Auðkúla

 Í landareign jarðarinnar Auðkúlu göngum við fyrstu skrefin frá vaðinu á ánni sem hér var síðast nefnd að tóttunum í Kúluseli. Gamla vaðið á Geldingadalsá er rétt fyrir ofan bílveginn[1] og þaðan er örfárra mínútna gangur að seltóttunum sem eru aðeins heimar og kúra í náðum við hinn forna alfaraveg.[2] Hér í Kúluseli hafa húsin verið fimm og tvö þeirra mun stærri en hin þrjú. Gilin þrjú í fjallinu ofan við tóttirnar heita Leynagil.[3] Af þeim er miðgilið minnst en svo má heita að stefna þess sé beint á selið. Næsta gil heiman við það nefndu menn Prillugil.[4]

Frá Kúluseli er um það bil einnar klukkustundar gangur heim að bænum sem stendur í grænu túni ofan við háa sjávarbakka. Innan við túnið er svolítil bugða á strandlengjunni og heitir þar Auðkúlubót. Húsið ofan við fjörukambinn reisti Kaupfélag Dýrfirðinga sem rak hér útibú frá 1937 til 1961.[5] Ferjustaður var á Auðkúlu á síðustu öld[6] og mun lendingarstaðurinn þá hafa verið utantil við bótina, fyrir neðan Götuskarð, en um það lá vegur frá sjónum heim að bænum.[7] Landamerkjunum á móti Rafnseyri hefur áður verið lýst (sjá Rafnseyri) en á móti Tjaldanesi eru merkin við læk sem fellur um Dysjargil hér skammt fyrir utan túnið.

Auðkúla var og er önnur stærsta jörðin á norðurströnd Arnarfjarðar, talin 48 hundruð að fornu mati.[8] Vetrarríki er hér mikið[9] og heldur þröngt í sumarhögum[10] en slægjuland gott og heyöflun á forna vísu auðveld.[11] Um jörðina er fyrst getið í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar en einn heimamanna Hrafns á Eyri var Símon, sem „átti barn og byrgiskonu“ hér á Kúlu.[12] Jón Þorsteinsson, er var hér vinnumaður, „fífldist að þeirri konu“ og eitt sinn er Símon kom á hennar fund hjó Jón hann banahögg.[13] Það var skóggangssök en fyrir mildi Hrafns voru Jóni gefnar upp sakir.[14] Hann „launaði illu illt höfuð“ og var í flokki Þorvaldar Vatnsfirðings er Þorvaldur lét taka Hrafn af lífi.[15]

Einn góðan veðurdag sumarið 1236 kom hingað Jón Ófeigsson, liðsmaður Órækju Snorrasonar, og fylgdi honum „etjuhundur hvítur“.[16]Órækja átti þá í erjum við frænda sinn, Sturlu Sighvatsson, og er menn Sturlu komu í hlað sáu þeir hundinn „liggja hjá bænahúsi“ og kenndu hann.[17] Að því sinni fékk Jón Ófeigsson grið[18] en frásögn Sturlu Þórðarsonar, sem hér er vitnað til, sýnir að á Auðkúlu var bænhús á öldum áður en árið 1710 var það niður fallið „fyrir manna minni“.[19]

Auðkúla var um nokkurt skeið í eigu Guðmundar ríka Arasonar, á árunum kringum 1440.[20] Hundrað árum síðar átti jörðina Ögmundur biskup Pálsson[21] en hinar miklu jarðeignir hans á Vestfjörðum féllu allar undir konung árið 1541.[22] Þaðan í frá átti kóngur jörðina allt til ársins 1777 er hann lét hana af hendi í jarðaskiptum.[23] Á árunum kringum 1700 var tvíbýli á Auðkúlu en landsetar konungs sem hér bjuggu voru þá bræðurnir Torfi Magnússon og Þorleifur Magnússon.[24] Þorleifur var kvæntur Guðrúnu, dóttur Lassa Diðrikssonar sem brenndur var á Alþingi fyrir galdra árið 1675 er þessi dóttir hans var á unglingsaldri.[25] Torfi bóndi Magnússon á Auðkúlu, bróðir Þorleifs, var lögréttumaður.[26] Fyrir augu hans og tveggja annarra bar haustið 1692 undarlega sýn er þeir stóðu hér á hlaðinu og sáu á himninum, handan fjarðar, „mann á hesti, hafandi sverð í hendi til höggs reitt, hvers egg að var rauð en bakki blár“.[27]Frá þessum fyrirburði er greint í Eyrar‑annál, sem Magnús sýslumaður Magnússon ritaði, en eiginhandarrit höfundarins af annálnum fékk Árni prófessor Magnússon hér á Kúlu sumarið 1710 hjá Þorbjörgu Sigurðardóttur ekkju Torfa lögréttumanns.[28] Hún og Magnús sýslumaður voru bræðrabörn.[29]

Er kóngur seldi Auðkúlu árið 1777 fékk hann í staðinn Reykjarfjörð í Vatnsfjarðarsveit við Djúp en þá jörð þurfti hátignin að eignast vegna saltverksins sem þá hafði verið starfrækt í þrjú ár í Reykjanesi í landi Reykjarfjarðar.[30] Aðaleigandi þeirrar jarðar var Guðrún Þórðardóttir, ekkja sem þar bjó, en hún hafði verið gift tveimur lögréttumönnum, fyrst Ara Jónssyni en síðar Guðmundi Eiríkssyni.[31] Í makaskiptunum sem gengið var frá 21. júní 1777 lét Guðrún af hendi þau 20 hundruð er hún átti í Reykjarfirði en fékk Auðkúlu í staðinn.[32] Eitt barna hennar var Guðmundur Arason, fæddur 1757 eða því sem næst, og reisti hann bú hér á Kúlu á árunum kringum 1780.[33] Áður hafði hann starfað sem „saltkarl“ í Reykjanesi og mun enn hafa verið þar við störf er íbúðarhús forstjórans brann vorið 1780.[34] Hviksögur gengu manna á milli um að saltkarlarnir hefðu þá náð að stinga peningum sem björguðust úr eldsvoðanum í eigin vasa.[35] Löngu seinna missti Guðmundur sex kýr í fjósbruna sem hér varð og átti hann þá að hafa sagt: „Ekki er ætíð ábati að eldsbruna.“[36]

Guðmundur Arason kvæntist Guðbjörgu Sæmundsdóttur frá Hrauni í Keldudal og bjuggu þau mjög lengi á Auðkúlu.[37] Hann var hreppstjóri um skeið og virðist hafa verið í vinfengi við Rafnseyrarfólk því við brúðkaup foreldra Jóns forseta haustið 1803 var hann vígsluvottur.[38] Niðjar Guðmundar Arasonar höfðu hér búsforráð í óslitinni röð allt fram undir 1930,[39] fyrst Jón Guðmundsson, þá Ólafur sonur hans og síðan börn Ólafs og þeirra fólk.[40] Ólafur Jónsson á Auðkúlu var fæddur árið 1815 en kona hans, Guðný Ólafsdóttir frá Haukadal, var einu ári yngri.[41] Að sögn dóttursonar Ólafs var bóndi þessi á Kúlu „vinsæll kunnáttumaður og oft sóttur um langan veg til þess að koma fyrir draugum og ónýta galdraofsóknir“.[42]Ólafur andaðist árið 1876[43] en veturinn 1883–1884 kom hér upp magnaður draugagangur og aftur fjórum árum síðar.[44] Gegn þeim ófögnuði dugði þá ekkert nema gömul særingaþula sem heimafólk hafði á takteinum og svo Passíusálmarnir.[45]

Gamli torfbærinn á Auðkúlu stóð rétt fyrir utan og ofan steinhúsið sem byggt var 1919 en það stendur aðeins utar og ofar en nýja íbúðarhúsið.[46] Árið 1929 var gamla „baðstofuhúsið“ virt á 400 krónur en steinhúsið á 10.000 krónur.[47] Í heimild frá því ári sjáum við að grunnflötur baðstofunnar var 10 x 4 metrar.[48] Hún var portbyggð og þiljuð í hólf og gólf en skarsúð í loftinu.[49] Með milliþiljum var henni skipt í þrennt.[50] Þilin voru ómáluð, bæði uppi og niðri, en á þessum gamla torfbæ voru sex gluggar.[51]

Örskammt fyrir neðan gamla bæjarstæðið er Bæjarhóll og neðan við hann Þinghúsflöt.[52] Ætla má að þar hafi staðið þinghús um lengri eða skemmri tíma. Frá því um 1690 var þingstaður hreppsins jafnan hér á Auðkúlu[53] en á árunum 1676–1682 var þingað á Rafnseyri.[54] Tvímælalaust er að hér á Kúlu var sérstakt þinghús árið 1816[55] og svo kynni einnig að hafa verið fyrr á öldum.

Oft var margbýli á Auðkúlu og í Jarðabókinni frá 1710 er getið um eyðihjáleiguna Kúluhús er staðið hafði „við heimatúnið“ en í koti því var aðeins búið í skamman tíma um miðbik 17. aldar.[56] Á árunum kringum aldamótin 1900 voru einstök smábýli og tómthús í landi Auðkúlu nefnd sérstökum nöfnum. Eitt kotið hét Grund[57] og annað Fagrabrekka.[58] Hið síðarnefnda mun hafa verið efst og innst í túninu.[59] Árið 1911 var svo reist nýtt kot, innst á Kúlumýrum, alveg inn undir Rafnseyrará, og fékk það nafnið Mýrarhús.[60] Þar hafðist við fólk í þurrabúð, allt til ársins 1929.[61]

Utan við túnið á Auðkúlu streymir Kúluá sína leið[62] og 300 metrum utar eða því sem næst rennur til sjávar lækur sem í Jarðabókinni frá 1710 er nefndur Hesjargilslækur.[63] Sá maður sem elstur var á Auðkúlu um 1960 kallaði hann líka því nafni[64] en í tíð okkar sem nú lifum hefur hann af flestum verið nefndur Dysjargil eða Dysjargilslækur.[65] Í mæltu máli eru bæði nöfnin lík hvort öðru og erfitt að skera úr um hvort þeirra muni vera eldra. Í byrjun 18. aldar var uppi ágreiningur um landamerki Auðkúlu og Tjaldaness og var deilt um Partinn, er svo var nefndur, en það er landspildan milli Kúluár og lækjarins.[66] Var þá um sinn látið gott heita að bændur á Tjaldanesi nýttu sér þær litlu slægjur sem þarna voru í boði en Kúlufólk rifi lyng í þrætulandinu.[67] Nú eru merkin við Dysjargil.[68] Árið 1710 voru gamlar tóttarústir utan við ána.[69] Í þeim höfðu fundist „kol og sindur“ og létu menn sér detta í hug að þar kynnu menn að hafa reist sér bústað til forna.[70]

Í tungunni milli lækjar og ár risu á árunum upp úr 1890 þrjú þurrabúðarkot, Lónseyri, Árbær og Tunga.[71] Öll stóðu þau skammt frá sjávarkambinum.[72] Næst sjónum var Lónseyri, Árbær svolítið ofar en Tunga yst og efst.[73] Að sögn kunnugra hófst búseta á Lónseyri árið 1893 en einu ári síðar í Árbæ og Tungu.[74] Í sóknarmannatölum er Tunga fyrst nefnd árið 1895, Lónseyri 1896 og Árbær 1898.[75] Í öllum þessum kotum var búið þar til á árunum kringum 1950[76] og tóttirnar standa, lítt haggaðar. Innan við ána og skammt frá sjávarkambinum var á fyrri hluta okkar aldar lítið þinghús er einnig var notað sem barnaskóli, byggt úr timbri.[77] Árið 1890 töldust heimilismenn á Auðkúlu vera 40[78] og árið 1901 voru átta heimili í landi jarðarinnar, fjögur heima á Kúlu og önnur fjögur hér utan við ána.[79] Á þessum átta heimilum voru þá búsettar 44 manneskjur.[80]

Utan við mitt túnið er foss í ánni og heitir Hundafoss.[81] Um vaðið ofan við hann lá fyrrum alfaravegur.[82] Þar skammt frá er utan við ána skógræktargirðing og frá suðvesturhorni hennar eru aðeins nokkur skref að lítilli nær vallgróinni þúst á grasflöt út við Dysjargil. Á Auðkúlu hafa menn haft fyrir satt, svo langt aftur sem sagnir ná, að þarna sé hinsti hvílureitur þeirra Ívars og Ólafar frá Gljúfrá[83] sem dæmd voru til dauða fyrir sifjaspell og tekin af lífi hér á þingstað réttum árið 1763 (sjá Gjúfrá). Mjög líklegt má telja að þessi munnmæli um legstaðinn séu marktæk og aftökustaðurinn hafi verið hér. Rétt hjá dysinni og við gömlu þjóðgötuna eru tvær fornar tóttir af löngum mjóum húsum og kynnu báðar að vera þinghústóttir frá löngu liðinni tíð. Á dysinni sjást enn stakir steinar, lagðir á moldarbinginn.

 

 

[1] HrÞ KÓ 5.7.1991.

[2] Sama heimild.

[3] Sama heimild.

[4] Sama heimild.

[5] KrG 1979, 40 (Kaupfélag Dýrfirðinga, afmælisrit). HrÞ KÓ 30.10.1998.

[6] Sóknalýs. Vestfj. II, 34.

[7] JÁJ 1957, 74 (Ársrit S.Í.).

[8] Jb. Á. og P. VII, 18–19.

[9] ÞN 1951, 147–148.

[10] Jb. Á. og P. VII, 18–19.

[11] Sóknalýs. Vestfj. II, 34.

[12] Sturl. I, 419–420.

[13] Sama heimild.

[14] Sama heimild.

[15] Sturl. I, 419–420, 435 og 443.

[16] Sturl. II, 278.

[17] Sama heimild.

[18] Sama heimild.

[19] Jb. Á.og P. VII, 18.

[20] D.I. IV, 691. Sbr. D.I. VIII, 641–645.

[21] D.I. IX, 253 og 754–755.

[22] D.I. X, 678–681.

[23] Alþb. Ísl. XV, 543.

[24] Manntal 1703. Jb. Á. og P. VII, 18. ÍB 124to. JEsp Ættatölubækur dálkur 3259.

[25] Sömu heimildir. SigBr 1976, 192–194.

[26] Lögrmtal, bls. 517.

[27] Ann. III, 368.

[28] Sama heimld

[29] Sama heimild.

[30] LBj 1978, 25 og 35–40.

[31] Sama heimild. Lögrmtal, bls. 7 og 176–177.

[32] Alþb. Ísl. XV, 543.

[33] Manntöl 1801, vesturamt, 258 og 1816, 683.

[34] LBj 1978, 44 og 58–59 (Ársrit S.Í.). Sbr. Þjóðs. JÁ III, 33.

[35] Sbr. Þjóðs. JÁ III, 33.

[36] Þjóðs. JÁ III, 33.

[37] LBj 1978, 58–59. Manntöl frá 19. öld.

[38] Prþjb. Holts í Önf.

[39] Prþjb. og smt. Rafnseyrar.

[40] Sömu heimildir.

[41] Prþjb. og smt. Rafnseyrar, Álftamýrar og Sanda.

[42] Vestf. þjóðs. II. 1., 32. Sbr. þar bls. 33–34 og sama rit I, 29–32.

[43] Smt. Rafnseyrar.

[44] Vestf. sagnir I, 58–64.

[45] Vestf. sagnir I, 58–64.

[46] HrÞ KÓ 5.7.1991.

[47] Virðingab. handa hreppstj. Auðkhr., lögg. 27.7.1928, 4–6, varðv. á Auðkúlu.

[48] Sama heimild.

[49] Sama heimild.

[50] Sama heimild.

[51] Sama heimild.

[52] JÁJ 1957, 75 (Ársrit S.Í.) HrÞ KÓ 5.7. 1991.

[53] Alþb. Ísl. VIII – XV. ÞN 1951, 147.

[54] Alþb. Ísl. VII, 332, 360, 396, 436 og 569.

[55] Skjs. sm. og svstj. Ís. IV. 5. Dóma- og þingbók 1805–1817, 163.

[56] Jb. Á. og P. VII, 18–19.

[57] Smt. Rafnseyrar 1895.

[58] Manntal 1910. SkN KÓ 7.7.1991. Sbr. smt. Rafnseyrar 1904–1908.

[59] ÖÖ.

[60] ÞN 1951, 147. JÁJ 1957, 78. Sbr. Úttektab. fyrir Auðkhr., lögg. 8.9.1882, 90, varðveitt á Auðkúlu..

[61] Smt. Rafnseyrar.

[62] ÞN 1951, 146.

[63] Jb. Á. og P. VII, 19.

[64] HrÞ KÓ 5.7.1991.

[65] HrÞ KÓ 5.7.1991. ÞN 1951, 146 (Árbók F.Í.). JÁJ 1957, 74 (Ársrit S.Í.).

[66] Jb. Á. og P. VII, 19. ÞN 1951, 146.

[67] Jb. Á. og P. VII, 19.

[68] ÖÖ.

[69] Jb. Á og P. VII, 19.

[70] Sama heimild.

[71] ÞN 1951, 146–147.

[72] Sama heimild.

[73] JÁJ 1957, 75.

[74] ÞN, örnefnaritgerð hans, varðv. á Auðkúlu.

[75] Smt. Rafnseyrar.

[76] HrÞ KÓ 5.7.1991.

[77] ÞN 1951, 147. JÁJ 1957, 75.

[78] Manntal 1890.

[79] Manntal 1901.

[80] Sama heimild.

[81] ÖÖ.

[82] HrÞ KÓ 5.7.1991.

[83] HrÞ KÓ 5.7.1991.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »