnar hér í Keflavík, en meining orða hans er þessi:

 

Enginn nema hún má láta þar ganga fiskibáta um vertíð. Á sumrin mega bændurnir láta báta sína ganga ef þeir hafa svo margt vinnufólk að þeir geti komið því í verk. – Og síðan, ritað á íslensku:

Með hverju skipi fylgir ketill, sem skipeigandinn ljær allri skipshöfninni til ísoðningar. Og geldur þar fyrir hver róðrarmannanna (svo vel formaður sem hásetar) einn fjórðung í leigu. Leverar formaður ketilinn frá sér að vertíðarlokum. Eru það flestallt katlar, nokkrir pottar í bland.[29]

 

Fimm kíló af harðfiski hefur þá hver maður orðið að greiða í vertíðarlok ofan á vertollinn fyrir það eitt að fá um vertíð að sjóða sér til matar í kötlum eða pottum gósseigandans í Bæ.

Fleiri upplýsingar geymir Jarðabókin um sjósókn frá Keflavík, m.a. þessar: Segl brúkast þar ekki. Væri þó langtum betra en skipeigandi vill það ei til láta. Lóðir brúkast ei. Kunna og ei að brúkast sökum strauma og hrauna. … Menn beita þar heilagfiski og steinbít.[30]

Í sýslulýsingunni frá árinu 1746 getur Ólafur Árnason sýslumaður um fiskiver og sjóbúðir í Keflavík[31] en svo virðist hafa dofnað yfir útræði héðan og í sóknarlýsingu séra Gísla Ólafssonar frá árinu 1840 er aðeins nefnt heimræði í Keflavík.[32] Samt munu einhverjir Barðstrendingar þá enn hafa róið frá þessari gömlu verstöð.[33] Í fyrsta árgangi tímaritsins Gestur Vestfirðingur frá árinu 1847 má reyndar sjá að Keflavík hafði horfið úr tölu verstöðva en útróðrar síðan hafist hér að nýju. Í ritgerð um bjargræðisveg Vestfirðinga segir þar:

 

Svo er víðar vestur um fjörðu að veiðistöðum er fækkað sökum fiskeklu en ekki veit ég til að nýar séu teknar upp nema Keflavík vestur frá Barðaströnd fyrir fáum árum og gengu þar í vor er var 13 skip.[34]

 

Það hefur verið líflegt hér í Keflavík austan Látrabjargs vorið 1847 en þá hafa dvalist hér hátt í hundrað manns, vermenn og heimafólk.

Pétur Jónsson frá Stökkum fræðir okkur á því að róðrum frá Keflavík hafi verið hætt að mestu upp úr 1870 er saltfiskverkun hófst í nálægum verstöðvum.[35] Mjög erfitt er um alla flutninga að og frá Keflavík, þar á meðal á salti og fiski.

Skammt frá sjó, utantil í Keflavík, er stórt malarholt, nær kringlótt að lögun og slétt að ofan.[36] Heitir það Hlunkurholt.[37] Lægð sem liggur frá bæjarrústunum og í sveig með holti þessu heitir Ormar og um hana fellur Ormalækur.[38] Við læk þennan, utanvert við Hlunkurholt, stóð enn uppi verbúð á fyrstu árum 20. aldar og hét hún Heimamannabúð.[39] Síðasti formaðurinn sem reri frá Keflavík, að frátöldum heimamönnum, var Sveinn Magnússon á Lambavatni og hafðist skipshöfn hans þá við í þessari verbúð.[40] Mun það hafa verið rétt í kringum aldamótin 1900.[41] Verbúðir voru líka fyrir miðri víkinni, þar sem heitir í Stöð.[42] Í Jarðabók Árna og Páls má sjá að lent hefur verið á tveimur stöðum í Keflavík og má ætla að það hafi verið í Stöðinni og við Ormalæk. Þar stendur:

 

Lending er þar [í Keflavík] brimsöm, þó sækjandi. Uppsátur er þröngt mjög í aðallendingunni, ei nema fyrir 3 eða 4 skip. Í öðrum stað er rýmra uppsátur (fyrir 12 skip eður fleiri) en þar er hætt lending þá illt er í sjóinn og öngvir reitir til að leggja fisk á, verða og ei vel gjörðir sökum grjótsins stærðar og óhentugleika.[43]

 

Í hafátt gat oft orðið ólendandi í Keflavík og var þá engin lending í boði frá Skor og vestur að Hvallátrum[44] og reyndar gat oft brugðið til beggja vona um hvort komist yrði yfir Látraröst á áraskipum.

Í Keflavík var Eggert Ólafsson, skáld og náttúrufræðingur, sunginn úr vör að kvöldi 29. maí 1768 er hann lagði upp í sína hinstu för með viðkomu í Skor (sjá hér Lýsing Rauðasands og Skorar).

Frá nýnefndu Hlunkurholti liggja Fuglagötur til fjalls í átt að Látraheiði.[45] Við holtið er hylur í læknum og heitir Gunnuhylur.[46] Þar rétt hjá, örskammt frá sjó, er lítil flöt sem nefnd er Franskir.[47] Án efa er hún kennd við franska sjómenn og má vera að þeir hafi baðað sig í Gunnuhyl eða þvegið þar föt sín. Náir einhverra úr þeirra hópi kynnu líka að hvíla hér undir sverðinum.

Á landi liggja allmargir fjallvegir að og frá Keflavík og skulu þeir helstu nefndir hér. Um Kerlingaháls var áður rætt (sjá hér bls. 3-4) en aðrar meginleiðir voru þessar:

Til Sauðlauksdals var farið um Dalverpi[48] og liggur leiðin í fyrstu til norðausturs frá hinu forna bæjarstæði í Keflavík. Skömmu áður en leiðin frá Keflavík um Dalverpi mætir gömlu þjóðgötunni vestan úr Víkum í átt að Sauðlauksdal er farið hjá tveimur vörðum sem standa þarna hlið við hlið. Vörðurnar tvær heita Bræður og frá þeim var talinn hálftíma gangur að Konráðsvörðu[49] sem frá er sagt á öðrum stað í riti þessu (sjá hér Sauðlauksdalur). Konráð Jónsson í Sauðlauksdal, sem Konráðsvarða er kennd við og sagt var á 18. öld að byggt hefði þessa vörðu, var sonur auðugs bónda í Sauðlauksdal og tók þar við búi af föður sínum árið 1533 en andaðist 1542 eða 1543.[50] Eiginkona Konráðs var Guðrún, sú yngri tveggja dætra Björns Guðnasonar, hins volduga héraðshöfðingja í Ögri við Ísafjarðardjúp, sem báðar hétu Guðrún og var hin yngri af mörgum kölluð Guðrún rúnka,[51] hver svo sem skýringin á því kann að hafa verið.

Skýring á nafninu Bræður er sögð sú að bræður tveir, Össur Össurarson, fæddur 1808, sem lengi bjó á Hvallátrum hér í sveit (sjá hér Hvallátur), og bróðir hans hafi hlaðið þær, sína vörðuna hvor.[52] Í örnefnaskrá Keflavíkur er þessa getið og sagt að nafnið á bróður Össurar, sem með honum var við vörðuhleðsluna, hafi verið Jóhann.[53] Hann er þar sagður hafa komið norðan úr Dýrafirði í heimsókn til Össurar bróður síns á Látrum. Þegar bróðirinn sneri til baka hafi Össur fylgt honum á leið, þarna hafi þeir kvaðst og hlaðið vörðurnar tvær á kveðjustundinni.[54] Líklegt er að einhver fótur sé fyrir þessari fallegu sögu en við athugun á prestsþjónustubókum og sóknarmannatölum Sauðlauksdalspresta kemur í ljós að Össur Össurarson átti ekki Jóhann fyrir bróður en hins vegar Jóhannes[55] og ekki ólíklegt að það hafi verið hann sem hlóð aðra vörðuna.

Þann 2. febrúar 1835 var Össur Össurarson búsettur hjá tengdaforeldrum sínum í Sauðlauksdal en Jóhannes bróðir hans, sem var sjö árum yngri, var þá 20 ára gamall vinnumaður í Keflavík þar sem hann hafði alist upp að mestu frá því þeir bræður misstu föður sinn en þá mun Jóhannes hafa verið um 10 ára aldur.[56] Síðar á árinu 1835 fluttist Össur Össurarson ásamt konu sinni, Valgerði Gísladóttur, frá Sauðlauksdal út í Flatey á Breiðafirði[57] og Jóhannes bróðir hans hverfur þá líka úr sóknarmannatölum prestanna í Sauðlauksdal án þess að nafn hans finnist í dánarskrám þeirra eða þess sé getið hvert hann fór.[58] Hugsanlegt er að hann hafi sest að í Dýrafirði eins og haft var á orði löngu síðar og hér var áður nefnt. Engin marktæk vitneskja liggur þó fyrir um það og í manntali frá árinu 1840 finnst nafn hans hvorki í Barðastrandarsýslu né í Vestur-Ísafjarðarsýslu.[59] Líklegt er að Jóhannes hafi dáið um eða innan við þrítugt því hann fyrirfinnst hvergi meðal lifenda í byggðum landsins árið 1845 ef marka má nafnalykil manntalsins frá því ári.[60] Með allt þetta í huga og einnig þá staðreynd að Össur Össurarson var jafnan búsettur í Breiðafjarðareyjum á árunum 1835-1847, lengst í Hvallátrum þar,[61] virðist mega slá því föstu að síðasta samverustund þeirra bræðra hér í Keflavík hafi runnið upp árið 1835 þegar báðir höfðu ákveðið að yfirgefa fæðingarhreppinn en stefndu í ólíkar áttir. Við getum því talið býsna góðar líkur á því að vörðurnar tvær, sem æ síðan hafa verið nefndar Bræður, hafi þeir Össur og Jóhannes hlaðið árið 1835.

Össuri Össurarsyni varð langra lífdaga auðið en frá Hvallátrum á Breiðafirði fluttist hann árið 1847 að Hvallátrum í Rauðasandshreppi og bjó þar æ síðan allt til dauðadags árið 1874.[62] Það orð lá á að hann væri mikill vitsmunamaður og fengur þótti að ritgerðunum fimm sem hann skrifaði fyrir Bréflega félagið[63] (sbr. hér Hvallátur við Látrabjarg).

Hafliði Halldórsson, sem lengi bjó á Hvallátrum, var fæddur í Keflavík árið 1899. Hann ólst hér upp til 14 ára aldurs og átti líka síðar heima hér í Keflavík í eitt ár. Að hans sögn er hálftímagangur frá Bræðrum að hinni merkilegu Konráðsvörðu (sjá hér Sauðlauksdalur) sem er nokkru vestar en krossgöturnar við Ódyggðahól, þar sem gamla leiðin yfir Hnjótsheiði mætir leiðinni um Dalverpi.[64] Hafliði taldi Dalverpi ná frá Keflavík að Arnarvörðum[65] sem standa á hæsta punkti leiðarinnar frá Keflavík að Sauðlauksdal. Vera má að skilgreiningin á Dalverpi hafi ekki verið nákvæmlega þessi hjá heimafólki í Sauðlauksdal því að Búi Þorvaldsson, sem fæddist þar árið 1902 og ólst þar upp, taldi Dalverpi ná frá Langholtum í Keflavík og alla leið að Skeifnabrjót, fremst í Sauðlauksdal.[66] Öll er leiðin um Dalverpi, bæja á milli, frá Keflavík að Sauðlauksdal um 11 kílómetrar og mesta hæð 256 metrar.

Önnur leið frá Keflavík liggur beint í norður, um Hafnarlautir í stefnu á Brúðgumaskarð og mætir hún í nánd við skarðið gömlu götunni sem farin var frá Sauðlauksdal til Breiðavíkur (sjá hér Sauðlauksdalur og nánar þar um Brúðgumaskarð). Fyrir þá sem fóru milli Keflavíkur og Breiðavíkur var reyndar í boði styttri leið en sú um Brúðgumaskarð. Var hún nefnd Stæðavegur og liggur sunnar. Var þá farið um Stæður, er svo heita, og var leið þessi talin 8 kílómetrar á milli bæja. Norðan við Brúðgumaskarð er Kjölur og þar litlu norðar Kóngshæð, tveir hæstu kollarnir á þessum slóðum, 385 og 402 metrar yfir sjávarmáli. Nærri lætur að úr Brúðgumaskarði liggi vegir til allra átta. Ekki aðeins til Keflavíkur, Breiðavíkur og Sauðlauksdals, heldur líka í norð-norðvestur um Víknafjall til Kollsvíkur, og í suð-suðaustur á Kerlingaháls og þaðan að bænum Naustabrekku á Rauðasandi. Væri farið frá Keflavík að Geitagili í Örlygshöfn við Patreksfjörð var líka farin leiðin í átt að Brúðgumaskarði en sveigt af henni til norðausturs skömmu áður en komið var upp í skarðið. Allt eru þetta góðar gönguleiðir og engin þeirra lengri en svo að fullhraust fólk geti gengið hverja þeirra sem er á nokkrum klukkutímum.

Keflavík féll í eyði árið 1934[67] og af núlifandi fólki mun Jónína Ingvarsdóttir á Patreksfirði vera einna kunnugust staðháttum hér og örnefnum þessarar fornu bújarðar. Hún er fædd í Keflavík árið 1926 en foreldrar hennar, Ingvar Ásgeirsson og Bjarney Ólafsdóttir, voru þá hér við búskap.[68] Áður höfðu búið hér afi hennar og amma, langafi og langamma.[69] Jónína fluttist með foreldrum sínum frá Keflavík að Geitagili í Örlygshöfn árið 1930 og ólst þar upp þaðan í frá en var þó mikið hjá ömmu sinni í Keflavík á sumrin á árunum upp úr 1930.[70] Á uppvaxtarárum Jónínu á Geitagili nytjuðu foreldrar hennar Keflavík til beitar og hún og systkini hennar áttu þá hér mörg spor við smalamennsku.

Loftlínan frá Keflavík upp í Brúðgumaskarð er um það bil tveir og hálfur kilómetri en skarðið liggur í 324 metra hæð. Efst í Keflavíkurtúni heitir Bæli og á síðustu árunum sem búið var í Keflavík stóð þar, að sögn Jónínu, hesthús.[71] Frá Bæli lá reiðgatan í átt að Brúðgumaskarði upp á Bergin, er svo heita, en það er alllangur hjalli með klettabrún á ytri hlíð víkurinnar.[72] Uppi á Bergjunum lá gatan í átt að brekkunum sem fara varð til að komast upp í Hafnarlautir. Um lautir þessar, sem eru sunnan og austan við Brúðgumaskarð, lá leiðin frá Keflavík að bænum Geitagili í Örlygshöfn, sem fyrr var nefndur, og má telja fullvíst að höfnin, sem lautirnar eru kenndar við, sé Örlygshöfn.

Í hlíðinni utan við Keflavíkurá eru nokkur gil og í örnefnaskrá Keflavíkur, sem varðveitt er í Örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar, er gerð góð grein fyrir þeim. Þar er byggt á orðum bræðranna Hafliða Halldórssonar, sem fæddur var í Keflavík árið 1899 og hér var áður nefndur, og Ólafs Halldórssonar. Næst bæjarrústunum í Keflavík en samt mun framar er lítið grasgil sem nefnt var Bústýrugil og fyrir framan það kemur næst Seljagil.[73] Þar hafði afi Hafliða og Ólafs búsmala sinn í seli fram yfir 1890 og eru þar að sögn seljarústir.[74] Fyrir framan Seljagil kemur næst Hrómundargil, sem er grasi gróið, en þar fyrir framan er Svarthamragil.[75] Örskammt frá Svarthamragili er Svartiklettur, auðþekktur af nafninu, en neðan við hann, það er nær ströndinni, er Þjófurð sem er feikilega stórgrýtt.[76] Fremst þessara gilja er svo Hafnargil en um það rennur lækur sem kemur úr Hafnarlautum og fellur í Keflavíkurá.[77]

Á öðrum stað í riti þessu er getið um Ræningjahól, þann sem kenndur er við hina erlendu sjóræningja er árið 1579 rændu í Bæ á Rauðasandi og tóku þar til fanga húsráðandann, Eggert Hannesson sem verið hafði lögmaður frá 1553-1568 (sjá hér Saurbær á Rauðasandi). Hafi einhver hug á að finna hólinn er best að leggja upp frá bæjartóttunum í Keflavík og nema staðar á móts við fyrrnefnt Svarthamragil þar sem Bergin, hjallinn í ytri hlíð víkurinnar, mæta dalbrekkunum fyrir botni hennar. Sé horft þaðan til norðurs, upp brekkurnar, og aðeins inn á við ber fyrir augu tvær vörður sem standa allmiklu hærra, önnur á brekkubrún og hin heldur neðar. Þeir sem finna vilja Ræningjahól ættu að stefna á þessar vörður en sú stærri þeirra stendur á mosavöxnu grjótholti. Þaðan má fylgja gömlum götuslóða í stefnu rétt norðan við norðvestur og koma menn þá fyrr en varir að örlitlu en líklega nokkuð djúpu kringlóttu stöðuvatni sem hér er vegfarendum á hægri hönd og aðeins sem kalla má í seilingarfjarlægð frá götuslóðanum. Sé götunni sem gengin var frá vörðunum að vatninu fylgt áfram í sömu stefnu koma menn brátt á leiti sem lítið ber á en frá því blasir Ræningjahóll við og aðeins skammur spölur þaðan á hólinn.

Þessi leiðarlýsing er í aðalatriðum byggð á orðum Jónínu Ingvarsdóttur,[78] sem hér var áður kynnt til sögunnar. Hún kom oft að Ræningjahól á sínum uppvaxtarárum og líka nokkrum sinnum er hún var orðin fullorðin.[79] Jónína lærði snemma að þekkja hólinn og hennar fólk, sem bjó í Keflavík, hafði lengi geymt þá þekkingu, mann fram af manni (sbr. hér bls. 10).

Um hólinn sjálfan sagði Jónína er við hana var rætt árið 2008 að hann væri stór og stæði alveg einn sér, kringlóttur að lögun og nær alþakinn mosagróðri. Hún tók fram að á Ræningjahól væri engin varða en við rætur hans götutroðningar.[80] Þegar sá sem þetta ritar skoðaði hólinn 2. júlí 2009 kom í ljós að lýsing Jónínu á honum reyndist vera hárrétt. Frá vörðunni, sem hér var notuð sem leiðarmerki, og á Ræningjahól eru aðeins nokkur hundruð metrar og bæði varðan og hóllinn eru í um það bil 200 metra hæð yfir sjávarmáli.

Vegna stærðar sinnar og sérstöðu dregur hóllinn að sér athygli úr nokkurri fjarlægð sé til hans horft þaðan sem ekkert leiti ber í milli. Fast við hann eru enn sjáanlegir gamlir götutroðningar eftir fætur manna og hesta þó að nú hafi lengi verið fáförult um þessar slóðir. Líklegt er að troðningarnir við Ræningjahól sýni merki þess að hin forna þjóðgata Rauðsendinga af Kerlingahálsi í Brúðgumaskarð hafi legið með hólnum og mætt þar í nánd götunni sem almennt var farin úr Keflavík í Brúðgumaskarð og þaðan áfram út í Breiðavík eða norður í Kollsvík.

Einn fylgdarmanna minna við leit að Ræningjahól, eftir tilvísun Jónínu Ingvarsdóttur, þann 2. júlí 2009 var Jóhann Svavarsson frá Patreksfirði, nú búsettur á Sauðárkróki. Hann hafði meðferðis GPS tæki til staðsetningar og samkvæmt mælingu hans er hóllinn á þessum punkti jarðarkringlunnar:

 

N 65°  31´ 264″

V 24° 15´ 033.”

 

Guðmundur Ólafur Ingvarsson, landfræðingur og kortagerðarmaður, tjáir mér að þessi punktur sé að heita má beint í norður frá árósnum í Keflavík, í tæplega tveggja kílómetra fjarlægð frá ósnum og því sem næst í 200 metra hæð yfir sjávarmáli.[81]

Í örnefnaskrá Keflavíkur, sem á sínum tíma var færð í letur eftir orðum Ólafs Halldórssonar, sem fæddist í Keflavík árið 1893, og seinna borin undir Hafliða,  bróður hans (sjá hér bls. 10), segir að Ræningjahóll sé í Hafnarlautum.[82] Jónína Ingvarsdóttir telur það orðalag ekki vera alveg rétt en hóllinn sé skammt frá Hafnarlautum.[83] Hér þarf að hafa í huga að bræðurnir, Ólafur og Hafliði Halldórssynir, rituðu örnefnaskrána ekki sjálfir svo að hugsanlegt er að meining orða þeirra komi ekki alveg skýrt fram. Einnig kann vera að útlínur þess landsvæðis sem nefnt er Hafnarlautir hafi verið svolítið á reiki í hugum fólks og skilgreining á þeim ekki sú sama hjá öllum sem hér voru þó staðkunnugir. Með vísan til þessa má vel hugsa sér að Ólafur Halldórsson og Jónína hafi verið með einn og sama hólinn í huga þó að haft sé eftir honum að hóllinn sé í Hafnarlautum en Jónína segi hann vera á leiðinni sem oft var kennd við Hafnarlautir en heldur neðar en þær. Í örnefnaskránni er aðeins sagt um Ræningjahól að hann sé í Hafnarlautum, við veginn og sérstæður,[84] en þau orð eru eins og nærri má geta víðs fjarri því að duga til að vísa ókunnugum á leiðina að honum. Um Hafnarlautir er komist svo að orði í örnefnaskránni að þær séu stór lægð á leiðinni frá Keflavík út í Brúðgumaskarð.[85] Á þeirri skilgreiningu er reyndar lítið að græða en hvað sem öðru líður má með gildum rökum ætla að af núlifandi fólki búi Jónína Ingvarsdóttir yfir öruggastri vitneskju um hvar Ræningjahól sé að finna en hún er sú eina sem enn lifir af sex börnum Ingvars og Bjarneyjar í Keflavík.

Skýringuna á nafni Ræningjahóls höfum við frá séra Birni Halldórssyni sem varð prestur í Sauðlauksdalsprestakalli árið 1750 og sat næstu þrjú árin í Bæ á Rauðasandi en síðan í Sauðlauksdal frá 1753 til 1782.[86] Í greinargerð sinni , – Það lítið sem ég finn nú sem stendur um þá gömlu Vestfjarðahöfðingja ofan frá Sveinbirni Súðvíkingi –  ritar séra Björn meðal annars alllangt mál um Eggert Hannesson lögmann sem sat í Saurbæ á Rauðasandi frá 1554 til 1580 og erlendir sjóræningjar tóku höndum árið 1579 er þeir létu greipar sópa á hinu forna höfuðbóli við Breiðafjörð[87] (sjá hér Saurbær á Rauðasandi). Í nýnefndri ritgerð sinni kemst séra Björn Halldórsson svo að orði:

 

Örnefni eru hér í sveit, kennd við þá menn sem ræntu Eggert, Ræningjalág þar sem þeir átu dagverð á fjalli, Ræningjahóll þar sem varðmenn þeirra stóðu á meðan.[88]

 

Í handritum séra Björns er á öðrum stað varðveitt greinargóð frásögn hans um ránið í Bæ, þar sem hann segir frá því að hinir erlendu ránsmenn hafi handtekið bóndann í Hænuvík, Guðmund Jónsson að nafni, og hann verið neyddur til að visa þeim leið frá Hænuvík að lögmannssetrinu í Saurbæ.[89] Bogi Benediktsson, fræðimaður á Staðarfelli í Dölum, sem fæddur var nær hálfri  öld síðar en séra Björn í Sauðlauksdal, nefnir bónda þennan í Hænuvík reyndar Geirmund en ekki Guðmund í riti sínu Sýslumannaæfum. Bogi segir líka á sama stað að það hafi verið drengur  frá Hænuvík en ekki bóndinn þar sem var kúgaður til að vísa ræningjaflokknum til vegar. Um bæði þessi atriði er séra Björn líklegri til að hafa rétt fyrir sér vegna nálægðar sinnar við atburðinn, bæði í tíma og rúmi.

Í sinni skilmerkilegu frásögn kemst séra Björn svo að orði:

 

Svo kom að þeir tóku hann [Hænuvíkurbóndann] og ógnuðu honum með heitu járni í fæturna á honum og brenndu hann og létu drjúpa heitt flesk á bakið á honum og skamfærðu hann, höfðu hann svo hjá sér en 40 af þeim fóru í land í Hænuvík á hans báti og höfðu svo dreng með sér, höfðu snæri á honum og ráku hann á undan sér, að hann skyldi vísa þeim leið til Eggerts Hannessonar sem þá var í Bæ á Rauðasandi.[90]

 

Augljóst virðist að Bogi á Staðarfelli hafi haft afrit af frásögn séra Björns við hendina er hann gekk frá sínum texta og lagt þann skilning í línurnar sem hér voru teknar orðréttar upp að bóndinn sem ógnað var með glóandi járni og sjóðheitu fleski, og drengurinn, sem hafður var til leiðsagnar, bundinn í snæri, hafi ekki verið einn og sami maðurinn, heldur tveir menn. Sá skilningur á orðum séra Björns er þó vægast sagt mjög hæpinn og mun eðlilegra að skilja þau svo að það sé Hænuvíkurbóndinn sjálfur sem prestur eigi við er hann ritar og höfðu svo dreng með sér. Þetta skýrist ef við settum hér orðið karl fyrir dreng en þá sýndist vart annað koma til greina en að sá karl væri bóndinn sjálfur og eins er það þótt notað sé orðið drengur.

Ferðin að byggðarbaki, frá Hænuvík að Saurbæ, tók, að sögn séra Björns, heila nótt,[91] enda lætur nærri að vegalengdin sé 24 kílómetrar.

Þegar séra Björn Halldórsson varð prestur í Sauðlauksdalsprestakalli árið 1750 var 171 ár liðið frá ráninu í Bæ. Frásögn hans er því að líkindum nær eingöngu byggð á munnmælum þó að ekki sé útilokað að einhver eldri skrif um sama atburð hafi komið fyrir hans augu, þar með talið bréf Eggerts Hannessonar sjálfs (sjá hér Saurbær á Rauðasandi). Vegna þess hvað langur tími var liðinn frá ráninu er séra Birni gafst kostur á að hlýða á frásagnir sóknarbarna sinna um þennan minnisverða atburð, – má gera ráð fyrir að í munnmælunum hafi sitthvað skolast til.

Á hitt ber þó að líta að ránið og brottnám Eggerts, sem ræningjarnir höfðu vikum saman í haldi á skipum úti, var svo einstakur atburður í sögu byggðarlagsins að gera má ráð fyrir að í meginatriðum hafi greinargóðir viðmælendur séra Björns úr röðum heimafólks farið rétt með. Hér þarf líka að hafa í huga að þegar séra Björn tók til starfa í prestakallinu voru þó ekki liðin nema 108 ár frá andláti Ragnheiðar Eggertsdóttur, dóttur lögmannsins í Bæ sem rændur var og hnepptur í varðhald, en síðustu 50 árin sem hún lifði átti Ragnheiður jafnan heima í Sauðlauksdal, þá í ekkjustandi en hafði verið gift Magnúsi prúða sýslumanni Jónssyni.[92]

Elsta fólkið sem séra Björn hitti að máli í prestakalli sínu hér vestra hafði á sínum yngri árum átt kost á að ræða við ærið marga sem mundu vel Ragnheiði Eggertsdóttur, hina vellauðugu ekkju í Sauðlauksdal, en hún og eiginmaður hennar höfðu á sínum tíma gengist fyrir fjársöfnun til að leysa föður hennar úr höndum ræningjanna. Auðugir Vestfirðingar og ríkismenn annars staðar á Vesturlandi lögðu þá fram ógrynni fjár í því skyni, kvensilfur og slegna silfurdali, samtals um hálfa aðra vætt silfurs, nær 60 kíló – sem talið var jafngilda 1920 spesíum.[93] Sagt er að kvensilfrið sem fram var reitt hafi verið upp á 13 konur og má nærri geta að þar hefur ekki verið miðað við neinar almúgadrósir heldur þær skartbúnu höfðingskvinnur sem hæst trónuðu í þjóðfélagsstiganum.

Vegna nálægðar séra Björns í Sauðlauksdal við Ragnheiði Eggertsdóttur og samtímafólk hennar í Rauðasandshreppi er verulegt mark takandi á orðum hans um ránið í Bæ, þar á meðal þeirri staðhæfingu hans að Ræningjahóll hafi hlotið nafn sitt vegna viðdvalar ránsmannanna frá 1579 á leið þeirra frá Hænuvík að Saurbæ. Hóllinn, sem stendur eins og fyrr var getið (sjá hér bls. 11-12) við nokkuð fjölfarna leið milli Rauðasands og Útvíkna, hlaut ærið oft að minna á sig og nafn hans þá einnig á hið sögufræga rán. Fólkið sem hér átti síðar leið um og mundi bæði Ragnheiði Eggertsdóttur í Sauðlauksdal og bóndann í Hænuvík, sem þvingaður var til leiðsagnar, var ekki líklegt til að týna úr huga sér skýringunni á nafni þessa  sérstæða hóls eða rugla honum saman við aðra hóla. Hið sama á við um börn viðkomandi fólks og barnabörn sem séra Björn hitti að máli.

Þegar enn lengra líður frá atburðum má hins vegar búast við að fyrnast taki yfir margt sem áður var alkunna, þar á meðal skýringar á örnefnum.

Sagan um viðdvöl hins harðsnúna ræningjaflokks við hólinn hlýtur í öndverðu að vera komin frá Guðmundi bónda í Hænuvík því að enginn annar innlendur maður var þá í þeirra hópi. Séra Björn í Sauðlauksdal segir, svo sem fyrr var getið, að ræningjarnir hafi etið dagverð í Ræningjalág og á meðan hafi nokkrir þeirra staðið á verði á Ræningjahól. Þessi lýsing hans á minniháttar atriðum úr næturferð ræningjanna er miklu síður marktæk en hitt að hóllinn dragi nafn af viðdvöl þeirra þar. Hvað sem slíku líður blasir við öllum sem skyggnast um á þessum slóðum að fyrir menn sem koma á göngu eða hlaupum úr Brúðgumaskarði og stefna á Kerlingaháls, þá er Ræningjahóll með sínum mjúku mosabreiðum alveg tilvalinn hvíldarstaður.

Ljóst er að leiðin að byggðarbaki frá Hænuvík, sem er yst við vestanverðan (sunnanverðan) Patreksfjörð, að Saurbæ á Rauðasandi hefur legið vestan við Kóngshæð og Kjöl í Brúðgumaskarð og þaðan niður í dalinn sem gengur upp frá Keflavík uns stefnan var tekin á þjóðleiðina sem kennd er við Kerlingaháls og liggur á Rauðasand.

Öll þessi leið, sem séra Björn Halldórsson gefur til kynna að ræningjarnir hafi farið, frá Hænuvík að Saurbæ, er um það bil 24 kílómetrar og við Ræningjahól hafa menn lagt um það bil helming hennar að baki. Hvergi á allri þessari leið hentaði betur en hér að hvílast um stund að hálfnaðri göngu. Á hólnum eða við hann gátu menn tekið upp nesti sitt og ef henta þótti fengið sér blund í mosanum á blíðri sumarnótt. Þá gat dugað að tveir eða þrír menn stæðu á verði meðan hinir hvíldust. Látum við þar með lokið hugleiðingum um Ræningjahól en hverfum aftur heim á hlaðið í Keflavík.

 

Hér var áður sagt nokkuð frá hinum ýmsu fjallvegum sem farnir voru frá Keflavík á fyrri tíð (sjá hér bls. 7-10). Af öllum þessum leiðum mun Látraheiði, milli Keflavíkur og Hvallátra, hafa verið fjölförnust. Sú leið er um 11 kílómetrar og liggur hæst allra þessara mörgu fjallvega, í um 400 metra hæð að baki Látrabjargs og svo niður í Látradal. Þeir sem komu gangandi eða ríðandi af Rauðasandi eða Barðaströnd og ætluðu sér skemmstu leið að Hvallátrum fóru allir um hlaðið í Keflavík. Hér hefur því oft verið margt um manninn, ekki síst við upphaf og lok vertíðar. Sneiðingurinn úr Keflavík upp á Látraheiði heitir Fuglagötur (sjá hér      bls. 7). Þar var fuglinn af bjarginu borinn niður eða reiddur á hestum.[94]

Látraheiði er gróðurlaus að kalla, grýtt og ógreiðfær. Þar er vatnslaust nema við Gvendarbrunna en talið er að Guðmundur biskup góði hafi vígt þá tæru lind og vatn aldrei þrotið þar síðan þó að liðin séu nær 800 ár (ritað 1988). Allir sem fóru um heiðina í fyrsta sinn áttu að hlaða vörðu við Gvendarbrunna og urðu vörðurnar þar margar en flestar smáar.[95] Brunnahæð (458 m) er á miðri Látraheiði og liggur vegarslóðin sunnan í hæðinni. Heitir Lambahlíðarskarð þar sem vegurinn liggur hæst og eru Gvendarbrunnar þar skammt frá.[96]

Mörgum þótti seinlegt að komast yfir Látraheiði og er þessi gamla vísa til marks um það:

 

Látradalur leiður er

lengd með allri sinni.

En heiðina sjálfa höldum vér

helft úr eilífðinni.

 

Vísan er sögð eftir Jón Helgason sem fyrir löngu bjó í Keflavík.[97]

Við Urðarhjalla nálægt vesturbrún heiðarinnar liggur gönguslóð norður til Breiðavíkur og var nefnd Fuglagötur[98] eins og slóðin upp frá Keflavík. Þar sem halla tekur vestur af heiðinni, ofan í Látradal, heita Dalsbrekkur. Þar situr beinakerling forn við veginn og heitir Klofa eða Klofavarða.[99] Eru þar hagasnöp fyrir hesta – enda áðu ferðamenn jafnan þar.

Margur fátækur átti leið yfir heiðina að Látrum í von um lífsbjörg af sjávarfangi. Við Látravatn í Látradal er Fátækrasteinn. Þjóðsagan hermir að þarna við steininn stóra hafi magnþrota beiningamaður beðið dauða síns er sendimaður eins Látrabænda bar honum fréttir af hvalreka við Bjargtanga. Við þessa gleðifrétt komst þurfamaðurinn á fætur og bjargaðist af.[100]

Við túnið á Látrum endar heiðarvegurinn. Heitir þar Helgaþúfa. Frá henni að Skaufhól á Rauðasandi var að sögn talin þingmannaleið.[101]

Margir sem fóru um Látraheiði voru langt að komnir, ekki síst meðan menn úr Austur-Barðastrandarsýslu sóttu sjó frá Látrum. Gengu þá fiskalestir yfir Látraheiði og allt suður í Reykhólasveit.[102]

Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur fór um Látraheiði skömmu eftir vertíðarlok á Látrum þann 9. júlí 1886. – Á leiðinni mættum vér nokkrum lestum, segir Þorvaldur. Það var kvenfólk af Rauðasandi sem var gangandi en rak á undan sér hesta með steinbít og fugli.[103] Slíkar ferðir voru erfiðar en þeim fylgdi efalítið mikil gleði og sumaryndi hjá konunum á Rauðasandi sem fluttu um heiðina björg í bú meðan sól skein í heiði.

Síðastur allra er Jóhann Konráðsson frá Grænhól á Barðaströnd sagður hafa farið slíkar skreiðarferðir um Látraheiði.[104] Tók hann hesta og vörur frá nábúunum og var oft með sex til tíu klára í lest. Frá Grænhól að Hvallátrum fór hann á tveimur dögum og gisti oft í Gröf á Rauðasandi í þessum ferðum. [105] Á Látrum mun hann oft hafa haldið kyrru fyrir í tvo eða þrjá daga og þar rak hann þau viðskipti sem honum hafði verið falið að annast, eingöngu eða nær eingöngu með vöruskiptum. Síðan hélt hann sömu leið til baka með lest sína um Látraheiði, Kerlingaháls, Rauðasand og Sandsheiði inn á Barðaströnd og nú var skreið og annað sjávarfang í böggunum sem hestarnir báru. Einnig fugl ef að líkum lætur og máske egg. Ólöf Dagbjartsdóttir, fædd 1894, sem ólst upp í Gröf á Rauðasandi, mundi þessar ferðir Jóhanns vel[106] svo þær hafa varla fallið niður fyrr en tuttugasta öldin var runnin upp.

Reimleika hefur tæplega orðið vart á heiðinni nema í haust- og vetrarferðum eða þegar þokan grá sveipaði grjót og urðir. Þó fóru fáir óvopnaðir um Látraheiði er leið á sumarið 1891 en þá hafði óvættur nokkur látið mjög til sín taka á heiðinni.[107] Í byrjun júlí þetta sumar lagði Sigmundur Hjálmarsson, bóndi á Hvalskeri við Patreksfjörð, á Látraheiði með fugl og steinbít sem hann sótti að Látrum:

 

Þegar hann er kominn upp á heiðina, nálægt svokallaðri Klofavörðu, kemur einhver tvífætt ókind á móti honum. Ræðst hún þegar á Sigmund og festir kló eða klær sínar í treyju hans svo að hún rifnar nær því niður úr og var hún þó úr mjög sterku efni.[108]

 

Sigmundur flýði sem fætur toguðu undan ókindinni niður í Breiðavíkurver og skildi hestana eftir með steinbít og fugli. Enginn kann nú full skil á því hvers eðlis óvættur þessi var en síðari tíma menn hafa sumir látið sér detta í hug að þetta hafi verið örn.[109]

Óvætturin á Látraheiði hrelldi marga, bæði seint og snemma á nítjándu öld, en máske eingöngu karlmenn. Öllum lýsingum á henni ber saman um að hún hafi verið með klær. Sigurður Finnbogason, sem barðist við óvættina á Látraheiði árið 1876, lýsti henni síðar svo fyrir Pétri á Stökkum:

 

Ég sá að þetta var ekki maður en þó virtist mér það að nokkru leyti í mannsmynd. Það gekk eða öllu heldur hoppaði á afturfótum. Það virtist hafa meðalmanns hæð. Framlimi hafði það, sem líktust handleggjum. Í stað handa hafði það klær, sem það reif með. Mjótt var það um herðar eða bóga. Hausinn var eins og strýta eða keilumynduð hrúga upp úr herðunum. Andlitsmynd gerði ég mér enga grein fyrir. Kvikindi þetta rann á mig hvað eftir annað og hrifsaði í mig með klónum. En er ég vildi ná tökum á því og þreyta átök við það hrökk það jafnan undan. … Ég barði á því með hnefunum er ég komst í færi því að annað hafði ég ekki til vopna. Var þá sem ég berði á úfna pöru eða skráp.[110]

 

Við vörðuna í Lambahlíðarskarði hrakti sögumaður ókindina á flótta með grjótkasti og lúðraði hún þá í áttina suður á bjargbrún. Sigurður sterki Finnbogason, sem sagði Pétri á Stökkum þessa sögu,  hafði flust að Látrum norðan úr Arnardal við Skutulsfjörð.[111] Hann hafði það eftir gömlum og greindum manni að þetta hefði verið hringloppi og taldi bústað ókindarinnar vera í Látrabjargi.[112]

Enn kynnu ókindur úr Heiðnukinn í bjarginu að vera á sveimi um heiðina. Hér hefur lýsing á hringloppanum verið birt svo að menn geti varast hann ef einhver kynni að mæta honum á förnum vegi milli Klofavörðu og Gvendarbrunna.

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

 

[1] Dipl. isl. IV, 690.

[2] Dipl. isl. VIII, 268.

[3] Ísl. æviskrár III, 235-236.

[4] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 306.

[5] Bergsveinn Skúlason 1982, II, 49-50 (Breiðfirskar sagnir).

[6] Jarðab. Á. og P. VI, 307.

[7] Bergsveinn Skúlason 1982, II, 49.

[8] Dipl. isl. IV, 690.

[9] Martin Schuler 1994, 61 (Búsetuþróun á Íslandi 1880-1990).

[10] Pétur Jónsson 1942, 91 (Barðstrendingabók).

[11] Sama heimild.

[12] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 212.

[13] Jarðab. Á. og P. VI, 307.

[14] Pétur Jónsson 1942, 91.

[15] Ari Ívarsson frá Melanesi 2002, 11 (Árbók Barðastr.sýslu XIII).

[16] Sama heimild.

[17] Jóhann Skaptason 1959, 116 (Árbók F.Í.).  Pétur Jónsson 1942, 93.

[18] Pétur Jónsson 1942, 93 (Barðstrendingabók).

[19] Sama heimild.

[20] Sigríður Guðbjartsdóttir frá Lambavatni. – Viðtal K.Ó. við hana 9.8. 1988.

[21] Vestfirskar sagnir III, 230-231.

[22] Íslenskar æviskrár I, 207.

[23] Sama heimild V, 85.

[24] Ari Ívarsson frá Melanesi 2002, 11 (Árbók Barðastr.sýslu XIII).

[25] Íslensk fornrit I, 175.

[26] Jarðab. Á. og P. VI, 308.

[27] Sama heimild.

[28] Sama heimild, 308-309.

[29] Jarðab. Á. og P. VI, 309.

[30] Sama heimild, 310.

[31] Sýslulýsingar 1744-1749, 149 (gefnar út 1957).

[32] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 212.

[33] Sama heimild, 200.

[34] Gestur Vestfirðingur I, 15.

[35] Pétur Jónsson 1942, 94 (Barðstrendingabók).

[36] Örnefnaskrá Keflavíkur.

[37] Sama heimild.

[38] Örnefnaskrá Keflavíkur.

[39] Sama heimild. Sbr. Pétur Jónsson 1942, 93-94 (Barðstrendingabók).

[40] Sama heimild.

[41] Sama heimild.

[42] Pétur Jónsson 1942, 94 (Barðstrendingabók).

[43] Jarðab. Á. og P. VI, 310.

[44] Pétur Jónsson 1942, 86 og 94 (Barðstrendingabók).

[45]Pétur Jónsson 1942, 94. Jónína Ingvarsdóttir. – Viðtöl K.Ó. við hana í ágúst 2008.

[46] Jónína Ingvarsdóttir. – Viðtöl K.Ó. við hana í ágúst 2008.

[47] Sama heimild. Sbr. Pétur Jónsson 1942, 94 (Barðstrendingabók).

[48] Sama heimild, 83.

[49] Örn.skrá Keflavíkur – Ari Gíslason/Ól. Halldórss.  Ari Ívarsson frá Melanesi 2002, 13 (Árb. Barð. XIII).

[50] Ólafur Halldórsson, handritafræðingur, 2002, 30-33 og 42 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga, 42. árg.)

[51] Sama heimild. Safn til sögu Íslands I, 673.

[52] Ari Ívarsson frá Melanesi 2002, 13 (Árbók Barðastr.sýslu XIII).

[53] Örnefnaskrá Keflavíkur – Ari Gíslason/Ólafur Halldórsson.

[54] Sama heimild.

[55] Prestsþj.bækur og sóknarmannatöl Sauðlauksdals.

[56] Sama heimild.  Manntal 1835.

[57] Prestsþj.bækur Sauðlauksdals og Flateyjar.

[58] Sömu heimildir. Sóknarmannatöl Sauðlauksdalsprestakalls 1836 og 1837. Sbr. Manntal 1835 (Keflavík).

[59] Manntal 1840.

[60] Manntal 1845 og nafnalykill þess.

[61] Sóknarm.töl og pr.þj.bækur Sauðlauksdals. Manntöl 1840 og 1845. Lúðvík Kristjánsson 1953, 111-112.

[62] Lúðvík Kristjánsson 1953, 111-112.

[63] Sama heimild.

[64] Örnefnaskrá Keflavíkur/Ari Gíslason, Hafliði Halldórsson og Ólafur Halldórsson.

[65] Sama heimild.

[66] Örnefnaskrá Sauðlauksdals/Búi Þorvaldsson.

[67] Sóknarmannatöl Sauðlauksdals.

[68] Trausti Ólafsson 1960, 104-105 (Kollsvíkurætt).

[69] Sama heimild.

[70] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Sauðlauksdals.  Jónína Ingvarsdóttir. – Viðtöl K.Ó. við hana í ágúst og september 2008.

[71] Jónína Ingvarsdóttir. – Viðtöl K.Ó. við hana í ágúst og september 2008.

[72] Sama heimild.

[73] Örnefnaskrá Keflavíkur í Örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar.

[74] Sama heimild.

[75] Sama heimild.

[76] Sama heimild..

[77] Örnefnaskrá Keflavíkur í Örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar.

[78] Jónína Ingvarsdóttir. – Viðtöl K.Ó við hana 30.8. og 1.9. 2008.

[79] Sama heimild.

[80] Sama heimild.

[81] Guðmundur Ólafur Ingvarsson. – Viðtal K.Ó við hann 6.10.2009.

[82] Örnefnaskrá Keflavíkur í Örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar.

[83] Jónína Ingvarsdóttir. – Viðtöl K.Ó við hana 30.8. og 1.9. 2008.

[84] Örnefnaskrá Keflavíkur í Örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar.

[85] Sama heimild.

[86] Lbs. 340 b 4to.  Íslenskar æviskrár I, 219-220. Sbr. Páll Eggert Ólason/Menn og menntir III, 296.                                    

 

[87] Lbs. 340 b 4to.

[88] Sama heimild.

[89] Lbs. 199 4to .  Sbr. Sýslumannaæfir IV, 106-108.

[90] Lbs. 199 4to. 

[91] Lbs. 199 4to. 

[92] Ísl. æviskrár III, 431. Sbr. Annálar I, 268 og III, 465. Sbr. einnig hér Geirseyri og Vatneyri, bl.11-13.

[93] Lbs. 199 4to. Annálar I, 158 og III, 255-256. Sýslumannaæfir IV, 106-108. Sjá einnig hér Saurbær á   Rauðasandi, bls. 8-14.

[94] Pétur Jónsson 1942, 94. Jóhann Skaptason 1959, 117 (Árbók F.Í.).

[95] Pétur Jónsson 1942, 95.

[96] Sama heimild.  Bergsveinn Skúlason 1964, 269.

[97] Vestfirskar sagnir I, 179.

[98] Bergsveinn Skúlason 1964, 272.

[99] Pétur Jónsson 1942, 95 (Barðstrendingabók).  Bergsveinn Skúlason 1964, 270.

[100] Bergsveinn Skúlason 1964, 259-260.

[101] Pétur Jónsson 1942, 95.

[102] Sama heimild, 94.

[103] Þorvaldur Thoroddsen 1959/ Ferðabók II, 20.

[104] Ari Ívarsson frá Melanesi 2002, 14 (Árbók Barðastr.sýslu XIII).

[105] Sama heimild.

[106] Sama heimild.

[107] Vestfirskar sagnir I, 187.

[108] Sama heimild.

[109] Ásgeir Erlendsson. – Viðtal K.Ó. við hann 9.8.1988.

[110] Vestfirskar sagnir I, 189.

[111] Lbs. 22304to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 7.12. 1912.

[112] Vestfirskar sagnir I, 190.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »