Vestur-Botn, Hlaðseyri og Raknadalur

Vestur-Botn, Hlaðseyri og Raknadalur

Svo sem fyrr var getið heitir innsti hluti Patreksfjarðar Ósafjörður og er sjálfur fjarðarbotninn nefndur Ósar. Utarlega við norðanverðan Ósafjörð stendur bærinn Vestur-Botn, gömul bújörð sem enn (1988) er í byggð. Eru þaðan liðlega tveir kílómetrar inn í fjarðarbotn en frá Skápadal er um það bil einum kílómetra lengra inn í Ósa. Frá fjarðarbotninum í Ósum liggur þjóðvegurinn á Kleifaheiði til Barðastrandar og hefur þeirri leið áður verið lýst (sjá hér frá Haga á Siglunes).

Akvegurinn upp frá Ósum og á Kleifaheiði liggur á svipuðum slóðum og gamla reiðgatan áður. Hún lá á fyrri tíð rétt á barmi Bárðargils og var þá oft ófær á vetrum sökum harðfennis.[1] Síðar var hún færð fjær gljúfurbarminum.[2]

Ósaá fellur í fjarðarbotninn, komin ofan af Fjalldal og á leiðinni fellur í hana Kleifaá sem rennur af Kleifaheiði um hið hrikalega Bárðargil. Margir fossar eru í Ósaá. Blasir sá neðsti við vegfarendum og hefur verið virkjaður af bændum í Vestur-Botni. Ósakista heitir í hálendisbrúninni þar sem áin fellur í þröngum gljúfrum.[3] Við Ósa er áin orðin vatnsmikil og áður en virkjað var féll hún síðasta spölinn í mjóum snardjúpum ál út í fjörðinn og var állinn nefndur Stokkur.

Auk Ósaár falla bæði Arnarstapaá og Hrófá í innanverðan Ósafjörð að norðan og er mikið útfiri í fjarðarbotninum. Þar hafa nú (1988) alllengi verið stundaðar tilraunir með fiskirækt.

Utan við Hrófá og skammt innan við bæinn í Vestur-Botni gengur Skeiðseyri fram í fjörðinn. Þar mátti ríða yfir um lágsjávað. Á Skeiðseyri munu Barðstrendingar sem reru í Kollsvíkurveri að líkindum hafa geymt báta sína í vetrarlægi (sjá hér Kollsvík og Kollsvíkurver, bls. 9 þar).

 

Vestur-Botn eða Botn í Patreksfirði þótti góð bújörð og hér var löngum tvíbýli en að auk búið á Hlaðseyri sem upphaflega var hjáleiga frá Botni. Einkum þótti jörðin vel fallin til sauðfjárbúskapar og segir Pétur Jónsson frá Stökkum að hún sé talin ein hin mesta flutningsjörð.[4] Í sóknarlýsingunni frá 1840 er Vestur-Botn (án Hlaðseyrar) sagður 24 hundruð að dýrleika og þá er engin jörð við Patreksfjörð talin stærri nema Sauðlauksdalur.[5] Jörðin átti mikið land og hér var lengi nokkurt skóglendi. Sauðlauksdalskirkja átti skógarítak í Botni.[6]

Í byrjun 18. aldar var séra Páll Björnsson í Selárdal eigandi jarðarinnar. Þá var hér tvíbýli og lá sú kvöð á öðrum bændanna að róa á útvegi séra Páls en hinn bóndinn í Botni átti sitt skip sjálfur og slapp við slíka kvöð.[7]

Landkostum í Vestur-Botni lýsir Árni Magnússon prófessor á þessa leið árið 1703:

 

Jörðin á rifhrís gott, sem ábúendur brúka til eldiviðar sér og kolgjörðar, og mega ekki ljá öðrum. Stundum gefur landsdrottinn nokkrum mönnum orðlof til kolagjörðar, og meina ábúendur hann þiggi ekkert í toll þar fyrir. Grasatekja á fjallinu mætti vera að nokkru liði þó lítil sé. Selveiði hefur þar verið en nú um stundir ekki heppnast þó tilreynt hafi verið. Hrognkelsaveiði hefur verið en nú ekki heppnast um stundir. Skelfiskfjara til bjargar nokkrar ef á liggur. … Engjar öngvar, nema hvað hent er á votlendum skógarsundum. En útigangur rétt góður.[8]

 

Eitt af því sem þarna er nefnt er selveiði og svo er víðar þar sem Árni lýsir jörðum við Patreksfjörð. Hann nefnir ekki hvaða veiðiaðferð menn noti hér við selveiðar en rösklega hálfri öld síðar ritar Eggert Ólafsson: Í Patreksfirði skjóta menn seli með byssum. Við það styggjast þeir og fuglar fælast einnig skotin. Sumir Ísfirðingar veiða ennþá seli með skutlum að fornum sið.[9] Í þessum efnum hafa Patreksfirðingar farið öðru vísi að en nágrannar þeirra í Arnarfirði sem skutluðu seli langt fram eftir 19. öld (sjá hér Auðkúluhreppur).

Um skóginn í Vestur-Botni tekur Árni Magnússon fram að hér sé ei höggskógur, heldur rifhrís.[10] Bænhús var í Vestur-Botni á kaþólskri tíð, að sögn Árna Magnússonar[11] en aðrar heimildir munu ekki vera til fyrir því.

Jón Guðmundsson hét bóndi í Vestur-Botni um miðbik 18. aldar. Ólafur Árnason var þá sýslumaður Barðstrendinga og kom dag einn að Botni ásamt Halldóru konu sinni. Svo stóð á að Jón var að smíða laup er sýslumannshjónin bar að garði og hafði því tálguhníf í hendi er hann gekk til dyra. Ekki vakti hnífurinn þá neina sérstaka athygli sýslumanns en er þau héldu brott benti Halldóra eiginmann sínum á að bóndi þessi hefði gengið í mót yfirvaldi sínu með opinn hníf í hendi og væri full ástæða til að sekta hann fyrir þvílíkt athæfi. Sýslumaður fagnaði þessari snjöllu ábendingu frúarinnar, kallaði bóndann í Vestur-Botni fyrir sig og kúgaði hann að sögn til að selja sér sjálfdæmi um sektarupphæð fyrir móttökurnar. Urðu þau fjárútlát ærin svo lítið varð eftir af búi hans þó vel væri hann fjáreigandi áður.[12]

Frá Vestur-Botni lá á fyrri tíð þjóðbraut um Botnaheiði norður í Tálknafjörð. Farið var nær beint norður yfir fjallið og síðasta spölinn niður í Tálknafjörð um Hálsgötu þar sem akvegurinn liggur nú. Á Botnaheiði var farið hæst í um 540 metra hæð en öll er leiðin milli bæja, frá Vestur-Botni í Patreksfirði að Norður-Botni í Tálknafirði, ekki nema um það bil níu kílómetrar.

Að þessu sinni leggjum við ekki á Botnaheiði en fylgjum akveginum út norðurströnd Patreksfjarðar. Utan við túnið rennur Botnsá til sjávar en rétt utan við ána og neðan vegar stendur sérkennilegur hóll við sjóinn og heitir Höfði. Frá Vestur-Botni að Hlaðseyri eru um þrír kílómetrar. Í svo sem hundrað metra hæð og nær miðja vega milli bæjanna er Seljadalur með nokkru gróðurlendi og má ætla að þar hafi verið haft í seli frá Botni. Lækur fellur af Seljadal til sjávar skammt innan við Hlaðseyri og heitir Seljadalsá.

 

Um Hlaðseyri er þess getið í Jarðabók Árna og Páls að jörðin sé hjáleiga frá Botni en þar hafi byggð hafist fyrir minni þálifandi manna,[13] – með öðrum orðum eigi síðar en mjög snemma á 17. öld. Sem hlunninda á Hlaðseyri er í Jarðabókinni getið sérstaklega um grös og krækling.[14] Bærinn  stendur hér á lítilli eyri við sjóinn. Á Hlaðseyri var búið fram undir 1970.

Meðal kunnari bænda er búið hafa á Hlaðseyri er Björn Pétursson sem hér var við búskap á síðari hluta 19. aldar. Bætti hann mjög jörðina. Í skýrslu sinni um búnaðarástand í Rauðasandshreppi árið 1887 segir Hermann Jónasson, síðar búnaðarskólastjóri:

 

Jarðabætur eru mjög litlar í hreppnum. Helstar eru þær hjá sýslunefndarmanni Birni Péturssyni á Hlaðseyri. Hann hefir girt túnið og sléttað nokkuð í því. En jörðin er mjög harðbalaleg og því erfitt að fást þar við jarðabætur.[15]

 

 

Frá Hlaðseyri liggur leiðin að Raknadal og er það skammur spölur, tæpir tveir kílómetrar. Fjallið innan við Raknadal heitir Svörtuloft en við veginn undir Svörtuloftum ganga klettabríkur fast fram að firðinum.[16] Heita þær Stapar og liggur akvegurinn fjallmegin við Stapana. Á fyrri tíð var oft illfært þarna að vetrarlagi.[17] Bærinn í Raknadal stendur á háum bökkum ofan vegar en skammt frá sjó. Samnefndur dalur, þröngur og lítt gróinn, gengur þar inn í fjalllendið. Um hann fellur Raknadalsá.

Ætla má að nafn bæjarins og dalsins sé dregið af orðinu rökn sem merkir eyki eða dráttardýr – og hafa uxar trúlega verið látnir ganga á dalnum til forna.

Í Jarðabók Árna og Páls er minnst á gamalt sel frá Raknadal og fram kemur að í seli þessu hafi verið búið á 17. öld.[18] Utan við miðja Raknadalshlíð heitir enn Sel[19] og gera verður ráð fyrir að þar hafi selið verið, enda þótt ótrúlegt kunni að virðast.

Árið 1703 bjó maður að nafni Grímur Halldórsson í Raknadal, leiguliði séra Páls Björnssonar í Selárdal. Á vorvertíð reri Grímur þá í Hænuvík á þriggja manna fari sem hann átti sjálfur.

Gunnlaugur hét maður Gíslason og bjó í Raknadal um skeið, tengdafaðir séra Jóns Vestmann, sem fæddur var 1769, en tengdasonur Þórðar lögréttumanns Jónssonar á Haukabergi á Barðaströnd sem fæddur var 1692.[20] Á búskaparárum Gunnlaugs í Raknadal ætlaði allt hér um koll að keyra í reimleikum. Var það sjálfur Mókollur sem hér gekk um garða en frá þeim skæða uppvakningi hefur áður verið greint á þessum blöðum (sjá hér Frá Brjánslæk að Haga, – Hamar þar). Var hann þá oft nefndur Raknadalsdraugurinn.[21]

Fjallið utan við Raknadal heitir Raknadalstagl, tæplega 300 metrar á hæð, og hlíðin út með firðinum Raknadalshlíð. Nær hún að Altarisbergi en við þá bergsnös eru (1988) hreppamörk Rauðasandshrepps og Patrekshrepps. Hefur svo verið frá árinu 1907 er hinum forna Rauðasandshreppi var skipt. Frá Raknadal að Altarisbergi eru um þrír og hálfur kílómetri en Selið, sem áður var nefnt, er rétt innan við Altarisberg. Raknadalshlíð er brött og hrjóstrug klettahlíð og þar er nær ekkert undirlendi. Talsverð beit er samt á hlíðinni og sólríkt á útmánuðum.[22] Þótti því vorgott í Raknadal meðan beitin var undirstaða sauðfjárbúskapar í landinu.

Á fyrri tíð var leiðin um Raknadalshlíð stundum illfær á vetrum sakir svellalaga og var þá farið frá Raknadal yfir fjall (Raknadalstagl) niður í Mikladal og síðan áfram að Geirseyri eða Vatneyri. Þótti það jafnan illur vegur eins og haft var á orði um miðja átjándu öld.[23]

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Pétur Jónsson 1942, 104 (Barðstrendingabók).

[2] Sama heimild.

[3] Jóhann Skaptason 1959, 128 (Árbók F.Í.).

[4] Pétur Jónsson 1942, 104.

[5] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 210-211.

[6] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 326.  Sóknalýsingar Vestfj. I, 214.

[7] Jarðab. Á. og P. VI, 330.

[8] Sama heimild.

[9] Eggert Ólafsson 1975, I, 310.

[10] Jarðab. Á. og P. VI, 337.

[11] Sama heimild, 330.

[12] Blanda V, 115-116.

[13] Jarðab. Á. og P. VI, 331.

[14] Sama heimild.

[15] Hermann Jónasson 1888, 159 (Búnaðarritið).

[16] Pétur Jónsson 1942, 105 (Barðstrendingabók).

[17] Sama heimild.

[18] Jarðab. Á. og P. VI, 331.

[19] Pétur Jónsson 1942, 105 (Barðstrendingabók).

[20] Íslenskar æviskrár III, 295.  Lögréttumannatal IV, 542.

[21] Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, 327.

[22] Pétur Jónsson 1942, 105.

[23] Sýslulýsingar 1744-1749, 146 (gefnar út 1957).

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »