Arnarnes

Ferð okkar heim að Arnarnesi hefjum við úr botni Gerðhamradals eða nánar til tekið úr dalbrekkunum utan við Þverfell. Hér heita Klúkuhallar[1] og er nafnið dregið af heiðinni Klúku sem farin var frá Arnarnesi og Gerðhömrum yfir í Valþjófsdal í Önundarfirði. Ef fara átti Klúku lá leiðin hér upp brekkurnar en síðan, þegar komið var á Sandsheiði, var stefnan tekin til norðausturs (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal). Hér í brekkuhöllunum undir brún heiðarinnar vaxa fjallagrös og hingað var áður farið til grasa.[2] Neðan við Girðisbrekku, sem fyrr var nefnd, og yst í Tungunum er dálítill blettur sem heitir Krubbur og þar mátti líka oft finna drjúgar breiður af fjallagrösum.[3]

Hér í dalbotninum eru ýmsir lækir. Sá sem rennur vestan við Tungurnar og kemur fram undan Svarthömrum heitir Langá.[4] Fremstu brekkurnar á ytri hlíð dalsins heita Litluhvilftarbrekkur.[5] Yfir þeim er Litlahvilft en við brekkuræturnar tifar Langá.[6] Við höldum okkur við árbakkann og brátt er Smjörhlíð á hægri hönd,[7] hið fríða beitiland sem ber nafn með rentu. Við nálgumst nú Reiðhól en framan í honum lá gamli reiðvegurinn og fyrr en varir erum við komin að Þverá sem kemur ofan úr Stóruhvilft.[8] Guðný Gilsdóttir, sem fædd var á Arnarnesi árið 1891 og átti þar heima til 1920 og svo aftur á árunum 1959-1967, segir að hvilftin heiti Stórahvilft.[9] Því er sjálfsagt að trúa, enda þótt hún sé nefnd Arnarneshvilft á korti.[10] Fjallið framan við hvilftina heitir Hvilftarhorn.[11] Hér sameinast Þverá, sem kemur úr Stóruhvilft, og Langá og mynda Arnarnesána ásamt fleiri lækjum úr hlíðum dalsins. Svo má heita að þessi Þverá sé, beint á móti Fremri-Þverá, sem kemur úr Gerðhamrahvilft, hinum megin í dalnum.

Í Örnefnaskrá segir að dálítið heiman við Þverána sem kemur niður úr Stóruhvilft en framan við Torfahjalla séu rústir sem beri nafnið Gamlasel.[12] Tóttir þessar eru upp í hlíðinni, örskammt frá Þverá og að kalla beint á móti Gerðhamraseli, sem hér hefur áður verið sagt frá (sjá Gerðhamrar). Sjö metra löng tótt af rétt eða kví er þarna mest áberandi og sést frá þjóðveginum hinum megin í dalnum. Lítið eitt neðan við hana og alveg á brún árbrekkunnar eru sjálfar seltóttirnar og fer ekki mikið fyrir þeim. Þar hefur eitt hús greinilega verið stærra en önnur en í kringum það hafa staðið tvö eða þrjú smærri hús.

Þegar gengið er frá Þverá heim dalinn liggur leiðin hjá gömlum mógröfum. Í Jarðabókinni frá 1710 segir að á Arnarnesi sé móskurður til eldiviðar lítill og erfitt til að sækja.[13] Hér sýnist þó hafa verið tekið mikið af mó, enda var mótak þetta talið gott á síðari tímum, átján stungur að sögn kunnugra.[14] Við mógrafirnar hvílum við lúin bein litla stund og horfum upp í Óþolann, hamrafjallið sem gnæfir yfir bænum á Arnarnesi og öllum dalnum heiman við Stóruhvilft. Við dalsmynnið er mikil þyrping lynggróinna holta sem myndast hafa fyrir ævalöngu við framhlaup. Holt þessi heita Borgir[15] og rétt framan við þau er Borgarendaskriða sem nær frá fjalli og niður í á.[16] Við höldum nú áfram göngunni heim dalinn og nálgumst Borgirnar en rétt áður en komið er að Borgarendaskriðu verður á vegi okkar ævagömul rúst með miklum þúfnakarga í kring. Tótt þessi er vinkillaga og hér gætu því hafa verið tvö hús er staðið hafi nær hornrétt hvort á annað. Í örnefnaskránni sjáum við að þetta eru Fornusel[17] en héðan eru um það bil 30 metrar niður að ánni. Ætla má að ærið langt sé nú liðið síðan hér var síðast haft í seli. Gamlasel, sem áður var nefnt og var hér framar á dalnum, hefur að öllum líkindum verið yngra en séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum segir í sóknarlýsingu sinni frá árinu 1840 að ekki sé mjög langt síðan búsmali bænda á Arnarnesi og Gerðhömrum var hafður í seli að sumrinu sín hvoru megin í dalnum.[18] Frá Fornuseljum liggur leiðin um Borgirnar heim í tún á Arnarnesi.

Arnarnes er forn bújörð sem nú hefur verið í eyði frá árinu 1967 en áður var hér mannlaust frá 1949-1959.[19] Á 18. og 19. öld var jörðin metin á 18 hundruð[20] en áður var Arnarnes stundum talið 20 hundraða jörð. (sjá hér bls. 5). Mest af landi jarðarinnar sem nýta má til sumarbeitar er á Gerðhamradal þar sem Arnarnesá skiptir löndum á móti Gerðhömrum. Frá árósnum og út að bænum er aðeins liðlega hálfur kílómetri og þar er svolítið undirlendi á sjávarbökkum en skammt utan við Arnarnestúnið þrýtur bakkana og við taka brattar skriðurunnar hlíðar sem ná frá fjöru til fjalls. Út með hlíðum þessum á Arnarnes land að Ytra-Vogaskeri og Ytri-Vogakambi[21] en sá spölur er um það bil tveir og hálfur kílómetri. Þar fyrir utan tekur við land Birnustaða.

Innan við túnið á Arnarnesi er urðarhryggur sem lokar fyrir allt útsýni inn með fjarðarströndinni. Rétt innan við hrygginn er Stöðullinn þar sem ær og kýr voru löngum mjólkaðar.[22] Þangað var tæplega fimm mínútna gangur heiman frá bæ en hér var síðast fært frá árið 1919 eða 1920.[23] Íbúðarhúsið, sem enn stendur uppi á Arnarnesi, var byggt árið 1894 ef marka má ártal sem skráð er á húsgaflinn. Gamli bærinn mun hins vegar hafa staðið örfáum metrum neðar þar sem enn má sjá miklar og myndarlegar húsatóttir.

Túnið skiptist í þrjá hluta. Innst er Innratún og nær út að Fótavelli, sem er ávalur hólhryggur er náði frá sjó upp að bænum.[24] Utan við hann og utan við Brunnhúslæk tekur við Ytratún og nær út að Skarðslæk en fyrir utan hann er Hlaðstún sem mun hafa verið ræktað upp á tuttugustu öld.[25] Sjávargata liggur niður með Brunnhúslæk og neðst í henni er hella yfir lækinn og heitir hún Maríuskoppa.[26] Sú hella er þar enn og vonandi verður ekki hreyft við henni í bráð.

Á miðju Ytratúni, beint út af bænum, stóð áður stór steinn sem hét Landdís,[27] einn af allmörgum landdísarsteinum í Dýrafirði. Sagt var að ljós hefði sést í þeim steini[28] en vandalar færðu hann á brott gegn vilja Guðnýjar Gilsdóttur sem hér bjó síðust manna.

Innan við Skarðslæk, sem skilur að Ytratún og Hlaðstún, eru háir klettabakkar á nesi við sjóinn og heita Nasi en fremst í þeim er Skarfaklettur.[29] Séra Jón Sigurðsson segir reyndar í sóknarlýsingunni frá 1840 að bærinn á Arnarnesi muni taka nafn af sjávarklettum utanvert við lendinguna[30] og ætti þá upphaflega nafnið á þessu klettanesi að hafa verið Arnarnes. Innan við Nasa er Engelskivogur en þvert á hann gengur annar vogur, lítill og mjór, sem heitir Óróavogur.[31] Fyrir innan Óróavog er stórt sker með háum grasivöxnum klettum og nær lengst fram að skerjunum sem þarna eru. Fram af því er fráskilinn klettur sem heitir Naggur.[32] Austan við hann og lítið eitt ofar eru blindsker sem heita Töskur en innan við öll þessi sker er Vörin,[33] sem var helsti lendingarstaður á Arnarnesi. Svo má heita að Vörin sé niður af innsta hluta túnsins og niður í hana rennur Brunnhúslækur sem áður var nefndur. Fyrir innan túnið og Vörina er Hryggurinn og fram af honum er enn eitt sker.[34] Lítið eitt innar gengur klettahöfði fram í fjöruna og heitir Spillir en fyrir hann er ekki hægt að komast nema um lágsjávað.[35] Fram af Spilli fellur lækur í dálitlum fossi og heitir hér Spillislækur en ofar Holtalækur.[36]

Frá Spilli og inn að Arnarnesá er skerjaklasi sem heitir Flúrur.[37] Á þeim vaxa mikil söl.[38] Einhver ágreiningur var uppi á fyrri tíð um rétt eigenda kirknanna á Núpi og Mýrum til sölvatekju hér á Flúrunum því í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 segir svo um Arnarnes:

 

Sölvafjara er hér í betra lagi, þó hún spillist stundum af hafís eður lagnaðarís, og eigna áðurnefndra kirkna [þ.e. Núps og Mýra] forsvarsmenn þeim þessa fjöru. Þó hafa ábúendur brúkað hana að nokkru leyti stundum, þó það hafi ekki verið í alla staði ágreiningslaust.[39]

 

Í Jarðabókinni er getið um ýms fleiri hlunnindi á Arnarnesi, svo sem mótak, silungsveiði í Arnarnesá, grasatekju, selveiði og hrognkelsaveiði.[40] Eins og venja var gerðu bændur þó lítið úr öllum þessum hlunnindum. Lyngrif er sagt bjarglegt á Arnarnesi árið 1710 og útigangur í betra lagi, bæði á landi og í fjörunni, en skógur sem þar hafði verið er þá sagður gjöreyddur.[41]

Árið 1840 kemst séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum svo að orði er hann lýsir Arnarnesi:

 

Þar er mjög hrjóstrugt og skriðurunnið. Lítið er þar undirlendi og engar eða mjög litlar útislægjur. Tún er nokkuð grasgefið en þó grýtt mjög. Útigangur og fjörubeit er þar góð og allur sauðpeningur er þar upp á byggður. Þar er slæm lending vegna brima og ólgusjós. Þar ganga klettar utanvert við lendinguna fram, hvar af bærinn mun nafn taka.[42]

 

Í byrjun 18. aldar var róið úr heimavör á Arnarnesi bæði að sumarlagi og á haustin en ætla má að á vorin hafi Arnarnesbændur sótt sjó frá Fjallaskaga. – Heimræði er hér sumar og haust, en sjaldan brúkast það vor eður vetur, segir í Jarðabókinni frá 1710.[43] Þar er líka tekið fram að lending sé ærið brimasöm í heimavörinni hér neðan við túnið en frá Arnarnesi gangi eitt skip ábúenda og stundum tvö.[44] Áður var verstöð yst í Arnarneslandi og gengu þaðan þrjú skip þegar flest var (sjá hér bls. 11-12). Á 19. öld mun sjósókn frá Arnarnesi hafa verið hagað með svipuðum hætti og greint er frá í Jarðabók Árna og Páls. Tveir bátar voru hér árið 1850, annar sexæringur eða fjögra manna far en hinn minni.[45]

Á fyrri hluta 15. aldar var Arnarnes ein af fjöldamörgum jörðum Guðmundar Arasonar hins ríka sem þá bjó á Reykhólum. Jarðarinnar er fyrst getið í skrá yfir eignir Guðmundar sem gerðar voru upptækar árið 1446.[46] Hér hefur áður verið gerð grein fyrir hverjir áttu Gerðhamra, næsta jörð fyrir innan Arnarnes, á árunum 1440-1710 (sjá hér Gerðhamrar) og er skemmst frá því að segja að þessar tvær jarðir fylgdust þá jafnan að við eigendaskipti svo þeir sem áttu Gerðhamra áttu þá líka Arnarnes.[47] Sá sem lengst átti jarðirnar tvær á þessu skeiði var Danakonungur sem eignaðist þær árið 1541 og átti þær æ síðan allt til ársins 1675 eða í 134 ár (sjá hér Gerðhamrar).

Á síðari hluta 16. aldar fór Eggert Hannesson lögmaður í Bæ á Rauðasandi lengi með umboð margra konungsjarða á Vestfjörðum. Í reikningum hans frá árinu 1570 sést að landskuld af Arnarnesi hefur þá verið eitt hundrað og kúgildi sem fylgdu jörðinni voru þrjú.[48] Í reikningum Eggerts frá árinu 1571 segir svo um Arnarnes: Item í landskyld af Arnarnesi þrjár vættir fiska og þrjár ær og tvær og hálf vætt í vertoll. Lukt í þetta þrjár ær með lömbum og til Hannes Recka þrjár vættir í landskyld og eina í toll. Rest ein og hálf vætt fiska.[49]

Allt passar þetta við það sem tekið var fram í reikningum næsta árs á undan, að landskuldin væri eitt hundrað eða sem svaraði kýrverði, því þrjár vættir jafngiltu hálfu kýrverði og það gerðu líka þrjár ær með lömbum. Vertollarnir koma svo sem sérstök greiðsla. Eggert Hannesson, sem tollana innheimti, var þá eigandi Alviðru og hálfkirkjunnar þar (sjá hér Alviðra). Kirkja þessi taldist þá eiga Fjallaskaga og fyrst Eggert átti kirkjuna átti hann líka Skaga. Vertollarnir hafa því runnið óskertir í hans eigin vasa. Í Jarðabókinni frá 1710 sést að fyrir 1650 urðu þeir sem gerðu út frá Fjallaskaga að greiða einn fiskafjórðung í vertoll af hverjum manni sem hjá þeim reri.[50] Í reikningum Eggerts frá árinu 1571 sáum við að vertollur bóndans á Arnarnesi var tvær og hálf vætt, það er 20 fjórðungar (100 fiskar). Sýnir þetta að bátarnir sem reru frá Innri-Vogi, yst í landareign Arnarness (sjá hér bls. 11-12), árið 1571 hafa varla verið færri en þrír.

Er kóngur seldi Henrik Bjelke, sem þá var hirðstjóri yfir Íslandi, Arnarnes árið 1675 er jörðin talin vera 20 hundruð[51] þó síðar væri hún yfirleitt metin á 18 hundruð (sjá hér bls. 2). Landskuld var þá sögð vera eitt hundrað[52] og var því óbreytt frá því sem verið hafði árið 1570. Í Jarðabókinni frá 1710 er landskuld af Arnarnesi sögð vera 6 vættir[53] en sú upphæð jafngilti nákvæmlega einu hundraði svo allt hefur þetta verið í föstum skorðum. Tala leigukúgildanna á Arnarnesi hélst líka lengi óbreytt. Þau voru þrjú árið 1570 eins og hér var áður nefnt og svo var líka bæði 1675 og 1710.[54] Í byrjun 18. aldar voru leigurnar af kúgildunum goldnar í smjöri sem Arnarnesfólk var skuldbundið til að flytja norður að Holti í Önundarfirði, til séra Sigurðar Jónssonar sem þá átti jörðina.[55] Ætla má að þetta hafi verið 30 kíló af smjöri því lögleiga var 10 kíló (tveir fjórðungar) fyrir hvert kúgildi samkvæmt lagaákvæðum úr Jónsbók.

Hér að ofan var sagt að séra Sigurður Jónsson í Holti hafi átt Arnarnes í byrjun 18. aldar og svo er talið í Jarðabókinni frá árinu 1710. Réttara væri þó líklega að telja Arnarnes eign Helgu Pálsdóttur, konu hans, en hún var dóttir séra Páls Björnssonar í Selárdal, sem manna mest lét að sér kveða í baráttunni við galdarmenn. Árið 1704 höfðu þau Helga og séra Sigurður verið gift í 32 ár[56] og gerðu þá með sér helminga fjárlag sem þinglýst var á Alþingi.[57] Í þessum samningi þeirra hjóna tekur Helga fram að hér að auk gefi hún manni sínum jörðina Arnarnes í Dýrafirði, 10 hundruð að dýrleika … ef hann henni lengur lifi.[58] Af þessu er ljóst að Helga hefur a.m.k. talist eiga hálft Arnarnes. Nú fór svo að bæði maddaman og presturinn í Holti urðu fjörgömul.[59] Árið 1729 voru þau enn á lífi en þá tók Helga sig til og seldi Arnarnes Þorkötlu Jónsdóttur, sem bjó á Sæbóli á Ingjaldssandi[60] og var nefnd hin ríka. Salan fór fram 9. febrúar 1729 og hefði að líkindum ekki þótt sæta neinum sérstökum tíðindum nema vegna þess að synir prestshjónanna, séra Sigurður Sigurðsson, sem þá var aðstoðarprestur föður sins, og Guðbrandur bróðir hans á Gerðhömrum, leyfðu sér að vefengja rétt móður sinnar til að selja jörðina. Mál þetta kom upp á þingi sem haldið var á Mosvöllum í Önundarfirði 27. apríl 1729 en þar beindi aðstoðarpresturinn þeirri spurningu í heyranda hljóði til nokkurra vitna, hvort móðir sín hefði verið drukkin eða ódrukkin þegar hún seldi Arnarnes.[61] Spurningu sonarins svöruðu vitnin á þann veg að þau héldu að hún hefði verið kennd af brennivíni en ei skert á rænu.[62] Er þessi yfirheyrsla fór fram var maddaman í Holti komin um áttrætt[63] en syni hennar virðist þó ekki hafa komið í hug að elliglöp kynnu að baga hana heldur snerist málið aðeins um það hvort hún hefði verð ölvuð eða allsgáð. Líklega hefur margt glasið verið sopið í Holti á dögum Helgu og séra Sigurðar Jónssonar fyrst sonurinn gerði sér slíkar hugmyndir um móður sína áttræða.

Ekki er ólíklegt að prestsfrúin í Holti hafi verið orðin eigandi að Arnarnesi árið 1685 og hefur því vonandi fengið eitthvað af koníaki úr franska hvalveiðiskipinu sem strandaði á Arnarnesfjörum á því ári. Frá skipsstrandi þessu og tíðindum er því tengdust segir svo í Eyrarannál:

 

Steytti franskt hvalaskip á Dýrafirði og rak upp á Arnarnesland. Þeir sögðu að við Spitzbergen hefði þetta sumar besta árferði og íslaust verið og stórt hundrað skip hefðu þar til hvalaveiðar við verið og þessum hingað undir landið fylgt, hvar af 52 skip hafi hér undir landi í hafís tapast og hefðu hin önnur skipin fólkinu hjálpað og á skipin skipt, á sum 30, sum 20, fram yfir kost, svo hjá þeim er mjög matarlítið orðið.[64]

 

Svo virðist sem menn hafi ekki verið í neinum meiriháttar vandræðum með að ræða við hina frönsku strandmenn árið 1685 og mikil tíðindi hafa þetta verið sem þá bárust út frá Arnarnesi um 52 hvalveiðiskip týnd í hafísnum fyrir norðan land.

Fyrsti bóndinn á Arnarnesi sem um er vitað með nafni er Jón Jónsson sem þar bjó árið 1681 og átti þá 5 hundruð í jörðinni.[65] Árið 1703 bjuggu  þrír bændur á Arnarnesi og hétu tveir þeirra Jón Jónsson en sá þriðji Nikulás Jónsson.[66]

Á árunum 1703-1710 fluttust að Arnarnsesi hjónin Nikulás Bjarnason og Gunnfríður Brynjólfsdóttir sem hér hefur áður verið frá sagt (sjá Neðri-Hjarðardalur og Minni-Garður). Þau bjuggu á Arnarnesi sumarið 1710 og höfðu þá alla jörðina til ábúðar.[67] Líklegt er að þau hafi flust að Arnarnesi frá Minna-Garði þar sem þau áttu heima árið 1703.[68] Er Nikulás og Gunnfríður komu að Arnarnesi voru þau komin nokkuð yfir sextugt og áttu margþætta reynslu að baki. Hér hefur áður verið sagt frá ýmsu basli þeirra og skal ekki endurtekið. Á Arnarnesi hafa þau að líkindum borið beinin og þar bjó Bárður sonur þeirra á árunum kringum 1735.[69] Hann var þá annar tveggja bænda á jörðinni.[70] Árin 1753 og 1762 stóð Ásta Hákonardóttir fyrir búi á Arnarnesi[71] og hefur að líkindum verið ekkja Bárðar. Hún bjó ein á allri jörðinni.[72] Hákon sonur Bárðar og Ástu er einnig sagður hafa búið á Arnarnesi[73] en árið 1785 var hann látinn og ekkja hans, Sigríður Bjarnadóttir, bjó þá á Fjallaskaga.[74] Um miðbik 18. aldar átti Snæbjörn Pálsson (Mála-Snæbjörn) hálft Arnarnes[75] en Katrín Guðmundsdóttir var árið 1762 eigandi að þeim jarðarparti sem Snæbjörn átti ekki.[76]

Á árunum 1785-1787 var þríbýli á Arnarnesi en síðan oftast tvíbýli uns bændunum fjölgaði aftur upp í þrjá á árunum kringum 1890.[77]

Einn úr hópi þeirra sem ólust upp á Arnarnesi á 19. öld var Torfi Halldórsson sem fyrstur manna hóf kennslu í sjómannafræðum á landi hér og gerðist síðar umsvifamikill kaupmaður og útgerðarmaður á Flateyri (sjá hér Flateyri). Torfi var fæddur á Arnarnesi árið 1823 og átti þar enn heima haustið 1850, ári áður en hann sigldi til Danmerkur að nema sjómannafræði.[78] Foreldrar Torfa voru Halldór Torfason og Svanfríður Jónsdóttir sem hófu búskap á Arnarnesi um 1820.[79] Halldór var sonur Torfa Snæbjörnssonar, sem andaðist 56 ára gamall á Brekku í Þingeyrarhreppi árið 1805, en sá Torfi var sonur Mála-Snæbjarnar sem hér kemur oft við sögu.[80] Halldór Torfason ólst upp í Þingeyrarhreppi og var fermdur í Sandakirkju 14 ára gamall vorið 1810.[81] Hann var þá sá eini af 12 fermingarbörnum sem lært hafði allar smáletursgreinarnar í kverinu, auk þess sem þar var ritað með stærra letri.[82] Um 1820 var Halldór kominn að Arnarnesi og þann 28. október 1822, þremur og hálfum mánuði fyrir fæðingu Torfa, gekk hann að eiga bústýru sína, Svanfríði Jónsdóttur, sem mun hafa verið lítið eitt eldri en hann.[83] Svanfríður var dóttir Jóns Gunnarssonar og Valgerðar Jónsdóttur sem bjuggu á Fjallaskaga árið 1801 en þá var Svanfríður þar hjá þeim, sögð 8 ára gömul.[84]

Þann 1. júlí 1830 drukknaði Halldór Torfason og þeir sex saman.[85] Hann var þá tæplega hálffertugur. Ekki er nú kunnugt um tildrög slyssins en með honum drukknuðu þessir menn: Gísli Jónsson, vinnumaður á Arnarnesi, 68 ára, Jóhannes Bjarnason, vinnumaður á Gerðhömrum 32ja ára, Jón Torfason, vinnumaður á Núpi, 26 ára, Jón Vigfússon vinnumaður á Álfadal, 55 ára og Michael Tómasson, vinnumaður í Hrauni, 24 ára.[86]

Utan við túnið á Arnarnesi eru þrír hólar sem heita Hlaðshólar.[87] Utan við hóla þessa er Hlaðshólapartur og fyrir neðan hann dálítið hvolf sem heitir Breiðspartur.[88] Graslendi þetta er kennt við bát Halldórs Torfasonar sem Breiður hét og geymdur var hér í hrófi á veturna.[89] Ætla má að Halldór hafi farið í hákarlalegur á þessum bát en síðar var Egill Egilsson formaður á Breið frá Arnarnesi í slíkum leguferðum.[90]

Haustið 1833 gekk Svanfríður Jónsdóttir, ekkja Halldórs á Arnarnesi, að eiga annan mann sem var sextán árum yngri en hún.[91] Brúðgumi sá hét Bjarni Hákonarson og bjuggu þau Svanfríður á Arnarnesi fram yfir 1860 og hann enn lengur.[92] Bjarni átti sexæring sem Grænka hét og var formaður á honum í hákarlalegum.[93] Bjarni hafði reyndar þrjá fjórðu hluta jarðarinnar til ábúðar árið 1850[94] og hefur líklega átt öll þau hundruð.

Líklegt er að Halldór Torfason hafi átt hálflenduna sem hann hafði til ábúðar á Arnarnesi og kynni jafnvel að hafa erft hana því Mála-Snæbjörn, afi Halldórs, átti hálft Arnarnes (sjá hér bls. 7). Fullvíst er að bændurnir tveir sem bjuggu á Arnarnesi árið 1847 voru báðir sjálfseignarbændur en annar þeirra var Bjarni Hákonarson sem gengið hafði að eiga ekkju Halldórs.[95]

Torfi Halldórsson var 7 ára gamall er faðir hans drukknaði en móðir hans hélt áfram búskap á Arnarnesi og hjá henni ólst hann upp. Séra Jón svarti, prestur á Gerðhömrum, segir um Torfa Halldórsson við ferminguna: Flestum fremri að skilningi og kunnáttu, siðsamur[96]  Á unglingsárum hefur Torfi hafið róðra úr heimavör á Arnarnesi og vafalaust einnig róið frá Fjallaskaga. Mjög líklegt má telja að hann hafi snemma orðið formaður í fiskiróðrum og fengið orð á sig fyrir afburða sjómennsku. Árið sem þilskip var fyrst gert út frá Dýrafirði stóð Torfi Halldórsson á Arnarnesi á tvítugu (sjá hér Lækjarós). Máske hefur hann verið þar í skiprúmi og svo mikið er víst að örfáum árum síðar var hann orðinn skipstjóri á skútunni Boga og átti þá fjórðung í því skipi á móti þremur Önfirðingum.

 

Árið 1850 var Bogi með mestan afla allra þilskipanna sem gerð voru út frá Ísafjarðarsýslu.[97] Torfi var þá skipstjóri á þessu aflaskipi, 27 ára gamall, og átti enn heima á Arnarnesi.[98] Árið eftir sigldi hann utan til náms og kvaddi Arnarnes. Frá störfum þessa mikla atorkumanns síðar á lífsleiðinni er lítillega sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Flateyri).

Við höfum nú staldrað við um sinn á Arnarnesi en munum brátt hverfa héðan og halda ferð okkar áfram út að Birnustöðum og þaðan á Fjallaskaga. En ekki má gleyma bænhúsinu sem sagt er að hér hafi verið. – Bænhús segja munnmæli að hér hafi að fornu verið en af fallið fyrir manna minni, ritar Árni Magnússon er hann fjallar um Arnarnes í Jarðabókinni frá 1710.[99] Engar skjallegar heimildir munu vera fyrir hendi er staðfest geti tilveru bænhúss þessa en engu að síður gæti það vel hafa staðið hér öldum saman í kaþólsku. Það fólk sem síðast bjó hér taldi að bænhúsið hefði staðið efst á Byrgishól, sem er ofan við bæjartóttirnar, en þar voru lengi tveir grasigrónir veggir og sýndust fornir.[100] Ekkert mat verður hér lagt á þá tilgátu.

Síðasti bóndinn á Arnarnesi var Guðný Gilsdóttir sem bjó hér ein á árunum 1959-1967.[101] Guðný var fædd á Arnarnesi árið 1891 og átti hér heima fram til 1920. Nær 40 árum síðar kom hún aftur árið 1959 og hafði þá búið lengi í Reykjavík.[102] Er Guðný fluttist vestur var hún 68 ára gömul og hafði fyrir skömmu misst eiginmann sinn í sjóslysi. Er hún kom aftur að Arnarnesi hafði bærinn verið í eyði í 10 ár en hún lét hressa hann við og bjó hér alein í átta ár.[103] Þó komin væri nálægt sjötugu lærði Guðný á dráttarvél og hafði jafnan eina eða tvær kýr og nokkrar kindur.[104] Á búskaparárum sínum lét Guðný slétta talsverðan hluta af túninu sem áður var að mestu óhreyft.[105] Sími var þá líka lagður að Arnarnesi, bílvegur ruddur út að túni og steinbrú byggð á ána.[106] Rætur Guðnýjar stóðu hér djúpt í jörð og þess má geta að Halldór Torfason, sem bjó á Arnarnesi á árunum 1820-1830, var langafi hennar.[107]

Til heiðurs Guðnýju Gilsdóttur, sem kunni svo vel að synda á móti straumi, skulu eyktamörkin á Arnarnesi talin hér upp að lokum eins og frá þeim er sagt í örnefnalýsingu sem einkum byggir á frásögu hennar.[108] Eyktamörkin voru þessi:

 

Dagmál     –        fram undan Gerðhamrahorni.

Hádegi      –        fjallshorn bak við Kirkjubólsdal, handan fjarðar.

Nón           –        Hundshorn í Keldudal.

Miðaftann –        Nasarönd.

Náttmál     –        laut milli efstu Hlaðshóla.

 

Minnt skal á að Nasi er nafn á fjöruklettum utan og neðan við bæinn (sjá hér bls. 3) en Hlaðshólar eru utan við túnið á Arnarnesi (sjá hér bls. 8).

Nú er sól í náttmálastað og við höldum úr hlaði áleiðis út að Birnustöðum sem voru næsti bær. Óþolinn, hið fríða hamrafjall yfir bænum á Arnarnesi, fylgir okkur á leið og við liggur að nafn þess heyrist hrópað í björgunum: Óþoli! Óþoli! Út að landamerkjunum við Voga eru liðlega tveir kílómetrar og þaðan liðlega hálfur kílómetri að Birnustöðum.

Frá Óþola og út að merkjum Arnarness og Birnustaða er klettabrúnin óslitin. Þar mun víðast ófært uppgöngu. Utan við Óþolann er stórskorið klettagil í háfjallinu og heitir Illagil.[109] Gil þetta blasir við neðan úr hlíðinni eftir 10 til 15 mínútna gang frá Arnarnesi. Rétt utan við Illagil er Lambaskál en frá henni og út að landamerkjum Arnarness og Birnustaða heitir fjallið Illafjall[110] og er fjallsbrúnin víðast hvar í liðlega 600 metra hæð. Utan við landamerkin taka við Birnustaðaklettar.[111] Frá Arnarnesi að Birnustöðum er best að ganga með sjó og vera á ferð um fjöru því þá þarf hvergi að fara upp í hlíðina.

Á leið okkar út að Birnustöðum skulum við fyrst staldra við í Breiðsparti, rétt utan við túnið á Arnarnesi, en sagt er að þar hafi Halldór Tofason, sem hér bjó á árunum 1820-1830, geymt hákarlaskip sitt (sjá hér bls. 8). Engin ummerki þess eru þó sjáanleg í fljótu bragði.

Kippkorn utan við Breiðspart komum við að svolitlu nesi sem heitir Sandnes. Fram af því er blindsker sem heitir Flaga.[112] Þar strandaði togari eftir hátíðar 1935.[113] Innan og utan við Sandnes eru sjávargrundir ofan við fjöruna og ná út að Stórahvolfi.[114] Um þær er gott að ganga. Rétt utan við Stórahvolf komum við að Hólalæk en uppi á bökkunum, lítið eitt innan við lækinn, er Stekkjartún.[115] Þar er gamall stekkur frá Arnarnesi.

Fyrir utan Hólalæk eru Innri- og Ytri-Hólar uppi í hlíðinni.[116] Framan í Hólunum er rauður klettur sem heitir Hólahamar.[117] Utan við Hólana er Hvammurð og síðan Hvammurðarskriða en í fjallinu yfir urð og skriðu eru Hrafnhamrar.[118] Utan við Hvammurðarskriðu eru hér háir klettar við sjó og heita Björg. Um stórstraumsflæði fellur sjór að þessum klettum.[119] Utan við Björgin er skriðugjóta en síðan kemur Hamarinn, stór einstakur klettur sem ekki er hægt að komast fyrir nema á fjöru.[120] Þegar ófært var fyrir Hamarinn var farið upp gjótuna fyrir innan hann, sem reyndar heitir Gjóta.[121] Fram undan Hamri er Hamarssker og er þar mjög aðdjúpt við skerið.[122] Hér innan við Hamarinn skulum við staldra við, skríða upp Gjótuna og svipast um á hinum bröttu hlíðum undir Illafjalli. Um hlíðar þessar segir í sóknarlýsingunni frá 1840 að þær séu lítt grasi vaxnar en þó sé þar góð og kostasöm beit sumar og vetur.[123] Einkum var látið vel af vetrarbeitinni því vegna stormvinda af norðri og brattlendis liggur hér sjaldan djúpur snjór til lengdar.[124] Þarasælt var líka út með fjörum þessum og vel látið af fjörubeitinni.[125] Oft hafa sauðamenn frá Arnarnesi staðið hér yfir fé á fyrri tíð og líklega hefur það verið einhvers staðar á þessum slóðum sem bóndinn á Arnarnesi missti 30 fjár í kafaldshretunum árið 1791.[126] Um nafnið á brattlendi þessu ríkir nokkur óvissa því séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum segir í sóknarlýsingunni frá 1840 að allur fjallgarðurinn fyrir utan Óþola kallist Skagahlíðar[127] en Guðný Gilsdóttir, sem síðust bjó á Arnarnesi, taldi að nafnið Skagahlíðar ætti aðeins við hlíðarnar í landi Fjallaskaga, hér utar með ströndinni.[128] Ugglaust hafa margir, bæði fyrr og síðar, kennt allar hlíðarnar frá Arnarnesi og út í Nesdal við Fjallaskaga, þegar um þær var rætt, og látið vera að greina þar nánar á milli. Séra Jón Sigurðsson var ekki vanur að fara með fleipur og því verður að ætla að hann hafi nokkuð til síns máls. Heimafólk, sem fór á milli Arnarness og Birnustaða, hefur þó varla talið sig fara um Skagahlíðar á þeirri leið því land Fjallaskaga tekur ekki við fyrr en alllangt fyrir utan Birnustaði. Hér verður því hallast að kenningu Guðnýjar Gilsdóttur sem eins og áður sagði taldi nafnið Skagahlíðar einungis ná yfir hlíðarnar í landa jarðarinnar Fjallaskaga. Í Jarðabókinni frá 1710 er hlíðin innan við Birnustaði reyndar nefnd Birnistaðahlíð[129] og styrkir það kenningu Guðnýjar verulega. Í heimild frá miðri 20. öld er hlíðin innan við Birnustaði líka kennd við þann bæ.[130]

Við þokum okkur nú út fyrir Hamarinn en frá honum er tæplega einn kílómetri út að landamerkjunum í Vogum. Vogarnir eru tveir og liggja mjög skammt hvor frá öðrum. Þeir heita Innri-Vogur og Ytri-Vogur.[131] Landamerkin eru milli þessara tveggja voga við Ytri-Vogakamb og Ytra-Vogasker og þaðan sjónhending upp í fjallsbrún.[132] Sagt er að áður hafi landamerkin verið við Gunnuteigsgil, sem er örskammt utan við Ytri-Vog, en eigendur Arnarness hafi fallist á að þoka landamerkjunum til af því Birnustaðamenn hafi verið með uppsátur og sauðahús í Ytri-Vogi.[133] Sé einhver hæfa í þessu þá eru a.m.k. nær 300 ár liðin frá því landamerkjunum var breytt því árið 1710 var Ytri-Vogur í landi Birnustaða eins og löngum síðar.[134]

Á lausum miða sem fylgir handritinu að Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er að finna merkilegar upplýsingar um tvær sautjándu aldar verstöðvar hér í Vogum. Þar stendur:

 

Innri Vogar heita í Arnarneslandi, Ytri Vogar í Birnustaðalandi og eru þessir tvennir Vogar þar sem löndin mætast Arnarness og Birnustaða. Í þessum tvennum Vogum hafa fyrrum legið til fiskjar um vertíð skip úr Dýrafirði, og gefið þar vertoll (fjórðung eftir mann) sem landsdrottnar uppbáru. Í Innri Vogum reru 3 skip þá flest voru, í Ytri Vogum 2 eður 3. Þessar tvær veiðistöður eru nú í nokkur ár aflagðar, því hér er hætt bæði skipum og mönnum fyrir gjróthruni úr fjallinu.[135]

 

Síðustu þrjár aldirnar hafa útróðramenn sjaldan eða aldrei róið frá Vogum en hins vegar má ætla að Birnustaðamenn hafi haldið áfram róðrum frá Ytri-Vogi því hvergi er lending betri í þeirra landi. Engin mannvirki eru þó sjáanleg þar nú nema á einum stað þar sem vottar fyrir hleðslu er sýnist gerð af mannahöndum.

Nokkur selveiði mun hafa verið í Vogunum á fyrri tíð[136] og hér komust menn stundum í kast við sjóskrímsli sem ærin ógn stóð af. Ein slík saga er sögð um Sakkarías Jensson, sem bjó í Alviðru um miðbik nítjándu aldar, en hann var á heimleið úr leit að náttúrusteinum í Langaskeri innan við Fjallaskaga þegar skrímslið sótti að honum (sjá hér Fjallaskagi). Eitt vetrarkvöld nálægt aldamótunum 1900 fékk Pétur Bjarnason, sem þá átti heima á Arnarnesi, að kenna á því sama.[137] Hann var þá að koma frá því að fylgja séra Þórði Ólafssyni út að Fjallaskaga og var á heimleið. Sagði Pétur að skrímslið, sem var miklu stærra en nokkur selur, hefði hann fyrst séð í Vogunum en síðan hefði það elt sig heim undir tún á Arnarnesi.[138] Er þangað kom var Pétur orðinn svo móður af hlaupunum að lá við köfnun.

Nokkrum árum síðar varð hörmulegt slys í nánd við landamerkin í Vogum er sonur síðasta bóndans á Birnustöðum fórst hér í snjóflóði (sjá hér Birnustaðir).

Nú er bjartur sumardagur svo hvorki þarf að óttast snjóflóð né annarlegar sjókindur. Við stöldrum því við góða stund og hlustum á raddir náttúrunnar en segjum síðan skilið við Arnarnes og hröðum okkur í átt að Birnustöðum.

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – o o o o o – – – – – – –

[1] Örnefnaskrá.

[2] Sama heimild.

[3] Sama heimild.

[4] Sama heimild.

[5] Sama heimild.

[6] Sama heimild.

[7] Sama heimild.

[8] Sama heimild.

[9] Sama heimild.

[10] Uppdráttur Íslands, blað 12 frá árinu 1977.

[11] Örn.skrá.

[12] Sama heimild.

[13] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 82.

[14] Örn.skrá.

[15] Sama heimild.

[16] Sama heimild.

[17] Sama heimild.

[18] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 80.

[19] Örn.skrá.

[20] Jarðabók Á. og P. VII, 82 og J. Johnsen 1847, 194.

[21] Örn.skrá.

[22] Sama heimild.

[23] Sama heimild.

[24] Örn.skrá.

[25] Sama heimild.

[26] Sama heimild.

[27] Sama heimild.

[28] Sama heimild.

[29] Sama heimild.

[30] Sóknalýs. Vestfj. II, 80.

[31] Örn.skrá.

[32] Sama heimild.

[33] Sama heimild.

[34] Sama heimild.

[35] Sama heimild.

[36] Sama heimild.

[37] Sama heimild.

[38] Sama heimild.

[39] Jarðabók Á. og P. VII, 82.

[40] Sama heimild.

[41] Sama heimild.

[42] Sóknalýs. Vestfj. II, 80.

[43] Jarðabók Á. og P. VII, 83.

[44] Sama heimild.

[45] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 2. , búnaðarskýrsla.

[46] D.I. IV, 688.

[47] D.I. V, 501-502, D.I. VIII, 262-263, D.I. IX, 370, D.I. X, 678-686, D.I. XI, 567. Alþ.bækur Ísl. VII, 444.

Jarðabók Á. og P. VII, 82.

[48] D.I. XV, 508.

[49] Sama heimild, 522.

[50] Jarðabók Á. og P. VII, 85.

[51] Alþingisbækur Íslands VII, 444.

[52] Sama heimild.

[53] Jarðabók Á. og P. VII, 82.

[54] Alþ.bækur Ísl. VII, 444. Jarðabók Á. og P. VII, 82.

[55] Jarðabók Á. og P. VII, 82.

[56] Íslenskar æviskrár IV, 234-235.

[57] Alþ.bækur Ísl. X, 35-36.

[58] Alþ.bækur Ísl. X, 35-36.

[59] Ísl. æviskrár IV, 234-235.

[60] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 2., bls. 232-235, dómabók Markúsar Bergssonar.

[61] Sama heimild.

[62] Sama heimild.

[63] Ísl. æviskrár IV, 235.

[64] Annálar III, 342.

[65] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681 – jarðaskrá og búenda í Skálholtsbiskupsdæmi.

[66] Manntal 1703.

[67] Jarðabók Á. og P. VII, 82.

[68] Manntal 1703.

[69] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765,Ísafj.s. um 1735, eftirrit. Manntal 1703 og G.G. Hag. 1951, 7.

[70] Sama heimild.

[71] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.s. 1753 og Manntal 1762.

[72] Sömu heimildir.

[73] G.G. Hag. 1951, 7.

[74] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[75] Alþ.bækur Ísl. XIII, 67 og Manntal 1762.

[76] Manntal 1762.

[77] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga og Manntöl frá 19. öld.

[78] Ísl. æviskrár V, 25-26. Manntal 1.10.1850. L. Kr. 1960, 267-268.

[79] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[80] Ísl. æviskrár IV, 310. Prestsþj.b. og sóknarm.töl Sandapr.k.og Dýrafj.þinga.

[81] Prestsþj.b. Sandapr.k.

[82] Sama heimild.

[83] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[84] Manntal 1801.

[85] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga og manntal 1845.

[86] Sama heimild.

[87] Örn.skrá.

[88] Sama heimild.

[89] Sama heimild.

[90] Nathanael Mósesson: Hákarlalskip í Dýrafirði 1865-1892. Ópr. ritg., ljósrit í vörslu K.Ó.

[91] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga. Manntal 1845.

[92] Manntöl 1835-1870.

[93] Nat. Mós.: Hákarlalskip í Dýrafirði 1865-1892 (Ljósrit í vörslu K.Ó.).

[94] Skj.s.sýslum. og sv.stj. Ís. Xx, búnaðarskýrsla 1850

[95] J.Johnsen 1847, 194 og Manntöl 1845 og 1850.

[96] Prestsþj.bækur Dýrafjarðarþinga.

[97] Þjóðólfur III, 10.4. 1851.

[98] Arngr. Fr. Bjarnason, 1944, 21, – sbr. þar bls. 18-19 – (Gullkistan, formáli). Manntal 1850.

[99] Jarðabók Á. og P. VII, 82.

[100] Örn.skrá.

[101] Sama heimild.

[102] Sama heimild.

[103] Jóh. Dav. 1968, 55-56 (Ársrit S.Í.).

[104] Sama heimild og Örn.skrá.

[105] Jóh. Dav. 1968, 55-56.

[106] Sama heimild.

[107] Ól. Þ. Kr. 1953, 147-148 (Frá ystu nesjum VI).

[108] Sama heimild.

[109] Örn.skrá.

[110] Sama heimild.

[111] Valdimar Kristinsson, Núpi. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[112] Örn.skrá.

[113] Sama heimild.

[114] Sama heimild.

[115] Sama heimild.

[116] Sama heimild.

[117] Sama heimild.

[118] Sama heimild.

[119] Sama heimild.

[120] Sama heimild.

[121] Sama heimild.

[122] Örn.skrá.

[123] Sóknalýs. Vestfj. II, 80-81.

[124] Sama heimild.

[125] Jóh. Dav. 1968, 56. (Ársrit S.Í).

[126] Annálar V, 439.

[127] Sóknalýs. Vestfj. II, 80.

[128] Örn.skrá.

[129] Jarðabók Á. og P. VII, 83.

[130] Kr. G. Þorv. 1951, 97 (Árbók F.Í.).

[131] Örn.skrá.

[132] Sama heimild.

[133] Sama heimild.

[134] Jarðabók Á. og P. VII, 317.

[135] Jarðabók Á. og P. VII, 317.

[136] Vestf. sagnir II, 357.

[137] Sama heimild, 357-358.

[138] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »