Spölurinn frá Mýrum að Meira-Garði er aðeins liðlega einn kílómetri og er því fljótfarið á milli bæjanna. Bærinn í Meira-Garði stóð dálítið ofan við þjóðveginn, skammt frá hlíðarfætinum. Þar er nú allt í eyði og einnig í Minna-Garði en sá bær var lítið eitt utar og aðeins örfáir metrar á milli túnanna.
Beint upp frá bæjunum í Garði skerast tvær stórar skálar eða hvilftar inn í háfjallið og heita báðar saman Garðshvilftar. Mynni beggja hvilftanna er eitt og hið sama en þegar nær dregur hálendisbrúninni skerast þær sundur í tvennt. Sú ytri, Minna-Garðshvilft, er girt háum klettaveggjum á þrjá vegu en fyrir botni Meira-Garðshvilftar er klettalaust og auðvelt að komast þar upp á sjálfan fjallgarðinn sem breiðir úr sér vestan Gemlufallsheiðar. Innan við Meira-Garðshvilft er dálítill klettaveggur sem heitir Hvilftarhorn en innan við það er svo Vatnafjall[1] sem er klettalaust og nær að Vatnadal sem hér hefur áður verið nefndur (sjá hér Mýrar).
Dálítið utan við Garðsbæina opnast Núpsdalurinn, sem síðar verður frá sagt, en vegalengdin frá Minna-Garði út í dalsmynnið mun vera rösklega einn kílómetri. Yfir mynni dalsins og rétt fyrir utan Minna-Garðshvilft ber við himin syðstu klettabrún Klukkulandsfjallsins og heitir þar Klukkulandshorn. Fjallsbrún þessi er í nær 600 metra hæð yfir sjávarmáli og tengist hamraveggjunum í Minna-Garðshvilft.
Báðar jarðirnar, Meiri-Garður og Minni-Garður, eru landlitlar og eiga hvergi land að sjó. Landamerkjum Meira-Garðs á móti Mýrum hefur áður verið lýst, en þau eru um Kýrá sem kemur úr Vatnadal. Á móti Minna-Garði lágu merkin um Milligarðalæk sem kemur úr Minna-Garðshvilft og um Merkisgil þegar ofar dró.[2] Hæst í fjallinu eru merkin á milli Garðshvilftanna.[3]
Meiri-Garður, sem oft er líka nefndur Stóri-Garður[4] og á fyrri tíð stundum Syðri-Garður,[5] var að fornu mati talinn vera 12 hundraða jörð.[6] Um kosti og galla jarðarinnar segir svo í Jarðabókinni frá 1710:
Útigangur við lakari kost. Torfrista og stunga nýtandi. Móskurður til eldiviðar lítill, brúkast þó. Hrísrif til ljádengingarkola bjarglegt allt til þessa. Lyngrif nokkuð, brúkast lítt. Úthagar eru graslitlir og víða lyngi vaxnir. Hætt er kvikfé fyrir holgryfju lækjum. Ágangi mætir jörðin af peningi á Mýrum en gelst þó enginn tollur.[7]
Í sóknarlýsingu séra Jóns Sigurðssonar frá árinu 1840 er mikið slægjuland sagt vera fyrir neðan bæina í Meira-Garði og Minna-Garði. Heitir það Garðsálar og er mjög votlent.[8] Er séra Jón skrifaði sóknarlýsingu sína var enn rifið hrís til kolagerðar í landi Meira-Garðs og hann nefnir einnig móskurð þar í landareigninni.[9] Landkreppu mikla segir prestur vera í Meira-Garði í tilliti til beitarlands,[10] og kemur það heim við Jarðabókina.
Í rituðum heimildum er jarðanna Meira-Garðs og Minna-Garðs fyrst getið í Vilkinsmáldaga frá árinu 1397 en þar segir að Mýrakirkja eigi torfskurð í Garða land svo mikill sem vill,[11] og virðist einsýnt að þarna sé átt við báðar þessar jarðir.
Í skrá frá árinu 1446 yfir jarðeignir Guðmundar ríka Arasonar á Reykhólum er jörðin Garður talin meðal jarðeigna hans í Mýrahreppi og hún nefnd næst á eftir Klukkulandi en næst á undan Læk.[12] Í skránni er þessi jörð sögð vera 8 hundruð að dýrleika,[13] en á síðari tímum hefur Meiri-Garður jafnan verið talinn 12 hundruð og Minni-Garður 6 hundruð. Enginn vafi getur samt leikið á því að þarna muni átt við aðra hvora þessara jarða.
Í skiptabréfi frá 23. október 1467 er Garður talinn meðal jarða í Mýrahreppi sem Árni, sonur hirðstjórans Björns ríka Þorleifssonar, hlaut í arf eftir föður sinn.[14] Hugsanlegt er að Meiri-Garður og Minni-Garður hafi verið ein jörð til forna en í byrjun 16. aldar eru þessar jarðir sannanlega orðnar tvö sjálfstæð býli. Vorið 1508 var vottað að Ketill Þorsteinsson hefði selt Sturlu Magnússyni jörðina Syðragarð í Dýrafirði fyrir 12 hundruð í lausafé,[15] og er það vafalaust Meiri-Garður sem þar er átt við. Í dómi sem upp var kveðinn sex árum síðar má sjá að sá sem þarna var vísað til að keypt hefði jörðina var Sturla Magnússon, lögréttumaður í Syðri-Dunhaga í Hörgárdal við Eyjafjörð,[16] sá hinn sami og átti Mýrar á síðari hluta 15. aldar (sjá hér Mýrar). Á árunum upp úr 1510 virðist menn þó hafa greint mjög á um hver væri réttur eigandi Meira-Garðs og hljóp í þau deilumál slík harka að sonur og tengdasonur Sturlu Magnússonar, þeir Jón Sturluson og Þorleifur Grímsson, fóru vestur með sveit manna sumarið 1516 og báru eld að húsum í Meira-Garði.[17]
Svo virðist sem Jón Narfason lögréttumaður hafi búið í Meira-Garði þegar norðanmenn gerðu þar óskunda því hann segir í kæru að þeir hafi brennt fyrir sér í Meira-Garði í Dýrafirði til ösku og kaldra kola sex kýrfóður af heyi og þar með fjósið og jörðina í kring.[18] Ljóst er að Jón Narfason taldi Brigiti Halldórsdóttur, mágkonu sína, og börn hennar réttan eiganda jarðarinnar en margir báru hins vegar vitni um að Halldór Sumarliðason hefði gefið hana syni sínum Sumarliða, sem e.t.v. hefur verið bróðir Brigitar.[19]
Þann 22. október 1516 var dæmt í brennumálinu á þriggja hreppa þingi í Vatnsfirði við Djúp. Niðurstaða dómsmanna varð sú að gefa norðanmönnum kost á að sanna að Jón Narfason héldi jörðinni í órétti og þeir taka fram að ákvörðun refsingar fyrir brennuna hljóti að taka mið af því hvort svo reynist vera eða ekki.[20]
Í dómnum frá Vatnsfirði segir, að takist Jóni Sturlusyni og Þorleifi ekki að færa sönnur á að Sumarliði Halldórsson hafi fengið Meira-Garð að gjöf, þá séu öll þeirra góss fallin til vors kærasta herra kóngsins náða.[21] Í tilefni af fjósbrennunni í Meira-Garði sáu dómsmennirnir í Vatnsfirði líka ástæðu til að minna á orð lögbókarinnar um að enginn skuli fyrir öðrum brenna hús eða heyhlaða, sátur eða skip heiftugri hendi en sá sem það geri dæmist útlægur og óheilagur og hafi fyrirgjört hverjum peningi fjár síns bæði í landi og lausum eyri.[22]
Ekki verður séð með auðveldum hætti hvert varð framhald brennumálsins og deilnanna um Meira-Garð en fáum dögum eftir að dómsmenn í Vatnsfirði felldu þann úrskurð sem hér var frá sagt var annar dómur kveðinn upp norður í Eyjafirði. Þar slógu dómsmenn því föstu að Sturla Magnússon í Syðri-Dunhaga þar nyrðra hefði eignast Meira-Garð með lögmætum hætti og síðan gefið jörðina Sigríði dóttur sinni og manni hennar, Þorleifi Grímssyni.[23]
Þorleifur þessi, sem ásamt mági sínum kveikti í fjósinu í Meira-Garði, varð síðar sýslumaður á Möðruvöllum í Eyjafirði.[24] Líkur benda til þess að hann hafi, með réttu eða röngu, náð Meira-Garði af Jóni Narfasyni því tveimur áratugum eftir brennuna var jörðin sannanlega í eigu tengdasonar Þorleifs, sem var Ari Jónsson lögmaður, sonur Jóns biskups Arasonar á Hólum.[25]
Þegar 56 ár voru liðin frá fjósbrennunni í Meira-Garði var enn verið að togast á um þessa 12 hundraða jörð. Deilan um Meira-Garð var þá lögð fyrir Alþingi sem 1. júlí 1572 komst að þeirri niðurstöðu að Þorlákur Einarsson, sýslumaður á Núpi, væri réttur eigandi jarðarinnar.[26] Þeir sem dæmdu um málið byggðu niðurstöðu sína á því að Eyfirðingurinn, Sturla Magnússon, hefði eignast Meira-Garð með lögmætum hætti mörgum áratugum fyrr[27] og hafa því litið svo á að Þorleifur, tengdasonur Sturlu, hafi verið í fullum rétti þegar hann reyndi að ná jörðinni undir sig úr höndum Jóns Narfasonar árið 1516. Á fjósbrennuna er hins vegar ekki minnst í þessum dómi frá Öxarárþingi, enda langt um liðið.
Árið 1710 voru Ari Þorkelsson, sýslumaður í Haga á Barðaströnd, og Eggert Snæbjörnsson á Kirkjubóli í Langadal við Ísafjardjúp, eigendur að Meria-Garði.[28] Kona Ara var Ástríður Þorleifsdóttir en hún og Eggert á Kirkjubóli voru systrabörn.[29] Mæður þeirra voru dætur Eggerts Sæmundssonar á Sæbóli á Ingjaldssandi, sem drukknað hafði árið 1636,[30] en hann var dóttursonur Magnúsar prúða og er ekki ólíklegt að Eggert hafi átt Meira-Garð um lengri eða skemmri tíma.[31] Af því sem hér hefur verið sagt má ljóst vera að Meiri-Garður var löngum í eigu innlendra stóreignamanna en bændur sem þar bjuggu voru leiguliðar. Einhver dæmi voru um það að hluti jarðarinnar væri nytjaður frá Mýrum eða Mýrahúsum.[32]
Árið 1703 var tvíbýli í Meira-Garði,[33] en yfirleitt bjó hér aðeins einn ábúandi í senn, bæði á 18. og 19. öld.[34] Á því skeiði bjó hér oftast fátækt fólk. Úr röðum þess má nefna Arnþór Brynjólfsson, annan bændanna tveggja sem bjuggu hér árið 1703, en hann hafði nokkru fyrr orðið að leita aðstoðar bróður sins, séra Bjarna Brynjólfssonar, vegna sinnar hungursneyðar og barna sinna.[35] Séra Jón Sigurðsson, sem var prestur í Dýrafjarðarþingum frá 1796 til 1828, átti lengi heima í Meira-Garði. Hann fékk Dýrafjarðarþing haustið 1796 og Meira-Garð til ábúðar vorið 1697.[36] Að því sinni bjó séra Jón hér í sjö ár en fluttist þá að Mýrum þar sem hann bjó í önnur sjö ár (sjá hérMýrar). Þá kom hann aftur að Meira-Garði og átti hér heima uns hann lét af prestskap árið 1828. Reyndar segir Sighvatur Borgfirðingur að séra Jón hafi ekki farið frá Meira-Garði fyrr en vorið 1829.
Séra Jón Sigurðsson var fæddur árið 1759, sonur Sigurðar stúdents Ólafssonar í Ögri við Ísafjarðardjúp og fyrri konu hans Sigríðar, sem var dóttir séra Ásgeirs Bjarnasonar er var prestur í Dýrafjarðarþingum í sjö ár og bjó á Mýrum. Jón Sigurðsson frá Ögri kom ungur að Mýrum og lærði þar undir skóla hjá móðurbróður sínum, séra Jóni Ásgeirssyni sem prestur var í Dýrafjarðarþingum 1772-1783 og áður aðstoðarprestur þar.[37] Frá Mýrum fór Jón Sigurðsson í Skálholtsskóla og útskrifaðist þaðan tvítugur að aldri vorið 1779. Næstu 13 árin átti hann heima norður við Djúp en gerðist árið 1792 aðstoðarprestur í Holti í Önundarfirði og tók þá prestvígslu. Hann var fimm ár í Önundarfirði og átti þá heima í Hjarðardal.[38] Þaðan kom hann að Meira-Garði vorið 1797 eins og áður var getið.
Sighvatur Borgfirðingur sem hitti í Dýrafirði fólk er mundi vel eftir séra Jóni lýsir honum svo:
Séra Jón var vel gáfaður og raddmaður góður, lipur og andríkur predikari, glaðsinna og þýðlyndur, dagfarsgóður, stilltur og gætinn, ástsæll og árvakur kennimaður, virtur og elskaður í sóknum sínum og víðar, reglufastur og starfsamur. Hann var skáld gott.[39]
Séra Jón Sigurðsson í Meira-Garði var einn þeirra presta er sendu konunglegu fornleifanefndinni í Kaupmannahöfn skýrslu árið 1818 (sjá hér Höfði). Hann segir þar m.a.:
Hvörgi hér hefi ég getað fundið steina eða kletta þá sem mannaverk sýnast á. Að sönnu eru hér svokölluð Grettistök, annað í Mýra- annað í Núpssókn, en þar eð það eina er 8 faðmar umhverfis og 6 álna hátt en annað nokkru minna og ég finn ekki að Grettir hafi komið lengra vestur eftir Ísafjarðarsýslu en í Vatnsfjörð, þá sýnast þessi nöfn smíðuð af almúga, svo sem víða finnst á Íslandi að Gretti er margt eignað sem hann hefur aldrei gjört.[40]
Í sömu skýrslu getur séra Jón líka um Landdísasteina (sjá hér Kotnúpur).
Kona séra Jóns Sigurðssonar í Meira-Garði var frænka hans, Hólmfríður Þórðardóttir, og voru þau bræðrabörn. Afi beggja var Ólafur Jónsson, lögsagnari á Eyri í Seyðisfirði við Djúp. Þau hjón voru barnlaus enda er sagt að Hólmfríður hafi löngum legið í kör og verið manni sínum erfið.[41] Er séra Jón lét af embætti var hann um sjötugsaldur. Þau hjónin fluttust þá að Ytri-Hjarðardal í Önundarfirði til Ebenezers Þorsteinssonar sýslumanns sem þar bjó og dvöldust hjá honum til dauðadags.. Á þessum elliárum séra Jóns var hann alloft fenginn til að messa á Sæbóli á Ingjaldssandi[42] svo heilsa hans virðist þá hafa verið bærileg en bæði dóu þau hjónin úr holdsveiki, hann 1836 og Hólmfríður kona hans ári síðar.[43]
Síðustu 20 árin sem séra Jón þjónaði í Dýrafjarðarþingum var hann oftast með aðstoðarprest en þeir sátu yfirleitt ekki í Meira-Garði. Séra Jón Jónsson frá Kornsá, sem fæddur var árið 1800 og tók við Dýrafjarðarþingum er séra Jón Sigurðsson lét af embætti, mun hins vegar hafa búið hér í eitt ár 1828-1829, en síðan þrjú ár á Gerðhömrum.[44] Aðrir prestar sátu ekki í Meira-Garði svo kunnugt sé, nema séra Þórður Ólafsson sem bjó hér í eitt ár, 1888-1889, en fluttist svo að Gerðhömrum.[45]
Árið 1821 eða 1822 fluttust hjónin Gísli Oddsson og Maren Guðmundsdóttir að Meira-Garði frá Sæbóli á Ingjaldssandi[46] og bjuggu þar næstu ár.[47] Fyrstu sex eða sjö árin sem Gísli bjó í Meira-Garði var séra Jón Sigurðsson einnig búsettur hér og hefur að líkindum nytjað einhvern hluta af jörðinni. Gísli Oddsson, sem var Önfirðingur, var kominn um fimmtugt er hann fluttist að Meira-Garði en Oddur sonur hans var þá á unglingsaldri.[48] Haustið 1827 gekk Oddur að eiga Guðrúnu, dóttur Brynjólfs Hákonarsonar á Mýrum, og bjuggu ungu hjónin fyrst á Núpi.[49] Árið 1828 (eða 1829) fluttist séra Jón Sigurðsson frá Meira-Garði norður í Önundarfjörð eins og fyrr var nefnt og skömmu síðar tók Oddur Gíslason við búi hér af föður sínum.[50] Oddur gerðist snemma mikill uppgangsmaður og lét sér ekki nægja minna en að hafa tvær jarðir undir, Meira-Garð og Minna-Garð. Árið 1835 bjó hann á þessum jörðum báðum[51] og sama hátt mun hann hafa haft á allt þar til hann fluttist frá Meira-Garði að Lokinhömrum í Arnarfirði árið 1858 (sjá hér Lokinhamrar).[52]
Um þá feðga, Gísla Oddsson og Odd Gíslason, og eiginkonur þeirra hefur Guðmundur G. Hagalín rithöfundur skrifað ýmislegt,[53] sem þó verður ekki rakið hér, en þess skal getið að foreldrar hans voru bæði barnabörn Odds.
Oddur Gíslason átti Meira-Garð árið 1847[54] og vel má vera að þeir feðgar, annar eða báðir, hafi eignast jörðina mun fyrr. Oddur í Meira-Garði varð með fyrstu mönnum í Dýrafirði til að leggja fé í þilskipaútgerð og átti jafnan hlut í skútu frá 1846 til 1858 (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli) er hann fluttist í Lokinhamra. Skútan sem hann eignaðist fyrst hlut í var Þorskurinn, 26 smálesta skip er hann átti að hálfu á móti Guðmundi Þorvaldssyni í Fremri-Hjarðardal (sjá hér Fremri-Hjarðardalur og Mýrahreppur, inngangskafli). Á árunum 1846 til 1851 átti Oddur jafnan hálft þilskip en á árunum 1852 til 1858 var eignarhlutur hans breytilegur, minnst fjórði partur úr skipi en mest þrír fjórðu hlutar.[55] Líklegt er að það hafi verið Þorskurinn sem Oddur átti hlut í allan tímann frá 1846 til 1858 því fyrir liggur að skömmu eftir flutninginn til Lokinhamra gefur hann út afsal til nýs eiganda fyrir einum þriðja parti í því skipi (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli). Í Lokinhömrum hóf Gísli, sonur Odds, þilskipaútgerð nokkrum árum síðar eins og hér var áður frá sagt (sjá hér Lokinhamrar).
Oddur í Meira-Garði mun bæði hafa verið atorkumaður í búskap og einnig látið sig þjóðmál nokkru varða. Er peningum var safnað til styrktar Jóni Sigurðssyni forseta árið eftir Þjóðfundinn sem haldinn var 1851 lét Oddur sex ríkisdali af hendi rakna.[56] Það gerðu reyndar líka hinir þrír skútuútgerðarmennirnir á norðurströnd Dýrafjarðar, Guðmundur á Mýrum, Jón á Lækjarósi og Guðmundur í Fremri-Hjarðardal. Um þetta getur Magnús Einarsson, bóndi á Hvilft í Önundarfirði, í bréfi er hann ritaði Jóni forseta sumarið 1852. Hann segir þar:
Þú ættir líka að skrifa Guðmundi (Brynjólfssyni) á Mýrum þakklæti fyrir sendinguna, þótt hún væri af viti til tekin og biðja hann að heilsa hinum þremur, nefnilega Oddi í Garði, Jóni Gíslasyni og Guðmundi Þorvaldssyni. Þessir fjórir létu sína sex ríkisdali hver og mun það hafa verið Oddi Gíslasyni í Garði mest að þakka. Hann er greindur að mínu áliti þó honum hafi ekki verið um Alþingi hingað til en stöðuglyndur maður er hann og framhaldssamur með það sem hann byrjar. Ég vildi þú fyndir hann ef þú færir hér um en ekki veit ég hvort ég á að eggja þig á að skrifa honum að svo stöddu, síst nema að leggja bréfið innan í mitt.[57]
Heldur ólíklegt má telja að Jón forseti hafi nokkru sinni hitt Odd Gíslason að máli (sjá hér Rafnseyri) þrátt fyrir hvatningu Magnúsar en vera má að hann hafi sent honum línu.
Þann 13. október árið 1853 var mikil brúðkaupsveisla haldin í Meira-Garði en þann dag voru gefin saman í hjónaband þau Maren Oddsdóttir og Gísli Jónsson.[58] Morgungjöfin sem Gísli færði brúði sinni var 50 danskar spesíur[59] en slík upphæð jafngilti þá um það bil fjórum kýrverðum.[60] Brúðurin var dóttir Odds bónda í Garði og Guðrúnar konu hans en brúðguminn var sonur Jóns Magnússonar og Ástríðar Gísladóttur á Hóli í Bakkadal í Ketildölum. Móðir brúðgumans var systir Odds í Garði svo brúðhjónin voru systkinabörn.[61] Jón Magnússon og Ástríður kona hans höfðu flust frá Núpi í Dýrafirði að Hóli árið 1831 (sjá hér Núpur) en Gísli sonur þeirra, sem þá var um sjö ára aldur, varð eftir í Dýrafirði og ólst upp í Meira-Garði hjá móðurforeldrum sínum og Oddi syni þeirra sem nú varð tengdafaðir hans.[62]
Það er Guðmundur Guðmundsson norðlenski sem segir frá brúðkaupi Gísla Jónssonar og Marenar Oddsdóttur í dagbók sinni og nefnir Gísla þá skipherra.[63] Þau orð verður að taka trúanleg og má því telja fullvíst að Gísli hafi verið skipstjóri á þilskipi. Guðmundur nefnir ekki skipið sem Gísli stýrði til veiða en mjög líklegt má telja að það hafi verið Þorskurinn, skútan sem Oddur tengdafaðir hans gerði út (sjá hér Mýrahreppur). Synir Odds, þeir Gísli og Kristján, voru þá innan við tvítugt og hafa því ekki enn haft afl til mannaforráða. Ummæli sem til er vitnað hér á öðrum stað og höfð voru eftir Gísla Jónssyni (sjá hér Minni-Garður) benda líka eindregið til þess að hann hafi verið skipstjóri á Þorskinum.
Haustið 1853 átti Guðmundur norðlenski heima á Söndum og þaðan fór hann í brúðkaup Gísla Jónssonar og Marenar Oddsdóttur í Garði þann 13. október. Um brúðkaupsveisluna og gleðskap þann er henni fylgdi ritar hann svo í dagbók sína:
Tjald upp sett fyrir 80 manns með flaggi. Farið að Mýrum í þá nýju timburkirkju og fer hjónavígslan fram með mesta skörugleik að efni og framburði. Að Garði aftur og byrjar brúðkaupið og framhelst í mestu viðhöfn, veitinga og gleði. Byrjar séra Lárus eitt vers í ljóðum að segja fyrir brúðarskál. Þar næst eru mín 13 sungin eftir tveimur exemplörum í mesta lipurleik og afhendi ég brúðgumanum annað sem allir þakka. Síðan framfer söngur mikill eftir ýmsa, mig og aðra, og helst til ¾ nætur. Ganga þá flestir til hvílu en sumir halda söng.[64]
Góður fengur er að þessari lýsingu Guðmundar norðlenska á brúðkaupinu í Garði haustið 1853 því ekki munu hafa varðveist margar svo skýrar frásagnir af mannfagnaði eða veisluhöldum í Dýrafirði frá því um miðbik nítjándu aldar eða frá enn eldri tímum. Um brúðhjónin Gísla Jónsson og Maren Oddsdóttur er það að segja að fyrstu hjúskaparárin áttu þau heima í Meira-Garði hjá Oddi[65] en hófu síðar búskap í Minna-Garði og bjuggu þar um alllangt skeið (sjá hér Minni-Garður).
Eins og fyrr var getið fluttist Oddur Gíslason frá Meira-Garði að Lokinhömrum árið 1858 en úr röðum bænda í Meira-Garði á síðustu áratugum 19. aldar má nefna þá Guðmund Hagalín Guðmundsson frá Mýrum og Friðrik Bjarnason, síðar hreppstjóra á Mýrum. Guðmundur Hagalín bjó í Meira-Garði frá 1876 til 1881 og hafði þá undir báðar jarðirnar, Meira-Garð og Minna-Garð.[66] Að því leyti var búskaparlag hans með sama hætti og verið hafði meðan Oddur Gíslason, tengdafaðir hans, bjó í Garði. Á þeim árum sem Guðmundur Hagalín bjó í Meira-Garði hafðist þurrabúðarfólk þó við í Minna-Garði, a.m.k. sum árin.[67] Frá Guðmundi Hagalín hefur áður verið sagt á þessum blöðum (sjá hér Mýrar) en hann fluttist frá Meira-Garði árið 1881 að Sæbóli á Ingjaldssandi og þaðan fjórum árum síðar að Mýrum.
Friðrik Bjarnason, sem kvæntur var systur Guðmundar Hagalíns, bjó í Meira-Garði í sex ár, frá 1889 til 1895.[68] Hann var úr Reykhólasveit en kvæntist Ingibjörgu Guðmundsdóttur frá Mýrum sumarið 1888 (sjá hér Mýrar) og fluttist um það leyti til Dýrafjarðar.[69] Er Friðrik og Ingibjörg hófu búskap sinn í Meira-Garði vorið 1889 voru þau bæði innan við þrítugt, kann fæddur 1861 og hún 1860. Vorið 1895 fluttust þau frá Meira-Garði að Mýrum og tóku þar við búsforráðum eins og hér hefur áður verið frá sagt.
Síðasti nítjándu aldar bóndinn í Meira-Garði var Kristján J. Ólafsson sem lengi var skipstjóri á þilskipum og þótti farsæll maður bæði á sjó og landi. Kristján hóf búskap í Meira-Garði árið 1895 og bjó þar til dauðadags, en hann andaðist haustið 1910 hálffimmtugur að aldri (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 280). Kristján var fæddur í Ytrihúsum, hjáleigu frá Núpi, á jóladag árið 1864.[70] Þar ólst hann upp en varð ungur vinnumaður á Mýrum.[71] Sjómannafræði lærði Kristján hjá Helga Andréssyni, skipstjóra á Flateyri,[72] og varð ungur skipstjóri á þilskipum. Kristján Ólafsson tók strax við Dýra er hann kom nýsmíðaður til landsins sumarið 1892 (sjá hér Mýrar) en meðal annarra þilskipa sem hann stýrði til veiða má nefna Phönix (áður Rósamundu), Capellu og Kristján,[73] sem öll voru gerð út frá Þingeyri, en einnig var hann með skip fyrir Ásgeirsverslun á Ísafirði.[74] Þegar Kristján var skipstjóri á Phönix auðnaðist honum þann 16. apríl 1898 að bjarga heilli skipshöfn af kútter sem rakst á ísjaka út af Dýrafirði og sökk þar.[75] Kútterinn hét Lilja og var gerður út af Ásgeirsverslun á Ísafirði.[76]
Af því sem hér hefur verið ritað má sjá að á 19. öld bjuggu oft gildir bændur í Meira-Garði, menn sem létu að sér kveða bæði á sjó og landi. Nú er saga þeirar öll og jörðin í eyði.
Skamma stund göngum við hér um stéttir og tún. Bæjarlækurinn er enn á sínum stað en lækirnir tveir sem mynda hann láta lítið á sér bera. Í þurrkatíð áttu þeir til að hverfa og heita því Hrekkur og Prettur.[77]
Frá rústum Meira-Garðs liggur leiðin að Minna-Garði sem líka er í eyði.
– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –
[1] Örnefnaskrá.
[2] Sama heimild.
[3] Sama heimild.
[4] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 69.
[5] D.I. VIII, 208 og 209 og 598-599.
[6] Jarðab. Á. og P. VII, 69.
[7] Jarðab. Á. og P. VII, 69-70.
[8] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 72.
[9] Sama heimild.
[10] Sama heimild.
[11] D.I. IV, 144.
[12] Sama heimild, 688.
[13] Sama heimild.
[14] D.I. V, 501-502.
[15] D.I. VIII, 208-209.
[16] Sama heimild 598-599. Sbr. Lögréttumannatal IV, 498.
[17] D.I. XI, 67-70. Sbr. Lögréttum.tal IV, 498.
[18] D.I. XI, 67-70.
[19] D.I. VIII, 414, 482-483, 495-496 og 627-628.
[20] Sama heimild.
[21] Sama heimild.
[22] Sama heimild.
[23] Sama heimild, 598-599.
[24] Íslenskar æviskrár V, 176-177.
[25] D.I. X, 367.
[26] Alþingisbækur Íslands I, 113-115.
[27] Alþingisbækur Íslands I, 113-115.
[28] Jarðab. Á. og P. VII, 69.
[29] Ísl. æviskrár IV, 311 og V, 183.
[30] Sýslumannaæfir II, 73 og III, 88-89 og 94.
[31] Sbr. Alþ.bækur Íslands IX, 70-71.
[32] Jarðab. Á. og P. VII, 69-70.
[33] Manntal 1703.
[34] Jarðab. Á. og P. VII, 69-70; Manntöl 1762, 1801, 1835, 1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1870, 1880 og 1890.
[35] Jarðabréf frá 16.og 17. öld. Útdrættir, Kph.1993, 176-177.
[36] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B.XI, 376-380.
[37] Ísl. æviskrár III, 54 og 264.
[38] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, 376-380.
[39] Sama heimild.
[40] Frásögur um fornaldarleifar 1983, II, 417.
[41] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, 376-380.
[42] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, 376-380.
[43] Sama heimild.
[44] Sama heimild.
[45] Sama heimild.
[46] Prestsþj.bók Dýrafj.þinga 1817-1857, bls. 3 og 65.
[47] Guðmundur G. Hagalín 1951, 9-22.
[48] Sama heimild og Manntal 1845.
[49] Prestsþj.bók Dýrafj.þinga 1817-1857, bls. 65.
[50] G.G. Hag. 1951, 9-22.
[51] Sama heimild og Manntal 1835.
[52] G.G. Hag. 1951, 9-22 og Manntöl 1840, 1845, 1850 og 1855.
[53] G.G. Hag. 1951, 7-22.
[54] J. Johnsen 1847, 193.
[55] VA III, 407-417, búnaðarskýrslur.
[56] Lúðvík Kristjánsson 1955, 45-49.
[57] Sama heimild, 49.
[58] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga; Lbs. 23328vo, Dagbók Guðmundar Guðmundssonar 11.-13.10.1853.
[59] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.
[60] Skýrslur um landshagi I, Kaupm.höfn 1858, bls. 262.
[61] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.
[62] Sama heimild og Manntöl 1835 og 1840.
[63] Lbs. 23328vo, Dagb. Guðm. Guðm. 11.-13.10.1853.
[64] Sama heimild.
[65] Manntal 1855.
[66] G.G. Hag. 1951, 30.
[67] Manntal 1880.
[68] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.
[69] Sbr. Lbs. 23744to, Dagbók S.Gr.B. 2.12.1888.
[70] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.
[71] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.
[72] Skútuöldin I, 240-241.
[73] Sama heimild I, 241 og V, 113-114.
[74] Skútuöldin V, 114.
[75] Skútuöldin I, 243-246 ; Eyj. Jónsson 1996, I, 258.
[76] Sömu heimildir.
[77] Örn.skrá.