Þórustaðir

Túnin í Innri-Hjarðardal og á Þórustöðum liggja saman svo að fljótfarið er á milli bæjanna. Landamerkjum jarðanna hefur þegar verið lýst (sjá hér Innri-Hjarðardalur) og frá landamerkjum Þórustaða og Holts verður greint síðar (sjá Holt).

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1710 segir að Þórustaðir hafi byggst að fornu í heimalandi Holtsstaðar og þá verið hjáleiga frá Holti.[1] Árni Magnússon nefnir jörðina Þórustaði eða Þórólfsstaði[2] sem mun vera hennar forna nafn því svo er hún jafnan nefnd í máldögum frá 14. og 16. öld.[3]

Á 19. öld var jörðin yfirleitt nefnd Þórustaðir[4] og svo hefur einnig verið síðar. Gamla nafninu bregður þó fyrir hér og þar í heimildum, a.m.k. allt fram til ársins 1932. Sem dæmi má nefna að í manntalinu frá 1703 og Jarðatali Johnsens frá árinu 1847 er jörðin nefnd Þórólfsstaðir og einnig í Fasteignabókum frá 1921 og 1932.[5] Í þessum síðastnefndu heimildum fylgir nafnið Þórustaðir þó stundum með innan sviga.

Í tveimur máldögum frá síðari hluta 14. aldar eru Þórólfsstaðir nefndir sem ein af jarðeignum Holtskirkju[6] svo ætla verður að jörðin hafi þá verið í byggð. Í Gíslamáldaga frá því um 1570 er Holtskirkja líka sögð eiga Þórólfsstaði, byggða úr heimalandi staðarins, og þá hefur tvímælalaust verið búið á jörðinni því að tekið er fram að greidd sé af henni ákveðin landskuld.[7] Landskuldin var ein mörk á ári[8] en sú verðeining mun hafa jafngilt 8 sex álna aurum.[9] Jarðarafgjaldið af Þórustöðum hefur því verið 48 álnir en til samanburðar má nefna að af Vöðlum, sem Holtskirkja átti líka var það 10 aurar[10] eða 60 álnir á þessum sama tíma. Í byrjun 18. aldar voru Vaðlar taldir vera 12 hundraða jörð en Þórustaðir ekki nema 6 hundruð.[11] Mismunurinn á landskuld af þessum tveimur jörðum var þó mun minni en vænta mætti eftir hundraðstölunni því árið 1710 voru borgaðar 60 álnir af Þórustöðum en 80 álnir af Vöðlum.[12] Um miðbik 19. aldar var landskuldin óbreytt en ágreiningur virðist þá hafa verið uppi um dýrleika Þórustaða sem ýmist er sagður fjögur eða sex hundruð í heimildum frá þeim tíma.[13]

Við fasteignamatið, sem fram fór á árunum 1919 og 1920, varð niðurstaða matsmanna sú að gamla matið á Þórustöðum hefði verið alltof lágt. Við þetta mat var land jarðarinnar talið 2.000,- króna virði og hvert jarðarhundrað því virt á 333,33 krónur.[14] Til samanburðar má nefna að við þetta sama fasteignamat var hvert jarðarhundrað í Valþjófsdal virt á 172,92 krónur, í Bjarnardal á 165,28 krónur og á jörðunum inn í Firði var hvert hundrað aðeins metið á 125,31 krónur.[15]

Óljóst er hvenær Þórustaðir breyttust úr hjáleigu án sérstaks beitilands í bújörð með sínum eigin högum. Sú breyting virðist þó hafa átt sér stað fyrir 1400 því að í máldaga Holtskirkju sem talinn er vera frá árinu 1377 eða því sem næst segir að kirkja hins heilaga Laurentíusar í Önundarfirði eigi heimaland allt, Arnkelsbrekku, Vaðla og Þórólfsstaði.[16] Á síðasta fjórðungi 14. aldar hafa Þórustaðir því ekki verið partur af heimalandi í Holti heldur sérstök bújörð með sín eigin landamerki. Svo var einnig árið 1710 eins og sjá má í Jarðabók Árna og Páls þar sem sagt er að útigangur sé mjög lítill í landi Þórustaða.[17] Með þeim orðum er beitilandi Þórustaða gefin ákveðin einkunn sem nægir til að sýna að hagarnir hafa ekki verið sameiginlegir með Holti.

Í Jarðabókinni frá 1710 er að finna útmálun á helstu ókostum þessarar bújarðar en um þá segir þar svo:

 

Útigangur er mjög lítill og er rosknu fé burtu komið á vetur … . Túninu grandar sandfok til stórs skaða úr Holtsmelum. Enginu spilla skriður og hafa mikinn part eyðilagt. Hætt er kvikfé fyrir afætudýjum, pyttum og lækjum.[18]

 

Í sömu heimild er hins vegar tekið fram að á Þórustöðum sé torfrista og stunga nægileg og þess getið að þar sé svörður brúkaður til eldiviðar með klíningi.[19]

Þeir sem greindu Árna Magnússyni frá búskaparskilyrðum á Þórustöðum sumarið 1710 virðast ekki hafa séð ástæðu til að minnast á hversu gott var að afla heyja á Þórustaðaengi. Í sóknalýsingunni frá 1840 er aftur á móti tekið fram að þrátt fyrir skemmdir af sandfoki sé þessi gamla hjáleiga frá Holti heyskaparjörð,[20] enda var bæði tún og engi á Þórustöðum mun sléttlendara en almennt var á Vestfjörðum. Til marks um það má nefna að á öðrum áratug tuttugustu aldar var Þórustaðaengið slegið með sláttuvél að mestu.[21] Á árunum kringum 1920 gaf túnið á Þórustöðum af sér 90 hesta af töðu en 170 hestar eða þar um bil fengust af útengi.[22] Þessi heyfengur er mun meiri en vænta mátti á sex hundraða jörð.

Fyrsti bóndinn á Þórustöðum sem menn þekkja nafn á er Björn Sveinsson sem bjó hér á fyrri hluta 17. aldar. Hann var sonur séra Sveins Símonarsonar, prófasts í Holti, og fyrri konu hans, Þórunnar Björnsdóttur.[23] Þeir Björn á Þórustöðum og Brynjólfur biskup Sveinsson voru því hálfbræður. Af börnum séra Sveins með fyrri konunni náðu fjórir synir og ein dóttir að vaxa úr grasi.[24] Tveir þessara albræðra urðu bændur í Önundarfirði og einn prestur í Holti.[25] Séra Jón Halldórsson í Hítardal, sem kom í Skálholtsskóla 4 árum eftir andlát Brynjólfs biskups, nefnir Björn Sveinsson bróður hans í Biskupasögum sínum og segir að hann hafi siglt til að nema járnsmíði en komið til baka án þess að hafa lært mikið í þeirri kúnst.[26] Kona Björns Sveinssonar á Þórustöðum var Guðný Pálsdóttir frá Fagradal.[27] Eitt barna þeirra var Jón Björnsson sem bjó í Reykjarfirði í Grunnavíkurhreppi og brann þar inni þegar kviknaði í bænum árið 1657.[28]

Björn járnsmiður á Þórustöðum mun hafa verið fæddur nokkru fyrir 1600 en á því ári gekk faðir hans að eiga sína seinni konu. Líklega hefur þessi sonur séra Sveins og fyrri konunnar fæðst um 1590 og kynni því að hafa verið látinn á árunum kringum 1660 þegar annar maður, sem kenndur var við Þórustaði, var að laumast með galdrakver og hafði það með sér í verið á Kálfeyri.

Árið 1664 var ungur piltur úr Önundarfirði, Bjarni Bjarnason frá Hesti, rekinn úr Skálholtsskóla fyrir að hafa komið þangað með galdrablöð (sjá hér Hestur). Við yfirheyrslur hjá Brynjólfi biskupi játaði hann á sig þessa sök en galdrastafina kvaðst hann hafa skrifað upp í verstöðinni á Kálfeyri eftir kveri Erlings Ketilssonar frá Þórustöðum í Önundarfirði sem nú væri sigldur til Englands fyrir nokkrum árum.[29]

Þegar Bjarni frá Hesti var rekinn úr Skálholtsskóla voru átta ár liðin frá því efnt var til fyrstu galdrabrennunnar í Ísafjarðarsýslu og má ætla að meistari Bjarna í galdrakúnstinni, Erlingur Ketilsson frá Þórustöðum, hafi ráðist í utanförina af ótta við bálið sem kynni að bíða hans í heimahögum. Í tiltækum heimildum verður ekki séð hvort Erlingur, sem galdrakverið átti, muni hafa verið bóndi á Þórustöðum, vinnumaður þar eða sonur bónda og enginn veit nú lengur hvort hann kom aftur úr sinni reisu.

Árið 1681 bjó á Þórustöðum maður að nafni Jón Guðlaugsson[30] en þegar fyrsta allsherjarmanntalið var tekið á landi hér bjuggu þrír bændur á þessari sex hundraða jörð, Jón Hallsson, Einar Jónsson og Ólafur Jónsson.[31] Jarðnæði hvers og eins hefur því varla mátt minna vera. Í Jarðabókinni frá 1710 sjáum við að þeir Einar og Ólafur hafa verið bræður.[32] Þeir bjuggu þá hér í tvíbýli og höfðu sína hálflenduna hvor. Samanlagður bústofn þeirra þetta ár var 4 kýr, 12 ær, 7 tvævetra og þrevetra sauðir, 9 veturgamlir sauðir, 13 lömb og 2 hross.[33] Drjúgan hluta af þessum bústofni átti Holtskirkja því að leigukúgildin sem fylgdu jörðinni voru fjögur.[34] Leigurnar af þeim borguðu bræðurnir í smjöri heim til staðarins eða í peningum og var þá einn ríkisdalur lagður á móti 25 smjörpundum.[35]

Í byrjun 18. aldar fylgdi ábúð á Þórustöðum sú kvöð að landsetar þar voru skyldugir að róa á vorvertíð frá Kálfeyri á skipi staðarins í Holti eða leggja til mann í skiprúm.[36] Væri farið á skipi í kaupstaðarferð frá Holti voru bændurnir á Þórustöðum einnig skyldugir til að senda mann frá sér prestinum og hans fólki til aðstoðar í ferðinni.[37] Eftir slíku mannsláni gat presturinn þó aðeins kallað einu sinni á ári og var út frá því gengið að væri tvíbýli á Þórustöðum skiptust bændur þar á um að lána manninn, sitt árið hvor.

Í Jarðabókinni frá 1710 segir að engin hýsing hafi verið á Þórustöðum inn til næstu 3ja ára.[38] Væru engar aðrar heimildir í boði er hætt við að sú merking yrði lögð í þessi orð að jörðin hefði verið í eyði um alllangan tíma en byggst á ný árið 1707. Bændaskráin frá 1681, sem hér var áður vitnað til, og manntalið frá 1703 sýna hins vegar með ótvíræðum hætti að búið var á jörðinni bæði þau ár og því líklegt að svo hafi einnig verið árin þar á milli. Ráðningin á þeirri gátu hvernig fólk gat búið á jörðinni þó að þar væri engin hýsing liggur ekki alveg í augum uppi en ef til vill má hugsa sér að þeir sem nytjuðu Þórustaði og höfðu þar ábúð hafi hafst við í einhverjum hjáleigukofum í landi Holts því skammt er á milli bæjanna. Slíka hugdettu er þó ekki unnt að styrkja með gildum rökum en hvað sem öðru líður höfðum við orð Árna Magnússonar fyrir því að árið 1707 hafi verið byggt upp á Þórustöðum svo sem á hverju öðru lögbýli í sveitinni.[39]

Svo virðist sem oftast hafi verið tvíbýli á Þórustöðum á 18. öld. Árið 1710 voru bændurnir eins og áður sagði tveir og svo var einnig um 1735, 1753 og 1762.[40] Á 19. öld bjó oftast aðeins einn bóndi á jörðinni í senn en þó voru þeir enn tveir árið 1801.[41] Allir sem hér bjuggu á 18. og 19. öld voru leiguliðar því jörðin var enn í eigu Holtskirkju árið 1901[42] eins og jafnan hafði verið frá því búskapur hófst á Þórustöðum.

Á fyrri hluta 19. aldar bjuggu þrír prestar á Þórustöðum en aðeins þó í örfá ár hver. Fyrstur vígðra manna settist hér að svo kunnugt sé Böðvar Þorvaldsson sem bjó hér frá 1819-1822.[43] Hann var á þessum árum aðstoðarprestur föður síns, séra Þorvaldar Böðvarssonar í Holti, en varð prestur í Gufudal árið 1822.[44] Séra Böðvar var ellefu ár í Önundarfirði, frá 1811 til 1822 og þjónaði þar sem aðstoðarprestur allan þann tíma.[45] Hann bjó fyrst í Neðri-Breiðadal, síðan á Görðum[46] og loks á Þórustöðum. Frá séra Böðvari segjum við nánar þegar staldrað verður við á Görðum.

Annar prestur sem bjó á Þórustöðum var séra Ásgeir Jónsson prófastur sem átti heima á Þórustöðum þrjú síðustu árin sem hann lifði, 1832-1835.[47] Séra Ásgeiri var veitt Holtsprestakall árið 1821 en áður hafði hann verið þar aðstoðarprestur föður síns frá 1804 til 1810 (sjá hér Holt). Árið 1830 tók séra Ásgeir, sem þá var liðlega fimmtugur að aldri, Jón son sinn til aðstoðarprests. Bjuggu þeir feðgar báðir í Holti næstu tvö ár uns Ásgeir prófastur færði sig að Þórustöðum svo að Jón sonur hans gæti búið einn í Holti. Þau þrjú ár sem séra Ásgeir sat á Þórustöðum hélt hann þó bæði prestsstarfinu og prófastsembættinu, enda mátti heita að hann væri enn á besta aldri.

Annars staðar í þessu riti er sagt frá séra Ásgeiri Jónssyni (sjá hér Sæból og Holt) og hér verður því látið nægja að minna á búsetu hans á Þórustöðum. Vorið 1834 var bústofn prófastsins þessi: 3 kýr, 26 ær, 8 sauðir og hrútar eldri en eins árs, 18 gemlingar og 3 hestar.[48] Svolítill kálgarður var þá hér á Þórustöðum en prófastur átti engan bát.[49] Árin sem Ásgeir prófastur bjó á Þórustöðum var hann yfirleitt með tíu manna heimili eða því sem næst.[50] Í febrúarmánuði árið 1835 voru á heimili prófastshjónanna tveir vinnumenn og þrjár vinnukonur.[51] Þar var líka yngsti sonur hjónanna, Ásgeir,[52] sem síðar varð kaupmaður á Ísafirði og nefndi sig þá Ásgeir Johnsen. Þennan vetur voru einnig á heimili prófasts tvær gamlar konur, báðar hálfníræðar eða því sem næst, þær Elín Hjaltadóttir, sem í manntalinu er sögð lifa á eignum sínum, og Rannveig Jónsdóttir sem þar er kölluð barnfóstra[53] þó að heimilið væri barnlaust þegar hér var komið sögu. Elín sem fyrr var nefnd var af embættismannaættum og bar nafn ömmu sinnar, sem var ein dætra séra Hjalta Þorsteinssonar í Vatnsfirði.[54] Hún var ekkja eftir Pál Þórðarson, bónda í Neðri-Breiðadal,[55] sem týndi lífi í mannskaðanum mikla 6. maí 1812 þegar Ásgeir prófastur náði með harðfylgi að sigla skipi sínu heilu í höfn (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli og Sæból). Hér hefur nú verið talið allt heimilisfólk á Þórustöðum veturinn 1834-1835 nema sjálf prófastshjónin, Ásgeir og Rannveig Matthíasdóttir kona hans.

Þetta var síðasti veturinn sem Ásgeir prófastur lifði, því 13. nóvember 1835 drukknaði hann í Vaðlinum sem er árós skammt fyrir innan Holt. Frá slysi þessu er nánar greint þar sem ritað er um Holt á þessum blöðum.

Þriðji presturinn sem sat á Þórustöðum um skeið á fyrri hluta 19. aldar, var séra Sigurður Tómasson er átti hér heima á árunum 1840-1842 (sjá hér Holt) en hann var þá aðstoðarprestur föður síns, séra Tómasar Sigurðssonar í Holti. Sem aðstoðarprestur þjónaði séra Sigurður Önfirðingum í ellefu ár og átti þá lengst af heima í Holti svo eðlilegt virðist að nánari kynning á honum bíði þess að við komum heim á sjálfan staðinn. Um bæinn sem séra Sigurður bjó í hér á Þórustöðum vísast til þess sem þar verður sagt.

Árið 1823 var ákveðið að flytja þingstað Mosvallahrepps frá Mosvöllum að Þórustöðum.[56] Gamla þinghúsið á Mosvöllum mun þá hafa verið orðið lélegt og af ýmsum ástæðum þótti hentugra að byggja nýtt á Þórustöðum.[57] Um þennan flutning munu þeir Ebenezer Þorsteinsson, sýslumaður í Ytri-Hjarðardal, og Ásgeir Jónsson, prófastur í Holti, hafa ráðið mestu og í bókun frá síðasta manntalsþinginu á Mosvöllum er tekið fram að þingstaðurinn verði fluttur að Þórustöðum með leyfi Ásgeirs prófasts[58] en hann hafði byggingarráðin á þessari kirkjujörð frá Holti.

Árið 1824 þingaði sýslumaður svo á Þórustöðum í fyrsta sinn[59] og þar var þingstaður hins forna Mosvallahrepps æ síðan allt til ársins 1913 en þá var farið að halda hin árlegu manntalsþing á Flateyri.[60] Þinghúsið á Þórustöðum var því helsti veraldlegi samkomustaður Önfirðinga um 90 ára skeið og á árunum kringum aldamótin 1900 var efnt þar til fundarhalda af margvíslegu tagi. Enda þótt manntalsþingin væru færð til Flateyrar árið 1913 var húsið á Þórustöðum notað áfram til samkomuhalds af ýmsu tagi og má sem dæmi nefna að árið 1918 var Kaupfélag Önfirðinga stofnað hér á Þórustöðum.[61] Árið 1920 var þinghúsið sem þá stóð hér í túninu virt á 400,- krónur.[62] Árið 1922 var hinum forna Mosvallahreppi skipt í tvö sveitarfélög eins og hér hefur áður verið gerð grein fyrir (sjá Mosvallahreppur, inngangskafli). Þórustaðir urðu þá þingstaður á ný og hér voru hreppsþing hins nýja Mosvallahrepps jafnan haldin næstu þrjá áratugina.[63]

Í þinghúsinu á Þórustöðum var lengi haldinn barnaskóli.[64] Skólahaldið færðist héðan að Holti árið 1953[65] og fáum árum síðar var líka hætt að halda skilaþing hreppsins hér og þau færð að Holti.[66] Síðasta þinghúsið á Þórustöðum, að líkindum byggt nálægt aldamótunum 1900, var timburhús og stóð um það bil 10 metrum fyrir ofan íbúðarhúsið sem hér er nú.[67]

Á síðari hluta 19. aldar bjuggu ýmsir dugandi bændur á Þórustöðum. Einn þeirra var Halldór Guðmundsson sem var efnabóndi og duglegur formaður.[68] Halldór hefur áður verið nefndur á þessum blöðum (sjá hér Innri-Hjarðardalur) en hann andaðist árið 1887. Ekkja hans, Guðrún Margrét Jónsdóttir, giftist nokkru síðar Kristjáni Bjarnason og bjuggu þau á Þórustöðum fram yfir síðustu aldamót.[69] Þau Halldór bóndi á Þórustöðum og Guðrún kona hans eignuðust sex börn og náðu fimm þeirra að verða fullorðin.[70] Þessi fimm systkini frá Þórustöðum fluttust öll til Ameríku.[71] Sum þeirra settust að í Bandaríkjunum en önnur í Kanada.[72] Elstur þeirra var Halldór Halldórsson, fæddur 27. janúsr 1875 á Hvilft.[73] Hann lauk kennaraprófi frá Flensborgarskóla í Hafnarfirði árið 1895 og var við verslunarnám í Kaupmannahöfn veturinn 1896-1897.[74] Vorið 1897 kom hann heim frá Kaupmannahöfn en fluttist alfarinn af landi brott árið 1898.[75] Frá 1898-1908 dvaldist Halldór í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi en fór síðan til Ameríku og átti þar heima til dauðadags.[76] Hann mun lengi hafa verið búsettur í Winnipeg og seinna í Victoria á vesturströnd Kanada.[77]

Í Ameríku gerðist bóndasonur þessi frá Þórustöðum kaupsýslumaður, byggingameistari og fasteignasali[78] og var um skeið með mikil umsvif í Los Angeles. Halldór Laxness hitti þennan nafna sinn í Kanada sumarið 1927[79] og með þeim tókust góð kynni þó að annar væri þá aðeins hálfþrítugur að aldri en hinn liðlega fimmtugur. Suður í Kaliforníu átti Ástralíufarinn margar íbúðir og svo fór að rithöfundurinn ungi frá Laxnesi kom sér fyrir í einni þeirra og bjó þar í um það bil tvö ár.[80] Í bók sinni Skáldatími segir Halldór Laxness dálítið frá þessum nafna sínum og samskiptum þeirra. Hann kemst þá m.a. svo að orði:

 

Ég dvaldist sumarpart í Kanada eftir að ég kom vestur. Þar kyntist ég Haldorson, fasteignamanni frá Los Angeles. … Haldorson þessi var uppsprottinn úr Önundarfirði en lenti únglingur í Ástralíu og hafði safnað þar fé með einhverjum hætti sem varð efni í þjóðsögur einsog þá að hann hefði orðið ríkur á að selja vatn í eyðimörkinni og borið það í belgjum á bakinu. Við urðum samferða úr Kanada til Los Angeles. Hann var með afbrigðum hlægilegur kumpán og kátertinn félagi; þreyttist aldrei á að þjarka og lét ekkert málefni í friði. Við rifumst stundum marga sólarhringa í senn útaf hlutum sem hann vissi ekkert um, og ég þaðanaf minna, þarámeðal finskri alþýðutónlist. Á jóladag 1927 ortum við í síma hvatningar- og lukkuóskakvæði til alheimsins í tilefni nýársins og vorum allan daginn að þessu í símanum; hann bjó útí Beverley Hills en ég í nánd við miðbæinn. Loks undir kvöld var kvæðið fullort. Það var haft að nýárskvæði í vikuritinu Lögbergi sem gefið er út á íslensku í Winnipeg. Man. Can., þó sem betur fór ekki undir mínu nafni, heldur hans.[81]

 

Í sömu bók greinir Halldór Laxness svolítið nánar frá kynnum þeirra nafnanna en frásögn sinni af Haldorsen Ástralíufara frá Þórustöðum sem orðinn var fasteignamaður í Los Angeles lýkur hann með þessum orðum:

 

Haldorsen átti nokkur nýreist stórhýsi með um það bil hundrað leiguíbúðum í Los Angeles. Þessar íbúðir voru útbúnar með öllum þægindum sem þá var krafist í Ameríku, innanstokksmunir og búshlutir fylgdu, jafnvel rúmfatnaður; og það var ekki til sú íbúð í öllum þessum húsum sem ekki hafði kæliskáp þá þegar árið 1927; ræsting var framin af svertingjum tvisvar í viku á hússins kostnað.

Nokkrum árum seinna varð Haldorson gjaldþrota og lánastofnanirnar tóku af honum öll húsin, en hann sneri slyppur og snauður norður til Kanada þar sem hann átti frændfólk. Þetta var stuttur, feitur og ógurlega herðabreiður maður með næstumþví aungvan háls og augun voru sokkin; en þá sjaldan djarfaði fyrir þeim uppgötvaði maður að þau voru hrein og klókindaleg. Haldorson var einsog sum gömul staup sem einginn mannlegur máttur fær til að leggjast útaf meðan þau eru heil, heldur standa þau ævinlega upp aftur. Eftir nokkur ár hafði hann eignast stórhýsi í Winnipeg, Man. Can., og var farinn að skrifa bækur á ensku sem hann gaf út sjálfur, um nauðsyn þess að koma á sósíalisma í Norðurameríku.[82]

 

Innihald þeirra bóka munu fáir hafa kannað og hér verður látið nægja að birta aðeins eitt sýnishorn úr ritverkum Halldórs Halldórssonar frá Þórustöðum, brot úr kvæði sem hann nefndi Vesturland og birtist í Lögbergi, blaði Íslendinga vestanhafs, 13. nóvember 1947. Það er sex erindi og fyrsta vísan hljóðar svo:

 

Ég heilsa þér foldin hárra fjalla.

      Hagsæla Vesturland!

Heill þér Barði. Heill þér Göltur. Heill þér Bjarg

      við Rauðasand.

Heill þér klettur Hornstranda. Við Hornið lengi

      muntu standa.

Ísar, stormar, straumar landa – þinni stoltu ró

      fær ekkert granda.

Þið, hafsins mið með háa skalla.

      − Ykkur haffarendur þekkja alla.

 

Halldór frá Þórustöðum sem orti þessar hástilltu ljóðlínur kvæntist árið 1909 danskri konu.[83] Hún hét Lára Larsen og vestur í Ameríku munu þau hafa eignast fimm börn.[84] Halldór andaðist 18. febrúar 1951[85] og var þá orðinn 76 ára gamall en nær 53 ár liðin frá því hann yfirgaf sinn fæðingarhrepp og lagði af stað til Ástralíu.

Móðir Halldórs Ástralíufara, Guðrún Margrét Jónsdóttir, andaðist hér á Þórustöðum árið 1904[86] en fimm árum síðar fluttist hingað Hólmgeir Jensson dýralæknir frá Tungu í Firði.[87] Hann keypti jörðina[88] og bjó hér til ársins 1931 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 352). Baðstofan sem Hólmgeir bjó í með sínu fólki hér á Þórustöðum árið 1920 var 11 x 5 álnir en skúrbygging við hlið hennar 11 x 4 álnir.[89] Hér var þá 480 ferfaðma matjurtagarður og girðingar orðnar 1000 metra langar.[90] Súrheystótt átti Hólmgeir líka en ekki er getið um stærð hennar í matsgerðinni sem hér er byggt á.[91] Tíu árum síðar hafði engin meiriháttar breyting orðið á bæjarhúsum en þá var komið vatn í bæinn.[92] Árið 1920 hafði töðufall á Þórustöðum verið talið 90 hestar (sjá hér bls. 3) en um 1930 fengust 180 hestar af túninu sem þá var 4 hektarar.[93] Bústofn Hólmgeirs var þá 4 kýr, 70 kindur og 4 hestar.[94] Frá Hólmgeiri dýralækni verður sagt nokkru nánar á bæjarhlaðinu í Tungu í Firði en þar ólst hann upp og í Tungu hóf hann sínar merkilegu lækningar á síðasta áratug 19. aldar.

Frá Þórustöðum liggur nú leið okkar heim á staðinn í Holti. Spölurinn milli bæjanna er aðeins hálfur annar kílómetri. Á þeirri leið er gott að virða fyrir sér klettana í Þórustaðahorni en svo heitir norðurhornið á Holtsfjalli.[95] Hlíðin neðan við hornið heitir Þórustaðahlíð[96] og nær inn að Tvísteinum en svo heitir allstór dökkur steinn sem er nokkru neðar en um miðja hlíð.[97] Þar eru landamerki Þórustaða og Holts.[98] Upp af Tvísteinum er Hlaðshryggur, grasigróin skriða á landamerkjum.[99]

 

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jarðab. Á. og P. VII, 102-103.

[2] Sama heimild.

[3] D.I. III, 324, IV, 141 og XV, 572-573.

[4] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821, 1830 og 1834. VA III, 407-424, búnaðar-

skýrslur 1837-1880. Manntöl frá 19. öld.

[5] Manntal 1703. J. Johnsen 1847, 195. Fasteignabók 1921, 79. Fasteignabók 1932, 52.

[6] D.I. III, 324 og IV, 141.

[7] D.I. XV, 572-573.

[8] Sama heimild.

[9] Björn M. Olsen 1910, 4-5 (Skírnir, 84. árg.).

[10] D.I. XV, 572-573.

[11] Jarðab. Á. og P. VII, 102-103 og 105-106.

[12] Sama heimild.

[13] J. Johnsen 1847, 195. Sóknalýs. Vestfj. II, 103.

[14] Fasteignabók 1921, 79.

[15] Sama heimild, 79-81. Jarðab. Á. og P. VII, 95-115.

[16] D.I. III, 324.

[17] Jarðab. Á. og P. VII, 102-103.

[18] Sama heimild.

[19] Sama heimild.

[20] Sóknalýs. Vestfj. II, 103.

[21] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ísafj.sýslu, löggilt 9.3.1916, bls. 69.

[22] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ísafj.sýslu, löggilt 26.3.1919, bls. 150.

[23] Ísl. æviskrár IV, 374.

[24] Sama heimild.

[25] Sama heimild.

[26] Jón Halldórsson 1910, 306-307 (Biskupasögur I).

[27] Frá ystu nesjum II, 33.

[28] Sama heimild. Annálar III, 132.

[29] Siglaugur Brynleifsson 1976, 155-162. Þórhallur Guttormsson 1973, 60-62.

[30] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[31] Manntal 1703.

[32] Jarðab. Á. og P. VII, 102-103.

[33] Sama heimild.

[34] Sama heimild.

[35] Sama heimild.

[36] Sama heimild.

[37] Sama heimild.

[38] Sama heimild.

[39] Sama heimild, 102.

[40] Bændatöl og skuldaskrár, Ísafj.sýsla um 1735, eftirrit. Jarða- og bændatal úr Ísafj.sýslu, 1753, eftirrit.

Manntal 1762.

[41] Manntöl frá 19. öld.

[42] Manntal 1901, fylgiskjöl.

[43] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosvallahr. 1. Hreppsbók 1786-1819 og 2. Hreppsbók 1819-1835.

[44] Ísl. æviskrár I, 296.

[45] Sama heimild.

[46] Sama heimild.

[47] Ísl. æviskrár I, 92-93.

[48] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrsla 1834.

[49] Sama heimild.

[50] Sama heimild og Manntal 2.2.1835.

[51] Manntal 1835.

[52] Sama heimild.

[53] Sama heimild.

[54] Ísl. æviskrár II, 360.

[55] Sama heimild og Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holtspr.kalls.

[56] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 6. Dóma- og þingbók 1817-1834.

[57] Sama heimild.

[58] Sama heimild

[59] Sama heimild.

[60] Snorri Sigfússon 1969, 160. Þjóðviljinn 30.4.1913, XXVII. árg., bls. 67.

[61] Snorri Sigfússon, bls. 202.

[62] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók yfirfasteignamatsnefndar í Ísafj.sýslu, löggilt 9.3.1916, bls. 173.

[63] Hagalín Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 2.8.1993.

[64] Sama heimild.

[65] Sama heimild.

[66] Sama heimild.

[67] Sama heimild.

[68] Þórður Sigurðsson 1986, 21.

[69] Prestsþj.b. Holts í Önundarf. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosvallahreppur 5. Hreppsbók 1883-1912.

[70] Eyjólfur Jónsson 1967, 93-96.

[71] Sama heimild.

[72] Sama heimild.

[73] Sama heimild.

[74] Kennaratal 1958, I, 247.

[75] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[76] Eyjólfur Jónsson 1967, 94.

[77] Sama heimild.

[78] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar. Eyjólfur Jónsson 1967, 94.

[79] Halldór Laxness 1963, 49-51.

[80] Sama heimild, 51.

[81] Halldór Laxness 1963, 49.

[82] Halldór Laxness 1963, 50-51.

[83] Eyjólfur Jónsson 1967, 94.

[84] Sama heimild.

[85] Sama heimild. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[86] Sömu heimildir.

[87] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[88] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ísafj.sýslu, löggilt 26.3.1919, bls. 150.

[89] Sama heimild.

[90] Sama heimild.

[91] Sama heimild.

[92] Fasteignabók 1932, bls. 52.

[93] Fasteignabók 1932, bls. 52.

[94] Sama heimild.

[95] Óskar Ein. 1951, 115.

[96] Sama heimild.

[97] Sama heimild.

[98] Sama heimild.

[99] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »