Selakirkjuból

Á Hvilftarströnd sem nær frá Breiðadal og út undir Flateyri[1] voru fimm bújarðir og af þeim er Selakirkjuból innst. Bærinn stóð skammt frá sjó þar sem Holtsósinn er þrengstur en úr fjörunni innan við Selakirkjuból og yfir í Holtsoddann eru aðeins um 300 metrar. Á Selakirkjubóli var ferjustaður[2] og stutt að flytja yfir í oddann.

Eins og fyrr var getið eru landamerkin milli Neðri-Breiðadals og Selakirkjubóls við Breiðadalsurð, sem einnig er nefnd Selabólsurð, um það bil 700 metrum innan við túnið á Selakirkjubóli. Ofan við Urðina liggja merkin um Urðargil, öðru nafni Grjótskálargil, og á fjall upp[3] en í háfjallinu er hér skál sem hefur ýmist verið nefnd Urðarskál eða Grjótskál.[4] Fjallið innan við Urðarskál heitir Breiðadalsstigi[5] en fjallið utan við Urðarskál nefndi fólk Selabólsstiga að sögn Júlíönu Halldórsdóttur sem ólst upp á Hóli á Hvilftarströnd á síðari hluta 19. aldar og fædd var árið 1864 [6] Breiðadalsstigi og Selabólsstigi eru þó í raun eitt og sama fjallið en Urðarskál klýfur brún þess sem að fjarðarströndinni snýr. Úr skálinni falla oft snjóflóð alveg niður í sjó[7] og í hlíðinni ofan við þjóðveginn hafa nú verið settar upp snjóflóðavarnir (sjá hér Neðri-Breiðadalur).

Utan við Selabólsurð tekur við Selabólshlíð og nær út að Leiti sem er í mynni Kaldárdals, utan og ofan við túnið á Selakirkjubóli.[8] Rétt utan við Urðarskál er klettadrangur uppi í fjallinu og heitir Kerling en lækurinn utan við Urðina er ýmist nefndur Kerlingarlækur eða Urðarlækur.[9] Nokkru utar er Svarthamar í miðri hlíð,[10] mjótt klettabelti sem oft ber nafn með réttu, a.m.k. ytri kletturinn og vera má að nafnið eigi aðeins við hann. Fyrir innan Svarthamar er Aursvaðsgil uppi í fjallinu en rétt fyrir utan hann er Svarthamragil.[11] Enn utar og beint upp af túninu á Selakirkjubóli er Bæjargil og Bæjarhryggur.[12]

Í fjörunni utan við landamerki Breiðadals og Selabóls voru áður nokkrir pyttir sem sjór stóð í um fjöru.[13] Pyttir þessir voru nefndir Tjarnir og á þessum slóðum voru selanætur lagðar á fyrri tíð.[14] Steinarnir sem standa úti í Ósnum, hér skammt innan við Selakirkjuból, munu hafa verið nefndir Tjarnarsteinar.[15] Þeir eru allmargir og ekki langt frá norðurlandinu. Á stórstraumsfjöru standa þeir flestir á þurru en um flóð sér aðeins á kollinn á þeim stærstu.[16] Állinn sem farinn var á árabátum inn Ósinn skiptist í tvennt við þessa steina. Vesturállinn gengur yfir að Holtsodda og upp með honum að innanverðu en hinn heldur áfram inn með norðurlandinu og nær inn undir Innri-Veðrará.[17] Á milli þessara tveggja ála eru grynningar sem heita Rif og á stórum fjörum mátti vaða þarna milli álanna í háum stígvélum.[18]

Út frá tánni á Holtsodda liggja sandgrynningar sem ná út á móts við utanverða Grísavík en í námunda við miðja víkina eru landamerki jarðanna Kaldár og Hóls á Hvilftarströnd (sjá hér Kaldá). Þessar grynningar heita Landeyrar[19] og nokkur hluti þeirra kemur upp úr sjó á fjörunni.

Utan við túnið á Selakirkjubóli en innan við Kaldá skagar Hreggnasi fram en við hann er straumurinn einna harðastur þegar sjór fellur inn í Holtsós eða út úr honum.[20] Við Hreggnasa er komið út úr Ósnum[21] og hér utan við Holtsoddann dýpkar fjörðurinn mjög verulega nema yfir sandflákunum sem áður voru nefndir. Hér opnast hann líka svo um unar en til marks um það má nefna að úr fjörunni utan og neðan við túnið á Selakirkjubóli eru nær tveir kílómetrar yfir að Holtsnaustum, gamla lendingarstaðnum niður af bænum Þórustöðum sem er hér beint á móti.

Nafnið Selakirkjuból þykir ýmsum skrýtið og á 20. öld mun jörðin yfirleitt hafa verið nefnd Selaból í daglegu tali.[22] Vera má að svo hafi einnig verið í fyrri daga þó að jörðin sé oftast nefnd Kirkjuból eða Selakirkjuból í opinberum heimildum frá 18. og 19. öld og einnig í enn eldri skjölum. Í manntalinu frá 1845 er hún þó nefnd Selaból svo það nafn hefur tvímælalaust verið þekkt um miðbik 19. aldar. Líklegt má reyndar telja að jörðin hafi í fyrstu verið nefnd Selaból en það nafn breyst í Kirkjuból eða Selakirkjuból þegar búið var að reisa hér bænhús. Um bænhúsið er getið í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710.[23] Þá var það niður fallið fyrir manna minni en leifar af kirkjugarði sáust enn.[24] Enginn veit nú hvenær fyrsta bænhúsið á Selakirkjubóli var reist en nær fullvíst má telja að það hafi risið á 12., 13. eða 14. öld. Í heimild frá árinu 1446 eða því sem  næst er jörðin nefnd Kirkjuból[25] og í annarri heimild, sem er tuttugu árum yngri, Kirkjuból út frá Breiðadal.[26] Á 17. öld og í byrjun 18. aldar virðist nafnið Selakirkjuból hins vegar hafa verið orðið fast í sessi, a.m.k. í skjölum sem sett voru saman á vegum stjórnvalda.[27] Skýringar á bæjarnafninu Selaból eða Selakirkjuból þarf ekki að leita um langan veg því telja má fullvíst að nafnið sé dregið af hinum mikla fjölda sela sem löngum mun hafa haldið sig í Holtsós hér rétt innan við túnið og í grennd við ósinn. Selveiði hefur verið góð og er enn gagnvæn, segir í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 þegar lýst er landkostum á Selakirkjubóli.[28] Árið 1805 var selveiði talin hér til hlunninda. Af sellýsi fékkst þá árlega einn fimmti hluti úr tunnu[29]og á fyrri hluta tuttugustu aldar var hér enn mjög mikið um sel.[30]

Selakirkjuból er forn bújörð sem ýmist var talin 12 hundruð að dýrleika[31] eða 18 hundruð.[32] Landamerki jarðarinnar á móti Neðri-Breiðadal eru við Selabólsurð eins og hér hefur áður verið lýst en áin Kaldá, sem er um það bil 500 metrum utan við túnið á Selakirkjubóli, skiptir löndum milli jarðarinnar Kaldár og Selakirkjubóls.[33] Kaldá rennur um Kaldárdal sem opnast rétt fyrir utan Selakirkjuból og þar á dalnum er svolítið beitiland, beggja megin árinnar.

Í Jarðabókinni frá 1710 er kostum og ókostum jarðarinnar lýst með þessum orðum:

 

Útigangur við lakara kost. Torfrista að kalla eydd en stunga bjargleg. Sverði er elt. Selveiði hefur verið góð og er enn gagnvæn þá vel er að sótt, þykir þó fara til rýrðar hjá því sem verið hefur. Hrognkelsatekja hefur að fornu verið. ….. Túninu grandar vatn sem étur úr rótina. Engjar eru forskemmdar af skriðum og mikinn part eyðilagðar. Úthagar ogsvo mjög skriðurunnir og graslausir. Hætt er kvikfé fyrir snjóflóðum og sjávarflæðum og hefur ábúandi misst fyrir fjórum árum allt sitt fé út í sjó.[34]

 

Hér er á öðrum stað gerð grein fyrir hinni miklu hrognkelsaveiði í Holtsós (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli) og fyrir bændur á Selakirkjubóli og þeirra fólk voru hæg heimatökin að stunda þann veiðiskap. Án efa hefur fólkið sem hér bjó haft veruleg hlunnindi af hrognkelsum og sel en til landbúnaðar verður jörðin að teljast fremur rýr. Í sóknalýsingunni frá 1840 segir um jarðirnar á Hvilftarströnd, aðrar en Hvilft, að þær séu mjög hrjóstrugar og undirkastaðar skriðum, einkanlega slægjur og beitilönd.[35]

Í álitsgerð fasteignamatsmanna frá því um 1920 segir að túnið á Selakirkjubóli sé grasgefið, sléttlent og raklent, engjarnar snögglendar og grjótrunnar, beitilandið lítið og létt en nokkur fjörubeit.[36] Þá var talið að hér mætti fá 50 hesta af töðu og 40 hesta af útheyi og unnt væri að framfleyta tveimur kúm, sautján kindum og einum hesti.[37] Á hálfu hundraði, sem húsmaður hafði til sinna nota, mætti svo auk þessa fleyta fram einni kú í 2 vikur, tveimur ám yfir veturinn og einum gemling til kyndilmessu.[38]

Jarðarinnar Selakirkjubóls er fyrst getið í skránni yfir jarðeignir Guðmundar ríka á Reykhólum Arasonar en það skjal er talið vera frá árinu 1446 eða því sem næst.[39] Í skránni eru jarðir Guðmundar í Dýrafirði og Önundarfirði hafðar í einum flokki og þar er að finna þrjú Kirkjuból.[40] Ein þeirra jarða er þar virt á 30 hundruð, önnur á 24 hundruð og sú þriðja á 12 hundruð.[41] Hundraðatalan passar við Kirkjuból í Korpudal, Kirkjuból í Þingeyrarhreppi og Selakirkjuból svo fullvíst má telja að þessar þrjár jarðir hafi verið í eigu Guðmundar ríka. Kirkjuból í Valþjófsdal og Kirkjuból í Bjarnardal átti hann hins vegar ekki, enda liggur fyrir að systir Guðmundar, Oddfríður Aradóttir, átti Kirkjuból í Valþjófsdal á árunum kringum 1440 (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal) en Kirkjuból í Bjarnardal var þá þegar komið í eigu Holtskirkju (sjá hér Kirkjuból í Bjarnardal).

Þegar Guðmundur Arason var hrakinn frá eignum sínum og hvarf af landi brott árið 1446 fékk konungur umráð yfir öllum þeim mörgu jörðum sem Guðmundur hafði átt en þær voru 178 og allar nema tvær á Vestfjarðakjálkanum.[42] Sextán árum síðar seldi konungur Birni hirðstjóra Þorleifssyni flestar þessar jarðeignir[43] en þegar dánarbúi Björns var skipt haustið 1467 var Kirkjuból út frá Breiðadal ein þeirra jarða sem komu í hlut Árna sonar hans.[44] Árni þessi var hermaður í liði Kristjáns konungs fyrsta og féll með öðru kóngsins fólk í orrustunni við Brunkaberg hjá Stokkhólmi árið 1471.[45] Að Árna dauðum skiptu bræður hans, Einar og Þorleifur Björnssynir, jarðeignum hans á milli sín[46] en óvíst er hjá hvorum þeirra Seljakirkjuból lenti.

Ekki verður nú séð með auðveldum hætti hverjir áttu Selakirkjuból á 16. öld og fyrri hluta 17. aldar en árið 1658 var jörðin í eigu séra Björns Snæbjörnssonar[47] sem þá var prestur á Staðastað á Snæfellsnesi.[48] Séra Björn var sonur séra Snæbjörns Torfasonar á Kirkjubóli í Langadal við Djúp og konu hans, Þóru Jónsdóttur, sem var ekkja í 45 ár[49] og bjó nær allan þann tíma á Kirkjubóli í Valþjófsdal. Mjög líklegt verður að telja að séra Björn hafi erft jarðeignir sínar í Önundarfirði frá móður sinni sem andaðist árið 1652 (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal).

Séra Björn Snæbjörnsson á Staðastað andaðist árið 1679[50] en næstu áratugi voru það niðjar hans sem áttu Selakirkjuból og svo var enn um miðja 18. öld. Árið 1695 taldist Páll Ámundason, sem þá var klausturhaldari á Kirkjubæjarklaustri, eiga Selakirkjuból[51] en kona hans var Þóra Björnsdóttir, dóttir séra Björns Snæbjörnssonar á Staðastað.[52] Árið 1710 var jörðin svo komin í eigu Björns Jónssonar Thorlacius, sem þá var spítalahaldari á Hörgslandi á Síðu,[53] en hann var tengdasonur hjónanna sem áttu þessa sömu jörð fimmtán árum fyrr.[54] Frá Birni Thorlacius og Þórunni Pálsdóttur, konu hans, gekk Selakirkjuból til einkadóttur þeirra, Þóru Björnsdóttur sem giftist séra Halldóri Brynjólfssyni er biskup varð á Hólum árið 1746.[55] Skjalfest er að hin verðandi biskupsfrú átti jörðina árið 1741 en á því ári veðsetti séra Halldór kaupmönnunum Jónasi Riis og Paul Birch þrjár jarðir konu sinnar í Önundarfirði og var Selakirkjuból ein þeirra.[56] Jónas Riis var þá kaupmaður á Búðum á Snæfellsnesi.[57] Séra Halldór mun hafa lent í vandræðum með að standa í skilum við kaupmennina og líklega hefur hann tapað nokkru af hinum veðsettu jarðeignum til Hörmangarafélagsins (sjá hér Tunga í Firði) sem tók við Íslandsversluninni og öllum verslunarrekstri hér á landi árið 1743. Óvíst er þó hvort félagið hefur eignast Selakirkjuból. Í manntalinu frá 1762 er frú Katrín Guðmundsdóttir sögð eiga jörðina[58] og má telja nær fullvíst að þar sé um að ræða prestsfrúna í Holti sem bar þetta nafn, eiginkonu séra Sigurðar Sigurðssonar.

Í byrjun 19. aldar var Selakirkjuból komið í sjálfsábúð en þá bjó hér Guðmundur Jónsson sem sannanlega átti jörðina árið 1805.[59] Frá Guðmundi segir nánar hér nokkru aftar (sjá hér bls. 8-9). Síðar á nítjándu öldinni mun Selakirkjuból hins vegar oft hafa verið í leiguábúð og þannig var málum háttað árið 1847.[60] Um aldamótin 1900 voru eigendur jarðarinnar tveir. Annar þessara eigenda var Guðmundur Einarsson, sem átti heima hér og er kallaður stórskipasmiður í manntalinu frá 1901, en hinn var Málfríður Rósinkranzdóttir á Flateyri,[61] bóndadóttir frá Tröð en hún hafði verið gift Páli Guðlaugssyni sem þá var látinn.[62] Um 1920 var Málfríður enn aðaleigandi jarðarinnar og átti þá nær helming alls lands á Selakirkjubóli eða fimm hundruð.[63]

Um miðbik 17. aldar var landskuldin af Selakirkjubóli 80 álnir[64] og mun hafa haldist í því horfi fram að stórubólu sem herjaði á mannfólkið árið 1707.[65] Við mannfækkun þá sem varð í bólunni féll önnur hálflendan á Selakirkjubóli úr byggð og við það lækkaði landskuldin niður í 40 álnir.[66] Árin 1753 og 1847 var hún hins vegar 60 álnir.[67] Í jarðabók frá árinu 1805 er gert ráð fyrir að ábúendur á Selakirkjubóli greiði aðeins 15 og ½ alin í landskuld[68] en þessi jarðabók var aldrei lögfest og gera má ráð fyrir að landskuldin hafi ætíð verið talsvert hærri en þarna var stefnt að. Samkvæmt jarðabókinni frá 1805 áttu einn eins árs gamall sauður og 11 pund af ull að nægja sem árleg landskuldargreiðsla frá þeim sem hér bjuggu,[69] enda var slíkur sauður talinn 10 álna virði og hvert ullarpund metið á hálfa alin,[70] það er einn fisk. Á árunum kringum 1920 var jarðarafgjaldið frá Selakirkjubóli 4 gemlingar.[71] Hver gemlingur var þá metinn á 83% úr ærverði,[72] það er á um það bil 16½ alin svo segja má að landskuldin hafi þá verið 66 álnir. Hún var því enn svipuð og verið hafði árið 1847.

Árið 1446 fylgdu Selakirkjubóli þrjú kúgildi sem landeigandinn átti.[73] Á síðari hluta 17. aldar voru þessi innstæðukúgildi orðin fjögur[74] en á 18. og 19. öld munu þau oftast hafa verið þrjú eða þrjú og hálft.[75] Árið 1920 fylgdu jörðinni enn tvö leigukúgildi, það er 12 ær,[76] en fyrir hvert kúgildi urðu ábúendur að greiða þeim sem áttu jörðina 10 kíló af smjöri á hverju ári.[77]

Árið 1681 bjuggu tveir bændur á Selakirkjubóli og svo var enn árið 1703[78] en á átjándu öldinni var hér yfirleitt einbýli.[79] Á árunum 1801-1870 var hér oft aðeins einn bóndi[80] en stundum þó tveir í senn.[81]

Á tveimur síðustu áratugum 19. aldar var hér alltaf eða nær alltaf tvíbýli og þá bjó hér líka þurrabúðarfólk.[82] Á síðasta þriðjungi 19. aldar voru hér oftast ein hjón í húsmennsku eða þurrabúð[83] en á árunum kringum aldamótin 1900 fjölgaði þessu fólki verulega svo hér voru sex heimili árið 1901.[84] Á því ári bjuggu hér tveir bændur, sem lifðu af landbúnaði og sjóróðrum, einn fyrrverandi bóndi og skipasmiður, tveir sjómenn og einn aldraður maður sem lifði á styrk sona sinna.[85] Allir voru þessir menn kvæntir og fjöldi heimilisfólks hér á Selakirkjubóli kominn upp í þrjátíu.[86] Um 1920 hafði heimilunum fækkað á ný en þá bjuggu hér tveir bændur og einn húsmaður.[87] Einn fjórði partur úr jörðinni var þá nytjaður frá Flateyri.[88]

Fyrstu bændurnir á Selakirkjubóli sem hægt er að nefna með nafni eru þeir Gísli Halldórsson og Jón Gíslason en þeir höfðu hér sína hálflenduna hvor til ábúðar árið 1681.[89] Hugsanlegt er að þeir hafi verið feðgar en um það er þó ekkert vitað með vissu. Þeir Gísli og Jón voru báðir farnir héðan eða dánir þegar manntal var tekið árið 1703 en þá bjó maður sem Jón Gíslason hét á Kaldá, næsta bæ hér fyrir utan, og kynni að vera sá hinn sami og bjó á Selakirkjubóli árið 1681.[90] Bændurnir tveir sem bjuggu hér árið 1703 hétu Bjarni Bjarnason og Jón Þorleifsson og voru báðir kvæntir.[91] Árið 1710 bjó Bjarni hér enn en þá var hin hálflendan í eyði[92] svo líklegt má telja að Jón Þorleifsson hafi dáið í stórubólu árið 1707. Kona Bjarna Bjarnasonar hét Hallveig Björnsdóttir og var hún 17 árum yngri en hann.[93] Árið 1710 var bústofn Bjarna á Selakirkjubóli sem hér segir: Tvær kýr, ein veturgömul kvíga, tuttugu og tvær ær, tólf sauðir tvævetra og eldri, tólf veturgamlir sauðir, tuttugu og tvö lömb og einn hestur.[94]

Um Þorgils Pálsson, sem hér var eini bóndinn árið 1735 eða þar um bil,[95] er ekkert vitað en um Jón Hallsson, sem bjó á Selakirkjubóli árið 1753, má fullyrða að hann hafi verið bærilega efnaður. Til marks um það má nefna að honum var á því ári gert að greiða lausafjártíund af 9 hundruðum og hann var einn þeirra bænda sem auk tíundarinnar þurftu einnig að borga hinn sérstaka konungsskatt.[96]

Árið 1762 var Þórður Jónsson orðinn bóndi hér.[97] Kona hans hét Anna Bjarnadóttir[98] og höfðu þau alla jörðina til ábúðar.[99] Þórður var þá 41 árs en Anna kona hans þrítug.[100] Börn þeirra voru þá fjögur, öll innan við tíu ára aldur, en auk þeirra voru á heimilinu einn vinnumaður, ein vinnukona og einn niðursetningur.[101] Þórður og Anna bjuggu síðar á Innri-Veðrará og þar andaðist Þórður sumarið 1788.[102] Eitt barna þessara hjóna var Páll Þórðarson sem lengi bjó í Neðri-Breiðadal (sjá hér Neðri-Breiðadalur) og þar dó Anna móðir hans sumarið 1808.[103]

Á fyrsta áratug 19. aldar var maður að nafni Guðmundur Jónsson bóndi á Selakirkjubóli[104] og mun hafa búið hér frá því fyrir 1790 því öll börn hans, nema ef vera skyldi það elsta, fæddust á Selakirkjubóli[105] Líklegt er að Jón Ólafsson og Valgerður Guðmundsdóttir, sem hér áttu heima og féllu frá á árunum kringum 1790, hafi verið foreldrar Guðmundar.[106] Í manntalinu frá 1801 er hann talinn 46 ára gamall en Vigdís Guðmundsdóttir kona hans 40 ára.[107] Á heimilinu voru þá sex börn þeirra á aldrinum 6-15 ára.[108] Á þessum árum bjó Guðmundur einn á allri jörðinni og átti sjálfur þetta ábýli sitt.[109] Guðmundur bóndi á Selakirkjubóli var einn þeirra mörgu Önfirðinga sem drukknuðu vorið 1812 og elsti sonur þessara hjóna, sem Jón hét, týndi þá einnig lífi í hinum mikla mannskaða[110] (sbr. hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Ekkja Guðmundar bjó áfram á Selakirkjubóli næstu ár. Árið 1816 bjó hún hér í tvíbýli og þá voru hjá henni fimm börn þeirra Guðmundar, öll komin um og yfir tvítugt.[111] Þórarinn Sveinsson frá Kaldá bjó þá hér á einhverjum parti jarðarinnar en hann var tíu árum síðar kominn að Tannanesi og fluttist árið 1830 að Lambadal í Dýrafirði.[112]

Árið 1821 stóð Vigdís Guðmundsdóttir sem áður var nefnd, ekkja Guðmundar Jónssonar, enn fyrir búi hér á Selakirkjubóli og bjó þá í tvíbýli á móti dóttur sinni og tengdasyni, þeim Valgerði Guðmundsdóttur og Jóni Jónssyni.[113] Árið 1830 var hún hins vegar hætt að búa.[114] Vigdís dó hér hjá börnum sínum árið 1843[115] og var þá komin yfir áttrætt.

Árið 1830 voru Jón Jónsson og Valgerður Guðmundsdóttir einu ábúendurnir á Selakirkjubóli.[116] Valgerður var dóttir Guðmundar Jónssonar og Vigdísar Guðmundsdóttur, sem hér var síðast sagt frá, en Jón var fæddur í Fremri-Breiðadal árið 1794, sonur Jóns Jónssonar og Guðrúnar Andrésdóttur.[117] Þau Jón og Valgerður bjuggu enn á Selakirkjubóli árið 1850 en munu hafa farið héðan skömmu síðar.[118] Eins og áður sagði bjuggu hjón þessi ein á allri jörðinni árið 1830 og svo var einnig árið 1835.[119] Árið 1837 var hér hins vegar tvíbýli en þá var Sæmundur Guðmundsson, bróðir Valgerðar, farinn að búa hér á móti Jóni mági sínum.[120] Sú skipan hélst síðan óbreytt fram yfir 1850[121] með þeirri undantekningu þó að Sæmundur mun hafa búið skamman tíma á Kaldá á þessu sama skeiði.[122] Kona Sæmundar var Jóhanna Brynjólfsdóttir, fædd 13. júlí 1804 á Vöðlum, dóttir Brynjólfs Brynjólfssonar og Sigríðar Jónsdóttur.[123] Árið 1845 voru fjögur börn Sæmundar og Jóhönnu á heimili þeirra, á aldrinum 2ja – 10 ára, en Jón og Valgerður áttu þá fjögur börn hér heima, hið elsta 24 ára og það yngsta 15 ára.[124]

Árið 1850 bjuggu þeir Jón og Sæmundur á sínum 6 hundruðunum hvor hér á Selakirkjubóli[125] og hjá Jóni var þá líka einhleypur húsmaður á sextugsaldri, Guðmundur Guðmundsson, sem í manntalinu frá 1845 er sagður lifa af sjó.[126] Guðmundur var mágur Jóns bónda, bróðir Valgerðar konu hans.[127] Þessi sextugi húsmaður drukknaði með Jóni Indriðasyni á Kaldá í maímánuði árið 1854.[128]

Jón Jónsson, bóndi á Selakirkjubóli, bjó árið 1850 með 2 kýr, 8 ær, 4 gemlinga, 8 lömb og 1 hest en hjá Sæmundi mági hans var búið aðeins stærra eða 2 kýr, 10 ær, 4 gemlingar, 10 lömb og 1 hestur.[129] Hvorugur þessara bænda átti þá bát og hér var enginn kálgarður.[130] Eins og áður var getið lauk búskap hjónanna Jóns og Valgerðar hér á Selakirkjubóli skömmu eftir 1850 en Jón lifði til 1866 og Valgerður til 1867.[131] Hann dó í Innri-Hjarðardal en hún á Veðrará.[132] Sæmundur Guðmundsson, bróðir Valgerðar, hélt áfram búskap á Selakirkjubóli þegar systir hans og mágur fóru og bjó einn á jörðinni árið 1855.[133] Hann var þá kominn um sextugt, fæddur 14. september 1796.[134] Árið 1859 bjó hann hér í tvíbýli[135] en þegar manntal var tekið árið 1860 var hann farinn héðan.[136] Þegar Sæmundur og fjölskylda hans fluttust frá Selakirkjubóli voru liðin a.m.k. 70 ár frá því foreldrar hans, þau Guðmundur Jónsson og Vigdís Guðmundsdóttir, hófu hér búskap. Allan þann langa tíma hafði þetta sama fólk, nýnefnd hjón og börn þeirra, búið á jörðinni og á því skeiði munu engir aðrir hafa haft hér búsforráð nema síðasta árið. Sæmundur Guðmundsson dó á Eyri árið 1866 og þar kvaddi Jóhanna kona hans einnig lífið sextán árum síðar.[137]

Einar Guðmundsson, sem hóf búskap á Selakirkjubóli árið 1859, var fæddur á Þórustöðum árið 1831.[138] Foreldrar hans voru hjónin Guðmundur Bernharðsson og Guðrún Jónsdóttir[139] sem bjuggu í Neðri-Breiðadal um skeið á árunum um og fyrir 1840 (sjá hér Neðri-Breiðadalur). Árið 1845 var Einar með móður sinni í Neðri-Breiðadal en þá var faðir hans andaður.[140] Skömmu síðar gerðist hann vinnumaður á Eyri og árið 1858 var hann vinnumaður í Holti.[141] Hann var þá kvæntur Ingibjörgu Hallgrímsdóttur en þau höfðu gengið í hjónaband haustið 1856.[142] Ingibjörg var fædd á Brekku á Ingjaldssandi 12. maí 1833, dóttir hjónanna Hallgríms Guðmundssonar og Guðrúnar Jónsdóttur.[143] Guðrún, móður Ingibjargar, var dóttir Jóns Thorbergs, verslunarstjóra á Patreksfirði, og alsystir Bergljótar, konu Kjartans Ólafssonar, bónda í Tröð[144] (sjá hér Tröð). Hallgrímur, faðir Ingibjargar, drukknaði 12. júní 1833 (sjá  hér Álfadalur) en þá var Ingibjörg dóttir hans aðeins mánaðargömul. Faðir Hallgríms og afi Ingibjargar var Guðmundur Hákonarson, bóndi á Brekku, sem týndi lífi í mannskaðanum mikla 6. maí 1812. Stjúpfaðir Ingibjargar var Friðrik Pétursson Busch sem giftist móður hennar haustið 1834 og gerðist bóndi á Brekku.[145] Þar voru þau öll árið 1845.[146]

Þau Einar Guðmundsson og Ingibjörg Hallgrímssdóttir hófu búskap á Selakirkjubóli vorið 1859 og áttu hér heima næstu 44 árin.[147] Árið 1860 bjó Einar einn á allri jörðinni en hafði þó lítið bú, eina kú, eina kvígu, tólf ær og fjóra gemlinga.[148] Engan átti hann þá hestinn.[149] Árið 1870 var Einar enn með alla jörðina til ábúðar en þá voru hér líka hjón á fimmtugsaldri sem bjuggu við þurrt hús.[150] Þau hétu Davíð Pálsson og Ragnheiður Hallgrímsdóttir.[151] Ragnheiður var systir Ingibjargar, húsfreyju á Selakirkjubóli, en Davíð var náfrændi þeirra systra, sonur Bergljótar, móðursystur þeirra í Tröð, og Páls Pálssonar sem var fyrri eiginmaður hennar[152] (sjá hér Tröð). Áður en Davíð og Ragnheiður komu að Selakirkjubóli höfðu þau búið um skeið á Mosvöllum[153] og einnig á Vöðlum. Árið 1860 voru þau á Vöðlum og bjuggu þá með 3 kýr og 12 ær[154] sem var hreint ekki svo lítið. Hér á Selakirkjubóli var hagur þeirra hins vegar mjög bágborinn og tekið fram í samtímaheimild að þau séu öreigar.[155] Árið 1873 fluttust Davíð og Ragnheiður héðan til Ísafjarðar og frá Ísafirði fóru þau til Ameríku árið 1889.[156] Ragnheiður var þá komin fast að sextugu og Davíð 65 ára. Hallgrímur sonur þeirra fór líka til Ameríku en Þóroddur Davíðsson bróðir hans, sem fæddur var árið 1874, gerðist bóndi í Alviðru í Dýrafirði.[157] Hann bjó þar allt til ársins 1933 (sjá hér Alviðra) og niðjar hans síðan.

Svo virðist sem bú Einars Guðmundssonar, sem lengi baslaði hér við búskap og áður var nefndur, hafi alltaf verið lítið. Árið 1870 var hann með 2 kýr, 12 ær og 1 hest[158] en árið 1880 var kýrin bara ein, enginn hestur og ánum hafði þá fækkað úr tólf í átta.[159] Þetta ár var Einar reyndar líka með þrjá gemlinga.[160] Hann bjó þá ekki lengur á allri jörðinni eins og verið hafði 1860 og 1870 því hingað var kominn annar bóndi sem hét Ólafur Ólafsson.[161] Sá bjó árið 1880 með 1 kú, 4 ær, 3 gemlinga og 1 hest[162] svo bæði búin voru álíka stór. Ólafur átti svo lítinn bát sem var minni en fjögra manna far og hann hafði komið sér upp 20 ferfaðma kálgarði.[163] Þau Einar og Ingibjörg áttu hins vegar hvorki bát né kálgarð.[164] Ólafur Ólafsson, sem hér var nefndur, var frá Skjaldfönn í Nauteyrarhreppi og bjó á Selakirkjubóli frá 1873-1882.[165] Kona hans var Elín, dóttir Halldórs hreppstjóra Bjarnasonar á Gili í Bolungavík.[166] Héðan fluttust þau til Ísafjarðar og þar dó Ólafur 6. júlí 1925, kominn fast að níræðu.[167]

Auk bændanna tveggja var líka húsmaður á Selakirkjubóli árið 1880.[168] Hann hét Björn Sakaríasson og var fæddur á Vífilsmýrum árið 1832.[169] Kona Björns var Guðbjörg Torfadóttir frá Hrauni í Keldudal.[170] Þau voru tengdaforeldrar Helga Andréssonar skipstjóra og bjuggu áður á Kaldá (sjá hér Kaldá og Flateyri). Þau Björn og Guðbjörg dóu bæði hér á Selakirkjubóli árið 1900.[171] Árið 1890 voru hér þrjú heimili.[172] Einar Guðmundsson var þá kominn um sextugt og mun hafa verið hættur búskap því í manntalinu frá þessu ári er hann sagður vera þurrabúðarmaður og daglaunamaður.[173] Þau Einar og Ingibjörg kona hans fóru þó ekki héðan fyrr en komið var fram yfir aldamót.[174]

Bændur á Selakirkjubóli árið 1890 voru þeir Guðmundur Einarsson og Atli Davíðsson.[175] Guðmundur Einarsson var fæddur á Flateyri 26. febrúar 1844, sonur hjónanna Einars Jónssonar og Elínar Eiríksdóttur.[176] Elín, móðir Guðmundar, var dóttir séra Eiríks Vigfússonar, sem lengi var prestur á Stað í Súgandafirði, en Einar, sem var seinni maður Elínar, var frá Augnavöllum í Hnífsdal.[177] Um ætt hans er upplýsingar að finna í ritinu Frá ystu nesjum.[178] Árið 1850 bjuggu foreldrar Guðmundar Einarssonar á Kirkjubóli í Korpudal og þar voru þau enn tíu árum síðar (sjá hér Kirkjuból í Korpudal). Árið 1848 var Guðmundur tökubarn hér á Selakirkjubóli en þremur árum síðar var hann kominn að Kirkjubóli til foreldranna og þar ólst hann síðan upp.[179] Árið 1868 kvæntist Guðmundur Ólöfu Jónsdóttur sem fluttist 10 ára gömul frá Gilsbrekku í Súgandafirði til Önundarfjarðar árið 1851.[180] Foreldrar Ólafar voru Jón Sigurðsson og Jarðþrúður Ólafsdóttir sem bjuggu um skeið á Gilsbrekku (sjá hér Gilsbrekka). Árið 1870 voru Guðmundur Einarsson og Ólöf kona hans þurrabúðarfólk á Flateyri[181] en árið 1880 bjuggu þau á Innri-Veðrará.[182] Árið 1890 voru hjón þessi komin hingað að Selakirkjubóli og í manntalinu frá því ári er Guðmundur sagður vera bóndi og stórskipasmiður.[183] Í hópi niðja séra Eiríks Vigfússonar, afa Guðmundar Einarssonar, er að finna marga smiði og ágæta hagleiksmenn. Þrír synir Guðmundar urðu kunnir smiðir. Hjálmar Guðmundsson, sem síðast bjó á Mosvöllum, fékkst aðallega við skipasmíðar en bræður hans, þeir Friðrik í Breiðadal og Albert á Selakirkjubóli smíðuðu fjöldann allan af rokkum.[184]

Þegar manntal var tekið 1. nóvember 1901 voru Guðmundur Einarsson og Ólöf kona hans enn hér á Selakirkjubóli en voru komin í húsmennsku.[185] Guðmundur var þá 57 ára gamall og sagður nær blindur.[186] Daginn sem manntalið var tekið var Guðmundur smiður kominn að fótum fram því hann andaðist tveimur vikum síðar.[187] Við nafn hins látna í prestsþjónustubókinni stendur skrifað húsmaður á Selabóli, fyrrum bóndi þar, ágætur smiður.[188]

Bóndinn sem bjó á móti Guðmundi Einarssyni hér á Selakirkjubóli árið 1890 hét Atli Davíðsson og var fæddur 12. apríl 1831 í Kirkjubólshúsum[189] hjáleigunni frá Kirkjubóli í Korpudal. Hann var sonur hjónanna Davíðs Jónssonar og Ingveldar Pálsdóttur sem síðar bjuggu um skeið á Ytri-Veðrará.[190] Atli mun aðeins hafa búið í nokkur ár á Selakirkjubóli en áður hafði hann búið alllengi í Innri-Hjarðardal[191] og árið 1901 var hann kominn að Tannanesi.[192] Þar dó hann hjá Guðmundu dóttur sinni á jóladag árið 1902.[193] Kona Atla Davíðssonar var Sigríður Jónsdóttir, sem fæddist á Kirkjubóli í Korpudal 18. ágúst 1836, en foreldrar hennar voru Jón Sigurðsson, bóndi og hreppstjóri þar, og kona hans, Kristín Einarsdóttir[194] (sbr. hér Kirkjuból í Korpudal).

Atli Davíðsson hóf búskap á 4 hundruðum hér á Selakirkjubóli vorið 1885 en þennan jarðarpart hafði Torfi Halldórsson á Flateyri nytjað næstu ár á undan.[195] Baðstofan sem Atli fékk þá til afnota gat varla talist mannabústaður. Að sögn úttektarmanna var hún 2 álnir og 8 þumlungar á annan veginn en 3,5 álnir á hinn,[196] það er 3,2 fermetrar og hæðin frá gólfi og upp í mæni tæplega 3,5 metrar.[197] Enginn gluggi var á kofanum en úr honum lágu göng yfir í eldhúsið. Þau voru um það bil 1,25 metrar á lengd og innan við 80 sentimetrar á breidd.[198] Eldhúsið var enn minna en baðstofan, aðeins 2,4 fermetrar. Minna gat það varla verið. Þrjár manneskjur voru í heimili hjá Atla árið 1885 og fjórar árið 1890.[199]

Þegar Atli  hætti að búa á Selakirkjubóli 14 árum síðar og Guðmundur Andrésson tók við, vorið 1899, höfðu húsakynnin ekki tekið miklum breytingum. Baðstofukofinn var þá liðlega 4 fermetrar og á hann var kominn einn gluggi.[200] Í staðinn fyrir eldhúsið var komið fjós.[201]

Árið 1901 voru 6 heimili hér á Selakirkjubóli með samtals 30 heimilismönnum.[202] Á engri bújörð í Mosvallahreppi var þá fleira fólk ef frá er talin Eyri með þorpinu á Flateyri og hvalveiðistöðinni á Sólbakka.[203] Í nýnefndu manntali má sjá að af heimilisfeðrunum sex voru aðeins tveir í bændatölu og báðir sagðir lifa af landbúnaði og sjóróðrum.[204] Tveir hinna voru fyrrverandi bændur og tveir eru sagðir vera sjómenn.[205]

Annar þessara bænda var Hjálmar Guðmundsson, sonur Guðmundar Einarssonar, bónda og stórskipasmiðs á Selakirkjubóli, sem hér hefur áður verið sagt frá, og konu hans, Ólafar Jónsdóttur.[206] Hjálmar fæddist á Eyri vorið 1868. Hann kvæntist haustið 1894 Guðbjörgu Björnsdóttur, sem var dóttir Björns Sakaríassonar og Guðbjargar Torfadóttur konu hans[207] en þau voru hér í húsmennsku um skeið á árunum kringum 1880 (sjá hér bls. 12). Sama ár og Hjálmar gekk að eiga Guðbjörgu fluttist hann búferlum frá Selakirkjubóli að Bakka í Arnarfirði og er þá kallaður smiður.[208] Tveimur árum siðar komu þau Hjálmar og Guðbjörg aftur í Önundarfjörð og fóru þá að búa á Selakirkjubóli.[209] Hér mun Hjálmar hafa búið til ársins 1907 en fluttist þá að Ytri-Veðrará og tæpum áratug síðar að Mosvöllum (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 363). Þar var hann bóndi til æviloka[210] en Hjálmar andaðist á Mosvöllum árið 1931. Ekkja hans stóð þar áfram fyrir búi allt til ársins 1945. Eins og áður var nefnt stundaði Hjálmar lengi skipasmíðar með búskapnum og var eins og faðir hans talinn góður smiður.

Árið 1901 bjó Hjálmar hér á Selakirkjubóli með eina kú og sex kindur.[211] Bú hins bóndans, sem þá bjó hér á móti Hjálmari, var jafn stórt ef marka má þær upplýsingar sem fram koma í hreppsbókinni.[212] Þessi bóndi hét Guðmundur Andrésson og var fæddur í Innri-Hjarðardal 7. desember 1863.[213] Hann var kvæntur Helgu Þórarinsdóttur sem var um það bil 17 árum eldri. Helga var fædd á Látrum í Mjóafirði, dóttir hjónanna Þórarins Sigurðssonar og Kristínar Þórarinsdóttur, en frá Kristínu segir hér á öðrum stað (sjá hér Innri-Hjarðardalur og Staður í Súgandafirði). Hjónin Guðmundur Andrésson og Helga Þórarinsdóttir bjuggu aðeins í sjö ár hér á Selakirkjubóli, frá 1899 til 1906[214]. Helga andaðist á Flateyri á jóladag árið 1910[215] en Guðmundur fluttist skömmu síðar til Súgandafjarðar og lifði þar fram í háa elli. Frá honum segir nánar þegar staldrað verður við í Vatnadal (sjá hér Fremri-Vatnadalur).

Hinir fyrrverandi bændur, sem enn stóðu fyrir heimili á Selakirkjubóli árið 1901, voru Einar Guðmundsson og Guðmundur Einarsson[216] en frá þeim báðum hefur áður verið sagt á þessum blöðum (sjá hér bls. 10-13). Guðmundur og Ólöf kona hans dóu bæði hér, hann 15. nóvember 1901 en hún 16. apríl 1905.[217] Þegar ný öld gekk í garð voru liðin yfir fjörutíu ár frá því hjónin Einar Guðmundsson og Ingibjörg Hallgrímsdóttir byrjuðu búskap sinn hér á Selakirkjubóli. Allan þann tíma höfðu þau átt hér heima, lengst við búskap en seinna í húsmennsku. Nú voru þau komin um sjötugt og eru í manntalinu frá 1901 sögð lifa á styrk sona sinna.[218] Árið 1903 fluttust þau bæði til Einars sonar síns sem bjó á Tannanesi.[219] Þar dó Einar Guðmundsson 8. desember 1905 og Ingibjörg kona hans dó þar líka tveimur árum síðar.[220]

Sjómennirnir tveir, sem voru heimilisfeður á Selakirkjubóli árið 1901, hétu Albert Guðmundsson og Guðmundur Mikael Einarsson.[221] Feður beggja höfðu búið á jörðinni og áttu hér enn heima því Albert var sonur Guðmundar Einarssonar og Guðmundur Mikael var sonur Einars Guðmundssonar.[222] Við lok 19. aldar var Guðmundur Mikael 29 ára gamall, fæddur á Selakirkjubóli 23. október 1871. Hann kvæntist Theódóru Jakobsdóttur 25. febrúar 1899 en hún var dóttir hjónanna Jakobs Aþanasíussonar og Þorgerðar Hannesdóttur sem bjuggu um skeið í Tungumúla á Barðaströnd.[223] Árið 1910 voru Guðmundur og Theódóra komin að Vífilsmýrum.[224] Þar stóðu þau lengi fyrir búi (sjá Firðir og fólk  1900-1999, 366) og síðan sonur þeirra, Kristinn Guðmundsson.[225]

Albert Guðmundsson var yngsti heimilisfaðirinn hér á Selakirkjubóli árið 1901, fæddur á Innri-Veðrará 1. júní 1877.[226] Í manntalinu frá 1901 er hann sagður vera sjómaður[227] en seinna vann hann mikið við smíðar, m.a. rokkasmíði (sjá hér bls. 12-13), og var smiður bæði á tré og járn.[228] Albert kvæntist Rannveigu Eiríksdóttur 8. febrúar árið 1900 en hún var fædd í Unaðsdal við Ísafjarðardjúp 22. júlí 1864.[229] Rannveig kom vinnukona að Kaldá frá Brekku á Ingjaldssandi árið 1895.[230] Níu árum fyrr hafði hún eignast barn með Guðjóni Arnórssyni sem þá var kvæntur bóndi á Höfðaströnd í Grunnavíkurhreppi[231] en fluttist árið 1888 ásamt konu sinni, Rakel Sigurðardóttur, að Brekku á Ingjaldssandi (sjá hér Brekka). Dóttirin sem Guðjón eignaðist með Rannveigu var skírð Halldóra og var lengi húsfreyja í Þernuvík við Djúp.[232]

Þau Albert Guðmundsson og Rannveig Eiríksdóttir voru húsráðendur á Selakirkjubóli í nær fjórðung aldar og komu upp tveimur sonum en munu yfirleitt hafa haft mjög lítil jarðarafnot. Til dæmis að nefna bjó Albert aðeins á hálfu jarðarhundraði árið 1920[233] sem sýnir að hann hefur haft sitt lífsviðurværi af öðru en landbúnaði. Hann hafði þá komið sér upp íbúðarhúsi úr timbri sem var 5½ x 7 álnir að flatarmáli en skúrbygging við húsið var 3½ x 7 álnir.[234] Íbúðarhús Alberts var um þetta leyti virt á 1.150,- krónur[235] en bændurnir tveir sem þá bösluðu hér bjuggu í torfbæjum sem ásamt útihúsum voru virtir á 1.200,- krónur samtals, annar á 800,- krónur en hinn á 400,- krónur.[236] Á öðru býlinu var baðstofan 6 x 6 álnir[237] eða um 14 fermetrar en á hinu var hún 9 x 5 álnir og þar var líka skúrbygging, 18 ferálnir að flatarmáli.[238] Ef marka má fasteignamatið voru þetta ein allra lélegustu húsakynni í hreppnum.[239] Árið 1920 var einn fjórði partur úr jörðinni nytjaður af Kjartani Rósinkranzsyni á Flateyri en hann og Kristján Torfason á Flateyri áttu þann jarðarpart.[240]

Timburhúsið sem Albert Guðmundsson bjó í mun hafa staðið rétt ofan við þjóðbrautina sem nú er ekið um og aðeins utar en steinhúsið sem reist var 1937 og frá er sagt hér litlu aftar.[241] Líklega hafa gömlu torfbæirnir tveir sem enn var búið í á fyrstu áratugum 20. aldar staðið neðar í túninu. Þeir voru nefndir innri bær og ytri bær ef marka má Fasteignabókina frá 1932.[242]

Um 1930 var enn tvíbýli á jörðinni.[243] Engin girðing var þá komin um túnið[244] en bændurnir sem þá bjuggu hér voru hvor um sig með 1 kú, 20 sauðkindur og einn hest.[245] Tvíbýli hélst á jörðinni allt til ársins 1933[246] og í eyði fór hún ekki fyrr en 1960 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 417).

Árið 1937 var byggt hér íbúðarhús úr steinsteypu.[247] Hús þetta var ein hæð og í því voru 3 herbergi og eldhús.[248] Árið 1950 var þetta íbúðarhús fólksins á Selabóli kynt með kolum en í því var engin miðstöð, ekkert rafmagn, engin vatnslögn, engin skólpleiðsla og enginn baðklefi.[249] Steinhúsið, sem var reist nær alveg fram á bakkabrúninni ofan við fjöruna, eyðilagðist í snjóflóði árið 1974 og hafði þá staðið autt í allmörg ár.[250] Allt þar til snjóflóð þetta féll var talið að bæirnir hér á Selakirkjubóli væru ekki í hættu vegna snjóflóða.[251] Steinhúsið kom á sínum tíma í stað innri bæjarins og stóð spölkorn innan við girðingu sem nú (1995) skilur að innri og ytri hluta túnsins.[252] Síðasti ytri bærinn stóð hins vegar skammt fyrir utan þessa sömu girðingu og um það bil miðja vega milli akbrautarinnar og bakkabrúnarinnar sem áður var nefnd.[253] Bærinn sem þar stóð á árunum upp úr 1930 var úr timbri, a.m.k. að hluta til.[254]

Um gömlu bæina á Selabóli sjást nú engin ummerki en í dálitlum hvammi innan við túnin og spölkorn ofan við þjóðveginn er grjóthlaðinn stekkur og má ætla að þar hafi lambfénu verið stíað. Svolítið ofan við brekkubrúnina, sem er hér beint fyrir ofan túnin á sjávarbakkanum, er líka vallgróin tótt og hefur líklega verið ætluð sauðum bændanna á Selabóli til skjóls í hríðum vetrarins því hún er hringlaga. Einmitt þannig var lögun flestra þaklausu sauðabyrgjanna í Önundarfirði og nálægum byggðum.

Dvöl okkar á Selakirkjubóli er nú senn á enda. Niður við Holtsósinn er gott að sitja stundarkorn, gefa gaum að sjávarföllum og minnast vorgleðinnar sem áður fylgdi göngu rauðmagans. Við komu hans sá fátækt fólk fyrir endann á útmánaðasultinum sem oft skerti þrek og þrótt. Úr fjörunni innan og neðan við túnið á Selabóli er örskammt yfir í Holtsoddann svo lítið vantar upp á að sandtangi þessi loki leið sjávarins inn og út um ósinn. Úr fjörunni liggur leið okkar upp túnið og frá gömlu bæjarstæðunum lítum við enn einu sinni í norðaustur og virðum fyrir okkur jarðarmegn hamrabeltanna í Selabólsstiga og Breiðadalsstiga. Svo öxlum við okkar skinn og röltum af stað út að Kaldá sem er næsti bær. Vegalengdin milli bæjanna er aðeins 500 metrar eða því sem næst. Svo stutta bæjarleið er auðvelt að ganga á 6 mínútum en að þessu sinni leggjum við lykkju á leið okkar til að svipast um í landi Selakirkjubóls á Kaldárdal.

Holtin utan við túnið á Selakirkjubóli heita Hreggnasi og ná neðan af Bökkum og upp undir Hjalla.[255] Uppi á Hjöllunum voru bæði mógrafir og slægjur.[256] Þar er holt sem heitir Langholt og dálítið ofar, uppi í mynni Kaldárdals er Hornholt.[257] Ofan við það og innan við dalsmynnið er svo Leitishryggurinn sem líka er nefndur Leiti[258] og skýrir nafnið sig sjálft. Mynni Kaldárdals liggur í um það bil 100 metra hæð. Dalur þessi er mjög stuttur því einum kílómetra framan við dalsmynnið er komið í 300 metra hæð og þar fyrir framan er lítið um gróður. Neðan frá mynni Kaldárdals og fram á efstu brún fyrir botni hans er loftlínan tæpir þrír kílómetrar. Um dalinn fellur áin Kaldá og skiptir löndum milli jarðanna Selakirkjubóls og Kaldár.[259] Neðan við dalinn fellur hún til sjávar rétt innan við túnið á Kaldá. Efstu brúnir fjallanna sem gnæfa hér sitt hvorum megin við dalinn eru í rúmlega 720 og tæplega 740 metra hæð yfir sjávarmáli. Yfir innri hlíðinni ber við himin klettaþil Selabólsstiga en andspænis þeim er Hólsfjall, líka hömrum krýnt.

Upp af Leitishryggnum sem áður var nefndur og beggja vegna við hann eru grasgeirar í innri hlíð dalsins. Þeir heita Veturlönd og ná upp í klettana í Neðrafjalli sem svo er nefnt.[260] Framan við fremstu klettana í fjallinu Selabólsstiga er gil við efstu brún en síðan tekur við annað fjall sem nefnt er Heiðnafjall eða Vondafjall og er alveg gróðurlaust.[261] Úr nýnefndu gili hefur orðið geysimikið framhlaup og nær sú mikla skriða þvert yfir dalinn. Hún heitir Stórurð[262] og í henni er enginn gróður. Framan við urðina hverfur Kaldá undir þennan stórgrýtishrygg og kemur ekki upp á yfirborðið á ný fyrr en heiman við Leiti. Svolítið gróðurlendi er framan við Stórurð og heitir þar Afrétti.[263] Selhólar eru að sögn fyrir framan Afrétti[264] og bendir nafnið til þess að hér hafi búsmali verið hafður í seli á fyrri tíð. Engar seltóttir eða önnur ummerki um seljabúskap fundust þó hér uppi í Kaldárdal við leit sem gerð var í byrjun september sumarið 1994. Fjallshlíðin í norðvestanverðum dalbotninum var þá nær öll undir snjó þó komið væri fram í 19. viku sumars og er sá skafl vatnsforðabúr sem um munar. Framan við Selhóla eru Flatir og ná fram í dalbotn eða því sem næst.[265]

Frá Selhólunum lítum við um stund fram í dalbotninn. Þar er klettalaust upp að ganga en gera má ráð fyrir að skaflinn kynni að vera nokkuð erfiður uppgöngu. Brúnin fyrir botni dalsins mun vera í nær 700 metra hæð yfir sjávarmáli og aðeins 700 metrar brúna á milli yfir í Hafradal sem er beint upp af bænum Botni í Súgandafirði. Þessi leið mun þó sjaldan hafa verið farin því menn völdu fremur Grímsdalsheiði sem er aðeins 1500 metrum vestar (sjá hér Hóll á Hvilftarströnd og Kvíanes). Hún er lítið eitt lægri og þar eru uppgönguleiðirnar sín hvorum megin heiðar heldur auðveldari viðfangs. Að þessu sinni leggjum við ekki á fjallið en snúum til baka við Selhólana og hröðum för niður að bænum á Kaldá.

 

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Óskar Einarsson 1951, 80.

[2] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 71.

[3] Örnefnaskrá.

[4] Óskar Ein. 1951, 87.  Örn.skrá.

[5] Óskar Ein. 1951, 87.

[6] Guðmundur I. Kristjánsson. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1994.

[7] Óskar Ein. 1951, 86.

[8] Sama heimild.

[9] Sama heimild.

[10] Sama heimild.

[11] Sama heimild.

[12] Sama heimild.

[13] Sama heimild.

[14] Sama heimild.

[15] Hjörleifur Guðmundsson 1973, 77-78 (Ársrit S.Í.).

[16] Sama heimild.

[17] Sama heimild.

[18] Sama heimild.

[19] Sama heimild, 77.

[20] Sama heimild, 73.

[21] Sama heimild.

[22] Óskar Ein. 1951, 84-85.  Kr. G. Þorv. 1951, 71.

[23] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 121-122.

[24] Sama heimild.

[25] D.I. IV, 688.

[26] D.I. V, 501-502.

[27] Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafjarðarsýslu frá árunum 1658 og 1695. Manntal 1703. Jarðab. Á. og P. VII,

121-122.

[28] Jarðab. Á. og P. VII, 121-122.

[29] Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.

[30] Óskar Ein. 1951, 85.

[31] Jarðab. Á. og P. VII, 121-122.  D.I. IV, 688.  Sóknalýsingar Vestfjarða II, 102.

[32] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.  Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.  J. Johnsen

1847, 195.

[33] Óskar Ein. 1951, 84-85.

[34] Jarðab. Á. og P. VII, 121-122.

[35] Sóknalýs. Vestfj. II, 101-102.

[36] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[37] Sama heimild.

[38] Sama heimld.

[39] D.I. IV, 688.

[40] Sama heimild.

[41] Sama heimild.

[42] Arnór Sigurjónsson 1975, 66-68 og 106-113.

[43] Sama heimild, 112-113.

[44] D.I. V, 497-503 og XII, 46-53.

[45] Arnór Sigurj. 1975, 193.  Íslenskar æviskrár I, 256-257.

[46] Arnór Sigurj. 1975, 237 og 269.

[47] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[48] Ísl. æviskrár I, 248.

[49] Ísl. æviskrár I, 248 og IV, 311.

[50] Sama heimild I, 248.

[51] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.  Ísl. æviskrár IV, 105.

[52] Ísl. æviskrár IV, 105.

[53] Jarðab. Á. og P. VII, 121-122.  Ísl. æviskrár I, 251.

[54] Ísl. æviskrár I, 251.

[55] Alþingisbækur Íslands XIII, 58. Ísl. æviskrár II, 247-248.

[56] Alþ.bækur Íslanda XIII, 58.

[57] Jón J. Aðils 1971, 524.

[58] Manntal 1762.

[59] Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.  Manntöl 1801 og 1816.

[60] J. Johnsen 1847, 195.

[61] Manntal 1901 og fylgiskjöl með því.

[62] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[63] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[64] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[65] Sama jarðaskrá frá árinu 1695.  Jarðab. Á. og P. VII, 121-122.

[66] Jarðab. Á. og P. VII, 121-122.

[67] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.  J. Johnsen 1847, 195.

[68] Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.

[69] Sama heimild.

[70] Sama heimild.

[71] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[72] Sama heimild.

[73] D.I. IV, 688.

[74] Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695.

[75] Jarðab. Á. og P. VII, 121-122.  Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.  J. Johnsen 1847, 195.

[76] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[77] Sama heimild.

[78] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.  Manntal 1703.

[79] Jarðab. Á. og P. VII, 121-122.  Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit, Ísafj.sýsla um 1735.

Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.  Manntal 1762.

[80] Manntöl 1801, 1835, 1845, 1855, 1860 og 1870.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., bún.skýrslur 1830.

[81] Manntöl 1816, 1840 og 1850.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821.

[82] Manntöl 1880, 1890 og 1901.

[83] Manntöl 1870, 1880 og 1890.

[84] Manntal 1901.

[85] Sama heimild.

[86] Sama heimild.

[87] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[88] Sama heimild.

[89] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[90] Manntal 1703.

[91] Sama heimild.

[92] Jarðab. Á. og P. VII, 121-122.

[93] Manntal 1703.

[94] Jarðab. Á. og P. VII, 121-122.

[95] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit, Ísafj.sýsla um 1735.

[96] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[97] Manntal 1762.

[98] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[99] Manntal 1762.

[100] Sama heimild.

[101] Sama heimild.

[102] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[103] Sama heimild.

[104] Manntal 1801.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[105] Manntal 1816, bls. 689.  Sbr. Manntal 1801, vesturamt, bls. 290.

[106] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[107] Manntal 1801.

[108] Sama heimild.

[109] Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.  Manntal 1801.

[110] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[111] Manntal 1816.

[112] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[113] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur frá árinu 1821.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[114] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur frá árinu 1830.

[115] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[116] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur frá árinu 1830.

[117] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[118] Manntöl 1850 og 1855.

[119] Manntal 1835.

[120] VA III, 407, búnaðarskýrslur 1837.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[121] Manntöl 1840 og 1850.

[122] Manntal 1845.

[123] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[124] Manntal 1845.

[125] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[126] Sama heimild. Manntöl 1845 og 1850.

[127] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[128] Sama heimild.

[129] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[130] Sama heimild.

[131] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[132] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[133] Manntal 1855.

[134] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[135] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[136] Manntal 1860.

[137] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[138] Sama heimild.

[139] Sama heimild.

[140] Manntal 1845.

[141] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[142] Sama heimild.

[143] Sama heimild.

[144] Ól. Þ. Kr. 1953, 138 (Frá ystu nesjum VI).  Manntal 1801, vesturamt, bls. 228-229.

[145] Ól. Þ. Kr. 1953, 137-138.

[146] Manntal 1845.

[147] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[148] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[149] Sama heimild.

[150] Manntal 1870.

[151] Sama heimild.

[152] Ól. Þ. Kr. 1953, 137-138 (Frá ystu nesjum VI).

[153] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[154] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[155] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[156] Sama heimild.

[157] Sama heimild og ÓL.Þ. Kr. 1953, 138.

[158] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[159] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[160] Sama heimild.

[161] Sama heimild.

[162] Sama heimild.

[163] Sama heimild.

[164] Sama heimild.

[165] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[166] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[167] Vestfirskar ættir I, 143.

[168] Manntal 1880.

[169] Sama heimild.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[170] Sömu heimildir.

[171] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[172] Manntal 1890.

[173] Sama heimild.

[174] Manntal 1901.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[175] Manntal 1890.

[176] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[177] Ól. Þ. Kr. 1945, 154-157.  Sami 1953, 74-78 (Frá ystu nesjum III og VI).

[178] Ól. Þ. Kr. 1953, 74-78.

[179] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[180] Sama heimild.

[181] Manntal 1870.

[182] Manntal 1880.

[183] Manntal 1890.

[184] Ól. Þ. Kr. 1945, 158.  Sami 1953, 74 (Frá ystu nesjum III og VI).

[185] Manntal 1901.

[186] Sama heimild.

[187] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[188] Sama heimild.

[189] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[190] Eyjólfur Jónsson 1979, 89-91 (Ársrit S.Í.).  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[191] Manntöl 1870 og 1880.

[192] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[193] Sama heimild.

[194] Vestf. ættir II, bls. 490.

[195] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 41-42.

[196] Sama heimild.

[197] Sama heimild.

[198] Sama heimild.

[199] Sóknarmannatöl Holts í Ön.f. Manntal 1890

[200] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 108.

[201] Sama heimild.

[202] Manntal 1901.

[203] Sama heimild.

[204] Sama heimild.

[205] Sama heimild.

[206] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[207] Sama heimild.

[208] Sama heimild.

[209] Sama heimild.

[210] Sama heimild.

[211] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 5. Hreppsbók 1883-1912.

[212] Sama heimild.

[213] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[214] Sóknarm.töl Holts í Ön.f.

[215] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[216] Manntal 1901.

[217] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[218] Manntal 1901.

[219] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[220] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[221] Manntal 1901.

[222] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[223] Sama heimild.

[224] Manntal 1910.

[225] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[226] Sama heimild.  Manntal 1901.

[227] Manntal 1901.

[228] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[229] Vestf. ættir I, 366-367 og 372.

[230] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[231] Vestf. ættir I, 335-336. Lýður Björnsson 1992, 162 og 200.

[232] Vestf. ættir I, 335-336.

[233] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[234] Sama heimild.

[235] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916. Fasteignabók 1921.

[236] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919. Fasteignabók 1921.

[237] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[238] Sama heimild.

[239] Fasteignabók 1921.

[240] Sama heimild.

[241] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 18.8.1995.

[242] Fasteignabók 1932.

[243] Sama heimild.

[244] Sama heimild.

[245] Fasteignabók 1932.

[246] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[247] Manntal 1940.

[248] Sama heimild.

[249] Manntal 1.12.1950.

[250] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.8.1994.

[251] Sama heimild.

[252] Sama heimild.

[253] Sama heimild.

[254] Sama heimild.

[255] Óskar Ein. 1951, 85.

[256] Sama heimild.

[257] Óskar Ein. 1951, 85.

[258] Sama heimild, 86.

[259] Sama heimild, 85.

[260] Sama heimild, 86.

[261] Sama heimild.

[262] Sama heimild.

[263] Sama heimild.

[264] Sama heimild.

[265] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »