Ystu bæir við Patreksfjörð

Ystu bæir við Patreksfjörð

– Hænuvík og Sellátranes –

 

Patreksfjörður er syðstur allra hinna mörgu Vestfjarða á strandlengjunni frá Látrabjargi að Rit. Fjörðurinn afmarkast að vestan (sunnan) af Blakknesi en að norðan af fjallinu Tálkna, yst á hamraskaganum milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar. Norðan Tálkna er Tálknafjörður. En þar sem Tálkni nær skemmra til hafs en útskagarnir sunnan hans og norðan verður einn flói úti fyrir mynni beggja fjarðanna, Patreksfjarðar og Tálknafjarðar. Heitir hann Patreksfjarðarflói. Vegalengdin frá Blakknesi í Patreksfjarðarbotn er um 28 kílómetrar en frá Tálkna um 22 kílómetrar sé róið með landi. Við mynnið er fjarðarbreidd um ellefu kílómetrar en fjórtán kílómetrar yfir flóann, frá Blakknesi að Arnarstapa norðan Tálknafjarðar. Innantil er breidd fjarðarins víðast tveir til sex kílómetrar nema við fjarðarbotninn þar sem heitir Ósafjörður. Innfjörður sá er um þrír kílómetrar á lengd og innan við einn kílómetri á breidd.

Fjöllin umhverfis Patreksfjörð eru flest 200 til 500 metrar á hæð en í fjalllendinu milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar fer hæðin þó sums staðar nokkuð yfir 500 metra. Landslag er víðast hvar fremur hrjóstrugt við Patreksfjörð, einkum að norðanverðu. Frá fornu fari hafa bújarðir við Patreksfjörð verið fimmtán eða því sem næst, flestar á vesturströndinni og í dölum upp frá henni. Frá aldaöðli hafa íbúar Patreksfjarðar sótt sjó af kappi, enda gjöful fiskimið skammt undan. Þorp fór þó ekki að myndast við Patreksfjörð fyrr en á síðasta fjórðungi 19. aldar er þurrabúðarmenn tóku að setjast að á Eyrum við norðanverðan fjörðinn. Þá hafði Vatneyri lengi verið verslunarstaður, a.m.k. allt frá því á 16. öld (sjá hér Geirseyri og Vatneyri).

Til ársins 1907 var öll byggðin við Patreksfjörð í Rauðasandshreppi. Á því ári var hreppnum skipt í Rauðasandshrepp og Patrekshrepp. Í þeim síðarnefnda eru eingöngu íbúar þorpsins. Á Patreksfirði (þorpinu) bjuggu árið 1990 926 manneskjur en aðeins 92 í öllum Rauðasandshreppi.[1]

Frá Kollsvík er liðlega tveggja tíma gangur yfir hálsinn að Hænuvík, ystu byggð við Patreksfjörð. Í Hænuvík var oftast tvíbýli eða fleirbýli og þar er enn búið (1988). Grösugur dalur gengur upp frá víkinni og er gróður hér meiri en víðast annars staðar við Patreksfjörð ef frá er skilin Örlygshöfn. Fram undan Hænuvík er Patreksfjörður um sex kílómetrar á breidd og handan fjarðar blasa við sæbrattar hlíðar Tálkna.

Hrognkelsaveiði var oft ágæt í Hænuvík og allgóð vetrar- og fjörubeit.[2] Frá Hænuvík eru um sex kílómetrar með sjó út á Blakknes. Á þeirri leið miðri er Láturdalur í landi Hænuvíkur og var þar útræði á fyrri tíð. Undirlendi er nær ekkert í þessari dalkvos en stutt á miðin í Patreksfjarðarflóa.

Frá Hænuvík reru sjö bátar á vorvertíð 1703 og aðrir níu frá Láturdal.[3] Þar var þá fjölmennasta verstöðin í Rauðasandshreppi því hvergi annars staðar voru bátarnir fleiri en sjö og þá að heimabátum meðtöldum.[4] Um Láturdal segir m.a. svo í Jarðabók Árna og Páls:

 

Láturdalur er ekkert býli, nema þurrar vermannabúðir, og býr enginn lengur en vertíð stendur. Þar eru sjö þurrar vermannabúðir. Á landsdrottinn fimm af þeim, sem hann heldur uppi að viðum. En tvær, sem aðkomandi formenn eiga viðu í og uppihalda sjálfir. Maðkar brúkast ei til beitu og því öngvir maðkafiskar. … Langræði er þar ekki mikið. Lending háskasöm, helst um fjöru, fyrir flúðum og stórgrýti, … . Sjór gengur upp undir háa klettabakka svo að með stórflæðum er þar hvorki vært skipum né fiski, og verður því að binda skip á loft við klettana ef stórviðri fylgja stórstraumsflæðum.[5]

 

Aðeins nálægðin við fiskimiðin hefur laðað menn til sjóróðra frá þessum stað. Í Jarðabókinni eru allir formennirnir í Láturdal nafngreindir og þess getið hvaðan þeir séu. Sex eru frá bæjum við vestanverðan Patreksfjörð, tveir af Barðaströnd og sá níundi, Hermann Jónsson, aðkominn úr Borgarfirði, er ýmist nefndur lausamaður eða flakkari.[6] Flestir bátanna sem reru úr Láturdal árið 1703 voru 3ja manna för en þó voru þar tvö fjögra manna för og eitt fimm manna far.[7] Í Láturdal stóð vertíðin frá sumarmálum til þingmaríumessu (2. júlí) svo sem algengt var á þessum slóðum. Vertollurinn var 2 fjórðungar af fiski, þ.e. tíu kíló, af hverjum manni og skyldi goldinn landsdrottni í vertíðarlok.[8] Af tveimur bátum frá Sellátranesi var þó enginn vertollur goldinn. Formannskaup í Láturdal var þá tíu kíló af smjöri hjá flestum.[9]

Í sýslulýsingu frá árinu 1746 má sjá að þá var einnig róið frá Láturdal[10] og Gísli Konráðsson getur þess að árið 1781 hafi Einar Magnússon frá Hnjóti í Örlygshöfn drukknað við róðra þaðan.[11] Allt bendir þetta til þess að frá Láturdal hafi sjór verið sóttur alla 18. öldina. Í sóknarlýsingu séra Gísla Ólafssonar frá árinu 1840 er Láturdals hins vegar ekki getið sem verstöðvar en sagt að allir innlendir og af Barðaströnd rói frá Brunnum.[12] Síðar var þó stundum róið frá þesari verstöð í landi Hænuvíkur á vorvertíð. Þar var Jochum Eggertsson hálfdrættingur vorið 1908 svo sem hann greinir frá í rituðum þætti er hann kallar Trýnaveður.[13] Fram undir 1940 stunduðu Kollsvíkingar hrognkelsaróðra frá veiðistöð þessari og var þá gengið til róðranna heiman úr Kollsvík og yfir hálsinn.[14] Vorið 1901 gerði Guðmundur Bárðarson á Vatneyri út þrjá báta frá Láturdal og var Hallbjörn Oddsson, þá bóndi á Bakka í Tálknafirði, háseti á einum þeirra.[15] Hann segir frá á þessa leið:

 

Við höfðum engin hrognkelsanet í Láturdal því þar er lítt mögulegt að eiga net vegna stórbrima. Við fórum því í Skersbug [sjá hér Hvalsker] frá Vatneyri áður en við fluttum í verið og fengum mikið af kúfiski. … Stuttu síðar fluttu allir bátar Guðmundar Bárðarsonar út í Láturdal. Fyrir einum bátnum var Guðmundur sjálfur, fyrir öðrum Ólafur Bjarnason, hálfbróðir Árna á Kvígindisfelli, og þeim þriðja Ingimundur frá Kotum í Patreksfirði. Þeir Ólafur og Ingimundur gátu strax flutt í verbúð er út eftir kom en Guðmundur hafði enga fyrir sig og skipshöfn sína. Ætlaði hann því að vera í tjaldi yfir vertíðina. Er út eftir kom slógum við því upp tjaldi, rétt fyrir innan háan klett, sem afmarkar plássið að innanverðu. Þar var dálítill grasblettur fyrir ofan flæðarmál, sem við reistum tjaldið á því við töldum því þar óhætt á vordegi brims vegna.[16]

 

Hallbjörn greinir síðan frá því að þessa fyrstu nótt í Láturdal vakna þeir skipsfélagar við að brim buldraði á tjaldinu og allt að verða gegnvott. Urðu þeir að færa tjaldið upp á bakka.

Óhæg hefur aðstaðan verið til fiskverkunar þarna í Láturdal þar sem sjór gekk upp í kletta í haust- og vetrarbrimum og jafnvel á vordegi gat reynst erfitt að verja bátana. Úrræðum við fiskverkunina lýsir Hallbjörn svo:

 

Eins og allir hljóta að skilja var ómögulegt að þurrka nokkuð fyrir neðan bakka. Ómögulegt var líka að bera fiskinn blautan til þurrkunar úr víkinni inn fyrir klettinn, sem við tjölduðum við og þar upp háan og snarbrattan bakka. Við grófum því niður rekaviðardrumb uppi á bökkunum upp af vörinni, á að giska faðm frá klettaröndinni, og höfðum efst á honum blokk og í henni streng, sem náði ofan í vör. Við drógum þannig upp á bakka allt, er við vildum herða og reyndar allt, sem þurfti að koma upp á bakka, hverrar tegundar sem var, og fíruðum öllu niður, sem þá leið þurfti að fara. Við settum okkur svo upp hjalla og hlóðum steinbítsgarða eins og í hverri annarri veiðiðstöð á Vestfjörðum.[17]

 

Oft var tví- og þríróið sama daginn úr verstöðinni í Láturdal vorið 1901 en alls voru þar þá við róðra fjórir bátar. Auk þriggja báta Guðmundar Bjarnasonar reri þaðan bátur frá Hænuvík og var Ívar bóndi þar formaður á honum.[18] Ívar átti verbúð í Láturdal og fékk Guðmundur að koma skipshöfn sinni fyrir í henni svo að þar voru tvær skipshafnir á þessari vertíð.[19] Tvö hundruð og fimmtíu krónur fékk Hallbjörn í hlut eftir þessa vorvertíð og með honum í skiprúmi var Sigurður sonur hans, drengur á fermingaraldri, líka ráðinn upp á heilan hlut. Þeir feðgar þénuðu því til samans 500,- krónur á vertíðinni og var það mikið fé á þeirri tíð[20] eða sem svaraði um það bil fimm kúgildum.

Sigurður Hallbjarnarson var fermdur í Selárdal í Arnarfirði á hvítasunnunni þetta vor og var fluttur að Bakka í Tálknafirði eftir sjóferð í miðri vikunni fyrir hvítasunnu og gekk þaðan norður í Selárdal. Hallbjörn faðir hans segir frá erfiðri sjóferð laugardaginn fyrir hvítasunnu en þá var aflanum landað á Vatneyri og bætir síðan við:

 

Er búið var að salta fiskinn og vinna annað, sem fyrir lá, lagði ég á Lambeyrarháls og var fluttur yfir sundið að Sveinseyri og gekk svo út að Bakka. Þar svaf ég nálægt tveimur tímum og fór svo til Selárdals því þar fermdi séra Lárus þá. Ég kom þar lítið áður en gengið var í kirkju og var við ferminguna.[21]

 

Strax að fermingu lokinni lögðu þeir feðgar á heiðina og á annan í hvítasunnu voru þeir komnir í kúfisktekju inn í Skersbug. – Í kúfisktekjunni var sullast fram á miðjan daginn eftir. Síðan var haldið út í Láturdal og þá fyrst eftir fjóra daga fékk ég rólegan svefn þar til farið var á sjóinn um nóttina, segir Hallbjörn.[22] Síðan var haldið áfram róðrum og er hér góð mynd og sönn af lífsbaráttu alþýðufólks á fyrstu árum tuttugustu aldar.

Hallbjörn og drengur hans reru frá Láturdal vorið 1901. Sjö árum síðar, 1908, voru vorróðrar enn stundaðir frá þessari verstöð þar sem brimið gengur upp í kletta og því erfitt að verja bátana fyrir súgandi sjó. Þá var Jochum Eggertsson hálfdrættingur í þessari sömu veiðistöð eins og hér var áður nefnt.

Svo sem áður sagði reru sjö bátar úr heimavör í Hænuvík á vorvertíð 1703. Tveir þeirra voru heimabátar og hér var heimræði árið um kring. Hinir bátarnir fimm voru allir frá bæjum við Patreksfjörð, þ.e. Vatnsdal, Raknadal, Geirseyri og Vatneyri.[23] Tvær verbúðir voru í Hænuvík á þessum tíma en aðeins önnur þeirra í notkun. Fjórar skipshafnir af aðkomubátunum héldu til heima á bæjunum í Hænuvík.[24] Vertollur útróðramanna var sá sami og í Láturdal en heimamenn í Hænuvík guldu engan toll.

Þeir sem reru frá Hænuvík í byrjun 18. aldar beittu sumir sandmaðki. Í Jarðabókinni segir: Maðkafiskar gefast af óskiftu ef sá er grefur missir fyrir það svefns síns og grefur maðk um nætur. Ella skiftast hásetar til og tekur enginn neina maðkafiska.[25] Maðkafiskur var greiddur þeim sem annaðist beituöflunina. Var það stærsti fiskurinn úr hverjum róðri.[26]

Í Jarðabókinni kemur líka fram að frá Hænuvík var róið með lóðir fyrir 1703 en því hætt þegar stórþorskur lagðist frá.[27] Jarðabókin geymir ýmsar fleiri upplýsingar um sjósókn frá Hænuvík svo sem þessar:

 

Hálfdrættingar eru sjaldan og hafa hálft það sem þeir draga undir borð. En af stærri dráttum fær hann ekki nema einn lim. … Þjónustukaup gelst ekkert. … Lending aðgæslusöm mjög fyrir flúðum og útgrynni. Langræði mikið[28]

 

Athygli vekur að langræði er sagt mikið og hafa menn þá haft í huga samanburðinn við Láturdal.

Í öllum verstöðvum á Suðurlandi og Vestfjörðum áttu menn á þessum tíma að greiða ákveðinn skatt til holdsveikraspítalanna í landinu, einn hlut af hverju skipi einn vertíðardag.[29] Sums staðar mun þessi skattur þó ekki hafa runnið til spítalanna en þess í stað verið varið til að framfleyta sveitarómögum. Mun svo hafa verið í Rauðasandshreppi.[30] Í Jarðabók Árna og Páls segir þar sem ritað er um Hænuvíkurver að hreppstjórar láti sér ekki lynda minni hospitalhlut en sex fiska.[31]

Langt var til kirkju frá Hænuvík meðan allir bæir við Patreksfjörð áttu kirkjusókn að Saurbæ á Rauðasandi en svo var háttað allt til ársins 1512 (sjá hér Saurbær á Rauðasandi). Bænhúsi var komið upp í Hænuvík en trúlega hefur það verið lagt niður kringum siðaskipti.[32] Kunnugt er um einn prest sem sat í Hænuvík meðan prestakallið var þingabrauð. Var það séra Jón Erlingsson sem lengi var prestur í Rauðasandsþingum á fyrri hluta 16. aldar.[33]

Innan við Hænuvík gengur fram Hænuvíkurnúpur og liggur leiðin með sjó framan í núpnum. Innan við hann tekur við svolítil dalkvos og stendur þar innst á sjávarbakkanum bærinn Sellátranes, stutta bæjarleið frá Hænuvík.

Sellátranes byggðist úr landi Hænuvíkur snemma á 17. öld[34] og hefur verið búið þar síðan allt til þessa (1988). Talið var að á jörðinni mætti fóðra tvær kýr og sex ær en annað búfé yrði að lifa á útigangi.[35] Í byrjun 18. aldar var tvíbýli á Sellátranesi og reru heimamenn frá Láturdal en vorið 1703 voru tveir menn frá öðrum bæjum við róðra frá Sellátranesi á einu tveggja manna fari. [36] Lendingin þótti ekki góð. Í Jarðabók Árna og Páls segir svo um hana:

 

En hér verður fyrir háum grasbökkum ekki komið skipum undan stórflæðum, nema þau séu reist upp við bakkana þar sem til þess hefur verið ætlað og brotið hrófkorn með járnum í melbakkann.[37]

 

Frá Sellátranesi sést fyrst fyrir Tálkna að Sellátrum í Tálknafirði ef komið er að innan. Líklegt er að nesið dragi nafn sitt af þessu. Á Háanesi, rétt innan við bæinn á Sellátranesi, stendur viti og var á sínum tíma gefinn af fyrirtækinu Ó. Jóhannesson á Patreksfirði til minningar um Ólaf Jóhannesson, kaupmann og útgerðarmann, sem verið hafði eigandi fyrirtækisins.[38] Ólafur andaðist árið 1936 en vitinn var reistur árið 1943 og tekinn í notkun fjórum árum síðar.[39]  Er hann nefndur Ólafsviti.

Frá Sellátranesi liggur vegurinn með sjó um Hænuvíkurhlíðar, tæplega þrjá kílómetra að Gjögrum þar sem breiður dalur opnast inn í landið. Er það Örlygshöfn.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Hagskinna 1997, 78 og 116-117.

[2] Pétur Jónsson 1942, 99 (Barðstrendingabók).

[3] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 318 og 335.

[4] Sama heimild 292-337.

[5] Sama heimild, 320.

[6] Sama heimild, 335.

[7] Sama heimild.

[8] Sama heimild, 318 og 320.

[9] Sama heimild, 328.

[10] Sýslulýsingar 1744-1749, 147 (gefnar út 1957).

[11] Lbs. 4034to, bls. 90.

[12] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 211 og 212.

[13] Jochum Eggertsson 1962, 86-96 (Því gleymi ég aldrei).

[14] Össur Guðbjartsson. – Viðtal K.Ó. við hann 10.8.1988.

[15] Hallbjörn Oddsson 1964, 162 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[16] Sama heimild, 164.

[17] Hallbjörn Oddsson 1964, 165-166 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[18] Hallbjörn Oddsson 1964, 166.

[19] Sama heimild.

[20] Sama heimild, 170.

[21] Sama heimild, 168.

[22] Sama heimild, 168-169.

[23] Jarðab. Á. og P. VI, 318, 324, 332 og 333.

[24] Sama heimild, 318.

[25] Sama heimild, 318-319.

[26] Lúðvík Kristjánsson 1985, 86.

[27] Jarðab. Á. og P. VI, 319.

[28] Sama heimild.

[29] Einar Laxness 1987, 198.

[30] Jarðab. Á. og P. VI, 310.

[31] Sama heimild, 319.

[32] Lýður Björnsson 1967, 39 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[33] Íslenskar æviskrár III, 106.

[34] Jarðab. Á. og P. VI, 319.

[35] Sama heimild.

[36] Sama heimild.

[37] Sama heimild.

[38] Jóhann Skaptason 1959, 124 (Árbók F.Í.).

[39] Guðmundur L. Hafsteinsson og Kristján Sveinson 2002, 266 (Vitar á Íslandi).

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »