Frá Fremri-Hjarðardal erum við aðeins tuttugu mínútur eða þar um bil að rölta niður að Fremstuhúsum og Bakka en örlítið lengra er að Gili. Öll eru þessi þrjú síðastnefndu býli í landi Neðri-Hjarðardals. Bæirnir standa allir spölkorn frá sjó, á undirlendinu milli Hjarðardalsár og Glórugils en svo heitir gilið mikla sem hér er í fjallinu og einnig lækurinn sem um það rennur. Því nafni heldur hann alla leið til sjávar.[1] Tún allra bæjanna liggja saman. Nöfn einstakra býla í Neðri-Hjarðardal hafa breyst nokkuð í aldanna rás. Eitt býlið á fyrri tíð hét Miðhús, annað Skemma og talið er að Þórhallsbær hafi verið þar sem nú eru Fremstuhús.[2] Að öllum þessum býlum verður vikið nánar síðar. Tvíbýli var stundum á Bakka og var þá til aðgreiningar talað um Fremri-Bakka og Neðri-Bakka.[3] Á síðustu áratugum 19. aldar og máske lengur voru bæirnir í Neðri-Hjarðardal líka oft nefndir Bakkaþorp og næstu nágrannar töluðu þá bara um Þorpið. Til dæmis að taka minnist Sighvatur Borgfirðingur á Höfða mjög oft á ferðir sínar út í þorp og á þá greinilega við Bakka og aðra bæi í Neðri-Hjarðardal.[4]
Neðri-Hjarðardalur var að fornu mati talinn 60 hundruð að dýrleika[5] og var hann því ein af sex stærstu jörðunum í Mýrahreppi. Jörðin á mikið land fram í Hjarðardal (sjá hér Fremri-Hjarðardalur) en heimaland hennar nær frá Marklæk og Hjarðardalsgili (sjá hér Fremri-Hjarðardalur) og út að Grafandislæk[6] sem er skammt fyrir utan Glórugil. Undirlendi er þarna töluvert og land vel gróið eins og jarðardýrleikinn bendir til.
Til er gömul landamerkjalýsing Hjarðardals ens stærra í Dýrafirði og er hún frá árinu 1558. Þetta er vitnisburður manns sem Jón Ormsson hét og hafði í þrettán ár verið vinnumaður í Hjarðardal hjá Jóni Þorsteinssyni á Mýrum sem átti jörðina og hafði þar annað bú.[7] Jón Ormsson segir húsbónda sinn hafa talið að landamerki Hjarðardals á móti Gemlufalli væru við Grafvallalæk[8] og er það ugglaust sami landamerkjalækur og nú þó nefndur sé Grafandislækur á síðari tímum. Í þessu vitnisburðarbréfi frá árinu 1558 tjáir Jón Ormsson sig nánar um landamerkin og segir þá m.a.:
Svo og var ég oftast nær í Hjarðardal meðan ég var hjá Jóni heitnum og átti að heita að ég var verkamaður í Hjarðardal því hann hafði þar bú en sat sjálfur á Mýrum og skipaði hann mér og öðrum þeim sem voru í Hjarðardal að höggva hrís og rífa og annað að yrkja fyrir utan Hjarðardalsgil. Svo og vissi ég fyrir öll sannindi að séra Halldór heitinn, sonur fyrrgreinds Jóns Þorsteinssonar, hélt og þessi sömu landamerki út í Grafvallalæk.”[9]
Ekki fer milli mála að þarna er verið að lýsa sömu landamerkjum heimalandsins í Neðri-Hjarðardal og enn eru í gildi, – Hjarðardalsgil að innan á móti Fremri-Hjarðardal og Grafvallalækur að utan á móti Gemlufalli. Ekki hefur verið talin þörf á að taka fram að Hjarðardalsá skipti löndum milli Neðri-Hjarðardals og Höfða svo sjálfsagt sem það var.
Höfundur Landnámabókar lætur þess getið að landnám Þórðar Víkingssonar í Alviðru hafi náð inn að Jarðfallsgili og orð hans verða ekki skilin á annan veg en svo að þar hafi landnám Dýra tekið við.[10] Örnefnið Jarðfallsgil er ekki til nú í Dýrafirði en á leiðinni frá Alviðru inn í Dýrafjarðarbotn er vart um nokkurt gil að ræða sem kenna mætti við jarðfall, – nema klettagilið mikla rétt utan við túnin í Neðri-Hjarðardal en það hefur nú lengi borið nafnið Glórugil. Með tilliti til þess má ætla að gil þetta hafi áður verið nefnt Jarðfallsgil. Hvað sem líður sannleiksgildi þess sem skrifað stendur í Landnámabók verður að telja mjög líklegt að gil þetta hið mikla hafi á fyrstu öldum skipt löndum, ef ekki milli landnámsmanna þá a.m.k. milli jarða. Nú á Neðri-Hjarðardalur hins vegar land beggja vegna gilsins og er ekki ólíklegt að ríkismenn sem þar sátu hafi einhvern tíma fyrir langa löngu náð að þoka upphaflegum landamerkjum svolítið utar og þannig náð undir sig slægjulandi frá Gemlufalli. Engin vitneskja liggur þó fyrir um þetta.
Í Neðri-Hjarðardal þótti gott að búa á fyrri tíð eins og sést á því hversu hátt jörðin var metin (60 hundruð), enda er þar mikið um gras. Fjörubeit var nokkur og góð hrognkelsaveiði fyrir landi.[11] Eitthvað var líka um silung í Hjarðardalsá (sjá hér bls.19). Á vorvertíð reru Hjarðardalsbændur á Fjallaskaga og sumir þeirra fengust líka við hákarlaútgerð. Á síðari hluta 19. aldar var áttæringurinn Sjö systkin gerður út á hákarlaveiðar frá Hjarðardal og mun Sveinn Guðmundsson á Bakka hafa verið formaður.[12]
Hjarðardals í Dýrafirði er fyrst getið í Þórðar sögu kakala sem mun hafa verið rituð á síðasta þriðjungi 13. aldar. Þar er aðeins talað um Hjarðardal og vera kann að aðeins ein jörð hér um slóðir hafi þá borið nafn þetta (sjá hér Fremri-Hjarðardalur), enda þótt þær hafi verið tvær síðustu fimm eða sex aldirnar, – neðri og fremri.
Í Þórðar sögu kakala segir frá því er Þórður kom til landsins haustið 1242, fjórum árum eftir fall föður síns og bræðra á Örlygsstöðum, og tók að leita sér liðsmanna í því skyni að reisa við hrunið veldi Sturlunga. Fáum vikum eftir heimkomuna reið hann vestur á firði og hafði honum þá enn orðið lítið ágengt. Er Þórður kom á Eyri við Arnarfjörð og vildi hitta þar Hrafn Oddsson og Svarthöfða Dufgusson voru þeir báðir nýlega farnir að heiman norður í Dýrafjörð − í Hjarðardal til brúðlaups, eins og það er orðað í sögunni.[13] Enginn veit nú hver þá réði húsum í Hjarðardal eða hver brúðhjónin voru en Þórður sendi þegar um nóttina mann norður í Hjarðardal og stefndi þeim Svarthöfða og Hrafni til fundar við sig að Söndum.[14] Á þeim fundi hétu þeir Þórði liðveislu. Að svo búnu fór Þórður sjálfur norður í Hjarðardal. Frá komu hans þangað segir svo í sögunni:
Þórður Sighvatsson fór norður í Hjarðardal og kom þar áður menn voru í brott farnir frá brúðlaupinu. Voru þar allir hinir bestu menn fyrir vestan Ísafjörð. Talaði Þórður þá langt erindi. Hafði hann upphaf á sínu máli að hann krafði alla menn þar liðveislu og uppstöðu svo skjótrar að allir skyldu komnir í Saurbæ að allraheilagramessu.
En er Þórður hafði lokið ræðu sinni þóttust menn það finna að hann myndi vitugur maður þegar er hann fengi stillt sig fyrir ofsa. En nokkuð þótti mönnum hann stirt tala í fyrstu. En þess að djarfari og snjallari var hann í málinu er hann hafði fleira mælt og fjölmennara var við.[15]
Veislugestirnir í Hjarðardal reyndust í fyrstu nokkuð tregir til liðveislu við hinn snjalla ræðumann, enda höfðu margir þeirra verið neyddir til að sverja Kolbeini unga eiða, sjálfum erkióvini Þórðar. Kakali tók þá að hafa í hótunum við bændurna sem þarna voru saman komnir en þeir svöruðu og sögðu hann eiga ærið mörgum illt að launa þótt hann heitaðist eigi við þá. Þórður kvað þá eigi þurfa að minna sig á harma sína. − Sló þá í heitan með þeim, segir í sögunni, og kváðust bændur eigi blotna mundu við það. Skildust þeir við svo búið.[16]
Margar brúðkaupsveislur hafa verið haldnar í Hjarðardal á þeim 750 árum sem liðin eru frá því Þórður kakali brýndi þar raust sína og eggjaði menn til uppreisnar gegn ofurvaldi Kolbeins unga. Líklega hefur þó engin slík veisla sem þar hefur verið haldin síðar orðið jafn söguleg og þessi. Og þótt móttökurnar sem Þórður fékk í Hjarðardal væru ekki upp á það besta náði hann samt brátt að vinna hug og hjörtu ærið margra Vestfirðinga eins og skýrast sýndi sig í framgöngu þeirra í Flóabardaga tæpum tveimur árum síðar (sjá hér Svalvogar). Því miður eigum við þess ekki kost að skoða kvikmynd af veislunni í Hjarðardal haustið 1242 eða hlýða á orðaflaum kakala og svör bændanna en gaman hefði það óneitanlega verið.
Hálfkirkja var lengi í Neðri-Hjarðardal og allar líkur benda til þess að hennar sé getið í heimild frá því á 13. öld. Í máldaga sem Árni biskup Þorláksson setti árið 1286 segir svo: Allra heilagra kirkja í Hjarðardal á X hundruð í landi. Þar skal syngja annan hvern dag löghelgan. Þar er skylt að syngja ávallt allra heilagramessu ef má. Þar skal og syngja fjórða hvern óttusöng.[17]
Í hinum forna máldaga er að vísu ekki tekið fram að átt sé við Neðri-Hjarðardal en með tilliti til þess að aðrar heimildir votta að þar hafi verið hálfkirkja verður að telja mjög líklegt að svo sé því ekki er kunnugt um kirkju eða bænhús á öðrum jörðum sem til greina gætu komið.
Á síðari hluta 15. aldar mun hálfkirkjan í Hjarðardal hafa verið flokkuð sem bænhús[18] en munurinn á hálfkirkju og bænhúsi var sá að í hálfkirkjum áttu prestar að syngja tíðir annan hvern löghelgan messudag en um bænhúsin voru engar slíkar fastákveðnar reglur í gildi.[19] Árið 1530 var bænhúsið í Hjarðardal niður fallið og þá líklega fyrir alllöngu því að í ágústmánuði á því ári var Vigfús Magnússon dæmdur til að reisa það að nýju ef það bevísast að það hefði átt þar að vera eins og segir í dómnum.[20] Dóm þennan dæmdu þrír prestar og þrír leikmenn sem til þess voru kvaddir af Ögmundi biskupi Pálssyni er hann var á yfirreið um Vestfirði. Ögmundur biskup hafði mörg fleiri kærumál fram að færa á hendur Vigfúsi Magnússyni, sem þó verða ekki rakin hér, en líklegt er að Vigfús þessi hafi búið í Neðri-Hjarðardal fyrst biskup taldi hann bera ábyrgð á viðhaldi bænhússins. Í ákæru Ögmundar á hendur Vigfúsi er komist svo að orði að af sé fallið bænhúsið í Hjarðardal og hafi niðri legið langa tíma og hefði hann [Vigfús] ekki látið upp gjöra og ekki hans foreldrar, sem þó hefðu oft verið áminntir um þetta af sínum yfirboðurum.[21]
Ekki er alveg ljóst hvort það var Vigfús Magnússon sem aftur lét reisa hálfkirkju í Neðri-Hjarðardal en svo mikið er víst að þar var hálfkirkja allt til ársins 1650 er Brynjólfur biskup Sveinsson ákvað að leggja hana niður eins og sjá má á því sem bókað er úr vísitazíuferð hans að Mýrum í Dýrafirði á því ári.[22] Í Gíslamáldaga frá árunum upp úr 1570 er hálfkirkjunnar í Neðri-Hjarðardal getið og þá með þessum orðum: Hálfkirkjan í Hjarðardal á eitt kerald stórt er séra Halldór heitinn Jónsson[23] fékk kirkjunni fyrir tvö málnytukúgildi er klukkan [líklega misritun fyrir kirkjan – K.Ó.] átti. Item klukku og bjöllu. Item er jörðin 60 hundruð.[24]
Síðustu orð máldagans mætti e.t.v. skilja á þá leið að hálfkirkjan ætti alla jörðina í Neðri-Hjarðardal sem að fornu mati var talin 60 hundruð að dýrleika (sjá hér bls. 1). Þetta er þó ekki sagt beinum orðum og fær heldur alls ekki staðist því í vitnisburðarbréfi frá árinu 1558 kemur fram að Jón Þorsteinsson, sem bjó á Mýrum, hafi skömmu fyrr átt allan Neðri-Hjarðardal og á undan honum Þorsteinn faðir hans sem var Sveinsson.[25] Árið 1553 kaupir svo Jón Ólafsson sýslumaður 10 hundruð í þessari sömu jörð[26] og virðist búa þar lengi. Allt mælir þetta gegn því að hálfkirkjan hafi átt jörðina um eða eftir siðaskipti.
Er Árni Magnússon, prófessor og handritasafnari, kom í Dýrafjörð árið 1710 mundu gamlir menn enn eftir hálfkirkjunni í Neðri-Hjarðardal en þá var a.m.k. hálf öld liðin frá því embættað hafði verið í því húsi.[27] Um miðbik 19. aldar kunni þáverandi sóknarprestur í Dýrafjarðarþingum enn að vísa á leifar af kirkjugarði, ekki langt frá Glóru í Neðri-Hjarðardal, og þar mun hálfkirkjan hafa staðið á fyrri tíð (sjá hér bls. 18).
Þeir feðgar, Þorsteinn Sveinsson og Jón Þorsteinsson á Mýrum sem hér voru nefndir, munu vera fyrstu eigendur Neðri-Hjarðardals sem um er vitað með fullri vissu því alveg er óvíst hvort sá Hjarðardalur sem Guðmundur ríki Arason á Reykhólum átti á fyrri hluta 15. aldar og var 60 hundruð að dýrleika[28] muni hafa verið Neðri-Hjarðardalur í Dýrafirði eða Ytri-Hjarðardalur í Önundarfirði. Að vísu var síðarnefnda jörðin talin 68 hundruð að dýrleika löngu síðar, í byrjun 18. aldar, en reyndar tekið fram að dýrleikinn væri óviss.[29] Á sautjándu öld átti Brynjólfur biskup Sveinsson 20 hundruð í Neðri-Hjarðardal um skeið og síðan bróðir hans, Þorleifur Sveinsson í Innri-Hjarðardal í Önundarfirði, og þann jarðarpart erfði um 1680 sonur Þorleifs, séra Björn á Álftamýri.[30] Um 1700 átti Guðrún Lassadóttir, húsfreyja á Auðkúlu í Arnarfirði, tíu hundruð í Neðri-Hjarðardal en hún var dóttir Lassa Diðrikssonar úr Arnarfirði sem árið 1675 var brenndur á Alþingi fyrir galdra, án þess að hafa meðgengið, sagður þá sjötugur að aldri.[31] Þessi 10 jarðarhundruð hafði séra Gizur Sveinsson á Álftamýri, bróðir Brynjólfs biskups, gefið henni er hún giftist Þorleifi Magnússyni, bónda á Auðkúlu í Arnarfirði.[32]
Um bændur í Neðri-Hjarðardal fyrir 1500 er ekkert vitað en eins og áður sagði má telja líklegt að Vigfús Magnússon, sem Ögmundur biskup lét dæma árið 1530, hafi búið þar á fyrri hluta 16. aldar. Í skjölum frá árunum 1530-1580 er alloft getið um Jón Ólafsson sem var lögréttumaður og fór um skeið með sýsluvöld í Strandasýslu en líka í Ísafjarðarsýslu og þá sem fulltrúi Eggerts Hannessonar, lögmanns í Bæ á Rauðasandi.[33] Jón þessi Ólafsson er víða sagður hafa búið í Hjarðardal en í samtímaheimildum kemur víst hvergi fram með ótvíræðum hætti hvort það var í Dýrafirði eða Önundarfirði. Í Sýslumannaæfum Boga Benediktssonar á Staðarfelli sem ritaðar voru á fyrri hluta 19. aldar segir án fyrirvara að Jón hafi búið í Hjarðardal í Dýrafirði en í Lögréttumannatali sem út var gefið um miðja tuttugustu öld er hann sagður hafa búið í Hjarðardal í Önundarfirði.[34] Erfitt mun vera að skera úr um þetta svo óyggjandi sé. Hins vegar er vitað að mektarmaður þessi átti a.m.k. 10 hundruð í Neðri-Hjarðardal og að því er virðist allan Fremri-Hjarðardal[35] en um jarðeignir hans í Önundarfirði er ekki kunnugt.
Ólafur, sonur nýnefnds Jóns Ólafssonar og hans seinni konu, var lögréttumaður. Hann bjó líka í Hjarðardal[36] og segir Jón Espólín það hafa verið Hjarðardal í Dýrafirði.[37] Aðeins er getið tveggja barna Ólafs, dætranna Þóru og Ólafar sem báðar giftust í Dýrafirði og ólu þar aldur sinn[38] en sonur Ólafar var Brynjólfur Bjarnason sem lengi var gildur bóndi í Neðri-Hjarðardal og hér verður brátt sagt nánar frá. Með hliðsjón af því sem hér hefur nú verið dregið fram verður að telja mun líklegra að valdsmaðurinn Jón Ólafsosn hafi búið fyrir vestan Gemlufallsheiði og því engin sýnileg ástæða til að vefengja fullyrðingu gamla Boga á Staðarfelli um þetta.
Jón Ólafsson mun hafa verið fæddur nálægt árinu 1505,[39] sonur Ólafs Guðmundssonar, sýslumanns í Þernuvík við Ísafjarðardjúp og Soffíu Narfadóttur, fyrri konu hans. Hann kvæntist fyrst árið 1533 Þóru Björnsdóttur, sem var dóttir Björns Guðnasonar, héraðshöfðingja í Ögri, er þá var látinn. Þannig tengdist hann ýmsum valdamestu mönnum landsins og má sem dæmi nefna að Hannes Eggertsson, hirðstjóri á Núpi í Dýrafirði, var kvæntur annarri dóttur Björns í Ögri. Jón í Hjarðardal var því nátengdur Eggerti Hannessyni, syni hirðstjórans á Núpi og dóttursyni Björns í Ögri. Um 1545 tók Eggert við búi á Núpi og var þá skipaður sýslumaður í öllu Þorskafjarðarþingi. Upp úr 1550 varð hann hirðstjóri stuttan tíma og lögmaður frá 1553-1568. Enda þótt Eggert flyttist frá Núpi að Saurbæ á Rauðasandi árið 1555 eða því sem næst var hann samt ætíð sýslumaður í Ísafjarðarsýslu á árunum 1558-1580. Vegna anna við lögmannsstörf og margvíslega umsýslu og einnig vegna búsetu langt utan sýslumarkanna þurfti hann á góðum trúnaðarmanni að halda til að annast fyrir sig sýslumannsstörfin að mestu leyti. Til þess valdi hann Jón Ólafsson í Hjarðardal sem reyndar hafði farið með sýsluvöld í Strandasýslu tvö síðustu árin sem Eggert bjó á Núpi.
Sem dæmi um sýslumannsstörf Jóns Ólafssonar í Hjarðardal má nefna að á héraðsþingi sem haldið var á Mýrum 2. ágúst 1570 tilnefnir hann 6 menn í dóm um vitni og eiðatökur vegna gjafar sem Katrín sáluga Hannesdóttir, systir Eggerts lögmanns, hafði gefið Guðrúnu systur þeirra og hennar börnum.[40] Katrín Hannesdóttir hafði verið gift Gizuri Einarssyni biskupi en Guðrún systir hennar var gift Þorláki Einarssyni, bónda á Núpi í Dýrafirði og síðar sýslumanni, bróður Gizurar. Í þessum sex manna dómi komast dómsmennirnir svo að orði að þeir hafi verið í dóm nefndir af heiðarlegum dandismanni, Jóni bónda Ólafssyni er þá hafði bifalning og umboð af herra Egerth Hannessyni yfir Ísafjarðarsýslu að jafnfullu og hann sjálfur.[41]
Í reikningum Eggerts Hannessonar frá árinu 1571 koma fram upplýsingar um viðskipti hans við Jón Ólafsson og segir þar meðal annars:
Jhesus – Item á Jón Ólafsson í Hjarðardal að svara mér úr sýslupartinum á milli Bjarnarnúps og Botnsár í Dýrafirði 60 sköttum.
Item á Jón Ólafsson að eignast af sýslumannsmálum í sögðum sýsluparti 6 marka mál og þar fyrir innan en þau stærri eru þeim á hann mér að svara.
Item af prófastsmálum á hann þriðjung en svara mér tveimur hlutum af 6 marka málum og þar fyrir innan …
Þessir minnispunktar Eggerts sýna í grófum dráttum hvernig þeir Jón Ólafsson skiptu sýslumannstekjunum á milli sín og benda til þess að um 1570 hafi Jón farið með umboðsvald í öllum hreppum Ísafjarðarsýslu nema fjórum.
Á 17. öld bjó lengi í Neðri-Hjarðardal bóndinn Brynjólfur Bjarnason sem hér var áður nefndur. Hann var sonur Bjarna Þorleifssonar á Mýrum (sjá hér Mýrar)[42] og konu hans Ólafar Ólafsdóttur en hún var eins og fyrr var getið dóttir Ólafs Jónssonar, lögréttumanns í Hjarðardal.[43] Jón Ólafsson í Hjarðardal, sem hér var síðast frá sagt, var því langafi Brynjólfs.
Brynjólfur Bjarnason var fæddur árið 1602 eða því sem næst og mun ekki hafa dáið fyrr en um 1690.[44] Árið 1681 bjó hann á eignarjörð sinni 30 hundruðum í Neðri-Hjarðardal.[45] Eitthvað mun Brynjólfur hafa gengið í skóla en ekki er víst að hann hafi lokið skólanámi.[46] Sighvatur Borgfirðingur segir hann hafa búið í Skemmu í Neðri-Hjarðardal og getur þess að Brynjólfur hafi verið bæði lögréttumaður og hafnsögumaður.[47] Bóndamaður þessi er þó ekki nefndur í Lögréttumannatali svo að eitthvað kynni að fara hér á milli mála hjá Sighvati. Um Brynjólf í Neðri-Hjarðardal kemst fræðimaðurinn á Höfða annars svo að orði að hann hafi verið mikilmenni og brögðóttur og enginn veifiskati.[48]
Svo virðist sem Brynjólfur hafi verið talinn lögkænn og jafnvel verið kvaddur til dómarastarfa sem eins konar umboðsmaður sýslumanns. Fullvíst er að hann var annar tveggja manna sem nálægt áramótunum 1655-1656 dæmdu feðgunum á Kirkjubóli í Skutulsfirði rétt til að hreinsa sig með tylftareiði af galdraáburði séra Jóns Magnússonar á Eyri í Skutulsfirði.[49] Sá sem þann úrskurð felldi með Brynjólfi var umboðsmaður Þorleifs Kortssonar[50] en Þorleifur var þá annar tveggja sýslumanna í Ísafjarðarsýslu. Hinn sýslumaðurinn var Magnús Magnússon á Eyri í Seyðisfirði og verður ekki annað séð en Brynjólfur hafi þarna farið með umboð hans.
Eins og alkunnugt er taldi séra Jón Magnússon feðgana á Kirkjubóli, sem báðir hétu Jón Jónsson, vera valda að öllum sínum hræðilegu píslum og krafa hans var sú að þeir yrðu dæmdir til dauða og brenndir. Þessum lánlausu feðgum tókst ekki að afla sér nægilega margra eiðamanna og voru því dæmdir á bál sem sannprófaðir galdramenn þann 9. apríl 1656.[51] Tólf menn áttu sæti í dómnum sem komst að þessari niðurstöðu og var Brynjólfur í Hjarðardal einn þeirra.[52]
Er séra Jóni Magnússyni á Eyri, sem víða er nefndur þumlungur, hafði tekist að koma Kirkjubólsfeðgum á bálið vildi hann ekki láta þar við sitja en tók nú að ofsækja Þuríði á Kirkjubóli, dóttur eldra Jóns sem brenndur var. Prestur taldi óviðunandi að stúlkan gengi laus þar eð hún ætti sök á að kvalir hans héldust við þó búið væri að brenna feðgana. Meining hans var sú að hana þyrfti líka að brenna.
Er hér var komið sögu snerist Brynjólfur í Hjarðardal hart gegn séra Jóni og tók að veita Þuríði lið. Stúlkan flýði í fyrstu að Holti í Önundarfirði þar sem frú Halldóra Jónsdóttir, kona Jóns Jónssonar prófasts, tók hana undir sinn verndarvæng en þaðan fór hún fljótlega í Hjarðardal til Brynjólfs. Frá þessu skýrir séra Jón þumlungur sjálfur í Píslarsögu sinni og kemst þá m.a. svo að orði:
En Þuríður sjálf fór burt frá móður sinni og flúði fyrst undir skjól Halldóru Jónsdóttur í Holti og síðan vestur til Brynjólfs Bjarnasonar í Hjarðardal, hvar hún og einnig að öðru hverju hafði dvöl átt. En andskotinn í hennar líki tók þá upp að ríða brúnum færleik (eins og hún reið litum héðan úr sveit, að ég heyrt hefi) um vegamótin vestanað.[53]
Á öðrum stað segir Jón þumlungur að Þuríður hafi farið vestur í Dýrafjörð og beðið Brynjólf Bjarnason að gefa sér mat um veturinn.[54]
Að lokum voru kærumál séra Jóns á hendur Þuríði frá Kirkjubóli tekin fyrir á Alþingi sumarið 1658 og þar var henni dæmdur réttur til að hreinsa sig af galdraáburðinum með tylftareiði.[55] Ætla má að Brynjólfur í Hjarðardal og maddaman í Holti, sem reyndar var föðursystir Magnúsar Magnússonar sýslumanns, hafi lagt Þuríði lið við að afla sér eiðakvenna og allar tólf mættu þær til þings að Mosvöllum í Önundarfirði haustið 1658.[56] Þar sóru þær eiðinn með Þuríði[57] og frelsaðist hún þannig af allri galdra grunsemd eins og komist er að orði í viðauka Vatnsfjarðarannáls.[58]
Er Þuríður hafði komið fram eiðnum lét hún ekki þar við sitja en hóf gagnsókn með því að leggja fram kæru á hendur séra Jóni þumlungi sem hún segir hafa ofsótt sig saklausa í tvö ár og m.a. hrækt í andlit sér og svipt sig sakramenti.[59] Svo djarfmannleg framganga sakbornings í galdramáli mun vera einsdæmi hérlendis[60] en það var reyndar Brynjólfur í Hjarðardal sem flutti mál Þuríðar gegn séra Jóni á prestastefnu í Holti vorið 1660[61] og má telja líklegt að hann hafi einnig átt þátt í að semja hið einstaka kæruskjal sem þar var lagt fram af hennar hálfu. Sjálfur lagði Brynjólfur annað og styttra plagg fyrir prestana, í umboði Þuríðar Jónsdóttur, og spyr þar meðal annars hvort góðum mönnum virðist ekki allur málatilbúnaður séra Jóns vera rógur svo honum beri að greiða Þuríði bætur fyrir ómak og hrakning.[62] Fyrir framgöngu sína við hlið Þuríðar á karlinn Brynjólfur það skilið að á hann sé minnst nú þó legið hafi dauður í þrjú hundruð ár.
Vestfjarðaprestarnir sem hlýddu á málflutning bóndans í Neðri-Hjarðardal á fundi sínum í Holti vorið 1660 voru sex, − séra Jón Jónsson prófastur, sem áður var nefndur, séra Gizur Sveinsson á Álftamýri, séra Hallur Árnason á Rafnseyri, séra Ólafur Þorleifsson á Söndum, séra Árni Loftsson á Klukkulandi og séra Ólafur Jónsson á Stað í Súgandafirði.[63] Ekki treystu þeir sér til að dæma skjólstæðingi Brynjólfs miskabætur en kusu að vísa málinu til úrskurðar biskups og allsherjarprestastefnu á Þingvöllum.[64]
Niðurstaða prestastefnunnar á Þingvöllum varð sú að kæru Þuríðar mætti skjóta til veraldlegra yfirvalda þar eð séra Jón hafði ekki sinnt lögmætum boðum um að mæta og svara til saka á fundi prestanna.[65] Ekkert er nú vitað um lyktir málsins en svo mikið er hins vegar víst að gagnákæran sem Þuríður á Kirkjubóli og Brynjólfur í Hjarðardal lögðu fyrir prestana í Holti, varð til þess að Þumlungur tók að rita píslarsögu sína.[66] Sú bók er dýrmæt og einstök heimild um hugarástand manns sem orðinn er ær af ótta við galdraverk þeirra sem djöflinum þjóna.
Þegar Brynjólfur í Neðri-Hjarðardal tók að sér að sækja mál Þuríðar frá Kirkjubóli gegn séra Jóni á Eyri var hann kominn undir sextugt en átti þó eftir að lifa í nær þrjá áratugi. Börn hans sem upp komust voru a.m.k. sjö og verður nú sagt dálítið frá sumum þeirra.
Dóttir Brynjólfs sem hann eignaðist fyrir hjónaband var Gunnfríður, fædd skömmu eftir 1640. Hennar móðir hét Guðrún Stígsdóttir. Er Gunnfríður var orðin gjafvaxta tók ungur maður sem Nikulás Bjarnason hét að renna til hennar hýru auga. Hann var dóttursonur ljóðasmiðsins séra Ólafs Jónssonar á Söndum.[67] Áður en langir tímar liðu varð Gunnfríður þunguð af völdum Nikulásar og hugðust þau ganga í hjónaband. Móðir stúlkunnar neitaði hins vegar alveg að samþykkja ráðahaginn[68] og kynni ástæðan að hafa verið sú að Nikulás var árið 1665 dæmdur til að hreinsa sig með sjöttareiði af grun um yfirhylmingu í þjófnaðarmáli en sú eiðtaka dróst mjög á langinn (sjá hér Minni-Garður). Ekki tókst þó að stía þeim Nikulási og Gunnfríði í sundur og áður en langir tímar liðu eignuðust þau annað barn. En þótt börnin væru orðin tvö stóð móðir Gunnfríðar fast á sinni meiningu og vildi með engu móti fallast á að Gunnfríður gengi að eiga barnsföður sinn og unnusta.[69] Opinber skjöl um þetta gamla kvonbænamál sýna að faðir Gunnfríðar, Brynjólfur í Hjarðardal, stóð hins vegar með dóttur sinni í þeirri þrætu. Það var hann sem að lokum sneri sér til séra Jóns Jónssonar, prófasts í Holti, og fór þess á leit að kirkjan greiddi úr málinu og veitti Gunnfríði heimild til að ganga að eiga Nikulás, hvort sem móður hennar líkaði betur eða verr.[70]
Vorið 1672 stefndi prófasturinn sex prestum til fundar við sig að Mýrum í Dýrafirði og þar felldu þeir með honum þann úrskurð:
… að Nikulási Bjarnasyni megi leyfast að binda sinn hjúskap við áðurnefnda Gunnfríði, laundóttur Brynjólfs, þá hann þessa kristilegu eftir orðunni og viðteknum vana safnaðarins leitandi verður, að áður meðtekinni heilagri aflausn fyrir sitt brot og sekt lokinni eftir lögum og lofum á sínum tíma.[71]
Í manntalinu sem tekið var árið 1703 má sjá að þá hafa þau Nikulás Bjarnason og Gunnfríður Brynjólfsdóttir búið í Minna-Garði í Dýrafirði.[72] Bæði eru þau sögð vera 61 árs gömul þegar manntalið var tekið og hjá þeim áttu þá heima fimm börn þeirra á aldrinum 13-32ja ára.[73] Áður munu hjón þessi hafa búið á Fjallaskaga en síðar á Arnarnesi við norðanverðan Dýrafjörð.[74] Frá þeim er kominn mikill ættbálkur en hér skal þó aðeins minnt á sonarsonarson þeirra, Brynjólf Hákonarson, sem keypti stórbýlið Mýrar í Dýrafirði árið 1812, en hann og hans niðjar bjuggu þar æ síðan næstu 100 ár og vel það (sjá hér Mýrar).[75]
Skoðað úr fjarlægð þriggja alda sýnist Gunnfríður Brynjólfsdóttir hafa verið lánsmanneskja en hið sama verður því miður ekki sagt um Borgnýju systur hennar sem var önnur dóttir Brynjólfs í Hjarðardal utan hjónabands. Ekki liggur fyrir hver móðir Borgnýjar var en vera má að þær Gunnfríður hafi aðeins verið hálfsystur enda þótt hvorug þeirra væri hjónabandsbarn.[76] Með konu sinni, Herdísi Jónsdóttur frá Mýrum, eignaðist Brynjólfur enga dóttur svo kunnugt sé en hins vegar fimm syni[77] og koma tveir þeirra hér við sögu, þeir Bjarni og Torfi.
Einn sunnudag á jólaföstu árið 1686 dundu þau ósköp yfir fólkið í Hjarðardal að Borgný Brynjólfsdóttir ól barn sem hún lýsti Torfa, hálfbróður sinn, föður að. Flestum mun þá hafa verið ljóst að dauðarefsing lá við slíkum sifjaspellum, enda höfðu lagaákvæði Stóradóms þá verið hér í gildi nokkuð á aðra öld. Engum sögum fer af því hvort Torfi gekkst við faðerninu en svo mikið er víst að hann lét sig fljótlega hverfa. Borgný var hins vegar dæmd til dauða á héraðsþingi á Mýrum þann 18. júní 1687 og einhvern allra næsta dag lögðu þjónar réttvísinnar af stað með þessa dauðadæmdu konu úr Dýrafirði suður að Öxará þar sem endanlegur dómur í máli hennar skyldi kveðinn upp. Þann 4. júlí 1687 var mál Borgnýjar tekið fyrir á Alþingi og um það eru þessi orð skráð í Alþingisbókina:
Var upp lesinn sá héraðsdómur sem gengið hafði að Mýrum í Dýrafirði 18. júní næstliðinn og áhrærði þá vesölu konuskepnu Borgnýju Brynjólfsdóttur sem lýst hefur sinn hálfbróður, Torfa Brynjólfsson, föður að því barni sem hún í heiminn fæddi sunnudaginn í aðventu þessa fyrirfarandi árs, hver konuskepna er nú hingað í lögréttu með þessum dómi komin og lýsir enn sem fyrr nefndan Torfa Brynjólfsson, sinn hálfbróður, föður að hértéðu barni, en hann ekki til staðar né andsvara, hvorki hér né í héraði komið. Er því lögþingismanna endileg ályktun og fullkominn dómur hér upp á eftir guðs lögum og landsins að hérnefnd konuskepna, Borgný Brynjólfsdóttir, skuli á lífinu straffast og lögsagnarinn, Sæmundur Magnússon, sé lögskyldugur henni góðan kennimann útvega, sem henni í sínum sáluhjálpar nauðsynjum kristilegar fortölur veiti. En um straffsins framkvæmd skuli sýslumaðurinn leita landfógetans aðkvæða. Og straffsins tegund sé eftir Stóradóms innihaldi að konur drekkist sem siðvani er til.
Lífsstraffið álagt þann 6. júlí.[78]
Hér er allt svo skýrt sem verða má. Í Drekkingarhyl, við þjóðgötuna sem liggur um Almannagjá, varð stúlkan úr Dýrafirði að láta sitt líf eins og svo margar aðrar íslenskar konur á þeirri hörmungatíð. Í Kjósarannál segir að hún hafi fengið ágæta iðran.[79]
En hvað skyldi hafa orðið um barnsföður hennar og bróður, strákinn Torfa Brynjólfsson? Honum náðu yfirvöldin ekki. Er tvö ár voru liðin frá því Borgný var tekin af lífi var lýst eftir honum á Alþingi og þá með þessum orðum:
Auðkenni Torfa Brynjólfssonar sem auglýsist burt vikinn sé úr Ísafjarðarsýslu: Hár að vexti, herðalotinn, brúnastór, toginleitur, grannur í andliti, dökkjarpur á hár og skegg, fótamjór og feimulegur í andliti, dundalegur í framgöngu, lesandi og skrifandi, að aldri milli þrítugs og fertugs. Óskar hérnefndur lögsagnarinn, Árni Magnússon, að nefndur Torfi til fanga tekinn sé í hvers sýslu sem hittast kann, flytjist í góðri vöktun til síns heimilis eftir lögum svo hans mál mætti eftir yfirvaldsins skikkun undir lagapróf og rannsak koma.[80]
Lýsingin á útliti og framgöngu Torfa er býsna góð en dugði þó ekki þjónum réttvísinnar til að hafa hendur í hári hans. Jón Espólín sýslumaður, sem skrifaði margt en var ókunnugur á Vestfjörðum, segir í Árbókum sínum að Torfi hafi komist í skip.[81] Sú var hins vegar almenn sögn í Dýrafirði að heimafólk í Neðri-Hjarðardal hafi haldið Torfa á laun og hann dáið þar heima hjá Bjarna bróður sínum.[82]
Ekki er fullvíst hvort faðir þeirra Torfa og Borgnýjar var enn á lífi er barn það fæddist sem hann var tvöfaldur afi að. Vel má það vera því kunnugt er að tæpum tveimur árum fyrr var hann enn ofar moldu, nær hálfníræður. Sighvatur Borgfirðingur segir að Brynjólfur í Hjarðardal hafi verið brögðóttur (sjá hér bls. 7) og ef til vill hefur hann náð að leggja á ráðin um björgun Torfa sonar síns undan bitrum eggjum Stóradóms. Það var þó Bjarni, bróðir Torfa, sem hér hlaut að mæða mest á. Hann var á ungum aldri sendur til náms í Skálholtsskóla og hafði, er barn systkina hans fæddist, verið prestur í sinni heimabyggð í 15 ár. Séra Bjarni tók við búi af föður sínum í Neðri-Hjarðardal og með hliðsjón af aldri gamla Brynjólfs má ætla að það hafi gerst nokkru áður en Borgný varð að súpa hel suður á Þingvöllum.
Sighvatur Borgfirðingur segir að á sumrin hafi Torfi hafst við í litlum helli eða skúta í fjallinu fyrir ofan bæinn og sé skúti þessi æ síðan nefndur Torfaskúti eða Torfahellir.[83] Í skrá yfir örnefni í landi Neðri-Hjarðardals er getið um Torfaskúta og sagt að hann sé undir klettabeltinu Hillu sem nái frá Hjarðardalsgili að Glórugili. Tekið er fram á sama stað að nú sé að mestu hrunið yfir þetta gamla fylgsni[84] en sú staðhæfing er líklega á misskilningi byggð. Í örnefnaskránni segir að rétt fyrir framan Torfaskúta sé skarð í klettana og heiti Svartaskarð.[85] Við vettvangskönnum 2. júlí 1992 vísaði Davíð H. Kristjánsson bæði á skarðið og skútann án þess að þurfa að hugsa sig um en hann er fæddur árið 1930 og ólst upp í Neðri-Hjarðardal. Skarðið sem áður var svart af vætu hefur nú fengið annan lit vegna breytinga á vatnsrásum en neðan frá túnunum í Neðri-Hjarðardal blasir það við, lítið eitt fyrir framan klettana sem eru hér beint upp af bæjunum.[86] Um Svartaskarð er greinilega auðveldast að komast upp klettana í Hillu. Torfaskúti er eins og áður var getið rétt heimantil við skarð þetta. Hann er neðst í Hilluklettunum og sést ekki fyrr en komið er alveg að honum. Þetta er berghellir sem virðist vera í nær alveg sama ástandi og ætla má að hann hafi verið fyrir 300 árum. Hér er auðvelt fyrir einn mann að liggja endilangur en þá má líka heita að allt pláss í skútanum sé fullnýtt. Á fyrrihluta tuttugustu aldar taldi allt heimafólk í Hjarðardal sig vita að þetta væri Torfaskúti[87] og mun vera hyggilegast að taka það trúanlegt hvort sem sakamaðurinn Torfi Brynjólfsson hefur nú dvalist hér margar langar stundir eða fáar.
Þau munnmæli lifðu á vörum fólks í Dýrafirði að á veturna hefði séra Bjarni Brynjólfsson geymt Torfa bróður sinn í jarðhýsi heima við bæ.[88] Ekki er vitað hvenær Torfi dó en eftir munnmælunum að dæma sýnist hann hafa kvatt lífið áður en Bjarni prestur bróðir hans fluttist að Lækjarósi en þangað var hann kominn árið 1703.[89] Sighvatur Borgfirðingur greinir svo frá að séra Bjarni hafi tilkynnt söfnuðinum úr predikunarstólnum í Mýrakirkju um andlát Torfa bróður síns og beðið fólk að biðja fyrir sál hans.[90]
Magnús Magnússon, sýslumaður á Eyri í Seyðisfirði við Djúp, segir í annál sínum að Torfi hafi farið leynilega, með huldu höfði þar til hann andaðist.[91] Þessi orð Magnúsar sem lét af sýslumannsembætti um það leyti sem Torfi fór í felur benda til þess að sögusagnir um dvöl hins eftirlýsta bóndasonar heima í Hjarðardal hafi ekki farið mjög lágt, a.m.k. ekki að honum látnum. Þau sýna líka að Torfi hefur andast á undan höfundi Eyrarannáls, Magnúsi sýslumanni, sem dó árið 1704. Til marks um dvöl Torfa á heimaslóðum eru líka orð séra Sigurðar Jónssonar, sem prestur var í Holti í Önundarfirði frá 1669-1730, en hann segir í annálsgreinum sínum að Torfi hafi lifað í nokkur ár í felum og farið huldu höfði en dáið í óeirð og samviskusturlun.[92]
Allt bendir þetta til þess að bæði veraldlegir og geistlegir valdsmenn í nágrenni Dýrafjarðar hafi vitað um liðsinni séra Bjarna við bróður sinn en þó mun hann hafa haldið hempunni og er talinn hafa setið í embætti til 1715[93] og jafnvel þjónað Mýrasókn nokkrum árum lengur.[94]
Fjöruhaugur heitir þúst ein upp af gömlu lendingunni við Hjarðardalssjó og er sagt að þar hafi hinn breyski bróðir, er lifað hafði langar stundir í felum, verið grafinn.[95] Vera má að bein Torfa hafi þó ekki fengið að liggja þar í friði því í fornleifaskýrslu sinni frá 24. ágúst 1818 kemst séra Jón Sigurðsson i Meira-Garði að orði á þessa leið:
Fyrir nokkrum árum hefur hér upp skotið karlmannsbeinum úr sandhaug við sjóinn fyrir neðan Hjarðardal neðri í Mýrasókn og Dýrafirði. Beinin eru í stærra meðallagi, meinast af sumum að vera af fornmanni en aðrir segja, hvað ég held sannara, að þau séu frá 16. öld af manni nokkrum ónefndum er tekinn hafi verið af fyrir barneign og dysjaður þar í sandinum, nokkru fyrir ofan fjörumálið.[96]
Enda þótt séra Jón nefni þarna 16. öld en Torfi Brynjólfsson hafi lifað og dáið á þeirri sautjándu verður samt að telja allar líkur á því að beinin sem menn urðu varir við í Fjöruhaug í byrjun 19. aldar hafi verið af honum.
Séra Bjarni Brynjólfsson, bróðir Torfa, átti í margvíslegum ófriði á sínum ævidögum og mun sjaldan hafa setið á friðarstóli. (NB. Í Skj.s. prófastanna XIII. 1. b 1, bls. 39-49 er bréf Þórðar Þorlákssonar biskups, ritað 20.2.1678 vegna deilu Páls Torfasonar og séra Bjarna Brj. – Athugist)
Á árunum kringum 1680 átti séra Bjarni í illdeilum við Pál Torfason, sýslumann á Núpi, og voru teknir vitnisburðir um orðaviðskipti þeirra.[97] Sátt komst þó á í því máli en á einum stað er þess getið að sýslumaður hafi jafnvel fengið leyfi til þess að nota annan prest.[98] Nokkrum árum seinna kærði séra Bjarni tvo menn fyrir galdra. Dæmt var í málinu á Mýraþingi 16. júní 1690 og þótti aðeins hafa komið fram lítilfjörleg líkindi fyrir því að ákæran hefði við rök að styðjast.[99] Þá voru sjö ár liðin frá því maður var síðast brenndur fyrir galdra á Íslandi.[100] Mennirnir sem séra Bjarni ákærði hétu Guðmundur Jónsson og Ketill Brandsson. Sá síðarnefndi mun hafa átt heima á Stað í Súgandafirði en ekki er vitað hvar Guðmundur bjó.[101] Báðum var þeim gefinn kostur á að afla sér eiðamanna og sverja af sér sakir.[102]
Þann 18. júní 1702, er séra Bjarni var um 57 ára aldur, gerði hann próventusamning við Gróu Markúsdóttur, konu Páls Torfasonar, sýslumanns á Núpi.[103] Slíkur samningur fól jafnan í sér að annar aðilinn arfleiddi hinn að öllum sínum eigum en fékk í staðinn bindandi loforð um að fyrir sér yrði séð á ellidögum ef á þyrfti að halda. Ljóst er að séra Bjarni hefur verið allvel efnaður og átti m.a. jarðarparta í Alviðru í Dýrafirði og Breiðabóli í Skálavík við utanvert Ísafjarðardjúp.[104]
Ekki er nú vitað hvers vegna séra Bjarni ákvað sumarið 1702 að gera sýslumannsfrúna að erfingja allra sinna eigna. Hann var þá í fullu fjöri og átti eftir að þjóna mörg ár í embætti. Illviljaðir menn gætu hins vegar látið sér detta í hug að hann hafi viljað koma sér vel við sýslumanninn og þá e.t.v. til að sleppa við ákæru fyrir bjargir við Torfa bróður sinn.
Séra Bjarni Brynjólfsson kvæntist aldrei og eignaðist engin börn. Hann bjó alllengi í Neðri-Hjarðardal en síðan á Lækjarósi. Sighvatur Borgfirðingur segir að hann hafi verið fornfróður um margt, góður fimleikamaður og hið mesta hraustmenni.[105]
Árið 1710 var prestur þessi kominn að Lækjarósi og ritaði á því ári svolitla lýsingu á þeim kjörum sem honum voru búin.[106] Í messukaup og þjónustulaun kveðst hann hafa 2 hundruð og 40 álnir á ári, það er 280 álnir.[107] Þar af komu 160 álnir frá Mýrakirkju, 80 álnir frá Núpskirkju og 40 álnir frá Sæbólskirkju.[108] Í preststíundir segist hann fá 230 álnir á árinu 1710 og 180 álnir í heytolla.[109] Samtals eru þetta 690 álnir eða tæplega 6 kýrverð. Auk þess fékk séra Bjarni eitthvað greitt fyrir jarðarfarir[110] og nokkrar tekjur hefur hann haft af búskap að því er ætla má. Í þessu sama skrifi ber séra Bjarni sig dálítið illa vegna erfiðra ferða til kirkjunnar sem hann þjónaði á Sæbóli á Ingjaldssandi. Hann segist vera hálfan dag að komast þangað og sé yfir hættulegan fjallveg að fara, einkum á vetrardag í frostum, fjúkum og snjóum.[111]
Svo fór að séra Bjarni varð gamall og dó á níræðisaldri árið 1727. Páll sýslumaður á Núpi dó hins vegar árið 1720 og um svipað leyti andaðist Gróa kona hans er samkvæmt próventusamningnum sem hér var áður nefndur átti að sjá fyrir séra Bjarna í ellinni. Ekki er þó kunnugt um að samningur sá hafi verið úr gildi felldur, enda hafði honum verið þinglýst á Öxarárþingi.[112] Það hefur því líklega komið í hlut erfingja sýslumannshjónanna að standa við samninginn af þeirra hálfu og hirða eignir gamla prestsins þegar hann loksins andaðist. Af börnum sýslumannshjónanna, Páls og Gróu á Núpi, fór Mála-Snæbjörn oftast fremstur og ástæðulaust að ætla að hann hafi látið uppgjafaprestinn skorta viðurværi í körinni.
Þess var hér áður getið að séra Bjarni Brynjólfsson hefði flust frá Neðri-Hjarðardal að Lækjarósi í síðasta lagi árið 1703 en reyndar sýnist mjög líklegt að hann hafi farið frá Hjarðardal í fardögum vorið 1696. Haustið áður urðu miklir skaðar á jörðinni svo hún var jafnvel talin óbyggileg vegna skriðufalla.[113] Í Eyrarannál er góð lýsing á tíðarfarinu á Vestfjörðum árið 1695 og segir þar að um veturinn hafi ísalög verið þvílík að ríða mátti nes af nesi yfir allar fjörður og einnig yfir flóann milli Flateyjar [á Breiðafirði] og meginlands og langt þar úteftir, svo menn í mannaminnum mundu ei þvílík ísalög.[114] Í þeim hörkufrostum sem þá auðkenndu veðurfarið sprakk jörð víða í sundur en um haustið gerði mikil vatnsveður,
… hvar ofan á um veturnætur og fram yfir allraheilagra-messu komu frostleysu drifsnjóar svo allt upp fyllti. Þar ofan í komu stóreflis vatnshríðar, hverjar fram hleyptu mörgum og miklum skriðum víða um landið í brattlendi og hlíðum með skógum og landi í stórspildum í sjó ofan …
svo margar jarðir í Ísafjarðarsýslu misstu mikið land, bæði af túnum, engjum, skógum og beititeigum.[115]
Það var höfundur Eyrarannáls sem gaf þessa lýsingu og hann tekur sérstaklega fram að í Hjarðardal stóra í Dýrafirði hefði túnið horfið að mestu undir skriður með öllum engjum svo sú jörð fáist nú ekki byggð.[116]
Við þessar hamfarir hefur séra Bjarni að öllum líkindum orðið að yfirgefa Neðri-Hjarðardal þar sem forfeður hans höfðu búið nær óslitið frá því Jón Ólafsson sýslumaður settist þar að um miðbik 16. aldar.
Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 segir að í Hjarðardal neðra eða stóra sé sjálfur heimabærinn fallinn niður í grunn og búið að skipta jörðinni niður í smáparta svo alls séu þar fimm bæir sem allir standi innan garða.[117] Tekið er fram að túni og engjum sé skipt á milli þessara fimm býla en aðrar landsnytjar séu óskiptar.[118] Þó bæirnir í Neðri-Hjarðardal séu sagðir vera fimm árið 1710 voru ábúendur á jörðinni þó ekki nema fjórir og svo hafði einnig verið árið 1703.[119] Árið 1762 voru þeir hins vegar fimm.[120]
Séra Bjarni Brynjólfsson átti enn átta hundruð í Neðri-Hjarðardal árið 1710 og Páll Torfason, sýslumaður á Núpi, var orðinn eigandi að 22 jarðarhundruðum þar.[121] Fyrir skriðuföllin miklu árið 1695 höfðu embættismenn eða stórbændur lengi búið í Neðri-Hjarðardal en þegar Jarðabókin var skráð fimmtán árum síðar bjuggu þar kotungar. Í Jarðabókinni segir beinum orðum að heimabærinn hafi fallið úr byggð vegna skriðufalla, − þó að ekki tæki hún bæinn, þá var þar ekki óhætt mönnum inni, stendur þar.[122]
Brynjólf Bjarnason, sem hér var áður frá sagt, nefnir Sighvatur Borgfirðing Brynjólf ríka og segir að hann hafi búið í Skemmu í Neðri-Hjarðardal.[123]
Eins og áður sagði var Neðri-Hjarðardal skipt upp í fimm smærri býli eftir skriðuföllin miklu árið 1695, þegar höfðingjasetrið féll í auðn. Um aldamótin 1800 var sú tala óbreytt.[124] Í manntalinu frá 1801 sjást engin nöfn á þessum býlum og ekki heldur í sóknarmannatölum frá síðustu áratugum 18. aldar og fyrstu áratugum 19. aldarinnar. Í prestsþjónustubók Dýrafjarðarþinga frá árunum 1785-1816 koma bæjarnöfnin hins vegar fram með ótvíræðum hætti en þau voru: Skemma,[125] Miðhús,[126] Glóra[127], Bakki[128] og Fremstuhús.[129] Ætla má að allt séu þetta sömu fimm bæirnir sem Árni Magnússon getur um í Jarðabókinni frá 1710, án þess að nefna nöfn, og segir standa innan garða. Í skrá yfir örnefni í Neðri-Hjarðardal segir þó að Þórhallsbær hafi áður staðið þar sem nú eru Fremstuhús[130] og kann það að vera rétt en enginn bær með því nafni hefur verið í Neðri-Hjarðardal síðustu tvær aldirnar.
Af býlunum fimm í Neðri-Hjarðardal fóru þrjú í eyði á fyrsta þriðjungi nítjándu aldar, Skemma, Miðhús og Glóra. Í sóknarlýsingunni frá 1840 er tekið fram að öll þessi býli séu í eyði[131] og í manntali sem tekið var 2. febrúar 1835 sést að þá er aðeins búið á tveimur býlum í Hjarðardal neðri.[132] Í prestsþjónustubókum Dýrafjarðarþinga er Skemmu síðast getið árið 1813 og Miðhúsa árið 1821.[133] Í Skemmu hefur búskap því verið hætt á árunum 1813-1825. og í Miðhúsum á árunum 1821-1835.
Jóhannes Davíðsson, sem átti mjög lengi heima í Neðri-Hjarðardal á tuttugustu öld, segir Miðhús hafa verið í gamla túninu miðju.[134] Hann vísar okkur líka á staðinn þar sem hið forna stórbýli Skemma stóð á fyrri tíð. Jóhannes ritar:
Út og upp á túninu, beint niður undan Glórugili, eru miklar tóttir og öskuhaugar, auðsjáanlegar rústir stórbýlis. Þar er og bænhústótt rétt hjá bæjartóttunum og sér fyrir grafreit kringum bænhústóttina. Þarna hefur auðsjáanlega verið aðalbýli jarðarinnar og heitið Skemma hvernig sem á þeirri nafngift stendur enda heita tóttir þessar Skemmutóttir og túnparturinn í kring Skemmupartur enn í dag.[135]
Nafnið Skemmutóttir skýrist efalítið af því að 18. aldar kotbýlið Skemma hefur staðið í grennd við hinar fornu rústir en ekki er líklegt að gamla höfuðbólið hafi verið nefnt því nafni.
Skemmutóttirnar, sem Jóhannes nefnir, eru nú með öllu horfnar en við vettvangskönnun 2. júlí 1992 gat Davíð H. Kristjánsson frá Neðri-Hjarðardal skýrt enn nánar hvar rústir stórbýlisins höfðu verið, − það er efst í túninu og um það bil miðja vega milli bæjanna á Gili og í Fremstuhúsum.[136] Bænhústóttina og grafreitinn segir Davíð hafa verið beint inn af íbúðarhúsinu á Gili, tæplega 200 metrum fyrir innan það hús.[137] Yfir allar þessar tóttir hefur nú verið sléttað fyrir nokkrum áratugum.
Í prestsþjónustubókunum frá fyrri hluta 19. aldar er Glóru síðast getið vorið 1822 en þá var fermdur Sacharias Jónsson sem þar átti heima, sonur hjónanna Jóns Jónssonar og Ólafar Þórarinsdóttur.[138] Við þetta tækifæri er piltur þessi sagður merkilega vel að sér og skikkanlegur.[139] Af því sem hér hefur verið sagt má ljóst vera að Glóra hefur farið í eyði á árunum 1822-1835. Um miðbik 19. aldar virðist fólk þó hafa búið þar um skeið[140] en aðeins skamma hríð og varanlegur búskapur hófst þar ekki á ný fyrr en komið var fram undir aldamótin 1900 eins og frá er sagt á öðrum stað (sjá hér bls. 21).
Frá því Glóra fór í eyði um 1830 voru Bakki og Fremstuhús lengi einu býlin í Neðri-Hjarðardal en oft mun þá hafa verið tvíbýli á Bakka[141] og stöku sinnum í Fremstuhúsum.[142]
Nú hafa um langt skeið verið þrjú býli í Neðri-Hjarðardal, Bakki, Fremstuhús og Gil (áður Glóra). Í kringum síðustu aldamót hafðist húsfólk líka við um skeið í þurrabúðarkoti í landi Bakka og var ýmist nefnt Grund, Sjávargrund eða Kambur.[143] Tómthús þetta stóð niður við sjó, þar sem nú er bílvegurinn, um það bil 100 metrum fyrir utan brúna yfir Hjarðardalsá, og fóru tóttirnar undir veginn.[144] Þarna var búið frá 1895-1909 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 271).
Bæirnir Bakki (nú Neðri-Hjarðardalur), Fremstuhús og Gil standa allir í nokkur hundruð metra fjarlægð frá sjó. Bakki er innst, rétt við Hjarðardalsána, en í henni var oft góð silungsveiði og þá einkum í Berghyl rétt hjá Bakka.[145] Fremstuhús standa efst þessara bæja, næst fjallinu, en Gil er yst. Á árunum 1880-1900 var stundum tvíbýli á Bakka og þar var alltaf eitthvað um húsfólk frá 1885 og fram yfir aldamót.[146] Einna flest hefur húsfólkið líklega orðið árið 1898 en þá áttu hér heima, auk bóndans og hans skylduliðs, fimm húsmenn (og húskonur), þar af þrír fjölskyldumenn.[147]
Það var á Bakka sem Sveinbjörn Kristjánsson frá Gemlufalli náði að gera vart við sig aðfaranótt 27. febrúar árið 1885 og var hann þá heldur illa út leikinn.[148] Þann 24. febrúar hafði Sveinbjörn verið sendur frá Gemlufalli yfir að Brekku í Þingeyrarhreppi. Þann dag var Jón Guðmundsson á Bakka jarðaður á Mýrum og segir Sighvatur Borgfirðingur að menn hafi næstum verið orðnir úti á heimleið frá jarðarförinni.[149] Síðdegis þennan sama dag sneri Sveinbjörn heimleiðis frá Brekku og fór á ís yfir í Höfðaoddann.[150] Er veðrið brast á mun hann hafa verið kominn langleiðis yfir fjörðinn og náði við illan leik að komast í stekkjartótt út undir Hjarðardalsá. Lengra komst hann ekki og lá þar bjargarlaus nokkuð á þriðja sólarhring. Komst hann þá loks skríðandi heim að Bakka mjög illa kalinn. Sighvatur Borgfirðingur á Höfða fékkst mikið við lækningar á þessum árum og var hans vitjað skömmu eftir að Sveinbjörn náði heim að Bakka. Þá var kominn 27. febrúar og þann dag skrifar Sighvatur í dagbók sína:
Sveinn á Bakka kom og fékk mig úteftir að skoða voðalegt kal. Það fréttist nú að Sveinbjörn á Gemlufalli, sem kom yfir ís frá Brekku og fór hér út hjá fyrir neðan á þriðjudaginn var, 24. þ.m., hefði komist hér út að ánni í niðurfallna stekkjartótt og legið þar síðan úti í 5 dægur nærfellt en treysti sér aldrei til bæjar fyrr en í nótt klukkan 2 komst hann skríðandi að Bakka en hafði þó stundum séð þar ljós á kvöldin. Hann er skaðkalinn á höndum, einkum þeirri hægri, og missir hana víst.[151]
Næstu vikur lá Sveinbjörn í kvölum á Bakka. Þann 18. mars voru þrjár vikur liðnar frá því hann komst þangað heim. − Ég fór út í þorp. Gerði við hendina á Sveinbirni að ósk læknis, skrifar Sighvatur í dagbók sína þann dag.[152] Davíð Scheving Thorsteinsson var frá 1881 til 1894 læknir í Patreksfjarðarlæknishéraði og um miðjan apríl 1885 var hann staddur á Þingeyri en enginn lærður læknir var þá sestur þar að. Þann 16. apríl fóru þeir Davíð læknir og Sighvatur Borgfirðingur að Gemlufalli til að sækja Sveinbjörn kalda og flytja að Þingeyri eins og Sighvatur kemst að orði.[153] Á Þingeyri var farið með Sveinbjörn á Vertshúsið og þar mun Davíð Scheving hafa tekið af honum hægri hendina um úlnlið. Sighvatur segir þó bara að þetta standi til en sjálfur fór hann vestur í Tálknafjörð þann 17. apríl og dvaldist þar í nokkra daga. Falla þá niður frásagnir hans af ástandi Sveinbjarnar.[154]
Fjórtán árum síðar var Sveinbjörn búsettur á Flateyri og var þá í kunningsskap við Magnús Hjaltason sem líka ritaði dagbækur. Magnús lýsir örkumlum Sveinbjörns svo að vegna kalskemmda hafi hægri hendin verið tekin af honum og allur framhandleggurinn upp að olnboga og þar að auki hafi hann líka misst framan af fingrum vinstri handarinnar.[155] Á öðrum stað er þess getið að Sveinbjörn hafi líka kalið á fótum[156] en ekki missti hann þá og Magnús Hjaltason lætur þess getið að örkumlamaður þessi geti reyndar gert alveg ótrúlega margt.[157]
Frá stekkjartóttinni við fjöruna rétt innan við Hjarðardalsá, þar sem Sveinbjörn Kristjánsson var næstum orðinn úti, er aðeins tæplega hálfur kílómetri heim að Bakka. Sá spölur varð Sveinbirni harðsóttari en við eigum að venjast.
Við slítum okkur nú burt frá Bakka, göngum um hlað á Fremstuhúsum og þokum okkur síðan út að Gili. Örskammt er milli Bakka og Fremstuhúsa en þaðan um 300 metrar að Gili. Á leiðinni þangað lítum við snöggvast á blettinn þar sem áður stóð gamla höfðingjasetrið er fyrr var frá sagt og minnumst Brynjólfs Bjarnasonar og barnanna hans sem hér áttu heima á síðari hluta 17. aldar. Svo göngum við í hlað á Gili.
Þar sem nú er bærinn Gil var áður Glóra en gamli Glórubærinn mun þó hafa staðið lítið eitt innar og var innan við túngarðinn sem á er minnst í Jarðabókinni frá 1710 (sjá hér bls. 17). Þegar byggð hófst á ný í Glóru á síðustu árum 19. aldar var hins vegar valið nýtt bæjarstæði fyrir utan hinn forna túngarð og kallað á Gili.[158] Klettagilið mikla fyrir ofan bæinn heitir þó enn Glórugil en elsta nafn þess mun reyndar vera Jarðfallsgil (sjá hér bls. 2). Ekki vita menn nú hvenær Glóru nafnið var tekið upp sem heiti á ysta býlinu í Neðri-Hjarðardal en nafnið er að líkindum gamalt.
Þjóðsaga ein hermir frá ónefndum bónda í Glóru sem eitthvað kunni fyrir sér og gat með fjölkynngi forðað því að skriða úr gilinu félli á bæinn.[159] Það var systir hans á Hrafnabjörgum, kotbýli milli Höfða og Næfraness, sem í þungri reiði stefndi skriðunni á hýbýli bróður síns en honum tókst að beina skriðudamminum út fyri tún.[160]
Ekki mun vera á þessari sögu byggjandi en frá síðari hluta 18. aldar er kunnur Glóru-Jón, sem talinn var faðir að barni því sem sagt var að Gunnhildur Sumarliðadóttir hefði gengið með er hún drukknaði í lendingunni á Sveinseyri sumarið 1793 (sjá hér Sveinseyri). Sögusagnir voru á kreiki um að bænhús hefði verið í Glóru og sagt að þar sæjust enn merki um kirkjugarð á fjórða áratug 19. aldar.[161] Ætla má að þarna sé átt við hálfkirkjuna sem vitað er að stóð í Neðri-Hjarðardal fram á 17. öld (sjá hér bls. 3-4) því skammt var frá Glóru að höfðingjasetrinu sem á 17. öld taldist vera heimabærinn í Neðri-Hjarðardal (sjá hér bls. 17). Eins og áður var getið fór Glóra í eyði um 1830 og þar var sjaldan búið næstu áratugina (sjá hér bls. 18).
Á árunum 1870-1900 var aldrei búið í Glóru nema fardagaárið 1882-1883 og svo aftur frá 1898 er Jón Pálsson réðst í að byggja þar upp.[162] Jón bjó allmörg ár í Glóru ásamt Margréti systur sinni sem var bústýra hans og það var hann sem fékk bæjarnafninu breytt úr Glóru í Gil. Einstaka menn munu þó hafa verið heldur tregir til að taka sér hið nýja nafn í munn og haldið áfram að tala um Glóru. Er Jón Pálsson stóð í þessu stríði út af bæjarnafninu var Jón Jónsson, síðar skraddari á Ísafirði, að alast upp á Höfða, næsta bæ fyrir innan Hjarðardal. Hann segir frá á þessa leið:
Jón hét nágranni okkar í Glóru. Hann var vinur okkar strákanna. Við vorum fjórir en af því að einn okkar hét Jón kallaði hann okkur alla nafna. – „Nafni, viltu graut?” Já, hann var gestrisinn og vildi gefa okkur eitthvað að éta. Jóni var illa við nafnið Glóru, færði bæinn sinn út að Gili og lét hann heita Gil, fékk frænda minn til að mála skilti með nafninu. Hann sagði að nafnið væri þinglesið og það væri 10,- króna múlkt ef fólk kallaði bæinn ekki Gil. Svo kom í markatöflunni næst á eftir: Jón Pálsson Gil (Glóra). Nú, það var náttúrulega sagt Gilglóra eftir það til að stríða karlinum. Þetta var góður karl, ágætur, og þau systkini öll.[163]
Jón skraddari kunni ýmsar sögur af nafna sínum á Gili sem ekki verða þó raktar hér en lengi var í minnum haft svarið sem hann átti að hafa gefið er hann var til sjós og skipstjórinn skipaði honum að skjóta kaðli með sól. − Ja, hvernig á ég að vita hvernig sólin gengur hér suður í bugt og það niður í lest, ansaði þá að bragði Jón bóndi sem breytti Glóru í Gil.[164] Nú nefnir enginn Glóru en á Gili hefur verið búið alla þess öld og þar er enn
(1993) blómlegur búskapur. Ekki var ætlunin að tefja hér lengi en Glórugilið að bæjarbaki skulum við samt skoða. Síðan flýtum við för út að Gemlufalli sem er næsti bær.
– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –
[1] Davíð H. Kristjánsson/K.Ó. 2.7.1992.
[2] Örnefnaskrá.
[3] Sama heimild.
[4] Lbs. 23744to og 23754to, Dagbækur S.Gr.B. 1873-1900.
[5] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 62-63.
[6] Örn.skrá.
[7] D.I. XIII, 274-275.
[8] Sama heimild.
[9] D.I. XIII, 274-275.
[10] Ísl. fornrit I, 180-181.
[11] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 68.
[12] Nat. Mós. „Hákarlaskip í Dýrafirði 1865-1892”, – óprentað handrit, ljósrit í vörslu K.Ó.
[13] Sturl. III, 14.
[14] Sama heimild.
[15] Sama heimild, 16.
[16] Sama heimild, 17.
[17] D.I. II, 260.
[18] D.I. IX, 548.
[19] Einar Laxness 1974, 65, 123.
[20] D.I. IX, 548-549.
[21] Sama heimild.
[22] Lbs. 23684to, XI, 250-257 (Prestaæfir S.Gr.B.).
[23] Sbr. D.I. XIII, 274-275.
[24] D.I. XV, 576.
[25] D.I. XIII, 274-275.
[26] D.I. XII, 633-634.
[27] Jarðab. Á. og P. VII, 62.
[28] D.I. IV, 688.
[29] Jarðab. Á. og P. VII, 100.
[30] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. (Kph. 1993), bls. 170.
[31] Jarðab. Á. og P. XIII,271. Manntal 1703, 193. Annálar III, 305.
[32] Jb. Á. og P. III, 271
[33] Ísl. æviskrár III, 233. Lögréttumannatal III, 320-321. D.I. XII, 633-634. D.I. XV, 424, 426, 520.
[34] Lögréttumannatal III, 320-321.
[35] D.I. XII, 633-634 og XIII, 151-152.
[36] Lögréttumannatal III, 414.
[37] Ættartölubækur J.Esp. VII, 6000.
[38] Sama heimild.
[39] Lögréttumannatal III, 320-321.
[40] D.I. XV, 424-426.
[41] D.I. XV, 424-426.
[42] Annálar III, 67.
[43] Ísl. æviskrár I, 273. Lögréttumannatal III, 414.
[44] Ísl. æviskrár I, 273.
[45] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681 – Jarðaskrá og búenda í Skálholtsbiskupsdæmi.
[46] Íslenskar æviskrár I,273.
[47] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, 364-368.
[48] Sama heimild.
[49] Jón Magnússon/ Píslarsaga 1967, 69.
[50] Sama heimild, 67-69. Sbr. Lögréttumannatal II, 158-159.
[51] Jón Magnússon /Píslarsaga 1967, 101-109. Ólafur Davíðsson 1940-1943, 172.
[52] Píslarsaga 1967, 98.
[53] Sama heimild, 135-136.
[54] Píslarsaga 1914, 151.
[55] Alþ.b. Ísl. VI, 431-433.
[56] Ólafur Davíðsson 1940-1943, 217-218.
[57] Sama heimild.
[58] Annálar III, 85-86.
[59] Ól. Dav. 1940-1943, 221.
[60] Siglaugur Brynleifsson 1976, 130.
[61] Ól. Dav. 1940-1943, 220-225.
[62] Sama heimild.
[63] Sama heimild, 225. Sveinn Níelsson 1950, 186-194.
[64] Ól. Dav. 1940-1943, 224-226.
[65] Sama heimild.
[66] Siglaugur Brynleifsson 1976, 130.
[67] Ól. Þ. Kr. 1980, 109-114 (Ársrit S.Í.).
[68] Ól. Þ. Kr. 1980, 109-114; Skj.s. prófastanna XIII, 1. B. 1. Bréfa- og skjalabók frá Holti 1333-1708, 193-194.
[69] Ól. Þ. Kr. 1980, 109-114 (Ársrit S.Í.).
[70] Sama heimild.
[71] Sama heimild. Skj.s. prófastanna XIII, 1. B. 1. Bréfa- og skjalabók frá Holti 1333-1708, 181-185.
[72] Manntal 1703.
[73] Sama heimild.
[74] Ól. Þ. Kr. 1980, 114.
[75] Guðmundur G. Hagalín 1951, 7-8. Ísl. æviskrár I, 273.
[76] Ísl. æviskrár I, 273.
[77] Sama heimild.
[78] Alþ.bækur Íslands VIII, 162.
[79] Annálar II, 476.
[80] Alþ.bækur Íslands VIII, 269.
[81] Íslands Árbækur VIII, 15-16.
[82] Lbs. 23684to, XI, 364-368 (Prestaæfir S,Gr.B.).
[83] Lbs. 23684to, XI, 364-368 (Prestaæfir S,Gr.B.).
[84] Örn.skrá.
[85] Örn.skrá.
[86] Davíð H. Kristjánsson/K.Ó. 2.7.1992.
[87] Sama heimild.
[88] Lbs. 23684to, XI, 364-368 (Prestaæfir S.Gr.B.).
[89] Manntal 1703.
[90] Lbs. 23684to, XI, 364-368.
[91] Annálar III, 349-350.
[92] Annálar III, 172.
[93] Sveinn Níelsson 1950, 190.
[94] Ísl. æviskrár I, 160.
[95] Lbs. 23684to XI, 364-368 (Prestaæfir S.Gr.B.); Örn.skrá.
[96] Frásögur um fornaldarleifar 1983 II, 418.
[97] Alþ.bækur Íslands VIII, 36.
[98] Ísl. æviskrár I, 160.
[99] Sama heimild, bls. 290.
[100] Sigl. Brynl. 1976, 202.
[101] Alþ.bækur Íslands VIII, 290 og 579.
[102] Sama heimild.
[103] Alþ.bækur Íslands IX, 214, sbr. IX, 399.
[104] Alþ.bækur Íslands VIII, 398-399 og IX, 79.
[105] Lbs. 23684to XI, 364-368 (Prestaæfir S.Gr.B.).
[106] Skj.s. prófasta XIII. 1. B. 2, skjalabók Holts í Önundarfirði 1484-1731, bls. 277.
[107] Sama heimild.
[108] Sama heimild.
[109] Sama heimild.
[110] Skj.s. prófasta XIII 1. B. 2, skjalabók Holts í Önundarfirði 1484-1731, bls. 277.
[111] Sama heimild.
[112] Alþ.bækur Íslands IX, 214.
[113] Annálar III, 378.
[114] Sama heimild.
[115] Sama heimild.
[116] Sama heimild, 378.
[117] Jarðab. Á. og P. VII, 62-63.
[118] Sama heimild.
[119] Jarðab. Á. og P. VII, 62-63 og Manntal 1703.
[120] Manntal 1762.
[121] Jarðab. Á. og P. VII, 62-64.
[122] Jarðab. Á. og P. VII, 62-64.
[123] Lbs. 23684to XI, 364-368 (Prestaæfir S.Gr.B.).
[124] Manntal 1801.
[125] Prestsþj.bók Dýrafjarðarþinga 1785-1816 (afrit), bls. 48, 68, 163 og 167.
[126] Sama heimild, bls. 33, 37, 43, 50, 160, 166, 173 og 179.
[127] Sama heimild, bls. 42, 48, 163 og 178.
[128] Sama heimild, bls. 68 og 186.
[129] Sama heimild, bls. 21, 30, 45 og 59.
[130] Örn.skrá.
[131] Sóknalýs. Vestfj. II, 68.
[132] Manntal 2.2.1835.
[133] Prestsþj.bók Dýrafjarðarþinga 1785-1816 (afrit), bls. 68 og sama 1817-1857, bls. 3.
[134] Jóh. Dav. 1968, 46 (Ársrit S.Í.).
[135] Jóh. Dav. 1968, 46 (Ársrit S.Í.).
[136] Dav. Kr./K.Ó. 2.7.1992.
[137] Sama heimild.
[138] Prestsþj.bók Dýrfj.þinga 1817-1857 (afrit).
[139] Sama heimild.
[140] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V.-Ís. 5. Mýrahreppur, úttektabók 1835-1868, Glóra tekin út 30.5.1846.
[141] Manntöl 1840, 1845, 1850, 1860 og 1870 og Jóh. Dav. 1968, 46.
[142] Sóknarmannatöl Dýrafj.þinga 1876-1878.
[143] Sóknarm.tal Dýrfj.þinga 1895. Manntal 1901. Jóh.Dav. 1968, 47.
[144] Dav.Kr./K.Ó. 2.7.1992.
[145] Jarðab. Á. og P. VII, 64. Sóknalýs. Vestfj. II, 68.
[146] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga 1870-1905.
[147] Sama heimild.
[148] Örn.skrá (Höfði). Lbs. 23744to, Dagbók S.Gr.B. 27.2.1885.
[149] Sama dagbók 24.2.1885.
[150] Örn.skrá.
[151] Lbs. 23744to, Dagbók S.Gr.B. 27.2.1885.
[152] Sama dagbók 18.3.1885.
[153] Lbs. 23744to, Dagbók S.Gr.B. 16.4.1885.
[154] Sama dagbók apríl 1885.
[155] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 28.2.1899.
[156] Örn.skrá.
[157] Lbs, 22184to, Dagbók M.Hj. 28.2.1899.
[158] Jóh. Dav. 1968, 46-47 (Ársrit S.Í.).
[159] Þjóðsögur og þættir II, 223-224.
[160] Sama heimild.
[161] Sóknalýs. Vestfj. II, 68.
[162] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga 1870-1900.
[163] Jón Jónsson/G.Fr. 1975, 8-9 (Hljóðabunga).
[164] Sama heimild, bls. 12.